Categories
Fréttir

Gera þarf störf þingsins skilvirkari

Deila grein

31/05/2016

Gera þarf störf þingsins skilvirkari

Silja-Dogg-mynd01-vef„Hæstv. forseti. Ég hef átt sæti í þingskapanefnd Alþingis síðan ég tók sæti á Alþingi fyrir þremur árum. Hlutverk þingskapanefndar er að endurskoða lög um þingsköp og markmiðið er að bæta skilvirkni og ásýnd Alþingis sem er okkur öllum mjög hugleikin. Lítið hefur gerst í nefndinni í vetur þar sem við höfum rekið okkur á að nauðsynlegar breytingar sem mundu gera störf þingsins skilvirkari og ásýnd þingsins betri hanga á ákveðnum stjórnarskrárbreytingum, þannig að starf nefndarinnar er í raun stopp í bili.
En hvaða breytingar er ég að tala um? Jú, ég hallast t.d. að því að þegar umdeild stór mál stöðvast í þinginu verði að vera hægt að vísa þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu, samanber í danska þinginu. Með slíku fyrirkomulagi mundum við geta komist hjá langdregnu málþófi sem kostar bæði tíma og peninga og hefur verulega neikvæð áhrif á ímynd þingsins.
Ég vil einnig nefna reglur um líftíma þingmála. Ég tel að þingmál eigi að fá að lifa kjörtímabilið til að auka skilvirkni þingsins en nú er staðan þannig að við þurfum alltaf að byrja á byrjuninni við setningu nýs þings, hvert einasta haust, leggja sömu málin fram að nýju, bíða eftir að fá að mæla fyrir þeim, fá umsagnir frá sama fólki og síðast o.s.frv. Það er algjör tímasóun að mínu mati sem kemur í veg fyrir að þjóðþrifamál fáist hér afgreidd.
Hæstv. forseti. Varðandi líftíma mála kemur fram í minnisblaði frá Ásmundi Helgasyni, fyrrverandi aðallögfræðingi Alþingis, frá 18. september 2008 að sú regla 48. gr. þingskapa, áður 52. gr. þingskapa, um að þingmál sem ekki hafi hlotið lokaafgreiðslu við þinglok falli niður — þetta er svokölluð discontinuitets-regla — verði ekki afnumin nema með stjórnarskrárbreytingu. Byggir hann niðurstöðu sína á því að um sé að ræða stjórnskipunarvenju sem verði ekki vikið til hliðar nema með stjórnarskrárbreytingu. Þessi niðurstaða er þó álitamál sem okkur hér ber skylda til að fara nánar í saumana á.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 25. maí 2016.

Categories
Fréttir

Mikilvægi heilsueflingar á íslenskum vinnumarkaði

Deila grein

30/05/2016

Mikilvægi heilsueflingar á íslenskum vinnumarkaði

Sigurður Ingi JóhannssonSigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra flutti setningarræðu á ráðstefnu um mikilvægi heilsueflingar á íslenskum vinnumarkaði í síðustu viku. Fór hann m.a. yfir að lýðheilsa og forvarnarstarf séu meðal forgangsverkefna ríkisstjórnarinnar, enda hægt að draga úr beinum og óbeinum kostnaði fyrir samfélagið. Unnið hefur verið að drögum að lýðheilsustefnu sem verður kynnt innan tíðar.
Verkefnið hefur vakið athygli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO og telur hún það til fyrirmyndar þar sem unnið er þvert á ráðuneyti, með víðtæku samstarfi sérfræðinga og hagsmunaaðila. Einnig að áhersla sé lögð á heilsu í allar stefnur og að sveitarfélög á Íslandi verði heilsueflandi samfélög.
Sigurður Ingi sagði „að framkvæmd lýðheilsustefnunnar sé þegar hafin. En embætti landlæknis hefur um skeið unnið gott starf þar, meðal annars með heilsueflandi leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla“.
Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra í heild sinni:
Ágætu málþingsgestir.
Það er mér ánægja að ávarpa ykkur hér, á málþingi um mikilvægi heilsueflingar á íslenskum vinnumarkaði.
Eitt það mikilvægasta í lífi hvers manns er góð heilsa, líkamleg, andleg og félagsleg. Við þekkjum það Íslendingar að vinna langan vinnudag, lengri en margar aðrar þjóðir. Ef svefninn er frátalinn þá dveljum við flest lengur á vinnustaðnum, eða við vinnu en á nokkrum öðrum stað samanlagt. Þessi staðreynd vekur mann til umhugsunar um mikilvægi heilsueflingar á vinnustöðum.
Ætli það skipti máli að boðið sé upp á vatn og ávexti á áberandi stað á vinnustaðnum og á fundum – eða allt sé vaðandi í óhollustu? Jú, líklega er hollara að borða ávexti á milli reglulegra máltíða sem eru ríkir af vítamínum, en að skófla í sig sykurvörum sem oft eru án allra næringarefna.
Áríðandi er að á vinnustöðum sé stuðlað að hreyfingu starfsmanna með hvatningu, sveigjanleika og góðri aðstöðu. Keppikeflið ætti að vera að auka hreysti, bæta heilsu og þar með afköst.
Fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að lýðheilsa og forvarnastarf verði meðal forgangsverkefna. Með því móti er hægt að draga úr beinum og óbeinum kostnaði fyrir samfélagið. Til að vinna að þessu var sérstök ráðherranefnd um lýðheilsu stofnuð 2014 og geta allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar komið þar að borði. Lýðheilsunefnd, samráðshópur á forræði velferðarráðherra, vann drög að lýðheilsustefnu sem velferðarráðherra mun kynna í ráðherranefndinni innan tíðar.
Stofnun ráðherranefndarinnar hefur hlotið athygli út fyrir landssteinana. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO telur verkefnið til fyrirmyndar þar sem unnið er þvert á ráðuneyti, með víðtæku samstarfi sérfræðinga og hagsmunaaðila. Einnig að áhersla sé lögð á heilsu í allar stefnur og að sveitarfélög á Íslandi verði heilsueflandi samfélög.
Segja má að framkvæmd lýðheilsustefnunnar sé þegar hafin. En embætti landlæknis hefur um skeið unnið gott starf þar, meðal annars með heilsueflandi leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.
Heilsa í allar stefnur, á ábyrgð forsætisráðuneytis er meðal aðgerða í lýðheilsustefnunni og byggist á þeirri hugmyndafræði að við stefnumótun og aðra áætlanagerð stjórnvalda verði gætt að áhrifum á heilsu og líðan einstaklinga. Ekki er hugmyndin að finna upp hjólið því hægt er að líta til nágrannaþjóða okkar. Finnar hafa verið brautryðjendur í að innleiða heilsu í allar stefnur og Norðmenn hafa sett sér lög um lýðheilsu.
Hér á landi væri mikilvægt að draga úr heilsufarslegum ójöfnuði milli hópa í samfélaginu og stuðla að því að allir geti lifað heilbrigðu lífi og auka þannig starfsgetu og aðra færni fram á efri ár.
Eins og ég nefndi þurfa stjórnvöld í ríkara mæli að kynna sér með hvaða hætti hægt er að hafa áhrif, efla forvarnir og sporna gegn svo kölluðum lífsstílssjúkdómum. Í því sambandi er nú til skoðunar tilraunaverkefni í nokkrum sveitarfélögum sem nefnist: Fjölþætt heilsurækt – leið að farsælli öldrun. Verkefnið byggist á doktorsrannsókn sem sýnir að með fjölþættri þjálfun eldra fólks megi bæta heilsu þess og hreysti.
Þekking á heilsu og forvörnum fleygir fram og það skiptir máli að virkja sem flesta til þátttöku. Hver og einn þarf að bera ábyrgð á sinni heilsu, hreyfingu og mataræði, en aðstæður, ákvarðanir stjórnenda og fyrirmyndir á vinnustað skipta vafalítið einnig máli. Stjórnvöld og vinnumarkaðurinn þurfa því að hvetja til heilsueflingar þegar fólk er við störf.
Góðir gestir. Þrátt fyrir annasöm störf verðum við að gefa okkur tíma til að huga að heilsunni Við þurfum öll að setja hreyfinguna á dagskrá og venja okkur á að borða hollan og góðan mat.
Ég segi málþingið sett.

Categories
Greinar

Bættur hagur heimilanna

Deila grein

30/05/2016

Bættur hagur heimilanna

Silja-Dogg-mynd01-vefUm þessar mundir birtast margar jákvæðar fréttir af lífskjörum þjóðarinnar. Engum dylst að horfur í efnahagslífinu á Íslandi eru bjartar um þessar mundir og gangi spá hagdeildar ASÍ eftir verður samfelldur hagvöxtur hér á landi í átta ár.

Vöxturinn hvílir á styrkum stoðum í hagkerfinu og við sjáum birtingarmynd þess í því að kaupmáttur launa hefur aukist verulega á síðustu misserum. Laun hafa hækkað mikið um leið og verðbólga hefur haldist lág. Almenningur finnur áhrifin í auknum ráðstöfunartekjum samfara lækkandi skuldum.

Lækkun skulda
Skuldir heimilanna hafa þannig lækkað mikið á síðustu árum og námu um 84% af landsframleiðslu í lok síðasta árs, en þær urðu hæstar um 125% í árslok 2009. Veðsetningarhlutfall heimilanna hefur einnig lækkað mikið á heildina litið.

Augljóst er að skuldalækkunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa tekist mjög vel og styrkt stöðu heimilanna í landinu eins og að var stefnt. Hagur heimilanna hefur sjaldan verið betri en nú, miðað við stöðu og þróun helstu hagvísa fyrir heimilin, að því er kemur fram í riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleika 2016/1. Skuldir heimila og fyrirtækja lækkuðu heilt yfir árið 2015 og í lok árs voru þær svipaðar og um aldamótin. Þetta er einstakur árangur.

Styrk fjármálastjórn
Fjármálastefna og fjármálaáætlun fyrir hið opinbera til fimm ára, sem lagðar voru fram á Alþingi 29. apríl, fela í sér að hægt verði á næstu árum að búa enn frekar í haginn fyrir komandi kynslóðir með því að greiða niður opinberar skuldir, draga úr álögum á fólk með lægri og sanngjarnari sköttum, byggja upp samfélagslega innviði og treysta til muna grunnþjónustu ríkisins með hækkun bóta, eflingu heilbrigðiskerfisins og auknum gæðum menntunar.

Vegna þessara umskipta verður unnt að auka svigrúm fyrir áherslumál á málasviðum ráðuneytanna um 42 milljarða króna á tímabilinu, en 14 milljarðar renna til verkefna strax á árinu 2017.

Uppbygging heilbrigðiskerfisins
Það sem af er kjörtímabilinu hefur 40 milljörðum króna verið varið til heilbrigðismála, meðal annars með því að stórbæta kjör heilbrigðisstéttanna. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála verði aukin verulega á næstu árum þannig að þau verði orðin ríflega 30 milljörðum króna hærri árið 2021 og verði þar með orðin ríflega 200 milljarðar króna á ári. Það svarar til þess að framlögin verði aukin um 18% að raunvirði yfir tímabilið.

Sú aukning er fyrir utan allar launahækkanir sem munu bætast við á tímabilinu auk annarra verðlagsbreytinga. Þá nema framlög til kaupa á tækjabúnaði fyrir LSH og FSA fimm milljörðum á árunum 2016-2021 og 2,5 milljörðum verður varið til styttingar á biðlistum á sama tímabili. Nú hillir undir að frumvörp húsnæðismálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur, verði afgreidd á Alþingi og þar með verði lagður grunnur að nýju húsnæðiskerfi, sem er vel. Okkur gengur vel á Íslandi í dag og því full ástæða til bjartsýni. Það er gott að fara með þær upplýsingar inn í sumarið.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 30. maí 2016.

Categories
Fréttir

Tregða hjá Fjármálaeftirlitinu

Deila grein

26/05/2016

Tregða hjá Fjármálaeftirlitinu

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Mig langar að ánýja ögn það sem ég fór með hér í gær um tregðu Fjármálaeftirlitsins til að taka á tveim málum sem ég tel að heyri undir það. Annars vegar er það álit Fjármálaeftirlitsins, sem nýlega kom fram, um að sala Landsbankans á hlut ríkisins í Borgun hefði ekki verið í samræmi við eðlilega viðskiptahætti. Hins vegar er það það sem ég vakti athygli á hér í gær, þ.e. að framkvæmdastjóri eins af viðskiptabönkunum á Íslandi er einstaklingur sem var í forsvari fyrir fyrirtæki fyrir nokkrum árum sem á Íslandsmet í stjórnvaldssektum. Á fyrirtækið hafa verið lagðar stjórnvaldssektir upp á á annan milljarð, sumar fyrir atbeina Hæstaréttar.
Ég hef út af fyrir sig ekki fengið nein sérstök viðbrögð frá Fjármálaeftirlitinu, eða séð þau, síðan þessi ræða í gær var haldin. Þess vegna kom ég hér upp aftur um sama mál. Ég sé ekki betur en að nauðsynlegt sé að ég beini þeirri formlegu beiðni til hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Frosta Sigurjónssonar, að nefndin boði á sinn fund fulltrúa Fjármálaeftirlitsins til þess að þeim aðilum gefist kostur á að útskýra fyrir nefndinni hvers vegna Fjármálaeftirlitið hefur ekki tekið afstöðu í þessum málum, þ.e. í öðru málinu mjög seint og í hinu málinu alls ekki.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 25. maí 2016.

Categories
Fréttir

Heimilin hafa ekki gleymst

Deila grein

26/05/2016

Heimilin hafa ekki gleymst

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Í morgun fór fram opinn fundur um húsnæðismál. Þar voru húsnæðisfrumvörp félags- og húsnæðismálaráðherra til umræðu. Á fundinum fór framsögumaður nokkurra af þeim málum, sá hv. þingmaður sem hér stendur, yfir þær breytingar sem hv. velferðarnefnd hefur gert á málunum og almennt yfir stöðu mála í nefndinni. Fundurinn var afar vel sóttur og hægt að segja að sú góða mæting hafi svo sannarlega verið hvatning til að halda áfram að vinna vel að þessum málum, þ.e. að klára fyrir þinghlé 3. umr. um almennar félagsíbúðir, frumvarp um auknar húsnæðisbætur og breytingu á húsaleigulögum. En öll þessi vinna er í fullum gangi innan nefndarinnar.
Unnið er að því að auka húsnæðisöryggi allra landsmanna, þ.e. að einstaklingar og fjölskyldur hafi raunhæft val um búsetuform, hvort þeir kjósi að búa á leigumarkaði, í eigin húsnæði eða í húsnæðissamvinnufélagi. Þau verk sem önnur sýna að heimilin hafa svo sannarlega ekki gleymst í verkefnum ríkisstjórnarinnar.
Á næstu dögum mun félags- og húsnæðismálaráðherra kynna fimmta frumvarpið um húsnæðismál og snýst það meðal annars um breytingar á fjármálamarkaði. Þessu tengt langar mig að minnast á að undanfarna daga hafa fjölmiðlar spurt okkur hv. þingmenn hvort við styðjum það að kosningar verði í haust. Ég hef svarað því þannig að persónulega finnist mér ekki tímabært að ákveða kjördag. Mikilvægt sé að horfa til þeirra verkefna sem ríkisstjórnin var kosin til að vinna að. Má þar nefna húsnæðismálin sem ég fjallaði um að framan en jafnframt þarf að klára aðgerðir er varða verðtrygginguna og endurbætur á almannatryggingakerfinu, auk þess sem þarf að fara í endurbætur á löggjöf um fæðingarorlof. Þegar þeim verkefnum er lokið er tímabært að ganga til kosninga, hvort sem það er í haust eða síðar.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 25. maí 2016.

Categories
Fréttir

Mikilvæg frumvörp um húsnæðismál

Deila grein

26/05/2016

Mikilvæg frumvörp um húsnæðismál

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða húsnæðismál en mikil vinna hefur farið í þann málaflokk í ráðuneyti hæstv. ráðherra Eyglóar Harðardóttur. Skipaður var starfshópur sem skilaði skýrslu sem má segja að hafi verið undanfari þeirra fjögurra frumvarpa sem hafa verið í meðförum og vinnslu hv. velferðarnefndar sem hefur unnið ötullega að þeim málum.
Þegar hefur eitt þeirra verið klárað, þ.e. frumvarp sem sneri að rekstrargrundvelli húsnæðissamvinnufélaga og stöðu búseturéttarhafa. Þá erum við á lokametrunum með frumvarp um almennar íbúðir, eða almennar félagsíbúðir eins og hv. nefnd lagði til að það héti. Tvö mál eru þá eftir. Annað er frumvarp um húsnæðisbætur tengt kjarasamningum eins og frumvarpið um almennu félagsíbúðirnar. Hitt sem stendur þá eftir er frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, endurflutt mál frá síðasta þingi, og snýr að réttarstöðu leigjenda og leigusala.
Nú í morgun kynnti hæstv. ráðherra húsnæðismála niðurstöður viðamikillar könnunar sem unnin var á vegum Gallup á viðhorfum leigjenda og húseigenda til húsnæðismarkaðarins. Þar er mikilvægi þeirra aðgerða sem felast í þessum frumvörpum í raun og veru staðfest. Þar kemur m.a. fram að fáir sem eru á leigumarkaði ná að leggja fyrir. Þar ríkir óvissa. Margir safna skuldum og eiga erfitt með að ná endum saman.
Allt að einu, virðulegi forseti. Þær aðgerðir sem felast í frumvörpum hæstv. húsnæðismálaráðherra eru nauðsynlegar eins og staðfest er í þessari rannsókn, en hvergi nægjanlegar. Þær eru þó mikið framfaraskref, ekki síst stuðningur við tekjulægri hópa, oft yngra fólk, en jafnframt sú framboðsaukning sem felst í byggingu 2.300 íbúða sem boðuð er í frumvarpinu.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 25. maí 2016.

Categories
Fréttir

Vanhugsað að samþykkja kosningar í haust

Deila grein

25/05/2016

Vanhugsað að samþykkja kosningar í haust

Silja-Dogg-mynd01-vef„Hæstv. forseti. Um þessar mundir birtast margar jákvæðar fréttir af lífskjörum þjóðarinnar. Engum dylst að horfur í efnahagslífinu á Íslandi eru bjartar um þessar mundir og gangi spá hagdeildar ASÍ eftir verður samfelldur hagvöxtur hér á landi næstu átta ár. Vöxturinn hvílir á styrkum stoðum í hagkerfinu og við sjáum birtingarmynd þess í því að kaupmáttur launa hefur aukist verulega á síðustu missirum.
Laun hafa hækkað mikið um leið og verðbólga hefur haldist lág. Almenningur finnur áhrifin í auknum ráðstöfunartekjum samfara lækkandi skuldum en skuldir heimilanna hafa lækkað mikið á síðustu árum og vanskilum fækkað verulega. Veðsetningarhlutfall heimilanna hefur einnig lækkað mikið. Augljóst er að skuldalækkunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa tekist mjög vel og styrkt stöðu heimilanna í landinu eins og að var stefnt. Staða ríkissjóðs hefur stórbatnað vegna vel heppnaðrar áætlunar um losun hafta og stöðugleikaframlög og erlend staða þjóðarbúsins er sú besta í a.m.k. hálfa öld.
Það sem af er kjörtímabilinu hefur 40 milljörðum kr. verið varið til heilbrigðismála. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála verði aukin verulega á næstu árum þannig að þau verði orðin ríflega 30 milljörðum kr. hærri árið 2021. Mikil vinna hefur verið lögð í að skapa nýtt húsnæðiskerfi og jafna stöðu leigjenda og húseigenda en ég geri ráð fyrir að Alþingi samþykki þrjú að fjórum frumvörpum húsnæðismálaráðherra á næstu dögum, þ.e. húsaleigulög, almennar íbúðir og húsnæðisbætur. Frumvarp um húsnæðissamvinnufélög hefur þegar verið samþykkt.
Við hljótum að geta verið sammála um að þetta er einstakur árangur á aðeins þremur árum. Hagvöxtur og stöðugleiki kemur öllum til góða. Í ljósi þess tel ég að það hafi verið vanhugsað að samþykkja kosningar nú í haust. Ég tel að hagsmunum Íslands sé best borgið með því að leyfa núverandi ríkisstjórn að klára kjörtímabilið, að hún fái að halda áfram með aðkallandi verkefni — og helst næsta, já — og leggja frekari grunn að áframhaldandi framförum hér á landi og uppbyggingu í landinu öllu.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 24. maí 2016.

Categories
Fréttir

Opið umsagnarferli rammaáætlunar

Deila grein

25/05/2016

Opið umsagnarferli rammaáætlunar

sigrunmagnusdottir-vefmyndVerkefnisstjórn verndar- og orkunýtingaráætlunar mun skila inn tillögum um flokkun virkjunarkosta til Sigrúnar Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, 1. september 2016.
Opið 12 vikna lögbundið umsagnarferli stendur nú yfir þar sem almenningi og öðrum hagsmunaaðilum gefst kostur á að koma athugasemdum á framfæri. Umsagnarferlingu lýkur á miðnætti miðvikudaginn 3. ágúst 2016.
Drög að endurskoðaðri skýrslu endurskoðaða lokaskýrslu voru lögð fram þar sem gerðar eru tillögur um flokkun 26 virkjunarkosta og landsvæða.
Verkefnisstjórn leggur til að eftirfarandi kostir fari í orkunýtingarflokk:  Skrokkölduvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Austurgilsvirkjun, Austurengjar, Hverahlíð II, Þverárdalur og Blöndulundur.
Í verndarflokk fari fjögur svæði með eftirtöldum virkjunarkostum:  Héraðsvötn (Villinganesvirkjun, Skatastaðavirkjanir C og D), Skjálfandafljót (Fljótshnúksvirkjun og Hrafnabjargavirkjanir A, B og C), Skaftá (Búlandsvirkjun) og Þjórsá vestur (Kjalölduveita).
Í biðflokk fari tveir virkjunarkostir í Hólmsá (við Atley og án miðlunar), Búðartunguvirkjun, Hagavatnsvirkjun, Stóra-Laxá, Trölladyngja, Innstidalur, Hágönguvirkjun, Fremrinámar og Búrfellslundur.
Skýrslu verkefnisstjórnar með tillögum hennar að flokkun virkjunarkosta, auk fylgigagna, er að finna undir flipanum „Kynningargögn“. Jafnframt er kallað eftir umsögnum vegna umhverfismats áætlana, sem er að finna sem viðauka við skýrslu verkefnisstjórnar.
Hægt er að senda inn umsögn rafrænt með því að velja flipann „Senda umsögn“. Að lokum er hægt að kynna sér þegar innsendar umsagnir undir samnefndum flipa.
https://www.ramma.is/rammaaaetlun/samrad/umsagnir-2016

Categories
Fréttir

Kvennaathvarfið og Reykjavíkurborg hlutu jafnréttisviðurkenningu

Deila grein

25/05/2016

Kvennaathvarfið og Reykjavíkurborg hlutu jafnréttisviðurkenningu

Eygló HarðardóttirEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, afhenti í gær jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs. Að þessu sinni voru það tveir aðilar sem hlutu viðurkenninguna eins og fram kemur í eftirfarandi rökstuðningi Jafnréttisráðs:

Reykjavíkurborg og starfsfólk borgarinnar fá jafnréttisviðurkenningu 2016 vegna brautryðjendastarfs að innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar í starfsemi borgarinnar og fyrir að þróa þá aðferðarfræði áfram í þeim hagræðingaraðgerðum sem borgin stendur nú frammi fyrir. Þetta starf felur í sér mikilvægan lærdóm og hvatningu fyrir sveitarfélög og ríkisstofnanir.
Samtök um Kvennaathvarf fær jafnréttisviðurkenningu 2016 fyrir að hafa starfrækt Kvennaathvarf frá árinu 1982. Samtökin eru grasrótarsamtök sem hafa sýnt mikla þrautseigju í rekstri athvarfsins og náð að þróa starfsemina þannig að hún geti tekist á við áskoranir hvers tíma. Hér má sérstaklega nefna starf Kvennaathvarfsins í þágu kvenna af erlendum uppruna. Kvennaathvarfið hefur gegnt ómetanlegu hlutverki sem athvarf fyrir konur og börn sem verða að flýja heimili sitt vegna ofbeldis. Þúsundir kvenna hafa leitað til athvarfsins frá stofnun þess, fundið þar öryggi og hlýju og svigrúm til að vinna úr sínum málum. Í athvarfinu er unnið faglegt starf, oft við afar krefjandi aðstæður og athvarfið hefur einnig lagt áherslu á fræðslu um eðli og afleiðingar ofbeldis í nánum samböndum.

eyglo-jafnretti-01

Viðureknningarhafar frá upphafi:

Jafnréttisviðurkenning Jafnréttisráðs hefur verið veitt með hléum frá árinu 1992. Eftirfarandi aðilar hafa hlotið viðurkenninguna: Þær þingkonur sem fyrst gegndu embættum forseta Alþings, ráðherra og þingflokksformanna: Birgitta Jónsdóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Guðrún Helgadóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Ragnhildur Helgadóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Salome Þorkelsdóttir, Sigríður Anna Þórðardóttir, Siv Friðleifsdóttir, Svanfríður Jónasdóttir og Valgerður Sverrisdóttir. Einnig hafa hlotið viðurkenninguna: WOMEN In Iceland: Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, Orkuveita Reykjavíkur, Guðrún Jónsdóttir, Kvennalandsliðið í fótbolta, Alcoa Fjarðarál, Menntaskólinn í Kópavogi, SPRON, Háskóli Íslands, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Kvenréttindafélag Íslands, VR, Auður Eir Vilhjálmsdóttir, Bjarnfríður Leósdóttir, Hegla Kress, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Svava Jakobsdóttir,  Vigdís Finnbogadóttir, Eimskip, Reykjavíkurborg, Hjallastefnan, Íslenska álfélagið, Stúdentaráð Háskóla Íslands, Hans Petersen, Íþróttasamband Íslands og Akureyrarbær.

Heimild: www.velferdarraduneyti.is

Categories
Fréttir

Fæðispeningar sjómanna meðhöndlaðir sem dagpeningar

Deila grein

25/05/2016

Fæðispeningar sjómanna meðhöndlaðir sem dagpeningar

Páll„Virðulegi forseti. Ég kveð mér hér hljóðs í þessum dagskrárlið, störf þingsins, til að vekja athygli á tveimur góðum málum sem bíða eftir að komast á dagskrá.
Þannig er málum háttað að 17. desember 2008 skrifuðu sjómenn síðast undir kjarasamning, það eru sjö og hálft ár síðan sjómenn og útvegsmenn skrifuðu undir kjarasamning. Sá samningur rann út í lok 2011 þannig að í fjögur og hálft hafa sjómenn verið samningslausir. Í vetur og reyndar allt síðasta ár hafa sjómenn og útvegsmenn verið að ræða saman og reyna að komast að niðurstöðu. Eftir því sem ég best veit er sá samningur alveg á lokastigi. Það sem kannski helst stendur upp úr hjá þeim er að þeir bíða eftir svari héðan frá Alþingi. Þeir fara fram á að fæðispeningar hjá þeim verði meðhöndlaðir eins og dagpeningar hjá öðrum.
Hér er einmitt lítið frumvarp sem lætur ekki mikið yfir sér frá nokkrum þingmönnum þar sem tekið er einmitt á þessum málum, þ.e. frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt með síðari breytingum, fæðispeningar sjómanna. Þar er lagt til að fæðispeningar sjómanna verði meðhöndlaðir eins og dagpeningar hjá flugmönnum, flugfreyjum og einnig alþingismönnum og fleira fólki sem þarf að ferðast og vinna utan heimilis síns.
Ég treysti því og bið góðfúslega um að það mál komi sem fyrst á dagskrá.
Hitt málið er um mótun klasastefnu, þingsályktunartillaga um að stofnaður verði starfshópur um að móta opinbera klasastefnu um hvernig efla megi stoðkerfi atvinnulífsins á landsvísu í samvinnu við atvinnulífið, rannsóknar- og menntastofnanir o.fl.“
Páll Jóhann Pálsson í störfum þingsins 24. maí 2016.