Categories
Greinar

Jólakveðja frá Framsókn

Deila grein

18/12/2020

Jólakveðja frá Framsókn

Það eru að koma jól. Og eins og alltaf fyrir jólin síðustu ár, í ati þingsins, verður mér hugsað til þess þegar dýralæknirinn Sigurður Ingi fékk símtal seint að kvöldi aðfangadags um að lítil tík ætti í erfiðleikum með fæðingu. Á þessum tíma var ég ekki með fullkomna aðstöðu fyrir skurðaðgerðir þannig að ég bað fólkið um að koma með hundinn heim til mín. Síðar um nóttina framkvæmdi ég keisaraskurð á tíkinni sem fæddi heilbrigða hvolpa. Þessi minning frá jólanótt er mér alltaf kær.

Það líður að lokum þessa árs, sem betur fer, myndi einhver segja. Það er ljóst að það verður lengi í minnum haft. Ekki hefur aðeins geisað heimsfaraldur heldur hafa náttúruöflin verið okkur erfið; síðasti vetur með sín vályndu veður og jarðskjálftar sunnanlands og norðan. Maður finnur fyrir þreytu í kringum sig og sér á samfélaginu að fólk er komið með nóg af þessu ástandi. Það er skiljanlegt. Maður finnur til með þeim sem hafa misst ástvini og strítt við erfið veikindi og þeim sem hafa misst vinnuna vegna faraldursins. Við í ríkisstjórninni höfum lagt mikla áherslu á að milda höggið með fjölbreyttum aðgerðum eins og hlutabótaleiðinni, lengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta, viðspyrnustyrkja og svo mætti lengi telja. Og áfram munum við leita leiða til að brúa bilið þangað til bóluefni tryggir hjarðónæmi þjóðarinnar. Þegar því verður náð hef ég trú á því að efnahagslífið nái hröðum bata. Verkefnið er, eins og ég hef áður sagt, að standa vörð um störf og skapa störf. Atvinna, atvinna, atvinna.

Þótt ég sé kannski ekki mjög aldraður maður, hef ég lifað þá tíð að horfa upp á íslenskt efnahagslíf rísa og hníga til skiptis. Það mun halda áfram. En ég er búinn að átta mig á því að það er beinlínis óskynsamlegt að treysta of mikið á eitthvað eitt. Við þurfum fjölbreytt atvinnulíf. Við þurfum að styðja við nýjar greinar en hlúa áfram að rótgrónari atvinnuvegum. Eitt á ekki að útiloka annað. Við verðum að byggja á samvinnu, málamiðlunum og árangri. Við finnum leiðir.

Mér þykir það augljóst að styðja verður dyggilega við íslenska matvælaframleiðslu, hvort heldur hún felst í því að yrkja jörðina, rækta búpening eða veiða eða ala fisk. Það er mikilvægt að standa vörð um matvælaöryggi og þá framleiðslu sem er hér á landi. Það er ekki síður mikilvægt að við breikkum þann grundvöll sem verðmætasköpun á Íslandi stendur á.

Við þekkjum öll mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir atvinnu um allt land. Hún er augljóslega lykillinn að hraðri viðspyrnu. Við sáum það í ferðum okkar um landið í sumar hversu metnaðarfull uppbygging ferðaþjónustunnar hefur verið. Nú standa flest hótel tóm og tækifæri þeirra sem störfuðu í ferðaþjónustu fá og jafnvel engin. En, og þetta er mikilvægt en, allir þeir glæstu innviðir sem byggðir hafa verið upp, hvort heldur í samgöngum eða gistingu, öll sú þekking sem ferðaþjónustufólk hefur öðlast og síðast en ekki síst náttúran, landið sjálft, er enn til og bíður þess að ferðalangar leggi leið sína að nýju til okkar. Því hingað mun fólk vilja koma. Þá mun aftur lifna yfir landinu.

Við eigum eftir að minnast þessara jóla lengi vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem við búum við. Veturinn verður erfiður fyrir marga en með krafti samfélagsins, með krafti samvinnunnar þá mun hann verða auðveldari. Og eftir vetur kemur vor og þá verðum við vonandi aftur farin að faðma fólkið okkar og getum horft grímulaus fram á veginn.

Ég óska þér, lesandi góður, gleðilegra jóla.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 17. desember 2020.

Categories
Greinar

Heims­mark­miðin og Fram­sókn eiga sam­leið

Deila grein

17/12/2020

Heims­mark­miðin og Fram­sókn eiga sam­leið

Heimsmarkmið um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015. Heimsmarkmiðin eru algild og aðildarríkin hafa skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu markmiðanna bæði á innlendum og erlendum vettvangi út gildistíma þeirra sem er árið 2030. Ísland er þar ekki undanskilið og hafa sífellt fleiri fyrirtæki, samtök og stofnanir innleitt Heimsmarkmiðin í sinni starfsemi. Það hefur hins vegar ekki borið á því að stjórnmálaflokkar á Íslandi hafi á markvissan hátt innleitt Heimsmarkmiðin. Samt sem áður er eðli málsins samkvæmt gríðarlega mikilvægt að stjórnmálaflokkar séu fremstir í flokki við að tileinka sér Heimsmarkmiðin þar sem áhrif þeirra sem gegna pólitískum embættum á bæði landsvísu og á sveitarstjórnarstigi eru mikil eins og stjórnsýslulög gefa til kynna.

Framsóknarflokkurinn hefur tekið þessari mikilvægu áskorun og hófst undirbúningur að innleiðingu Heimsmarkmiðanna innan flokksins í kjölfar haustfundar miðstjórnar flokksins sem fram fór á Akureyri í nóvember 2019 þar sem undirrituð bar upp þá tillögu að flokkurinn myndi hafa Heimsmarkmiðin að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Það var samþykkt samhljóða að hefja þessa vinnu og í kjölfarið voru tveir starfshópar skipaðir innan flokksins, annars vegar um hvort og þá hvernig grundvallarstefnuskrá flokksins samræmdist Heimsmarkmiðunum og svo hins vegar um innleiðingu markmiðanna í starfshætti innan flokksins svo þau verði til hliðsjónar í allri ákvarðanatöku, stefnumótun og framkvæmd innan flokksins sem utan. Hóparnir hafa skilað af sér sinni vinnu sem kynnt var ári eftir að tillagan var samþykkt, á haustfundi miðstjórnar í nóvember sl.

Þegar grunnstefna Framsóknarflokksins er borin saman við Heimsmarkmiðin kemur ekki á óvart að mikill samhljómur er þar á milli og tengsl eru þar nú þegar við öll Heimsmarkmiðin á einn eða annan máta. Í 104 ára tilverutíð Framsóknar hafa umhverfis- og jafnréttismál verið í forgrunni og grunnstefin Vinna – Vöxtur – Velferð eiga vel við. Í grundvallarstefnuskrá Framsóknar kemur m.a. fram að Framsókn berst fyrir mannréttindum og virðingu fyrir einstaklingnum og hafnar allri mismunun sem gerir greinarmun á fólki. Það samræmist Heimsmarkmiðum nr. 1-6, 10 og 16. Þá kemur fram í stefnuskránni að Framsókn vill skynsamlega og sjálfbæra nýtingu á gæðum jarðar sem skaðar ekki hagsmuni komandi kynslóða og að allar innlendar náttúruauðlindir skuli óskorað lúta innlendri stjórn. Það samræmist markmiðum nr. 6-9 og 11–15.

Það er mjög ánægjulegt að sjá hversu mikill samhljómur er nú þegar á milli nýstárlegra Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og grunngilda þessa rótgróna stjórnmálaflokks sem hefur þrátt fyrir háan aldur verið ávallt í takt við tímann og aldrei skorast undan að takast á við þær áskoranir sem eru hverju sinni í samfélaginu. Með samvinnuhugsjónina að leiðarljósi í fortíð, nútíð og framtíð mun Framsókn áfram vera í fararbroddi til að leita ávallt nýrra leiða til að koma á móts við þær aðstæður sem við búum við hverju sinni með framsækni og lausnamiðaða hugsun að vopni.

Linda Hrönn Þórisdóttir, formaður Landssambands framsóknarkvenna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. desember 2020.

Categories
Fréttir

Um hvað snýst málið?

Deila grein

17/12/2020

Um hvað snýst málið?

„Ég bið Alþingi Íslendinga að standa með íslenskum landbúnaði og huga að matvælaöryggi, ekki bara til skamms tíma heldur til lengri tíma!“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar, talaði skýrt í ræðu á Alþingi rétt í þessu, í atkvæðagreiðslu um búvörulög. Þar hvatti hún þingheim til að standa með íslenskum landbúnaði á algjörum tímamótum. Sagði hún að tryggja yrði matvælaöryggi, allar þjóðir heims einblíni á það, ekki aðeins hér á Íslandi, heldur alls staðar.

„Allir eru að hugsa um hvernig megi koma í veg fyrir að það eigi sér stað mengun milli dýra og samskipta við mannfólkið. Eitt af því sem við höfum gert gríðarlega vel hér á Íslandi er að huga að þessu,“ sagði Lilja Dögg.

Categories
Fréttir

Mikilvægt að aðstoða og hvetja fyrirtæki til framþróunar og arðbærra fjárfestinga!

Deila grein

16/12/2020

Mikilvægt að aðstoða og hvetja fyrirtæki til framþróunar og arðbærra fjárfestinga!

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um ríkisábyrgð á viðspyrnulán til atvinnuþróunar. „Vaxandi atvinnuleysi, samdráttur í landsframleiðslu, versnandi hagvaxtarhorfur og samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu kalla á viðbrögð stjórnvalda. Við þessar aðstæður er sérstaklega mikilvægt að aðstoða og hvetja fyrirtæki til framþróunar og arðbærra fjárfestinga í takt við samfélagsbreytingar á meðan heimsfaraldurinn gengur yfir og til að mæta breytingum sem óhjákvæmilega munu fylgja í kjölfar hans. Samfélagið þarf á virkri atvinnuþróun, fjölgun starfa og auknum gjaldeyristekjum að halda. Aðstæður kalla á að stjórnvöld fari í aðgerðir sem styrkja atvinnulífið í bráð og lengd. Auk hvata og stuðnings við nýsköpun þarf aðgerðir til að halda atvinnulífinu gangandi, koma í veg fyrir stöðnun og skapa nýjar tekjur og störf hratt,“ segir í greinargerð tillögunar.

Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að hafa forgöngu um að hrinda í framkvæmd tímabundinni aðgerð sem hvetji til fjárfestinga í atvinnuþróun og greiði fyrir aðgengi atvinnuþróunarverkefna að lánsfjármagni á tímum efnahagslegs samdráttar af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru. Aðgerðin felist í ríkisábyrgð á lán sem lánastofnanir veiti lögaðilum til atvinnu- og gjaldeyrisskapandi atvinnuþróunarverkefna.
Útfærsla verkefnisins, þ.m.t. tillögur að nauðsynlegum lagabreytingum, liggi fyrir eigi síðar en 1. febrúar 2021. Miðað verði við að aðgerðin komi til framkvæmdar fyrir 1. mars 2021.“

Meðflutningsmenn með þingsályktuninni eru Halla Signý Kristjánsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Willum Þór Þórsson og Þórunn Egilsdóttir.

Markmið tillögunnar er að tryggja að atvinnu- og gjaldeyrisskapandi verkefni hafi aðgengi að lánsfé og styðja þannig við viðspyrnu framsækinna fyrirtækja. Í þessu skyni verði komið á fót kerfi þar sem ríkið ábyrgist að hluta lán til slíkra verkefna. Ábyrgðunum er ætlað að draga úr óvissu og áhættu þess fjármagns sem fer í arðbæra fjárfestingu á tímum samdráttar af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru.

Vaxandi atvinnuleysi, samdráttur í landsframleiðslu, versnandi hagvaxtarhorfur og samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu kalla á viðbrögð stjórnvalda. Flutningsmenn hafa skoðað ýmsar leiðir til opinbers stuðnings við atvinnuþróun, svo sem styrki, skattaívilnanir og ríkisábyrgðir. Ákveðið var að leggja til ríkisábyrgðir á lán sem lánastofnanir veiti lögaðilum til lítilla og meðalstórra atvinnu- og gjaldeyrisskapandi verkefna. Forsenda tillögunnar er að hún leiðir ekki til útgjalda úr ríkissjóði um leið og aðgerðin hefst. Ef vel tekst til skila verkefni sem heppnast tekjum í ríkissjóð umfram útgjöld vegna verkefna sem ekki lifa út lánstímann, jafnvel verulegum tekjum umfram ætluð útgjöld. Aðgerðin krefst því ekki útgjalda úr ríkissjóði, nema ef fleiri ábyrgðir falla á ríkissjóð en áætlanir gera ráð fyrir. Eigi aðgerðin að ná markmiðum sínum þurfa ríkisábyrgðir til hennar að nema að lágmarki 10–15 milljörðum kr.

Atvinnuleysi fer vaxandi og spár gera ráð fyrir að atvinnuleysi verði allt að 8% í árslok 2020 og allt að 10% um mitt ár 2021.

Endurskoðuð tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir árið 2020 gerir ráð fyrir 140 milljarða kr. lækkun frá samþykktum fjárlögum og samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2021 er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu lækki um 2,7 prósentustig samanborið við árið 2019.

Samdráttur landsframleiðslunnar var um 5,7% á fyrri helmingi ársins 2020 og ef nýjustu spár Seðlabankans ganga eftir nær landsframleiðslan ekki því stigi sem hún var árið 2019 fyrr en á árinu 2023. Útlit er fyrir að 8,5% samdráttur verði á árinu öllu. Horfur fyrir næsta ár hafa að sama skapi versnað enda ekki enn ljóst hvenær tök nást á farsóttinni.
Á öðrum ársfjórðungi varð 38,8% samdráttur í vöru- og þjónustuútflutningi milli ára sem er mesti samdráttur sem mælst hefur á einum ársfjórðungi frá upphafi mælinga. Horfur um þróun vöruútflutnings seinni hluta ársins og næsta ár hafa einnig versnað eftir því sem líður á faraldurinn.

Þá liggur fyrir að atvinnuvegafjárfestingar, þ.e. fjárfestingar í einkaaðilum í atvinnurekstri, höfðu dregist saman um 4,7% milli ára á fyrri helmingi 2020. Samdráttur almennrar atvinnuvegafjárfestingar á fyrri hluta ársins (fjárfestingar utan stóriðju, skipa og flugvéla) var enn meiri eða tæplega 18% milli ára og stóriðjufjárfesting dróst saman um 30%. Hlutfall atvinnuvegafjárfestingar af landsframleiðslu hefur því lækkað hratt undanfarið og er nú komið niður fyrir meðaltal undanfarins aldarfjórðungs.
Útlit er fyrir að þessi samdráttur haldi áfram og gangi nýjasta spá Seðlabankans eftir verður atvinnuvegafjárfesting tæplega fimmtungi minni í ár en í fyrra. Þá benda kannanir til að fjárfesting atvinnuveganna standi nánast í stað á næsta ári.

Við þessar aðstæður er sérstaklega mikilvægt að aðstoða og hvetja fyrirtæki til framþróunar og arðbærra fjárfestinga í takt við samfélagsbreytingar á meðan heimsfaraldurinn gengur yfir og til að mæta breytingum sem óhjákvæmilega munu fylgja í kjölfar hans. Samfélagið þarf á virkri atvinnuþróun, fjölgun starfa og auknum gjaldeyristekjum að halda.

Aðstæður kalla á að stjórnvöld fari í aðgerðir sem styrkja atvinnulífið í bráð og lengd. Auk hvata og stuðnings við nýsköpun þarf aðgerðir til að halda atvinnulífinu gangandi, koma í veg fyrir stöðnun og skapa nýjar tekjur og störf hratt.

Ríkisstjórnin hefur nú þegar bætt verulega í fjárveitingar til nýsköpunar og unnið er að endurskipulagningu nýsköpunarumhverfisins í ljósi aðstæðna og í samræmi við stjórnarsáttmála. Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar þjóða, ekki síst í ljósi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem vænta má í atvinnu- og menntamálum vegna örra tæknibreytinga. Ný vísinda- og tæknistefna og yfirlýsing um 50% aukningu fjárveitinga til nýsköpunar næsta ár er mikið fagnaðarefni og grunnur framtíðartekna. Það sama má segja um Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóð, sbr. lög nr. 65/2020, og tímabundin mótframlagslán til sprota- og nýsköpunarfyrirtækja frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, sbr. lög nr. 83/2020. Samspil sértækra aðgerða til að efla nýsköpun og almennra aðgerða, á borð við frestun gjalddaga opinberra gjalda, stuðningslán með ríkisábyrgð og nú síðast tekjufallsstyrki, er nauðsynlegt til að viðhalda fyrirtækjum og verkefnum sem eiga framtíð fyrir sér og munu skapa þjóðarbúinu tekjur og störf um ókomin ár. Þrátt fyrir framangreindar aðgerðir er þörf á almennari hvötum til tekju- og atvinnusköpunar sem komast hratt til framkvæmda.

Síðasta áratuginn hefur hagvöxtur verið borinn uppi af nýjum störfum og atvinnuþróun á breiðum grunni, svo sem í iðnaði, sjávarútvegi og afleiddum tæknigeira, fiskeldi, kvikmyndagerð og síðast en ekki síst ferðaþjónustu. Fyrir áratug voru flestir sem borið hafa þessa þróun uppi í öðrum störfum. Um allt land er því fólk sem hefur gripið tækifærin sem gefist hafa síðasta áratug. Margt af þessu fólki er nú tilbúið til nýrra verka.

Tillögunni er ætlað að greiða fyrir því að þessi mannauður, fyrirtækin og fjármagnið sem til eru í landinu geti skapað tekjur til að mæta kostnaði einstaklinga og samfélags af heimsfaraldrinum. Viðfangsefni tillögunnar er að skapa hvata og draga úr tregðu til fjárfestinga í gjaldeyrisskapandi atvinnuþróun hvort sem er í tækni, framleiðslu, þjónustu eða undirbúningi verkefna í ferðaþjónustu þar sem stuðst er við þekkta tækni eða nýsköpun. Tillögunni er ætlað að bregðast við vísbendingum um að niðursveiflan í hagkerfinu magnist vegna þess að fyrirtæki hafi ekki aðgang að lánsfjármagni fyrir góð og arðbær verkefni. Með aðgerð af þessu tagi senda stjórnvöld skýr skilaboð um að framtíðin á Íslandi sé björt og stíga nauðsynlegt skref til að örva atvinnulífið, draga úr atvinnuleysi og glæða hagkerfið.

Hvatinn sem felst í ríkisábyrgðum ætti að geta nýst fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum þó að verkefnin sem ráðist verður í verði flest lítil eða meðalstór. Þetta eru verkefni sem lánveitendur teldu vænlegan fjárfestingarkost í hefðbundnu árferði en gjalda nú fyrir óvissuna. Íslenskt samfélag hefur ekki efni á að bíða eftir að faraldurinn líði undir lok heldur þarf framþróun og nýting tækifæra að halda áfram. Aðgerðinni er ekki ætlað að raska samkeppni og þróun sem er á innlendum markaði heldur styðja við þróun og uppbyggingu í sem flestum greinum sem geta skapað verðmæti og gjaldeyristekjur fyrir samfélagið. Má þar nefna iðnað, skapandi greinar, þróun umhverfislausna, landbúnað, fiskeldi, kvikmyndagerð, sjávarútveg og afleiddan tæknigeira, heilbrigðisþjónustu og lyfjaiðnað, auðlindanýtingu o.fl.

Umfang aðgerðar

Hlutfall ríkisábyrgðar, hámarksupphæð láns, heildarupphæð ábyrgða og tímalengd.

Mikilvægt er að hvatningin sem felst í aðgerðinni nái til margra lögaðila en lánin geti þó orðið nógu há til að hafa raunveruleg áhrif á atvinnuþróun. Því er nauðsynlegt að ákvarða hámark á fjárhæð hvers láns og á fjölda lána til sama eða tengdra aðila. Í því ljósi gæti talist eðlilegt að fjárhæð ábyrgðar yrði að hámarki 200 millj. kr. og að hver lögaðili gæti aðeins hlotið viðspyrnulán með ríkisábyrgð vegna eins atvinnuþróunarverkefnis.

Útfærslan verður að stuðla að því að lán með ríkisábyrgð dreifist til sem fjölbreyttastra verkefna í samfélaginu. Ríkisábyrgð er að jafnaði ekki veitt á fulla lánsupphæð og samkvæmt viðmiðum OECD gæti verið ráðlegt að veita ábyrgð fyrir allt að 70% lánsfjárhæðar samkvæmt nánari útfærslu.

Til að aðgerðin hafi marktæk áhrif við að örva útlán til atvinnusköpunar telja flutningsmenn að heildarupphæð lána sem njóta ríkisábyrgðar þurfi að lágmarki að nema 10–15 milljörðum kr. Þá telja flutningsmenn að marka þurfi ríkisábyrgð á láni ríflegan gildistíma til að aðgerðin skili tilsettum árangri. Skynsamlegt sé að miða við að ríkisábyrgðar njóti við allan lánstíma lána sem veitt eru til átta ára eða skemmri tíma en falli ella niður að átta árum liðnum frá lánveitingu.

Mat á áhrifum á ríkissjóð

Áhrif aðgerðarinnar á ríkissjóð ráðast af ýmsum þáttum, svo sem eftirspurn eftir lánunum og framgangi þeirra atvinnuþróunarverkefna sem lánin eru veitt til. Vænta má að áhrif á ríkissjóð verði jákvæð bæði í formi sjóðstreymis og endanlegrar afkomu.

Í greinargerð með tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025 (bls. 33), sbr. 2. mál á yfirstandandi löggjafarþingi, kemur fram að svokallaður ríkisfjármálamargfaldari, sem lýsir sambandi ríkisfjármála og hagvaxtar, sé nú áætlaður um 0,3–0,4. Þetta þýðir að á hver króna í ríkisútgjöld af því tagi sem hér er lagt til skilar sér með 30–40% álagi inn í hagkerfið. Á þeim grunni mætti setja fram það markmið að full nýting lánanna skilaði á bilinu 470–630 störfum auk afleiddra starfa.

Flutningsmenn telja samkvæmt þessu að yfirgnæfandi líkur standi til þess að uppsöfnuð áhrif af aðgerðinni á afkomu hins opinbera verði jákvæð þegar fram í sækir. Mikilvægt er að horfa til þess að kostnaður ríkissjóðs af ábyrgðum sem kunna að falla á hann muni vart koma til fyrr en eftir að önnur verkefni hafa skilað þangað tekjum.

Ríkisstyrkir og opinber úrræði vegna heimsfaraldurs

Opinberir styrkir til fyrirtækja í samkeppnisrekstri eru almennt óheimilir innan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 1. mgr. 61. gr. EES-samningsins, nema þeir falli undir einhverja af þeim undanþágum sem tilgreindar eru í samningnum. Í b-lið 3. mgr. 61. gr. samningsins er kveðið á um heimild til ríkisstyrkja til að bregðast við alvarlegri röskun á efnahagslífi aðildarríkis. Sambærilegt ákvæði er í b-lið 3. mgr. 107. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins (TFEU).

Í ljósi þeirrar stöðu sem hagkerfi heimsins standa frammi fyrir hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins heimilað ríkjum sambandsins að veita ríkisaðstoð til fyrirtækja í vanda í mun meira mæli en í venjulegu árferði. Hið sama á við um Eftirlitsstofnun EFTA og EES-ríkin. Aðgerðir sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til vegna faraldursins til þessa hafa ýmist rúmast innan reglugerða Evrópusambandsins um minni háttar aðstoð (e. de minimis aid) eða hlotið sérstaka undanþágu á grundvelli tímabundinnar heimildar vegna faraldursins.

Við útfærslu tillögunnar þarf m.a. að gæta að reglum um ríkisaðstoð og samspili úrræðisins við aðrar opinberar stuðningsaðgerðir í þeim tilvikum sem þær hafa þegar komið í hlut lántaka viðspyrnulána með ríkisábyrgð til atvinnuþróunar.

Framkvæmd

Aðgerðin beinist að lögaðilum sem sækja um lán vegna atvinnuþróunarverkefna og fjármálastofnunum sem veita lán til atvinnuþróunar.

Afmörkun atvinnuþróunarverkefna

Mikilvægt er að atvinnuþróunarverkefni verði skýrt afmarkað verkefni til þróunar á vöru, þjónustu eða framleiðsluaðferð. Vanda þarf mjög til mótunar skilyrða fyrir því að atvinnuþróunarverkefni falli undir aðgerðina þannig að lán sem veitt er til verkefnisins geti notið ríkisábyrgðar. Þá þarf að skilgreina leiðir fyrir lögaðila til að sýna fram á að verkefni uppfylli skilyrðin og ákveða hvort eða hvernig lagt verði faglegt mat á verkefnin áður en veitt er vilyrði fyrir ríkisábyrgð. Eins þarf að liggja skýrt fyrir hvaða upplýsingum stjórnvöld þurfa á að halda á meðan ríkisábyrgð er í gildi.

Eðlilegt er að byggja skilyrði faglegs mats á eftirfarandi atriðum sem eru grundvöllur þess að markmið tillögunnar náist:

  1. Að verkefnið leiði af sér vöru eða þjónustu sem er gjaldeyrisskapandi.
  2. Að verkefnið sé atvinnuskapandi á Íslandi.
  3. Að verkefnið feli í sér nýnæmi, annaðhvort svæðisbundið eða á landsvísu.
  4. Að útskýrt sé hvernig verkefnið geti staðið af sér hefðbundnar efnahagssveiflur.
  5. Að viðskiptaáætlun sé vel skilgreind með tilliti til framangreindra atriða.

Eftirfarandi er nánari skýring á framangreindum atriðum:

  1. Krafa um að verkefni leiði af sér vöru eða þjónustu sem er gjaldeyrisskapandi byggist á því að ein helsta áskorun íslensks samfélags er samdráttur í vöru- og þjónustuútflutningi. Setja þarf lágmarksviðmið um að hlutfall vöru eða þjónusta verði seld á erlenda markaði eða verði gjaldeyrisskapandi á annan hátt.
  2. Krafa um að verkefni sé atvinnuskapandi hér á landi byggist á því að nauðsynlegt er að skapa sem flest störf á tímum atvinnuleysis. Eðlilegt væri að gera kröfu um að verkefni yrði viðhaldið á Íslandi meðan ábyrgðin væri í gildi og þar með að höfuðstöðvar viðkomandi lögaðila væru á Íslandi þar sem ríkisaðstoð er ætlað að ráða bót á alvarlegu áfalli í efnahagslífi hér á landi.
  3. Krafan um að verkefnið feli í sér nýnæmi, annaðhvort svæðisbundið eða á landsvísu, byggist á því að mikilvægt er að fara nýjar leiðir við framleiðslu og þjónustu vegna samfélagsbreytinga. Slíkt nýnæmi getur byggst á endurnýtingu hugmynda og yfirfærslu á tækni sem nú þegar er til. Skilgreina þarf kröfuna um nýnæmi mun rýmra en vegna stuðnings nýsköpunarsjóða. Lágmarka þarf áhrif á innlenda samkeppnismarkaði.
  4. Krafan um að verkefnið geti staðið af sér efnahagslegar sveiflur byggist á því að íslenskt efnahagslíf býr við sveiflur og styrkur atvinnulífsins felst í þolinu gagnvart þeim. Þannig yrðu fjármálastofnanir og lögaðilar sem sæktu um ábyrgðir fyrir lánum að gera grein fyrir því hvaða varnir verkefnið hefði fyrir efnahagssveiflum.
  5. Gerð skal grein fyrir atvinnuþróunarverkefni í viðskiptaáætlun sem innihaldi greinargerð um verkefnið og sýni hvernig það uppfyllir sett skilyrði og hverjir möguleikar þess eru, ásamt rekstraráætlun og lýsingu á starfsemi fyrirtækis.

Faglegt mat verkefna

Rannsóknamiðstöð Íslands, Rannís, hefur mikla reynslu af faglegu mati á verkefnum í atvinnulífinu og því liggur beinast við að fela þeirri stofnun faglega umsýslu ef slíkt mat verður grundvöllur fyrir veitingu ríkisábyrgðar. Þannig yrði ríkisábyrgð á atvinnuþróunarlánum til lögaðila veitt til fjármálastofnana vegna atvinnuþróunarverkefna sem Rannís hefði staðfest að uppfylli skilyrði til að falla undir aðgerðina.

Eðlilegt væri að innheimta hóflegt umsýslugjald til að standa undir kostnaði við afgreiðslu og umsýslu ábyrgða. Líta mætti til 3. mgr. 17. gr. laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020, í því samhengi en þar segir að umsýsluþóknun vegna stuðningsláns með ríkisábyrgð megi í hæst nema 2% af höfuðstóli láns.

Lánveitendur

Atvinnuþróunarlán yrði veitt lögaðila vegna staðfests atvinnuþróunarverkefnis í samræmi við skilyrðin sem verkefnið þarf að uppfylla. Lán yrði veitt af viðurkenndum lánveitanda, þar sem lögaðili leitar lánsfjármögnunar vegna atvinnuþróunarverkefnis. Viðurkenndir lánveitendur geta verið viðskiptabankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki eða rekstrarfélög verðbréfasjóða skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, en einnig er mikilvægt að lífeyrissjóðir og hugsanlega vísisjóðir eða aðrir sjóðir sem hafa það að markmiði að styðja atvinnuþróun geti tekið þátt í verkefninu.

Afgreiðsla, umsýsla og eftirfylgni

Eðlilegt er að ráðherra verði heimilt að semja við Seðlabanka Íslands um að annast umsýslu vegna ríkisábyrgða á lánum til atvinnuþróunar. Seðlabankinn semji aftur við lánveitendur lánanna um framkvæmd þeirra líkt og við á um stuðningslán með ríkisábyrgð, sbr. 20. gr. laga nr. 38/2020. Jafnframt mætti fela nefnd sem ráðherra hefur skipað samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997, eftirlit með aðgerðinni, sbr. 21. gr. sömu laga.

Mikilvægt er að skýrt sé hvað fellur undir atvinnuþróun og atvinnuþróunarkostnað í skilningi aðgerðarinnar, þ.m.t. fjárfestingar í tækjum og búnaði. Jafnframt er mikilvægt að lögaðili geti á einfaldan hátt sýnt fram á að láninu sé varið í samræmi við þau skilyrði t.d. við skattskil og með aðgreiningu verkefnis frá öðrum verkefnum í bókhaldi og ársreikningi. Þar mætti leita fyrirmynda í reglum um skattafslætti vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar. Þá þarf að skilgreina stjórnsýslu vegna umsýslu ábyrgða.

Samandregið gæti framkvæmdin orðið á þessa leið:

  • Lögaðili óskar eftir láni frá fjármálastofnun vegna verkefnis sem hann telur að falli undir skilgreiningu á atvinnuþróunarverkefni. Lögaðili eða lánveitandi sækir um faglegt mat á verkefninu og ríkisábyrgð á viðspyrnuláninu.
  • Ef faglegt mat á verkefninu er jákvætt er lögaðila, fjármálastofnun og umsýsluaðila ríkisábyrgðar tilkynnt þar um.
  • Ábyrgð er veitt og verkefni getur hafist.
  • Lögaðilar sem fá samþykkta ábyrgð á viðspyrnulán skulu eingöngu nýta lánsfé til að standa straum af atvinnuþróunarkostnaði í samræmi við samþykkta umsókn og uppfylla skilyrði að öðru leyti.
  • Fjármálastofnun fylgist með ráðstöfun lánsins eftir hefðbundnum samskiptaleiðum við lántaka.
  • Lögaðili gerir grein fyrir framkvæmd verkefna í skattskilum.
  • Ábyrgð fellur niður að tilteknum tíma liðnum eða ef lán er endurgreitt að fullu fyrir lok gildistíma ábyrgðar. Ábyrgð fellur jafnframt niður ef sýnt er að lánveitanda hafi mátt vera ljóst að skilyrði fyrir henni hafi ekki verið uppfyllt þegar lánið var veitt.
Categories
Fréttir

Tilkynning frá kjörstjórn Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi!

Deila grein

15/12/2020

Tilkynning frá kjörstjórn Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi!

Í Norðvesturkjördæmi fer fram póstkosning um val á framboðslista Framsóknarflokksins, samkvæmt reglum flokksins þar um.

Framboðsfrestur til þátttöku í póstkosningunni rennur út þriðjudaginn 17. janúar 2021, kl. 12:00 á hádegi.

Kjörskrá verður gerð samkvæmt félagatali 2. janúar 2021.

Framboðum skal skila til formanns kjörstjórnar, Valgarðs Hilmarssonar, á netfangið vallih@centrum.is.  Formaðu veitir einnig frekari upplýsingar.

Atkvæðisseðlar verða sendir út 1. febrúar og er frestur til að skila þeim inn til og með 26. febrúar.  Kosið verður um 5 efstu sæti listans.  Sjá nánar inn á framsokn.is.

KJÖRSTJÓRN KFNV.
Categories
Fréttir

Þeir hrópa hátt en virðast ekki hafa kynnt sér málið!

Deila grein

15/12/2020

Þeir hrópa hátt en virðast ekki hafa kynnt sér málið!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, gerði grein fyrir atkvæði sínu í atkvæðagreiðslu um kynrænt sjálfræði, á Alþingi í dag. Sagði hún mikilvægt að taka mark á áliti þeirra er hafa reynslu og þekkingu, frekar en örfáum þingmönnum er hrópa hátt.

„Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með næstum því öllum þeim sem talað hafa í dag. Ég fagna því frumvarpi sem við greiðum nú atkvæði um og tek undir að þetta er stór dagur. Þetta er dagur mannréttinda. Ég er komin í jólaskap. Mér líður vel. Ég ætla að túlka orðræðu Miðflokksins sem misskilning, ekki mannfyrirlitningu. Ég held að karlarnir sem tóku hér til máls í gær skilji þetta ekki almennilega þó að þeir haldi öðru fram. Og ég tek undir með þeim sem síðast talaði, hv. þm. Páli Magnússyni, og ég verð að segja það fyrir mig, og ég held að það sé kannski eðlileg niðurstaða, að þegar við höfum fengið álit frá því fólki sem hefur reynslu og þekkingu á þeim hlutum sem um ræðir hlýtur maður að taka meira mark á því, eftir margra ára vinnu, en örfáum þingmönnum hér í þingsal sem hrópa hátt en virðast ekki hafa kynnt sér málið,“ sagði Silja Dögg.

Categories
Greinar

Verjum störf og sköpum ný

Deila grein

15/12/2020

Verjum störf og sköpum ný

Framsóknarflokkurinn hefur alla tíð lagt áherslu á að atvinna sé undirstaða velferðar. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Vaxandi atvinnuleysi, samdráttur í landsframleiðslu, versnandi hagvaxtarhorfur og samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu kalla á skjót viðbrögð stjórnvalda. Ríkisstjórnin hefur nú þegar bætt verulega í fjárveitingar til nýsköpunar. Þá hefur verið farið í ýmsar aðgerðir til stuðnings atvinnulífinu, til að viðhalda störfum, verkefnum og fyrirtækjum sem eiga framtíð fyrir sér. Þrátt fyrir ofangreindar aðgerðir er þörf á frekari hvötum til tekju- og atvinnuskapandi verkefna sem komast hratt til framkvæmda.

Samdráttur í atvinnuvegafjárfestinga

Það liggur fyrir að verulegur samdráttur hefur orðið í atvinnuvegafjárfestingu. Verulega hefur dregið úr útlánum til fyrirtækja vegna minnkandi efnahagsumsvifa og arðsemiskröfu fjármálastofnanna til fyrirtækjalána. Seðlabankinn gerir ráð fyrir að samdráttur atvinnuvegafjárfestinga haldi áfram á komandi ári. Af þessu má daga þá ályktun að einkaaðilar glími við skort á fjármagni til atvinnuþróunar og tregða sé í lánveitingum fjármálastofna til atvinnulífsins. Því liggur atvinnuþróun á Íslandi í dái eins og er.

Ríkisábyrgð á viðspyrnulán til atvinnuþróunar

Stjórnvöld verða að bregðast við og hvetja fjármálastofnanir og lífeyrissjóði til útlána. Það má gera með aðgerðum sem senda skýr skilaboð um að framtíðin á Íslandi sé björt og skynsamlegt sé að nota það fjármagn sem til staðar er í landinu til atvinnuþróunar. Í þessum tilgangi hafa þingmenn Framsóknarflokksins lagt fram tillögu um ríkisábyrgð á viðspyrnulán til atvinnuþróunar.

Aðgerðin gengur út að auka möguleika einkaaðila sem hyggjast fara í nýungar í sínum rekstri við að nálgast lánsfjármagn með ríkisábyrgðum á lánum til atvinnuþróunarverkefna. Atvinnuþróunarverkefni þyrftu að vera skýr og afmörkuð verkefni til þróunar á vöru, þjónustu eða framleiðsluaðferð, geta skapað störf og aukið gjaldeyristekjur. Þannig myndu stjórnvöld deila áhættu af atvinnuþróun á óvissutímum með fjármálastofnunum og atvinnurekendum.

Allar líkur eru á því að aðgerðin hefði jákvæð áhrif á stöðu ríkissjóðs til lengri tíma litið. Beinar og óbeinar tekjur af þeim atvinnuþróunarverkefnum sem vaxa og dafna í kjölfar viðspyrnuláns ættu að verða vel umfram þann kostnað sem fellur á ríkissjóð vegna verkefna sem ekki heppnast. Áfram veginn.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokkins í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. desember 2020.

Categories
Greinar

Sælustund á aðfangadagskvöld

Deila grein

15/12/2020

Sælustund á aðfangadagskvöld

Íslend­ing­ar búa að ríku­legri menn­ingu sem hef­ur fylgt okk­ur um alda­bil. Þjóðlög og rím­ur hafa ómað síðan á 12. öld og hug­vit þjóðar­inn­ar á sviði tón­list­ar er botn­laust. Tón­list­in vek­ur at­hygli um víða ver­öld, safn­ar verðlaun­um og viður­kenn­ing­um. Þátta- og kvik­mynda­fram­leiðend­ur flykkj­ast til lands­ins og all­ir vilja upp­lifa andagift­ina sem Íslandi fylg­ir. Með mik­illi fag­mennsku hef­ur tón­list­ar­mönn­um tek­ist að koma Íslandi á kortið sem tón­list­ar­landi – eitt­hvað sem við Íslend­ing­ar viss­um auðvitað fyr­ir löngu.

Við erum einnig mik­il bóka- og sagnaþjóð. Íslend­inga­sög­urn­ar, Hall­dór Lax­ness og hið ár­lega jóla­bóka­flóð er ein­stakt fyr­ir­bæri og raun­ar hef­ur jóla­bóka­flóðið aldrei verið stærra en nú! Ef­laust eru marg­ir sem finna fyr­ir val­kvíða enda munu jól­in ekki duga til að lesa allt sem okk­ur lang­ar. Fyr­ir tveim­ur árum samþykkti Alþingi frum­varp mitt um stuðnings­kerfi við út­gáfu bóka á ís­lensku. Ákvörðunin markaði þátta­skil í ís­lenskri bók­mennta­sögu og töl­urn­ar tala sínu máli. Útgefn­um titl­um fjölg­ar – sér­stak­lega í flokki barna­bóka – og bók­sala fyr­ir jól­in er um 30% meiri en á sama tíma í fyrra.

Á ár­inu hafa marg­ir lista­menn orðið fyr­ir miklu tekjutapi, enda listviðburðir bannaðir meira og minna síðan í mars. Stjórn­völd hafa stutt við lista­fólk með ýms­um hætti, t.d. með 10 stuðningsaðgerðum sem kynnt­ar voru í októ­ber. Ein þeirra var vit­und­ar­vakn­ing um mik­il­vægi menn­ing­ar og lista og um helg­ina var kynnt áhuga­vert verk­efni í þá veru, sem miðar að því færa þjóðinni listviðburði heim að dyr­um!

Al­menn­ingi um allt land býðst að senda vina­fólki eða ætt­ingj­um sín­um landsþekkt lista­fólk, sem bank­ar upp á 19. og 20. des­em­ber til að skemmta þeim opn­ar. Alls verða heim­sókn­irn­ar 750 tals­ins og yfir 100 lista­menn taka þátt í verk­efn­inu. Það er unnið í sam­starfi við Lista­hátíð í Reykja­vík og ég vona að sem flest­ir fái notið þess­ar­ar glæsi­legu gjaf­ar.

Við erum lukku­leg þjóð. Við meg­um ekki gleyma því að við eig­um of­gnótt af bók­um, hríf­andi tónlist, mynd­list og hönn­un sem hlýj­ar þegar frostið bít­ur í kinn­ar. Við eig­um að standa vörð um ís­lenska menn­ingu og list­ir, styðja við lista­menn­ina okk­ar og setja ís­lenska list í jólapakk­ana. Miðstöð hönn­un­ar og arki­tekt­úrs hef­ur birt yf­ir­lit á vefsíðu sinni yfir versl­an­ir sem selja ís­lenska hönn­un, og þar er sko af nægu að taka. Bæk­ur og leik­húsmiðar eru ekki ama­leg gjöf held­ur, ekki síst þegar viðburðaþyrst þjóðin losn­ar úr Covid-klón­um!

Það bær­ist eitt­hvað innra með manni þegar ró leggst yfir heim­ilið á aðfanga­dags­kvöld, allt heim­il­is­fólk satt og sælt, ljúf­ir jólatón­ar óma og maður kúr­ir með jóla­bók í hönd. Þessi stund ramm­ar inn ham­ingj­una hjá mér um jól­in. Ég segi því hik­laust – ís­lensk menn­ing og list­ir eru jóla­gjöf­in í ár!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. desember 2020.

Categories
Greinar

Jöfn skipting fæðinga­or­lofs – Jafn­réttis­mál

Deila grein

14/12/2020

Jöfn skipting fæðinga­or­lofs – Jafn­réttis­mál

Fæðingaorlofsfrumvarp félagsmálaráðherra liggur fyrir Alþingi. Frumvarpið boðar 12 mánaða fæðingaorlof með jafna skiptinu milli foreldra og rétturinn skiptist þannig að sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig verði sex mánuðir. Hvort foreldri um sig getur svo framselt einn mánuð af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins. Eitt ár í lífi barns er mikilvægt og fyrsta árið lang mikilvægast. Það er því stórt skref fyrir börn og foreldra að ná þessu marki. Meginmarkmið frumvarpsins er að ryðja úr vegi eldri viðhorfum um að faðirinn beri meginábyrgð á efnahag heimilisins með tekjuöflun sinni. Niðurstöður rannsókna á íslenska fæðingarorlofskerfinu benda meðal annars til að „feðrakvótinn“ svokallaði, eða fæðingarorlofsréttur sem einungis feður geta nýtt, sé rétt stefna til að ná fram markmiðum laganna um fæðingar- og foreldraorlof að tryggja réttindi barna til samvista við báða foreldra og að gera þannig foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Vinnumarkaðsúrræði

Meginmarkmið frumvarpsins er tvíþætt. Annars vegar skal tryggja barni samvistum við foreldra sína í 12 mánuði, og allir eru sammála um það. Svo er það hins vegar að jafna rétt foreldra við töku á fæðingaorlofi. Við eigum auðvelt með að sjá fyrir okkur yndislegar samverustundir foreldra og barna, draga að sér ilm af hvítvoðungnum og styrkja tilfinningatengslin sem lifir út ævina. Við viljum börnum okkar það besta og að einstaklingar af öllum kynjum beri sama rétt í samfélaginu sem og á vinnumarkaði. Fæðingaorlofsrétturinn er mikilvægur fyrir jafnréttisbaráttu á vinnumarkaði. Meðan jafnri skiptingu er ekki náð þá náum við ekki jafnlaunarétti milli kynjanna. Við skulum líka tala um jafnrétti í lífeyrismálum, en þar spilar jafn réttur fæðingaorlofs stóran þátt. Þegar barátta fyrir fæðingaorlofi hófst voru þessir þættir hafðir að leiðarljósi.

Tímamótaáfangi

Að jafna rétt foreldra til töku á fæðingaorlofi er tímamótaáfangi og stórt jafnréttismál. Í sameiginlegri umsögn prófessors í félagsráðgjöf og dósents í félagsfræði við Háskóla Íslands um frumvarpið kemur meðal annars fram að lengingin á rétti foreldra til fæðingarorlofs sé tímamótaáfangi til hagsbóta fyrir fjölskyldur í þágu hagsmuna barna og foreldrajafnréttis. Þar af leiðir að með jafnri skiptingu á fæðingaorlofi komumst við skrefi nær jafnrétti kynja á vinnumarkaði, bæði hvað varðar laun og lífeyrisréttindi. Við eigum ekki að gefa eftir í þeirri baráttu.

Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. desember 2020.

Categories
Greinar

Hugrekki stýrir för

Deila grein

14/12/2020

Hugrekki stýrir för

Óvæntar aðstæður eru stundum ógnvekjandi. Þær bera með sér áskoranir, sem við getum valið að taka eða hafna. Við slíkar aðstæður sést úr hverju stjórnmálamenn eru gerðir – hvort þeir takast á við aðsteðjandi vanda með kreppta hnefana og hugann opinn, eða hræðast og láta kylfu ráða kasti.

Frá því Covid-faraldurinn skall á Íslandi í mars hefur reynt á hugrekki okkar allra. Vilja okkar til að mæta ógninni sem steðjar að samfélaginu; heilbrigðis- og hagkerfinu, menntun og menningu, börnum og ungmennum. Það krefst áræðis að hugsa í lausnum og ráðast í fordæmalausar og kostnaðarsamar aðgerðir, en einmitt þá er hugrekkið mikilvægast. Það smitar út frá sér og sameinar fólk.

Kórónuveirukreppan er um margt lík Kreppunni miklu. Árið 1929 reyndi hún mjög á stjórnmálamenn og -kerfi þess tíma. Atvinnuleysi varð sögulega mikið og í tilraun til að skilja aðstæður mótaði John M. Keynes þá kenningu sína, að í kreppum ættu stjórnvöld að örva hagkerfið með öllum tiltækum ráðum; ráðast í framkvæmdir og halda opinberri þjónustu gangandi, jafnvel þótt tímabundið væri eytt um efni fram. Skuldsetning ríkissjóðs væri réttlætanleg til að tryggja umsvif í hagkerfinu, þar til það yrði sjálfbært að nýju. Kenningin var í algjörri andstöðu við ríkjandi skoðun á sínum tíma, en hefur elst vel og víðast hvar hafa stjórnvöld stuðst við hana í viðleitni sinni til að lágmarka efnahagsáhrif kórónuveirunnar.

Á Íslandi ákváðu stjórnvöld að verja grunnkerfi ríkisins og tryggja afkomu þeirra sem tóku á sig þyngstu byrðarnar. Miklum fjármunum hefur verið varið til heilbrigðismála, fjárfestinga í menntun og atvinnuleysistryggingakerfisins. Hlutabótaleiðin er í mörgum tilvikum forsenda þess að ráðningarsamband hefur haldist milli vinnuveitanda og starfsmanns. Ríkið hefur líka fjárfest í innviðum og m.a. ráðist í auknar vegaframkvæmdir.

Aðgerðirnar lita að sjálfsögðu afkomu ríkissjóðs og nemur umfang þeirra um 10% af landsframleiðslu. Það bendir til ákveðnari inngripa hér en víða annars staðar, því þróuð ríki hafa að meðaltali ráðist í beinar aðgerðir sem jafngilda rúmum 8% af landsframleiðslu.

Stjórnvöld sýna hugrekki í þeirri baráttu að lágmarka efnahagssamdráttinn, vernda samfélagið og mynda efnahagslega loftbrú þar til þjóðin verður bólusett. Það er skylda okkar að styðja við þá sem hafa misst vinnuna, bæta tímabundið tekjutap og koma atvinnulífinu til bjargar.

Sjálfbær ríkissjóður eykur farsæld

Staða ríkissjóðs Íslands í upphafi faraldursins var einstök. Skuldir voru aðeins um 20% af landsframleiðslu, en til samanburðar voru skuldir ríkissjóðs Bandaríkjanna um 100%. Góður og traustur rekstur hins opinbera undanfarin ár hefur þannig reynst mikil þjóðargæfa, enda býr hann til svigrúmið sem þarf þegar illa árar. Viðvarandi hallarekstur er hins vegar óhugsandi og því er brýnt að ríkissjóður verði sjálfbær, greiði niður skuldir og safni í sjóði að nýju um leið og efnahagskerfið tekur við sér. Þá mun líka reyna á hugrekki stjórnvalda, að skrúfa fyrir útstreymi fjármagns til að tryggja stöðugleika um leið og atvinnulífið þarf að grípa boltann.

Íslenska hagkerfið hefur alla burði til að ná góðri stöðu að nýju. Landið er ríkt að auðlindum og við höfum fjárfest ríkulega í hugverkadrifnum hagvexti. Við höfum alla burði til að ná aftur fyrri stöðu í ríkisfjármálum, en fyrst þarf að gefa vel inn og komast upp brekkuna fram undan.

Markmið ríkisstjórnarinnar hafa náðst að stórum hluta. Heilbrigðis- og menntakerfið hefur staðist prófið og ýmsar hagtölur þróast betur en óttast var. Á þriðja ársfjórðungi var einkaneysla t.d. meiri en víðast hvar þrátt fyrir sögulegan samdrátt. Auknar opinberar fjárfestingar ríkisins og aukin samneysla hafa gefið hagkerfinu nauðsynlegt súrefni. Nú ríður á, að við höfum hugrekki til að klára vegferðina sem mun að lokum skila okkur öruggum í höfn. Þótt hugrekki snerti bæði áræði og ótta er þessum tengslum ólíkt háttað. Án hugrekkis fetum við aldrei ótroðna slóð. Án ótta gerum við líklega eitt og annað heimskulegt. Leitin að jafnvæginu milli þessara tveggja póla er viðvarandi, sameiginlegt verkefni okkar allra.

Eftir Sigurð Inga Jóhannsson, Lilju D. Alfreðsdóttur og Willum Þór Þórsson.

Sigurður Ingi er formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, Lilja er varaformaður Framsóknarflokksins og mennta- og menningarmálaráðherra og Willum Þór er formaður fjárlaganefndar Alþingis og þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. desember 2020.