Categories
Greinar

Óhagnaðardrifin leigufélög veita sterka viðspyrnu

Deila grein

23/06/2022

Óhagnaðardrifin leigufélög veita sterka viðspyrnu

Aukið var við framboð leiguíbúða í vikunni þegar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun úthlutaði fyrri úthlutun stofnframlaga fyrir árið 2022. Þetta er mikilvæg innspýting í framboð á leigumarkaði en á þessu ári hafa 550 hagkvæmar leiguíbúðir verið teknar í notkun, það er 40% af öllum nýjum íbúðum sem komið hafa á markað á árinu. Landsbyggðin er stór þátttakandi í uppbyggingu á leiguhúsnæði sem styrkt eru með stofnframlögum.

Mikil eftirspurn hefur verið eftir stofnframlögum en á síðasta ári náðist þó ekki að úthluta öllu því fjármagni sem heimildir voru fyrir í fjárlögum. Var skortur á byggingarhæfum lóðum einna helst skýringin. Stofnframlög skapa hvata til að auka framboð af leiguhúsnæði og er framlag ríkis og sveitarfélaga til kaupa eða byggingar á íbúðum til leigu fyrir einstaklinga sem eru undir tekju- og eignamörkum. Það er sérlega ánægjulegt að sjá að yfir 30 sveitarfélög víða um land sameinast um þessa mikilvægu lausn með því að setja á stofn sameiginlegt óhagnaðardrifið leigufélag og veita þar með sterka viðspyrnu gegn hækkunum á leigumarkaði.

Það er ríkisstjórninni mikið hagsmunamál að stuðla að bættri stöðu fólks. Í gegnum stofnframlög hafa nú þegar verið byggðar 1.550 íbúðir og er annað eins í byggingu. Í fyrri úthlutun ársins 2022 hefur HMS úthlutað 2,6 milljörðum til uppbyggingar á 328 íbúðum en því til viðbótar bætist við framlag frá sveitarfélögum.

Leiguíbúðirnar dreifast víða um land og hefur hlutfall íbúða á landsbyggðinni aldrei verið hærra eða 46%. Af þeim 328 íbúðum sem úthlutun ársins nær til stendur til að byggja 279 nýjar íbúðir en kaupa 49 nýjar og eldri íbúðir. Íbúðirnar verða allar að standast kröfur um hagkvæmni, en með því eru stjórnvöld að skapa hvata fyrir aukið framboð slíkra íbúða. Sameiginleg sýn ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu íbúða til samræmis við þörf til næstu ára mun skipta sköpum að ná og halda jafnvægi á húsnæðismarkaði.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðarráðherra

Categories
Greinar

Á­fram­haldandi stuðningur við ný­sköpun

Deila grein

21/06/2022

Á­fram­haldandi stuðningur við ný­sköpun

Hlutverk stjórnvalda er að finna leiðir til að byggja traustan grunn fyrir nýsköpun hér á landi. Stuðningur við nýsköpun hefur sjaldan verið mikilvægari en einmitt nú og ljóst er að hugvit og nýsköpun eru að verða að styrkri stoð í hagkerfi Íslands. Í dag starfa um 12.000 manns í þessum iðnaði eða um 6% vinnandi fólks í landinu. Hugverka- og nýsköpunariðnaðurinn er vaxandi útflutningsstoð sem treystir á fjárfestingu í rannsóknum og þróun. Treystir á traust og fyrirsjáanlegt umhverfi. Þetta vita stjórnvöld á Íslandi sem hafa sett sér metnaðarfull markmið sem endurspeglast í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar með það að markmiði að fjölga störfum og gera hugviti hærra undir höfði innan íslensks efnahagslífs.

Framlenging bráðabirgðaákvæða

Þær ívilnanir sem settar voru með bráðabirgðaákvæðum til þess að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldur kórónuveru hafa skipt sköpum fyrir nýsköpunarfyrirtæki hér á landi. Ívilnanirnar hafa stuðlað að frekari uppbyggingu öflugrar nýsköpunar í atvinnu og efnahagslífi þjóðarinnar. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði til, í samræmi við tillögur umsagnaraðila, breytingar á frumvarpinu eins og það lá fyrir að frádráttarhlutfall myndi haldist óbreytt frá því bráðabirgðaákvæði sem hefur verið í gildi en að hámarkskostnaður verði sá sami og lagður var til í frumvarpinu, eða 1.000 milljónir króna í stað 1.100 milljónir króna. Frádráttarhlutfall nýsköpunarfyrirtækja verður því áfram 35 hundraðshlutar frá álögðum tekjuskatti þeirra árin 2021 og 2022 vegna útlagðs kostnaðar á rannsóknar- og þróunarverkefnum. Markmið skattfrádráttar vegna rannsókna- og þróunarverkefna er að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja. Þær ívilnanir sem felast í bráðabirgðaákvæðum laganna hafa skipt sköpum fyrir nýsköpunarfyrirtæki í þeirri efnahagslegu óvissu sem fylgt hefur heimsfaraldri kórónuveirunnar. Breytingarnar eru því til þess fallnar að koma til móts við:

a) annars vegar við þau sjónarmið sem höfð voru uppi fyrir nefndinni í umræðum um frumvarpið.

b) hins vegar við þá auknu kröfu um ábyrga stjórn ríkisfjármála í ljósi óvissu um efnahagsþætti, svo sem verðbólgu og vaxtahækkanir.

Fyrirsjáanleiki er nauðsynlegur

Meiri hlutinn telur mikilvægt að samkeppnishæfni íslenskra nýsköpunarfyrirtækja sé áfram tryggð eftir því sem dregur úr efnahagslegum áhrifum faraldursins hér á landi og á heimsvísu, en jafnframt að samhliða þessum ívilnunum sé mikilvægt að það fari fram heildarúttekt á árangri þessa verkefnis. Aðeins þannig er hægt að fá nauðsynlegar upplýsingar þannig hægt sé að stýra enn frekar með hvaða hætti fjármunir ríkisins nýtist til þess að efla þróun og rannsóknir á Íslandi. Fyrirsjáanleiki skipti miklu máli þegar komi að fjárfestingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi og að breytingar á hlutfalli styrkja, þó ekki séu nema að litlu leyti, geti skipt sköpum þegar kemur að því að laða erlenda sem innlenda aðila að fjárfestingu í íslensku hugviti. OECD vinnur nú að greiningu á stöðu nýsköpunariðnaðarins hér á landi og í framhaldi hennar er nauðsynlegt að móta heildstæða stefnu um greinina og starfsumhverfi hennar til framtíðar. Við fögnum þessum áfanga og áframhaldandi stuðningi við nýsköpun á Íslandi. Grundvöllur efnahagslegrar velgengni ásamt lausnum við áskorunum framtíðarinnar má finna í nýsköpun, rannsóknum og þróun.

Ágúst Bjarni Garðarsson þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi og situr í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. júní 2022.

Categories
Fréttir

Sóltún Heilsusetur opnar 1. september – Nýmæli í öldrunarþjónustu

Deila grein

21/06/2022

Sóltún Heilsusetur opnar 1. september – Nýmæli í öldrunarþjónustu

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) og Sóltún öldrunarþjónusta ehf. hafa gert með sér samning sem kveður á um nýja tegund sérhæfðrar þjónustu við aldraða. Þjónustan verður veitt í endurgerðu húsnæði gamla Sólvangs í Hafnarfirði. Þar verða rými fyrir 39 einstaklinga sem gert er ráð fyrir að dvelji þar skamma hríð og njóti einstaklingsmiðaðrar, heildrænnar og þverfaglegrar endurhæfingar. Markmiðið er að viðhalda og auka virkni viðkomandi í daglegu lífi og efla þannig getu þeirra til sjálfstæðrar búsetu á eigin heimili sem lengst. Gert er ráð fyrir að árlega verði hægt að veita að minnsta kosti 400 einstaklingum þessa þjónustu.

„Það er mér mikil ánægja að staðfesta samninginn um þessa þjónustu sem ég tel að marki tímamót. Við eigum að leggja miklu meiri áherslu á virkar forvarnir og endurhæfingu eins og hér verður gert og ég sé fyrir mér að þetta geti orðið fyrirmynd að sambærilegri þjónustu miklu víðar og um allt land“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

„Við hlökkum mikið til að bjóða nýtt og spennandi þjónustuúrræði í Sóltúni Heilsusetri á Sólvangi. Með fjölþættri heilsueflingu í skammtímadvöl  er horft til þess að hjálpa fólki að bæta lífsgæði sín, sjálfstæði og hreysti á efri árum og draga úr þörf þess fyrir aðstoð annarra við athafnir daglegs lífs“, segir Halla Thoroddsen, framkvæmdastjóri Sóltúns öldrunarþjónustu ehf. 

„Þessi samningur SÍ og Sóltúns öldrunarþjónustu felur í sér einstaklega spennandi nýsköpun sem mun stuðla að því að aldraðir geti haldið lengur getu sinni og færni til að búa á eigin heimili og seinka þar með þörf þeirra til að flytja á hjúkrunarheimili. Þverfagleg endurhæfing með fyrirbyggjandi áherslum þar sem unnið er með virkni fólksins, næringar- og heilsufarsástand er örugglega lykill að góðum árangri“ segir María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.

Fyrirkomulag þjónustunnar sem samningurinn kveður á um felur í sér ákveðin nýmæli. Byggt verður á einstaklingmiðuðum áætlunum sem fela í sér fræðslu, viðtöl sérfæðinga, einstaklings- og hópþjálfun, heilsueflandi þjálfun og virkni. Miðað er við að þeir sem sæki úrræðið njóti að jafnaði endurhæfingar í fjórar vikur en í ákveðnum tilvikum allt að sex vikur. Veitt verður að lágmarki 5 klukkustunda einstaklingsmeðferð og 20 klukkustunda einstaklingamiðuð hópmeðferð á viku fyrir hvern einstakling. Þjónustan verður veitt alla mánuði ársins, alla daga vikunnar að undanskildum 10 dögum ár hvert í kringum jól og áramót.

Dregið úr þörf fyrir bráðaþjónustu og innlagnir á sjúkrahús

Til að byrja með er gert ráð fyrir að heimahjúkrun og heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu geti vísað fólki í þessa þjónustu. Þetta er nýmæli og talið líklegt til að draga úr þörf fyrir heimsóknir á bráðamóttöku.  Þá er einnig horft til þess að með því endurhæfingar- og forvarnarstarfi sem þjónustan felur í sér megi draga úr líkum á alvarlegum heilsubresti sem útheimtir þjónustu á bráðamóttöku eða leiðir til ótímabærrar innlagnar á sjúkrahús. Þjónustunni er þannig ætlað að létta álagi af Landspítala, auka stuðning við aðstandendur aldraðra sem oft eru undir miklu álagi og síðast en ekki síst að bæta lífsgæði þeirra sem þjónustunnar njóta og gera þeim betur kleift að búa lengur heima en ella. 

Starfsemin hefst 1. september

Sóltún Heilsusetur opnar þjónustu sína á Sólvangi þann 1. september næstkomandi í samræmi við samning Sóltúns öldrunarþjónustu ehf. og Sjúkratrygginga Íslands sem gildir til loka mars 2025. Um greiðsluþátttöku einstaklinga fyrir þá þjónustu sem veitt er samkvæmt samningnum fer samkvæmt reglugerð nr. 1112/2006 um stofnanaþjónustu fyrir aldraða.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 20. júní 2022

Categories
Greinar

Samvinna er hugmyndafræði

Deila grein

20/06/2022

Samvinna er hugmyndafræði

Á þess­um hátíðar­degi fögn­um við því að 78 ár eru liðin frá ákvörðun Alþing­is um að stofna lýðveldið Ísland. Hver þjóðhátíðardag­ur mark­ar tíma­mót í sögu lands­ins og veit­ir okk­ur tæki­færi til þess að líta yfir far­inn veg og horfa til framtíðar. Saga ís­lenska lýðveld­is­ins er saga fram­fara. All­ar göt­ur frá stofn­un þess hafa lífs­kjör auk­ist veru­lega og þjóðar­tekj­ur á hvern íbúa eru með þeim mestu í ver­öld­inni. Staða Íslands er sterk í sögu- og alþjóðlegu sam­hengi, þegar flest­ir vel­sæld­ar­mæli­kv­arðar eru kannaðir. Slík­ur ár­ang­ur er ekki sjálf­gef­inn, held­ur ligg­ur þrot­laus vinna kyn­slóðanna sem byggt hef­ur landið hon­um að baki.

Mann­gildi ofar auðgildi

Frjáls­ar kosn­ing­ar eru horn­steinn lýðræðis­sam­fé­lags. Virk lýðræðisþátt­taka er eitt af því sem hef­ur ein­kennt ís­lenskt sam­fé­lag. Marg­ir stíga sín fyrstu skref í fé­lags­störf­um með þátt­töku í starfi stjórn­mála­hreyf­inga með það að leiðarljósi að hafa já­kvæð áhrif á sam­fé­lagið sitt. Í meira en heila öld hef­ur Fram­sókn fylgt þjóðinni og verið far­veg­ur fyr­ir fólk til þess að taka þátt í stjórn­mála­starfi. Sýn Fram­sókn­ar grund­vall­ast á sam­vinnu­hug­sjón­inni; að fólk geti náð meiri ár­angri með því að vinna sam­an og aukið styrk sinn. Sam­vinna bygg­ist ekki aðeins á trausti milli aðila held­ur einnig á góðum og mál­efna­leg­um umræðum sem leiðar til far­sælla niðurstaða.

Við trú­um því að jöfn tæki­færi séu eina leiðin til tryggja sann­girni í sam­fé­lag­inu. Brýnt er að dreifa valdi, án til­lits til auðs, stétt­ar, kyns eða annarra breyta. Mann­gildi ofar auðgildi. All­ar rann­sókn­ir sýna að öfl­ugt mennta­kerfi tryggi mest­an jöfnuð og það vilj­um við tryggja.

Ræt­ur sam­vinnu­hug­sjón­ar­inn­ar og frelsið

Fyrstu regn­hlíf­ar sam­vinnu­hug­sjón­ar­inn­ar, sam­vinnu­fé­lög­in, litu dags­ins ljós á Bretlandi. Það var hóp­ur vefara árið 1844 í bæn­um Rochdale á Norður-Englandi sem kom á lagg­irn­ar fyrsta sam­vinnu­fé­lag­inu. Vefar­arn­ir stóðu frammi fyr­ir lé­leg­um starfsaðstæðum, bág­um kjör­um og háu hrá­efn­is­verði. Í stað þess að starfa hver í sínu horni form­gerðu þeir sam­vinnu sína með sam­vinnu­fé­lagi, sam­nýttu fram­leiðsluþætti og juku þannig slag­kraft sinn til þess til þess að stunda viðskipti. Þeir opnuðu versl­un, eða kaup­fé­lag, og deildu hlut­deild í vel­gengni versl­un­ar­inn­ar með viðskipta­vin­um sín­um sem meðlim­ir í fé­lag­inu. Viðskipta­vin­irn­ir öðluðust jafn­an at­kvæðarétt í fé­lag­inu og áttu þannig sam­eig­in­legra hags­muna að gæta. Sam­vinnu­fé­lög urðu að sam­hjálp til sjálfs­bjarg­ar og höfðu al­mannaþjón­ustu að leiðarljósi með áherslu á nærum­hverfið. Fyrstu kaup­fé­lög­in voru hluti af þjóðfrels­is­bar­áttu okk­ar Íslend­inga. Bænd­ur í Þing­eyj­ar­sýslu voru vel lesn­ir í evr­ópsk­um frels­is­fræðum og árið 1882 stofnuðu þeir fyrsta kaup­fé­lagið til að ráða sjálf­ir versl­un og viðskip­um. Þar voru all­ir jafn­ir og sam­einaði þetta ný­inn­flutta form sjálf­stæði, fram­fara­vilja og lýðræði. Í kjöl­farið óx sam­vinnu­hreyf­ing­unni fisk­ur um hrygg hér­lend­is, sam­vinnu­fé­lög­um fjölgaði ört um allt land og urðu þau fyrstu keppi­naut­ar er­lendra kaup­manna hér á landi.

Kröf­ur tíðarand­ans

Þrátt fyr­ir áskor­an­ir og öldu­dali, sem sam­vinnu­hreyf­ing­in hér­lend­is gekk í gegn­um á árum áður, hef­ur þörf­in fyr­ir sterka sam­vinnu­hug­sjón sjald­an verið jafn rík og nú. Fyr­ir­mynd­ar­sam­vinnu­fé­lög eru rek­in hér á landi og sam­vinnu­hreyf­ing­in hef­ur haldið áfram að dafna er­lend­is, til að mynda í Evr­ópu og vest­an­hafs. Þannig eru Banda­rík­in merki­leg­ur jarðveg­ur ný­sköp­un­ar í sam­vinnu­starfi. Jafn­vel fyr­ir­tæki í tækni­grein­um, hug­búnaði og fjöl­miðlun sækja fyr­ir­mynd­ir í kaup­fé­lög og gera þannig sam­vinnu og lýðræði að horn­stein­um. Ung­ar og upp­lýst­ar kyn­slóðir okk­ar tíma sækja inn­blást­ur í sam­vinnu­formið og álíta það spenn­andi val­kost til að tak­ast á við áskor­an­ir sam­tímas. Klasa­starf­semi og sam­vinnu­hús af ýmsu tagi eru dæmi um það. Krafa tím­ans er enn meira sjálf­stæði, sterk­ari rétt­ur al­menn­ings og sam­fé­lags, fram­far­ir á öll­um sviðum með lýðræði og jafn­rétti að leiðarljósi – rétt eins og í Þing­eyj­ar­sýslu forðum daga.

Fjöl­breytt­ir far­veg­ir til ár­ang­urs

Með of­an­greint í huga mun viðskiptaráðherra meðal ann­ars hrinda af stað end­ur­skoðun á lög­um um sam­vinnu­fé­lög á kjör­tíma­bil­inu til að auðvelda fólki við að vinna að sam­eig­in­leg­um hug­ar­efn­um sín­um. Sam­vinnu­fé­lags­formið get­ur verið hent­ug­ur far­veg­ur fyr­ir fólk til þess að tak­ast á við áskor­an­ir og bæta sam­fé­lagið. Heim­ur­inn stend­ur frammi fyr­ir fjöl­mörg­um úr­lausn­ar­efn­um sem ekki verða leidd til lykta nema með sam­vinnu, hvort sem um er að ræða í um­hverf­is­mál­um, mennta­mál­um, alþjóðaviðskipt­um eða öðru. Stjórn­völd eiga að tryggja eld­hug­um og hug­sjóna­fólki fjöl­breytta far­vegi til þess að tak­ast sam­eig­in­lega á við slík út­lausn­ar­efni.

Sam­fé­lag er sam­vinnu­verk­efni

Tæp­um 106 árum frá því að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn var stofnaður, höld­um við enn tryggð við þá sam­vinnu­hug­sjón sem flokk­ur­inn spratt upp úr. Það er ekki sjálfsagt fyr­ir stjórn­mála­afl að ná svo háum aldri. Fram­sókn er fjölda­hreyf­ing og 13.000 fé­lag­ar í flokkn­um, hring­inn í kring­um landið, eiga það sam­eig­in­legt að vilja vinna sam­vinnu­hug­sjón­inni braut­ar­gengi og stuðla að upp­byggi­leg­um stjórn­mál­um út frá miðjunni. Sem miðju­flokk­ur legg­ur Fram­sókn áherslu á praktísk­ar og öfga­laus­ar lausn­ir sem eru til þess falln­ar að bæta líf fólks ásamt því að geta unnið með ólík­um stjórn­mála­flokk­um til þess að bæta sam­fé­lagið ásamt því að sýna sterka for­ystu í rík­is­stjórn­ar­sam­starfi. Það hef­ur flokk­ur­inn margoft gert með góðum ár­angri; að brúa bilið milli ólíkra sjón­ar­miða við aðra flokka til þess að ná ár­angri fyr­ir land og þjóð. Við í Fram­sókn segj­um gjarn­an að sam­fé­lag sé sam­vinnu­verk­efni og í því er fólg­inn mik­ill sann­leik­ur.

Vilji fólks­ins

Stjórn­mála­flokk­ur þarf á hverj­um tíma að geta rýnt sjálf­an sig með gagn­rýn­um hætti, aðlag­ast nýj­um áskor­un­um sam­tím­ans, hlustað á grasrót sína og virt vilja fé­lags­manna. Það sama á við um þjóðfé­lag sem vill ná langt. Sú staðreynd að við get­um fjöl­mennt á sam­kom­ur víða um land til þess að fagna þess­um merka áfanga, sem full­veldið er í sögu þjóðar­inn­ar, er ekki sjálf­gefið. Sú elja og þraut­seigja sem forfeður okk­ar sýndu í sjálf­stæðis­bar­áttu þjóðar­inn­ar lagði grunn­inn að þeim stað sem við erum á í dag. Lýðveldið Ísland á sér bjarta framtíð og Fram­sókn mun halda áfram að vinna í þágu sam­fé­lags­ins með hug­mynda­fræði sam­vinn­unn­ar að leiðarljósi. Þau tæki­færi sem eru fyr­ir hendi til þess að sækja fram fyr­ir sam­fé­lagið eru fjöl­mörg. Það er okk­ar sam­eig­in­lega verk­efni sem þjóðar að grípa þau og tryggja að Ísland verði áfram í fremstu röð meðal þjóða heims og fagni full­veldi sínu um ókomna tíð. Í þess­um efn­um geym­ir saga sam­vinnu­starfs á Íslandi og víðar um ver­öld­ina dýr­mæta lær­dóma – fjár­sjóð á veg­ferð okk­ar til framtíðar. Við ósk­um lands­mönn­um öll­um gleðilegr­ar þjóðhátíðar.

Sig­urður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Fram­sókn­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Ásmund­ur Ein­ar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra og rit­ari Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 17. júní 2022.

Categories
Uncategorized

Geðheilbrigði er lýðheilsumál

Deila grein

20/06/2022

Geðheilbrigði er lýðheilsumál

Á lokadögum þingsins var stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 samþykkt. Stefnan ber með sér að rík áhersla er lögð á grunngildi sem hvetja til einstaklingsmiðaðrar heilbrigðisþjónustu á félagslegum grunni og stuðning í heilsueflingu á öllum æviskeiðum.

Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að auka skuli áherslu á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðisþjónustu. Ýmsu hefur verið áorkað undanfarin ár en ljóst er að enn skortir heildstæða og samhæfða nálgun í geðheilbrigðismálum. Það á við allt frá geðrækt, forvörnum og snemmbærum úrræðum til geðheilbrigðisþjónustu á öllum stigum og á milli velferðarþjónustukerfa og við dómskerfi.

Stefnan tekur mið af framangreindu og er sett fram með hliðsjón af fjórum kjarnaþáttum og áherslum, sem munu endurspeglast í þeim aðgerðum sem heilbrigðisráðuneytið mun móta.

Það skiptir miklu máli að við leggjum áherslu á mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og tryggjum að úrræði verði til staðar sem veitir viðeigandi þjónustu til þeirra barna sem eiga við geðræn vandamál að stríða. Aukin þekking og reynsla hefur leitt af sér aukinn skilning á mikilvægi þessa tímabils í lífi einstaklinga.

Gagnreyndar og fyrirbyggjandi aðgerðir

Hvaða varðar geðheilsu og vellíðan er mikilvægt að litið verði til fyrstu 1000 daga barnsins, sbr. skýrslu landlæknis um framtíðarsýn og tillögur að aðgerðum frá því í júní árið 2021.Í henni eru lagðar fram aðgerðir sem brýnt er að ráðast í á næstu árum. Þá er einnig mikilvægt að skoða sóknarfæri til að efla geðheilsu í æsku og líta þar til verndandi þátta sem vega hvað þyngst hvað hana varðar er tengjast æskuárunum.

Varðandi gagnreyndar og fjölbreyttar aðferðir við meðferð geðraskana er mikilvægt að nýta í ljósi bestu þekkingar sem fyrir hendi er hverju sinni. Auk þess ber að leggja áherslu á þverfaglega mönnun og fjölgun fagstétta. Heildræn geðheilbrigðisþjónusta á að vera samþætt og byggð á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð og endurhæfingu.

Notendasamráð og mælaborð geðheilsu

Stefnan gerir ráð fyrir stofnun Geðráðs þar sem allir helstu hagsmunaaðilar, stjórnvöld, fagfólk, notendur og aðstandendur koma saman og fjalla um málaflokkinn. Lagt er áherslu á að samhliða stofnun þess taki upp svokallað mælaborð geðheilsu. Slíkur gagnagrunnur væri til þess fallinn að auðvelda vinnslu og aðgengi að upplýsingum um geðheilbrigðismál og átta sig betur á stöðunni hverju sinni.

Með framtíðarsýn að leiðarljósi

Hér er um mikilvægt framfararskref að ræða og með samþykkt þessarar stefnu í geðheilbrigðismálum erum við að senda skýr skilaboð.

Skilaboð um að við ætlum að fjárfesta í geðheilsu fólks. Fjárfesta í fólki. Það skiptir máli að við tökum utan um þennan málaflokk af festu með framtíðarsýn að leiðarljósi.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. júní 2022.

Categories
Greinar

Níu ára stöðnun rofin

Deila grein

20/06/2022

Níu ára stöðnun rofin

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að Ísland eigi að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu. Við viljum að Ísland skipi sér í fremstu röð í baráttunni gegn loftlagsvánni og ætlum okkur að uppfylla ákvæði Parísarsamningsins. Við höfum jafnframt sett okkur markmið um að Íslands nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. Þetta eru góð markmið en umhverfisvernd felst ekki síður í því að vernda loftslagið og það gerist ekki nema með orkuskiptum. Orkuskipti eru ríkur þáttur í framlagi Íslands til að ná árangri í baráttunni við loftlagsvánna. En svo þeim markmiðum sé náð verðum við að tryggja aðgang að grænni orku með sjálfbærri þróun að leiðarljósi.

Hvaðan kemur orka framtíðarinnar?

Það liggur fyrir að auka þarf framboð á innlendri, endurnýjanlegri orku svo hægt sé að leysa af hólmi aðflutta orkugjafa líkt og olíu. En mikilvægt er að sátt ríki um þær virkjanir sem þarf til þess að byggja upp grænt og kolefnishlutlaust samfélag. Mestu skiptir að það verði gert af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins samhliða því að horft sé til betri orkunýtingar, þá þarf að koma í veg fyrir tap á orku úr orkukerfinu ásamt því að bæta nýtingu á þeim virkjunum sem fyrir eru. Vernd og friðun á tilteknum landsvæðum er nauðsynleg, en gæta þarf varúðar þegar ákveðið er að friðlýsa stór svæði til framtíðar. Enn er ósvarað um hvaðan orka framtíðarinnar eigi að koma og það er komandi kynslóða að taka ákvarðanir um það. Þó að með rammaáætlun nú séu ekki teknar ákvarðanir að setja tiltekin svæði í vernd þýðir það þó ekki að þau eigi að fara í nýtingu heldur skiljum við þær ákvarðanir eftir fyrir þingmenn framtíðarinnar. Orkusjálfstæði þjóða verður sífellt mikilvægara í kvikum heimi og nauðsynlegt að þjóðir geti brugðist hratt við breyttum forsendum.

Varfærin skref stigin með rammaáætlun

Rammaáætlunin er mikilvægt stjórntæki sem varðar vernd svæða og orkunýtingu og sem vert er að halda í og styrkja enn frekar. Hún nær yfir helstu orkulindir landsins og í meðferð hennar á að taka tillit til ólíkra hagsmuna á breiðum grundvelli. Því miður hefur það tafið framfarir hversu lengi rammaáætlun hefur staðið föst í þinginu því það er nauðsynlegt að fá hreyfingu á málin svo við getum staðið við skuldbindingar okkar. Það er mikilvægt að við nýtum landið okkar af varfærni því við viljum að komandi kynslóðir fái áfram að njóta náttúru landsins. Okkar dýrmætasti arfur til komandi kynslóða er hrein og tær náttúra, en svo við getum skilað af okkur arfinum með þeim hætti þurfum við að skipuleggja hvernig við göngum um náttúru landsins með skýrri framtíðarsýn. Rammaáætlun er ætlað að tryggja að nýting landsvæða byggist á langtímasjónarmiðum og víðtæku samráði um verndargildi náttúru og menningar, hagkvæmni og arðsemi. Lýðræðislegu ferli rammaáætlunar er nú lokið og langþráðu markmiði hefur verið náð.

Biðflokkur er ekki nýting

Í samræmi við markmið stjórnarsáttmálans hefur kostum í biðflokki verið fjölgað. Betra fer á því að virkjunarkostir séu flokkaðir í biðflokk heldur en verndar eða nýtingarflokk á meðan frekari gagna er aflað. Mikilvægt er að samfélagsleg áhrif og óvissa um raunveruleg áhrif framkvæmda á náttúru og lífríki liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin um hvort svæði eigi að fara í verndar eða nýtingaflokk. Ég vil árétta að þó svæði séu flutt í biðflokk þýðir ekki að þau séu sjálfkrafa komin í nýtingarflokk eða verndarflokk heldur er verið að endurmeta og endurskoða þessa kosti. Svæði geta aftur verið færð í fyrri flokka en það er langt síðan að fyrri verkefnastjórn gerði tillögu um þessi svæði og eðlilegt að þau séu endurskoðuð.

Þá hafa einnig kostir sem ekki áttu heima í biðflokki verið teknir út. Athugasemdir komu fram að fjölmarga virkjunarkosti væri að finna í biðflokki áætlunarinnar sem enginn virkjunaraðili hafi óskað eftir mati á. Um er að ræða 28 virkjunarkosti, ýmist til nýtingar vatnsafls eða jarðhita. Ástæða þess að viðkomandi virkjunarkostir eru flokkaðir í biðflokk er fyrst og fremst sú að ekki eru til nægjanleg gögn um viðkomandi virkjunarkost og því ekki nægilegar forsendur til að hægt sé að leggja til flokkun í verndarflokk eða nýtingarflokk. Á meðan virkjunarkosturinn flokkast í biðflokk eru takmörk lögð á aðra landnýtingu á svæðinu.

Þannig eru dæmi um að ekki sé hægt að friðlýsa virkjunarkosti í verndarflokki gegn orkuvinnslu þar sem virkjunarkostur innan sama svæðis er í biðflokki. Því mætti segja að viðkomandi virkjunarkostur sé að vissu leyti fastur í biðflokki þar sem enginn virkjunaraðili er að vinna í þróun hans og þar á meðal öflun nauðsynlegra gagna til að hægt sé að leggja til endanlega flokkun í vernd eða nýtingu.

Framtíðin býr í vindinum

Þá er beislun vindorku loksins komin á dagskrá fyrir alvöru. Fjölbreytni í orkuöflun stuðlar að bættu orkuöryggi og sveigjanleika orkukerfisins. Þó að Ísland búi enn yfir óbeisluðu vatnsafli

og jarðvarma, er skynsamlegt að auka fjölbreytni í orkugjöfum með hagnýtingu vindorku og annarra nýrra endurnýjanlegra orkukosta fyrir raforkuvinnslu. Vindorka er bæði hagkvæm og endurnýjanleg og sem slík einn af betri kostum til framtíðar orkuvinnslu.

Vindorkukostinum í Búrfellslundi var í meðförum þingsins færður úr biðflokki í nýtingarflokk. Meiri hlutinn nefndarinnar taldi að Búrfellslundur geti verið mikilvægur hluti þess að tryggja betur nýtingu þeirra vatnsaflsvirkjana sem fyrir eru á svæðinu auk þess sem það rennir styrkari stoðum undir orkuöryggi. Öll sú orka sem býr í vindinum getur verið lykilþáttur þegar kemur að því að tappa af þeim þrýstingi sem skapast hefur á kerfið síðustu ár vegna tafa í afgreiðslu á rammanum. Framtíðin býr svo sannarlega í vindinum.

Við þurfum að horfa til framtíðar

Í dag státar engin önnur þjóð af jafn háu hlutfalli grænnar orku af heildar orkunotkun og við Íslendingar gerum og af því getum við verið stolt. Langan tíma tekur að virkja nýja orkukosti, langtímaáætlanir þurfa að gera ráð fyrir orkukostum til að mæta framtíðarþörfum og auka þannig fyrirsjáanleika og stöðugleika. Því skiptir gríðarlegu máli að sú stöðnun sem ríkt hefur síðustu níu ár hafi verið rofin aðeins þannig er hægt að halda áfram nauðsynlegri vinnu. Möguleikar til þess að ná loftlagsmarkmiðum og orkuskiptum lifir nú áfram.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. júní 2022.

Categories
Fréttir

17. júní ávarp formanns!

Deila grein

17/06/2022

17. júní ávarp formanns!

Kæra Framsóknarfólk!

Upp er runninn sautjándi júní, þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga. Landið okkar hefur tekið græna litinn sem fer því svo vel. Og það á ekki einungis við tún, hlíðar og skóga heldur hefur græni liturinn færst yfir samfélagið. Sumir tala um grænu bylgjuna þegar rætt er um árangur Framsóknar í kosningunum í haust og vor. Fyrir ári síðan, í byrjun júní, var fylgi Framsóknar að mælast 10,4% sem var örlítið undir fylgi okkar í þingkosningunum 2017. Við höfðum á því kjörtímabili búið við slakar skoðanakannanir. Í september 2020, réttu ári fyrir þingkosningar, mældumst við með 6,7% fylgi í könnun Gallup. En við misstum ekki móðinn, gleymdum ekki erindi okkar og uppruna, heldur héldum ótrauð áfram að berjast fyrir stefnumálum okkar og hugsjónum.

Árangur Framsóknar hefur ekki orðið að veruleika fyrir einhverja heppni. Að baki þessa árangurs er þrotlaus vinna flokksfólks um allt land. Metnaðarfullir frambjóðendur mega síns lítils ef ekki væri fyrir öfluga grasrót sem leggur nótt við dag í kosningabaráttu fyrir þing- og sveitarstjórnarkosningar.

Á þjóðhátíðardaginn 2022 horfi ég stoltur á árangur okkar í Framsókn. Stoltur af því öfluga fólki sem flokkurinn hefur á að skipa um allt land. Stoltur af þeim krafti sem í fólkinu mínu býr, fólki sem gefst aldrei upp, fólki sem vinnur saman að því að bæta samfélagið okkar.

Ég er þakklátur fyrir það að standa í stafni þessa merka umbótaafls sem Framsókn er.

Ég óska ykkur, kæru félagar, gleðilegs þjóðhátíðardags og vona að sumarið verði ykkur gjöfult og gott.

Kær kveðja, Sigurður Ingi

Categories
Greinar

Ný straumhvörf í kvikmyndagerð á Íslandi

Deila grein

15/06/2022

Ný straumhvörf í kvikmyndagerð á Íslandi

Straum­hvörf urðu í um­hverfi kvik­mynda­gerðar árið 1999 þegar lög um end­ur­greiðslur vegna kvik­mynda­gerðar á Íslandi voru samþykkt. Með þeim var rekstr­ar­um­hverfi kvik­mynda­geir­ans eflt með 12% end­ur­greiðslu­hlut­falli á fram­leiðslu­kostnaði hér­lend­is. Síðan þá hef­ur alþjóðleg sam­keppni á þessu sviði auk­ist til muna og fleiri ríki hafa fetað í fót­spor Íslands þegar kem­ur að því að auka sam­keppn­is­hæfni kvik­mynda­geir­ans með það að mark­miði að laða að er­lend verk­efni og efla inn­lenda fram­leiðslu. Það er í takt við þá áherslu stjórn­valda víða í heim­in­um að efla skap­andi grein­ar og hug­vits­drif­in hag­kerfi sem skara fram úr.

Það er skýr sýn rík­is­stjórn­ar­inn­ar að Ísland eigi að vera í far­ar­broddi í því að efla skap­andi grein­ar og hug­verka­drif­inn iðnað. Með það í huga er ánægju­legt að segja frá að frum­varp um hækk­un end­ur­greiðslu­hlut­falls úr 25% í 35% í kvik­mynda­gerð er nú á loka­metr­um þings­ins. Mark­mið þess er að styðja enn frek­ar við grein­ina með hærri end­ur­greiðslum til að stuðla að því að fleiri stór verk­efni verði unn­in al­farið á Íslandi. Verk­efn­in þurfa að upp­fylla þrjú ný skil­yrði til að eiga kost á 35% end­ur­greiðslu. Í fyrsta lagi verða þau að vera að lág­marki 350 m.kr að stærð, starfs­dag­ar hér á landi þurfa að vera að lág­marki 30 og fjöldi starfs­manna sem vinna beint að verk­efn­inu þarf að vera að lág­marki 50.

Mark­mið laga­setn­ing­ar­inn­ar frá 1999 hef­ur gengið eft­ir en um­svif kvik­mynda­gerðar hafa auk­ist all­ar göt­ur síðan. Kvik­mynda­gerð hef­ur verið áber­andi í ís­lensku menn­ing­ar- og at­vinnu­lífi og hef­ur velta grein­ar­inn­ar þre­fald­ast und­an­far­inn ára­tug og nem­ur nú um 30 millj­örðum króna á árs­grund­velli en vel á fjórða þúsund starfa við kvik­mynda­gerð. Sí­fellt fleira ungt fólk starfar við skap­andi grein­ar eins og kvik­mynda­gerðina enda er starfs­um­hverfið fjöl­breytt og spenn­andi og ýmis tæki­færi til starfsþró­un­ar hér inn­an­lands sem og er­lend­is. Þá er einnig óþarft að telja upp öll þau stór­verk sem tek­in hafa verið upp að hluta hér á landi með til­heyr­andi já­kvæðum áhrif­um á ferðaþjón­ust­una og ímynd lands­ins. Þannig kom til dæm­is fram í könn­un Ferðamála­stofu frá sept­em­ber 2020 að 39% þeirra sem svöruðu sögðu að ís­lenskt lands­lag í hreyfi­mynda­efni, þ.e. kvik­mynd­um, sjón­varpsþátt­um og tón­list­ar­mynd­bönd­um, hefði m.a. haft áhrif á val á áfangastað.

Hærra end­ur­greiðslu­hlut­fall hér á landi mun því valda nýj­um straum­hvörf­um í kvik­mynda­gerð hér á landi og auka verðmæta­sköp­un þjóðarbús­ins. Með kvik­mynda­stefnu fyr­ir Ísland til árs­ins 2030 hafa stjórn­völd markað skýra sýn til að ná ár­angri í þess­um efn­um – enda hef­ur Ísland mannauðinn, nátt­úr­una og innviðina til þess að vera framúrsk­ar­andi kvik­mynda­land sem við get­um verið stolt af. Ég er þakk­lát fyr­ir þann þver­póli­tíska stuðning sem er að teikn­ast upp við málið á Alþingi Íslend­inga og er ég sann­færð um að málið muni hafa já­kvæð áhrif á sam­fé­lagið okk­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 15. júní 2022

Categories
Fréttir

Ísland á að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu

Deila grein

14/06/2022

Ísland á að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður Þingflokks Framsóknar, sagði í umræðu um Rammaáætlun á Alþingi í dag að til að geta leyst farsællega úr misflóknum verkefnum verði að hafa þá eiginleika að geta horft til allra átta og geta átt gott samtal og samvinnu.

Rammaáætlun er mikilvægt stjórntæki, eitt af mörgum sem varðar vernd svæða og orkunýtingu, sem vert sé að halda í, efla og styrkja frekar. Hins vegar liggja fyrir fjölmargar athugasemdir um nauðsyn þess að löggjöfin verði endurskoðuð.

Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun verði endurskoðuð frá grunni til að tryggja ábyrga og skynsamlega nýtingu og vernd virkjunarkosta á Íslandi. Í ljósi reynslunnar er mikilvægt að í þá endurskoðun verði ráðist án tafar. Við þá endurskoðun skiptir höfuðmáli að skapa traust á því ferli sem rammaáætlun er, útrýma tortryggni og auka sátt um einstaka virkjunarkosti og forsendur fyrir því að ráðist yrði í nýtingu og vernd þeirra. Enn fremur er mikilvægt að endurskoðað ferli stuðli að markmiðum um orkuöryggi, orkusjálfstæði og sjálfbærni í takt við orkustefnu Íslands.

Ræða Ingibjargar Isaksen:

„Virðulegi forseti!

Ábyrgð okkar sem störfum hér á Alþingi er mikil og fyrir okkur liggja mörg misflókin verkefni. Til að geta leyst farsællega úr þeim þurfum við að hafa þá eiginleika að geta horft til allra átta. Hvort sem er til nútíðar, fortíðar en ekki síður til framtíðar. Að geta átt gott samtal og samvinnu verður oft og tíðum til þess að niðurstaða næst í flókin verkefni – svo var í vinnu tengdum svokölluðum ramma.

Allt í frosti frá 2013

Saman höfum við í umhverfis- og samgöngunefnd loksins náð sátt um ramman sem segja má að legið hafi í frosti allt frá árinu 2013. Þýðingarmikil og langþráð sátt og samstaða hefur nú verið náð, en fyrir nefndina hafa komið fjölmargir gestir og þakka ég þeim fyrir góð innlegg og umræður.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að Ísland eigi að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu. Við viljum að Ísland skipi sér í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsvánni og ætlum okkur að uppfylla ákvæði Parísarsamningsins. Við höfum jafnframt sett okkur markmið um að Íslands nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja.

Orkuskipti eru ríkur þáttur í framlagi Íslands til að ná árangri í baráttunni við loftslagsvánni. En svo þeim markmiðum sé náð verðum við að tryggja aðgang að grænni orku með sjálfbærri þróun að leiðarljósi. Okkar hlutverk er að nýta ekki meira en við þurfum, huga að sjálfbærni og umhverfisvænni lifnaðarháttum. Það er brýnt að við temjum okkur betra og heilbrigðara neyslumynstur.

Mikilvægt er að sátt ríki um þær virkjanir sem þarf til þess að byggja upp grænt og kolefnishlutlaust samfélag. Mestu skiptir að það verði gert af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins samhliða því að horft sé til betri orkunýtingar, þá þarf að koma í veg fyrir tap á orku úr orkukerfinu ásamt því að bæta nýtingu á þeim virkjunum sem fyrir eru.

Ósvarað um hvaðan orka framtíðarinnar eigi að koma

Rammaáætlunin er mikilvægt stjórntæki sem varðar vernd svæða og orkunýtingu og sem vert er að halda í og styrkja enn frekar. Hún nær yfir helstu orkulindir landsins og í meðferð hennar á að taka tillit til ólíkra hagsmuna á breiðum grundvelli. Rammaáætlun er ætlað að tryggja að nýting landsvæða byggist á langtímasjónarmiðum og víðtæku samráði um verndargildi náttúru og menningar, hagkvæmni og arðsemi.

Mikilvægt er að þróa áfram þetta góða verkfæri okkar í ljósi breyttra áherslna í ferðaþjónustu, samfélaginu, skuldbindingum Íslands og stöðu í heimsmálum.  Ég fagna því að samstaða hafi loks náðist um þau atriðið sem tiltekin eru í nefndaráliti, það er vissulega ekki sjálfgefið.

Stór hluti af landinu er nú þegar í nýtingu eða vernd sem einnig telst til nýtingar. Það er mikilvægt að við nýtum landið okkar af varfærni því við viljum að komandi kynslóðir fái að njóta ósnortinnar náttúru. Okkar dýrmætasti arfur til komandi kynslóða er hrein og tær náttúra, en svo við getum skilað af okkur arfinum með þeim hætti þurfum við að skipuleggja hvernig við göngum um náttúru landsins með skýrri framtíðarsýn.

Vernd og friðun á tilteknum landsvæðum er góðra gjalda verð, en gæta þarf varúðar þegar ákveðið er að friðlýsa stór svæði til framtíðar. Enn er ósvarað um hvaðan orka framtíðarinnar eigi að koma og það er ekki okkar að taka ákvarðanir um það fyrir komandi kynslóðir. Þó að við hér tökum ekki ákvarðanir að friðlýsa tiltekin svæði þýðir það þó ekki að við höfum fyrirætlanir að nýta þau, heldur skiljum við þær ákvarðanir eftir fyrir þingmenn framtíðarinnar.

Orkusjálfstæði þjóða verður sífellt mikilvægara í kvikum heimi og nauðsynlegt að þjóðir geti brugðist hratt við breyttum forsendum.

Í þessu samhengi má þar nefna virkjunarkostir í Skjálfandafljóti, þ.e. Fljótshnúksvirkjun, Hrafnabjargavirkjun A, B og C, en þeir eru í verndarflokki samkvæmt fyrirliggjandi tillögu og telur meiri hlutinn ekki tilefni til að leggja til breytingar á því. Skjálfandafljót er eitt af þeim svæðum þar sem leggja þarf mat á friðlýsingu heilla vatnasviða samhliða endurskoðun á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Ekki er rétt að taka ákvörðun um friðlýsingu heilla vatnasviða fyrr en þetta mat liggur fyrir.

Þá hefur í samræmi við markmið stjórnarsáttmálans kostum í biðflokki verið fjölgað. Betra fer á því að virkjunarkostir séu flokkaðir í biðflokk heldur en verndar eða nýtingarflokk á meðan frekari gagna er aflað. Mikilvægt er að samfélagsleg áhrif og óvissa um raunveruleg áhrif framkvæmda á náttúru og lífríki liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin um hvort svæði eigi að fara í verndar eða nýtingarflokk.

Það að svæði séu flutt í biðflokk þýðir ekki að þau séu sjálfkrafa komin í nýtingarflokk eða verndarflokk heldur er verið að endurmeta og endurskoða þessa kosti, það er langt síðan að fyrri verkefnastjórn gerði tillögu um þessi svæði og síðan hefur margt breyst.

Þá hafa einnig kostir sem ekki áttu heima í biðflokki verið teknir út. Athugasemdir komu fram að fjölmarga virkjunarkosti væri að finna í biðflokki áætlunarinnar sem enginn virkjunaraðili hafi óskað eftir mati á. Má þar nefna meðal annars virkjunarkosti á Torfajökulssvæðinu, í laxveiðiám á Austurlandi og aðra kosti sem Orkustofnun hefur að eigin frumkvæði og á grundvelli heimildar í lögum nr. 48/2011 falið verkefnisstjórn að fjalla um.

Um er að ræða 28 virkjunarkosti, ýmist til nýtingar vatnsafls eða jarðhita. Ástæða þess að viðkomandi virkjunarkostir eru flokkaðir í biðflokk er fyrst og fremst sú að ekki eru til nægjanleg gögn um viðkomandi virkjunarkost og því ekki nægilegar forsendur til að hægt sé að leggja til flokkun í verndarflokk eða nýtingarflokk.

Á meðan virkjunarkosturinn flokkast í biðflokk eru hins vegar takmörk lögð á aðra landnýtingu á svæðinu. Þannig eru dæmi um að ekki sé hægt að friðlýsa virkjunarkosti í verndarflokki gegn orkuvinnslu þar sem virkjunarkostur innan sama svæðis er í biðflokki.

Því mætti segja að viðkomandi virkjunarkostur sé að vissu leyti fastur í biðflokki þar sem enginn virkjunaraðili er að vinna í þróun hans, og þar á meðal öflun nauðsynlegra gagna til að hægt sé að leggja til endanlega flokkun í vernd eða nýtingu. Því leggur meiri hlutinn til sem hluti af þeirri sátt sem mikilvægt er að náist um áætlunina að fella þessa tilteknu kosti úr áætluninni þar sem enginn virkjunaraðili stendur að baki þeim. Þetta tel ég vera mikilvægt og nauðsynlegt skref.

Framtíðin býr í vindinum

Þá er beislun vindorku loksins komin á dagskrá fyrir alvöru. Fjölbreytni í orkuöflun stuðlar að bættu orkuöryggi og sveigjanleika orkukerfisins. Þó að Ísland búi enn yfir óbeisluðu vatnsafli og jarðvarma, er skynsamlegt að auka fjölbreytni í orkugjöfum með hagnýtingu vindorku og annarra nýrra endurnýjanlegra orkukosti fyrir raforkuvinnslu.

Vindorka er bæði hagkvæm og endurnýjanleg og sem slík einn af betri kostum til framtíðar orkuvinnslu. Í fyrirliggjandi tillögu er í fyrsta sinn að finna virkjunarkosti í vindorku. Vindorkukostinum í Búrfellslundi er raðað í biðflokk í fyrirliggjandi tillögu með þeim rökum að hann sé á röskuðu svæði sem hafi lágt verndargildi en áhrif hans á ferðamennsku og útivist séu hins vegar mikil.

Meirihluti nefndarinnar leggur þó til að virkjunarkosturinn verði færður úr biðflokki í nýtingarflokk með þeim rökum að virkjunarkosturinn er á hendi opinbers fyrirtækis og á svæði sem er þegar raskað og með lágt verndargildi. Auk þess sem sjónræn áhrif eru töluvert minni en upphaflega var áætlað. Þá telur meirihlutinn að Búrfellslundur geti verið mikilvægur hluti þess að tryggja betur nýtingu þeirra vatnsaflsvirkjana sem fyrir eru á svæðinu auk þess sem það rennir styrkari stoðum undir orkuöryggi.

Öll sú orka sem býr í vindinum getur verið lykilþáttur þegar kemur að því að tappa af þeim þrýstingi sem skapast hefur á kerfið síðustu ár vegna tafa í afgreiðslu á rammanum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að setja eigi sérstök lög um nýtingu vindorku með það að markmiðið að einfalda uppbyggingu vindorkuvera. Leggja á áherslu á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verður að tryggja afhendingaröryggi og lágmarka umhverfisáhrif. Framtíðin býr svo sannarlega í vindinum.

Í dag státar engin önnur þjóð af jafn háu hlutfalli grænnar orku af heildarorkunotkun og við Íslendingar gerum. Af því getum við verið stolt. Langan tíma tekur að virkja nýja orkukosti, langtímaáætlanir þurfa að gera ráð fyrir orkukostum til að mæta framtíðarþörfum og auka þannig fyrirsjáanleika og stöðugleika. Því skiptir gríðarlegu máli að sátt hafi náðst um þann ramma sem við leggjum fram hér í dag. Takk fyrir góða vinnu.“

Categories
Fréttir

Störf þingsins: Stefán Vagn og Ágúst Bjarni

Deila grein

14/06/2022

Störf þingsins: Stefán Vagn og Ágúst Bjarni

Stefán Vagn Stefánsson og Ágúst Bjarni Garðarsson voru í störfum þingsins á Alþingi í dag.

Stefán Vagn ræddi löggæslumál og stöðu löggæslunnar á Íslandi. Fór hann yfir að mat sitt væri að þær breytingar að lögregluembættin fengu sérstakan lögreglustjóra hafi verið mikið gæfuspor og lyft lögreglunni og löggæslunni upp á annan og miklu betri stall. En það veki undrun sína með nýju lögregluráði að ekki er einn einasti lögreglumaður í því lögregluráði. Mikilvægt væri að rödd lögreglumanna fái að heyrast á slíkum samráðsvettvangi þegar verið er að ræða um framtíð og stefnu lögreglunnar til komandi ára.

Ágúst Bjarni sagði það mikilvægt og nauðsynlegt að tryggja hér öfluga uppbyggingu um land allt, samvinnuverkefnið milli ríkis og sveitarfélaga og sagðist hann fagna þeim aðgerðum sem ríkið hefur boðað í þeim efnum til að tryggja að svo verði. Nefndi hann að spennan sem er nú á markaðnum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, hafi margvísleg áhrif á heimili og stöðu þeirra. Ákveðnir hópar hafa verið að stækka við sig og spennt bogann og hækkandi vaxtastig hafi haft veruleg áhrif á mánaðarlegar greiðslur þess hóps og auðvitað annarra. Vill hann hvetja sveitarfélög til að stilla álagningarstuðulinn af með þeim hætti að hækkunin bitni ekki öll á íbúum sveitarfélaganna. Sveitarfélögin hafi til þess fullt vald.

Stefán Vagn Stefánsson í störfum þingsins:

„Virðulegur forseti. Það sem mig langar að gera að umtalsefni mínu hér í ræðu í dag eru löggæslumál og staða löggæslunnar á Íslandi. Sá málaflokkur er reyndar efni í umræðu í heilan dag en mig langar að taka eitt mál sérstaklega til umfjöllunar úr þeim fjölmörgu álitaefnum sem koma til greina þegar lögreglan er annars vegar.

Sameining lögregluembættanna og aðskilnaður við sýslumenn 2015 var mikið framfaraskref fyrir lögregluna. Ég vil meina að þær breytingar að lögregluembættin fengu sérstakan lögreglustjóra hafi verið mikið gæfuspor og lyft lögreglunni og löggæslunni upp á annan og miklu betri stall. Þær breytingar tókust almennt vel þó svo að í slíkum breytingum séu alltaf einhverjir hnökrar sem þarf að laga, en núna árið 2022 eru þeir flestir ef ekki allir í baksýnisspeglinum. Engin stofnun er þó sterkari en starfsfólkið sem í henni starfar. Mikill mannauður er í lögreglunni og það er mikilvægt að hlúa vel að starfsmönnum og tryggja að þeir geti þroskast og eflst í starfi, sér og embættunum til framdráttar. Með nýju lögregluráði var komið á samstarfsvettvangi lögreglustjóra um framtíð og stefnu löggæslunnar til komandi ára. Það er vel. Það er þó eitt sem vekur undrun mína og hefur gert frá stofnun lögregluráðs, það er einfaldlega sú staðreynd að ekki er einn einasti lögreglumaður í því lögregluráði. Það er mikilvægt að rödd lögreglumanna fái að heyrast á slíkum samráðsvettvangi þegar verið er að ræða um framtíð og stefnu lögreglunnar til komandi ára.

Virðulegur forseti. Ég skora á dómsmálaráðherra að gera bragarbót á því og tryggja að rödd lögreglumanna, fagstéttarinnar, fái að heyrast í lögregluráði í framtíðinni og gera breytingar sem til þarf á lögregluráði svo lögreglan muni eiga fulltrúa þar í framtíðinni.“

***

Ágúst Bjarni Garðarsson í störfum þingsins:

„Virðulegur forseti. Ég vil gera stöðuna á húsnæðismarkaði að umtalsefni mínu og hef svo sem gert það áður í þessum ræðustól. Það er mikilvægt í ljósi þeirrar stöðu sem við öll stöndum frammi fyrir og það er nauðsynlegt og samvinnuverkefni milli ríkis og sveitarfélaga að tryggja hér öfluga uppbyggingu um land allt. Ég fagna þeim aðgerðum sem ríkið hefur boðað í þeim efnum til að tryggja að svo verði. Það þarf að stytta alla ferla — ég þekki það bara af eigin raun og ég held að við könnumst öll við það sem hér erum inni — án þess auðvitað að það bitni á vinnubrögðum framkvæmdaraðila. Í þessu samhengi er mikilvægt að treysta þær stofnanir sem mikilvægar eru svo tillögur að uppbyggingu fái sanngjarna og faglega meðferð og afgreiðslu. Við sjáum það öll að það álag sem er nú á markaðnum, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, hefur margvísleg áhrif á heimili og stöðu þeirra. Ákveðnir hópar hafa verið að stækka við sig og spenna bogann, ef svo má segja, og hækkandi vaxtastig hefur haft veruleg áhrif á mánaðarlegar greiðslur þess hóps og auðvitað annarra. Við sjáum það núna á nýlegri hækkun á miklu fasteignamati og ég held að það sé rétt í því sambandi að hvetja sveitarfélög til að stíga þar inn og — hvað segir maður? — éta þessa hækkun ekki í einum bita heldur stilla álagningarstuðulinn af með þeim hætti að hækkunin bitni ekki öll á íbúum sveitarfélaganna. Sveitarfélögin hafa til þess fullt vald.“

***