Categories
Fréttir

36. Flokksþing Framsóknar

Deila grein

15/02/2022

36. Flokksþing Framsóknar

36. Flokksþing Framsóknar verður haldið helgina 19.-20. mars á Grand hótel við Sigtún í Reykjavík.

Framsókn heldur reglulegt flokksþing sem haustfundur miðstjórnar boðar til, eigi sjaldnar en annað hvert ár og skal það að jafnaði haldið fyrri hluta árs. Flokksþing Framsóknarmanna ákveður meginstefnu flokksins í landsmálum, setur flokknum lög og hefur æðsta vald í málefnum hans.

Á flokksþingi skal kjósa formann Framsóknarflokksins og skal hann jafnframt vera formaður miðstjórnar flokksins. Þá skal á flokksþingi kjósa varaformann, ritara og tvo skoðunarmenn reikninga. Einnig skal kjósa tvo meðstjórnendur í laganefnd og tvo til vara. Ennfremur skal kjósa tvo meðstjórnendur siðanefndar og tvo til vara.

Hvert flokksfélag hefur rétt til að senda einn fulltrúa með atkvæðisrétt á flokksþing fyrir hverja 15 félagsmenn eða brot úr þeirri tölu. Jafnmargir varamenn skulu kjörnir. Fulltrúatala skal miðast við félagatal eins og það liggur fyrir á skrifstofu flokksins 30 dögum fyrir flokksþing, þó að teknu tilliti til gr. 2.4. Um fyrirkomulag kosninga fulltrúa fer eftir lögum einstakra aðildarfélaga. Aðildarfélög skulu tilkynna val sitt á fulltrúum á flokksþing til skrifstofu flokksins eigi síðar en viku áður en flokksþing er sett.

Allir félagsmenn í flokknum hafa rétt til að sækja flokksþing og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.

Miðstjórnarmenn eiga sæti á flokksþingi með atkvæðisrétti.

Hátíðarskemmtun verður laugardagskvöldið 19. mars.

Nánari dagskrá verður send út í næstu viku.

Mikilvægar dagsetningar:

  • 17. febrúar – viðmiðunardagur fulltrúatölu aðildarfélaga.
  • 4. mars – lagabreytingum skal í síðasta lagi á miðnætti skilað inn til flokksskrifstofu.
  • 12. mars – kjörbréfum skal í síðasta lagi á hádegi skilað inn til flokksskrifstofu.

Verð á hótelherbergjum:

  • Einstaklingsherbergi með morgunmat kr. 18.900,-
  • Tveggja manna herbergi með morgunmat kr. 21.900,-
Categories
Fréttir

Komdu inn úr kuldanum

Deila grein

15/02/2022

Komdu inn úr kuldanum

Næstu daga og vikur verða ráðherrar og þingmenn Framsóknar með opna fundi víðs vegar um landið. Þá gefst gott tækifæri til að ræða þau mál sem helst brenna á fólki.

Við hlökkum til að sjá ykkur!

Föstudagur 11. mars:

12:00 – Patreksfjörður – samkomuhúsið FLAK

19:00 – Dokkan Brugghús – Ísafjörður (súpufundur)

Categories
Fréttir

Þingmannanefnd EFTA og EES kom saman

Deila grein

12/02/2022

Þingmannanefnd EFTA og EES kom saman

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og formaður þingmannanefndir EFTA og EES, átti í vikunni annríka en afar skemmtilega daga í Brussel. Þingmannanefndin fjallar um starfsemi EFTA, gerð fríverslunarsamninga, málefni EES og ESB og efnahags- og viðskiptamál almennt og hefur það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA.

Á fundunum var farið var um víðan völl, rædd staða alþjóðaviðskipta og störf Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Farið var yfir ýmsa þætti er varða viðskiptastefnu ESB. Eins fékk nefndin fræðslu um fríverslunarnet EFTA og framhaldið í næstu samningum og verkefnin sem framundan eru.

Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss og sitja þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja í þingmannanefnd EFTA. Þar sem Svisslendingar ákváðu að standa utan við EES varð þingmannanefnd EFTA að formi til tvískipt, með gildistöku EES-samningsins, þ.e. annars vegar upphaflega nefndin, með aðildarríkjunum fjórum, og hins vegar nefnd ríkjanna þriggja sem mynda EFTA-hluta EES.

Nefndirnar halda hins vegar ávallt fundi saman og því sitja Svisslendingar sem áheyrnarfulltrúar þegar rædd eru málefni sem eingöngu varða EES-hluta nefndarinnar. Sviss á einnig áheyrnaraðild að fundum hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES.

Categories
Greinar

Muggur, myndlistin og menningararfurinn

Deila grein

11/02/2022

Muggur, myndlistin og menningararfurinn

Und­an­farna mánuði hef­ur sýn­ing­in MUGG­UR – Guðmund­ur Thor­steins­son staðið yfir í Lista­safni Íslands. Guðmund­ur (1891-1924), eða Mugg­ur, er einn merk­asti og af­kasta­mesti mynd­listamaður þjóðar­inn­ar – og í raun okk­ar fyrsti fjöll­istamaður. Ung­ur að árum flutt­ist hann til Kaup­manna­hafn­ar árið 1903 ásamt fjöl­skyldu sinni þar sem hann nam mynd­list við Kon­ung­lega lista­há­skól­ann á ár­un­um 1911-1915. Þrátt fyr­ir stutta ævi skildi Mugg­ur eft­ir sig nokkuð fjöl­breytt safn verka sem bera þess glöggt merki að hæfi­leik­um hans voru fá tak­mörk sett eins og rakið er í veg­legri bók sem Lista­safn Íslands gaf út hon­um til heiðurs árið 2021.

Mugg­ur, ásamt fleiri merk­um mynd­list­ar­mönn­um þjóðar­inn­ar, hef­ur und­ir­byggt sterk­an grunn fyr­ir menn­ing­ar­líf sam­tím­ans. Á Íslandi rík­ir kraft­mik­il og lif­andi mynd­list­ar­menn­ing og mynd­list­ar­starf­semi. Mynd­list leik­ur stórt hlut­verk í sam­fé­lag­inu. Hún er órjúf­an­leg­ur hluti af mennt­un, þroska og dag­legu lífi fólks um allt land. Mynd­listar­fólk er metið að verðleik­um og áhersla er á kennslu og nám í mynd­list og lista­sögu á öll­um skóla­stig­um. Mynd­list á vax­andi sam­fé­lags­legu hlut­verki að gegna og stuðlar að gagn­rýnni og skap­andi hugs­un og umræðu.

Fram und­an er til­efni til að beina sjón­um að frek­ari tæki­fær­um til vaxt­ar. Sköp­un ís­lenska lista­manna fang­ar at­hygli fólks hér á landi sem og er­lend­is. Árang­ur­inn birt­ist í fleiri tæki­fær­um ís­lenskra lista­manna til þátt­töku í kraft­mik­illi safn­a­starf­semi og vönduðum sýn­ing­um um allt land. Einnig end­ur­spegl­ast ár­ang­ur­inn í þátt­töku á virt­um alþjóðleg­um viðburðum og sýn­ing­um. Eft­ir­spurn eft­ir kaup­um á ís­lensk­um lista­verk­um er um­tals­verð.

Mynd­list verður eitt af áherslu­mál­um mín­um í ný­stofnuðu menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyti og hef ég boðað að ný mynd­list­ar­stefna verði kynnt á fyrstu 100 starfs­dög­um ráðuneyt­is­ins og að inn­leiðing henn­ar verði í for­grunni á næstu árum.

Stefn­an mun kalla á fjöl­breytt­an stuðning við list­sköp­un, mennt­un, mynd- og miðlalæsi sem styðji við kraft­mikla mynd­list­ar­menn­ingu og vit­und­ar­vakn­ingu á meðal al­menn­ings. All­ar for­send­ur eru til þess að efla mynd­list sem enn sýni­legri og öfl­ugri at­vinnu­grein sem að varp­ar já­kvæðu ljósi á landið okk­ar.

Ég hvet alla áhuga­sama til að heim­sækja Lista­safn Íslands um helg­ina, sem verður síðasta sýn­inga­helgi „MUGG­UR – Guðmund­ur Thor­steins­son“, og virða fyr­ir sér fjöl­breytt fram­lag hans til ís­lensks menn­ing­ar­arfs.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 11. febrúar 2022

Categories
Greinar

Raun­hæfar að­gerðir til handa heimilum

Deila grein

10/02/2022

Raun­hæfar að­gerðir til handa heimilum

Vaxandi verðbólga veldur eðlilega ákveðnum áhyggjum og það mun skipta máli hvernig brugðist verður við þeirri stöðu. Það er því rétt að fara yfir stöðuna eins og hún er. Það er ljóst að kaupmáttur launa hefur ekki verið hærri í mjög langan tíma. Sú staða er tilkomin vegna þess að efnahagsstjórn landsins hefur verið traust á undanförnum árum sem dregur að einhverju marki úr nauðsyn þess að grípa þurfi til sértækra aðgerða. Af því sögðu er rétt að taka fram að við í Framsókn munum áfram standa vörð um hagsmuni tekjulægstu hópana og þá sem finna munu hvað mest fyrir þessu tímabundna ástandi og vaxtahækkun Seðlabankans.

Húsnæðisverð

Hér á Íslandi er það húsnæðisverð sem knýr verðbólguna áfram. Staðan er einfaldlega tilkomin vegna íbúðaskorts, m.a. vegna þéttingarstefnu borgarinnar, sem hefur leitt til talsverðar hækkunar á húsnæðisverði. Það er verið að byggja dýrt húsnæði á dýrum svæðum í stað þess að mynda ný og spennandi hverfi og auka framboð lóða. Afleiðingarnar eru augljósar og áberandi; hátt húsnæðisverð. Nú á markmið næstu mánaða að vera að tryggja viðunandi framboð lóða ásamt því að auka áherslu á byggingu hagkvæms húsnæðis. Í því sambandi liggur beinast við að ráðast tafarlaust í endurskoðun á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Að því sögðu, þá fagna ég nýju innviðaráðuneyti sem er mjög gott skref, tímabær þróun og mikilvægt innlegg í það verkefni að fá heildarsýn á skipulags- og húsnæðismálin almennt. Ég hef trú á því að þetta muni skila okkur því að allir ferlar verði betrumbættir og að öll skipulagsvinnan verði skilvirkari allt frá upphafi þar til hægt er að hefja framkvæmdir af krafti. Með þessu munum við ná ofangreindum markmiðum um að byggja meira og hraðar af góðu og hagkvæmu húsnæði.

Húsnæðisliðurinn í vísitölu neysluverðs

Varðandi umræðu um stuðning til tekjulægstu hópa samfélagsins vil ég minnast á umræður milli mín og fjármálaráðherra á Alþingi í vikunni. Þar spurðist ég fyrir um húsnæðisliðinn og hvort til stæði að taka húsnæðisliðinn úr vísitölu neysluverðs, jafnvel tímabundið á meðan við erum að komast yfir erfiðasta hjallann. Ráðherra fór vel yfir stöðuna og þá vinnu sem hófst á síðasta kjörtímabili varðandi húsnæðisliðinn en var verið sett á bið ef svo má segja. Þeirri vinnu er því ekki lokið.

Að mínu mati væri afnám húsnæðisliðsins, jafnvel tímabundið, vænlegt til árangurs í núverandi stöðu og myndi styðja best við þau heimili sem nú standa frammi fyrir talsverðri hækkun á lánum. Í dag mælist verðbólgan 5,7%, en án húsnæðisliðar stæði hún í 3,7%. Til lengri tíma gæfi það líklega réttari mynd að horfa til greiddrar húsaleigu, sem hefur verið stöðugri og ekki elt þær hækkanir að fullu leyti sem verið hafa á fasteignamarkaði undanfarið. Við þetta má bæta, og ég tel það bæði rétt og sanngjarnt, að nýta arðgreiðslur bankanna til að létta undir með heimilum og fyrirtækjum landsins sem munu finna fyrir hærra vaxtabyrði eftir vaxtahækkun Seðlabankans. Þetta hefur viðskiptaráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir, nú þegar haft orð á.

Varasamar vaxtahækkanir

Að lokum er mikilvægt að horfa til stýrivaxta. Þeir eru hagstjórnartæki Seðlabankans þegar hann telur nauðsyn vera á að grípa inn í sveiflur. Verðbólgan í dag er kostnaðarverðbólga. Því tel ég að SÍ eigi ekki að auka taumhald peningastefnunnar of hratt og mikilvægara sé að fara hægt í vaxtahækkanir og sjá hvort sú kostnaðarverðbólga sem við sjáum í dag sé ekki tímabundin og muni jafna sig um leið og við komumst í það horf sem við þekktum fyrir faraldurinn.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. febrúar 2022.

Categories
Fréttir

Framsókn í Múlaþingi stillir upp á framboðslista

Deila grein

09/02/2022

Framsókn í Múlaþingi stillir upp á framboðslista

Framsóknarfélag Múlaþings hefur falið uppstillingarnefnd að gera tillögu að framboðslista félagsins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Félagsfundur 29. janúar kaus ellefu fulltrúa í uppstillingarnefnd sem hefur tekið til starfa. Formaður nefndarinnar er Stefán Bogi Sveinsson en sérstakur framkvæmdahópur skipaður þremur erindrekum, Eygló Björgu Jóhannsdóttur, Kristjönu Björnsdóttur og Þorvaldi P. Hjarðar, heldur utan um vinnu við uppstillinguna milli funda nefndarinnar.

Þegar tillaga uppstillingarnefndar liggur fyrir mun verða boðað til félagsfundar þar sem framboðslistinn verður borinn upp til samþykktar.

Categories
Fréttir

Fjárhagsstaða sveitarfélaga grafalvarleg í kjölfar heimsfaraldurs

Deila grein

08/02/2022

Fjárhagsstaða sveitarfélaga grafalvarleg í kjölfar heimsfaraldurs

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, gerði að umtalsefni grafalvarlega fjárhagsstöðu sveitarfélaga í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19 á Alþingi.

„Það er þó ljóst að staða þeirra hefur versnað til muna og sum sveitarfélög glíma nú við mjög alvarlegan rekstrarvanda og rekstrarhorfur til framtíðar eru ekki bjartar,“ sagði Stefán Vagn.

Sambandi íslenskra sveitarfélaga birti í september á síðasta ári, samantekt þar sem kemur fram að útgjöld hækkuðu um 13,7% og þar af eru laun og tengd gjöld um 16,3%. Halli á rekstri nær tvöfaldaðist milli ára, fór úr 5,6 milljörðum í 10 milljarða, en halli á rekstri allra sveitarfélaganna í heild nemur um 8,9% af tekjum samanborið við 5,6% á sama tíma í fyrra. Á þetta við um fjögur stærstu sveitarfélög landsins, Reykjavík, Kópavog, Hafnarfjörð og Akureyri. Í þessum sveitarfélögum búa um 221.000 manns eða um 60% þjóðarinnar.

„Mestur var hallinn hjá Reykjavíkurborg eða 10,4% af tekjum sveitarfélagsins. Veltufé frá rekstri árið 2021 var neikvætt sem nemur 2,2% af tekjum og til samanburðar var veltufé frá rekstri jákvætt um 3,1% á sama tíma í fyrra. Skuldir og skuldbindingar námu, í lok júní 2021, um 250 milljörðum og hækkuðu um 13,9 milljarða frá áramótum eða 5,9%.

Af þessu má sjá að staða sveitarfélaga í landinu er grafalvarleg og ég skora á okkur öll sem hér erum á Alþingi að taka til alvarlegrar skoðunar tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga því að vitað er að þau verkfæri sem sveitarfélögin í landinu búa yfir, er kemur að styrkingu tekjustofna, eru verulega takmörkuð í samanburði við ríkið,“ sagði Stefán Vagn.

Categories
Fréttir

Íslenskir háskólar verði í fremstu röð í notkun stafrænna kennsluhátta

Deila grein

08/02/2022

Íslenskir háskólar verði í fremstu röð í notkun stafrænna kennsluhátta

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, sagði í umræðu á Alþingi um fjarnám og stafræna kennsluhætti á háskólastigi að á síðustu tveimur árum hafi almenn færni í notkun stafrænnar miðlunar, fjarvinnu og fjarkennslu tekið stökkbreytingum. Minnti hún þingheim á þingsályktun sína um „fjarnám á háskólastigi“ þar sem einmitt sé lagt til að skipaður verði starfshópur til að vinna aðgerðaáætlun um frekari eflingu fjarnáms með áherslu á þróun stafrænna kennsluhátta.

„Í tillögunni er lögð áhersla á að íslenskir háskólar verði í fremstu röð í notkun stafrænna kennsluhátta, bæði til að auka aðgengi að námi og gæði alls náms, hvort sem nemandi stundar námið innan veggja háskólanna eða í fjarnámi,“ sagði Líneik Anna. 

Líneik Anna kom að spurningum í ræðu sinni til ráðherra, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar og spurði hvernig hægt væri að fá háskóla til að auka framboð á stafrænu námi.  Eins spurði Líneik Anna hvort að til greina komi að skilgreina hópa fólks sem vegna sérstakra aðstæðna, svo sem búsetu, fjölskylduaðstæðna eða ástundunar afreksíþrótta, ættu rétt á tilteknum sveigjanleika í námi þó lögð sé stund á nám sem einkum eru í boði sem staðnám.

„Það er mikið hagsmunamál fyrir einstaklingana og samfélagið á landsbyggðinni að hægt sé að stunda nám án búferlaflutninga en jafnframt að afla þekkingar sem samfélögin þurfa á að halda, svo dæmi sé tekið í félagsráðgjöf og talmeinafræði sem mikið er kallað eftir. Einstaklingarnir hugsa auðvitað um hvað hægt sé að gera núna, ekki eftir fjögur ár þegar innleiðing stefnu háskólanna verður komið til framkvæmda,“ sagði Líneik Anna.

Categories
Fréttir

Tryggð sé sjálfbærni hafna og samfélaga þar sem er sjókvíaeldi

Deila grein

08/02/2022

Tryggð sé sjálfbærni hafna og samfélaga þar sem er sjókvíaeldi

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um „endurskoðun á laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis“.

Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skipa starfshóp til þess að yfirfara laga og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis með hliðsjón af gjaldtöku af fiskeldi. Markmið starfshópsins verði:

a. að taka saman yfirlit yfir heildargjaldtöku af fiskeldi og undir hverju tekjunum er ætlað að standa, sem og hvernig þær tekjur skiptast á milli ríkis og sveitarfélaga,

b. að tryggja sveitarfélögum þar sem sjókvíaeldi er stundað skýrar heimildir til töku gjalda af sjókvíaeldi,

c. að tryggja að tekjur af slíkri gjaldtöku standi undir nauðsynlegum verkefnum sveitarfélaga og tryggð sé sjálfbærni hafna og samfélaga þar sem sjókvíaeldi fer fram.

Endurskoðun sem felur í sér heildargreiningu á gjaldtöku ríkis og sveitarfélaga af fiskeldi og tillögur að lagabreytingu sem skýra heimildir til töku gjalda til að standa undir nauðsynlegri þjónustu ríkis og sveitarfélaga af sjókvíaeldi skal vera lokið og skýrsla kynnt Alþingi eigi síðar en í lok árs 2022.“

Halla Signý sagði að miðað við það magn sem burðarþolsgeta svæða sem fiskeldinu er afmarkað gæti numið allt að nær 65 milljörðum kr. í útflutningsverðmæti. Útflutningur á eldislaxi skilar orðið næstmestum verðmætum allra fisktegunda sem fluttar eru frá Íslandi. Verðmæti útflutningsins jókst um 29% á milli ára og fór vægi hans í 70% útflutningsverðmætis eldisafurða á árinu 2021.

„Árið 2004 var tekin ákvörðun af stjórnvöldum um að sjókvíaeldi yrði einungis leyft á hluta Austfjarða og Vestfjarða og í Eyjafirði. Sú ákvörðun byggðist á því að vernda þyrfti ár þar sem stundaðar væru veiðar á villtum laxastofni landsins. Frá því að þessi ákvörðun var tekin hefur verið mikil uppbygging í sveitarfélögum á Vestfjörðum og Austfjörðum sem hýsa þessa starfsemi. Sveitarfélögin hafa unnið af miklu kappi við að byggja upp og tryggja innviði sem þurfa að vera til staðar svo að starfsemin geti blómstrað. Hér er um að ræða uppbyggingu við hafnarsvæði og einnig uppbyggingu vegna fjölgunar íbúa og styrkingar grunnþjónustukjarna, svo sem grunn- og leikskóla,“ sagði Halla Signý.

Í greinargerð segir: „Sveitarfélögin njóta þess mikla drifkrafts sem fiskeldið hefur í för með sér. Íbúum fjölgar, atvinnutækifærin verða fjölbreyttari og aldurspíramídinn breytist því að hlutfallsleg fjölgun yngra fólks hefur orðið í umræddum sveitarfélögum. Þessu fylgja aukin verkefni og áskoranir til sveitarfélaga svo um munar. Sum samfélög þar sem íbúum hafði fækkað takast nú á við vaxtarverki í umfangsmikilli og kostnaðarsamri innviðauppbyggingu.“

Samkvæmt lögum um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð er tryggt að þriðjungur tekna af gjaldtöku af fiskeldi renni á komandi árum í fiskeldissjóð sem sveitarfélög geta sótt í til innviðauppbyggingar.

„Ljóst má vera að það dugar þó skammt fyrir innviðauppbyggingu sem sveitarfélög þurfa að ráðast í svo að koma megi til móts við vaxandi þörf vegna aukinna umsvifa fiskeldis. Lítil vissa er hjá sveitarfélögum um hve mikilla tekna er að vænta þar sem sveitarfélögin sækja hvert fyrir sig í sjóðinn og örðugt að áætla tekjur fram í tímann,“ sagði Halla Signý.

„Þar sem hér er um að ræða nýja og stóra atvinnugrein er brýn þörf á að yfirfara laga- og reglugerðaumhverfi gjaldtökunnar í heild, sérstaklega það sem snýr að sveitarfélögum þar sem sjókvíaeldi er stundað, og skýra heimildir sveitarfélaga til gjaldtöku. Tryggja þarf að tekjur af slíkri gjaldtöku standi undir nauðsynlegum verkefnum sveitarfélaga ásamt því að tryggð sé sjálfbærni þeirra hafna og samfélaga þar sem þessi atvinnustarfsemi er stunduð,“ sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

Atvinnulífið í lykilhlutverki í loftslagsmálum

Deila grein

08/02/2022

Atvinnulífið í lykilhlutverki í loftslagsmálum

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi loftslagsmál á Alþingi á liðinni viku. Sagði hún mikilvægt að þessi mál væru tekin upp reglulega hér í þingsal. Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið í stjórnarsáttmála um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Vorþingið mun síðan lögfesta markmið um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040. Hafin er vinna við að uppfæra og aðlaga aðgerðaáætlun í loftslagsmálum að þessum markmiðum.

„Ég vil leggja áherslu á samráð og samvinnu við að kortleggja verkefnið og leiðir að markmiðunum. Við höfum raunveruleg tækifæri til að ná þessum markmiðum í samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs, samvinnu ólíkra atvinnugreina, samvinnu atvinnulífs og háskóla um nýsköpun, samvinnu heimila og atvinnulífs og þannig mætti áfram telja. Það er mikill metnaður í samfélaginu sem getur skilað okkur langt. Þar er atvinnulífið í lykilhlutverki í samspili við þá umgjörð og hvata sem stjórnvöld setja,“ sagði Líneik Anna.

Líneik Anna sagði að atvinnulífið vera á tánum að svo mörgu öðru leyti því að vinna í loftslagsmálum væri liður í góðum rekstri fyrirtækja.

„Útgerðin er á fullu við að draga úr útblæstri og hefur sett sér markmið um að gera enn betur. Stór fyrirtæki vinna með skógarbændum að bindingu kolefnis. Þróun svokallaðra óvirkra rafskauta getur leitt til stökkbreytinga við að draga úr losun kolefnis frá álverum. Öll ræktun bindur kolefni í gróðri og til að ná sem bestum árangri á því sviði er mikilvægt að bændur geti nýtt þekkingu sína til kolefnisbindingar í landi og við ræktun orkujurta. Viðarnytjar skapa möguleika til að stuðla að sjálfbærni einstakra byggða og svo mætti áfram telja,“ sagði Líneik Anna að lokum.