Categories
Greinar

Breytingar í barna­vernd

Deila grein

07/06/2021

Breytingar í barna­vernd

Frumvarp um breytingar á barnaverndarlögum frá Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra hefur verið samþykkt úr velferðarnefnd. Nái frumvarpið fram að ganga munu meðal annars barnaverndarnefndir eins og við þekkjum þær lagðar af og umdæmi barnaverndarþjónustu stækkuð. Þessar breytingar eru sprottnar upp úr þeim breytingum sem eiga sér stað við samþættingu á barnaverndarþjónustu við aðra þjónustu í þágu farsældar barna, frumvörpum sem félags- og barnamálaráðherra hefur einnig lagt fram á yfirstandandi þingi. Um er að ræða fyrri hluta heildarendurskoðunar barnaverndarlaga.

Í samráði við sveitarfélögin

Gríðarmikil undirbúningsvinna hefur verið unnin og allt kjörtímabilið hefur verið haft mikið samráð við hlutaðeigandi aðila vegna þeirra breytinga sem liggja fyrir. Samráð hefur verið haft við sveitafélögin frá fyrsta stigi hugmyndanna auk þess sem þjónustuveitendur og þjónustuþegar hafa komið að borðinu. Með því að samþykkja þetta frumvarp er verið að gera miklar og umtalsverðar breytingar á umhverfi barnaverndar í sveitarfélögum, en þau bera ábyrgð á þessum málaflokki. Í dag eru 27 barnaverndarnefndir staðsettar vítt og breytt um landið. Lágmarksíbúatala að baki hverri barnaverndarþjónustu er miðuð við 1500 manns, við þessar breytingar hækkar það lágmark upp í 6000 manns.

Umdæmisráð

Gert er ráð fyrir að sett verði á stofn umdæmisráð barnaverndar sem hafi aðkomu að tilteknum ráðstöfunum barnaverndarþjónustu. Umdæmisráðin skulu vera sérstakar, sjálfstæðar og fjölskipaðar stjórnsýslueiningar á vettvangi sveitarfélaga. Sveitastjórn ber ábyrgð á því að skipa umdæmisráð sem skal starfa í fimm ár. Sveitarfélög geta gert samning sín á milli um samstarf um umdæmisráð enda er lágmarksstærð umdæmisins miðuð við 6000 íbúa. Umdæmisráðið er skipað að lágmarki þremur fagaðilum. Það skal taka ákvarðanir með úrskurði sem barnaverndarmál getur leitt af sér eins og vistun barns utan heimils, forsjársviptingu og umgengni í fóstri og eða vistun. Umdæmisráð eru sjálfstæð í störfum sínum og standa utan við almenna stjórnsýslu sveitarfélaga.

Farsæld barna í fyrirrúmi

Hér er um að ræða mestu breytingar sem ráðist hefur verið í síðustu áratugi. Verið er að gera grundvallarbreytingar á umgjörð og samsetningu barnaverndarnefnda, því í frumvarpinu felst að pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir verða lagðar niður. Þetta frumvarp er einnig partur af miklum breytingum á kerfinu sem ætlað er að gefa færi á samþættingu barnaverndarþjónustu sem veitt er í þágu barna. Þá er líka gert ráð fyrir ítarlegri þátttöku barna við meðferð sinna mála því það er réttur barna að fá upplýsingar um sín mál á barnvænan hátt. Barn frá 15 ára aldri getur veitt samþykki fyrir stuðningsúrræðum sem beinast einungis að því sjálfu svo eitthvað sé nefnd.

Hér er verið að svara þeirri gagnrýni sem hefur verið á umhverfi barnaverndar hér á landi í fjölda ára og mikilvægi þess að færa kerfið til nútímavitundar um réttindi barna.

Halla Signý Kristjánsdóttir er þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Halla Signý eru frambjóðendur til Alþingis fyrir sama flokk.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. júní 2021.

Categories
Fréttir

Framboðslistar Framsóknar

Deila grein

07/06/2021

Framboðslistar Framsóknar

Framboðslistar Framsóknar hafa verið samþykkt í öllum kjördæmum.

Hér að neðan má lesa nánar um framboðslista lokksins í hverju kjördæmi og dagskrána framundan.

Norðvesturkjördæmi

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn og forseti sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar er oddviti listans. Í öðru sæti er Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, háskólanemi og formaður Sambands ungra Framsóknarmanna. Þriðja sætið skipar Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður. Í fjórða sæti er Friðrik Már Sigurðsson, bóndi og formaður byggðarráðs Húnaþings vestra og fimmta sætið skipar Iða Marsibil Jónsdóttir, skrifstofu- og mannauðsstjóri og forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar. Sveinn Bernódusson, járnsmíðameistari í Bolungarvík, skipar heiðurssæti listans. 

Framboðslisti Framsóknar í Norðvesturkjördæmi:

1. Stefán Vagn Stefánsson, Sauðárkróki – Yfirlögregluþjónn og forseti sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
2. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Borgarbyggð – Háskólanemi og formaður Sambands ungra Framsóknarmanna.
3. Halla Signý Kristjánsdóttir, Önundarfirði – Alþingismaður.
4. Friðrik Már Sigurðsson, Húnaþingi vestra – Bóndi og formaður byggðarráðs Húnaþings vestra.
5. Iða Marsibil Jónsdóttir, Vesturbyggð – Skrifstofu- og mannauðsstjóri og forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar.
6. Elsa Lára Arnardóttir, Akranesi – Aðstoðarskólastjóri, formaður bæjarráðs Akraneskaupstaðar og f.v. alþingismaður.
7. Þorgils Magnússon, Blönduósi – Skipulags- og byggingarfulltrúi.
8. Gunnar Ásgrímsson, Sauðárkróki – Háskólanemi.
9. Kolbrún Ösp Guðrúnardóttir, Stykkishólmi – Nemi.
10. Jóhanna María Sigmundsdóttir, Búðardal – Verkefnastjóri og f.v alþingismaður.
11. Ragnheiður Ingimundardóttir, Strandabyggð – Verslunarstjóri.
12. Gauti Geirsson, Ísafirði – Nemi.
13. Sæþór Már Hinriksson, Sauðárkróki – Tónlistarmaður.
14. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, Borgarbyggð – Lögreglumaður.
15. Sigurdís Katla Jónsdóttir, Dalabyggð – Nemi.
16. Sveinn Bernódusson, Bolungarvík – Járnsmíðameistari.

***

Norðausturkjördæmi

Ingibjörg Ólöf Isaksen, framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi Akureyrarbæjar er oddviti listans. Í öðru sæti er Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður. Þriðja sætið skipar Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi og alþingismaður. Í fjórða sæti er Helgi Héðinsson, bóndi og oddviti Skútustaðahrepps. Fimmta sætið skipar Halldóra Hauksdóttir, lögfræðingur og sjötta sætið Kristinn Rúnar Tryggvason, bóndi.

Framboðslisti Framsóknar í Norðausturkjördæmi:

1. Ingibjörg Ólöf Isaksen, framkvæmdastjóri, Akureyri 
2. Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, Fáskrúðsfirði
3. Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi, Grýtubakkahreppi 
4. Helgi Héðinsson, oddviti, Skútustaðahreppi 
5. Halldóra Hauksdóttir, lögmaður, Akureyri 
6. Kristinn Rúnar Tryggvason, bóndi, Kelduhverfi 
7. Jónína Brynjólfsdóttir, viðskiptalögfræðingur, Egilsstöðum
8. Ari Teitsson, lífeyrisþegi, Þingeyjarsveit 
9. Brynja Rún Benediktsdóttir, verkefnastjóri, Húsavík
10. Eiður Gísli Guðmundsson,  leiðsögumaður, Djúpavogi
11. Íris Hauksdóttir, upplýsingafulltrúi, Dalvíkurbyggð
12. Sverre Andreas Jakobsson, handboltaþjálfari, Akureyri
13. Ásdís Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri, Fljótsdalshreppi
14. Halldóra Magnúsdóttir, leikskólastarfsmaður, Eyjafjarðarsveit
15. Eggert Stefánsson, bóndi, Þistilfirði
16. Rósa Jónsdóttir, nemi, Fjallabyggð
17. Bjarni Stefán Vilhjálmsson, verkstjóri, Stöðvarfirði
18. Alda Ósk Harðardóttir, snyrtifræðimeistari, Egilsstöðum
19. Anna Sigrún Mikaelsdóttir, húsmóðir, Húsavík 
20. Friðbjörn Haukur Guðmundsson, bóndi, Vopnafirði

***

Suðvesturkjördæmi

 Fram fór lokað prófkjöri í Suðvesturkjördæmi 8. maí.

Framboðslisti Framsóknar í Suðvesturkjördæmi:

  1. Willum Þór Þórsson, Kópavogi
  2. Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafnarfirði
  3. Anna Karen Svövudóttir, Hafnarfirði
  4. Kristín Hermannsdóttir, Kópavogi
  5. Ívar Atli Sigurjónsson, Kópavogi
  6. Svandís Dóra Einarsdóttir, Kópavogi
  7. Ómar Stefánsson, Kópavogi
  8. Halla Karen Kristjánsdóttir, Mosfellsbæ
  9. Baldur Þór Baldvinsson, Kópavogi
  10. Margrét Vala Marteinsdóttir, Hafnarfirði
  11. Valdimar Víðisson, Hafnarfirði
  12. Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, Garðabæ
  13. Einar Gunnarsson, Hafnarfirði
  14. Þorbjörg Sólbjartsdóttir, Mosfellsbæ
  15. Árni Rúnar Árnason, Hafnarfirði
  16. Dóra Sigurðardóttir, Seltjarnarnesi
  17. Páll Marís Pálsson, Kópavogi
  18. Björg Baldursdóttir, Kópavogi
  19. Sigurjón Örn Þórsson, Kópavogi
  20. Tinna Rún Davíðsdóttir Hemstock, Garðabæ
  21. Einar Sveinbjörnsson, Garðabæ
  22. Helga Björk Jónsdóttir, Garðabæ
  23. Einar Bollason, Kópavogi
  24. Hildur Helga Gísladóttir, Hafnarfirði
  25. Birkir Jón Jónsson, Kópavogi
  26. Eygló Harðardóttir, Mosfellsbæ

***

Reykjavík

Í Reykjavík fór fram uppstilling og aukakjördæmaþing afgreiddi tillögur að framboðslistunum.

Framboðslisti Framsóknar í Reykjavíkurkjördæmi suður:

  1. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, 47 ára, mennta- og menningarmálaráðherra
  2. Aðalsteinn Haukur Sverrisson, 47 ára, framkvæmdastjóri, MPM og formaður FR
  3. Sigrún Elsa Smáradóttir, 46 ára, framkvæmdastjóri og f.v. borgarfulltrúi
  4. Íris E. Gísladóttir, 29 ára, frumkvöðull í menntatækni og formaður UngFramsókn í Reykjavík
  5. Þorvaldur Daníelsson, 50 ára, stofnandi Hjólakrafts og MBA
  6. Guðni Ágústsson, 72 ára, f.v. alþingismaður og landbúnaðarráðherra
  7. Hafdís Inga Helgudóttir Hinriksdóttir, 40 ára, félagsráðgafi
  8. Ólafur Hrafn Steinarsson, 30 ára, formaður Rafíþróttasambands Íslands
  9. Ágúst Guðjónsson, 20 ára, lögfræðinemi
  10. Helena Ólafsdóttir, 51 árs, knattspyrnuþjálfari og þáttastjórnandi
  11. Guðrún Lolý Jónsdóttir, 21 árs, leikskólaliði og nemi
  12. Ingvar Mar Jónsson, 47 ára, flugstjóri
  13. Hinrik Viðar B. Waage, 28 ára, nemi í rafvirkjun
  14. Jóhanna Sóley Gunnarsdóttir, 59 ára, sjúkraliði
  15. Björn Ívar Björnsson, 33 ára, verkamaður
  16. Jón Finnbogason, 40 ára, sérfræðingur
  17. Þórunn Benný Birgisdóttir, 40 ára, BA í félagsráðgjöf og iðnnemi
  18. Stefán Þór Björnsson, 47 ára, viðskiptafræðingur
  19. Ásta Björg Björgvinsdóttir, 35 ára, tónlistarkona og forstöðukona í félagsmiðstöð
  20. Níels Árni Lund, 70 ára, f.v. skrifstofustjóri
  21. Frosti Sigurjónsson, 58 ára,  f.v. alþingismaður
  22. Sigrún Magnúsdóttir, 76 ára, f.v. ráðherra og borgarfulltrúi

Framboðslisti Framsóknar í Reykjavíkkjördæmi norður:

  1. Ásmundur Einar Daðason, 38 ára, félags- og barnamálaráðherra
  2. Brynja Dan, 35 ára, frumkvöðull og framkvæmdastjóri
  3. Þórunn Sveinbjörnsdóttir, 75 ára, fráfarandi formaður LEB
  4. Gauti Grétarsson, 60 ára, sjúkraþjálfari
  5. Magnea Gná Jóhannsdóttir, 24 ára, lögfræðingur
  6. Lárus Helgi Ólafsson, 33 ára, kennari og handboltamaður
  7. Unnur Þöll Benediktsdóttir, 25 ára, háskólanemi
  8. Guðjón Þór Jósefsson, 20 ára, laganemi
  9. Kristjana Þórarinsdóttir, 43 ára, sálfræðingur
  10. Ásrún Kristjánsdóttir, 72 ára, hönnuður og myndlistarkona
  11. Bragi Ingólfsson, 83 ára, efnafræðingur
  12. Snjólfur F. Kristbergsson, 81 árs, vélstjóri
  13. Eva Dögg Jóhannesdóttir, 38 ára, líffræðingur
  14. Sveinbjörn Ottesen, 61 árs, verkstjóri
  15. Gerður Hauksdóttir, 62 ára, skrifstofufulltrúi
  16. Friðrik Þór Friðriksson, 67 ára, kvikmyndagerðarmaður
  17. Þórdís Arna Bjarkarsdóttir, 25 ára, læknanemi
  18. Birna Kristín Svavarsdóttir, 68 ára, f.v. hjúkrunarforstjóri
  19. Haraldur Þorvarðarson, 44 ára, kennari og handboltaþjálfari
  20. Dagbjört S. Höskuldsdóttir, 73 ára, fyrrum verslunarkona
  21. Guðmundur Bjarnason, 76 ára, f.v. ráðherra
  22. Jón Sigurðsson, 74 ára, f.v. ráðherra og seðlabankastjóri

***

Suðurkjördæmi

Í Suðurkjördæmi fór fram lokað prófkjör laugardaginn 19. júní 2021.

Framboðslisti Framsóknar í Suðurkjördæmi:

  1. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Hrunamannahreppi
  2. Jóhann Friðrik Friðriksson, bæjarfulltrúi, Reykjanesbæ
  3. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, lögfræðingur, Árborg
  4. Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, varabæjarfulltrúi, Reykjanesbæ
  5. Njáll Ragnarsson, bæjarfulltrúi, Vestmannaeyjum
  6. Ásgerður Kristín Gylfadóttir, bæjarfulltrúi, Hornafirði
  7. Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri, Rangárþingi eystra
  8. Daði Geir Samúelsson, rekstrarverkfræðingur, Hrunamannahreppi
  9. Stefán Geirsson, bóndi, Flóahreppi
  10. Eiríkur Vilhelm Sigurðarson, bóndi, Rangárþingi ytra
  11. Ragnhildur Hrund Jónsdóttir, bóndi, Mýrdalshreppi
  12. Inga Jara Jónsdóttir, nemi, Árborg
  13. Anton Kristinn Guðmundsson, kokkur, Suðurnesjabæ
  14. Jóhannes Gissurarson, bóndi, Skaftárhreppi
  15. Gunnhildur Imsland, Hornafirði
  16. Jón Gautason, Árborg
  17. Drífa Sigfúsdóttir, Reykjanesbæ
  18. Haraldur Einarsson, fyrrv. alþingismaður, Flóahreppi
  19. Páll Jóhann Pálsson, fyrrv. alþingismaður, Grindavík
  20. Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, Reykjanesbæ

***

Alþingiskosningarnar munu fara fram laugardaginn 25. september 2021.

Kosning utan kjörfundar.

Dagskráin framundan:

SEPTEMBER
  • 25. – alþingiskosningar.
Categories
Fréttir

Framboðslisti Framsóknar í Suðvestur samþykktur

Deila grein

06/06/2021

Framboðslisti Framsóknar í Suðvestur samþykktur

Framboðslisti Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar var samþykktur á aukakjördæmisþingi sem haldið var rafrænt í dag. Prófkjör hafði áður farið fram um efstu 5 sæti listans og gerði kjörstjórn tillögu um önnur sæti listans í samræmi við reglur flokksins.

Oddviti listans er Willum Þór Þórsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Í öðru sæti á eftir honum er Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs í Hafnarfirði, í þriðja sæti er Anna Karen Svövudóttir, samskiptafulltrúi og ferðamálafræðingur, í fjórða sæti er Kristín Hermannsdóttir, háskólanemi og í fimmta sæti er Ívar Atli Sigurjónsson, flugmaður og laganemi.

,,Listinn er skipaður öflugum og fjölbreyttum hópi fólks sem er tilbúið að leggja allt sitt fram í þágu landsins alls á grunni hugsjóna Framsóknarflokksins um samvinnu og jöfnuð. Stór verkefni eru framundan og það verður ekkert hik á okkur við að búa sem best í haginn og byggja af krafti aftur upp efnahagslífið og samfélagið allt að loknum heimsfaraldrinum,” segir Willum Þór Þórsson.

Framboðslisti Framsóknar í Suðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 25. september 2021:

  1. Willum Þór Þórsson, Kópavogi
  2. Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafnarfirði
  3. Anna Karen Svövudóttir, Hafnarfirði
  4. Kristín Hermannsdóttir, Kópavogi
  5. Ívar Atli Sigurjónsson, Kópavogi
  6. Svandís Dóra Einarsdóttir, Kópavogi
  7. Ómar Stefánsson, Kópavogi
  8. Halla Karen Kristjánsdóttir, Mosfellsbæ
  9. Baldur Þór Baldvinsson, Kópavogi
  10. Margrét Vala Marteinsdóttir, Hafnarfirði
  11. Valdimar Víðisson, Hafnarfirði
  12. Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, Garðabæ
  13. Einar Gunnarsson, Hafnarfirði
  14. Þorbjörg Sólbjartsdóttir, Mosfellsbæ
  15. Árni Rúnar Árnason, Hafnarfirði
  16. Dóra Sigurðardóttir, Seltjarnarnesi
  17. Páll Marís Pálsson, Kópavogi
  18. Björg Baldursdóttir, Kópavogi
  19. Sigurjón Örn Þórsson, Kópavogi
  20. Tinna Rún Davíðsdóttir Hemstock, Garðabæ
  21. Einar Sveinbjörnsson, Garðabæ
  22. Helga Björk Jónsdóttir, Garðabæ
  23. Einar Bollason, Kópavogi
  24. Hildur Helga Gísladóttir, Hafnarfirði
  25. Birkir Jón Jónsson, Kópavogi
  26. Eygló Harðardóttir, Mosfellsbæ
Categories
Greinar

Sjósókn – grunnur að velgengni þjóðar

Deila grein

05/06/2021

Sjósókn – grunnur að velgengni þjóðar

Sigl­ing­ar og sjó­mennska hafa alla tíð verið okk­ur Íslend­ing­um grund­völl­ur bú­setu á land­inu. Skipið er og var þar til á síðustu öld eina sam­skipta­tækið við um­heim­inn. Sjó­menn gegndu mik­il­vægu efna­hags­legu hlut­verki frá ör­ófa tíð og bægðu að auki hung­ur­vof­unni frá þegar ham­far­ir dundu yfir. Til þess að heiðra þetta dugnaðarfólk var í lög­um kveðið á um að fyrsti sunnu­dag­ur júní­mánaðar ár hvert skuli vera al­menn­ur frí­dag­ur sjó­manna og hef­ur hann verið hald­inn ár­lega frá 6. júní 1938. Alla tíð síðan hef­ur sjó­mannadag­ur­inn verið merkisat­b­urður í menn­ingu sjáv­ar­byggða. Það er því ærið til­efni til þess að senda öll­um sjó­mönn­um góðar kveðjur frá ráðuneyti sigl­inga­mála á þess­um degi.

Það sem af er þess­ari öld hef­ur at­vinnu­líf okk­ar tekið stakka­skipt­um og er orðið mun fjöl­breytt­ara en það breyt­ir því ekki að störf sjó­manna eru og verða okk­ur Íslend­ing­um mik­il­væg. Hluti af nýrri auðlegð teng­ist ekki síst afurðum frá fisk­veiðum sem áður var fleygt en færa nú gull í byggðir og nýja at­vinnu­mögu­leika fyr­ir ungt og vel menntað fólk. Næg­ir þar að nefna líf­tækniiðnaðinn sem nýt­ir slóg og roð í lyf, mat­væli og snyrti­vör­ur. Með slíkri þróun eykst enn mik­il­vægi þeirra sem sækja í þjóðarauðlind­ina, fisk­inn í haf­inu og skapa for­send­ur fyr­ir blóm­leg­ar byggðir um land allt.

Í starfi mínu sem ráðherra hafa sigl­inga­mál verið afar mik­il­væg. Þannig liggja fyr­ir Alþingi frum­vörp að nýj­um lög­um um skip sem og nýj­um lög­um um áhafn­ir. Ekki má gleyma að við höf­um gerst aðilar að og inn­leitt alþjóðleg­ar regl­ur um rétt­indi og ör­yggi áhafna flutn­inga­skipa. Í fáum starfs­grein­um eru kon­ur jafn fáar og í sigl­ing­um. Það hef­ur á und­an­förn­um árum verið sér­stök áhersla á að vekja at­hygli ungra kvenna á sigl­ing­um og sjó­mennsku sem at­vinnu. Þar er vígi að vinna og verðugt að minn­ast þess að meiri­hluta Íslands­sög­unn­ar sóttu kon­ur sjó­inn ekki síður en karl­ar.

Örygg­is­mál sjófar­enda eru mér hug­leik­in. Sjó­sókn er enn und­ir­stöðuat­vinnu­grein í þorp­um og bæj­um á lands­byggðinni. Það skipt­ir sköp­um í litl­um sam­fé­lög­um að ör­yggi sjó­manna sé sem best. Mikl­ar fram­far­ir hafa orðið í slysa­vörn­um á sjó, ekki síst með til­komu ör­ygg­is­áætl­un­ar sjófar­enda. Á síðustu árum hef­ur eng­inn far­ist á sjó, sem er gríðarleg fram­för, og slys­um fækkað. Þessi ár­ang­ur hef­ur vakið at­hygli víða um heim. Fyr­ir hon­um eru marg­ar ástæður en mig lang­ar sér­stak­lega að draga fram ómet­an­legt fram­lag Lands­bjarg­ar og Slysa­varna­skóla sjó­manna sem starf­rækt­ur er um borð í Sæ­björg. Rann­sókna­nefnd sam­göngu­slysa hef­ur held­ur ekki látið sitt eft­ir liggja í að leggja til úr­bæt­ur í ör­ygg­is­átt sem oft hafa orðið grunn­ur að auk­inni ör­yggis­vit­und sjó­manna og út­gerða. Ekki má held­ur gleyma vakt­stöð sigl­inga og Land­helg­is­gæslu sem ávallt standa vakt­ina og gæta sjófar­enda. Þá vil ég minn­ast á hags­muna­sam­tök sjófar­enda sem öll gegna mik­il­vægu hlut­verki við að upp­fræða sitt fólk. Mikl­ar um­bæt­ur hafa einnig orðið á upp­lýs­inga­kerf­um til sjófar­enda sem Vega­gerðin held­ur utan um og þróar. Veður­spár hafa verið efld­ar og upp­lýs­ing­ar um veður og sjó­lag, sjáv­ar­föll og öldu­spá eru sí­fellt upp­færðar og aðgengi­leg­ar sjófar­end­um um fjar­skipta­kerfi nán­ast hvar sem er við strend­ur lands­ins og á hafi úti. Með þess­um góðu kerf­um tryggj­um við sigl­inga­ör­yggi eins og best verður á kosið.

Í dag er enn eitt fram­fara­skrefið stigið en þá mun rann­sókna­nefnd sam­göngu­slysa veita mót­töku slysa- og at­vika­skrán­ing­ar­kerf­inu „At­vik Sjó­menn“ að gjöf frá VÍS en með því verður þetta góða kerfi opið öll­um sjó­mönn­um og út­gerðum lands­ins sem von­andi auðveld­ar inn­leiðingu ör­ygg­is­stjórn­un­ar um borð í ís­lensk­um fiski­skip­um. Þess má geta að grunn­ur að ör­ygg­is­hand­bók fyr­ir fiski­skip hef­ur verið unn­inn á veg­um fagráðs um sigl­inga­mál, sigl­ingaráðs, og er aðgengi­leg­ur öll­um. Þá vil ég vekja at­hygli á styrkj­um til hug­vits­manna með það mark­mið að þróa og auka ör­yggi sjófar­enda en þeir eru nú laus­ir til um­sókn­ar.

Á und­an­förn­um árum hafa orðið mikl­ar breyt­ing­ar á um­hverfi sigl­inga við landið. Kom­um farþega­skipa hef­ur fjölgað gríðarlega og fisk­eldi og náma­vinnsla í hafi auk­ist, sem ásamt fleiri nýj­ung­um gera aðrar kröf­ur til hafn­araðstöðu. Í þeirri sam­göngu­áætlun sem nú er í vinnslu er því gert ráð fyr­ir auknu fram­lagi til hafna. Á tím­um hraðra um­hverf­is­breyt­inga er ljóst að um­hverfið við strend­ur lands­ins mun breyt­ast mikið á kom­andi árum. Með hækk­andi sjáv­ar­stöðu aukast þarf­ir fyr­ir sjóvarn­ir og aðlög­un mann­virkja. Sam­tím­is hafa verið stig­in skref til að auka sigl­inga­ör­yggi og sigl­inga­vernd, sem og rétt­indi áhafna í hverf­ul­um heimi.

Á sjó­manna­deg­in­um er ástæða til þess að rifja upp allt það sem áunn­ist hef­ur í ör­ygg­is­mál­um og minna sjó­menn á að þeir eiga hauk í horni þar sem eru starfs­menn sam­gönguráðuneyt­is og þeirra stofn­ana sem fara með sigl­inga­mál. Þá er sigl­ingaráð mik­il­væg­ur sam­starfs- og sam­ráðsvett­vang­ur sam­taka sjó­manna og annarra hags­munaaðila við sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneytið og legg­ur ráðuneytið ríka áherslu á mik­il­vægi þess.

Að lok­um óska ég sjó­mönn­um og sam­tök­um þeirra og út­vegs­manna far­sæld­ar í mik­il­væg­um störf­um í þágu sjó­mennsku og sigl­inga.

Það er ávallt þörf á því að halda gang­andi umræðunni um ör­ygg­is­mál sjó­manna og halda áfram þeirri vinnu sem unn­in er í þágu ör­ygg­is­ins.

Ég óska öll­um sjó­mönn­um og fjöl­skyld­um þeirra til ham­ingju með dag­inn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. júní 2021.

Categories
Greinar

Al­þjóða­dagur for­eldra

Deila grein

01/06/2021

Al­þjóða­dagur for­eldra

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Í dag er alþjóðadagur foreldra. Hlutverkið er ærið en æ minni tími til að sinna því? Skólar, íþróttafélög og aðrir fagaðilar hafa tekið við hlutverki foreldra að einhverju leyti sem uppalendur. Foreldri þarf ekkert að læra til að vera heldur aðeins gera. Það segir í fyrra markmiði foreldrasáttmálans sem er víða í notkun: „Að vekja foreldra og forráðamenn til vitundar um mikilvægi þess að sýna börnum og unglingum umhyggju, virkan stuðning og setja þeim skýr mörk.‟ Ég vil hvetja foreldra að kynna sér sáttmálann. Svo skora ég á ykkur að taka hann upp, beita honum og iðka hann. Það er mikilvægt fyrir foreldra að hafa vettvang til að hittast, heyra frá öðrum hvernig þeir takast á við uppeldi. Ræða sömuleiðis þau gildi og viðhorf sem við teljum eiga erindi í foreldrasamfélagið. Foreldrasáttmálinn getur nýst sem öflugt stuðningstæki í uppeldinu.

Allt sem ætlast er til af foreldrum

Það er að mörgu að hyggja og hver telur sína leið þá bestu við uppeldið. Útivistartími, svefn, þátttaka í frístundastarfi og íþróttum, vinahópur, námið, vímuefni, sjálgfstraust, eftirlit og reglur, alnetið og samfélagsmiðlar og persónueinkenni. Já, viðfangsefnin eru mörg rétt eins og börnin sjálf.

Sömuleiðis vil ég hvetja foreldra til að lesa átjándu og nítjándu grein grunnskólalaga sem fjalla einmitt um foreldra. Þetta er skýrt; foreldrar skulu gæta hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri. Og svo þetta; Foreldrar bera ábyrgð á námi barna sinna og ber þeim að fylgjast með námsframvindu þeirra í samvinnu við þau og kennara þeirra.

Sterkustu bandamenn skólanna eru foreldrar

Væntir skólinn einhvers af foreldrum? Já. En það er sömuleiðis hlutverk skóla að upplýsa foreldra hvernig þeir geta stutt við barn sitt, t.d. með því að eiga samræður heima um nám og skóla. Að hlusta. Nám í dag er ekki eins og nám fyrir átján árum. Skólinn væntir þess að foreldrar kynni sér nám barna sinna og þær reglur sem gilda í skólanum. Það er algjörlega nauðsynlegt að foreldrar tali af virðingu um skólann og námið svo börnin heyri. Foreldrar þurfa að fá tækifæri til að taka þátt í námi barna sinna og skólastarfinu almennt. Að halda í gamlar hugmyndir um skólann er hætt við að það hindri nýjungar og tilraunir í skólastarfinu. Þróun er nauðsynleg til að tryggja framtíð nemenda.

Hvað viltu segja við sjálfan þig sem barn?

Já, þau læra af okkur fullorðna fólkinu. Veltu því fyrir okkur hvernig fyrirmyndir við erum. Leyfum við okkur að tala illa um annað fólk, önnur börn, þegar börnin okkar heyra? Eða um vinnuna okkar og samstarfsfélaga. Hvað viltu segja við sjálfan þig þegar þú varst tólf ára ef þú vissir allt sem þú veist í dag? Hvaða boðskap berum við áfram til næstu kynslóðar í hraðadýrkandi neysluveröld?

Hjálmar Bogi Hafliðason, kennari og sveitarstjórnarfulltrúi í Norðurþingi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. júní 2021.

Categories
Greinar

Börnin okkar og betra samfélag

Deila grein

31/05/2021

Börnin okkar og betra samfélag

Ekk­ert í heim­in­um er mik­il­væg­ara en börn­in okk­ar – vellíðan þeirra, ham­ingja og framtíðar­tæki­færi. Það er skylda stjórn­valda að gera allt hvað þau geta svo öll börn vaxi og dafni. Finni sig í skóla og tóm­stund­a­starfi, njóti jafnra tæki­færa óháð bak­grunni og fé­lags­leg­um aðstæðum. Við vilj­um að öll börn fái örvun við hæfi, hvatn­ingu og mennt­un sem legg­ur grunn­inn að framtíð þeirra. Stuðning í erfiðum aðstæðum og hjálp hvenær sem þau þurfa á henni að halda.

Það er leiðarljós Fram­sókn­ar­flokks­ins eins og verk­in sýna, bæði fyrr og síðar. Á þessu kjör­tíma­bili höf­um við breytt fé­lags­kerf­inu og lagað að hags­mun­um barna. Við höf­um eflt og ein­faldað þjón­ustu við börn og fjöl­skyld­ur þeirra, lengt fæðing­ar­or­lof, ráðist í kerf­is­breyt­ing­ar í skóla­kerf­inu, stutt sér­stak­lega við fá­tæk börn og ráðist í mik­il­væg verk­efni til að styrkja stöðu barna af er­lend­um upp­runa. Ný­samþykkt mennta­stefna tek­ur fyrst og fremst mið af þörf­um barna og vinna er haf­in við breyt­ing­ar á sam­ræmdu náms­mati, þar sem hags­mun­ir stofn­ana munu víkja fyr­ir hags­mun­um barna. Í Covid var gríðarleg áhersla lögð á að halda skól­un­um opn­um, til að tryggja mennt­un barna og lág­marka áhrif heims­far­ald­urs á líf þeirra. Það tókst og sam­an­b­urður við önn­ur lönd sýn­ir glögg­lega að ár­ang­ur­inn er merki­leg­ur, því víða voru skól­ar lokaðir með ófyr­ir­séðum lang­tíma­áhrif­um á börn. Við höf­um sagt lestr­ar­vanda barna stríð á hend­ur og gripið til aðgerða til að efla lesskiln­ing. Útgáfa nýrra barna- og ung­linga­bóka hef­ur stór­auk­ist vegna póli­tískr­ar stefnu um stuðning við ís­lenska bóka­út­gáfu.

Það eru ekki nýj­ar frétt­ir að Fram­sókn­ar­flokkn­um sé um­hugað um börn og fjöl­skyld­ur lands­ins. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn inn­leiddi á sín­um tíma feðra­or­lof, rétt­ar­bót sem þótti frum­leg í fyrstu en öll­um þykir sjálf­sögð í dag. Ávinn­ing­ur barna og for­eldra af breyt­ing­unni er ómæld­ur og fjöl­skyldu­tengsl­in sterk­ari.

En við vilj­um gera enn bet­ur, fyr­ir börn úr öll­um átt­um. Búa svo um hnút­ana að öll börn fái jöfn tæki­færi og þjón­ustu við hæfi, til dæm­is sál­fræðiþjón­ustu sem nú er bæði af skorn­um skammti og kostnaðar­söm fyr­ir for­eldra. Slík þjón­usta á að vera eins og önn­ur heil­brigðisþjón­usta; aðgengi­leg fyr­ir alla enda brýnt að leysa úr vanda á fyrstu stig­um hans, en ekki bíða eft­ir því að barnið vaxi og vand­inn með.

Full­orðið fólk, bæði í fjöl­skyld­um og flokk­um, á að kenna börn­um á lífið. Vekja for­vitni þeirra og áhuga á heim­in­um, sjálf­um sér og öðrum. Hjálpa þeim að finna sína styrk­leika, tjá sig, leika sér og læra. Í því verk­efni ætl­ar Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn ekki að láta sitt eft­ir liggja og við vilj­um að Ísland verði barn­vænsta sam­fé­lag í heimi. Taktu þátt í því með okk­ur.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. maí 2021.

Categories
Greinar

Til al­manna­heilla

Deila grein

28/05/2021

Til al­manna­heilla

Á dögunum voru samþykkt ný lög frá Alþingi. Í þeim fellst m.a. að lögaðilar sem starfa til almannaheilla eru undanþegnir tekjuskatti af tilgreindum fjármagnstekjum, fest hefur verið í sessi heimild þeirra til að fá endurgreidd 100% virðisaukaskatts af vinnulið vegna byggingarvinnu, hlutfall frádráttarheimildar atvinnurekenda vegna fjárframlaga til almannaheilla tvöfaldist í tilteknum tilvikum og einstaklingum er heimilt að draga tiltekin fjárframlög til lögaðila sem starfa til almannaheilla frá skattskyldum tekjum að nánari skilyrðum uppfylltum. Þetta mál er ekki dottið af himnum ofan heldur hefur átt sér töluverðan aðdraganda.

7 ára meðganga

Upphaf málsins má rekja til þingsályktunartillögu sem Willum Þór Þórsson flutti á 143. löggjafarþingi 2013-2014. Tillagan hljóðaði upp á endurskoðun á virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar og fól í sér að íþrótta- og ungmennafélög yrðu undanþegin virðisaukaskatti af starfsemi sinni að öllu leyti ásamt því að íþrótta- og ungmennafélög fengju heimild til að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af byggingu íþróttamannvirkja á íþróttasvæðum sínum, vinnulaunum og efniskaupum. Willum lagði áherslu á að mikilvægt væri að skoða efnahagslegt mikilvægi íþrótta og áhrif skipulagðs íþróttastarfs á vegum íþróttahreyfingarinnar í víðu samhengi. Hlutverk ríkisins hlyti að vera að tryggja sem besta umgjörð og aðbúnað fyrir almennings- og afreksíþróttir þjóðinni til heilla. Íþróttahreyfingin væri þjóðhagslega mikilvæg og meginmarkmið tillögunnar væri að leggja til að ríkisstjórnin kæmi að því að efla skipulagða íþróttastarfsemi ásamt þátttöku foreldra og annarra.

Þingsályktunin náði ekki fram að ganga á þessum tíma. Willum Þór Þórsson lagði málið fram aftur en í breyttri mynd sem frumvarp á 144. löggjafarþingi og aftur á 145. löggjafarþingi. Frumvarpið var til breytinga á lögum um virðisaukaskatt og miðaði að því að breyta virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar með sama hætti og lagt er til í þingsályktunartillögunni. Fjármála- og efnahagsráðherra hafði á þessum tíma skipað stýrihóp til að endurskoða reglur um virðisaukaskatt og vörugjöld í því skyni að einfalda og bæta skilvirkni kerfisins og lagði nefndin til að þessar tillögur yrðu teknar til skoðunar hjá stýrihópnum.

Hugmyndin þróast áfram

Á 145. löggjafarþingi lagði atvinnuveganefnd undir formennsku Jóns Gunnarssonar fram frumvarp til laga um endurgreiðslu til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda. Með frumvarpinu var lagt til að setja á fót sérstakt endurgreiðslukerfi til að efla hvers kyns starfsemi félagasamtaka til almannaheilla hér á landi. Með frumvarpinu var lögð til heimild til að endurgreiða félagasamtökum til almannaheilla fjárhæð sem nemur virðisaukaskatti vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda. Markmiðið með frumvarpinu var að styðja við starfsemi félagasamtaka af þessu tagi, til að mynda til að hvetja til uppbyggingu á ýmiss konar aðstöðu. Frumvarpið fékk ekki afgreiðslu á 145. löggjafarþingi og var endurflutt á 148. og 149. löggjafarþingi.

Starfshópur skipaður

Hinn 1. apríl 2019 skipaði fjármála- og efnahagsráðherra starfshóp sem falið var að leggja fram tillögur að breytingum á þeim lögum sem giltu um skattlagningu starfsemi sem félli undir þriðja geirann. Hitann og þungann af þeirri vinnu báru Óli Björn Kárason og Willum Þór Þórsson. Af framangreindu er ljóst að umræða um breytingar á skattalegu umhverfi lögaðila sem starfa til almannaheilla og falla undir þriðja geirann, með það að markmiði að efla það mikilvæga starf sem þar fer fram, hefur átt nokkurn aðdraganda.

Mikilvægt skref

Það var mjög ánægjulegt fyrir mig að fá að vera framsögumaður á þessu máli og fá að taka þátt í þessu verkefni því að það voru aðrir þingmenn sem hafa borið hitann og þungann af því. Þetta er eitt af þeim málum sem margir hafa beðið eftir sem starfa í þessum geira. Fyrst og fremst snýr þetta að óhagnaðardrifnum félögum þar sem fólk leggur mikið á sig með ókeypis vinnuframlagi. Þessi nýju lög koma til með að efla og styrkja starfsemi sem er öllum til heilla hvar sem er, því að mörg eru félögin og starfsemin fjölbreytt. Hér er verulega verið að koma til móts við alla mikilvægu starfsemi sem unnin er í þessum félögum. Það er dásamlegt að vera þingmaður þegar svona mál eru afgreidd. Til hamingju allir þeir sem lögðu á sig mikla vinnu síðustu ár til þess að ná þessum breytingum fram. Áfram veginn!

Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi og frambjóðandi til Alþingis fyrir sama flokk.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. maí 2021.

Categories
Greinar

Vegir hálendisins

Deila grein

28/05/2021

Vegir hálendisins

Framtíðarsýn fyrir þjóðvegi á hálendinu er mikilvægari nú en nokkru sinni fyrr. Viðfangsefnið er spennandi þar sem margir ólíkir hagsmunir koma að. Vegakerfið á þjóðvegum landsins fylgir ákveðinni stefnu í samgönguáætlun, en á hálendinu eru tækifæri til að móta skýra sýn. Hægt er að fara margar leiðir í því. Á meðan uppbygging vega er þyrnir í augum sumra er hún tækifæri í augum annarra sem vilja gott aðgengi að hálendi Íslands, óháð fararskjótum. Í mínum huga er mikilvægt að móta framtíðarsýn um það hvaða vegi við viljum að séu greiðfærir og uppbyggðir svo allir komist og hvaða vegi við viljum að aðeins að vel útbúnar bifreiðar komist yfir.

Aðgengi fyrir alla

Með auknum ferðalögum fólks inn á hálendi Íslands og fjölgun ferðamanna undanfarinn áratug hafa augu fólks opnast fyrir nauðsyn þess að byggja upp innviði á hálendinu. Stofnvegirnir eru lífæð hálendisins, Kjalvegur, Sprengisandsleið, Kaldadalsvegur og Fjallabaksleið Nyrðri eiga að geta þjónað allri almennri umferð. Vegirnir eru núna lítið sem ekkert uppbyggðir og aðeins færir vel búnum bifreiðum. Töluvert vantar upp á að allir hafi jafnan aðgang og geti upplifað dulmögnuð svæði hálendisins.

Sú stefna sem er sett fram í landsskipulagsstefnu um samgöngur á miðhálendinu byggist á þeirri stefnu sem sett var með svæðisskipulagi miðhálendisins. Þar var gert ráð fyrir að stofnvegir um miðhálendið skyldu vera byggðir upp sem góðir sumarvegir með brúuðum ám og færir fólksbílum.

Kjalvegur

Kjalvegur er til að mynda stofnleið með töluverða umferð, þverar landið frá suðri til norðurs og er annar tveggja þekktustu fjallvega landsins. Vegurinn er að stærstum hluta malarvegur. Annars vegar eru rúmlega 53 km niðurgrafnir, krókóttir og sums staðar mjór. Hins vegar hafa rúmlega 107 km verið byggðir upp, þar af tæplega 19 km með bundnu slitlagi. Umferð um Kjöl hefur aukist. Svæðið er magnað eins og við þekkjum, vinsælt útivistarsvæði og dregur að sér fjölbreyttan hóp ferðamanna, hestafólk, göngufólk, skíðafólk, hjólafólk, þá sem fara um á bifreiðum o.fl. Víða myndast stórir pollar í vegum hálendisins sem gerir það að verkum að menn leita út fyrir þá og er því töluverður utanvegaakstur meðfram þeim. Með ört vaxandi umferð er mikilvægt að hægt sé að gera lagfæringar og hugsa til framtíðar eins og Vegagerðin hefur gert, í þeim tilgangi að gera viðhald auðveldara, með því að vinna að styrkingu og lítillega að uppbyggingu, þó aðeins á stuttum köflum í senn.

Fyrirvarar þingflokks Framsóknar við miðhálendisþjóðgarð

Þingflokkur Framsóknar fjallaði um uppbyggingu Kjalvegar í fyrirvörum sínum við frumvarp um miðhálendisþjóðgarð. Fyrirvara um að nauðsynlegt sé að viðurkenna og setja inn í frumvarpstexta að byggja þurfi upp vegi t.a.m. Kjalveg og setja fjármuni í umhverfismat og hönnun. Einnig voru fyrirvarar um að jaðarsvæðið taki tillit til uppbyggingar Kjalvegar og skipulags annarra vega með beinni skírskotun til skipulags og umráðaréttar sveitarfélaga.

Orkuskipti

Þá staðfesti ég fyrir tveimur árum síðan samning við Neyðarlínuna um lagningu ljósleiðara milli Hveravalla og Blöndudals. Að því verkefni loknu komst á óslitin ljósleiðaratenging milli Suðurlands og Norðurlands sem bætir bæði öryggi og afkastagetu grunnkerfis fjarskipta hér á landi. Samhliða lagningu ljósleiðara um Kjöl var lagður raforkustrengur sem leysir af hólmi dísilvélar sem rekstraraðilar hafa hingað til reitt sig á. Raforkustrengurinn er liður í því að tryggja að Ísland nái  markmiðum Parísarsamkomulagsins til 2030 og markar framtíðarsýn fyrir Kjöl og þá uppbyggingu þarf að vera til staðar svo flestir geti notið þess að fara um á fjölbreyttum fararskjótum. Rafstrengurinn er með flutningsgetu sem í náinni framtíð verður hægt að nýta til að setja upp hleðslustöðvar fyrir rafknúna umferð um Kjalveg. Og vegna þess að við erum jú í orkuskiptum í samgöngum verða innviðirnir að haldast í hendur við nýja tíma því innan fárra ára verðar flestir bílar rafmagnsbílar.

Öryggi umfram allt

Ef horft er til umfangs ferðamennsku á hálendinu er það brýnt öryggismál í mínum huga að innviðir, hvort um er að ræða vegi eða fjarskipti geti þjónað þeim sem um svæðið fara. Til að hægt sé að uppfylla kröfur um að allir hafi sama aðgang og uppfylla ákvæði vegalaga um frjálsa för fólks um þjóðvegi þá þarf uppbygging innviða að miðast við að rafmagnsbílar komist um, hvort sem um er að ræða fólksbíla, jeppa eða rútur seinna meir. Rafstrengurinn á Kjalvegi boðar byltingu og dísilolía á tunnum heyrir nú sögunni til. Enginn þarf lengur að koma að köldum og saggafullum húsum utan mesta hlýindatímans. Þetta skapar alveg nýja möguleika og tækifæri fyrir fólk til að njóta útivistar á hálendinu. Ég vona að sem flestir sjái sér fært að njóta hálendisins, því hvergi er betra að vera, hvort sem er ríðandi eða akandi, við smalamennsku eða sem ferðamaður.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 27. maí 2021.

Categories
Greinar

Far­sóttin hefur gefið nýju byltingunni vængi

Deila grein

27/05/2021

Far­sóttin hefur gefið nýju byltingunni vængi

Langþráðar afléttingar á samkomutakmörkunum í vikunni veittu okkur mikið frelsi. Við lögðum grímunni á flestum stöðum og urðum nánari í bókstaflegum skilningi. Í faraldrinum, sem er þó ekki alveg liðinn undir lok, höfum við með hæfni mannsins færst áfram, tekið breytingum og lært margt. En verður allt aftur eins og áður var?

Tæknin hefur sannað sig

Vinnumarkaðurinn hefur tekið miklum breytingum á þessum tíma sem og hugmyndir okkar um hann. Haft er eftir forseta Alþingis að hann telji að kórónuveirufaraldurinn muni hafa varanlega áhrif á þingstörfin. Þá má nú segja að fjöllin hafi færst úr stað. Á meðan á faraldrinum stóð var opnað á fjarvinnslumöguleika sem ekki var áður þekkt í störfum þingsins. Það form sannaði að starfsemi þingsins var í engu lakari en áður. Vinnumarkaðurinn er að breytast og fjórða iðnbyltingin hefur hafið innreið sína. Farsóttin hefur gefið nýju byltingunni vængi. Á aðeins einu og hálfu ári hefur margt breyst sem annars hefði tekið nokkur ár.

Skref inn í framtíðina

Sveigjanlegur vinnutími og störf án staðsetningar hefur hlotið viðurkenningu. Hugmyndir okkar um fjögurra veggja starfsstöðvar hafa breyst. Það er mikilvægt að við höldum áfram og undirbúum okkur fyrir áframhaldandi breytingar í þessa átt. Við vitum ekki hvert framtíðin leiðir okkur. Sú hefðbundna leið að mennta sig til ákveðinna starfa, vera komin í öruggt starf 25 ára og fá afhent gullúrið 67 ára fyrir vel unnin störf er ekki lengur sú mynd sem við getum kynnt fyrir börnum okkar. Þau vita betur, þau eru með þetta. „Gigg hagkerfið“ hefur hafið innreið sína. Við þurfum að vera tilbúinn að mennta okkur og endurmennta alla starfsævina og þannig efla færni okkar til að vera með í síbreytilegum heimi.

Samvinnurými

Á undanförnum mánuðum hafa sprottið upp samvinnurými víða um land. Samvinnurými bjóða upp á mismunandi aðild starfsmanna sem hentar hverjum og einum. Þar næst að leiða saman þekkingu og byggja undir félagslega þarfir fólks sem vinna við sín verkefni auk þess sem þau stuðla að jákvæðari samfélagsþróun. Slíkur vinnustaður getur rúmað mismunandi verkefni sem unnin eru vítt og breytt um heiminn. Með aukinni samskiptatækni og háhraðafjarskiptatengingum um allt land skapast tækifæri til að starfa við margvísleg störf víðar en innan fyrir fram ákveðinna veggja.

Samstarf stjórnvalda og háskóla

Stjórnvöld hafa fylgst vel með þessum breytingum og gera sér grein fyrir mikilvægi þess að fylgja þeim eftir. Því hafa stjórnvöld í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og Háskólann Íslands sett á laggirnar vefnámskeið um gervigreind. Námskeiðið er opið öllum almenningi og má finna inn á island.is. Markmiðið með námskeiðinu er að gera þekkingu á gervigreind aðgengilega svo fólk finni kraft og tækifæri í nýrri tækni ásamt því að styrkja starfsmöguleika og starfshæfni Íslendinga eins og stendur í kynningunni.

Framtíðin er í okkar höndum, tökum þátt í að móta og njóta.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. maí 2021.

Categories
Greinar

Of sein til að ættleiða

Deila grein

26/05/2021

Of sein til að ættleiða

Á síðustu árum hafa fjölskyldumynstur tekið miklum breytingum. Þáttur stjúpforeldra í uppeldi barna hefur aukist. Hvergi í Evrópu eru jafn mörg börn fædd utan hjónabands og á Íslandi. Stjúpforeldrar líkt og foreldrar verða mikilvægir í lífi stjúpbarns, sem og stjúpbarnið í augum stjúpforeldris.

Krafa um samfellda sambúð

Stjúpættleiðing er ættleiðing á barni eða kjörbarni maka umsækjanda, hjúskapar- eða sambúðarmaka og oft á tíðum eðlileg framvinda þegar einstaklingur hefur gengið barni í móður- eða föðurstað. Við stjúpættleiðingu rofna öll tengsl barnsins við annað kynforeldri og stjúpforeldrið verður lagalegt foreldri í öllum skilningi. Í þeim kringumstæðum þegar kynforeldri er litlum eða engum kringumstæðum við barn sitt eða ef það er látið hefur stjúpforeldri fengið leyfi til þess að ættleiða barnið. Til þess að einstaklingur geti lagt fram umsókn um stjúpættleiðingu skal umsækjandi hafa verið í samfelldri sambúð með foreldri eða kjörforeldri barns í að minnsta kosti fimm ár.

Stjúpættleiðing ekki möguleg eftir skilnað eða andlát

Lífið er nú þannig að ekki öll hjónabönd eða sambúðir halda út, en tengsl sem myndast á þeim tíma milli einstaklinga halda þó áfram út lífið. Íslensk lög um ættleiðingar gera ekki ráð fyrir því að stjúpforeldri óski eftir að ættleiða stjúpbarn sitt eftir að hafa slitið hjónabandi eða sambúð við foreldrið. Eins og staðan er nú getur einstaklingur sem alið hefur upp barn í fjölda ára ekki sótt um að stjúpættleiða það barn ef viðkomandi hefur slitið sambúð eða hjónabandi við hitt foreldrið. Þá eru skilyrði umsækjanda heldur ekki uppfyllt ef foreldrið fellur frá þar sem umsækjandi er ekki í hjúskap eða sambúð þegar umsókn berst. Samkvæmt núgildandi lögum getur einstaklingur sem óskar eftir að ættleiða barn sem alist hefur upp hjá umsækjanda einungis sótt um ættleiðingu sem einstaklingur, það hefur þau réttaráhrif að lagatengsl við báða blóðforeldra rofnar.

Hægt að breyta lögunum

Þetta gat á lögum um ættleiðingar er ekki stórt og það er auðvelt að stoppa í það. Eðlilegast væri að einstaklingur sem gengið hefur barni í móður- eða föðurstað í fjölda ára geti enn fengið að vera foreldri barnsins og veitt því sömu réttindin og mögulega önnur börn viðkomandi þrátt fyrir sambandsslit eða andlát. Því hef ég lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um ættleiðingar þar sem einstaklingi sem hefur verið í hjúskap eða sambúð í að minnsta kosti fimm ár með foreldri barns óskað eftir að ættleiða barnið þrátt fyrir að hafa slitið samvistum. Einnig legg ég til í frumvarpinu að mögulegt sé að óska eftir að ættleiða barn hafi maki eða sambúðarmaki fallið frá.

Það er óvíst að frumvarpið nái fram að ganga á þessu þingi, en mikilvægt er að opna þessa umræðu. Þetta eru litlar breytingar á löggjöfinni en geta verið gríðarlega mikilvægar fyrir þá einstaklinga sem eiga hér undir. Samfélagið breytist og löggjafinn þarf að fylgjast með.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. maí 2021.