Categories
Fréttir

Þessi stóri

Deila grein

12/02/2021

Þessi stóri

Þá er komið að „þessum stóra“. En ráðherrar og þingmenn Framsóknar hafa verið með opna fundi í kjördæmunum á netinu og rætt þau mál sem eru efst á baugi.

Þessi stóri verður í beinu streymi á facebook-síðu Framsóknar á mánudaginn, 15. febrúar, frá Reykjavík kl. 20.00.

Sigurður Ingi Jóhannssonformaður Framsóknar og Lilja Dögg Alfreðsdóttirvaraformaður Framsóknar, munu leiða og vera með 10 mínútna inngang í hvoru holli. Í beinu framhaldi munu þau ásamt öðrum þingmönnum flokksins taka á móti spurningum.

  • Árangur, uppbygging, jákvæð stjórnmál, samgöngur, húsnæðismál, menntamál og atvinna, atvinna, atvinna.
  • Framfarir og umbætur byggja á samvinnu og samtali.
  • Þess vegna ræðst framtíðin á miðjunni.
15. febrúar kl. 20.00 — Þessi stóri með öllu liðinu í beinu streymi frá Reykjavík
Categories
Greinar

Sorp er sexý

Deila grein

12/02/2021

Sorp er sexý

Sorpmyndun er óumflýjanlegur raunveruleiki okkar samfélags. Mikið magn sorps fylgir hverri fjölskyldu, en þess má geta að árið 2018 myndaðist um 1.300 þúsund tonn af sorpi. Aðeins 216 þúsund tonn voru urðuð af þessum 1.300 þúsund tonnum. Á sama ári var losun gróðurhúsalofttegunda frá urðun úrgangs, sorpbrennslu og jarðgerð kringum 5% af heildarlosun hér á landi, en um 95% af þeirri losun má rekja til urðunar úrgangs.

Rétt flokkun nauðsynleg

Síðastliðin ár hefur verið ákall í samfélaginu um að minnka losun gróðurhúsategunda, og þá sérstaklega meðal ungs fólks. Enn í dag sér undirrituð unga einstaklinga standa fyrir framan Alþingi á hverjum föstudegi til að ítreka þetta ákall. Þau eiga lof skilið enda berjast þau fyrir framtíð sinni og framtíðarkynslóða. Ein viðurkennd leið til að minnka umfang sorps og losun gróðurhúsaáhrifa frá sorpi er að endurvinna það. Það verður aldrei hægt nema sorpið sé flokkað. Það er okkur nauðsynlegt að endurvinna eins mikið sorp og mögulegt er og með því gæta þess að sorp sé rétt flokkað.

Vitundarvakning

Undirrituð telur að það sé vilji allra landsmanna að flokka sitt sorp á réttan hátt. Mikil vitundarvakning hefur verið á flokkun sorps, t.d. hvernig pokar eru flokkaðir, endurvinnsla raftækja og hvaða hlutir neysluvara fara í hvaða endurvinnslutunnu. Þessi vitundarvakning stigmagnast ár hvert og þá er fólk einnig að reyna á nægjusemi sína til að minnka neyslu þeirra og með því minnka sorpmyndun.

Ákall um samræmdar flokkunarreglur

Á Íslandi ætti lítið sem ekkert að vera til fyrirstöðu fyrir því að endurvinnsla sé til fyrirmyndar um allt land, frá Reykjavík og til hinna dreifðu byggða. Grundvallarskref í þá átt væri að samræma flokkun sorps á Íslandi, þ.e. milli allra sveitarfélaganna. Með þessu aukum við vitundarvakningu á flokkun og endurvinnslu sorps enn frekar ásamt því að koma í veg fyrir fljótfærnisvillur og ranga flokkun í góðri trú. Að flokka sorp á réttan hátt gæti orðið svokallað „vöðvaminni“ (e. muscle memory) hjá okkur öllum og með þessu aukum við mögulega nýtingu þeirra verðmæta sem safnast við rétta flokkun sorps.

Það er mín von að samræming sorpflokkunar verði að veruleika innan næstu ára. Við skuldum okkur og framtíðarkynslóðum okkar það að endurvinnsla sorps sé til fyrirmyndar.

Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Reykjanesið er svæði tækifæranna

Deila grein

12/02/2021

Reykjanesið er svæði tækifæranna

Íslendingar hafa tækifæri til að byggja upp nýjan grænan iðnað á sviði þörungavinnslu. Hér landi eru kjöraðstæður á heimsvísu, hreinn sjór og stór hafsvæði. Fjárfestar eru áhugasamir en lagaumgjörðin og regluverkið er enn ekki nógu gott. Alþingi þarf að skapa trausta umgjörð um þennan iðnað og skapa skýra stefnu. Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga þess efnis frá þingflokki Framsóknarflokksins.

Vaxandi markaður

Heimsmarkaður fyrir þörunga er stór og fer vaxandi. Samkvæmt skýrslu Report Linker um heimsmarkað fyrir þörunga frá júlí 2020 er áætluð velta árið 2020 fyrir þörungaprótein 912,8 millj. dala og því spáð að hann vaxi í 1,3 milljarða dala árið 2027. Þá kemur einnig fram í skýrslunni að það sé vaxandi eftirspurn eftir matvæla- og drykkjarafurðum sem byggðar eru á þörungum. Efni úr þeim  má finna í mörgum matvælategundum, snyrtivörum og iðnaðarvörum eins og málningu, dekkjum o.fl. Á Ásbrú er t.a.m. starfandi öflugt og vaxandi fyrirtæki, Algalíf, sem ræktar smáþörunga. Úr þeim er unnið verðmætt efni, astaxanthin, sem notað er í eftirsótt fæðubótarefni. Vöxtur í þörungaframleiðslu í heiminum er áætlaður um 7,4% á ári til ársins 2024 og að veltan verði um 1,1 milljarður Bandaríkjadala árið 2024 samkvæmt greiningu Sjávarklasans frá nóvember 2019. Í þessari grein liggja mýmörg áhugaverð tækifæri fyrir íslenskt athafnalíf.

Súrefnisframleiðendur og stútfullir of næringarefnum

Þegar rætt er um þörunga þá er ekki bara átt við smáþörunga, eins og Algalíf ræktar, heldur einnig þang og þara sem vex villt allt í kringum landið okkar fagra. Yfirheiti þessara merkilegu lífvera, þ.e. þangs, þara og smáþörunga, eru þörungar. Þörungar eru ekki bara næringarrík fæða fyrir skepnur og mannfólk heldur framleiða þeir líka stóran hluta súrefnis jarðar, allavega helming alls súrefnis og sumir vísindamenn segja um 90%. Þörungar hreinsa sjóinn og þá má einnig nýta sem áburð. Sumar smáþörungategundir eru olíuríkar og úr þeim er hægt að framleiða lífeldsneyti sem endurnýtir koltvísýring úr loftinu. Það er því ljóst að sjálfbær öflun þörunga og aukin nýting þeirra getur hjálpað til við að minnka álag á önnur vistkerfi jarðarinnar, draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og hafa jákvæð áhrif á vistkerfi hafsins. Við Reykjanesið eru kjöraðstæður fyrir öflun og verkun þangs og þara. Hér eru miklar fjörur, hreinn sjór og mikið pláss. Hér eru svo sannarlega tækifæri fyrir duglegt fólk en löggjafinn þarf að bæta umgjörðina svo að áhugasamir hafi sterkan grunn til að byggja á, ef þeir hyggjast fara út í fjárfestingar á þessu sviði.

Hvernig getum við bætt umgjörðina?

Greinarhöfundur hefur lagt fram þingsályktunartillögu ásamt þingflokki Framsóknar um að umhverfis- og auðlindaráðherra í samvinnu við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geri aðgerðaáætlun um þörungaræktun sem liggi fyrir eigi síðar en 1. mars 2021. Einnig er kveðið á um að ráðherra leggi fram tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda hvað varðar þörungarækt eigi síðar en 1. maí 2021. Flutningsmenn telja að sá tímarammi ætti að vera nægilegur enda unnt að líta til fordæma nágrannaþjóða okkar, eins og Færeyja og Noregs, þar sem reynsla er þegar komin á framkvæmd sambærilegra lagaákvæða.

Með því að fjárfesta í menntun, rannsóknum og frumkvöðlafyrirtækjum á þessu sviði getur Ísland skapað sér sess á meðal forystuþjóða í fullnýtingu þangs og þara og ræktunar smáþörunga.

Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Hlekkur á tillöguna: althingi.is/altext/151/s/0049.html

Categories
Fréttir

Framtíð matarnýsköpunar

Deila grein

12/02/2021

Framtíð matarnýsköpunar

Ungt Framsóknarfólk í Reykjavík hélt opin fund í gærkvöldi um framtíð nýsköpunar í matvælaiðnaði. Á fundinum komu fram Brynja Laxdal, markaðsfræðingur og fyrrum verkefnastjóri Matarauðs Íslands, Finnbogi Magnússon, formaður stjórnar Landbúnaðarklasans, ásamt Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Íris Gísladóttir, formaður Ung Framsókn í Reykjavík stýrði fundinum.

Farið var yfir víðan völl er kemur að tækifærum sem felast í nýrri tækni og nýjum leiðum til framleiðslu matvæla hér á landi. Augljóst var á fyrirlestrum Brynju og Finnboga að gríðarleg vaxtartækifæri væru í matvælaframleiðslu hér á landi. Þar má þakka nýrri tækni og því mikla hugviti sem býr í þeim framúrskarandi frumkvöðlum sem hafa lagt alúð sína í að tryggja Íslendingum hágæða matvöru framleidda úr þeim hágæða hráefnum sem finnast hér á landi.

Töluverð gróska hefur verið á þessu sviði síðustu ár og tilraunir til fjölbreyttari framleiðslu hafa skilað góðum árangri. Mikið er af matarfrumkvöðlum víðsvegar um land sem hafa með einstakri natni hafið fjölbreytta framleiðslu sem eru nú í boði fyrir landsmenn. Þó nokkur fyrirtæki hafa gert sér mat úr kartöflunni, en þar má til að mynda nefna Álfur brugghús og Ljótu kartöflurnar sem framleiða annarsvegar bjór og hinsvegar snakk úr kartöflum sem annars fara til spillis. Connective Collective, Bone & Marrow og North Marine Ingredients hafa einnig fundið leiðir til að nýta hráefni sem annars er hent með góðum árangri. Þá hafa fjölmargir frumkvöðlar hafið notkun á jurtum landsins við framleiðslu á matvörum, áfengi, lyfjum og hágæða snyrtivörur. Þannig mætti lengi telja. 

Ljóst er að mikil tækifæri felast í aukinni fjölbreytni í fullvinnslu matar, ræktun fjölbreyttara grænmetis og matjurta. Í því samhengi hefur verið horft til þess að nýta heita vatnið sem er ein af okkar bestu náttúrulegu auðlindum til þess að stunda útiræktun á ökrum allt árið um kring. Enn fleiri horfa einnig til aukinnar nýtingu á þeim gróðri sem hér vex náttúrulega, s.s. smáþörunga, gras, lúpínu, túnfífil, vallhumal, hvönn, njóla, burnirót, hafþyrni, kúmen, mjaðjurt, hamp, lín ofl. 

Þó svo að töluverð gróska hafi farið af stað mátti heyra að enn stæðu ákveðnar hindranir í vegi fyrir enn meiri grósku í matarnýsköpun. Þar bar hæst erfiðleikar við að fóta sig í frumkvöðlaumhverfinu og að geta aflað fyrirtækjum nauðsynlegt fjármagn til að koma þeim af hugmyndastigi í sölu í búðir. Aukin samheldni og samvinna frumkvöðla á milli gæti hjálpað við það og því væri áhugavert að sjá hvort áform um uppbyggingu frekari klasastarfsemi hér á landi hefði jákvæð áhrif. Markviss innkaup á innlendri framleiðslu ríkis og sveitarfélaga gæti einnig ýtt undir slíka grósku. 

Möguleikarnir í auknum útflutningi matvæla myndi einnig styrkja enn frekari uppbyggingu í matvælaiðnaði. Íslenskir framleiðendur eiga þar mikið af ónýttum tækifærum. Hægt væri að nýta enn frekar ímynd Íslands sem hið hreina, örugga og óspillta land sem hefur byggst upp í tengslum við ferðaþjónustu í markaðssetningu á íslenskum matvælum erlendis. Markviss markaðssetning með þeim hætti myndi gera íslenskum matvælaframleiðendum kleift að gera útflutning á fjölbreyttari matvöru jafn arðbæra og útflutningur fisks hefur verið. Þannig væri hægt að skapa fleiri störf og meiri gjaldeyristekjur fyrir land og þjóð.

Mörg tækifæri felast á þessu sviði, bæði við ræktun fjölbreyttari fæðu sem og í frekari fullnýtingu þeirra landbúnaðarvara sem nú þegar eru framleidd hér á landi. Fróðlegt var að heyra svo margar hliðar á þessum spennandi iðnaði sem á framtíðina fyrir sér hér landi.

Ef þú misstir af fundinum þá getur þú séð upptökur af beinu streymi fundarins á fésbókarsíðu UngFramsókn í Reykjavík

Categories
Greinar

Frelsi og fjötrar

Deila grein

10/02/2021

Frelsi og fjötrar

Víðtæk sátt þarf að nást um hálendisþjóðgarð allra Íslendinga eigi hann að verða að veruleika. Málið er umdeilt og sjónarmið eru margvísleg og því brýnt að vanda til undirbúnings með hliðsjón af því markmiði sem sátt verður um. Óheft aðgengi að miðhálendinu eru verðmæti í hugum almennings sem hefur kynnst náttúru og menningu og haft frelsi til athafna og upplifunar. Hefðbundin landnýting og nytjar hafa verið stundaðar á hálendi Íslands í hundruði ára og hafa margar hverjar menningarlegt gildi. Þannig er svæðið mikilvægt fyrir það fólk sem hefur um áraraðir haft umsjón með hálendinu, sinnt því af trúmennsku og á faglegan hátt. Þá sé um að ræða eitt mikilvægasta útivistarsvæði almennings til ýmissa nytja og afþreyingar.

Vernd og nýting

Almennt má segja að mikilvægt er að vernda viðkvæma hluta landsins, nýta náttúruauðlindir á sjálfbæran hátt og um leið að auðvelda fólki að upplifa og njóta frelsis í náttúrunni. Samvinna þarf að vera um vernd og nýtingu miðhálendisins eins og annars lands í sameign þjóðarinnar.

Í stjórnarsáttmálanum var fjallað um að stofnaður yrði þjóðgarður á miðhálendinu í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sveitarfélaga, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra hagsmunaaðila. Í stjórnarsáttmálanum var ekki tilgreint um stærð þjóðgarðs né stjórnfyrirkomulagið. Því fór það svo að þingflokkur Framsóknar lagðist gegn óbreyttu frumvarpi umhverfis- og auðlindaráðherra um hálendisþjóðgarð. Fyrirvararnir lúta að stærðartakmörkunum, valdi sveitarfélaga, frjálsri för, orkunýtingu ofl.

Fyrirvarar þingflokks Framsóknar

Ein nálgun gæti verið að byrja smátt í stað þess að teygja sig yfir stórt svæði en fyrirhuguð stærð hálendisþjóðgarðs nær yfir 30% af Íslandi með snertiflöt við mörg sveitarfélög sem liggja að þjóðgarðsmörkum. Sveitarfélögin hafa lagt áherslu á að þau sé höfð með í ráðum og að samþykki þurfi frá viðeigandi sveitarstjórnum um nákvæma afmörkun og skiptingu svæða í verndarflokka. Já, áskoranir eru margar. Til að mynda er töluverð áskorun að koma á stjórnunarfyrirkomulagi Hálendisþjóðgarðs sem nær á fullnægjandi hátt til allra sjónarmiða sem eiga erindi í stefnumótun og ákvarðanatöku sem og valdsvið umdæmisráða. Þá er óvíst hvernig farið verður með valdheimildir einstakra sveitafélaga yfir eigin mannvirkjum og öðrum eignum innan þjóðgarðsins.

Frjáls för

Enn er mörgum spurningum ósvarað um reglugerðir sem á eftir að semja, til dæmis um umferð og dvöl á hálendinu. Þingflokkur Framsóknar leggur því áherslur á að tryggja þurfi frjálsa för almannaréttar þannig að gangandi, hjólandi, ríðandi og akandi geti ferðast eins og nú um þjóðgarðinn án takmarkana. Margvísleg sjónarmiðið eru um útfærslur á stjórnun og vernd hálendisins en flest eiga þau það sameiginlegt að bera hag hálendisins og þar með landsins alls fyrir brjósti. Fólk sem býr við jaðar hálendisins ber sterkar taugar til þess líkt og þeir sem búa fjarri hálendinu. Skilningur á náttúrunni gerist best með umgengni við landið og skynsamlegri nýtingu þeirra er það byggja. Mikilvægt er að hlusta vel á þessar raddir og virða tilfinningar þeirra sem láta sig málið varða áður en ákvörðun er tekin um svæði sem spannar um þriðjung af Íslandi.

Kjalvegur

Til að tryggja aðgengi að miðhálendinu er nauðsynlegt að viðurkenna og setja inn í lagatexta að byggja þurfi upp vegi t.a.m. Kjalveg og setja fjármuni í umhverfismat og hönnun. Jafnframt þarf að liggja fyrir að skipuleggja eigi aðra vegi með beinni tilvísun til skipulags og valdheimilda einstakra sveitarfélaga á sínu svæði. Einnig er óljóst með núverandi starfsemi einkaaðila og sveitarfélaga við hugmyndir um starfsemi og fjármögnun þjóðgarðs. Þá gerir þingflokkur Framsóknar fyrirvara um að afmarka þurfi orkuvinnslusvæði, svæði í biðflokki í rammaáætlun 3 og flutningsleiðir raforku á miðhálendinu, hvort sem þau verða innan eða utan þjóðgarðs.

Samtalið

Að þessu sögðu er umtalsverð vinna eftir sem verður ekki hrist fram úr erminni á nokkrum mánuðum. Samtalið sem umhverfis- og auðlindaráðherra hefur átt um allt land þarf að halda áfram því enn er langt í land ef áformin eiga ná að verða að veruleika. Alls bárust 149 umsagnir til umhverfis- og samgöngunefndar sem hefur nú málið til umfjöllunar. Umsagnirnar koma víða að úr þjóðfélaginu sem ber þess merki að almenningi er virkilega annt um að ekki verði gerðar stórar breytingar eða byltingar sem skerða frelsi og lífsgæði fólks. Lífsgæði Íslendinga byggjast á því að skapa tækifæri af þeim verðmætum sem landið gefur okkur á sjálfbæran hátt. Landnýting þjóðgarðs er stór ákvörðun sem þarfnast víðtækrar sáttar.

Hálendið er ekki í hættu. Á síðustu árum hefur ríkt víðtæk sátt um að hálendið sé mikilvægur hluti af landinu, af okkur sjálfum. Þeir fyrirvarar sem við í Framsókn setjum fyrir framhaldinu snúast um að varðveita þá sátt, þann frið, sem ríkir um hálendið.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Dagskránni á Suðurlandi 10. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Ekkert „Hakuna Matata“ með verndun íslenskunnar

Deila grein

08/02/2021

Ekkert „Hakuna Matata“ með verndun íslenskunnar

Nokkur umfjöllun hefur verið í fjölmiðlum síðustu daga um skort á talsettu efni á efnisveitunni Disney+, sem varð aðgengilegt Íslendingum í fyrra. Undanfarið hafa íslenskusérfræðingar og ráðamenn vakið athygli á þessu og sent áminningu til Disney um málið. Þar má benda á formlegt bréf mennta- og menningarmálaráðherra til stjórnenda fjölmiðlaveitunnar Vissulega er þetta jákvætt þar sem vilji flestra landsmanna er að vernda skuli íslenska tungu, en tungumálið er í hættu ef við stöndum ekki vörð um það. Sú hætta er margumtöluð og staðfest í hugum sérfræðinga.

Þó getum við ekki einungis horft erlendis varðandi textun á sjónvarps- og kvikmyndaefni. Íslendingar bera meginábyrgð á verndun íslenskunar, þ.e. að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Textun á innlendu sjónvarpsefni hér á landi heyrir nánast til undantekninga, og það getur verið mörgum einstaklingum til vandræða. Textun innlends efnis myndi gagnast tugþúsundum landsmanna, og þá sérstaklega heyrnaskertum einstaklingum. Heyrnaskertir kunna málið en eiga oft erfitt með að heyra allt talmál í sjónvarpi. Jafnvel erlent barnaefni vantar stundum textun og við það eiga heyrnaskert börn erfitt með að fylgjast með talmáli og missa því af barnaefni. Það eru um 200 börn og unglingar sem þurfa heyrnatæki hér á landi. Einnig eru kringum 15% þjóðarinnar heyrnarskert að einhverju leiti.

Það hefur lengi verið baráttumál heyrnaskertra að íslenskur texti fylgir því myndefni sem innlendar fjölmiðlaveitur miðla, og þá texti sem endurspeglar texta hljóðrásar myndefnisins eins nákvæmlega og kostur er. Frumvarp þess efnis hefur nokkrum sinnum verið lagt fram á Alþingi en ekki náð fram að ganga, sem er miður.

Þá er einnig vert að benda á umræðu um læsi barna í þessu samhengi. Töluleg gögn um læsi barna á Íslandi hafa bent til þess að læsi hefur farið hnígandi. Við þurfum að leita alla leiða til að bæta úr þeirri stöðu, sem er vissulega mjög alvarleg í stóru myndinni og til framtíðarinnar litið. Það er ekki ásættanlegt að læsi t.d. leiðtoga, frumkvöðla og kennara framtíðarinnar sé ábótavant. Textun efnis getur eflt læsi barna, eðli máls samkvæmt. Það er samt ekki aðeins textun á barnaefni sem kemur þar til greinar heldur einnig textun á öðru íslensku efni svo sem kvikmyndum og þjóðfélagslegri umræðu í sjónvarpi.

Í byrjun Covid-19 faraldursins var meiri áhersla lögð á gæðaefni í sjónvarpi til afþreyingar landsmanna. Þá var ánægjulegt að sjá meiri textun og meiri áherslu á táknmál þannig að allir gætu notið þess efnis sem birtist á skjáum landsmanna. En betur má ef duga skal og er því mikilvægt að nýta þá reynslu sem fékkst af þessu og halda áfram á sömu braut. Sjónarmið um erfiði og kostnað við textun eru vísað á bug. Hér erum við að tala um hagsmuni fólks og þá sérstaklega barna. Í dag eru meira að segja komnar ýmsar gerðir hugbúnaðar sem textar og jafnvel þýðir talmál jafnóðum og verður sífellt fullkomnari með hverju árinu.

Óskastaðan væri sú að við stjórnmálamenn gætum sagt „Hakuna Matata“ í þessu málum, en þangað til er það okkar að þrýsta á þetta réttlætismál.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Í fótspor Ladda, Felix og Eddu Heiðrúnar

Deila grein

06/02/2021

Í fótspor Ladda, Felix og Eddu Heiðrúnar

Í ára­tugi hef­ur kvik­mynd­aris­inn Disney skemmt heims­byggðinni með æv­in­týr­um og sög­um. Söguþráður­inn er oft svipaður í grunn­inn – aðal­sögu­hetj­an lend­ir í ógöng­um, berst við ill öfl, en hef­ur bet­ur að lok­um. Flest eig­um við minn­ing­ar af kvik­mynda­upp­lif­un með fjöl­skyld­um okk­ar, þar sem við hlæj­um eða grát­um yfir drama­tík­inni á hvíta tjald­inu. Lyk­ill­inn að þeirri upp­lif­un er sam­eig­in­leg­ur skiln­ing­ur þeirra sem horfa – barna og full­orðinna.

Íslend­ing­ar áttuðu sig á þessu fyr­ir löngu og hafa lagt ótrú­leg­an metnað í tal­setn­ing­ar og þýðing­ar. Okk­ar frá­bæra fag­fólk, bæði tækni- og lista­menn, hef­ur skilað vinnu á heims­mæli­kv­arða frá því fyrsta Disney-mynd­in í fullri lengd var hljóðsett árið 1993. Fel­ix í hlut­verki Aladdíns, Laddi í hlut­verki and­ans og Edda Heiðrún sem prins­ess­an Jasmín eru ógleym­an­leg og gáfu tón­inn fyr­ir það sem skyldi koma. All­ar göt­ur síðan hafa Disney-mynd­ir verið tal­sett­ar og þannig hafa text­ar og hljóðrás­ir orðið til. Þess vegna er ein­kenni­legt að fyr­ir­tækið skuli ekki bjóða upp á ís­lenska texta og tal á streym­isveit­unni Disney+.

Í vik­unni sendi ég for­stjóra Disney bréf og hvatti fyr­ir­tækið til að nota það frá­bæra efni sem þegar er til. Það er bæði sann­gjörn og eðli­leg krafa, enda er fátt þjóðinni kær­ara en ís­lensk­an, og það er skylda stjórn­valda að styðja við og efla þenn­an hluta fjöl­miðlun­ar. Raun­ar hvíl­ir sú laga­skylda á ís­lensk­um sjón­varps­stöðvum að texta er­lent efni, en lög­in ná ekki yfir streym­isveiturn­ar sem falla milli skips og bryggju.

Brýnt er að bregðast við þeirri stöðu, svo skarðið í varn­ar­vegg ís­lensk­unn­ar stækki ekki á kom­andi árum. Íslensk­an á að vera hluti af allri streym­isþjón­ustu hér­lend­is, auk þess sem sam­keppn­is­staða ís­lenskra fjöl­miðla skekk­ist ef þeir er­lendu kom­ast fram hjá lög­um. Hana geta stjórn­völd rétt með texta- og tal­setn­ing­ar­sjóði, sem ég vil að verði að veru­leika, auk þess sem tækni­fram­far­ir gefa góð fyr­ir­heit um að sjálf­virk textun á sjón­varps­efni verði að veru­leika áður en langt um líður.

Í því sam­hengi er gam­an að nefna fram­gang mál­tækni­áætl­un­ar stjórn­valda, sem miðar að því að gera ís­lensk­una gjald­genga í tækni­vædd­um heimi. Nú hafa rúm­lega 1,1 millj­ón setn­ing­ar á ís­lensku safn­ast inn í radd­gagna­safnið Samróm, sem verður notað til að þjálfa mál­tækni­hug­búnað og radd-smá­for­ritið Embla er þegar komið út í prufu­út­gáfu. Með því get­um við talað ís­lensku við snjall­tæk­in okk­ar, spurt þau í töluðu máli um frétt­ir dags­ins, áætl­un­ar­tíma strætó, af­greiðslu­tíma sund­lauga og fleira.

Enn er margt óunnið í bar­áttu okk­ar fyr­ir viðgangi og vexti ís­lensk­unn­ar. Það er mik­il­vægt að vera stöðugt á verði og taka aðal­sögu­hetj­ur teikni­mynd­anna til fyr­ir­mynd­ar. Þegar á móti blæs tök­um við vind­inn í fangið og sigr­um!

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. febrúar 2021.

Categories
Fréttir

Við verðum á skjánum!

Deila grein

06/02/2021

Við verðum á skjánum!

Næstu daga verða ráðherrar og þingmenn Framsóknar með opna fundi á netinu að ræða þau mál sem eru efst á baugi. Árangur, uppbygging, jákvæð stjórnmál, samgöngur, húsnæðismál, menntamál og atvinna, atvinna, atvinna.

  • Framfarir og umbætur byggja á samvinnu og samtali.
  • Þess vegna ræðst framtíðin á miðjunni.
10. febrúar kl. 20.00 — Þessi með Höllu Signýju og Ásmundi Einari í Norðvesturkjördæmi

Zoom hlekkur á fundinn: https://us02web.zoom.us/j/83913435671

10. febrúar kl. 20.00 — Þessi með Sigurði Inga og Silju Dögg í Suðurkjördæmi

Zoom hlekkur á fundinn: https://us02web.zoom.us/j/85607846443

15. febrúar kl. 20.00 — Þessi stóri með öllu liðinu í beinu streymi frá Reykjavík
Categories
Fréttir

Framboð og tilnefningar!

Deila grein

05/02/2021

Framboð og tilnefningar!

Framsókn í Reykjavík leitar að öflugu og áhugasömu fólki á framboðslista Framsóknar í Reykjavíkurkjördæmi norður og suður fyrir komandi alþingiskosningar.

Áhugasamir eru hvattir til að tilnefna sjálfan sig.

Framboð þurfa að berast fyrir lok dags 14. febrúar næst komandi. Fullum trúnaði heitið.

Categories
Fréttir

Skriður kominn á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni

Deila grein

04/02/2021

Skriður kominn á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, benti á að nú væri kominn skriður á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni sem Framsóknarflokkurinn hefur unnið, að með einum eða öðrum hætti, frá 2013. Þetta kom fram í ræðu hennar í störfum þingsins á Alþingi í gær.

„Uppbygging íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni er komin á skrið eftir langt hlé. Það er m.a. að þakka leigufélaginu Bríeti sem tók til starfa í mars 2019 en leigufélagið er mikilvægur liður í úrbótum á húsnæðismarkaði sem Framsóknarflokkurinn hefur unnið að með einum eða öðrum hætti frá 2013 og nú eru komnar til framkvæmda. Ný Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur það hlutverk að stuðla að stöðugleika á húsnæðismarkaði og tryggja almenningi aðgengi að viðunandi húsnæði á viðráðanlegu verði, hvort sem er á eignar- eða leigumarkaði,“ sagði Líneik Anna.

Bríeti er ætlað að vera hluti af uppbyggingu og styrkingu leigumarkaðar sem stuðlar að búsetuöryggi með sérstakri áherslu á landsbyggðina. Félagið vinnur með sveitarfélögum og langtímamarkmið þess er að stuðla að nýsköpun og uppbyggingu þar sem þörf er á húsnæði á landsbyggðinni.

„Félagið er sjálfstætt starfandi og er áhersla á rekstur og útleigu íbúða til lengri tíma en félagið byggir eða kaupir eldra húsnæði til endurbóta og kaupir og selur, til að vera í takt við þarfir á markaði á hverjum stað og tíma.“

„Tilvist Bríetar leigufélags hefur heldur betur sannað sig og er félagið ásamt hlutdeildarlánum að rjúfa stöðnun sem ríkt hefur á húsnæðismarkaði víða á landsbyggðinni í árum saman. Þá tryggir tilvist félagsins líka að nú er hægt að bregðast hratt við húsnæðisþörf á Seyðisfirði eftir náttúruhamfarirnar þar í desember. Í gær var undirritað samkomulag um byggingu sex íbúða þar með hraði og tækifæri eru til þess að byggja enn fleiri íbúðir á næstunni ef þörf reynist á. Bríet hefur einnig nýlega auglýst eftir samstarfsaðilum um byggingu hagkvæmra íbúða á Fáskrúðsfirði og Djúpavogi og bygging er hafin á íbúðum á Vopnafirði,“ sagði Líneik Anna að lokum.