Categories
Fréttir

Varnir, vernd og viðspyrna

Deila grein

22/04/2020

Varnir, vernd og viðspyrna

Sérstök áhersla er lögð á uppbyggingu með nýsköpun í aðgerðaáætlun stjórnvalda. Lögð eru til aukin framlög til fjárfestingar í sprotafyrirtækjum og hækkun endurgreiðsluhlutfalls og fjárhæðarþaks til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar, en áhrif þessara aðgerða nema tæpum 4,5 milljörðum króna. Stefnt er að því að flýta endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar fyrir árið 2019. Auk þess verður sótt fram í matvælaframleiðslu, meðal annars með nýsköpun og markaðssetningu. Þá verða framlög til listamannalauna aukin þannig að úthluta megi rúmlega 600 verkefnamánuðum til viðbótar á árinu 2020.
Veittir verða lokunarstyrkir til fyrirtækja sem var gert að hætta starfsemi vegna sóttvarna, allt að 2,4 m.kr. Lítil og meðalstór fyrirtæki í rekstrarörðugleikum geta sótt um allt að 6 m.kr. óverðtryggð stuðningslán á sömu vöxtum og sjö daga bundin innlán lánastofnana hjá Seðlabanka Íslands, sem nú eru 1,75%. Ljóst er að stór hluti fyrirtækja sem starfa í ferðaþjónustu mun geta nýtt leiðina þar sem hlutfall lítilla og meðalstórra fyrirtækja er töluvert meira í ferðaþjónustu en öðrum greinum. Áætluð heildarútgjöld vegna þessara tveggja aðgerða eru talin geta numið rúmlega 30 milljörðum króna. Einnig verður fyrirtækjum heimilt að jafna vegna tekjuskatts allt að 20 m.kr. af fyrirsjáanlegu tapi ársins 2020 á móti hagnaði ársins 2019.
Félagsleg úrræði með stuðningi við viðkvæma hópa, atvinnuleitendur og námsmenn vega þungt í aðgerðapakkanum. Verður 2,2 milljörðum króna varið til að skapa 3000 tímabundin störf í sumar fyrir námsmenn 18 ára og eldri og 300 m.kr. til að efla nýsköpun meðal ungra frumkvöðla gegnum Nýsköpunarsjóð námsmanna. Auk þess verður 800 m.kr. veitt til að bjóða sumarönn í framhalds- og háskólum sem nýtist bæði nemendum og fólki á atvinnuleysis- eða hlutabótum. Einnig verður ráðist í aðgerðir til að hlúa að viðkvæmum hópum, vinna gegn ofbeldi og félagslegri einangrun aldraðra og öryrkja, styðja við virkni atvinnuleitenda og tryggja tækifæri barna úr tekjulágum fjölskyldum til að taka þátt í frístundastarfi. Hugað verður sérstaklega að því að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og fjarheilbrigðisþjónusta verður efld. Alls verður um 8,5 ma.kr. varið til félagslegra aðgerða í þessum áfanga.
Til að styðja við fjölræði og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði verður einkareknum fjölmiðlum tryggður sérstakur rekstrarstuðningur á yfirstandandi ári, en þeir hafa tapað miklum tekjum á sama tíma og eftirspurn eftir þjónustu þeirra hefur aukist. Komið verður til móts við lausafjárvanda ferðaskrifstofa með lagabreytingu sem heimilar þeim að endurgreiða vissar ferðir með inneignarnótum.
Til þess að liðka fyrir markmiði sveitarfélaga um flýtiframkvæmdir er lagt til að þeim verði veittur tímabundinn réttur til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað auk þess sem Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fær heimild til að veita styrki til sveitarfélaga. Þá stendur yfir kortlagning á viðkvæmum svæðum á landsvísu og stafræn þjónusta sveitarfélaga verður efld.

  • Virkni á vinnumarkaði – úrræði til að efla fólk í atvinnuleit
  • Geðheilbrigði í forgangi, átak gegn ofbeldi og fjarheilbrigðisþjónusta efld
  • Margþættur stuðningur við börn – sérstakur frístundastyrkur til tekjulágra
  • Álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks vegna Covid-19

***

  • Lokunarstyrkir til fyrirtækja sem var gert að hætta starfsemi vegna sóttvarna
  • Stuðningslán til lítilla og meðalstórra fyrirtækja
  • Fyrirtækjum heimilað að jafna tekjuskatt 2019 með tapi 2020

***

  • Sumarúrræði fyrir námsmenn – störf, nám og frumkvöðlaverkefni
  • Efling matvælaframleiðslu með nýsköpun og markaðssetningu
  • Frekari sókn til nýsköpunar – fjárfestingar auknar, hærra hlutfall endurgreiðslu og þök hækkuð vegna rannsókna og þróunar

Lítil fyrirtæki í rekstrarörðugleikum fá stuðning, brugðist er við vanda námsmanna, félagsleg úrræði efld og sjónum er beint að nýsköpun til framtíðar. Þetta er hluti af framhaldsaðgerðum stjórnvalda sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hafa kynnt vegna heimsfaraldurs kórónaveiru. Jafnframt greindu þau frá því að framlínufólk í heilbrigðisþjónustu sem búið hefur við aukið álag og mikla smithættu fái álagsgreiðslu.

Categories
Greinar

Leiðin til öflugra Íslands

Deila grein

21/04/2020

Leiðin til öflugra Íslands

Ríkisstjórnin kynnti í dag annan hluta Viðspyrnu fyrir Ísland í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Heldur þannig áfram vinna stjórnvalda til að bregðast við þeim mikla vanda sem heimsfaraldur kórónuveiru hefur skapað um allan heim. Eins og í fyrri pakka þá eru aðgerðirnar þrískiptar: Varnir, vernd og viðspyrna.

Aðgerðirnar eru fjölbreyttar. Varnirnar felast í því að veita þeim fyrirtækjum styrki sem hefur verið gert að hætta tímabundið starfsemi vegna sóttvarna, fyrirtækjum verða veitt lán með ríkisábyrgð til að standa straum af föstum rekstrarkostnaði og fyrirtækjum verður gert kleift að jafna saman tapi ársins 2020 og hagnaðar ársins 2019. Allt er þetta mikilvægt til að veita aðstoð lífvænlegum fyrirtækjum sem mikilvæg eru í viðspyrnunni.

Verndarhlutinn felur í sér áherslu á að veita fjölskyldum og einstaklingum tækifæri til að vinna sig í gegnum vandann og koma eftir fremsta megni í veg fyrir óafturkræf félagsleg vandamál sem fylgja áföllum eins og þeim sem við göngum nú í gegnum. Stutt verður duglega við námsmenn, bæði með því að bjóða upp á sumarnám og 3000 sumarstörf, sexföldun Nýsköpunarsjóðs námsmanna auk þess sem námsmönnum verður auðveldað að fá atvinnuleysisbætur. Einnig er háum fjárhæðum varið til þess að auka virkni atvinnulausra og gefa þeim kost á námi samhliða bótum. Áætlað er að úrræðið nái til um 15 þúsund manns á árinu. Fjarheilbrigðisþjónusta verður efld sem styrkir mjög aðgang fólks um allt land að þjónustu heilbrigðiskerfisins. Þá er 600 milljónum veitt til sveitarfélaga til að styðja við 12 þúsund börn á tekjulægri heimilum til að stunda íþrótta- og frístundastarf.

Nú er ekki síst þörf á því að horfa til framtíðar. Nauðsyn er að styrkja enn stoðir íslensks atvinnulífs með mikilli áherslu á nýsköpun. Framlög til endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði verður aukin 2,5 milljarða króna auk þess sem umgjörð fjármögnunar sprota- og nýsköpunarfyrirtækja verður styrkt með sérstakri áherslu á grænar tæknilausnir.

Ég hef áður bent á mikilvægi þess að hlúð verði að íslenskri matvælaframleiðslu. Þar er ekki aðeins um fjárhagslegt mál að ræða heldur er augljóst að lýðheilsusjónarmið eru þar mikilvæg. Þau skref sem eru stigin í þeim aðgerðum sem kynntar voru í dag eru mikilvæg og felast í nýjum Matvælasjóði þar sem hálfum milljarði verður bætt við það fjármagn sem áður fór í Framleiðnisjóð landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóð í sjávarútvegi. Þá fagna ég því að nýr samningur við garðyrkjubændur feli í sér aukningu um 200 milljónir auk þess að fjármagn verður aukið til endurgreiðslu flutnings- og dreifingarkostnaðar á rafmagni.

Leiðin framundan er grýtt en eftir því sem tíminn líður sjáum við smátt og smátt landslagið breytast fyrir framan okkur, göturnar verða greiðfærari og bjartara yfir. Við verðum að halda hópinn og styðja hvert annað á leiðinni. Þá fer allt vel.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. apríl 2020.

Categories
Fréttir

Spurt og svarað um efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19 — 2. hluti

Deila grein

21/04/2020

Spurt og svarað um efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19 — 2. hluti

Ríkisstjórnin hefur kynnt framhald efnahagsaðgerða sinna vegna áhrifa Covid-19 heimsfaraldursins.

Markmið aðgerða ríkisstjórnarinnar er að verja grunnstoðir samfélagsins, vernda afkomu fólks og fyrirtækja, og tryggja öfluga viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf. Eftir því sem neikvæð efnahagsleg áhrif Corona-faraldursins raungerast ber aukna nauðsyn til að huga að félagslegu öryggi og velferð.

Aðgerðir sem snúa beint að einstaklingum eru tvíþættar. Áhrifa faraldursins gætir víða í samfélaginu og eru af bæði efnahagslegum og félagslegum toga. Annars vegar er aðgerðum ætlað að styðja við þá hópa sem talið er að þurfi bráða aðstoð vegna samfélagslegra afleiðinga COVID-19. Hins vegar er markmiðið að skapa tímabundin náms- og atvinnutækifæri fyrir námsmenn, fólk á atvinnuleysisbótum og aðra sem kunna að sækjast eftir slíkum tækifærum. Helstu aðgerðir eru eftirfarandi:

  • Geðheilbrigði og fjarþjónusta: Efling geðheilbrigðisþjónustu, heilsugæslu og fjarþjónustu
  • Vernd fyrir börn og viðkvæma hópa: Átak gegn ofbeldi, stuðningur vegna tómstunda og veikinda og úrræði gegn félagslegri einangrun
  • Sértækur stuðningur: Framlínuálag fyrir heilbrigðisstarfsfólk
  • Vegir til virkni í námi og starfi: Átak til að fjölga námsúrræðum og tímabundnum störfum
  • Efling nýsköpunar og lista: Auknir nýsköpunarstyrkir, fleiri mánuðir listamannalauna

Afkoma heimila var í brennidepli í þeim aðgerðum sem kynntar voru í mars síðastliðnum, s.s. með atvinnuleysisbótum vegna minnkaðs starfshlutfalls, eingreiðslu til barnafólks og öryrkja og tímabundinni heimild til úttektar á séreignarsparnaði. Þrjár þeirra aðgerða sem nú eru kynntar miða að því að styrkja starfsgrundvöll fyrirtækja í erfiðu efnahagsástandi og standa þannig vörð um störf og afkomu heimila. Nánari upplýsingar um þær aðgerðir má sjá undir flipanum „fyrirtæki“ hér að ofan.
Þeim aðgerðum sem snúa beint að fyrirtækjum er ætlað að styðja þau til að takast á við mjög erfiðar efnahagsaðstæður sem orðið hafa vegna COVID-19 heimsfaraldursins og þeirra sóttvarnaraðgerða sem grípa hefur þurft til:

  • Lokunarstyrkir: Rekstrarstyrkir vegna fyrirmæla um lokun starfsemi
  • Stuðningslán: Rekstrarlán til minni fyrirtækja í lægð vegna faraldursins
  • Tekjuskattsjöfnun: Heimild til að jafna tap þessa árs á móti hagnaði í fyrra

Aðgerðir taka mið af þeim úrræðum sem þegar hafa komið til framkvæmda og má sjá nánari upplýsingar um hér[BB3] . Einnig hafa verið kynntar aðgerðir til viðspyrnu sem snúa sérstaklega að sprotum og nýsköpunarfyrirtækjum og má sjá nánari upplýsingar undir viðeigandi flipa hér að ofan.
Sú kreppa sem við göngum nú í gegnum er tímabundin. Viðspyrnan kemur þó óvíst sé hversu lengi þurfi að bíða hennar. Undirstöður hagkerfisins eru góðar til að takast á við þá áskorun að byggja upp öflug fyrirtæki bæði á útflutningsmarkaði og heimamarkaði og vinna til baka markaði sem lokuðust vegna COVID-19. Sérstaklega er mikilvægt að byggja upp atvinnugreinar sem byggja á nýsköpun og ótakmörkuðum auðlindum hugvits sem hraða munu uppbyggingu, fjölga störfum og auka hagvöxt. Um það fjalla þær aðgerðir sem snúa beint að sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og frumkvöðlum:

  • Efling nýsköpunar: Auknar R&Þ endurgreiðslur og styrkir
  • Fjármögnun sprota: Mótframlög og fjárfestingar í sprota- og vaxtarfyrirtækjum
  • Aukning innlendrar verðmætasköpunar: Nýr matvælasjóður til að efla nýsköpun og markaðssetningu, aukning á listamannalaunum
Categories
Greinar

Við eigum og ætlum að standa með fjölskyldum

Deila grein

21/04/2020

Við eigum og ætlum að standa með fjölskyldum

COVID-19 faraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á okkur öll og fram undan eru miklar áskoranir fyrir íslenskt samfélag. Heilu atvinnugreinarnar eru lamaðar og ljóst er að fjöldi fyrirtækja hefur orðið fyrir eða mun verða fyrir miklum og jafnvel óyfirstíganlegum vanda.

Um leið og faraldurinn ágerðist var brugðist við með markvissum aðgerðum. Ég lagði strax um miðjan mars fram frumvarp um hlutaatvinnuleysisbætur sem gerði atvinnurekendum kleift að minnka starfshlutfall niður í allt að 25% og Atvinnuleysistryggingasjóður greiddi atvinnuleysisbætur á móti. Markmiðið með þessu var að viðhalda ráðningarsambandi fólks við vinnuveitendur sína og tryggja öfluga viðspyrnu þegar þessu tímabundna óveðri slotaði. Verkefnið fram undan er að taka ákvörðun um hvort og með hvaða hætti lögin um hlutaatvinnuleysisbætur verði framlengd. Ég held að öllum sé ljóst að það óvissuástand sem nú ríkir á vinnumarkaði muni vara lengur en við gerðum ráð fyrir í fyrstu og við getum gert ráð fyrir því að fjölda­atvinnuleysi muni dragast á langinn. Í öllum þeim skrefum sem við tökum er það fyrst og fremst skylda okkar að tryggja stöðu heimilanna og framfærslu fjölskyldna í landinu við þessar krefjandi aðstæður.

Nú er ríkisstjórnin að vinna að nýjum aðgerðapakka sem er ætlað að veita mótvægi vegna þeirra áhrifa sem faraldurinn hefur á viðkvæma hópa í okkar samfélagi. Við ætlum að setja fókusinn á börnin og beina sjónum sérstaklega að því að styðja við foreldra í viðkvæmri stöðu, svo sem vegna umönnunar á langveiku eða fötluðu barni. Við munum einnig kynna fjölþættar aðgerðir sem miða að því að auka stuðning við viðkvæma hópa en munum einnig halda áfram markvissum aðgerðum gegn heimilisofbeldi, en reynslan sýnir að það eykst í því ástandi sem er nú.

Við verðum alltaf að hafa hugfast að fólkið og fjölskyldur landsins eru dýrmætasta eign samfélagsins og þess vegna ætlum við áfram að vinna að aðgerðum til að bæta stöðu viðkvæmra hópa næstu vikur og mánuði.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 21. apríl 2020.

Categories
Fréttir

„Liður í að skapa störf bæði í bráð og lengd“

Deila grein

20/04/2020

„Liður í að skapa störf bæði í bráð og lengd“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, segir að samvinnuverkefni (PPP) í samgöngum hafa verið til umfjöllunar á Alþingi sem hluta af samgönguáætlun, tvo síðustu þingvetra. „Við afgreiðslu samgönguáætlunar fyrir ári síðan var samþykkt (með auknum meirihluta án mótatkvæða) að fela samgönguráðherra að útfæra leiðir til að auka fjármagn í til vegasamgangna og þar á meðal þessa leið. (38 já, 18 greiddu ekki atkv., 7 fjarstaddir).“ Þetta kemur fram í færslu hennar á Facebook.
„Þar fékk samgönguráðherra skýr skilaboð Alþingis um að útfæra leiðina og leggja útfærsluna fyrir Alþingi – í dag átti að mæla fyrir málinu til að tryggja að það kæmist til umsagnar í samfélaginu. Umfjöllun tryggir að ólík sjónarmið varðandi málið komi fram og Alþingi geti fjallað um það þegar regluleg þingstörf hefjast aftur.
Verkefnin sem tilgreind eru í tillögunni eru:

a. Hringvegur norðaustan Selfoss og brú á Ölfusá.
b. Hringvegur um Hornafjarðarfljót.
c. Axarvegur.
d. Tvöföldun Hvalfjarðarganga.
e. Hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli.
f. Sundabraut.

Sum gætu hafist í ár og orðið mikilvægur liður í að skapa störf bæði í bráð og lengd, sagði Líneik Anna.

Categories
Fréttir

Norðurlandabúar geti sem fyrst ferðast óhindrað yfir landamæri

Deila grein

20/04/2020

Norðurlandabúar geti sem fyrst ferðast óhindrað yfir landamæri

„Þessi heimsfaraldur mun ganga yfir, svo mikið er víst, og vonandi fyrr en síðar. En þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á sviði loftslagsmála eru ekki á förum,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda. „Þess vegna er mikilvægt að um leið og við gerum meira á norrænum vettvangi til að mæta áhrifum COVID-19, vinnum við áfram að markmiðinu um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Við Íslendingar skulum nýta uppbyggingarstarfið sem er framundan til að ná því markmiði.“
Samstarfsráðherrar Norðurlanda ákváðu á fjarfundi í dag að fjármagna aðgerðir á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar til að mæta áhrifum COVID-19 heimsfaraldursins. Norræna ráðherranefndin hefur þegar gripið til vissra ráðstafana eins og að auka rannsóknarstarf á vegum Norrænu rannsóknarstofnunarinnar, NordForsk. Norrænir heilbrigðisráðherrar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hafa átt náið samráð um aðgerðir í bráð og lengd. Öllum fagráðherraráðum innan Norrænu ráðherranefndarinnar verður falið að koma með tillögur um það hvernig Norðurlöndin geti í sameiningu brugðist með enn markvissari hætti við núverandi ástandi en ljóst er að COVID-19 faraldurinn mun hafa víðtæk áhrif á atvinnulíf, vinnumarkað og samfélag.
Á fundinum kom fram skýr vilji til að draga lærdóma af viðbrögðum Norðurlandanna hingað til, sem að sumu leyti hafa verið ólík. Það verði einnig gert til þess að geta metið næstu skref og ekki síst til að undirbúa Norðurlöndin betur fyrir sambærilegum áföllum í framtíðinni.
Samstarfsráðherrarnir voru sammála um að ný framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar, sem samþykkt var í fyrra á formennskuári Íslands og leggur áherslu á loftslagsmál og samþættingu Norðurlandanna, ætti áfram að vera leiðarljós norræns samstarfs en með aukinni áherslu á heilbrigðissamstarf.
Á fundinum var einnig rætt um mikilvægi þess að Norðurlandabúar geti sem fyrst ferðast óhindrað yfir landamæri. Verulega hefur reynt á það vegna sóttvarnaraðgerða og hafa norrænar upplýsingaskrifstofur svarað rúmlega 200 þúsund fyrirspurnum frá íbúum Norðurlandanna á síðastliðnum mánuði. Á fundinum kom fram að vestnorrænt samstarf hefur einnig sannað gildi sitt en Færeyjar og Grænland hafa m.a. átt samstarf um skimun fyrir veirunni. Þá þökkuðu fulltrúar Grænlands íslenskum stjórnvöldum fyrir að hafa aðstoðað við gerð loftbrúar milli Nuuk og Kaupmannahafnar með viðkomu í Keflavík.

Heimild: stjornarradid.is

Categories
Fréttir

Áhersla á velferð nemenda og stuðningur við kennara

Deila grein

20/04/2020

Áhersla á velferð nemenda og stuðningur við kennara

„Áhrif COVID-19 draga fram mikilvægi grunnstoða allra samfélaga. Mikilvægi menntunar er rauður þráður í viðbrögðum stjórnvalda í Evrópu og við áttum góðan fund, deildum reynslu okkar og ræddum aðgerðir,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, um veffund evrópskra menntamálaráðherra í vikunni. Frá þessu segir á vef stjórnarráðsins.
Fram kom á fundi menntamálaráðherranna að öll aðildaríki Evrópusambandsins hafa annað hvort lokað menntastofnunum sínum að hluta eða að fullu og eru nú að huga að því hvernig best sé að haga afléttingu þeirra lokana. Sérstaða íslenskra leik- og grunnskólar sem hafa verið að mestu opnir, þrátt fyrir takmarkanir, er umtalsverð í því samhengi og hafa borist þónokkrar fyrirspurnir um þá nálgun til mennta- og menningarmálaráðuneytisins bæði frá erlendum fjölmiðlum og sendiráðum.
„Það er afrek í mínum huga að okkur hefur tekist að halda mikilvægri starfsemi leik- og grunnskólanna gangandi þrátt fyrir þessa erfiðleika og því er að þakka þolgæði, útsjónarsemi og forgangsröðun íslenskra kennara og skólafólks. Samtakamátturinn er okkar sterkasta vopn gegn þessari skæðu veiru,“ segir ráðherra.
Áhersla á velferð nemenda og stuðningur við kennara bar mikið á góma á fundi evrópsku ráðherranna en alls tóku 30 menntamálaráðherrar þátt í fyrrgreindum fundi og ræddu þar sínar aðgerðir og áskoranir í samhengi við COVID-19. Mikið var rætt um fjarnám og nýtingu stafrænna lausna í skólastarfi, fyrirkomulag námsmats á ólíkum skólastigum, flæði nemenda á milli skólastiga og hvernig best má huga að félagslega viðkvæmum nemendahópum.
„Það er ljóst að staðan er afar ólík innan Evrópu en það er mikill áhugi á því að deila reynslu og þekkingu – við höfum margt fram að færa og læra hvert af öðru á þessum flóknu tímum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Heimild: stjornarradid.is

Categories
Greinar

Skylda okkar að standa með fólki og fjölskyldum

Deila grein

20/04/2020

Skylda okkar að standa með fólki og fjölskyldum

Þær sótt­varn­araðgerðir sem nauðsyn­legt hef­ur verið að ráðast í vegna COVID-19 hafa haft mjög mik­il áhrif á vinnu­markaðinn. Heilu at­vinnu­grein­arn­ar eru lamaðar og ljóst er að fjöldi fyr­ir­tækja hef­ur eða mun lenda í mikl­um og jafn­vel óyf­ir­stíg­an­leg­um vanda.Við höf­um síðustu vik­ur unnið út frá því að um tíma­bundið ástand væri að ræða, eng­ar tekj­ur yrðu af ferðaþjón­ustu í skamm­an tíma en síðan færi að rofa til. Sem ráðherra vinnu­markaðsmá­la lagði ég höfuðáherslu á að bregðast hratt við og koma strax fram með frum­varp um hluta­at­vinnu­leys­is­bæt­ur þar sem hægt væri að minnka starfs­hlut­fall niður í allt að 25% og At­vinnu­leys­is­trygg­inga­sjóður greiddi at­vinnu­leys­is­bæt­ur á móti. Með þessu mynd­um við tryggja að ráðning­ar­sam­bandi fólks og fyr­ir­tækja yrði viðhaldið gegn­um þetta tíma­bundna óveður. Mark­miðið var að verja störf og fram­færslu fólks.

Nú eru um 33.000 ein­stak­ling­ar skráðir á um­rædd­ar hluta­at­vinnu­leys­is­bæt­ur og jafn­framt eru 15.000 ein­stak­ling­ar að fullu skráðir án at­vinnu. Staðan er því sú að um 25% af öll­um sem eru á vinnu­markaði eru skráð að fullu eða að hluta á at­vinnu­leys­is­bæt­ur. Þetta hef­ur í för með sér að út­greidd­ar at­vinnu­leys­is­bæt­ur munu lík­lega nálg­ast allt að 100 millj­arða á þessu ári og er það um 70 millj­örðum hærra en ráðgert var.

Hluta­at­vinnu­leys­is­bæt­ur höfðu skýrt mark­mið

Framund­an er að taka ákvörðun um hvaða úrræði taka við fyr­ir starfs­menn sem hafa verið á hluta­at­vinnu­leys­is­bót­um. Við þurf­um m.a. að leggja mat á hvort telja megi að það tíma­bundna ástand sem við vor­um að brúa með hluta­at­vinnu­leys­is­bót­un­um sé í raun að verða var­an­legt og ef svo er með hvaða hætti sé hægt að hlúa sem best að fólki og búa til ný störf.Í öll­um skref­um sem stig­in eru þá er það fyrst og síðast skylda okk­ar að aðgerðir í þess­um mál­um tryggi stöðu fólks­ins í land­inu, fram­færslu fjöl­skyldna og heim­ila þeirra. Við verðum að hafa hug­fast, þótt óvin­sælt kunni að reyn­ast, að stjórn­völd geta ekki bjargað öll­um fyr­ir­tækj­um gegn­um skafl­inn með fjár­fram­lög­um úr sam­eig­in­leg­um sjóðum lands­manna. Með þessu er ekki verið að tala gegn aðgerðum til að aðstoða fyr­ir­tæki held­ur verið að minna á þá staðreynd að ekki sé hægt að vænta stuðnings af hendi hins op­in­bera um­fram það sem tal­ist get­ur mik­il­vægt út frá al­manna­hags­mun­um.

Við eig­um sókn­ar­færi sem nú þarf að nýta

Stór­aukið at­vinnu­leysi kall­ar jafn­framt á að við stíg­um stærri skref í að nýta vannýtt sókn­ar­færi til efl­ing­ar á inn­lendri fram­leiðslu og auk­inni verðmæta­sköp­un í ís­lensku hag­kerfi. Þarna má t.d. nefna aðgerðir sem þarf að ráðast í til að efla land­búnað, einkum græn­met­is­rækt, auka mögu­leika ís­lenskr­ar kvik­mynda­gerðar, styrkja sókn­ar­færi í hug­vitsiðnaði o.fl. Oft og tíðum þarf ein­fald­ar kerf­is­breyt­ing­ar og/​eða fjár­veit­ing­ar til að hægt sé að sækja fram á þess­um sviðum og þær eig­um við að fram­kvæma núna.Við ætl­um ekki og mun­um ekki sem sam­fé­lag sætta okk­ur við at­vinnu­leysi líkt og það sem er nú um stund­ir. Und­ir ligg­ur öll sam­fé­lags­upp­bygg­ing okk­ar og vel­ferð þjóðar­inn­ar.

Ásmundur Einar Daðason, fé­lags- og barna­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. apríl 2020.

Categories
Greinar

Norðurlöndin þjappa sér saman

Deila grein

17/04/2020

Norðurlöndin þjappa sér saman

Við væntum þess öll, og vonum innilega, að bráðlega verði hið versta yfirstaðið í Covid-faraldrinum. Vissulega er brekkan brött, við stöndum í þeirri öfundsverðu stöðu að geta byrjað að létta af takmörkunum, eftir þrjár vikur, ef allt gengur að óskum. Allir eru að gera sitt besta. Við horfum á hvað þessi veira gerir því að hún er óvissuþátturinn. Og hvað gerir hún nú?

Mun hún leggjast í dvala eða koma upp aftur og aftur? Við vitum það ekki. Nú þegar smitum fer fækkandi þá þurfum við að huga hratt að því hvernig við getum komið Íslandi aftur í gang. Þess vegna þurfum við að vera viðbúin öllu og erum að vinna að efnahagsaðgerðum nr. 2.

Norðurlöndin hafa hvert um sig farið sínar leiðir í viðbrögðum en á flestan hátt erum við á sömu braut. Öll byggja Norðurlöndin aðgerðir í sóttvörnum á besta mati fagfólks og stefna Norðurlandanna til að styðja við fjölskyldur og atvinnulíf hefur verið fumlaus og skýr.

Norðurlöndin hafa líka átt náið samráð sín á milli. Þar búum við Íslendingar að því að hafa þar til um síðustu áramót verið í formennsku í Norrænu ráðherranefndinni þar sem ég leyfi mér að fullyrða að okkur hafi tekist að blása lífi og krafti í norrænt samstarf með áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. Norræna samstarfið heldur nú áfram en við gjörbreyttar aðstæður.

Eitt af því mikilvægasta framundan er að opna landamæri og koma samgöngum aftur í samt lag. Vöruflutningar hafa sem betur fer haldið áfram, öfugt við fólksflutninga. Ferðaþjónustan hefur nánast stöðvast. Við ætlum okkur að koma þessari grundvallaratvinnugrein aftur af stað og það mun krefjast útsjónarsemi og úthalds.

Margt bendir til þess að veröldin muni opnast í skrefum. Þá kann það að gerast að nærsvæðin – í okkar tilviki Norðurlöndin og vestnorræna svæðið – opnist fyrst. Kannski verður þróunin sú að ferðalög og viðskipti milli Norðurlandanna muni aukast umtalsvert á næstum misserum, því á milli okkar ríkir traust og samstaða. Þar skiptir samstarfið við Norðurlöndin miklu máli.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda.

Categories
Greinar

Íslenskur landbúnaður í breyttum heimi

Deila grein

16/04/2020

Íslenskur landbúnaður í breyttum heimi

Við lifum á einkennilegum tímum. Við sótthreinsum á okkur hendur og setjum á okkur hanska þegar við förum í kjörbúðina og ekki er ólíklegt að við rekumst á fólk með andlitsgrímur í verslunum og á förnum vegi. Við erum flest, ef ekki öll, orðin meðvitaðri um hvað við snertum, hvort heldur það er hurðarhúnar eða andlit okkar.

Okkur er ráðlagt af yfirvöldum að heilsa ekki með handabandi, kossum eða faðmlögum. Fyrir nokkrum vikum hefðum við litið á slíkt ástand sem kafla úr vísindaskáldsögu, jafnvel hryllingssögu. Þessi fjandans veira hefur mikil áhrif á daglegt líf okkar og mun eflaust hafa það um ókomna tíð.

Vísindi og lýðheilsa

Eitt af því sem ég tel að þessar einkennilegu vikur muni hafa áhrif á er viðhorf til matvæla. Norrænir fréttamiðlar hafa á síðustu dögum fjallað um að sýklalyfjaónæmi gæti verið einn þeirra þátta sem hafi áhrif á alvarlegar afleiðingar Covid-19. Ekki er nema rúmt ár síðan Framsókn stóð fyrir fjölsóttum fundi um sýklalyfjaónæmi þar sem amerískur prófessor, Lance Price, lofaði íslenska matvælaframleiðslu fyrir ábyrgð og framsýni hvað varðar notkun sýklalyfja í framleiðslu sinni. Á þessum fundi var einnig framsögumaður Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir, sem hefur verið einn helsti baráttumaðurinn í því að vekja athygli á þeim ógnum sem fylgja óheftri notkun sýklalyfja í landbúnaði. Við sjáum honum bregða fyrir í fréttum þessa dagana þar sem hann berst við kórónuveiruna ásamt frábæru íslensku heilbrigðisstarfsfólki.

Það var á grunni vísinda og lýðheilsu sem Framsókn barðist fyrir því að íslensk stjórnvöld lýstu því yfir að Ísland yrði fyrsta landið í heiminum til að banna sölu og dreifingu á matvælum með sýklalyfjaónæmum bakteríum. Þar stigum við mikilvægt skref sem á síðustu vikum sýnir mikilvægi sitt enn frekar.

Hráa kjötið

Innflutningur á hráu kjöti til landsins hefur verið mikið hitamál enda mikið undir fyrir bændur en þó einn meira fyrir íslenska neytendur sem eru vanir því að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að það sem þeir kaupa í verslunum, hvort heldur það er í kjötborði eða grænmetisdeild, sé ekki örugg fæða. Ástæðan fyrir því að opna varð á innflutning er sú að árið 2004 gerðu íslensk stjórnvöld ekki kröfu um bann við innflutning á hráu kjöti, heldur aðeins lifandi dýrum og erfðaefni. Það er þó ljóst að atburðir síðustu vikna hljóta að breyta stöðunni. Þjóðir Evrópu hafa tekið ákvarðanir sem eflaust eiga eftir að hafa gríðarleg áhrif á samvinnuna innan Evrópu. Þar sannast hið fornkveðna: Það er ekkert til sem heitir vinátta þjóða, aðeins hagsmunir.

Sáttmáli um fæðuöryggi

Velta má því fyrir sér hvort komið sé að gerð sáttmála milli matvælaframleiðenda, neytenda,  verslunarinnar og ríkisvaldsins þar sem fæðuöryggi þjóðarinnar yrði tryggt. Sáttmála um að umhverfi matvælaframleiðslunnar verði tryggt. Þjóðin treystir á innlendan mat, það sannast núna á þessum erfiðu tímum. Við verðum sem þjóð, sér í lagi vegna landfræðilegrar staðsetningar okkar að tryggja það að matvælaframleiðsla standi sterkum fótum og víkka út þá geira sem fyrir eru á jötunni. Þá liggur fyrst og beinast við að koma til móts við grænmetisbændur varðandi flutningsverð á raforku. Um það hefur verið rætt og á ég von á að það verði hægt innan skamms.

Ábyrg framleiðsla

Hætt er við því að sú efnahagsdýfa sem hafin er og tímabundin fækkun ferðamanna á Íslandi mun hafa einhver áhrif á íslenska bændur og allt það fólk sem starfar í matvælageiranum. Framtíðin er þó björt sé rétt haldið á spilum. Sá grunnur sem íslenskur landbúnaður stendur á með sinni hreinu matvælaframleiðslu er lýðheilsulegur fjársjóður fyrir íslensku þjóðina. Vörur úr þeim jarðvegi geta einnig orðið eftirsóttar fyrir íbúa annarra þjóða nú þegar allir gera sér grein fyrir því hvað óábyrg framleiðsla og óábyrg meðhöndlun matvæla getur haft alvarleg áhrif á heilsu og hag fólks um allan heim.

Ég efast ekki eina mínútu um að við komumst í gegnum þetta ef við stöndum saman. Við mætum þessum vanda af yfirvegun og æðruleysi eins og stórhríðunum sem við þekkjum vel. Öll él birtir um síðir. Það kemur vor og það kemur sól og daginn lengir. Við höfum áður tekist á við erfiðleika og staðið sterkari eftir. Við getum gert það aftur.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrist í Bændablaðinu 15. apríl 2020.