Categories
Fréttir

„Þurfum að vera reiðubúin fyrir gervigreindina“

Deila grein

03/05/2023

„Þurfum að vera reiðubúin fyrir gervigreindina“

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, ræddi gervigreind og hvernig hún sé að nýst til að aukinna lífsgæða og til lausna flókinna verkefna. En þegar eru komnar fram áhyggjur af þróuninni og enn eigi eftir að mynda lagaumgjörð og reglur um þróun og beitingu gervigreindarinnar. Hraðinn er slíkur að málsmetandi einstaklingar í tækniiðnaðinum hafa þegar varað við eftirköstum.

„Það er því augljóst að það þarf að stíga varlega til jarðar og þróa og nýta gervigreindina á réttan máta. Það er mikilvægt að Ísland verði ekki eftirbátur annarra ríkja við að skapa slíka umgjörð,“ sagði Lilja Rannveig.

Sérfræðingar og hugsjónafólk á sviði tækninnar hefur ritað opið bréf þar sem lagt er til sex mánaða hlé, á frekari þróun gervigreindarinnar. Þannig verði til svigrúm og tækifæri til að skapa laga umgjörðina.

„Gervigreindin hefur oft birst sem boðberi hamfara í ýmsu afþreyingarefni en áhyggjurnar núna eru annars efnis. Það er nefnilega frekari hætta á aukinni upplýsingaóreiðu, fölsun efnis, sem í raun á sér þegar stað, og fækkun starfa. Við þurfum að mynda lagalega umgjörð um þróun og notkun gervigreindar í sífellt stafrænni heimi. Gervigreindin veitir okkur tækifæri og áskoranir sem við þurfum að vera reiðubúin fyrir,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.


Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:

„Hæstv. forseti. Gervigreindin er og hefur verið í stöðugri þróun síðustu ár. Margir kostir fylgja þeirri þróun en gervigreindin hefur nýst til að auka lífsgæði, leysa flókin verkefni og vinna í þágu einstaklinga og félaga. Gervigreindin er mögnuð. Hún getur kennt sér sjálfri. Hún getur aflað upplýsinga og nýtt sér þann lærdóm við að leysa verkefni á ógnarhraða. Hún er farin að vera svo sannfærandi að það er oft erfitt að gera sér grein fyrir því hvað er gert af gervigreind og hvað er gert af manneskju, svo sem raddir, myndir og jafnvel tónlist.

Það er því augljóst að það þarf að stíga varlega til jarðar og þróa og nýta gervigreindina á réttan máta. Nú þegar hafa mjög margir áhyggjur af þessari þróun. Löggjafar alls staðar um heiminn eiga enn eftir að mynda umgjörð og reglur um þróun og beitingu gervigreindar. Það er mikilvægt að Ísland verði ekki eftirbátur annarra ríkja við að skapa slíka umgjörð. Þróun gervigreindarinnar er orðin það hröð að forystufólk í tækniiðnaðinum hefur varað við mögulegum eftirköstum. Sérfræðingar og hugsjónafólk á sviði tækninnar hafa birt opið bréf þar sem mælt er með sex mánaða hléi á frekari þróun gervigreindarinnar til að veita löggjöfum frekari tækifæri til að skapa umgjörðina.

Gervigreindin hefur oft birst sem boðberi hamfara í ýmsu afþreyingarefni en áhyggjurnar núna eru annars efnis. Það er nefnilega frekari hætta á aukinni upplýsingaóreiðu, fölsun efnis, sem í raun á sér þegar stað, og fækkun starfa. Við þurfum að mynda lagalega umgjörð um þróun og notkun gervigreindar í sífellt stafrænni heimi. Gervigreindin veitir okkur tækifæri og áskoranir sem við þurfum að vera reiðubúin fyrir.“

Categories
Fréttir

„Einfaldlega ekki í boði nú árið 2023“

Deila grein

03/05/2023

„Einfaldlega ekki í boði nú árið 2023“

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins fjarskiptamál, þá í landsbyggðunum og á fjölmörgum vinsælum ferðamannastöðum umhverfis landið. Sagði hann að enn væru fjölmargir staðir þar sem ekki væri fjarskiptasamband.

„Þar eru m.a. staðir á þjóðvegi eitt sem og vinsælir ferðamannastaðir, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum síðustu daga. Slíkt er einfaldlega ekki í boði nú árið 2023,“ sagði Stefán Vagn.

Sagði hann að hver mínúta skipti máli, um líf og dauða, þegar verða slys og óhöpp. Eins verði viðbragðsaðilar á „vettvangi að geta verið í sambandi við sitt bakland er kemur að því að kalla til fleiri bjargir og skipuleggja aðgerðir sem oft geta verið stórar og flóknar og kalla á mikla samhæfingu mismunandi viðbragðsaðila.“

„Því er afar mikilvægt nú strax þegar það liggur fyrir að fjölgun ferðamanna hingað til lands er að ná nýjum hæðum í ár að við setjum aukinn kraft í uppbyggingu fjarskiptanets á þeim fjölförnu ferðamannastöðum sem og á þjóðvegi eitt þar sem vitað er að fjöldinn verður mikill nú í sumar sem og á komandi árum,“ sagði Stefán Vagn.

Færeyingar hafa sett upp 5G-kerfið og fara öll fjarskipti viðbragðsaðila í gegnum það. Á Íslandi er verið að koma á tvöföldu kerfi, hefðbundnu farsímakerfi og Tetra-neyðarfjarskiptakerfi sem neyðaraðilar nota.

„Það er mín skoðun að við eigum að setja af stað vinnu við að skoða færeyska módelið og skoða kosti þess og galla að byggja upp eitt kerfi sem væri mun meira þokkandi og nota þá fjármuni sem nýttir eru til uppbyggingar tveggja kerfa í eitt. Með þeirri leið væri hægt að fjölga gríðarlega sendum sem myndu nýtast bæði fyrir neyðaraðila og almenning,“ sagði Stefán Vagn að lokum.


Ræða Stefáns Vagns í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Mig langar hér í störfum þingsins í dag að ræða fjarskiptamál sérstaklega og fjarskipti á landsbyggðinni og á fjölmörgum vinsælum ferðamannastöðum umhverfis landið. Mig langar sérstaklega að vekja athygli á þeirri stöðu að enn eru fjölmargir staðir sem ekki njóta fjarskiptasambands. Þar eru m.a. staðir á þjóðvegi eitt sem og vinsælir ferðamannastaðir, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum síðustu daga. Slíkt er einfaldlega ekki í boði nú árið 2023. Þegar slys og óhöpp ríða yfir geta mínútur skipt máli, mínútur sem geta skipt sköpum um líf og dauða viðkomandi einstaklinga sem í því lenda. Það skiptir einnig máli fyrir viðbragðsaðila á vettvangi að geta verið í sambandi við sitt bakland er kemur að því að kalla til fleiri bjargir og skipuleggja aðgerðir sem oft geta verið stórar og flóknar og kalla á mikla samhæfingu mismunandi viðbragðsaðila. Því er afar mikilvægt nú strax þegar það liggur fyrir að fjölgun ferðamanna hingað til lands er að ná nýjum hæðum í ár að við setjum aukinn kraft í uppbyggingu fjarskiptanets á þeim fjölförnu ferðamannastöðum sem og á þjóðvegi eitt þar sem vitað er að fjöldinn verður mikill nú í sumar sem og á komandi árum.

Mig langar að nefna eitt atriði í þessu samhengi sem er 5G-kerfið sem m.a. Færeyingar hafa komið sér upp og gengur út á að öll fjarskipti viðbragðsaðila fari í gegnum 5G-kerfið í síma viðkomandi aðila. Hér erum við að byggja tvöfalt kerfi, hefðbundið farsímakerfi og Tetra-neyðarfjarskiptakerfi sem neyðaraðilar nota með tvöföldum kostnaði. Það er mín skoðun að við eigum að setja af stað vinnu við að skoða færeyska módelið og skoða kosti þess og galla að byggja upp eitt kerfi sem væri mun meira þokkandi og nota þá fjármuni sem nýttir eru til uppbyggingar tveggja kerfa í eitt. Með þeirri leið væri hægt að fjölga gríðarlega sendum sem myndu nýtast bæði fyrir neyðaraðila og almenning.“

Categories
Greinar

Efla þarf stöðu landsbyggðar

Deila grein

02/05/2023

Efla þarf stöðu landsbyggðar

Nýlega birti Byggðastofnun nýjar mannfjöldatölur um íbúafjölda sveitarfélaga og byggðakjarna og kom þar fram að íbúar á Íslandi eru 387.758 en þar af búa 369.048 (95%) í byggðakjörnum og 18.710 (5%) í dreifbýli.

Á höfuðborgarsvæðinu eru 240.882 íbúar (64% landsmanna) en 135.366 (36%) búa utan höfuðborgarsvæðis. Íbúum landsins fjölgaði um 11.510 (3,1%) á árinu 2022 en mest fjölgun varð á Suðurnesjum (6,7%) og á Suðurlandi (4,2%). Þegar maður rýnir í þessar tölur má sjá að íbúum landsbyggðar fer fækkandi og straumurinn liggur allur á suðvesturhornið, ég tel að það sé mikilvægt að við höldum öllu landinu í byggð og gerum fólki kleift að velja sér búsetu í landinu þar sem það vill búa og stuðla þannig að blómlegri byggð um allt Ísland. Landið er fagurt og frítt og náttúruundrin víðast hvar stórkostleg og það eru í raun forréttindi að búa á landsbyggðinni.

En hvað getum við gert til þess að auka búsetu á landsbyggðinni?

Ég tel að tækifæri landsbyggðarinnar séu í fjórum atriðum, ferðaþjónustu, sjávarútvegi, landbúnaði og einnig ætti að færa stofnanir og störf hins opinbera út á land, það er vel hægt með nútímatækni og störfum án staðsetningar.

Hvað sjávarútveg varðar þá þarf að hugsa það kerfi upp á nýtt, kerfið er búið að missa marks og er að eiga sér stað samþjöppun sem stuðlar að því að aflaheimildir dreifast ekki á byggðir landsins, heilu sveitarfélögin og þorpin lamast. Ég tel að best væri að aflaheimildum væri skipt jafnt á milli sveitarfélaga í landinu. Til að tryggja atvinnu í byggðarkjörnunum.

Í landbúnaðinum ríkir alvarleg staða, meðalaldur bænda er 60 ár og fer þeim fækkandi.Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum úr matvæla- ráðuneytinu hefur orðið um fimm prósenta fækkun sauðfjár á milli ára, úr tæplega 386 þúsund niður í rúmlega 366 þúsund fjár. Sögulega þykir það nú tíðindum sæta að sauðfé er færra á landinu en mannfjöldi. Staða nautakjötsframleiðslunnar á Íslandi er grafalvarleg. Nú stefnir í að haustið 2024 verði á markaði um 300 tonnum minna af íslensku nautakjöti en síðustu tvö ár.

Það þarf að stórauka framlög til bænda í gegnum búvörusamninga, einnig þarf ríkið að skapa sér nýja stefnu sem snýr að fæðuöryggi í landinu, aðgengi að matvælum sem framleidd eru í landinu fer minnkandi. Setjum landsbyggðina á dagskrá og verndum grunngildi þjóðarinnar.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ og formaður bæjarráðs.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 2. maí 2023.

Categories
Greinar

Lofts­lags­mark­mið – að­gerða er þörf

Deila grein

02/05/2023

Lofts­lags­mark­mið – að­gerða er þörf

Markmið núverandi ríkisstjórnar í loftslagsmálum eru metnaðarfull. Ríkisstjórnin vill gera betur en Parísarsamkomulagið og stefnir að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040. Auk þess er stefnt að því að Ísland nái að verða óháð jarðefnaeldsneyti í lofti, láði og legi árið 2050. Til að þessi markmið ríkisstjórnarinnar verði að veruleika þurfa allir Íslendingar að leggjast með stjórnvöldum á árarnar.

Sameiginleg markmið

Það er ekki ágreiningur um að við þurfum að ná þessum markmiðum og það er sátt um orkuskipti í samgöngum. Við erum sammála um að tími aðgerða er runninn upp og ég held að við séum meðvituð um ábyrgð okkar allra að þessum markmiðum. En það er ágreiningur um hvernig við ætlum að ná þessum markmiðum. Við erum sammála um að við viljum halda áfram að byggja upp velferðarþjóðfélag en það verður ekki gert nema að halda áfram að treysta raforkuöryggi um allt land ásamt því að huga að frekari orkuöflun með grænni orku.

Ljóst er að það þarf að fara í umtalsverðar fjárfestingar í orkuskiptum, nýsköpun og tækniinnleiðingu svo markmiðin náist. Raforkuöryggi samanstendur af framboði á raforku, eftirspurn og flutningskerfi. Allt þetta þarf að vera til staðar og er stór þáttur í að við getum náð loflagsmarkmiðum stjórnvalda. Það er að tryggja nægjanlega raforku um allt land.

Hlaða rafmagnsbílinn með jarðefnaeldsneyti

Það virðist sem margir gerir sér ekki grein fyrir að við erum ekki búin að tryggja raforkuöryggi hringinn í kringum landið. Því miður er staðreyndin sú að á sama tíma og við ætlum okkur að verða kolefnishlutlaus erum við að nota milljónir tonna af jarðeldsneyti. Á Vestfjörðum hafa verið brennd yfir 2,1 milljónir lítra af olíu milli áranna 2021-2022 til þess að til að kynda fjarvarmaveitur og tryggja upphitun húsnæðis á svæðinu. Þá er ótalin olían sem fór í að tryggja raforkuöryggi í öflugri varaaflsstöð í Bolungarvík, það má því leiða líkur að því að einhver hafi hlaðið rafmagnsbílinn sinn fyrir vestan með jarðefniseldsneyti.

Raforkuöryggi og framboð á nægri raforku er forsenda efnahagslegra framfara. Auk þess sem nægjanleg græn orkuframleiðsla leiðir okkur að markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum og er nauðsynleg fyrir orkuskipti í samgöngum og hjá fiskiskipum. Til þess þarf að vera aðgengi að grænni orku hringinn í kringum landið.

Kolefnislosun frá landbúnaði

Þá er kolefnislosun frá landbúnaði metin töluverð, en hún er metin út frá tveimur þáttum, annars vegar kolefnislosun frá framræstum jarðvegi og hins vegar losun sem verður vegna annarra þátta innan býlanna. Það þarf því að kortleggja sem næst raunverulega langtímakolefnislosun í framræstu ræktarlandi á Íslandi og þörf er á átaki í að mæla hana skipulega sem víðast. Væntanlega þarf að mæla út frá mismunandi jarðvegi og á mismunandi landsvæðum. Það er mjög mikilvægt að frekari og stöðug vöktun fari fram á kolefnislosun frá landbúnaði um allt land, ekki síst til þegar horft er til markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum.

Það þarf samtakamátt til að ná árangri í loftslagsmálum og það eru margir þættir sem þarf að horfa til, það er ekki nein ein lausn. Fyrst og fremst þurfum við samvinnu og samtal til þess að komast áfram.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Aukið fjármagn til flugvalla um land allt

Deila grein

01/05/2023

Aukið fjármagn til flugvalla um land allt

Uppbygging varaflugvalla á Íslandi hafa ekki verið í samræmi við vöxt alþjóðarflugs síðustu misseri. Flestar ferðir til og frá landinu eru í gegnum Keflavíkurflugvöll en hins vegar erum við að sjá aukið millilandaflug gegnum flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum. Í kjölfarið sjáum við stóraukningu veitingastaða, gistirýma, afþreyingar og verslana á svæðinu. Með auknu flugi og aukinni verslun og þjónustu getum við aukið velmegun svæðisins til muna. Við þessa þróun myndast ný tækifæri á Norðausturlandi.

Ein leið til að halda áfram að stuðla að þessum vexti er að tryggja að flugvellir okkar séu vel í stakk búnir til að takast á við fjölgun ferðamanna. Til þess að svo verði þurfum við að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir, byggja upp og stækka innviði flugvallanna svo þeir geti sinnt hlutverki sínu sem mikilvægar gáttir inn í landið.

Við getum hins vegar ekki horft fram hjá þeirri fjárhagslegu byrði sem þessum framkvæmdum fylgir. Bygging og viðhald flugvalla krefst umtalsverðrar fjárfestingar og til þess að hægt sé að ráðast í slíkar framkvæmdir þarf að tryggja að nauðsynlega fjármuni til þess.

Hóflegt gjald skilar 1,2-1,5 ma króna

Í vikunni mælti Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra fyrir frumvarpi í þinginu um svokallað varaflugvallagjald. Um er að ræða mjög hóflegt gjald á hvern farþega sem getur þó skilað stjórnvöldum 1.200-1.500 milljónum kr. ár hvert ef miðað er við sex milljónir farþega. Þá benda allar spár til þess að þessar upphæðir geti orðið enn hærri þar sem farþegaspár gera ráð fyrir mun fleiri farþegum.

Ísland er eitt af fáum ríkjum í heiminum sem leggur engan skatt á flugferðir, en skattheimta sem þessi er mjög sambærileg í flestum öðrum ríkjum innan EES. Það er því mikilvægt að við nýtum skynsamlegar leiðir til þess að fjármagna uppbyggingu á nauðsynlegum innviðum.

Ég tel afar skynsamlegt að stíga þetta skref og fara í þessa gjaldtöku og tryggja með því fjármagn til þess að fara í nauðsynlega og uppsafnaða uppbyggingu á innanlandsflugvöllum. Forgangsraða verkefnunum, byrja þar sem skóinn kreppir og svo ef vel gengur þá verður vonandi fjármagn hugsað til frekari uppbyggingar annarra flugvalla sem þjónusta m.a. sjúkraflugi í landinu.

Við þurfum, vegna öryggissjónarmiða að hafa til taks flugvelli ef loka þarf Keflavíkurflugvelli af einhverjum ástæðum líkt og reynslan sl. vetur sýndi okkur.

Eins og við vitum er ferðaþjónustan mikilvægur þáttur í atvinnulífi okkar og við höfum séð verulega aukningu á fjölda ferðamanna sem heimsækja landið okkar á undanförnum árum.

Þess vegna tel ég mikilvægt að umrætt varaflugvallagjald verði greidd leið í gegnum þingið. Með því getum við hvatt fleira fólk til að heimsækja landið okkar og leggja sitt af mörkum til hagkerfis okkar, á sama tíma og við getum aflað aukatekna til að styðja við framkvæmdir við flugvallarmannvirki okkar.

Það er von mín að þingmenn taki höndum saman um að tryggja að flugvellir okkar séu vel í stakk búnir til að takast á við vöxt ferðaþjónustunnar og viðhalda stöðu Íslands sem áhugaverðs ferðamannastaðar og samkeppnishæfum áfangastað.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. maí 2023.

Categories
Greinar

Dansað í hálfa öld

Deila grein

29/04/2023

Dansað í hálfa öld

Íslenski dans­flokk­ur­inn fagn­ar því í ár að 50 ár eru liðin frá stofn­un hans. Í hálfa öld hef­ur dans­flokk­ur­inn verið fram­sæk­inn nú­tíma­dans­flokk­ur skipaður úr­vals­döns­ur­um í hæsta gæðaflokki en um er að ræða lista­stofn­un á sviði sviðslista í eigu ís­lensku þjóðar­inn­ar. Hlut­verk hans er að sýna dans­verk, vera vett­vang­ur fyr­ir framþróun og ný­sköp­un danslist­ar á Íslandi og glæða áhuga lands­manna á danslist. Dans­flokk­ur­inn hef­ur unnið með mörg­um af fremstu dans­höf­und­um ver­ald­ar auk þess að leggja rækt við ís­lenska dans­sköp­un með því að setja á svið verk eft­ir ís­lenska dans­höf­unda. Verk­efna­val hans er fjöl­breytt og tryggt skal að á dag­skrá hvers starfs­árs séu ís­lensk dans­verk. Dans­flokk­ur­inn ferðast víða um heim með verk sín og held­ur fjöl­breytt­ar sýn­ing­ar á Íslandi og þá alla jafna í Borg­ar­leik­hús­inu sem hef­ur verið heim­ili flokks­ins síðan 1997. Ár ár­inu 2022 sýndi Íslenski dans­flokk­ur­inn 62 sýn­ing­ar, þar af 18 er­lend­is í 10 sýn­ing­ar­ferðum. Það er merki­leg­ur ár­ang­ur en dag­skrá af­mælis­árs­ins ber vel með sér þenn­an mikla þrótt sem býr í þess­um hálfr­ar aldr­ar gamla dans­flokki. Fjöl­breytni ræður ríkj­um í dag­skrá árs­ins, sem tek­ur mið af af­mælis­ár­inu þar sem saga dans­flokks­ins og dans­ins á Íslandi í fortíð, nútíð og framtíð er áber­andi.

Dans sem list­form gagn­rýn­ir og hvet­ur, hneyksl­ar og hríf­ur. Dans­ar­inn tekst á við all­ar vídd­ir mann­legr­ar til­vist­ar, dans er landa­mæra­laust afl sem get­ur hreyft við öll­um gerðum áhorf­enda, ung­um sem öldn­um. List­ræn fjöl­breytni og náin tengsl við gras­rót­ina eru mik­il­væg­ir þætt­ir fyr­ir dans­um­hverfið á Íslandi, sem er í stöðugri mót­un, og á síðustu árum hafa sýni­leiki dans­ins og vin­sæld­ir hans auk­ist til muna. Enda hef­ur Íslenski dans­flokk­ur­inn kapp­kostað að eiga í nánu sam­starfi við stofn­an­ir, fé­lög og aðra sem sinna danslist með list­ræn­an ávinn­ing og fjöl­breytni að mark­miði og lagt sín lóð á vog­ar­skál­arn­ar með því að stuðla að listupp­eldi og fræðslu­starfi í sam­vinnu við mennta­stofn­an­ir og gera nem­end­um og al­menn­ingi kleift að kynna sér starf­semi dans­flokks­ins.

Á und­an­förn­um árum hafa verið stig­in mik­il­væg skref til þess að efla um­gjörð sviðslista á Íslandi. Árið 2019 voru fyrstu heild­ar­lög­in um sviðslist­ir sett hér á landi sem hafa það að mark­miði búa leik­list, danslist, óperu­flutn­ingi, brúðuleik og skyldri list­starf­semi hag­stæð skil­yrði. Á þeim grunni var meðal ann­ars sviðslistaráð sett á lagg­irn­ar og tók ný Sviðslistamiðstöð form­lega til starfa – en sam­bæri­leg­ar miðstöðvar hafa lengi verið starf­rækt­ar fyr­ir aðrar list­grein­ar. Með Sviðslistamiðstöð skap­ast fleiri sókn­ar­færi fyr­ir sviðslista­fólk inn­an­lands sem utan, meðal ann­ars með stuðningi í formi ráðgjaf­ar, tengslamynd­un­ar, kynn­ing­ar, miðlun­ar og út­flutn­ings. Sam­hliða þessu hafa fleiri hóp­um verið tryggðir kjara­samn­ing­ar og vinna við þarfagrein­ingu vegna óperu­starf­semi í land­inu sem hef­ur miðað vel áfram með það að mark­miði að setja á lagg­irn­ar þjóðaróperu. Sam­spil ólíkra sviðlista­greina skipt­ir máli, en þegar á fjal­irn­ar er komið hald­ast gjarn­an í hend­ur dans, tónlist, leik­ur og fleira. Allt of­an­talið eru atriði sem skipta máli í öfl­ugu menn­ing­ar­lífi þjóðar­inn­ar.

Það er ekki sjálfsagt að eiga jafn framúr­stefnu­leg­an dans­flokk og við eig­um hér á landi en hann hef­ur getið sér gott orð víða um heim und­ir styrkri hand­leiðslu Ernu Ómars­dótt­ur list­d­ans­stjóra og henn­ar teymi. Ég er stolt af þeirri frumsköp­un og fram­leiðslu á menn­ingu sem okk­ar frá­bæra lista­dans­fólk dríf­ur áfram. Stjórn­völd munu halda áfram að skapa menn­ingu í land­inu góð skil­yrði og styðja þannig við fjal­ir full­ar af lífi. Ég óska Íslenska dans­flokkn­um, starfs­fólki hans og unn­end­um til ham­ingju með 50 ára af­mælið og hvet fólk til þess að kynna sér þá metnaðarfullu dag­skrá sem hann hef­ur upp á að bjóða.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Fljóta­göng og sam­göngur í Fljótum og til Siglu­fjarðar

Deila grein

29/04/2023

Fljóta­göng og sam­göngur í Fljótum og til Siglu­fjarðar

Nú í vikunni var birt sláandi mynd af ástandi Siglufjarðarvegar. Þar sést greinilega hversu mikið hefur hrunið úr hlíðinni, en það er stutt í að vegurinn verði í raun ófær eða honum lokað sem öryggisráðstöfun.

Öllum ætti að vera ljóst að núverandi veglína er ekki framtíðarlausn og að horfa verði til annarra leiða hvað varðar samgöngur milli Fljóta og Siglufjarðar. Að þessu sögðu er ljóst að framkvæmdir við Fljótagöng þola enga bið og hefja þarf undirbúning þeirra strax. Göng á milli Fljóta og Siglufjarðar yrðu gríðarleg samgöngubót fyrir vegfarendur á þessari leið en ekki síður myndi slík framkvæmd auka umferðaröryggi verulega.

Öryggi í forgangi

Öryggi þeirra sem um vegina fara er að mínu mati sá þáttur sem sérstaklega þarf að horfa til við forgangsröðun jarðgangna. Íbúar í Fljótum sækja mikla þjónustu til Siglufjarðar og því ljóst að samfélagsleg áhrif Fljótagangna yrðu mikil. Þungaflutningar frá Siglufirði t.d. með sjávarafurðir suður myndu nýta leiðina um Fljót þar sem sú vegalengd er töluvert styttri en inn Eyjafjörð og Öxnadalsheiði. Því myndi þessi gangnagerð skila fyrirtækjum á svæðinu mikilli hagræðingu. Eins eru börn í Fljótum að sækja skólaþjónustu til Siglufjarðar og íbúar í einhverjum mæli vinnu. Hugsum um fólkið og öryggi þeirra sem þjónustuna þurfa að sækja annað.

Við þurfum að vera tilbúin

Það er hins vegar ljóst að þó svo að Fljótagöngum yrði forgangsraðað ofarlega í nýrri jarðgangnaáætlun, sem boðuð hefur verið í vor og ákvörðun tekin um að hefjast strax handa við undirbúning og framkvæmd gangnanna, er tíminn frá ákvörðun til opnunar talinn í árum. Því er afar brýnt að Vegagerðin sé tilbúin að bregðast við ef Siglufjarðarvegur lokast, en eins og áður var sagt getur slíkt gerst með stuttum fyrirvara og í raun hvenær sem er.

Skynsamlegasta aðgerðin, sem ég tel í raun einboðin, er að farið verði strax í það að laga veginn um Lágheiði og gera hann tilbúinn til að taka við þeirri umferð sem kæmi ef Siglufjarðarvegur lokast. Ekki er verið að tala um að byggja um malbikaðan uppbyggðan veg heldur einfaldlega laga veginn þannig að hann sé akstursfær allt árið. Með þessu móti yrði einnig komið til móts við íbúa og fyrirtæki á svæðinu, sem árum saman hafa barist fyrir uppbyggingu á þeim vegi og er ill- eða ófær stóran hluta vetrarins.

Við þurfum að horfast í augu við þá staðreynd að Siglufjarðarvegur getur lokast án fyrirvara. Þá verðum við að vera kominn af stað með varaplan, sem að mínu mati er uppbygging og lagfæring á veginum um Lágheiði á meðan Fljótagöng eru í undirbúningi.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Á­fall í kjöl­far riðu

Deila grein

28/04/2023

Á­fall í kjöl­far riðu

Áfallið þegar riðusmit kemur upp í fjárstofni getur verið verulegt og afleiðingarnar af riðusmiti geta verið mjög miklar og erfiðar fyrir bændur. Við sem stöndum hjá sýnum samkennd en getum lítið gert í þessum aðstæðum. Þær reglur og aðferðir sem nú eru í gildi þegar riðuveiki greinist í sauðkind miða að því að aflífa allan fjárstofninn á bænum. Verkferlar MAST snúa að því að greina sjúkdóminn og með staðfestu smiti þarf að aflífa stofninn, ráðast í smitrakningu og hefja hreinsunaraðgerðir á bænum sem tekur nokkurn tíma.

Með nýrri tækni verður vonandi hægt að ráða niðurlögum þessa erfiða sjúkdóms, það er með öflugri arfgerðargreiningu á fjárstofni landsins. Til að það geti talist raunveruleg lausn þarf að setja á stað verkefni við að kortleggja stofninn og vinna sig þannig upp frá grunni.

Áfallahjálp

Sem betur fer erum við komin á þann stað að þegar áfall ríður yfir grípur okkur stuðningsnet sem hjálpar okkur aftur á fætur. Þegar stærri áföll eða hamfarir í samfélögum verða eins og náttúruhamfarir þá taka yfir verkferlar í almannahjálp. Áföll geta haft varanleg áhrif og mikið tilfinningalegt álag. Það er því mikilvægt að sækja sér aðstoð sem fyrst til að vinna úr alvarlegum atburðum og koma þannig í veg fyrir vandamál í framtíðinni. Rauði krossinn hefur umsjón með áfallahjálp hér á landi í skipulagi almannavarna á Íslandi. Þetta teymi hefur verið virkjað við stór og smá tilfelli með aðkomu ýmissa fagaðila með góðum árangri.

Samfélag í sárum

Það skiptir máli að hafa hraðar hendur þegar riðutilfelli koma upp, Setja ferlið á stað hratt og örugglega. Hvert tilfelli er einstakt og þegar upp kemur riðutilfelli í einu hólfi getur farið á stað atburðarás sem erfitt er að sjá fyrir endann á. Það er mikið álag á starfsmönnum MAST við slíkar aðstæður. Gæta þarf sérstaklega að því að hafa góð samskipti við fólk sem er að missa lífsviðurværið sitt auk þess sem aðstæður fjölskyldna eru settar í algjört uppnám. Ekki bara á einum bæ, heldur er allt samfélagið undir. Atvinnuörygginu er ógnað, menning og samskipti fara úr skorðum.

Því er mikilvægt að samhliða verkferlum MAST sem eru virkjað þegar riðutilfelli koma upp sé áfallateymi Rauða krossins virkjað til að veita áfallahjálp og veita samfélaginu ráðgjöf. Í nýuppkomnum riðutilfellum í Miðfjarðarhólfi er allt samfélagið undir. Þessu hefur verið líkt við hamförum því þarf að mæta með þeim verkfærum sem þekkt eru til að draga úr afleiðingum sem af þeim hlýst.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. apríl 2023.

Categories
Greinar

Stöndum vörð um grunnþjónustuna

Deila grein

27/04/2023

Stöndum vörð um grunnþjónustuna

Í því árferði sem við búum við í Árborg um þessar mundir stöndum við frammi fyrir því að þurfa að taka erfiðar ákvarðanir. Við þurfum að sýna ábyrgð í framkvæmd en það þýðir þó ekki að við getum skorið niður innviði og nauðsynlega grunnþjónustu inn að beini. Það bitnar bara á okkar allra mikilvægasta fólki, börnunum okkar og þeim sem þurfa á sértækum stuðningi að halda.

Skipulagsbreytingar geta skilað okkur í bættri þjónustu

Bæjarstjórn í heild sinni hefur unnið hörðum höndum síðustu mánuði við endurskipulagningu á rekstri Árborgar og hefur samvinnan gengið vel hingað til. Nú hefur verið farið af stað með skipulagsbreytingar og aðhaldsaðgerðir til að byggja upp samfélagið okkar til framtíðar. Það er aldrei auðvelt að fara í gegnum slíkar breytingar og mismunandi hvaða áhrif það hefur á líðan einstaklinga og einstakra hópa í samfélaginu okkar, því er mikilvægt að við sýnum aðgát því á bakvið allt sem við gerum er fólkið okkar og þeirra hagsmunir sem við berum ábyrgð á að tryggja. Ef vel er staðið að breytingunum mun það skila okkur í bættri þjónustu við alla íbúa Árborgar.

Stöndum vörð um farsæld barna

Þrátt fyrir erfiðleika í rekstri sveitarfélagsins Árborgar getum við öll verið sammála um að við verðum að standa vörð um farsæld barna og að mikilvæg grunnþjónusta verði ekki ágreiningsmál innan bæjarstjórnar. Við þurfum að finna leiðir til hagræðingar án þess að þjónusta sé skorin niður hjá þeim sem síst skyldi. Velta þarf við öllum steinum, byrjum ekki á þeim sem þurfa mest á okkur að halda og treysta á að við búum þeim betri framtíð með öflugu skóla-, frístunda-  og stuðningskerfi hér í Árborg. Aðför að farsæld barna er aldrei það sem við eigum að fara í. Það hefur þegar sýnt sig að með því að beita snemmbúinni íhlutun þá náum við að búa til farsæla fullorðina einstaklinga.

Það er sýn okkar í Framsókn að þó svo við þurfum að sýna ábyrgð í fjármálum sveitarfélagsins þá erum við ekki að fara í björgunaraðgerðir eftir að drukknun hefur átt sér stað. Byrjum á réttum enda og stöndum vörð um fjölskyldurnar og grunnþjónustu í þágu okkar allra mikilvægustu íbúa – barnanna okkar! 

Ellý Tómasdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar í Árborg.

Greinin birtist fyrst í dfs.is 27. apríl 2023.

Categories
Fréttir

Loftslagsmarkmið Íslands – markmið, vilji, ábyrgð og aðgerðir!

Deila grein

27/04/2023

Loftslagsmarkmið Íslands – markmið, vilji, ábyrgð og aðgerðir!

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, segir það miður að á sama tíma og stjórnvöld hafi sett fram metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og um að verða kolefnishlutlaus sé verið að nota milljón tonn af jarðefnaeldsneyti og aukin heldur sé raforkuöryggi ekki tryggt um land allt.

„Ríkisstjórnin vill gera betur en Parísarsamkomulagið og stefnir að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040. Auk þess eigum við að vera orðin óháð jarðefnaeldsneyti árið 2050. Til að markmið ríkisstjórnarinnar verði að veruleika þurfa allir Íslendingar að leggjast á árarnar með stjórnvöldum auk þess sem óumflýjanlegt er að huga að frekari orkuöflun með grænni orku. Það er ekki ágreiningur um að við þurfum að ná þessum markmiðum og það er sátt um orkuskipti í samgöngum, sagði Halla Signý.

Segir hún að umtalsverðar fjárfestingar verði að eiga sér stað, í orkuskiptum, nýsköpun og tækniinnleiðingu svo að áskilnaði sé ná. Bendir hún á að ábyrgð allra verði að koma til, tími aðgerða sé runninn upp.

„Við erum sammála um að við viljum halda áfram að byggja upp velferðarþjóðfélag en það verður ekki gert nema að halda áfram að treysta raforkuöryggi um allt land ásamt því að auka raforkuframleiðsluna,“ sagði Halla Signý.

Halla Signý kom einnig inn á kolefnislosun frá landbúnaði. Kallar hún eftir að farið verði í rannsóknir og kortlagningu á kolefnislosun í framræstu ræktarlandi. Losun í landbúnaði er metin töluverð, annars vegar kolefnislosun frá framræstum jarðvegi og hins vegar losun sem verður vegna annarra þátta innan býlanna.

„Það þarf samtakamátt margra þátta til að ná árangri í loftslagsmálum. Það er ekki til ein lausn en fyrst og fremst þurfum við samvinnu og samtal,“ sagði Halla Signý að lokum.

***

Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Í gær var haldinn opinn fundur hjá umhverfis- og samgöngunefnd um loftslagsmarkmið Íslands. Markmið núverandi ríkisstjórnar í loftslagsmálum eru metnaðarfull. Ríkisstjórnin vill gera betur en Parísarsamkomulagið og stefnir að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040. Auk þess eigum við að vera orðin óháð jarðefnaeldsneyti árið 2050. Til að markmið ríkisstjórnarinnar verði að veruleika þurfa allir Íslendingar að leggjast á árarnar með stjórnvöldum auk þess sem óumflýjanlegt er að huga að frekari orkuöflun með grænni orku.

Virðulegi forseti. Það er ekki ágreiningur um að við þurfum að ná þessum markmiðum og það er sátt um orkuskipti í samgöngum. Ljóst er að það þarf umtalsverðar fjárfestingar í orkuskiptum, nýsköpun og tækniinnleiðingu svo að þetta markmið náist. Við erum líka sammála um að tími aðgerða er runninn upp og ég held að við séum meðvituð um ábyrgð okkar allra á þessum markmiðum. Því miður er staðreyndin sú að á sama tíma og við ætlum að verða kolefnishlutlaus erum við að nota milljón tonn af jarðefnaeldsneyti og raforkuöryggi er ekki tryggt um allt land. Við erum sammála um að við viljum halda áfram að byggja upp velferðarþjóðfélag en það verður ekki gert nema að halda áfram að treysta raforkuöryggi um allt land ásamt því að auka raforkuframleiðsluna.

Þá vil ég að lokum nýta tækifærið og minnast á kolefnislosun frá landbúnaði sem er metin töluverð en hún er metin út frá tveimur þáttum, annars vegar kolefnislosun frá framræstum jarðvegi og hins vegar losun sem verður vegna annarra þátta innan býlanna. Þessa losun þarf að rannsaka og kortleggja, sér í lagi kolefnislosun í framræstu ræktarlandi. Það þarf samtakamátt margra þátta til að ná árangri í loftslagsmálum. Það er ekki til ein lausn en fyrst og fremst þurfum við samvinnu og samtal.“