Categories
Greinar

Kvikmyndir framtíðarinnar

Deila grein

11/05/2020

Kvikmyndir framtíðarinnar

Kvik­mynda­gerð á Íslandi hef­ur ávallt ein­kennst af ástríðu. Dríf­andi frum­kvöðlar ruddu braut­ina og á þeirra vinnu er nú ris­in glæsi­leg at­vinnu­grein, sem ekki aðeins styrk­ir menn­ingu í land­inu og gleður hjartað held­ur býr til gott orðspor og skap­ar þúsund­ir starfa. Þótt langt sé liðið frá brautryðjand­a­starfi Óskars Gísla­son­ar, Lofts Guðmunds­son­ar, Vig­fús­ar Sig­ur­geirs­son­ar og fleiri hef­ur heild­stæð kvik­mynda­stefna fyr­ir Ísland ekki verið mótuð hér­lend­is fyrr en nú. Vinna við gerð slíkr­ar stefnu til árs­ins 2030 hófst á síðasta ári og er nú á loka­metr­un­um. Þar birt­ist metnaðarfull og raun­sæ framtíðar­sýn.

Af litl­um neista

Kvik­mynda­menn­ing á Íslandi hef­ur þró­ast hratt á síðustu ára­tug­um. Neyt­end­ur hafa orðið kröfu­h­arðari, gæðin hafa auk­ist og kvik­myndað efni sem bygg­ist á ís­lensk­um sög­um fær sí­fellt meiri dreif­ingu hjá alþjóðleg­um streym­isveit­um og miðlum.Fyr­ir ligg­ur að COVID-19-heims­far­ald­ur­inn hef­ur haft ómæld efna­hags­leg áhrif um all­an heim. Þar hafa menn­ing og list­ir tekið á sig stórt högg, ekki síst vegna aðgerða sem hamla miðlun list­ar og menn­ing­ar. Stjórn­völd hafa brugðist við með marg­vís­leg­um hætti, svo list- og verðmæta­skap­andi fólk geti sinnt sinni köll­un og starfi. Einn liður í því er 120 millj­óna viðbótar­fram­lag í Kvik­mynda­sjóð, sem skap­ar grund­völl til að setja ný og spenn­andi verk­efni af stað og þannig sporna við sam­drætti í at­vinnu­grein­inni. Slík­ur neisti get­ur haft gríðarleg áhrif, skapað fjár­fest­ingu til framtíðar, menn­ing­ar­auð og fjölda starfa.

Fram­leiðsla á vönduðu ís­lensku efni skil­ar sér í aukn­um út­flutn­ings­tekj­um, auk­inni sam­keppn­is­hæfni Íslands og fleiri alþjóðleg­um sam­starf­stæki­fær­um. Marg­ir ferðamenn hafa ein­mitt heim­sótt Ísland ein­göngu vegna ein­stakr­ar nátt­úru­feg­urðar og menn­ing­ar sem birt­ist í kvik­mynd­um og sjón­varpsþátt­um víða um ver­öld. Ávinn­ing­ur­inn af slík­um heim­sókn­um er mik­ill og sam­kvæmt hag­töl­um eru skatt­tekj­ur af þeim mæld­ar í tug­um millj­arða. Þegar ferðalög milli landa verða aft­ur heim­il munu kvik­mynda­ferðalang­ar aft­ur mæta til leiks.

Upp­tökustaður nú og til framtíðar

Yfir 15 þúsund manns starfa við menn­ingu, list­ir og skap­andi grein­ar á Íslandi eða tæp­lega 8% vinnu­afls. Þar af starfa á fjórða þúsund manns við kvik­mynda­gerð með ein­um eða öðrum hætti, og hef­ur at­vinnu­grein­in þre­faldað ár­sveltu sína á ein­um ára­tug. Stjórn­völd fjár­festu í grein­inni fyr­ir tæpa 2 millj­arða í fyrra, auk þess sem gott end­ur­greiðslu­kerfi laðar er­lenda fram­leiðend­ur til lands­ins. End­ur­greiðslur vegna fram­leiðslu­kostnaðar sveifl­ast nokkuð milli ára og nam í fyrra um 1,1 millj­arði króna. Ólíkt öðrum út­gjöld­um fel­ast góð tíðindi í auk­inni end­ur­greiðslu, því hún eykst sam­hliða auk­inni veltu grein­ar­inn­ar – rétt eins og hrá­efn­is­kostnaður í fram­leiðslu hækk­ar með auk­inni vöru­sölu. Það eru góðar frétt­ir, en ekki slæm­ar.Árang­ur Íslands í bar­átt­unni gegn COVID-19 hef­ur vakið at­hygli víða og meðal ann­ars náð aug­um stærstu kvik­mynda­fram­leiðenda heims. Er­lend­ir fjöl­miðlar hafa m.a. greint frá því, að sjálft Hollywood líti nú sér­stak­lega til þeirra landa sem hafa haldið far­aldr­in­um í skefj­um. Raun­ar er staðan sú, að nán­ast öll sjón­varps- og kvik­mynda­fram­leiðsla hef­ur verið sett á ís nema í Suður-Kór­eu og á Íslandi. Fram­leiðend­ur hafa þegar haf­ist handa og nú standa yfir tök­ur á nýrri þáttaröð fyr­ir Net­flix hér á landi, und­ir stjórn Baltas­ars Kor­máks. Þetta eru gleðitíðindi!

Fjög­ur mark­mið, tíu aðgerðir

Með fyrstu heild­stæðu kvik­mynda­stefn­unni er vörðuð raun­sæ en metnaðarfull braut sem mun styðja við vöxt og alþjóðlega sam­keppn­is­hæfni kvik­mynda­gerðar á Íslandi. Mark­miðin eru fjög­ur. Í fyrsta lagi að hlúa að kvik­mynda­menn­ingu, styrkja ís­lenska tungu og efla miðlun menn­ing­ar­arfs. Í öðru lagi vilj­um við styrkja fram­leiðslu og innviði kvik­mynda­gerðar. Í þriðja lagi á að efla alþjóðleg tengsl og alþjóðlega fjár­mögn­un ásamt kynn­ingu á Íslandi sem tökustað. Og síðast en ekki síst er stefnt að efl­ingu kvik­mynda­læsis og kvik­mynda­mennt­un­ar sem nái upp á há­skóla­stig. Hverju mark­miði kvik­mynda­stefn­unn­ar fylgja til­lög­ur að aðgerðum, kostnaðaráætl­un og ábyrgðaraðili sem á að tryggja fram­kvæmd og eft­ir­fylgni.Rík sagna­hefð Íslend­inga hef­ur skilað okk­ur hundruðum kvik­mynda, heim­ilda- og stutt­mynda, sjón­varpsþátta og öðru fjöl­breyttu efni á síðustu ára­tug­um. Ísland er orðið eft­ir­sótt­ur tökustaður og sí­fellt fleiri alþjóðleg­ar stór­mynd­ir eru fram­leidd­ar á Íslandi. Fjár­fest­ing í kvik­mynda­gerð er ekki bara gott viðskipta­tæki­færi held­ur einnig nauðsyn­legt afl í mót­un sam­fé­lags­ins. Íslensk kvik­mynda­gerð viðheld­ur og efl­ir ís­lenska tungu, leik­ur veiga­mikið hlut­verk í varðveislu menn­ing­ar­arfs­ins og efl­ir sjálfs­mynd þjóðar­inn­ar. Fjár­fest­ing í þess­ari at­vinnu­grein mun því ávallt skila okk­ur ríku­lega til baka, á fleiri en einn veg.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. maí 2020.

Categories
Greinar

Viðspyrna fyrir viðkvæma hópa

Deila grein

07/05/2020

Viðspyrna fyrir viðkvæma hópa

Í vetur hefur svo sannarlega reynt á samvinnu og útsjónarsemi Íslendinga, þegar almannavarnarhlutverk okkar allra virkjaðist skyndilega. Með öflugu samstarfi og samtakamætti hefur okkur tekist að koma böndum á útbreiðslu veirunnar, þó kófið sé ekki alveg gengið niður er farið að sjá til sólar gegnum renninginn.

Það ríkir óvissa á mörgum sviðum og það mun áfram reyna á samvinnu og útsjónarsemi okkar allra; við áframhaldandi almannavarnir, við úrvinnslu afleiðinga COVID 19 faraldursins, við að skapa samfélaginu tekjur og við að tryggja velferð allra íbúa landsins. Aðgerðir stjórnvalda til varnar, verndar og viðspyrnu miða að því að verja afkomu heimila og fyrirtækja og skapa ný störf.

Fjölbreyttar félagslegar aðgerðir

Veiran hefur áhrif á tilveru okkar allra en fólk hefur mismunandi leiðir og tækifæri til að bregðast við. Hér vil ég sérstaklega benda á að 5,7 milljarðar króna eru ætlaðar til að styðja sérstaklega við viðkvæmustu hópana í samfélaginu. Komið verður til móts við fjölskyldur langveikra eða fatlaðra barna, sem hafa þurft að auka umönnun heima fyrir með tímabundnum greiðslum. Stutt verður við tómstundir barna af lágtekjuheimilum til að tryggja tækifæri þeirra til íþrótta- og frístundastarfs. Átak í náms- og starfsúrræðum fyrir atvinnuleitendur og sumarverkefni fyrir námsmenn eru í vinnslu. Þá er bætt í aðgerðir gegn heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum. Röskun á rútínu getur reynst börnum sérstaklega erfið og rannsóknir hafa sýnt að ofbeldi eykst þar sem álag er mikið á fjölskyldur. Áhersla á stuðning við viðkvæma hópa er því gríðarlega mikilvæg á þessum sérstöku tímum.

Virkjum samtakamáttinn

Félagsleg verkefni eru flest ef ekki öll þess eðlis að þau verða ekki leyst nema í víðtæku samstarfi milli ríkis, sveitarfélaga, félagasamtaka, fyrirtækja og einstaklinga.

Sem dæmi má nefna að til að fjármunir sem ætlað er að tryggja þátttöku barna og unglinga í skipulögðu íþróttastarfi nýtist, þarf ríkið að miðla fjármagni til sveitarfélaga, sem koma þeim til þarfra verka í samvinnu við stjórnir íþróttafélaga, þjálfara og tengiliði foreldra. Nú er mikil hætta á að börn flosni upp úr tómstunda- og frístundastarfi ef ekkert væri að gert. Með þessum stuðningsaðgerðum vilja stjórnvöld taka sérstaklega utan um þennan hóp og vinna gegn brottfalli úr tómstundastarfi, enda hefur það ótvírætt forvarnargildi og stuðlar að velferð.

Við höfum einmitt séð samtakamáttinn í kringum íþróttafélögin birtast í Facebook-leik, þar sem ungir sem aldnir heita styrkjum og styðja við bakið á sínu íþróttafélagi með framlögum til starfsins. Nýtum kraftin í kringum íþróttafélögin. Tækifærin til viðspyrnu liggja víða.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. maí 2020.

Categories
Greinar

Þrekvirki íslenska menntakerfisins á tímum COVID-19

Deila grein

04/05/2020

Þrekvirki íslenska menntakerfisins á tímum COVID-19

Hinn 16. mars tóku gildi tak­mark­an­ir á sam­kom­um og skóla­haldi til að hægja á út­breiðslu COVID-19 hér á landi. Frá því að aug­lýs­ing­ar um þess­ar tak­mark­an­ir voru birt­ar hef­ur ráðuneytið í sam­vinnu við Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga og Kenn­ara­sam­band Íslands fylgst náið með skipu­lagi og fram­kvæmd skóla­starfs í leik- og grunn­skól­um.Í leik- og grunn­skól­um lands­ins eru um 64.650 nem­end­ur og 11.450 starfs­menn. Í fram­halds- og há­skól­um eru um 41.000 nem­end­ur. Það varð því strax ljóst að fram und­an væri mik­il brekka. Staðan var vissu­lega óljós um tíma og skipt­ar skoðanir um hver viðbrögð skóla­kerf­is­ins ættu að vera við veirunni sem olli mikl­um sam­fé­lags­skjálfta. Nú, sjö vik­um síðar, gefst okk­ur tæki­færi til að líta um öxl og skoða hvernig til tókst.

Leik­skól­ar

Al­mennt hef­ur leik­skólastarf gengið vel og hlúð hef­ur verið að börn­um með vel­ferð þeirra að leiðarljósi. Skóla­stjórn­end­ur höfðu frelsi til að skipu­leggja og út­færa starf­semi hvers skóla, þar sem aðstæður voru ólík­ar milli skóla, jafn­vel inn­an sama sveit­ar­fé­lags. Þetta krafðist mik­ill­ar út­sjón­ar­semi og reynd­ist ef­laust mörg­um erfitt. Mik­il ábyrgð hvíldi á herðum allra hlutaðeig­andi við að tryggja ör­yggi kenn­ara og nem­enda og það er aðdá­un­ar­vert að þetta hafi tek­ist eins vel og raun ber vitni. Tæki­fær­in í mennt­un framtíðar­inn­ar liggja á leik­skóla­stig­inu. Sí­fellt fleiri rann­sókn­ir sýna fram á mik­il­vægi fyrstu ævi­ár­anna fyr­ir all­an þroska ein­stak­linga síðar á lífs­leiðinni og því hef­ur áhersl­an á snemm­tæka íhlut­un í mál­efn­um barna orðið sí­fellt fyr­ir­ferðarmeiri. Tengsl eru á milli taugaþroska og um­hverf­isáhrifa hjá ung­um börn­um og því er afar mik­il­vægt að tryggja að mennt­un barna á leik­skóla­aldri sé sem allra best úr garði gerð. Ég skipaði því starfs­hóp um styrk­ingu leik­skóla­stigs­ins sem er ætlað að finna leiðir til að styrkja leik­skóla­stigið og fjölga leik­skóla­kenn­ur­um. Starfs­hóp­ur­inn er hvatt­ur til að veigra sér ekki við að koma með rót­tæk­ar breyt­inga­til­lög­ur á t.d. nú­ver­andi lög­um, reglu­gerðum og starfs­um­hverfi ef það er talið mik­il­vægt til að styrkja leik­skóla­stigið.

Grunn­skól­ar

Grunn­skól­ar hafa haldið úti kennslu fyr­ir nem­end­ur þótt skóla­dag­ur­inn hafi oft verið styttri en venju­lega og fjar­nám al­gengt í ung­linga­deild­um. Skólastarf hef­ur gengið vel og fólk var sam­stiga í þeim aðstæðum sem ríktu; kenn­ar­ar, skóla­stjórn­end­ur, starfs­fólk, for­eldr­ar og nem­end­ur. Vik­urn­ar voru lær­dóms­rík­ar, skipu­lagið breytt­ist hratt og dag­lega voru aðstæður rýnd­ar með til­liti til mögu­legra breyt­inga. Nýir kennslu­hætt­ir og fjar­kennsla urðu stærri þátt­ur en áður og tækn­in vel nýtt í sam­skipt­um við nem­end­ur. Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga aflaði reglu­lega upp­lýs­inga um skipu­lag skóla­starfs frá fræðslu­um­dæm­um og skól­um. Meg­inniður­stöður bentu til þess að vel væri hugað að ör­yggis­atriðum, svo sem skipt­ingu nem­enda í fá­menna hópa og að eng­inn óviðkom­andi kæmi inn í skóla­bygg­ing­una.Eins og gef­ur að skilja voru út­færsl­ur á skóla­starfi ólík­ar. Í ein­hverj­um til­fell­um mættu nem­end­ur heil­an skóla­dag á meðan aðrir studd­ust við fjar­kennslu ein­göngu. Allt gekk þetta þó von­um fram­ar. Und­ir­bún­ing­ur að næstu vik­um er í full­um gangi hjá skól­um sem eru að leggja loka­hönd á þetta skóla­ár og und­ir­búa út­skrift nem­enda úr 10. bekk.

Við þess­ar óvenju­legu aðstæður hef­ur mikið verið rætt um ann­ar­lok og náms­mat í grunn­skól­um en fram­kvæmd og út­færsla þess er á ábyrgð hvers skóla að upp­fyllt­um ákveðnum viðmiðum. Náms­matið get­ur því verið með mis­mun­andi hætti, en fram­kvæmd á birt­ingu lokamats úr grunn­skóla þarf engu að síður að vera eins sam­ræmd og mögu­legt er til að tryggja eins og unnt er jafn­ræði nem­enda við inn­rit­un í fram­halds­skóla. Við leggj­um okk­ur öll fram við að tryggja sem far­sæl­asta inn­rit­un nem­enda í fram­halds­skóla fyr­ir haustönn 2020 í góðri sam­vinnu við kenn­ara­for­yst­una, Skóla­stjóra­fé­lag Íslands, Skóla­meist­ara­fé­lag Íslands og Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga.

Fram­halds­skól­ar

Við gildis­töku sam­komu­banns var skóla­bygg­ing­um fram­halds- og há­skóla lokað fyr­ir nem­end­um, sem stunduðu þó fjar­nám af full­um krafti. Strax komu upp á yf­ir­borðið áhyggj­ur af nem­end­um í brott­hvarfs­hættu og því var haf­ist handa við að halda þétt utan um þann hóp. Marg­vís­leg­ar aðferðir voru notaðar til að styðja nem­end­ur áfram í námi. Jafn­framt var kast­ljós­inu beint að nem­end­um í starfs­námi, enda áttu þeir á hættu að vera sagt upp náms­samn­ingi eða missa af sveins­prófi á rétt­um tíma. Það voru því mik­il gleðitíðindi þegar ráðuneytið, skóla­meist­ar­ar starfs­mennta­skóla og um­sýsluaðilar sveins­prófa tóku hönd­um sam­an og fundu leiðir til að tryggja náms- og pró­flok með sveins­próf­um.Allt kallaði þetta á mikla vinnu og gott sam­starf ólíkra aðila í fram­halds­skóla­sam­fé­lag­inu. Það tókst svo sann­ar­lega, því áskor­an­irn­ar hafa þétt mjög raðirn­ar og sam­ráð á fram­halds­skóla­stig­inu efld­ist mjög á þess­um erfiða tíma. Stjórn­end­ur skipt­ust á góðum ráðum og hvatn­ingu, sem blés öll­um byr und­ir báða vængi. Ég bind mikl­ar von­ir við að þetta góða sam­starf muni fylgja okk­ur áfram eft­ir að líf kemst í eðli­legt horf.

Há­skól­ar

Aðstæðurn­ar höfðu óneit­an­lega áhrif á ann­ar­lok í há­skól­um og fram­halds­skól­um, sem höfðu búið sig vel und­ir þá staðreynd. Í mörg­um skól­um var upp­haf­leg­um kennslu­áætlun­um fylgt og ann­ar­lok og út­skrift­ir verða því á rétt­um tíma. Skól­arn­ir fengu frelsi til að út­færa náms­mat að aðstæðunum, enda varð fljótt ljóst að prófa­hald yrði óhefðbundið og vinna við ein­kunna­gjöf flókn­ari. Sum­ir ákváðu að halda sig við hefðbundna ein­kunna­gjöf, en aðrir staðfesta að nem­andi hafi staðist eða ekki staðist kröf­ur sem gerðar eru í hverri grein.Staða há­skóla­nema er mér mjög hug­leik­in. Stofnaður var sam­hæf­ing­ar­hóp­ur fjöl­margra hagaðila sem vinn­ur nú hörðum hönd­um að því að skoða stöðu at­vinnu­leit­enda og ekki síður náms­manna. Ljóst er að bregðast þarf hratt við. Mark­miðið er að styðja mark­visst við náms­menn ásamt því að nýta mennta­kerfið til þess að efla og styrkja nám og þjálf­un í þeim at­vinnu­grein­um sem mögu­lega verða hvað verst úti.

Fram hef­ur komið að álag er mikið á nem­end­ur og marg­ir þeirra hafa áhyggj­ur af fram­færslu, þar sem þeir hafa misst störf til að fram­fleyta sér. Há­skól­arn­ir brugðu á það ráð að auka við ráðgjöf og þjón­ustu við nem­end­ur. Stjórn Lána­sjóðs náms­manna ákvað einnig að koma til móts við náms­menn og greiðend­ur náms­lána með ýms­um aðgerðum.

Mik­il­vægt er að allt sé gert til að hlúa að gæðum náms en nem­end­um verður að vera mætt með aukn­um sveigj­an­leika. Vellíðan og ör­yggi nem­enda skipt­ir afar miklu.

Heim­spek­ing­ur­inn John Stu­art Mill sagði: „Öll efl­ing mennt­un­ar stuðlar að jöfnuði, því að mennt­un­in veit­ir aðgang að sama sjóði þekk­ing­ar og skoðana.“ Ljóst er að ís­lenskt sam­fé­lag stend­ur frammi fyr­ir veru­leg­um breyt­ing­um á vinnu­markaðnum. Mik­il­vægt er að for­gangsraða í þágu gæða mennt­un­ar. Til að mæta þeim áskor­un­um þurf­um við að huga vel að sveigj­an­leika og sam­spili vinnu­markaðar­ins og mennta­kerf­is­ins, nálg­ast þau mál heild­rænt og í virku sam­hengi við þróun þeirra ann­ars staðar í heim­in­um. Kæra skóla­fólk og nem­end­ur. Hafið þið mikl­ar þakk­ir fyr­ir þrek­virkið sem þið hafið unnið, sem er ein­stakt á heimsvísu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst 4. maí 2020.

Categories
Greinar

Stöndum með ferðaþjónustunni

Deila grein

04/05/2020

Stöndum með ferðaþjónustunni

Þegar ég horfi upp í him­in­inn á kvöld­in á leiðinni úr hest­hús­inu er hann eins og hann var þegar ég var lít­ill strák­ur. Þótt það séu ekki ald­ir síðan voru rák­irn­ar sem þot­urn­ar skildu eft­ir sig á himn­in­um sjald­gæfari en síðustu ár. Um all­an heim eru þot­urn­ar sem fyr­ir nokkr­um vik­um fluttu fólk milli landa og heims­álfa í stæðum á jörðu niðri og bíða þess að heim­ur­inn opn­ist að nýju og fólk láti draum­inn um fjar­læg­ari staði ræt­ast.Mörg­um gæti þótt róm­an­tískt að okk­ar fögru ferðamannastaðir séu fá­menn­ir og að ein­hverju leyti er það heill­andi. Af­leiðing­arn­ar af þessu fá­menni eru þó gríðarleg­ar fyr­ir fjöl­skyld­ur um allt land. Ferðaþjón­ust­an hef­ur lengi verið mik­il­væg­ur þátt­ur í ís­lensku mann­lífi en aldrei eins og síðustu árin þegar áhugi heims­ins á Íslandi hef­ur verið mik­ill og ferðalag til eyj­unn­ar okk­ar í Atlants­haf­inu á óskalista margra. Okk­ur hef­ur líka lánast það að Ísland er áfangastaður sem fólk vill heim­sækja aft­ur og mæl­ir með við vini sína og fjöl­skyld­ur.

Rík­is­stjórn­in hef­ur á síðustu vik­um komið með fjöl­marg­ar aðgerðir sem ætlað er að brúa bilið þangað til aft­ur er hægt að ferðast um heim­inn. Við höf­um lagt áherslu á að vernda lífs­gæði fólks og það að fyr­ir­tæk­in geti hafið starf­semi sína að nýju þegar óveðrinu slot­ar, veitt fólki störf og skapað sam­fé­lag­inu tekj­ur.

Ég er bjart­sýnn maður að eðlis­fari og trúi því að ekki verði grund­vall­ar­breyt­ing­ar á ferðaþrá fólks og ferðalög­um. Það er ein­fald­lega mjög sterk­ur þráður í mann­in­um að vilja skoða sig um á ókunn­um slóðum. Þess vegna er mik­il­vægt að við séum viðbúin þegar náðst hef­ur stjórn á veirunni.

Ferðaþjón­ust­an er gríðarlega mik­il­væg fyr­ir sam­fé­lagið og ekki síst er hún stór­kost­legt afl úti í hinum dreifðu byggðum. Og þangað til hún end­ur­heimt­ir kraft­inn úr ferðaþrá heims­ins hef ég lagt of­urá­herslu á að rík­is­stjórn­in skapi ný störf sem geta veitt fólki um allt land tekj­ur á meðan þetta ástand var­ir. Margra millj­arða aukn­ing í verk­efn­um tengd­um sam­göng­um um allt land er til þess ætluð að skapa fjöl­skyld­um tekj­ur til að lifa góðu lífi. Og auk þess eru sam­göngu­fram­kvæmd­ir arðsam­ar fyr­ir sam­fé­lagið.

Fram­sókn hef­ur alltaf verið ná­tengd líf­inu í land­inu, enda spratt flokk­ur­inn upp úr bænda­sam­fé­lagi fyr­ir rúmri öld. Við höf­um stutt við upp­bygg­ingu um allt land og ferðaþjón­ust­an hef­ur staðið okk­ur nærri. Við mun­um áfram berj­ast fyr­ir því að hags­mun­ir fjöl­skyldna um allt land séu hafðir í önd­vegi við ákv­arðana­töku við rík­is­stjórn­ar­borðið.

Ég hvet alla Íslend­inga til að ferðast um okk­ar fagra land í sum­ar. Þannig styðjum við við það fólk sem hef­ur haldið uppi mik­il­vægu starfi fyr­ir land og þjóð síðustu árin og höld­um hjól­un­um gang­andi þangað til rák­un­um á himn­in­um fjölg­ar að nýju.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. maí 2020.

 

Categories
Greinar

Atvinnusköpun er númer 1, 2 og 3

Deila grein

04/05/2020

Atvinnusköpun er númer 1, 2 og 3

Stærsta verk­efni ís­lensks sam­fé­lags í dag er að skapa störf. Íslenskt sam­fé­lag hef­ur alla burði til að sækja fram. Mennt­un­arstig er hátt og sam­fé­lagið er auðugt af hug­viti og auðlind­um. Við verðum að nýta allt sem við eig­um og leggja grunn­inn að nýj­um verðmæt­um framtíðar­inn­ar. Mark­mið stjórn­valda eru skýr: að skapa störf og verja störf. Fernt er mik­il­vægt í þeirri bar­áttu. Fjár­fest­ing, einka­neysla, sam­neysla og hreinn út­flutn­ing­ur.Stjórn­völd eru að stór­auka all­ar fjár­fest­ing­ar bæði í innviðum og hug­viti. Þetta er gert með því að flýta fram­kvæmd­um og ráðast í nýj­ar fram­kvæmd­ir. Þegar hef­ur verið kynnt að op­in­ber­ar fjár­fest­ing­ar verði yfir sögu­legu meðaltali. Fjár­fest verður fyr­ir tugi millj­arða til að vinna á móti sam­drætti. Að auki er fjár­fest í mennt­un, menn­ingu og ný­sköp­un til að skapa störf til framtíðar. Hér ætl­um við okk­ur stóra hluti.

Einka­neysla hef­ur verið að drag­ast sam­an í sam­komu­bann­inu. Nauðsyn­legt er að örva einka­neyslu til að búa til ný störf og verja þau. Öll þau viðskipti sem við eig­um eru til þess fall­in að auka einka­neyslu. Þess vegna hafa stjórn­völd ákveðið að taka hönd­um sam­an við at­vinnu­lífið um að verja störf og auka verðmæta­sköp­un með sér­stöku kynn­ingar­átaki sem ber heitið: Íslenskt – gjörið svo vel. Þetta er já­kvætt skref og hvet­ur okk­ur áfram í að búa til verðmæti.

Stjórn­völd eru af öllu sínu afli að styðja við sam­neysl­una, meðal ann­ars með því að efla heil­brigðis- og mennta­kerf­in. Þessi grunn­kerfi okk­ar hafa staðist stærsta álags­próf sam­fé­laga í ver­öld­inni. Ann­ars veg­ar náðu heil­brigðis­yf­ir­völd utan um COVID-19 veiruna með eft­ir­tekt­ar­verðum ár­angri og hins veg­ar voru skól­arn­ir áfram opn­ir og huguðu að vel­ferð nem­enda sinna. Það er af­rek og við eig­um að nota okk­ur þann ár­ang­ur til að styrkja sam­fé­lagið okk­ar.

Greiðslu­jöfnuður þjóðarbúa þarf alltaf að vera sjálf­bær, þ.e. að út- og inn­flutn­ing­ur þurfa að vera í jafn­vægi. Útflutn­ings­tekj­ur ís­lenska þjóðarbús­ins hafa vaxið mikið síðustu ár, sem hef­ur skilað okk­ur fá­dæma góðri hreinni er­lendri stöðu og mikl­um gjald­eyr­is­forða. Þessi hag­fellda staða hef­ur orðið til meðal ann­ars vegna vaxt­ar ferðaþjón­ust­unn­ar, sem hef­ur búið til um helm­ing allra nýrra starfa síðasta ára­tug. Nú reyn­ir á að við hugs­um út fyr­ir kass­ann og búum til út­flutn­ings­verðmæti. Ferðaþjón­ust­an get­ur fengið vind­inn í segl­in ef við nýt­um okk­ur þann ár­ang­ur sem náðst hef­ur í sótt­vörn­um og tengj­um sam­an vís­ind­in og at­vinnu­lífið. Þar eru tæki­færi. Einn merki­leg­asti for­seti Banda­ríkj­anna, Frank­lin D. Roosevelt, sagði í Krepp­unni miklu: „Það eina sem er að ótt­ast er ótt­inn sjálf­ur.“ Hlust­um á þessa hvatn­ingu og mun­um að gæf­an er und­ir okk­ur kom­in!

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. maí 2020.

Categories
Greinar

Tíminn til að lesa meira

Deila grein

30/04/2020

Tíminn til að lesa meira

Bók­mennta­arfur Ís­lendinga sprettur úr frjóum jarð­vegi ís­lenskrar sögu og menningar. Um aldir hafa Ís­lendingar haft ríka þörf fyrir að segja, lesa og hlusta á sögur. Þá þörf höfum við enn, líkt og blóm­leg bóka­út­gáfa og glæsi­leg stétt rit­höfunda er til marks um. Grunnurinn að þessari sagna­hefð var lagður fyrir nærri þúsund árum, þegar stór­menni á borð við Snorra Sturlu­son unnu stór­kost­leg menningar­af­rek með skrifum sínum. Bók­menning þjóðarinnar hefur haldið á­fram að þróast í gegnum tíðina og laga sig að breyttum heimi.

Á síðasta ári tóku gildi lög um stuðning við út­gáfu bóka á ís­lensku. Við sjáum strax árangurinn af þessari lög­gjöf, þar sem met voru slegin í út­gáfu ís­lenskra skáld­verka og út­gefnum barna­bókum fjölgaði um 47% milli ára. Ís­lendingar standa því undir nafni, sem sagnaog bóka­þjóð. Það hefur sýnt sig í yfir­standandi sam­komu­banni, sem þjóðin hefur nýtt til að lesa sér til gagns og gamans. Margir hafa skráð lesturinn á vef á­taks­verk­efnisins Tími til að lesa, þar sem rúm­lega 8 milljónir lesmínútna hafa verið skráðar í apríl.

Á mið­nætti lýkur á­takinu og ég þakka öllum sem tóku þátt. Þátt­tak­endur í þessu þjóðar­á­taki eru á öllum aldri. Þannig hafa þeir lesið mest sem eru 60 ára og eldri, en fast á hæla þeim komu 10 til 12 ára börn sem hafa skráð rúm­lega milljón lesmínútur í mánuðinum.

Orða­forði og les­skilningur eykst með auknum lestri og því er ó­metan­legt fyrir börn að lesa, taka glósur og spyrja út í orð sem þau þekkja ekki. Orða­forði barna skiptir miklu máli fyrir vel­líðan og árangur í skóla og býr þau undir virka þátt­töku í sam­fé­laginu. Með aukinni menntun eykst sam­keppnis­hæfni þjóðarinnar og geta hennar til að standa undir eigin vel­ferð. Það er lykil­at­riði að styrkja mennta­kerfið okkar til fram­tíðar. Með lestrinum ræktum við menningar­arfinn okkar og því meira sem við lesum, því betra! Til hamingju með árangurinn, kæra bóka­þjóð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. apríl 2020.

Categories
Greinar

Vísindakapphlaupið 2020

Deila grein

27/04/2020

Vísindakapphlaupið 2020

Tækni­fram­far­ir og vís­inda­upp­götv­an­ir eru stærsta hreyfiafl sam­fé­laga. End­ur­bætt gufu­vél hins skoska James Watts lagði grunn­inn að vél­væðingu iðnbylt­ing­ar­inn­ar, upp­götv­un raf­magns­ins breytti meiru en orð fá lýst, upp­götv­un bakt­ería og löngu síðar sýkla­lyfja bylti lík­ast til meiru í mann­kyns­sög­unni en all­ar hefðbundn­ar bylt­ing­ar sam­an­lagt!

Enn og aft­ur horf­ir all­ur heim­ur­inn til vís­ind­anna. Nú er þess beðið að vís­inda­menn heims­ins upp­götvi vopn í bar­átt­unni við óvin okk­ar allra – kór­ónu­veiruna sem veld­ur COVID-19. Vís­indakapp­hlaupið 2020 er þó ólíkt mörg­um öðrum í sög­unni því for­dæma­laus samstaða og sam­hug­ur er í vís­inda­sam­fé­lag­inu, sem stund­um hef­ur ein­kennst af inn­byrðis sam­keppni. Sann­ar­lega er sam­keppn­in enn til staðar en al­mennt eru vís­inda­menn að deila upp­lýs­ing­um með öðrum í þeirri von að manns­líf­um og hag­kerf­um heims­ins verði bjargað.

Við erum öll í sama liðinu

COVID-19 er stærsta áskor­un­in sem þjóðir heims hafa staðið frammi fyr­ir í lang­an tíma. Með áhrif­um á heilsu fólks hef­ur óvær­an gríðarleg­ar efna­hagsaf­leiðing­ar. Veir­an hef­ur veikt öll stærstu hag­kerfi heims og það mun taka lang­an tíma fyr­ir þau að ná heilsu á ný. Það leiðir til tekjutaps ein­stak­linga og rík­is­sjóða um all­an heim, sem get­ur haft mikl­ar af­leiðing­ar á vel­ferð þjóða. Það sést greini­lega á alþjóðleg­um fjár­mála­mörkuðum, sem þessa dag­ana sveifl­ast með vís­inda­frétt­um. Þeir taka við sér þegar góðar vís­inda­frétt­ir ber­ast, en falla þegar von­ir bresta. Hluta­bréf á alþjóðamörkuðum féllu til að mynda eft­ir að til­raun­ir með bólu­efni gegn COVID-19 báru ekki ár­ang­ur. Það bend­ir allt til þess, að líf manna muni ekki kom­ast í eðli­legt horf fyrr en bólu­efni hef­ur verið fundið.

Þessa stund­ina vinna yfir átta­tíu hóp­ar vís­inda­manna og fimmtán lyfja- og líf­tækn­iris­ar að þróun bólu­efn­is. Í þeirra hópi eru vafa­laust marg­ir sem vilja verða fyrst­ir – sjá for­dæma­laus viðskipta­tæki­færi og frama í slík­um ár­angri – en áður­nefnt vís­inda­sam­starf verður von­andi til þess að heil­brigði þjóða verður sett í fyrsta sæti þegar rann­sókn­ar­vinn­an skil­ar ár­angri. Það skipt­ir á end­an­um ekki máli hvaðan meðalið kem­ur, held­ur hvernig það verður notað. Í því sam­hengi er ástæða til bjart­sýni, því alþjóðleg sam­vinna hef­ur áður skilað heim­in­um bólu­efn­um gegn hræðileg­um sjúk­dóm­um; barna­veiki, stíf­krampa og milt­is­brandi svo dæmi séu nefnd.

Ísland legg­ur sitt af mörk­um

Í bar­átt­unni við hinn sam­eig­in­lega óvin hef­ur Ísland vakið nokkra at­hygli um­heims­ins. Aðferðafræðin hef­ur þótt til eft­ir­breytni og ár­ang­ur­inn með ágæt­um, en einnig það merka fram­tak Decode Genetics að bjóða Íslend­ing­um upp á skimun fyr­ir veirunni, fyrstri þjóða. Hátt í 50 þúsund sýni hafa verið tek­in hér á landi. Afrakst­ur­inn nýt­ist heim­in­um öll­um, þar sem ótal af­brigði veirunn­ar hafa fund­ist. Það fram­lag Kára Stef­áns­son­ar og sam­starfs­fólks hans allra er ómet­an­legt í þróun bólu­efn­is­ins sem ver­öld­in bíður eft­ir.

Á sama tíma hafa aðrir rann­sókn­ar- og vís­inda­menn hér­lend­is unnið þrek­virki. Svo dæmi séu nefnd kynntu vís­inda­menn fljótt spálík­an um lík­lega þróun sem gæti nýst við ákv­arðana­töku um viðbrögð og skipu­lag heil­brigðisþjón­ustu. Á ör­stutt­um tíma höfðu sér­fræðing­ar Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar og sam­starfs­fólk hjá Land­læknisembætt­inu og Land­spít­ala sent vís­inda­grein í New Eng­land Journal of Medic­ine um út­breiðslu veirunn­ar á Íslandi. Nú síðast til­kynntu vís­inda­menn í Há­skóla Íslands að þeir hefðu hug á að rann­saka áhrif far­ald­urs­ins á líðan og lífs­gæði lands­manna til þess að geta brugðist bet­ur við sam­fé­lags­leg­um áhrif­um á borð við heims­far­ald­ur. Heil­brigðis­starfs­menn og al­manna­varn­ir hafa staðið vakt­ina með vilj­ann að vopni og smitrakn­ing­ar­t­eym­inu tek­ist að rekja flest smit sem hafa komið upp hér á landi. Þetta er sann­an­lega ár­ang­ur sem Íslend­ing­ar geta verið stolt­ir af.

Vís­ind­in efla alla dáð

Eins og oft áður komst ljóðskáldið og vís­indamaður­inn Jón­as Hall­gríms­son vel að orði þegar hann orti til heiðurs vís­inda­mann­in­um Pål Gaim­ard í Kaup­manna­höfn:

Vís­ind­in efla alla dáð, ork­una styrkja, vilj­ann hvessa,

von­ina glæða, hug­ann hressa,

far­sæld­um vefja lýð og láð;

tí­fald­ar þakk­ir því ber færa

þeim sem að guðdómseld­inn skæra

vakið og glætt og verndað fá

visk­unn­ar helga fjalli á.

Jón­as var brautryðjandi á sviði nátt­úru­vís­inda og helgaði líf sitt skrif­um um þau. Hann vissi það að rann­sókn­ir, vís­indi og hag­nýt­ing hug­vits væru for­send­ur fjöl­breytts at­vinnu­lífs, vel­ferðar og styrkr­ar sam­keppn­is­stöðu þjóða. Eitt af því sem hef­ur ein­kennt ís­lenskt vís­inda­sam­fé­lag í gegn­um tíðina er mik­il virkni í alþjóðasam­starfi enda er fjölþjóðlegt sam­starf ís­lensk­um rann­sókn­um nauðsyn­legt. Það er því hlut­verk okk­ar sem störf­um á þess­um vett­vangi, hvort sem það er við stefnu­mót­un um vís­inda­mál eða fram­kvæmd rann­sókna, að virkja og efla þekk­ingu al­menn­ings á vís­inda­starfi og hvetja til öfl­ugra alþjóðasam­starfs.

Á þess­um tíma­punkti tekst heim­ur­inn á við heims­far­ald­ur. Þjóðir heims­ins taka hönd­um sam­an og leiða sam­an þekk­ingu og rann­sókn­ir. Ísland gef­ur ekk­ert eft­ir og mun von­andi verða leiðandi afl í alþjóðasam­starfi framtíðar­inn­ar. Far­ald­ur­inn er í mik­illi rýrn­un hér á landi en þó er ekki hægt að hrósa sigri enda bar­átt­unni ekki lokið. Það hef­ur þó sýnt sig á síðustu mánuðum að alþjóðlegt vís­inda­sam­starf greiðir leiðina að bjart­ari framtíð. Það býður bæði upp á þá von að lausn finn­ist á nú­ver­andi krísu, ásamt því að byggja upp sam­starfs­vilja milli ríkja um að sam­ein­ast í átt að betri og ör­ugg­ari framtíð.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. apríl 2020.

Categories
Greinar

Íslensk matvæli, gjörið svo vel

Deila grein

23/04/2020

Íslensk matvæli, gjörið svo vel

Í öðrum aðgerðapakka rík­is­stjórn­ar­inn­ar Viðspyrna fyr­ir Ísland er lögð mik­il áhersla á inn­lenda fram­leiðslu og verðmæta­sköp­un. Ný­sköp­un er þar í önd­vegi enda lengi verið ljóst að skjóta verður fleiri stoðum und­ir ís­lensk­an efna­hag. Síðustu vik­urn­ar hef­ur helsta umræðuefni fólks um heim all­an verið heilsa og heil­brigði. Fólk ótt­ast þenn­an vá­gest sem kór­ónu­veir­an er og legg­ur mikið á sig til að kom­ast hjá smiti. Veik­ind­in leggj­ast misþungt á fólk og hef­ur ekki verið út­skýrt að fullu hvað veld­ur þeim mun. Hins veg­ar er ljóst að sum­ir hóp­ar eru veik­ari fyr­ir en aðrir og hef­ur til dæm­is í Banda­ríkj­un­um verið bent á að þeir sem stríða við lífs­stíls­sjúk­dóma geta orðið sér­stak­lega illa fyr­ir barðinu á Covid-19. Þegar heils­an er okk­ur svo of­ar­lega í huga er ekki laust við að maður þakki fyr­ir þá öf­undsverðu stöðu sem við Íslend­ing­ar erum í varðandi mat­væla­fram­leiðslu, hvort held­ur það er land­búnaður eða sjáv­ar­út­veg­ur. Rúmt ár er nú frá því við í Fram­sókn héld­um fjöl­menn­an fund þar sem Lance Price, pró­fess­or við Washingt­on-há­skóla, hélt fyr­ir­lest­ur um þá ógn sem mann­kyn­inu staf­ar af sýkla­lyfja­ónæm­um bakt­erí­um. Á sama fundi hélt er­indi Karl G. Krist­ins­son, helsti sér­fræðing­ur okk­ar í sýkla­fræði, og sjá­um við hon­um bregða fyr­ir á skján­um um þess­ar mund­ir í tengsl­um við heims­far­ald­ur­inn sem nú herj­ar á okk­ur. Fund­inn héld­um við til að vekja fólk til vit­und­ar um að sér­fræðing­ar telja að árið 2050 muni tíu millj­ón­ir manna deyja í heim­in­um af völd­um sýkla­lyfja­ónæm­is og ekki vild­um við síður benda á þau verðmæti sem fel­ast í ís­lensk­um land­búnaði sem er ásamt Nor­egi með minnsta notk­un sýkla­lyfja í land­búnaði í heim­in­um. Mat­væla­fram­leiðsla er gríðarlega mik­il­væg­ur þátt­ur í ís­lenska hag­kerf­inu og sann­kallaður lýðheilsu­fjár­sjóður. Rík­is­stjórn­in ákvað í fyrra að Ísland yrði fyrsta landið í heim­in­um til að banna sölu og dreif­ingu á mat­vöru, kjöti, fiski og græn­meti, sem inni­held­ur sýkla­lyfja­ónæm­ar bakt­erí­ur. Þannig vernd­um við heilsu Íslend­inga og und­ir­strik­um þau miklu gæði sem ein­kenna ís­lenska mat­væla­fram­leiðslu. Hluti af öðrum aðgerðapakka rík­is­stjórn­ar­inn­ar er auk­inn stuðning­ur við græn­met­is­bænd­ur, bæði beinn og einnig með end­ur­greiðslu kostnaðar vegna dreif­ing­ar og flutn­ings raf­orku bænda. Þar er stigið gríðarlega mik­il­vægt skref til að efla grein­ina og munu ís­lensk­ir neyt­end­ur njóta þess þegar fram­leiðsla á ís­lensku græn­meti eykst. Von­andi stend­ur versl­un­in með þjóðinni og ís­lensk­um mat­væla­fram­leiðend­um og gef­ur ís­lensku græn­meti heiðurssess. Það er bjarg­föst trú mín að það séu gríðarleg tæki­færi fram und­an fyr­ir ís­lensk­an land­búnað og ís­lensk­an sjáv­ar­út­veg. Því ef fólk er al­mennt orðið meðvitaðra um heils­una hugs­ar það meira um hvað það læt­ur ofan í sig. Ég segi því að lok­um: Íslenskt, gjörið svo vel.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. apríl 2020. 

Categories
Greinar

Samvinna afurðastöðva

Deila grein

22/04/2020

Samvinna afurðastöðva

Á undanförnum árum hafa afurðastöðvar í kjöti mátt þola gríðarmiklar breytingar í sínu samkeppnisumhverfi. Þar sem innflutningur á kjöti hefur aukist verulega frá löndum þar sem aðstæður til framleiðslu eru mun hagfelldari út frá mörgum sjónarhornum, t.d. aðbúnaði dýra, launakostnaði og veðurfari. Einnig er slátrun og vinnsla í mörgum þessara landa mun hagkvæmari vegna stærðarhagkvæmni og lægri launakostnaðar svo eitthvað sé nefnt. Þetta gerir það að verkum að íslenskar kjötafurðastöðvar hafa glímt við erfiðan rekstur undanfarin ár.

Þessi fyrirtæki skapa fjölmörg störf, flest á landsbyggðinni, og eru mikilvægur hlekkur í innlendri framleiðslu matvæla sem enn og aftur sannar sig nú á hinum erfiðu tímum Covid-19. Vegna þessa erfiðu aðstæðna í rekstri hafa afurðastöðvar meðal annars ekki getað hækkað verð til bænda í takt við það sem eðlilegt væri og heldur ekki náð að endurnýja og fjárfesta í rekstri sínum eins og ákjósanlegt væri.

Breytingar á búvörulögum

Það er augljóst að ef gæta á sanngirni í þessum heimi þarf að jafna samkeppnisstöðu afurðastöðva á Íslandi. Ef vel ætti að vera þyrfti að horfa til sambærilegs fyrirkomulags og viðhaft er í mjólkuriðnaðinum. Þar sem afurðastöðvar hafa leyfi til þess að hafa með sér ákveðið samstarf og verkaskiptingu á markaði. Með því mætti sjá mikla hagræðingu á ýmsum sviðum í þessum rekstri sem myndi skapa fyrirtækjunum betri rekstur og rými skapast til að borga bændum hærra verð fyrir sínar afurðir. Hefur undirritaður lagt fram á Alþingi frumvarp þess efnis að breytingar verði gerðar í þá átt sem reifað hefur verið í grein þessari á búvörulögum á síðasta haustþingi með það að markmiði að efla innlenda framleiðslu og tryggja afkoma bænda og þar með fæðuöryggi þjóðarinnar. Í krísum sem þessari sannast hið fornkveðna að hollur er heimafenginn baggi. Íslendingar munu eins og aðrar þjóðir þurfa að leggja mikla áherslu á það á næstu árum að efla og tryggja sína matvælaframleiðslu. Við Íslendingar eigum að vera stoltir af okkar matvælaframleiðslu og standa vörð um hana sem aldrei fyrr.

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 22. apríl 2020.

Categories
Greinar

Leiðin til öflugra Íslands

Deila grein

21/04/2020

Leiðin til öflugra Íslands

Ríkisstjórnin kynnti í dag annan hluta Viðspyrnu fyrir Ísland í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Heldur þannig áfram vinna stjórnvalda til að bregðast við þeim mikla vanda sem heimsfaraldur kórónuveiru hefur skapað um allan heim. Eins og í fyrri pakka þá eru aðgerðirnar þrískiptar: Varnir, vernd og viðspyrna.

Aðgerðirnar eru fjölbreyttar. Varnirnar felast í því að veita þeim fyrirtækjum styrki sem hefur verið gert að hætta tímabundið starfsemi vegna sóttvarna, fyrirtækjum verða veitt lán með ríkisábyrgð til að standa straum af föstum rekstrarkostnaði og fyrirtækjum verður gert kleift að jafna saman tapi ársins 2020 og hagnaðar ársins 2019. Allt er þetta mikilvægt til að veita aðstoð lífvænlegum fyrirtækjum sem mikilvæg eru í viðspyrnunni.

Verndarhlutinn felur í sér áherslu á að veita fjölskyldum og einstaklingum tækifæri til að vinna sig í gegnum vandann og koma eftir fremsta megni í veg fyrir óafturkræf félagsleg vandamál sem fylgja áföllum eins og þeim sem við göngum nú í gegnum. Stutt verður duglega við námsmenn, bæði með því að bjóða upp á sumarnám og 3000 sumarstörf, sexföldun Nýsköpunarsjóðs námsmanna auk þess sem námsmönnum verður auðveldað að fá atvinnuleysisbætur. Einnig er háum fjárhæðum varið til þess að auka virkni atvinnulausra og gefa þeim kost á námi samhliða bótum. Áætlað er að úrræðið nái til um 15 þúsund manns á árinu. Fjarheilbrigðisþjónusta verður efld sem styrkir mjög aðgang fólks um allt land að þjónustu heilbrigðiskerfisins. Þá er 600 milljónum veitt til sveitarfélaga til að styðja við 12 þúsund börn á tekjulægri heimilum til að stunda íþrótta- og frístundastarf.

Nú er ekki síst þörf á því að horfa til framtíðar. Nauðsyn er að styrkja enn stoðir íslensks atvinnulífs með mikilli áherslu á nýsköpun. Framlög til endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði verður aukin 2,5 milljarða króna auk þess sem umgjörð fjármögnunar sprota- og nýsköpunarfyrirtækja verður styrkt með sérstakri áherslu á grænar tæknilausnir.

Ég hef áður bent á mikilvægi þess að hlúð verði að íslenskri matvælaframleiðslu. Þar er ekki aðeins um fjárhagslegt mál að ræða heldur er augljóst að lýðheilsusjónarmið eru þar mikilvæg. Þau skref sem eru stigin í þeim aðgerðum sem kynntar voru í dag eru mikilvæg og felast í nýjum Matvælasjóði þar sem hálfum milljarði verður bætt við það fjármagn sem áður fór í Framleiðnisjóð landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóð í sjávarútvegi. Þá fagna ég því að nýr samningur við garðyrkjubændur feli í sér aukningu um 200 milljónir auk þess að fjármagn verður aukið til endurgreiðslu flutnings- og dreifingarkostnaðar á rafmagni.

Leiðin framundan er grýtt en eftir því sem tíminn líður sjáum við smátt og smátt landslagið breytast fyrir framan okkur, göturnar verða greiðfærari og bjartara yfir. Við verðum að halda hópinn og styðja hvert annað á leiðinni. Þá fer allt vel.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. apríl 2020.