Categories
Fréttir Greinar

Dýralæknar á Íslandi

Deila grein

24/02/2023

Dýralæknar á Íslandi

Dýralæknar gegna mikilvægu hlutverki í okkar samfélagi við umönnun dýra. Margar áskoranir hafa verið til staðar þar sem erfiðlega hefur gengið að manna dýralæknaþjónustu en síðustu ár hefur hörgull á dýralæknum hér á landi verið mikið í umræðunni. Tengist sú umræða sérstaklega þeirri miklu umræðu um fæðuöryggi þjóðarinnar. Skortur á dýralæknum getur m.a. haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir aðgengi bænda og almennings að dýralæknaþjónustu sem gætu haft alvarleg og óafturkræf áhrif á heilsu og velferð dýra, auk fjárhagslegs tjóns fyrir bændur. Að þessu tilefni hef ég nú lagt fram tvær þingsályktunartillögur sem snúa að mönnun og starfsaðstæðum dýralækna hér á landi.

Skortur á dýralæknum og ívilnanir

Fyrri tillagan snýr að því að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í samráði við matvælaráðherra og innviðaráðherra, að vinna skýrslu með aðkomu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Byggðastofnunar um sérstakar tímabundnar ívilnanir um endurgreiðslu námslána til lánþega í dýralæknanámi. En í 27. gr. laga um Menntasjóð námsmanna nr. 60/2020, er að finna heimild til ráðherra til að veita tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Heimildin er ætluð til þess að gefa ráðherra tækifæri til þess að bregðast við ástandi þar sem skortur er viðvarandi eða fyrirsjáanlegur á fólki með tiltekna menntun með því að skapa sérstakan hvata fyrir fólk til þess að sækja sér téða menntun, eða til að starfa í tiltekinni starfsgrein. Til þess að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra geti ákveðið sérstaka tímabundna ívilnun þurfa að liggja fyrir upplýsingar um viðvarandi skort í ákveðinni starfsstétt eða að hann sé fyrirsjáanlegur. Þar með er gert ráð fyrir að undirbúin sé skýrsla sem byggi meðal annars á framangreindum upplýsingum; unnin af stjórnvöldum í samráði við hlutaðeigandi atvinnurekendur eða samtök atvinnurekenda. Tilgangur skýrslunnar er að varpa ljósi á aðstæður og greina þörf á viðbrögðum við skorti eða fyrirsjáanlegum skorti innan starfsstétta dýralækna.

Þá er í 28. gr. sömu laga að finna heimild til ráðherra til að veita tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána hjá lánþegum búsettum á svæðum skilgreindum í samráði við Byggðastofnun, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Heimildin er af sama meiði og að framan hefur verið rakinn, þ.e. til að gefa ráðherra tækifæri til að bregðast við ástandi þar sem skortur er á sérmenntuðum einstaklingum á ákveðnum svæðum. Má rekja fyrirmyndina til Noregs þar sem kennarar sem starfa í hinum dreifðari byggðum, Finnmörk eða Norður-Tromsfylki, eiga möguleika á að fá afskrifaðan hluta af námslánum sínum ef þeir starfa sem kennarar í 50% starfi samfellt í a.m.k. tólf mánuði. Til þess að ráðherra geti ákveðið sérstaka tímabundna ívilnun þarf að liggja fyrir tillaga frá sveitarfélagi eða sveitarfélögum um þörf á menntuðu fólki í byggð sinni. Í kjölfarið er gert ráð fyrir að undirbúin sé skýrsla unnin af Byggðastofnun í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Markmið og efni tillögunnar snýr að því að gerð verði skýrsla sem tiltekur upplýsingar um það hvaða áhrif skortur á dýralæknum muni hafa á íslenskan landbúnað og atvinnuhætti í íslenskum landbúnaði á næstunni sem og til framtíðar. Þá er markmiðið jafnframt að varpa ljósi á aðstæður í hinum dreifðari byggðum þar sem skortur er á dýralæknum og stór eftirlitssvæði eru á höndum fárra. Full þörf er á að löggjafinn gæti þess að ívilnandi aðgerðir stjórnvalda nýtist öllum á grundvelli sjónarmiða um jafnræði og að þær tali beint inn í byggða- og atvinnustefnu út um allt land.

Vaktakerfi dýralækna

Seinni tillagan fjallar um stofnun starfshóps um heildarendurskoðun á vaktakerfi dýralækna en í tillögunni er lagt til að fela matvælaráðherra að setja af stað vinnu til að greina þjónustu dýralækna hér á landi. Á meðal dýralækna er almenn óánægja með vaktafyrirkomulag og bakvaktaálag starfsstéttarinnar og hefur svo verið um allnokkra hríð. Á það við um allt land og einskorðast ekki við eitt svæði eða dreifðari byggðir. Stórdýravaktin, sem m.a. snertir á fæðuöryggi þjóðarinnar og eins velferð dýra, hefur verið rekin með miklum halla undanfarin ár þar sem greiðslur úr vaktasjóðum duga skammt. Þetta hefur gert það verkum að ekki hefur tekist að manna t.a.m. höfuðborgarsvæðið, og leita þarf til umdæma í næsta nágrenni til að manna bakvaktir. Í hinum dreifðari byggðum eru einstaka svæði einungis með einn dýralækni á vakt allt árið um kring með því gríðarlega bakvaktarálagi sem því fylgir. Sum staðar á landinu eru eftirlitssvæðin svo stór að einn dýralæknir getur með engu móti sinnt starfi sínu. Skipulag vaktamála er á ábyrgð Matvælastofnunar. Það er hins vegar ljóst að stofnuninni hefur ekki tekist að uppfylla hlutverk sitt í að skipuleggja bakvaktir í samráði við dýralækna á öllum svæðum, og þar með tryggja nauðsynlega grunnþjónustu um land allt. Dýralæknar eru meðvitaðir um skyldur sínar þegar kemur að því að hjálpa dýrum í neyð. Hins vegar séu tilfellin of mörg þar sem dýralæknar eru settir í vonlausa stöðu gagnvart þeim starfsskyldum sem á herðar þeirra eru lagðar. Nágrannaþjóðir okkar í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hafa öll sett af stað umfangsmikla vinnu við að greina vandann og þær áskoranir sem fylgja því að færri dýralæknar fást í störf úti á landi, og um leið færri dýralæknar sem gefi kost á sér í bakvaktaþjónustu. Það er því afar mikilvægt að farið verði í þá vinnu og snýr markmið og efni tillögunnar þar með að því að hrundið verði af stað heildarendurskoðun á dýralæknaþjónustu hér á landi.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Mikil­vægi strand­svæðis­skipu­lags

Deila grein

23/02/2023

Mikil­vægi strand­svæðis­skipu­lags

Strax í árdaga sjókvíeldis fyrir vestan og austan fóru sveitarfélög á svæðinu að kalla eftir að það yrði gert strandsvæðisskipulag fyrir þau svæði sem þá þegar var búið að ákveða af stjórnvöldum að hentuðu fyrir eldið. Hafist var handa við að loka stærsta hluta strandlengjunnar þannig eldi var aðeins leyft á hluta Austfjarða, á Vestfjörðum og í Eyjafirði.

Sveitarfélögin kölluðu sterkt eftir aðkomu að skipulagi þeirra að hvernig svæðum yrðu úthlutað. Fjórðungssamband Vestfirðinga sendi t.d. inn umsögn um fiskeldislögin sem voru í smíðum árið 2008 og bentu á að aðgengi að strandsvæðum væri auðlind til framtíðar litið. Aðgengi sveitarfélaga á Vestfjörðum að skipulagi nýtingar þeirra væri því mikilvægt enda Vestfirðir með 1/3 af strandlengju Íslands. Afstaðan var skýr að það ætti að líta á aðkomu sveitarfélaga að skipulagi strandsvæða á sama hátt og sveitarfélög komi að skipulagi nýtingu annarra auðlinda, s.s. jarðhita og vatnsorku.

Á þetta var ekki fallist. Þó kom fram í meirihlutaáliti atvinnunefndar það sjónarmið og lögð til sú breyting á frumvarpinu að leitað yrði umsagnar viðkomandi sveitarfélags við svæðaskiptingu fiskeldis, við staðbundið bann við starfsemi og við veitingu rekstrarleyfis. Í framhaldi reyndu sveitarfélögin ítrekað að koma skoðununum sínum á framfæri næstu árin við þær breytingar sem voru gerðar á fiskeldislögum og öðrum lögum sem snéru að auðlindanýtingu fjarða á svæðinu.

Lög um skipulag haf-og strandsvæða

Sveitarfélögum var loks 2018 hleypt að borðinu þegar lög um skipulag haf- og strandsvæða voru samþykkt í þriðju atrennu. Fjórðungssamband Vestfirðinga hafði þá í rúman áratug bent ítrekað á mikilvægi þess fyrir svæðið. Markmið laganna voru m.a. að nýting og vernd auðlinda haf- og strandsvæða yrði í samræmi við skipulag sem hefði efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi að leiðarljósi.

Það var svo á árinu 2019 sem svæðisráð voru endanlega skipuð og hafa þegar skilað tillögu inn til innviðaráðuneytisins sem staðfestir strandsvæðisskipulagið.

Skipulagið unnið í opnu og aðgengilegu ferli

Strandsvæðisskipulagið er unnið undir forystu og stjórn Skipulagsstofnunar með aðkomu fulltrúa sveitastjórnar á svæðinu. Svæðisráð um strandsvæðaskipulag bera svo ábyrgð á gerð þess. Skipulagið er því unnið í samvinnu ríkis og sveitarfélaga og leggur grunn að leyfisveitingum fyrir framkvæmdum og annarri starfsemi á því svæði sem skipulagið nær til og í vinnunni var miðað við að hún væri opin og aðgengileg bæði almennings og hagsmunaaðila. Aðkoma heimamanna er nauðsynleg eins og í annarri skipulagsvinnu fyrir svæðið.

Strandsvæðisskipulagið er skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði í fjörðum og flóum utan netlaga þar sem sett er fram stefna um framtíðarnýtingu og vernd svæðisins. Það getur falið í sér nýtingu svæða til eldis nytjastofna, efnistöku eða ferðaþjónustu, verndun eða samgönguleiða. Við mótun strandsvæðisskipulagsins var umhverfismati beitt til að tryggja að skipulagið stuðli að sjálfbærri þróun og dragi þannig úr neikvæðum áhrifum þess á umhverfið og því fléttað inn í vinnu svæðisráðs. Afurðin er fædd og bíður blessunar innviðaráðuneytisins.

Skipulagið unnið af þekkingu

Þegar tillögurnar lágu fyrir bárust fjölmargar umsagnir líkt og gengur og gerist skipulagsferli, enda verið að skipuleggja þessi svæði í fyrsta sinni. Það er gott að sjá slíkan áhuga og einnig hægt að segja að kynning á tillögunum hafi gengið vel. Það verður ekki annað séð en að skipulagið hafi verið unnið af þekkingu og með ráðgjöf frá til þess bærum aðilum bæði með þekkingu heimamanna og stofnunum sem eru með sérfræðiþekkingu á lífríkinu og skipulagsgerð.

Það er von mín að staðfesting fáist innan tímaramma á mikilvægu skipulagi strandsvæðisskipulags og að í kjölfarið verið fleiri strandsvæði skipulögð hringinn í kringum landið.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. febrúar 2023.

Categories
Greinar

Miðstöð skapandi greina á Íslandi

Deila grein

18/02/2023

Miðstöð skapandi greina á Íslandi

Eitt af því skemmti­lega við að starfa í stjórn­mál­um er að sjá afrakst­ur verka sinna fyr­ir sam­fé­lagið. Sú veg­ferð get­ur tekið á sig ýms­ar mynd­ir og verið mislöng. Síðastliðin vika var viðburðarík í þessu sam­hengi, en mik­il­væg­ir áfang­ar náðust fyr­ir mál­efni tón­list­ar, mynd­list­ar, hönn­un­ar og arki­tekt­úrs.

Á Alþingi mælti ég fyr­ir frum­varpi að tón­list­ar­lög­um og þings­álykt­un­ar­til­lögu um tón­list­ar­stefnu fyr­ir árin 2023-2030. Um er að ræða bæði fyrstu heild­ar­lög um tónlist í land­inu og fyrstu op­in­beru stefnu í mál­efn­um tón­list­ar á Íslandi. Ný heild­ar­lög um tónlist og tón­list­ar­stefna marka ákveðin vatna­skil fyr­ir tón­list­ar­lífið í land­inu en fram und­an eru nokkuð rót­tæk­ar breyt­ing­ar til þess að efla stuðnings­kerfi tón­list­ar á Íslandi og styðja við ís­lenskt tón­listar­fólk í verk­um sín­um, bæði hér­lend­is og er­lend­is. Þannig verður ný tón­list­armiðstöð sett á lagg­irn­ar en henni er ætlað að verða horn­steinn ís­lensks tón­list­ar­lífs og sinna upp­bygg­ingu og stuðningi við hvers kon­ar tón­list­ar­starf­semi sem og út­flutn­ings­verk­efni allra tón­list­ar­greina. Þá mun nýr tón­list­ar­sjóður sam­eina þrjá sjóði sem fyr­ir eru á sviði tón­list­ar í einn sam­eig­in­leg­an sjóð með það að mark­miði að ein­falda styrkjaum­hverfi ís­lensks tón­list­ar­lífs og auka skil­virkni þess.

Í þing­inu mælti ég einnig fyr­ir nýrri mynd­list­ar­stefnu til árs­ins 2030 sem bygg­ist á fjór­um meg­in­mark­miðum sem hvert og eitt stuðli að um­bót­um og já­kvæðum breyt­ing­um svo að framtíðar­sýn stefn­unn­ar geti orðið að veru­leika. Meg­in­mark­miðin eru að á Íslandi ríki kraft­mik­il mynd­list­ar­menn­ing, að stuðnings­kerfi mynd­list­ar verði ein­falt og skil­virkt, að ís­lensk mynd­list verði sýni­leg og vax­andi at­vinnu­grein og að ís­lensk mynd­list skipi alþjóðleg­an sess. Í stefn­unni er einnig að finna fjölþætt­ar aðgerðir til þess að ná sett­um mark­miðum.

Síðastliðinn föstu­dag kynnti ég svo nýja stefnu í mál­efn­um hönn­un­ar og arki­tekt­úrs til árs­ins 2030. Leiðir að meg­in­mark­miðum stefn­unn­ar tengj­ast fimm áherslu­sviðum sem nán­ar er fjallað um í stefnu­skjal­inu; verðmæta­sköp­un, mennt­un fram­sæk­inna kyn­slóða, hag­nýt­ingu hönn­un­ar sem breyt­inga­afls, sjálf­bærri innviðaupp­bygg­ingu og kynn­ingu á ís­lenskri hönn­un og arki­tekt­úr.

Að baki öllu fyrr­nefndu ligg­ur mik­il og góð sam­vinna við fjölda sam­starfsaðila, og hag- og fagaðila í viðkom­andi grein­um. Í eyr­um sumra kunna orð eins og stefna og stefnu­mót­un að hljóma eins og froðukennd­ir fras­ar, en staðreynd­in er engu að síður sú að hér er kom­inn sam­eig­in­leg­ur leiðar­vís­ir til framtíðar, sem all­ir eru sam­mála um og nú er hægt að hrinda í fram­kvæmd. Fjár­mun­ir hafa nú þegar verið tryggðir til þess að hefja þá vinnu. Stjórn­völd­um er al­vara með því að sækja fram fyr­ir skap­andi grein­ar. Mikið af und­ir­bún­ings­vinn­unni er nú að baki, við tek­ur að bretta upp erm­ar og halda áfram að fram­kvæma.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Nú er komið að okkur

Deila grein

17/02/2023

Nú er komið að okkur

Nýlega birtust fréttir þess efnis að matvælaráðherra hafi ákveðið að sleppa framlagningu frumvarps um sameiningu afurðastöðva í kjötiðnaði og tekið það úr málaskrá ráðuneytisins. Þetta eru vissulega vonbrigði þar sem hagræðing af slíkri sameiningu í þágu matvælaframleiðenda og neytenda hefur fengið mikla umfjöllun, bæði á Alþingi og á vettvangi bænda. Þegar við tölum um þessa hagræðingu þá erum við að tala um milljarða. Upphæðir sem geta skipt sköpum fyrir bændur og framtíð íslensks kjötiðnaðar.

Bóndinn tryggir fæðu

Skilaboð ríkisstjórnarinnar um mikilvægi þess að tryggja fæðu- og matvælaöryggi hér á landi hefur verið skýrt. Mikilvægt er að við getum reitt okkur á íslenska matvælaframleiðslu, og við sjáum á nýliðnum atburðum erlendis að aðstæður heillar þjóðar geta breyst á augnabliki. Að vera sjálfum okkur nóg með nauðsynjar á borð við mat getur skipt sköpum.

Þeir sem tryggja matvæla- og fæðuöryggi landsins eru bændur. Innlendir matvælaframleiðendur, sem hafa tryggt okkur gæða afurð í áranna raðir þrátt fyrir marga erfiða tíma. Í dag, á tímum mikillar samkeppni við erlendar stórverksmiðjur, eykst mikilvægi þess að innlendir framleiðendur, sem uppfylla allar þá kröfur sem við gerum til okkar fæðu hvað varðar öryggi og gæði, hafi ríkisstjórnina með þeim í liði.

Milljarða króna hagræðing

Framsókn hefur lengi talað fyrir að sameining afurðastöðva í kjötiðnaði verði gerð heimil hér á landi. Tölfræðin og framtíðarspár liggja fyrir. Sú hagræðing getur komið rekstrargrundvelli bænda aftur á réttan kjöl eftir erfiða tíma og myndi að öllum líkindum skila sér til neytenda í formi lægra verðs. Í núverandi stöðu geta bændur ekki selt sína vöru á sama verði og innfluttar vörur eru keyptar á. Aðstöðumunurinn er gífurlegur þegar við horfum til erlendra stórverksmiðja, þar sem ekki eru gerðar sömu kröfur til öryggis, staðla og dýraverndar á mörgum stöðum. Framleiðslukostnaður þeirra er, eðli máls samkvæmt, lægri per kíló en hjá íslenskum fjölskyldubónda.

Þeir sem setja fyrirvara á framtíðarspárnar geta horft á þá raunverulegu hagræðingu, sem hefur átt sér stað í kjölfar sameiningar afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Þar hafa mjólkurframleiðendur náð að hagræða milljörðum króna, sem skilar sér bæði til framleiðenda og bænda.

Deila um samkeppni

Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur gert athugasemdir við veitingu ofangreindrar heimildar, en þar eru gerðar athugasemdir við að sameining afurðastöðva gæti dregið verulega úr samkeppni á þeim markaði, með tilheyrandi áhrifum. Það er vissulega hlutverk SKE að fylgjast með samkeppni hér á landi og tryggja jafnvægi á markaði. Hins vegar þurfum við að geta horft á raunverulegar aðstæður, til dæmis hvað varðar samkeppnisbaráttu innlendrar matvælaframleiðslu við innflutt matvæli. Samkeppni sem má líkja við Davíð og Golíat. Það er komið að okkur að standa með Davíð og rétta honum slöngvuna. Í þessu máli eigum við frekar að líta til búvörulaga en samkeppnislaga, en markmið búvörulaga er einmitt að tryggja innlenda framleiðslu landbúnaðarvara og afkomu íslenskra bænda.

Lög og túlkun þeirra

Í málum sem varða matvælaframleiðslu og landbúnað hefur sú regla almennt gilt að landbúnaðarstefna skuli hafa forgang fram yfir samkeppnisákvæði. Þennan forgang hefur Evrópusambandið m.a. staðfest.

Í umfangsmikilli umsögn SKE, sem margir leggja grundvöll á í þessu máli, er meginþunginn lagður á túlkun samkeppnislaga. Það er skiljanlegt, enda samkeppnislögin þau lög sem stofnunin byggir almennt sínar ákvarðanir og athugasemdir á. Hins vegar gilda sérlög um landbúnað hér á landi, þ.e. búvörulögin, sem eiga að njóta forgangs. Við í Framsókn höfum margsinnis lagt það til að undanþága frá samkeppnisákvæðum verði sett í búvörulög, 71. gr. A búvörulaga sem veitir slíka undanþágu, og með því verði sameining afurðastöðva gerð heimil.

Skjaldborgin

Það er hlutverk ríkisstjórnarinnar að styðja við íslenskan landbúnað, neytendur og tryggja fæðuöryggi landsins. Með lagagjöf sem þessari eflum við íslenskan kjötiðnað til muna, gerum hann samkeppnishæfari á innlendum og alþjóðlegum markaði ásamt því að gera íslenskar afurðir aðgengilegri neytendum. Það er skjaldborgin sem við eigum að slá og við höfum engan tíma að missa. Ég vil því hvetja matvæla­ráðherra áfram í að vinna í þágu íslensks landbúnaðar og koma með frumvarp til þingsins um undanþágu frá samkeppnisákvæðum fyrir afurðastöðvar í kjötiðnaði.

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtis fyrst í Fréttablaðinu 16. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Sam­mála eða ekki

Deila grein

17/02/2023

Sam­mála eða ekki

Þeir tímar sem við lifum á virðast kalla á það að skoðanir fólks þurfi allar að vera af einum meiði og helst þannig að allir geti fellt sig við þær.

En hvað ef ég er ekki sammála? Heilbrigð skoðanaskipti og rökræður um málefni samfélagsins eru það sem drífur áfram breytingar og snúast um að finna bestu mögulegu niðurstöðuna hverju sinni.

Ef allir væru sammála um eina ríkisskoðun á öllu – myndum við þá vera að sjá þær breytingar sem hafa átt sér stað í hinum ýmsu málefnum?

Tökum samtalið

Við þurfum að eiga þetta samtal og þurfum að þora að eiga þessi skoðanaskipti og rökræður, því að mínu viti er ljóst að ef allir ætla að fella sig við sömu skoðanirnar og sömu sjónarmiðin, þá kaffærum við framþróun í samfélaginu og það viljum við ekki.

Við þurfum að þora að vekja athygli á öðrum hliðum umræðunnar, þora að taka rökræðuna og þora að skiptast á skoðunum um málefnin.

Miðlum málum

Það er ekki til sá einstaklingur sem er sérfræðingur í öllu. Það hefur hingað til reynst ágætlega að miðla málum til að komast að heilbrigðri og skynsamari lausn og við ættum að vera að gera meira af því í staðinn fyrir að hugsa alltaf „mín skoðun er rétt“.

Skoðanaskipti eru góð

Skoðanaskipti og að hlusta á sjónarmið annarra eru alltaf af hinu góða. Með því að taka allar hliðar umræðunnar og mætast á miðri leið tel ég að við komumst að niðurstöðu sem er til hagsbóta fyrir heildina.

Fjarlægjum blöðkurnar frá augunum

Við megum ekki eingöngu horfa á verkefnin út frá sjónarhorni vagnhestsins – verum tilbúin að horfa til hliðar og líta á það sem tækifæri til að vera víðsýnni.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Umbætur í bráðaþjónustu

Deila grein

15/02/2023

Umbætur í bráðaþjónustu

Viðbragðsteymi um bráðaþjónustu á landsvísu skilaði nýlega af sér skýrslu og tillögum sem hafa verið kynntar í ríkisstjórn og fyrir velferðarnefnd Alþingis.

Heilbrigðisráðherra skipaði viðbragðsteymið sumarið 2022 og í því sitja fulltrúar aðila sem koma að bráðaþjónustu í landinu. Í stuttu máli telur viðbragðsteymið margvísleg sóknarfæri vera til staðar til að efla, bæta og ekki síst samræma bráðaþjónustuna á landsvísu. Tillögurnar snúast einnig um að auka samvinnu milli stofnana, skilgreina viðmið og viðbragðstíma, styðja við menntun og þjálfun, og fleira. Vinnan hefur nú þegar skilað ákveðnum umbótum en í skýrslunni eru settar fram 39 tillögur.

Tillögur viðbragðsteymis

Umfangsmesta tillagan gengur út á að stofnuð verði bráðafjarheilbrigðismiðstöð þar sem áhersla verði lögð á faglegan stuðning við alla þá viðbragðsaðila sem sinna bráðaþjónustu um allt land, þar á meðal við þá sem sinna sjúkraflutningum og við heilbrigðisstarfsfólk í dreifðari byggðum. Einnig eru settar fram einfaldari tillögur eins að koma upp miðlægu Íslandskorti með upplýsingum um staðsetningu allra hjartastuðtækja í landinu þannig að Neyðarlínan 112 geti alltaf vísað á næsta tæki.

Þó skýrslan sé nýlega komin út var strax farið í ákveðnar umbætur samhliða vinnu teymisins. Heilbrigðisráðherra hefur nú þegar ráðstafað tæpum 330 milljónum króna til að bæta tækjabúnað vegna bráðaþjónustu á heilbrigðisstofnunum og heilsugæslustöðvum um allt land og farið hefur verið í ýmsar skipulagsbreytingar.

Umbótaverkefni sem komin eru í framkvæmd eru t.d. vinna við að fækka komum á bráðamóttöku. Tölur frá Landspítala sýna að það hefur tekist að beina hluta sjúklinga í önnur hentugri úrræði t.d. með opnun göngudeildar lyflækninga og betri leiðbeiningum í síma. Það sem nefnt er betri vegvísun. Þá standa yfir frekari umbætur á vegvísun í heilbrigðisþjónustu, þar sem stefnt að auknu samræmi í upplýsingagjöf og aukinni samvinnu til að dreifa álagi á heilbrigðiskerfið.

Styrking viðbragðs á Austurlandi

Liður í vinnunni var að setja viðmið um búnaðarþörf á mismunandi heilsugæslustöðvum um land allt og gera úttekt á stöðunni. Úttektin leiddi bæði í ljós þörf á að uppfæra búnað og bæta við búnaði á minni og stærri starfsstöðvum. Í kjörfarið var fjármagni ráðstafað til úrbóta. Þannig kom fram að sjúkrahúsið í Neskaupstað vantaði ytri-öndunarvél (BIPAP) og var fjármagni veitt til kaupa á slíku tæki en áður höfðu verið gerðar ráðstafanir til kaupa á nýju sneiðmyndatæki.

Úttekt á heilsugæslustöðvunum á Austurlandi leiddi í ljós þörf fyrir ýmsan búnað til að styrkja bráðaviðbragð, og voru 35 milljónir settar í það verkefni á fjárlögum. Fjármagnið er m.a. ætlað til kaupa á hjartastuðtækjum og hjartalínuritum samkvæmt nánari ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Samræming búnaðar bætir öryggi sjúklinga og vinnuaðstöðu heilbrigðisstarfsfólks auk þess að stuðla að markvissara samstarfi á milli starfsstöðva.

Rétt þjónusta á réttum stað

Þessi nálgun á verkefnið, þar sem horft er á áskoranir um allt land og brugðist við þeim með umbótum á smáum og stórum heilbrigðisstofnunum, endurspeglar vel áherslur Framsóknar. Þær áherslur birtasta einmitt í stjórnarsáttmálanum þar sem fram kemur að heilbrigðisstofnanir verði styrktar til að veita rétta þjónustu á réttum stað og að jafna skuli aðgengi að heilbrigðisþjónustu um land allt.

Vinnu viðbragðsteymisins verður fylgt eftir enda er hún afskaplega mikilvægt innlegg í viðbragð og þróun heilbrigðiskerfisins, til lengri og skemmri tíma. Ekki síst núna þegar heilbrigðiskerfi heimsins takast á við nýjan veruleika í kjölfar COVID með aukinni tíðni óvenjulegra og bráðra sýkinga.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi og formaður Velferðarnefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 14. febrúar 2023.

Categories
Greinar

Stöndum vörð um veitur Árborgar

Deila grein

13/02/2023

Stöndum vörð um veitur Árborgar

Undanfarnar vikur hafa verið viðburðaríkar í rekstri bæjarfélagsins, þar sem aðstæður eru krefjandi í jafn viðamikilli uppbyggingu og hér fer fram. Við þær aðstæður er rætt um að velta við öllum steinum. Í þeirri einföldu yfirlýsingu er margt sem liggur undir. Að velta við hverri krónu í rekstri sveitarfélagsins og skoða og meta allar eignir bæjarfélagsins. Ein eign hefur komið oftar til umræðu en undirritaður kærir sig um. Selfossveitur. Hvernig væri að skoða sölu á veitum?

Á sveitarfélag að vera að ómaka sig við að reka veitufyrirtæki?
Meginástæðan er sú að okkur hefur tekist ágætlega til með rekstur á veitunum undanfarin ár. Svo ágætlega að afkoman hefur ítrekað verið tekin frá Selfossveitum og notuð til að greiða önnur gjöld. Undirritaður er síður en svo ánægður með þá þróun, því strípun á fé veitnanna hefur komið í veg fyrir viðhald og hamlað vexti þeirra. Til viðbótar hefur tilfærsla fjármagns aukið á skuldir Selfossveitna að óþörfu.

Einangra þarf Selfossveitur, fráveitu og kaldavatnsveitu frá bæjarsjóði
Endurskipulagning á rekstri Árborgar er óumflýanlegur. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga mun knýja á um endurskipulagningu rekstrar því skuldaviðmið Árborgar er komið yfir hámarksviðmið. Það er, þegar skuldir eru meira en 150% af heildartekjum hvers árs. KPMG sér um ráðgjöf til sveitarfélagsins. Ég tel líklegt að þessari lausn hafi verið velt upp við núverandi meirihluta í greiningum þeirra.

Einkaaðliar væru mjög ánægðir með að sjá um þetta fyrir okkur. Enda eru tekjur öruggar, stöðugar og án áhættu. Allir þurfa heitt og kalt vatn og fráveitu. Aðeins má undanskilja kalda vatnið því opinberum aðilum er skylt að veita þá þjónustu. Hinsvegar, þá telur undirritaður eðlilegt að þessari þjónustu sé komið fyrir í einu fyrirtæki sem er aðskilið frá bæjarsjóði. Breyta mætti samþykktum þannig að millifærslur á fjármunum séu óheimilar og verðleggja megi þjónustuna til að standa undir þjónustu, viðhaldi og þróun rekstrar.

Stöndum vörð um mjólkurkúna
Við viljum að það komi skýrt fram að Framsókn í Árborg er andvíg því að selja veitur Árborgar að hluta eða í heilu lagi. Eign veitna er mikið öryggisatriði fyrir íbúa Árborgar og að sveitarfélagið stjórni þróun og starfsemi slíkra grundvallar innviða. Jafnframt erum við andvíg útvistun á hluta af þjónustu þeirri sem þessi fyrirtæki sinna nú um stundir. Málið var tekið fyrir á almennum félagafundi Framsóknarfélags Árborgar hvar einróma andstaða var við tilfærslu á eignarhaldi veitna Árborgar.

Arnar Freyr Ólafsson
bæjarfulltrúi Framsóknar í Árborg

Greinin birtist fyrst á sunnlenska.is 13. febrúar 2023.

Categories
Greinar

Neyðarbirgðir olíu

Deila grein

12/02/2023

Neyðarbirgðir olíu

Nýlega kynnti Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í samráðsgátt stjórnvalda áform um frumvarp til laga um neyðarbirgðir eldsneytis. Neyðarbirgðir eru mikilvægar ef skyndileg röskun verður á olíuframboði. Samkvæmt frumvarpinu er áformað að leggja skyldu á söluaðila eldsneytis að þeir viðhaldi jarðefnaeldsneytisbirgðum sem jafngildi notkun til 90 daga.

Samkvæmt frumvarpinu verður birgðaskyldan innleidd í nokkrum skrefum yfir nokkurra ára tímabil. Í dag er enginn aðili sem ber ábyrgð á því að til staðar séu neyðarbirgðir af eldsneyti á landinu og þá er heldur engin krafa til staðar á stjórnvöld eða atvinnulíf til þess að tryggja birgðir sem þessar.

Setjum ekki öll eggin í sömu körfu

Líkt og við höfum orðið óþægilega vör við síðustu misseri geta f ljótt skipast veður í lofti, eldgos, heimsfaraldrar og stríð geta valdið aðstæðum þar sem lífsnauðsynlegar vörur verða af skornum skammti, en nægt framboð af olíu er forsenda öryggis á fjölmörgum sviðum. Ef ekki er gætt að neyðarbirgðum olíu gæti f ljótt stefnt í óefni í samfélaginu.

Markmið okkar til framtíðar er auðvitað að verða óháð jarðefnaeldsneyti hérlendis en enn er nokkuð í að þeim markmiðum verði náð. Þangað til þurfum við að hafa tiltækar nægar olíubirgðir hér á landi.

Undirrituð telur þörf á því að skoðað verði af fullri alvöru við þessa vinnu, sem og aðra er snýr að neyðarbirgðum, að hugað sé að því að koma birgðum fyrir á fleiri en einum stað á landinu. Undirrituð telur mikilvægt að komið verði fyrir birgðastöð á að lágmarki tveimur stöðum á landinu, fyrir sunnan og einnig til dæmis fyrir norðan eða austan. Við vitum aldrei hvaða aðstæður geta skapast í samfélaginu. Hér er ég ekki síst að horfa til flugvélaeldsneytis, við þurfum að vera við því búin að þannig aðstæður skapist á SV horninu að flugvellir lokist, eldgos á Reykjanesi eru ágætis áminning um það og því þurfum við að vera tilbúin að beina flugi á aðra velli á landsbyggðinni.

Stöðugleiki um allt land

Neyðarolíubirgðir geta ekki bara skipt máli vegna samgangna heldur getur einnig þurft að nýta þær við hamfarahjálp svo sem við að knýja rafstöðvar o.s.frv. Því er mikilvægt að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni ef samgöngur rofna á milli landshluta. Ég fagna þeirri vinnu sem ráðherra hefur sett af stað og hvet hann áfram til góðra verka. En mikilvægt er að hafa það hugfast að með því að tryggja öllum landsmönnum auðvelt aðgengi að neyðarbirgðum má betur viðhalda stöðugleika og öryggi þjóðarinnar.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. febrúar 2023.

Categories
Greinar

Klárum að brúa bilið

Deila grein

11/02/2023

Klárum að brúa bilið

Við bæjarfulltrúar Framsóknar samþykktum á bæjarstjórnarfundi í vikunni tilraunaverkefni með svokallaðar heimgreiðslur, eða biðlistabætur, fyrir þá foreldra/forráðamenn sem eru á biðlista eftir plássi á leikskóla. Þó með þeim fyrirvara að þetta sé ekki framtíðarlausn og aðeins á meðan ekki hefur tekist að klára að brúa bil fæðingarorlofs og leikskóla.

Það virðist vera vilji meirihlutans að vinna þetta mál áfram og í framhaldinu hugsanlega bjóða upp á heimgreiðslur sem val, þ.e. að barnið þurfi ekki að vera á biðlista hjá leikskóla til að þiggja þessar greiðslur heldur geti foreldrar/forráðamenn kosið að vera lengur heima með barninu. Það er munaður sem líklega mjög fáir geta nýtt sér ef upphæðin verður 105 þúsund krónur eins og samþykkt var sem biðlistabætur. Fyrst og fremst er það hlutverk stjórnvalda að lengja fæðingarorlofið og þannig gera öllum kleift að vera lengur heima með börnum sínum í samvinnu við sveitarfélög og atvinnulíf.

Það hefur farið mikil vinna í þetta kosningaloforð um heimgreiðslur sem ekki sér fyrir endann á. Aftur á móti heyrist fátt um raunverulegar aðgerðir sem geta brúað bilið, í samræmi við þær tillögur sem starfshópur verkefnisins Brúum bilið lagði fram haustið 2019. Starfshópurinn var skipaður einstaklingum úr meiri- og minnihluta ásamt embættismönnum og fagráði leikskólastjórnenda og skilaði af sér vandaðri skýrslu. Í henni kemur fram að kanna eigi möguleika á að innrita börn í leikskóla tvisvar sinnum á ári, ekki bara á haustin eins og nú er gert. Eins standi til að kanna þann möguleika að hafa þrjár ungbarnadeildir eða ungbarnaleikskóla sem hver um sig getur innritað börn tvisvar á ári, samtals sex sinnum.

Meirihlutinn samþykkti ekki útrétta hönd minnihlutans sem bauð upp á samstarf við áframhaldandi vinnu verkefnisins Brúum bilið.

Það hefur verið stefna Akureyrarbæjar frá hausti 2021 að innrita 12 mánaða börn inn á leikskóla og ætti því að setja í algjöran forgang að útfæra hvernig hægt sé að innrita 12 mánaða börn oftar yfir árið. Við eigum að þora að horfa út fyrir kassann og endurhugsa þessa þjónustu alla upp á nýtt þar sem við horfum til þess bæði að bjóða framúrskarandi þjónustu og passa upp á velferð starfsfólks. Þess vegna voru það mikil vonbrigði að meirihlutinn hafnaði tillögu bæjarfulltrúa VG Jönu Salóme Ingibjargar Jósepsdóttur að stofnaður yrði þverpólitískur starfshópur sem ynni áfram með þessar hugmyndir í nánu samstarfi við fagaðila og foreldra.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 8. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Nokkrar vangaveltur um tryggingar

Deila grein

11/02/2023

Nokkrar vangaveltur um tryggingar

Enn og aftur sting ég niður penna og fjalla um hækkun trygginga. Það er ekki að ástæðulausu, því í nýlegum Þjóðarpúlsi Gallup kemur fram að hlutfall þeirra sem ekki ná endum saman fjárhagslega hafi ekki verið jafn hátt í sjö ár og sögðust átta af hundrað safna skuldum. 

Ég velti því enn og aftur fyrir mér „samfélagslegum skyldum“ tryggingarfélaga, banka og annarra aðila sem geta borið þyngri byrðar eða tekið höggið á tímum sem þessum. Líkt og ég kom að í upphafi hef ég áður fjallað um hækkun trygginga og þau svör sem ég fékk við fyrirspurn minni á sínum tíma. Þær greinar og þau svör má lesa hér.

Ég hef nú sent fjármála- og efnahagsráðherra frekari fyrirspurnir er varða vátryggingamál hér á landi. Fyrirspurnirnar eru tvær. Annars vegar varðandi þróun tjóna í gegnum covid faraldurinn og hins vegar um þróun iðgjalda eftir að tryggingaskylda ökumannatækja á borð við snjósleða, fjórhjóla og torfærumótorhjóla var afnumin á sínum tíma.

Vátryggingaskuld, hvað er það?

En í hvað fara iðgjöldin? Vátryggingaskuld, (eða svokallaður bótasjóður, sem reyndar er hugtak sem ekki er notað lengur í lögum) er myndaður með greiðslu iðgjalda sem tjónaskuld vegna ógreiddra tjóna fyrri ára, það er til að tryggja greiðslugetu bóta í náinni framtíð. Það má vel spyrja sig hvort ekki eigi að nota hagnað af þessari tjónaskuld til lækkunar á iðgjöldum næsta árs eða hvort hann sé reiknaður inn í iðgjaldaþörfina þar sem þetta er arður af skuldinni, alltsvo bótasjóði.

Ég velti því fyrir mér hvort arður af fjárfestingartekjum vátryggingaskuldar sé talinn vera hluti af vátryggingarekstrinum sjálfum. Sé svarið „nei“ við þeirri spurningu mætti spyrja sig af hverju arður af fjárfestingartekjum vátryggingaskuldar (bótasjóði) sé ekki talinn vera hluti af vátryggingarekstrinum þar sem hann er myndaður af iðgjöldum vátryggingataka?

Sé niðurstaðan sú að þessu tvennu sé algjörlega haldið aðgreindu, það er vátryggingarekstrum og fjárfestingum félaganna, má halda áfram að spyrja sig hvort eðlilegt sé að halda þessu aðgreindu þar sem um er að ræða tekjur af áður greiddum iðgjöldum vátryggingataka. Já, ég ætla ekki að halda því fram að það sé auðvelt að átta sig á fjárfestingaumhverfi tryggingarfélaga, en það má og verður að spyrja spurninga.

Hvar liggur ákvörðunin um lækkun iðgjalda?

Væntanlega er það einungis og einvörðungu ákvörðun stjórna félaganna hvort hagnaður af fjárfestingastarfsemi sé notaður í þágu viðskiptavina eða ekki. Það sama á svo við um hagnað af vátryggingastarfsemi. Í frétt Fjármálaeftirlitsins sem bar heitið „Til glöggvunar varðandi vátryggingafélög og svokallaða „bótasjóði“” kom fram að það sé á ábyrgð stjórna vátryggingafélaganna „að tryggja orðspor félaganna haldist gott, en það gera þau best með því að huga bæði að hagsmunum viðskiptavina og fjárfesta. Þær þurfa að ákvarða með hvaða hætti vátryggingafélögin láta viðskiptavini sína njóta góðs af hagnaði sínum. Þetta á við hvort sem um er að ræða hagnað af vátryggingastarfsemi eða fjárfestingarstarfsemi“ Sé þetta raunin, þá geta stjórnir félaganna ef þær kjósa svo látið viðskiptavini njóta góðs af hagnaði sínum, hvort sem um er að ræða hagnað af vátryggingastarfsemi eða fjárfestingarstarfsemi. Með öðrum orðum þá geta stjórnir félaganna tekið ákvörðun um að standa með almenningi í landinu.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. febrúar 2023.