Categories
Greinar

Sam­starf um stöðug­leika

Deila grein

15/12/2022

Sam­starf um stöðug­leika

Þegar ég bauð mig fram til Alþingis síðastliðið haust var það vegna þess að ég vildi gera vel. Ástandið í heiminum hefur haft áhrif á efnahagsástandið hér á landi sem og annar staðar. Við getum þó ornað okkur við það að allar líkur eru á að um tímabundið ástand sé að ræða, staða ríkissjóðs er mun sterkari en áður var gert ráð fyrir og viðsnúningur getur því orðið hraður þegar ástandið færist aftur í eðlilegt horf. Við þurfum þó að stíga varlega til jarðar næstu mánuði, tryggja stöðugleika og ná niður verðbólgu og vöxtum.

Stöðugleiki og samvinna

Líkt og áður hefur komið fram í mínum greinarskrifum erum við að upplifa tíma sem kalla á stöðugleika og samvinnu. Þetta vita þeir sem semja um kaup og kjör hér á landi. Þær ánægjulegu fréttir bárust okkur fyrr í vikunni að iðnaðar- og verslunarmenn hafi skrifað undir kjarasamning við Samtök atvinnulífsins, en áður höfðu náðst samningar milli SA og SGS. Með undirritun þessara samninga hefur nú verið samið við stærstu félögin á almennum vinnumarkaði, en í þeim eru fleiri en 80 þúsund manns. Um er að ræða skammtímasamninga sem hafa það markmið að styðja við kaupmátt launafólks og brúa bil yfir í nýjan langtímasamning í anda Lífskjarasamningsins.

Í kjölfarið kynntu formenn stjórnarflokkanna þær aðgerðir sem stjórnvöld ætla að leggja til sem stuðning við kjarasamningana. Hér er um að ræða þýðingarmikinn stuðning við fólkið í landinu og þá sér í lagi við lífskjör lág- og millitekjufólks ásamt auknum stuðningi við barnafjölskyldur. Á sama tíma er áréttað mikilvægi þess að verja kaupmátt og lífskjör launafólks og skapa stöðugleika í efnahagsmálum svo hægt sé að ná fram lækkun á verðbólgu og vöxtum.

Breytingar á barnabótakerfinu

Einn liður í aðgerðum stjórnvalda eru verulegar breytingar á barnabótakerfinu til þess að styðja við kjarasamninga. Í tillögunum felst að barnabótakerfið verði einfaldað og stuðningur við barnafjölskyldur efldur. Breytingin mun dreifast á tvö ár. Fyrsta skrefið verður tekið nú um áramótin 2023 og svo aftur 1. janúar 2024. Með þessum breytingunum verður dregið úr skerðingum og jaðarskattar af völdum barnabóta lækkaðir, ásamt því að lögð er áhersla á að bæta hag allra tekjutíunda og fjölga fjölskyldum sem fá stuðning úr barnabótakerfinu.

Barnabætur hjá millitekjufólki hækka mest og minnst hjá þeim sem hafa hærri laun. Þá verða teknar upp samtímagreiðslur þannig að biðtími eftir barnabótum verður aldrei lengri en 4 mánuðir eftir fæðingu barns. Þeim fjölskyldum sem njóta stuðnings úr kerfinu fjölgar um 2.900, það eru 2000 nýjar fjölskyldur vegna breytinga í ársbyrjun og 900 vegna breytinga í ársbyrjun 2024. Í óbreyttu kerfi hefði kostnaður vegna barnabóta orðið um 12,1 ma.kr. árið 2023 samhliða hækkandi tekjum fólks og um 10,9 ma.kr. árið 2024. En vegna breytinganna verður kostnaðurinn við kerfið hins vegar um 14,6 ma.kr. 2023 og um 15,9 ma.kr. 2024. Hér er um að ræða mikilvægar breytingar sem koma inn á réttum tíma.

Aukinn húsnæðisstuðningur

Húsnæðisstuðningur ríkisins verður um 19 ma.kr. á næsta ári og farið í markvissar aðgerðir með áherslu á fjölgun íbúða og áframhaldandi uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu. Með auknum stofnframlögum og endurbótum í húsnæðisstuðningi náum við því markmiði. Stofnframlög ríkisins til að auka framboð íbúða á viðráðanlegu verði í almenna íbúðakerfinu verða samtals 4 milljarðar strax á næsta ári. Hækka á húsnæðisbætur til leigjenda um 13,8% í upphafi árs til samræmis við þróun verðlags undanfarin ár, auk þess sem tekjuskerðingarmörk húsnæðisbóta hækka um 7,4%. Með þessu fá 16.800 fjölskyldur í landinu húsnæðisbætur. Húsnæðisbætur til leigjenda hækka með þessu verulega og eru áætlaðar 9,6 ma.kr. þá eru vaxtabætur áætlaðar 2,7 ma.kr. ásamt því að eignaskerðingarmörk í vaxtabótakerfinu hækka um 50% í upphafi árs 2023.

Þessu til viðbótar mun heimild til þess að ráðstafa séreignarsparnað til kaupa á eigin húsnæði eða inn á höfuðstól húsnæðislána áfram nýtast fram til ársloka 2024. Stjórnvöld láta þar ekki staðar numið heldur munu á samningstímanum taka sérstaklega til skoðunar fyrirkomulag sérstaks húsnæðisstuðnings húsnæðisbóta til leigjenda með það að markmiði að tryggja jafnræði og einfalda kerfið fyrir leigjendur.

Að standa saman í ólgusjó

Hér hefur einungis verið tæpt á helstu atriðum í aðgerðum stjórnvalda. Stjórnvöld eru með þessu að leggja sitt á vogarskálarnar til þess að koma þjóðinni í gegnum óvenjulegu tíma. Þá hafa verkalýðsfélögin og Samtök atvinnulífsins aldeilis staðið við sinn hlut í því að ná fram stöðugleika í samfélaginu næstu mánuði og eiga hrós skilið. Nú skiptir mestu máli að allir sem vettlingi geta valdið geri sitt til þess að tryggja stöðugleika. Það er mikilvægt að halda aftur af hækkunum með öllum tiltækum ráðum og ná niður verðbólgunni.

Ég veit að þegar á reynir er samhugurinn mikill. Verjum tíma með okkar nánustu, styðjum og sýnum hvert öðru virðingu og samkennd í aðdraganda jóla. Gleðilega hátíð.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. desember 2022.

Categories
Greinar

Traust ríkisfjármál skipta öllu fyrir Ísland

Deila grein

15/12/2022

Traust ríkisfjármál skipta öllu fyrir Ísland

Mik­il ókyrrð hef­ur verið á alþjóðamörkuðum síðustu ár. Verðbólga á heimsvísu hef­ur ekki mælst jafn­há í fjóra ára­tugi. Meg­in­or­sak­ir henn­ar eru heims­far­ald­ur­inn og rösk­un á aðfanga­keðju vegna hans, stríðið í Úkraínu og orkukrepp­an í Evr­ópu. Að auki lít­ur út fyr­ir áfram­hald­andi póli­tíska spennu milli Banda­ríkj­anna og Kína. Stýri­vext­ir halda áfram að hækka og lík­urn­ar aukast veru­lega á að efna­hagsniður­sveifla hefj­ist á heimsvísu. Tími ódýrs láns­fjár­magns er liðinn í bili. Ein­hver glæta er þó að birt­ast eft­ir að verðbólga er far­in að hjaðna í Banda­ríkj­un­um.

Minnk­andi alþjóðaviðskipti

Mikl­ar breyt­ing­ar virðast vera í far­vatn­inu í alþjóðahag­kerf­inu, sem snúa einkum að minnk­andi alþjóðaviðskipt­um og fjár­fest­ingu. Í þessu um­hverfi er sér­stak­lega mik­il­vægt að stefna í rík­is­fjár­mál­um sé traust og að þau séu sjálf­bær hjá ríkj­um. Fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra, Liz Truss, og fjár­málaráðherra Bret­lands, Kwasi Kw­arteng, fundu held­ur bet­ur fyr­ir því að hafa ekki hugað að trú­verðugri rík­is­fjár­mála­stefnu. Frá því að „Litlu-fjár­lög­in“ voru kynnt af þáver­andi for­ystu Íhalds­flokks­ins leið ekki nema um vika þar til þau neydd­ust til að segja af sér. En hvað þýða þess­ir svipti­vind­ar alþjóðafjár­mála­kerf­is­ins og hver er þýðing þeirra hér á landi?

Lygi­leg at­b­urðarás í Bretlandi

Í kjöl­far þess að ,,Litlu-fjár­lög­in“ voru kynnt fór af stað mjög hröð at­b­urðarás á fjár­mála­mörkuðum. Veðköll hóf­ust vegna af­leiðuskuld­bind­inga líf­eyr­is­sjóðakerf­is­ins í bresk­um skulda­bréf­um. Það leiddi til þess að Seðlabanki Eng­lands þurfti að auka laust fé í um­ferð til að hægt væri að mæta veðköll­un­um. Rík­is­fjár­mála­áætl­un­in tapaði sam­stund­is öll­um trú­verðug­leika og í fram­hald­inu urðu stjórn­ar­skipti. Nýr fjár­málaráðherra, James Hunt, hef­ur kynnt fjár­mála­áætl­un sem miðar að því að skulda­lækk­un sé í aug­sýn og skatt­ar voru meðal ann­ars hækkaðir á þá tekju­mestu. Undið var ofan af fyrri áætl­un­um á mettíma. Til­trú og traust hef­ur minnkað vegna þess­ar­ar fram­göngu í rík­is­fjár­mál­um.

Rík­is­út­gjöld aukast í Evr­ópu og Ítal­ía áfram í hættu

Seðlabank­ar heims­ins hafa verið að hækka stýri­vexti og sam­hliða hef­ur fjár­mögn­un­ar­kostnaður verið að aukast. Að sama skapi sjá­um við ekki fyr­ir end­ann á stríðinu í Úkraínu og orkukreppu margra Evr­ópu­ríkja. Þýska­land hef­ur þegar riðið á vaðið til að styðja bet­ur við fyr­ir­tæk­in og heim­il­in í land­inu vegna hækk­andi orku­verðs og settu rúma 200 millj­arða evra til þess. Fjár­málaráðherra Þýska­lands, Christian Lindner, hafnaði því að aðgerðapakk­inn væri verðbólgu­hvetj­andi en engu að síður hef­ur verðbólga ekki mælst hærri í 70 ár og ávöxt­un­ar­krafa þýskra rík­is­skulda hækkað. Annað ríki í Evr­ópu, Ítal­ía, er enn viðkvæm­ara fyr­ir þreng­ing­um. Ítal­ía er háð rúss­nesku gasi og hef­ur lítið svig­rúm í rík­is­fjár­mál­un­um í ljósi mik­illa skulda og hækk­andi vaxta­greiðslna til að koma til móts við hækk­andi orku­verð. Ávöxt­un­ar­kraf­an á rík­is­skulda­bréf­in hef­ur verið að hækka veru­lega. Ófyr­ir­sjá­an­leiki í orku­öfl­un í Evr­ópu veld­ur því að fjár­fest­ar gera ráð fyr­ir að erfiðara verði að koma bönd­um á verðbólg­una.

Tauga­veiklaðir markaðir

Við sjá­um ekki fyr­ir end­ann á vaxta­hækk­un­um seðlabanka og því mun mynd­ast álag á helstu fjár­mála­mörkuðum. Vegna þessa er búið að herða tök­in á öll­um mörkuðum og lausa­fjárstaða þjóða og fyr­ir­tækja hef­ur versnað. Það má færa sann­fær­andi rök fyr­ir því að við mun­um sjá mikl­ar verðbreyt­ing­ar á mörkuðum og meiri óstöðug­leika á næsta ári. Gjá mynd­ast meðal þjóða sem hafa trú­verðug rík­is­fjár­mál og sjálf­bær­an greiðslu­jöfnuð ann­ars veg­ar og hins veg­ar þeirra þar sem grunnstoðir hag­kerfa eru veik­ar líkt og á Ítal­íu, í Tyrklandi og Arg­entínu. Seðlabanki Banda­ríkj­anna hef­ur hækkað vexti hraðar en aðrir seðlabank­ar að und­an­skild­um Seðlabanka Íslands. Þetta þýðir að gengi Banda­ríkja­dals hef­ur hækkað veru­lega eða um rúm 17% frá árs­byrj­un. Banda­rík­in hafa því verið að flytja verðbólg­una til annarra ríkja og því hafa aðrar þjóðir þurft að hækka vexti hraðar en ella.

Fjár­lög rík­is­sjóðs Íslands 2023 sýna af­komu­bata

Hag­vaxt­ar­horf­ur hafa styrkst á Íslandi og hag­vöxt­ur er óvíða meiri og mæl­ist 7,3% á 3. árs­fjórðungi sam­kvæmt töl­um Hag­stof­unn­ar. Hann er drif­inn áfram af mikl­um vexti í út­flutn­ingi, sér­stak­lega í ferðaþjón­ustu, og kröft­ugri einka­neyslu. Hlut­ur hins op­in­bera er að minnka í fjár­fest­ing­um og vöxt­ur sam­neyslu er hóf­leg­ur. Þrátt fyr­ir auk­in út­gjöld er lögð rík áhersla á að styrkja stöðu rík­is­fjár­mál­anna og hvika ekki frá því meg­in­mark­miði að lækka skuld­ir á næstu árum. Í ár hef­ur dregið hratt úr mikl­um halla­rekstri rík­is­sjóðs árin 2020 og 2021 sem ætlað var að draga úr áhrif­um heims­far­ald­urs­ins á fjár­hag heim­ila og fyr­ir­tækja. Efna­hags­bat­inn hef­ur leitt til mik­ill­ar tekju­aukn­ing­ar rík­is­sjóðs og þess að skulda­hlut­föll hins op­in­bera eru mun lægri en gert var ráð fyr­ir. Þessi efna­hags­bati er kröft­ug­ur og því hef­ur mynd­ast spenna í þjóðarbú­inu. Fjár­mál hins op­in­bera þurfa að róa í sömu átt og stefna Seðlabanka Íslands. Halli á rekstri rík­is­sjóðs verður því tæp­lega 3% af lands­fram­leiðslu. Útlit er fyr­ir að skulda­hlut­föll verði að sama skapi nær óbreytt frá samþykktri fjár­mála­áætl­un frá því í sum­ar, eða um 33% af VLF. Það er al­veg ljóst í mín­um huga að afar brýnt er að rík­is­sjóður nái tök­um á þess­um halla á næstu árum. Ísland er í kjöraðstöðu til að sýna fram á sjálf­bær rík­is­fjár­mál vegna af­komu­bata og framtíðar­horf­ur eru því bjart­ar.

Gera má ráð fyr­ir að þró­un­in verði sú að ríki séu í aukn­um mæli að fást við vax­andi rík­is­út­gjöld, erfiðari bar­áttu við verðbólgu og að hinir alþjóðlegu fjár­mála­markaðir muni veita aðhald vegna þeirra þreng­inga sem eru á alþjóðleg­um fjár­mála­mörkuðum. Við eig­um að taka þessa at­b­urðarás al­var­lega, þar sem kröf­ur um trú­verðuga rík­is­fjár­mála­stefnu eru að aukast ásamt því að alþjóðaviðskipti eru að drag­ast sam­an. Smærri ríki þurfa því að vanda sig enn frek­ar. Horf­ur ís­lensks efna­hags eru bjart­ar, hag­vöxt­ur er mik­ill og bygg­ist á auk­inni verðmæta­sköp­un. Að sama skapi halda skuld­ir áfram að lækka og er skuld­astaða rík­is­sjóðs ein sú besta í Evr­ópu. Þrátt fyr­ir þessa stöðu ber okk­ur að vera ætíð á tán­um til þess að auka kaup­mátt og vel­ferð í land­inu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 15. desember 2022.

Categories
Greinar

Stórt skref fyrir Vestmannaeyjar

Deila grein

14/12/2022

Stórt skref fyrir Vestmannaeyjar

Þær fréttir bárust í dag að innviðaráðuneytið hefði náð samkomulagi við Flugfélagið Erni um áætlunarflug til Vestmannaeyja þrisvar sinnum í viku. Lengi hefur verið ákall frá íbúum í Vestmannaeyjum um að bæta samgöngur til og frá eyjum og er framangreint samkomulag við Flugfélagið Erni liður í því að efla samgöngur að mati ráðuneytisins. Þá er það einnig afar mikilvægt fyrir íbúa og atvinnulíf í Eyjum, að tryggja lágmarksþjónustu í vetur.

Aðdragandinn

Á árunum 2010-2020 var áætlunarflug til Vestmannaeyja í höndum Flugfélagsins Ernis og í september 2020 þótti ástæða til að leggja flugið niður vegna minnkandi eftirspurnar í kjölfar Cov-19 faraldursins. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið samdi við flugfélagið í desember 2021 um svokallað lágmarksflug á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja sem var í gildi fram til 1. júní 2022. Reglulegt flug hefur verið í miklu uppnámi frá því það lagðist af.

Flugfélagið Ernir sinnti áætlunarflugi til Vestmannaeyja frá árinu 2010 til í september 2020 þegar ekki var annað í stöðunni en að leggja niður flug sökum minnkandi eftirspurnar. Það er því mikið fagnaðarefni að félagið hafi tekið að sér að þjónusta svæðið aftur og vonandi er hægt að byggja upp flug til og frá Vestmannaeyjum til frambúðar og með fleiri flugferðum í viku hverri.

Öryggismál

Þó að hér sé um tímabundið samkomulag að ræða þá megum við ekki gleyma því að við þurfum að leita leiða til að koma þessum málum í réttan farveg, þetta er fyrsta skrefið. Ef það er fullreynt að flug til eyja á markaðslegum forsendum geti gengið upp þá þarf strax að líta til þess hver séu næstu skref um framhaldið. 

Það er í grunninn öryggismál að það séu tvær samgönguleiðir til Eyja og er gríðarlega mikilvægt fyrir íbúa sveitarfélagsins. Margir þeirra hafa kosið að nýta sér áætlunarflug yfir vetrartímann þegar það hefur verið í boði vegna óvissu í áætlunarferðum Herjólfs. Við þurfum svo til framtíðar að finna varanlega lausn á þessum málum en hér er engu að síður um að ræða mikilvægt skref í þá átt.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. desember 2022.

Categories
Greinar Uncategorized

VERJA ÞARF STERKA STÖÐU RÍKISSJÓÐS Í FJÁRLÖGUM 2023

Deila grein

13/12/2022

VERJA ÞARF STERKA STÖÐU RÍKISSJÓÐS Í FJÁRLÖGUM 2023

Það er fastur liður í aðventudagskrá Alþingis að fjalla um og samþykkja fjárlög fyrir komandi ár. Í upphafi kjörtímabils voru krefjandi tímar fram undan, heimsfaraldur stóð yfir og sama dag og takmörkunum var aflétt hér á landi réðust Rússar inn í Úkraínu. Þessir þættir hafa skapað óvissu bæði hér innanlands sem og í Evrópu. Eðli málsins samkvæmt er það ekki óeðlilegt í ástandi sem þessu að verðbólga og hækkun á aðföngum taki sér pláss í fjárlögum líkt og í heimilisrekstri landsmanna. Staðan í efnahagsmálum í Evrópu er erfiðari en lengi hefur verið.

Skýr afkomubati

Þrátt fyrir þessar staðreyndir er það markmið ríkisstjórnarinnar að verja sterka stöðu ríkissjóðs með því að lækka rekstrarhalla og stöðva hækkun skuldahlutfalls á næsta ári. Í framlögðum fjárlögum má finna skynsamleg skef framávið sem lúta að því að styrkja áfram innviði og grunnþjónustu í landinu en það er sterkur leikur til að verja kaupmátt landsmanna. Þá má einnig finna að dregið er úr útgjöldum enda var verulega bætt í útgjöld til að verja störf og heimili í gegnum heimsfaraldurinn. Það er mikilvægt skref til að vinna gegn verðbólgu þegar horft er til næstu missera í þjóðarbúskapnum. Í fjárlögum næsta árs eru þó jákvæð teikn á lofti um að við séum að vaxa út úr þeim stóru verkefnum sem við höfum staðið frammi fyrir og að viðsnúningur geti orðið hraður ef rétt er haldið á spöðunum.

Treystum heilbrigðisþjónustu

Heilbrigðiskerfið með öllu sínu frábæra starfsfólki hefur staðið sem klettur í gegnum heimsfaraldur þrátt fyrir mikla ágjöf. En svo það geti staðið sterkt áfram þarf að bæta verulega í málaflokkinn. Við erum enn að glíma við eftirköstin eftir faraldurinn og þá þurfum við einnig að mæta næstu áskorun sem er fjölgun landsmanna og stækkandi hópur eldra fólks. Auk þess er til staðar uppsöfnuð þjónustuþörf eftir COVID. Ríkisstjórnin stendur með heilbrigðiskerfinu en framlög til heilbrigðismála hækka um 17,4 ma.kr. á næsta ári. Þar vegur þyngst 6.8 ma.kr raunhækkun til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga til að koma til móts við aukna eftirspurn og öldrun þjóðarinnar. Þá verður áfram haldið við að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað innan heilbrigðiskerfisins með 2. ma. viðbótarframlagi auk þess sem horft er til þess að efla heimahjúkrun.

Framlag til jarðhitaleitarátaks

Í tillögum starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Til þess þarf að tryggja fjármagn til jarðhitaleitar þannig að hægt verði að rannsaka til hlítar möguleika á jarðhita við rafkyntar hitaveitur. Það er því sérstaklega jákvætt að í fjárlögum næsta árs má finna 150 m.kr fram til jarðhitaleitarátaks á næsta ári. Hér er um að ræða sérstaklega arðbært verkefni á Vestfjörðum þar sem jákvæð niðurstaða slíkra rannsókna myndi draga úr notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar. Allt er þetta liður í því að nálgast markmið okkar um að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040.

Ferjurekstur tryggður

Það er örugglega öllum enn í fersku minni þegar Breiðafjarðarferjan Baldur bilaði í siglingu sinni yfir fjörðinn og minnti okkur rækilega á mikilvægi þess að þeir farþegar sem nýta sér þennan samgöngumáta geti treyst á öryggi skipsins. Sveitarfélög beggja megin Breiðafjarðar telja mikilvægt að tryggja þennan samgöngumáta, þrátt fyrir að bættar samgöngur á vegum stæði fyrir dyrum.

Í fjárlögum næsta árs má nú finna 210 m.kr. til þess að tryggja ferjurekstur um Breiðafjörð. Þá er það fyrirséð að núverandi rekstraraðili ferjunnar Baldurs mun hætta siglingum um Breiðafjörð. Þess í stað er gert ráð fyrir því að leigja eða kaupa aðra ferju og hefur eitt skip komið til álita, Röst, sem er nú í siglingum í Norður – Noregi.

Löggæsla efld

Áform eru uppi um að styrkja lögregluna um allt land með því að dreifa verkefnum á lögregluembættin út um landið og dreifa þannig álaginu. Á sama tíma á að styrkja grunnviðbragð lögregluembættanna á landsbyggðunum. Auk þess sem meirihluti fjárlaganefndar lagði til aukna fjárheimild upp á 200 milljónir til að draga úr aðhaldskröfu á lögregluna.

Velferðarfjárlög

Heilt yfir getum við horft til þess að fjárlög fyrir árið 2023 séu velferðarfjárlög, þar má m.a. finna hækkun á frítekjumarki atvinnutekna örorku og endurhæfingalífeyrisþegar í 200 þús , aukið kastljós á heilbrigðiskerfið, tímabundið framlag til sveitarfélaga vegna samræmda móttöku flóttamanna og ásamt sérstöku úrræði í tengslum við móttöku flóttabarna.

Sterk landsbyggð tekur á móti nýjum áskorunum

Við horfum fram á veginn inn í nýja framtíð. Við sjáum það nú að stuðningur stjórnvalda í gegnum heimsfaraldur við atvinnulífið og fjölskyldur í landinu skilaði því að við komum standandi niður eftir heimsfaraldur og stöndum mun betur en margar aðrar þjóðir. Með mörgum ákveðnum og markvissum skrefum voru settir saman aðgerðarpakkar til að verja fólk og fyrirtæki. Áfram verða þó til staðar áskoranir sem takast þarf á við, en þetta ár hefur sýnt að byggðarlög um land allt eru tilbúin í að nýta sér þau tækifæri og sérstöðu sem þau búa við, til að vaxa áfram og dafna.

Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmenn Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 10. desember 2022.

Categories
Greinar

Kastljós kvikmyndaheimsins á Íslandi

Deila grein

12/12/2022

Kastljós kvikmyndaheimsins á Íslandi

Kast­ljós kvik­mynda­heims­ins bein­ast nú að Íslandi þegar Evr­ópsku kvik­mynda­verðlaun­in (e. Europe­an Film Aw­ards) fara fram í Hörpu í kvöld. Það er mik­ill heiður fyr­ir Ísland að Reykja­vík hafi orðið fyr­ir val­inu sem vett­vang­ur verðlaun­anna en hátíðin er hald­in annað hvert ár í Berlín en þess á milli til skipt­is í öðrum borg­um Evr­ópu en ís­lenska ríkið og Reykja­vík­ur­borg halda hátíðina í sam­starfi við Evr­ópsku kvik­mynda­aka­demí­una.

Það að halda hátíð sem þessa hér á landi er enn ein rós­in í hnappagat ís­lenskr­ar kvik­mynda­menn­ing­ar sem hef­ur eflst mjög á umliðnum árum. Miklu er til tjaldað við að halda hátíðina en um 1.200 gest­ir verða viðstadd­ir hana, þar af um 700 er­lend­ir gest­ir frá yfir 40 lönd­um auk yfir 100 blaðamanna og áhrifa­valda sem munu gera hátíðinni skil.

Á umliðnum árum hafa stór skref verið tek­in til þess að efla ís­lenska kvik­mynda­gerð. Fyrsta heild­stæða kvik­mynda­stefn­an fyr­ir Ísland, Kvik­mynda­stefna til árs­ins 2030 – List­grein á tíma­mót­um, var kynnt fyr­ir tveim­ur árum sem markaði ákveðin vatna­skil. Í henni eru út­l­istuð ýmis mark­mið og fjölþætt­ar aðgerðir til þess að efla um­gjörð kvik­mynda­gerðar hér á landi, til að mynda í mennta­mál­um, betri sam­keppn­is­stöðu, auk­inni sjálf­bærni og mark­vissu alþjóðlegu kynn­ing­ar­starfi.

Mik­ill metnaður hef­ur verið lagður í fram­fylgd stefn­unn­ar á skömm­um tíma. Þannig fékk Kvik­mynda­sjóður aukainn­spýt­ingu upp á tæp­an millj­arð króna vegna heims­far­ald­urs­ins. Í gær var til­kynnt um áætlaða viðbótar­fjármuni á næsta ári til þess að koma til móts við breyt­ing­ar í rík­is­fjár­mála­áætl­un frá því í sum­ar. End­ur­greiðslu­hlut­fall í kvik­mynda­gerð á Íslandi hef­ur verið hækkað í vor úr 25% í 35% en fram­lag til end­ur­greiðslna í kvik­mynda­gerð á næsta ári er áætlað upp á 5,7 millj­arða króna, sem er veru­leg hækk­un. Fjár­mun­ir til kvik­mynda­mennt­un­ar á fram­halds­skóla­stigi voru aukn­ir og langþráðu kvik­mynda­námi á há­skóla­stigi komið á lagg­irn­ar svo dæmi séu tek­in.

Allt þetta skipt­ir máli fyr­ir þann öfl­uga hóp fólks sem hef­ur helgað sig ís­lenskri kvik­mynda­gerð, en án hans væri kvik­myndaiðnaður­inn fá­tæk­leg­ur hér á landi. Íslensk kvik­mynda­menn­ing er orðin samof­in þjóðarsál­inni og menn­ingu lands­ins. Sá ríki vilji stjórn­valda til þess að sækja um að halda Evr­ópsku kvik­mynda­verðlaun­in hér á landi var meðal ann­ars með of­an­greint í huga, að til­einka hátíðina gras­rót­inni í ís­lenskri kvik­mynda­gerð og und­ir­strika það, með veg­leg­um kast­ljós­um, hversu framar­lega Ísland stend­ur í heimi kvik­mynd­anna. Ég óska öll­um til ham­ingju með hátíð dags­ins, sem verður landi, þjóð og menn­ingu til sóma.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar­málaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 10. desember 2022.

Categories
Greinar

Jólakveðja frá bæjarfulltrúum Framsóknar í Suðurnesjabæ

Deila grein

12/12/2022

Jólakveðja frá bæjarfulltrúum Framsóknar í Suðurnesjabæ

Jólahátíðin nálgast enn á ný og allt sem henni fylgir. Íbúar og fyrirtæki skreyta hátt og lágt, jólatónlistin ómar, ungum sem öldnum fer að hlakka til að opna pakka og borða góðan mat með fjöldskyldu og vinum.

Það er því við hæfi að líta yfir farinn veg en árið hefur verið viðburðaríkt ogþar má nefna sveitastjórnarkosningar sem fóru fram þann 14. maí 2022. Árangurinn sem við í Framsókn náðum í Suðurnesjabæ var sá sem stefnt var að í upphafi og erum við öllum ævinlega þakklát fyrir góða hvatningu og stuðning. Án þess værum við einfaldlega ekki bæjarfulltrúarnir ykkar í Suðurnesjabæ. Markmið okkar er og hefur alltaf verið skýrt og það er að vera öflugir bæjarfulltrúar í Suðurnesjabæ ásamt því að vera hreyfiafl framfara í samfélaginu.

Eftir kosningar mynduðu svo B listi og D listi meirihluta í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar. Meirihlutinn hefur mótað stefnu með málefnasamningi næstu fjögur árin þar sem leiðarstefið er að efla samfélag í sókn, byggja upp innviði og tryggja lóðarframboð í Suðurnesjabæ. Ásamt því að stuðla að góðum rekstri sveitarfélagsins og tryggja fjárhagslegt sjálfstæði Suðurnesjabæjar. Þjóðin er að koma mun betur út úr efnahagsáfallinu sem tengt er heimsfaraldri Covid19 en gert var ráð fyrir, það eru þó krefjandi tímar þessa stundina þar sem verðbólga er um 10% og stýrivextir hafa ekki verið hærri í 12 ár. Einnig má nefna óvissuna tengda kjarasamningum. Við munum þó ávallt horfa bjartsýn á framtíðina, með það á leiðarljósi að við horfum á það sem samfélagslegt verkefni saman að kveða niður verðbólgu og horfum björt fram á veginn.

Það er friðsælt og fallegt á Íslandi og fátt fallegra en desemberkvöld í froststillum eins og hafa verið á undanförnu, að horfa á stjörnubjartan himinn og sjá jafnvel norðurljósin skína.

Kæru íbúar, nú gengur í garð tími kærleikarog vináttu. Njótum hans saman, við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla, árs og friðar.

Anton Guðmundsson og Úrsúla María Guðjónsdóttir, bæjarfulltrúar Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. desember 2022.

Categories
Greinar

Aukin lífsgæði á landsbyggðinni

Deila grein

10/12/2022

Aukin lífsgæði á landsbyggðinni

Síðastliðin ár höfum við séð mikla fjölgun heimsókna ferðamanna til Íslands. Flestar ferðir til og frá landinu eru í gegnum Keflavíkurflugvöll, en með tilkomu nýrra flugfélaga í millilandaflug hafa nýjar gáttir opnast inn í landið. Félögin fljúga bæði frá Akureyri og Egilsstöðum, sem skapar mikil tækifæri í ferðaþjónustu á Norðausturlandi. Einnig höfum við séð stóraukningu í framboði á veitingastöðum, gistirýmum, afþreyingu og verslunum á svæðinu okkar. Þessi stóraukning hefur vissulega orðið vegna mikils áhuga ferðamanna á svæðinu. Staðreyndin er að Norðausturland hefur mikið aðdráttarafl, býr yfir mikilli fegurð og það er frábært að vera þar. Það er nefnilega ekki bara fólkið á hverjum stað fyrir sig sem hefur ávinninginn af fjölgun ferðamanna á landsbyggðinni því þjónustustig á landsbyggðinni eflist með sterkari innviðum. Við þurfum að grípa tækifærin þegar þau birtast okkur, finna leiðir að betri og sanngjarnari dreifingu ferðamanna á milli landshluta og efla á sama tíma samgöngur um svæðið okkar. Það er okkur öllum og samfélaginu til heilla.

Aðstöðumunur flugvalla

Í kjölfarið sjáum við aðstöðumun millilandaflugvalla landsins á skýrari máta. Hann er margvíslegur, en nýlegar greiningar sýna fram á töluverðan kostnaðarmun á flugvélaeldsneyti milli flugvalla. Þar er flugvélaeldsneyti áberandi ódýrara á Keflavíkurflugvelli. Þá sérstaklega ef miðað er við flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum. Þessi munur felst helst í stórauknum flutningskostnaði þegar eldsneytið er flutt á Norðausturland. Sérfræðingar hafa bent á ýmsar mögulegar leiðir til að jafna kostnaðarmuninn. Allt frá niðurgreiðslu kostnaðar að hálfu ríkisins, fjárfestingu í betri innviðum fyrir afgreiðslu og geymslu birgða til stofnunar óhagnaðardrifna afgreiðslufélaga.

Jöfnun kostnaðar og neyðarvörn

Ljóst er að ýmsar leiðir eru til staðar svo hægt sé að ná því markmiði að jafna kostnað á flugsteinolíu og afgreiðslu hennar á milli millilandaflugvalla hérlendis. Hér væri einnig um að ræða mikilvæga aðgerð til jöfnunar atvinnutækifæra á Akureyri og Egilsstöðum. Það er mikilvægt að við finnum leið til jafna kostnað á flugvélaeldsneyti og með því gera flugvellina okkar á Akureyri og Egilsstöðum samkeppnishæfari í móttöku ferðamanna.

Í því samhengi er einnig talið mikilvægt að komið verði fyrir neyðarbirgðum af flugvélaeldsneyti meðfram lausnum á ofangreindum aðstöðumuni, sem gætu verið geymdar á fleiri en einum stað. Slík fyrirbyggjandi aðgerð getur skipt sköpum ef nauðsynlegt væri að grípa til neyðarráðstafana.

Finnum leið

Undirrituð hefur lagt fram beiðni um skýrslu frá innviðaráðherra um jöfnun kostnaðar vegna flugvélaeldsneytis og afgreiðslu þess á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum í samanburði við Keflavíkurflugvöll. Óskað er þess að í skýrslunni verði kveðið á um hugsanlegar aðgerðir sem hægt er að grípa til svo möguleiki sé á að ná framangreindum markmiðum á sem hagkvæmasta máta.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 10. desember 2022.

Categories
Greinar

Við getum gert betur í verðmætasköpun

Deila grein

10/12/2022

Við getum gert betur í verðmætasköpun

Það virðist vera lítill áhugi hjá meirihlutanum á Akureyri að vinna að framtíðarsýn sem skilar sér í aukinni verðmætasköpun og í tekjum sveitarfélagsins til lengri tíma. Í seinni umræðum um fjárhagsáætlun lögðu bæjarfulltrúar Framsóknar eftirfarandi tillögu fram til afgreiðslu:

Mikilvægt er að við horfum til framtíðar og setjum okkur markmið um hvert við viljum stefna sem sveitarfélag til lengri tíma. Eitt af þeim verkefnum er að vinna metnaðarfulla stefnu í verðmætasköpun í samstarfi við atvinnulífið, stofnanir, frumkvöðla, íþróttahreyfinguna, menningarstofnanir og ferðaþjónustuaðila. Lagt er til að bæjarstjórn samþykki viðbótarfjármagn í mótun framtíðarsýnar um fjölbreytta atvinnuuppbyggingu. 

Þessari tillögu var hafnað. Rökin sem voru gefin fyrir því að hafna þessari tillögu voru að taka ætti upp aðalskipulagið og fara í vinnu við svæðisskipulag. Þetta eru sannarlega mikilvæg verkefni en stefna sem þessi ætti einmitt að vera undirbúningur fyrir slíka vinnu.

Það er á  starfsáætlun Akureyrarbæjar að fara í endurskoðun á síðustu atvinnumálastefnu, sem er runnin út, en við viljum útvíkka vinnuna. Í samtölum okkar við áhugasama bæjarbúa um aukna verðmætasköpun í bænum höfum við fundið fyrir því að það vantar sárlega þennan sameiginlega samræðugrundvöll sem við teljum að sveitarfélagið eigi að hafa forystu um að koma af stað. Auk þess teljum við mikilvægt að gera unga fólkinu okkar kleift að setjast hér að í framtíðinni og þá þarf að huga sérstaklega að fjölbreytni í atvinnulífi og aðstöðu til fjarvinnu.

Það eru einkum þrír þættir sem kalla á nýja atvinnustefnu Akureyrar og að vinna að mótun hennar hefjist án tafar.

Fyrir það fyrsta, ferðaþjónustan og þróun mála í flugsamgöngum

Okkur miðar vel áfram við að markaðssetja Akureyrarflugvöll fyrir beint flug og Norðurland er að verða sífellt eftirsóknarverðari áfangastaður erlendra ferðamanna. Það er hins vegar alls ekki ljóst að við séum í stakk búin til að taka á móti þessum vaxandi fjölda ferðamanna – og við verðum að geta gert okkur betur grein fyrir því hvað vöxtur þessarar atvinnugreinar getur þýtt fyrir almennan vöxt bæjarins og skipulag allrar þjónustu. Í þessu tilliti má einnig nefna íþróttatengda ferðamennsku.

Annar þáttur eru orkumálin

Með endurnýjun byggðarlínunnar er að verða til mjög frjór jarðvegur fyrir orkutengdan iðnað og starfsemi, og eru aðstæður hvað orkuafhendingu varðar að verða betri hér í Eyjafirðinum en víða annars staðar. Þessi staða varir hins vegar ekki að eilífu og mikilvægt að bregðast hratt og örugglega við. Auk þess þarf að vinna að framgangi Blöndulínu 3 hratt og örugglega.

Fyrirtæki eru í auknum mæli að velja sér staðsetningu út frá forsendum sjálfbærni og nýjar atvinnugreinar eru að verða til á þeim sömu forsendum. Atvinnuvegir sem eru nú þegar í vexti víða um land eru m.a.:

● Ýmis konar grænn iðnaður sem er háður orkunýtingu, t.d. framleiðsla rafeldsneytis sem margir sjá sem lykilinn að því að leysa af hólmi jarðefnaeldsneyti.

● Umhverfisvæn gagnaver sem ýta undir aukna stafsemi upplýsinga- og hátæknifyrirtækja á svæðinu.

● Og síðast en ekki síst matvælanýsköpun, þar sem við erum að sjá nýjar framleiðsluaðferðir sem miða að minnkandi kolefnisspori, svo sem þörungaræktun o.s.frv.

Það er nauðsynlegt að vera búin að greina þessi tækifæri til hlítar og jafnvel vera tilbúin með tillögu að forgangsröðun á nýtingu orkunnar – í samvinnu við önnur sveitarfélög á svæðinu.

Þeim mun betur undirbúin sem við erum, þeim mun betur erum við líka í stakk búin til að keppa um og draga að þau fyrirtæki sem við höfum áhuga á að komi hingað. Oft þurfa fyrirtæki að hreyfa sig hratt og geta ekki beðið eftir löngum og þyngslalegum úrvinnslutíma, ekki síst minni- eða meðalstóru fyrirtækin eða fyrirtæki á sviði nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi.

Þriðji þátturinn er vaxandi hlutverk Akureyrar sem stjórnsýslu- og þjónustumiðstöð fyrir stóran landshluta

Akureyrarbær er að hefja þátttöku í gerð nýrrar borgarstefnu þar sem m.a. verður horft til uppbyggingu Akureyrar sem svæðisborgar sem geti boðið upp á aukna fjölbreytni í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum. Ný, metnaðarfull atvinnustefna er okkar framlag inn í það samtal og sýnir að við erum tilbúin í aukinn vöxt og verðmætasköpun á svæðinu til framtíðar.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 9. desember 2022.

Categories
Greinar

Margar hendur vinna létt verk

Deila grein

09/12/2022

Margar hendur vinna létt verk

Í aðdraganda kosninga í vor lagði Framsókn í Hveragerði áherslu á velferð fjölskyldunnar og skýra framtíðarsýn við uppbyggingu bæjarins. Áttu þær áherslur samlegð með íbúum í Hveragerði og samstarfsflokki í meirihluta. Meirihluti Framsóknar og Okkar Hveragerðis hafa nú unnið að fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og ber áætlunin glöggt vitni um áherslumálin.

Áætlunin er unnin í góðu samstarfi við bæjarstjóra, skrifstofustjóra og starfsfólk bæjarins. Eins hafa íbúar bæjarins lagt sitt af mörkum með því að senda inn sínar tillögur við fjárhagsáætlun í gegnum íbúagátt bæjarins. Það skal jafnframt tekið fram að öllum bæjarfulltrúum stóð til boða að taka þátt í þessari vinnu en minnihluti Sjálfstæðismanna hafnaði því boði en fjárhagsætlun hefur verið unnin í góðu samstarfi milli fyrrum minni og meirihluta síðustu 10 ár. Áætlunin hefur nú verið samþykkt.

Aukum tekjur

Það er óumflýjanleg staðreynd að reksturinn er þungur og hafa lán verið tekin fyrir rekstrinum. Þessu vill meirihlutinn breyta. Í áætlun 2023-2026 er markmið meirihlutans að rekstur sveitarfélagsins verði sjálfbær. Til þess að mæta þessu markmiði þurfum við öll að sýna ráðdeild í rekstri án þess þó að skerða þjónustu við íbúa. Önnur leið í átt að sjálfbærni er að auka tekjur sveitarfélagsins og þar liggja tækifærin.

Fjölskyldan

Málefni fjölskyldunnar voru efst á baugi við vinnu fjárhagsáætlunar sem er í samræmi við málefnasamning meirihlutans. Á árinu 2023 verður haldið áfram að lækka gjöld fyrir leikskólavist. Haustið 2022 ákvað meirihluti Framsóknar og Okkar Hveragerðis að bjóða upp á eina fría klukkustund á leikskólum bæjarins og haustið 2023 er gert ráð fyrir að gjaldfrjálsar klukkustundir verði orðnar tvær og með því lækka gjöld til foreldra leikskólabarna. Fái 12 mánaða barn ekki pláss á leikskóla verða veittar foreldragreiðslur. Í áætlun er gert ráð fyrir að frístundastyrkur verði hækkaður og lækkun leikskólagjalda og hækkun frístundastyrks verði í áföngum á kjörtímabilinu. Það er skýr framtíðarsýn í fjárfestingum og ber þar helst að nefna framtíðar íþróttamannvirki Hvergerðinga sem mun rísa árið 2023 og uppbyggingu í leik- og grunnskóla.

Framtíðin

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum 3. nóvember að ganga til samninga við KPMG vegna úttektar á rekstri sveitarfélagsins en 10 ár eru liðin síðan sambærileg úttekt fór fram. KPMG hefur veitt faglega ráðgjöf vegna vinnu við fjárhagsáætlunina sem lögð hefur verið fram. Sú vinna heldur áfram og verður 10 ára áætlun kynnt á nýju ári. Þrátt fyrir áskoranir fram undan lítur meirihlutinn björtum augum á framtíðina enda tækifærin fjölmörg. Hveragerðisbær er í örum vexti, fram undan eru metnaðarfull verkefni. Mikilvægt er að huga að framtíðinni, setja markmið svo innviðauppbygging haldist í hendur við fjölgun íbúa.

Það er kappsmál meirihlutans að þjónusta íbúa Hveragerðis sem best. Áhersla er lögð á fjölskylduna, stuðning við barnafjölskyldur, hér séu áfram öflugar menntastofnanir, fjölbreytt atvinnulíf, gæða íþrótta- og frístundastarf, heilsuefling sé í hávegum höfð og að ferðaþjónustan og menningin haldi áfram að blómstra.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, oddviti Framsóknar í Hveragerði og forseti bæjarstjórnar.

Greinin birtist á visir.is 9. desember 2022.

Categories
Greinar

Viðsnúningurinn er hafinn

Deila grein

09/12/2022

Viðsnúningurinn er hafinn

Á fundi borgarstjórnar í gær var fjárhagsáætlun borgarinnar aðalumræðuefnið. Það eru ávallt ákveðin tímamót þegar að nýr meirihluti, hvort sem er í borgarstjórn, sveitarstjórn eða á Alþingi Íslendinga leggur fram sitt fyrsta frumvarp að fjárhagsáætlun og ekki síður fyrstu fimm ára áætlun í rekstri borgarinnar.

Ljóst er að fjárhagsáætlun nýs meirihluta gefur tóninn varðandi þau verkefni framundan eru í rekstri borgarinnar á þessu nýja kjörtímabili. Stærsta og mesta áskorunin er að stíga á bremsuna á útgjaldahlið borginnar, leita nýrra og fjölbreyttari leiða til að fá meira út úr rekstrinum og þannig stuðla sterkari og sjálfbærari rekstri A hluta borgarinnar á sama tíma og sterk grunnþjónusta er tryggð.

Krefjandi aðstæður

Verkefnið sem RVK-borg stendur frammi fyrir er verðugt og hefur því miður vaxið að umfangi frá því að ársreikningur ársins 2021 lá fyrir með um 3.8 milljarða halla á A hluta. Afkomuspá þessa árs hefur versnað frá hálfsársuppgjöri 2022 .Gert er ráð fyrir að hallinn verði alls 15,3 milljarðar á árinu 2022 – ári sem hefur verið ár áskoranna á heimsvísu, og Reykjavíkurborg hefur svo sannarlega ekki farið varhluta af þeim.

Áframhaldandi áhrif covid heimsfaraldurins á áfangakeðjur í heiminum sem og ógeðfelld innrás Rússa inn í Úkraínu hafa knúið áfram kostnaðarverðshækkanir og hökt í heimshagkerfinu með tilheyrandi hækkun verðbólgu og vaxta. Á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum hefur óvissan aukist samhliða og þannig hríslast niður í hækkandi ávöxtunarkröfur á skuldabréfamörkuðum sem fólk, fyrirtæki, ríki og sveitarfélög finna fyrir svo um munar.

Það dylst því engum að verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er krefjandi, en er langt í frá óyfirstíganlegt. Sú fjárhagsáætlun sem var samþykkt á fundinum þriðjudaginn s.l. hefur að geyma fjölmargar aðgerðir sem markar upphafið að viðsnúningum í rekstri borgarinnar. Í þessari áætlun er boðað aukið aðhald, aukna ráðdeild og skýrari forgangsröðun til þess styrkja stöðu borgarinnar til lengri tíma. Á sama tíma verður staðið vörð um grunnþjónustu borgarinnar og haldið áfram að fjárfesta í borginni okkar með skipulögðum hætti.

Jákvæðar tölur 2025

Meðal þeirra markmiða og megináherslna sem birtast okkur í fjármálastefnu Reykjavíkurborgar næstu fimm árin eru m.a.:

•Að ná jafnvægi í rekstri A-hluta borgarsjóðs og aðveltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum standi undir fjármögnun fjárfestinga, lántökum og öðrum fjárhagslegum skuldbindingum. Þannig stefnum við á að rekstrarniðurstaða borgarinnar verði jákvæð frá og með árinu 2025.

•Að ná fram lækkun launaútgjalda íhlutfalli af tekjum þannig að hann verði að hámarki 80% af samanlögðum útsvars- og Jöfnunarsjóðstekjum frá og með árinu 2025.

•Að fjármagnsskipan hjá B-hluta fyrirtækjum Reykjavíkurborgar verði grandskoðuð og unnin áætlun um að ná fram eðlilegri arðsemi eigin fjár og hagkvæmri samsetningu eigin fjár, skulda og skuldbindinga.

Aðgerðir sem skipta máli

Samhliða ofangreindu verður umfangsmestu hagræðingaðgerðir borgarinnar frá fjármálahruninu verið hrint í framkvæmd – aðgerðir sem svo sannarlega skipta máli. Þær marka upphafið að nauðsynlegum viðsnúningi til að ná þeim metnaðarfullu markmiðum sem eru sett í fjármálaáætlun borgarinnar til ársins 2027.

Strax á næsta ári mun hagræðingarkrafan nema að lágmarki 3,1 milljarði króna og fara vaxandi í komandi árum. Þannig mun hún að lágmarki nema rúmum 5 milljörðum árið 2024 og tæpum 7 milljörðum árið 2025.

Á næsta ári verður gerð 1% hagræðingarkrafa á öll sviðborgarinnar. Að sama skapi verður gerð viðbótarhagræðingarkrafa upp á einn milljarð króna, sem byggð verður á tillögum frá einstökum sviðum.

Ljóst er að starfsmönnum borgarinnar hefur fjölgað talsvert umfram lýðfræðilega þróun. Ein af þeim aðgerðum sem mun skipta verulegu máli í að ná betri árangri í rekstri borgarinnar er krafan um hagræðingu í starfsmannahaldi til næstu ára, þar á meðal með aðhaldi í ráðningum samhliða því að leitað verði leiða til samræmingu á verkefnum og breytingar eða niðurlagningu þjónustu.

Framtíðin engu að síður björt

Í þessari vinnu verður þó sérstaklega hugað að mönnun í grunnþjónustu þar sem ávallt skal tryggt að áætluð mannaflþörf samþykktra fjárheimilda sé til staðar.

Þrátt fyrir þær rekstrarlegu áskoranir í rekstri borgarinnar og þær tímabæru hagræðingaraðgerðir sem af þeim leiða, er framtíð Reykjavíkurborgar engu að síður björt. Borgin er þrátt fyrir allt burðug og með eignarhald á góðum fyrirtækjum sem styðja við rekstur hennar. Því eru tækifæri til þess að bæta borgina okkar enn frekar og auka samkeppnishæfni hennar líkt og boðað er í fjárhagsáætlun næstu ára.

•Með uppfærðri húsnæðisáætlun borgarinnar í samningum við Húsnæðis og mannvirkjastofnun verður framboð af lóðum stóraukið í samræmi við stefnu okkar í Framsókn. Mikill þungi verður lagður í að tryggja að þær verði byggingarhæfar á sem skemmstum tíma .

•Uppbygging á nýjum skólum og leikskólum verður í forgangi og tryggt verður að viðhaldsáætlun vegna mannvirkja borgarinnar, sér í lagi skólahúsnæðis, verði vel unnin.

•Útsvar verður ekki hækkað á næstu árum og fasteignaskattar á atvinnuhús verða lækkaðir í lok kjörtímabilsins.

•Fá fram leiðréttingu á fjármögnun verkefna sem fluttst hafa frá ríkinu til borgarinnar, en þar er um að ræða verulegar upphæðir sem miklu skipta.

Ég hlakka til þess að vinna að þessum markmiðum með samstarfsfólki mínu í Borgarstjórn og sækja fram fyrir Reykjavíkurborg. Áskoranir borgarinnar munum við takast á við af festu og í góðri samvinnu. Ég er bjartsýnn á að við munum ná þeim metnaðarfullu markmiðum sem birtast okkur í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar og á sama tíma gera borgina okkar enn betri en hún var í gær.

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. desember 2022.