Categories
Greinar

Innlend orka er gulls ígildi

Deila grein

09/09/2022

Innlend orka er gulls ígildi

Há verðbólga er ein helsta áskor­un flestra hag­kerfa heims um þess­ar mund­ir. Ástæður henn­ar er einna helst að finna í nauðsyn­leg­um efna­hagsaðgerðum vegna Covid-heims­far­ald­urs­ins, óafsak­an­legri inn­rás Rúss­lands inn í Úkraínu og sumpart í hinni alþjóðlegu pen­inga­stefnu frá 2008. Verðbólga víða í Evr­ópu birt­ist ekki síst í him­in­háu orku­verði sem er farið að sliga fjár­hag fjöl­skyldna og fyr­ir­tækja í álf­unni. Stjórn­völd í ýms­um lönd­um hafa þegar til­kynnt um aðgerðapakka til þess að dempa áhrif þess­ara hækk­ana, til dæm­is með lánalín­um, bein­greiðslum til heim­ila og hval­reka­skött­um á orku­fyr­ir­tæki til þess að fjár­magna mót­vægisaðgerðir.

Ísland hef­ur ekki farið var­hluta af alþjóðlegri verðbólgu en spár hér­lend­is gera áfram ráð fyr­ir hárri verðbólgu, þrátt fyr­ir að hún hafi minnkað ör­lítið í síðasta mánuði er hún mæld­ist 9,7%. Stór stýri­breyta í þróun henn­ar hér­lend­is er mik­il hækk­un á hús­næðis­verði ásamt mik­illi einka­neyslu. Það er göm­ul saga en ekki ný að lang­tíma­áhrif verðbólgu eru slæm fyr­ir sam­fé­lög. Þau, sem hafa minnst milli hand­anna, eru ber­skjölduðust fyr­ir áhrif­um henn­ar, sem og fjöl­skyld­ur sem hafa ný­lega fjár­fest í eig­in hús­næði og sjá hús­næðislán sín hækka veru­lega í kjöl­far vaxta­hækk­ana. Það er mik­il­vægt að styðja við þessa hópa.

Í sögu­legu sam­hengi hef­ur verðbólga átt sinn þátt í heims­sögu­leg­um at­b­urðum. Þannig átti hækk­andi verð á hveiti og korni til að mynda sinn þátt í falli komm­ún­ism­ans í Sov­ét­ríkj­un­um 1989. Fræðimenn hafa rýnt í sam­hengið á milli hærra mat­væla­verðs og óstöðug­leika í ýms­um ríkj­um. Þannig sýndi til dæm­is hag­fræðing­ur­inn Marc Bell­emare, pró­fess­or við Há­skól­ann í Minnesota, fram á sterk tengsl milli ófriðar og mat­væla­verðs í hinum ýmsu lönd­um á ár­un­um 1990-2011.

Ísland er að mörgu leyti í sterkri stöðu til þess að tak­ast á við háa verðbólgu. Und­ir­liggj­andi staða þjóðarbús­ins er sterk. Stjórn­völd og Seðlabank­inn róa í sömu átt og landið er ríkt af auðlind­um. Ísland býr við mikið sjálf­stæði í orku­mál­um miðað við ýms­ar aðrar þjóðir og fram­leiðir mikla end­ur­nýj­an­lega orku fyr­ir heim­ili og fyr­ir­tæki. Íslensk heim­ili greiða lágt verð fyr­ir orku en verðlagn­ing henn­ar lýt­ur ekki sömu lög­mál­um og verðlagn­ing á orku á meg­in­landi Evr­ópu, þar sem ís­lenska flutn­ingsnetið er ótengt því evr­ópska. Slíkt hjálp­ar óneit­an­lega við að halda aft­ur af verðbólgu. Þá bygg­ist efna­hags­lífið á öfl­ug­um stoðum eins og gjöf­ul­um fiski­miðum, heil­næm­um land­búnaði og öfl­ugri ferðaþjón­ustu. Allt eru þetta þætt­ir sem styðja við að ná verðbólg­unni niður til lengri og skemmri tíma. Það verk­efni er stærsta verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar þegar að fram í sæk­ir enda ógn­ar há verðbólga vel­sæld, bæði beint og óbeint, og dreg­ur þannig úr sam­stöðu í sam­fé­lag­inu. Mik­il­vægt er að stjórn­völd standi áfram vakt­ina og verði til­bú­in að grípa inn í, eft­ir því sem þurfa þykir, til að verja þann efna­hags­lega ár­ang­ur sem náðst hef­ur á und­an­förn­um árum.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 8. sept. 2022.

Categories
Greinar

Er innanlandsflugið rúið trausti?

Deila grein

08/09/2022

Er innanlandsflugið rúið trausti?

Mikil röskun hefur verið á innanlandsfluginu í sumar og fram á haustið. Flug hafa verið felld niður með stuttum fyrirvara og of mikið um seinkanir. Óánægju íbúa á Akureyri, Ísafirði og Egilsstöðum hefur verið gerð skil í fjölmiðlum landsins og heitar umræður átt sér stað í hópnum Dýrt innanlandsflug á Facebook. Bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri hafa skoðað þetta mál síðustu vikuna og meðal annars sett sig í samband við fyrirtæki og stofnanir á Akureyri til að kanna víðtæk áhrif þessara raskana.

Það er nokkuð ljóst að áhrifanna gætir víða og þá sérstaklega hjá stofnunum og fyrirtækjum sem sinna heilbrigðisþjónustu hér í Eyjafirði og nærsvæðum. Sú röskun á starfi sem verður þegar sérfræðilæknar geta ekki reitt sig á flugsamgöngur var sérstaklega nefnd í þessu samhengi. Í samtölum okkar við forsvarsfólk fyrirtækja í einkageiranum kom einnig fram að minnkandi traust til innanlandsflugsins hefur í einhverjum tilvikum leitt til neikvæðra breytinga á starfsemi þeirra á Norðurlandi. Dæmi um slík raunveruleg áhrif er þegar fyrirtæki sjá sig tilneydd að fjölga frekar í starfsmannahópum fyrir sunnan eða þegar norðlensk fyrirtæki hika við að bjóða í verk fyrir sunnan. Auk þess nefndu fyrirtæki aukinn kostnað við launagreiðslur vegna seinkana á flugi.

Við óskuðum eftir tölum frá samskiptasviði Icelandair um seinkanir og niðurfellingu á flugi og fengum sendan samanburð frá fyrstu 6 mánuðum ársins í samanburði við sama tímabil 2019. Til Akureyrar voru 965 flug á tíma árið 2022, 410 með seinkun upp á 15 mínútur eða meira og 143 flug felld niður. Árið 2019 voru hins vegar 1481 á tíma, 119 með seinkum og aðeins 75 felld niður.

Því miður átti flugfélagið ekki tölur fyrir tvo síðustu mánuði. Ástandið lagaðist í ágúst en svo hefur aftur orðið röskun í byrjun september, samkvæmt upplýsingum starfsmanns samskiptasviðs og eins og bæjarbúar hafa vissulega fundið á eigin skinni. Það sem hins vegar birtist líklega ekki í þessum tölum er sú skerðing sem verður á þjónustunni þegar flugfélagið sendir minni vélar norður vegna bilana eða viðhalds og endurbókar þá hluta farþega á aðrar vélar.

Gríðarlega mikilvægt byggðamál fyrir landsbyggðirnar

Flug til Akureyrar er rekið á markaðslegum forsendum og ekki niðurgreitt af ríkinu nema til neytenda gegnum Loftbrú og sjúkratryggingar. Samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1008/2008 er ríkinu aðeins heimilt að styrkja flugleið ef ekki er tryggt að annars konar flutningsmáti geti tryggt órofna þjónustu a.m.k. tvisvar á dag. Þessi þjónusta er þó vissulega ekki sveitarfélögunum og ríkinu óviðkomandi og er lífsspursmál fyrir landsbyggðirnar.

Ef við ætlum að byggja upp á Akureyri samfélag með fjölbreyttum atvinnutækifærum, halda uppi öflugri ferðaþjónustu, að hér geti fólk unnið störf án staðsetningar en geti jafnframt flogið suður vegna vinnu sinnar og að íbúar geti auðveldlega leitað sér þjónustu á höfuðborgarsvæðinu þá verða flugsamgöngur að vera í lagi og endurvekja þarf traust almennings til flugfélagsins.

Bæjarfulltrúar Framsóknar hafa óskað eftir því að þetta mál verði tekið upp á næsta bæjarstjórnarfundi og tekin umræða um hvernig okkar aðkoma að þessu máli gæti verið. Auðvitað koma tímar þar sem flugáætlun stenst að mestu en reksturinn er greinilega viðkvæmur og lítið má út af bera. Traust til flugfélagsins hefur því miður beðið hnekki sem veldur því að fólk veigrar sér við að nota þjónustuna eða pantar flug á tíma sem annars hefði ekki hentað til að komast örugglega á áfangastað á tíma.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 8. september 2022.

Categories
Greinar

Staða Íslands sterk í orkumálum

Deila grein

08/09/2022

Staða Íslands sterk í orkumálum

Við bæði sjáum og finnum á eigin skinni að hagkerfi heimsins eiga nú við ramman reip að draga í baráttunni við háa verðbólgu. Orkuverð í Evrópu hefur sjaldan verið hærra og ógnar það fjármálastöðugleika í álfunni. Verðbólguspár í Evrópu fara hækkandi og er því eins farið á Íslandi þar sem hátt húsnæðisverð og einkaneysla hafa drifið verðbólguna áfram. Þrátt fyrir að hafa séð örlitla verðbólgulækkun hér á landi í lok ágústmánaðar, er full snemmt að lýsa yfir sigri.

Orkumál í Evrópu í afar erfiðri stöðu

Staðan í orkumálum á Íslandi er góð, sérstaklega ef tekið er mið af stöðu þessara mála í Evrópu. Þar eru þó nokkur ríki að grípa til neyðaraðgerða til að bregðast við hækkandi gas- og orkuverði og aukinni sveiflu.Neyðaraðgerðirnar snúa meðal annars að fjárstuðningi til raforkuframleiðenda og fjármálafyrirtækja í kjölfar ákvörðunar Rússa um að stöðva gasafgreiðslur til Evrópu. Sú ákvörðun getur valdið gífurlegu álagi á fjármálakerfi ríkjanna. Þessar aðgerðir undirstrika alvarleika ástandsins í Evrópu þar sem ríkin keppast við að reyna að tryggja næga orku fyrir komandi vetur og forðast útbreiðslu neyðar meðal raforkuframleiðenda. Aðrar aðgerðir fela í sér mögulegt verðþak á annaðhvort raforku eða gas og leiðir til að aftengja gas- og raforkumarkaðinn við hagkerfið. Verð hefur hækkað langt umfram kostnað við vinnslu, framleiðslu og afhendingu.

Orka okkar allra

Á Íslandi lýtur orka fyrir heimilin ekki sömu reglum verðlagningar og hún gerir víða annars staðar í Evrópu. Við erum ekki bundin því að fá orku frá Rússum eins og nokkur af stærri löndum álfunnar. Hagkerfið okkar stendur feti framar þegar kemur að því að vinna bug á verðbólguógninni. Við erum rík af auðlindum og hinir ýmsu atvinnuvegir bjóða upp á ýmsa möguleika. Velsæld og samfélagsleg samstaða ætti að vera okkur öllum hugleikin og því er mikilvægt að skoða öll þau áhrif sem verðbólgan kann að hafa. Sérstaklega þarf að taka til athugunar hvaða hópum hún kemur verst niður á og grípa til nauðsynlegra úrræða þar sem við á. Þetta er verkefni okkar og því þurfum við að sinna. Það er hagur okkar allra.

Ágúst Bjarni Garðarsson: þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. september 2022.

Categories
Greinar

Ís­lensk orka beislar verð­bólgu

Deila grein

06/09/2022

Ís­lensk orka beislar verð­bólgu

Flest hagkerfi heims eru að kljást við of háa verðbólgu um þessar mundir. Meginorsakir hennar má rekja til nauðsynlegra efnahagsaðgerða vegna Covid-19, innrásar Rússlands í Úkraínu og að einhverju leyti hinnar alþjóðlegu peningastefnu frá 2008. Orkuverð í Evrópu er í hæstu hæðum og hafa ýmis ríki í álfunni gripið til neyðaraðgerða til að létta undir með orkukerfum. Spár hérlendis gera áfram ráð fyrir hárri verðbólgu, þrátt fyrir að hún hafi minnkað örlítið í síðasta mánuði er hún mældist 9,7%. Mikil hækkun á húsnæðisverði hefur drifið verðbólguna áfram ásamt einkaneyslu. Langtímaafleiðingar hárrar verðbólgu eru afar slæmar fyrir samfélög og það er gamall sannleikur að verðbólga hittir einkum fyrir þá sem minnst hafa. Ljóst er að hópurinn sem fer verst út úr þessum verðbólguhremmingum eru heimilin sem nýverið hafa komið inn á húsnæðismarkaðinn og sjá lánin hækka. Afar brýnt er að lánveitendur og stjórnvöld sinni þessum hóp.

Staða heimsmála er jafnframt viðkvæm vegna hárrar alþjóðlegrar verðbólgu. Hækkandi verð á hveiti og öðru korni átti sinn þátt í falli kommúnismans í Sovétríkjunum 1989. Hagfræðingurinn Marc Bellemare við Minnesota-háskóla sýndi fram á sterk tengsl á milli matvælaverðs og ófriðar í mörgum löndum á árunum 1990 til 2011. Verðbólga olli t.a.m. stjórnarskiptum í Brasilíu, Tyrklandi og Rússlandi í lok 10. áratugarins.

Staða Íslands er að mörgu leyti góð til að fást við verðbólguógnina, þar sem auðlindir okkar eru miklar. Orka í þágu heimilanna er ódýr en hún lýtur ekki sömu reglum verðlagningar og á meginlandi Evrópu, fiskimið okkar eru gjöful og óendanlegir möguleikar eru í landbúnaði ásamt sterkri ferðaþjónustu og vaxandi hugvitsdrifnu hagkerfi. Íslenska hagkerfið hefur alla möguleika á að ná verðbólgunni niður. Það er kappsmál enda ógnar hækkandi verðbólga velsæld með beinum og óbeinum hætti og dregur úr samfélagslegri samstöðu. Því er afar mikilvægt að greina hvernig áhrif verðbólgunnar koma við mismunandi hópa samfélagsins og grípa til viðeigandi aðgerða.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar-, viðskipta-, og ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á frettabladid.is 6. sept. 2022.

Categories
Greinar

VESTFIRÐIR SÓTTIR HEIM

Deila grein

06/09/2022

VESTFIRÐIR SÓTTIR HEIM

Það var stórfenglegt og hrikalegt í senn að stíga á útsýnispallinn á Bolafjalli á dögunum – glæsilegt mannvirki sem var byggt til að efla og styrkja samfélagið. Útsýnið þaðan lætur engan ósnortinn og verður aðdráttarafl jafnt fyrir heimabyggð og ferðafólk. Í samtölum mínum við sveitarstjórnarfólk í heimsókn ríkisstjórnarinnar vestur var ánægjulegt að finna fyrir gríðarlegum krafti og bjartsýni um framtíð Vestfjarða. Með góðri samvinnu íbúa, sveitarfélaga og stjórnvalda er hægt að stuðla að framförum. Útsýnispallurinn er gott dæmi um það hvernig frábær hugmynd getur orðið að veruleika með slíkri samvinnu. Þar hefur hugmyndaflug, þekking og verkvit verið nýtt til að skapa tækifæri til að upplifa vestfirskt landslag og náttúru á einstakan hátt.

Ný hringtenging

Á síðustu árum hefur viðhald og uppbygging vega verið tekið föstum tökum. Fjárframlög hafa stóraukist og frekari úrbætur fyrirhugaðar á næstu árum. Það voru mikil og langþráð tímamót þegar Dýrafjarðargöng voru opnuð fyrir rétt tæpum tveimur árum síðan. Göngin voru ein umfangsmesta framkvæmd í vegakerfinu og leystu erfiðan farartálma af hólmi, Hrafnseyrarheiði. Ný hringtenging varð til og aðgengi að landshlutanum opnaðist með fjölbreyttum tækifærum. Nýr vegur um Gufudalssveit og annar yfir Dynjandisheiði er í uppbyggingu og með tilkomu þeirra og Dýrafjarðarganga munu samgöngur á svæðinu gjörbreytast. Það er ánægjulegt að fleira fólk ferðist til Vestfjarða og nýtir sér fjölbreytta afþreyingu sem þetta fallega og stórbrotna svæði hefur upp á að bjóða. Vogskornir firðir, fallegar og stundum hrikalegar heiðar hafa haft áhrif á samgöngur en eru nú í aukum mæli orðin aðdráttarafl sem Vestfirðingar nýta sér á skynsaman hátt.

Nýtt skip

Mikilvægur hlekkur í hringtengingunni með bættum vegasamgöngum á milli sunnan- og norðanverða Vestfjarða, eru ferjusiglingar yfir Breiðafjörðinn. Vonir standa til þess að Vegagerðin fái nýtt skip til landsins um áramótin í stað Baldurs. Tímabært er að nýtt skip taki við þjónustunni þar sem núverandi skip er barn síns tíma. Á meðan beðið er eftir nýju skipi verður tryggt að dráttarbátur verði til staðar á Breiðafirði. Laxeldið hefur einnig notið góðs af bættum samgöngum og reglubundnum siglingum um Breiðafjörð og munu flutningar halda áfram að aukast sem reyna á vegakerfið. Samfélagið á mikið undir að vel takist til við áframhaldandi þróun atvinnugreinarinnar en henni fylgja auknir möguleikar til fjölbreyttari og verðmætari starfa.

Búsetufrelsi

Samhliða þessu þarf framboð af húsnæði að haldast í hendur við fyrirsjáanlega þörf. Stjórnvöld veita stofnframlög til íbúða á viðráðanlegu um allt land. Um 80 slíkar íbúðir eru á Vestfjörðum, ýmist tilbúnar, í undirbúningi og fleiri í farvatninu. Fólk vill geta haft frelsi um búsetu, valið sér heimili þar sem það helst kýs. Þannig heldur svæðið áfram að eflast og styrkjast með bættri þjónustu, en grunnþjónusta hins opinbera þarf að vera aðgengileg öllum. Gott dæmi um það er Loftbrúin en síðan hún var kynnt til sögunnar hafa fleiri og fleiri nýtt sér þjónustuna. 13 þúsund flugleggir hafa verið styrktir á Vestfjörðum, þ.e. flug um Bíldudal eða Ísafjörð, þar af rúmlega fimm þúsund leggir fyrstu sjö mánuði ársins 2022.

Við búum í stórbrotnu en strjálbýlu landi með stórbrotinni strandlengju og misblíðri veðráttu. Það verða áfram fjallvegir og válynd veður koma af og til, því stjórnum við ekki. En með markvissum áætlunum um bætta innviði geta stjórnvöld lyft grettistaki. Það er síðan heimafólks að nýta þau tækifæri, búa til aðdráttarafl og sjálfbært samfélag.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

Greinin birtist fyrst á bb.is 5. sept. 2022.

Categories
Greinar

Eitt mikil­vægasta verk­færið í verk­færa­kistunni

Deila grein

06/09/2022

Eitt mikil­vægasta verk­færið í verk­færa­kistunni

Endurhæfing er einn mikilvægasti hluti heilbrigðisþjónustu. Tímaleg endurhæfing á réttum stað í heilbrigðiskerfinu skilar sér margfalt til einstaklingsins, aðstandenda og samfélagsins alls. Snemmtæk íhlutun er kall og svar tímans því það er vaxandi fjöldi einstaklinga sem mun þurfa á einhverskonar endurhæfingu að halda á lífsleiðinni.

Heilbrigðisráðuneytið gaf út fimm ára aðgerðaáætlun um heilbrigðistengda endurhæfingu árið 2021. Þegar áætlunin var sett í samráðsgátt stjórnvalda bárust yfir 50 umsagnir sem endurspegla mikilvægi þessa málaflokks og ótal marga snertifleti hans við heilbrigðiskerfið og líf fjölmargra Íslendinga.

Erum öll á sama báti

Þörfin fyrir endurhæfingu eykst með aukinni framþróun í heilbrigðiskerfinu og vaxandi lífaldri þjóða þar sem sjúkdómsbyrði einstaklinga eykst með aldrinum. Að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er þriðjungur jarðarbúa með heilsufarsástand sem þarfnast endurhæfingar sem fyrstu meðferð. Þannig má draga úr stigmagnandi þörf á heilbrigðisþjónustu sem getur verið bæði íþyngjandi og kostnaðarsöm. Í þessu samhengi er stoðkerfisvandi efstur á blaði en aðrir sjúkdómsflokkar vega einnig þungt eins og vandi tengdum taugakerfi, skilningarvitum og geði. Við getum öll orðið veik, lent í slysi, orðið fyrir áfalli eða öðru sem veldur færniskerðingu sem takast þarf á við með endurhæfingu. Í þessu samhengi erum við sannarlega öll á sama báti.

Endurhæfing á heima á öllum stigum heilbrigðiskerfisins og hún krefst þverfaglegrar aðkomu sem nær út fyrir ramma heilbrigðiskerfisins eins og við þekkjum hann í dag. Því er mikilvægt er að önnur þjónusta og úrræði tengist á skilvirkan hátt inn í viðeigandi endurhæfingu. Ástæður þess að endurhæfingar er þörf eru yfirleitt heilbrigðistengdar og úrræðin eftir því. Endurhæfing kallar á aðkomu fjölmargra heilbrigðisstétta sem er þungamiðjan en úrræði á vegum félagsþjónustu, atvinnulífs og menntakerfis mynda órofa heild. Í samþættingu þessara þátta felast áskoranir um skipulag og samtal þvert á ráðuneyti, stofnanir, fyrirtæki og sveitafélög.

Endurhæfingarráð

Heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra hafa tekið höndum saman og skipað endurhæfingarráð til að auka samþættingu, bæta skipulag og auka gæði þjónustu. Ráðinu er meðal annars ætlað að ná betur utan um mismunandi tegundir endurhæfingar, samræma skilgreiningar, skýra tilgang og setja mælanleg markmið um endurhæfingu. Ráðið fylgist með alþjóðlegri þróun og þekkingu og er ráðherrum til ráðgjafar um málefni og stefnumótun tengd endurhæfingu. Einnig er endurhæfingarráði ætlað að tryggja innleiðingu mikilvægra aðgerða í aðgerðaráætlun heilbrigðisráðuneytisins sem eru á forræði beggja ráðuneyta.

Sem dæmi má nefna aðgerðir sem varða samræmt flokkunarkerfi, matskerfi og tilvísunarkerfi. Það er vegna þess að endurhæfingarþörf einstaklinga þarf að meta á líf-, sál- og félagsfræðilegan máta til að geta gert raunhæfa og markvissa endurhæfingaráætlun þvert á kerfi sem er til þess fallin að bæta heilsu og færni einstaklingsins.

Endurhæfing er eins misjöfn og einstaklingarnir í endurhæfingarþörf eru margir. Endurhæfing getur skilað sigrum sem ekki má vanmeta og geta skipt sköpum fyrir einstaklinginn. Endurhæfing getur líka skipt sköpum fyrir samfélagið þar sem m.a. ótímabært brottfall úr námi eða vinnu getur haft margföldunaráhrif til hins verra á heilsu einstaklingsins, hans nánustu ættingja og aukið kostnað heilbrigðiskerfisins að ósekju. Ekki er síður mikilvægt hvernig endurhæfing nýtist auknum fjölda aldraðra einstaklinga til að endurheimta eða viðhalda færni sinni og þannig sjálfstæði sínu, lífsgæðum og virkni í samfélaginu.

Fjárfest til framtíðar

Endurhæfing getur verið mjög sérhæfð og krafist alls þess sem hátæknisjúkrahús hafa upp á að bjóða. Endurhæfing krefst þekkingar, tækninýjunga, þverfaglegrar nálgunnar og góðrar aðstöðu. Vegna þessa var ánægjulegt að skrifa undir samning Nýs Landspítala ohf. við Nordic Office of Architecture og EFLU verkfræðistofu um fullnaðarhönnun á 3.800 fermetra viðbyggingu við endurhæfingardeild Grensáss í síðustu viku. Einnig hefur verið brugðist við aukinni þörf á endurhæfingarrýmum fyrir eldri einstaklinga með fjölgum á endurhæfingarrýmum á Eir um 20 rými í samtals 44 rými og verið er að taka þau í notkun. Það stendur líka fyrir dyrum opnun á 39 nýjum skammtímaendurhæfingarrýmum á Sólvangi í Hafnarfirði á næstu dögum.

Heilsugæslan sinnir veigamiklu hlutverki í endurhæfingu sem snýr að fræðslu, forvörnum og snemmtækri íhlutun. Eins er mikilvægt að heilsugæslan haldi vel utan um einstaklinga í endurhæfingarþörf, aðstoði við að greina þörfina og vísi áfram á réttan stað í kerfinu. Heilsugæslan gegnir lykilhlutverki við það að halda utan um einstaklinga í öðrum úrræðum og leiða þá í gegnum kerfið þar til kemur að eftirfylgd og viðhaldsmeðferð. Það mikilvæga hlutverk þarf að efla.

Forvarnir og lýðheilsa, færniskerðing og endurhæfing mynda hringrás. Þar sem endurhæfing endar taka forvarnir við. Andleg, líkamleg og félagsleg virkni er samofin öllum þáttum þessarar hringrásar. Eitt helsta lýðheilsumarkmið þjóðarinnar ætti að vera það að viðhalda færni og virkni. Það er í senn eitt markmið endurhæfingar og besta forvörnin.

Það er skylda stjórnvalda að tryggja jöfn tækifæri allra til að búa við bestu heilsu sem mögulegt er og endurhæfing er þar eitt mikilvægasta verkfærið í verkfærakistunni okkar.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Categories
Fréttir Greinar

Ingvar Gíslason

Deila grein

31/08/2022

Ingvar Gíslason

Minningargrein

Í dag kveðjum við mæt­an mann, Ingvar Gísla­son. Ingvar hóf ung­ur að árum af­skipti af stjórn­mál­um. Hann skipaði sér í raðir Fram­sókn­ar­fólks, þá 18 ára mennta­skóla­nemi á Ak­ur­eyri, á stof­nári lýðveld­is 1944. Fyr­ir hon­um átti að liggja að helga krafta sína starfi Fram­sókn­ar­flokks­ins og veita stefnu flokks­ins braut­ar­gengi í ræðu og riti. Ingvar sat 26 ár á Alþingi, 1961-1987. Hann var mennta­málaráðherra 1980-1983 og voru það einkum tvö verk­efni er biðu úr­lausn­ar hans öðrum frem­ur á þeim tíma, mál­efni Rík­is­út­varps­ins og Þjóðar­bók­hlöðunn­ar og sam­ein­ing Lands­bóka­safns og Há­skóla­bóka­safns. Ingvar vann að end­ur­skipu­lagn­ingu RÚV, nýju út­varps­húsi og frum­varpi til út­varps­laga. Eins má nefna lög um Lána­sjóð ís­lenskra náms­manna sem voru stórt skref á þeim tíma. Ungu fólki var þá gert kleift að sækja nám víðsveg­ar um heim­inn þar sem nú var lánað fyr­ir skóla­gjöld­um.

Ingvar sagði svo sjálf­ur frá að hann hefði litið á sig og raun­ar hvern og einn alþing­is­mann sem varn­ar­mann sjálf­stæðis og full­veld­is Íslands á grund­velli stjórn­ar­skrár lýðveld­is­ins.

„Þótt tím­inn sé hraðfleyg­ur er of langt gengið að trúa því að mann­leg til­vera sé eins og fljúg­andi fis í svipti­vind­um. Ekki af­neita ég for­laga­trú, en póli­tísk nauðhyggja leiðir menn af­vega. Sann­leik­ur­inn er sá að með skyn­semi, gætni og guðshjálp ræður maður­inn sín­um næt­urstað. Ég vona af ein­lægni að for­usta Fram­sókn­ar­flokks­ins sé fær um að til­einka sér þessa of­ur­ein­földu fílósófíu rosk­inna og reyndra manna. Hún er í fullu sam­ræmi við heim­speki alþýðumanns­ins, bú­and­karls­ins og smá­borg­ar­ans.“

Ingvar var ein­arður stuðnings­maður sterks at­vinnu­lífs um land allt og þess að dreifa at­vinnu­tækj­un­um með það fyr­ir aug­um að skapa líf­væn­leg skil­yrði á hverj­um byggi­leg­um stað á Íslandi.

„Það er skoðun Fram­sókn­ar­manna og sem bet­ur fer margra annarra góðra Íslend­inga, að þrátt fyr­ir lands­stærð okk­ar miðað við fólks­fjölda, þá séu staðhætt­ir slík­ir hér á landi, að við höf­um ekki efni á því, hvorki í nútíð né framtíð, að van­rækja nokk­urn þann blett lands­ins, sem í byggð er og í byggð má verða. Það er lífs­skil­yrði þess­ari þjóð og skyldu­kvöð henn­ar, að hún haldi öllu sínu landi í byggð og hagi svo stjórn­ar­stefnu sinni, að því marki verði náð. Það er ekki annað en fals­kenn­ing, að við eig­um ein­hver önn­ur úrræði betri til lífs­bjarg­ar í þessu landi en að byggja upp at­vinnu­líf sveita, kaup­túna og þorpa um­hverf­is landið.“

Á fundi ungra Fram­sókn­ar­manna, eft­ir að þing­mennsku hans var lokið sagði Ingvar m.a.: „Miðju­flokk­ur á hvorki að vera eins og bjöllu­kólf­ur sem sveifl­ast ým­ist til hægri eða vinstri eða eins og vís­ir á ónýtri klukku sem alltaf bend­ir í eina átt. Öðru nær. Miðju­flokk­ur á að vera kjarn­inn í flokka­kerf­inu, eins kon­ar seg­ull. Þangað eiga hreyf­ing­ar sam­tím­ans að leita, þangað á straum­ur­inn að liggja. Þar á að skilja á milli þess sem er gott og fram­sækið og þess sem er illt og aft­ur­virkt, þess sem er já­kvætt og þess sem er nei­kvætt.“

Við Fram­sókn­ar­fólk minn­umst Ingvars með virðingu og fær­um ætt­ingj­um hans ein­læga samúðarkveðju við lát hans.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son,

formaður Fram­sókn­ar.

Categories
Greinar

Norðurslóðir á krossgötum

Deila grein

30/08/2022

Norðurslóðir á krossgötum

Mál­efni norður­slóða skipta Ísland höfuðmáli en mál­efni svæðis­ins hafa á und­an­förn­um árum notið sí­vax­andi at­hygli ríkja heims­ins. Ísland hef­ur gert sig gild­andi í norður­slóðamál­efn­um. Þannig veitti Ísland Norður­skauts­ráðinu for­ystu á ár­un­um 2019-2021 og Hring­borð norður­slóða (e. Arctic Circle) hef­ur und­ir for­ystu fyrr­ver­andi for­seta Íslands, herra Ólafs Ragn­ars Gríms­son­ar, fest sig í sessi sem alþjóðleg­ur vett­vang­ur norður­slóðamála með þátt­töku fjöl­margra ríkja. Um liðna helgi tók ég þátt í sér­stöku Græn­landsþingi Hring­borðs norður­slóða þar sem um 400 þátt­tak­end­ur frá 25 lönd­um komu sam­an til þess að ræða lofts­lags­vána og mál­efni norður­slóða.

Alls voru um 50 mál­stof­ur á þing­inu þar sem meðal ann­ars var fjallað um viðskipti, ferðaþjón­ustu, námu­vinnslu, mat­væla­vinnslu, vöru­flutn­inga og framtíðar­sýn út frá lofts­lags­breyt­ing­um og græn­um lausn­um. Í ræðu minni lagði ég meðal ann­ars áherslu á mik­il­vægi þess að sam­tím­inn lærði af þeim mis­tök­um sem nor­rænt fólk gerði á Græn­landi á 13.-14. öld­inni þegar gengið var of nærri viðkvæmu um­hverfi með of­beit og of­nýt­ingu nátt­úru­auðlinda, sem meðal ann­ars er talið hafa valdið því á end­an­um að nor­rænt fólk gafst upp á Græn­lands­bú­set­unni.

Á norður­slóðum búa alls um fjór­ar millj­ón­ir manna í átta ríkj­um en um tí­undi hluti þeirra eru frum­byggj­ar. Flest­ir lifa í nokkuð miklu ná­vígi við nátt­úr­una líkt og við Íslend­ing­ar þekkj­um vel af eig­in raun. Sam­fé­lög­in hafa að miklu leyti byggt af­komu sína á nýt­ingu nátt­úru­auðlinda, allt frá sjáv­ar­fangi og fugl­um til jarðefna­eldsneyt­is og málma. Þær um­hverf­is­breyt­ing­ar sem eiga sér stað hafa í för með sér viðamikl­ar áskor­an­ir fyr­ir sam­fé­lög á norður­slóðum, þar sem sum sam­fé­lög hafa minni viðnámsþrótt en önn­ur til þess að tak­ast á við þær.

Það er mik­il­vægt að spornað sé við nei­kvæðum áhrif­um þess­ara breyt­inga en að sama skapi tryggt að þau tæki­færi sem geta fal­ist í þeim verði nýtt með sjálf­bær­um hætti þar sem huga þarf að um­hverf­is- og ör­ygg­isþátt­um sem og fé­lags­leg­um og efna­hags­leg­um þátt­um. Sjálf­bærni verður að vera meg­in­stef í öll­um aðgerðum á norður­slóðum til að bregðast við þeim vanda sem fylg­ir hlýn­un jarðar og af­leiðing­um lofts­lags­breyt­inga – og þar gegn­ir auk­in sam­vinna og sam­starf ríkja á norður­slóðum lyk­il­hlut­verki. Fjár­fest­ing­ar og viðskipti eru þar mik­il­væg verk­færi til þess að tak­ast á við áhrif lofts­lags­breyt­inga og þar get­ur Ísland beitt sér með góðum ár­angri og miðlað af þekk­ingu sinni og reynslu til annarra ríkja á svæðinu.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 30. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Ferðaþjónustan styrkir ytri stöðu íslenska þjóðarbúsins

Deila grein

29/08/2022

Ferðaþjónustan styrkir ytri stöðu íslenska þjóðarbúsins

„Ekki þarf nein­um blöðum um það að fletta, að frá lands­ins hálfu eru skil­yrði svo góð, sem hugs­ast get­ur, til þess að hingað ferðist fjöldi fólks á hverju ein­asta sumri. Hér er ein­kenni­leg og marg­háttuð nátt­úru­feg­urð, sem flest­ir hafa heill­ast af er hingað hafa komið. Íslend­ing­ar verða nú að fara að gera sér það ljóst, hvort þeir vilja að landið verði ferðamanna­land eða ekki.“Þessi brýn­ing var rituð í leiðara Morg­un­blaðsins 19. ág­úst árið 1920 eða fyr­ir rúm­um 100 árum.

Staðreynd­in í dag er sú að ferðaþjón­ust­an er einn af burðarás­um í ís­lensku efna­hags­lífi.

Staða og horf­ur ferðaþjón­ustu

Hag­vaxt­ar­horf­ur á Íslandi hafa verið að styrkj­ast og þjóðhags­spá­in ger­ir ráð fyr­ir 5,9% hag­vexti í ár. Eft­ir mik­inn sam­drátt í upp­hafi far­ald­urs­ins er það ferðaþjón­ust­an enn á ný sem dríf­ur hag­vöxt­inn áfram. Í ár hafa 870 þúsund ferðamenn heim­sótt landið og þá voru kom­ur þeirra í júlí­mánuði fleiri en í sama mánuði árið 2019. Áfram er gert er ráð fyr­ir kröft­ug­um bata ferðaþjón­ust­unn­ar, út­flutn­ings­tekj­ur haldi áfram að aukast og stuðli þannig að stöðugra gengi ís­lensku krón­unn­ar. Bók­un­arstaða er al­mennt góð, bæði inn í haustið og fram á næsta sum­ar. Það eru vissu­lega áskor­an­ir í haust og vet­ur sem snúa m.a. að verðlags­hækk­un­um og verðbólgu bæði hér á landi og í helstu markaðslönd­um okk­ar og hvaða áhrif það mun hafa á ferðagetu og ferðavilja fólks til lengri og skemmri tíma.

Ytri staða þjóðarbús­ins sterk

Sjálf­bær ytri staða þjóðarbúa skipt­ir höfuðmáli í hag­stjórn. Þjóðríki verða að hafa viðskipta­jöfnuðinn í jafn­vægi til lengri tíma. Lyk­il­breyt­ur eru okk­ar hag­kerfi hag­stæðar um þessi miss­eri. Hrein skuld­astaða rík­is­sjóðs nem­ur 28,5% af lands­fram­leiðslu, gjald­eyr­is­forðinn nem­ur um 25,5% og á sama tíma eru er­lend­ar skuld­ir rík­is­sjóðs inn­an við 5%. Þetta er gjör­breytt staða frá því sem áður var. Gjald­eyr­is­forði þjóðarbús­ins hef­ur vaxið veru­lega í kjöl­far þess af­gangs sem hef­ur verið á viðskipta­jöfnuðinum í kjöl­far vaxt­ar ferðaþjón­ustu ásamt því að aðrar lyk­ilút­flutn­ings­grein­ar hafa átt mjög góðu gengi að fagna. Gjald­eyr­is­forðinn var á bil­inu 5-10% lengst af og oft skuld­sett­ur.

Árið 2012 fór Seðlabank­inn að kaupa gjald­eyri til að byggja upp óskuld­sett­an gjald­eyr­is­forða til að bæta viðnámsþrótt hag­kerf­is­ins. Gjald­eyr­is­forðinn jókst frá 2008-2012 en hann var skuld­sett­ur með neyðarlán­um frá Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum og Norður­lönd­un­um í kjöl­far fjár­mála­hruns­ins. Alls ekki ákjós­an­leg staða. Viðmiðin sem Seðlabank­inn not­ar við ákvörðun á lág­marks­stærð forða byggj­ast á sögu­leg­um for­send­um, sem taka meðal ann­ars mið af því að skapa trú­verðug­leika um pen­inga­stefnu og til að mæta ör­ygg­is­sjón­ar­miðum í ut­an­rík­is­viðskipt­um og horfa til þátta er varða fjár­mála­stöðug­leika og láns­hæfi rík­is­sjóðs.

Straum­hvörf í ytri jöfnuði vegna út­flutn­ings á ferðaþjón­ustu

Ytri staða þjóðarbús­ins stóð oft á tíðum tæpt. Fyr­ir tíu árum áttu sér stað straum­hvörf á viðskipta­jöfnuðinum með til­komu sterkr­ar ferðaþjón­ustu. Fyr­ir lítið opið hag­kerfi er nauðsyn­legt að hafa styrk­ar út­flutn­ings­stoðir. Viðskipta­af­gang­ur­inn hef­ur einnig gert líf­eyr­is­sjóðum kleift að dreifa sparnaði fé­laga og byggja mynd­ar­lega sjóði er­lend­is. Á tím­um kór­ónu­veirunn­ar var hag­fellt að vera með gjald­eyr­is­forða sem gat jafnað mestu sveifl­ur. Stefna stjórn­valda er að um­gjörð hag­kerf­is­ins sé sem sterk­ust og stöðug til að Ísland sé sam­keppn­is­hæft um fólk og að það sé eft­ir­sókn­ar­verður staður sem ungt fólk kýs að dvelja á til framtíðar. Þjóðríki sem hafa mikl­ar út­flutn­ings­tekj­ur, stönd­ug­an gjald­eyr­is­forða og góðan inn­lend­an sparnað eru í mun sterk­ari stöðu til að kljást við óvænt ytri áföll og njóta betri láns­kjara á alþjóðleg­um fjár­mála­mörkuðum.

Stefn­an og áskor­an­ir í ferðaþjón­ustu

Eitt helsta for­gangs­verk­efnið nú í nýju menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyti er að móta nýja og öfl­uga aðgerðaáætl­un á sviði ferðamála á grunni Framtíðar­sýn­ar og leiðarljóss ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu til 2030. Þar er lögð áhersla á sjálf­bærni á öll­um sviðum. Mik­il­vægt er að leggja áherslu á ávinn­ing heima­manna um allt land, í því sam­bandi er dreif­ing ferðamanna lyk­il­atriði. Mikið er í húfi, t.a.m. betri nýt­ing innviða, bætt bú­setu­skil­yrði og lífs­gæði heima­manna, betri rekstr­ar- og fjár­fest­ing­ar­skil­yrði fyr­ir­tækja og fjöl­breytt­ara at­vinnu­líf um land allt. Greitt milli­landa­flug skipt­ir í þessu sam­hengi miklu máli og hafa ánægju­leg­ar frétt­ir borist af því að und­an­förnu með stofn­un flug­fé­lags­ins Nicea­ir sem mun fljúga beint frá Ak­ur­eyri og þýska flug­fé­lagið Condor mun hefja viku­legt flug frá Frankfurt til Ak­ur­eyr­ar og Eg­ilsstaða frá maí til októ­ber á næsta ári. Það eru ýms­ar áskor­an­ir sem at­vinnu­lífið og stjórn­völd þurfa að ráðast í í sam­ein­ingu til að styrkja innviði og um­gjörð grein­ar­inn­ar, meðal ann­ars mennt­un og styrkja stöðu ís­lensk­unn­ar í þess­ari at­vinnu­grein.

Loka­orð leiðarans góða frá ár­inu 1920 eru eft­ir­far­andi: „Íslend­ing­ar þurfa einnig sjálf­ir að læra að meta bet­ur land sitt og þá feg­urð, sem það hef­ir að bjóða.“ Þarna hafa orðið mikl­ar breyt­ing­ar og hef­ur ásókn Íslend­inga í að ferðast um sitt eigið land auk­ist mikið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Not­enda­gjöld í um­ferðinni

Deila grein

24/08/2022

Not­enda­gjöld í um­ferðinni

Sem hluti af loftlagsstefnu hafa stjórnvöld nú lagt aukna áherslu á orkuskipti í samgöngum. Samliða orkuskiptunum verður þó ekki litið fram hjá að huga þarf að breyttri gjaldtöku í umferðinni, en núverandi gjaldtaka hér á landi er mest í formi eldsneytisgjalds. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af eldsneytisgjöldum og vörugjöldum ökutækja muni líklega lækka um milljarða króna bara á þessu ári vegna fjölgunar rafbíla.

Í samgönguáætlun sem samþykkt var í fyrra var ákveðið að taka umferðargjald til endurskoðunar samhliða orkuskiptum í samgöngum. Lagt er til að hætt verði með bensín- og dísilgjöld og þess í stað komi einhverskonar notkunargjöld eða veggjöld líkt og tíðkast víða í nágrannalöndum okkar. Með fyrirliggjandi orkuskiptum komumst við ekki hjá því að taka upp þá umræðu hvernig við sjáum fyrir okkur framtíðar gjaldtöku af umferðinni.

Rangfærslur á samfélagsmiðlum

Í umfjöllun á samfélagsmiðlum undanfarnar vikur hefur komið fram að innheimta gjaldtöku í jarðgöngum sé til þess að fjármagna fyrirhuguð jarðgöng á landinu og hefur verið nefnt að upphæð fyrir hverja ferð verði 300 krónur. Þessi upphæð er algjörlega úr lausu lofti gripin enda hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um fjárhæðir í þessum efnum. Útfærsla á notkunargjaldi í jarðgöngum hefur ekki verið ákveðin, áður en það er gert þarf fyrst að fara fram greiningarvinna. Niðurstöður greiningarvinnu gætu falið í sér mismunandi gjöld eftir staðsetningu, gerð og samfélagsaðstæðum eða afslátt til þeirra sem búa við viðkomandi jarðgöng. Við ákvörðunartöku sem þessa þarf að sjálfsögðu að horfa til sjónarmiða sem eðlilegt og réttmætt þykir að taka tillit til, m.a. jafnræðissjónarmiða.

Færeyska leiðin í gjaldtöku í jarðgöngum.

Í greinargerð með samgönguáætlun 2020 til 2034 segir að stefnt sé að gjaldtöku af umferð í jarðgöngum á Íslandi sem fjármagna eigi rekstur og viðhald ganganna sem og hluta framkvæmdakostnaðar nýrra jarðganga. Þessi leið við framkvæmd jarðganga felur einnig í sér stofnun félags um jarðgangagerð með framlagi frá ríkinu í upphafi en síðan taki notendur þátt í hluta af kostnaði við framkvæmd. En í stefnumótun með endurskoðaðri samgönguáætlun til komandi framtíðar og fjármögnun samgangna var m.a. talað um notendagjöld í jarðgöngum.

Við undirbúningsvinnuna hefur verið horf til hvernig frændur okkar í Færeyjum hafa farið að við uppbyggingu á jarðgöngum. Í Færeyjum er gjaldtaka í neðansjávargöngum og hafa þar verið stofnuð félög til þess að standa straum af gerð þeirra en vegagerð Færeyja hefur síðan eftirlit með þeim. Veggjald í jarðgöng í Færeyjum eru mishá eftir staðsetningu jarðganga en þau eru allt að 100 DKK en veittir eru afslættir fyrir þá sem nýta þau sér mikið líkt og til íbúa nærliggjandi svæða.

Gjaldtaka af umferð í Noregi frá 1960

Norðmenn hafa innheimt veggjöld til að kosta gerð mannvirkjanna í fjölda ára eða allt frá árinu 1960. Um 1200 jarðgöng af ýmsum stærðum og gerðum eru víðs vegar í Noregi og eru veggjöld sérstaklega innheimt af nokkrum þeirra. Um þriðjungur allra veggjalda í Noregi er innheimtur af umferð á Oslóarsvæðinu, gjaldstöðvar þar eru 83 talsins. Í kringum Osló búa 1,2 milljónir manna eða um fjórðungur íbúa landsins. Upphæðir veggjalda eru misháar eftir umferðarmannvirkjum. Skuldastaða vegna stofnkostnaðar við mannvirkin hefur þar áhrif en dýrara er að fara um ný mannvirki en þau eldri. Gjaldflokkar fara einnig eftir stærð, þunga og eldsneytistegund bíla. Lægri veggjöld eru innheimt af bílum sem hvorki gefa frá sér koldíoxíð né nítrógenoxíð. Þá er líka rukkað mismunandi eftir annatíma umferðar.

Við viljum öll gott samgöngukerfi

Það hefur verið stefna núverandi stjórnvalda að hraða framkvæmdum í samgöngum og byggja upp gott og skilvirkt samgöngukerfi um allt land. Til þess að fjármagna allar þessar framkvæmdir er óhjákvæmilegt að taka upp einhverskonar gjald og hefur verið talað um þrjár leiðir við innheimtu notendagjalda: gjaldtöku á þremur meginstofnæðum til og frá höfuðborginni, samvinnuleið (PPP-verkefni) og gjaldtöku í jarðgöngum.

Útfærsla á gjaldtöku af umferð hér á landi, hvort sem það er um jarðgöng, brýr eða önnur umferðarmannvirki hefur ekki verið ákveðin. Áður en það er gert er eðlilegt að það fari fram gagnrýnin og uppbyggilega umræða um allt land. En niðurstaðan verður að vera sú að þegar umferðagjöld verða tekin til endurskoðunar og tekin upp notkunargjöld, eins og samgönguáætlun sem samþykkt var árið 2019 gerir ráð fyrir, verð horft til jafnræðissjónarmiða íbúa landsins. Þannig höldum við áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. ágúst 2022.