Categories
Greinar

Hvað knýr áfram hagvöxt?

Deila grein

30/12/2019

Hvað knýr áfram hagvöxt?

Áhugaverðir tímar eru fram undan á Íslandi vegna þeirra framfara sem eiga sér stað á sviði tækni og vísinda. Þó að hægst hafi á hagkerfinu, en gert er ráð fyrir um 1,5% hagvexti árið 2020, þá eru sóknarfæri víða. Stjórnvöld hafa mótað sína hagstjórn út frá breyttum forsendum. Fjárlög ársins 2020 voru samþykkt með halla sem nemur 0,3% af landsframleiðslu og raunvextir Seðlabanka Íslands eru 0,3% miðað við ársverðbólgu. Staða ríkissjóðs Íslands er hins vegar sterk. Heildarskuldir hafa lækkað mjög hratt frá fjármálahruni, farið úr 90% af landsframleiðslu í 20%, þ.e. hrein staða. Stöðugleikaframlög og góð efnahagsstaða hafa átt ríkan þátt í þessari þróun. Þróttur íslenska hagkerfisins er umtalsverður og hið opinbera mótar stefnu sína út frá breyttum forsendum. Íslenska hagkerfið er undirbúið og hið opinbera kemur til móts við hana með skattalækkunum í gegnum lífskjarasamninga og auknum opinberum framkvæmdum.

Til að tryggja lífsgæði á Íslandi þarf sterkt og öflugt efnahagslíf. Verkefnið fram undan er að styrkja umgjörðina sem knýr áfram framfarir og hagvöxt. Þetta er gert með því að styðja betur við menntakerfið, nýsköpun og þróun. Hagvöxtur framtíðarinnar verður í auknum mæli drifinn áfram af mannauði hvers samfélags. Þar mun samspil verk- og hugvits skipta sköpum. Ísland ætlar sér að vera leiðandi á þessu sviði. Því hefur ríkisstjórnin hafið stórsókn í menntamálum og varið miklum fjármunum til nýsköpunar. Hagsæld framtíðarinnar mun grundvallast í auknum mæli á gæðum menntunar og jöfnum tækifærum. Örar tækniframfarir krefjast þess að menntakerfið okkar geti tekist á við breytingar. Íslenskt samfélag er kjörið til þess að fást við þessar áskoranir, þar sem tæknibreytingar gagnast oft fámennum samfélögum þar sem tæknin hefur verið nýtt til að einfalda og auka skilvirkni. Til þess að nýta tækniframfarir verður þekkingargrunnurinn að vera öflugur og tilbúinn að takast á við breytta tíma. Framtíðarsýnin er sú að störf verði í auknum mæli til í gegnum nýsköpun og að starfsumhverfi fyrirtækja sé traust og hvetjandi á Íslandi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. desember 2019.

Categories
Greinar

Framsókn til framfara

Deila grein

28/12/2019

Framsókn til framfara

Síð­asta málið sem sam­þykkt var á Alþingi á þessu ári var leng­ing fæð­ing­ar­or­lofs. Það var vel við hæfi fyrir þingið að enda á slíku fram­fara­máli, sem er allt í senn, vinnu­mark­aðs­mál, efna­hags­mál, jafn­rétt­is­mál og snýr að mál­efnum barna og er auk þess tengt lífs­kjara­samn­ing­un­um.

Í upp­hafi árs voru kjara­samn­ingar lausir á almennum vinnu­mark­aði og ýmis­legt óljóst um þróun efna­hags­mála.

Hvernig til tókst með samn­inga á almennum vinnu­mark­aði ásamt end­ur­skoð­aðri fjár­mála­stefnu rík­is­stjórn­ar­innar og lækkun stýri­vaxta leggur grunn að stöð­ug­leika og jafn­vægi í efna­hags­líf­inu.

Þrátt fyrir fjöl­margar ákvarð­anir og afgreiðslu „stórra“ mála á þingi, eins og rík­is­fjár­mála­á­ætl­un­ar, fjár­laga, sam­göngu­á­ætl­un­ar, heil­brigð­is­á­ætl­unar og fjar­skipta­á­ætl­un­ar, áfram­hald­andi upp­bygg­ingu heil­brigð­is- og mennta­mála, aðgerðir í lofts­lags­málum og veru­lega raunaukn­ingu útgjalda til þess­ara mála­flokka þá má færa fyrir því rök að end­ur­skoðun rík­is­fjár­mála­stefnu og mik­il­vægi lífs­kjara­samn­inga skipti sköpum fyrir fram­vindu efna­hags­lífs­ins og allra ann­arra mik­il­vægra mála­flokka.

Óveðrið sem gekk yfir nú í des­em­ber kallar á fjöl­þætta vinnu, en afleið­ingar þessa ham­fara­veð­urs sitja djúpt í hug­skoti okkar og hafa enn mikil áhrif á dag­legt líf fólks í byggð­unum sem verst urðu úti.

Það er aldrei nóg að hafa skýra sýn og stefnu um þróun sam­fé­lags­ins og mál­efna.  Stjórn­völd þurfa alltaf að vera við­búin óvæntum atburð­um, hvort sem þeir eru af manna­völdum eða nátt­úr­unn­ar. Frétta­flutn­ingur af meintri spill­ingu Sam­herja við Afr­íku­strend­ur, skók okkur öll. Málið er í rann­sókn hjá hér­aðs­sak­sókn­ara og skatt­rann­sókn­ar­stjóra, og við ætl­umst öll til þess að það verði rann­sakað til hlýt­ar.

Sam­spilið er dýr­mætt

Eftir langt sam­fellt hag­vaxt­ar­skeið, stöðugt verð­lag og auk­inn kaup­mátt allt frá árinu 2011, stöndum við frammi fyrir þeirri áskorun að mæta minnk­andi hag­vexti og óvissu í efna­hags­horf­um. Hag­sveiflan hefur áhrif á atvinnu­lífið og heim­il­in.

Rík­is­fjár­mála­stefnan hefur það meðal ann­ars að mark­miði að stuðla að jöfnum hag­vexti og draga úr sveifl­u­m.  Þess vegna end­ur­skoð­aði rík­is­stjórnin fjár­mála­stefn­una.  Þegar hægir á og við finnum fyrir því í rekstri fyr­ir­tækja og í heim­il­is­bók­hald­inu er mik­il­vægt að rík­is­sjóður gefi eftir af sinni afkomu í stað þess að fara í sárs­auka­fullar aðhalds­að­gerð­ir.  Það er það sem rík­is­stjórnin gerði mögu­legt með end­ur­skoð­aðri fjár­mála­stefn­u.

Rík­is­stjórnin skóp svig­rúm til að fram­fylgja áætl­unum um fyr­ir­hug­aðar fram­kvæmd­ir, fjár­fest­ingar og þjón­ustu og fjár­lögin 2020 eru því í sam­ræmi við rík­is­fjár­mála­á­ætl­un. Í fyrsta sinn í hag­sög­unni sjáum við nú fjár­mála­stefnu stjórn­valda vinna með pen­inga­stefn­unni og vinnu­mark­aðn­um.

Traustar und­ir­stöður rík­is­fjár­mála eru lyk­ill að því að geta mætt sveiflum og áskor­unum sem þeim fylgja.  Áherslan hingað til á að greiða niður skuldir og lækka vaxta­byrði hefur styrkt stöðu rík­is­sjóðs, sem stendur nú öfl­ugur og  gefur okkur mögu­leika á við­spyrnu og dýr­mætu sam­spili við pen­inga­stefnu og vinnu­mark­að. Færið er nýtt í fjár­lögum 2020, til þess að sækja fram og halda áfram að byggja upp inni­viði sam­fé­lags­ins og búa í hag­inn fyrir kom­andi kyn­slóð­ir.

Stöð­ug­leiki er grund­völlur fram­fara

Með lífs­kjara­samn­ing­unum urðu viss tíma­mót á vinnu­mark­aði og full­yrða má um mik­il­vægi þeirra sem grund­völl að efna­hags­legum og félags­legum stöð­ug­leika. Aðilar vinnu­mark­að­ar­ins eiga hrós skilið fyrir ábyrga nálg­un.  Auð­vitað þurfti frek­ari for­send­ur, vaxta­lækk­anir sem hafa gengið eft­ir, og afger­andi fram­lag stjórn­valda.

Aðgerðir stjórn­valda í tengslum við kjara­samn­ing­ana falla vel að stefnu Fram­sókn­ar.  Þar er vert að draga fram lækkun á tekju­skatti ein­stak­linga með við­bót­ar­skatt­þrepi einkum til þess að auka ráð­stöf­un­ar­tekjur tekju­lægri hópa. Hækkun á greiðslum og leng­ingu fæð­ing­ar­or­lofs.  Barna­bætur og skerð­ing­ar­mörk þeirra eru hækk­uð.  Marg­vís­legar umbætur í hús­næð­is­mál­um, fram­lög aukin til félags­legs hús­næðis og átak í upp­bygg­ingu hús­næðis á lands­byggð­inni. Atvinnu­leys­is­bætur eru hækk­aðar og trygg­inga­gjald lækk­að.

Sam­staða

Elja, þraut­segja og sam­taka­máttur ein­kennir gjarnan okkur Íslend­inga þegar mikið liggur við.  Það er stutt síðan aftaka­veður gekk yfir og á reynd­i.  Þrátt fyrir tím­an­legar spár og við­bún­að, yfir­lýstu hættu­stigi, var veð­ur­ham­urinn slíkur að reynd­ist mann­skaða­veð­ur. Það er átak­an­legt og vekur sam­kennd að hlusta á frá­sagnir af bar­átt­unni sem háð var við nátt­úru­öfl­in. Þá voru veik­leikar í inn­viða­kerfum afhjúpaðir svo um mun­ar.  Sam­taka­mátt­ur­inn birt­ist ekki síst í fram­lagi við­bragðs­að­ila og fjöl­margra sjálf­boða­liða björg­un­ar­sveit­anna og Rauða Kross­ins sem verður seint full­þakk­að.

Eftir stendur að fara þarf ítar­lega yfir það sem brást, veik­leik­ana í  raf­orku- og fjar­skipta­kerf­um,  og bregð­ast skipu­lega við.  Átaks­hópur á vegum rík­is­stjórn­ar­innar vinnur nú að til­lögum til úrbóta. Sam­staðan er mik­il­væg og áorkar miklu en við verðum líka að vinna úr afleið­ing­unum þannig að við verðum öll betur und­ir­búin næst.

Mann­gildi ofar auð­gildi

Fram­sókn leggur ávallt áherslu á jöfnuð og jafn­rétti á öllum sviðum og að tryggja vel­ferð allra lands­manna óháð efna­hag og búset­u.

Til þess þarf upp­bygg­ing grunn­inn­viða að vera í önd­vegi. Til merkis um það eru stór­aukin fram­lög til sam­göngu­fram­kvæmda um allt land, sam­göngusátt­máli höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins, frum­varp mennta­mála­ráð­herra um mennta­sjóð og áherslur félags- og barna­mála­ráð­herra á mál­efni barna.

Rík­is­stjórnin hefur á kjör­tíma­bil­inu aukið útgjöld til heil­brigð­is­mála og einn lyk­il­þátta heil­brigð­is­stefn­unnar er jafnt aðgengi að þjón­ustu óháð efna­hag og búset­u.

Frá ára­mótum verður áfram dregið úr greiðslu­þátt­töku sjúk­linga. Komu­gjöld á heilsu­gæslu verða lækkuð og stefnt að því í áföngum að fella þau alveg niður en eins og hingað til greiða börn, örorku- og elli­líf­eyr­is­þegar ekki komu­gjöld.

Heil­brigð­is­ráð­herra kynnti á dög­unum fjöl­mörg önnur áform, sem fjár­mögnuð eru í rík­is­fjár­mála­á­ætlun til næstu ára m.a auknar nið­ur­greiðslur fyrir tann­lækna­þjón­ustu og lyf, til­tekin hjálp­ar­tæki og rýmkun reglna um ferða­kostn­að.

Í leit að bættu sam­fé­lagi hættir okkur til að horfa einkum til efna­hags­legra þátta eins og lands­fram­leiðslu og hag­vaxt­ar. Skiln­ingur hefur jafnt og þétt auk­ist á nauð­syn þess að horfa sam­hliða til ann­arra ekk­ert síður mik­il­vægra þátta eins og heilsu, mennt­un­ar, hús­næð­is, vatns- og loft­gæða ofl. umhverf­is- og félags­legra þátta, sem hafa mikil áhrif á okkar dag­lega líf.

Mik­il­vægt er að mæla þessa þætti m.a. til þess að bæta stefnu­mótun og ákvörð­una­töku á vett­vangi rík­is­fjár­mála.

Til­lögur þverpóli­tísks hóps á vegum rík­is­stjórn­ar­innar um þróun og fram­setn­ingu mæli­kvarða um aukna hag­sæld og lífs­gæði sam­rým­ast því afar vel stefnu og grunn­gildum Fram­sókn­ar.

Þing­flokkur Fram­sóknar óskar öllum lands­mönnum gleði og far­sældar á nýju ári.

Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi, for­maður fjár­laga­nefndar og starf­andi Þing­flokks­for­maður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á www.kjarninn.is 27. desember 2019.

Categories
Greinar

Framfaraskref til handa fjölskyldum og börnum

Deila grein

27/12/2019

Framfaraskref til handa fjölskyldum og börnum

Um síðustu áramót breytti ég embættistitli mínum í félags- og barnamálaráðherra. Ég vissi að við Íslendingar værum að gera margt vel þegar kemur að aðbúnaði barna en hafði þó orðið var við glufur íkerfinu. Í samvinnu við fjölda fólks hefur náðst ótrúlegur árangur á þessu eina ári sem nú er að líða og eru komnar útlínur að nýju velferðarkerfi fyrir börn á Íslandi. Því er meðal annars ætlað að grípa þau börn og fjölskyldur sem á þurfa að halda fyrr en verið hefur og tryggja öllum sveitarfélögum möguleika á markvissum stuðningi við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá verður öllum sveitarfélögum á landinu boðið að nýta sér svokallað mælaborð um velferð barna. Það var þróað af Kópavogsbæ í samstarfi við UNICEF á Íslandi og félagsmálaráðuneytið og gerir stjórnvöldum kleift að greina tölfræðigögn sem til eru um velferð barna og nýta við stefnumótun, fjárhagsáætlanagerð og ákvarðanatöku.

Mikil vinna liggur að baki þessum verkefnum en sérstaklega ánægjuleg er sú þverpólitíska samstaða sem hefur myndast um mikilvægi þess að setja fjölskyldur og börn í forgang.

Eitt helsta áherslumál mitt í embætti hefur frá upphafi verið að endurreisa fæðingarorlofskerfið og því afar gleðilegt að Alþingi skyldi fyrir jólin ná að samþykkja frumvarp mitt þess efnis að lengja fæðingarorlof í tólf mánuði. Hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hafa þegar verið hækkaðar en auk þess stendur heildarendurskoðun laga um fæðingar- og foreldraorlof yfir og lýkur á næsta ári. Bind ég vonir við að hún skili frekari umbótum.

Fjölskyldan er mikilvægasta eining samfélagsins og til þess að tryggja velferð barna er mikilvægt að horfa á aðstæður fjölskyldna í heild. Margt spilar þar inn í eins og efnahagur heimilanna og húsnæðismál en auk þess þarf að gæta að hlutum eins og jafnvægis atvinnu- og fjölskyldulífs. Allt eru þetta mál sem ég ætla mér að taka enn fastari tökum á nýju ári.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 27. desember 2019.

Categories
Greinar

Börn og ungmenni í forgrunni

Deila grein

27/12/2019

Börn og ungmenni í forgrunni

Um síðustu áramót breytti ég embættistitli mínum í félags- og barnamálaráðherra. Er það í fyrsta sinn á Íslandi sem embættistitill ráðherra vísar til málefna barna. Við Íslendingar gerum mjög margt vel þegar kemur að velferð barna en ég hef, engu að síður, orðið var við brotalamir og glufur í kerfinu. Þá eru sífellt að koma fram nýjar rannsóknir sem sýna fram á að barnæskan og velferð barna skipti sköpum þegar kemur að því að byggja upp sterka einstaklinga til framtíðar og þar með heilbrigt og virkt samfélag. Sannast með því gamla máltækið um að lengi búi að fyrstu gerð og er ég þeirrar skoðunar að besta fjárfesting sem samfélag getur ráðist í sé að hlúa vel að börnum. Sú fjárfesting er ekki einvörðungu góð þegar litið er á bætta líðan og virkni einstaklinga í samfélaginu, heldur einnig á fjárhagslegan mælikvarða.

Endurskoðun á þjónustu við börn
Á þessu eina ári sem brátt er á enda hefur margt áunnist. Unnið hefur verið að endurskoðun og samþættingu á allri þjónustu við börn og er útlínur að nýju velferðarkerfi þeim til handa að verða til. Því er meðal annars ætlað að grípa börn sem á þurfa að halda fyrr en verið hefur og bjóða strax í upphafi fram viðeigandi stuðning og aðstoð. Mikil vinna liggur þarna að baki en einn lykillinn að því að svo stórar breytingar geti orðið að veruleika er sú þverpólitíska samstaða sem hefur myndast um mikilvægi þess að setja börn í forgang. Formlegu samstarfi á milli ráðuneyta sem fara með málefni barna hefur verið komið á fót en auk þess er þverpólitísk þingmannanefnd í málefnum barna að störfum. Þá hafa sérfræðingar í málefnum barna úr öllum áttum lagt mikið af mörkum.

Stórsókn í barnavernd
Þó endurskoðunin fari fram á öllum þjónustustigum hefur, eins og gefur að skilja, verið lögð sérstök áhersla á að styrkja barnaverndarkerfið fyrir þau börn sem höllustum fæti standa. Með nýrri framkvæmdaáætlun í barnavernd, sem lögð var fram í vor, var blásið til stórsóknar en markmið hennar er að efla grunnvinnslu barnaverndarmála svo hægt verði að koma að vanda barna eins fljótt og auðið er. Hún gerir ráð fyrir aukinni samvinnu og samstarfi á milli ríkis og sveitarfélaga og er ætlað að auka framboð gagnreyndra úrræða svo um munar.

Sjónarmið barna og ungmenna fá aukið vægi
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna fagnaði 30 ára afmæli í nóvember síðastliðinn. Í tilefni afmælisársins hef ég lagt sérstaka áherslu á að leita leiða til að auka þátttöku barna og ungmenna í stefnumótun og ákvarðanatöku stjórnvalda.

Í því skyni var afar ánægjulegt að vera viðstaddur fyrsta Barnaþing umboðsmanns barna sem haldið var í Hörpu í nóvember en niðurstöður þess voru afhentar ríkisstjórn í þinglok og munu hafa bein áhrif á aðgerðaráætlun sem er í undirbúningi í félagsmálaráðuneytinu um aukna þátttöku barna og ungmenna í stefnumótun og ákvarðanatöku. Hún byggir á samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því í vor um að allar stórar ákvarðanir sem og lagafrumvörp sem varða börn skuli rýnd út frá áhrifum á stöðu og réttindi þeirra. Erum við í þeim efnum komin lengra en margar aðrar þjóðir. Þá hefur á árinu farið fram vinna við hvernig raungera skuli þátttöku barna á markvissan hátt í stefnumótun og ákvarðanatöku stjórnvalda og ég hef nýverið undirritað samning við Landssamband ungmennafélaga um formlegt samstarf í þeim efnum.

Öll sveitarfélög á Íslandi verði barnvæn
Við stöndum á krossgötum hvað varðar þjónustu við börn á Íslandi. Aukinn skilningur er að verða á því að raddir barna og Barnasáttmálinn eigi að liggja til grundvallar allri þjónustu og ákvörðunum sem varða líf yngri kynslóða. Til að undirstrika það má nefna að nýlega gekk félagsmálaráðuneytið til samninga við UNICEF um þátttöku í verkefninu Barnvæn sveitarfélög UNICEF undir formerkjunum Barnvænt Ísland með það að markmiði að tryggja aðgengi allra sveitarfélaga að stuðningi við innleiðingu Barnasáttmálans.

Mikilvægi þessa er ótvírætt. Börn sækja að stærstum hluta sína nærþjónustu til sveitarfélaga. Til að tryggja raunverulega barnvænt samfélag þurfa börn að njóta þeirra réttinda sem Barnasáttmálinn kveður á um í sínu nærumhverfi á degi hverjum og því þarf innleiðingin ekki hvað síst að fara fram á þeim vettvangi.

Mælaborð um velferð barna
Samhliða því að bjóða sveitarfélögum að gerast barnvæn verður þeim boðið að nýta sér svokallað mælaborð um velferð barna. Mælaborðið er þróunarverkefni á vegum Kópavogsbæjar, félagsmálaráðuneytisins, Köru Connect og UNICEF á Íslandi. Með notkun mælaborðsins munu sveitarfélög geta greint með markvissum hætti þau tölfræðigögn sem til eru um velferð barna innan sveitarfélagsins og nýtt við stefnumótun, fjárhagsáætlanagerð og ákvarðanatöku. Markmiðið er að aðgerðir innan sveitarfélaga verði markvissari og nýtist þar sem þeirra er raunverulega þörf. Mælaborðið er nýjung sem eftir er tekið en það hlaut nýverið alþjóðleg verðlaun UNICEF fyrir framúrskarandi lausnir og nýsköpun í nærumhverfi barna.

Endurreisn fæðingarorlofskerfisins
Eitt helsta áherslumál mitt í embætti hefur frá upphafi verið að endurreisa og efla fæðingarorlofskerfið. Hámarksgreiðslur hafa þegar verið hækkaðar og samþykkt hefur verið að lengja fæðingarorlof úr níu mánuðum í tólf. Samhliða fer fram heildarendurskoðun laganna sem lýkur á næsta ári og mun án efa leiða til frekari umbóta.

Á árinu sem er að líða hef ég skynjað mikinn vilja til breytinga og hefur fólk verið tilbúið að leggjast árarnar með mér. Öðruvísi hefðum við ekki áorkað svo miklu. Ástæðan er í mínum huga sú að við getum flest verið sammála um að vilja gera betur fyrir börnin okkar.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. desember 2019

Categories
Greinar

Ísland í fremstu röð II

Deila grein

23/12/2019

Ísland í fremstu röð II

Í upphafi 20. aldarinnar stóð íslenska þjóðin á tímamótum. Hún stefndi að því að ráða sínum málum sjálf og framfarir í menntamálum voru nauðsynlegar til að þjóðin gæti staðið undir sjálfstæði sínu. Forystufólk þessa tíma var mjög meðvitað um mikilvægi menntunar enda hófst stórsókn í skólamálum með stofnun gagnfræðaskóla í þéttbýli og héraðsskóla í strjálbýli, Háskóli Íslands var settur á laggirnar 1911 og fræðslulög 1907. Með þessu hugarfari sóknar þurfum við að fara inn í 21. öldina. Menntun verður lykillinn að tækifærum framtíðarinnar og því tel ég nauðsynlegt að fara í þær umbætur og aðgerðir sem hér eru kynntar.

Hugarfar nemenda til menntunar
Jákvætt viðhorf til eigin getu hefur mikil áhrif á árangur. Þeir nemendur sem álíta að hæfileikar þeirra og hæfni séu föst stærð eru líklegri til þess að gefast upp á flóknari verkefnum og vilja forðast erfiðleika og áskoranir. Niðurstöður sýna að 73% íslenskra nemenda sem tóku þátt í síðustu PISA-könnunarprófunum eru með svokallað vaxtarviðhorf; þau trúa að með vinnusemi, góðum aðferðum og hjálp frá öðrum geti þau þróað hæfni sína og getu. Þetta hugarfar er bæði dýrmætt og gagnlegt því af því leiðir að auðveldara er að bæta árangur nemenda. Til að koma Íslandi í fremstu röð í menntamálum er brýnt að skoða alla þá þætti sem geta aukið möguleika hvers nemanda því allir geta lært, og allir skipta máli.

Fagráð stofnuð
Brýnt er að auka fagþekkingu og styðja við starfsþróun kennara í þeim efnum. Ég hef nú þegar skipað öflugt fagráð í stærðfræði og hyggst gera slíkt hið sama fyrir íslensku og náttúrufræði. Fagráðin verða skipuð okkar færasta fólki og er markmið þeirra að gera tillögur um eflingu námssviðanna, starfsþróun, námsgögn og aukna samfellu allra skólastiga. Fagráðin munu einnig vera Menntamálastofnun til ráðgjafar við mótun og útfærslu námsgagna, verkefna um eflingu náms- og kennsluhátta, starfsþróun og ráðgjöf í skólum.

Fjölgum tímum í náttúrufræði
Á Íslandi eru fæstar kennslustundir í móðurmáli á miðstigi grunnskóla miðað við hin norrænu löndin og því viljum við breyta líkt og fjallað var um í síðustu grein minni. Sama er að segja um náttúrufræði, Ísland er með fæstar kennslustundir af Norðurlöndunum í náttúrufræði á unglingastigi og ef við horfum lengra eru kenndir 160% fleiri tímar í náttúruvísindum á miðstigi í Eistlandi en hér á landi. Við ætlum að leggja aukna áherslu á mikilvægi þessara greina í viðmiðunarstundaskrá. Aðstæður til kennslu í náttúruvísindum hér á landi eru einstakar og brýnt að leita leiða til þess að nýta þau tækifæri betur til fræðslu fyrir nemendur í grunnskólum. Ísland hefur alla burði til að vera leiðandi á sviði náttúruvísinda enda eigum við vísindamenn á heimsmælikvarða, m.a. á sviðum jökla- og eldafjallarannsókna, hafrannsókna og loftslagsmála og það verður kappsmál okkar að fjölga starfandi kennurum í náttúrufræði. Aðgerðir sem miða að eflingu þessara greina hyggjumst við vinna í góðu samráði, ekki síst við nemendurna sjálfa.

Starfsþróun kennara og skólastjórnenda
Við horfum til þess að stórefla starfsþróun kennara og skólastjórnenda hér á landi með markvissum hætti í samstarfi meðal annars við Kennarasamband Íslands, kennaramenntunarstofnanir, skólastjórnendur og Samband íslenskra sveitarfélaga. Öflug starfsþróun kennara er grundvöllur framfara í menntakerfinu okkar og mikilvægur liður í því að gera starfsumhverfi kennara framúrskarandi. Ekki hefur legið fyrir sameiginleg framtíðarsýn á málefni starfsþróunar t.d. milli ólíkra skólastiga og rekstraraðila skóla en nú eru komnar fram tillögur í þá veru. Tillögurnar eru fjölbreyttar og tengjast m.a. ráðuneytinu, sveitarfélögum, menntun kennara og skólunum sjálfum. Það er mjög dýrmætt að fá þær til umfjöllunar og útfærslu, ekki síst í samhengi við ný lög um menntun og hæfni kennara og skólastjórnenda sem taka munu gildi í ársbyrjun 2020.

Eflum menntarannsóknir
Starfræktir eru margir sjóðir sem veita styrki til málefna sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Einnig er fyrir hendi Félag um menntarannsóknir (FUM) sem stendur fyrir umræðu um menntarannsóknir og kemur að útgáfu Tímarits um menntarannsóknir. Meðal markmiða félagsins er að efla þekkingu og færni félagsmanna til að leggja stund á rannsóknir á menntamálum og stuðla að útbreiðslu þekkingar á rannsóknum og þróunarstarfi. Breytingar á menntakerfi og menntastefna þurfa að byggjast á rannsóknum og því hyggjumst við leita leiða til að efla menntarannsóknir í samvinnu við háskóla, FUM, Kennarasambandið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Stefna stjórnvalda í vísindamálum í gegnum innlenda samkeppnissjóði þarf einnig að taka mið af áherslu á menntarannsóknir á Íslandi.

Íslenskan í sókn
Aðgerðaáætlun sem byggist á þingsályktun um hvernig efla megi íslensku sem opinbert mál hér á landi verður kynnt á næstu misserum. Meðal þeirra aðgerða sem þar eru sérstaklega tilgreindar eru mótun tillagna um stuðning við starfsemi skólabókasafna, þróun og aðgengi að rafrænu kennsluefni í íslensku, endurskoðun fyrirkomulags námsgagnagerðar og hvernig styrkja megi stöðu nemenda með annað móðurmál en íslensku og stuðla að jákvæðri umræðu og fræðslu í samfélaginu um fjölbreytileika tungumálsins. Þar er einnig fjallað um mikilvægi læsis og lesskilnings fyrir tungumálið okkar. Lesskilningur leggur grunn að öðru námi og markmið okkar er að leggja mun meiri áherslu á þjálfun hans í öllum námsgreinum því ef hugsun og skilningur á móðurmálinu er frjór og fjölbreyttur erum við betur í stakk búin til þess að læra og meðtaka aðra þekkingu.

Skýrara námsmat
Það er áherslumál okkar að efla námsmat og endurgjöf til nemenda og kennara. Ljóst er að miðla þarf betur til nemenda, foreldra og skólafólks hvernig haga skuli námsmati og notkun hæfniviðmiða í grunnskólum. Mikið er í húfi að allir geti nýtt sér þau og að framsetning þeirra og endurgjöf skóla sé skýr og skilvirk; þannig er líklegra að allir nái betri árangri í námi. Á næstunni munum við kynna tillögur sem að því lúta og niðurstöður könnunar sem gerð var á innleiðingu aðalnámskrár grunnskólanna. Einnig verða brátt kynntar tillögur starfshóps um markmið og hlutverk samræmdra könnunarprófa. Sú gagnaöflun og greiningarvinna sem hefur átt sér stað að undanförnu mun nýtast vel við að efla menntakerfið okkar. Fjölmargir hafa komið að þeirri vinnu og kann ég þeim góðar þakkir fyrir mikilvægt framlag.

Okkar bíða spennandi verkefni
Niðurstöður síðustu PISA-könnunar sýna okkur að meirihluti íslenskra nemenda hefur sterka hvöt til þess að ná góðum tökum á verkefnum, trú á getu sinni, þau setja sér metnaðarfull markmið, leggja mikið upp úr mikilvægi menntunar og eru líkleg til að klára háskólanám. Okkar bíða sannarlega spennandi verkefni og mörg þeirra eru vissulega flókin. En með réttu hugarfari og trú á verkefnunum sem fram undan eru mun árangurinn ekki láta á sér standa. Setjum markið hátt og vinnum að því saman að vegur þjóðarinnar og tækifæri séu tryggð. Styrkjum menntakerfið með markvissum aðgerðum sem tryggja að lífskjör og velsæld verði góð á 21. öldinni.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. desember 2019.

Categories
Greinar

Sterkir fjölmiðlar skipta sköpum

Deila grein

17/12/2019

Sterkir fjölmiðlar skipta sköpum

Mikl­ar breyt­ing­ar hafa orðið á rekstr­ar­um­hverfi fjöl­miðla með til­komu sam­fé­lags­miðla og nýrra miðlun­ar­leiða. Flest­ir fjöl­miðlar byggja af­komu sína á aug­lýs­ing­um og áskrift­um og þegar báðir tekju­straum­arn­ir minnka veru­lega verður staðan erfið. Tekju­sam­drátt­ur­inn er rak­inn ann­ars veg­ar til þess að sí­fellt stærri hluti aug­lýs­inga er birt­ur á vefj­um er­lendra stór­fyr­ir­tækja og hins veg­ar auk­ins fram­boðs á ókeyp­is fjöl­miðlaefni.

Stjórn­völd víða um heim hafa brugðist við þess­ari þróun með því að veita fjöl­miðlum styrki eða bætt rekstr­ar­um­hverfi þeirra með öðrum hætti. Sömu­leiðis hafa Norður­landaþjóðir verið í far­ar­broddi í stuðningi við fjöl­miðlun um ára­tuga skeið. Í upp­hafi miðaðist hann einkum að dag­blöðum en hef­ur á síðustu árum einnig tekið til annarra teg­unda fjöl­miðlun­ar, svo sem net­miðla og hljóð- og mynd­miðla.

Í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar kem­ur fram fyr­ir­heit um að bæta rekstr­ar­um­hverfi einka­rek­inna fjöl­miðla. Því hef­ur verið smíðað frum­varp þess efn­is sem er í þing­legri meðferð. Mark­mið frum­varps­ins er að efla stöðu ís­lenskra fjöl­miðla með því að styðja við og efla út­gáfu á frétt­um, frétta­tengdu efni og um­fjöll­un um sam­fé­lags­leg mál­efni. Til að ná því mark­miði er gert ráð fyr­ir að heim­ilt sé að veita einka­rekn­um fjöl­miðlum fjár­hags­leg­an stuðning sem felst í því að end­ur­greiða þeim hluta þess kostnaðar sem fell­ur til við að afla og miðla slíku efni.

Stuðning­ur­inn verður ann­ars veg­ar í formi end­ur­greiðslu á allt að 18% af launa­kostnaði viðkom­andi fjöl­miðils vegna rit­stjórn­ar­starfa og hins veg­ar í formi 4% sér­staks stuðnings, sem einnig er miðaður við til­tekið hlut­fall af launa­kostnaði. Einnig er gert ráð fyr­ir að end­ur­greiðsla til fjöl­miðils geti ekki orðið hærri en 50 millj­ón­ir króna, en ekki er þak á sér­stök­um stuðningi sem miðast við 4% af fram­an­greind­um launa­kostnaði.

Vert er að taka fram að end­ur­greiðsluþátt­ur frum­varps­ins er í anda annarra kerfa sem stjórn­völd hafa sett á lagg­irn­ar á síðustu árum til að styðja við menn­ingu á Íslandi og nefni ég þar end­ur­greiðslur er varðar kvik­mynd­ir, hljóðrit­un og bóka­út­gáfu. Einnig má nefna styrki til ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tækja. Hér er um að ræða end­ur­greiðslu á kostnaði úr rík­is­sjóði til einkaaðila hvort held­ur í menn­ing­ar- eða í ný­sköp­un­ar­starf­semi. Ég von­ast til þess að sá stuðning­ur sem frum­varpið ger­ir ráð fyr­ir geri fjöl­miðlum kleift að efla rit­stjórn­ir sín­ar, vera vett­vang­ur skoðana­skipta og tján­ing­ar­frels­is og með þeim hætti rækja hlut­verk sitt sem einn af horn­stein­um lýðræðis­ins.

Mál þetta hef­ur verið á döf­inni í mörg ár en því hef­ur ávallt verið ýtt til hliðar. Nú hlakka ég til að fylgja þessu frum­varpi eft­ir því það er heilla­spor fyr­ir ís­lenska fjöl­miðlun í heild sinni.

Lilja Dögg Alferðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. desember 2019.

Categories
Greinar

Ísland í fremstu röð

Deila grein

16/12/2019

Ísland í fremstu röð

Þær breyt­ing­ar sem nú eiga sér stað vegna bylt­inga á sviðum upp­lýs­inga, sam­skipta og tækni skapa ótal tæki­færi fyr­ir sam­fé­lög. Vel­sæld hef­ur auk­ist um heim all­an en á sama tíma stönd­um við frammi fyr­ir fjöl­breytt­um áskor­un­um, ekki síst í um­hverf­is­mál­um. Brýnt er að við horf­um til lausna og aðgerða sem stuðla að jöfn­um tæki­fær­um til þátt­töku í sam­fé­lag­inu og þar er mennt­un lyk­ilþátt­ur. Framtíðar­vel­sæld sam­fé­lags­ins mun hvíla á fjár­fest­ingu og for­gangs­röðun okk­ar í þágu mennt­un­ar í dag. Í þess­ari grein verður farið yfir ýmsa þætti sem styrkja og efla mennta­kerfið okk­ar; hug­ar­far, orðaforða, læsi, starfsþróun og fjölg­un ís­lensku­tíma ásamt um­fjöll­un um ár­ang­urs­rík­ar aðgerðir.

Hug­ar­far mennt­un­ar

Alþjóðleg­ar mennt­a­rann­sókn­ir sýna að þær þjóðir sem skara fram úr í mennta­mál­um eiga margt sam­eig­in­legt. Það sem ein­kenn­ir þær meðal ann­ars er að þar er skýr for­gangs­röðun í þágu mennt­un­ar, ekki aðeins þegar kem­ur að fjár­magni held­ur er virðing bor­in fyr­ir námi og skóla­starfi. Störf kenn­ara eru mik­ils met­in og þau álit­in meðal mik­il­væg­ustu starfa og þar er lögð rík áhersla á aðgengi að mennt­un og að all­ir geti lært og all­ir skipti máli. Þessi atriði mynda grunn­inn að öfl­ugu mennta­kerfi. Íslenska mennta­kerfið hef­ur vissu­lega sína styrk­leika en við þurf­um að gera enn bet­ur og til þess þurf­um við að ganga í takt. Ein­fald­ar skyndi­lausn­ir duga ekki, við þurf­um að horfa til rann­sókna og setja okk­ur skýr lang­tíma­mark­mið. Við höf­um þegar ráðist í aðgerðir sem taka mið af fyrr­greind­um grund­vall­ar­atriðum og séð góðan ár­ang­ur af þeim.

Mik­il­vægi orðaforðans

Mennt­a­rann­sókn­ir sýna að ár­ang­ur í námi ræðst að miklu leyti af hæfni nem­enda í rök­hugs­un og hæfi­leik­um þeirra til að nýta bak­grunnsþekk­ingu sína til að skilja, ígrunda og túlka texta. Nem­end­ur þurfa að þekkja 98% orða í textum náms­gagna til þess að geta skilið og til­einkað sér inni­hald þeirra án aðstoðar. Fari þetta hlut­fall niður í 95% þurfa flest­ir nem­end­ur aðstoð til þess að skilja inni­haldið, til dæm­is með notk­un orðabóka eða hjálp frá kenn­ara eða sam­nem­end­um. Rann­sókn­ir benda ótví­rætt til þess að orðaforði og orðskiln­ing­ur ís­lenskra barna hafi minnkað veru­lega á und­an­förn­um árum og við því verðum við að bregðast. Þessu þurf­um við að breyta með því að bæta orðaforða, með þjálf­un í lestri, rit­un og með sam­töl­um.

Læsi í for­gang

Til að bæta orðaforða sinn og hug­taka­skiln­ing þurfa nem­end­ur að æfa sig í fjöl­breytt­um lestri. Sam­kvæmt breskri lestr­ar­rann­sókn skipt­ir ynd­is­lest­ur sköp­um þegar kem­ur að orðaforða barna, en orðaforði er grund­vall­arþátt­ur lesskiln­ings og þar með alls ann­ars náms. Rann­sókn­in leiddi í ljós að ef barn les í 15 mín­út­ur á dag alla grunn­skóla­göngu sína kemst það í tæri við 1,5 millj­ón­ir orða. Ef barnið les hins veg­ar í um 30 mín­út­ur á dag kemst það í tæri við 13,7 millj­ón­ir orða. Sá veldi­vöxt­ur gef­ur skýr­ar vís­bend­ing­ar um hversu mik­il­væg­ur ynd­is­lest­ur er fyr­ir ár­ang­ur nem­enda. En við les­um ekki lestr­ar­ins vegna held­ur af áhuga og því er brýnt að til sé fjöl­breytt les- og náms­efni sem höfðar til allra barna. Ég fagna auk­inni út­gáfu ís­lenskra barna- og ung­menna­bóka á þessu ári en töl­fræðin bend­ir til þess að titl­um hafi þar fjölgað um 47% frá í fyrra sem bend­ir þá til þess að yngri les­end­ur hafi meira val um spenn­andi les­efni. Ynd­is­lest­ur­inn skipt­ir máli en við þurf­um líka að auka orðaforðann til að nem­end­ur nái tök­um á fjöl­breytt­um og flókn­um setn­ing­um. Þessi orðaforði kem­ur meðal ann­ars úr frétt­um líðandi stund­ar, fræðslu­efni og söng­textum.

Starfsþróun kenn­ara og skóla­stjórn­enda

Öflug um­gjörð um starfsþróun kenn­ara og skóla­stjórn­enda er einn af lyk­ilþátt­um í að styrkja mennta­kerfið. Ný­lega skilaði sam­starfs­ráð um starfsþróun kenn­ara og skóla­stjórn­enda skýrslu með til­lög­um um framtíðar­sýn í þeim efn­um. Starfsþróun fel­ur í sér form­legt nám og end­ur­mennt­un kenn­ara, nám­skeið, rann­sókn­ir á eig­in starfi, þátt­töku í þró­un­ar­verk­efn­um, ráðgjöf, ráðstefn­ur og heim­sókn­ir í aðra skóla. Stefnumiðuð starfsþróun stuðlar að auk­inni starfs­ánægju kenn­ara og hef­ur já­kvæð áhrif á ár­ang­ur þeirra í starfi. Mik­ill ár­ang­ur hef­ur nást í Svíþjóð til að bæta færni nem­enda í lesskiln­ingi, stærðfræði og nátt­úru­vís­ind­um með sér­sniðnum nám­skeiðum sem auka þekk­ingu í viðkom­andi fagi. Við horf­um til þess að stór­efla starfsþróun kenn­ara og skóla­stjórn­enda hér á landi með mark­viss­um hætti í sam­starfi meðal ann­ars við Kenn­ara­sam­band Íslands, kenn­ara­mennt­un­ar­stofn­an­ir, skóla­stjórn­end­ur og Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga.

Fjölg­um ís­lensku­tím­um

Alþingi ályktaði í vor um mik­il­vægi ís­lenskr­ar tungu og nauðsyn þess að tryggja að tungu­málið verði áfram notað á öll­um sviðum ís­lensks sam­fé­lags. Meg­in­mark­mið þings­álykt­un­ar­inn­ar eru þau að ís­lenska verði notuð á öll­um sviðum sam­fé­lags­ins, að ís­lensku­kennsla verði efld á öll­um skóla­stig­um ásamt mennt­un og starfsþróun kenn­ara og að framtíð ís­lenskr­ar tungu í sta­f­ræn­um heimi verði tryggð. Í álykt­un­inni eru til­tekn­ar 22 aðgerðir til að ná þess­um mark­miðum. Tíu aðgerðir tengj­ast mennta­kerf­inu með bein­um hætti, t.d. að efla skóla­bóka­söfn, bæta læsi og stuðla að já­kvæðri umræðu og fræðsla í sam­fé­lag­inu um fjöl­breyti­leika ís­lensk­unn­ar sem er sér­stak­lega mik­il­væg fyr­ir nýja mál­not­end­ur. Íslensk­an er skóla­málið okk­ar en í Svíþjóð eru 35% fleiri kennslu­stund­ir í móður­máli á miðstigi í grunn­skól­um en hér á landi. Það hef­ur staðið lengi til að fjölga ís­lensku­tím­um í viðmiðun­ar­stunda­skrá grunn­skól­anna og nú er tím­inn kjör­inn til þess. Að auki verður lögð stór­auk­in áhersla á orðaforða í öll­um náms­grein­um til að bæta lesskiln­ing.

Mik­il­væg­asta starfið

Á síðasta ári hef­ur verið ráðist í fjöl­marg­ar aðgerðir til að byggja upp betri grunn fyr­ir mennta­kerfið okk­ar. Samþykkt voru ný lög um mennt­un, hæfni og ráðningu kenn­ara og skóla­stjórn­enda sem auka rétt­indi kenn­ara þvert á skóla­stig. Í þess­um lög­um er einnig kveðið á um kenn­ar­aráð sem ég bind mikl­ar von­ir við. Þá höf­um við farið í ár­ang­urs­rík­ar aðgerðir sem miða að því að fjölga kenn­ur­um, þær hafa meðal ann­ars skilað því að 43% aukn­ing varð í um­sókn­um um nám í grunn­skóla­kenn­ara­fræði í Há­skóla Íslands síðasta vor. Þess­um aðgerðum mun­um við halda áfram. Ný­lega bár­ust þær fregn­ir frá menntavís­inda­sviði HÍ að metþátt­taka sé í nám fyr­ir starf­andi kenn­ara í starfstengdri leiðsögn og kennsluráðgjöf.

Sam­vinna og sam­starf

Við þurf­um sam­taka­mátt skóla­sam­fé­lags­ins, sveit­ar­fé­lag­anna og heim­il­anna og skýra sýn til þess að efla mennta­kerfið okk­ar. All­ir geta lært og all­ir skipta máli eru leiðarljós nýrr­ar mennta­stefnu en drög henn­ar verða kynnt á næstu miss­er­um. Með sam­hæfðum og mark­viss­um aðgerðum get­um við bætt ár­ang­ur allra nem­enda og í því til­liti mun­um við bæði reiða okk­ur á mennt­a­rann­sókn­ir og horfa til þeirra leiða sem skilað hafa best­um ár­angri í ná­granna­lönd­um okk­ar. Ljóst er að við þurf­um einnig að fara í sér­tæk­ar aðgerðir til þess að bæta stöðu drengja í skóla­kerf­inu, nem­enda í dreifðari byggðum og nem­enda með annað móður­mál en ís­lensku. Við þurf­um að halda áfram að for­gangsraða í þágu mennt­un­ar til þess að tryggja að Ísland sé í fremstu röð; um­bæt­ur taka tíma – ekki síst í mennta­mál­um en þar höf­um við allt að vinna því framtíðin er mótuð á hverj­um ein­asta degi í ís­lensk­um skóla­stof­um. Í næstu grein, Ísland í fremstu röð II, verður greint frá stofn­un fagráða, auk­inni áherslu á nátt­úru­vís­indi, efl­ingu mennt­a­rann­sókna og nán­ar fjallað um hvernig við efl­um tungu­málið okk­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. desember 2019.

Categories
Greinar

Æskan er ekki biðstofa fullorðinsáranna

Deila grein

12/12/2019

Æskan er ekki biðstofa fullorðinsáranna

Börn eru yf­ir­leitt ekki göm­ul þegar þau átta sig á að það er betra að vera stór en lít­il, eldri en yngri. Stærð og aldri fylgja völd og mögu­leik­inn til að hafa áhrif á eigið líf og sam­fé­lag. Orðræða end­ur­spegl­ar ráðandi viðhorf til sam­fé­lags­hópa og eru börn þar eng­in und­an­tekn­ing. Ófor­svar­an­leg hegðun full­orðinna er stund­um kölluð barna­leg. Það ligg­ur í aug­um uppi að til þess að hafa vægi í sam­fé­lag­inu, eins og það er upp­byggt í dag, skipt­ir máli að vera full­orðinn.

Ósjald­an heyr­um við því haldið fram, við hin ýmsu til­efni, að börn­in séu framtíðin. Fal­leg hugs­un ligg­ur þar ef­laust að baki og ætl­un­in að benda á mik­il­vægi þess að hlúa vel að heim­in­um til þess að geta af­hent hann börn­un­um þegar þau verða stór. Það sem marg­ir átta sig hins veg­ar ekki á er að með þess­um orðum erum við að segja að tími barn­anna komi seinna. Barnæsk­an er hins veg­ar ekki biðstofa full­orðins­ár­anna. Börn og ung­menni eiga að hafa rödd frá því að þau eru fær um að koma skoðunum sín­um á fram­færi og þeirra rödd á að fá svig­rúm og vægi.

Barna­sátt­mál­inn lof­orð til barna

Fyr­ir rúm­lega þrjá­tíu árum var börn­um heims­ins gefið lof­orð. Lof­orð um að standa skyldi vörð um rétt­indi þeirra og vel­ferð fram­ar öllu öðru. Lof­orðið, sem í dag­legu tali kall­ast Barna­sátt­máli Sam­einuðu þjóðanna, markaði mik­il tíma­mót í bar­átt­unni fyr­ir rétt­ind­um barna, en sátt­mál­inn fel­ur í sér alþjóðlega viður­kenn­ingu á því að börn séu sjálf­stæðir ein­stak­ling­ar með full­gild rétt­indi, óháð rétt­ind­um full­orðinna.

Sátt­mál­inn var full­gilt­ur af Alþingi árið 1992 og lög­fest­ur 2013. Þrátt fyr­ir að langt sé um liðið eru mörg af ákvæðum hans enn ekki orðin að veru­leika. Það telst til dæm­is enn til fyr­ir­mynd­ar og vek­ur at­hygli þegar börn­um er gefið tæki­færi til að tjá sig á op­in­ber­um vett­vangi. Það ætti hins veg­ar að vera orðið með öllu sjálfsagt enda eru, þegar öllu er á botn­inn hvolft, fá mál­efni sem ekki snerta líf þeirra með ein­hverj­um hætti.

Radd­ir barna fá aukið vægi

Víðtæk end­ur­skoðun stend­ur nú yfir á allri þjón­ustu við börn á Íslandi að mínu frum­kvæði. Við stönd­um á kross­göt­um og höf­um alla burði til að búa til ein­hverja fram­sækn­ustu um­gjörð í heimi þegar kem­ur að því að hlusta á radd­ir barna og upp­fylla rétt­indi þeirra. Auk­inn skiln­ing­ur er að verða á því að radd­ir barna og Barna­sátt­mál­inn sé átta­vit­inn sem eigi að liggja til grund­vall­ar öll­um ákvörðunum og stefnu­mót­un sem varða líf yngri kyn­slóðar­inn­ar. Því til staðfest­ing­ar má nefna að rík­is­stjórn­in samþykkti fyrr á þessi ári til­lögu mína um að all­ar stór­ar ákv­arðanir sem og laga­frum­vörp sem varða börn skuli rýnd út frá áhrif­um á stöðu og rétt­indi þeirra.

Þessi hugs­un ligg­ur til grund­vall­ar allri minni vinnu í embætti fé­lags- og barna­málaráðherra. Ekki síst í fyrr­nefndi end­ur­skoðun og samþætt­ingu á þjón­ustu við börn sem nú fer fram und­ir for­ystu fé­lags­málaráðuneyt­is­ins þvert á önn­ur ráðuneyti. Hugs­un­in end­ur­spegl­ast einnig í stuðningi ráðuneyt­is­ins við ný­af­staðið Barnaþing umboðsmanns barna og ný­und­ir­rituðum sam­starfs­samn­ingi fé­lags­málaráðuneyt­is­ins við UNICEF um mark­visst sam­starf við inn­leiðingu sveit­ar­fé­laga á Barna­sátt­mál­an­um. Mun það fara fram und­ir for­merkj­um Barn­vænna sveit­ar­fé­laga og er stefnt að því að að minnsta kosti 30 pró­sent sveit­ar­fé­laga á Íslandi hafi fengið viður­kenn­ingu sem barn­væn sveit­ar­fé­lög við árs­lok 2021.

Hluti af dag­legu lífi

Til að tryggja raun­veru­lega barn­vænt sam­fé­lag þurfa börn að njóta þeirra rétt­inda sem Barna­sátt­mál­inn kveður á um í sínu nærum­hverfi á degi hverj­um. Þess vegna þarf inn­leiðing hans ekki síst að fara fram hjá sveit­ar­fé­lög­um en þangað sækja börn að stærst­um hluta þá þjón­ustu sem þau þurfa á að halda. Inn­leiðing Barna­sátt­mál­ans þýðir að for­send­ur hans gangi sem rauður þráður gegn­um starf­semi sveit­ar­fé­lags­ins á öll­um stig­um. Barna­sátt­mál­inn verði þannig ekki leng­ur fal­leg kór­óna sem sett er upp á hátíðis­dög­um held­ur hluti af dag­legu lífi, alla daga og alls staðar.

Ég legg áherslu á að hér er ekki aðeins um að ræða fal­leg orð og fög­ur fyr­ir­heit. Að baki þess­um breyt­ing­um liggja bein­hörð vís­indi en æ fleiri rann­sókn­ir sýna að vel­ferð barna skipt­ir sköp­um þegar kem­ur að því að byggja upp heil­brigt og gott sam­fé­lag til skemmri og lengri tíma. Lengi býr að fyrstu gerð og ein besta fjár­fest­ing sem sam­fé­lög geta ráðist í er að hlúa vel að börn­um.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. desember 2019.

Categories
Greinar

Endurreisn vegakerfisins

Deila grein

12/12/2019

Endurreisn vegakerfisins

Þörf fyrir fjárfestingar í samgöngum er gríðarmikil. Vegagerðin áætlar að nauðsynlegt sé að fara í um 200 verkefni næstu 25 árin og eru þær framkvæmdir alls metnar á yfir 400 milljarða króna. Í síðustu viku lagði ég fram á Alþingi uppfærða samgönguáætlun. Í henni eru framlög aukin um fjóra milljarða á ári næstu fimm árin og framkvæmdum, sem í heild eru metnar á 214 milljarða króna, er flýtt.

Til að ná enn meiri árangri er gert ráð fyrir að sértækar framkvæmdir verði fjármagnaðar sem samvinnuverkefni, sbr. Hvalfjarðargangamódel. Slík verkefni mynda sterkan hvata til nýsköpunar sem getur lækkað kostnað og stytt framkvæmdatíma. Þau eru þjóðhagslega arðbær. Sex verkefni hafa verið talin fýsileg í þeim efnum og eru til umfjöllunar í sérstöku frumvarpi um samvinnuverkefni (PPP), þ.m.t. ný Ölfusárbrú (2022) og nýr vegur um Öxi (2021).

Ný samgönguáætlun boðar byltingu í uppbyggingu og viðhaldi miðað við síðustu ár. Á næstu fimm árum er gert ráð fyrir að að lágmarki 120 milljarðar fari til vegaframkvæmda, eða um þriðjungur þess sem þarf til nauðsynlegra framkvæmda. Loksins verður hægt að endurreisa vegakerfið og tryggja viðunandi viðhald svo tryggja megi örugga og greiða umferð með áherslu á tengingu á milli byggða. Viðhald á vegum verður aukið í takt við meiri umferð og lagt verður bundið slitlag á 400-450 km á tengivegi. Gaman er að segja frá því að Vatnsnesvegur er nú loksins kominn á áætlun eftir umsagnir í samráðsgátt stjórnvalda.

Í lok tímabils samgönguáætlunar verða umferðarmestu vegir til og frá höfuðborgarsvæðinu komnir með aðskildar akstursstefnur. Það gildir um Vesturlandsveg fram hjá Borgarnesi, á Suðurlandsvegi að Hellu og á Reykjanesbraut að flugstöðinni. Unnið er að því að finna leiðir til að flýta framkvæmdum við Reykjanesbraut enn frekar, einum umferðarmesta þjóðvegi landsins. Þar eru óleyst skipulagsmál við Straumsvík en Vegagerðin telur að framkvæmdir þar fari í útboð í lok árs 2022. Þá verður jarðgöngum á Austurlandi flýtt og næstu skref að Sundabraut kynnt fljótlega.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. desember 2019.

Categories
Greinar

Borgarbyggð í fremstu röð til framtíðar

Deila grein

10/12/2019

Borgarbyggð í fremstu röð til framtíðar

Verkefni okkar sem sveitarfélags er að festast ekki í fortíðinni og hræðast ekki breytingar og áskoranir sem fylgja framtíðinni. Sveitarstjórnar fólk má ekki vera ákvarðanafælið og óttast að styggja þá sem vilja toga í tauminn þegar framtíðin eru rædd. Til að hægt sé að taka ábyrgar ákvarðanir inn í framtíðina þarf langtímasýn að liggja fyrir.

Í þeirri framkvæmdaáætlun sem nú liggur fyrir til afgreiðslu með fjárhagsáætlun sveitarfélagsins til næstu 4 ára er gert ráð fyrir 550 milljónum í skólahúsnæði og er það viðbót við milljarð sem þegar hefur verið framkvæmt fyrir síðust 2-3 ár. Þrátt fyrir það liggur enginn áætlun fyrir hjá meirihluta sveitarstjórnar um framtíðarskipulag skólamála í sveitarfélaginu. Nú liggur fyrir mat hönnuða um að húsnæði Grunnskólans á Kleppjárnsreykjum sé það illa farið að hagkvæmast sé að rífa það og byggja nýtt skólahúsnæði. En áætlanir hafa legið uppi síðust ár um að fara í nauðsynlegar endurbætur á grunnskólanum á Kleppjárnsreykjum. Kostnaðaráætlanir síðustu tveggja ára í framkvæmdaáætlun hafa farið langt fram úr öllu áætlunum, skortur er á aðhaldi og yfirsýn og útlit fyrir að sveitarfélagið sé komið langleiðina með efni í nýtt „Braggamál“ hér í Borgarbyggð.

Enginn áætlun eða framtíðarsýn hefur verið lögð fram af meirihluta sveitarstjórnar um nýtingu eigna sveitarfélagsins. En næstum allar eignir sveitarfélagsins hafa verið í mikilli viðhaldsþörf síðust ár.  Mikill tími, fjármagn og orka hefur farið í það síðustu ár að stofna vinnuhópa sem hafa skilað af sér ágætum skýrslum um nýtingu húsnæðis í eigu sveitarfélagsins og eru hópar starfandi í dag í tengslum við skipulag leikskólamála og framtíðarskipulag íþróttahússins í Borgarnesi. Ljóst er að núverandi meirihluta skortir sameiginlega sýn á framtíðina og því dettur botninn sífellt úr umræðunni þegar kemur að þeim hluta að taka ákvarðanir. Þrátt fyrir að íbúar hafi haft aðkomu að öllum vinnuhópum og skýrslum síðustu ár hefur það engu breytt um ákvarðanatökufælni meirihlutans.

Sveitarstjórnar fulltrúar meirihlutans forðast allar umræður sem krefjast niðurstöðu um langtímasýn þar sem ljóst er að þverpólitískt samkomulag næst ekki um málefni er snerta hagsmuni sveitarfélagsins til framtíðar. Þau hafa nýtt tímann vel frá síðustu kosningu til að þakka sjálfum sér fyrir jákvæða fjárhagsstöðu sveitarfélagsins, sem helgast eingöngu af jákvæðum hagrænum áhrifum sem auknar útsvarstekjur og aukið framlag úr jöfnunarsjóði hafa haft síðustu ár, ásamt því að klappa sér á bakið fyrir þau verkefni sem var unnið að á síðasta kjörtímabili eins og undirbúning að byggingu skólahúsnæðis Grunnskóla Borgarnes, nýtt deiliskipulag og ljósleiðaraverkefnið svo eitthvað sé nefnt.  Ég óttast að ekkert af þeim fjölmörgu málum sem legið hafa í loftinu ókláruð síðustu ár verði afgreidd á þessu kjörtímabili, tækifæri til uppbyggingar verði ekki nýtt og engar ákvarðanir teknar sem koma okkur á braut vaxtar fyrir sveitarfélagið. Meirihlutanum hefur ekki enn þá tekist að fanga nema lítið brot af þeim ágætu málum sem þau settu fram í málefnasamning sínum árið 2018. Á meðan engin sýn er til staðar og engin geta og eldmóður til þess að leiða verkefni áfram og klára dæmið munum við fylgjast með tekjum sveitarfélagsins ausið stefnulaust.

Við fulltrúar framsóknarflokksins í sveitarstjórn erum orðin langþreytt á að sitja fundi þar sem mikið er talað vilja til móta stefnu um hin ýmsu mál en ekkert gerist. Fyrirtækjum er ekki að fjölga, engin áform um uppbyggingu leiguhúsnæðis og engar framkvæmdir í gangi. Þær tillögur sem nú liggja fyrir alþingi um styrkingu sveitarstjórnarstigsins kalla enn fremur á það að sýn sveitarstjórnarfulltrúa sé skýr á heildarhagsmuni. Tillögur sveitarstjórnarráðherra fela í sér tækifæri til styrkingar á fjárhagslegri stöðu sveitarfélaga ásamt því að hafa jákvæð áhrif á styrk sveitarfélaganna til að takast á við þróun og eflingu á hverju svæði. Við sveitarstjórnarmenn þurfum einnig að móta okkur sýn í tengslum við þær tillögur sem liggja fyrir í samráði við íbúa.

Við getum sem sveitarfélag hvar sem landfræðileg mörk okkar munu liggja á næstu árum  verið í fremstu röð. Mikilvægt er að stöðugt endurmat sé á nýtingu tækifæra til að hagræða og framsýni sé viðhöfð í takast á við nýjar áskoranir og byggja upp til framtíðar. Það er lykilatriði að skýr framtíðarsýn liggi fyrir til grundvallar ákvörðunum með heildarhagsmuni íbúa að leiðarljósi. Verum ábyrg, á tánum, full af eldmóði og óhrædd við það að vera framsækin.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti Framsóknarmanna í Borgarbyggð.