Categories
Fréttir Greinar

Samstaða samfélagsins aðdáunarverð

Deila grein

04/04/2023

Samstaða samfélagsins aðdáunarverð

Í ljósi atburða síðustu daga er vert að huga vel að hvort öðru og þakka fyrir að ekki fór verr. Það var dýrmætt að sjá þann mikla styrk sem býr í samfélaginu okkar, náunga kærleikinn og greiðasemina.

Eftir slíkan veðurofsa eru mörg verkefni sem bíða og það mun taka tíma að koma byggðarkjörnunum okkar í samt horf. Jafnframt þarf að meta það tjón sem orðið hefur og þá sérstaklega á Norðfirði.

Þar sönnuðu snjóflóðavarnargarðar gildi sitt og vil ég ekki hugsa til þess sem orðið hefði ef þeirra nyti ekki við. Síðustu dagar ýta enn frekar undir mikilvægi þess að koma upp fjórða og síðasta varnargarðinum en hönnun hans er nú þegar lokið.

Mig langar að þakka öllum þeim sem hafa verið til staðar og aðstoðað samfélagið okkar síðustu daga, það er ómetanlegt að finna allan þann stuðning og kraft sem okkur barst allsstaðar að af landinu. Ég er ofboðslega stolt af því öfluga viðbragðsteymi sem hefur verið til staðar síðustu viku, það hefur verið vakið og sofið við það að tryggja öryggi íbúa, veita aðstoð og vera til staðar sem er ómetanlegt. Einnig ber að þakka starfsfólki og verktökum sveitarfélagsins, fyrirtækjum og stofnunum í Fjarðabyggð og svo ótal mörgum öðrum sem unnu mikið þrekvirki við erfiðar aðstæður.

Eitt er víst að alltaf má draga lærdóm af slíkum atburðum og munum við fara yfir alla þá verkferla sem farið var í, rýna þá og meta. Það er alltaf eitthvað sem betur má fara en samstillt átak allra og gott samstarf við lögregluna á Austurlandi, Almannavarnir, Veðurstofuna og fleiri tryggði okkur góða yfirsýn í okkar víðfeðma sveitarfélagi.

Hlúum að andlegu heilsunni og verum vakandi fyrir einkennum áfalla og streitu hjá okkur sjálfum og öðrum nákomnum. Nýtum okkur þau úrræði sem eru til staðar, þjónustumiðstöð Almannavarna, Rauða krossinn, starfsmenn sveitarfélagsins, kjörna fulltrúa og fleiri. Það á enginn að standa einn í þeim verkefnum sem framundan eru. Að þessu sögðu vona ég að vorið og sumarið verði okkur hliðhollt og óska ykkur öllum gleðilegrar páskahátíðar.

Þuríður Lillý Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar í Fjarðabyggð

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 4. apríl 2023.

Categories
Fréttir

Njóta innlendir framleiðendur sanngirni?

Deila grein

03/04/2023

Njóta innlendir framleiðendur sanngirni?

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, hefur lagt fram á Alþingi fyrirspurn til matvælaráðherra um samanburð á framleiðslu á innlendu og innfluttu kjöti.

Ingibjörg spyr matvælaráðherra hvort sambærilegar kröfur og reglur um aðbúnaðvið og framleiðslu séu gerðar um heilbrigði og velferð dýra? Ef svo sé ekki, hverjar séu þá umfram kröfurnar og reglurnar sem innlendir framleiðendur verði að lúta í þeim efnum.

Eins spyr Ingibjörg hvort, ef svo sé að strangari kröfur séu gerðar hér á landi, greint hafi verið hver sé umfram kostnaðurinn við innlenda kjötframleiðslu í samanburði við framleiðslu á innfluttu kjöti vegna strangari krafna hérlendis.

Ingibjörg spyr einnig matvælaráðherra hvort það séu gerðar mismunandi kröfur varðandi sýklalyfjanotkun við framleiðslu á innlendu og innfluttu kjöti og þá hverjar, ef svo sé. Þá kallar hún eftir að fá upplýst hversu mikið magn sé notað af sýklalyfjum við framleiðsluna.

Í framhaldi spyr Ingibjörg um afstöðu matvælaráðherra til þess hvort áform séu um að merkja kjöt sérstaklega sem sé meðhöndlað með sýklalyfjum með fyrirbyggjandi hætti eða hvort upplýsa eigi neytendur um slíka sýklalyfjanotkun með einhverjum hætti. Þá er lagt fyrir ráðherra að svara hvort geti komið til þess að takmarka eða banna innflutning eða dreifingu dýraafurða sem eru framleiddar í andstöðu við lög um velferð dýra.

Þá spyr Ingibjörg hvort fylgst hafi verið með og skráð hvort innlend framleiðsla á kjöti hafi dregist saman samhliða auknum innflutningi á kjöti síðustu 10 ár. Ef ekki, sé matvælaráðherra umhugað að halda utan um slíkar upplýsingar með einhverjum hætti?

Það verður fróðlegt að rýna svör matvælaráðherra þegar þau berast, það er mikið í húfi fyrir land og þjóð, þó sé ekki nema það að vera á sömu blaðsíðunni.

Framsókn hefur barist fyrir því að banna dreifingu á matvælum með sýklalyfjaónæmum bakteríum.

Heiminum öllum stafar ógn af sýklalyfjaónæmi og eru spár vísindamanna ógnvænlegar, ef ekki verði brugðist við af mikilli festu, enda muni um 10 milljónir deyja af völdum sýklalyfjaónæmra baktería árið 2050, fleiri en af völdum krabbameins.

***

Categories
Fréttir Greinar

Til varnar lýðræðinu

Deila grein

02/04/2023

Til varnar lýðræðinu

Fall Berlín­ar­múrs­ins er ein sterk­asta minn­ing mín úr æsku. Ég man það eins og í gær þegar hundruð Aust­ur-Þjóðverja þyrpt­ust að tákn­mynd ein­ræðis­ins og Berlín­ar­múr­inn var mölvaður niður. Ég sat með pabba og horfði á þenn­an sögu­lega viðburð í beinni út­send­ingu og geðshrær­ing­in var mik­il. Sov­ét­rík­in voru fall­in og með þeim þeir ein­ræðis­stjórn­ar­hætt­ir sem ráðið höfðu ríkj­um hand­an járntjalds­ins. Fólkið braust út úr fjötr­um hræðilegs stjórn­ar­fars, sem elur ekk­ert af sér annað en ótta og kúg­un. Ekki bjóst ég við því að um rúm­um ald­ar­fjórðungi síðar væri Evr­ópa að fást við fas­isma í tún­fæti sín­um.

Ræt­ur ein­ræðis

„Ein­ræðis­hyggja er ekki póli­tísk hug­mynda­fræði held­ur aðferð til hrifsa til sín völd og halda þeim,“ þannig skil­greindi fyrr­ver­andi ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna og pró­fess­or­inn Madeleine Al­bright viðfangs­efnið. Þessi póli­tíska aðferðafræði er að vísu leyti frem­ur óljós en hef­ur verið beitt bæði af stjórn­mála­mönn­um lengst til hægri og vinstri. Upp­sprettu ein­ræðis­hyggju má oft rekja til óánægju eða reiði al­menn­ings, hvort held­ur vegna tapaðs stríðs, glataðra landsvæða, at­vinnum­issis eða ein­hverr­ar blöndu þess­ara þátta. Þekkt­ustu leiðtog­ar ein­ræðis­hyggju hafa oft búið yfir ákveðum per­sónutöfr­um sem gera þeim kleift að tengj­ast fjöld­an­um til­finn­inga­bönd­um, breyta reiði al­menn­ings í hug­læga sam­stöðu og til­gang. Ásamt því hafa leiðtog­ar þeirra lagt of­ur­vald á að hafa stjórn á upp­lýs­ing­um í ríkj­um sín­um. Hvort held­ur með um­fangs­mikl­um áróðri, upp­lýs­inga­óreiðu eða fals­frétt­um. Mark­miðið er í raun að bæla frjálsa hugs­un.

Hrika­leg­ar af­leiðing­ar ein­ræðis­hyggju 20. ald­ar­inn­ar

Sag­an hef­ur sýnt okk­ur að fas­ist­ar kom­ast sjaldn­ast til valda með vald­aránstilraun held­ur taka þeir eitt skref í einu og fylgja oft leik­regl­um lýðræðis­ins. Eft­ir mis­heppnað vald­arán í Bæj­aralandi árið 1923 í suður­hluta Þýska­lands ein­beitti Nas­ista­flokk­ur­inn sér að því að kom­ast lög­legu leiðina að völd­um en tók þátt í kosn­inga­s­vindli sem leiddi að lok­um til þess að Ad­olf Hitler var skipaður kansl­ari. Í kjöl­farið réðst hann gegn stofn­un­um rík­is­ins, ógnaði póli­tísk­um and­stæðing­um og kom á alræðis­stjórn. Ítal­ía var und­ir fasískri stjórn í rúma tvo ára­tugi, þar sem Benito Mus­sol­ini réð ríkj­um. Af­leiðing­ar stjórn­ar­fars­ins í Þýskalandi og Ítal­íu voru hrika­leg­ar. Þýska­land hóf seinni heims­styrj­öld­ina og þegar yfir lauk er talið að um 80 millj­ón­ir manna hafi lát­ist í átök­un­um, sem náðu alla leið til Asíu, og þar af að minnsta kosti sex millj­ón­ir Gyðinga og aðrir minni­hluta­hóp­ar sem voru skipu­lega myrt­ir í hel­för­inni.

Lýðræði er far­sæl­asta stjórn­ar­farið en stuðning­ur minnk­ar

Lýðræði er horn­steinn far­sæld­ar í vest­ræn­um sam­fé­lög­um. Stjórn­ar­fyr­ir­komu­lagið er ekki galla­laust. Hins veg­ar hef­ur ekk­ert stjórn­ar­far reynst betra enda bygg­ist það á skýr­um lög­um, frelsi ein­stak­linga til at­hafna og tján­ing­ar, vald­dreif­ingu og sjálf­stæðum dóm­stól­um ásamt reglu­bundn­um kosn­ing­um. Þessi grund­vall­ar­atriði stjórn­ar­fars hafa skapað mik­il auðæfi og vel­sæld í þeim sam­fé­lög­um sem hafa virt og hlúð að lýðræðinu. Staða lýðræðis á heimsvísu er þó brot­hætt. Mik­il eft­ir­vænt­ing og bjart­sýni greip um sig við fall Berlín­ar­múrs­ins og þá til­finn­ingu að lýðræði væri að ná yf­ir­hönd­inni. Því miður er vax­andi skoðun að annað stjórn­ar­far en lýðræði geti búið til betri lífs­kjör. Lýðræðis­vís­ir tíma­rits­ins „The Econom­ist“, sem fylg­ist með lýðræði um all­an heim og bygg­ir á mæli­kvörðum á borð við virðingu fyr­ir réttri málsmeðferð og trúfrelsi, gef­ur til kynna að heilsu lýðræðis hafi farið hrak­andi í 70 lönd­um frá ár­inu 2017. Sam­hliða því hafa skoðanakann­an­ir sýnt að þótt flest­ir trúi á full­trúa­lýðræði tel­ur einn af hverj­um fjór­um já­kvætt að leyfa leiðtoga að stjórna án aðkomu þings eða dóms­kerf­is. Einn af hverj­um fimm er hlynnt­ur her­stjórn. Að sama skapi kom fram í nýj­ustu grein­ingu Lýðræðis marg­breyti­leik­ans að um 72% íbúa heims­ins búa við ein­ræði, sam­an­borið við 50% fyr­ir ára­tug. Í fyrsta sinn í meira en tvo ára­tugi eru fleiri ein­ræðis­rík­is­stjórn­ir en lýðræðis­rík­is­stjórn­ir.

Or­sak­ir dvín­andi til­trú­ar á lýðræði á 21. öld­inni

Það er öf­ug­snúið að eina skýr­ingu á þess­ari þróun í sam­tím­an­um má rekja til þeirra um­fangs­miklu tækni­fram­fara sem við njót­um á hverj­um degi. Segja má að sjald­an hafi ein­stak­ling­ur­inn upp­lifað eins mikl­ar fram­far­ir á jafn skömm­um tíma. Gervi­greind­in, sem tröllríður öllu um þess­ar mund­ir, er einnig spenn­andi en marg­ar áskor­an­ir munu fylgja þess­um breyt­ing­um sem hún hef­ur í för með sér. Það er þó einkum tvennt sem fylg­ir þessu tækniumbreyt­inga­skeiði sem minnk­ar til­trúna á lýðræðið. Í fyrsta lagi þró­un­in á vinnu­markaðnum. Mik­il til­færsla er að eiga sér stað í hag­kerf­inu með nýrri tækni. Hefðbund­in störf líkt og í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um, leigu­bíl­stjór­ar, prent­ar­ar og fleiri hafa upp­lifað að störf­in séu úr­elt eða mikl­ar breyt­ing­ar á starfs­um­hverfi sínu í fjórðu iðnbylt­ing­unni. Þessi þróun er ekki ný af nál­inni og ekki svo ólík þeirri sem var uppi í kjöl­far iðnaðar- og tækni­bylt­inga á fyrri tím­um. Í sum­um ríkj­um í Evr­ópu er eitt af hverj­um fjór­um ung­menn­um án at­vinnu og hlut­fallið er enn hærra hjá inn­flytj­end­um. Það er því skilj­an­legt að efi geti farið að mynd­ast gagn­vart lýðræðinu, sem virðist ekki finna þess­um ein­stak­ling­um stað í til­ver­unni. Í öðru lagi mikið magn af upp­lýs­inga­óreiðu og fals­frétt­um og verri staða rit­stýrðra fjöl­miðla. Þessi fyr­ir­bæri eru þó ekki ný af nál­inni. Frægt er í sjálf­stæðis­stríði Banda­ríkj­anna, þegar sjálf­ur Benja­mín Frank­lín notaði prentvél­ina til að dreifa „fals­frétt­um“ um voðaverk Breta. Í þá daga var það mik­il fyr­ir­höfn að koma slík­um sög­um af stað og náði til tak­markaðs fjölda. Annað dæmi er hvernig nas­ist­ar í Þýskalandi gáfu hverju heim­ili út­varp til að breiða út áróður. Á öld sam­fé­lags­miðla er staðan hins veg­ar allt önn­ur. Í dag er auðvelt og ódýrt að dreifa „fals­frétt­um“ til breiðs hóps ein­stak­linga. Nán­ast ómögu­legt er að átta sig á því hvort frétt­ir á Face­book komi frá ábyrg­um blaðamanni, áhrifa­valdi, er­lendri rík­is­stjórn eða er fram­leidd af gervi­greind. Sam­bland efna­hags­legr­ar óvissu og skorts á úrræðum í þeim efn­um frá lýðræðis­lega kjörn­um stjórn­mála­mönn­um get­ur verið gróðrar­stía fyr­ir fas­isma. Efna­hags­leg­ur og póli­tísk­ur óstöðug­leiki óx í fram­haldi af fjár­málakrepp­unni 2008. Auk­in óánægja hef­ur þó víða kraumað und­ir frá því fyr­ir alda­mót þar sem ýtt hef­ur verið und­ir þá skoðun að hnatt­væðing hafi leitt til auk­ins efna­hags­legs ójafnaðar og flutn­ings á hefðbundn­um störf­um. Slík­ar skoðanir hafa víða kynt und­ir gremju og óánægju.

Hlut­verk fjöl­miðla stórt í lýðræðis­legri umræðu

Frjáls­ir fjöl­miðlar veita stjórn­völd­um, stofn­un­um og at­vinnu­líf­inu nauðsyn­legt aðhald. Án traustra og óhlut­drægra fjöl­miðla minnka lík­urn­ar á að fram­kvæmd lýðræðis­legra kosn­inga sé traust og þá dreg­ur jafn­framt úr póli­tískri ábyrgð. Tekju­öfl­un þeirra hef­ur átt veru­lega und­ir högg að sækja vegna sam­fé­lags­miðla og stórra efn­isveitna, þar sem aug­lýs­inga­tekj­ur hafa í vax­andi mæli farið til þess­ara fyr­ir­tækja. Að mínu mati eru berg­máls­hell­ar sam­tím­ans og al­grím­ar ekki til þess falln­ir að styðja við lýðræðis­lega umræðu.

Til að styðja við frjálsa fjöl­miðla á Íslandi er unnið að nýrri fjöl­miðlastefnu til árs­ins 2030 sem ætlað er að styrkja og styðja við rekstr­ar­um­hverfi fjöl­miðla. Frum­varp um rekstr­ar­styrki til fjöl­miðla ligg­ur fyr­ir Alþingi og gert er ráð fyr­ir aukn­um stuðningi í formi skatta­legra íviln­ana í nýrri rík­is­fjár­mála­áætl­un, sem nem­ur tæp­um 2 mö. kr. á tíma­bil­inu. Auk þess sem unnið verður að því að draga úr um­svif­um Rík­is­út­varps­ins á sam­keppn­ismarkaði. Köld rök­vísi seg­ir okk­ur að nú­ver­andi staða á fjöl­miðlum er ekki sjálf­bær.

Loka­orð

Tíu vik­um eft­ir dauða Frank­lins Roosevelts og tæp­um tveim­ur mánuðum eft­ir upp­gjöf Þjóðverja flaug Harry Trum­an for­seti Banda­ríkj­anna til San Francisco til að ávarpa full­trúa hinna ný­stofnuðu Sam­einuðu þjóða. Ræða hans ein­kennd­ist af mik­illi bjart­sýni og von­ar­neista um bjart­ari tíma en að sama skapi hafði hann uppi sterk varnaðarorð: „Ein­ræðis­hyggja dó ekki með Mus­sol­ini“ varaði hann við og hann hélt áfram: „Hitler kann að vera dauður, en fræ­in sem hans sjúki heili sáði náðu því miður fót­festu í hug­um of margra. Staðreynd­in er sú að auðveld­ara er að losa sig við harðstjóra og eyðileggja fanga­búðir held­ur en að drepa hug­mynd­irn­ar sem urðu kveikj­an að þeim.“ Harry Trum­an var einkum að vísa til þeirr­ar hug­mynda­fræði að eig­in þjóð byggi yfir eig­in­leik­um og rétt­ind­um um­fram alla aðra. Seinni heims­styrj­öld­in var hug­mynda­fræðilegt stríð, þar sem lýðræðisöfl­in börðust við fas­ista. Næsta stríð sem háð var, kalda stríðið, var einnig stríð hug­mynda, þ.e. lýðræði gegn komm­ún­isma. Þriðja hug­mynda­fræðilega stríðið er hafið með inn­rás Rússa í Úkraínu.

Það kem­ur óþægi­lega á óvart að sjá upp­gang fasískr­ar hug­mynda­fræði og hreyf­inga á 21. öld­inni í ljósi þeirra hörmu­legu af­leiðinga sem slík­ar stjórn­ir höfðu á 20 öld­inni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Jafnræði landsbyggðar – Tryggjum öllum grunnheilbrigðisþjónustu í heimabyggð

Deila grein

02/04/2023

Jafnræði landsbyggðar – Tryggjum öllum grunnheilbrigðisþjónustu í heimabyggð

Heilbrigðisstofnun Suðurlands rekur öfluga og blómlega starfsemi um allt Suðurland og heldur úti níu starfsstöðvum víðs vegar um Suðurlandið. aðalstarfsemi stofnunarinnar er á Selfossi þar sem sjúkrahúsið er staðsett. Stofnunin er m.a. með starfsemi í Hveragerði sem er í um 15 mínútna fjarlægð frá Selfossi. Í Hveragerði búa nú um 3.000 manns. Það þykir eðlilegt að slík starfsstöð sé til staðar þrátt fyrir að ekki sé um langan veg að fara á milli Hveragerðis og Selfoss.

Suðurnesjabær, sem varð til við sameiningu Sandgerðis og Garðs árið 2018, hýsir nú tæplega 4.000 íbúa. Þar er hins vegar ekki um neina heilsugæslu að ræða né hjúkrunarheimili og þurfa því íbúar að leita til annarra sveitarfélaga eftir heilbrigðisþjónustu. Gríðarleg fjölgun hefur verið í sveitarfélaginu á undanförnum árum og er sveitarfélagið með stórt og mikið verkefni í fanginu sem snýr að vegalausum börnum þar sem flugstöðin er í Suðurnesjabæ og fellur því þessi málaflokkur sjálfkrafa á barnavernd sveitarfélagsins með tilheyrandi kostnaði sem það hefur í för með sér. Gera má ráð fyrir að það taki u.þ.b. 12 mínútur að aka á milli Suðurnesjabæjar og Reykjanesbæjar sem er rétt tæplega sá tími sem það tekur að aka á milli Hveragerðis og Selfoss. Bæjarstjórn Suðurnesjabæjar hefur ítrekað óskað eftir lagfæringu á þessu ófremdarástandi og aukinn þrýstingur verið settur á ríkið eftir sveitarstjórnarkosningarnar í vor.

Ríkið hefur gert Heilbrigðisstofnun Suðurlands kleift að reka sínar starfsstöðvar af miklum myndarskap en einhverra hluta vegna hefur Heilbrigðisstofnun Suðurnesja ekki séð sér fært að gera slíkt hið sama. Það eykur auðvitað álagið á stofnunina í Reykjanesbæ sem á, eins og allir vita, í verulegu basli með að sinna því sem henni ber. Ég vill einnig benda á það að það eru þrír byggðarkjarnar á íslandi sem hafa enga heilbrigðisþjónustu, þeir eru Garður, Sandgerði og Hellissandur. Íbúar landsbyggðar eiga rétt á að fá heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Og gæta verður jafnræðis óháð búsetu í landinu

Anton Guðmundsson
Oddviti framsóknar og formaður bæjarráðs í Suðurnesjabæ

Categories
Fréttir

„Breytum reglum um veðsetningu lána fyrstu kaupenda“

Deila grein

31/03/2023

„Breytum reglum um veðsetningu lána fyrstu kaupenda“

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, ræddi síðustu stýrivaxtahækkun Seðlabankans í störfum þingsins.

„Stýrivaxtahækkanir og verðbólga hækka lánin, matarkarfan er orðin dýrari, tryggingar hafa hækkað. Þær jákvæðu fréttir berast þó að verðbólgan virðist vera að þokast niður,“ sagði Ágúst Bjarni.

„Allt of margir eiga erfitt með afborganir lána og sumir neyðast jafnvel til að selja eignir, sem þó getur reynst erfitt eins og markaðurinn lítur út í dag. Þróunin mun að öllu óbreyttu halda áfram þegar fastir vextir óverðtryggðra lána renna sitt skeið á enda. Þá hefur hlutfall fyrstu kaupenda á fasteignamarkaði dregist verulega saman. Þetta er vond þróun,“ sagði Ágúst Bjarni.

Húsnæðismarkaðurinn er í dag botnfrosinn, horfir Ágúst Bjarni til þess rýmka verði reglur og kröfur um veitingu hlutdeildarlána til fyrstu kaupenda. Eins nefndi hann hugmyndir um að breyta reglum um veðsetningu lána fyrstu kaupenda til að auðveldara sé að festa kaup á húsnæði.

„Mér þykir líklegast að nauðsynlegt sé að ráðast í sértækar aðgerðir, þótt tímabundnar geti verið, fyrir þá sem fyrirhuga byggingu hagkvæmra íbúða á næstu misserum. Þá ákalla ég lífeyrissjóðina að koma inn með öflugri hætti og taka þátt í uppbyggingu heilbrigðs leigumarkaðar. Þurfi til þess lagabreytingu er það okkar hér á þingi að bregðast við því,“ sagði Ágúst Bjarni.


Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Eins og þing og þjóð hefur ekki farið varhluta af kynnti seðlabankastjóri tólftu stýrivaxtahækkunina í röð í síðustu viku. Stýrivaxtahækkanir og verðbólga hækka lánin, matarkarfan er orðin dýrari, tryggingar hafa hækkað. Þær jákvæðu fréttir berast þó að verðbólgan virðist vera að þokast niður. Afleiðingar hækkunar eru auðvitað margþættar. Allt of margir eiga erfitt með afborganir lána og sumir neyðast jafnvel til að selja eignir, sem þó getur reynst erfitt eins og markaðurinn lítur út í dag. Þróunin mun að öllu óbreyttu halda áfram þegar fastir vextir óverðtryggðra lána renna sitt skeið á enda. Þá hefur hlutfall fyrstu kaupenda á fasteignamarkaði dregist verulega saman. Þetta er vond þróun. Húsnæðismarkaðurinn sem hefur verið í mikilli grósku undanfarin ár virðist vera botnfrosinn. Við þurfum á einhverjum tímapunkti að horfa til rýmkunar á reglum og kröfum um veitingu hlutdeildarlána til fyrstu kaupenda. Við þurfum núna að breyta reglum um veðsetningu lána fyrstu kaupenda til að auðveldara sé að festa kaup á húsnæði. Við þurfum núna að greina umhverfi framkvæmdaraðila. Mér þykir líklegast að nauðsynlegt sé að ráðast í sértækar aðgerðir, þótt tímabundnar geti verið, fyrir þá sem fyrirhuga byggingu hagkvæmra íbúða á næstu misserum. Þá ákalla ég lífeyrissjóðina að koma inn með öflugri hætti og taka þátt í uppbyggingu heilbrigðs leigumarkaðar. Þurfi til þess lagabreytingu er það okkar hér á þingi að bregðast við því.

Virðulegur forseti. Það eru ýmis verkfæri til staðar og nú er spurningin um að nýta þau. Ég er tilbúinn til að vinna að lausn mála og kalla eftir því að fleiri verði með mér í því liði.“

Categories
Fréttir Greinar

Lið fyrir lið

Deila grein

31/03/2023

Lið fyrir lið

Í gær var skrifað undir samninga milli Sjúkratrygginga Íslands, Klíníkarinnar í Ármúla og Handlæknastöðvarinnar í Glæsibæ um framkvæmd 700 liðskiptaaðgerða á þessu ári.

Á Íslandi eru tæplega 2000 manns á biðlista eftir liðskiptiaðgerð. Allt of margir á þeim lista hafa beðið of lengi eftir aðgerð þannig að sjúkdómsástandið er farið að skerða lífsgæði og draga verulega úr virkni. Góðu fréttirnar eru þær að við eigum fjölmarga hæfileikaríka skurðlækna hér á landi, öflugt heilbrigðisstarfsfólk og almennt góða aðstöðu til að framkvæma þessar aðgerðir. Við höfum því fulla burði til þess að stytta biðlista og halda í við hratt vaxandi þörf á liðskiptaaðgerðum til framtíðar. Samstillt átak og samvinna kerfisins í heild er forsenda þess að það gangi eftir.

Vaxandi þörf fyrir liðskiptaaðgerðir

Undanfarna áratugi hefur orðið mikil aukning í liðskiptaaðgerðum á heimsvísu og jókst uppsöfnuð þörf fyrir þessum aðgerðum einnig í heimsfaraldrinum. Algengast er að skipt sé um hné og næst algengast er að skipt sé um mjaðmir. Ein helsta undirliggjandi orsök þess að skipta þarf um lið er slitgigt en hún eykst með árunum. Við lifum lengur með slitgigtinni en við gerðum áður og því er þörf fyrir liðskiptaaðgerðir að aukast samhliða breyttri aldurssamsetningu. Aukin þróun og bætt tækni í bæði aðgerðum og gerviliðunum sjálfum hefur aukið möguleikann á liðskiptaaðgerðum fyrr á lífsleiðinni. Sökum þessa hefur aðgerðum einnig fjölgað í yngri aldurshópum. Það er alveg ljóst að þörfin fyrir liðskiptaaðgerðir mun halda áfram að aukast næstu árin og við þeirri þróun þarf að bregðast.

Jafnt aðgengi óháð efnahag

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé réttlætismál. Núverandi fyrirkomulag liðskiptaaðgerða gengur þvert á það markmið. Það er skýrt að óbreytt staða er ekki valmöguleiki. Þegar ekki eru til staðar samningar um þjónustukaup ríkis á einkarekinni heilbrigðisþjónustu sem þörf er á, höfum við ekki tök á að skipuleggja heilbrigðisþjónustu landsins heildstætt.

Ef stytta á bið eftir liðskiptaaðgerðum og á sama tíma mæta vaxandi þörf fyrir slíkum aðgerðum þarf markvisst að halda áfram að fjölga aðgerðum allra þjónustuaðila næstu árin. Til þess að ná því markmiði þarf að huga að mörgu í skipulagi þjónustunnar. Sérstaklega varðandi legurými og mönnun. Við verðum að nýta allt kerfið og virkja alla þjónustuaðila til að taka höndum saman og leysa þetta viðamikla verkefni.

Ekki sækja vatnið yfir lækinn

Í heilbrigðisþjónustu þarf sífellt að endurmeta skipulag og forgangsröðun til að bregðast við síbreytilegum þörfum þjóðfélagsins. Þegar kemur að þjónustukaupum hins opinbera þá er mikilvægt að hafa í huga heilsu og hag þjóðarinnar til lengri tíma. Hún verður ekki tryggð nema með jöfnu aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Allir sjúkratryggðir einstaklingar eiga að komast í liðskiptiaðgerð á ásættanlegum tíma án tillits til efnahags.

Það er vert að hafa í huga að sjúkratryggðir einstaklingar hafa heimildir til að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins á grundvelli EES- samningsins ef ekki er hægt að veita þá þjónustu innan ákveðinna tímamarka hér á landi. Það þjónar ekki hagsmunum sjúklingsins og er ekki skynsamleg nýting á almannafé að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu erlendis sem hægt er að bjóða upp á hér á landi með hagkvæmari hætti.

Samvinna

Við búum svo vel að eiga hæft og vel menntað heilbrigðisstarfsfólk sem hefur ávallt að leiðarljósi að forgangsraða mannafla, fjármunum og aðstöðu í þágu einstaklingsins sem þarf á hjálp að halda. Hér er líka ríkisstjórn sem stendur með heilbrigðiskerfinu og forgangsraðar fjármunum í þágu þess. Við erum lítið land og þurfum á því að halda að geta unnið saman í þágu fólksins í landinu. Ef allir leggja sitt af mörkum, stjórnvöld og þjónustuaðilar óháð rekstrarformi, er mögulegt að eyða biðlistum í liðskiptaaðgerðir og auka lífsgæði fjölmargra Íslendinga.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Heima er best

Deila grein

29/03/2023

Heima er best

Öldrun er ó­um­flýjan­legur hluti af lífinu, þegar við eldumst söfnum við að okkur þekkingu, lífs­reynslu og visku sem getur verið okkur sjálfum og öðrum dýr­mæt. Þakk­læti, sterkari og dýpri tengsl við fjöl­skyldu, vini og ást­vini og ekki síður oft og tíðum aukinn tími til að sinna á­huga­málum sem veita á­nægju og aukna lífs­fyllingu.

Það eru margir kostir sem fylgja því að eldast, en einnig á­skoranir. Með hækkandi aldri er ekki ó­senni­legt að fólk þurfi að­stoð og stuðning við dag­leg verk­efni, sér í lagi þegar heilsan tekur upp á að bregðast. Þörfin fyrir að­stoð verður stundum meiri með aldrinum og því er mikil­vægt að fólk hafi mögu­leika á að þiggja þjónustu sem það getur treyst á. Þjónustu sem eykur öryggi, lífs­gæði, vald­eflir og mætir þjónustu­þörf eins og best verður á kosið hverju sinni. Þegar við spyrjum eldra fólkið okkar út í óskir sínar eru svörin oftast á þá leið að ein­stak­lingurinn vill geta búið heima eins lengi og kostur er. En svo það sé mögu­legt verðum við að skapa að­stæður sem styðja við þeirra óskir.

Um mitt ár 2019 var undir­ritaður samningur milli Sjúkra­trygginga Ís­lands (SÍ) og Öldrunar­heimila Akur­eyrar (ÖA) sem fól m.a. í sér heimild til að hefja ný­sköpunar- og þróunar­verk­efni um sveigjan­leg dag­dvalar­rými. Þar var á­hersla lögð á þver­fag­lega teymis­vinnu til að skapa mark­vissa og öfluga starf­semi. Sveigjan­leg dag­dvöl sem var þjónusta alla daga, allan ársins hring sem að­lagaði sig þörfum ein­stak­lingsins. Á­hersla var lögð á að styðja not­endur dag­þjálfunar til sjálf­stæðis og sjálf­ræðis, á­samt því að efla færni og sjálfs­bjargar­getu heima og í dag­þjálfun.

Sveigjan­leg dag­þjálfun

Hug­mynda­fræði dag­þjálfunar eða dag­dvalar er að vera stuðnings­úr­ræði við eldra fólk sem býr í heima­húsum. Mark­miðið með þjálfuninni er að við­halda færni og getu fólks til að búa á­fram heima og er á­vinningurinn af því að koma í veg fyrir eða seinka vistun á hjúkrunar­heimili. Fjöl­breytni og sveigjan­leiki úr­ræða skiptir höfuð­máli og veitir sveigjan­leg dag­þjálfun marg­vís­legan á­vinning sem getur hjálpað til við að auka lífs­gæði.

Einn af helstu kostum þessarar þjónustu er mögu­leikinn til að hlusta á það sem eldra fólkið vill og sníða þjónustuna að þess á­herslum. Þjálfun sem þessi getur veitt veru­legan á­vinning m.a. með bættri and­legri og til­finninga­legri líðan. Fjöl­skyldu­með­limir eru oft og tíðum þeir aðilar sem bera á­byrgð á eldri ást­vinum sínum og það getur á tímum verið krefjandi.

Með því að nýta sveigjan­lega dag­þjálfun geta um­önnunar­aðilar dregið sig í hlé og sinnt sínum verk­efnum á sama tíma og þeir vita að ást­vinir þeirra fá þá um­önnun sem þörf er á. Þá hefur fé­lags­leg ein­angrun verið vanda­mál meðal eldra fólks, sér­stak­lega þeirra sem búa einir eða hafa tak­markaða hreyfi­getu. Með sveigjan­legri dag­þjálfun aukast sam­skipti við aðra sem getur hjálpað til við að koma í veg fyrir ein­mana­leika, kvíða og þung­lyndi.

Verk­efnið hefur skilað árangri

Verk­efnið hefur skilaði sýni­legum árangri, það er ó­tví­ræður á­vinningur af sveigjan­legri dag­þjálfun í formi bættra lífs­gæða fyrir not­endur og fjöl­skyldur þeirrar. Not­endur, að­stand­endur og starfs­fólk eru að mestu sam­mála um að úr­ræðið hafi bætt and­lega líðan og hafi stuðlað að við­heldni og jafn­vel fram­förum í líkam­legri færni og getu. Úr­ræðið er nú þegar orðinn mikil­vægur hlekkur í þróun milli­stigsúr­ræða í þjónustu við aldraða.

Rauði þráðurinn í niður­stöðum framan­greinds ný­sköpunar- og þróunar­verk­efnis var að um­sóknum um hjúkrunar­rými fækkaði. Þátt­tak­endum fannst þeir fá þjónustu sem veitti þeim tæki­færi til að geta búið lengur heima við öryggi, þar sem þeim var tryggð sú að­stoð sem þeir þurftu á að halda.

Þá upp­lifðu að­stand­endur þeirra sem tóku þátt í verk­efninu einnig aukið öryggi. Hér er um að ræða þjónustu sem festa þarf í sessi til fram­tíðar.

Vilji til að þjónusta eldra fólk

Sam­setning mann­fjöldans á Ís­landi er að þróast á þann veg að hlut­fall eldra fólks hækkar frá því sem áður var og við þurfum að tryggja að kerfin okkar verði til­búin til þess að styðja við þennan stækkandi hóp. Það getum við gert með því að koma til móts við fólk með fjöl­breyttum úr­ræðum og þjónustu. Ný við­horf í þjónustu við eldra fólk þar sem á­hersla er lögð á aldurs­vænt og styðjandi sam­fé­lag munu leiða okkur að betri sam­fellu og sterkari heildar­sýn fyrir þjónustu við eldra fólk.

Á­vinningurinn af að­gerðum sem þessum dregur úr á­lagi á ýmsum sviðum heil­brigðis­mála eins og t.d. heilsu­gæslu, fé­lags­þjónustu og hjúkrunar­heimilum. Auk þess með því að veita eldra fólki þjónustu við hæfi og þörf hverju sinni verða meiri líkur á auknum lífs­gæðum og sjálf­stæði eldra fólks.

Mark­miðið stjórn­valda er að bæta lífs­gæði eldra fólks með því við­halda færni og virkni ein­stak­lingsins og þar spila for­varnir, heilsu­efling og endur­hæfing stóran þátt í heil­brigðri öldrun þjóðarinnar. Það sýnir sig einna best í þings­á­lyktunar­til­lögu sem er nú í með­förum Al­þingis.

Um er að ræða að­gerða­á­ætlun um þjónustu við eldra fólk sem ætlað er að vera leiðar­vísir fyrir stjórn­völd til að skapa skýra fram­tíðar­sýn um hvaða leiðir verði farnar til að bæta þjónustu við eldra fólk og vinna heildar­stefnu sem felur í sér að eitt þjónustu­stig taki hnökra­laust við af öðru, að á­byrgð á þjónustu­þáttum milli aðila sé skýr og að gráum svæðum verði út­rýmt.

Um er að ræða að­gerða­á­ætlun til fjögurra ára og er mark­miðið að tryggja að eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um ræðir heima­þjónustu á vegum sveitar­fé­laga eða heil­brigðis­þjónustu.

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Stutt við þolendur heimilisofbeldis

Deila grein

29/03/2023

Stutt við þolendur heimilisofbeldis

Heimilisofbeldi er óásættanlegt samfélagslegt mein. Fólk af öllum kynjum verður fyrir heimilisofbeldi og því miður eru tilfellin allt of mörg. Mikilvægt er að þolendur heimilisofbeldis fái jafnt og greitt aðgengi að viðeigandi heilbrigðisþjónustu og stuðning eins fljótt og auðið er. Þjónustu sem er skipulögð með hagsmuni þolenda að leiðarljósi.

Breytingar á þessum málaflokki hafa staðið yfir í ráðuneytinu í nokkur ár. Skýrsla Finnborgar Salome Steinþórsdóttur um kynja- og jafnréttissjónarmið í heilbrigðisþjónustu frá árinu 2021 var kveikjan að því að leggja mat á heilbrigðisþjónustu varðandi kynbundið ofbeldi, skýra verkferla og bæta úrræði. Skipaður var þverfaglegur starfshópur sem var falið að móta samræmt verklag vegna þjónustu við þolendur heimilisofbeldis sem sækja þjónustu á heilbrigðisstofnanir landsins. Síðan þá hefur fjölmargt unnist, í góðu samstarfi milli ráðuneyta og stofnanna. Þar má m.a. nefna að samstarf við ríkislögreglustjóra við útfærslu rafrænnar samskiptagáttar milli heilbrigðiskerfis og lögreglunnar er hafið. Þá hafa félagsráðgjafar og sálfræðingur sem sérstaklega voru ráðnir vegna innleiðingar verklags við móttöku þolenda heimilisofbeldis hafið störf. Einnig hefur sálfræðiþjónusta við þolendur og gerendur í kynferðisbrotamálum verið aukin og hafin er gerð fræðsluefnis og kennslumyndbanda sem mun nýtast víða. Meðal annars við kennslu í háskólum en þörf er á aukinni þekkingu á málaflokknum.

Fljótlega verður innleitt nýtt samræmt verklag við móttöku þolenda heimilisofbeldis í heilbrigðisþjónustu. Verklagið miðar að því að ná á heildstæðan hátt utan um þarfir einstaklingsins. Meðal annars er tenging við félagsráðgjafa og áfallateymi sem getur veitt viðeigandi sálrænan stuðning og mögulega meðferð við áfallastreitu ef þörf krefur. Einnig er boðin tenging við lögmann í viðeigandi málum ef til að mynda um kynferðisbrot er að ræða. Innleidd verður samræmd skráning á þessum málum og leitast við að einfalda allar boðleiðir. Verklagið á að vera til þess fallið að aukagæði þjónustunnar og tryggja samræmi, sanngirni og jafnræði.

Samhliða umbótum á verklagi liggur fyrir Alþingi frumvarp um breytingu breytingum á lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Markmið breytingarinnar er að skýra heimild heilbrigðisstarfsfólks til að tilkynna heimilisofbeldi til lögreglu. Tilkynningin yrði gerð í samráði við sjúkling og er heilbrigðisstarfsfólki þá heimilt að miðla til lögreglu þeim upplýsingum sem eru taldar nauðsynlegar í þeim tilgangi að tryggja nauðsynlega vernd og stuðning.

Samkvæmt íslenskum rannsóknum kemur kona annan hvern dag á bráðamóttökuna á Landspítala vegna líkamlegra áverka í kjölfar heimilisofbeldis. Þá eru ótaldar komur á aðrar heilbrigðisstofnanir, heilsugæslu og til annars heilbrigðisstarfsfólks. Þessar tölur vekja óhug og draga fram þörf fyrir aukinn stuðning, vandaða verkferla og þéttari samvinnu. Ég bind von við að þessar breytingar, sem unnar hafa verið af miklum samtakamætti, skili sér í auknum stuðning við þolendur og öruggara samfélagi.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst 29. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Strand­veiðar eitt skref á­fram, tvö aftur­á­bak

Deila grein

29/03/2023

Strand­veiðar eitt skref á­fram, tvö aftur­á­bak

Matvælaráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lagt er til að hverfa aftur til þess fyrirkomulags strandveiða sem var hér fyrir árið 2018. Það er að segja að aflaheimildum sem ráðstafað er til strandveiða verði skipt upp í fjögur landssvæði. Auk þess er lagt upp með að aflaheimildir hvers landssvæðis og tímabils geti verið innan sama svæðis flutt yfir á næsta tímabil innan fiskveiðiársins. Það þýðir að hvert svæði getur geymt þær aflaheimildir sem ekki tókst að ná á land í þeim mánuði sem liðinn er yfir á næsta mánuð.

Mikil vinna var lögð í þær breytingar sem gerðar voru á kerfinu árið 2018 þar sem landið varð eitt svæði. Helstu breytingar sem þá voru gerðar voru að veiðidagar urðu bundnir við 12 daga í hverjum mánuði á hvern bát þessa fjóra mánuði strandveiðitímabilsins og gilti það meðan hámarksafla væri náð. Einnig var ákvæði sem heimilaði strandveiðibátum að landa ufsa sem VS-afla og sá afli myndi þá ekki teljast til viðmunar inn í hámarksafla. Þær breytingar sem voru gerðar voru með stuðningi landssambands smábátaeiganda en vissulega voru háværar raddir um að þetta yrði dauðadómur yfir kerfinu þar sem bátar myndu flykkjast á A- svæðið til þess að veiða þar sem það gæfi meira af sér og heimildir tímabilsins myndu nást strax á fyrstu tveimur mánuðunum.

Breytingar breytinganna vegna

Smábátasjómenn hafa eðli máls samkvæmt mikla skoðun á kerfinu, ekki bara tengt svæðum heldur einnig á flestum útfærslum þess. En svarið við þeirra athugasemdum ætti þó ekki að vera að kollvarpa núverandi kerfi og í raun að taka þá áhættu að markmið kerfisins í heild sé sett í hættu.

Áform matvælaráðherra er að hverfa til fyrra horfs sem veldur í raun meiri misskiptingu milli landssvæða en núverandi kerfi bíður upp á. Ekki er útfært í frumvarpinu hvernig aflaheimildum verði skipt milli landssvæða eða hvaða aðferðum verði beitt við að reikna það út. Erfitt getur reynst að finna út hvaða magn á að fara inn á hvert svæði.

Áður en breytt var úr skiptingu yfir í einn pott gat mismunur á milli svæða verið allt frá 6 dögum en á öðrum 20 dagar og nú hefst aftur kapphlaupið á miðin með ófyrirséðum afleiðingum.

Útkoman alltaf háð óvissu

Árið 2020 tók Byggðastofnun út þær breytingar sem voru gerðar tveimur árum fyrr. Almennt voru svarendur ánægðir með kerfið og þær breytingar sem höfðu verið gerðar. Vestlendingar og Vestfirðingar voru hvað ánægðastir með breytingarnar sem gerðar höfðu verið á strandveiðikerfinu, en Norðlendingar og Austfirðingar síður ánægðir þó meirihluti þeirra taldi þó breytingar á kerfinu til bóta. Ýmsar ábendingar komu fram til þess að bæta kerfið enn betur. Nú hefur matvælaráðherra skipað samráðsnefnd um sjávarútvegsstefnu og hefur hún ekki lokið vinnu sinni og því er það úr takt að koma fram með þetta frumvarp á meðan sú vinna stendur yfir.

Að vori er ávallt óvissa hvernig strandveiði komi til með að verða að sumri. Ytri aðstæður er ekki hægt að festa í lög. Veðurfari, gæftum og fiskgengd væri gott að geta stjórnað en það er því miður ekki í boði. Nú ætti að vera að fara í hönd sjötta sumarið eftir að þessa breytingar voru gerðar. Farsælast væri að í haust væri tekið út hvernig til hafi tekist og hvað mætti betur fara í stað þess að rykkja í bakkgírinn án þess að stíga á kúplinguna.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 29. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Það þarf að ganga í verkin!

Deila grein

28/03/2023

Það þarf að ganga í verkin!

Það eru mörg verkefnin á hverjum tíma sem við sem þjóð þurfum að leysa, en okkur gengur misvel að leysa þau hratt og örugglega. Það á einna helst við innan þess opinbera og þörf er á því að breyta áherslum með það að markmiði að auka skilvirkni í kerfinu og leggja áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir í stað þess að vera sífellt að bregðast við þeim aðstæðum sem uppi eru á hverjum tíma.

Stjórnvöld hafa úrslitavaldið í mörgum málum, en það er eins og kerfið glími við ákveðna ákvörðunarfælni þegar kemur að ýmsum málum. Í því samhengi má velta fyrir sér hvort stjórnvöld hafi sett sér of íþyngjandi reglur þegar kemur að minnstu málum, allt þarf að rannsaka og rýna ofan í kjölinn með tilheyrandi töfum. Þá er einnig mörgum rangfærslum haldið á lofti í fjölmiðlum og í umræðunni sem flækja málin og verða til þess að þau tefjast enn frekar. Í þessu samhengi langar mig að benda á mál sem krefjast tafarlausra úrlausna en hafa þó beðið fullnaðarafgreiðslu í alltof langan tíma.

Sameining í kjötiðnaði

Það hefur legið fyrir um tíma að staða bænda hefur farið versnandi á síðustu árum og það hefur verið margrætt en lítið að gert. Rekstrargrundvöllurinn er hverfandi með hverjum mánuði, nýliðun er lítil sem engin og bændur kalla ítrekað eftir aðgerðum til að koma starfsgreininni aftur í fyrra horf. Nú hafa okkur borist fréttir að nýjar greiningar bendi til þess að stefnu skorti við framleiðslu á íslensku, svína-, nautgripa- og kindakjöti. Það þvert á markmið ríkisstjórnarinnar um að styðja við bændur og tryggja fæðuöryggi landsins til framtíðar.

Sá sem hér skrifar hefur ásamt fleiri aðilum ítrekað bent á þau tækifæri sem fólgin eru í sameiningu afurðastöðva. En með slíkum aðgerðum er hægt að ná fram sambærilegri hagræðingu og hefur náðst í kringum mjólkuriðnaðinn. Þeir sem starfa innan kjötiðnaðarins hafa bent á að slík hagræðing geti komið rekstrargrundvelli bænda aftur á réttan kjöl eftir erfiða tíma og myndi að öllum líkindum skila sér til neytenda í formi lægra verðs og bættri afkomu bænda. Af hverju er þessi leið ekki farin?

Orkuþörfin

Þá liggur það fyrir að við þurfum meiri orku, bæði til þess að mæta markmiðum okkar um kolefnishlutleysi og orkuskipti en einnig til fylgja eftir náttúrulegri fólksfjölgun ásamt því að styðja við hagvöxt. Við erum öll meðvituð um orkuþörfina, sem mun aðeins aukast í náinni framtíð. Hins vegar virðist vera talsverð tregða við að hefja framkvæmdir á nýjum virkjunum og ferlið er allt of þungt í vöfum. Sem dæmi má nefna Hvammsvirkjun, en það hefur tekið 16 mánuði að fá framkvæmdaleyfi fyrir henni og hún er svo sannarlega ekkert einsdæmi í kerfinu. Ef við ætlum okkur að ná settum markmiðum og tryggja áframhaldandi hagvöxt í landinu þá þurfum við að fara tala minna og vinna meira. Það er alltaf hægt að skoða og rýna, gera stefnur og ferla, en núverandi staða krefst skjótrar ákvarðanatöku.

Gangnagerð

Greiðar samgöngur eru forsendur vaxta og eru lífæðar hvers samfélags, sér í lagi fyrir hinar dreifðari byggðir þar sem góðar samgöngur eru forsenda þess að byggja upp öflugt atvinnulíf á hverju svæði fyrir sig. Íbúar á landsbyggðinni vita allt um erfiðar samgöngur, en það veltur á veðráttu þann daginn hvort hægt sé að ferðast milli staða. Oft þarf yfir erfiða fjallvegi að fara með tilheyrandi vandkvæðum og mörg svæði bíða eftir jarðgöngum til þess að tryggja betri samgöngubætur. En það kostar að fara í framkvæmdir sem þessar og því þarf að forgangsraða verkefnum með þeim afleiðingum að lítið gerist. Fjöldi gangna hafa beðið talsverðan tíma án hreyfingar og það tekur áratugi fyrir göng að raungerast frá hugmynd þar til hægt er að taka þau í notkun.

Við þurfum að horfa til þeirra nágrannaríkja okkar sem standa okkur framar í þessum efnum og sjá hvernig þau bregðast við sömu áskorunum, hvort sem það snýr að forvinnu vegna ganga eða að fjármögnun. Í því samhengi vil ég einnig hvetja lífeyrissjóðina til þess að taka þátt í samfélagslega arðbærum verkefnum en við þurfum að vera duglegri að nýta okkur samvinnuverkefni PPP í auknum mæli. Ég er er tilbúin til þess að greiða leið fleiri verkefna í gegnum Alþingi með þeim hætti. Það gengur ekki að íbúar bíði fjórðung lífs síns eftir göngum og öðrum samgöngubótum í sínu nærumhverfi.

Munurinn milli okkar og Norðmanna

Stór munur er á milli Íslands og nágrannaþjóða okkar. Hann grundvallast í framkvæmdatíma, það er að það sem tekur Íslendinga talsverðan tíma að klára tekur t.d. Norðmenn mun styttri tíma. Norðmenn eru gott dæmi, en þó fjárhagslegar aðstæður þeirra eru betri þá er munurinn aðallega fólginn í því að ákvarðanir eru teknar fyrr. Ef fiskeldisleyfi eru sérstaklega tekin til álita þá er furðulegt að hér á landi taki 8 ár að veita fiskeldisleyfi þegar það tekur að hámarki 26 mánuði í Noregi. Þetta kemur fjárhagsaðstæðum ekkert við. Rannsóknir taka minni tíma. Öll skoðun og vinna fram að leyfisveitingu tekur mun minni tíma. Þessi mismunur einskorðast ekki við veitingu leyfa. Við þurfum að finna punktinn í ferlinu þar sem tregða við að taka lokaákvörðun myndast og breyta áherslum.

Við þurfum að fara að ganga í þau verk sem fyrir okkur liggja og láta þau raungerast, framkvæmdarleysi, of mikið tal og ákvörðunarfælni leiðir til stöðnunar og þar vill engin vera.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. mars 2023.