Categories
Fréttir Greinar

Hugrekki til að takast á við framtíðina

Deila grein

31/12/2022

Hugrekki til að takast á við framtíðina

Kæri lesandi.

Árið 2022 kveður okkur með hörkufrosti, víða snjókomu. Minnir okkur á að við búum á íslandi. Minnir okkur á að máttur náttúruaflanna er mikill. Við gleymum oft þessu afli. Gleymum þeim hörmungum sem fyrri kynslóðir gengu í gegnum, þegar eldgos, óveður og jarðskjálftar tortímdu jafnvel heilu fjölskyldunum, sveitunum. Í því merka riti, Hrakningar á heiðavegum, eftir þá Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson, má lesa frásögn Þórðar Kárasonar á Litla-Fljóti um vetrarferð yfir Hellisheiði árið 1914. Þórður, eins og margir Sunnlendingar, fór til Reykjavíkur á vetrarvertíð. Segir Þórður að leiðin til Reykjavíkur hafi verið farin á þremur dögum. Fyrsta daginn var farið úr Biskupstungum niður á Selfoss, gist í Tryggvaskála. Annan daginn gengið suður yfir Hellisheiði og gistínáttstað á Kolviðarhóli. Síðasta daginn var farið frá Kolviðarhóli til Reykjavíkur. Þegar göngumenn komu upp á Kamba byrjaði að snjóa. Vildu þá einhverjir í hópnum stytta sér leið og fara vestur úr Reykjaskarði leið sem í góðu veðri gat stytt ferðatímann nokkuð. Þórður segir í frásögn sinni: „Ég lét í ljós sem áður, að ég vildi heldur fara veginn, og segir þá sá, sem sótti málið fastast: „Ertu hræddur?“ Ekki kvað ég það vera. En þetta tilsvar var nóg til þess, að ég lagði ekki meira til málanna, og lagði svo allur hópurinn af stað út í bylinn, sem var að skella á, og kennileitislausa hvítuna.“

Það er skemmst frá því að segja að hópurinn villtist en komst með erfiðismunum í Kolviðarhól. Minnstu mátti muna að illa færi.

Af hverju að rifja upp frásögn af vetrarferð sem farin var fyrir rúmlega 100 árum? Ástæðan er margþætt. Ein er sú að það er alltaf mikilvægt að rifja upp hvað fyrri kynslóðir gengu í gegnum. Önnur að sama hvaða tíma við lifum þá hefur veðrið mikil áhrif á líf okkar. Þriðja að maður eigi ekki að ana út í óvissuna, hvað þá að láta mana sig til þess. Fjórða að það sé mikilvægt að skynsemin ráði för.

Sátt um nauðsynlegar breytingar

Við sem búum á Íslandi eigum náttúrunni allt að þakka. Hún er undirstaða efnahags okkar. Samfélag okkar og velmegun hvílir á þremur stoðum sem eiga allt sitt undir náttúrunni: Sjávarútvegur, orkuframleiðsla og ferðaþjónusta. Það er lán okkar sem nú byggjum þetta land að fyrri kynslóðir hafa nýtt tækifærin sem náttúran hefur að bjóða. Við eigum sjávarútveg sem er í fremstu röð í heiminum. Fáar þjóðir, ef einhverjar, hafa náð að skapa jafnmikil verðmæti í sjávarútvegi en byggja um leið á hugmyndinni um sjálfbærni. Það kerfi sem við höfum náð að byggja upp er þó ekki gallalaust frekar en önnur mannanna verk. Verkefni þessarar ríkisstjórnar er enda að ná sátt um nauðsynlegar breytingar á kerfinu. Réttlæti getur nefnilega ekki verið skörinni neðar en hagnaður greinarinnar.

Öryggi í fyrsta sæti

Ferðaþjónustan hefur sýnt það á síðustu tveimur áratugum hvers hún er megnug. Vöxtur hennar hjálpaði samfélaginu hratt út úr efnahagslegum vanda hrunsins. Ferðaþjónustan tók hratt við sér eftir heimsfaraldurinn og á heiðurinn af stórum hluta af þeim hraða efnahagslega viðsnúningi sem hefur náðst. Einhverjir verkir fylgja ávallt hröðum vexti. Það tekur á þegar milljónir manna bætast við sem notendur innviða fámenns lands. Þrátt fyrir fordæmalausa fjárfestingu ríkisins í samgöngum á síðustu árum þarf enn meira til. Mörg stór og mikilvæg verkefni eru á dagskrá á næstu árum. Ekkert þó stærra en Sundabraut sem er byrjað að undirbúa og styttist í hönnun og framkvæmdir. Markmiðið með allri uppbyggingu er greiðar samgöngur sem tengja byggðir en í fyrsta sæti er ætíð öryggi fólks. Líf og heilsa hljóta alltaf að vera í fyrsta sæti.

Við viljum vera kynslóðin sem framkvæmdi

Við getum verið þakklát fyrir þann stórhug sem fyrri kynslóðir sýndu með rafvæðingu landsins og ekki síður hitaveituvæðingu þess á síðustu öld. Fáar þjóðir búa við eins mikið orkuöryggi og við á Íslandi. Hér þarf ekkert gas, ekkert jarðefnaeldsneyti, til að kynda hús okkar og lýsa. Og þau orkuskipti sem standa fyrir dyrum munu gera það að verkum að við getum náð fullu orkusjálfstæði. Til þess þurfum við að sýna hugrekki og framsýni til að verða ekki eftirbátar fyrir kynslóða. Það er spennandi að fylgjast með þeim verkefnum sem eru á teikniborðinu og miða að því að framleiða hér á landi rafeldsneyti sem yrði notað til að knýja stærri farartæki og vinnuvélar á landi, skip og flugvélar. Ljóst er að til þess þarf meiri orku. Það er líka ljóst að til þess að viðhalda þeim lífsgæðum sem við höfum öðlast og helst auka þau þá þarf meiri orku. Sáttin um þá orkuöflun verður til á miðjunni, með skynsamlegum öfgalausum samræðum en þó fyrst og fremst skynsamlegum aðgerðum. Við viljum að framtíðarkynslóðir horfi til okkar tíma og sjái framsýni en dæmi okkur ekki sem kynslóðina sem ræddi vandann í drep en hafði ekki dug til að framkvæma.

Kvikmyndagerð í vexti

Síðasta vor urðu breytingar á lagaumhverfi kvikmyndagerðar á Íslandi sem fólust í að hækka hlutfall endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Nú þegar hafa þessar breytingar aukið veltu íslensks kvikmyndaiðnaðar til mikilla muna og fjölgað störfum sem tengist kvikmyndagerð beint og óbeint. Þessi þróun hefur áhrif víða um landið. Hækkun á endurgreiðsluhlutfalli hefur ekki aðeins þau áhrif að laða til landsins erlenda fjárfestingu heldur styrkir hún íslenska kvikmyndagerð. Það sýnir sagan okkur. Þegar Framsókn stóð fyrir því um síðustu aldamót að endurgreiðslukerfi kvikmynda var komið á fót var stigið skref sem breytti gangi íslenskrar kvikmyndasögu. Íslenskum kvikmyndum fjölgaði enda var þarna komin nýr þáttur í fjármögnun kvikmynda og sjónvarpsefnis. Það er gaman að sjá þessa mikilvægu grein sem hefur gríðarlegt efnahagslegt og ekki síður menningarlegt gildi fyrir þjóðina okkar vaxa og dafna.

Ný sköpun – ný tækifæri

Frá árinu 2017 hefur ríkisstjórnin lagt mikla áherslu á að skapa frjótt umhverfi fyrir nýsköpunarfyrirtæki. Sú áhersla sem lögð hefur veriðánýsköpun er mikilvægur hluti þess að skapa spennandi og verðmæt störf sem eru hluti af hátæknisamfélagi framtíðarinnar. Við sjáum þessa fjórðu stoð hugverkaiðnaðarins eflast hratt en innan þess iðnaðar eru ólíkar greinar eins og lyfjaiðnaður, fjártækni og tölvuleikjagerð. Það segir sig sjálft að þessi fjórða stoð skapar aukið jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Vinna, vöxtur, velferð

Við í Framsókn höfum alltaf lagt mikla áhersluáatvinnulíf í okkar stefnu. Öflugt atvinnulíf er undirstaða velferðar: Vinna, vöxtur, velferð. Samfélagið okkar er flókinn vefnaður. Samfélagið okkar er gott eins og sést á því að það er ofarlega í alþjóðlegum samanburði þátta sem mæla lífsgæði. En það má alltaf gera betur. Og það gerum við með markvissum aðgerðum sem mæta ekki aðeins kröfum um sjálfbært samfélag heldur skila okkur auknum lífsgæðum og fjölbreyttum og spennandi tækifærum fyrir komandi kynslóðir.

Framtíðin ræðst á miðjunni

Þórður Kárason á Litla-Fljóti skrifaði um „kennileitislausa hvítuna“ í grein sinni um vetrarferðir á Hellisheiði. Það má kannski tala um framtíðina sem kennileitislausa hvítu en hlutverk stjórnmála samtímans er að marka leiðina til aukinna lífsgæða fyrir þjóðina. Við í Framsókn vinnum áfram af heilindum að því að bæta samfélagið með samvinnuhugsjónina sem leiðarljós. Við trúum því að samvinnan sé besta leiðin til að ná fram sátt um hvert skuli haldið. Við trúum því að framtíðin ráðist á miðjunni.

Lesandi góður, ég óska þér og þínum farsæls komandi árs.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2022.

Categories
Fréttir Greinar

Tíma­mót í barna­vernd

Deila grein

28/12/2022

Tíma­mót í barna­vernd

Nú um áramótin koma til framkvæmda umfangsmiklar breytingar á barnaverndarlögum sem samþykktar voru á Alþingi árið 2021. Breytingarnar eru mikilvægur hluti þeirrar kerfisbreytingar sem unnið er að í málefnum barna. Pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir munu heyra sögunni til og þess í stað taka til starfa þrjú ný umdæmisráð barnaverndar. Eitt í Reykjavík, annað fyrir aðra hluta höfuðborgarsvæðisins og hið þriðja fyrir landsbyggðirnar.

Hlutverk umdæmisráða verður að kveða upp úrskurði um tilteknar íþyngjandi ráðstafanir í barnaverndarmálum, til að mynda um vistanir barna utan heimila og ákvarðanir um umgengni barna í varanlegu fóstri við kynforeldra sína. Umdæmisráðin verða sjálfstæðar stjórnsýslueiningar, aðskildar frá starfsemi barnaverndarþjónustu, sem mun fara með daglega meðferð og vinnslu barnaverndarmála.

Fagþekking skilyrði í umdæmisráðum

Hingað til hafa barnaverndarnefndir verið pólitískt skipaðar og þeir starfsmenn barnaverndarkerfisins sem fara með daglega vinnslu mála verið starfsmenn þeirra nefnda. Formlegur aðskilnaður milli þessara tveggja stiga, barnaverndarþjónustu og umdæmisráða, á að tryggja betri gæði ákvarðana og efla faglegar forsendur fyrir þeim.

Hvert umdæmisráð verður skipað einum lögfræðingi, sem einnig mun vera formaður ráðsins, einum félagsráðgjafa og einum sálfræðingi. Skipað er í ráðin til fimm ára í senn. Ríkar kröfur eru gerðar um fagþekkingu og hæfni þessara aðila þar sem reikna má með að allra þyngstu mál barnaverndarkerfisins rati fyrir ráðin. Ráðin munu hafa það hlutverk að leysa úr málunum með skjótum og vandvirkum hætti.

Ég er ótrúlega ánægður með að þær stóru kerfisbreytingar á umhverfi barna sem við höfum unnið að undanfarin ár séu byrjaðar að skila sér. Verkefnið fram undan er svo að bæta enn frekar hvernig við veitum börnum og fjölskyldum þeirra þjónustu.

Ásmundur Einar Daðason.

Höfundur er mennta- og barnamálaráðherra.

Categories
Fréttir

Jólablað Framsóknar í Vestmannaeyjum

Deila grein

23/12/2022

Jólablað Framsóknar í Vestmannaeyjum

Framsóknarfélagið í Vestmannaeyjum gefur reglulega út Framsóknarblaðið. Í jólablaðinu að þessu sinni má meðal annars finna grein um Sigurgeir Kristjánsson, Haukdælinginn sem settist að í Vestmannaeyjum. Sigurgeir studdi Framsóknarflokkinn með ráð og dáð alla tíð og sat hann í bæjarstjórn Vestmannaeyja frá 1962-1982, forseti bæjarstjórnar frá 1965 – 1975 og í bæjarráði frá 1966-1982.

Categories
Fréttir Greinar

Jólakveðja Konur í Framsókn

Deila grein

21/12/2022

Jólakveðja Konur í Framsókn

Konur í Framsókn.

Síðustu ár hefur þeim konum fjölgað sem hafa gengið til liðs við Framsókn. Konur með fjölbreytta reynslu og bakgrunn úr atvinnulífinu, af vinnumarkaði, menntaðar, mæður, dætur og ömmur. Konur sem hafa lagt fram krafta sína, þekkingu og reynslu með það eitt að markmiði að láta gott af sér leiða.

Konur sem hafa samsvarað sig við stefnu flokksins.

Konur sem hafa skynjað samvinnukraftinn, viljann og framtakssemina sem einkennir Framsókn.

Konur sem hafa upplifað að rödd þeirra hefur áhrif.

Aldrei hafa eins margar konur setið í sveitarstjórnum fyrir hönd Framsóknar og aldrei fleiri leitt lista Framsóknar en nú.

Mikil virkni og kraftur er meðal kvenna í Framsókn og aldrei hafa fleiri konur leitt lista flokksins í sveitarfélögum en nú og aldrei hafa fleiri konur setið í sveitarstjórnum fyrir Framsókn. Sá árangur sem Framsókn hefur náð á landsvísu byggist fyrst og fremst á liðsheild og trausti. Við vitum að framlag okkar og frammistaða muni leiða til árangurs og það skiptir höfuðmáli.

Við vitum að til að viðhalda þeim árangri sem höfum náð er getan til að skilja og þakka fyrir það að við erum ekki einsleitur hópur mikilvæg. Við erum meðvitaðar um eigin viðhorf og höfum viljan til að setja okkur í spor annara. Við erum opnar gagnvart ólíkum hugmyndum og sjónarmiðum, því allar hafa eitthvað fram að færa. Þannig höfum við náð sameiginlegum markmiðum og skapað traust.

Hvati kvenna til að starfa innan Framsóknar er sprottinn af áhuga og eldmóð fyrir ólíkum málaflokkum enda er fjölbreyttur hópur kvenna innan flokksins með færni, þekkingu, reynsla úr öllum áttum. Stefnt er að því virkja málefnavinnu og samtal innan stækkandi hóps Framsóknar enn frekar á nýju ári með málefnahópum. Konur í Framsókn eiga raddir á öllum málefnasviðum og taka virkan þátt í þeirra vinnu.  Efnahag- velferðar-, mennta-, orku-, sjávarútvegs- umhverfis- og skipulagsmál, matvælaframleiðsla, nýsköpunar – og menningarmál eru málefni kvenna í Framsókn.

Hlutdeild kvenna í stjórnmálum er enn þá aðeins um 20% þegar litið á heimsvísu og örfáir þjóðhöfðingjar heims eru konur. Þrátt fyrir að umhverfi stjórnmálanna sé almennt talið karllægt þá höfum við náð ákveðnum árangri með að brjótast úr því umhverfi hér á landi. Reynsla kvenna úr stjórnmálum er besti vitnisburðurinn um stöðuna hér á landi og jafnframt hvatning og innblástur fyrir næstu kynslóðir kvenna. Sérhver kona sem eitt sinn var stúlka kannast við að hafa speglaði sig í kvenfyrirmyndum. Það eru fyrirmyndirnar sem geta skipt sköpum þegar stígið er inn á svið stjórnmálanna. Heilsteyptar fyrirmyndir með gott siðferði og góða dómgreind.

Hvetjum konur á öllum aldri til að taka þátt í stjórnmálum.

Ég get ekki látið það hjá líða að minnast á það að fátt skemmtilegra  en þegar Framsóknar konur hittast. “Rannsóknir” undirritaðrar hafa leitt í ljós síðustu ár að konur í Framsókn kunna einfaldlega að njóta þess að koma saman. Þar er gleðin ávallt við völd.

Takk fyrir ykkar framlag, samtölin, innblásturinn og samveruna á árinu sem er að líða.

Ég óska ykkur öllum og gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, formaður Kvenna í Framsókn.

Categories
Fréttir

Byggðirnar fá að blómstra!

Deila grein

20/12/2022

Byggðirnar fá að blómstra!

Frá því síðast hefur margt drifið á daga þingmanna Framsóknar. En það má segja að enginn dagur sé eins.

Í síðustu viku var fjöldi mála afgreiddur, m.a. fjárlög 2023. Meginmarkmið þeirra fjárlaga snúa að fjórum lykilþáttum:

  • Stefnt er að því að lækka rekstrarhalla og stöðva hækkun skuldahlutfalls á næsta ári.
  • Stjórnarmeirihlutinn stefnir að draga úr mótvægisaðgerðum vegna heimsfaraldurs Covid-19 og styðja við markmið Seðlabankans um að draga úr verðbólguþrýstingi.
  • Staðinn verður vörður um heimilin í landinu, með því að viðkvæmir hópar séu varðir fyrir áhrifum verðbólgunnar.
  • Innviðir og grunnþjónusta verða styrkt og raunvirði bóta almannatrygginga verði viðhaldið.

Lífskjarasókn ríkisstjórnarinnar verður haldið áfram. Mikill tekjuvöxtur hefur styrkt stöðu heimilanna á sl. árum, og staða þeirra hefur aldrei verið sterkari. Með því að stuðla að áframhaldandi hagvexti verður Ísland í mun sterkari stöðu en mörg nágrannalönd.

Ríkisstjórnin tilkynnti í tengslum við gerð kjarasamninga hækkun á húsnæðisbótum ætlað leigjendum sem eru undir tekju- og eignamörkum. Eins á að auka framboð íbúða í almenna íbúðakerfinu. Barnabótakerfið verður einfaldað og stuðninginn aukinn verulega sem fjölga mun barnafjölskyldum sem fá barnabætur.

Mikilvægast af öllu verður að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum til að styðja við markmið samninga. Verkefnið er að verja kaupmátt og lífskjör launafólks, m.a. ná niður verðbólgu og vöxtum.

Á haustþingi fer annars mikill tími Alþingis í vinnu vegna fjárlaga hvers árs. Þess til viðbótar eru umræður um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga, eða „bandormurinn“ svokallaði. Hann hefur að geyma efnisatriði af margvíslegum toga, sem hafa áhrif á tekju- og gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins. Fjárlög fyrir næsta ár snúast um skynsama stjórnun fjármagns og að fjárfesta í fólki. Áherslur Framsóknar á sviði heilbrigðismála, velferðar, byggðarmála, stuðnings við heimili og félagslegs stuðnings má finna um allt frumvarpið. Þingflokkurinn er stoltur af árangrinum í krefjandi aðstæðum í kjölfar heimfaraldurs, stríðs í Evrópu o.fl.

Þingmenn Framsóknar hafa markvisst lagt sig fram við að koma framfaramálum á dagskrá Alþingis. Með lagafrumvörpum, þingsályktunum, fyrirspurnum, sérstökum umræðum og störfum þingsins. Vil ég nefna nokkra þætti til að veita smá yfirsýn á störfin í haust.

Þórarinn Ingi Pétursson hefur lagt fram frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, (afurðastöðvar í kjötiðnaði). Þar leggur hann til að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga verði afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast. Að þeim verði gert heimilt að gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara.

Halla Signý Kristjánsdóttir hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis með hliðsjón af gjaldtöku af fiskeldi. Fara eigi t.d. í heildargreiningu á gjaldtöku ríkis og sveitarfélaga af fiskeldi og tillögur að lagabreytingu sem skýra heimildir til töku gjalda til að standa undir nauðsynlegri þjónustu ríkis og sveitarfélaga af sjókvíaeldi.

Ingibjörg Isaksen hefur lagt fram þingsályktun um markvissa öflun gagna um líðan, velferð og efnahag eldra fólks. Að útbúið verði mælaborð með það að markmiði að halda utan um og safna tölfræðilegum upplýsingum um líðan, velferð og efnahag eldra fólks. Þannig verður mögulegt að ná fram heildarmynd af almennri stöðu aldraðra í samfélaginu svo hægt sé að forgangsraða verkefnum sem brýnt er að takast á við.  Ingibörg hefur einnig lagt fram beiðni um skýrslu um jöfnun kostnaðar vegna flugvélaeldsneytis, sem skal draga fram hugsanlegar aðgerðir til að lækka kostnað vegna flugvélaeldsneytis og afgreiðslu þess á Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli.

Ágúst Bjarni Garðarsson er með tillögu til þingsályktunar um skattalega hvata vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks.  Þar er m.a. lagt til að keppnis- og afreksíþróttafólk fái greidd laun að hluta eða að fullu frá launagreiðanda þegar það þarf að mæta á æfingar eða íþróttamót og að launagreiðandi fái skattaívilnun á móti greiddum launum.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir er með tillögu til þingsályktunar um ókeypis fræðslu og þjálfun foreldra barna með ADHD, sem standi þeim til boða þeim að kostnaðarlausu.

Jóhann Friðrik Friðriksson er með tillögu til þingsályktunar um innleiðingu lýðheilsumats í íslenska löggjöf. Leggur hann til að sérfræðihópur verði skipaður með þátttöku fagráðuneyta, fræðasamfélags og Embættis landlæknis og leggi til leiðir sem tryggja rýni allra stjórnarfrumvarpa sem lögð eru fyrir Alþingi út frá áhrifum þeirra á heilsu þjóðarinnar.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir er með tillögu til þingsályktunar um ókeypis getnaðarvarnir fyrir einstaklinga yngri en 25 ára. Kynheilbrigði er hluti af lýðheilsu þjóðarinnar og getnaðarvarnir gefi einstaklingum tækifæri á því að hafa meiri stjórn á sínu eigin lífi. Fjárhagur ungs fólks er oft mismunandi eftir mánuðum. Suma mánuði kemur fyrir að peningaskortur neyði ungt fólk til að hagræða.

Einnig má nefna nokkrar sérstakar umræður í haust, sem þingmenn Framsóknar hafa haft frumkvæði að. Umræða um fjölþáttaógnir og netöryggismál voru að frumkvæði Jóhanns Friðriks og umræða um störf án staðsetningar að frumkvæði Líneikar Önnu Sævarsdóttur.

Að lokum vill undirrituð hrósa formanni okkar, Sigurði Inga Jóhannssyni, fyrir markvissa vinnu við að fjölga störfum úti á landi. Við viljum að fólk eigi raunverulegt val um hvar það býr og starfar. Utan höfuðborgarsvæðisins hefur verið skortur á opinberum störfum, sérfræðistörfum og öðrum vel borgandi störfum. Fleiri sérfræðistörf á landsbyggðinni stuðla að aukinni menntun á hverju svæði fyrir sig og þannig vex þekking hjá allri þjóðinni. Einstaklingar sem snúa aftur í heimahagana eða flytja í fyrsta sinn út á land auðga samfélagið á hverjum stað með margvíslegum hætti. Þannig samfélag viljum við skapa. Sigurður Ingi hefur svo sannanlega staðið fyrir því í verki að byggðirnar hringinn í kringum landið fái að blómstra. Við í Framsókn eigum okkur sterkar rætur um allt land.

Framtíðin er björt með Framsókn!

Með kveðju frá Austurvelli,

Ingibjörg Isaksen

Categories
Fréttir

Aðalfundur Framsóknarfélags Suðurnesjabæjar

Deila grein

19/12/2022

Aðalfundur Framsóknarfélags Suðurnesjabæjar

Boðað er til aðalfundar Framsóknarfélags Suðurnesjabæjar mánudaginn 9. janúar í Vörðunni að Miðnestorgi 3 í Suðurnesjabæ kl. 20.00.

Dagskrá:
Venjulega aðalfundarstörf.
Kosning stjórnar.
Önnur mál.

Stjórn,

Framsóknarfélags Suðurnesjabæjar

Mynd: sudurnesjabaer.is 19. desember 2022.

Categories
Fréttir

„Allir þolendur kynferðisofbeldis eiga að geta fengið aðstoð, sama hvað“

Deila grein

16/12/2022

„Allir þolendur kynferðisofbeldis eiga að geta fengið aðstoð, sama hvað“

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, ræddi skil starfshóps í vikunni, sem Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, skipaði um samræmt verklag um þjónustu við þau sem leita til heilbrigðisstofnana vegna kynferðisofbeldis, í störfum þingsins. Unnið er að því að tryggja jafnt aðgengi þolenda að faglegri heilbrigðisþjónustu óháð búsetu, efnahag og öðrum aðstæðum.

„Allir þolendur kynferðisofbeldis eiga að geta fengið aðstoð, sama hvað. Eins og fram kemur í skýrslunni er þörf á að samræma þjónustu um allt land. Þá er lagt til að neyðarmóttakan í Fossvogi verði fyrirmynd samræmds verklags og að allar heilbrigðisstofnanir innleiði verklag að þeirri fyrirmynd. Meðal tillagna eru rafrænt skráningarform við skráningu upplýsinga vegna móttöku þolenda og gerenda sem leita á heilbrigðisstofnun, samræmt verklag um heilbrigðisþjónustu við börn vegna kynferðisofbeldis, mótun fræðsluefnis fyrir þolendur þar sem sérstaklega verði hugað að einstaklingum í viðkvæmri stöðu og sálfræðiþjónustu fyrir sakborninga í kynferðisbrotamálum. Slík sálfræðiþjónusta er fyrirbyggjandi aðferð til þess að koma í veg fyrir að gerendur brjóti af sér aftur,“ sagði Lilja Rannveig.

„Kynferðisofbeldi er meðal alvarlegustu brota á einstaklingi sem til eru. Ofbeldið hefur áhrif á einstakling til frambúðar og setur mark sitt á sálarlíf þeirra og lífsgæði jafnvel það sem eftir er. Því er það svo brýnt að heilbrigðiskerfið okkar taki á móti þolendum og hlúi að þeim á sem bestan hátt.

Sú vinna sem hæstv. heilbrigðisráðherra er í fararbroddi fyrir, ásamt hæstv. dómsmálaráðherra, er til þess fallin að móta kerfið innan stjórnsýslunnar á þann veg að gera nákvæmlega það.

Þetta er mikið fagnaðarefni og ég hvet ríkisstjórnina áfram í þessari vinnu,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.


Ræða Lilju Rannveigar á Alþingi:

„Forseti. Í þessari viku skilaði starfshópur, sem hæstv. heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórsson skipaði, niðurstöðum sínum um samræmt verklag um þjónustu við þau sem leita til heilbrigðisstofnana vegna kynferðisofbeldis. Markmiðið er að tryggja jafnt aðgengi þolenda að faglegri heilbrigðisþjónustu óháð búsetu, efnahag og öðrum aðstæðum. Allir þolendur kynferðisofbeldis eiga að geta fengið aðstoð, sama hvað. Eins og fram kemur í skýrslunni er þörf á að samræma þjónustu um allt land. Þá er lagt til að neyðarmóttakan í Fossvogi verði fyrirmynd samræmds verklags og að allar heilbrigðisstofnanir innleiði verklag að þeirri fyrirmynd. Meðal tillagna eru rafrænt skráningarform við skráningu upplýsinga vegna móttöku þolenda og gerenda sem leita á heilbrigðisstofnun, samræmt verklag um heilbrigðisþjónustu við börn vegna kynferðisofbeldis, mótun fræðsluefnis fyrir þolendur þar sem sérstaklega verði hugað að einstaklingum í viðkvæmri stöðu og sálfræðiþjónustu fyrir sakborninga í kynferðisbrotamálum. Slík sálfræðiþjónusta er fyrirbyggjandi aðferð til þess að koma í veg fyrir að gerendur brjóti af sér aftur.

Forseti. Kynferðisofbeldi er meðal alvarlegustu brota á einstaklingi sem til eru. Ofbeldið hefur áhrif á einstakling til frambúðar og setur mark sitt á sálarlíf þeirra og lífsgæði jafnvel það sem eftir er. Því er það svo brýnt að heilbrigðiskerfið okkar taki á móti þolendum og hlúi að þeim á sem bestan hátt. Sú vinna sem hæstv. heilbrigðisráðherra er í fararbroddi fyrir, ásamt hæstv. dómsmálaráðherra, er til þess fallin að móta kerfið innan stjórnsýslunnar á þann veg að gera nákvæmlega það. Þetta er mikið fagnaðarefni og ég hvet ríkisstjórnina áfram í þessari vinnu.“

Categories
Fréttir

Ekki skilja Vestfirði eftir í fortíðinni

Deila grein

16/12/2022

Ekki skilja Vestfirði eftir í fortíðinni

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, ræddi raforkuöryggi á Vestfjörðum og að það sé ekki tryggt í störfum þingsins.

„Staðreyndin er sú, og ég hef talað um þetta áður, að við á Vestfjörðum erum háð neti varaafls sem hefur verið byggt upp á síðustu árum og eru Vestfirðingar algerlega háðir þessu varaafli til að tryggja gott afhendingaröryggi. Þar undir er líka það sem til þarf til að halda straumi á rafkynntum hitaveitum til húshitunar með tilheyrandi olíunotkun,“ sagði Halla Signý.

Stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum, en „Vestfirðingar geta ekki fylgt eftir þessum markmiðum meðan þeir þurfa að brenna milljónum lítra af dísilolíu til að halda uppi raforkuöryggi fjórðungsins. Það gengur ekki að skilja Vestfirði eftir í fortíðinni.“

Í skýrslu um raforkumál á Vestfjörðum frá því í vor segir að mikilvægt sé að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Til þess verði að tryggja fjármagn til jarðhitaleitar svo að hægt sé að rannsaka til hlítar möguleika á jarðhita við rafkynntar hitaveitur.

„Það er því sérstaklega jákvætt að í fjárlögum næsta árs má finna 150 millj. kr. sem eru til jarðhitaleitarátaks á næsta ári. Hér er um að ræða sérstaklega arðbært verkefni á Vestfjörðum þar sem jákvæð niðurstaða slíkrar rannsóknar myndi draga úr notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar. Allt er þetta liður í að nálgast markmið okkar um að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar á Alþingi:

„Forseti. Fram undan eru dimmustu dagar ársins og í ofanálag eru frosthörkur á landinu. Þá er vont að vita til þess að raforkuöryggi á Vestfjörðum sé ekki tryggt. Það er langt því frá. Staðreyndin er sú, og ég hef talað um þetta áður, að við á Vestfjörðum erum háð neti varaafls sem hefur verið byggt upp á síðustu árum og eru Vestfirðingar algerlega háðir þessu varaafli til að tryggja gott afhendingaröryggi. Þar undir er líka það sem til þarf til að halda straumi á rafkynntum hitaveitum til húshitunar með tilheyrandi olíunotkun. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og teljum við okkur vera vel undirbúin til að takast á hendur metnaðarfullar aðgerðir og fylgja eftir markmiðum til að standast áformin. En Vestfirðingar geta ekki fylgt eftir þessum markmiðum meðan þeir þurfa að brenna milljónum lítra af dísilolíu til að halda uppi raforkuöryggi fjórðungsins. Það gengur ekki að skilja Vestfirði eftir í fortíðinni.

Virðulegi forseti. Í vor kom út skýrsla starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum og í tillögum hópsins kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Til þess þarf að tryggja fjármagn til jarðhitaleitar þannig að hægt væri að rannsaka til hlítar möguleika á jarðhita við rafkynntar hitaveitur. Það er því sérstaklega jákvætt að í fjárlögum næsta árs má finna 150 millj. kr. sem eru til jarðhitaleitarátaks á næsta ári. Hér er um að ræða sérstaklega arðbært verkefni á Vestfjörðum þar sem jákvæð niðurstaða slíkrar rannsóknar myndi draga úr notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar. Allt er þetta liður í að nálgast markmið okkar um að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040.

Virðulegi forseti. Ég óska landsmönnum öllum gleðilegra ljósahátíðar.“

Categories
Fréttir

Akureyri sem svæðisborg

Deila grein

15/12/2022

Akureyri sem svæðisborg

Tölum Ísland upp, án þess að tala einstök svæði niður. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra, þegar starfshópur um mótun borgarstefnu kom saman til fyrsta fundar í innviðaráðuneytinu í dag, 14. desember. Markmiðið með stofnun starfshópsins er að efla stærstu þéttbýlissvæði landsins, Reykjavík og Akureyri, og styrkja samkeppnishæfni þeirra og hlutverk í byggðaþróun.   

Hlutverk hópsins er tvíþætt. Að skilgreina hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar og stuðla að aukinni alþjóðlegri samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins. Enn fremur að skilgreina hlutverk og uppbyggingu Akureyrar sem svæðisborgar til að hún geti boðið upp á meiri fjölbreytni í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum.

Formaður starfshópsins er Ingvar Sverrisson, framkvæmdastjóri Aton.JL. Aðrir í starfshópnum eru Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi í Reykjavík, Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi á Akureyri, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra og Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Með hópnum starfa Ásdís Sigurbergsdóttir, ráðgjafi hjá Aton.JL, Jóhanna Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í innviðaráðuneytinu, og Reinhard Reynisson, sérfræðingur hjá Byggðastofnun.

Gert er ráð fyrir að starfshópurinn ljúki störfum eigi síðar en í árslok 2023.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 14. desember 2022.

Categories
Fréttir

Góður starfsandi mikilvægur!

Deila grein

14/12/2022

Góður starfsandi mikilvægur!

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, sagðist vilja nú undir lok haustþings þakka þingmönnum fyrir samstarfið á þessu hausti og hrósa fyrir sérstaklega gott starf í nefndum, góða samvinnu, því að samvinna og samstarf skipta auðvitað öllu máli á þessum starfsvettvangi.

Sagði hún að þótt stundum þurfi að takast hart á um ýmis málefni væri góður starfsandi mikilvægur. Haustið hafi liðið hratt og góð mál hlotið framgang á Alþingi.

„Ég vil sérstaklega hrósa fjárlaganefnd og samvinnu fjárlaganefndar og ríkisstjórnarinnar sem hefur skilað okkur fjárlögum þar sem heildarmyndin er góð, auk þess sem þar eru mikilvæg framlög í stór og smá framfaraverkefni. Svo ég nefni bara einhver þá sýna auðvitað fjárlögin að þessi ríkisstjórn leggur áherslu á heilbrigðiskerfið og að efla það á sem flestum sviðum,“ sagði Líneik Anna.

„Það eru líka mikilvæg viðbótarframlög í íslenskukennslu fyrir innflytjendur, mikilvæg viðbótarframlög í löggæsluna þar sem ég sé fyrir mér að aftur verði hægt að taka upp forvarnaverkefni lögreglunnar sem hafa ekki verið nægilega öflug á síðustu misserum og aukin framlög í ýmis smærri verkefni um land allt.

En svo vil ég auðvitað hrósa ríkisstjórninni fyrir samstarfið við þá sem hafa verið að vinna að kjarasamningum. Það er mikið fagnaðarefni að sjá þær aðgerðir sem kynntar hafa verið til að styðja við og skapa auknar forsendur fyrir meiri stöðugleika í efnahagsmálum, auk lækkunar vaxta og verðbólgu,“ sagði Líneik Anna að lokum.


Ræða Líneikar Önnu á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég vil hér undir lok haustþings þakka þingmönnum fyrir samstarfið á þessu hausti og hrósa fyrir sérstaklega gott starf í nefndum, góða samvinnu, því að samvinna og samstarf skipta auðvitað öllu máli á þessum starfsvettvangi. Þótt stundum þurfi að takast hart á um ýmis málefni er góður starfsandi mikilvægur. Haustið hefur liðið hratt og góð mál hafa hlotið framgang. Ég vil sérstaklega hrósa fjárlaganefnd og samvinnu fjárlaganefndar og ríkisstjórnarinnar sem hefur skilað okkur fjárlögum þar sem heildarmyndin er góð, auk þess sem þar eru mikilvæg framlög í stór og smá framfaraverkefni. Svo ég nefni bara einhver þá sýna auðvitað fjárlögin að þessi ríkisstjórn leggur áherslu á heilbrigðiskerfið og að efla það á sem flestum sviðum. Það eru líka mikilvæg viðbótarframlög í íslenskukennslu fyrir innflytjendur, mikilvæg viðbótarframlög í löggæsluna þar sem ég sé fyrir mér að aftur verði hægt að taka upp forvarnaverkefni lögreglunnar sem hafa ekki verið nægilega öflug á síðustu misserum og aukin framlög í ýmis smærri verkefni um land allt. En svo vil ég auðvitað hrósa ríkisstjórninni fyrir samstarfið við þá sem hafa verið að vinna að kjarasamningum. Það er mikið fagnaðarefni að sjá þær aðgerðir sem kynntar hafa verið til að styðja við og skapa auknar forsendur fyrir meiri stöðugleika í efnahagsmálum, auk lækkunar vaxta og verðbólgu.“