Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa og hefur hann mælt fyrir henni á Alþingi..
Tillögugreinin hljóðar svo:
„Alþingi ályktar að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra í samvinnu við mennta- og barnamálaráðherra að koma á fót þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa.“
Í flutningsræðu sinni fór Ágúst Bjarni yfir að einhverfa væri röskun í taugaþroska sem kæmi jafnan fram snemma í barnæsku. Hún væri yfirleitt meðfædd og til staðar alla ævi. Vegna þess með hversu ólíkum hætti einhverfa komi fram allt eftir aldri, þroska og færni og sökum þess hve einhverfa er margbreytileg væri oft talað um einhverfuróf.
Markmiðið með þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa yrði að draga saman á einn stað alla þá þekkingu sem til sé um einhverfu og að börn jafnt sem fullorðnir geti fengið þjónustu með þeirra þarfir í huga.
Hlutverkið væri að veita þjónustu á sviði ráðgjafar, hæfingar og endurhæfingar ásamt því að afla og miðla þekkingu á aðstæðum einhverfra í því skyni að bæta þjónustu og stuðla að framförum. Þá væri verkefni hennar einnig að hafa yfirsýn yfir aðstæður þeirra sem eru einhverfir og gegna samhæfingarhlutverki gagnvart öðrum sem veita umræddum notendum þjónustu. Auk þess væri hlutverk þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar að sinna fræðslu, ráðgjöf og stuðningi við aðstandendur, skóla og aðrar þjónustustofnanir.
„Ávinningurinn af þjónustu- og þekkingarmiðstöð sem þessari væri að einhverfir, hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna og aðstandendur þeirra, sem og skólar og vinnustaðir geti sótt upplýsingar um alla þá aðstoð sem stendur þeim til boða ásamt því að fá leiðbeiningar og fræðslu,“ sagði Ágúst Bjarni.
„Hægt er að hafa áhrif á framvindu einhverfu með markvissum aðgerðum, sérstaklega snemma á lífsleiðinni. Nokkuð er um að einstaklingar greinist á fullorðinsárum með einhverfu og þá oft í framhaldi af kulnun eða í kjölfarið á geðrænum vanda,“ sagði Ágúst Bjarni.
Við greiningu einstaklings er mikilvægt að einstaklingnum og fjölskyldu hans sé boðið upp á fræðslu um einhverfurófið og hvaða aðferðir gætu hentað.
„Auk þess er mikilvægt ef um leik- eða grunnskólabarn er að ræða að samvinna milli heimilis og skóla sé góð,“ sagði Ágúst Bjarni.
Nokkrar stofnanir koma að málefnum einhverfra en þær eru Barna- og unglingageðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss, Ráðgjafar- og greiningarstöð, Sjúkratryggingar Íslands, Tryggingastofnun og Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þess utan hafa Einhverfusamtökin stuðlað að upplýsingagjöf og aðstoð til þeirra sem greinast með einhverfu og aðstandenda þeirra.
Segir Ágúst Bjarni nauðsynlegt að einstaklingar með einhverfugreiningu séu teknir með þegar unnið er eftir samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og öðrum mannréttindasáttmálum og að þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa geti verið lið í þeirri vinnu.
„Þá skiptir einnig máli að bæta almenna fræðslu til samfélagsins til þess að auka skilning og bæta viðmót gagnvart einhverfum. Þannig má bæta lífsgæði þeirra sem greinast með einhverfu ásamt því að rjúfa mögulega einangrun.
Það er einlæg von mín að málið fái góða umfjöllun og fari nú til velferðarnefndar til frekari umfjöllunar og verði að lokum samþykkt hér á Alþingi,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.

12/03/2023
Efling verknámsLengi hefur verið vöntun á fleiri einstaklingum með iðnmenntun hér á landi og, í kjölfar aðgerða að hálfu ríkisstjórnarinnar, hefur þeim fjölgað verulega sem hafa áhuga á að stunda iðnnám. Talið er að nemendum í starfsnámi fjölgi um 18% næstu árin. Þetta er vissulega ánægjuleg þróun. Hins vegar er nauðsynlegt að við henni verði brugðist hvað varðar námsframboð og fullnægjandi innviði fyrir hverja námsleið.
Meira og betra verknám
Í síðustu viku opinberaði mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, áform innan ráðuneytisins um að efla verknám enn frekar og bregðast við ofangreindri þróun. Ein meginástæða fyrir höfnun í verknám hefur verið skortur á aðstöðu til að taka við. Á síðasta ári sáum við hundruðum einstaklinga synjað um aðgengi að iðnnámi vegna þessa, einmitt þegar vöntunin er mikil. Því er ljóst að byggja þurfi nauðsynlega innviði og stækka ýmsa skóla svo að hægt verði að bregðast við sívaxandi aðsókn í verknámsleiðir. Ljóst er að auka þurfi námsaðstöðuna um allt að 19.500 fermetra svo að hægt sé að mæta þeirri fjölgun sem greiningar fyrir næstu ár sýna fram á.
Vegferðin er hafin
Nú þegar hefur ríkisstjórnin stækkað húsnæði til verknáms í samræmi við markmið ríkisstjórnarsáttmálans. Nýr og stærri Tækniskóli er langt kominn í Hafnarfirði, þar sem aðstaðan verður efld til muna og hægt er að taka á móti fleiri nemendum. Einnig hefur verið gengið frá samningi um stækkun starfsnámsaðstöðu Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Sú stækkun nemur alls 2.400 fermetrum. Auk þessa hafa skref verið tekin í átt að fjölgun námsleiða í Borgarholtsskóla, þá sérstaklega í pípulögnum.
Skref fyrir skref
Iðngreinar hafa lengi verið vanmetnar hér á landi þar sem langflestir velja hina hefðbundnu námsframvindu, þ.e. bóknám að lokinni framhaldsskólagráðu. Það er ekki nema á síðustu árum sem ungt fólk hefur áttað sig á þeim fjölmörgu tækifærum sem felast í iðnnámi. Við sjáum það núna í stórfelldri aukningu aðsóknar í slíkt nám. Því er nauðsynlegt að brugðist verði við og allir hafi tækifæri til að sækja iðnnám rétt eins og bóknám. Mikilvægasti fasinn er að tryggja nauðsynlega innviði.
Svo stórt verkefni þarfnast tíma og verður tekið í skrefum. Um er að ræða talsverða uppbyggingu, sem mun skila sér margfalt til baka að lokum. Þá sérstaklega fyrir nemendur utan höfuðborgarsvæðisins, sem hafa ekki horft upp á mikinn fjölda námstækifæra í iðnnámi nema með því skilyrði að þeir flytji suður. Verkefnið er þarft og það er mikið fagnaðarefni að sjá ríkisstjórnina, og þá sérstaklega mennta- og barnamálaráðherra, bregðast við með þessum hætti.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtists fyrst í Morgunblaðinu 11. mars 2023.

11/03/2023
Spara og spara, oj baraSeðlabankastjóri tilkynnti að finna þyrfti leiðir sem hafa það að markmiði að aðstoða landsmenn við að auka sparnað sinn. Hefur hann því lagt til að afnumdar verði reglur um verðtryggingu inn- og útlána. Þetta þýðir að heimilt verður að verðtryggja innlán án tímatakmarkana frá og með fyrsta júní næstkomandi. Fram hefur komið að raunávöxtun á innlánsreikningum í fyrra var neikvæð í nánast öllum tilfellum. Fé á verðtryggðum reikningum hélt í við verðbólgu en þegar búið er að taka tillit til fjármagnstekjuskatts er raunávöxtun þeirra líka neikvæð.
Þessar reglur eru barn síns tíma og í raun er það ekki eðlilegt að Seðlabankinn hlutist til um hvernig innlán séu í boði á Íslandi. Afnám reglnanna er því jákvætt og tímabær aðgerð. Með breytingu á reglum um verðtryggingu er verið að búa til hvata til aukins sparnaðar og fjölga möguleikum á sparnaði. Markmiðið er því eftir sem áður að auka sparnað og draga úr þenslu í efnahagskerfinu okkar.
Innflutningur og viðskiptahalli
Það er halli á vöruviðskiptum, sem skýrist af öflugri innlendri eftirspurn. Það hefur m.a. keyrt áfram verðbólguna hér á landi og ljóst er að framhald verði á þeirri þróun. Verðbólgan byrjaði að aukast af miklum krafti fyrir rúmu ári síðan og er nú yfir 10%. Við flytjum inn meira en við flytjum út og mikil eftirspurn er eftir bæði vörum og vinnuafli, sem kyndir undir verðbólguna og hefur myndað mikla spennu á vinnumarkaði undanfarna mánuði.
Verðbólga er merki um mikla innlenda eftirspurn og verðhækkanir á innfluttum vörum koma bersýnilega fram í viðskiptahalla. Of mikil innlend eftirspurn myndar innflutningsverðbólgu hér á landi, sem hefur áhrif á verðlag, vísitölu og þar með verðbólguna. Ljóst er að núverandi verðbólga er að mestu leyti innflutt.
Sameina krafta gegn verðbólgu
Í kringum árið 1990 var gerð þjóðarsátt sem tók til allra aðila vinnumarkaðarins og hafði hún það að leiðarljósi að allir settu sér raunhæf markmið um kaupmátt, eyðslu og skynsemi samfélagsins. Ríkisstjórnin þarf að stíga föst skref og byggja þá brú sem til þarf svo eins konar þjóðarsátt náist. Við þurfum að taka saman höndum, spara meira og eyða minna, en þó á þann hátt að tannhjól samfélagsins stöðvist ekki á meðan. Til þess þurfa almenningur, vinnumarkaðurinn, ríkið og sveitarfélögin að ganga öll saman í takt, svo árangur náist í þessari baráttu.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. mars 2023.

11/03/2023
Vinna að jafnréttiAlþjóðlegur baráttudagur kvenna var fyrr í þessari viku. Þessi dagur gefur ávallt tilefni til að ígrunda stöðu jafnréttismála hér á landi og í heiminum öllum.
Það er sláandi að þessa dagana berast þau tíðindi frá 67. fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna að það heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem við eigum hvað lengst í að ná sé markmiðið um jafnrétti kynjanna.
Hér á landi höfum við náð eftirtektarverðum árangri á mörgum sviðum jafnréttis en víða eigum við þó enn langt í land. Vinna að jafnrétti er og verður stöðugt og viðvarandi verkefni. Það verður aldrei þannig að við getum hallað okkur aftur og sagt að öllum markmiðum hafi verið náð, því þá er hætta á að áunnin réttindi tapist og framþróun stöðvist. Okkur ber skylda til að halda vinnunni áfram á öllum sviðum samfélagsins.
Áskoranirnar hér á landi eru margar, launamunur og kynjaskipting starfa á vinnumarkaði og kynbundið námsval sem að mínu áliti tengist kynbundnu námsframboði. Fylgja þarf eftir hvers konar úrbótum í vinnu gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi sem nú er í gangi, eftir að við höfum allt of lengi verið sofandi gagnvart áhrifum ofbeldis á einstaklinga og samfélag. Þá eigum við margt ólært varðandi leiðir til að tryggja konum af erlendum uppruna jafnrétti í íslensku samfélagi.
Þessi misserin sjáum við bakslag á heimsvísu vegna náttúruhamfara, stríðs og pólitískra átaka. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvetur til tafarlausra og samræmdra aðgerða til þess að flýta því að jafnrétti náist á milli kynjanna og um leið er kastljósinu beint að nýsköpun, tæknibreytingum og menntun kvenna á stafrænni öld.
Hjá UN Women er unnið að því alla daga ársins að tryggja réttindi kvenna og stúlkna um allan heim og þrýsta á aðildarríki Sameinuðu þjóðanna að virða sáttmála sem varðar réttindi kvenna og stúlkna. Stríði fylgja auknar líkur á kynbundnu ofbeldi, mansali og almennri neyð. Stóra óskin er að konur fái tækifæri til að vinna að friði. Friður er grundvöllur jafnréttis.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. mars 2023.

08/03/2023
Ísland er að flytja inn verðbólgu í stórum stílHafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, fór yfir óhagstæðan viðskiptajöfnuð Íslendinga nú í febrúar í störfum þingsins. Fluttar voru út vörur frá Íslandi fyrir 73,8 milljarða í febrúar 2023 en innflutningurinn nam 99,7 milljörðum, samkvæmt nýjum bráðabirgðatölum frá Hagstofunni.
„Vöruviðskipti okkar voru okkur því óhagstæð um 26,9 milljarða en til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 15,1 milljarð í febrúar 2022, á gengi hvors árs fyrir sig. Ljóst er að innflutningur okkar er okkur mjög dýr og munurinn milli ára er gríðarlegur. Fyrir því eru ýmsar ástæður eins og við vitum,“ sagði Hafdís Hrönn.
Verðmæti vöruútflutnings jókst um 24,9% á 12 mánaða tímabili.
- Iðnaðarvörur voru 57% af öllum útflutningi og jókst verðmæti þeirra um 35%
- Sjávarafurðir eru 35% og jókst verðmæti þeirra um 16,3%
Verðmæti vöruinnflutnings jókst um 30,9% á 12 mánaða tímabili.
- Verðmæti hrá- og rekstrarvöru jókst um 15%
- Verðmæti fjárfestingarvara jókst um 13%
- Verðmæti eldsneytis jókst um 37,9%
„Viðskiptajöfnuðurinn fyrir síðustu 12 mánuði er okkur verulega óhagstæður. Í þessum ræðustól höfum við verið að ræða um stöðu efnahagsmálanna og verðbólgu í landinu. Af þessu er kristalskýrt að við erum að flytja inn verðbólgu í stórum stíl. Þetta er ekki eina ástæðan fyrir þeirri verðbólgu sem við búum við í dag en þetta hefur svo sannarlega áhrif og við þurfum að horfast í augu við það,“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.
Ræða Hafdísar Hrannar í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegur forseti. Fluttar voru út vörur frá Íslandi fyrir 73,8 milljarða í febrúar 2023 en innflutningurinn nam 99,7 milljörðum, samkvæmt nýjum bráðabirgðatölum frá Hagstofunni. Vöruviðskipti okkar voru okkur því óhagstæð um 26,9 milljarða en til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 15,1 milljarð í febrúar 2022, á gengi hvors árs fyrir sig. Ljóst er að innflutningur okkar er okkur mjög dýr og munurinn milli ára er gríðarlegur. Fyrir því eru ýmsar ástæður eins og við vitum.
Verðmæti vöruútflutnings jókst um 24,9% á 12 mánaða tímabili. Iðnaðarvörur voru 57% af öllum útflutningi og jókst verðmæti þeirra um 35%. Sjávarafurðir eru 35% og jókst verðmæti þeirra um 16,3% miðað við 12 mánaða tímabil. Verðmæti vöruinnflutnings jókst um 30,9% á 12 mánaða tímabili og verðmæti hrá- og rekstrarvöru jókst um 15%. Verðmæti fjárfestingarvara jókst um 13% og verðmæti eldsneytis um 37,9%, samanborið við árið á undan. Verðmæti vöruinnflutnings á 12 mánaða tímabili jókst um 30,9% á gengi hvors árs fyrir sig og aukningin var mest í eldsneyti, hrá- og rekstrarvörum og fjárfestingarvörum.
Virðulegi forseti. Viðskiptajöfnuðurinn fyrir síðustu 12 mánuði er okkur verulega óhagstæður. Í þessum ræðustól höfum við verið að ræða um stöðu efnahagsmálanna og verðbólgu í landinu. Af þessu er kristalskýrt að við erum að flytja inn verðbólgu í stórum stíl. Þetta er ekki eina ástæðan fyrir þeirri verðbólgu sem við búum við í dag en þetta hefur svo sannarlega áhrif og við þurfum að horfast í augu við það.“

08/03/2023
„Stofnun Niceair ein af stærri byggðaaðgerðum sem ráðist hefur verið í“Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins um uppbyggingu alþjóðaflugs á landsbyggðunum. Stjórnvöld hafa markvisst unnið að því að auka samkeppnishæfni landsins og fjölga erlendum ferðalöngum. Flugþróunarsjóður er dæmi beinar aðgerðir stjórnvalda, en honum er ætlað að styðja flugfélög í að þróa og markaðssetja beint alþjóðaflug til Akureyrar og Egilsstaða.
„Fjármunum hefur sérstaklega verið varið til markaðsstofa svæðisins til að efla kynningu á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum sem alþjóðaflugvöllum og aukinn slagkraftur hefur verið settur í markaðssetningu á landshlutunum sem vænlegum áfangastöðum með beinu millilandaflugi. Fjárfest hefur verið í innviðum á svæðinu og frumvarp hefur verið lagt fram um varaflugvallargjald, sem ætlað er að bregðast við og tryggja fjármagn til uppbyggingar varaflugvalla sem og þeirra þjónustuvalla sem eru víðs vegar um land,“ sagði Ingibjörg.
„Greiðar samgöngur við útlönd hafa mikilvæg áhrif á byggðir landsins og má segja að stofnun Niceair hafi verið ein af stærri byggðaaðgerðum sem ráðist hefur verið í; byggðaaðgerð sem hefur gífurleg áhrif á samfélagið í heild, ánægju íbúa og lífsgæði þeirra sem aukast til muna. Það er ánægjulegt að sjá raunverulegan árangur af aðgerðum stjórnvalda en þar eru fólgin mikilvæg skilaboð um stefnu ríkisstjórnarinnar í ferðaþjónustu: Hana skal efla um allt land,“ sagði Ingibjörg.
„Í ár verður metfjöldi áfangastaða í boði frá landsbyggðinni. Nýjar flugtengingar skipta miklu máli fyrir atvinnuþróun svæðisins og auka verulega möguleika á að styrkja ferðaþjónustu þar sem við sjáum að hún hefur aukist. Þeim ber að þakka sem hafa í mörg ár barist fyrir auknu millilandaflugi um þessa flugvelli; sveitarfélögum, markaðsstofum, landshlutasamtökum, auk frumkvöðla á svæðinu. Það er virkilega ánægjulegt að sjá að barátta þeirra hefur skilað sér,“ sagði Ingibjörg að lokum.
Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Greiðar flugsamgöngur við útlönd eru mikilvægar. Á undanförnum árum hafa stjórnvöld stigið markviss skref sem stuðla að uppbyggingu alþjóðaflugs á landsbyggðinni, skref sem hafa skilað góðum árangri. Árangurinn hefur gagnast alþjóðlegum ferðalöngum og ekki síður almenningi og fyrirtækjum hérlendis og aukið samkeppnishæfni landsins. Dæmi um aðgerðir stjórnvalda eru t.d. flugþróunarsjóður, sem settur var á laggirnar til að styðja flugfélög í að þróa og markaðssetja beint alþjóðaflug til Akureyrar og Egilsstaða. Fjármunum hefur sérstaklega verið varið til markaðsstofa svæðisins til að efla kynningu á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum sem alþjóðaflugvöllum og aukinn slagkraftur hefur verið settur í markaðssetningu á landshlutunum sem vænlegum áfangastöðum með beinu millilandaflugi. Fjárfest hefur verið í innviðum á svæðinu og frumvarp hefur verið lagt fram um varaflugvallargjald, sem ætlað er að bregðast við og tryggja fjármagn til uppbyggingar varaflugvalla sem og þeirra þjónustuvalla sem eru víðs vegar um land.
Greiðar samgöngur við útlönd hafa mikilvæg áhrif á byggðir landsins og má segja að stofnun Niceair hafi verið ein af stærri byggðaaðgerðum sem ráðist hefur verið í; byggðaaðgerð sem hefur gífurleg áhrif á samfélagið í heild, ánægju íbúa og lífsgæði þeirra sem aukast til muna. Það er ánægjulegt að sjá raunverulegan árangur af aðgerðum stjórnvalda en þar eru fólgin mikilvæg skilaboð um stefnu ríkisstjórnarinnar í ferðaþjónustu: Hana skal efla um allt land.
Í ár verður metfjöldi áfangastaða í boði frá landsbyggðinni. Nýjar flugtengingar skipta miklu máli fyrir atvinnuþróun svæðisins og auka verulega möguleika á að styrkja ferðaþjónustu þar sem við sjáum að hún hefur aukist. Þeim ber að þakka sem hafa í mörg ár barist fyrir auknu millilandaflugi um þessa flugvelli; sveitarfélögum, markaðsstofum, landshlutasamtökum, auk frumkvöðla á svæðinu. Það er virkilega ánægjulegt að sjá að barátta þeirra hefur skilað sér.“
„Hefur ásótt svo marga eins og draugur“

08/03/2023
„Hefur ásótt svo marga eins og draugur“Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, ræddi Endóvikuna, í störfum þingsins, en vikunni er ætlað að vekja athygli á sjúkdómnum endrómetríósu. Sjúkdómurinn hefur einnig verið kallaður legslímuflakk og er mikilvægt að hann hljóti athygli og vinna að vitundarvakningu og fræðslu. „Þetta er skæður sjúkdómur og það er löngu tímabært að við viðurkennum alvarleika hans og bregðumst við af fullri alvöru.“
„Endómetríósa, eða endó til styttingar, hrjáir konur og einstaklinga sem fæðast í kvenlíkama. Sjúkdómurinn er þeim þungbær, hann er krónískur fjölkerfasjúkdómur og afar sársaukafullur. Af þeim sem hafa sjúkdóminn eru um 60% með einkenni og um 20% með mjög sár einkenni,“ sagði Halla Signý.
Því er einstaklega ánægjulegt að sjá heilbrigðiskerfið taka meðhöndlun sjúkdómsins föstum tökum.
„Fræðsla hefur bæst til muna og ekki er lengur hvíslað um sjúkdóminn. Ásamt þessu hefur hæstv. heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, staðfest samning Sjúkratrygginga Íslands við Klíníkina um kaup á aðgerðum vegna sjúkdómsins. Samningurinn er stórt skref sem kemur til með að bæta líf margra. Á sama tíma fá einstaklingar sem sjúkdómurinn hrjáir loksins viðurkenningu á því sem raunverulega er að hrjá þá. Sjúkdómurinn er ekki lengur túrverkir sem á bara að harka af sér heldur er þetta alvarlegur og sársaukafullur sjúkdómur sem hægt er að meðhöndla,“ sagði Halla Signý.
Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Endóvikan hófst í gær. Hvað er Endóvika? Jú, það er vika til vitundarvakningar og fræðslu sem vekur verðskuldaða athygli á endrómetríósu, sem einnig kallast legslímuflakk, sjúkdómur sem ekki mátti tala um í áranna raðir. Endómetríósa, eða endó til styttingar, hrjáir konur og einstaklinga sem fæðast í kvenlíkama. Sjúkdómurinn er þeim þungbær, hann er krónískur fjölkerfasjúkdómur og afar sársaukafullur. Af þeim sem hafa sjúkdóminn eru um 60% með einkenni og um 20% með mjög sár einkenni. Endó leiðir til yfirborðsþekju endómetríósufrumna á líffærin sem bregðast við mánaðarlegum hormónabreytingum kvenlíkamans og valda bólgum og jafnvel innvortis blæðingum. Þetta er ekki tæmandi talning einkenna en þau eiga það öll sameiginlegt að reynast sársaukafull. Þetta er skæður sjúkdómur og það er löngu tímabært að við viðurkennum alvarleika hans og bregðumst við af fullri alvöru.
Því er einstaklega ánægjulegt að sjá heilbrigðiskerfið taka meðhöndlun sjúkdómsins föstum tökum. Fræðsla hefur bæst til muna og ekki er lengur hvíslað um sjúkdóminn. Ásamt þessu hefur hæstv. heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, staðfest samning Sjúkratrygginga Íslands við Klíníkina um kaup á aðgerðum vegna sjúkdómsins. Samningurinn er stórt skref sem kemur til með að bæta líf margra. Á sama tíma fá einstaklingar sem sjúkdómurinn hrjáir loksins viðurkenningu á því sem raunverulega er að hrjá þá. Sjúkdómurinn er ekki lengur túrverkir sem á bara að harka af sér heldur er þetta alvarlegur og sársaukafullur sjúkdómur sem hægt er að meðhöndla.
Ég vil hvetja þingmenn til að sækja sér auknar upplýsingar og fræðast um þennan sjúkdóm sem hefur ásótt svo marga eins og draugur, færa hann í ljósið og styðja við þau sem sjúkdómurinn hrjáir, bæði persónulega og hér á þingi.“

07/03/2023
EndóvikaVikan er helguð endómetríósu.
Hvað er endóvika? Jú það er vika til vitundavakningar og fræðslu og vekur verðskuldaða athygli á endómetríósu, sem einnig kallast legslímuflakk. Sjúkdóminn sem mátti ekki og var ekki talað um í áranna raðir. Endómetríósa, eða endó til styttingar, hrjáir konur og einstaklinga sem fæðast í kvenlíkama. Sjúkdómurinn er þeim þungbær. Hann er krónískur, fjölkerfa sjúkdómur og afar sársaukafullur. Af þeim sem hafa sjúkdóminn eru um 60% með einkenni og um 20% með mjög sár einkenni. Endó leiðir til yfirborðsþekju endómetríósufruma á líffærum, sem bregðast við mánaðarlegum hormónabreytingum kvenlíkamans og valda bólgum eða jafnvel innvortis blæðingum. Þetta er ekki tæmandi talning einkenna, en þau hafa það öll sameiginlegt að reynast sársaukafull. Þetta er skæður sjúkdómur og það er löngu tímabært að við viðurkennum alvarleika hans og bregðumst við af fullri alvöru.
Heilbrigðiskerfið tekur við sér
Því er einstaklega ánægjulegt að sjá heilbrigðiskerfið taka meðhöndlun sjúkdómsins föstum tökum. Fræðsla hefur bæst til muna og ekki er lengur hvíslað um sjúkdóminn. Endometríósuteymi kvennadeildar Landspítalans vinnur með þverfaglegt teymi kvenlækningadeildar. Teymið sinnir sjúklingum með erfið einkenni sem eru í greiningarferli eða ef meðferð hefur ekki skilað árangri. Allt er þetta gert með það að markmiði að auka lífsgæði sjúklingsins.
Samningur um kaup á aðgerðum
Hæstvirtur heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, staðfest samning, sem Sjúkratryggingar Íslands hafa gert við Klíníkina um kaup á aðgerðum vegna endómetríósu.
Samningurinn er stórt skref sem kemur til með að bæta líf margra. Á sama tíma fá einstaklingar sem sjúkdómurinn hrjáir loksins viðurkenningu á því sem raunverulega er að hrjá þá. Sjúkdómurinn er ekki lengur „túrverkir“ sem á bara að harka af sér, heldur er þetta alvarlegur og sársaukafullur sjúkdómur sem hægt er að meðhöndla.
Ég vil hvetja fólk til að sækja sér upplýsinga og fræðast um þennan sjúkdóm sem hefur ásótt svo marga eins og draugur. Færa hann í ljósið og styðja við þau sem sjúkdómurinn hrjáir.
Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst á visir.is 7. mars 2023.

07/03/2023
Ungt fólk í húsnæðisvandaÉg hef orðið verulegar áhyggjur af húsnæðismarkaðnum hér á landi. Þau tæki sem Seðlabanki Íslands hefur til þess að halda verðbólgu í skefjum og koma í veg fyrir óhóflegar lántökur eru stýrivaxtahækkanir. Stýrivaxtahækkanir hafa leitt til hærri vaxta hjá bönkunum með tilheyrandi gróða. Því hærri sem vextirnir eru, því meira fær bankinn til sín og því erfiðara verður fyrir almenning í landinu að borga lánin til baka. Háir vextir gera fólki ekki bara erfitt fyrir með að greiða af lánum, heldur hefur þau áhrif að fólk þarf að skera niður í öðrum heilbrigðum og nauðsynlegum heimilisútgjöldum. Þar getum við sem dæmi nefnt útgjöld á borð við tómstundaiðkun barna, matarinnkaup, tryggingar og jafnvel heilbrigðisþjónustu. Þessi staða skapar ákveðna togstreitu og reiði út í samfélaginu sem ég skil vel. Á sama tíma og fólk á erfitt með að ná endum saman sökum þess að afborganir af húsnæðislánum hafa hækkað verulega berast fréttir af milljarða hagnaði bankanna og annarra fjármálafyrirtækja.
Unga fólkið og markaðurinn
Þá hef ég verulegar áhyggjur af öllum þeim fjölda fólks sem bæði hefur þá ósk og þrá að koma sér og sínum þaki yfir höfuðið, en geta það ekki. Ástæðan: fólki hefur verið gert erfiðara um vik að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Seðlabankinn tók þá ákvörðun um að þyngja greiðslumatið og lækka hámarkslánsprósentuna til að kæla markaðinn og koma böndum á þær miklu hækkanir sem verið hafa undanfarna mánuði og ár. Þrátt fyrir að þessar aðgerðir Seðlabankans hafi að einhverju leyti skilað sínu, þá tel ég nauðsynlegt að fara með hámarkslánsprósentuna til baka en tryggja áfram vel að fólk geti staðið við greiðslur afborgana lána.
Meiri fyrirsjáanleiki
Við þekkjum öll þær miklu sveiflur sem einkennt hafa húsnæðismarkaðinn hér á landi í alltof langan tíma. Þær sveiflur og þann vanda má í raun rekja til fullkomins skorts á yfirsýn yfir þann fjölda íbúða sem byggður hefur verið og er í byggingu á landinu. Fólki fjölgar og eftirspurn eftir húsnæði er og verður áfram til staðar. Tímabundin kæling mun ganga til baka og við munum sjá húsnæðisverð taka að hækka á ný, að minnsta kosti eitthvað áfram. Það sem mun vonandi koma böndum á þessa þróun til framtíðar eru aðgerðir Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra, um meiri fyrirsjáanleika í uppbyggingu húsnæðis með gerð rammasamninga við sveitarfélög um slíka uppbyggingu og sérstakri áherslu á gerð húsnæðisáætlana. Þetta mun auka yfirsýn til framtíðar og stuðla að nauðsynlegu jafnvægi á markaði.
Það er þörf á aðgerðum
Líkt og ég hef áður sagt, þá er nú búið að taka í handbremsuna og það allharkalega af hálfu Seðlabankans. Þetta hefur auðvitað keðjuverkandi áhrif. Við sjáum það víða að samhliða því að fólki er gert erfiðara um vik við að koma sér inn á markaðinn, þá hækkar leiga og fólk hefur minna svigrúm til að leggja fyrir og spara. Sjáið til, það kemur ofan á allar aðrar hækkanir í samfélaginu. Fólk kemst ekki í þær eignir sem nú eru í byggingu – og hvar enda þær og hjá hverjum? Þeir ríku græða, en aðrir sitja eftir. Ég held að það þurfi ekki fleiri orð um það. Staðan núna er einfaldlega vond, í raun mjög vond og hér fyrir neðan eru þær nauðsynlegu aðgerðir sem grípa þarf til og eru tiltölulega einfaldar í framkvæmd:
- Sveitarfélög þurfa að taka hendur úr vösum, finna leiðir til að tryggja nægilegt framboð byggingarhæfra lóða og gera sérstakt samkomulag við ríkið og HMS um uppbyggingu til framtíðar, svokallað rammasamkomulag.
- Seðlabankinn þarf að endurskoða hámark veðsetningarhlutfalls og greiðslubyrðarhlutfalls þannig að ekki sé útilokað að ungt fólk geti komið sér þaki yfir höfuðið.
- Endurskoða þarf úrræði hlutdeildarlána þannig að það virki fyrir fyrstu kaupendur og skapi hvata fyrir byggingaraðila til að fjárfesta í nauðsynlegri íbúðauppbyggingu.
Ágúst Bjarni Garðsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Greinin birtist fyrst á visir.is 7. mars 2023.

05/03/2023
EvrópusambandsdraugurinnNú þegar gefur á bátinn í hagkerfum heimsins og verðbólga hefur farið vaxandi hefur gamall draugur verið dregin út úr skápnum. Aftur er komin í gang sama orðræða og í kjölfarið á hruninu þar sem innganga í Evrópusambandið átti að leysa öll okkar vandamál og er þá litið á evruna sem galdratæki sem bjargað geti öllum okkar vandræðum í eitt skipti fyrir öll. Evrópusambandið er annað, stærra og meira en bara upptaka á evru, auk þess sem innganga í sambandið er ekki lausn undan verðbólgu. Það má best sjá með því að líta til annarra landa innan Evrópusambandsins sem tekið hafa upp evruna og eru þrátt fyrir það að glíma jafnvel við enn hærri verðbólgu en við hér á landi. Nýjar verðbólgutölur í Frakklandi og Spáni gefa einnig til kynna að verðbólga á evrusvæðinu verði viðvarandi. Við, líkt og önnur lönd í Evrópu erum að glíma við afleiðingar af heimsfaraldri sem og innrás Rússa í Úkraínu. Þá hefur evran verið háð verulegum sveiflum undanfarin ár, þar sem sum aðildarríki ESB glíma við miklar skuldir og lítinn hagvöxt. Í stað þess að hafa jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf gæti innganga í Evrópusambandið og upptaka evru haft neikvæðar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf sem hefur verið nokkuð stöðugt undanfarin ár.
EES samningurinn tryggir okkur góða stöðu
Ísland, Noregur og Sviss sem öll standa utan Evrópusambandsins eru á meðal þeirra landa sem teljast hafa hve best lífskjör í veröldinni. Ísland nýtur í dag verulegs ávinnings á því að vera aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA). Þessir samningar gera Íslandi kleift að taka þátt í innri markaði ESB og njóta góðs af frjálsum viðskiptum við ESB-ríkin. Fyrir vikið hefur Ísland aðgang að stærsta markaði heims án þess að þurfa að hlíta ströngum reglum og stefnum ESB. Þetta fyrirkomulag hefur verið hagstætt fyrir íslenskt efnahagslíf þar sem það tryggir frjálst flæði vöru og þjónustu milli Íslands og ESB-ríkja. EES samningurinn hefur skapað sterkt og stöðugt viðskiptasamband milli ESB og EES-EFTA- ríkjanna sem veitir gagnkvæman ávinning og tækifæri til vaxtar og þróunar. Auk þess hefur EES samningurinn skapað stöðugan ramman utan um pólitískt og efnahagslegt samstarf milli ESB-ríkjanna og EES- EFTA-ríkjanna. Þessu samningur hefur skapað vettvang sem gerir löndunum kleift að vinna saman að mikilvægum málum líkt og matvælaöryggi , rannsóknum og nýsköpun, fjármálastarfsemi og upplýsingatækni.
Erum við tilbúin að fórna sjálfstæði okkar?
Staðreyndin er sú að með inngöngu í Evrópusambandið yrði Ísland að undirgangast löggjöf ESB sem gætu takmarkað sjálfstæði Íslands í ákveðnum málaflokkum. Við myndum tapa sjálfstæði yfir auðlindum landsins og stjórn sjávarútvegs sem er verulegur hluti af efnahagslífi landsins þar sem ESB hefur sameiginlega fiskveiðistefnu sem leitast við að stjórna fiskistofnum á sjálfbæran hátt. Það gæti hugsanlega takmarkað möguleika Íslands til að veiða í eigin hafsvæði. Orkuverð hefur farið vaxandi innan ESB á síðustu árum og þá tók orkuverð í Evrópu enn stærra stökk upp á við eftir innrás Rússa í Úkraínu. Ísland er í farabroddi í orkumálum en amk. 85% af orku sem er notuð á Íslandi er framleidd á endurnýjanlegan grænan hátt. Við megum vera stolt af þessum árangri og um leið þakkað fyrir að vera ekki í sömu stöðu og þjóðir ESB þegar kemur að stöðu í orkumálum og orkuverði. Við getum eflaust flest verið sammála um það að í sjávarútvegs og orkumálum hafi Íslandi vegnað vel í alþjóðlegum samanburði og það væri varhugavert að kasta þeirri stöðu á glæ. Þegar við spyrjum okkur hvort við viljum ganga í Evrópusambandið þá þurfum við að hafa í huga hvort við séum að fórna stærri hagsmunum fyrir minni. Ísland er fámennt land og því er ekki ólíklegt að með aðild að Evrópusambandinu kæmi Ísland til með að falla í skugga stærri aðildarríkja en úthlutun sæta á Evrópuþinginu ræðst af flókinni formúlu sem tekur mið af íbúafjölda hvers aðildarríkis. Þar sem íbúafjöldi Íslands er innan við 1% af heildaríbúum ESB má reikna með að Ísland fengi af 705 þingsætum aðeins 6 sæti, en það en það eru lágmarksþingsæti fyrir hvert aðildarríki.
Okkur er betur borgið utan ESB
Við í Framsókn leggjum áherslu á áframhaldandi gott samstarf við Evrópusambandið en teljum hagsmunum okkar mun betur borgið utan þess. Með EES samningnum höldum við áfram sjálfstæði okkar og yfirráðum yfir auðlindum. Við höfum öll tækifæri til þess að ná tökum á ástandinu þegar fram líða stundir. Það er mikilvægt í staðinn fyrir að einblína á töfralausnir að líta á það jákvæða sem við höfum hér á landi. Við búum við kröftugan hagvöxt, erum með sterka innviði, lítið atvinnuleysi og útflutningsgreinar sem vegnar vel. Ísland hefur staðið vel í alþjóðlegum samanburði hvað varðar lífskjör, heilbrigðiskerfið, menntun og þannig mætti áfram telja þó vissulega gefi á eins og hjá öðrum þjóðum þegar stríð brestur á í kjölfar heimsfaraldurs, sama hvaða gjaldmiðil er um að ræða. Það ber að varast að hlaupa á vinsældavagninn og einblína á hvað myndi hugsanlega henta einmitt í dag frekar en að horfa til lengri tíma með hagsmuni lands og þjóðar í fyrirrúmi.
Ingibjörg Ólöf Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður NA kjördæmis.
Greinin birtist fyrst á visir.is 4. mars 2023.