Categories
Fréttir Greinar

Hvers vegna má ekki ræða hag­ræðingu?

Deila grein

21/09/2023

Hvers vegna má ekki ræða hag­ræðingu?

Síðustu daga hefur sprottið upp mikil og ekki síður mikilvæg umræða um framtíð menntunar og menntastofnana. Menntamálaráðherra ákvað í lok apríl síðastliðnum að setja af stað könnun um aukið samstarf eða sameiningu nokkurra framhaldsskóla á landinu. Markmið þeirrar vinnu hefur ávallt verið að styrkja faglega umgjörð námsins og rekstrarleg málefni skólanna. Það getur í einhverjum tilfellum þýtt sameiningu einstakra skóla til að búa til nýjar og öflugri einingar þar sem það er bæði hægt, og á við, til að takast á við þær breytingar og áskoranir sem fram undan eru á sviði menntamála. Sameining má hins vegar aldrei vera sameiningarinnar vegna, heldur verður að standa traustum fótum og það þarf að vera tryggt að slíkt stuðli að betra námi og traustari umgjörð nemenda og starfsfólks til framtíðar. Það er leiðarljós okkar og ég veit að slíkt er leiðarljós ráðherra málaflokksins.

Hagræðing eða sparnaður?

Með sparnaði er verið að skera niður fjármagn eða færa fjármagn úr einum málalfokki yfir í annan. Hagræðing innan málaflokks snýst hins vegar um að nýta þá fjármuni sem til staðar á betri hátt. Hún snýst um að nýta fjármuni á þá staði þar sem þeir eiga raunverulega heima. Í menntamálum eiga fjármunir að fara í að styrkja menntun nemenda, umgjörð þeirra og umgjörð starfsfólks. Þeir eiga ekki að fara í óþarfa steinsteypu eða rekstrarlega yfirbyggingu. Þetta virðist Sjálfstæðisflokknum hugnast illa. Flokki sem oft og iðulega tala í orði fyrir því að fara vel með og nýta fjármuni með skynsamlegum hætti. Óli Björn Kárason, þingmaður flokksins, skrifaði sérkennilega grein um eina af þessum umræddu tillögum í Morgunblaðið á dögunum og tók það sérstaklega fram að þau áform sem ráðherra hefði kynnt, og þingmaðurinn væri alfarið á móti og aðrir þingmenn flokksins tekið undir, væru ólík öðrum sambærilegum áformum eins og sameiningu annarra stofnana hér á landi. Hvernig má það vera? Þessi rök halda auðvitað engu vatni, ekki dropa, og jaðra við að vera hlægileg frá jafn skynsömum manni og Óla Birni. Hugmyndin er ekki að skera niður, hugmyndin er að nýta fjármuni betur og styrkja menntun. Það er allra hagur. Sjálfstæðisflokkurinn er bara flokkur hins opinbera, líður vel að þenja kerfið út, leggja auknar álögur á fólk í stað þess að fara vel með og sækja fjármuni á þá staði þar sem þeir raunverulega eru. Og standa með venjulegu fólki. Einhvern tímann hefði þetta kallast að vera kominn út í horn, eða jafnvel að magalenda út í skurði. Ég skal ekki segja.

Áskoranir í menntamálum fram undan

Bóknámsnemum er að fækka en nemendum í iðn- og tæknimenntun er að fjölga. Það er áskorun og það þarf kjark til að bregðast við þeirri áskorun. Fyrir um ári síðan var staðan sú að um 700 einstaklingar komust ekki inn í iðnnám. Staðan er einfaldlega þessi að við þurfum að fjárfesta í verknámi, starfsnámi og þá nemendum og umgjörð þeirra sem slíkt nám velja. Við þurfum sérfræðinga og öfluga einstaklinga til að taka þátt í þessum áskorunum sem fram undan eru við að byggja upp, virkja, skapa og taka þátt í nýsköpun og orkuskiptum. Þetta er að gerast mjög hratt. Ljósið í þessu öllu saman, raunar sé ég litla birtu vegna umræðunnar, er að nú hljóta kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að styðja við auknar fjárveitingar til framhaldsskólanna svo að þeir nemendur sem fari í dýrara nám fái tækifæri til að njóta þeirrar nauðsynlegu fjölbreytni sem um er rætt.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Heilbrigðisþjónusta í heimabyggð

Deila grein

19/09/2023

Heilbrigðisþjónusta í heimabyggð

Íbúar landsbyggðarinnar eru nánast farnir að taka því sem sjálfsögðum hlut að leggja land undir fót með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn til þess að sækja sér sérfræðiþjónustu til Reykjavíkur. Greiningar hafa sýnt að fólk á landsbyggðinni er ólíklegra til þess að sækja sér þjónustu sérfræðilækna heldur en fólk af höfuðborgarsvæðinu og er ólíklegt að það sé vegna þess að fólk á landsbyggðinni sé hraustara heldur fyrir sunnan. Staðreyndin er sú að oft er um langan veg að fara og aðgengi að þjónustu er ekki jafnt.

Það þarf að fjölga ferðum

Líkt og staðan er í dag getur það verið verulega kostnaðarsamt fyrir þá sem eru búsettir á landsbyggðinni að sækja sér heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðið. Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í kostnaði við tvær ferðir sjúkratryggðs á 12 mánaða tímabili, þegar um er að ræða nauðsynlega ferð og þjónustan er ekki í boði í heimabyggð. Undirrituð telur það jafnréttismál fyrir íbúa landsbyggðarinnar að endurgreiðslum vegna slíkra ferða verði fjölgað og jafna með þeim hætti aðgengi íbúa landsins að heilbrigðisþjónustu. Í því samhengi þyrfti í auknum mæli að horfa til þarfa hvers og eins. Rétt er þó að geta þess til að koma í veg fyrir misskilning að ef um alvarlega sjúkdóma er að ræða þá endurgreiða Sjúkratryggingar ferðakostnaði vegna fleiri ferða.

Jafnt aðgengi að sérfræðingum

Með nýjum samningum við sérgreinalækna var stigið mikilvægt skref í átt að betri heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn. Að ná samningunum var meðal mikilvægustu verkefna ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili og það var virkilega ánægjulegt að heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, hafi náð að landa þeim. Tækifærin eru til staðar, verkefnið er að halda áfram á sömu leið. Markmið stjórnvalda er að halda markvisst áfram að bæta heilbrigðiskerfið, tryggja öfluga heilbrigðisþjónustu og jafna aðgengi.

Sú sem hér skrifar telur þörf á að efla enn frekar þjónustu sérfræðilækna við íbúa landsbyggðarinnar. Þónokkrir sérfræðilæknar leggja land undir fót og þjónusta fólk í hinum ýmsu byggðum um land allt. Í því ljósi telur undirrituð það ákjósanlegra að fækka markvisst ferðum fólks af landsbyggðinni þar sem því verður við komið og efla enn frekar ferðir sérfræðinga út á land.

Sérfræðilæknar eru takmörkuð auðlind og því er erfitt að gera kröfu um að þeir hafi fasta starfstöðvar á hverjum degi á landsbyggðinni. En það er mögulegt að auka samstarf milli sérfræðilækna og heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og nýta þá aðstöðu sem víða er til staðar. Sú sem hér skrifar telur mikilvægt að gengið verði til samræðna við sérfræðilækna með það að markmiði að færa þjónustu þeirra nær fólkinu. Með því að fjölga ferðum sérfræðinganna út á land fyrir tilstilli ríkisins til að sinna þjónustunni í heimabyggð er það ekki bara hagræði fyrir þá sem þurfa að leita sér heilbrigðisþjónustu heldur kæmi það einnig til með að spara ríkissjóði talsverðar fjárhæðir. Með einni ferð sérfræðingsins er tugum annarra sparað sömu ferð. Þá eru ótalin jákvæð umhverfisáhrif vegna minni ferðalaga.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Tungumálið og tæknin

Deila grein

18/09/2023

Tungumálið og tæknin

Við sem samfélag verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja stöðu íslenskrar tungu inn í framtíðina, ekki aðeins til að forða því að hér verði rof í merkri menningarsögu þjóðarinnar heldur einnig til að koma í veg fyrir að hér alist upp kynslóðir sem eru ófærar um að tjá sig vel á eigin móðurmáli. Þróun sem þessi er lúmsk, hún á sér stað hægt og rólega með minnkandi meðvitund okkar – og áður en við vitum af gæti sú staða komið upp að þróuninni verði ekki aftur snúið.

Sókn er besta vörnin

Ég tel að breið pólitísk sátt sé um það verkefni að snúa vörn í sókn – fyrir íslenska tungu. Fjölbreytt starf hefur verið unnið á vegum ráðherranefndar um málefni íslenskunnar og ráðuneytanna í vetur og birtist afrakstur þeirrar vinnu í aðgerðaáætlun sem kynnt var í samráðsgátt í sumar. Fjölmargar gagnlegar umsagnir bárust sem bæta munu þær aðgerðir og ljóst af fjölda þeirra og inntaki að margir eru viljugir að leggjast á árarnar með okkur. Aðgerðaáætlunin verður lögð fram sem þingsályktunartillaga á Alþingi nú í haust.

Eitt stærsta verkefnið fram undan er að tryggja að íslenska verði gjaldgeng í hinum stafræna heimi og það verkefni er langhlaup. Öflug innviðauppbygging á sviði máltækni hefur átt sér stað á síðustu 5 árum, fyrir tilstilli fyrstu máltækniáætlunar íslenskra stjórnvalda, og hefur það framtak og sú sýn vakið töluverða athygli út fyrir landssteinana. Ég vil fullyrða að sú vinna sem þegar hefur verið unnin, af íslenskum háskólum og nýskapandi fyrirtækjum í máltækni sé á heimsmælikvarða.

Áfram verður fjárfest í tungu og tækni

Nú þegar fyrstu máltækniáætluninni lokið er unnið að því að móta framtíðarfyrirkomulag fyrir áframhaldandi þróun og viðhald íslenskrar máltækni, svo sú þekking, mannauður og tækni sem orðið hefur til megi nýtast okkur sem best til framtíðar. Lykilverkefni í því samhengi er að stuðla að hagnýtingu tækninnar og innleiðingu. Starfshópur með alls 15 sérfræðingum úr atvinnulífi, stjórnkerfi og menntakerfi hefur að undanförnu kortlagt áskoranir og tækifæri sem þessu tengjast og munu niðurstöður hans nýtast við tillögugerð sem skilað verður á næstu vikum.

Fjármögnun fyrir næstu máltækniáætlun er tryggð og er gert ráð fyrir 360 milljónum króna á ári í málaflokkinn árlega út árið 2026 auk 160 milljóna til viðbótar á ári í gegn um samkeppnissjóðinn Markáætlun í tungu og tækni. Í heildina er því um að ræða um tveggja milljarða króna fjárfestingu í máltækni á tímabilinu.

Íslensk máltækni eykur lífsgæði fólks

Notkun íslenskrar máltækni getur nýst á ótal sviðum og orðið ein lykilbreytan í því að efla íslenska tungu til framtíðar. Nú þegar er íslensk máltækni nýtt til að aðstoða fjölda fólks með sjónskerðingu í daglegu lífi, einfalda upplýsingagjöf fyrirtækja og stofnana og í tungumálakennslu fyrir nýja Íslendinga.

Möguleika tækninnar þarf að kynna og byggja brú á milli vísindasamfélagsins, nýsköpunargeirans og stjórnkerfisins svo við getum nýtt þessa nýju inniviði – þessa stafrænu vegagerð – til hagsbóta fyrir alla. Nú er mikilvægt að við tökum öll höndum saman við að vinna þessum málum brautargengi. Það á við um okkur í stjórnmálunum, fólk í atvinnulífinu sem og okkur öll.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Hug­leiðingar við upp­haf nýs lög­gjafar­þings

Deila grein

17/09/2023

Hug­leiðingar við upp­haf nýs lög­gjafar­þings

Þróun umræðu í samfélaginu síðustu misseri hefur verið um margt umhugsunarverð, stundum byggir umræðan á staðreyndum en oftar en ekki er rangfærslum haldið á lofti. Það hefur sjaldan verið jafn mikilvægt og akkúrat nú á tímum falsfrétta að allar þær upplýsingar sem unnið er með hverju sinni sé réttar og sannar. Aðeins þannig getum við átt upplýsta og málefnalega umræðu og talað okkur saman að niðurstöðu mála. Ég lít svo á að það sé siðferðileg skylda okkar sem störfum í stjórnmálum að vanda til verka í allri umræðu og kynna okkur allar staðreyndir mála, aðeins þannig getum við tekið upplýsta ákvörðun. Annars er hættan alltaf á að við missum umræðuna út í ómálefnaleg úthróp og á villigötur. Fólk veigrar sér við að taka þátt í umræðunni með þeim afleiðingum að þeir sem hafa hæst ná að stela umræðunni. Við höfum séð þetta gerast oftar en einu sinni og erum líklega flest sammála að þetta sé ekki jákvæð þróun, við þurfum að gera betur.

Orð bera ábyrgð

Við sem höfum fengið það ábyrgðarmikla hlutverk að sitja á Alþingi gerum það í umboði þjóðarinnar. Almenningur gerir þá sjálfsögðu kröfu að á Alþingi fari fram rökræn og skynsamleg umræða. Orð sem eru látin falla í þingsal eða annars staðar úti í samfélaginu af hálfu þingmanna bera svo sannarlega ábyrgð. Almenningur treystir á og býst við að við þingmenn nálgumst alla umræðu af skynsemi og réttum staðreyndum. Okkar hlutverk er að vinna að umbóta- og framfaramálum fyrir þjóðina og það er skylda okkar sem eigum sæti á Alþingi að vera skynsemisröddin og ekki í sandkassaleik. Það sem af er þessu kjörtímabili höfum við sem störfum á Alþingi unnið í sameiningu þvert á flokka að ýmsum framfaramálum í þágu þjóðarinnar. Við erum ekki alltaf sammála en í gengum nefndirnar höfum við oft talað okkur saman að niðurstöðu. Mig langar því að nýta hér tækifærið og hvetja okkur áfram til góðra verka. Stjórnmálin eru oft skemmtileg en þau eru líka krefjandi og sérstaklega á tímum sem þessum þar sem margir eru með þungan róður. Í gegnum allt lífið færum við ákveðnar fórnir fyrir þær ákvarðanir sem hafa verið teknar. Þetta ferðalag sem lífið er býður ekki alltaf upp á mikla fyrirhyggju frá degi til dags. Við vinnum þó alltaf af sannfæringu og höfum trú á því að það sem við erum að gera sé það rétta í stöðunni hverju sinni.

Fyrir samfélagið

Að lokum vil ég hvetja okkur öll til að nálgast verkefnin fram undan með samvinnuhugsjón að leiðarljósi og nálgast umræðuna út frá skynsemi og með röksemdum og staðreyndum. Við ættum að forðast að benda fingrum í allar áttir og reyna heldur eftir fremsta megni að vinna saman, þó að okkur greini oft á um aðferðarfræðina erum við í grunninn sammála um að halda áfram að skapa gott samfélag og forsendur fyrir okkur til að vaxa og dafna. Við munum ekki ná árangri sem samfélag nema við stöndum saman og þar verður samvinnan alltaf að vera rauði þráðurinn hvort sem er á Alþingi eða annars staðar í samfélaginu.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Okkar kynslóð getur ekki skilað auðu

Deila grein

14/09/2023

Okkar kynslóð getur ekki skilað auðu

Snemma á síðustu öld gengu stjórn­mál­in út á hina póli­tísku bar­áttu við dönsk stjórn­völd, um full­veldið og sjálfs­ákvörðun­ar­rétt þjóðar­inn­ar. Um miðbik ald­ar­inn­ar gekk bar­átt­an út á efna­hags­legt sjálf­stæði og stefnu okk­ar í alþjóðasam­vinnu. Þjóðin fór í stríð við heimsveldi Breta til að öðlast for­ræði yfir sjáv­ar­auðlind­inni og bar­áttu­söngv­ar voru ort­ir á borð við texta Núma Þor­bergs­son­ar: „Þau eru svo eft­ir­sótt Íslands­mið, að ensk­ir þeir vilja oss berj­ast við.“ Sigr­ar unn­ust í þorska­stríðunum, sem var upp­hafið að efna­hags­legu sjálf­stæði þjóðar­inn­ar. Ut­an­rík­is­mál­in urðu einnig mikið bit­bein þjóðar­inn­ar á þess­um tíma, þar sem hart var deilt um hina vest­rænu sam­vinnu. Það var mik­il fram­sýni að taka af­ger­andi stöðu með lýðræðis­ríkj­um, ger­ast stofnaðili að Atlants­hafs­banda­lag­inu og leggja mikla rækt við opin ut­an­rík­is­viðskipti. Far­sæld Íslands er háð nánu sam­starfi við þjóðir heims­ins um versl­un og viðskipti.

Þessi póli­tíska bar­átta skilaði land­inu mikl­um auðæfum. Á skömm­um tíma var byggt upp öfl­ugt mennta- og heil­brigðis­kerfi og und­ir lok síðustu ald­ar voru þjóðar­tekj­ur á hvern ein­stak­ling meðal þeirra allra hæstu í ver­öld­inni. Forfeður og –mæður okk­ar börðust fyr­ir betri framtíð lands og þjóðar og við njót­um þess í dag. Þegar sam­fé­lag eins og okk­ar nær svona góðum lífs­kjör­um, þá breyt­ast bar­áttu­mál­in og snúa að því að verja góða stöðu en líka horfa til framtíðar um með hvaða hætti það er gert.

Ísland býr yfir mikl­um auðlind­um og ljóst er að skort­ur verður á slíku í fyr­ir­sjá­an­legri framtíð. Okk­ur ber því enn rík­ari skylda til að um­gang­ast auðlind­irn­ar af sér­stakri virðingu þar sem vall­ar­sýn­in er sjálf­bær nýt­ing.

Reglu­lega skjóta upp koll­in­um hug­mynd­ir um að ríkið losi um hluti í Lands­virkj­un með ein­um eða öðrum hætti. Í raun er það hvell­skýrt í mín­um huga og okk­ar í Fram­sókn: það verður ekki einn vatns­dropi einka­vædd­ur í Lands­virkj­un. Um slíka ráðstöf­un yrði aldrei sam­fé­lags­leg sátt á Íslandi, enda þjón­ar slíkt ekki hags­mun­um okk­ar til framtíðar.

Það er skoðun mín að al­mennt eigi ríkið ekki að standa í hinum og þess­um at­vinnu­rekstri, en það er eng­um vafa und­ir­orpið að op­in­bert eign­ar­hald á Lands­virkj­un hef­ur reynst þjóðinni far­sælt og er í raun fyr­ir­mynd­ar tákn­mynd þess blandaða markaðshag­kerf­is sem við búum í.

Ég er sann­færð um að eign­ar­hald þjóðar­inn­ar á Lands­virkj­un muni skipta enn meira máli í framtíðinni, þar sem ráðast þarf í frek­ari orku­öfl­un til að standa und­ir auk­inni lífs­gæðasókn í land­inu, enn traust­ari rík­is­fjár­mál­um og þeim grænu orku­skipt­um sem stuðla þarf að í þágu lofts­lags­mála. Þar get­um við Íslend­ing­ar orðið leiðandi á heimsvísu ef við höld­um rétt á spil­un­um, með Lands­virkj­un okk­ar allra í broddi fylk­ing­ar.

Við, okk­ar kyn­slóð, get­um ekki skilað auðu og látið sem raf­magnið komi til okk­ar úr engu og af sjálfu sér. Grænu orku­skipt­in þurfa þó að vera unn­in á grund­velli sam­vinn­unn­ar enda eru virkj­an­ir og orku­mann­virki vanda­sam­ar stór­fram­kvæmd­ir. Það er til mik­ils að vinna ef rétt er haldið á spil­um, í þágu ís­lenskra hags­muna.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. september 2023.

Categories
Greinar

Fjármögnun búnaðar vegna almannavarna á herðum einstakra sveitarfélaga

Deila grein

12/09/2023

Fjármögnun búnaðar vegna almannavarna á herðum einstakra sveitarfélaga

Síðustu ár hefur umræðan um búnaðarmál og menntun slökkviliða stöðugt aukist í tengslum við gróðurelda og aðrar almannavarnir. Í tengslum við þá umræðu voru skipaðir einhverjir starfshópan og nefndir m.a. var skipuð nefnd af ráðherra árið 2020 til að fara yfir þessi mál sem í framhaldinu skilaði inn skýrslu til HMS. Nefndina skipuðu reynslumiklir slökkviliðstjórar en sömuleiðis höfðu aðkomu af nefndinni aðilar frá Ríkislögreglustjóra, Almannavörnum, Landhelgisgæslunni og HMS.

Í þeirri skýrslu var m.a. nákvæmlega farið yfir búnaðarþörf í tengslum við viðbrögð m.v. landssvæðaskiptingu, forvarnarstarf og tækifæri sem gætu falist í sameiginlegum búnaði slökkviliða til að bregðast við gróðureldum. Því miður þá virðist sem ekki hafi verið unnið frekar með þá skýrslu eða aðrar þær tillögur sem var skilað inn eins og lagt var upp með. Í áhættumati almannavarna (2011) kemur fram að gróðureldahætta á Íslandi hafi aukist. Með hlýnandi veðurfari, breytingum á landbúnaði minnkandi beit og aukinni skógrækt hafa aðstæður breyst mikið á síðustu árum. Jafnfram hefur heilsárs búsetu á frístundasvæðum aukist í tengslum við þróun um störf óháð staðsetningu

Gróðureldar eru náttúruvá og ber að skilgreina sem slíka

Starfssvæði slökkviliðs Borgarbyggðar er dæmi um eitt áhættumesta gróðureldasvæði á landinu, sama má segja um starfssvæði Brunavarna Árnessýslu.En staðreyndin er sú að sveitarfélög eru almennt ekki nægilega vel í stakk búin búnaðarlega séð til að kljást við gróðurelda hér á landi. Í slökkvilið Borgarbyggðar býr mikil fagþekking ásamt sérþekkingu á viðbrögðum við gróðureldum sem hefur skapast með reynslu. Það blasir því við að tækifæri er til þess að í Borgarbyggð er upplagt svæði fyrir starfsstöð fyrir menntun fyrir slökkviliðsfólk.

Gróðureldar eru náttúruvá og ber að skilgreina sem slíka.

Viðbrögð við gróðureldum eiga sannarlega heima undir fjármagnsstoðum Almannavarna ríkisíns en ekki sveitarfélögum eins og núverandi skipulag gerir ráð fyrir. Ég þykist vita að sveitarfélögi í landinu eru fús til samstarfs í þessum málum en það er gríðarlega brýnt að unnið verði að markmiðum um sameiginlegan gróðureldabúnað og viðhaldsfjármagn með aðkomu hins opinbera.

Sveitarfélögin viðbragðsaðilar á þjóðvegi 1

Árið 2000 var björgun úr bílflökum skilgreind sem hlutverk slökkviliða, það voru jákvæðar breytingar enda slökkviliðsmenn með góða þekkingu á slíkum aðgerðum. Fjármögnun á nauðsynlegum björgunarbúnaði eins og klippum og glennum eru í dag á herðum hvers sveitarfélags fyrir sig. Umferð hefur aukist mikið síðust ár samhliða fjölgun ferðamanna og á aðeins eftir að vaxa. Þjóðuvegur 1 rennur í gegnum eða meðfram sveitarfélögum sem hafa ekkert bolmagn til að takast á við þá fjárfestingu sem slíkt viðbragð gerir ráð fyrir.

Viðbragðsaðilar treysta á að sá búnaður sem þarf til björgunar á starfssvæði hvers slökkviliðs sé góður. Staðan í dag er sú að á mörgum svæðum eru tækin gömul og ráða ekki við verkefnin og þróun bíla. Á yfirstandandi ári hefur samkvæmt slökkviliðsstjóra í Borgarbyggð t.a.m þurft að beita klippum 8 sinnum við björgun úr bílflökum í sveitarfélaginu.

Þeir einstaklingar sem starfa í viðbragðsgeiranum hafa áhyggjur af því að endurnýjun á búnaði sé ekki í takt við fjölgu ferðamanna og meiri umferð. Öryggi slökkviliðsmanna, viðbragðsaðila og vegfarenda þarf að tryggja.

Nauðynlegt er að ráðast sem fyrst í endurskilgreiningu á hlutverki og ábyrgð sveitarfélaga þegar kemur að fjármögnun búnaðar og viðbragðs tengt almannavörnum.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, forseti sveitarstjórnar í Borgarbyggð og formaður stjórnar SSV.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. september 2023.

Categories
Greinar

Gjaldeyrisskapandi hagkerfi í Fjarðabyggð en tekjurnar skila sér illa til baka

Deila grein

10/09/2023

Gjaldeyrisskapandi hagkerfi í Fjarðabyggð en tekjurnar skila sér illa til baka

Ríkisstjórn Íslands kom til Egilsstaða í lok ágúst og átti þar góðan fund með fulltrúum sveitarfélaga á Austurlandi. Þar var farið yfir helstu áherslumál sveitarfélaga og þær aðgerðir sem brýnt er að ráðast í sem fyrst til að samfélögin geti haldið áfram að vaxa og dafna. Þar er Fjarðabyggð ekki undanskilin, síðustu misseri hefur farið fram mikil uppbygging og búum við í ört stækkandi samfélagi.

Öflugt atvinnulíf og ört stækkandi samfélag

Atvinnulífið blómstrar sem aldrei fyrr og atvinnuleysi með því minnsta sem hægt er að finna eða 0,9%. Fjarðabyggð er það sveitarfélag sem hefur hvað hæðstu meðaltekjur á íbúa og jafnframt eitt fárra sveitarfélaga sem hefur meirihluta tekna sinna af framleiðslu.

Það er kannski ekki skrítið þar sem hér fer fram mikil framleiðsla á ýmsum varning og þá einna helst í sjávarútvegi, laxeldi og álframleiðslu. Það er gaman að segja frá því að Fjarðabyggð framleiðir 35,5 % af öllu því áli sem framleitt er á Íslandi, verðmæti á útfluttu áli frá Fjarðaáli eru 143 milljarðar og útfluttar sjávarafurðir ásamt fiskeldi frá Austurlandi eru að verðmæti 86,4 milljarðar sem eru 21,7 % af heildar útflutningi á Íslandi og er stór hlutur þess framleiddur í Fjarðabyggð.

Lítið sem kemur til baka og Suðurfjarðarvegur á þrotum

Því miður er staðan þó sú að aðeins lítill hluti þeirra tekna sem við skilum í þjóðarbúið skilar sér aftur til Fjarðabyggðar. Við höfum til að mynda kallað eftir því að framkvæmdum við Suðurfjarðarveg verði flýtt. Meðal annars vegna þungaflutninga sem fara hér um svæðið og þjónustu sem þarf að sinna með þungum tækjum, auk þess er vegkaflinn milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar hættulegasti kaflinn á Þjóðvegi 1. Þetta er vegur sem tengir samfélagið okkar saman, Fjarðabyggð. Þar keyra íbúar Suðurfjarða á milli til að sækja vinnu, þjónustu og menntun svo eitthvað sé nefnt.

Ég skrifaði grein fyrr á árinu um mikilvægi þess að framkvæmdum við Suðurfjarðarveg yrði flýtt í nýrri samgönguáætlun. Það varð raunin en betur má ef duga skal því fyrstu framkvæmdir við hann eru ekki á áætlun fyrr en árið 2027, við getum ekki unað við þá bið. Fyrsti kafli Suðurfjarðarvegar sem á að hefja framkvæmdir við samkvæmt samgönguáætlun er Reyðarfjarðarbotn sem er vel þar sem brúin yfir Sléttuá er ein umferðaþyngsta einbreiða brú á Íslandi og strangar þungatakmarkanir á henni mjög hamlandi.

Ástand Suðurfjarðarvegar er farið að standa ákveðnum kjörnum Fjarðabyggðar fyrir þrifum, þar má tildæmis nefna Fáskrúðsfjörð sem er orðin einskonar eyland við hertar þyngdartakmarkanir á brú yfir Sléttuá og brú í botni Fáskrúðsfjarðar. Þetta stöðvaði þá uppbyggingu sem framundan var í Fáskrúðsfirði því ekki er hægt að koma krana á svæðið.

Að þetta sé staðan árið 2023 er ekki boðlegt. Á Fáskrúðsfirði er næg atvinna og góðir innviðir, nóg pláss í grunn- og leikskóla og fullt af lausum skipulögðum byggingarlóðum. Þetta hefur líka áhrif á atvinnulífið en þarna er blómlegur sjávarútvegur og fiskeldi sem oft þarf að þjónusta með þungum tækjum og krönum sem ekki er hægt að koma á svæðið. Það er mín trú að þingið taki þetta til umfjöllunar í haust og sjái og skilji þá erfiðu stöðu sem við erum komin í. Framkvæmdir við Suðurfjarðarveg voru settar á frest fyrir tæpum tuttugu árum, þá var þörf en nú er nauðsyn.

Þuríður Lillý Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins og formaður umhverfis- og skipulagsnefndar.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 9. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Ekki einn dropi einka­væddur í Lands­virkjun

Deila grein

06/09/2023

Ekki einn dropi einka­væddur í Lands­virkjun

Allar götur frá stofnun árið 1965 hefur Landsvirkjun í almannaeigu verið burðarás í íslensku atvinnulífi og stuðlað að nýtingu orkuauðlinda landsins til að standa undir aukinni verðmætasköpun í íslensku efnahagslífi. Virkjanir og orkumannvirki eru vandasamar stórframkvæmdir sem fólk hefur sterkar skoðanir á og snerta samspil við náttúruvernd, byggðaþróun og atvinnuuppbyggingu á Íslandi. Þrátt fyrir umdeilt eðli virkjanaframkvæmda, tel ég að það sé þó eitt sem mikil meirihluti þjóðarinnar geti verið sammála um: að Landsvirkjun verði áfram í fullri samfélagslegri eigu.

Reglulega skjóta upp kollinum hugmyndir um að ríkið losi um hluti í Landsvirkjun með einum eða öðrum hætti, nú síðast í þættinum Dagmál á vefnum MBL. Þar viðraði forstjóri Kauphallarinnar leiðir til þess að efla hlutabréfamarkaðinn á Íslandi, meðal annars með að ríkið seldi 20% hlut í Landsvirkjun sem væri til þess fallið að laða að erlenda fjárfesta bæði vegna stærðar félagsins en einnig vegna þeirrar sérstöðu sem fyrirtækið hefur í orkuöflun.

Ég get tekið undir með forstjóra Kauphallarinnar að það sé mikilvægt að efla hlutabréfamarkaðinn á Íslandi, dýpka hann, fjölga félögum og stuðla að skilvirkari verðmyndum íslenskra fyrirtækja. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með fjölgun félaga í Kauphöllinni undanfarin ár sem gefur fólki fleiri kosti á að fjárfesta í íslensku atvinnulífi með greiðum hætti.

Hins vegar er ég ósammála forstjóra Kaupahallarinnar að Landsvirkjun eigi að vera kostur í því að dýpka hlutabréfamarkaðinn til þess að laða að erlenda fjárfesta, meðal annars einmitt vegna þeirrar sérstöðu sem fyrirtækið hefur í orkuöflun hér á landi og því þjóðhagslega mikilvæga hlutverki sem fyrirtækið gegnir fyrir land og þjóð. Í raun er það hvellskýrt í mínum huga og okkar í Framsókn: það verður ekki einn vatnsdropi einkavæddur í Landsvirkjun. Um slíka ráðstöfun yrði aldrei samfélagsleg sátt á Íslandi, enda þjónar slíkt ekki hagsmunum okkar til framtíðar.

Það er skoðun mín að almennt eigi ríkið ekki að standa í hinum og þessum atvinnurekstri, en það er engum vafa undirorpið að opinbert eignarhald á Landsvirkjun hefur reynst þjóðinni farsælt og er í raun fyrirmyndar táknmynd þess blandaða markaðshagkerfis sem við búum í. Þess vegna á ekki að ráðast í breytingar eignarhaldinu, breytinganna vegna. Ég er sannfærð um að eignarhald þjóðarinnar á Landsvirkjun muni skipta enn meira máli í framtíðinni, þar sem ráðast þarf í frekari orkuöflun til að standa undir aukinni lífsgæðasókn í landinu, enn traustari ríkisfjármálum og þeim grænu orkuskiptum sem stuðla þarf að í þágu loftslagsmála. Þar getum við Íslendingar orðið leiðandi á heimsvísu ef við höldum rétt á spilunum, með Landsvirkjun okkar allra í broddi fylkingar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. september 2023.

Categories
Greinar

Göngum ekki frá ó­kláruðu verki

Deila grein

06/09/2023

Göngum ekki frá ó­kláruðu verki

Flest okkar þurfa að koma og fara enda vilja sennilega fæst okkar vera alveg föst á sama stað. Í það minnsta þurfum við að eiga þess kost að ferðast hindrunarlítið á milli staða. Það er ólíkt eftir aðstæðum, þörfum og jafnvel tímabilum í lífi fólks hver ferðamátinn er. Ólíkar þarfir og ferðamátar kalla á samfellu í skipulagi og skýra framtíðarsýn. Það þarf að tryggja að innviðirnir tali saman á milli sín og á milli bæjar- og borgarhluta hvort sem um er að ræða eldri byggðir eða ný hverfi. Eitt má ekki vinna gegn öðru.

Tímamót voru mörkuð þegar ríki og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu sáttmála um samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu fyrir fjórum árum. Sáttmála um sameiginlega framtíðarsýn samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Sáttmálinn tekur á ofangreindum þáttum og skýrir hvernig við ætlum að byggja upp skilvirka samgönguinnviði á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar. Hvar byggja skal brýr, leggja stofnvegi, stýra umferðarljósum o.s.frv. Það sem meira er að sáttmálinn felur í sér áform um bættar samgöngur fyrir alla ferðamáta, en ekki bara bættar almenningssamgöngur eins og stundum er haldið fram. Uppbygging almenningssamganga er þó gífurlega mikilvægur liður í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega m.t.t. aukinnar fólksfjölgunar og aukins álags á gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins síðustu ár. Uppbygging innviða fyrir fjölbreytta ferðamáta stuðlar þá að því að fólk hafi raunverulegt val um þann samgöngumáta sem því hentar, hvort sem það er fjölskyldubíllinn eða almenningssamgöngur. Markmiðið er mjög verðugt, að auka öryggi vegfaranda og minnka tafir, stórefla almenningssamgöngur og draga úr mengun af völdum svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda til að standa við loftslagsmarkmið stjórnvalda og sveitarfélaga. Við viljum ekki sitja föst tímum saman í umferðinni í stressi yfir því að ná ekki í börnin í leikskóla eða í vinnu í tæka tíð, geta ekki búið við stofnvegi vegna mengunar eða geta ekki treyst á almenningssamgöngur við leik og störf. Við viljum byggja borg sem mætir kröfum samtímans og horfir til framtíðar.

Nú liggur fyrir vinna í uppfærslu sáttmálans enda ljóst að breytingar á verðlagi og verðbólga hefur áhrif á kostnaðaráætlun sáttmálans eins og komið hefur fram í umræðunni síðustu misseri. Það er eðlileg krafa að vel sé haldið utan um fjármögnun og framkvæmdakostnað sáttmálans og unnið sé að uppfærslu sáttmálans með það fyrir augum að tryggja að vel sé farið með almannafé. Af og frá er þó að slá sáttmálann, sem öll sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins og ríkið komu sér saman um, út af borðinu vegna efasemda einstakra aðila um verkefnið. Það er nú einu sinni þannig að meginregla íslensk samningaréttar er að samninga skal halda. Höldum áfram að vinna í takt að þessu stóra samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Nú er ekki tíminn til að ganga frá ókláruðu verki þótt á móti blási, eins og fjármálaráðherra orðaði það svo vel nýlega.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Raf­magns­leysi

Deila grein

05/09/2023

Raf­magns­leysi

Rafmagn er grundvallarorkugjafi okkar. Það lýsir upp heimili okkar og án þess gæti verið flókið að elda kvöldmatinn, þvo þvott og geyma matvæli. Þá er rafmagn mikilvægt í heilbrigðisþjónustu þar sem það knýr áfram lífsnauðsynleg lækningatæki. Sífellt fleiri rafmagnsbílar koma á göturnar, jafnvel rafmagnsflutningabílar.

Auk þess er rafmagn notað á öllum sviðum atvinnulífsins. Ekkert okkar gæti hugsað sér að lifa lífi án rafmagns líkt og forfeður okkar gerðu áður fyrr. Rafmagnið er okkur í dag jafn mikilvægt og vatnið.

Hvað þarf til?

Hreyfiafl breytinga eru af ýmsum toga en oftar en ekki eru það bæði innri ytri áhrifaþættir sem skapa nýjar þarfir og hraða þróun. Við höfum á undanförnum árum heyrt rætt um framtíðarþarfir á sviði orkumála, hugsanlegan orkuskort, sem í huga margra Íslendinga hljómar sem fjarlægur veruleiki.

En er hann svo fjarlægur?

Við erum lánsöm að búa í landi sem framleiðir endurnýjanlega græna orku. Jafnt og þétt bætist í orkuþörf, ekki bara hér á landi heldur alls staðar í heiminum. Sérfræðingar hafa bent á aukna orkuþörf hér á landi í takt við aukinn fjölda íbúa og vaxandi atvinnulíf. Tryggja þarf að á hverjum tíma sé næg græn orka í boði fyrir bæði heimilin og fyrirtækin í landinu. Ég þarf ekki að tíunda í þessari grein hvaða afleiðingar orkuskortur kann að hafa fyrir atvinnuuppbyggingu og fyrirhuguð orkuskipti í landinu.

Að vinna bug á orkuskorti krefst margvíslegra aðgerða. Ekki bara það að virkja meira. Til dæmis þarf að draga úr sóun á orkunni okkar með öflugra dreifikerfi og horfa þarf til notkunar á fleiri nýtingarvalmöguleikum, þ.e. orkukosta á borð við vind, sjávarfall og jafnvel fleiri sem koma til með að vera nýttir í meiri mæli í framtíðinni.

Höfum við brugðist við?

Yfirstandandi stríð og heimsfaraldur hafa hvort á sinn hátt fært okkur nær því að horfast í augu við mikilvægi sjálfbærni þjóðarinnar m.a. í orkumálum. Þannig þurfum við að horfa á heildarþarfir landsins, en um leið að horfa á öryggi innan hvers landshluta og svæðis. Þegar betur er að gáð sjáum við að það búa ekki allir við sömu gæði og öryggi í orkumálum.

Við þurfum bæði að hugsa til lengri og skemmri tíma þegar við horfum til breytinga. Þá bæði hvað varðar alla heildina og möguleika í stærri og smærri einingum. Það er mitt mat að tækifærin leynast víða, tækifæri sem við eigum að nýta til lengri og skemmri tíma. Hugsanlega getum við einnig styrkt innviði fyrr með breyttu verklagi og betri nýtingu á því sem fyrir er.

Nauðsynlegar úrbætur stjórnvalda

Það skiptir miklu máli að uppbygging raforkukosta og dreifingu raforkunnar geti haldið áfram í takt við stórauknar þarfir. Viðbrögð og geta innra stjórnkerfis okkar er of hægfara og þung. Lagaumhverfi rammaáætlunar þarf að endurskoða því eins og staðan er í dag líða mörg ár frá umsókn um leyfi þar til að rafmagnið skilar sér til notanda. Því þurfum við að kappkosta að vinda ofan af þeim flækjum við ákvarðanatöku, en ekki síður að minnka kostnað við umsýslu þegar við tökum ákvarðanir um orkunýtingu. Þó þannig að ekki verði á nokkurn hátt minnkuð krafa um rannsóknir og náttúruvernd. Löng og farsæl virkjanasaga síðustu 100 ára segir okkur að vernd og nýting geta haldist í hendur.

Einnig er kallað eftir skýrari afstöðu ríkisins til nýtingar á eigin vatnsréttindum. Ég tek heilshugar undir að mikilvægt er skýra þá afstöðu, bæði til lengri og skemmri tíma. Samningaferlið við landeigendur og vatnsréttarhafa er langt og stundum erfiðasti hjallurinn í virkjunarmálum. Í flestum tilfellum þarf að ræða við og ná saman við stóran hóp með ólíkar skoðanir og samningsmarkmið. En það eitt að hefja viðræður við landeigendur um nýtingu orku gæti flýtt nýjum og smærri virkjanakostum til muna. Ríkisvaldið hefur fram til þessa ekki viljað ræða við rekstraraðila um leigu á vatnsréttindum og landnotkun fyrr en verkefni hefur verið samþykkt í nýtingarflokk af Alþingi. Þessu væri hægt að breyta auðveldlega og þar með stytta heildarvinnslutímann á þann hátt að hefja samningaviðræður samhliða ferli rammaáætlunar með fyrirvara um að viðkomandi verkefni verði samþykkt í nýtingarflokk.

Þó að við viljum flýta okkur hægt og vinna eftir vel ígrunduðu ferli vil ég þó í lokin staldra við tímamörk, því vissulega þarf fleira að koma til. Þar vil ég benda á möguleika sem við höfum til að bæta gæði stjórnsýslu er varðar lögbundnar umsagnir, en þar koma fjölmargir aðilar að. Frestir eru langir í ferlinu en þrátt fyrir það þarf ítrekað að lengja tímafresti vegna umsagnaraðila á ýmsum vinnslustigum. Hver frestur hefur mikil áhrif á þann tíma sem ferlið tekur og vinnur gegn okkar markmiðum um frekari orkuöflun. Við þessu þarf að bregðast.

Allt þetta hafa sérfræðingar ítrekað bent á. Orkuþörfin er áríðandi og það blasir við að alvarlegur orkuskortur muni raungerast ef engu er breytt. Umræðan hefur átt sér stað meðal þeirra sem starfa við raforkuframleiðslu og dreifingu og víðar í langan tíma. Það er þó löngu tímabært að ganga í aðgerðir og láta hugmyndir okkar verða að veruleika.

Þörfin varðar ekki einungis atvinnulífið heldur heimilin okkar líka. Við þurfum að nýta orkuna og innviðina skynsamlega, finna leiðir að settu marki og tryggja öllum örugga orku hvar sem þeir búa á landinu. Það hlýtur að vera réttlætismál sem knýr okkur öll áfram. Enginn vill vera rafmagnslaus í miðju óveðri aftur.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. september 2023.