Categories
Fréttir Greinar

Það er borð fyrir báru hjá bönkunum

Deila grein

05/09/2023

Það er borð fyrir báru hjá bönkunum

Ný­verið var kynnt skýrsla um gjald­töku og arðsemi viðskipta­bank­anna sem er afrakst­ur vinnu starfs­hóps sem ég skipaði til þess að skoða stöðu neyt­enda og sam­keppn­isaðstæður á inn­lend­um banka­markaði þar sem m.a. yrði litið til gagn­sæi þókn­ana, vaxta­kostnaðar, gjald­töku og annarra kostnaðarliða sem neyt­end­ur bera. Þá vann hóp­ur­inn einnig grein­ingu á tekju­mynd­un stóru viðskipta­bank­anna þriggja ásamt því að gera sam­an­b­urð á starfs­hátt­um viðskipta­banka á Norður­lönd­un­um með til­liti til tekju­mynd­un­ar, einkum vaxtamun­ar.

Það eru áhuga­verðar niður­stöður sem koma fram í skýrsl­unni. Þar ber þó helst að nefna að kostnaðar­hlut­föll bank­anna hafa lækkað á síðustu árum og eru orðin sam­bæri­leg og hjá svipuðum bönk­um á hinum Norður­lönd­un­um. Hins veg­ar hef­ur auk­in hag­kvæmni í rekstri bank­anna og lækk­un sér­staka banka­skatts­ins ekki skilað sér í minni vaxtamun til neyt­enda, en hins veg­ar komið fram í bættri arðsemi bank­anna. Þá dró skýrsl­an einnig fram að sum þjón­ustu­gjöld eru ógagn­sæ og ekki alltaf ljóst hvað neyt­end­ur eru að greiða fyr­ir. Í því ljósi er meðal ann­ars vert að benda á gjald­töku ís­lensku bank­anna af kortaviðskipt­um í er­lendri mynt sem er dul­in en veg­ur engu að síður þungt í út­gjöld­um heim­il­anna fyr­ir fjár­málaþjón­ustu. Geng­isálag bank­anna á korta­færsl­ur sker sig tölu­vert úr ann­arri gjald­töku því að álagið kem­ur hvergi fram í verðskrám bank­anna og virðist vera breyti­legt milli gjald­miðla og frá ein­um tíma til ann­ars. Með ein­földuðum hætti má áætla að heim­il­in hafi greitt bönk­un­um um 6,6 ma.kr. í geng­isálag ofan á al­mennt gengi árið 2022 fyr­ir það að nota greiðslu­kort sín í er­lend­um færsl­um. Það sem kom mest á óvart var að korta­gengið er óhag­stæðara en svo­kallað seðlag­engi sem al­mennt er óhag­stæðasta gengið hjá bönk­um.

Tals­verð umræða hef­ur spunn­ist um niður­stöður skýrsl­unn­ar og hef­ur meðal ann­ars verið bent á það að vaxtamun­ur heim­ila hafi aldrei verið lægri. Á móti kem­ur hins veg­ar að vaxtamun­ur á fyr­ir­tæki er í há­marki og auðvitað er því velt yfir í verðlagið sem al­menn­ing­ur borg­ar.

Það skipt­ir miklu máli fyr­ir sam­fé­lagið að hér sé starf­rækt öfl­ugt banka­kerfi enda er hlut­verk banka veiga­mikið í að styðja við aukna verðmæta­sköp­un í land­inu. Á und­an­förn­um miss­er­um hef­ur mik­ill hagnaður bank­anna komið til umræðu og hef­ur vakið spurn­ing­ar um jafn­vægi í grein­inni og stöðu neyt­enda. Ég stend við það sem kem­ur fram í skýrsl­unni og tel að bank­arn­ir hafi rými til þess að gera bet­ur við neyt­end­ur, hvort sem það er fólk eða fyr­ir­tæki. Sú arðsemi sem birt­ist í upp­gjör­um bank­anna er mik­il og í ofanálag sýna töl­ur að vaxtamun­ur og arðsemi vaxi enn á þessu ári.

Stærsta hags­muna­mál sam­fé­lags­ins er að ná verðbólg­unni niður og þar verða all­ir að leggja sitt af mörk­um og er banka­kerfið ekki und­an­skilið því. Sú upp­byggi­lega umræða sem hef­ur átt sér stað í kjöl­far skýrsl­unn­ar er af hinu góða enda snerta neyt­enda­mál okk­ur öll. Sem ráðherra neyt­enda­mála mun ég láta upp­færa skýrsl­una ár­lega til að stuðla að upp­lýstri umræðu um þessi mál, sam­fé­lag­inu til hags­bóta.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Bankarnir geta gert betur fyrir fólkið í landinu

Deila grein

04/09/2023

Bankarnir geta gert betur fyrir fólkið í landinu

Í öllum þjóðfélögum er mikilvægt að allir standi neytendavaktina, ekki síst á verðbólgutímum. Nýverið var kynnt skýrsla um gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna sem er afrakstur vinnu starfshóps sem ég skipaði til þess að skoða stöðu neytenda og samkeppnisaðstæður á innlendum bankamarkaði þar sem m.a. yrði litið til gagnsæi þóknana, vaxtakostnaðar, gjaldtöku og annarra kostnaðarliða sem neytendur bera. Þá fól ég hópnum að gera greiningu á tekjumyndun stóru viðskiptabankanna þriggja ásamt því að gera samanburð á starfsháttum viðskiptabanka á Norðurlöndunum með tilliti til tekjumyndunar, einkum vaxtamunar, og hvers kyns þóknana og gjaldtöku af almenningi, sem meðal annars horfði til Hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið frá árinu 2018. Hópnum var einnig falið að vinna tillögur.

Bankar eru samfélagslega mikilvægar stofnanir og sterkt bankakerfi er nauðsynlegt til að viðhalda öflugu hagkerfi og atvinnulífi. Það er mikilvægt að bankar njóti almenns trausts í samfélaginu svo þeir geti stuðlað að heilbrigðu viðskiptalífi og þar af leiðandi aukinni verðmætasköpun fyrir samfélagið. Á undanförnum misserum hefur mikill hagnaður bankanna komið til umræðu og hefur vakið hafa upp spurningar um jafnvægi í greininni og stöðu neytenda. Ég tel að þessi nýja skýrsla sé upplýsandi innlegg í þá umræðu.

Meiri vaxtamunur og aukin arðsemi

Það eru áhugaverðar niðurstöður sem koma fram í skýrslunni. Þar ber þó helst að nefna að kostnaðarhlutföll bankanna hafa lækkað á síðustu árum og eru orðin sambærileg og hjá svipuðum bönkum á Norðurlöndunum. Hins vegar hefur aukin hagkvæmni í rekstri bankanna og lækkun sérstaka bankaskattsins ekki skilað sér í minni vaxtamun til neytenda, en hins vegar komið fram í bættri arðsemi bankanna. Þannig er vaxtamunur heildareigna, þ.e. hlutfall hreinna vaxtatekna af heildareignum banka, töluvert meiri en á Norðurlöndunum þrátt fyrir svipuð kostnaðarhlutföll og svipaða arðsemi síðastliðin tvö ár. Árin 2021 og 2022 náðu bankarnir arðsemismarkmiði sínu eftir að hafa verið undir því í mörg ár þar á undan og var hún svipuð og hjá norrænum bönkum af samfélagslegri stærð.

47 milljarðar í erlendra greiðslumiðlun

Kostnaður þjóðfélagsins vegna greiðslumiðlunar, sem má líkja við pípulagnir fyrir greiðslur, er mun hærri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Sökum mikillar notkunar alþjóðlegra greiðslukorta hér á landi er kostnaður við greiðslumiðlun sem hlutfall af landsframleiðslu mun hærri hér en á hinum Norðurlöndunum. Þessi aukni kostnaður við greiðslumiðlun skilar sér í hærra verði á vöru og þjónustu til íslenskra neytenda, sem bera á endanum kostnaðinn. Seðlabankinn áætlar að kostnaður samfélagsins af notkun greiðslumiðla hér á landi á árinu 2021 hafi verið um 47 ma.kr. eða um 1,43% af vergri landsframleiðslu. Þar af var kostnaður vegna greiðslukorta ríflega 20 ma.kr. Greiðslumiðlunin er að miklu leyti á ábyrgð færsluhirða en ekki bankanna, og stærstu færsluhirðar landsins eru í erlendri eigu.

Þörf á meira gegnsæi í verðlagningu

Það kemur fram að útgjöld vegna fjármálaþjónustu (að vaxtagjöldum undanskildum) vegur ekki þungt í heildarútgjöldum heimilanna skv. útgjaldarannsókn Hagstofunnar en þau hafa lækkað að raunvirði. Er áætlað að þau séu áætluð 0,4% af heildarneysluútgjöldum meðalheimilis á Íslandi. Hins vegar eru sum þjónustugjöld ógagnsæ og ekki alltaf ljóst hvað neytendur eru að greiða fyrir. Í því ljósi er meðal annars vert að benda á gjaldtöku íslensku bankanna af kortaviðskiptum í erlendri mynt sem er dulin en vegur engu að síður þungt í útgjöldum heimilanna fyrir fjármálaþjónustu. Gengisálag bankanna á kortafærslur sker sig töluvert úr annarri gjaldtöku því að álagið kemur hvergi fram í verðskrám bankanna og virðist vera breytilegt milli gjaldmiðla og frá einum tíma til annars. Hjá dæmigerðu ungu pari getur kostnaður við gengisálag bankanna numið um 30% af heildarkostnaði við bankaþjónustu á ári. Með einfölduðum hætti má áætla að heimilin hafi greitt bönkunum um 6,6 ma.kr. í gengisálag ofan á almennt gengi árið 2022 fyrir það að nota greiðslukort sín í erlendum færslum.

Stóru málin og næstu skref

Eins og fram kom að ofan hefur vaxtamunur verið að aukast. Þegar uppgjör bankanna það sem af eru ári eru skoðuð er hann enn að aukast. Ég tel eðlilegt að bankarnir minnki vaxtamuninn og skipti þannig ávinningum með neytendum á sanngjarnari hátt. Sér í lagi þegar að vaxtamunurinn er enn þá að aukast en í árshlutauppgjörum fyrir árið 2023 má sjá hann aukast enn frekar. Það á ekki að vera náttúrulögmál að það halli á neytendur með þessum hætti. Þá er jafnframt mikilvægt að bankarnir bæti gagnsæi í gjaldtöku sinni hjá viðskiptavinum.

Kostnaður við erlendra greiðslumiðlun er of hár, en það er einnig þjóðaröryggismál að Ísland búi að innlendri greiðslumiðlun líkt og önnur ríki. Hefur forsætisráðherra meðal annars boðað frumvarp um innlenda greiðslumiðlun sem myndi auka efnahagslegt þjóðaröryggi Íslands. Jákvæð hliðaráhrif slíkra breytinga væri umtalsverður sparnaður fyrir þjóðfélagið, sem ætti á skila sér í lægra vöruverði til neytenda.

Aukið aðhald í þágu neytenda

Það er samfélagslegur ávinningur fólginn í öflugri neytendavakt en sú vakt þarf að vera samvinnuverkefni okkar allra. Þessi skýrsla er liður í því, en sem ráðherra neytendamála hyggst ég láta uppfæra hana árlega í þágu heimila og fyrirtækja í landinu og stuðla þannig að auknu aðhaldi og umræðu um þau kjör sem bjóðast hjá viðskiptabönkunum.

Ég vil þakka starfshópnum fyrir vel unnin störf en hann skipuðu fulltrúar menningar- og viðskiptaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, Neytendasamtakanna, Hagsmunasamtaka heimilanna, Alþýðusambands Íslands, Samstaka fjármálafyrirtækja og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Nánari niðurstöður og tillögur er að finna í skýrslunni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Ójafn leikur í samkeppni við innflutning

Deila grein

01/09/2023

Ójafn leikur í samkeppni við innflutning

Um þess­ar mund­ir eru bænd­ur að fara að sækja fé sitt af fjalli og skila inn til slátr­un­ar. Heil­næm­ari fæðu er vart að finna í heim­in­um en ís­lenskt lamba­kjöt. Íslenska sauðféð býr við aðstæður sem eru ein­stak­ar og þekkj­ast ekki víðast hvar. Villi­bráðin sem lif­ir úti í nátt­úr­unni og drekk­ur ís­lenska lind­ar­vatnið. Í land­búnaði hér­lend­is eru sýkla­lyf og eit­ur­efni ekki mæl­an­leg.

Í vor fékk ís­lenskt lamba­kjöt upp­runa­vott­un frá Evr­ópu­sam­band­inu. Um er að ræða vott­un með til­vís­un til upp­runa eða „Protected Designati­on Of Orig­in“ (PDO), og fær ís­lenskt lamba­kjöt nú að bera merki vott­un­ar­inn­ar í markaðssetn­ingu. Það á að stuðla að neyt­enda­vernd, auka virði afurða og koma í veg fyr­ir órétt­mæta viðskipta­hætti.

Inn­flutn­ing­ur á lamba­kjöti hef­ur færst í vöxt á und­an­förn­um árum og er það bæði selt í mat­vöru­versl­un­um hér­lend­is og einnig á veit­inga­markaði, meðal ann­ars mötu­neyt­um og veit­inga­hús­um. Færst hef­ur í vöxt að minni kjötvinnsl­ur kaupi slík­ar afurðir og end­ur­selji á veit­inga­markaði, þíði kjötið sem kem­ur frosið til lands­ins, leggi í krydd­lög og selji svo til stór­eld­húsa og mat­vöru­versl­ana.

Slíkt at­hæfi get­ur verið afar vill­andi fyr­ir neyt­end­ur, þar sem pakkn­ing­ar sem er­lenda lamba­kjötið eru í eru oft á tíðum með ís­lensk­um fánarönd­um eða alla­vega ís­lenskt nafn á kjötvinnsl­unni.

Þú, sem neyt­andi, get­ur ekki verið þess full­viss þegar þú borðar á veit­inga­húsi eða í mötu­neyti á þínum vinnustað að lamba­kjötið sé frá Íslandi. Þetta er sá veru­leiki sem við búum við í dag.

Fjög­ur fyr­ir­tæki skiptu með sér toll­kvóta fyr­ir inn­flutn­ing á 345.000 kg af kinda- eða geita­kjöti á tíma­bil­inu 1. júlí 2022 til 30. júní 2023. Meðal­verð toll­kvót­ans var ein króna. Stjörnugrís ehf. fékk út­hlutað 280.929 kg, Ekr­an ehf. fékk 40.000 kg, Innn­es ehf. 20.000 kg og Sam­kaup 4.071 kg.

Á tíma­bil­inu frá júlí 2022 til og með fe­brú­ar 2023 hafa 14.606 kg af kinda- eða geita­kjöti verið flutt hingað til lands, lang­mest, eða 14.209 kg, frá Spáni.

Hækka þarf taf­ar­laust tolla á inn­flutt lamba­kjöt til þess að verja ís­lenska bænd­ur sem eru að berj­ast fyr­ir til­vist sinni á markaðnum þar sem inn­flytj­end­ur vinna mark­visst að því að und­ir­bjóða ís­lenska bænd­ur.

Með því að setja skorður á inn­flutn­ing­inn og hækka vernd­artolla stuðlum við sem þjóð að betri starfs­skil­yrðum bænda og vinn­um mark­visst að því að tryggja sjálf­bærni og um leið fæðuör­yggi ís­lensku þjóðar­inn­ar.

Anton Guðmundsson, odd­viti Fram­sókn­ar og formaður bæj­ar­ráðs í Suður­nesja­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31.ágúst 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Loft­brú – já­kvæðar fjár­festingar í þágu barna

Deila grein

31/08/2023

Loft­brú – já­kvæðar fjár­festingar í þágu barna

Við Íslendingar leggjum mikla áherslu á öflugt íþróttastarf. Það stuðlar að aukinni heilsu, öflugum forvörnum auk þess sem það eflir félagslegan þroska, og er börnum og ungmennum sérstaklega jákvæð reynsla. Nær öll ungmenni hér á landi stunda einhverja íþrótt og sum jafnvel fleiri en eina. Við sjáum þau jákvæðu áhrif sem virk þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi hefur á börnin okkar, áhrif sem fylgja þeim út í lífið.

Íþróttaiðkun getur þó verið kostnaðarsöm. Foreldrar og forráðamenn greiða æfingagjöld auk þess sem annar kostnaður fellur til líkt og kaup á viðeigandi búnaði, keppnis- og/eða æfingaferðir til að tryggja að börn þeirra eflist áfram í þeirri íþrótt sem það kýs. Af augljósum ástæðum hafa ríkið og sveitarfélög reynt að styrkja áframhaldandi iðkun barna og ungmenna, en kostnaður fjölskyldna er þó alltaf til staðar. Öll viljum við að börn og ungmenni geti stundað sína íþrótt eða tómstund óháð efnahag eða búsetu.

Íþróttaferðir um landið

Staðsetning íþróttamóta barna og ungmenna dreifist um allt land. Hlutfallslega eiga þau þó flest sér stað innan höfuðborgarsvæðisins. Þetta á við um flestar íþróttir hvort sem um er að ræða fótbolta, handbolta, sund, körfubolta o.s.frv. Margar þessar íþróttaferðir kosta sitt, og aðstæður fjölskyldna eru mismunandi. Þá á það sérstaklega við um fjölskyldur sem búa utan höfuðborgarsvæðisins, þar sem ungmenni ferðast reglulega vegna íþróttaiðkunar sinnar. Þessi kostnaður vindur oft upp á sig og getur reynst íþyngjandi. Sem dæmi kostar keppnisferð ungrar stúlku frá Akureyri til Reykjavíkur um 30.000 kr. og geta ferðirnar verið allt að 5-7 yfir keppnistímabilið, jafnvel fleiri.

Rannsóknir á íþróttastarfi víða um heim hafa sýnt að íslensk lið keppa sjaldnar miðað við það sem tíðkast í öðrum löndum. Til að tryggja samkeppnishæfni á alþjóðarskala er stefna sérsambandanna nú orðin sú að fjölga leikjum og lengja keppnistímabil í samræmi við það sem tíðkast erlendis. Þetta er ánægjuleg þróun og mun efla ungmennin okkar enn frekar í sinni iðkun. Hins vegar fylgir þessu gríðarlegur kostnaður en sem dæmi hafa KSÍ og HSÍ fjölgað leikjum um allt að sjö á hverju tímabili.

Frekari útvíkkun Loftbrúarinnar

Með tilkomu Loftbrúarinnar var fólki sem býr á landsbyggðinni gert kleift að sækja höfuðborgarsvæðið heim á lægri fluggjöldum en ella með veitingu 40% afsláttar af fargjaldi fyrir áætlunarleiðir innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu. Með því bættist aðgengi landsbyggðar að miðlægri þjónustu í höfuðborginni til muna.

En eru fleiri tækifæri falin í Loftbrúnni? Undirrituð vill sjá úrræðið útvíkkað frekar á þann veg að Loftbrúin verði nýtt til handa íþróttafólki til að lækka þann kostnað sem felst í íþróttaferðum barna og ungmenna sem skilar sér í lægri ferða- og keppniskostnaði barnsins, fjölskyldunni í hag, ásamt styttri ferðatíma og auknu öryggi iðkenda. Þannig stuðlum við að því að fleiri geti sótt slíkar ferðir og náð frekari árangri á sínu sviði.

Styrkjum jákvæð áhrif

Við í Framsókn höfum ávallt talað fyrir mikilvægi þess að íþrótta- og tómstundariðkun sé aðgengileg öllum börnum og ungmennum óháð búsetu, fjárhag eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, enda er hún mikilvægur þáttur í þroska og uppvexti þeirra.

Með frekari útvíkkun Loftbrúar í þágu barna og ungmenna sem ferðast um landið til að keppa höldum við áfram að styðja við það frábæra starf sem á sér stað innan íþróttafélaganna okkar. Fjárfesting í íþróttastarfi barna og ungmenna er fjárfesting í forvörnum, heilsueflingu og félagslegum þroska þeirra. Slík fjárfesting skilar sér margfalt til baka.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. ágúst 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Tökum saman á nei­kvæðum á­hrifum snjall­síma!

Deila grein

31/08/2023

Tökum saman á nei­kvæðum á­hrifum snjall­síma!

Flest þekkjum við þau áhrif og tæknibreytingar sem þróun snjallsíma hefur haft á líf okkar, við erum orðin vön því að hafa allar upplýsingar, bæði gagnlegar og ógagnlegar við höndina. Við þekkjum líka flest hversu auðvelt það er að ánetjast símanum og eyða miklu meira tíma en við viljum í marklausu vafri um samfélagsmiðla og vefsíður. Langflest börn í dag eiga síma alveg eins og við fullorðna fólkið, eða 95% barna í 4.–7. bekk og 98% barna í 8.–10. bekk. Símunum fylgja auðvitað ýmsir kostir en líka áskoranir sem við þurfum að vera vakandi fyrir. Nýjar rannsóknir benda til þess að mikil aukning sé í skjátíma, sérstaklega hjá börnum, og að aukningin hafi meðal annars neikvæð áhrif á svefn ásamt andlegri og líkamlegri heilsu barna. Þá hafa rannsóknir sýnt að takmarkanir á notkun farsíma í skólumbæta námsárangur, sérstaklega hjá nemendum sem eru með slakan námsárangur.

Stuðlum gegn neikvæðum áhrifum farsímanotkunar á börn

Þess vegna hef ég kynnt í ríkisstjórn þá ákvörðun að setja af stað vinnu sem miðar að því að gefa út reglur um farsímanotkun í grunnskólum landsins, en hún er óvíða eins mikil og hér á landi. Reglurnar verðaunnar í víðtæku samráði við foreldra og börn, sveitarfélög, skólastjórnendur, kennara og aðra hagaðila, og gert ráð fyrir að þær verði nýttar sem leiðbeinandi viðmið fyrir grunnskóla við setningu skólareglna um farsímanotkun. Eitt meginstefið þar er að tryggja fullnægjandi fræðslu um símanotkun og forvarnir til að stuðla gegn þeim mögulegu neikvæðu áhrifum sem hún getur haft í skólum.

Skiptar skoðanir

Það er vissulega margt sem er verulega jákvætt við nýja tækni en við þurfum að kunna að umgangast hana eins og allt annað. Við þurfum að vinna gegn neikvæðum áhrifum tækninnar samhliða því að nýta þau jákvæðu. Skjánotkun er mikil hérlendis og fer vaxandi, sérstaklega hjá börnum. Skoðanir eru skiptar í samfélaginu og skólareglur misjafnar eða jafnvel ekki til staðar. Markmiðið með þeirri vinnu sem nú fer af stað er að skilgreina viðmið fyrir grunnskóla og auka fræðslu í þessum efnum til að bregðast við þessari þróun með farsæld barna að leiðarljósi, og hjálpa þeim þannig að bregðast við og umgangast þessa tækni af ábyrgð og þekkingu.

Ásmundur Einar Daðason, mennta-og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. ágúst 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Réttlátari húsnæðismarkaður

Deila grein

31/08/2023

Réttlátari húsnæðismarkaður

Á haustþingi lít­ur dags­ins ljós þings­álykt­un­ar­til­laga um hús­næðis­stefnu fyr­ir Ísland en stefn­an var kynnt á Hús­næðisþingi í gær. Það kann að hljóma ein­kenni­lega en það verður í fyrsta sinn sem slík til­laga er lögð fyr­ir Alþingi Íslend­inga. Helsta ástæðan fyr­ir því að slík til­laga hef­ur aldrei áður litið dags­ins ljós er lík­ast til sú að það er ekki fyrr en með nýju innviðaráðuneyti sem hús­næðis- og mann­virkja­mál, skipu­lags­mál og sveit­ar­stjórn­ar­mál eru í fyrsta sinn öll und­ir ábyrgðarsviði eins og sama ráðherr­ans.

Markaður­inn þarf aðstoð

Drög að hús­næðis­stefnu hafa verið í sam­ráðsgátt stjórn­valda síðustu vik­ur og lýk­ur hinu opna sam­ráði mánu­dag­inn 4. sept­em­ber. Meg­in­inn­tak stefn­unn­ar er að hús­næði sé hluti af vel­ferð okk­ar allra. Við þurf­um öll þak yfir höfuðið. Segja má að sú stefna, eða stefnu­leysi, sem ríkt hef­ur feli í stuttu máli í sér að hinn frjálsi markaður eigi að sjá um hús­næðis­stefn­una með lög­mál­um markaðar­ins. Mín skoðun er sú að málið sé ekki svo ein­falt þegar um er að ræða grunnþarf­ir mann­eskj­unn­ar sem hús­næði er svo sann­ar­lega. Það eru og verða alltaf ein­stak­ling­ar og fjöl­skyld­ur sem eiga ein­hverra hluta vegna erfitt með að eign­ast þak yfir höfuðið. Við get­um sem sam­fé­lag ekki snúið blinda aug­anu að þeirri staðreynd. Við erum nor­rænt vel­ferðarsam­fé­lag og get­um lært mikið af frænd­um okk­ar ann­ars staðar á Norður­lönd­um sem hafa þróað öfl­ugt kerfi í kring­um hús­næðismál, ekki síst út frá vel­ferðarsjón­ar­miðum.

Kyn­slóðarúll­ett­an

Stærsta verk­efni stjórn­mál­anna nú er að ná bönd­um á verðbólgu og skapa aðstæður fyr­ir lægri vexti. Það er því stór­kost­legt efna­hags­legt verk­efni að byggja upp hús­næðismarkað sem er laus við þess­ar ýktu sveifl­ur sem við höf­um búið við síðustu ár og ára­tugi, ýkt­ar sveifl­ur á verði hús­næðis sem koma af full­um þunga inn í hús­næðislið vísi­töl­unn­ar sem ekki hef­ur náðst samstaða um að breyta. Því miður. Þess­ar ýktu sveifl­ur búa til eins kon­ar kyn­slóðarúll­ettu sem ger­ir það að verk­um að það að koma þaki yfir höfuðið leggst á órétt­lát­an hátt mis­jafn­lega á kyn­slóðir fyrstu kaup­enda.

Tvenns kon­ar mark­mið

Hús­næðis­stefn­an fel­ur í sér tvenns kon­ar mark­mið. Ann­ars veg­ar mark­miðið um að ná jafn­vægi á hús­næðismarkaði til lengri tíma með því að vinna upp þá upp­bygg­ing­ar­skuld sem orðið hef­ur til eft­ir frostið í kjöl­far banka­hruns­ins og ófull­nægj­andi fram­boðs lóða. Sú yf­ir­sýn sem við höf­um öðlast með þétt­ara sam­starfi rík­is, sveit­ar­fé­laga og bygg­ing­araðila er mik­il­væg­ur grunn­ur til að standa á til að ná þess­um mark­miðum til lengri tíma. Nauðsyn­legt er talið að byggja 35 þúsund íbúðir á næstu tíu árum.

Hins veg­ar er um að ræða skamm­tíma­mark­mið sem miða að því að taka utan um þá hópa sem veik­ast standa fjár­hags­lega og eiga í erfiðleik­um með að eign­ast eða leigja hús­næði. Við vinnu við fjár­mála­áætl­un til árs­ins 2028 var aukið veru­lega við stuðning við hús­næðis­upp­bygg­ingu, bæði með hækk­un stofn­fram­laga til bygg­ing­ar hag­kvæms hús­næðis á viðráðan­legu verði og með breyt­ing­um á skil­mál­um hlut­deild­ar­lána.

Línu­dans á tím­um verðbólgu

Upp­bygg­ing á tím­um verðbólgu er línu­dans. Gæta verður að því að auka ekki á þenslu á sama tíma og vinna verður gegn hús­næðis­skorti sem leiðir til hækk­un­ar á hús­næðis­verði og þar af leiðandi hærri verðbólgu. Þau verk­færi sem eru í verk­færa­k­istu hins op­in­bera og þróuð hafa verið frá því Fram­sókn hélt um tauma í fé­lags­málaráðuneyt­inu árin 2013-2016 og síðar 2017-2021 hafa reynst vel í yf­ir­stand­andi vinnu og munu gera það áfram. Í þeirri kistu er að finna tæki til að skapa jafn­vægi fram­boðs og eft­ir­spurn­ar.

Mik­il­vægt að tryggja ör­yggi leigj­enda

Eitt af því sem verk­tak­ar hafa gagn­rýnt er að verið sé að leggja áherslu á upp­bygg­ingu þroskaðs leigu­markaðar. Þess má geta að leigu­markaður­inn á Íslandi er gjör­ólík­ur því sem þekk­ist hjá hinum nor­rænu þjóðunum. Hann er mun minni og ein­kenn­ist miklu síður af óhagnaðardrifn­um leigu­fé­lög­um. Þeir sem hafa sökkt sér ofan í aðstæður á ís­lensk­um leigu­markaði kom­ast fljótt að því að það sem ein­kenn­ir hann er óör­yggi leigj­enda og er ekki óal­gengt að heyra sög­ur af fólki sem þarf að vera í stöðugum flutn­ing­um milli skóla­hverfa til að tryggja börn­um sín­um þak yfir höfuðið. Ég hef alla tíð verið talsmaður þess að fólk eigi helst að eiga frek­ar en leigja en við get­um ekki horft fram hjá því að alltaf er ein­hver hóp­ur fólks sem annaðhvort vill eða verður að búa í leigu­hús­næði. Það er óá­byrgt að láta sem þessi hóp­ur sé ekki til þótt hann sé ekki stór.

Kæri les­andi.

Fátt er mik­il­væg­ara fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag en það að skapa for­send­ur fyr­ir rétt­lát­ari hús­næðismarkaði. Stór skref hafa verið stig­in á síðustu árum og ný hús­næðis­stefna verður mik­il­væg­ur liður í því að bæta lífs­kjör á Íslandi. Hús­næðismál eru ekki aðeins spurn­ing um vel­ferð held­ur einnig stórt efna­hags­mál. Aukið fram­boð nýrra íbúða á næstu árum er nauðsyn­legt til þess að koma á jafn­vægi á hús­næðismarkaði til framtíðar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. ágúst 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Verðbólgan knúin áfram af innlendum verðhækkunum

Deila grein

28/08/2023

Verðbólgan knúin áfram af innlendum verðhækkunum

Meg­in­vext­ir Seðlabanka Íslands eru 9,25% eft­ir síðustu 50 punkta hækk­un. Verðbólga hef­ur farið minnk­andi og mæld­ist 7,6% í júlí. Dregið hef­ur úr alþjóðleg­um verðhækk­un­um ásamt því að gengi krón­unn­ar hef­ur styrkst um­fram spár. Á móti veg­ur að inn­lend­ar verðhækk­an­ir hafa reynst þrálát­ar og eru enn á breiðum grunni.

Síðustu daga hafa sum­ir beint kast­ljós­inu beinst að ferðaþjón­ust­unni. Eft­ir því sem best verður séð af yf­ir­lýs­ing­um Seðlabanka­stjóra og af lestri Pen­inga­mála Seðlabank­ans virðist vera um mis­skiln­ing að ræða hvað snert­ir síðustu vaxta­hækk­un, þar sem ekk­ert kem­ur þar fram sem bend­ir til að ferðaþjón­ust­an sé um­fram aðrar at­vinnu­grein­ar að valda verðbólguþrýst­ingi, enda árar vel í flest­um at­vinnu­grein­um þjóðfé­lags­ins. Í nýj­ustu Pen­inga­mál­um er minnst á ferðaþjón­ust­una í sam­hengi við styrk­ingu krón­unn­ar, sem hef­ur hækkað um 6,6% það sem af er ári og er gengið nú að meðaltali um 10% hærra en það var lægst í lok janú­ar. Frek­ari staðfest­ingu á fram­lagi ferðaþjón­ust­unn­ar til styrk­ing­ar á krón­unni var að finna í töl­um Hag­stof­unn­ar í vik­unni þar sem fram kem­ur að verðmæti þjón­ustu­út­flutn­ings hef­ur styrkst og nær að greiða mik­inn halla á vöru­skipt­um við út­lönd og er­lend­ar fjár­fest­ing­ar líf­eyr­is­sjóðanna. Færa má sterk rök fyr­ir því að öfl­ug­ur viðsnún­ing­ur ferðaþjón­ust­unn­ar hafi stutt við gengi krón­unn­ar á síðustu mánuðum og í raun frá því að grein­in hóf að rétta úr kútn­um snemma á ár­inu 2022.

Það er ekki þörf á að dvelja lengi við áhrif geng­is­ins á verðlag á Íslandi í gegn­um tíðina, og eru áhrif­in sterk­ari hér á landi en í öðrum lönd­um, enda kem­ur fram í Pen­inga­mál­um að betri skamm­tíma­horf­ur verðbólgu­vænt­inga end­ur­spegli einkum styrk­ingu krón­unn­ar um­fram spár. Í Pen­inga­mál­um er á öðrum stað minnst á ferðaþjón­ust­una þar sem kem­ur fram að horf­ur í ferðaþjón­ustu séu áþekk­ar og í spá bank­ans í maí. Þar seg­ir einnig að horf­ur fyr­ir grein­ina séu svipaðar fyr­ir næsta ár þar sem gert er ráð fyr­ir hóf­legri fjölg­un ferðamanna milli ára. Það virðist því ekki vera nein breyt­ing á áhrif­um ferðaþjón­ust­unn­ar til hækk­un­ar á spá bank­ans. Það má halda því til haga að gert er ráð fyr­ir færri ferðamönn­um í ár en á metár­inu 2018, en það ár var verðbólg­an ekki vanda­mál.

Það eru hins veg­ar aðrir og aug­ljós­ari kraft­ar sem hafa áhrif á verðlag. Verð á mat­vöru og þjón­ustu hef­ur hækkað áfram. Verð á al­mennri þjón­ustu hef­ur hækkað um 6,8% sl. tólf mánuði og verð á inn­lendri vöru um 11,5%. Þá hef­ur dagvara hækkað um 12,2% frá sama tíma í fyrra. Enn er því til staðar nokk­ur verðbólguþrýst­ing­ur þótt dregið hafi lít­il­lega úr hon­um í júlí, en rúm­lega helm­ing­ur af neyslukörf­unni hef­ur hækkað um 5-10% frá fyrra ári og um fjórðung­ur hef­ur hækkað um meira en 10%. Menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið hyggst taka upp sam­tal við lyk­ilaðila á dag­vörumarkaðnum til að skilja bet­ur þessa hækk­un, sér í lagi vegna þess að krón­an hef­ur verið að styrkj­ast og alþjóðleg verðbólga í rén­un.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. ágúst 2023.

Categories
Greinar

Áfram Árneshreppur og hvað svo?

Deila grein

18/08/2023

Áfram Árneshreppur og hvað svo?

Árneshreppur á Ströndum tók þátt í verkefni Byggðastofnunar „Brothættar byggðir“. Um er að ræða verkefni sem byggir á byggðaáætlun og er hluti af áætlun Byggðastofnunar til að aðstoða byggðarlög sem standa höllum fæti. „Áfram Árneshreppur“ en svo kallast verkefnið í Árneshreppi, var hrundið af stað árið 2018 og er nú komið á loka metrana.

Undirrituð sat íbúafund í Árnesi í gær þar sem farið var yfir hvernig verkefnið hefur tekist til og hvernig íbúar sæju fyrir sér þau tækifæri sem komin eru í gang mættu lifa til framtíðar. Það var augljóst á fundinum að íbúar töldu verkefnið hafa heppnast vel og að þeir styrkir sem fengist hafa í tengslum við það hafi ýtt á stað frjóum hugmyndum sem þegar eru farnar að blómstra. Auk þess hefur krafturinn nýst við að ýta á stað ljósleiðaravæðingu í hreppnum og þrífösun rafmagns sem nú er langt á veg komin. Við slíkan innblástur og kraft vaknar bjartsýni og vilji til að viðhalda uppbyggingu. Verkefni brothættra byggða er ætlað að aðstoða byggðarlög sem hafa glímt við viðvarandi fólksfækkun ásamt því að atvinna og þjónusta hafi veikst. Í Árneshreppi hafði verið viðvarandi fækkun síðustu áratugi en frá því að verkefnið hófst árið 2018 hefur þróunin snúist við og aftur fjölgað í hreppnum. Það má því segja að verkefnið hafi farið vel af stað.

Bættar samgöngur

Já markmiðinu er náð. En hvert er þá framhaldið? Líklega að viðhalda því sem náðst hefur og halda svo áfram.

Það voru því mikil vonbrigði að sjá að framlögð samgönguáætlun gerir ráð fyrir að fresta enn frekar framkvæmdum á Veiðileysuhálsi sem hefjast átti á árinu 2024 til ársins 2029. Það er algjörlega taktlaust í kjölfar vel heppnaðra aðgerða hins opinbera á síðustu fimm árum í byggðarlaginu að bregðast svo á ögurstundu. Áfram Árneshreppur hefur skilað tugmilljóna styrkjum frá hinu opinbera í lífvænleg verkefni og gildandi samgönguáætlun algjörlega í takti við það markmið að efla byggðarlagið.

Vetrarþjónusta mikilvæg

Frá Bjarnarfirði norður í Norðurfjörð eru liðlega 75 km. Það er vissulega áskorun að halda uppi öruggri vetrarþjónustu um vegi sem liggja um krappar hlíðar, háls og vegslóða sem liggja með landslaginu en eru ekki uppbyggðir. Hluti leiðarinnar er þó með ágætum og ekki snjóþungur. Nú síðustu tvo vetur hefur vetrarþjónustan verið aukin þegar fallið var frá G-reglu snjómoksturs og hefur það gefist vel. Var um tilraunaverkefni að ræða og mikilvægt er að ekki verið fallið aftur í sama farið heldur frekar horft á þörf og aðstæður. Flug á Gjögur er mikilvægt en getur þó aldrei komið í stað samgangna á landi.

Það er ekki bara vilji íbúa Árneshrepps að halda uppi góðu mannlífi í byggðarlaginu, það hlýtur að vera vilji okkar allra að blása í glæðurnar og efla enn frekar kraftinn sem býr á Ströndum. Því verður áfram að vera Áfram Árneshreppur!

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. ágúst 2023.

Categories
Greinar

Hóla­skóli – Há­skóli lands­byggðanna?

Deila grein

17/08/2023

Hóla­skóli – Há­skóli lands­byggðanna?

Framtíð háskólamenntunar felst ekki í nafnlausum nemendum sem einangrast bak við skjáinn. Framtíð háskólamenntunar utan höfuðborgarsvæðisins verður ekki tryggð nema með því að nýta tæknina og bjóða upp á öflugt og fjölbreytt fjarnám. Þessar tvær fullyrðingar eru ekki í trássi hver við aðra en við þurfum að finna stofnunum okkar form þar sem sá sannleikur sem er fólginn í þeim báðum nær að raungerast og, allt í senn, treysta búsetu, efla samfélög og auka lífsgæði yngri kynslóða.

Horfum til reynslunnar

Ein best heppnaða tilraun síðustu ára til að skapa lifandi náms- og rannsóknarumhverfi á forsendum nærsamfélagsins er í mínum huga Háskólasetur Vestfjarða. Setrið er markverð miðstöð fyrir fjölda nemenda og starfsmanna, er segull fyrir erlenda gesti frá háskólasamfélögum víða um heim, sinnir áríðandi rannsóknum í samstarfi við stofnanir innan og utan Vestfjarða, og stendur fyrir merkilegri húsnæðisuppbyggingu heima í héraði í formi stúdentagarða. Háskólinn á Akureyri er að sjálfsögðu dæmi um aðra framúrskarandi vel heppnaða byggðaaðgerð, enda var skólinn brautryðjandi í að færa námstækifæri nær íbúum landsbyggðanna. Skólinn hefur haft afgerandi áhrif á framtíðarbúsetu og búsetuþróun í krafti þeirra tækniframfara sem hafa gert fjarnám mögulegt. Ekki aðeins á Akureyri heldur mun víðar. Þannig naut Austurland t.a.m. góðs af vaxandi fjölda hjúkrunarfræðinga og kennara sem voru staðráðin í að lifa, læra og starfa í sinni heimabyggð. Það er mikilvægt að halda upp á þessa sögu, horfa til reynslunnar og byggja á henni til framtíðar.

Vert er að geta þess að fyrrnefndar stofnanir eiga í gjöfulu samstarfi um sjávartengt meistaranám á Vestfjörðum. Fjölmargar aðrar mennta- og rannsóknastofnanir víða um land koma með einum eða öðrum hætti að námi á háskólastigi. Við eigum að leiða krafta þeirra saman undir því sameiginlega markmiði að fjölga tækifærum til náms, og því höfuðmarkmiði að gera ungu fólki um allt land kleift að starfa í lifandi, frjóu og skemmtilegu námsumhverfi. Okkur sem þjóð hefur hingað ekki borið sú gæfa að ná þessu markmiði nema að takmörkuðu leyti, enda hafa tilraunir til þess verið brotakenndar enn sem komið er. Háskóli Íslands hefur ekki sinnt þessu hlutverki og ef til vill eigum við ekki að gera slíka kröfu til stofnunarinnar. Þau verkefni, og með þeim það hlutverk, sem við ætlum Háskóla Íslands eru ærin og má vel vera að byggðaleg sjónarmið samræmist ekki að öllu leyti starfsemi skólans. Stofnun rannsóknasetra HÍ um allt land er sannarlega viðleitni í þá átt en þrátt fyrir gott starf er ljóst að tækifæri hafa líka glatast allt of víða.

Landsbyggðarháskóli með víðfeðmt starfssvæði

Það er af þessari ástæðu sem ég fagna ekki að öllu leyti nýjustu fregnum af hugsanlegri sameiningu Háskóla Íslands og Hólaskóla, þótt eflaust megi finna í því skrefi samlegð og tækifæri til eflingar. Og af þessari ástæðu sömuleiðis sem ég spyr mig, hvort ekki hefði verið nær að fela stjórnendum Hólaskóla táknrænt umboð þess efnis að leiða samtal mennta- og rannsóknastofnana sem flestra landshluta utan höfuðborgarsvæðisins? Stofnun sérstaks landsbyggðarháskóla myndi skerpa á markmiðum sem eru, eða ættu að vera, sameiginleg. Háskóli sem hefði víðfeðmt starfssvæði og tengdi saman starfsemi fjölbreyttra stofnana, stuðlaði að auknu framboði fjarnáms, gerði það aðgengilegra og ýtti undir virkara rannsóknasamstarf.

Hólaskóli – Háskóli landsbyggðanna er ef til vill ekki verra nafn en hvað annað, með vísan í merka sögu sem hægt er að sameinast um. Leiðandi og framsækin stofnun, drifkraftur heima í héraði – sem víðast!

Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri og sérfræðingur á sviði byggðaþróunar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. ágúst 2023.

Categories
Greinar

Nýr tónn sleginn með nýrri miðstöð

Deila grein

17/08/2023

Nýr tónn sleginn með nýrri miðstöð

Tíma­mót urðu fyr­ir ís­lenskt tón­list­ar­líf í vik­unni þegar ný Tón­list­armiðstöð var form­lega stofnuð. Stofnaðilar henn­ar eru menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið f.h. rík­is­sjóðs, STEF, Fé­lag hljóm­plötu­fram­leiðenda, Fé­lag ís­lenskra hljómlist­ar­manna, Fé­lag kenn­ara og stjórn­enda í tón­list­ar­skól­um og Tón­skálda­fé­lag Íslands.

Hlut­verk Tón­list­armiðstöðvar er fjöl­breytt en mun hún bæði sinna fræðslu og stuðningi við tón­listar­fólk og tón­list­artengd fyr­ir­tæki, styðja við upp­bygg­ingu tón­list­ariðnaðar­ins, kynna ís­lenska tónlist og tón­listar­fólk á er­lendri grundu og vera nótna­veita fyr­ir ís­lensk tón­verk. Tón­list­armiðstöð mun styðja við upp­bygg­ingu sprota og hlúa að ferli lista­fólks og verður áhersla lögð á að tryggja fjöl­breytni og grósku og að starfs­um­hverfið verði nú­tíma­legt og hvetj­andi fyr­ir ís­lenskt tón­list­ar­líf. Með til­komu miðstöðvar­inn­ar mun tón­list­ar­lífið eign­ast sína eig­in kynn­ing­armiðstöð líkt og aðrar list­grein­ar.

Tón­list­armiðstöð er sjálf­seign­ar­stofn­un sem rek­in er á einka­rétt­ar­leg­um grunni með sjálf­stæðri fjár­hags­ábyrgð og starfar sam­kvæmt sér­stakri skipu­lags­skrá sem stjórn set­ur og staðfest­ir.

Stofn­un Tón­list­armiðstöðvar var ein af til­lög­um starfs­hóps sem ég skipaði á degi ís­lenskr­ar tón­list­ar, hinn 1. des­em­ber 2020. Hlut­verk hóps­ins var að rýna um­hverfi tón­list­ar­geir­ans á Íslandi, skoða hvernig stuðnings- og sjóðakerfi tón­list­ar yrði best skipu­lagt, vinna drög að tón­list­ar­stefnu og skil­greina hlut­verk og ramma Tón­list­armiðstöðvar. Það er óneit­an­lega skemmti­legt að sjá þann mikla ár­ang­ur sem náðst hef­ur fyr­ir tón­list­ar­lífið í land­inu frá 1. des­em­ber 2020. Síðastliðið vor var þings­álykt­un­ar­til­laga um tón­list­ar­stefnu fyr­ir Ísland til árs­ins 2030 samþykkt á Alþingi ásamt fyrstu heild­ar­lög­un­um um tónlist. Á þeim grunni rís hin nýja Tón­list­armiðstöð sem stofnuð var í gær.

Ég vil þakka starfs­hópn­um fyr­ir sína frá­bæru vinnu en hann skipuðu Jakob Frí­mann Magnús­son, Bald­ur Þórir Guðmunds­son, Bragi Valdi­mar Skúla­son, Bryn­dís Jónatans­dótt­ir, Eiður Arn­ars­son, Gunn­ar Hrafns­son, María Rut Reyn­is­dótt­ir, Sól­rún Sum­arliðadótt­ir og Val­gerður Guðrún Hall­dórs­dótt­ir.

Ég legg á það þunga áherslu að styrkja um­gjörð menn­ing­ar í land­inu og stuðla að aukn­um at­vinnu­tæki­fær­um og verðmæta­sköp­un henni tengdri. Til marks um það er ráðgert að sam­tals 600 millj­ón­ir renni af fjár­lög­um 2023-2025 til stofn­un­ar Tón­list­armiðstöðvar og til efl­ing­ar sjóða tón­list­ar til viðbót­ar við þau fram­lög sem renna nú þegar til tón­list­ar.

Við fyll­umst öll stolti þegar sam­lönd­um okk­ar vegn­ar vel á þessu sviði og ná langt meðal ann­ars á er­lendri grundu. Þeir nýju tón­ar sem við slá­um nú fyr­ir tón­list­ar­lífið í land­inu munu skila sér marg­falt til baka. Ég óska tón­listar­fólk­inu okk­ar inni­lega til ham­ingju með þenn­an áfanga, og hlakka til að hlusta á afrakst­ur­inn í framtíðinni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. ágúst 2023.