Categories
Greinar

Hóla­skóli – Há­skóli lands­byggðanna?

Deila grein

17/08/2023

Hóla­skóli – Há­skóli lands­byggðanna?

Framtíð háskólamenntunar felst ekki í nafnlausum nemendum sem einangrast bak við skjáinn. Framtíð háskólamenntunar utan höfuðborgarsvæðisins verður ekki tryggð nema með því að nýta tæknina og bjóða upp á öflugt og fjölbreytt fjarnám. Þessar tvær fullyrðingar eru ekki í trássi hver við aðra en við þurfum að finna stofnunum okkar form þar sem sá sannleikur sem er fólginn í þeim báðum nær að raungerast og, allt í senn, treysta búsetu, efla samfélög og auka lífsgæði yngri kynslóða.

Horfum til reynslunnar

Ein best heppnaða tilraun síðustu ára til að skapa lifandi náms- og rannsóknarumhverfi á forsendum nærsamfélagsins er í mínum huga Háskólasetur Vestfjarða. Setrið er markverð miðstöð fyrir fjölda nemenda og starfsmanna, er segull fyrir erlenda gesti frá háskólasamfélögum víða um heim, sinnir áríðandi rannsóknum í samstarfi við stofnanir innan og utan Vestfjarða, og stendur fyrir merkilegri húsnæðisuppbyggingu heima í héraði í formi stúdentagarða. Háskólinn á Akureyri er að sjálfsögðu dæmi um aðra framúrskarandi vel heppnaða byggðaaðgerð, enda var skólinn brautryðjandi í að færa námstækifæri nær íbúum landsbyggðanna. Skólinn hefur haft afgerandi áhrif á framtíðarbúsetu og búsetuþróun í krafti þeirra tækniframfara sem hafa gert fjarnám mögulegt. Ekki aðeins á Akureyri heldur mun víðar. Þannig naut Austurland t.a.m. góðs af vaxandi fjölda hjúkrunarfræðinga og kennara sem voru staðráðin í að lifa, læra og starfa í sinni heimabyggð. Það er mikilvægt að halda upp á þessa sögu, horfa til reynslunnar og byggja á henni til framtíðar.

Vert er að geta þess að fyrrnefndar stofnanir eiga í gjöfulu samstarfi um sjávartengt meistaranám á Vestfjörðum. Fjölmargar aðrar mennta- og rannsóknastofnanir víða um land koma með einum eða öðrum hætti að námi á háskólastigi. Við eigum að leiða krafta þeirra saman undir því sameiginlega markmiði að fjölga tækifærum til náms, og því höfuðmarkmiði að gera ungu fólki um allt land kleift að starfa í lifandi, frjóu og skemmtilegu námsumhverfi. Okkur sem þjóð hefur hingað ekki borið sú gæfa að ná þessu markmiði nema að takmörkuðu leyti, enda hafa tilraunir til þess verið brotakenndar enn sem komið er. Háskóli Íslands hefur ekki sinnt þessu hlutverki og ef til vill eigum við ekki að gera slíka kröfu til stofnunarinnar. Þau verkefni, og með þeim það hlutverk, sem við ætlum Háskóla Íslands eru ærin og má vel vera að byggðaleg sjónarmið samræmist ekki að öllu leyti starfsemi skólans. Stofnun rannsóknasetra HÍ um allt land er sannarlega viðleitni í þá átt en þrátt fyrir gott starf er ljóst að tækifæri hafa líka glatast allt of víða.

Landsbyggðarháskóli með víðfeðmt starfssvæði

Það er af þessari ástæðu sem ég fagna ekki að öllu leyti nýjustu fregnum af hugsanlegri sameiningu Háskóla Íslands og Hólaskóla, þótt eflaust megi finna í því skrefi samlegð og tækifæri til eflingar. Og af þessari ástæðu sömuleiðis sem ég spyr mig, hvort ekki hefði verið nær að fela stjórnendum Hólaskóla táknrænt umboð þess efnis að leiða samtal mennta- og rannsóknastofnana sem flestra landshluta utan höfuðborgarsvæðisins? Stofnun sérstaks landsbyggðarháskóla myndi skerpa á markmiðum sem eru, eða ættu að vera, sameiginleg. Háskóli sem hefði víðfeðmt starfssvæði og tengdi saman starfsemi fjölbreyttra stofnana, stuðlaði að auknu framboði fjarnáms, gerði það aðgengilegra og ýtti undir virkara rannsóknasamstarf.

Hólaskóli – Háskóli landsbyggðanna er ef til vill ekki verra nafn en hvað annað, með vísan í merka sögu sem hægt er að sameinast um. Leiðandi og framsækin stofnun, drifkraftur heima í héraði – sem víðast!

Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri og sérfræðingur á sviði byggðaþróunar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. ágúst 2023.

Categories
Greinar

Nýr tónn sleginn með nýrri miðstöð

Deila grein

17/08/2023

Nýr tónn sleginn með nýrri miðstöð

Tíma­mót urðu fyr­ir ís­lenskt tón­list­ar­líf í vik­unni þegar ný Tón­list­armiðstöð var form­lega stofnuð. Stofnaðilar henn­ar eru menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið f.h. rík­is­sjóðs, STEF, Fé­lag hljóm­plötu­fram­leiðenda, Fé­lag ís­lenskra hljómlist­ar­manna, Fé­lag kenn­ara og stjórn­enda í tón­list­ar­skól­um og Tón­skálda­fé­lag Íslands.

Hlut­verk Tón­list­armiðstöðvar er fjöl­breytt en mun hún bæði sinna fræðslu og stuðningi við tón­listar­fólk og tón­list­artengd fyr­ir­tæki, styðja við upp­bygg­ingu tón­list­ariðnaðar­ins, kynna ís­lenska tónlist og tón­listar­fólk á er­lendri grundu og vera nótna­veita fyr­ir ís­lensk tón­verk. Tón­list­armiðstöð mun styðja við upp­bygg­ingu sprota og hlúa að ferli lista­fólks og verður áhersla lögð á að tryggja fjöl­breytni og grósku og að starfs­um­hverfið verði nú­tíma­legt og hvetj­andi fyr­ir ís­lenskt tón­list­ar­líf. Með til­komu miðstöðvar­inn­ar mun tón­list­ar­lífið eign­ast sína eig­in kynn­ing­armiðstöð líkt og aðrar list­grein­ar.

Tón­list­armiðstöð er sjálf­seign­ar­stofn­un sem rek­in er á einka­rétt­ar­leg­um grunni með sjálf­stæðri fjár­hags­ábyrgð og starfar sam­kvæmt sér­stakri skipu­lags­skrá sem stjórn set­ur og staðfest­ir.

Stofn­un Tón­list­armiðstöðvar var ein af til­lög­um starfs­hóps sem ég skipaði á degi ís­lenskr­ar tón­list­ar, hinn 1. des­em­ber 2020. Hlut­verk hóps­ins var að rýna um­hverfi tón­list­ar­geir­ans á Íslandi, skoða hvernig stuðnings- og sjóðakerfi tón­list­ar yrði best skipu­lagt, vinna drög að tón­list­ar­stefnu og skil­greina hlut­verk og ramma Tón­list­armiðstöðvar. Það er óneit­an­lega skemmti­legt að sjá þann mikla ár­ang­ur sem náðst hef­ur fyr­ir tón­list­ar­lífið í land­inu frá 1. des­em­ber 2020. Síðastliðið vor var þings­álykt­un­ar­til­laga um tón­list­ar­stefnu fyr­ir Ísland til árs­ins 2030 samþykkt á Alþingi ásamt fyrstu heild­ar­lög­un­um um tónlist. Á þeim grunni rís hin nýja Tón­list­armiðstöð sem stofnuð var í gær.

Ég vil þakka starfs­hópn­um fyr­ir sína frá­bæru vinnu en hann skipuðu Jakob Frí­mann Magnús­son, Bald­ur Þórir Guðmunds­son, Bragi Valdi­mar Skúla­son, Bryn­dís Jónatans­dótt­ir, Eiður Arn­ars­son, Gunn­ar Hrafns­son, María Rut Reyn­is­dótt­ir, Sól­rún Sum­arliðadótt­ir og Val­gerður Guðrún Hall­dórs­dótt­ir.

Ég legg á það þunga áherslu að styrkja um­gjörð menn­ing­ar í land­inu og stuðla að aukn­um at­vinnu­tæki­fær­um og verðmæta­sköp­un henni tengdri. Til marks um það er ráðgert að sam­tals 600 millj­ón­ir renni af fjár­lög­um 2023-2025 til stofn­un­ar Tón­list­armiðstöðvar og til efl­ing­ar sjóða tón­list­ar til viðbót­ar við þau fram­lög sem renna nú þegar til tón­list­ar.

Við fyll­umst öll stolti þegar sam­lönd­um okk­ar vegn­ar vel á þessu sviði og ná langt meðal ann­ars á er­lendri grundu. Þeir nýju tón­ar sem við slá­um nú fyr­ir tón­list­ar­lífið í land­inu munu skila sér marg­falt til baka. Ég óska tón­listar­fólk­inu okk­ar inni­lega til ham­ingju með þenn­an áfanga, og hlakka til að hlusta á afrakst­ur­inn í framtíðinni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. ágúst 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Afl til allra átta

Deila grein

16/08/2023

Afl til allra átta

Margs konar tækifæri og áskoranir fylgja aukinni ferðaþjónustu. Áherslur hafa breyst og uppbygging hefur á sér ýmsar myndir líkt og fjölbreytt verkefni hringinn í kringum landið bera með sér. Við getum nú skoðað fleiri minjar, höfum aðgengi að nýjum stöðum og aðkoma að dýrmætum náttúruperlum hefur bæst til muna. Ásamt þessu hefur aðstaða fyrir gesti aldrei verið betri.

Mikilvægt er að brugðist sé við óskum um innspýtingu vegna uppbyggingar efnislegra innviða á ferðamannastöðum í kjölfar mikillar fjölgunar ferðamanna. Frá árinu 2018 hefur yfir 4,7 milljörðum verið veitt úr landsáætlun til uppbyggingar í fjölmörgum verkefnum. Því fjármagni hefur verið skipt á um 170 staði um allt land. Umsjónaraðilar hafa unnið vel að því undirbúa svæðin betur svo þau geti tekið á móti þeim aukna gestafjölda sem framtíðin ber í skauti sér. Það er því gott að sjá að gert er ráð fyrir um 2,7 milljarða króna framlagi til næstu þriggja ára, en betur má ef duga skal.

Mikilvægt fjármagn

Þann 11. ágúst sl. bárust fréttir frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu um að 908 milljónum króna yrði úthlutað úr Landsáætlun til uppbyggingar innviða á þessu ári skv. úthlutun fjármuna til uppbyggingar innviða og náttúruverndar á ferðamannastöðum. Fjármagnið veitir mikilvæg tækifæri til að setja fram markmið um stýringu og sjálfbæra þróun, vernd náttúru og menningarsögulegra minja, eflingu öryggis, skipulag og hönnun við ferðamannastaði. Hins vegar er þörf á endurskoðun á skiptingu þess milli landshluta.

Þörf á jafnri skiptingu

Þegar litið er til úthlutunar fjármagns úr Landsáætlun eftir landshlutum kemur í ljós að veruleg misskipting er milli landsvæða. Bróðurpartur fjármagnsins, 71%, hefur farið í eina átt, þ.e. til Suðurlands. Þetta er annað árið í röð sem meirihluti fjármagnsins er úthlutað til Suðurlands. Árið 2022 fór rétt um 50% af 908 milljónum króna í verkefni tengd uppbygginu innviða á Suðurlandi.

Barist er fyrir stöndugri ferðaþjónustu um allt land, en á mörgum stöðum er nauðsynlegt að frekari uppbygging innviða eigi sér stað á fjölförnum stöðum svo að það gangi upp. Það á við á allri landsbyggðinni þar sem auðlindir eru víða og tækifæri í ferðaþjónustu eru fjölmörg en að mörgu leyti vanýtt. Tenging milli úthlutunarinnar og stefnu stjórnvalda um dreifingu ferðamanna er ekki auðsýnileg. Sérstaklega ekki þegar kemur að þeim verkefnum, sem finnast um land allt og kalla á frekari uppbyggingu. Fjölmörg verkefni bíða okkar og ákallið kemur úr öllum áttum. Það skiptir sköpum að fjármunir séu nýttir með þeim hætti að þeir efli spennandi uppbyggingu í öllum landshlutum á jafnan máta.

Samfélagið, þingmenn og ráðherrar þurfa að átta sig á að misskipting fjármagns á milli landshluta af þessu tagi ýtir sannarlega ekki undir það markmið að allir hafi jöfn tækifæri óháð búsetu.

Þarna þurfum við að gera betur.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. ágúst 2023.

Categories
Greinar

Blómlegum bæ í uppbyggingu fylgir alls konar rask

Deila grein

15/08/2023

Blómlegum bæ í uppbyggingu fylgir alls konar rask

Við í Framsókn Akureyri viljum sjá bæinn okkar blómstra og þeirri uppbyggingu fylgir eðlilega alls konar tæki og tól. Það getur verið kostnaðarsamt fyrir t.d. minni fyrirtæki að koma sér upp lóðum/stæðum fyrir þau tæki sem fylgja starfseminni, enda gera gatnagerðargjöld ráð fyrir miklu byggingarmagni og gjaldskráin eftir því. Þá þarf að leita annarra lausna sem eru sniðnar að mismunandi þörfum.

Ég hef talað fyrir því að koma til móts við fyrirtæki og einstaklinga með því að bjóða upp á vaktað geymslusvæði eins og tíðkast í mörgum sveitarfélögum. Á síðasta skipulagsráðsfundi var samþykkt þessi tillaga mín: Haldinn verður opinn fundur með verktökum, atvinnurekendum og félagasamtökum þar sem rætt verður um hvort grundvöllur sé fyrir því að koma upp vöktuðu geymslusvæði í bæjarlandinu þar sem einstaklingar og fyrirtæki geti leigt pláss fyrir svo sem ökutæki, gáma, hjólhýsi og vinnuvélar.

Það er von mín að fyrirtæki og einstaklingar í bænum taki vel í þessar hugmyndir og mæti í samtalið svo við getum í sameiningu fundið lausn á málum. Hvort sem þetta verður niðurstaðan, eða ef önnur betri finnst, þá getum við ekki látið stöðuna óáreitta.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir oddviti Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 14. ágúst 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Öflug ferðaþjónusta á forsendum samfélagsins

Deila grein

08/08/2023

Öflug ferðaþjónusta á forsendum samfélagsins

Eld­gosið í Eyja­fjalla­jökli árið 2010 markaði ákveðin vatna­skil fyr­ir ís­lenska ferðaþjón­ustu. Með þessu út­spili sínu kom móðir nátt­úra land­inu ræki­lega á kort er­lendra fréttamiðla um langt skeið með til­heyr­andi aukn­um áhuga á að ferðast til lands­ins. Þannig óx fjöldi ferðamanna úr tæp­lega 500 þúsund árið 2010 í rúm­ar 2,3 millj­ón­ir árið 2018 þegar mest var.

Sam­hliða þessu hef­ur hlut­ur ferðaþjón­ust­unn­ar í lands­fram­leiðslu vaxið mjög en árið 2022 nam hann 7,8% og út­gjöld er­lendra ferðamanna námu 390,4 millj­örðum króna. Áætlað er að rúm­lega 18 þúsund ein­stak­ling­ar hafi starfað við ferðaþjón­ustu hér á landi í fyrra og síðustu fjóra árs­fjórðunga skilaði grein­in 411 millj­örðum króna í út­flutn­ings­tekj­ur eða tæp­um fjórðungi heild­ar­út­flutn­ingstekna þjóðarbús­ins. Það ger­ir grein­ina stærstu gjald­eyr­is­skap­andi at­vinnu­grein lands­ins, með til­heyr­andi stuðningi við gengi krón­unn­ar og styrk­ari óskuld­sett­um gjald­eyr­is­forða fyr­ir þjóðarbúið. Þetta skipt­ir miklu máli fyr­ir Ísland.

Það hef­ur hins veg­ar eng­um dulist að vöxt­ur sem þessi reyn­ir á ýmsa þætti sam­fé­lags­ins og öll­um ljóst að Ísland get­ur ekki tekið við enda­laus­um fjölda ferðamanna á hverju ári. Í embætti mínu sem ferðamálaráðherra finn ég sam­eig­in­leg­an skiln­ing á þessu sjón­ar­miði inn­an ferðaþjón­ust­unn­ar. Það er í lagi að vera upp­seld­ur áfangastaður og að færri kom­ist að en vilja. Frá ár­inu 2010 hef­ur mikið vatn runnið til sjáv­ar þegar kem­ur að ferðaþjón­ust­unni. Geta lands­ins til að taka á móti er­lend­um ferðamönn­um hef­ur batnað veru­lega og mik­il­væg reynsla og þekk­ing hef­ur byggst upp í grein­inni. Fjár­fest hef­ur verið af mikl­um metnaði hring­inn í kring­um landið í upp­bygg­ingu áfangastaða og innviða, úr­val af afþrey­ingu og ým­iss kon­ar þjón­ustu hef­ur stór­auk­ist, at­vinnu­líf og bú­setu­skil­yrði batnað um allt land á sama tíma og hingað koma verðmæt­ari ferðamenn. Mæl­ing­ar sýna að ánægja er­lendra ferðamanna með Ísland sem áfangastað er mik­il í er­lend­um sam­an­b­urði. Það er vitn­is­b­urður um að ís­lensk ferðaþjón­usta sé á heims­mæli­kv­arða.

Í upp­gangi og vel­gengni sem þess­ari er hins veg­ar mik­il­vægt að sofna ekki á verðinum, að týna ekki sjálf­um sér; að huga að mörk­um. Það er óbilandi skoðun mín að liður í því að Ísland haldi sjarma sín­um sé að við stönd­um með sér­kenn­um lands og þjóðar, þar með talið tungu­mál­inu. Ég tel til að mynda að all­ar merk­ing­ar eigi að vera fyrst á ís­lensku, og svo á öðru tungu­máli, hvort sem það er í Flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar eða ann­ars staðar. Fyr­ir dyr­um stend­ur að gera ís­lensk­una miklu sýni­legri en hún hef­ur verið með sam­starfi við ferðaþjón­ust­una og at­vinnu­lífið. Tek­in verða mun ákveðnari skref til þess að gera ís­lensk­unni hærra und­ir höfði. Þetta og meira til verður ein­mitt und­ir í mót­un nýrr­ar aðgerðaáætl­un­ar á sviði ferðamála á grunni sem unnið er að. Það er framtíðar­sýn mín að ís­lensk ferðaþjón­usta eigi að vera leiðandi í sjálf­bærri þróun á grunni efna­hags­legs og sam­fé­lags­legs jafn­væg­is; öfl­ug ferðaþjón­usta á for­send­um sam­fé­lags­ins.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. ágúst 2023.

Categories
Greinar

Vegir liggja til allra átta

Deila grein

28/07/2023

Vegir liggja til allra átta

Atvinnumálanefnd Dalabyggðar gerði í vor úttekt á þeim rúmlega 400 km sem vegakerfi sveitarfélagsins samanstendur af og vann upp úr henni forgangsröðun. Þess ber að geta og þurfti ekki fyrrnefnda úttekt til að komast að þeirri niðurstöðu, að alltof stór hluti þeirra kílómetra eru malarvegir. Það vildi svo til að drög að nýrri samgönguáætlun komu inn á Samráðsgátt stjórnvalda þegar verið var að leggja lokahönd á úttekt og forgangsröðun og því ákvað Dalabyggð að auk umsagnar um samgönguáætlun myndi fyrrnefnd úttekt fylgja með sem fylgigagn.

Eitt stærsta og brýnasta vegamál í Dalabyggð er Skógarstrandarvegur (Snæfellsnesvegur 54), en hann er eini stofnvegur á Vesturlandi sem ekki er bundinn slitlagi og sá lengsti á láglendi sem en er án slitlags. Mikilvægt er að halda því til haga í allri umræðu að Skógarstrandavegurinn er stofnvegur, ekki tengivegur eða önnur vegtegund, það vill of oft gleymast í umræðum og greinaskrifum hins mætasta fólks. Í gildandi samgönguáætlun sem og drögum að samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 kemur fram að eitt af markmiðum um framkvæmdir í vegamálum sé að byggja upp grunnet stofnvega með fullu burðarþoli og bundnu slitlagi. Það vakti því furðu við lestur á drögum að nýrri samgönguáætlun þegar ljóst varð að ekki er gert ráð fyrir áframhaldi á framkvæmdum við Skógarstrandarveg fyrr en 2027. Tenging Dalabyggðar við Snæfellsnes er mikilvæg fyrir samfélag Dalamanna og uppbyggingu þjónustu við ferðamenn til framtíðar en einnig með tilliti til atvinnu- og skólasóknar þeirra sem í Dalabyggð búa og þurfa að ferðast um veginn mikilvæga flesta daga ársins. Tilvonandi seinkun á framkvæmdum við veginn er algjörlega ótæk og ljóst að halda verður vel á spöðunum til að svo viðamikið verk haldi áfram án meiri seinkunar en orðið hefur.

Vestfjarðarvegur sunnan Búðardals er einnig stofnvegur sem þó er með bundnu slitlagi. Vegurinn er bæði svo mjór og illa farinn að hann er engan veginn tilbúin fyrir þá þungaumferð sem um hann fer. Mikil umferðaraukning hefur orðið á Vestfjarðarvegi um Dalabyggð sl. ár, meðal annars vegna aukinna þungaflutninga vestan af fjörðum og með tilkomu vegabóta yfir Þröskulda. Þar þarf að ráðast í endurbætur hið snarasta svo mannsæmandi sé. Vitnast þá aftur í markmið um framkvæmdir í vegamálum í samgönguáætlun þar sem fram kemur markmið um breikkun vega þar sem umferð er svo mikil að flutningsgeta og umferðaröryggi verða vandamál.

Við skoðun á framkvæmdum við héraðsvegi kom það nefndinni mjög á óvart að engir sérstakir fjármunir hafa verið settir með vegaáætlun í uppbyggingu þeirra frá hruni. Því verður ekki hægt að una lengur og þarf að gera bætur þar á. Héraðsvegir eiga að geta verið mun léttbyggðari en stofn- og tengivegir og því hægt að komast mun fleiri kílómetra fyrir sambærilega fjárhæð.

Alls eru 77% tengivega á starfssvæði Vegagerðarinnar í Búðardal malarvegir og segir það meira en mörg orð um framgang í uppbyggingu þeirra vega á svæðinu. Bæta þarf verulega úr fjármögnun þar á, því viðhaldsfé á þeim vegum hefur einnig verið í miklu lágmarki síðustu ár og vegirnir því margir í mjög slæmu ásigkomulagi. Sjá verður til þess að framkvæmdir við loka kafla Laxárdalsheiðar fari í útboð á árinu 2024 og verði þá kominn tenging með bundnu slitlagi beint yfir í Hrútafjörð.

Þegar litið er á tengi- og stofnvegi sem liggja um Dalina þá liggja þeir vegir til allra átta og gerir það Dalina að miðpunkti sem mikilvægt er að horfa til þegar staðsetningar þjónustu fyrir víðfeðmt svæði er skoðuð. Vegamál eru því mikilvægt atvinnu- og byggðamál í Dalabyggð sem og aðliggjandi sveitarfélögum.

Það er gríðarlega mikilvægt að vegayfirvöld og þeir sem um fjármagnið halda og stýra fjármögnun til vegaframkvæmda taki tillit til þeirra tillagna sem heimafólk gerir á hverjum stað. Mitt mat og okkar í Dalabyggð er að við séum að setja fram okkar tillögur á málefnalegan hátt, styrktar góðum og faglegum rökum sem óskandi er að alþingismenn okkar í kjördæminu og aðrir sem að koma geti notað til gagns í sinni vinnu.

Ég vil að lokum þakka þau góðu viðbrögð sem skýrsla um forgangsröðun vegaframkvæmda í sveitarfélaginu Dalabyggð hefur fengið og vona að sá hjómgrunnur sýni sig í framkvæmdum komandi ára.

Garðar Freyr Vilhjálmsson, formaður atvinnumálanefndar Dalabyggðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. júlí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Efnahagsaðgerðir skila árangri

Deila grein

22/07/2023

Efnahagsaðgerðir skila árangri

Stærsta verkefni hagstjórnarinnar er að ná verðbólgunni í markmið peningastefnunnar. Verðbólgumælingar gærdagsins gefa ákveðin fyrirheit um að efnahagsstjórnin sé á réttri leið og að allar líkur séu á að hagkerfið nái mjúkri lendingu. Hins vegar er afar brýnt að lýsa ekki yfir sigri fyrr en við sjáum verðbólguna komna enn frekar niður, því þarf áframhaldandi festu við stjórn efnahagsmála.

Þróunin jákvæð

Ársverðbólga mælist 7,6% og hefur lækkað töluvert frá júnímánuði en þá var hún 8,9%. Þessi þróun er afar jákvæð og sýnir svart á hvítu að hagkerfið er á réttri leið. Aðgerðir Seðlabanka Íslands eru farnar að hafa mikil áhrif og sjáum við það á því að húsnæðismarkaður er að ná betra jafnvægi. Ný útlán hafa einnig dregist saman. Samhliða aðhaldi í peningamálum sendir ný ríkisfjármálaáætlun skýr skilaboð um að meginverkefni stjórnvalda er að ná tökum á verðbólgunni og draga úr þenslu en á sama tíma standa vörð um velferðarkerfið og þá sem standa höllustum fæti í samfélaginu okkar. Aðhaldsstig ríkisfjármálanna hefur verið aukið og gert er ráð fyrir bættri afkomu árið 2024. Skuldir ríkissjóðs eiga að hafa náð hámarki eða sem nemur 33% af landsframleiðslu.

Horfurnar eru góðar

Horfur íslenska ríkissjóðsins eru metnar jákvæðar af hinum alþjóðlegu matsfyrirtækjum Moody’s og Standard & Poor’s. Það mat byggist á verulega bættum horfum ríkissjóðs um afkomu og skuldir, ásamt kröftugum efnahagsbata og því að Ísland býr að öflugum stofnunum og stjórnfestu. Gert er ráð fyrir 4% hagvexti í ár og 2,5% árið 2024 samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu Íslands og kemur í kjölfar 6,4% hagvaxtar á síðasta ári. Mikill útflutningur í öllum helstu atvinnugreinunum mun drífa áfram hagvöxt, og þar heldur ferðaþjónustan áfram að setja sitt lóð á vogarskálar ásamt einkaneyslu. Í baráttunni við verðbólguna munar jafnframt um öflugt gjaldeyrisinnstreymi frá þessum stærsta atvinnuvegi þjóðarinnar. Það eru fáar þjóðir sem hafa náð að koma jafn kröftuglega út úr Covid-19-kreppunni og Ísland. Ánægjulegt er að sjá að afkoma ríkissjóðs hefur ítrekað verið umfram væntingar frá því heimsfaraldurinn skall á. Gert er ráð fyrir í ár að tekjur ríkissjóðs verði nærri 50 ma.kr. hærri en útgjöld ef frá eru talin vaxtatekjur og –gjöld. Þessi jákvæða þróun á lánshæfismatinu mun stuðla að aukinni hagsæld Íslands með lægri fjármögnunarkostnaði ríkissjóðs og fyrirtækja í landinu.

Áhættuþættir eru þó margir

Til að verðbólgan haldi áfram að lækka þarf allt efnahagslífið að vinna að því sameiginlega markmiði. Vinnumarkaðurinn er lykilbreyta í þeirri þróun og ljóst að launahækkanir verða að taka mið af því að verðbólga lækki. Launahækkanir æðstu embættismanna ríkisins hækkuðu því um 2,5%, sem er í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Sveitarstjórnarstigið hefur einnig ákveðið að hækkanir kjörinna fulltrúa taki mið af þessu. Þessar ráðstafanir eru afar mikilvægar til að ná tökum á verðbólguvæntingum og að víxlverkun launa og verðlags verði sjálfbær.

Verðbólgan er enn langt yfir markmiði og verðbólguvæntingar of háar. Það munar þó um að raunstýrivextir eru nú jákvæðir, sem minnkar heildareftirspurn og eykur sparnað í hagkerfinu. Hagstæðar verðbólgumælingar og sterkt gengi munu hafa jákvæð áhrif á verðbólguvæntingar þegar fram líða stundir. Ríkisfjármálin eru þó enn rekin með halla og því fyrr sem ríkisfjármálin snúast í afgang því betra. Vaxtagreiðslur ríkissjóðs eru umtalsverðar og hafa ríkisfjármálin fundið fyrir því á neikvæðan hátt eins og heimili landsins.

Verðbólga á heimsvísu hefur verið á niðurleið og afar brýnt að sú þróun haldi áfram. Allir óvissuþættir hafa auðvitað neikvæð áhrif og er stríðið í Úkraínu einn þáttur í því. Nýverið hafa rússnesk stjórnvöld rift samkomulaginu um útflutning á kornafurðum frá Úkraínu, en það þýddi að verðið hækkaði tímabundið. Öll óvissa er neikvæð í alþjóðaviðskiptum og því ómögulegt að segja hvort alþjóðlegt verðlag verði stöðugt eður ei. Því er afar brýnt fyrir Ísland að afgangur fari að myndast á viðskiptajöfnuði þjóðarbúsins til að draga úr óvissunni. Viðskiptakjör þjóðarinnar hafa verið afar hagkvæm undanfarin misseri og er ekki ávallt á vísan að róa í þeim efnum.

Lokaorð

Þótt öll helstu teikn séu jákvæð um þessar mundir er mikilvægt að sofna ekki á verðinum. Aðgerðir í peninga- og ríkisfjármálum eru að skila raunverulegum árangri og mikilvægt að missa þá þróun ekki frá sér. Árangur í efnahagsmálum er langhlaup og snýr að trúverðugleika. Ég hef fulla trú á því að komandi kjarasamningar taki mið af því að ná verðbólgunni enn frekar niður. Ljóst er að ríkisstjórnin hefur það að leiðarljósi í öllum sínum störfum. Lilja Dögg Alfreðsdóttir Höfundur er menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst 22. júlí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Heilbrigðiskerfi í takt við tímann

Deila grein

14/07/2023

Heilbrigðiskerfi í takt við tímann

Árið 1947 var samþykkt á Alþingi að hækka hámarksaldur starfsmanna ríkisins úr 65 árum í 70 ár á þeim forsendum ,,…að flestir opinberir starfsmenn væru færir um að gegna starfinu til sjötugs“. Þó ýmsar breytingar hafi verið gerðar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins frá árinu 1947 þá stendur reglan um 70 ára hámarksaldur starfsmanna ríkisins óbreytt. Á þessum tíma hefur meðalævi Íslendinga lengst um 10 ár. Lífslíkur á Íslandi eru rúmlega 83 ár í dag og með þeim mestu í Evrópu. Samhliða hækkandi lífaldri Íslendinga hefur heilsa eldra fólks batnað til muna og lífsgæði aukist verulega. Ef sömu rök og forsendur giltu nú og árið 1947 þá væri hámarksaldur starfsmanna ríkisins um 80 ár.

Allt frá árinu 1981 hafa endurtekið komið fram tillögur um hækkun starfslokaaldurs opinberra starfsmanna á þeim forsendum að við lifum lengur og við betri heilsu. Þrátt fyrir góðan vilja og samþykktar þingsályktunartillögur hafa áformin ekki raungerst og 70 ára reglan staðið óbreytt. Þar til nú.

70 ára reglan er komin á aldur

Það skýtur skökku við að á sama tíma og mönnun heilbrigðisþjónustu er ein helsta áskorun heilbrigðiskerfisins hefur opinberum heilbrigðisstofnununum verið gert á grundvelli 70 ára reglunnar að segja starfsfólki undantekningarlaust upp þegar það nær 70 ára aldri. Það hefur viðgengist þrátt fyrir gagnkvæman vilja starfsmanns og vinnuveitenda til að halda áfram störfum. Við slíkar aðstæður hafa stjórnendur opinberra heilbrigðisstofnana gripið til þess ráðs að gera tímavinnu- eða verktakasamninga og eru um 2% heilbrigðistarfsfólks á slíkum samningum í dag vegna aldurs.

Tímavinnu- og verktakasamningar eru óhagstæðir fyrir alla aðila og veita starfsmanninum lakari réttindi veikinda, lífeyris- og orlofs ásamt því að fela í sér talsverða launaskerðingu frá fyrri ráðningarsamningi. Slíkt ójafnræði er ekki til þess fallið að styðja við mönnun í heilbrigðisþjónustu eða gera störf innan opinbera heilbrigðiskerfisins aðlaðandi fyrir þá sem hafa náð 70 ára aldri.

Sveigjanleg starfslok

Í tengslum við forgangsverkefni heilbrigðisráðuneytisins varðandi umbætur á starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks og í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar tókum við af skarið á nýafstöðnu þingi með framlagningu frumvarps um hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsfólks úr 70 árum í 75 ár. Frumvarpið var samþykkt undir þinglok og tekur gildi þann 1. janúar 2024. Hér er um margt merkilegt og mikilvægt mál sem snýr að sveigjanlegum starfslokum og umbótum á réttindum og kjörum heilbrigðisstarfsfólks sem bæði vill og getur unnið lengur en til sjötugs.

Í hinu nýsamþykkta frumvarpi um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn er að finna nýtt ákvæði sem veitir heilbrigðisstarfsfólki heimild til undanþágu frá 70 ára reglunni. Markmiðið er fyrst og fremst að bæta réttindi og kjör þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem kjósa að vinna eftir sjötugt ásamt því að styðja við mönnun í heilbrigðisþjónustu.

Í takt við tímann

Ég bind vonir við að þær umbætur sem lagabreytingarnar fela í sér á réttindum og kjörum heilbrigðisstarfsfólks eftir sjötugt séu til þess fallnar að gera störf í heilbrigðisþjónustu eftir sjötugt meira aðlaðandi og eftirsóknarverðari. Ákvæðið markar tímamót og er vonandi fyrsta skrefið í átt að sveigjanlegum starfslokum opinberra starfsmanna og auknu jafnræði.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. júlí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Notum ís­lensku

Deila grein

05/07/2023

Notum ís­lensku

Ef þér er almennt sama hvort þjónustan sem þú færð er á íslensku eða ensku eru allar líkur á að hún verði til framtíðar á ensku. Við skulum samt hafa það á hreinu að ensk tunga er ekki óvinur íslenskunnar, heldur er það doðinn og andvaraleysið sem skapa ógn við samtíð og framtíð tungumálsins okkar.

Fá málefni eru mér jafn hugleikin og mikilvægi íslenskunnar, hún er grunnur alls sem við gerum og stöndum fyrir. Kunnátta og færni í tungumálinu ákvarða oft þau tækifæri og framgang sem börn og ungmenni njóta til framtíðar.

Í ráðherratíð minni hef ég sett málefni íslenskunnar í öndvegi og leitast við að auka samvinnu og samstöðu um aðgerðir sem stuðla að verndun og þróun tungumálsins. Íslenskan er ekkert venjulegt málefni og þróun hennar verður ekki stýrt með ríkisafskiptum. Tungumál eru í senn verk okkar allra og verkfæri, þau hverfast ekki um afskipti – heldur samskipti.

Andófið eykst

Við þurfum alvöru viðhorfsbreytingu gagnvart tungumálinu okkar. Við verðum í sameiningu að vinda ofan af þeim doða og misskildu þjónustulund sem hefur orðið til þess að enska er álitin sjálfsagt mál svo víða í samfélaginu. Þeim fjölgar stöðugt sem stíga fram og andæfa þessari þróun; benda á fáránleika þess að auglýsingum og markaðsefni á ensku sé beint að íslenskumælandi neytendum, að þjónusta sé ekki í boði á íslensku og að almannarými séu uppfull af skilaboðum á ensku og íslenskan sé þar í öðru sæti.

Þetta er líka slæm þróun, sem þarf að stöðva. Þessi framvinda á sér ýmsar skýringar og afsakanir en að mínu mati kristallast í henni blanda af metnaðar- og andvaraleysi varðandi stöðu íslenskunnar. Og mögulega smá Indriði líka, hver á annars að passa upp á íslenskuna? Á ég að gera það?

Brú fortíðar og framtíðar

Tungumálið geymir sjálfsskilning okkar og sögu. Okkur hefur verið treyst fyrir einstakri menningararfleifð og við verðum að standa okkur betur í að varðveita hana og færa áfram til komandi kynslóða. Sá þráður er einna skýrastur í bókmenntunum – frá norrænu goðafræðinni til Njálu og Hávamála – að Ferðalokum, Svartfugli, Sjálfstæðu fólki, Sálminum um blómið, Karitas án titils, Kleifarvatni, Mánasteini, Draumalandinu, Sextíu kílóum af sólskini og Hamingju þessa heims. Við eigum fjársjóð af sögum og heimsmynd í þessu tungumáli. Hefur þú leitt hugann að því hvernig sú heimsmynd liti út ef við hættum að hugsa á íslensku?

Þróun má snúa við

Staðan er flókin en hún er ekki alslæm. Fjölmargir einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök hafa lagt sín lóð á vogarskálarnar til þess að auka veg tungumálsins og árétta mikilvægi þess. Undanfarin misseri hef ég átt ótal uppbyggileg samtöl við fólk úr atvinnulífinu, skólasamfélaginu, stjórnkerfinu, rannsakendur og frumkvöðla um áskoranir íslenskunnar og leiðir til úrbóta – þetta er fólk af ólíkum uppruna og á mismunandi aldri en rauði þráðurinn er sá sami – það er samfélagslegt verkefni að tryggja framtíð íslenskunnar og þar er ekki í boði að skila auðu.

Fyrirtæki í landinu eru afar mikilvæg í því samhengi – þeirra miðlun og samskipti móta samfélag okkar á svo mörgum sviðum og því er ein þeirra 18 aðgerða í þágu tungumálsins sem við kynnum nú til umsagna í Samráðsgátt sérstaklega miðuð að þeim. Ég vonast til góðrar samvinnu við atvinnulíf, sveitarfélög og þriðja geirann í því verkefni sem ber vinnuheitið „Íslenska er sjálfsagt mál“ en markmið þess er að auka sýni- og heyranleika íslensku í almannarýmum í samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda.

Verkefni sem þetta vinnst með seiglu, ástríðu og því að vera opin fyrir hugmyndum og samvinnu. Í menningar- og viðskiptaráðuneytinu höfum við haft ýmsar hugmyndir til skoðunar í vetur, m.a. möguleika þess að hvetja rekstraraðila til þess að skrá heiti sín á íslensku.

Orð til alls fyrst

Umsagnafrestur vegna aðgerðanna 18 er til 10. júlí nk. Drög þeirra eru mótuð samstarfi fimm ráðuneyta en markmið aðgerðaáætlunarinnar er forgangsraða verkefnum stjórnvalda þegar kemur að verndun og þróun tungumálsins næstu þrjú ár. Ég hvet sem flesta til þess að kynna sér málið og miðla sínum hugmyndum til okkar. Að vinna að framgangi íslenskunnar og tryggja stöðu hennar í heimi örra tæknibreytinga og fólksflutninga er samvinnuverkefni sem kallar ótal hendur til góðra verka.

Fyrir þau sem ekki hafa tíma fyrir Samráðsgáttir og umsagnaskrif vil ég ennfremur árétta: Við höfum val um það á hverjum degi að nota tungumálið okkar og forgangsraða í þágu þess; njótum á íslensku, mótum og nýtum tungumálið á skapandi hátt. Einfaldlega – notum íslenskuna. Og sýnum með því að okkur sé ekki sama.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. júlí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Skarpleikur hugsunar

Deila grein

30/06/2023

Skarpleikur hugsunar

Það er göm­ul saga og ný að veðurguðirn­ir eigi það til að stríða okk­ur að sum­ar­lagi, þvert á vænt­ing­ar okk­ar um sól­ríka tíð um allt land. Sum­arið 2023 hef­ur ekki skorið sig úr hvað þetta varðar fyr­ir stór­an hluta lands­manna, en þeirr­ar gulu hef­ur verið saknað af mörg­um. Það þýðir þó ekki að láta deig­an síga enda ým­is­legt hægt að gera hér á landi óháð því hvernig viðrar. Á sól­rík­um jafnt sem vot­um degi er til­valið að kíkja á eitt af þeim fjöl­mörgu söfn­um og sýn­ing­um sem eru í land­inu. Heim­sókn á safn eyk­ur skarp­leika hugs­un­ar og and­lega auðlegð.

Á Íslandi eru hátt í 50 viður­kennd söfn starf­rækt, að sýn­ing­um frá­töld­um sem skipta mörg­um tug­um. Í ár höf­um við verið minnt á það hversu sam­gró­in safna­menn­ing er ís­lensku þjóðinni, en fyrr á ár­inu var haldið upp á 160 ára af­mæli Þjóðminja­safns Íslands en safnið telst stofnað 24. fe­brú­ar 1863 og hef­ur í fyll­ingu tím­ans vaxið með þjóðinni og tekið breyt­ing­um. Þjóðminja­safnið gegn­ir lyk­il­hlut­verki sem eitt þriggja höfuðsafna þjóðar­inn­ar, með því að ann­ast söfn­un, skrá­setn­ingu, varðveislu og rann­sókn­ir á menn­ing­ar­arfi þjóðar­inn­ar ásamt því að styðja við byggðasöfn og önn­ur minja­söfn.

Um liðna helgi náði annað safn merk­is­áfanga, þegar Lista­safn Ein­ars Jóns­son­ar fagnaði því að 100 ár voru frá opn­un þess, en það var fyrsta lista­safnið sem opnað var al­menn­ingi hér á landi. All­ar göt­ur síðan hef­ur það sett mark sitt á borg­ar­brag­inn og hleypt gest­um inn í undra­ver­öld Ein­ars.

Söfn eru minni þjóða þar sem nú­tím­inn get­ur speglað sig í fortíðinni og stuðlað þannig að fræðslu, skiln­ingi og vit­und um menn­ing­ar- og nátt­úruarf­inn. Þannig leggja söfn sitt af mörk­um til sam­fé­lags­legr­ar umræðu en sterk tengsl safna, safn­kosts of sam­fé­lags fela í sér drif­kraft og verðmæta­sköp­un. Það er mik­il­vægt að tryggja gott aðgengi fólks að söfn­um og stuðla að því að miðla sög­unni til kom­andi kyn­slóða með skil­merki­leg­um hætti. Á þetta er meðal ann­ars lögð áhersla í stjórn­arsátt­mála rík­i­s­tjórn­ar­inn­ar þar sem fram kem­ur að aðgengi að menn­ingu óháð bú­setu sé lyk­il­atriði og und­ir­strikað að hlut­verk stjórn­valda sé að skapa skil­yrði fyr­ir fjöl­breytni, sköp­un og frum­kvæði á sviði lista og menn­ing­ar­arfs.

Sem mik­il­væg­ir innviðir hafa söfn einnig stutt við ferðaþjón­ust­una og aukið þá afþrey­ingu sem er í boði fyr­ir alla þá er­lendu gesti sem heim­sækja landið okk­ar – og miðlað þannig sögu okk­ar og menn­ingu út fyr­ir land­stein­ana. Það skipt­ir máli fyr­ir okk­ur sem þjóð.

Stjórn­völd eru staðráðin í að halda áfram að stuðla að sterk­ari um­gjörð safn­a­starfs í land­inu, meðal ann­ars með því að fylgja eft­ir stefnu­mörk­un um safn­astarf.

Ég hvet lands­menn til að kíkja við á söfn­un­um okk­ar í sum­ar og njóta þannig þeirr­ar merki­legu menn­ing­ar sem þau hafa að geyma.

Höf­und­ur er menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Höf­und­ur: Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir