Categories
Greinar

Umhverfismál snerta eldra fólk líka

Deila grein

11/09/2021

Umhverfismál snerta eldra fólk líka

Fram­sókn er, og vill vera, grænn flokk­ur og það krefst stefnu í um­hverf­is­mál­um í víðum skiln­ingi. Marg­ir halda að við sem erum í eldri kant­in­um séum ekki nægj­an­lega um­hverf­is­sinnuð. Ég tel að það sé hinn mesti mis­skiln­ing­ur. Ég tel að við vinn­um dag­lega að um­hverf­is­mál­um með flokk­un á öllu sem hægt er að flokka og því að huga að ná­grenni okk­ar og rækta garðinn okk­ar, hafi fólk garð.

En hvað get­um við gert enn frek­ar? For­dæmið sem hr. Guðni Th. Jó­hann­es­son, for­seti Íslands, hef­ur gefið okk­ur er að fara út og plokka. Þess er þörf mest­allt árið. Þessa iðju gera marg­ir að dag­leg­um göngu­túr og hafa verk for­set­ans verið hvatn­ing fyr­ir alla að taka upp sömu hætti. Leið eldra fólks ligg­ur við hlið yngra fólks í kyn­slóðasátt­mála um að vernda um­hverfið á all­an hátt.

Fram­sókn er í for­ystu um land­vernd. Á síðastliðnu ári náðist t.d. fjölda­hreyf­ing í að safna birki­fræi og skila inn, en það að sá birki­fræi get­ur verið mjög ár­ang­urs­ríkt sem ný skóg­rækt. Það má m.a. sjá þar sem birki­fræ hef­ur fokið í mela og móa. Þar spír­ar fræið og gef­ur af sér ný tré.

Við þurf­um líka öll að venja okk­ur á að hafa vist­væna burðarpoka með okk­ur við inn­kaup. Fram und­an í mörg­um sveit­ar­fé­lög­um er svo að gera flokk­un enn aðgengi­legri og sam­ræmd­ari. Það á að vera krafa til stjórn­mála­manna að beita sér fyr­ir því að allt megi flokka og helst end­ur­vinna. Á landi eins og Íslandi með sína tæru læki og ár þarf sú hugs­un að vera í fyr­ir­rúmi meðal okk­ar allra að virða nátt­úr­una svo af­kom­end­ur okk­ar fái notið henn­ar.

Vist­væn orka hófst með litl­um raf­stöðvum við bæj­ar­læk­inn. Nú þarf að finna fleiri lausn­ir fyr­ir nú­tím­ann, svo sem sól­ar­sell­ur, sem eru t.d. að ryðja sér til rúms í Þýskalandi þar sem bænd­ur leigja út akra fyr­ir sól­ar­sell­ur sem tappa svo af inn á kerf­in. Vind­myll­ur þarf einnig að skoða, en um þær er auðvitað ekki full sátt.

Fram­sókn legg­ur áherslu á vist­væn­ar lausn­ir. Í Dan­mörku og Hollandi er þær víða að finna og gera þær gæfumun­inn hvað varðar fram­leiðslu raf­magns. Mörg stór­fyr­ir­tæki í Evr­ópu eru orðin mjög vist­væn og stór­ar versl­an­ir ganga fram með góðu for­dæmi um vist­væn­ar umbúðir.

Fram­sókn legg­ur megin­á­herslu á að við rækt­um sem mest sjálf og verðum sjálf­bær s.s. í græn­meti, korni og fleiri teg­und­um. Íslensk nær­andi matarol­ía frá Sand­hóli er ein snilld­in sem og vör­ur Valla­nes­bús­ins und­ir merkj­um Móður jarðar. Alls kon­ar heima­gerðar afurðir má finna um allt land og þeir sem hyggj­ast reyna sig við að skapa nýj­ar vör­ur geta fengið aðstoð hjá þró­un­ar­setr­um.

Sjálf­bærni á mörg­um sviðum er hugs­un unga fólks­ins sem við, eldra fólkið, styðjum heils hug­ar. Við í Fram­sókn verðum sterk rödd í um­hverf­is­mál­um framtíðar­inn­ar.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir.

Höf­und­ur er í 3. sæti á lista Fram­sókn­ar í Reykja­vík norður og skóg­ar­bóndi. basend­i6@sim­net.is

Categories
Greinar

Fókus á ferðaþjónustu!

Deila grein

11/09/2021

Fókus á ferðaþjónustu!

Á síðasta áratug hefur ferðaþjónusta á Íslandi blómstrað. Fjöldi erlendra ferðamanna fjórfaldaðist frá 2010 til ársins 2019. Þessum vexti hafa fylgt margvísleg tækifæri fyrir byggðir landsins og víða má sjá uppbyggingu, tækifæri, mikinn kraft og lífleg samfélög um land allt. Umræðan í kringum ferðaþjónustuna hefur þó að einhverju leyti einkennst af vaxtarverkjum þar sem áherlan er æði oft á neikvæðar hliðar, fremur en þá staðreynd að ferðaþjónustan renndi þriðju stoðinni undir atvinnulíf landsins og átti gríðarstóran þátt í þeim efnahagsbata sem nú gerir okkur kleyft að vaxta út úr Covid kreppunni.

Öllum er ljóst að fólk og fyrirtæki í ferðaþjónustu urðu fyrir miklu og sértæku áfalli af völdum Covid. Tekjufall varð í mörgum tilfellum gríðarlegt og ef ekki hefðu komið til mjög markvissar aðgerðir stjórnvalda hefðu mörg þeirra staðið frammi fyrir gjaldþroti á liðnum vetri, ef ekki fyrr. Nú horfir hins vegar til betri vegar og ferðaþjónustan mun taka hratt og vel við sér, enda býr Ísland að einstakri náttúrufegurð, mannlífi og nú í hinum sí heitari heimi, loftslagi sem er bærilegt að sumarlagi.

Nýverið birtu Pétur Snæbjörnsson og félagar grein hér á vefnum sem ber heitið Framtíð ferðaþjónustu á Íslandi þar sem velt er vöngum yfir því hvernig hafi tekist að vinna í takt við þá stefnu sem við ræðum jafnan á tillidögum og snýr gjarnan að því að ná til hinna betur borgandi, stuðla að sjálfbærni og því að dreifa ferðamönnum. Niðurstöður þeirra eru sumpart sláandi og sýna svart á hvítu hversu mikið verk við eigum óunnið og hve illa okkur hefur í reynd tekist til.

Sem dæmi voru árið 2009 um 51% af gestakomum á höfuðborgarsvæðinu, en það hlutfall var 63% árið 2019. Á sama tímabili fjölgaði ferðamönnum úr tæplega hálfri milljón í ríflega tvær. Þetta gerist á sama tíma og talað er um mikilvægi þess að dreifa ferðamönnum um landið. Ein afleiðing þessa er að upplifun margra var átroðningur á mjög afmörkuðum svæðum, sem er eiginlega með ólíkindum þegar litið er til þess að nánast hvergi eru færri ferðamenn miðað við stærð lands en á Íslandi.

Áhrifin á fasteignamarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu eru þekkt með tilkomu Airbnb. Hvað hina betur borgandi varðar þá liggur fyrir að meðaleyðsla ferðamanna hefur dregist saman um nærri þriðjung á umræddu tímabili. Sjálfbærni í ferðaþjónustu er svo nánast á byrjunarreit og í raun er það verulegt umhugsunarefni hversu skammt við erum komin í þeim efnum og því miður var andrýmið á Covid tímanum ekki nýtt með nægilega markvissum hætti. Á því sviði er aðkallandi að auka menntun, fræðslu og stuðla að skilvirkri uppbyggingu á ferðamannastöðum og stofnunum ferðaþjónustunnar sem nú eru á víð og dreif um stjórnkerfið.

Hvað þarf að gera?

Það er ódýrt að benda á það sem miður er án þess að koma með tillögur að því sem betur má fara og það er ljóst að í hinum nýja heimi sem blasir við okkur eftir Covid og á tímum loftlagsbreytinga er þörf á ítarlegri naflaskoðun. 

Í fyrsta lagi verðum við að horfa til jafnvægis á milli efnahags-, umhverfis- og samfélagslegra áhrifa í ferðaþjónustu þar sem uppbygging og starfsemi tekur mið af sjálfbærni og sjálfbærri nýtingu auðlinda.

Í öðru lagi, líkt og fram kemur í grein Péturs og félaga, þurfum við að horfa til markvissari aðgerða sem styðja við dreifingu ferðamanna eða öllu heldur tækifæri þeirra til að dreifa sér sjálfir, ekki síst um gullfallega landsbyggðina. Í því samhengi mætti horfa til allra samgöngukerfa landsins með samþættingu að leiðarljósi. Sérstaklega er nauðsynlegt að horfa til uppbyggingar flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum og ryðja úr vegi hindrunum á þeirri vegferð, til að mynda ofuráherslu ISAVIA á uppbyggingu Keflavíkurflugvallar.

Í þriðja lagi þurfum við að bæta uppbyggingu og aðgangsstýringu á fjölförnustu ferðamannastöðum landsins sem í raun ættu að lúta sömu lögmálum og auðlindir sjávar þar sem áherslan er á sjálfbæra nýtingu á grunni rannsókna. Slík áhersla myndi styrkja uppbyggingu áfangastaða um land allt, en einnig styrkja upplifun gesta okkar og ímynd landsins til lengri tíma. 

Í fjórða lagi þarf áhersla í markaðsstarfi að taka mið af þeim markmiðum sem sett eru með það fyrir augum að laða hingað verðmætari ferðamenn en nú er. 

Að lokum er löngu tímabært að ferðaþjónustan fái viðeigandi vægi og rödd innan stjórnkerfisins.

Helgi Héðinsson.

Höfundur hefur starfað í ferðaþjónustu í 16 ár og skipar 4. sætið á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. september 2021.

Categories
Greinar

Húsnæðismál í stafni hjá Framsókn

Deila grein

09/09/2021

Húsnæðismál í stafni hjá Framsókn

Það er staðreynd að stöðnun hefur ríkt í húsnæðismálum víða um land, fyrir utan vaxtarsvæði á suðvesturhorninu, það sem af er þessari öld. Húsnæðisskortur er víða og lágt fasteignaverð hefur fælt fólk frá því að byggja sér húsnæði og þá fer óheillaboltinn að rúlla. Húsnæðisskortur hamlar annarri uppbyggingu eins og í atvinnulífi og það veldur svo sveitarfélögum erfiðleikum að byggja upp innviði sem þarf til að standa undir nauðsynlegri þjónustu og boltinn rúllar. Niðurstaðan er að það vantar alls staðar húsnæði til að eðlileg framþróun eigi sér stað. Á síðasta kjörtímabili hefur þetta smátt og smátt verið að snúast til betri vegar með lausnum sem eflir húsnæðismarkaðinn á landsbyggðinni. Ásmundur Einar félags- og barnamálaráðherra hefur staðið þar í stafni í ráðuneyti húsnæðismála. Það er því mikilvægt að áfram verði unnið að þessum málefnum með festu á komandi kjörtímabilum.

Sveigjanleiki í húsnæðismálum

Ekki gilda sömu viðmið um fasteignamarkað á stór-höfuðborgarsvæðinu og á köldum svæðum. Sveigjanleiki í kerfinu verður að vera til staðar til að koma til móts við sérstakar aðstæður þar. Lykillinn að góðri niðurstöðu í húsnæðismálum er samvinna milli Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sveitarfélaga, byggingafyrirtækja og fjármálastofnana. Gagnrýni á úrræðið hefur ekki síst snúið að því að fjármálastofnanir hafa verið tregar til að lána fyrir íbúðakaupum á köldum svæðum. Úrræði sem félags- og barnamálaráðherra hefur ráðist í á landsbyggðinni svarar þeirri gagnrýni málefnalega. Sérstakur lánaflokkur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, bæði til íbúðarkaupa og framkvæmda, hefur nú þegar nýst í nokkrum sveitarfélögum.

Stofnframlög HMS hafa nýst sveitarfélögum til framkvæmda. Við getum litið til Bolungarvíkur í því sambandi, þar er sveitarfélagið að standsetja 15 íbúðir í húsnæði sem sveitarfélagið átti og var skrifstofuhúsnæði. Þetta er stærsta fasteignaframkvæmd sem hefur verið ráðist í, í Bolungarvík í 30 ár en þar hefur algjör stöðnun ríkt í uppbyggingu húsnæðis á þeim tíma.

Hlutdeildarlánin virka

Lög um hlutdeildarlán voru samþykkt á Alþingi á síðasta ári og var undirrituð framsögumaður á málinu í gegnum Velferðarnefnd. Um er að ræða nýjan lánaflokk til kaupa á húsnæði. Hlutdeildarlánin eru tegund lána sem veitt eru með þeim skilmálum að lánað er til tiltekins hlutfalls af verði íbúðarhúsnæðis við fasteignakaup. Þarna opnast gluggi fyrir ungt fólk að kaupa sér sitt eigið húsnæði. Með því að beina hlutdeildarlánum að hagkvæmum nýbyggingum, skapast aukinn hvati til þess að byggja í hinum dreifðu byggðum. Þetta úrræði hefur nýst gríðarlega vel og mikil eftirspurn hefur verið eftir þessu úrræði um allt land. Framsókn vill útfæra hlutdeildarlán fyrir fleiri hópa en fyrstu kaupendur. Þá er sérstaklega horft til eldra fólks og félagslegra veikra hópa í samfélaginu.

Framsókn til framtíðar

Það má finna yfirlit yfir aðgerðir stjórnvalda til húsnæðismála inn á vefnum tryggð byggð sem er samstarfsvettvangur um húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni. Framsókn vill vinna áfram með samvinnu og samtal að leiðarljósi milli Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sveitarfélaga, byggingafyrirtækja og fjármálastofnana. Framsókn talar fyrir því að skipulags- og húsnæðismál séu í sama ráðuneyti til að auka skilvirkni þegar kemur að skipulagsmálum sveitarfélaga. Með því má stytta tímann sem þau taka, gera sveitarfélögum kleift að bregðast fyrr við lóðaskorti og tryggja nægilegt framboð af lóðum til húsbygginga á hverjum tíma.

Uppbygging á landsbyggðinni hefst með skóflustungu að heimili fyrir fólk sem vill lifa og starfa á landsbyggðinni.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Höf. er þingmaður Framsóknar og er í framboði fyrir flokkinn í NV kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 6. september 2021.

Categories
Greinar

Ný tæki­færi í þjónustu eldra fólks

Deila grein

09/09/2021

Ný tæki­færi í þjónustu eldra fólks

Samsetning mannfjöldans á Íslandi er að þróast á þann veg að hlutfall eldra fólks hækkar frá því sem áður var. Brýnt er þess vegna að við horfum til mögulegra nýrra tækifæra og breytinga í málefnum eldra fólks. Frá því að lög um málefni aldraðra voru sett árið 1982 hefur legið fyrir það stefnumið að eftir því sem þarfir fólks til stuðnings og þjónustu aukast, því mikilvægara er að öll þjónusta og skipulag taki mið af samfellu og heildarsýn fyrir notandann í þjónustukeðjunni.

Flest viljum við geta búið heima hjá okkur eins lengi og kostur er án þess að þurfa að reiða okkur á aðra. Þó frekari þörf á aðstoð og öryggi fylgi almennt hækkandi aldri, þá hefur margt eldra fólk aðstæður til að búa með lágmarksþjónustu. Þjónustuþörfum eldra fólks þarf að mæta með því að þróa fjölbreytileg úrræði til að mæta mismunandi þörfum einstaklinga innan þessa sístækkandi hóps með þau markmið að bæta lífsgæði, valdefla einstaklingana. Ljóst er að þörf er á nýjum áherslum og nýju viðhorfum í þjónustu við aldraða þar sem aukin áhersla er lögð á aldursvænt og styðjandi samfélag.

Dagþjálfun

Eitt þeirra úrræða sem þarf að bæta og efla er dagþjálfun, en í dag er slík þjónusta í flestum stærri sveitarfélögum. Dagþjálfun er tímabundið stuðningsúrræði við eldra fólk sem býr í heimahúsum með það að markmiði að viðhalda færni og getu fólks til að búa áfram heima. Hún getur verið margskonar með mismunandi þjónustustigi eftir einstaklingsbundnum þörfum, en dagþjálfun þarf a.m.k. að bjóða upp á tómstundaiðkun, aðstöðu til léttra líkamsæfinga, máltíð, hvíldaraðstöðu og aðstoð við böðun.

Tækifæri finnast í dagþjálfun

Það er enginn vafi að tækifæri eru til að þróa ný úrræði og bæta það sem er til staðar. Og það verður að gera, sérstaklega þegar horft er til þróunar á hækkandi hlutfalli eldra fólks hér á landi. Dagþjálfun sem stuðningsúrræði hefur upp á ýmsa valmöguleika að bjóða og tækifæri til að bæta þjónustu því Með dagþjálfun er hægt að styðja aukinn fjölda eldra fólks með viðeigandi stigskiptingu þjónustunnar. Marka þarf skýra framtíðarsýn og heildarstefnu þar sem m.a. er lögð áhersla á að skipulag þjónustunnar sé með þeim hætti að eitt þjónustustig taki hnökralaust við af öðru. Okkar verkefni er að finna tækifærin og hámarka nýtingu og ávinning fyrir einstakling og samfélag. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur hvatt til alþjóðlegra viðbragða í að þróa nýjar leiðir og úrræði til samþættingar þjónustu við aldraða, með það að markmiðil að stuðla að samfellu í þjónustunni og ná þannig fram aukinni hagkvæmni fyrir samfélagið allt.

Ingibjörg Isakesn, oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi við næstu Alþingiskosningar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. september 2021.

Categories
Greinar

Vaxtarstyrkur fyrir þitt barn

Deila grein

08/09/2021

Vaxtarstyrkur fyrir þitt barn

Fjölbreytt og gott íþrótta- og tómstundastarf er okkur flestum tiltölulega aðgengilegt hér á landi. Það er eitthvað sem við sem samfélag getum státað okkur af og það sem meira er, þá getum við verið nokkuð stolt af því. Rannsóknir hafa sýnt og sannað að kostir þess að stunda skipulagt íþrótta- og tómstundastarf eru óumdeilanlegir. Slíkt starf hefur jákvæð áhrif á félagsfærni barna, þroska þeirra sem og á andlega og líkamlega heilsu. Það á við hvort sem þau æfa boltaíþróttir, fimleika, júdó, skák, á fiðlu, rafíþróttir eða hvað annað. Það er mikilvægt að virkja börn til þátttöku í skipulögðu íþrótta- eða tómstundastarfi og um leið að tryggja tækifæri allra til að njóta góðs af því.

Jöfn tækifæri barna til að blómstra

Ríki og sveitarfélög hafa átt gott samstarf og unnið hefur verið náið með íþrótta- og tómstundahreyfingum landsins að lækkun greiðslubyrði fjölskyldna vegna þátttöku barna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Við getum þó enn gert betur. Fyrir margar fjölskyldur er það þungur róður að standa straum af kostnaði við þátttöku barna sinna í slíku starfi. Sérstaklega getur borið á þeirri stöðu nú í kjölfar áhrifa COVID-19 á efnahag og vinnumarkaðinn hér á landi.

Slík staða getur verið öllum erfið og ósanngjörn; sérstaklega gagnvart börnum. Við viljum tryggja jöfn tækifæri allra barna til að blómstra í þeirri íþrótt eða þeirri tómstund sem höfðar til þeirra og þau finna sig í óháð efnahag eða félagslegra aðstæðna. Mörg sveitarfélög niðurgreiða þátttöku í íþróttum eða tómstundum í formi frístundastyrks. Það hefur vissulega leitt til þess að aukning iðkenda hefur orðið í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi þeirra sveitarfélaga. Hins vegar eru enn fjölskyldur sem sjá sig ekki fjárhagslega færa til að greiða fyrir íþrótta- og tómstundiðkun barna sinna og úr því þarf að bæta.

Launsin liggur í vaxtarstyrk Framsóknar

Við í Framsókn viljum létta enn frekar undir með barnafjölskyldum og tryggja það að öll börn njóti góðs af skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi með því að tryggja hverju barni 60 þúsund króna árlegan vaxtarstyrk. Sem dæmi myndi þriggja barna fjölskylda fá 180 þúsund króna vaxtarstyrk árlega og er það til viðbótar við þann frístundastyrk sem sveitarfélög bjóða upp á. Léttum lífið og fjárfestum í fólki.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar og skipar 2. sætið á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. september 2021.

Categories
Greinar

Ný hugsun í heilbrigðiskerfinu

Deila grein

07/09/2021

Ný hugsun í heilbrigðiskerfinu

Í íþróttum skiptir máli að hafa framúrskarandi þjálfara. Þjálfara sem er leiðtogi, hefur skýra stefnu, gefur íþróttafólkinu sínu skýr fyrirmæli og stappar stálinu í það. Vésteinn Hafsteinsson, þjálfari gull- og silfurhafa Svía í kringlukasti á Ólympíuleikunum í Tokyoog Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, eru dæmi um slíka þjálfara enda hafa þeir náð ótrúlegum árangri með sitt fólk. Það er aðdáunarvert að sjá af hversu mikilli virðingu þeir tala um keppendurna sína í viðtölum og greinaskrifum. Það er þess vegna áhugavert að bera viðmót þeirra saman við viðmót heilbrigðisráðherra og forstjóra Landsspítalans um þær áherslur sem lagðar eru til grundvallar heilbrigðiskerfinu sem og viðmót til íslenskraheilbrigðisstarfsmanna.

Á síðustu árum virðist sem enginn stjórnmálaflokkur hafi þorað að taka að sér heilbrigðisráðuneytið. Heit kartafla sem enginn vill halda á. Ráðherrann sem hefur stýrt ráðuneytinu síðustu 4 ár virðist hafa haft það að markmiði að leggja niður þann hluta kerfisins sem rekinn er af einkaaðilum. Þeir starfsmenn heilbrigðiskerfisins sem starfa í einkarekstri eru almennt sakaðir um að maka krókinn og umræðan um heilbrigðismál virðist svo snúast meira um fjármál en sjúklinginn sjálfan.

Heilbrigðisstarfsfólk á Íslandi veitir framúrskarandi þjónustu og nær undraverðum árangri í sínum störfum. Á það bæði við þá sem starfa fyrir hið opinbera og þá sem starfa sjálfstætt. Að halda öðru fram er einfaldlega rangt. Kjarni málsins er sá að sjúklingum fer fjölgandi vegna lífsstílstengdra sjúkdóma og öldrunar þjóðarinnar. Í stað þess að leggja áherslu á að fyrirbyggja sjúkdóma fer orkan í að ræða hvort heilbrigðisstarfsemi eigi að vera rekin af einkareknum aðilum eða ríkisvaldinu sjálfu, og hvort enn meiri hluti af vergri landsframleiðslu eigi að fara til Landspítalans.

Stefnum á nýja nálgun í heilbrigðiskerfinu með því að fjárfesta í fólki áður en í óefni er komið? Þurfum við ekki sem samfélag að huga betur að forvörnum og byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann? Það er fjárfesting sem mun skila íslensku samfélagi margfalt til baka þegar lengra er litið. Er ekki kominn tími til að fjárfesta í fólk?

Gauti Grétarsson, sjúkraþjálfari og skipar 4. sæti Framsóknarflokksins í Reykjavík Norður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. september 2021.

Categories
Greinar

Framsókn boðar vaxtarstyrki

Deila grein

06/09/2021

Framsókn boðar vaxtarstyrki

Við lifum við þann munað hér á Íslandi að hágæða íþrótta- og tómstundastarf er okkur tiltölulega aðgengilegt. Kostir þess að einstaklingar stundi skipulagt frístundastarf eru óumdeilanlegir og þá sérstaklega þegar það kemur að börnum og ungmennum. Skipulagt frístundastarf hefur almennt jákvæð áhrif á börn og ungmenni, bæði á andlega og líkamlega heilsu. Að auki hefur forvarnagildi iðkunar frístunda verið margsannað. Þau börn og ungmenni sem stunda skipulagt frístundastarf eru ólíklegri til að sýna óæskilega hegðun eða neyta vímugjafa.

Styrkir hafa virkað
Hér á landi hafa ríki og sveitarfélög landsins lengi verið í virku samstarfi við íþrótta- og tómstundahreyfingar landsins með það markmið að börn hafi jöfn tækifæri til taka þátt í heilbrigðu og uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegra aðstæðna. Ein viðurkennd aðgerð í átt að því markmiði er frístundastyrkur. Mörg sveitarfélög veita ákveðna upphæð í frístundastyrk til fjölskyldna, sem hægt er að nýta til að niðurgreiða hvaða skipulagða íþrótta- og tómstundaiðkun sem barnið hefur áhuga á að stunda. Þetta hefur vissulega leitt til aukningar á íþrótta- og tómstundaiðkun barna og ungmenna innan þeirra sveitarfélaga. Tölfræðin segir okkur að börn og ungmenni sem iðka íþrótt eða tómstund fara fjölgandi samhliða notkunar á frístundastyrk. Mörg börn iðka jafnvel fleiri en eina íþrótt eða tómstund á sama tíma. Þessi þróun sýnir að styrkur sem þessi virkar, en betur má ef duga skal.

Betur má ef duga skal – Vaxtarstyrkir
Enn eru fjölskyldur sem sjá sig ekki færa fjárhagslega til að greiða fyrir frístundaiðkun barna sinna. Það er markmið Framsóknar að tryggja það að öll börn og ungmenni hafi tækifæri til að stunda þá íþrótt eða tómstund sem þau hafa áhuga á, með meðfylgjandi forvarnar- og lýðheilsusjónarmið í huga. Það að öll börn geti stundað skipulagt frístundastarf er samfélaginu öllu til góða.
Til að ná þessu markmiði vill Framsókn að ríkið greiði árlega 60 þúsund króna vaxtarstyrk til fjölskyldna fyrir hvert barn. Sem dæmi má benda á að það eru 180 þúsund krónur fyrir þriggja barna fjölskyldu. Með þessu er hægt að stuðla að jafnari tækifærum til frístundaiðkunar óháð efnahag.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir
Höfundur er frambjóðandi í 3. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birist fyrst á sunnlenska.is 2. september 2021.

Categories
Greinar

Hverjir erfa Ísland?

Deila grein

06/09/2021

Hverjir erfa Ísland?

Land er tak­mörkuð auðlind og óum­deilt að meðferð og notk­un lands skipt­ir íbúa jarðar­inn­ar miklu máli til langr­ar framtíðar. Það þarf því eng­an að undra að á síðustu árum hef­ur ásókn í jarðir auk­ist og ein­stak­ling­ar sem ráða yfir miklu fjár­magni sjá tæki­færi í að fjár­festa í jarðnæði hér á landi.

Skorður sett­ar á landa­kaup

Til að bregðast við var ráðist í breyt­ing­ar á jarðalög­um sem samþykkt­ar voru sum­arið 2020. Gerð var mik­il­væg breyt­ing á mark­miðskafla lag­anna að því leyti að mark­mið þeirra er nú fyrst og fremst að stuðla að nýt­ingu lands, í sam­ræmi við land­kosti, með hags­muni sam­fé­lags­ins og kom­andi kyn­slóða að leiðarljósi.

Í lög­un­um voru einnig sett­ar skorður á jarðakaup þannig að fast­eigna­kaup­andi get­ur ekki eign­ast land ef hann eða tengd­ir aðilar eiga fyr­ir land sem er sam­an­lagt 10 þúsund hekt­ar­ar að stærð nema með sér­stakri und­anþágu frá ráðherra. Einnig þurfa lögaðilar sem eign­ast jörð eða jarðir hér á landi, nú að upp­lýsa Skatt­inn um raun­veru­lega eig­end­ur fé­lags og þá stjórn­ar­menn sem í því sitja.

Með þess­um þörfu breyt­ing­un­um er reynt að sporna við að of marg­ar jarðir safn­ist á fárra hend­ur en Ísland er ekki eina landið sem hef­ur stigið þessi skref. Í mörg­um Evr­ópu­ríkj­um hef­ur verið lögð vax­andi áhersla á varðveislu land­búnaðar­lands og rækt­ar­lands til nota fyr­ir mat­væla­fram­leiðslu og til að tryggja fæðuör­yggi.

Bet­ur má ef duga skal

Sam­kvæmt nú­gild­andi lagaum­hverfi þá geta rúm­lega 500 millj­ón­ir manna keypt land og aðrar fast­eign­ir hér á landi með sömu skil­yrðum og Íslend­ing­ar. Illu heilli hef­ur borið á því, und­an­far­in ár, að jarðir hafi verið keypt­ar upp án þess að eig­end­ur setj­ist þar að eða nýti landið og eign­ir sem þar eru. Það er því nauðsyn­legt að skoða al­var­lega hvort setja eigi frek­ari skil­yrði fyr­ir kaup­um er­lendra aðila á jörðum hér á landi, s.s. að þeir eigi hér lög­heim­ili. Aðrar þjóðir geta verið okk­ur til fyr­ir­mynd­ar í þeim efn­um.

Einnig er brýnt að yf­ir­fara skör­un jarðalaga og annarra laga sem varða land­búnað og land­nýt­ingu, eins og laga um nátt­úru­vernd, land­græðslu og skóg­rækt. Ein­föld­un á reglu­verki get­ur til að mynda skapað fjöl­breytt­ari tæki­færi til ný­sköp­un­ar í strjál­býli og aukið verðmæta­sköp­un í sveit­ar­fé­lög­um hring­inn í kring­um landið. Al­mennt þekkja bænd­ur sitt land best, hvað er verðmæt­asta rækt­ar­landið, hvað væri ástæða til að vernda af öðrum ástæðum og hvað gæti hentað til annarr­ar land­nýt­ing­ar. Umráðamenn búj­arða eiga að hafa tæki­færi til að nýta jarðir til verðmæta­sköp­un­ar á upp­byggi­leg­an og sjálf­bær­an hátt.

Nýt­um landið

Lagaum­gjörð um jarðir og auðlind­ir á landi er grund­vall­ar mál sem þarf að vera sí­fellt á dag­skrá. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn vill vera leiðandi í þeirri umræðu. Mik­il ásókn er í auðlind­ir okk­ar og mik­il­vægt að við selj­um þær ekki frá okk­ur. Við vilj­um tryggja að kom­andi kyn­slóðir muni erfa land sem er vel búið til sjálf­bærr­ar nýt­ing­ar og verðmæta­sköp­un­ar.

Ingibjörg Isaksen, skipar 1. sæti B-lista Framsóknarflokks í Norðausturkjördæmi.

Líneik Anna Sævarsdóttir, skipar 2. sæti á B-lista Framsóknarflokks í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Þetta er ekki bara saklaus brandari

Deila grein

06/09/2021

Þetta er ekki bara saklaus brandari

Þetta er ekki bara saklaus brandari! Það er erfitt fyrir mig að trúa því́, að fulltrúi fólksins – Flokks flokksins – frambjóðandi til þings geri grín að kjósendum sinum og láti jafnvel birti það opinberlega. Neikvæð framsetning í́ fjölmiðlum viðheldur neikvæðri ímynd í garð Pólverja. Jafnvel þó́ svo að það sé gert með gríni. Var tilgangurinn með þessu að móðga, særa eða gera lítið úr þessum samfélagshóp? Ég bara spyr.

Það er alltaf gott að grínast, en maður þarft að vita hvers konar brandarar eru viðeigandi og þá einnig hvort það sé þess virði að deila þeim opinberlega. Fólk gerir ekki grín að fólki sem það telur sig fulltrúa fyrir. Í dag saklaus brandari og á morgun hvað? Svona saklausir brandarar hafa því́ miður mikinn kraft, því þeir eru endurteknir af börnum, fullorðnum í skólum og á vinnustöðum. Hvernig á Pólverjum að liða við að heyra svona brandara?

Við viljum byggja upp eitt, sterk og virðingarfullt samfélag, svo þetta er ekki rétta leiðin. Hvers vegna er þessi brandari ekki saklaus? Vegna þess að það veldur neikvæðum tilfinningum, vegna þess að honum er beint til einnar þjóðar. Pólverjar á Íslandi eru stærsti hópur innflytjenda.

Þeir eru duglegt, heiðarlegt fólk sem starfar á fjölmörgum sviðum og halda atvinnulífi á Íslandi gangandi, jafnvel þegar illa gengur. Við verðum að vera meðvituð um að þetta fólk á ekki skilið að því́ sé hæðst. Þeir eiga skilið virðingu. Við sem komum frá Póllandi og höfum tekið hér virkan þátt i ́ samfélaginu, lagt okkar af mörkum við að gera samfélagið hér á Íslandi jafn gott og það raunverulega er – erum líka kjósendur. Við samþykkjum þetta ekki. Það er með öllu óásættanlegt.

Anna Karen Svövudóttir, skipar 3. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi og kemur frá Póllandi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. september 2021.

Categories
Greinar

Sósíal­istar vilja byltingu, Fram­sókn vill fram­farir

Deila grein

05/09/2021

Sósíal­istar vilja byltingu, Fram­sókn vill fram­farir

Gunnar Smári Egilsson, oddviti Sósíalistaflokksins, svarar grein minni Sitt er hvað, sam­vinna og sam­vinna í ítarlegu og löngu máli eins og hans er von og vísa. Gunnar Smári er góður penni og beittur og endurskrifar sögu Framsóknar eins og hún sé á tiltölulega beinni leið til helvítis. Eins og áður er Sósíalistaflokkurinn fastur í fortíðinni enda er tal flokksmanna um arðrán, auðvald og kúgun, ómur frá upphafi síðustu aldar. Samvinnan sem Gunnari Smára er svo ofarlega í huga er samvinna sósíalista, sósíalista einna, ekki samvinna ólíkra afla um hvernig best sé að bæta samfélagið.

Stjórnmál eru ekki trúarbrögð

Í huga sósíalista virðist vera eitt einfalt svar við öllu og það er svar þeirra sjálfra. Að þessu leyti er hugarheimur þessa ysta vinstris ekki ólíkt hugarheimi þeirra sem liggja lengst til hægri með sína óheftu markaðshyggju. Um þá óheftu markaðshyggju má segja að hún hefur beðið skipbrot tvisvar sinnum á síðustu þrettán árum. Óheftur markaður skóp hrunið og óheftur markaður réði ekki við heimsfaraldurinn. Í bæði skipti hefur almenningur þurft að hlaupa undir bagga. Um sósíalismann þarf ekki að hafa mörg orð því saga síðustu aldar er öðrum þræði hörmungarsaga þeirrar öfgastefnu. Yst til hægri og yst til vinstri eru stjórnmál trúarbrögð þeirra sem telja sig hafa fundið hinn eina stóra sannleik. Í mínum huga eru stjórnmál ekki trúarbrögð heldur mikilvægt tæki til að bæta samfélagið.

Framsókn: Framsækinn miðjuflokkur

Framsókn er framsækinn miðjuflokkur. Í því felst að Framsókn vinnur með það besta úr báðum heimum, heimum vinstrisins og hægrisins. Við erum frjálslynt umbótaafl eins og Hermann Jónasson talaði um á sinni tíð og útskýrði frjálslyndi með þessum orðum: „Þetta felur í sér að flokkurinn er fordómalaus um úrlausnir aðsteðjandi vandamála á hverjum tíma. Hann vill beita aðferðum þekkingar og vísinda til að ryðja framþróuninni braut á grundvelli þeirra þjóðfélagslegu gilda sem stefna hans byggist á.“

Fortíðarþrá sósíalista

Ég heyri engan samvinnutón í trúarjátningu sósíalista. Ég heyri bara tón sundrungar. Sama hver spurningin er þá er svarið alltaf öfgakennd krafa um að brjóta niður og byggja svo upp á forsendum sósíalista. Alltumlykjandi er síðan fortíðarþráin, hvað allt var gott í gamla daga en ömurlegt í dag. Hvert sem litið er í stefnumálum sósíalista er afturhvarf til fortíðar, krafan um að gera Ísland gott aftur.

Hið jákvæða afl hvers og eins

Við búum í góðu samfélagi en alltaf má gera betur. Það gerum við með því að byggja á hinu jákvæða afli sem býr í hverjum og einum. Það gerum við með því að skapa umhverfi þar sem allir geta blómstrað – á eigin forsendum en ekki annarra.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. september 2021.