Categories
Greinar

Framtíðin ræðst af menntun

Deila grein

08/08/2022

Framtíðin ræðst af menntun

Ein mik­il­væg­asta fjár­fest­ing hvers sam­fé­lags er í mennt­un. Rann­sókn­ir sýna að með auk­inni mennt­un eykst ný­sköp­un og tækniþróun, sem leiðir til auk­inn­ar hlut­deild­ar í heimsviðskipt­um, meiri fram­leiðni og auk­ins gjald­eyr­is­forða! Frá iðnbylt­ing­unni hef­ur verðmæta­sköp­un fyrst og fremst verið drif­in áfram af mennt­un, ný­sköp­un, tækni­leg­um fram­förum og sann­gjörnu markaðshag­kerfi.

Því bár­ust ís­lensku sam­fé­lagi sér­stak­lega já­kvæðar frétt­ir í liðinni viku, um að brott­hvarf á fram­halds­skóla­stigi hafi ekki mælst minna og braut­skrán­ing­ar­hlut­fall ekki hærra í töl­um Hag­stof­unn­ar, sem ná aft­ur til ný­nema árs­ins 1995! Þannig höfðu nærri 62% þeirra tæp­lega 4.500 ný­nema sem hófu nám árið 2016 út­skrif­ast árið 2020. Rúm 18% voru enn í námi, án þess að hafa út­skrif­ast. 19,9% ný­nema hausts­ins 2016 hafa hætt námi á sama tíma­bili. Til sam­an­b­urðar nam þetta hlut­fall 29,6% árið 2007 hjá ný­nem­um hjá þeim sem hófu nám 2003. Auk­in­held­ur mæld­ist brott­hvarf á meðal inn­flytj­enda á fram­halds­skóla­stig­inu það minnsta frá því mæl­ing­ar hóf­ust, sem eru einnig virki­lega já­kvæðar frétt­ir, þótt enn sé tals­vert starf óunnið í þeim efn­um. Um 46% inn­flytj­enda sem hófu nám í dag­skóla á fram­halds­skóla­stigi haustið 2016 höfðu hætt námi án þess að út­skrif­ast fjór­um árum síðar.

Þetta er þróun í rétta átt sem ég gleðst mikið yfir, en bar­átt­an gegn brott­hvarfi var eitt af helstu áherslu­mál­um mín­um í tíð minni sem mennta­málaráðherra á síðasta kjör­tíma­bili. Með marg­háttuðum aðgerðum var þess­ari áskor­un mætt. Meðal ann­ars var 800 millj­ón­um króna for­gangsraðað í þágu nem­enda í brott­hvarfs­hættu. Framúrsk­ar­andi sam­starf við skóla­stjórn­end­ur, kenn­ara og nem­end­ur er stór breyta í þess­ari þróun. Þá var mark­visst unnið að því að auka aðgengi fram­halds­skóla­nem­enda að geðheil­brigðisþjón­ustu og fjár­fram­lög til fram­halds­skól­anna auk­in, þannig að fram­lög á hvern nem­anda höfðu aldrei verið jafn há.

Það skipt­ir máli að nem­end­ur finni sína fjöl og finni löng­un til þess að velja sér áhuga­vert nám við hæfi og klára það. Fjöl­breytni náms á fram­halds­skóla­stigi hef­ur auk­ist jafnt og þétt en yfir hundrað náms­braut­ir eru í boði við fram­halds­skóla lands­ins.

Á síðasta kjör­tíma­bili tókst einnig sér­lega vel til að snúa vörn í sókn fyr­ir verk-, iðn- og starfs­nám með aðgerðaáætl­un mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyt­is­ins, Sam­taka iðnaðar­ins og Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga. Mark­mið áætl­un­ar­inn­ar er að auka áhuga ung­menna á starfs- og tækni­mennt­un og þar með fjölga ein­stak­ling­um með slíka mennt­un á vinnu­markaði. Í aðgerðaáætl­un­inni var meðal ann­ars lögð áhersla á að efla kennslu grunn­skóla­nema í verk-, tækni- og list­grein­um; jafna stöðu iðnmenntaðra í fram­halds­námi; ein­falda skipu­lag starfs- og tækni­náms; bæta aðgengi á lands­byggðinni og styrkja náms- og starfs­ráðgjöf. Skemmst er frá því að segja að al­gjör aðsókn­ar­spreng­ing hef­ur orðið í námið og færri kom­ast að en vilja – sem nú er orðið eitt helsta viðfangs­efni fram­halds­skóla­stigs­ins. Það er af sem áður var, þegar vanda­málið var að ná í nægj­an­lega stóra nem­enda­hópa í námið.

Ánægðum nem­end­um vegn­ar bet­ur, sem styrk­ir sam­fé­lagið okk­ar til langs tíma og um leið sam­keppn­is­hæfni Íslands á alþjóðavísu. Mennt­un er mátt­ur!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 2. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Það viðrar vel til MIÐNÆTURsunds

Deila grein

08/08/2022

Það viðrar vel til MIÐNÆTURsunds

Fimmtudagar voru áður þekktir sem dagarnir sem sjónvarpið fór í frí. Það var að vísu fyrir mína tíð, en fimmtudagar halda þó áfram að setja mark sitt á frítíma fólks og í dag er fyrsti fimmtudagurinn þar sem opið verður til miðnættis í Laugardalslaug!

Fyrir sundáhugafólk eru þetta svo sannarlega gleðifréttir. Fyrir mig er þetta sérstaklega ánægjulegt. Hugmyndin um miðnæturopnun í sund kviknaði þegar klukkan var alveg að verða tíu eitt kvöld og ég þar með orðin of sein í sund enda fátt betra en að hefja daginn og enda með góðri sundferð. Í vor komst hugmyndin síðan inn á kosningastefnuskrá Framsóknar í Reykjavík og núna er hún orðin að veruleika.

Þó að hér sé ekki um að ræða stóran gjörning í stóra samhenginu þá felast í honum aukin lífsgæði. Sundlaugarnar hafa í gegnum tíðina verið samkomustaður Íslendinga og mörgum finnst fátt betra en að liggja í heita pottinum og slaka á. Núna fáum við aðeins meiri tíma til þess og getum tekið sundsprett um kvöld ef okkur sýnist svo. Þá fá að auki öll börn á grunnskólaaldri frítt í sund í Reykjavík frá og með 1. ágúst. s.l.

Hugmyndin um miðnætursund er ekki bara skemmtileg viðbót til afþreyingar og heilsubótar heldur líka áminning um að við öll getum haft áhrif á nærsamfélagið okkar með því að taka þátt. Ég vil því hvetja þig til að mæta á fundi stjórnmálaflokka og félagasamtaka til að segja frá því hvernig þú telur að bæta megi samfélagið okkar. Í krafti hugmynda og ólíkra sjónarmiða sem í fjöldanum finnast búum við saman til betra samfélag.

Það er glampandi sólskin í Reykjavík og því tilvalið að enda daginn í heitapottinum.

Sjáumst í sundi!

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Á­gætt skyggni á Ís­lands­miðum

Deila grein

08/08/2022

Á­gætt skyggni á Ís­lands­miðum

Það eru blik­ur á lofti í alþjóðahag­kerf­inu vegna verðbólguþrýstings og stríðsátaka. Ísland fer ekki varhluta af þessari stöðu og helsta viðfangsefni hagstjórnarinnar er að vinna bug á verðbólgunni og verja kaupmáttinn. Þrátt fyrir að óveðursský séu handan sjóndeildarhringsins, þá er engu að síður ágætt skyggni á Íslandsmiðum, þar sem nokkrar hagstærðir vinna með okkur. En lítum fyrst á stöðu og horfur alþjóðahagkerfisins:

Seðlabankar hækka vexti og hagvaxtarspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lækkar

Seðlabankar heimsins hafa hækkað sína stýrivexti, líkt og sá íslenski en hér hafa vextir farið úr 0,75% í 4,75% í nokkrum skrefum frá maí 2021. Bandaríski seðlabankinn hækkaði vexti nýverið um 0,75% og standa þeir í um 2,5%. Á sama tíma hefur landsframleiðsla Bandaríkjanna dregist saman um 0,9% á öðrum ársfjórðungi ársins og er þetta annar ársfjórðungurinn þar sem mælist samdráttur. Þrátt fyrir það mælist atvinnuleysi í landinu aðeins 3,6% og því telur seðlabankastjórinn hagkerfið ekki komið í kreppu. Tiltrú þýska viðskiptalífsins á hagkerfinu þeirra hefur versnað talsvert vegna vaxandi ótta við verðbólgu og orkuskort. Þar sem framboð af orku og afhendingar hennar frá Rússlandi er ófyrirséð, skapar það mikla óvissu og dregur úr fjárfestingum og minnkar hagvöxt. Þetta getur leitt til alvarlegrar kreppu í Evrópu á næstu misserum. Ný hagspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kom út í vikunni en þar var hagvaxtarspáin lækkuð. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir að hagvöxturinn í ár verði 3,2 prósent og 2,9 prósent á næsta ári. Meginorsakirnar eru vaxandi verðbólga á heimsvísu og hægagangur í efnahagslífinu í Kína og Bandaríkjunum. Þó er vert að benda á að verð á hveiti hefur lækkað um nærri 40% frá hámarki sínu í maí. Olíuverð hefur einnig lækkað að undanförnu ásamt því að aðfangakeðjur eru að jafna sig.

Þróttur í íslenska hagkerfinu

Efnahagskerfið á Íslandi hefur tekið vel við sér eftir farsóttina. Drifkraftur hagkerfisins er góður og spár gera ráð fyrir miklum hagvexti í ár eða 5,1% og tæpum 3% árið 2023. Lausafjárstaða þjóðarbúsins er sterk og verulega hefur dregið úr atvinnuleysi. Ferðaþjónustan er mikilvægur þáttur í að drífa hagvöxtinn áfram en gert er ráð fyrir um 1,6 milljón ferðamanna heimsæki Ísland á þessu ári. Aðrar útflutningsgreinar hafa einnig dafnað vel eins og sjávarútvegur og stóriðja vegna mikilla verðhækkana á afurðum þessara atvinnugreina. Að sama skapi er einnig ánægjulegt að sjá að útflutningstekjur af hugverkaiðnaðnum hafa aukist eða farið úr því að nema tæpum 8% af gjaldeyristekjum í rúm 16% á síðustu árum. Þessi þróun er mikilvæg og fjölgar stoðunum undir utanríkisviðskiptum landsins.

Kaupmáttur launa allra á Íslandi hækkaði á árinu 2021 og þær skattalegu aðgerðir sem hefur verið hrint í framkvæmd miða allar að því að draga úr skattbyrði hjá þeim sem lægstar tekjur hafa. Á Covid-tímanum jókst kaupmáttur um 4,4% að raunvirði og var það í samræmi við fyrirætlanir stjórnvalda að verja efnahag heimila og fyrirtækja við upphaf farsóttarinnar. Í stuttu máli má segja að vel hafi tekist til. Atvinnuleysi mælist nú um 3,8% og skuldir heimilanna hafa lækkað. Að auki er gert ráð fyr­ir að aðhalds­samri pen­inga­stefna og rík­is­fjár­mál muni leiða til þess að á næsta ári lækki verðbólg­an.

Þættir sem vinna með Íslandi

Í ná­granna­lönd­un­um er mik­ill ótti við að fram und­an sé tíma­bil sam­spils stöðnun­ar og verðbólgu (e. stag­flati­on). Sem stendur eru eng­in merki eru uppi um slíka stöðnun í okk­ar hag­kerfi. Nokkr­ir veiga­mikl­ir þætt­ir ættu einnig að vinna með efna­hags­kerf­inu. Í fyrsta lagi eru heild­ar­skuld­ir rík­is­sjóðs rúm­lega 40% af lands­fram­leiðslu, en til sam­an­b­urðar eru skuld­ir Þýska­lands um 60% og Ítal­íu um 140%. Áætlað er að skulda­hlut­fall rík­is­sjóðs verði komið í 33,4% í árs­lok 2023. Er­lend­ar skuld­ir rík­is­sjóðs eru mjög lág­ar og auk þess er hrein er­lend staða þjóðarbús­ins með allra besta móti í ljósi mik­illa eigna hag­kerf­is­ins erlendis. Í öðru lagi er Ísland með sjálf­stæða pen­inga­stefnu sem þýðir að við get­um hreyft stýri­vexti hraðar en mörg önn­ur ríki og sér í lagi í sam­an­b­urði við þau sem eru aðilar að mynt­banda­lagi Evr­ópu. Þess má geta að verðbólga inn­an ein­stakra ríkja banda­lags­ins nem­ur allt að 20%. Ítal­ía greiðir 1,9 pró­sentu­stig­um meira en Þýska­land í vöxt­um af láni til tíu ára, nærri tvö­falt meira en sem nem­ur álag­inu í árs­byrj­un 2021. Ljóst er að sama vaxta­stefn­an á ekki við öll ríki Evr­ópu­sam­bands­ins og munu þau skuld­sett­ustu geta lent í veru­leg­um erfiðleik­um. Í þriðja lagi, vegna góðs geng­is út­flutn­ings­grein­anna, hef­ur gjald­miðill­inn okk­ar staðist ágjöf­ina sem felst í óviss­unni og hefur verið stöðugur. Í fjórða lagi er Ísland stór­fram­leiðandi á þeim vör­um sem vönt­un er á; ann­ars veg­ar mat­væl­um og hins veg­ar orku. Sök­um þessa er verðbólg­an minni en ella væri.

Að lok­um, þá hef­ur hag­stjórn­in verið sveigj­an­leg und­an­farið og verið í aðstöðu til að nýta rík­is­fjár­mál­in til að styðja við hag­kerfið á far­sótt­ar­tím­um. Nú þarf að draga úr þátt­töku þess í út­gjöld­um og fjár­fest­ing­um til að halda aft­ur af verðbólg­unni. Þannig að segja má að staðan sé nokkuð ásættanleg. Næstu aðgerðir í efna­hags­stjórn­inni munu all­ar miða að því að ná utan um verðbólgu­na og ef all­ir leggjast á árarnar í þeirri veg­ferð, þá mun okk­ur farn­ast vel. Hins vegar er það alveg ljóst í mínum huga að byrðarnar þurfa að dreifast jafnt í samfélaginu. Heimili landsins eru hornsteinn samfélagsins og því verður að vera í forgangi að verja þau.

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 29. júlí 2022.

Categories
Greinar

Stærsta verk­efnið: Verð­bólga

Deila grein

08/08/2022

Stærsta verk­efnið: Verð­bólga

Óumflýjanlegar efna­hagsaðgerðir stjórn­valda um heim all­an á Covid-19 tím­an­um sem snéru að aukn­um umsvifum hins opinbera og rýmri pen­inga­stefnu hafa ýtt und­ir hækk­un á vöru og þjónustu. Þessu til viðbót­ar hef­ur innrás Rúss­lands í Úkraínu haft mik­il áhrif á verðbólgu á heimsvísu. Verð á nauðsynlegum hrávörum, orku og matvöru hef­ur hækkað veru­lega og eru afleiðing­arn­ar afar nei­kvæðar fyr­ir heims­bú­skap­inn. Á sama tíma eru mjög ríki enn að fást við far­sótt­ina og hef­ur það lam­andi áhrif fram­leiðslu­keðju heims­ins. Ofan á þetta bæt­ist að skort­ur á vinnu­afli í mörg­um helstu hag­kerf­um heims­ins. Þetta er staðan sem við glímum við.

Seðlabankar víða um heiminn hafa hækkað stýri­vexti sína með það fyrir augum að draga úr verðbólgu­vænt­ing­um. Verðbólga í Banda­ríkj­un­um í maí mæld­ist 9,1% á árs­grund­velli og er sú mesta í yfir 40 ár. Verð á hveiti á heimsvísu hef­ur hækkað um 56% og mjólkuraf­urðir um 17%. Þá hefur verð á helíum hækkað um 135% á síðustu tveimur árum vegna erfiðleika í verksmiðjum í Rússlandi og Bandaríkjunum. Frumefnið er til að mynda mikilvægur þáttur í framleiðslu ljósleiðaraglers og skortur á því ógnar framþróun stafræna hagkerfisins.

Verðbólgan á evrusvæðinu mældist 8,6% í júní. Seðlabanki Evrópu hækkaði stýrivexti um 0,5% í gær í fyrsta sinn frá árinu 2011. Eftir hækkunina eru stýrivextir bankans komnir í 0%. Vísbendingar er þó um það á evrusvæðinu að snarpur samdráttur sé í vændum þar sem framleiðsla og nýjar pantanir drógust saman í fyrsta sinn eftir Covid-19. Ísland hef­ur ekki farið var­hluta af þess­ari þróun. Verðbólg­an mæl­ist 9,9% en án hús­næðisliðar­ins er hún 7,5%. Verðbólgu­vænt­ing­ar hafa einnig auk­ist. Gert er ráð fyr­ir að verðbólga verði um 4,9% árið 2023 og 3,3% árið 2024. Skort­ur hef­ur verið á vinnu­markaði og mik­il eft­ir­spurn eft­ir vinnu­afli. Hækk­un hús­næðisliðar vísi­tölu neyslu­verðs hef­ur haft mest áhrif á þróun verðlags und­an­far­in miss­eri.

Meg­in­verk­efni allra hag­kerfa verður að ná utan um verðbólgu­vænt­ing­ar og ráðlegg­ur Alþjóðagreiðslu­bank­inn seðlabönk­um að vera ófeimn­ir að bregðast hratt við til skamms tíma með það að leiðarljósi að til lengri tíma verði búið að ná verðbólg­unni niður. Seðlabanki Íslands hefur hækkað stýrivexti í nokkrum skrefum frá maí 2021 eða úr 0,75% í 4,75%.

Íslensk stjórnvöld hafa þegar ráðist í mót­vægisaðgerðir sem felast í því að bæt­ur al­manna­trygginga hafa verið hækkaðar, ráðist var í sér­stak­an barna­bóta­auka og hús­næðis­bæt­ur voru hækkaðar. Farið verður í 27 millj­arða aðhaldsaðgerðir hjá ríkissjóði til að draga úr verðbólguþrýst­ingi. Sam­keppnis­eftirlitið hóf upp­lýs­inga­öfl­un um þróun verðlags á helstu mörkuðum í apríl til að meta hvort verðlags­hækk­an­ir kunni að stafa af ónægu sam­keppn­is­legu aðhaldi eða óeðli­leg­um hvöt­um. Sér­stök áhersla er lögð á dag­vörumarkað, eldsneyt­is­markað og bygg­ing­ar­vörumarkað. Það ger­ir Sam­keppnis­eft­ir­lit­inu auðveld­ara um vik að greina óhag­stæð ytri áhrif á verðþróun eða greina hvort verðhækk­an­ir kunni að stafa af mögu­leg­um samkeppnisbresti á viðkom­andi mörkuðum. Að auki hef­ur verið skipaður vinnu­hóp­ur til að greina gjald­töku og arðsemi bank­anna. Stór hluti af út­gjöld­um heim­il­anna renn­ur til bank­anna, í formi af­borg­ana af hús­næðis-, bíla- og neyslu­lán­um auk vaxta- og þjón­ustu­gjalda. Mark­miðið er að kanna hvort ís­lensk heim­ili greiði meira fyr­ir al­menna viðskipta­bankaþjón­ustu en heim­ili í hinum nor­rænu ríkj­un­um. Það er verk að vinna til að ná tök­um á verðbólgu.

Stærsta verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar verður að koma bönd­um á verðbólg­una til heilla fyrir allt samfélagið. Brýnt er að sjá hvernig þessar aðgerðir stjórnvalda koma til með að hafa áhrif. Ljóst er þó að lækki verðbólgan ekki nokkuð á næstu mánuðum, þá er aðkallandi að fara í frekari aðgerðir til að kveða verðbólgudrauginn í kútinn. Ávallt verða stjórnvöld að huga mest að þeim sem eru í viðkvæmri efnahagslegri stöðu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin byrtist fyrst á visir.is 25. júlí 2022.

Categories
Greinar

Hjúkrunarheimilið verður að veruleika!

Deila grein

08/08/2022

Hjúkrunarheimilið verður að veruleika!

Áskoranir hjúkrunarheimilisins Skjólgarðs á Höfn í Hornafirði hafa verið ærnar undanfarin ár og löngu ljóst að húsnæðið er ábótavant og tímabært að ráðast í stækkun hjúkrunarheimilisins.

Undirbúningurinn hefur tekið sinn tíma og það er því mikil gleðitíðindi að nýverið tilkynnti Heilbrigðisráðherra um samþykkt tilboð í byggingu hjúkrunarheimilisins.

Öryggissjónarmið

Núverandi húsnæði Skjólgarðs uppfyllir ekki nútíma gæða kröfur sem gerðar eru til húsnæðis og aðbúnaðar á hjúkrunarheimilum. Það skiptir máli að við búum þeim, sem byggðu grunninn að því sem við byggjum framtíðina á, öruggt ævikvöld.

Framkvæmdin eru liður í átaksverkefni ríkisstjórnarinnar í að fjölga hjúkrunarrýmum um allt land og stytta bið eftir rými. Fyrirhuguð framkvæmd felur í sér nýbyggingu upp á 1.400 m² að stærð auk breytinga á núverandi byggingu sem er 880 m² að stærð og er því um 2.280m² framkvæmd að ræða. Hjúkrunarheimilið verður mikil lyftistöng fyrir sveitafélagið og eflir heilbirgðisþjónustu á svæðinu.

Samvinna ríkis og sveitarfélags

Heilbrigðisráðuneytið og Sveitarfélagið Hornafjörður standa saman að byggingu hússins og þeim breytingum sem verða gerðar á eldri hluta húsnæðisins. Miðað er við að framkvæmdir við heimilið hefjist nú þegar á haustmánuðum 2022 og það tekið í notkun árið 2024.

Áætlaður framkvæmdakostnaður vegna byggingar hjúkrunarheimilisins eru tæplega 2,5 milljarðar króna. Verkefnið er fjármagnað með þeim hætti að ríkissjóður greiðir 75,3% heildarkostnaðar og sveitarfélagið Hornafjörður 24,7%.

Sem þingmaður Suðurkjördæmis fagna ég því innilega að það sé loksins komið að þessu og þakka heilbrigðisráðherra fyrir klára málið sem jafnframt er mikið hagsmunamál fyrir Hornfirðinga.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin byrtist fyrst á visir.is 27. júlí 2022.

Categories
Greinar

Úr ójafnvægi í jafnvægi á húsnæðismarkaði

Deila grein

14/07/2022

Úr ójafnvægi í jafnvægi á húsnæðismarkaði

Á þriðjudaginn kynnti ráðherra húsnæðismála, Sigurður Ingi Jóhannsson, sameiginlegt markmið og samkomulag milli beggja stjórnsýslustiga um aukið framboð af húsnæði næstu tíu árin. Hér er loks verið að stíga mikilvægt skref og í fyrsta sinn sem ríki og sveitarfélög gera með sér sérstakt samkomulag um stefnu og aðgerðir á húsnæðismarkaði svo tryggja megi nauðsynlega uppbyggingu íbúða fyrir alla hópa samfélagsins á samningstímanum. Það verði gert með því að 30% af heildaruppbyggingu næstu tíu ára skuli vera hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði og 5% félagsleg húsnæðisúrræði til að bæta stöðu viðkvæmra hópa á húsnæðismarkaði. Það munu því 35% uppbyggingarinnar njóta stuðnings hins opinbera í formi hlutdeildarlána, almenna húsnæðiskerfisins, stofnstyrkja og félagslegra íbúða sem HMS lánar til. Hér eru um að ræða metnaðarfullar aðgerðir inn í það verkefni að tryggja þá grunnþörf einstaklinga og fjölskyldna að búa við húsnæðisöryggi.

35 þúsund íbúðir um land allt á næstu tíu árum

Samkomulagið byggir meðal annars á niðurstöðum starfshóps um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði, en hópurinn skilaði nýverið af sér 28 tillögum í sjö málaflokkum. Við þurfum að minnka þær sveiflur sem verið hafa á markaði og ná fram stöðugleika. Til þess að nálgast stöðugleika á húsnæðismarkaði þarf framboð íbúða og uppbygging að vera í takt við þörf. Niðurstaða þarfagreiningar sveitarfélaga í húsnæðisáætlunum sem er nauðsynlegt verkfæri til að meta þörfina, bæði til skemmri og lengri tíma, er að byggja þurfi 35.000 íbúðir á næstu tíu árum til að mæta fólksfjölgun, tryggja nauðsynlegan stöðugleika og jafnvægi á húsnæðismarkaði.

Nauðsynlegt að tryggja lóðir til uppbyggingar

Nú þarf að láta verkin tala og tryggja nægt lóðaframboð um land allt svo hægt sé að byggja fjölbreytt húsnæði og svara þeirri þörf sem við sjáum að verður til staðar á næstu árum. Ég hef sagt það áður og segi það enn að hér þarf að fara saman skynsamleg þétting byggðar samhliða því að sveitarfélög hafi svigrúm til þess að brjóta nýtt land til uppbyggingar. Þétting byggðar er nauðsynleg og mikilvæg svo nýta megi betur alla innviði sem til staðar eru, svo sem götur og skóla. Jafnframt treystir þétting byggðar rekstrargrundvöll almenningssamgangna og samgöngukerfisins í heild. Þétting byggðar er hins vegar oft flókin í framkvæmd, hún er kostnaðarsöm og tekur tíma. Sú innviðauppbygging sem fylgir því að brjóta nýtt land og byggja ný hverfi er sveitarfélögum kostnaðarsöm, en slíkt er nú nauðsynlegt svo byggja megi hratt og vel ásamt því að ná settum markmiðum um fjölda hagkvæmra íbúða. Það er því gott að sjá að sveitarfélögin sjálf munu gera samninga við ríkið á grunni samkomulagsins þar sem fjárstuðningur kemur frá ríkinu til að tryggja lóðir og meðfylgjandi innviðauppbyggingu sem slíku fylgir. Það mun ásamt öðrum aðgerðum samkomulagsins tryggja að markmið uppbyggingar raungerist á samningstímanum.

Brýnt að einfalda ferla

Settar eru fram 24 skilgreindar aðgerðir í samkomulaginu og þær eru bæði góðar og metnaðarfullar. Það mikilvægasta þykir mér þó að ríki og sveitarfélög hafi nú sammælst um að endurskilgreina lögbundna ferla og verklag í skipulags og byggingarmálum er varða uppbyggingu á íbúðahúsnæði. Það verði einn ferill um húsnæðisuppbyggingu. Þetta hefur hingað til verið of flókið og tekið of langan tíma. Að lokum vil ég hvetja alla til að kynna sér þær aðgerðir sem finna má í samkomulaginu og jafnframt sveitarfélög um land allt til að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni sem við stöndum frammi fyrir.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. júlí 2022.

Categories
Greinar

35 þúsund íbúðir á tíu árum

Deila grein

13/07/2022

35 þúsund íbúðir á tíu árum

Í gær var und­ir­ritað sam­komu­lag rík­is­ins og Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga um aðgerðir og um­bæt­ur á hús­næðismarkaði til næstu tíu ára. Mark­miðið er skýrt og það er að ná jafn­vægi á hús­næðismarkaði með því að nota þau verk­færi sem birt­ist í sam­komu­lag­inu.

Grimmt happ­drætti

Síðustu ár höf­um við búið við mikl­ar sveifl­ur á hús­næðismarkaði, bæði hvað varðar fram­boð á lóðum og hús­næði og þar af leiðandi verð. Þess­ar sveifl­ur skapa aðstæður sem valda því að kyn­slóðirn­ar sem koma inn á markaðinn sem fyrstu kaup­end­ur verða hluti af eins kon­ar grimmu happ­drætti þar sem fæst­ir vinna og flest­ir hefja þátt­töku með þung­ar byrðar. Vegna þess­ar­ar stöðu er mik­il áhersla lögð á hús­næðismál­in í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Fyrstu skref­in voru þau að sam­eina und­ir einu ráðuneyti, nýju innviðaráðuneyti, mála­flokka hús­næðis, skipu­lags, sveit­ar­stjórna, sam­gangna og byggða. Þessi aðgerð er grund­völl­ur þess að hægt sé að greina stöðuna og koma með mark­viss­ar og öfl­ug­ar aðgerðir til þess að skapa jafn­vægi á þess­um mik­il­væga markaði.

Tíma­móta­sam­komu­lag

Það sam­komu­lag sem und­ir­ritað var í gær mark­ar tíma­mót. Í því felst að ríki og sveit­ar­fé­lög hafa sömu sýn, bæði á vand­ann, og þá ekki síður á lausn­irn­ar. Mark­miðið er að á næstu tíu árum verði byggðar 35 þúsund nýj­ar íbúðir, fjög­ur þúsund íbúðir á ári fyrstu fimm árin og þrjú þúsund síðari fimm árin. Þá er ekki síður mik­il­vægt að þriðjung­ur þess­ara 35 þúsund íbúða verði á viðráðan­legu verði og fimm pró­sent af öllu nýju hús­næði verði fé­lags­leg hús­næðisúr­ræði til að mæta sér­stak­lega þörf­um þeirra sem höllust­um fæti standa. Einnig verður ráðist í sér­stakt átak til að eyða biðlist­um eft­ir sér­tæk­um hús­næðisúr­ræðum fyr­ir fatlað fólk.

All­ir eiga að fá tæki­færi

Það er eng­in ein lausn á þeim vanda sem við blas­ir á hús­næðismarkaði, lausn­irn­ar eru marg­ar. Í því tíma­móta­sam­komu­lagi sem und­ir­ritað var í gær eru mik­il­væg­ir þræðir sem ofn­ir verða sam­an til að gera hús­næðismarkaðinn stöðugri. Það er ein­læg trú mín að sú samstaða sem hef­ur náðst milli rík­is og sveit­ar­fé­laga varði leiðina til heil­brigðari hús­næðismarkaðar þar sem all­ir fái tæki­færi og eng­inn verði skil­inn eft­ir á göt­unni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 13. júlí 2022.

Categories
Greinar

Áfram Ísland!

Deila grein

13/07/2022

Áfram Ísland!

Það er eft­ir­vænt­ing í sam­fé­lag­inu nú þegar stelp­urn­ar okk­ar spila sinn ann­an leik gegn Ítal­íu á Evr­ópu­meist­ara­móti kvenna í knatt­spyrnu á Englandi í dag. Sam­ein­ing­araflið og kraft­ur­inn sem fylg­ir stelp­un­um smit­ar út frá sér. Fjöldi ís­lenskra stuðnings­manna hef­ur gert sér ferð á móti til að styðja dyggi­lega við bakið á ís­lenska landsliðinu og fjöl­skyld­ur og vin­ir koma sam­an á Íslandi til þess að horfa á leik­inn og senda hlýja strauma út.

Vel­gengni ís­lensku landsliðanna í knatt­spyrnu hef­ur fyllt okk­ur stolti, gleði og til­hlökk­un. Árang­ur­inn blæs líka bar­áttu­anda og krafti í fjölda barna og ung­linga sem fylgj­ast spennt með sín­um fyr­ir­mynd­um. Vegna þessa er hlaupið hraðar, sparkað fast­ar og stefnt hærra. Íþrótta­fólkið okk­ar býr yfir metnaði, dugnaði og vinnu­semi. Það hef­ur sett sér mark­mið, keppt að þeim sama hvað dyn­ur á og haldið í gleðina yfir stór­um sem smá­um sigr­um.

Það að kom­ast á stór­mót sem þetta er ekki sjálfsagt. Að baki slík­um ár­angri ligg­ur þrot­laus vinna stelpn­anna okk­ar og þeirra sem standa þeim næst. Þessi ár­ang­ur bygg­ist einnig á óeig­ingjarnri vinnu sam­fé­lags­ins í gegn­um tíðina. Ber þar fyrst að nefna baklandið, en það er fólkið sem legg­ur sitt af mörk­um með stuðningi sín­um, elju og ástríðu. Þetta eru fjöl­skyld­urn­ar, starfs­fólkið í íþrótta­hús­un­um, sjálf­boðaliðarn­ir og aðrir vel­unn­ar­ar. Þau eru að upp­skera ríku­lega þessa dag­ana. Annað sem breyt­ir höfuð máli er jafn aðgang­ur að íþrótta og tóm­stund­a­starfi á land­inu okk­ar. Það er okk­ar sem sam­fé­lags að tryggja að öll börn hafi jöfn tæki­færi til þess að ná langt í því sem þau vilja taka sér fyr­ir hend­ur.

Fram und­an eru spenn­andi og skemmti­leg­ir tím­ar og ég trúi því að æv­in­týrið á Englandi sé er rétt að byrja. Til þess að gera um­gjörð móts­ins enn glæsi­legri ákváðu ís­lensk stjórn­völd að blása til menn­ing­arkynn­inga í tengsl­um við leiki stelpn­anna á móti. Að þeim koma öfl­ug­ur hóp­ur ís­lenskra lista­manna sem koma fram fyr­ir hvern leik. Auk­in­held­ur hafa menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið og mennta- og barna­málaráðuneytið lestr­ar­hvatn­ing­ar­her­ferðina sett á lagg­irn­ar lestr­ar­hvatn­ing­ar­her­ferðina Tími til að lesa sem ætluð er fyr­ir les­end­ur á grunn­skóla­aldri í sum­ar.

Hvatn­ing­in er skemmti­leg og inn­blás­in af þátt­töku stelpn­anna okk­ar á EM. Að þessu sinni snýst lestr­ar­hvatn­ing­in um bæði lest­ur og sköp­un. Börn og for­eldr­ar gera með sér samn­ing um ákveðinn mín­útu­fjölda í lestri fyr­ir hvern leik og hvert mark sem að stelp­urn­ar okk­ar skora á EM. Þá geta krakk­ar einnig tekið þátt í að skapa og skrifa sögu til þess að senda inn – en sag­an þarf að inni­halda bolta. Nán­ari upp­lýs­ing­ar er að finna inná vefsíðunni www.tim­itila­dlesa.is.

Það er gam­an að geta samþætt íþrótt­ir og menn­ingu með þess­um hætti til þess að auka hróður lands­ins og hvetja stelp­urn­ar okk­ar enn frek­ar til dáða. Sem ráðherra menn­ing­ar­mála sendi ég stelp­un­um okk­ar bar­áttu­kveðjur fyr­ir leik­inn í dag og óska öll­um lands­mönn­um gleðilegr­ar fót­bolta­hátíðar þar sem slag­orðið verður tví­mæla­laust: Áfram Ísland!

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar­ráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 13. júlí 2022.

Categories
Fréttir

35 þúsund nýjar íbúðir skapa langþráð jafnvægi á húsnæðismarkaði

Deila grein

12/07/2022

35 þúsund nýjar íbúðir skapa langþráð jafnvægi á húsnæðismarkaði

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, kynnti í dag markmið um aukið framboð af húsnæði á næstu árum. Í máli hans kom fram að byggja þarf um 35 þúsund íbúðir um land allt á næstu tíu árum. Fram til þessa hefur vantað skýra sýn hversu margar íbúðir þarf að byggja á hverju ári. Í fyrsta sinn hafa ríki og sveitarfélög gert með sér samkomulag um sameiginlega sýn á aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði til tíu ára, 2023-2032.

Rammasamningur þess efnis var undirritaður í dag og markar tímamót sem fyrsti samningur sinnar tegundar. Þar sammælast ríki og sveitarfélög um stefnu og markvissar aðgerðir til að tryggja uppbyggingu íbúða í samræmi við þörf ólíkra hópa, þar á meðal. fyrir fólk með lægri tekjur og minni eignir.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) skrifuðu með fleirum undir rammasamninginn. Samningurinn byggir m.a. á niðurstöðum starfshóps um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði, sem kynntar voru í maí sl., og skipaður var fulltrúum ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins.

Tilgangur rammasamningsins er að auka framboð nýrra íbúða til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf ólíkra hópa samfélagsins til skemmri og lengri tíma og stuðla að auknum stöðugleika og jafnvægi á húsnæðismarkaði á næstu tíu árum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra: „Eitt stærsta áherslumálið í sáttmála ríkisstjórnarinnar er að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði og koma í veg fyrir þær miklu sveiflur sem hafa einkennt hann síðustu ár. Afleiðingar þessara sveiflna eru meðal annars þær að kynslóðir fyrstu kaupenda eiga erfitt með að komast inn á húsnæðismarkað. Staðan kallar á samstillt átak og ég fagna því að ríki og sveitarfélög hafi nú náð saman um sameiginlega sýn á mikilvægustu verkefnin framundan. Ljóst er að byggja þarf 35 þúsund íbúðir um land allt á næstu tíu árum. Það er sérstaklega ánægjulegt að ríki og sveitarfélög hafa sammælst um að af heildaruppbyggingunni skuli 30% vera hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði og 5% félagsleg húsnæðisúrræði til að bæta stöðu viðkvæmra hópa á húsnæðismarkaði. Sérstök áhersla verður því á að byggja ríflega 12 þúsund hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði.“ 

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga: „Þetta er mikilvægur áfangi í nauðsynlegri vegferð okkar að tryggja nægt lóðaframboð sem mætir þeirri miklu eftirspurn eftir fjölbreyttu íbúðarhúsnæði sem nú er fyrir hendi og fyrirsjáanleg er næstu árin. Við verðum að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði og koma í veg fyrir þær sveiflur sem ógna stöðugleika í þjóðarbúskapnum. Næstu skref verða að sveitarfélögin sjálf munu nú gera samninga við ríkið á grundvelli þessa rammasamnings þar sem vænta má fjárstuðning frá ríkinu til að tryggja nægt lóðaframboð á þeirra vegum með tilheyrandi innviðauppbyggingu. Sambandið mun styðja við þá samningsgerð og fylgja eftir í góðri samvinnu við HMS þeirri aðgerðaáætlun sem er hluti þessa rammasamnings.“ 

Hermann Jónasson, forstjóri HMS: „Þessi rammasamningur markar tímamót á húsnæðismarkaði á Íslandi þar sem ríki og sveitarfélög um land allt sameinast um áætlun um húsnæðisuppbyggingu til lengri tíma. Vönduð áætlanagerð og eftirfylgni með rauntímaupplýsingum er forsenda þess að ná stöðugleika á húsnæðismarkaði. Við hjá HMS hlökkum til að eiga í framhaldinu gott samstarf við sveitarfélögin um þetta mikilvæga mál sem snertir hvert heimili á landinu og allir geta tengt við með einum eða öðrum hætti.“

Meginmarkmið rammasamnings ríkis og sveitarfélaga

Í samningnum eru sett fram fjögur meginmarkmið en hverju þeirra fylgja skilgreindar aðgerðir, alls 24 í aðgerðaáætlun sem fylgir samningnum.

1. Uppbygging í samræmi við þörf 

Ríki og sveitarfélög sammælast um það að byggja þurfi 35.000 íbúðir til þess að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf á árunum 2023 til 2032 en einnig til að mæta óuppfylltri íbúðaþörf. Á tímabilinu þurfi því að lágmarki að byggja 4.000 íbúðir á ári fyrstu fimm árin og 3.500 íbúðir á ári síðari fimm árin.

2. Framboð íbúða á viðráðanlegu verði

Ríki og sveitarfélög sammælast einnig um sérstaka áherslu á uppbyggingu hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði og að hlutfall þeirra verði að jafnaði um 30% nýrra íbúða. Markmið þess er að mæta þörfum ýmissa samfélagshópa, s.s. leigjenda, fyrstu kaupenda og fólks sem er tekju- og eignaminna. 

Þá er sammælst um að á samningstímanum verði félagsleg húsnæðisúrræði að jafnaði sem næst 5% af öllu nýju húsnæði. Með félagslegu húsnæðisúrræði er átt við íbúðir sem sveitarfélagi ber lagaleg skylda til að útvega einstaklingum eða fjölskyldum.

Loks er kveðið á um það að ráðist verði í sérstakt átak til að eyða biðlistum eftir sértækum húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk. Með sértæku húsnæðisúrræði er átt við íbúðir ætlaðar fyrir fatlað fólk sem hefur verið metið í mikilli þörf fyrir stuðning á eigin heimili.

3. Húsnæðisáætlanir lykilstjórntæki

Stafrænar húsnæðisáætlanir verða lykilstjórntæki ríkisins og sveitarfélaga til að halda utan um markmið um uppbyggingu íbúða á landsvísu. Ein grundvallarforsenda samningsins er að sveitarfélög taki þátt og hlutist til um að útvega byggingarhæfar lóðir til samræmis við húsnæðisáætlanir og að ríkið leggi til fjármuni í húsnæðisstuðning til þess að unnt sé að ná markmiðum á samningstímanum.

HMS mun vinna að gerð húsnæðisáætlana með sveitarfélögum um land allt. Gerðir verða samningar við einstök sveitarfélög með það að markmiði að auka lóðaframboð ásamt því að veita nauðsynlegan fjárstuðning til að tryggja íbúðauppbyggingu.

4. Einn ferill um húsnæðisuppbyggingu

Ríki og sveitarfélög sammælast loks um að endurskilgreina lögbundna ferla og verklag í skipulags- og byggingarmálum er varða uppbyggingu á íbúðahúsnæði. Lögð er áhersla á að sameiginlegt meginmarkmið löggjafar verði að tryggja landsmönnum öllum aðgengi að öruggu húsnæði.

Í samningnum segir að með því að samþætta marga ferla í einn megi öðlast betri yfirsýn, áætlunargerð verði markvissari og auka megi hagkvæmni, sem til framtíðar leiði til aukins stöðugleika á húsnæðismarkaði.

Fjölbreyttar aðgerðir

Settar eru fram 24 aðgerðir í aðgerðaáætlun með samningnum. Dæmi um aðgerðir eru:

  • Frumvarp lagt fram um breytingar á skipulagslögum á haustþingi 2022, m.a. til að lögfesta heimild sveitarfélaga til að skilyrða notkun lands til uppbyggingar hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði óháð eignarhaldi lóðar. (A6)
  • Átak gert til að útrýma óviðunandi húsnæði, m.a. á atvinnusvæðum og  íbúðarhúsnæði þar sem kröfur um öryggi eru ekki uppfylltar. (C5)
  • Ferlar við gerð deiliskipulags og veitingu byggingarleyfis verði samþættir. (D2)
  • Ferlar við gerð aðalskipulags og húsnæðisáætlana verði samþættir. (D3)
  • Frumvarp samið um að tímabinda uppbyggingarheimildir á grundvelli samþykkts deiliskipulags. (D6)

Nánari upplýsingar:

Categories
Greinar

Bætum verklag eftir náttúruhamfarir

Deila grein

06/07/2022

Bætum verklag eftir náttúruhamfarir

Í byrjun árs mælti ég fyrir til þingsályktunartillögu á Alþingi, um úttekt á tryggingavernd í kjölfar náttúruhamfara. Málið er eitt af þeim málum sem þingflokkur Framsóknarflokksins setti í forgang enda varðar það fjölmarga íbúa þessa lands, jafnt í dreifbýli sem þéttbýli.

Málið var ekki afgreitt á Alþingi en hlaut umfjöllun í þingsal og í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins. Alþingi bárust umsagnir um málið og er skemmst frá því að segja að allir umsagnaraðilar töldu brýnt að ráðast í heildar úttekt á tryggingavernd og úrvinnslu tjóna. Í umsögnunum er sett fram mikið af upplýsingum sem geta gagnast við slíka úttekt. Ég mun því áfram leita leiða til að koma verkefninu í gang.

Lærum af reynslunni

Á Íslandi höfum við alla tíð þurft að glíma við náttúruöflin og sambúðin með þeim hefur reynst landsmönnum áskorun. Náttúruhamfarir valda hér ítrekað umtalsverðu eigna- og rekstrartjóni. Þar nægir að nefna óveðrið í desember 2019 sem kom verst niður á Norður- og Norðvesturlandi en hafði áhrif víða um land, snjóflóð á Flateyri, flóð í Þingeyjarsveit haustið 2021 og aurflóð á Seyðisfirði í desember 2020.

Árið 2020 voru tilkynnt tjón vegna 14 atburða en 11 á árinu 2021 samkvæmt ársskýrslum Náttúruhamfaratryggingar Íslands en slíkir atburðir hafa að meðaltali verið um 7 á ári frá árinu 1987. Tjón af völdum náttúruhamfara getur reynst hvort sem er einstaklingum eða rekstraraðilum ofviða og ógnað heilu samfélögunum. Tryggingarvernd vegna náttúruhamfara er því gríðarlega mikilvæg auk skilvirkrar og sanngjarnrar úrvinnsla strax í kjölfar hamfaranna.

Farið hefur verið í margvíslegar aðgerðir til að koma á samtryggingu og verjast náttúruhamförum hér á landi. Má þar nefna ýmis konar vöktun náttúruvár og viðfangsefni Náttúruhamfaratryggingar Íslands, Ofanflóðasjóðs og Bjargráðasjóð, þróun verklags stjórnvalda í viðbrögðum og úrvinnslu afleiðinga einstakra atburða, ásamt lögboðnum og valfrjálsum tryggingum.

Mikil reynsla hefur safnast upp á undanförnum árum sem mikilvægt er að læra af og nýta til að bæta vinnubrögð. Eftir skriðuföllin á Seyðisfirði komu fram ýmsar nýjar áskoranir , ásamt öðrum sem voru þekktar. Þar má nefna ósamræmi í bótum til þeirra sem missa húsnæði sitt í hamförum og þeirra sem þurfa að flytja úr húsnæði vegna hættu á hamförum, þ.e. húsnæði sem er á hættusvæði og verður að hætta notkun á. Þá er margt óljóst varðandi vernd og tryggingar atvinnulífsins, atvinnufyrirtækja og atvinnuhúsnæðis. 

Áfram veginn

Stöðugt er unnið að umbótum hjá aðilum sem sinna viðbrögðum vegna náttúruvár, en nú er tímabært að skoða heildarmyndina, gera úttekt á viðbrögðum og mögulegum götum í kerfinu. Markmiðið er að auka skilvirkni, jafnræði og sanngirni í úrvinnslu tjóna ásamt leiðum til að bæta upplýsingagjöf og fræðslu til þeirra sem búa við náttúruvá eða hafa lent í hamförum.

Það er mikilvægt að fækka gráu svæðunum eins og mögulegt er, þó að ófyrirsjáanleiki náttúrunnar komi nú sennilega í veg fyrir að það takist 100%. Aðgerðir til úrbóta gætu t.d. falist í breytingu á lögum, reglugerðum eða verklagsreglum, betri miðlun upplýsinga, fræðslu og kynningarverkefnum.

Við þurfum alltaf að nýta uppsafnaða þekkingu og reynslu til frekari framfara.

Líneik Anna Sævarsdóttir,  þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. júlí 2022.