Categories
Greinar

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á þarfir Suðurnesjamanna

Deila grein

23/11/2024

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á þarfir Suðurnesjamanna

Það er óhætt að segja að stór skref hafi verið stigin í heilbrigðismálum á Suðurnesjum undanfarið. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur, í samstarfi við sveitarstjórnarmenn og heimamenn, lyft grettistaki í málaflokknum og tryggt umbætur sem umbylta heilbrigðisþjónustu svæðisins. Framsóknarflokkurinn hefur sett heilbrigðismál Suðurnesjamanna í forgang, enda var þörfin brýn. Með skýrri stefnu og samvinnu hefur tekist að byggja upp heilbrigðisinnviði sem standast auknar kröfur samfélagsins.

Fyrsta einkarekna heilsugæslan utan HBS

Á síðasta ári opnaði fyrsta einkarekna heilsugæslan utan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HBS) í Reykjanesbæ. Þetta er mikilvæg nýjung fyrir Suðurnesjamenn sem eykur valkosti í heilbrigðisþjónustu og tryggir betra aðgengi fyrir íbúa.

Umtalsverðar umbætur á HSS

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) hefur gengið í gegnum umfangsmiklar endurbætur sem bæta þjónustu og efla rekstur stofnunarinnar:

Ný bráðamóttaka: Þjónustan hefur stórbatnað með opnun nýrrar og nútímalegrar  bráðamóttöku, þar sem skjólstæðingar fá betri þjónustu og starfsfólk vinnur í betri aðstæðum.

Ný legudeild: Ný og betrumbætt legudeild var tekin í notkun, sem eykur rými og bætir aðstöðu fyrir bæði sjúklinga og starfsfólk.

Röntgendeild byltingarkennd: Á síðasta ári var tekin í notkun ný röntgendeild með háþróuðum röntgen- og sneiðmyndatækjum. Þessi búnaður eykur myndgæði og hraðar þjónustu, sem er til mikilla hagsbóta fyrir sjúklinga og starfsmenn.

Bætt geðheilbrigðisþjónusta

Geðheilsuteymi HSS hefur flutt í nýtt og stærra húsnæði við Hafnargötu 90. Þessi breyting skapar betri starfsaðstöðu og mun stórbæta þjónustu við skjólstæðinga. Aðstaðan er nú í samræmi við nútímakröfur og styður við markvissari vinnu teymisins.

Aukið hjúkrunarrými á Nesvöllum

Hjúkrunarheimilið Nesvellir hefur verið stækkað úr 60 rýmum í 80. Þetta er mikilvæg viðbót fyrir eldra fólk á Suðurnesjum og tryggir betra aðgengi að hjúkrunar- og umönnunarþjónustu.

Heilbrigðisþjónusta í Suðurnesjabæ og Vogum

Heilbrigðisþjónusta er að verða að veruleika í Suðurnesjabæ og vogum sem tryggir íbúum þessara svæða betra aðgengi að heilbrigðisþjónustu í heimabyggð.

Í nýlegri viljayfirlýsingu, sem undirrituð var á dögunum, kemur fram að unnið verði markvisst að því að opna heilbrigðisþjónustu í Suðurnesjabæ. Starfsemin mun fara fram í húsnæði Suðurnesjabæjar að Miðnestorgi 3 eigi síðar en 1. maí 2025 og tryggja þannig íbúum aðgengi að þjónustunni í heimabyggð. Grundvöllur skipulags heilbrigðisþjónustunnar er að allir íbúar séu skráðir á heilsugæslustöð sem næst lögheimili, þannig verður heilsugæslan sterk undirstaða heilbrigðiskerfisins. Willum Þór heilbrigðisráðherra hefur sagt að það sé algjört forgangsatriði að bæta heilsugæsluna á Suðurnesjum, og það hefur hann sýnt í verki.

Ný heilsugæslustöð í Innri Njarðvík

Ný heilsugæslustöð í Innri Njarðvík er fjármögnuð og í útboðsferli. Þetta er mikilvægt skref í að tryggja aukið aðgengi íbúa á svæðinu að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og minnka álag á aðrar heilbrigðisstofnanir.

Betri mannaforði og ný forysta

Heilbrigðisstofnunin gengur nú betur að manna stöður og ráða starfsfólk, sem eykur stöðugleika í rekstri og þjónustu. Auk þess hefur nýr forstjóri tekið við starfi og hefur þegar sett mark sitt á framgang og umbætur stofnunarinnar.

Tryggjum áframhaldandi framfarir

Framfarir í heilbrigðismálum á Suðurnesjum hafa verið stórstígar á undanförnum árum, og mikilvægt er að halda áfram á þessari braut. Fjárfestingar, nýjungar og umbætur í þjónustu hafa stórbætt lífsgæði íbúa svæðisins og lagt grunn að sterkari heilbrigðisinnviðum til framtíðar.

Tryggjum áframhaldandi framfarir í heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum! og veljum Framsókn til forystu – setjum X við B þann 30. nóvember 2024

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á vf.is 22. nóvember 2024.

Categories
Greinar

Var stytting náms til stúdents­prófs í þágu ung­menna?

Deila grein

22/11/2024

Var stytting náms til stúdents­prófs í þágu ung­menna?

Árið 2014 var samþykkt umfangsmikil breyting á menntakerfinu þegar nám til stúdentsprófs var stytt úr fjórum árum í þrjú. Þessi ákvörðun var tekin með það að markmiði að auðvelda ungmennum að ljúka námi fyrr og komast hraðar út á vinnumarkað. En var þessi breyting raunverulega til þess að hjálpa ungu fólki? Hvers vegna erum við enn að ræða þessa ákvörðun áratug síðar?

Sem ungur frambjóðandi legg ég ríka áherslu á málefni ungs fólks og hef á undanförnum misserum átt samtöl við ungmenni um þetta mikilvæga mál. Sjónarmið þeirra opinbera margbreytileg og flókin áhrif þessarar breytingar og vekja áleitnar spurningar. Hefur breytingin í raun skilað tilætluðum árangri? Hefur hún þjónað hagsmunum unga fólksins á þann hátt sem stefnt var að?

Menntaskólinn á ekki að vera bara stress

Flest ungmenni sem ég hef talað við lýsa þeirri skoðun að menntaskólinn ætti að vera tímabil þroska, félagslegra tengsla og tækifæra til að njóta lífsins – ekki bara kapphlaup að útskrift. Eins og eitt ungmenni sagði:

„Það er óþarfi að flýta sér að ljúka þessum árum. Menntaskólaárin eru mikilvæg til að byggja upp félagsleg tengsl og læra að lifa sjálfstæðu lífi.“

Sum ungmenni segja að þau hafi ekki verið tilbúin til að takast á við lífið að námi loknu eftir aðeins þrjú ár í menntaskóla:

„Þeir sem vildu taka þetta á þremur árum hefðu geta gert það. Það að stytta þessi ár fyrir alla er óskynsamlegt. Þetta eru árin sem eiga að vera þau bestu í lífi ungs fólks – og það er sorglegt að stytta þau.“

Aukin streita og álag

Mörg ungmenni benda á að styttingin hafi í raun aukið álag og streitu. Að koma fjögurra ára námsefni fyrir á þremur árum gerir námið krefjandi og tekur nánast allan frítíma frá nemendum. Eitt ungmenni lýsti því svo:

„Þetta eykur streituna og skerðir félagslífið. Unglingar hafa ekki tíma til að njóta þess að fara á böll, hitta vini eða taka þátt í félagslífi þegar námið tekur allan tíma þeirra.“

Á sama tíma hefur þessi aukna streita áhrif á andlega heilsu. Fjöldi ungmenna nefndi að þau hefðu upplifað kvíða og vanlíðan vegna álags, sérstaklega þar sem kerfið býður upp á lítinn sveigjanleika.

Félagslíf og tengslamyndun skipta máli

Menntaskólinn er meira en bóknám, hann er staður þar sem ungmenni þroskast félagslega og mynda tengsl sem geta haft áhrif á líf þeirra til framtíðar. Þessi þáttur er ómetanlegur, eins og eitt ungmenni benti á:

„Mínir bestu vinir eru frá menntaskólaárunum. Það hefði verið ómetanlegt að hafa meiri tíma með þeim áður en allir fóru í sitthvora áttina.“

Þessi þörf fyrir félagsleg tengsl var sérstaklega áberandi í COVID-19 faraldrinum, þegar félagslíf ungmenna varð fyrir skakkaföllum. Í tvö ár þurftu þau að lifa við takmarkanir á félagslífi, fjarnám og óvissu um framtíðina. Stytting námsins og þar með enn minni tími til félagslegra tengsla bætir enn við þessa byrði.

Skortur á sveigjanleika

Eitt ungmenni lýsti því að það hafi hætt í menntaskóla vegna mikils álags, en síðar tekið ákvörðun um að klára námið á sínum hraða og forsendum. Þessi reynsla undirstrikar hversu mikilvægt er að kerfið sé sveigjanlegt:

„Að mínu mati eiga menntaskólaárin ekki einungis að snúast um bóknám heldur einnig að stuðla að félagslegum þroska nemenda. Núverandi kerfi gefur lítið svigrúm til félagsstarfs eða þess að þróa félagslega hæfni.“

Þörfin fyrir sveigjanleika birtist líka í því að mörg ungmenni vita ekki hvað þau vilja gera í framtíðinni:

„Þegar maður er 19 ára veit maður oft ekki hvað maður vill gera. Fjórar annir gefa meiri tíma til að þroskast og taka upplýstar ákvarðanir.“

Erum við að forgangsraða rétt?

Það er mikilvægt að spyrja hvort stytting námsins hafi verið hönnuð með hagsmuni ungmenna að leiðarljósi. Ef áhrifin á ungmenni eru aukið álag, skerðing á félagslífi og verri líðan, er ljóst að markmiðin þurfa endurskoðun.

Menntakerfið á að vera uppbyggjandi afl sem styður ungt fólk í að þroskast og undirbúa sig fyrir framtíðina, bæði í námi og lífi. Það er mikilvægt að kerfið taki tillit til ólíkra þarfa og veiti nemendum svigrúm til að blómstra, bæði félagslega og faglega. Með því að hlusta á reynslu ungmennanna sjálfra og endurskoða þær ákvarðanir sem hafa haft áhrif á þau, getum við tryggt að menntaskólaárin verði uppspretta jákvæðra upplifana og öflugs undirbúnings fyrir framtíðina. Þetta er ekki aðeins spurning um árangur í námi, heldur líka velferð og lífsgæði þeirra sem erfa samfélagið.

Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, starfar sem íþrótta- og æskulýðsfulltrúi og skipar 5. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Hvaða hlekkur ert þú í keðjunni?

Deila grein

22/11/2024

Hvaða hlekkur ert þú í keðjunni?

Samvinna fyrir börnin okkar

Farsældarlögin eru stórt framfaraskref þegar kemur að því að tryggja velferð barna á Íslandi. Lögin byggja á þeirri grundvallarforsendu að allir sem vinna með og fyrir börn – hvort sem það eru skólar, heimili, frístundastarf, heilbrigðisþjónusta eða félagsþjónusta – vinni saman að farsæld þeirra. Markmiðið er að koma auga á og bregðast við aðstæðum barna áður en vandamál verða of flókin.

Þetta kallar á samstillt átak allra hlekkja farsældarkeðjunnar – frá heimilum til skóla, frístundastarfs og samfélagsins í heild. Í þessu samhengi gegnir forvarnarstarf lykilhlutverki. Með því að vinna saman að forvörnum getum við tryggt börnum okkar öruggara og heilbrigðara umhverfi til að vaxa og þroskast.

Íþróttir og frístundastarf

Þátttaka í skipulögðu íþrótta- og frístundastarfi veitir börnum tækifæri til að efla félagsleg tengsl og þróa hæfileika sína. Þjálfarar og leiðbeinendur gegna þar lykilhlutverki, því þeim er ætlað að veita stuðning og leiðsögn á uppbyggilegan hátt þar sem hæfileikar hvers og eins fá að njóta sín.

Farsældarlögin leggja áherslu á að frístundastarf sé mikilvægt til að stuðla að velferð barna. Með því að leggja rækt við íþrótta- og frístundastarf byggjum við sterkara, öruggara og heilbrigðara samfélag og drögum úr áhættuhegðun.

Foreldrar og heimilin

Grunnur að farsælli framtíð barna hefst heima. Opinská samskipti, byggð á trausti, eru undirstaða heilbrigðs fjölskyldulífs. Á heimilinu mótast viðhorf, gildi og hegðun sem verða ómetanlegt veganesti í lífinu. Börn sem finna að þau geta rætt við foreldra sína um lífsins áskoranir eru ólíklegri til að leita í óæskilegan félagsskap.

Farsældarlögin byggja á þeirri forsendu að heimilin séu grundvöllur farsældar. Með því að tryggja að fjölskyldur fái nauðsynlegan stuðning og greiðan aðgang að þjónustu er hægt að styrkja umhverfið sem börn þurfa til að vaxa og dafna. Foreldrar hafa lykilhlutverk í forvörnum; með því að vera fyrirmyndir og sýna ábyrgð og kærleika styrkjum við börnin okkar og stuðlum að því að þau tileinki sér jákvæð gildi.

Menntastofnanir

Skólar eru meira en bara kennslustofur, þeir eru vettvangur félags- og tilfinningaþroska og mótunar sjálfstrausts. Starfsfólk skólanna er oft fyrst til að taka eftir ef börn eiga í erfiðleikum og hefur mikilvægu hlutverki að gegna í að styðja þau.

Farsældarlögin, sem tryggja aukna samþættingu þjónustu við börn, auðvelda skólastarfi að bregðast snemma við þörfum þeirra sem þurfa á stuðningi að halda. Regluleg samskipti milli heimila og skóla stuðla að því að allir vinni saman að farsæld barna.

Hlutverk samfélagsins

Samfélagið er sterkur hlekkur í keðju forvarna. Þegar ólíkir aðilar, skólar, íþróttafélög, heilbrigðisþjónusta og fjölskyldur taka höndum saman, sköpum við öruggara og heilbrigðara umhverfi fyrir börn.

Farsældarlögin hafa lagt traustan grunn að þessari samvinnu. Með samþættingu þjónustu, sem lögin kveða á um, erum við betur í stakk búin til að mæta þörfum barna strax og tryggja að þau fái stuðning í uppbyggilegu og öruggu umhverfi. Forvarnir snúast um að deila ábyrgð og vinna að sameiginlegu markmiði: að tryggja að börn fái tækifæri til að vaxa og blómstra.

Við höfum öll mikilvægu hlutverki að gegna í forvörnum, sem foreldrar, kennarar, leiðbeinendur eða nágrannar. Farsældarlögin eru aðeins fyrsta skrefið á vegferð að betri framtíð fyrir börnin okkar. Með því að setja X við B laugardaginn 30. nóvember styðjum við áframhaldandi vinnu sem tryggir farsæld barna og styrkir samfélagið allt.

Ellý Tómasdóttir, forvarnarfulltrúi, bæjarfulltrúi og frambjóðandi Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. nóvember 2024.

Categories
Greinar

Full­veldinu er fórnað með aðild að Evrópu­sam­bandinu

Deila grein

22/11/2024

Full­veldinu er fórnað með aðild að Evrópu­sam­bandinu

Alþingiskosningar fara fram þann 30. nóvember 2024. Þá er mikilvægt að staldra við, íhuga vandlega og spyrja: Hvert ætlum við að stefna? Og hvert erum við að fara?

Frá stofnun lýðveldisins hefur Ísland lagt áherslu á sjálfstæði sitt og sterka stöðu sem fullvalda ríki. Sjálfstæði hefur ekki aðeins verið hornsteinn íslenskrar þjóðar heldur einnig lykillinn að velgengni hennar á sviði efnahags, menningar og auðlindarmála. Það er sú sýn sem Framsóknarflokkurinn hefur staðið fyrir í áratugi. Þessi afstaða byggir ekki á tilfinningum heldur á skynsamlegri greiningu og sögulegri reynslu, sem hefur sannað gildi sitt.

Af hverju standa utan ESB?

Ísland hefur byggt upp sterka stöðu sem smáríki sem ræður eigin málum. Fyrirmyndir okkar í þessu efni eru lönd eins og Noregur og Sviss, sem bæði njóta meiri hagvaxtar og betri kaupmáttar en mörg aðildarríki Evrópusambandsins. Þessi lönd hafa sýnt að það er hægt að tryggja efnahagslegan stöðugleika án þess að ganga í sambandið. Þau halda sjálfstæði í mikilvægum málaflokkum, svo sem í sjávarútvegi og viðskiptasamningum, og hafa þar af leiðandi sveigjanleika til að bregðast við áskorunum og nýta tækifæri á eigin forsendum.

Fyrir Ísland, sem er ríkt af náttúruauðlindum, sérstaklega í sjávarútvegi, væri aðild að ESB skaðleg. Með inngöngu í sambandið myndi Ísland þurfa að fylgja sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB, sem myndi skerða rétt okkar til að stýra nýtingu fiskistofna í eigin lögsögu.

Hvað myndi Ísland fá í ESB?

Ein röksemd fyrir inngöngu í Evrópusambandið er aukin aðkoma að ákvarðanatöku innan Evrópu. En sú aðkoma er í raun lítil fyrir smærri lönd. Ísland, með tæplega 400.000 íbúa, myndi aðeins fá sex þingmenn á Evrópuþingið – sex röddum af samtals 705. Í reynd væri rödd Íslands því lítil og áhrifamátturinn takmarkaður.

Sjálfstæði og sveigjanleiki eru styrkleikar

Þrátt fyrir að ESB sé oft talið grundvöllur efnahagslegs stöðugleika sýnir reynslan að mörg aðildarríki sambandsins glíma við alvarleg efnahagsvandamál, svo sem háa atvinnuleysistíðni og hægan hagvöxt. Íslenska hagkerfið hefur, með sínum sveigjanleika, sannað getu sína til að sigrast á áskorunum með sjálfstæðum ákvörðunum. Þetta kom glöggt í ljós eftir fjármálahrunið, þegar Ísland náði að endurreisa hagkerfið á eigin forsendum.

Framtíðin byggð á þjóðlegum grunni

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að framtíð Íslands byggist á áframhaldandi sjálfstæði og styrk sambands við þau lönd sem við deilum sameiginlegum gildum með. Að byggja framtíðina á hagsmunum þjóðarinnar tryggir stöðugleika, sjálfbærni og hagsæld fyrir komandi kynslóðir. Ísland hefur sannað að það getur staðið á eigin fótum – og það er leiðin fram á við.

Við eigum ekki að bindast böndum sem skerða sjálfstæði okkar. Þess í stað eigum við að efla tengsl við önnur sjálfstæð ríki og tryggja áframhaldandi hagsæld með því að halda þeirri stefnu sem hefur reynst okkur vel. Stöndum vörð um fullveldið. Setjum X við B og tryggjum íslenska framtíð á þjóðlegum grunni.

„Það þarf magnað þor til að vera sannur maður,

Meta sinn vilja fremur en fjöldans daður,

Fylgja í verki sannfæringu sinni

Sigurviss, þó freistingarnar ginni.“


–  Árni Grétar Finnsson

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Eld­gos og inn­viðir: Tryggjum öryggi Suður­nesja

Deila grein

21/11/2024

Eld­gos og inn­viðir: Tryggjum öryggi Suður­nesja

Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að tryggja öryggi samfélagsins. Frá því að eldgosin á Reykjanesi hófust hef ég sem orkumálastjóri lagt ríka áherslu á orkuöryggi svæðisins og unnið að fjölda verkefna sem mörg hver hafa nú þegar orðið að veruleika í samvinnu við ráðuneyti, almannavarnir, stofnanir og fyrirtæki. Þessi vinna er lykilatriði til að tryggja að allir geti ávallt treyst á heitt og kalt vatn, rafmagn – og jólaljós – í sínum heimahögum.

Sem stjórnmálamaður mun ég halda áfram að leggja áherslu á orkuöryggi og öfluga og sveigjanlega innviðauppbyggingu á svæðinu. Orkuöryggi er spurning um öryggi og lífsgæði. Við vonum alltaf það besta, en undirbúum okkur fyrir það versta – fyrir Suðurnesin, fyrir Ísland.

Hvað hefur áunnist – fyrirhyggja í aðgerðum

Þrátt fyrir áskoranir hefur verið unnið markvisst að því að draga úr áhættu og styrkja innviði á Suðurnesjum.

  • Varavatnsból við Árnarétt í Garði: Nýtt varavatnsból tryggir vatnsöryggi í tilfelli hraunflæðis eða skemmda á vatnsæðum.
  • Neyðarhitarar: Neyðarhitarar hafa verið keyptir til að halda húsnæði ofan við frostmark ef kerfisbilun verður.
  • Verndun Njarðvíkuræðarinnar: Njarðvíkuræðin hefur verið fergð til að tryggja stöðugan flutning heits vatns í neyðartilfellum, en ljóst er að frekari ráðstafanir þurfa að fylgja.
  • Samráð og neyðarviðbrögð: Orkustofnun hefur unnið með almannavörnum, HS Orku og HS Veitum að áætlunum til að tryggja vatns- og hitaveitu í verstu aðstæðum.
  • Nýjar borholur: Nýjar borholur hafa verið boraðar til að auka nýtingu jarðhita og styrkja stöðugleika hitaveitunnar.

Hvað þarf að gera – langtímalausnir fyrir Suðurnes

Næstu skref fela í sér að tryggja varanlegar lausnir:

  • Suðurnesjalína 2: Koma þarf þessu lykilverkefni úr kæruferli og í framkvæmd til að styrkja raforkuflutning innan svæðisins og milli virkjana.
  • Stærri neyðarbúnaður: Skoða þarf fjárfestingu í varaafli og búnaði til að mæta hugsanlegum neyðartilvikum.
  • Þróun Krýsuvíkursvæðisins: Auka þarf þróun Krýsuvíkursvæðisins sem tengipunkts til að styrkja orkuöryggi Reykjaness og Suðurnesja.
  • Langtímalausnir fyrir orkuöryggi: Halda þarf áfram þróun nýrra jarðhitakosta á Reykjanesi og tengja hitaveitukerfi við fleiri orkulindir til að tryggja sjálfbærni og öryggi.
  • Samvinna og stefnumótun: Halda áfram markvissu samstarfi við ráðuneyti, sveitarfélög og fyrirtæki til að styrkja innviði og viðbúnað í ljósi náttúruvár.

Sameiginlegt verkefni allra

Það er ljóst að tryggt orkuöryggi er sameiginlegt verkefni okkar allra. Viðbrögð stjórnvalda og samstarf opinberra aðila, fyrirtækja og sveitarfélaga er lykilatriði til að tryggja að nauðsynlegar leyfisveitingar og framkvæmd nauðsynlegra aðgerða tefjist ekki.

Betur má ef duga skal

Við höfum þegar séð hvernig velgengni í neyðarviðbrögðum, eins og með varaafli fyrir Svartsengisvirkjun, hefur tryggt að íbúar á Suðurnesjum hafi ekki orðið fyrir truflunum í grunnþjónustu. Samt sem áður er ljóst að betur má ef duga skal og þar gegna stjórnmál mikilvægu hlutverki.

Svartsengi og Reykjanesvirkjun – lífæðar svæðisins í þrengingum

Svartsengi og Reykjanesvirkjun eru lykilinnviðir á Suðurnesjum og fyrir Ísland. Svartsengi framleiðir bæði heitt vatn og rafmagn fyrir heimili, fyrirtæki og hitaveitukerfi svæðisins. Heitavatnsframleiðslan byggir á bæði köldu vatni úr Lágum, norðvestan við Svartsengi, og rafmagni frá Svartsengislínu. Reykjanesvirkjun gegnir mikilvægu hlutverki í raforkuframleiðslu og tengingu svæðisins við landsnetið. Þessir innviðir eru lífsnauðsynlegir fyrir stöðugleika samfélagsins og getu þess til að takast á við óvænt áföll.

Þrátt fyrir krefjandi aðstæður, þar sem hraun frá eldgosi hefur þegar runnið yfir bæði kalda- og heitavatnslagnir ásamt því að Svartsengislína féll út, hefur tekist að viðhalda heitavatnsframleiðslu í Svartsengi að mestu en áhættan er áþreifanleg.

Njarðvíkuræðin og varavatnsból – lykilþættir í vatnsöryggi

Njarðvíkuræðin hefur verið fergð og varin gegn hraunflæði til að tryggja öryggi vatnsflutninga á Suðurnesjum. Þessi aðgerð er lykilatriði í því að viðhalda stöðugri þjónustu til heimila. Auk þess hefur verið komið upp varavatnsbólum, svo sem við Árnarétt í Garði, sem tryggja vatnsöryggi ef skemmdir verða á kerfinu. Þessar aðgerðir, sem unnar hafa verið í nánu samstarfi opinberra aðila og einkaaðila, hafa skilað áþreifanlegum árangri í því að styrkja grunninnviði svæðisins. Þær undirstrika mikilvægi samvinnu og markvissra aðgerða til að mæta náttúruvá og tryggja lífsgæði íbúa. Framhald er nauðsynlegt til að viðhalda þessum árangri og tryggja að Suðurnesin geti staðist framtíðaráskoranir.

Langtímalausnir og framtíðarsýn

Til að byggja upp varanlega lausn þarf að þróa innviði á svæðinu frekar, svo sem með nýtingu jarðhita á fleiri stöðum og tengingu hitaveitukerfa við fleiri orkulindir. Þannig tryggjum við öryggi og sjálfbærni. Þannig verður samfélagið betur í stakk búið til að takast á við náttúruvá og ófyrirséðar áskoranir.

Sem stjórnmálamaður í Suðurkjördæmi mun ég halda áfram að vinna að hagsmunum Reykjaness. Að tryggja heitt vatn, rafmagn og grunnþjónustu er spurning um öryggi og lífsgæði. Betur má ef duga skal!

Halla Hrund Logadóttir
, oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi og fyrrverandi orkumálastjóri.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Elsku Ísland: Framtíðin felst í sjálfstæðinu

Deila grein

21/11/2024

Elsku Ísland: Framtíðin felst í sjálfstæðinu

Ísland stend­ur frammi fyr­ir mikl­um tæki­fær­um á kom­andi ára­tug­um. Að tryggja sjálf­bæra þróun lands­ins, bæði efna­hags­lega og sam­fé­lags­lega, krefst skýrr­ar stefnu­mörk­un­ar sem bygg­ist á verðmæta­sköp­un, nýt­ingu land­fræðilegr­ar legu lands­ins og að sjálf­stæði þjóðar­inn­ar verði tryggt ásamt áfram­hald­andi yf­ir­ráðum yfir auðlind­um þjóðar­inn­ar.

Verðmæta­sköp­un und­ir­staða vel­ferðar

Efna­hags­leg vel­gengni Íslands hef­ur ávallt byggst á verðmæta­sköp­un, sem í sögu­legu sam­hengi hef­ur verið drif­in áfram af sjáv­ar­út­vegi, iðnaði, land­búnaði og orku­fram­leiðslu. Seinna meir hafa ferðaþjón­usta, þekk­ing­ar­grein­ar og skap­andi grein­ar sótt fram og skapað ný verðmæti. Stoðum ís­lenska hag­kerf­is­ins hef­ur fjölgað veru­lega síðustu miss­eri og því hef­ur lands­fram­leiðslan vaxið og gjald­miðill­inn verið nokkuð stöðugur. Smæð hag­kerf­is­ins ger­ir það að verk­um að við fram­leiðum ekki alla hluti. Af þeim sök­um þarf Ísland að reiða sig á út­flutn­ings­grein­ar og frjáls alþjóðaviðskipti. Af þeim ástæðum má bú­ast við því að sveifl­ur verði meiri hér en hjá stærri ríkj­um og verðum við að búa við það. Það er því mik­il­vægt að skuld­ir hins op­in­bera séu minni en al­gengt er í ná­granna­ríkj­un­um og gjald­eyr­is­forði meiri. Á síðasta ára­tug hef­ur þjóðin náð að snúa viðskipta­jöfnuði og er­lendri skulda­stöðu við út­lönd í já­kvæða stöðu. Hér hef­ur hag­vöxt­ur verið um­tals­vert meiri en í ná­granna­ríkj­un­um, sem hef­ur skilað sér til hag­sæld­ar fyr­ir al­menn­ing.

Nýt­um tæki­fær­in í land­fræðilegri legu okk­ar

Það fel­ast bæði tæki­færi og áskor­an­ir í land­fræðilegri legu okk­ar. Ísland gegndi lyk­il­hlut­verki í viðskipt­um á milli Græn­lands og ná­granna okk­ar á þjóðveld­is­tím­an­um. Á þess­um tíma má leiða lík­ur að því að á Íslandi hafi ríkt vel­meg­un og bera merk­ar bók­mennt­ir þjóðar­inn­ar klár­lega þess vitni. Um miðbik síðustu ald­ar hafði lega lands­ins af­ger­andi áhrif í átök­um stór­veld­anna og tengd­ist Ísland með mikl­um hraða í at­b­urðarás heims­mála og þessi teng­ing markaði af­drifa­rík spor á at­vinnu- og menn­ing­ar­líf þjóðar­inn­ar. Með því að nýta þessa staðsetn­ingu mark­visst get­ur Ísland vaxið og orðið miðstöð sam­göngu­flutn­inga, gagna­vera og skap­andi greina. Flug- og hafn­ar­mann­virki lands­ins eru lyk­ill­inn að þess­ari þróun og bein­tengja okk­ur við markaði og menn­ingu beggja vegna Atlantsála. Með því að fjár­festa í sam­göngu­innviðum þjóðar­inn­ar get­ur Ísland orðið frek­ari sam­göngumiðstöð út frá land­fræðilegri legu sinni. Mik­il­vægi norður­slóða er að aukast vegna lofts­lags­breyt­inga og því eru að opn­ast nýj­ar sigl­inga­leiðir sem gætu sett Ísland í lyk­il­stöðu fyr­ir norður­slóðaviðskipti. Sta­f­rænn heim­ur skap­ar einnig mögu­leika. Ísland býr yfir kaldri veðráttu og um­hverf­i­s­vænni orku, sem ger­ir landið að kjör­lendi fyr­ir gagna­ver. Með því að styrkja net­innviði okk­ar og efla alþjóðlega sam­vinnu um gagna­teng­ing­ar get­ur Ísland orðið miðstöð fyr­ir sta­f­ræna þjón­ustu í framtíðinni.

Tryggj­um áfram­hald­andi sjálf­stæði þjóðar­inn­ar

Full­veld­is- og sjálf­stæðis­saga Íslands ein­kenn­ist af fram­förum og lífs­kjara­sókn. Sjálf­stæð nýt­ing auðlinda okk­ar er grund­völl­ur­inn fyr­ir áfram­hald­andi vexti þjóðar­inn­ar. Mik­il­vægt er að tryggja áfram­hald­andi sjálf­stæði Íslands á sviði orku­mála, sjáv­ar­út­vegs og annarra nátt­úru­auðlinda. Í sjáv­ar­út­vegi er það for­senda sjálf­bærni að nýt­ing sé byggð á vís­inda­leg­um rann­sókn­um og að arður­inn nýt­ist sam­fé­lag­inu sem heild. Á sama hátt þarf að stýra orku­fram­leiðslu þannig að hún tryggi hag­kvæmni og um­hverf­is­vernd í senn. Reglu­verk í þess­um efn­um má ekki verða til þess að ákvörðun­ar­ferli í mála­flokkn­um verði svo þungt að það fari að bitna á tæki­fær­um lands­ins til frek­ari sókn­ar. Að sama skapi þarf að tryggja að Lands­virkj­un verði áfram að fullu í op­in­berri eigu. Hug­mynd­ir sem reglu­lega hef­ur verið fleygt fram af hægri væng stjórn­mál­anna um að selja hlut í fyr­ir­tæk­inu eru til þess falln­ar að raska hinni breiðu sam­fé­lags­legu sátt um eign­ar­hald í fyr­ir­tæk­inu.

ESB-aðild styður ekki ís­lenska hags­muni

Hag­sæld fæst ekki með um­fangs­mik­illi skatt­lagn­ingu eða með því að fela stjórn mála í hend­ur annarra. Enn verra er að blanda þessu tvennu sam­an. Sam­kvæmt gögn­um frá Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum hef­ur hag­vöxt­ur hér verið meira en helm­ingi hærri frá alda­mót­um en á evru­svæðinu. At­vinnu­leysi hef­ur jafn­framt verið hér helm­ingi minna og at­vinnu­tekj­ur að meðaltali einna hæst­ar inn­an evr­ópska efna­hags­svæðis­ins. Verðbólga hef­ur að vísu verið hér helm­ingi hærri, en bú­ast má við því að verðlag og vext­ir verði hér hærri, jafn­vel í myntsam­starfi, vegna smæðar hag­kerf­is­ins. Í Evr­ópu­sam­band­inu yrði Ísland einn hæsti nettógreiðand­inn í sam­eig­in­lega sjóði og í myntsam­starfi gæti Ísland verið að taka á sig ábyrgð á skuld­bind­ing­um þjóða sem ekki hafa verið jafn ráðdeild­ar­sam­ar og Ísland í söfn­un sam­eig­in­legra sjóða og skulda hins op­in­bera. Í vik­unni birti Evr­ópski seðlabank­inn ein­mitt ár­legt yf­ir­lit um fjár­mála­stöðug­leika þar sem varað var við fjár­laga­halla og háum skulda­hlut­föll­um inn­an svæðis­ins í sam­hengi við nei­kvæða þróun hag­vaxt­ar og framtíðar­horf­um í ljósi stefnu­mót­un­ar á þessu sviði. Bank­inn gaf jafn­framt til kynna að ef ekki yrði stefnu­breyt­ing væru horf­ur á skuldakreppu hjá ein­stök­um ríkj­um. Evr­ópu­sam­bandið stend­ur í leit­inni að hag­vexti, á meðan því hef­ur ekki verið til að dreifa á Íslandi. Við eig­um að halda áfram því góða sam­starfi sem við eig­um við Evr­ópu­sam­bandið á grund­velli EES-samn­ings­ins en ekki fara að leggja ís­lenska stjórn­kerfið und­ir í margra ára aðlög­un­ar­viðræður við ESB vit­andi að aðild þjón­ar ekki ís­lensk­um hags­mun­um. Okk­ur farn­ast best með því að stjórna okk­ur sjálf.

Framtíð Íslands er björt

Framtíð Íslands bygg­ist á því hvernig við nýt­um auðlind­ir okk­ar, land­fræðilega stöðu og mannauð. Með skýrri stefnu sem trygg­ir verðmæta­sköp­un, nýt­ingu land­fræðilegra tæki­færa og vernd­un sjálf­stæðis og auðlinda get­um við tryggt að Ísland verði áfram öfl­ug, sjálf­bær og fram­sæk­in þjóð í sí­breyti­leg­um heimi. Þannig tryggj­um við að vel­ferð og sjálf­stæði verði horn­stein­ar ís­lensks sam­fé­lags um ókom­in ár.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og odd­viti Fram­sókn­ar í Reykja­vík suður.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Geðheilbrigðismál á Ís­landi er lang­tíma­verk­efni

Deila grein

21/11/2024

Geðheilbrigðismál á Ís­landi er lang­tíma­verk­efni

Síðastliðin þrjú ár hefur markvisst verið unnið að umbótum í geðheilbrigðismálum. Stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 og aðgerðaráætlun frá 2023-2027 var samþykkt og markar þessi vinna mikilvæg skref í uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustu landsins.

Stefnan og aðgerðaráætlunin hefur haft það að markmiði að bæta geðheilbrigðisþjónustu með því að fjölga úrræðum, styrkja forvarnir og auka fræðslu. Stefnan er byggð á fjórum megin þáttum, geðrækt og forvörnum, samþættri og heildrænni þjónustu, notendasamráði og notendamiðaðri þjónustu. Nýsköpunar, þróunar, vísundum og bættu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.

Aukið fjármagn hefur verið lagt í geðheilbrigðismál á kjörtímabilinu og aðgengi hefur verið bætt. Nær tvöfalt fleiri börn hafa fengið aðgang að sálfræðiþjónustu með greiðsluþáttöku Sjúkratrygginga og þá hefur í fyrsta sinn verið opna á að fullorðnir fái niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu. Komið hefur verið á fót almennum og svæðisbundnum geðheilsuteymum á heilsugæslum um allt land og stöðugildum sálfræðinga á heilsugæslustöðvum hefur verið fjölgað úr 14 í 60. Nú þegar kominn er góður grunnur, en næsta skref er að stækka þessi teymi enn frekar. Þannig má tryggja að allir hafi aðgang að nauðsynlegum úrræðum, ekki síst á landsbyggðinni.

Geðheilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni stendur frammi fyrir mörgum áskorunum, svo sem skorti á sérfræðingum og fjarlægð milli íbúa og þjónustu. Það er því mikilvægt að viðhalda og efla þjónustuna á þessum svæðum, þar sem það er oft áskorun fyrir íbúa að nálgast aðstoð. Aukin fjárfesting í þjónustu á landsbyggðinni, auk fræðslu og stuðningur, er nauðsynleg til að tryggja að allir í landinu hafi jafnan aðgang að geðheilbrigðisúrræðum. Þetta getur falið í sér fjölgun sérhæfðra geðheilsuteyma sem jafnvel fara á milli svæða eða sveitarfélaga.

Mikilvægt er að safna gögnum um notkun geðheilbrigðisþjónustu og áhrif hennar á samfélagið. Þetta mun veita mikilvægar upplýsingar sem hægt er að nýta til að bæta þjónustuna enn frekar. Með því að efla geðheilbrigðisþjónustu, auka aðgengi og byggja upp stuðningsnet fyrir einstaklinga, má ná settu marki um betri geðheilbrigði á Íslandi.

Þó að mikilvæg skref hafi verið tekin í rétta átt, þá er enn mikið verk að vinna. Framfarir í geðheilbrigðismálum eru langtímaverkefni sem kallar á samstarf, stefnumótun og skuldbindingu frá öllum aðilum samfélagsins.

Ingibjörg Isaksen fyrsti þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Á réttri leið

Deila grein

20/11/2024

Á réttri leið

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækkaði nú í morgun vexti um 50 punkta. Vextir hafa þannig lækkað um 75 punkta á skömmum tíma. Þetta er í mjög góðum takti við það sem bæði við í Framsókn og aðrir sem leggja mat á stöðu efnahagsmála á Íslandi hafa verið að segja. Við erum sannarlega á réttri leið.

  1. Við erum með ábyrga og trausta efnahagsstefnu og verðbólga hefur lækkað í takt við spár. Aðhald í ríkisfjármálunum er nægilegt og tryggir mjúka lendingu sem þýðir í megin atriðum að ná niður verðbólgunni án þess að hér verði atvinnuleysi.
  2. Við erum með langtímakjarasamninga sem stuðla að stöðugleika og þannig hafa aðilar vinnumarkaðarins lagt sitt af mörkum.
  3. Við erum að sjá verðbólguvæntingar lækka og þær hafa ekki verið lægri síðan í byrjun árs.
  4. Gengi íslensku krónunnar er stöðugt og hefur verið að styrkjast.

Munar um minna

Til að setja þessar vaxtalækkanir í samhengi þá lækkar greiðslubyrði lána verulega. Þær lækkanir sem þegar hafa komið til framkvæmda geta sem dæmi numið tæplega 200.000 krónum á ársgrundvelli sé miðað við 30 m.kr. húsnæðislán. Sömu áhrifa gætir hjá fyrirtækjum landsins sem fjármagna sig með lánsfé. Það munar um minna.

Við erum öll sammála um það að samfélagið hefur þurft að ganga í gegnum erfiða verðbólgutíma með hærri vöxtum en við kærum okkur um í kjölfar Covid, verðbólgu sem blossaði upp um allan heim og þær áskoranir sem við höfum tekist á við í kjölfar eldsumbrota í Grindavík. Þetta verkefni hefur krafist þolinmæði og þrautseigju. Við sjáum nú til lands við þetta stærsta hagsmunamál samfélagsins alls.

Við erum í dauðafæri á að halda áfram á þessari braut. Það eru öll teikn á lofti um að vextir geti lækkað áfram. En það gerist ekki af sjálfu sér. Það krefst þess að við höldum áfram rétt á spilunum og tryggjum ábyrga, yfirvegaða og trausta hagstjórn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og fjármála- og efnahagsráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Á degi barnsins

Deila grein

20/11/2024

Á degi barnsins

Í dag höldum við upp á 35 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sáttmálans sem gjörbreytti skilningi okkar á réttindum barna. Þessi áfangi er mikilvægur tímapunktur til að horfa í baksýnisspegilinn og leggja mat á þá áfanga sem hafa náðst, en einnig nauðsynleg brýning til okkar allra um að halda áfram á vegferðinni að skapa betra samfélag fyrir öll börn.

Réttindi barna gerð að veruleika

Á undanförnum árum höfum við stigið stór skref fyrir börn og fjölskyldur á Íslandi. Lög um farsæld barna, sem tóku gildi árið 2022, marka tímamót í því hvernig þjónusta við börn er skipulögð og framkvæmd. Með lögunum er tryggt að öll börn með stuðningsþarfir fái sérstakan tengilið sem styður við þau og fjölskyldur þeirra með einstaklingsmiðaðri og samþættri þjónustu.

Við höfum lengt fæðingarorlof úr níu mánuðum í tólf og hækkað hámarksgreiðslur. Ég er einstaklega stoltur af þessum áfanga sem styður foreldra í því að sinna því allra mikilvægasta í lífinu. Jafnframt leggur þessi breyting sitt af mörkum til að jafna stöðu foreldra á vinnumarkaði og stuðlar þannig að auknu jafnrétti í íslensku samfélagi. Eins höfum við gert gjaldfrjálsar skólamáltíðir að veruleika fyrir grunnskólabörn, sem er annað mikilvægt skref í átt að jafnræði.

Á sviði menntunar höfum við lagt sérstaka áherslu á að styrkja grunnstoðir skólastarfs um land allt og tryggja að skólaþjónusta sé jöfn og samræmd óháð búsetu. Með því að fjölga verkfærum og stuðningi sem skólasamfélagið getur nýtt sér og innleiða samræmt matskerfi námsárangurs höfum við skapað traustari umgjörð fyrir menntun barna og ungmenna. Nýtt samræmt verklag fyrir menntun barna með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn tryggir börnum jöfn tækifæri til náms og félagslegrar þátttöku. Auk þess höfum við aukið aðgengi að verknámi um allt land, sem opnar nýjar dyr fyrir fjölbreyttari námsleiðir. Framkvæmdir til að bæta aðstöðu í framhaldsskólum víða um land, þar á meðal í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Verkmenntaskólanum á Akureyri, marka tímamót í starfsnámi. Þessar umbætur eru ekki aðeins fjárfesting í menntakerfinu heldur einnig í framtíð ungs fólks og samfélagsins alls.

Geðheilbrigði ungmenna hefur verið stórt mál á kjörtímabilinu. Með stuðningi við úrræði á borð við Bergið Headspace hefur geðheilbrigðisþjónusta verið efld, með áherslu á snemmtæk inngrip. Að auki hefur sérstök ráðgjöf verið sett á laggirnar fyrir börn og ungmenni sem eiga foreldra með geðrænan vanda, með það að markmiði að draga úr líkum á að áföll í fjölskyldum hafi langvarandi áhrif. Verkefnið Samvinna eftir skilnað býður nú upp á stafrænt námsefni sem hjálpar foreldrum að setja þarfir barna í forgrunn við breytingar á fjölskylduaðstæðum. Þar að auki er unnið er að innleiðingu námskeiðanna Tengjumst í leik í samstarfi við leik- og grunnskóla, með það að marki að styðja foreldra í uppeldishlutverki sínu.

Árangur sem við getum verið stolt af

Það er ljóst að réttindi barna og málefni sem þeim tengjast krefjast langtímasýnar, víðtækra lausna og aðgerða sem taka á flóknum áskorunum. Þess vegna er ánægjulegt að sjá að niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar 2024, gefa skýrar vísbendingar um að stefna og aðgerðir síðustu ára séu þegar að skila árangri.

Ný gögn sýna að 90% barna lýsa heilsu sinni sem mjög góðri, og lífsánægja barna hefur aukist úr 74% árið 2018 í 81% árið 2022. Tíðni eineltis hefur minnkað verulega, sérstaklega í 10. bekk, þar sem hlutfall barna sem segjast upplifa einelti er nú 4%. Í skólum segjast meir en 85% barna líða vel, og 90% þeirra telja mikilvægt að leggja sig fram í námi. Þá eru slagsmál meðal ungmenna á undanhaldi, og hnífaburður meðal barna í þeim tilgangi að nota sem vopn mælist 0,7%.

Áfram veginn

Barnasáttmálinn kennir okkur að samfélög sem leggja áherslu á réttindi barna séu samfélög sem uppskera ríkulega. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra – barna, foreldra, fagfólks og stjórnvalda, að tryggja að réttindi barna séu ekki aðeins orð á blaði heldur hluti af daglegu lífi. Við erum komin vel af stað á þeirri vegferð, en eigum enn verk að vinna.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Ný Ölfusár­brú – skyn­sam­legt val fyrir fram­tíðina

Deila grein

20/11/2024

Ný Ölfusár­brú – skyn­sam­legt val fyrir fram­tíðina

Í dag eru stór tímamót í sögu samgangna á Suðurlandi þegar fyrsta skóflustunga verður tekin að nýrri Ölfusárbrú sem mun bæta lífsgæði, auka umferðaröryggi og greiða fyrir flæði í einu af lykilsamgöngusvæðum landsins. Hönnun brúarinnar byggir á ítarlegri greiningu og hún er talin hagkvæmasti kosturinn. Brúin tekur mið af náttúrulegum aðstæðum, þar á meðal flóðahættu í Ölfusá, hættu á ísstíflum og jarðskjálftum, þar sem burðarformið er vel til þess fallið að mæta slíku álagi. Nýja Ölfusárbrúin mun gjörbylta umferð um Suðurland, bæta umferðaröryggi og draga úr umferðartöfum og mengun á Selfossi.

Brú ekki sama og brú

Áætlaður kostnaður Ölfusárbrúarinnar sjálfrar er um 8,4 milljarðar króna, en heildarkostnaður með tengdum vegaframkvæmdum nemur 17,9 milljörðum króna. Framkvæmdirnar verða fjármagnaðar með veggjöldum án þess að hafa áhrif á önnur verkefni samgönguáætlunar. ÞG Verk var valið til að sjá um hönnun, byggingu og fjármögnun brúarinnar og tekur verkið mið af samvinnuverkefnismódeli (PPP), þar sem einkaaðilar bera ábyrgð á útfærslu og fjármögnun framkvæmdar. Það sýnir hvernig samvinna stjórnvalda og einkaaðila getur flýtt fyrir mikilvægum framkvæmdum og við sjáum Hringveginn loks færast út fyrir þéttbýlið á Selfossi.

Einhverjir hafa dregið í efa ákvörðun Vegagerðarinnar um stagbrú og látið í veðri vaka að lítil brú gæti hentað vatnsmestu á landsins. Þá gleymist að við glímum við náttúrulegar aðstæður þar sem hætta er á flóðum, ísstíflum og jarðskjálftaálagi. Ný brú þarf að standast slíkt álag af náttúrunnar hendi og reyndist stagbrú hagkvæmasti kosturinn eftir ítarlega greiningu á náttúrulegum aðstæðum.

Bylting

Núverandi brú hefur þjónað okkur vel í tæp 80 ár og staðist áskoranir náttúruaflana. Með aukinni umferð, sem nú er 14.500 ökutæki á dag, er kominn tími á að lyfta grettistaki. Samhliða fjölgun íbúa og ferðamanna er ljóst að þörfin fyrir nýja brú er brýn. Þessi framkvæmd mun koma á langþráðum úrbótum og verða bylting fyrir okkur öll.

Nýja Ölfusárbrúin verður 330 metra löng stagbrú með 60 metra háum turni á Efri-Laugardælaeyju. Á brúnni verða aðskildar akstursstefnur ásamt göngu- og hjólaleiðum, bæði yfir og undir brúnni. Brúin er framtíðarlausn sem tekur mið af vaxandi umferðarþunga og hönnuð þannig að hún geti borið fjórar akreinar gerist þess þörf.

Framtíðarsýn

Væntingar voru um að framkvæmdir gætu hafist fyrr. Á meðan hefur umferð um svæðið vaxið hratt, kostnaður hækkað og þörfin fyrir nýja brú verður æ brýnni. Undirbúningur verksins hófst formlega þegar ég kom inn í samgönguráðuneytið árið 2018. Allt frá þeim tíma hefur Vegagerðin unnið að rannsóknum og forhönnum með vönduðum hætti. Þegar ég tók við í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í vor lagði ég mikla áherslu á að hraða lokaferlinu sem tengdist útfærslu á fjármögnun verksins. Með góðu samstarfi hefur tekist að vinna úr flóknum áskorunum. Þessi reynsla mun verða dýrmæt í stjórnkerfinu í framtíðinni þegar sambærileg verkefni koma á dagskrá. Nú hafa framkvæmdir loks fengið grænt ljós og bíðum nú spennt eftir að verða vitni að þeim framförum sem þetta mikilvæga samgöngumannvirki mun hafa í för með sér.

Þetta verkefni er ekki aðeins stórt framfaraskref fyrir Suðurland heldur líka tákn um hvernig samvinna og metnaður geta leitt til stórkostlegra umbóta í samfélaginu. Hún verður mikilvæg fyrir lífsgæði íbúa og gesta og stórt skref í þróun innviða. Þetta er tímamótaverkefni fyrir Suðurland og landið allt – glæsilegt mannvirki sem eykur öryggi og bætir samfélagið. Til hamingju.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, innviðarráðherra og fjármála-og efnahagsráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. nóvember 2024.