Categories
Fréttir

Eldhúsdagsumræður: Þórarinn Ingi

Deila grein

11/06/2025

Eldhúsdagsumræður: Þórarinn Ingi

Ræða Þórarins Inga Péturssonar, alþingismanns, í eldhúsdagsumræðum á Alþingi miðvikudaginn 11. júní 2025:

Kæru landsmenn!

Jónas Jónsson frá Hriflu var einn áhrifamesti stjórnmálamaður og hugsuður Íslands á sinni tíð.  Honum hefur verið lýst sem eldheitum samvinnumanni. Hann trúði því statt og stöðugt að þjóðin næði mestum árangri þegar við stæðum saman og byggðum á þeim gildum sem sameina okkur sem heild. Samvinnuhugsjónin hefur alltaf verið leiðarljós okkar Íslendinga og nú þurfum við á henni að halda meira en nokkru sinni fyrr.

Sannleikurinn er sá að Ísland hefur í aldanna rás verið ein heild þar sem við höfum unnið saman og þess vegna náð árangri sem þjóð. Þessu verðum við að halda áfram.  

Ísland er meira en Reykjavík eða höfuðborgarsvæðið. Þrátt fyrir að Ísland sé fámennt land, er það meira en tvisvar sinnum stærra að flatarmáli en Danmörk. Þetta er mikil áskorun. Samgöngur, innviðir og þjónusta hins opinbera um allt land er dýr. En þetta þýðir um leið að þvert á landshluta býr fólk, sem skapar og leggur grunninn að verðmætasköpun þjóðarinnar, oft í hundruða kílómetra fjarlægð hvert frá öðru.

Landið allt – allir með.

En hver er staðan í dag? Erum við öll í sama liði? Er verkstjórn Kristrúnar Frostadóttur að sameina þjóðina? Stutt svar: NEI. Því miður. En við getum gert betur. Höldum áfram.  

Án auðlinda landsins og sjálfbærrar nýtingar þeirra í öllum landshlutum byggjum við ekki að þeirri hagsæld sem ríkt hefur á Íslandi frá lýðveldisstofnun. Við megum aldrei gleyma því að sjávarútvegurinn hefur skapað verðmæti sem allir Íslendingar njóta góðs af. Við getum deilt um umfang gjaldtöku og skattlagningar á atvinnuvegi, en enginn getur deilt um þau verðmæti sem hafið í kringum landið veitir samfélaginu sem heild.

Sama á við um landbúnaðinn okkar, matvælaframleiðslu, iðnaðinn, menninguna og síðast en ekki síst ferðaþjónustuna, sem nú nýtir nánast öll svæði landsins, alla þessa 103 þúsund ferkílómetra, til verðmætasköpunar. Öll þessi svið hagkerfisins mynda eina heild – hagkerfi sem er eins sterkt og veikasti hlekkurinn. Við verðum að styrkja þessa hlekki saman.

Og í ljósi alþjóðamála hefur sjaldan verið mikilvægara að Ísland geti treyst á eigin framleiðslu þegar kemur að matvælum. Við þurfum því algerlega nýja hugsun í matvælaframleiðslu sem tryggir fæðuöryggi þjóðarinnar. Það að geta verið okkur sjálfum nóg, jafnvel þegar utanaðkomandi aðstæður eru erfiðar, er lykilatriði.

Við þurfum því að styðja markvisst við rannsóknir og þróun í matvælaframleiðslu með áherslu á sjálfbærni, nýsköpun og umfram allt skilvirkni. Síðast en ekki síst þurfum við kerfislæga breytingu sem tryggir að ungt fólk hafi möguleika á að hefja búskap, kaupa jarðir og taka þátt í endurnýjun og þróun íslensks landbúnaðar. Þess vegna hefur Framsókn mótað hugmyndir um að styðja við jarðakaup ungs fólks sem er tilbúið að sýna frumkvæði, taka áhættu og fjárfesta eigin tíma í að búa til verðmæti – fyrir okkur öll. Við köllum hugmyndina Nýjar rætur.

Og þegar við segjum „Landið allt – allir með“ þá þýðir það við verðum að tryggja jafnt aðgengi að þjónustu um allt land. Öryggismál þjóðarinnar geta ekki aðeins snúist um höfuðborgarsvæðið. Heilbrigðisþjónusta, menntun og samgöngur eru ekki forréttindi fárra – heldur réttindi allra Íslendinga, hvar sem þeir búa.  

Kæru landsmenn.

Ég byrjaði ræðu mína á tilvísun til Jónasar frá Hriflu. Hans grunnstef í lífinu var menntun, samvinna og þjóðleg sjálfsvirðing. Og þegar við stöndum saman höfum við sannað hvað við getum afrekað. Við þurfum hvert á öðru að halda – fólk á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu – ungir og þeir sem eldri eru. Þrátt fyrir þær áskoranir sem bíða okkar getum við saman haldið áfram að byggja upp betra land á grunni samstöðu og samvinnu. Fyrir það stendur Framsókn.

Landið allt – allir með.

Góðar stundir.

***

Categories
Fréttir

Ríkisstjórnin bregst landsbyggðinni

Deila grein

09/06/2025

Ríkisstjórnin bregst landsbyggðinni

Það er með ólíkindum hvernig ríkisstjórnin hefur hagað sér í málinu um uppbyggingu verkmenntaskóla á landsbyggðinni. Hér er ekki um smáframkvæmd að ræða heldur verkefni sem hefur verið undirbúið árum saman með dyggu samstarfi ríkis og sveitarfélaga, verkefni sem átti að tryggja að íslenskt atvinnulíf fengi það iðnmenntaða starfsfólk sem það sárlega vantar.

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, hóf umræðuna á Alþingi. Hann vakti athygli á því að verkefnið væri í uppnámi, verkefni sem var ætlað að fjölga iðnmenntuðu fólki og styrkja landsbyggðina. En ríkisstjórnin ákvað, að því er virðist í skjóli nætur, að hliðra fjármagni verkefnisins til næsta árs. Enginn skólameistari fékk tilkynningu, enginn bæjarstjóri fékk símtal, enginn skólanefndarmaður fékk tölvupóst. Sveitarfélögin sitja eftir í forundran.

„Þetta er algjörlega blaut tuska í andlitið,“ segir Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir starfandi bæjarstjóri í Reykjanesbæ. Hún lýsti því hvernig sveitarfélagið hafði staðið sína plikt, lagt fram sinn 40% kostnaðarhlut, gert ráð fyrir fjármagni í fjárhagsáætlun, en ríkisstjórnin svaraði með þögn. Á Ísafirði segir Sigríður Júlía Brynleifsdóttir bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar þetta vera „fyrir neðan allar hellur“ og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrarbæjar segir þetta koma „mjög á óvart og mjög í opna skjöldu.“

Ríkisstjórnin hefur nú slaufað verkefninu, sem var samkomulag um og fjármögnun samþykkt af Alþingi. Sveitarfélögin sitja uppi með biðlista sem telur 800-1.000 ungmenni sem komast ekki að í verknámi. Nemendur sem þurfa á iðnmenntun að halda fá ekkert nema gámakennslu. Þau bíða eftir menntun sem átti að vera lykillinn að framtíð þeirra, en ríkisstjórnin frestar framtíðinni af miklum hroka.

Það var ekki bara samkomulag um fjármögnun. Það voru teikningar á borðinu, verkefni í stjórnsýslu, sveitarfélögin voru tilbúin með sinn hlut fjármögnunar. Þau sýndu ábyrgð og útsjónarsemi, en ríkisstjórnin sýndi skeytingarleysi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, komst vel að orði: „Það eru allir forviða á því að það eigi að fara að forgangsraða upp á nýtt.“ Það er ekki hægt að byggja upp atvinnulíf með því að taka peningana út úr samfélaginu þegar þeirra er sárlega þörf. Það er ekki hægt að byggja upp traust þegar sveitarfélögin fá ekki einu sinni tilkynningu um svona stórar ákvarðanir.

Húsnæðið er sprungið. Biðlistarnir lengjast. Það er reiði í sveitarfélögunum. Nemendurnir eru í lausu lofti. Þetta er ekki bara vanræksla heldur alvarleg atlaga að framtíð landsbyggðarinnar. Þetta er lýsandi dæmi um ríkisstjórn sem kýs að fresta framtíðinni frekar en að byggja hana upp.

Ábendingar til Alþingis

Við skorum á Alþingi allt, stjórnarþingmenn jafnt sem stjórnarandstöðu, að grípa inn í málið af fullri alvöru. Það þarf að tryggja að verkmenntaskólarnir fái nauðsynlegt fjármagn strax á þessu ári svo hægt sé að hefja framkvæmdir þegar í stað.

Það þarf líka að tryggja skýra, gegnsæja upplýsingagjöf milli ráðuneyta, sveitarfélaga og skólastjórnenda svo að samvinna haldist. Það þarf að hlusta á sveitarfélögin sem hafa sýnt ábyrgð og lagt sitt af mörkum.

Verkmenntaskólarnir eru ekki bara hús með gluggum og hurðum. Þeir eru lykill að því að fjölga iðnmenntuðu fólki í atvinnulífinu, efla samfélögin á landsbyggðinni og tryggja að fjölbreytt samfélag fái að dafna. Þeir eru verkefni okkar allra og við eigum ekki að láta þá standa eftir í gámum eða biðlistum. Við eigum að byggja framtíðina saman.

Categories
Fréttir Greinar

Damóklesarsverð ríkisstjórnarinnar

Deila grein

09/06/2025

Damóklesarsverð ríkisstjórnarinnar

Horf­ur í heims­bú­skapn­um versna sam­kvæmt nýj­ustu hagspá Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar (OECD). Fjög­ur meg­in­at­riði valda þess­ari þróun: aukn­ar viðskipta­hindr­an­ir, hærri fjár­mögn­un­ar­kostnaður, minni vænt­ing­ar neyt­enda og fyr­ir­tækja, og veru­leg óvissa í efna­hags­mál­um. Gert er ráð fyr­ir að hag­vöxt­ur á heimsvísu lækki úr 3,3% árið 2024 í 2,9% árin 2025 og 2026. Í Banda­ríkj­un­um er spáð mestri lækk­un hag­vaxt­ar, úr 2,8% í 1,6% milli ár­anna 2024 og 2025. Á evru­svæðinu er bú­ist við 1% hag­vexti árið 2025. Sam­drátt­ur blas­ir einnig við í Kína.

Í slíkri óvissu er brýnt að rík­is­stjórn­in sýni styrk og for­ystu með því að skapa hag­felld skil­yrði fyr­ir verðmæta­sköp­un, sem stuðla að aukn­um hag­vexti og minni óvissu. Einnig er mik­il­vægt að stjórn­völd sýni gott for­dæmi á vinnu­markaði og að laun ráðherra og kjör­inna full­trúa fylgi þróun al­menns vinnu­markaðar. Því miður virðist rík­is­stjórn­in gera hið gagn­stæða: hún eyk­ur óvissu með skatta­hækk­un­um á lyk­ilút­flutn­ings­grein­ar og hækk­ar eig­in laun um­fram það sem gild­ir bæði á al­menn­um og op­in­ber­um vinnu­markaði.

Í skýrslu OECD seg­ir að auðlinda­skatt­ar, þar með tal­in hækkuð veiðigjöld og ný komu­gjöld á ferðaþjón­ustu, muni styðja við sjálf­bæra nýt­ingu nátt­úru­auðlinda. Þessu fylgja þó eng­in rök eða út­skýr­ing­ar. Þá er einnig lagt til að und­anþágur frá virðis­auka­skatti verði af­numd­ar og ferðaþjón­ust­an nefnd. Ekki kem­ur skýrt fram hvort ís­lensk stjórn­völd hafi til­kynnt OECD áform um bæði hækk­un virðis­auka­skatts og komu­gjöld í ferðaþjón­ustu, en slík­ar til­lög­ur eru tíðar í ráðgjöf alþjóðastofn­ana, jafn­vel þótt meðaltal virðis­auka­skatts í Evr­ópu á ferðaþjón­ustu sé 12%. Ef af þess­um aðgerðum verður má bú­ast við að það dragi úr hvata til fjár­fest­inga.

Stöðug­leiki á vinnu­markaði skipt­ir sköp­um fyr­ir hag­sæld sam­fé­lags­ins. Þrátt fyr­ir að 5,6% launa­hækk­un æðstu ráðamanna sé úr takt við þróun á al­menn­um og op­in­ber­um vinnu­markaði hef­ur rík­is­stjórn­in ákveðið að hún skuli standa – sem er galið. Nú­ver­andi for­sæt­is­ráðherra tjáði sig ein­mitt um álíka stöðu og nú er uppi, þá í stjórn­ar­and­stöðu: „Það er mín skoðun að þetta gangi ekki upp. Þetta eru kol­röng skila­boð til vinnu­markaðar­ins.“ Þetta var hár­rétt mat hjá þing­mann­in­um. Síðasta rík­is­stjórn passaði að laun æðstu ráðamanna fylgdu þróun al­menns vinnu­markaðar. Já, laun­un­um var hand­stýrt til að skapa skil­yrði fyr­ir lang­an kjara­samn­ing vorið 2024. Þá var leitt með for­dæmi – nú eru send röng skila­boð.

Efna­hags­stefna rík­is­stjórn­ar Kristrún­ar Frosta­dótt­ur er að koma í ljós og lof­ar því miður ekki góðu fyr­ir ís­lenskt hag­kerfi til framtíðar. Von­ir stóðu til að megin­áhersla yrði á hag­vöxt og stöðug­leika, en í staðinn virðist hag­kerfið nú þurfa að lifa við sí­fellda óvissu og ótt­ann við Damók­les­ar­sverð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. júní 2025.

Categories
Fréttir

„Við megum ekki höggva fót af hesti sem þarf að hlaupa hraðar“

Deila grein

06/06/2025

„Við megum ekki höggva fót af hesti sem þarf að hlaupa hraðar“

„Við megum ekki höggva fót af hesti sem þarf að hlaupa hraðar,“ sagði Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, í störfum þingsins, vegna umræðu um fjármögnun verkmenntaskóla á landsbyggðinni. Í umræðunni hefur komið fram að ríkisstjórnin hafi ákveðið að slaufa fjárfestingu í þessum mikilvægu skólum, þar á meðal Fjölbrautaskóla Suðurnesja, sem er annar fjölmennasti framhaldsskóli landsins utan höfuðborgarsvæðisins.

„Nú er ljóst að ekki verður af fjárfestingu í verkmenntaskólum landsbyggðarinnar, eins og fjallað hefur verið um hér í vikunni. En málið er gríðarlega alvarlegt, sérstaklega fyrir skóla eins og Fjölbrautaskóla Suðurnesja,“ sagði Halla Hrund. Hún benti á að þar hafi verið unnið metnaðarfullt starf og að skólinn hafi verið útnefndur fyrirmyndarstofnun níu sinnum á síðastliðnum 11 árum auk þess sem nemendur hafi ítrekað unnið til verðlauna.

Í ræðu sinni lagði Halla Hrund áherslu á að skólinn sé staðsettur á svæði sem hefur orðið fyrir miklum fólksfjölgun undanfarin ár og þar sem hlutfall erlendra íbúa er hátt, yfir 90 tungumál eru töluð í Reykjanesbæ. „Við erum að tala um svæði sem er með lægra menntunarstig en annars staðar á landinu,“ sagði hún.

Halla Hrund sagði einnig að menntun væri lykillinn að framtíð svæðisins. „Menntun dregur fólk saman, hún eflir færni, hún eflir íslensku og hún er líka nauðsynleg fyrir Suðurnesin þar sem eru gríðarleg tækifæri í atvinnuþróun í orku-, ferðamálum og öðru. Menntun verður að fylgja með þegar við erum að horfa á framtíð þessa svæðis. Það er mikilvægt fyrir okkur öll,“ sagði hún.

Halla Hrund gagnrýndi harðlega ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að slaufa fjármögnuninni. „Með því að fresta fjármagni hér þá er verið að vega að skóla á einu af tekjulægstu svæðum landsins. Við eigum heldur að verðlauna Fjölbrautaskóla Suðurnesja og skilja hlutverk hans í miklu breiðara samhengi fyrir svæðið allt og fyrir Ísland,“ sagði hún að lokum.

Categories
Fréttir

Verkmenntaskólarnir sprungnir – 800-1.000 nemendur komast ekki að

Deila grein

05/06/2025

Verkmenntaskólarnir sprungnir – 800-1.000 nemendur komast ekki að

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, lagði í ræðu á Alþingi áherslu á að brýnt væri að ráðast tafarlaust í stækkun verkmenntaskóla víða um land. Hann benti á að 800–1.000 einstaklingar sæktust eftir inngöngu í verknám en kæmust ekki að vegna þess að aðstaða skólanna væri sprungin.

„Við fórum í átak til að auka áhuga á verknámi, enda mikil þörf á iðnmenntuðu starfsfólki. Átakið virkaði, en nú bíða 800–1.000 einstaklingar eftir inngöngu vegna þess að skólarnir ráða ekki við álagið,“ sagði Stefán Vagn.

Hann benti á að fjármögnun hefði þegar verið tryggð að hluta og að samkomulag hefði náðst við sveitarfélög um þeirra hlut. Nú hefði hins vegar verið ákveðið að færa fjármagn út með fjáraukalögum.

„Ég spyr hvort ráðherra sé ekki sammála því að þetta sé bagalegt, þegar ljóst er hversu mikilvægt þetta er fyrir íslenskt atvinnulíf,“ sagði Stefán Vagn að lokum.

Mennta- og barnamálaráðherra sagði í svari sínu að fjármagni hefði verið „hliðrað“ yfir á næsta ár en kom ekki beint að því hvort ráðast ætti tafarlaust í framkvæmdir.

Categories
Fréttir Greinar

Á­hrif veiði­gjalda ná út fyrir at­vinnu­greinina

Deila grein

05/06/2025

Á­hrif veiði­gjalda ná út fyrir at­vinnu­greinina

Sjávarútvegur hefur verið lykilstoð í atvinnulífi Hornafjarðar í áratugi og gegnir þar ómetanlegu hlutverki í að tryggja stöðugleika, verðmætasköpun og búsetu. Með tilkomu hátækni, bættrar nýtingar og nýsköpunar, hefur greinin þróast hratt og skapað ný tækifæri.

Sjávarútvegurinn stendur nú frammi fyrir áskorunum, ekki síst vegna fyrirhugaðrar hækkunar veiðigjalda. Áforn ríkisstjórnarinnar hafa vakið áhyggjur, sérstaklega í minni samfélögum þar sem atvinnulífið byggir að stórum hluta á sjávarútvegi. Á Hornafirði skapar sjávarútvegurinn ekki aðeins bein störf við veiðar og vinnslu, heldur einnig fjölda afleiddra starfa í flutningum, þjónustu, viðhaldi og tækniþróun. Þessi störf eru mikilvægur burðarás í samfélaginu og gríðalega mikilvæg fyrir áframhaldandi uppbyggingu, þróun og búsetu í sveitarfélaginu.

Sveitarfélagið Hornafjörður hefur í umsögn sinni um frumvarpið skorað á stjórnvöld að:

  • Fresta frekari afgreiðslu frumvarpsins þar til ítarlegt áhrifamat liggur fyrir.
  • Tryggja raunverulegt samráð við sveitarfélög áður en ákvörðun er tekin.
  • Innleiða breytingar í áföngum, ef af þeim verður, til að vernda byggðafestu og atvinnulíf á landsbyggðinni.

Í umsögn bæjarráðs kemur jafnframt fram að frumvarpið, í núverandi mynd, fullnægi hvorki kröfum um lög og góðar stjórnsýsluvenjur né stuðli að jafnvægi í byggðaþróun á Íslandi.

Á Hornafirði er vilji til framtíðaruppbyggingar og nýsköpunar í sjávarútvegi, en slík þróun krefst öflugs samspils fyrirtækja, stjórnvalda og samfélagsins. Það er því brýnt að ákvarðanir sem snerta grunnstoðir atvinnulífs í sjávarbyggðum séu teknar af ábyrgð, með skýru samráði og markmiðum um jafnvægi og framtíðarhugsun.

Ásgerður Kristín Gylfadóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar í Sveitarfélaginu Hornafirði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. júní 2025.

Categories
Greinar

Veiðigjöld ógn við sjávarbyggðir

Deila grein

05/06/2025

Veiðigjöld ógn við sjávarbyggðir

Frum­varp til breyt­inga á lög­um um veiðigjald hef­ur nú verið lagt fyr­ir Alþingi. Því miður hef­ur það verið gert án nægi­legs sam­ráðs við þau sveit­ar­fé­lög sem kunna að verða fyr­ir mest­um af­leiðing­um — sjáv­ar­út­vegs­sveit­ar­fé­lög­in. Við í Suður­nesja­bæ höf­um lýst mikl­um áhyggj­um yfir þessu ferli sem við telj­um bæði ófull­nægj­andi og að sumu leyti ábyrgðarlaust.

Við tök­um und­ir að auðlind­ir í þjóðar­eigu eigi að vera nýtt­ar á sann­gjarn­an hátt og að rétt sé að greiða fyr­ir af­not af þeim. Hins veg­ar má ekki gleyma því að sjáv­ar­út­veg­ur er burðarstoð í at­vinnu­lífi margra bæj­ar­fé­laga víðs veg­ar um landið. Í Suður­nesja­bæ eru fisk­veiðar og fisk­vinnsla gríðarlega mik­il­væg­ar at­vinnu­grein­ar – þær vega um 14% í út­svars­grunni bæj­ar­ins sam­kvæmt grein­ingu KPMG. Þar fyr­ir utan eru fjöl­mörg störf og þjón­usta sem byggj­ast beint eða óbeint á sjáv­ar­út­vegi. Þetta skipt­ir sam­fé­lagið hér miklu máli.

Við gagn­rýn­um harðlega að þegar frum­varpið var kynnt voru eng­ar grein­ing­ar á áhrif­um þess á sveit­ar­fé­lög lagðar fram af hálfu rík­is­ins – þvert á það sem lög­in kveða á um. Í 129. grein sveit­ar­stjórn­ar­laga seg­ir skýrt að slík áhrif þurfi að liggja fyr­ir þegar frum­vörp eru lögð fram sem snerta hags­muni sveit­ar­fé­laga.

Við höf­um ít­rekað bent á þetta – bæði í fyrri um­sögn­um og nú á ný. Sam­tök sjáv­ar­út­vegs­sveit­ar­fé­laga hafa þurft að grípa til þess ráðs að fá ut­anaðkom­andi aðila til að greina áhrif­in þar sem ríkið hef­ur ekki sinnt skyld­um sín­um. Þetta er ekki ásætt­an­legt. Og þrátt fyr­ir lof­orð í stefnu­yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­inn­ar um bætt sam­ráð og stuðning við dreifðar byggðir hef­ur það sam­ráð ekki átt sér stað í þessu máli.

Við hvetj­um Alþingi ein­dregið til að staldra við. End­ur­skoðið frum­varpið. Takið mark á gögn­un­um og talið við okk­ur – þau sveit­ar­fé­lög sem lifa og hrær­ast í þeirri at­vinnu­grein sem verið er að leggja aukn­ar byrðar á. Við vilj­um öfl­ugt sam­fé­lag með fjöl­breyttu at­vinnu­lífi en til þess þarf að tryggja stöðug­leika og rétt­láta meðferð í laga­setn­ingu.

Þetta er ekki aðeins bar­átta um krón­ur og aura – þetta snýst um framtíð byggða, störf fólks og traust á stjórn­sýslu.

Anton Guðmundsson, odd­viti Fram­sókn­ar­flokks­ins í Suður­nesja­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. júní 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Heil­brigðisþjónusta í heima­byggð – loksins orðin að veru­leika

Deila grein

05/06/2025

Heil­brigðisþjónusta í heima­byggð – loksins orðin að veru­leika

4. júní 2025 markaði stór tímamót fyrir okkur í Suðurnesjabæ, því þá opnaði ný heilsugæsla í Vörðunni í Suðurnesjabæ. Þetta er árangur sem margir hafa beðið eftir lengi og sannar að samvinna, staðfesta og skýr forgangsröðun skilar raunverulegum árangri fyrir samfélagið okkar.

Frá fyrsta degi höfum við í Framsóknarflokknum barist fyrir því að bæta heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Okkar sýn hefur verið skýr: Fólk á rétt á góðri þjónustu, sama hvar það býr. Eftir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2022 hófum við tafarlaust samtal við Willum Þór Þórsson, þáverandi heilbrigðisráðherra, sem og þingmenn Framsóknar í Suðurkjördæmi. Þau tóku vel í málið og sýndu því þann skilning sem það átti skilið, meðal annars með þingsályktunum.

Það samtal leiddi til viljayfirlýsingar sem var undirrituð 30. ágúst 2024 af þáverandi heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórssyni. Þar var markmið okkar skýrt: að opna nýja heilsugæslu fyrir 1. maí 2025. Þótt opnunin drægist um skamman tíma, var markmiðinu í raun náð – því nú í júní 2025 er heilsugæslan opin og tilbúin að veita íbúum þá þjónustu sem þeir eiga rétt á.

Það er staðföst trú mín að samtal á milli sveitarstjórnarmanna, þingmanna og ráðherra skipti gríðarlega miklu máli. Við, sem störfum í sveitarstjórn, erum í nánum tengslum við byggðarkjarnana og þekkjum þarfir heimafólks betur en margir. Þess vegna er mikilvægt að við miðlum því sjónarhorni áfram inn í landsmálin – svo allir rói í sömu átt.

Ég vil líka sérstaklega þakka þeim sem hafa staðið með okkur í þessu mikilvæga verkefni: þingmönnum og ráðherrum Framsóknarflokksins fyrir öfluga liðveislu og skilning, Guðlaugu Rakel Guðjónsdóttur, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, fyrir faglega og drífandi forystu, og Magnúsi Stefánssyni, bæjarstjóra, fyrir eindreginn stuðning. Allt þetta fólk lagði sitt af mörkum til að verkefnið gæti raungerst með skjótum hætti.

Stefna Framsóknarflokksins í heilbrigðismálum undirstrikar vel þá sýn sem við höfum haldið á lofti:

„Heilbrigðiskerfið er hornsteinn samfélagsins og byggir undir hagsæld þjóðarinnar. Framsókn leggur áherslu á að tryggja jafnt og tímanlegt aðgengi að öflugri heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og búsetu.“

Með opnun heilsugæslunnar í Vörðunni í Suðurnesjabæ erum við að sjá þessa stefnu verða að veruleika. Þetta er ekki bara sigur fyrir Framsókn – þetta er sigur fyrir allt samfélagið okkar í Suðurnesjabæ.

Við í Framsókn trúum á samvinnu, ábyrgð og árangur. Og við munum halda áfram að vinna af heilindum fyrir bæjarbúa – því verkefnin eru fleiri og framtíðin björt þegar við vinnum saman.

Til hamingju með þennan áfanga, kæru íbúar Suðurnesjabæjar.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. júní 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ríkið tekur – landsbyggðirnar fá minna

Deila grein

04/06/2025

Ríkið tekur – landsbyggðirnar fá minna

Óvissa, sundurlyndi og uggur einkennir umræðuna um hækkun veiðigjalda. Þar sem hún mun hafa mest áhrif. Vilji ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur er skýr um að gjöldin skuli hækka. Og um það virðist stór hluti þjóðarinnar sammála. Að í sameiginlega sjóði renni með beinum hætti aukin renta af fiskveiðiauðlindinni. En það hvernig þessum réttlætisskatti skal komið á er önnur saga. Markmiðið virðist vera að ná meira af þeim fyrirtækjum sem hafa það best og mest en stefnir í að hafa mest áhrif á þau fyrirtæki sem síst geta brugðist við á svo skömmum tíma. Tilraun til að jafna tekjumun sem mun leiða til aukinnar samþjöppunar og einhæfni, draga úr nýsköpun til skemmri tíma með alvarlegum afleiðingum á minni byggðarlög. Því hvaða fyrirtæki eða útgerðir eru líklegust til að geta keypt minni fyrirtæki eða útgerðir. Umræðan má ekki hverfast aðeins um þann stærsta og hinn minnsta heldur allt þar á milli.

Raufarhöfn

Skilningur á mikilvægi sjávarútvegs í mörgum sjávarplássum, líkt og Raufarhöfn, virðist vera takmarkaður hjá þeim ráða för. Enn síður um þau afleiddu störf sem styðja þessa mikilvægu atvinnugrein. Þar sem sjávarútvegur og fiskvinnsla er grunnurinn að öðru atvinnulífi. En mest öll þjónusta á Raufarhöfn er háð þessum eina stóra vinnustað í kaupstaðnum. Það eitt og sér er ekki eftirsótt ábyrgð að bera. Staðan er engu að síður þannig. Í frystihúsinu á Raufarhöfn, þessu nyrsta kauptúni sem lengst er frá þjónustumiðju ríkisins, starfa um 35 einstaklingar. Þeirri aðferðafræði sem nú er beitt, að keyra hækkun veiðigjalda í gegn skapar óvissu um þessi störf, um stærsta vinnustaðinn. Ekki hefur gengið vel að fá ríkisvaldið til að klára verkefni og fjárfesta í innviðum eins og Heimskautsgerði eða opinberum störfum. Því skyldi útgerðin gera það þegar herða skal ólina og auka skattbyrði fyrirtækja um 47%?

Meiri gjöld → minni hagnaður → minna útsvar → minni fjárhagur sveitarfélaga.

Þvert á tilgang frumvarpsins. Tekjur ríkisins munu hinsvegar aukast. Það er vel. Um 81% af skattspori sjávarútvegsins verður til utan höfuðborgarsvæðisins. Verði af óðahækkun ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur mun það skerða getu fyrirtækja til skamms tíma. Það veldur óvissu í hinum dreifðu byggðum. Þetta vita þingmenn landsbyggðanna hvar í flokki sem þeir standa og þau sem til þekkja. Leiðir til minna útsvars og lækkar tekjur sveitarfélaga. Það eru mögulega afleiðingar sem einhver telja ásættanlegar?

Eitt er að hafa sýn og markmið og annað að geta bent á gögn og útreikninga. Jú, markmiðið er skýrt og gott; að hækka veiðigjöld, að fólk telji sig fá meira í sameiginlega sjóði af auðlind í sinni eigu. En á kostnað hvers kæra Kristrún Frostadóttir? Heilu byggðalögin, sveitarfélögin og fólk víða um land spyr og fær ekki svör. Það skapar óvissu sem verður að eyða svo hægt sé að halda áfram með málið.

Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar Norðurþings.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. júní 2025.

Categories
Fréttir

„Verknámsskólarnir hafa verið slegnir af“

Deila grein

04/06/2025

„Verknámsskólarnir hafa verið slegnir af“

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, vakti máls í störfum þingsins á stöðu verknámsskóla landsins og þeim niðurskurði sem nú blasir við. Hann minnti á að undanfarin ár hafi verið lögð mikil áhersla á að efla verknám á framhaldsskólastigi vegna mikils skorts á iðnmenntuðu starfsfólki. „Það var því afar mikilvægt að ráðast í þetta átaksverkefni og fjölga iðnmenntuðum einstaklingum og auka og styrkja verknám í skólum landsins,“ sagði hann.

Stefán Vagn sagði að verkefnið hefði skilað árangri: „Það bar árangur því að nú er svo komið að um 800-1.000 einstaklingar sem sækjast eftir að komast inn í verknám fá ekki inngöngu sökum þess að verknámsskólar landsins eru sprungnir og geta því ekki tekið við þeim sem við þurfum svo sannarlega á að halda.“

Hann lagði áherslu á að á síðasta kjörtímabili hafi verið unnið markvisst að stækkun verknámsskólanna. „Við fórum í vinnu við að stækka Verkmenntaskólann á Akureyri, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki, á Ísafirði og í Reykjanesbæ,“ sagði Stefán Vagn. „Búið var að ná samkomulagi við sveitarfélögin um þeirra hluta, 40%, og komið fjármagn til þess að fara af stað ríkismegin með 60% hluta, og verkefnin voru komin af stað í stjórnsýslunni.“

Stefán Vagn gagnrýndi harðlega ákvörðun ríkisstjórnarinnar í frumvarpi til fjárauka III um að fjármagn til verkefnisins hafi verið tekið út á þessu ári. „Verkefninu er slaufað. Það er ekki hægt að tala um stefnuleysi því að stefnan er komin fram: Þetta er ekki í forgangi hjá þessari ríkisstjórn. Uppbygging verknámsskólanna á landsbyggðinni á ekki upp á pallborðið hjá ríkisstjórninni.“

Hann spurði einnig hvort samráð hefði verið haft við viðkomandi skóla eða sveitarfélög. „Var haft samráð við umrædda skóla varðandi þessa ákvörðun? Er búið að ræða við sveitarfélögin sem eru með þetta fjármagn inni í sínum fjárhagsáætlunum á þessu ári og sínum langtímaplönum?“ spurði hann. „Eftir því sem ég kemst næst er svarið nei, ekkert.“

Stefán Vagn áréttaði að allar vangaveltur um fjármögnun verkefnisins væru úr sögunni. „Öllum vangaveltum um það hvort verkefnið hafi verið fjármagnað á síðasta kjörtímabili hefur nú verið svarað, virðulegur forseti, og plan nýrra stjórnvalda er ljóst: Verknámsskólarnir hafa verið slegnir af.“