Categories
Fréttir Greinar

Dýrmætasta auðlind þjóðarinnar

Deila grein

12/06/2023

Dýrmætasta auðlind þjóðarinnar

Íslensk­an er ein dýr­mæt­asta auðlind þjóðar­inn­ar. Fjár­fest hef­ur verið í henni í yfir 1.000 ár og perl­ur heims­bók­mennt­anna ritaðar á ís­lensku.

Stjórn­völd hafa sett mál­efni ís­lenskr­ar tungu á odd­inn á und­an­förn­um árum með marg­háttuðum aðgerðum. Það að vinna að fram­gangi ís­lensk­unn­ar og tryggja stöðu henn­ar í heimi örra tækni­breyt­inga og fólks­flutn­inga er verk­efni sem þarf að sinna af kost­gæfni og atorku. Í vik­unni var ný aðgerðaáætl­un í mál­efn­um ís­lenskr­ar tungu sett í Sam­ráðsgátt stjórn­valda til kynn­ing­ar og um­sagn­ar.

Alls er um að ræða 18 aðgerðir sem mótaðar eru í sam­starfi fimm ráðuneyta, en mark­mið þeirra er að for­gangsraða verk­efn­um stjórn­valda árin 2023-2026 þegar kem­ur að vernd­un og þróun tungu­máls­ins. Hef­ur meðal ann­ars verið unnið að þeim á vett­vangi ráðherra­nefnd­ar um ís­lenska tungu sem sett var á lagg­irn­ar í nóv­em­ber 2022 að til­lögu for­sæt­is­ráðherra. Hlut­verk nefnd­ar­inn­ar er að efla sam­ráð og sam­starf milli ráðuneyta um mál­efni ís­lenskr­ar tungu og tryggja sam­hæf­ingu þar sem mál­efni skar­ast.

Hin nýja aðgerðaáætl­un kall­ast á við áhersl­ur stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar, þar sem lögð er rík áhersla á að styðja við ís­lenska tungu. Börn og ung­menni skipa sér­stak­an sess og stuðning­ur við börn af er­lend­um upp­runa verður auk­inn. Þá á áfram að vinna að því að styrkja stöðu ís­lensk­unn­ar í sta­f­ræn­um heimi með áherslu á mál­tækni.

Ýmsar lyk­ilaðgerðir í áætl­un­inni und­ir­strika þetta en þær eru meðal ann­ars: starfstengt ís­lensku­nám fyr­ir inn­flytj­end­ur sam­hliða vinnu, auk­in gæði ís­lensku­kennslu fyr­ir inn­flytj­end­ur, inn­leiðing ra­f­rænna stöðuprófa í ís­lensku, sam­eig­in­legt fjar­nám í hag­nýtri ís­lensku sem öðru máli og ís­lenska handa öll­um.

Ný­mæli eru að gerðar verði kröf­ur um að inn­flytj­end­ur öðlist grunn­færni í ís­lensku og hvat­ar til þess efld­ir. Ásamt því verður ís­lensku­hæfni starfs­fólks í leik- og grunn­skól­um og frí­stund­a­starfi efld. Að sama skapi verður gerð ís­lensku­vef­gátt fyr­ir miðlun ra­f­ræns náms­efn­is fyr­ir öll skóla­stig, sam­ræmt verklag um mót­töku, kennslu og þjón­ustu við börn með fjöl­breytt­an tungu­mála- og menn­ing­ar­bak­grunn með sér­stakri áherslu á ís­lensku sem annað mál, og reglu­leg­ar mæl­ing­ar á viðhorfi til tungu­máls­ins.

Við þurf­um mikla viðhorfs­breyt­ingu gagn­vart tungu­mál­inu okk­ar. Íslensk­an er fjör­egg okk­ar og and­leg eign. Tungu­málið er rík­ur þátt­ur í sjálfs­mynd okk­ar, tján­ingu og sögu­skiln­ingi. Með nýrri aðgerðaáætl­un skerp­um við á for­gangs­röðun í þágu ís­lenskr­ar tungu. Ég hvet alla til þess að kynna sér málið í sam­ráðsgátt­inni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. júní 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Skýr skilaboð í ríkisfjármálum

Deila grein

11/06/2023

Skýr skilaboð í ríkisfjármálum

Al­var­leg­ur heims­far­ald­ur er að baki, en hag­kerfið á Íslandi náði að rétta út kútn­um á skemmri tíma en nokk­ur þorði að vona og það er áfram góður gang­ur í efna­hags­kerf­inu. Hér er mik­ill hag­vöxt­ur og hátt at­vinnu­stig, en hins veg­ar lædd­ist inn óvel­kom­inn gest­ur í formi verðbólgu. Stærsta verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar er að ná tök­um á henni. Þetta er verk­efni núm­er eitt, tvö og þrjú. Mestu máli skipt­ir fyr­ir sam­fé­lagið okk­ar að verðbólg­an lækki.

Sögu­lega skaðleg áhrif verðbólgu

Áhrif mik­ill­ar verðbólgu eru nei­kvæð, kaup­mátt­ur launa dvín­ar og verðskyn dofn­ar. Íslend­ing­ar þurfa ekki að leita langt aft­ur í tím­ann til að rifja upp af­leiðing­ar þess að þjóðfé­lagið missti tök á verðbólg­unni. Fyr­ir fjöru­tíu árum mæld­ist verðbólga á 12 mánaða tíma­bili um 100% með til­heyr­andi geng­is­fell­ing­um og óróa í sam­fé­lag­inu. Tveim­ur árum áður, árið 1981, höfðu farið fram gjald­miðils­skipti þar sem verðgildi krón­unn­ar var hundraðfaldað og ný mynt og seðlar kynnt til sög­unn­ar. Á þess­um tíma horfði al­menn­ing­ur upp á virði þess­ar­ar nýju mynt­ar hverfa hratt. Ég get full­yrt að eng­inn sem man þá tíma vill hverfa þangað aft­ur. Sama ástand er ekki upp á ten­ingn­um núna, en við verðum hins veg­ar að taka á verðbólgu­vænt­ing­um til að vernda heim­il­in. Verðbólg­an mæld­ist 9,5% í síðasta mánuði. Ég er sann­færð um að með aðgerðum Seðlabanka Íslands og stjórn­valda muni draga úr verðbólg­unni. Pen­inga­mál­in og fjár­mál hins op­in­bera eru far­in að vinna bet­ur sam­an. Það styður einnig við þessi mark­mið að rík­is­fjár­mál­in eru þannig hönnuð að þau búa yfir sjálf­virkri sveiflu­jöfn­un og grípa þenn­an mikla hag­vöxt eins og sjá má í aukn­um tekj­um rík­is­sjóðs og vinna þannig á móti hagsveifl­unni og styðja við bar­átt­una við verðbólg­una. Útflutn­ings­at­vinnu­veg­irn­ir hafa staðið sig vel og krón­an hef­ur verið stöðug og með hjaðnandi verðbólgu er­lend­is ætti að nást jafn­vægi og við get­um smám sam­an kvatt þenn­an óvel­komna gest.

Aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar styðja við lækk­un verðbólgu

Eitt helsta mark­mið rík­is­stjórn­ar­inn­ar er að auka vel­sæld og ná tök­um á verðbólg­unni. Þess vegna hef­ur verið lagt fram frum­varp þar sem lagt er til að lög­um verði breytt þannig að laun þjóðkjör­inna full­trúa og æðstu emb­ætt­is­manna rík­is­ins hækki um 2,5% í stað 6% hinn 1. júlí nk. Þannig verði tryggt að laun æðstu emb­ætt­is­manna skapi ekki auk­inn verðbólguþrýst­ing, enda miðar breyt­ing­in við verðbólgu­mark­mið Seðlabank­ans. Þessi aðgerð er mjög mik­il­væg til að vinna gegn háum verðbólgu­vænt­ing­um. Til að treysta enn frek­ar sjálf­bær­ar verðbólgu­vænt­ing­ar hef­ur verið ákveðið að flýta gildis­töku fjár­mála­regl­unn­ar, sem þýðir að há­mark skulda rík­is­sjóðs get­ur ekki verið meira en 30% og að sama skapi þarf að vera já­kvæður heild­ar­jöfnuður á hverju fimm ára tíma­bili. Skuld­astaða rík­is­sjóðs Íslands hef­ur verið að þró­ast í rétta átt, skuld­ir rík­is­sjóðs eru ekki mikl­ar í sam­an­b­urði við aðrar þjóðir og er það mik­il­vægt fyr­ir láns­hæfið að svo verði áfram.

Auk þessa er verið að bæta af­komu rík­is­sjóðs um 36,2 millj­arða króna á næsta ári með sparnaði í rekstri rík­is­ins, þar með talið niður­skurði í ferðakostnaði, frest­un fram­kvæmda, nýj­um tekj­um og með því að draga úr þenslu­hvetj­andi skattaí­viln­un­um. Tekj­ur rík­is­sjóðs eru einnig rúm­lega 90 millj­örðum meiri en fyrri áætlan­ir gerðu ráð fyr­ir. Vegna þessa tekju­auka er aðhalds­stigið að aukast. Í þessu felst meðal ann­ars að fram­kvæmd­um fyr­ir um 3,6 millj­arða króna er frestað til að draga úr þenslu. Sök­um skaðlegra áhrifa mik­ill­ar verðbólgu á okk­ar viðkvæm­ustu hópa ákvað rík­is­stjórn­in að verja kaup­mátt ör­orku- og elli­líf­eyr­isþega og því hef­ur líf­eyr­ir al­manna­trygg­inga verið hækkaður um tæp 10% frá upp­hafi árs. Einnig hef­ur frí­tekju­mark hús­næðis­bóta leigj­enda verið hækkað um 10%. Þess­ar aðgerðir eru afar mik­il­væg­ar til að verja kaup­mátt þeirra sem standa verst.

Mik­il­vægi rík­is­fjár­mála í vænt­inga­stjórn­un

Eitt það markverðasta sem fram hef­ur komið á vett­vangi hag­fræðinn­ar á þessu ári er bók hag­fræðings­ins Johns F. Cochra­nes, en í ný­út­gef­inni bók sinni Rík­is­fjár­mála­kenn­ing­in og verðlag (e. Fiscal Theory and the Price Level) bein­ir hann spjót­um sín­um að verðbólgu­vænt­ing­um á sviði rík­is­fjár­mála. Kjarni rík­is­fjár­mála­kenn­ing­ar­inn­ar er að verðlag ráðist af stefnu stjórn­valda í op­in­ber­um fjár­mál­um. Sam­kvæmt þess­ari kenn­ingu hef­ur rík­is­fjár­mála­stefna, þar með talið út­gjalda- og skatta­stefna, bein áhrif á verðlagið. Minni halli á rík­is­rekstri ætti að leiða til lægra raun­vaxta­stigs sem ætti síðan að ýta und­ir meiri fjár­fest­ing­ar. Þar með verða til aukn­ar fjár­magn­s­tekj­ur, sem mynd­ast við meiri fjár­fest­ingu, sem er ein helsta upp­spretta fram­leiðni vinnu­afls. Þetta skap­ar svo grunn­inn að hærri raun­laun­um og þannig má segja að minni fjár­laga­halli sé óbein leið til að auka raun­laun og bæta lífs­kjör. Staðreynd­in er sú að ef rík­is­sjóður er rek­inn með halla, þá þarf hann að fjár­magna þann halla með út­gáfu nýrra skulda­bréfa. Þannig eykst fram­boð rík­is­skulda­bréfa á markaði, sem aft­ur lækk­ar verð þeirra og leiðir til þess að vext­ir hækka. Eitt skýr­asta dæmið um að til­tekt í rík­is­fjár­mál­um og trú­verðug stefna hafi skilað vaxta­lækk­un var að finna í for­setatíð Bills Cl­int­ons, fyrr­ver­andi for­seta Banda­ríkj­anna. Aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar í rík­is­fjár­mál­um und­an­farna mánuði vinna ein­mitt að því að styðja við lækk­un vaxta og hef­ur ávöxt­un rík­is­skulda­bréfa verið á niður­leið.

Fram­boðshlið hag­kerf­is­ins

Ég hef áður ritað um að meira þurfi að gera á fram­boðshliðinni í hag­kerf­inu til að koma til móts við eft­ir­spurn­ina til að milda högg aðhaldsaðgerða og leysa úr læðingi krafta í hag­kerf­inu. Það má gera með aðgerðum í hús­næðismál­um og aðgerðum á at­vinnu­markaðnum, t.d. gera auðveldra að fá sér­fræðinga til lands­ins og með því að hækka ald­ur þeirra sem vilja vinna. Það má einnig liðka til frek­ar í al­manna­trygg­inga­kerf­inu til að fá fólk frek­ar út á at­vinnu­markaðinn, en rík­is­stjórn­in hef­ur verið að fram­kvæma ým­is­legt í þessa veru á und­an­förn­um mánuðum.

Já­kvæð teikn á lofti í bar­átt­unni gegn verðbólgu

Hag­vöxt­ur árið 2022 mæld­ist 6,4% og hef­ur ekki verið meiri en síðan 2007 og Seðlabank­inn spá­ir nærri 5% hag­vexti á þessu ári. Þessi mik­il þrótt­ur í hag­kerf­inu er já­kvæður en verðbólg­an er enn of há. Hag­vöxt­ur­inn var knú­inn áfram af mikl­um vexti inn­lendr­ar eft­ir­spurn­ar en hún óx á síðasta ári um 8,6%. Allt bend­ir til þess að það hæg­ist á vexti einka­neyslu, meðal ann­ars vegna versn­andi aðgeng­is heim­ila og fyr­ir­tækja að láns­fé. Teikn eru á lofti um að það sé að raun­ger­ast, þar sem einka­neysla jókst hóf­lega á fyrsta árs­fjórðungi eða um 2,5%. Að sama skapi hef­ur at­vinnu­vega­fjár­fest­ing dreg­ist sam­an um 14%. Að lok­um má nefna að korta­velta hef­ur dreg­ist sam­an að raun­v­irði og er það í fyrsta sinn í lang­an tíma. Það er jafn­framt mik­il­vægt að halda því til haga að gengi krón­unn­ar hef­ur verið stöðugt og held­ur að styrkj­ast. Það er meðal ann­ars vegna öfl­ugra út­flutn­ings­greina og ekki síst vegna ferðaþjón­ust­unn­ar. Af þeim sök­um ætti hjöðnun verðbólgu á er­lend­um mörkuðum að skila sér beint inn í ís­lenska hag­kerfið. Mik­il­vægt er að all­ir taki hönd­um sam­an um að svo verði.

Loka­orð

Verðbólg­an er mesti vand­inn sem stjórn­völd standa frammi fyr­ir og mik­il­vægt er að ná niður verðbólgu­vænt­ing­um. Ólíkt því sem áður gerðist er Ísland hins veg­ar ekki ey­land þegar kem­ur að verðbólgu um þess­ar mund­ir. Verðbólg­an í Evr­ópu er á bil­inu 3-24%, en það eru ákveðin merki um að verðbólga fari hjaðnandi er­lend­is þótt langt sé í að ástandið verði aft­ur ásætt­an­legt. Það sem skil­ur Ísland frá öðrum þróaðri hag­kerf­um er þessi mikli þrótt­ur sem er í hag­kerf­inu og ger­ir hann hag­stjórn að sumu leyti flókn­ari. Rík­is­stjórn­in og Seðlabank­inn hafa tekið hönd­um sam­an um að taka á þess­um vanda með þeim tækj­um sem þau ráða yfir. Einn liður í því að er vext­ir end­ur­spegli verðbólg­una. Það er ljóst að Seðlabanki Íslands hef­ur farið mjög bratt í hækk­un vaxta og var m.a. fyrsti bank­inn til að hækka vexti á Vest­ur­lönd­um. Það má færa rök fyr­ir því að seðlabank­ar beggja vegna Atlantsála hafi haldið vöxt­um of lág­um of lengi. Christ­ine Lag­ar­de lýsti því yfir við síðustu vaxta­hækk­un hjá ECB að bank­inn væri hvergi nærri hætt­ur vaxta­hækk­un­um. Í Banda­ríkj­un­um hafa vext­ir náð verðbólg­unni. Hér er það sama að ger­ast og eru vext­ir Seðlabank­ans mjög nærri verðbólg­unni. Með því hef­ur ákveðnum tíma­mót­um verið náð. Það er sann­fær­ing mín að aðgerðir í rík­is­fjár­mál­um muni leggja sitt lóð á vog­ar­skál­arn­ar í bar­átt­unni við verðbólg­una.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. júní 2023.

Categories
Fréttir

Fjárfestum í öryggi fólks og endurkomu inn í samfélagið

Deila grein

08/06/2023

Fjárfestum í öryggi fólks og endurkomu inn í samfélagið

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, nýtti tækifærið á eldhúsdegi á Alþingi til að ræða byltinguna undir formerkinu #metoo, þ.e. kynferðislegt ofbeldi, kynferðislega áreitni og kynjasamskipti.

„Metoo-byltingin hefur hjálpað okkur að berjast gegn fordómum, ójafnrétti og ofbeldi, skýra og virða mörk auk þess að ítreka mikilvægi þess að skýrt samþykki liggi fyrir. Metoo boðaði breytingar til hins betra. Í henni fólust róttækar og nauðsynlegar umbætur hvað varðar viðhorf og menningu og opnaði augu okkar fyrir því hversu algengt vandamálið er í öllum lögum samfélagsins,“ sagði Ingibjörg.

Segir hún að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) hafi gefið það út að ein af hverjum þremur konum sé beitt kynferðisofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni. Einungis um 10-15% þeirra sem eru beitt ofbeldi kæra.

„Í dag er því algengt að umræða myndist í netheimum um meint brot, þar sem ekki er hikað við að nafngreina einstaklinga og tilgreina meinta atburðarás, lýsa kynferðisofbeldi eða kynferðislegu áreiti. Þetta er gert til að flagga óæskilegri hegðun þar sem farið var yfir mörk og svipta hulunni af henni í þeim tilgangi að meintur gerandi axli ábyrgð,“ sagði Ingibjörg.

Rakti Ingibjörg að atburðarásin taki í framhaldi á sig mjög neikvæða og skaðlega birtingarmynd. Einstaklingur, sem sakaður er um ofbeldi á netinu, missi jafnvel atvinnu sína og mannorð. „Afleiðingarnar geta verið fjárhagslegar og félagslegar en þó aðallega andlegar því dómstóll götunnar hefur mikil völd og fer fram með óformlegum hætti.“

„Umræðan er óvægin og hún er grimm. Samfélagið hafnar þeim, vinnustaðir hafna þeim, skólar hafna þeim og jafnvel vinir og vandamenn hafna þeim. Grimmd umræðunnar er slík að bæði stjórnendur vinnustaða og -skóla veigra sér við að beita faglegum vinnubrögðum jafnvel þótt eingöngu sé um orðróm að ræða þar sem atvik eru umdeild og óljós.Dómur samfélagsins er almennt sá sami þrátt fyrir að brotin séu mismunandi: Útskúfun úr samfélaginu og fá sem engin tækifæri til endurkomu inn í samfélagið,“ sagði Ingibjörg.

„Slaufun beinist ekki eingöngu gagnvart þekktum einstaklingum, hún er því miður í öllum lögum samfélagsins. Það sem sárast er að börnin og ungmennin okkar fylgja fordæmi sinna fyrirmynda, taka í síauknum mæli upp þetta vopn í samskiptum og beita útskúfun og jafnvel líkamlegu eða stafrænu ofbeldi. Við heyrum jafnvel að ásökunum í garð ungs fólks á grunnskólaaldri, sem hefur varla hafið líf sitt, fari fjölgandi. Slík mál valda bæði meintum gerendum og þolendum miklum skaða.

Slaufun getur haft alvarlegar andlegar afleiðingar fyrir þá einstaklinga sem fyrir henni verða og sumir lenda á hættulegum stað. Notkun vímuefna til að deyfa vanlíðan, þunglyndi og sjálfsvígshugsanir verða sífellt líklegri í því hugarástandi. Einstaklingurinn missir samfélagið. Samfélagið missir einstaklinginn. Þarna hafa allir tapað,“ sagði Ingibjörg.

„Ég hef átt samtöl við fjölda aðila bæði innan og utan stjórnmála og við ráðherra ólíkra málaflokka. Við ætlum að taka höndum saman, kalla alla aðila til fundar næstkomandi haust um breytta nálgun í þessum málum og semja handrit til framtíðar þar sem raddir allra fá að heyrast. Með skýrri umgjörð getum við stuðlað að því mikilvægasta sem er mannvænt samfélag þar sem öryggi fólks er í fyrirrúmi,“ sagði Ingibjörg að lokum.


Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Kæra þjóð. Ég vil nýta tækifærið hér á eldhúsdegi til að ræða viðkvæmt og eldfimt málefni, málefni sem nauðsynlegt er að við horfumst í augu við. Fyrir nokkrum árum átti sér stað mikilvæg og þörf bylting undir formerkinu #metoo. Tímabær umræða opnaðist um kynferðislegt ofbeldi, kynferðislega áreitni og kynjasamskipti og vakti athygli á því sem allt of margir hafa upplifað og borið skaða af. Metoo-byltingin hefur hjálpað okkur að berjast gegn fordómum, ójafnrétti og ofbeldi, skýra og virða mörk auk þess að ítreka mikilvægi þess að skýrt samþykki liggi fyrir. Metoo boðaði breytingar til hins betra. Í henni fólust róttækar og nauðsynlegar umbætur hvað varðar viðhorf og menningu og opnaði augu okkar fyrir því hversu algengt vandamálið er í öllum lögum samfélagsins.

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er ein af hverjum þremur konum beitt kynferðisofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni. Of lengi höfðu konur fundið fyrir máttleysi samfélagsins og löggæslu- og ákæruvaldsins í þeirra málum ef þeim yfir höfuð var trúað. Reiði yfir óásættanlegum aðstæðum og eldmóður samstöðunnar kyntu undir byltingu sem átti eftir að breyta heiminum. Pendúllinn fór af stað og þolendur kynferðisofbeldis og kynferðislegrar áreitni skiluðu skömminni þangað sem hún átti heima. Hvert málið á fætur öðru var gripið á samfélagsmiðlum sem og í fjölmiðlum. Stjórnvöld fóru af stað með margvíslegar aðgerðir á forvarnastigi, innan löggæslu- og dómskerfisins og jafnvel í utanríkismálum.

Tölfræðin sýnir okkur að enn er langt í land að endurheimta traustið á löggæslu- og ákæruvaldinu, en talið er að einungis um 10–15% þeirra sem eru beitt ofbeldi kæri það. Rannsóknar- og ákærutími er rúmt ár að meðaltali, ef kæran lifir það lengi. Það er því vel skiljanlegt hvers vegna þolendur leita annarra leiða. Í dag er því algengt að umræða myndist í netheimum um meint brot, þar sem ekki er hikað við að nafngreina einstaklinga og tilgreina meinta atburðarás, lýsa kynferðisofbeldi eða kynferðislegu áreiti. Þetta er gert til að flagga óæskilegri hegðun þar sem farið var yfir mörk og svipta hulunni af henni í þeim tilgangi að meintur gerandi axli ábyrgð.

En sú atburðarás sem gjarnan fer af stað tekur aftur á móti á sig mjög neikvæða og skaðlega birtingarmynd. Þannig getur einstaklingur sem sakaður er um ofbeldi á netinu orðið fyrir því að missa atvinnu, mannorð og álit samfélagsins, allt jafnvel án ákæru, án dóms og án laga. Afleiðingarnar geta verið fjárhagslegar og félagslegar en þó aðallega andlegar því dómstóll götunnar hefur mikil völd og fer fram með óformlegum hætti. Umræðan er óvægin og hún er grimm. Samfélagið hafnar þeim, vinnustaðir hafna þeim, skólar hafna þeim og jafnvel vinir og vandamenn hafna þeim. Grimmd umræðunnar er slík að bæði stjórnendur vinnustaða og -skóla veigra sér við að beita faglegum vinnubrögðum jafnvel þótt eingöngu sé um orðróm að ræða þar sem atvik eru umdeild og óljós. Dómur samfélagsins er almennt sá sami þrátt fyrir að brotin séu mismunandi: Útskúfun úr samfélaginu og fá sem engin tækifæri til endurkomu inn í samfélagið.

Slaufun beinist ekki eingöngu gagnvart þekktum einstaklingum, hún er því miður í öllum lögum samfélagsins. Það sem sárast er er að börnin og ungmennin okkar fylgja fordæmi sinna fyrirmynda, taka í síauknum mæli upp þetta vopn í samskiptum og beita útskúfun og jafnvel líkamlegu eða stafrænu ofbeldi. Við heyrum jafnvel að ásökunum í garð ungs fólks á grunnskólaaldri, sem hefur varla hafið líf sitt, fari fjölgandi. Slík mál valda bæði meintum gerendum og þolendum miklum skaða.

Slaufun getur haft alvarlegar andlegar afleiðingar fyrir þá einstaklinga sem fyrir henni verða og sumir lenda á hættulegum stað. Notkun vímuefna til að deyfa vanlíðan, þunglyndi og sjálfsvígshugsanir verða sífellt líklegri í því hugarástandi. Einstaklingurinn missir samfélagið. Samfélagið missir einstaklinginn. Þarna hafa allir tapað.

Við höfum margrætt það hér í þessu ræðustól hversu dýrt það er samfélaginu að missa einstaklinga frá sér, jafnvel einstaklinga sem gerðust ekki sekir um það brot sem þeir eru ásakaðir um en einnig einstaklinga sem brjóta af sér og vilja bæta sig. Þolandinn sem tjáði sig á netinu til að koma umræðunni af stað missir atburðarásina úr höndunum því samfélagið hefur tekið að sér dómarahlutverkið. Það gerist æ oftar að einstaklingar beri aðra sökum nafnlaust og ábyrgðarlaust. Jafnvel getur verið um þriðja eða fjórða aðila að ræða sem tekur málin í sínar hendur, aðilar sem þekkja jafnvel ekki vel til málsins né tengjast því á nokkurn hátt. Atvikalýsingar geta breyst hratt þegar sögur berast á milli fólks og viðkomandi aðili hefur litla burði til að bera hönd yfir höfuð sér eða mögulega segja frá sinni hlið máls. Önnur taka þátt af hræðslu við að vera talin gerendameðvirk eða vera með því að hliðsetja raunverulega þolendur. Við erum komin á hættulegan stað ef slík þöggun er í gangi og þegar frásagnir eignast eigið líf þvert á vilja þeirra sem raunverulega eiga aðild að máli.

Við þurfum að axla ábyrgð á því sem við segjum. Okkar svæði á samfélagsmiðlum er opið öllum og fjölmiðlar grípa gjarnan efnið, afrita og líma á sínar síður án ábyrgðar. Margir hafa tileinkað sér róttæka afstöðu á báða bóga og við finnum óróleikann í samfélaginu þegar einhver opnar umræðuna. Fólk veigrar sér því við að tjá sig af ótta við afleiðingarnar.

Sem kjörnum fulltrúa finnst mér ég skuldbundin þjóðinni, sérstaklega æsku landsins, að taka þessa erfiðu umræðu. Við stöndum í auga stormsins og okkur vantar handrit og leiðarljós til framtíðar. Hlutverk samfélagsins hlýtur að vera að finna raunverulegar leiðir til að útrýma ofbeldi og skapa öryggi. Þar til við höfum náð því markmiði viljum við að finna jafnvægi pendúlsins þar sem skilningur, ábyrgð og skýrar leiðir til betrunar og sátta eru leiðandi sjónarmið fyrir alla aðila. Og ég tek það skýrt fram að þótt þessi umræða sé tekin er ekki verið að gera lítið úr brotaþolum hvers kyns ofbeldis, hvort sem það er kynferðisofbeldi eða annars konar líkamlegt eða andlegt ofbeldi. Það ber að taka alvarlega og koma lögum yfir allt það fólk sem gerist sekt um slíkt. En slaufunarmenning er vopn sem hefur snúist í höndunum á okkur og grafið undan trausti og samkennd í samfélaginu með því að skapa ógn og ala á ótta. Staða sem er hvorki lausn né sigur fyrir neinn.

Ég hef átt samtöl við fjölda aðila bæði innan og utan stjórnmála og við ráðherra ólíkra málaflokka. Við ætlum að taka höndum saman, kalla alla aðila til fundar næstkomandi haust um breytta nálgun í þessum málum og semja handrit til framtíðar þar sem raddir allra fá að heyrast. Með skýrri umgjörð getum við stuðlað að því mikilvægasta sem er mannvænt samfélag þar sem öryggi fólks er í fyrirrúmi.“

Categories
Fréttir

„Höldum á lofti gildum félagshyggju, samvinnu og lýðræðis“

Deila grein

08/06/2023

„Höldum á lofti gildum félagshyggju, samvinnu og lýðræðis“

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, var annar ræðumaður Framsóknar á eldhúsdegi á Alþingi. Í ræðu sinni minnti hann á að Seðlabankinn, ríkisstjórnin, Alþingi, aðilar vinnumarkaðarins, sveitarfélög, bankar og fyrirtæki verði að koma saman að því að ná verðbólgunni niður.

„Við stöndum mjög sterk að vígi. Mikill þróttur er í hagkerfinu, atvinnuleysi er lágt og tekjur ríkissjóðs hafa vaxið verulega. Áherslur okkar á aukið aðhald í ríkisrekstri og aukið framboð á húsnæði mun vinna gegn verðbólgunni. Árangurinn mun byggja á samvinnu okkar allra og þar ætla kjörnir fulltrúar að leiða með góðu fordæmi,“ sagði Jóhann Friðrik.

Sagði hann að á Íslandi sé grunnurinn byggður á dugnaði þjóðar en að áfram verði að hafa fyrir hlutunum.

„Okkur hefur tekist að fjölga stoðunum undir íslenskt atvinnulíf, en fjölbreytt störf kalla á breytingar á menntakerfinu í takt við nýjar þarfir. Sjá má nýsköpun hvert sem litið er. Skapandi greinar, fjölbreytt ferðaþjónusta, fiskeldi, lyfjaþróun og alþjóðlegt vísindastarf skapar enn sterkari grundvöll fyrir betri lífsgæðum,“ sagði Jóhann Friðrik.

Sagði hann að stórstígar tækniframfarir með gervigreindin muni breyta eðli starfa og verkefna. Á sama tíma verði stjórnvöld að setja ramma sem tryggi að tæknin nýtist eins og best verði á kosið.

Ræddi Jóhann Friðrik jafnframt um lýðheilsu þjóðarinnar og möguleika þjóðarinnar að færa hana í fyrsta sæti. „Það á að vera okkar markmið að innleiða heilsueflingu eldra fólks um allt land. Þannig má rjúfa einangrun og styrkja andlega, líkamlega og ekki síst félagslega heilsu þeirra sem komnir eru á efri ár.“

Fór Jóhann Friðrik yfir að frá samþykkt farsældarlaganna hafi markvisst verið unnið að auka velferð barnanna okkar.

„Heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið og menntakerfið þurfa að vinna þétt saman til þess að veita stuðning og tækifæri til þroska og framfara. Við erum að fjárfesta í fólki. Við eigum einnig að styðja mun betur við íþrótta-og tómstundastarf hér á landi. Unga fólkið okkar sem kemur fram fyrir hönd þjóðarinnar og tekur þátt í landsliðsverkefnum á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því hvort foreldrar geti staðið undir kostnaðinum,“ sagði Jóhann Friðrik.

„Virðulegi forseti. Ágætu landsmenn. Framsókn leggur áherslu á landið allt og mun halda á lofti gildum félagshyggju, samvinnu og lýðræðis, hér eftir sem hingað til. Við erum á ykkar vakt — í ríkisstjórn, á Alþingi, í borgarstjórn og í sveitarstjórnum hringinn í kringum landið“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.


Ræða Jóhanns Friðriks í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Kæru Íslendingar. Verkefnið nú er að ná niður verðbólgunni og það verður aðeins gert með samvinnu. Við verðum að ganga í takt til þess að tryggja kaupmátt og lækka verðbólguna saman. Seðlabankinn, ríkisstjórnin, alþingi, aðilar vinnumarkaðarins, sveitarfélög, bankar og fyrirtæki verða að leggja sín lóð á vogarskálarnar.

Við stöndum mjög sterk að vígi. Mikill þróttur er í hagkerfinu, atvinnuleysi er lágt og tekjur ríkissjóðs hafa vaxið verulega. Áherslur okkar á aukið aðhald í ríkisrekstri og aukið framboð á húsnæði mun vinna gegn verðbólgunni. Árangurinn mun byggja á samvinnu okkar allra og þar ætla kjörnir fulltrúar að leiða með góðu fordæmi.

Það er gott að búa á Íslandi. Grunnurinn byggist á dugnaði þjóðarinnar og það er óskhyggja að halda því fram að við þurfum ekki að hafa fyrir hlutunum. Ég er stoltur af því hvernig við höfum staðið vörð um lýðræði og frelsi hér á landi. Innrás Rússa í Úkraínu minnir okkur á mikilvægi öryggis, frelsis og sjálfsákvörðunarréttar þjóða til að ráða örlögum sínum.

Já, verkefni okkar eru fjölmörg bæði til skemmri og lengri tíma. Það er ætlun okkar að gera gott samfélag enn betra, sem útheimtir dugnað, áræðni og kjark. Þjóðin er að eldast, fjórða iðnbyltingin heldur innreið sína, fjölmenning og breyttar áherslur nýrra kynslóða móta ný og spennandi tækifæri hér á landi. Okkur hefur tekist að fjölga stoðunum undir íslenskt atvinnulíf, en fjölbreytt störf kalla á breytingar á menntakerfinu í takt við nýjar þarfir. Sjá má nýsköpun hvert sem litið er. Skapandi greinar, fjölbreytt ferðaþjónusta, fiskeldi, lyfjaþróun og alþjóðlegt vísindastarf skapar enn sterkari grundvöll fyrir betri lífsgæðum. Gervigreindin mun færa okkur gríðarlega getu á mörgum sviðum og breyta eðli starfa og verkefna í tíma og rúmi. Samfara svo stórstígum tækniframförum eykst um leið hættan á notkun slíkrar tækni í annarlegum tilgangi. Því verða stjórnvöld hér á landi að setja ramma sem tryggir að tæknin nýtist eins og best verður á kosið.

Það á að vera gott að eldast hér á landi og þar skipar góð heilsa veigamikinn sess. Ísland hefur alla burði til þess að setja lýðheilsu þjóðarinnar í fyrsta sæti. Það á að vera okkar markmið að innleiða heilsueflingu eldra fólks um allt land. Þannig má rjúfa einangrun og styrkja andlega, líkamlega og ekki síst félagslega heilsu þeirra sem komnir eru á efri ár. Eldra fólk er nefnilega auðlind og óþrjótandi þekkingarbrunnur. Því verðum við að láta af aldursfordómum og gefa eldra fólki kost á því að vera áfram virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Nýsamþykkt aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk endurspeglar þessa skýru framtíðarsýn stjórnvalda.

Frá því að farsældarlögin voru samþykkt höfum við unnið markvisst að því að auka velferð barnanna okkar. Heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið og menntakerfið þurfa að vinna þétt saman til þess að veita stuðning og tækifæri til þroska og framfara. Við erum að fjárfesta í fólki. Við eigum einnig að styðja mun betur við íþrótta-og tómstundastarf hér á landi. Unga fólkið okkar sem kemur fram fyrir hönd þjóðarinnar og tekur þátt í landsliðsverkefnum á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því hvort foreldrar geti staðið undir kostnaðinum.

Virðulegi forseti. Aldrei höfum við varið hærri upphæðum til heilbrigðismála. Við vinnum hörðum höndum að því að bæta starfsaðstæður og efla heilsugæsluna. Í því samhengi er fagnaðarefni að nefna nýja einkarekna heilsugæslu í Reykjanesbæ sem senn tekur til starfa. Við höldum svo áfram veginn í átt að stórbættu samgöngukerfi.

Virðulegi forseti. Ágætu landsmenn. Framsókn leggur áherslu á landið allt og mun halda á lofti gildum félagshyggju, samvinnu og lýðræðis, hér eftir sem hingað til. Við erum á ykkar vakt — í ríkisstjórn, á alþingi, í borgarstjórn og í sveitarstjórnum hringinn í kringum landið. — Góðar stundir.“

Categories
Fréttir Greinar

Ábyrg og sterk ríkisfjármál

Deila grein

08/06/2023

Ábyrg og sterk ríkisfjármál

Efna­hags­stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar hef­ur verið far­sæl. At­vinnu­stig er hátt og kröft­ug­ur hag­vöxt­ur. Það er eft­ir­sókn­ar­vert að búa á Íslandi og við sjá­um það í vax­andi mann­fjölda. Hins veg­ar mæl­ist verðbólga 9,5% og er of há. Því er það verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar núm­er 1, 2 og 3 að hún lækki. Trú­verðug­leiki efna­hags­stefn­unn­ar er und­ir því kom­inn að það tak­ist.

Mik­ill þrótt­ur hef­ur verið í ís­lenska hag­kerf­inu en vöxt­ur þess á síðasta ári mæld­ist 6,4% og hef­ur ekki verið meiri en síðan 2007. Hag­vöxt­ur­inn held­ur áfram að vera knú­inn áfram af mikl­um vexti inn­lendr­ar eft­ir­spurn­ar en hún hef­ur vaxið um 8,6%. Lík­legt er þó að það hæg­ist á vexti einka­neyslu vegna þess að aðgengi heim­ila og fyr­ir­tækja að láns­fé er að minnka og fjár­mála­leg skil­yrði hafa þrengst vegna ít­rekaðra stýri­vaxta­hækk­ana Seðlabanka Íslands. Við erum þegar far­in að sjá teikn þess, þar sem einka­neysla jóskt á fyrsta árs­fjórðungi um 2,5%. Að sama skapi hef­ur at­vinnu­vega­fjár­fest­ing dreg­ist sam­an um 14% á þess­um árs­fjórðungi. Að lok­um má nefna að korta­velta hef­ur dreg­ist sam­an að raun­v­irði og er það í fyrsta sinn í lang­an tíma! Að auki er já­kvætt að sjá að viðskipta­kjör vöru og þjón­ustu hafa batnað á milli ára um 3%, sem hef­ur já­kvæð áhrif á gengi krón­unn­ar og ætti að hafa já­kvæð áhrif á verðbólguþróun enda hef­ur gengið verið að styrkj­ast.

Verðbólga hef­ur verið þrálát­ari en vænt­ing­ar stóðu. Inn­lend verðbólga hef­ur verið mik­ill en á móti hef­ur verðbólga á heimsvísu lækkað og gengi krón­unn­ar sterkt sök­um mik­ils gangs í ferðaþjón­ust­unni. Vænt­ing­ar markaðsaðila um verðbólgu­horf­ur eru enn of háar og Seðlabanki Íslands spá­ir að verðbólga verði 8% út árið. Sam­kvæmt könn­un Seðlabanka Íslands frá því í maí, þá bú­ast markaðsaðilar við að stýri­vext­ir verði 8,5% út þenn­an árs­fjórðung og verði svo komn­ir niður í 6% eft­ir tvö ár.

Þetta er of há verðbólga og því hafa stjórn­völd brugðist við með af­ger­andi hætti til að stemma við verðbólgu­horf­um.

Fyrst ber að nefna að lög­um verður breytt þannig að laun þjóðkjör­inna full­trúa og æðstu emb­ætt­is­manna rík­is­ins hækki um 2,5% í stað 6% hinn 1. júlí nk. Þannig verði tryggt að laun æðstu emb­ætt­is­manna skapi ekki auk­inn verðbólguþrýst­ing. Hækk­un­in tek­ur mið að verðbólgu­mark­miði Seðlabanka Íslands en það er 2,5%. Þetta eru skýr skila­boð um að rík­is­stjórn­in er á skýrri veg­ferð um að náð verðbólgu­mark­miðið ná­ist.

Hús­næðis­verð hækkaði um 25,5% á höfuðborg­ar­svæðinu í júlí í fyrra og er meg­in­or­sök­in er fram­boðsskort­ur. Fram­boð íbúða hef­ur þó verið að aukast og farið er að draga úr hækk­un verðs á hús­næði. Rík­is­stjórn­in er að taka enn frek­ari skref til að draga úr fram­boðsskorti og því verða stofn­fram­lög til upp­bygg­ing­ar leigu­íbúða inn­an al­menna íbúðakerf­is­ins tvö­földuð og fram­lög til hlut­deild­ar­lána verða auk­in enn frek­ar þannig að í stað þess að 500 íbúðir verði byggðar ár­lega árin 2024 og 2025. Því verða íbúðirn­ar 1000 á ári. Auk þess verður 250 nýj­um íbúðum bætt við fyrri áætlan­ir þessa árs og verða þá sam­tals tæp­lega 800. Þetta styður við aukið fram­boð á hús­næðismarkaði. Hér er rík­is­stjórn­in enn og aft­ur að stíga stór skref til að auka fram­boðið og nauðsyn­legt að sveit­ar­fé­lög­in styðji við þessa upp­bygg­ingu.

Í þeim stóru og mik­il­vægu verk­efn­um sem fram und­an eru á næstu mánuðum, þá er stærsta að ná verðbólg­unni niður. Það þarf breiðfylk­ingu og sam­stöðu til að það tak­ist, því þó skila­boð rík­i­s­tjórn­ar­inn­ar séu skýr í nýrri fjár­mála­áætl­un um aukið aðhald á tíma­bili áætl­un­ar­inn­ar þá þurfa fleiri hagaðilar og al­menn­ing­ur að leggja sitt lóð á voga­skál­arn­ar. Með sam­vinnu að leiðarljósi mun­um við ná þeim ár­angri sem við stefn­um að.

Stefán Vagn Stefánsson, odd­viti Fram­sókn­ar í Norðvest­ur­kjör­dæmi, formaður at­vinnu­vega­nefnd­ar og nefnd­armaður í fjár­laga­nefnd.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júní 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Raunverulegar aðgerðir í húsnæðismálum sem skipta máli

Deila grein

08/06/2023

Raunverulegar aðgerðir í húsnæðismálum sem skipta máli

Síðustu misseri hef ég fjallað mikið um stöðuna í húsnæðismálum og viðrað áhyggjur mínar af stöðunni á húsnæðismarkaði til framtíðar ef ekkert yrði að gert. Það er að afleiðingarnar yrðu á endanum hátt fasteigna- og leiguverð sem leiða myndi að óbreyttu til aukins þrýstings á verðbólgu. Það er því mjög jákvætt að ríkisstjórnin hafi nú kynnt raunverulegar og skynsamlegar aðgerðir um kröftuga húsnæðisuppbyggingu inn í úrræði sem munu gagnast þeim hópum samfélagsins sem hafa átt hvað erfiðast með að koma sér þaki yfir höfuðið á undanförnum árum.

Fleiri leiguíbúðir og framlög til hlutdeildarlána verða aukin enn frekar

Framboð af húsnæði fyrir tekju- og eignaminni fjölskyldur og einstaklinga verður stóraukið með auknum framlögum til hlutdeildarlána ásamt því að stofnframlög til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins verða tvöfölduð. Það þýðir að 1000 íbúðir verða byggðar árin 2024 og 2025 með stuðningi ríkisins í stað 500. Til viðbótar verða byggðar tæplega 800 íbúðir á þessu ári sem er fjölgun um 250 frá fyrri áformum. Hér er um tvíþættar aðgerðir að ræða þar sem annars vegar stofnframlög eru veitt til byggingar og kaupa á hagkvæmum leiguíbúðum og hins vegar aukin framlög til hlutdeildarlána sem veitt eru til kaupa á nýjum íbúðum og standa fyrstu kaupendum undir tilteknum tekjumörkum til boða. Á manna máli þýðir þetta að það verður farið í stórátak við að byggja hagkvæmar íbúðir fyrir þann hóp samfélagsins sem hefur staðið einna verst og hefur átt erfitt uppdráttar við að komast inn á fasteignamarkaðinn.  Þá er mikilvægt að ná höndum yfir þá stöðu sem ríkt hefur á leigumarkaði og koma þar á stöðugleika. Samhliða þeim aðgerðum sem ég hef hér farið yfir er unnið að lagabreytingum sem munu tryggja betur réttarstöðu leigjenda á húsnæðismarkaði, en búast má við tillögum þess efnis fyrir 1. júlí næstkomandi.

Tryggja þarf nægt lóðaframboð

Við vitum það og þekkjum að ef raunveruleg uppbygging á hér að eiga sér stað og standast þann metnaðarfulla tímaramma sem innviðaráðherra hefur kynnt, þá þarf að tryggja nægjanlegt framboð lóða á næstu misserum. Sveitarfélög þurfa að hafa svigrúm og getu til að brjóta nýtt land og byggja, samhliða því að þétta byggð. Þannig og einungis þannig munum við komast í mark í því verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur kynnt og ég hef hér farið yfir eru raunverulegar og góð skref í þá átt að tryggja áframhaldandi nauðsynlega uppbyggingu húsnæðis til næstu ára. Nú þurfa allir að taka höndum saman, því með samhentu átaki er hægt að koma í veg fyrir þá sviðsmynd sem ég hef ítrekað haldið á lofti; að aukinn skortur og samdráttur í uppbyggingu muni koma í bakið á okkur með miklum áhrif á fasteigna- og leiguverð sem síðar muni leiða til hárrar verðbólgu. Það er ástand sem við megum ekki undir neinum kringumstæðum láta raungerast.

Verkefni næstu mánaða

Það er auðvitað þannig að húsnæði er ein af grunnþörfum mannsins og hefur áhrif á allt okkar daglega líf, allt frá andlegri heilsu okkar til efnahagslegs stöðugleika og aukinnar samheldni í samfélaginu. Það er því óumflýjanlegt að staðan á húsnæðismarkaði verður áfram eitt af okkar stærstu viðfangsefnum næstu mánuði og þá sérstaklega í því verkefni að ná tökum á verðbólgunni til lengri tíma. Þrýstingur og ójafnvægi á húsnæðismarkaði snertir okkur öll með einum eða öðrum hætti og okkur sem störfum á vettvangi stjórnmálanna verður að bera gæfa til þess að horfa til framtíðar og tryggja stöðugleika í húsnæðismálum. Með því að byggja meira um land allt munum við ná tökum á verðbólgunni, annars ekki. Þessar aðgerðir eru því stórt skref í hárrétta átt og þeim ber að fagna.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis

Greinin birtist fyrst á eyjan.is 7. júní 2023.

Categories
Fréttir

Öflugt menntakerfi er forsenda framfara samfélagsins

Deila grein

07/06/2023

Öflugt menntakerfi er forsenda framfara samfélagsins

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, fór yfir mikilvægi menntakerfisins í samfélaginu í störfum þingsins. Þar fari saman framfarir samfélagsins, félagslegur og persónulegur þroski einstaklingsins og tækifæri til að læra hagnýtan fróðleik og eflast.

Talaði Lilja Rannveig um nauðsyn skýrar framtíðarsýnar sem byggi á þverfaglegu samráði, með öflugu fólki sem hafi talsvert til málanna að leggja, fái það tækifæri til þess.

„Ríkisstjórnin, með hæstv. mennta- og barnamálaráðherra Ásmund Einar Daðason í fararbroddi, hefur lagt mikla áherslu á menntamál þjóðarinnar, þá sérstaklega á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Verkefnin eru fjölmörg en eitt þeirra er að mynda framtíðarsýn skólamála í samræmi við hraða þróun samfélagsins,“ sagði Lilja Rannveig.

„Nýjar áherslur og þarfir kalla á breytt kerfi en með stofnun barnamálaráðuneytisins boðaði ríkisstjórnin skýra stefnu í málefnum barna. Leiðarljós stefnunnar er að stjórnvöld styðji við alla þætti sem varða frekari farsæld barna. Þar leikur menntun að sjálfsögðu lykilhlutverk.“

„Talsverð vinna er hafin hvað varðar stefnumótun og endurskipulagningu verkefna í málaflokknum en hæstv. mennta- og barnamálaráðherra hefur tamið sér að halda spilunum ekki of þétt að sér heldur leita samráðs við alla þá aðila sem koma að málefnum barna. Því var ákaflega ánægjulegt að sjá hversu vel tókst að halda samráðsfund um framtíðarskipan skólaþjónustu í Hörpu í gær. Grunnstef fundarins voru myndun heildstæðrar og þverfaglegrar skólaþjónustu í þágu allra barna og áætluð næstu skref við að móta framtíðarskipan skólaþjónustu,“ sagði Lilja Rannveig.


Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:

„Hæstv. forseti. Mikilvægi skólakerfisins fyrir okkar samfélag er óumdeilt. Öflugt menntakerfi er forsenda framfara samfélagsins og okkur ber að veita bestu skólaþjónustu og menntun sem völ er á. Skólakerfið er mikilvægur þáttur í félagslegum og persónulegum þroska hvers einstaklings og á að veita börnum og ungmennum tækifæri til að læra hagnýtan fróðleik og eflast.

Ríkisstjórnin, með hæstv. mennta- og barnamálaráðherra Ásmund Einar Daðason í fararbroddi, hefur lagt mikla áherslu á menntamál þjóðarinnar, þá sérstaklega á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Verkefnin eru fjölmörg en eitt þeirra er að mynda framtíðarsýn skólamála í samræmi við hraða þróun samfélagsins. Nýjar áherslur og þarfir kalla á breytt kerfi en með stofnun barnamálaráðuneytisins boðaði ríkisstjórnin skýra stefnu í málefnum barna. Leiðarljós stefnunnar er að stjórnvöld styðji við alla þætti sem varða frekari farsæld barna. Þar leikur menntun að sjálfsögðu lykilhlutverk.

Talsverð vinna er hafin hvað varðar stefnumótun og endurskipulagningu verkefna í málaflokknum en hæstv. mennta- og barnamálaráðherra hefur tamið sér að halda spilunum ekki of þétt að sér heldur leita samráðs við alla þá aðila sem koma að málefnum barna. Því var ákaflega ánægjulegt að sjá hversu vel tókst að halda samráðsfund um framtíðarskipan skólaþjónustu í Hörpu í gær. Grunnstef fundarins voru myndun heildstæðrar og þverfaglegrar skólaþjónustu í þágu allra barna og áætluð næstu skref við að móta framtíðarskipan skólaþjónustu.

Forseti. Í svo mikilvægum málaflokki er nauðsynlegt að hafa skýra framtíðarsýn sem byggir á þverfaglegu samráði. Við eigum svo margt öflugt fólk sem vinnur á þessu sviði og hefur talsvert til málanna að leggja ef það fær tækifæri til. Með öflugu samráði er því veitt það tækifæri, kennurum, stjórnendum og öðrum starfsmönnum skólakerfinu til hagsbóta og síðast en ekki síst börnunum okkar.“

Categories
Fréttir

„Grunnþjónusta áfram undanþegin aðhaldi“

Deila grein

07/06/2023

„Grunnþjónusta áfram undanþegin aðhaldi“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, fór yfir aðgerðir ríkisstjórnarinnar í störfum þingsins. Ríkissjóður styrkist mjög miðað við fyrri áætlanir, er staðan nú 90 milljörðum betri samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans. Þá verður framkvæmdum frestað tímabundið, s.s. nýbygging Stjórnarráðsins og samhæfingarmiðstöð viðbragðsaðila.

„Sannarlega ábyrgt og mikilvægt skref sem styður við aðgerðir Seðlabanka Íslands, spornar gegn þenslu og mætir hópum sem eru sérstaklega viðkvæmir fyrir áhrifum verðbólgu og vaxtahækkana,“ sagði Líneik Anna.

„Grunnþjónusta er hins vegar áfram undanþegin aðhaldi. Um það ríkir sátt. Engin aðhaldskrafa er gerð á almannatryggingar, sjúkratryggingar og heilbrigðis- og öldrunarstofnanir,“ sagði Líneik Anna.

Aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar mun verja kaupmátt örorku og ellilífeyrisþega og hann hækka um 2,5% frá miðju ári til viðbótar við þá 7,4% hækkun í upphafi ársins. Þá mun frítekjumark húsnæðisbóta leigjenda verða hækkað um 2,5% fyrir yfirstandandi ár, afturvirkt frá áramótum, til viðbótar við hækkun um 7,4% í upphafi ársins.

„Stöðugleiki á húsnæðismarkaði er forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Því verða stofnframlög til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins tvöfölduð og framlög til hlutdeildarlána aukin enn frekar,“ sagði Líneik Anna.

Í aðgerðaráætluninni er gert ráð fyrir að 1000 íbúðir verði byggðar árlega 2024–2025, með stuðningi ríkisins. Þá stendur yfir vinna um lagabreytingar um bæta réttarstöðu leigjenda á húsnæðismarkaði, svo að draga megi úr þrýstingi á húsnæðismarkaði.

„Þessar aðgerðir og fleiri til munu styðja við aðgerðir Seðlabanka Íslands og sporna gegn þenslu,“ sagði Líneik Anna að lokum.


Ræða Líneikar Önnu í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin kynnti í gær aðgerðir til að vinna gegn hárri verðbólgu og frekari hækkun vaxta. Þetta er til viðbótar við þá skýru stefnu sem birtist í framlagðri fjármálaáætlun. Sannarlega ábyrgt og mikilvægt skref sem styður við aðgerðir Seðlabanka Íslands, spornar gegn þenslu og mætir hópum sem eru sérstaklega viðkvæmir fyrir áhrifum verðbólgu og vaxtahækkana.

Afkoma ríkissjóðs stórbatnar áfram miðað við fyrri áætlanir, en samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans er afkoma nú 90 milljörðum betri en gert var ráð fyrir við samþykkt fjárlaga. Framkvæmdum verður frestað tímabundið. Meðal verkefna sem er frestað eru nýbygging Stjórnarráðsins og samhæfingarmiðstöð viðbragðsaðila. Grunnþjónusta er hins vegar áfram undanþegin aðhaldi. Um það ríkir sátt. Engin aðhaldskrafa er gerð á almannatryggingar, sjúkratryggingar og heilbrigðis- og öldrunarstofnanir. Til að verja kaupmátt örorku og ellilífeyrisþega verður lífeyrir almannatrygginga nú hækkaður um 2,5% frá miðju ári til viðbótar við þá 7,4% hækkun í upphafi árs. Frítekjumark húsnæðisbóta leigjenda verður hækkað um 2,5% fyrir yfirstandandi ár, afturvirkt frá 1. janúar, til viðbótar við hækkun um 7,4% í upphafi árs.

Virðulegi forseti. Að lokum: Stöðugleiki á húsnæðismarkaði er forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Því verða stofnframlög til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins tvöfölduð og framlög til hlutdeildarlána aukin enn frekar þannig að í stað þess að 500 íbúðir verði byggðar árlega 2024–2025, með stuðningi ríkisins, verða þær 1.000 á ári. Þá er unnið að lagabreytingum sem bæta réttarstöðu leigjenda á húsnæðismarkaði og leitað leiða til að draga úr þrýstingi á húsnæðismarkaði. Þessar aðgerðir og fleiri til munu styðja við aðgerðir Seðlabanka Íslands og sporna gegn þenslu.“

Categories
Fréttir

Aðgerðaáætlun um hönnun og arkitektúr samþykkt á Alþingi

Deila grein

07/06/2023

Aðgerðaáætlun um hönnun og arkitektúr samþykkt á Alþingi

Alþingi hefur samþykkt þingsályktunartillögu menningar- og viðskiptaráðherra um aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023 til 2026. Áætlunin felur í sér 14 aðgerðir sem hrinda munu í framkvæmd nýrri stefnu málefnum hönnunar og arkitektúrs til ársins 2030, sem kynnt var í febrúar á þessu ári.

„Framtíðarsýn okkar er að aðferðafræði hönnunar og arkitektúrs sé markvisst nýtt til þess að auka lífsgæði á Íslandi með áherslu á verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið í heild. Við getum aukið gæði, bætt heilsu og mannlíf, skapað áhugaverð störf og hraðað uppbyggingu og verðmætasköpun með því að virkja krafta sem sannarlega búa í íslensku hönnunarsamfélagi,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Leiðir að meginmarkmiðum stefnunnar tengjast fimm áherslusviðum; verðmætasköpun, menntun framsækinna kynslóða, hagnýtingu hönnunar sem breytingaafls, sjálfbærri innviðauppbyggingu og kynningu á íslenskri hönnun og arkitektúr.

Kristrún Heiða Hauksdóttir, sérfræðingur hjá menningar- og viðskiptaráðuneytinu, Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs og Arnar Fells Gunnarsson, annar útlitshönnuður stefnunnar.

Verðmætasköpun

Stjórnvöld leitist við að skjóta fjölbreyttari stoðum undir íslenskt atvinnulíf með vaxandi áherslu á greinar sem byggjast á hugviti, hátækni, sköpun og sjálfbærum lausnum. Hönnun sem aðferðafræði verði lykill að því að nýta tækifæri sem felast í örum tæknibreytingum og stuðla að aukinni sjálfbærni. Leitast verði við að hafa víðtæk jákvæð áhrif á þróun samfélagsins og lífsgæði til framtíðar með því að virkja fagþekkingu hönnuða, arkitekta og aðferðafræði hönnunar.

Hönnun sem breytingaafl

Hagnýting hönnunar verði vaxandi þáttur í þróun og nýsköpun fyrirtækja og stofnana og hönnunarhugsun nýtt í auknum mæli til úrlausnar á fjölbreyttum verkefnum og flóknum umhverfis- og félagslegum áskorunum.

Sjálfbærir innviðir

Hönnunarhugsun og sérþekking hönnuða verði nýtt við þróun, viðhald og uppbyggingu innviða, þ.m.t. tæknilegra og félagslegra, til að stuðla að uppbyggingu sjálfbærra samfélaga. Hugað verði að heildrænni stefnumótun um hönnun innviða og mannvirkja með aukna sjálfbærni, gæði og bætta lýðheilsu að leiðarljósi og byggt upp öflugt þverfaglegt rannsóknarumhverfi fyrir fagfólk í arkitektúr og hönnunar- og byggingagreinum.

Menntun framsækinna kynslóða

Til að efla verðmætasköpun á Íslandi með hönnun og arkitektúr verði meðvitund um fagþekkingu hönnuða og arkitekta aukin og leitast við að tryggja að menntun þeirra og hæfni mæti áskorunum samfélagsins hverju sinni. Námsframboð, m.a. á sviðum símenntunar, sæti stöðugri endurskoðun og taki mið af örri tækniþróun og eðli hönnunartengdra faga. Aukið verði úrval námsmöguleika á sviðum nýlegra hönnunargreina þar sem vaxandi eftirspurn er eftir sérþekkingu, svo sem á sviði stafrænnar hönnunar, þjónustu- og upplifunarhönnunar og viðmótshönnunar. Unnið verði að því að auka þverfaglega nálgun í menntun, rannsóknum og samstarfi.

Kynning á íslenskri hönnun og arkitektúr

Byggt verði á grunni þess sem áunnist hefur við að vekja athygli og áhuga á íslenskri hönnun og arkitektúr og unnið að því að auka skilning hjá fyrirtækjum og stofnunum á jákvæðum áhrifum hönnunarhugsunar á verkefni, þjónustu og skipulag. Til þess að auka virðingu og sýnileika íslenskrar hönnunar verði lögð áhersla á íslenska hönnun og birtingarmyndir hennar á sem flestum sviðum

Aðgerðaáætlunin og ferill málsins á vef Alþingis

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

Skráning í málefnastarf

Deila grein

06/06/2023

Skráning í málefnastarf

Nú hefur verið opnað fyrir skráningu allra sem skráð eru í Framsókn til þess að taka þátt í málefnastarfi flokksins. Vinnan fer fram undir forystu málefnanefndar.

Málefnanefnd
Hana skipa formaður sem framkvæmdastjórn skipar og fjórir meðstjórnendur. Hlutverk nefndarinnar er að skipuleggja og hafa umsjón með málefnastarfi og stefnumótunarvinnu Framsóknarflokksins.
Málefnanefnd skipa:
Þórir Haraldsson, formaður, aðalmenn: Gunnar Már Gunnarsson, Gunnar Ásgrímsson, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Magnea Gná Jóhannsdóttir. Varamenn: Anton Kristinn Guðmundsson og Alex Björn Bulow Stefánsson.

Tekið er við skráningum inn á heimasíðu Framsóknar sem má nálgast með því að smella á hlekkinn hér að neðan.