Categories
Fréttir Uncategorized

Fréttatilkynning

Deila grein

13/11/2022

Fréttatilkynning

Nú um helgina fór fram haustfundur miðstjórnar Framsóknar og var fundurinn haldinn á Ísafirði.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar, talaði meðal annars í opnunarræðu sinni um þá einstöku stöðu sem við búum við á heimsvísu þegar kemur að orkumálum. Hann benti á að staða Íslands sé einstök, því við höfum tækifæri til, ef rétt er á haldið, að ná fullkomnu orkusjálfstæði. Ísland geti orðið með fyrstu þjóðum til að framleiða alla orku innanlands, spara gjaldeyri og byggja upp nýjan öflugan grænan iðnað. Þá sagði Sigurður Ingi að orkusjálfstæði sé einnig mikilvægt þegar kemur að fæðuöryggi.

Sigurður Ingi fjallaði um mikilvægi þess að ná sátt um að stærri hluti af ofurhagnaði einstakra fyrirtækja renni til þjóðarinnar og nauðsyn þess að gera breytingar á kerfinu í sjávarútvegi, að staðfesta í stjórnarskrá að fiskurinn í sjónum sé eins og aðrar auðlindir landsins í eigu þjóðarinnar. Þá fjallaði Sigurður Ingi um húsnæðismál, enda snúist þau ekki bara um öryggi, lífsgæði og jöfnuð, heldur séu þau einnig stórt efnahagsmál. Því þurfi að byggja miklu meira til að koma jafnvægi á húsnæðismarkaðinn.

Sigurður Ingi dró fram helstu áherslumál ráðherra, breytingar á heilbrigðiskerfinu undir styrkri stjórn Willums Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra. Hann benti á að framundan séu áskoranir í heilbrigðismálunum, þjóðin sé að eldast og því fylgi verkefni sem ekki sé hægt að horfa fram hjá. Þar spila forvarnir lykilhlutverk og Willum hafi þar stigið mikilvæg skref, síðast með mikilvægri umræðu á Heilbrigðisþingi sem helgað var lýðheilsu.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, vinnur áfram að málefnum barna sem ekki aðeins hefur orðið forgangsmál hans heldur einnig snert huga þjóðarinnar. Nú er unnið að nýrri heildstæðri löggjöf um skólaþjónustu sem mun tryggja jafnræði meðal allra, óháð búsetu og skólastigi. Þá hefur Ásmundur Einar tekið þétt utan um íþróttamálin og undirbúningur nýrrar þjóðarhallar er í fullum gangi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur verið sterkur talsmaður menningar og lagt áherslu á skapandi greinar, þær skipta máli fyrir listamenn sem og þjóðarbúið. Stærsta kvikmyndaverkefni Íslandssögunnar er að verða að veruleika, en síðasta vor fékk Lilja samþykkt á Alþingi frumvarp sem kvað á um hækkun endurgreiðslu stærri kvikmyndaverkefna úr 25% í 35%. Þá á ferðaþjónustan stóran þátt í viðspyrnu efnahagslífsins eftir heimsfaraldurinn, ráðherra ferðamála veit það og vinnur því nú að aðgerðaáætlun í ferðaþjónustu til ársins 2030 þar sem þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar er viðurkennt og sérstök áhersla lögð á dreifingu ferðamanna um landið, lengingu ferðatímabils á kaldari svæðum og áframhaldandi innviðauppbyggingu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður flokksins, fór meðal annars í ræðu sinni yfir stöðu efnahagsmála. Hún kom inn á að horfur á heimsvísu séu að versna en þrátt fyrir það sé staðan hér á landi óvenju góð, verðbólga á Íslandi sé næst lægst á EES svæðinu á eftir Sviss. Þar spili stórt hlutverk hversu sjálfbær við erum í orkumálum og mikilvægt sé að halda áfram á því sviði. Þá talaði Lilja um ofurhagnað bankanna og mikilvægi þess að ná utan um hann svo hægt sé að ná fram sátt í samfélaginu.

Categories
Greinar

Kjálki alheimsins

Deila grein

12/11/2022

Kjálki alheimsins

Vest­fjarðakjálk­inn er stór­brot­inn í alla staði. Í vik­unni heim­sótti ég Vest­f­irði til þess að eiga sam­tal við heima­menn um tæki­færi svæðis­ins, sér í lagi á sviði ferðaþjón­ustu og menn­ing­ar­mála. Með til­komu nýs menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is fyrr á ár­inu urðu tíma­bær­ar breyt­ing­ar að veru­leika. Í fyrsta sinn heyra þannig menn­ing, ferðaþjón­usta og viðskipti und­ir einn og sama fagráðherr­ann. Mála­flokk­arn­ir flétt­ast sam­an með ýmsu móti hring­inn í kring­um landið.

Sem at­vinnu­veg­ir skapa þess­ir mála­flokk­ar gríðarleg verðmæti fyr­ir þjóðarbúið. Þannig verða rúm­lega 40% af gjald­eyris­tekj­um þjóðar­inn­ar til í gegn­um ferðaþjón­ustu svo dæmi sé tekið. Með réttu hef­ur ferðaþjón­ust­an stund­um verið kölluð stærsta sjálfsprottna byggðaaðgerð Íslands­sög­un­ar en störf­um í grein­inni hef­ur fjölgað gríðarlega á fáum árum, en tugþúsund­ir starfa í grein­inni.

Einn af lær­dóm­um heims­far­ald­urs­ins var hversu mik­il­vægt það var að taka vel utan um ferðaþjón­ust­una og styðja fólk og fyr­ir­tæki í grein­inni í gegn­um far­ald­ur­inn. Stjórn­völd gripu strax til um­fangs­mik­illa aðgerða með það að mark­miði að verja þá þekk­ingu, reynslu og innviði sem eru ferðaþjón­ust­unni nauðsyn­leg­ir í viðspyrnu henn­ar eft­ir far­ald­ur­inn. Kröft­ug viðspyrna grein­ar­inn­ar í ár á meðal ann­ars stærst­an þátt í því að af­koma rík­is­sjóðs verður rúm­um 60 millj­örðum betri í ár en upp­haf­lega var gert ráð fyr­ir.

Það er því mik­il­vægt að hlúa að ferðaþjón­ustu og menn­ingu með mark­viss­um hætti um allt land í sam­starfi við heima­menn á hverju svæði fyr­ir sig. Það er uppörv­andi að finna fyr­ir þeirri bjart­sýni sem rík­ir hjá aðilum í þess­um grein­um á Vest­fjörðum. Vest­f­irðir voru til að mynda efst­ir á lista yfir svæði, borg­ir eða lönd til að heim­sækja árið 2022 í ár­legu vali hin virta ferðabóka­út­gef­anda Lonely Pla­net. Mý­mörg tæki­færi fel­ast í viðkenn­ingu sem þess­ari, sem get­ur reynst mik­il lyfti­stöng fyr­ir ferðaþjón­ustu og menn­ingu á svæðinu sem og fyr­ir Ísland sem áfangastað.

Má segja að val Lonely Pla­net hafi strax haft áhrif en ferðaþjón­ustuaðilar láta vel af aðsókn ferðamanna til Vest­fjarða í sum­ar. Dreif­ing ferðamanna um landið er mik­il­væg og það er sam­eig­in­legt verk­efni rík­is, sveit­ar­fé­laga og fyr­ir­tækja í ferðaþjón­ustu að nýta tæki­færi líkt og þetta til að stuðla að fleiri heim­sókn­um ferðamanna til Vest­fjarða og annarra kald­ari ferðamanna­svæða utan há­anna­tíma. Til að svo megi verða þarf meðal ann­ars að treysta innviði og tryggja greiðar vega­sam­göng­ur að helstu nátt­úruperl­um yfir vetr­ar­tím­ann, hvetja til fjár­fest­inga í hót­el­um og afþrey­ingu ásamt því að vinna mark­visst með sér­stöðu hvers svæðis fyr­ir sig.

Það er til mik­ils að vinna ef rétt er haldið á spil­um. Ég mun leggja mig alla fram við að vinna náið með hagaðilum til að stuðla að vexti ferðaþjón­ustu um allt land og að fleiri geti starfað við grein­ina á árs­grund­velli.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 12. nóvember 2022.

Categories
Greinar

SOS allt í neyð

Deila grein

10/11/2022

SOS allt í neyð

Í þessari viku mælti ég fyrir tillögu minni til þingsályktunar um fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða. Með tillögunni er matvælaráðherra falið af Alþingi að útfæra fyrirkomulag vegna neyðarbirgða landbúnaðarafurða sem hægt er að framleiða hér á landi við endurskoðun búvörusamninga árið 2023 þar sem markmiðið yrði að tryggja lágmarksbirgðir af landbúnaðarafurðum í landinu á hverjum tíma.

 Mikilvægi endurskoðunar

Á undanförnum árum höfum við orðið verulega vör við það að ýmsar hamfarir, heimsfaraldrar og stríðsátök geti haft það í för með sér að flutningsleiðir til landsins geti stöðvast. Það er því ekkert launungamál að við þær aðstæður þarf að tryggja að lágmarksbirgðir séu til af matvælum í landinu á hverjum tíma. Samkvæmt skýrslu um neyðarbirgðir sem lögð var fyrir Alþingi í byrjun október sl. er staða neyðarbirgða í landinu ekki viðunandi. Kortleggja þarf stöðuna betur, leggja til áhrifaríkar aðgerðir og leiðir til að tryggja að lágmarksbirgðir matvæla séu til fyrir þjóðina á hverjum tíma. Byggja þarf upp fyrirkomulag sem tryggir að nægilegt magn afurða sé til á hverjum tíma sem og að jafnvægi ríki á markaði með landbúnaðarafurðir. Útfært fyrirkomulag gæti falið í sér inngrip ríkisvaldsins í formi stuðnings til að geyma afurðir í tiltekinn tíma hjá afurðastöðvum/framleiðendum til að tryggja birgðahald. Slíkar aðgerðir þurfa að miða að mismunandi tegundum framleiðsluvara og geymslutíma þeirra þar sem beita þarf mismunandi leiðum fyrir mismunandi tegundir landbúnaðarafurða. Í skýrslu sem Landbúnaðarháskóli Íslands sendi frá sér 2021 var fjallað um fæðuöryggi og hvað þarf til að uppfylla viðmið þess efnis. Þar kemur fram að við stöndum okkur að mörgu leyti vel en við erum og verðum áfram háð innflutningi á ákveðnum vörum sem og aðföngum til að geta framleitt ýmsar vörur innan lands.

Fæðuöryggi landsins

Við þurfum að taka ríkari ábyrgð vegna fæðuöryggis landsins. Byggja upp frekari innviði og fyrirkomulag sem gerir það að verkum að við eigum neyðarbirgðir af þeim matvælum sem við getum framleitt hér á landi hverju sinni. Þessi umræða hefur kviknað oft undanfarin ár en minna hefur orðið úr aðgerðum til þess að mæta henni. Nú er kominn tími til að koma sér að verki í þessum málum og er ég þess fullviss að hæstvirtur matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, muni taka þessari tillögu minni vel og hrinda slíkum aðgerðum í framkvæmd.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. nóvember 2022.

Categories
Fréttir Uncategorized

Haustfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins

Deila grein

10/11/2022

Haustfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins

Haldinn í Edinborgarhúsinu, Ísafirði 12.-13. nóvember 2022

Dagskrá:

Laugardagur 12. nóv.

12:15 – Setning miðstjórnarfundar, Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar

12:20 – Ræða formanns Framsóknar, Sigurðar Inga Jóhannssonar

12:45 – Ræða varaformanns Framsóknar, Lilja Dögg Alfreðsdóttir

13:00 – Almennar umræður

15:30 – Kaffihlé

16:00 – Inngangur að umræðum um innra starf – Ásmundur Einar Daðason ritari Framsóknar

16:10 – Vinnuhópar um innra starf

18:30 – Fundi frestað til morguns

19:30 – Kvöldverðarhóf

Sunnudagur 13. nóv.

09:30 – Formaður sveitarstjórnarráðs flytur skýrslu

09:40 – Formaður launþegaráðs flytur skýrslu

09:50 – Formaður fræðslu og kynningarnefndar flytur skýrslu

10:00 – Fulltrúi málefnanefndar flytur skýrslu

10:10 – Kaffihlé

10:20 – Umræður um innra starf

12:50 – Kosningar í fastanefndir miðstjórnar, málefnanefnd, fræðslu og kynningarnefnd

12:20 – Hádegisverðarhlé

12:50 – Afgreiðsla mála

13:20 – Önnur mál

13:35 – Fundarslit

Categories
Greinar

Að dansa í kringum gullkálfinn

Deila grein

10/11/2022

Að dansa í kringum gullkálfinn

Íbúar þessa lands hafa á síðustu misserum og árum tekist á við fordæmalausa tíma og aðstæður. Alheimsfaraldur skall á með harkalegum afleiðingum fyrir ríki heims þar sem fjölskyldur, heimili og fyrirtæki kljást enn við afleiðingarnar.

 Í kjölfarið kom svo stríð í Evrópu, eitthvað sem flest okkar töldu heyra sögunni til og nær óhugsandi að slíkur atburður gæti endurtekið sig. Ég tel því rétt, í ljósi þess, að höfða hér til samvisku banka og tryggingafélaga sem með aðgerðum sínum og stefnu geta haft mikil áhrif á lífskjör fólks í landinu.

Kjaraviðræður

Fram undan eru kjaraviðræður og allar líkur eru á að þær verði nokkuð þungar. Samkvæmt verðlagseftirliti ASÍ hefur hækkun útgjalda hjá fjögurra manna fjölskyldu í eigin húsnæði numið allt að 128.607 krónum á mánuði ef miðað er við útgjöld hennar frá fyrra ári. Þetta eru verulega, verulega háar tölur, og til það sé hægt að fleyta íslenskum fjölskyldum í gegnum núverandi ástand þarf meira til en að ríkið komi inn með aðgerðir. Hér þurfa allir að líta í sinn eigin barm og hugsa með sér hvað hægt sé að gera til að koma samfélaginu öllu á þann stað sem við viljum vera. Þá tel ég rétt að horfa sérstaklega til þeirra sem oft eru kölluð breiðu bökin í daglegu tali.

Iðgjöld hafa hækkað…

Iðgjöld tryggingafélaga hafa hækkað mikið á síðastliðnum árum á sama tíma og tryggingafélög sitja á milljarða bótasjóði. Ábyrgð tryggingarfélaga á heimils bókhald íslenskra heimila er mikil. Í samtölum mínum við fólk hef ég heyrt að ekki sé óeðlilegt að fjölskyldur séu að greiða á bilinu 40-55 þúsund krónur á mánuði fyrir líf-, bíla og heimilistryggingar. Það sjá allir sem sjá vilja að hér er um að ræða verulegar upphæðir þegar þær eru settar í samhengi við önnur útgjöld sem meðaltalsfjölskyldan þarf að greiða. Þá tek ég sérstaklega út barnafjölskyldur sem fyrir utan að greiða af húsnæðislánum eða leigu þurfa einnig að greiða leikskólagjöld, fæðiskostnað í skólum, íþróttaæfingar o.s.frv. Það getur ekki verið að við ætlum okkur að stefna þangað sem samfélag að tryggingar séu aðeins á færi þeirra efnameiri.

…Og bankarnir skila miklum hagnaði

Þá birtu Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki uppgjör sitt í október vegna fyrstu níu mánaða ársins. Þar kemur fram að samanlagður hagnaður þeirra á tímabilinu var 50,2 milljarðar króna. Það má segja það með kaldhæðni að það sé vissulega minni hagnaður en árið á undan en arðsemin er yfir markmiði hjá öllum nema Landsbankanum sem stendur þó alveg ágætlega.

Í þessu samhengi er þó ánægjulegt að segja frá því að menningar- og viðskiptaráðherra hefur skipað vinnuhóp til að greina gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna. Tilgangur þessarar vinnu er að kanna hlut þjónustu- og vaxtagjalda, vaxtamun og hvers konar aðra gjaldtöku af viðskiptavinum í arðsemi bankanna. Markmiðið er að sjá svart og hvítu hvort íslensk heimili greiði meira fyrir almenna viðskiptabankaþjónustu en önnur heimili á Norðurlöndunum. Ég bind miklar vonir við þessa vinnu, því ef auka á samkeppnishæfni landsins þá þarf rekstur heimilanna í landinu að vera samkeppnishæfur.

Að lokum, fer ekki betur á því að þessi stöndugu fyrirtæki myndu stíga ölduna með almenningi í landinu í stað þess að dansa í kringum gullkálfinn.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Bættari heilsa með góðu heilsulæsi

Deila grein

09/11/2022

Bættari heilsa með góðu heilsulæsi

Heilbrigðisráðherra hefur boðað til heilbrigðisþings fimmtudaginn 10. nóvember á Hilton Reykjavík Nordica. Að þessu sinni er heilbrigðisþingið helgað lýðheilsu og er öllum opið. 

Lýðheilsuþingið er haldið undir sömu formerkjum og heilbrigðisþingin sem haldin hafa verið árlega frá árinu 2018 þegar gildandi heilbrigðisstefna var í mótun. Á þinginu að þessu sinni verður lögð sérstök áhersla á allt það sem við sem einstaklingar getum gert til þess að efla, vernda og viðhalda góðri heilsu. Með því að helga þingið í ár lýðheilsu er þeim áherslum sem fram koma í nýrri heilbrigðisstefnu fylgt eftir með áherslu á innleiðingu hennar en stefna til ársins 2030 var samþykkt á síðasta löggjafarþingi. 

Á þinginu verður einnig farið yfir hvernig stjórnvöld og stofnanir í samfélaginu geta skapað sem bestar aðstæður til heilsueflingar á öllum stigum æviskeiðsins. Um þessar mundir er að störfum verkefnahópur sem vinnur að mótun aðgerðaáætlunar um framkvæmd lýðheilsustefnu og afrakstur heilbrigðisþingsins á fimmtudaginn mun án efa nýtast við þá vinnu.

Heilsan í dag skiptir máli fyrir framtíðina

Öflugt og gott heilbrigðiskerfi skiptir gríðarlega miklu máli þegar kemur að heilsufari þjóðarinnar og þar koma til álita margir áhrifaþættir. Um langt skeið hefur verið virk samvinna á milli Embættis landlæknis og fjölmargra sveitarfélaga um verkefnið Heilsueflandi samfélag. Sveitarfélögin hafa í auknum mæli lagt áherslu á málaflokkinn og ráðið lýðheilsufulltrúa til starfa. Sveitarfélögin eru m.a. að leggja áherslu á heilsueflandi umhverfi s.s. hjóla- og gönguleiðir, næringu barna í skólum, forvarnir og heilsueflingu eldra fólks svo eitthvað sé nefnt.

Efling lýðheilsu er þverfaglegt verkefni þar sem árangurinn byggist á samvinnu, sannreyndum aðferðum og skýrri stefnumörkun stjórnvalda. Út frá arðsemi skilar löggjöf mestum heilsufarslegum ábata. Út frá þeim rökum er afar mikilvægt að íslensk stjórnvöld meti einnig áhrif löggjafar og stjórnvaldsákvarðana á heilsu landsmanna. 

Við erum sem þjóð að verða meðvitaðri um þá þætti sem stuðla að bættari heilsu okkar. Með því að efla heilsulæsi enn frekar má auka þekkingu og skilning á því hvaða áhrif ólíkir valkostir hafa. það er ótvíræður hagur okkar allra að við leggjum áherslu á að fyrirbyggja sjúkdóma og gera þjóðinni auðveldara fyrir að velja heilbrigðan lífsstíl. Heilbrigðisþing tileinkað lýðheilsu er sannarlega skref í rétta átt.

Heilsa eins, hagur allra!

Jóhann Friðrik Friðriksson, Alþingismaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Á­hersla á vel­ferð og skóla­mál í Kópa­vogi í fjár­hags­á­ætlun 2023

Deila grein

09/11/2022

Á­hersla á vel­ferð og skóla­mál í Kópa­vogi í fjár­hags­á­ætlun 2023

Meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Kópavogs hefur nú lagt fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2023.

Í þröngri stöðu gerir fjárhagsáætlun Kópvogsbæjar ráð fyrir lítilsháttar afagangi af rekstrarreikningi A- og B-hluta. Á sama tíma og dregið er úr skattheimtu á bæjarbúa er lögð þung áhersla á skóla- og velferðarmál. Áætlunin gerir ráð fyrir fjárfestingum fyrir um 6 milljarða króna á árinu – mest til grunn- og leikskólamála.

Það er ekki einfalt verk að koma fram heildstæðri áætlun í því efnahagsumhverfi sem við búum við um þessar mundir. Vissulega eru forsendur til þess að auka tekjur nokkuð á milli ára, einkum vegna fjölgunar íbúa og hærra atvinnustigs. Það er eins gott því þörfin fyrir aukin framlög til hinna ýmsu málaflokka er afar mikil

Á sama tíma eru aðstæður í efnahagslífinu krefjandi með háu vaxtastigi og mikilli verðbólgu sem aftur hefur mikil áhrif á skuldastöðu bæjarins og burði hans til að fjármagna viðhald eigna og nauðsynlegar framkvæmdir.

Í þessari stöðu er bara eitt til ráða. Það er að forgangsraða. Í raun má segja að á bakvið þá áætlun sem nú er lögð fram sé ein allsherjar vinnulota forgangsröðunar. Og sú vinna mun halda áfram árið 2023 þegar fylgt verður eftir kröfum um hagræðingu í rekstri bæjarins sem birtast í áætluninni.

Hagræðingin hefur í raun bara eitt markmið sem er að draga út rekstrarkostnaði bæjarins. Eða í það minnsta hægja á honum þannig að vöxtur hans verði hægari en vöxtur teknanna. Hagræðingin mun beina sjónum sínum helst að þáttum sem ekki teljast til grunnþjónustu bæjarfélagsins.

Í þessu samhengi er líka gott a velta fyrir sér spurningunni til hvers ætlast bæjarbúar af þeim sem bera endanlega ábyrgð á rekstri bæjarins? Hvað er það sem fólk vill að gert sé við þá fjármuni sem til verða í okkar sjóðum í gegnum skatt- og þjónustutekjur eða eftir öðrum leiðum?

Í mínum huga stendur vilji almennings til þess að staðinn sé vörður um velferð íbúanna og að hlúð sé að þeim kerfum sem við höfum komið okkur upp í þeim tilgangi. Og það erum við einmitt að leitast við að gera fjárhagsáætluninni. Í þröngri stöðu er áherslan fyrst og fremst á grunn- og leikskólana okkar, velferðarkerfið og íþrótta- og æskulýðsmál.

Notendur þeirrar þjónustu sem falla undir ofangreinda málaflokka eru fyrst og fremst börn og þeir sem minna mega sín í okkar samfélagi. Í áætluninni eru líka áherslur sem ætlað er að bæta starfsumhverfi starfsmanna sem starfa við mennta- og velferðarmál.

Umhverfis- og skipulagsmál eru fyrirferðarmikil í rekstri sveitarfélags eins og Kópavogs. Viðfangsefnin þar verða sífellt flóknari en í grunninn snúast þau samt um að tryggja mannvænt umhverfi fyrir íbúa þar sem þeir njóta vellíðunar í lífi og starfi.

En markmiðið verður líka að skapa svigrúm til uppbyggingar og vaxtar í takti við íbúafjölgun. Að komandi kynslóðir eigi þess kost að setjast að í okkar góða bæjarfélagi á sama hátt og við höfum fengið tækifæri til þess í fortíðinni og í núinu. Stundum rekast sjónarmið harkalega á t.d. þegar ný uppbyggingarverkefni eru sett af stað í eldri hverfum. Okkar verkefni í bæjarstjórn er að leita leiða til lausna, sætta sjónarmið og þoka málum áfram.

En gleymum ekki öðru. Bæjarbúar vilja líka að við leysum þessi verkefni með sem minnstum tilkostnaði og með sem lægstum álögum á íbúa. Það er hin hliðin á peningnum. Því er því afar jákvætt að geta kynnt til sögunnar í áætluninni lækkandi álögur á skattgreiðendur í Kópavogi árið 2023 á sama tíma og rekstrarumhverfi bæjarins er jafn krefjandi og raun ber vitni.

Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2023 fer því bil beggja. Hún fetar slóðina milli þess að standa vel við bakið á grunnþjónustunni á sama tíma og hún léttir á álögur á skattgreiðendur.

Orri Hlöðversson, oddviti Framsóknar og formaður bæjarráðs Kópavogsbæjar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. nóvember 2022.

Categories
Fréttir

ADHD getur verið styrk­leiki

Deila grein

09/11/2022

ADHD getur verið styrk­leiki

Þingkonan Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir er ein af fjölmörgum Íslendingum sem hafa greinst með ADHD. Hún segir að mikilvægt sé að tala ekki niður til þeirra sem glíma við ADHD.

„Þegar fólk heyrir mig tala um að ég sé með ADHD er fólk alltaf að tala um að það sjáist ekki á mér. Ef þú þekkir mig vel þá sérðu það,“ segir Haf­dís Hrönn Haf­steins­dóttir, þing­kona Fram­sóknar, létt í lund í sam­tali við Frétta­blaðið sem snýst um ADHD.

Hún tók til máls á sér­stakri ADHD ráð­stefnu sem var haldin á dögunum. At­hyglis­brestur og of­virkni, oft kallað ADHD í dag­legu tali, er tauga­þroska­röskun sem getur haft víð­tæk á­hrif á dag­legt líf.

„Maður er búin að læra inn á hvernig það má nýta þetta til góðs, og hve­nær maður á að þekkja eigin mörk. Maður lærir hvernig það má stýra þessum styrk­leikum til að nýtast manni,“ segir Haf­dís og bætir við að þetta sé lang­tíma­verk­efni.

„Þetta er lang­hlaup. Ég á það enn þá til að brjóta mig niður fyrir að vera ekki nógu góð í tíma­stjórnun.“

Flutti úr landi með dags­fyrir­vara

Haf­dís sem fékk greiningu rétt eftir tví­tugt er fædd á Ísa­firði en fluttist ung til Reykja­víkur.

„Ég fékk greininguna 21 árs. Fram að því hafði ég átt erfitt með að festa hlutina og var svo­lítið sveim­huga. Skýrasta dæmið um það er þegar ég á­kvað að flytja til Noregs með sólar­hrings­fyrir­vara. Mamma bjó úti og ég fékk þá hug­dettu að það væri ó­trú­lega sniðugt að prófa að búa er­lendis. Ég pakkaði í töskur og flutti degi síðar,“ segir Haf­dís og bætir við að það hafi verið hár­rétt á­kvörðun á þeim tíma­punkti þegar hún lítur í baksýnisspegilinn í dag.

„Ég sé ekki eftir þessari á­kvörðun. Það er oft sem maður hugsar til baka: ég hefði mátt hugsa þetta betur, en þetta er ekki ein af þeim. “

Haf­dís kannast við stefið að ADHD hafi sett í strik í reikninginn í skóla­göngu.

„Þetta hafði mikil á­hrif á skóla­ferilinn. Það komu tímar sem það tók á að reyna að halda sig við efnið, en um leið var maður góður í öðru. Tungu­mála­kunn­átta er eitt­hvað sem ég var fljót að til­einka mér, en hlutir sem kröfðust yfir­legu voru erfiðari. “

Úr lög­fræði á þing

Eftir að hafa fengið greiningu náði Haf­dís betri tökum á skóla­ferlinum og var komin með meistara­gráðu í lög­fræði nokkrum árum síðar.

„Ég fór strax á lyf sem tók eðli­lega smá tíma að stilla af og fann mikinn mun. Ég reyndi að sækja mér fræðslu sam­hliða um hvernig væri hægt að vinna með þetta og ná betri tökum og náði að sam­tvinna þetta,“ segir hún og minnist þess að í miðju há­skóla­námi hafi hún hætt á lyfjum þegar hún var barns­hafandi og ekki misst úr slag.

„Þetta var mikil keyrsla, og til við­bótar eignaðist ég barn á öðru ári í laga­náminu. Þegar ég lít til baka þá skil ég ekki hvernig þetta hafðist allt saman. Þegar ég var ó­létt fann ég að ég þurfti ekki á lyfjunum að halda því líkaminn var að fram­leiða hormónana sem heilanum vantaði og námið gekk betur en nokkru sinni fyrr. Líkaminn sýndi þar hvers hann er megnugur.“

Talið berst að starfi Haf­dísar. Þing­fundir geta verið tíma­frekir en hún segist vera með­vituð um leiðir til að takast á við það.

„Það eru alveg enn­þá hlutir þarna, hvat­vísi og ég verð utan við mig. Ég get átt erfitt með að sitja kyrr á löngum fundum, en maður lærir um leið inn á það og man að standa upp og hreyfa sig. Það virkar betur fyrir mig að ein­beita mér þegar ég er á hreyfingu. Á löngum fundum á maður það til að fara að fikta í ein­hverju,“ segir hún kímin.

„Þegar maður er í vinnu sem krefst ein­beitingar getur heilinn haft á­kveðin tak­mörk. Það er oft talað um að taka 50 mínútur af vinnu og tíu mínútur í hlé. Þá búir þú til að­stæður þar sem fram­leiðnin sé í há­marki.“

Hafdís, hér fyrir miðju í öftustu röð, var kosin inn á þing í fyrsta sinn á síðasta ári. Fréttablaðið/valli

Ekki rétt að kalla þetta veik­leika

Á ráð­stefnunni voru kynntar niður­stöður þar sem var fjallað um að ungar stúlkur ættu það til að vera greindar með kvíða frekar en ADHD. Strákar væru mun oftar greindir en hlut­fallið ætti að vera jafnt.

„Ég fann alltaf fyrir á­kveðnum frammi­stöðu­kvíða. Það er hræðsla um að missa af ein­hverju eða bregðast ein­hverjum. Í mínu til­felli er tíma­stjórnun af­skap­lega kvíða­valdandi, en á sama tíma getur þetta verið ofur­kraftur ef þú nærð að beisla þetta og nýta í lífinu sem þinn helsta kost. Þá ertu með eitt­hvað í höndunum sem getur auðgað sam­fé­lagið. Margir af helstu frum­kvöðlum heims eru með ADHD. Það þarf að vera fram­úr­stefnu­legur í hugsun til að brydda upp á nýjungum,“ segir Haf­dís og heldur á­fram:

„Um­ræðan í sam­fé­laginu er enn á þann hátt að fólk vill lítið ræða þetta og telur að þetta sé jafn­vel veik­leiki, sem það er alls ekki. Það eru fáir ein­staklingar jafn út­sjónar­samir og frjóir í hugsun og þeir sem eru að eiga við þessa á­skoranir dag­lega. Þá þarf að leita annarra leiða til að láta hlutina ganga upp og skoða hlutina frá öðru sjónar­horni. Þess vegna er svo mikil­vægt að horfa ekki á þetta frá nei­kvæðu sjónar­horni og taka for­dómana úr þessu. Það er al­gengt grín að segja: ertu með ADHD? Og hlæja. Ég hef gert þetta sjálf, en það er líka frá­bært stundum að svara játandi þegar spurningin kemur.“

Mál­efni sem stendur nærri

Á ráð­stefnunni var talað um dulinn kostnað þess að það séu fjöl­margir í sam­fé­laginu sem eigi eftir að fá greiningu. Á­ætlað var að um 30-60 þúsund ein­staklingar séu með ADHD á Ís­landi og að það væri erfitt að ná að sinna öllum.

Haf­dís sem hefur um ára­bil tekið þátt í stjórn­málum á ýmsan máta tók sæti á þingi í fyrsta sinn á síðasta ári. Þar hefur hún á­kveðinn grunn í að vinna í tengslum við mál­efnið sem hefur aukið vægi fyrir hana.

„Þetta mál­efni stendur ná­lægt manni. Ég kalla þetta ofur­krafta og segi að ef þú beinir þessu í rétta átt og lærir að þekkja inn á þig þá ertu með eitt­hvað í höndunum sem enginn getur fest fingur á hvað er hægt að gera með,“ segir hún og talar um mikil­vægi þess að nálgast mál­efnið rétt í til­fellum barna.

„Það er alltaf talað um að mæta krökkunum okkar þar sem styrk­leikarnir þeirra og á­huga­svið liggur til að reyna að nýta styrk­leika þeirra til fulls. Það er kostnaður sem fylgir því, en það mun borga sig marg­falt þegar búið að veita þeim að­stoð og mynda sterkari ein­stak­linga,“ segir þing­konan, spurð um að­gerðir stjórn­valda í þessum málum.

„Bannað að eyði­leggja, bók Gunnars Helga­sonar, sem tekur sögur af ADHD og setur í barna­bók. Hún er of­boðs­lega mikil­væg fyrir krakka sem eru að eiga við ADHD til að geta speglað þessar upp­lifanir. Það er mjög mikil­vægt fyrir krakkana að heyra já­kvæðar sögur.“

Á ráð­stefnunni var talað um að 75 prósent fanga væru með ADHD.

„Margir karlar á Litla Hrauni sem hafa greinst með ADHD hafa lýst því að þegar þeir voru litlir voru þeir oft bara skil­greindir sem ó­þekkir. Það er eitt­hvað sem er þörf á að laga, hvernig er talað til strákanna okkar. Ef við erum sí­fellt að saka þá um ó­þekkt, þá enda þeir á að trúa því að þeir séu einksis nýtir því þeir geti ekki setið kjurrir, “ segir Haf­dís og heldur á­fram:

„Það eru margar sögur frá fyrri föngum sem voru brotnir niður sem börn því þeir náðu ekki að fóta sig. Það eru ein­staklingar sem eru að lenda í að­stæðum sem þeir ráða ekki við og fara af sporinu því hvat­vísin getur alveg leitt fólk þangað.“

Viðtalið birtist vefnum: frettabladid.is 5. nóvember 2022.

Categories
Greinar

VESTFIRÐIR Í BLÓMA

Deila grein

09/11/2022

VESTFIRÐIR Í BLÓMA

Það má svo sannarlega segja að það hefur verið byr í seglum samfélaga á Vestfjörðum undanfarin áratug. Ef horft er til síðustu þriggja áratuga má segja að það ríki meiri bjartsýni og þróttur nú en skynja mátti í upphafi þessarar aldar. Uppbygging nýrra atvinnugreina líkt og fiskeldis og ferðaþjónustu hafa komið inn með nýjan kraft og afleidd störf og nú vex íbúatalan á ný.

Atvinnugrein í vexti

Fiskeldið er ung atvinnugrein á Íslandi, sjókvíaeldi á Vestfjörðum og Austfjörðum hefur vaxið hratt og nú er svo komið að fiskeldi fer að keppa við hefðbundinn sjávarútveg í verðmæti útflutningsvara. Gera má ráð fyrir að fiskeldið geti orðið stærsti hluti af efnahagsumsvifum Vestfjarða innan fárra ára. Vestfirðingar hafa tekið uppbyggingu á fiskeldi fagnandi enda er það grundvöllur vaxtar og kallar á ný og fjölbreyttari störf.  Við í Framsókn höfum staðið með sjálfbærri uppbyggingu greinarinnar frá upphafi.

Það er þó grunnforsenda til þess að samfélögin nái að vaxa með greininni að rétt skilyrði séu fyrir hendi. Einn þáttur í því er að tekjur sveitarfélaga af fiskeldi séu tryggar svo þau geti staðið undir uppbyggingu innviða vegna aukinna umsvifa og fjölgun íbúa. Uppbyggingin hefur verið hröð síðustu ár en svo virðist sem hlutur sveitarfélaganna hafi orðið undir þegar kemur að gjaldtöku. Af því tilefni hefur undirrituð lagt fram þingsályktunartillögu sem snýr að því að yfirfara laga- og reglugerðaumhverfi gjaldtökunnar í heild. Áhersla er lögð á að yfirfara  það sem snýr að sveitarfélögum þar sem sjókvíaeldi er stundað og skýra heimildir sveitarfélaga til gjaldtöku. Tillagan snýr ekki að aukinni gjaldtöku heldur þarf að tryggja að tekjur af slíkri gjaldtöku standi undir nauðsynlegum verkefnum þeirra sveitarfélaga sem standa næst eldinu, ásamt því að tryggð sé sjálfbærni þeirra hafna og samfélaga þar sem þessi atvinnustarfsemi er stunduð.

Jökulfirðir og fiskeldi

Árið 2004 var merk ákvörðun tekin af stjórnvöldum þegar ákveðið var hvar óhætt væri fyrir umhverfið að stunda fiskeldi. Byrjað var á að loka stærsta hluta strandlengjunnar þannig eldi var aðeins leyft á hluta Austfjarða, á Vestfjörðum og í Eyjafirði.

Síðasta sumar var  sett fram tillaga svæðisráðs Vestfjarða um Strandsvæðaskipulag Vestfjarða sem nær frá Bjargtöngum að Straumnesi. Niðurstaðan er sýn vinnuhóps, sem m.a. var skipaður fulltrúum sveitarfélaganna sem ná yfir þetta svæði, hvernig þau vilja sjá framtíðarnýtingu og vernd þess svæðið sem um ræðir. Strandsvæðisskipulag getur náð yfir fiskeldið, nytjastofna, efnistöku eða ferðaþjónustu. Það er mikilvægt að horfa heilt yfir svæðið þá sérstaklega þegar eins umfangsmikil atvinnugrein eins og fiskeldi er á svæðinu.

Í tillögu svæðisráðs er lagt til að ekki verði farið með fiskeldi inn í Jökulfirði og þeir friðaðir fyrir nýtingu. Það hefur verið nokkuð umdeilt sér í lagi þar sem firðirnir þykja liggja vel fyrir fiskeldi. En það er einnig mikilvægt að Vestfirðingar standi vörð um það sem einkennir svæðið og er friðlandið Hornstrandir stór þáttur í sérstöðu fjórðungsins og nauðsynlegt að halda þeim sérkennum til framtíðar.

Við höfum upp á margt að bjóða

Ferðaþjónusta á Vestfjörðum hefur verið í uppbyggingu og bjartsýni ferðaþjónustuaðila á svæðinu var áþreifanlegur þegar útsýnispallurinn á Bolafjalli var opnaður fyrr í haust. Um er að ræða glæsilegt mannvirki á heimsmælikvarða sem kemur til með að draga að sér verðskuldaða athygli. Þá hafa síðustu ár verið unnin þrekvirki í löngu tímabærum samgöngubótum í á sunnanverðum Vestfjörðum og nú hillir nú undir að hringvegur um Vestfirði verði með heilsárs opnun. Með því verður gjörbylting í ferðaþjónustu og ferðamenn geta sótt fjórðunginn heim allt árið. Tónlist, leiklist og matarmenning er í blóma. Menning og ferðaþjónusta eru nátengd en menning hefur alltaf verið í hávegum höfð á Vestfjörðum. Menning og listir auka aðdráttarafl svæðisins og því mikilvægt að halda áfram að styrkja skapandi greinar því þær móta auk náttúrunnar ásýnd svæðisins.

Já það má með sanni segja að Vestfirðir vaxi á eigin forsendum þessi misserin með því að nýta sér sína sérstöðu, mannlíf og samstöðu. Sérstaðan er mikilvæg en um leið viðkvæm og þarf að varðveita. En ef við náum að gæta að sérstöðunni náum við að viðhalda vexti og sjá samfélögin þroskast í réttum takti.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar í NV kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 9. nóvember 2022.

Categories
Greinar Uncategorized

Verum fyrir­myndir – berjumst gegn ein­elti!

Deila grein

09/11/2022

Verum fyrir­myndir – berjumst gegn ein­elti!

8. nóvember ár hvert er helgaður baráttunni gegn einelti. Dagurinn var fyrst haldinn formlega hérlendis árið 2011 og hefur verið haldinn árlega síðan. Einelti kemur okkur öllum við og það er góð hugmynd að huga sérstaklega að því, til dæmis á eigin vinnustað, hvort forvarnir og viðbragðsáætlanir gegn einelti séu til staðar og uppfærðar. Þá vil ég einnig hvetja vinnustaði til þess að standa fyrir fræðslu og viðburðum sem hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu og samstöðu í tilefni dagsins.

Einelti getur falist í útilokun, ofbeldi, stafrænu einelti og fleiru. Ekkert form af einelti er betra eða verra en annað – einelti á hvergi að líðast.

Í lögum um grunnskóla segir meðal annars að allir nemendur eigi rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan og að grunnskólar skuli í hvívetna haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna. Nemendur eigi rétt á að njóta bernsku sinnar í öllu starfi á vegum skólans. Barn sem verður fyrir einelti í skóla finnur ekki til öryggis og nýtir ekki að fullu hæfileika sinna eða nýtur að fullu bernsku sinnar. Það er lagaskylda á þeim sem starfa í skólum að fylgjast með líðan og almennri velferð nemenda og grípa til nauðsynlegra aðgerða til að bregðast við sé vegið að þeim atriðum.

Barn sem verður fyrir einelti getur glímt við afleiðingar þess um alla ævi, líkt og við höfum séð ótal dæmi um þegar hugrakkir einstaklingar stíga fram og segja sína sögu. Börn eiga ekki að þurfa að glíma við einelti sem þau verða fyrir sjálf, heldur er það skylda okkar fullorðinna að grípa inn í, hafi einelti átt sér stað, og ekki síður að fyrirbyggja að komi til eineltis.

Allir skólar eiga að búa yfir áætlunum gegn einelti og er gott að nýta tækifærið á degi eineltis til að yfirfara þær áætlanir og sjá hvort þurfi að uppfæra þær eða kynna þær betur innan skólanna. Takist skóla, eða sveitarfélaginu sem rekur skólann, ekki að uppræta einelti á eigin vegum er hægt að leita til fagráðs eineltismála sem hefur aðsetur í Menntamálastofnun. Fagráðið er stuðningsaðili við skólasamfélagið, og veitir meðal annars almenna ráðgjöf, leiðbeiningar og upplýsingar auk þess að gefa út ráðgefandi álit á grundvelli gagna sem berast um einstök mál. Fyrirhugað er að efla enn frekar hlutverk fagráðsins en starf þess hefur gefið góða raun.

Það er ekki hægt að skrifa grein um einelti án þess að ræða sérstaklega um stafrænt einelti, sem eðli máls samkvæmt hefur aukist mjög á undanförnum árum. Við sem foreldrar þekkjum fæst hvernig stafrænu einelti er beitt meðal barnanna okkar af eigin raun þar sem sú tækni sem nú er hluti hversdags barna okkar var ekki til staðar þegar við vorum á þeirra aldri. Við þurfum að fylgjast vel með því sem börnin okkar eru að gera á samfélagsmiðlum og grípa inn í strax ef okkur grunar að barn sé að verða fyrir eða beita stafrænu einelti. Á því berum við ábyrgð. Ekki hvað síst þurfum við að sýna í verki að hvers lags niðurrif gagnvart öðru fólki er ekki í boði.

Verum fyrirmyndir!

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. nóvember 2022.