,,Það var sannkölluð þjóðhátíðar stemming á Höfn í Hornafirði í gær…” Sagði Willum Þór Þórsson, heilbriðgisráðherra við fyrstu skóflustungu að nýju hjúkrunarheimili við Skjólgarð.
Hið nýja heimili verður með 30 einbýlum auk þess sem öll aðstaða í núverandi húsnæði verður bætt til muna.
Nú hefur verið skrifað undir samkomulag við verktakafyrirtækið og munu framkvæmdir hefjast innan skamms.
Fjölmargir einstaklingar glíma við ofvirkni og athyglisbrest, sem oft er kallað ADHD (e. Attention Deficit Hyperactivity Disorder) í daglegu tali. Einkenni ADHD skjóta almennt upp kollinum snemma á æviskeiði einstaklings, þ.e. kringum 7 ára aldur, og getur haft áhrif á alla fasa lífsins t.d. í námi, í vinnu og í félagslegum samskiptum. Rannsóknir sýna að allt að eitt af hverjum tíu börnum glímir við ADHD, sem þýðir að í 20-30 manna kennslutíma eru líklega um 2-3 einstaklingar með ADHD.
Uppeldi barna með ADHD getur reynst frábrugðið uppeldi barna án ADHD. Foreldrar þurfa að aðlaga sig að aðstæðum, upplifunum og einkennum ADHD, sem getur leitt til þess að foreldrar eru óvissir um hvaða skref þeir eigi að stíga næst í uppeldinu. Flestir kynna sér ADHD ítarlega og allt sem hún felur í sér. Það hefur oft gefið góða raun, en foreldrar barna með ADHD eru þó allflestir á sama máli. Þeir vilja læra meira sem getur aðstoðað þá við uppeldið og börnum þeirra við komast gegnum nám og vinnu ásamt því að auka félagslega færni þeirra.
Á síðustu árum hafa verið sett á laggirnar námskeið sem bjóða upp á fræðslu og þjálfun fyrir foreldra barna með ADHD og gerðar hafa verið rannsóknir á gagnsemi þeirra fyrir foreldra og börn. Á þeim námskeiðum sitja foreldrar fyrirlestra, fá lesefni og gera verkefni sem tengjast uppeldi barna með ADHD. Námskeið sem þessi hafa verið talin árangursrík. Foreldrar hafa almennt veitt námskeiðunum jákvæða umsögn þar sem þeir telja námskeiðin hafa hjálpað þeim og börnunum. Rannsakendur og foreldrar töldu námskeiðin hafa haft jákvæð áhrif á námshæfileika og félagslega færni barnanna ásamt því að auka þekkingu og skilning foreldrana á ADHD.
Hér á landi eru mikil tækifæri til staðar með setningu slíkra námskeiða. Einnig er nauðsynlegt að slík námskeið verði aðgengileg öllum foreldrum og/eða forráðamönnum barna með ADHD óháð efnahag, og því er talið að seta á námskeiði eigi að bjóðast þeim að kostnaðarlausu. Við eigum að hafa það að markmiði að einstaklingar með ADHD eigi auðveldara með alla fasa daglegs lífs ásamt því að byggja frekari skilning og þekkingu á ADHD, sem margir Íslendingar, bæði ungir sem aldnir, glíma við í dag.
Á næstu dögum mun undirrituð leggja fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi um aukna fræðslu og þjálfun foreldra barna með ADHD. Það er mín von að ályktunin verði samþykkt og ríkisstjórnin hefji strax vinnu að setningu slíkra námskeiða hér á landi, sem standi foreldrum og forráðamönnum barna með ADHD til boða þeim að kostnaðarlausu og með markvissum hætti. Það er mikilvægt að við hugum að því hvernig við ætlum að gefa foreldrum barna með ADHD aukin verkfæri og aukið sjálfstraust til að leiðbeina börnunum í gegnum lífið. Því það að vera með ADHD getur verið ofurkraftur ef við sköpum börnum réttar aðstæður bæði heima og í skólakerfinu.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir,þingmaður Framsóknar
Greinin birtist fyrst á visir.is 20. september 2022.
Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur styrkt samtökin Móðurmál um 15 milljónir króna. Styrkurinn er liður í aðgerðum stjórnvalda vegna barna á flótta og barna af erlendum uppruna.
Móðurmál eru samtök um tvítyngi sem kenna móðurmál önnur en íslensku, styðja við og taka þátt í rannsóknum á virku tvítyngi í samfélaginu. Þau hafa boðið upp á kennslu fyrir fjöltyngd börn á yfir 20 tungumálum frá árinu 1994.
Fyrr í vikunni lauk mennta- og barnamálaráðuneytið úthlutun styrkja til sveitarfélaga vegna móttöku barna á flótta. Stuðningurinn var veittur tímabundið til að styðja við fjölbreytt tómstunda- og menntunarúrræði fyrir börnin og undirbúning skólastarfs í haust.
Leiðarvísir um stuðning við móðurmál og virkt fjöltyngi í skóla- og frístundastarfi.
Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 16. september 2022.
Í nýju menningar- og viðskiptaráðuneyti er lögð áhersla á að skapa menningarstarfi, viðskiptalífi og ferðaþjónustu umhverfi sem stuðlar að velsæld og verðmætasköpun fyrir samfélagið. Það eru mörg sóknarfæri í samlegð þessara þriggja stoða en alls er framlag þeirra um 40% til landsframleiðslu. Tugþúsundir starfa við greinarnar sem fléttast saman með ýmsu móti en ekki síst auka aðdráttarafl Íslands og auðga samfélagið okkar. Við viljum hámarka þau áhrif á sama tíma og við stöndum vörð um sérstöðu hverrar greinar. Virk samkeppni, traustur fjármálamarkaður og markviss neytendavernd er forsenda heilbrigðs atvinnulífs og styður við samkeppnishæfni Íslands. Í fjárlögum fyrir árið 2023 eru áætlaðir rúmir 28,8 milljarðar til málefnasviða ráðuneytisins og er það aukning um 6% milli ára. Þá hafa framlögin hækkað um tæpa 10 milljarða frá árinu 2017.
Menningarsókn og íslenskan í forgrunni
Á síðasta kjörtímabili var lagt af stað í þá vegferð að stórefla menningu og listir. Á síðustu árum hafa framlög til málaflokksins aukist verulega eða úr 10,7 milljörðum árið 2017 í 17,7 milljarða með þessu fjárlagafrumvarpi. Unnið hefur verið að stefnumótun til framtíðar á sviðum skapandi greina í góðri samvinnu við grasrótina. Og við erum hvergi nærri hætt.
Meðal áhersluverkefna komandi árs er stofnun tónlistarmiðstöðvar ásamt gerð tónlistarstefnu, hönnunarstefnu, myndlistarstefnu og eflingu sviðslista. Áfram er unnið eftir framsækinni kvikmyndastefnu til 2030. Nýlega voru endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar hækkaðar úr 25% í 35% fyrir stærri verkefni og fyrirhugaðar eru breytingar á lögum um kvikmyndasjóð. Rúmum milljarði hefur þegar verið varið í nýja kvikmyndastefnu á síðustu tveimur árum. Þá er lögð áhersla á varðveislu, aðgengi og miðlun menningararfs þjóðarinnar með því að styðja við höfuðsöfnin okkar og blómlegt safnastarf um allt land.
Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að hlúa vel að tungumálinu okkar en ekki síður táknmálinu. Markmiðið er að tryggja íslenskunni sess í stafrænum heimi með áframhaldandi fjárfestingu í máltækni.
Þeir fjármunir sem voru settir í stuðningsaðgerðir stjórnvalda í faraldrinum lögðu grunn að kröftugri viðspyrnu ferðaþjónustunnar. Ferðaþjónustan hefur að nýju náð að verða burðarás í gjaldeyrissköpun þjóðarinnar, stuðlað að stöðugra gengi krónunnar og auknum lífsgæðum fólksins í landinu. Okkar hlutverk er að tryggja að svo verði áfram. Helstu áskoranir og tækifæri á næsta ári felast í gerð aðgerðaáætlunar á grunni framtíðarsýnar íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 með sjálfbærni að leiðarljósi og í góðri samvinnu við greinina og heimafólk.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir,menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á mbl.is 17. september 2022.
22. kjördæmisþing Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi verður haldið þann 22. október 2022 í Bæjarlind 14-16 Kópavogi og hefst kl. 13:00.
Dagskrá samkv. samþykktum KFSV og þinggjald er 3000 kr.
Úr lögum flokksins um kjördæmissambönd:
4.3. Á kjördæmaþingum eiga sæti a.m.k. með atkvæðisrétt:
a) Að lágmarki einn fulltrúi fyrir hverja byrjaða 10 félagsmenn hvers aðildarfélags í kjördæminu. Þó aldrei færri en einn fulltrúi úr hverju sveitarfélagi á félagssvæðinu. Jafnmargir varamenn skulu kjörnir. Fulltrúatala einstakra aðildarfélaga skal miðast við félagaskrá eins og hún liggur fyrir á skrifstofu flokksins 30 dögum fyrir kjördæmisþing, þó að teknu tilliti til gr. 2.4. b) Aðalmenn í stjórn hlutaðeigandi kjördæmissambands. c) Aðalmenn í miðstjórn Framsóknarflokksins sem eiga lögheimili í kjördæminu. Enn fremur skulu allir félagsmenn í kjördæminu hafa rétt til að sækja kjördæmisþing með málfrelsi og tillögurétt. Eigi síðar en 15 dögum fyrir kjördæmisþing skal stjórn kjördæmissambands skipa starfsnefnd sem tekur á móti tillögum um frambjóðendur sem kosið verður um til trúnaðarstarfa.
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, sagði í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi að Íslendingar standa frammi fyrir mörgum áskorunum en ekki megi gleyma að við búum við ákjósanlegri lífsskilyrði en margir aðrir.
„Á Íslandi er orkan okkar græn og umhverfisvæn. Hér er friðsælt, lífskjör eru almennt góð og jöfnuður er óvíða meiri. Já, það er stundum hollt að við minnum okkur á hversu lánsöm við raunverulega erum.“
Willum Þór minnti á að með vaxandi lífaldri og auknum kröfum okkar um meiri lífsgæði verða viðfangsefnin æ fleiri og meira krefjandi á sviði heilbrigðismála. Þriðjungur af heildarfjárhæð fjárlaga fer til heilbrigðismála.
„Notandinn er í forgrunni þeirrar ákvörðunartöku. Þjóðin er að eldast. Tækniframförum fleygir fram og sjúkdómur sem var ólæknandi fyrir nokkrum árum er í dag er læknanlegur. En heilbrigðiskerfið snýst ekki aðeins um öfluga heilbrigðisþjónustu heldur það að gera fólki betur kleift að huga að eigin heilsu,“ sagði Willum Þór.
„Heilsan er okkar dýrmætasta eign“
Willum sagði mikilvægt að aukna áherslu á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðismál. Áhersla á lýðheilsu sést í aðgerðaáætlun í lýðheilsumálum og árlegu heilbrigðisþingi sem verður helgað lýðheilsu.
„Alþingi ályktaði nú í vor um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Markviss áætlun á grunni stefnunnar um aðgerðir í geðheilbrigðismálum er í mótun og mun koma fyrir þingið sem þingsályktunartillaga í byrjun næsta árs. Mönnun í heilbrigðisþjónustu er gríðarleg áskorun hér á landi, á heimsvísu, nú og til framtíðar.
Heilbrigðisstarfsfólk þarf í kjölfar heimsfaraldurs endurheimt og stuðning. Það er okkar stjórnvalda að tryggja að umgjörðin sé í lagi, nýr spítali, nýsköpun, tækni, lyf, menntun, vísindi, húsnæði — já, listinn er langur — innviðir, samningar um þjónustu, allt sem tryggir bættan aðbúnað og kjör fyrir mannauðinn, þjónustuveitendur og þiggjendur,“ sagði Willum.
Willum minnti á nýskipað endurhæfingarráð sem hefur það hlutverk að vera til ráðgjafar um faglega stefnumörkun og skipulag þjónustu á sviði endurhæfingar. Ráðuneyti og sveitarfélög vinna að umbótum í málefnum aldraðra og er sérstök verkefnastjórn að leiða það verkefni.
„Heilbrigðisþjónusta getur ekki verið háð hagsveiflum“
„Í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi eru framlög til heilbrigðismála aukin og það er engin aðhaldskrafa sett á heilbrigðisstofnanir, sjúkrahús og öldrunarstofnanir. Í því felast skýr skilaboð: Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur stendur vörð um heilbrigðiskerfið. Sameinumst um stöðugar umbætur heilbrigðiskerfisins. Öflugt samfélag byggir ekki síst á sterku heilbrigðiskerfi,“ sagði Willum að lokum.
Nýtum tækifærin vel í orkumálum, verum ábyrg, verum framsýn
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar, sagði í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi að viðsnúningur í efnahagslífi Íslands megi að miklu leyti þakka nýfengna ferðafrelsi, til landsins streymi að nýju ferðamenn. Náttúra landsins dragi ferðamenn til landsins, fóstri landbúnað og sjávarútveg og sé uppspretta orkuauðlindarinnar.
Sigurður Ingi sagði að fortíðin sýndi að lykillinn að lífsgæðum á Íslandi sé að feta einstigi verndar og nýtingar.
„Samtíminn í nágrannalöndum okkar sýnir að við erum einstaklega lánsöm með okkar innlendu orku. Ef rétt er á spilum haldið mun framleiðsla á innlendri orku fyrir ökutæki, skip og flugvélar veita okkur einstakt orkusjálfstæði. Fyrir þessari ríkisstjórn liggur að nýta tækifærin vel þegar kemur að orkumálum, vera ábyrg, vera framsýn,“ sagði Sigurður Ingi.
Rammasamning um húsnæðisuppbyggingu í stað skammtímalausna
„Í sumar undirritaði ég ásamt formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga rammasamning um húsnæðisuppbyggingu. Í gær hleyptum við formlega af stokkunum næstu lotu sem felur í sér samtal og samningsgerð við einstaka sveitarfélög. Í þessu starfi sem fjölmargir fagaðilar hafa komið að má segja að hafi orðið til sannkallað þjóðarátak í uppbyggingu, húsnæðis enda ekki vanþörf á því að við finnum öll hvernig skortur á húsnæði hefur valdið miklum hækkunum, bæði á húsnæði en ekki síður á verðbólgu og vöxtum. Sú vinna sem þegar er hafin í húsnæðisuppbyggingu markar að mörgu leyti tímamót. Hér eru ekki á ferðinni neinar skammtímalausnir. Kerfið er ekki plástrað heldur er lagður grunnur að markvissri uppbyggingu til lengri tíma. Með þessum aðgerðum verður skapað jafnvægi sem kemur í veg fyrir miklar sveiflur sem leggjast ólíkt á nýjar kynslóðir sem koma inn á húsnæðismarkaðinn,“ sagði Sigurður Ingi.
„Að grípa ekki til aðgerða nú væri eins og að gefa í á leiðinni yfir blindhæð“
Sigurður Ingi minnti á að ríkisstjórnin hafi orðið að stíga á útgjaldabremsuna fyrir árið 2023 til þess að ná tökum á þenslunni, á verðbólgunni. Við munum strax sjá árangur af ábyrgri stjórn. En að fara verði varlega þegar þenslan er mest og verðbólga geisar. „Afleiðingar verðbólgunnar eru Íslendingum vel kunnar og ekki af góðu. Að grípa ekki til aðgerða nú væri eins og að gefa í á leiðinni yfir blindhæð.“
Ríkisstjórnin ætli að varða leiðina til framtíðar, til aukinnar hagsældar, til meiri jöfnuðar og fleiri tækifæra.
„Við sjáum kraftinn í matvælageiranum, í ferðaþjónustunni, í orkugeiranum, hinum skapandi greinum og við sjáum hugverkaiðnaðinn vaxa hratt. Þessi ríkisstjórn mun áfram standa fyrir uppbyggingu í samgöngum, í heilbrigðiskerfinu, í menntakerfinu, í menningunni og öðrum grundvallarþáttum þjóðarinnar, þessum sem skapa samfélag. Þessi ríkisstjórn mun áfram vinna að því að skapa samfélaginu okkar betri umgjörð, betri skilyrði. Þessi ríkisstjórn mun áfram vinna að því að bæta kjör almennings af því að til þess vorum við kosin,“ sagði Sigurður Ingi að lokum.
Keppnis- og afreksíþróttafólk lifir ekki á loftinu
Keppnis- og afreksíþróttafólk á oft og tíðum erfitt með að fá vinnu við hæfi samhliða íþróttaiðkun vegna þess að fyrirtæki veigra sér við að ráða starfsmenn sem þurfa að vera frá vegna tíðra æfinga eða keppnisferða. Afleiðingarnar eru að keppnis- og afreksíþróttafólk stendur frammi fyrir því erfiða vali hvort það vilji halda áfram að æfa og keppa í sinni íþrótt með tilheyrandi óvissu um framfærslu.
Skattalegir hvatar til launagreiðenda
Til þess að reyna að bregðast við þessum vanda hefur undirritaður ásamt öðrum þingmönnum Framsóknar lagt fram þingsályktunartillögu sem hefur það að markmiði að skapa hvata með skattkerfinu fyrir fyrirtæki til þess að ráða til starfa hjá sér keppnis- og afreksíþróttafólk. Þessi tillaga kemur ekki í staðinn fyrir hugmyndir um laun og styrki frá ríkinu til afreksíþróttafólk, heldur frekar til stuðnings við þær hugmyndir. Mikilvægt er að finna leiðir sem nýtast bæði þeim sem eru í keppnisíþróttum innanlands sem og afreksíþróttum. Í tillögunni er mennta- og barnamálaráðherra í samvinnu við fjármála og efnahagsráðherra falið að skipa starfshóp sem fái það verkefni að útfæra skattalega hvata til launagreiðanda hvort sem er á opinberum eða almennum markaði vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks. Markmiðið er að keppnis- og afreksíþróttafólk fái greidd laun að hluta eða að fullu frá launagreiðanda þegar það þarf að mæta á æfingar eða íþróttamót og launagreiðandi fái skatta ívilnun á móti greiddum launum.
Það skiptir máli að fá laun
Með takmörkuðum tekjum nær íþróttafólk ekki að ávinna sér full lífeyrisréttindi, atvinnuleysisbætur eða rétt til fæðingarorlofs. Það að bæta við fjárhagsáhyggjum ofan á að byggja upp feril í íþróttum er ekki hvetjandi og síst til þess fallið að fjölga efnilegu íþróttafólki hérlendis. Á þetta bæði við um einstaklinga sem eru í innlendum keppnisíþróttum, upprennandi afreksíþróttafólk og sem og núverandi afreksíþróttafólk.
Íslenskt íþróttafólk, þá sér lagi afreksíþróttafólk hefur um árabil kallað eftir því að geta helgað sig sinni íþróttagrein til þess að standast betur alþjóðlega keppni, upprennandi afreksíþróttafólk sem og annað keppnisíþróttafólk þarf að fá betri stuðning annars getur verið erfitt fyrir þau að ná tilætluðum árangri.
Íþróttafólk eru fyrirmyndir
Með hvata sem þessum hafa fyrirtæki bæði aukin sveigjanleika til þess að koma til móts við mismunandi þarfir og aðstæður íþróttamanna sem og aukin hvata til þess. Með því að styðja við keppnis- og afreksíþróttafólk með þessum hætti er jafnframt verið að styðja við lýðheilsu í landinu. Ekki þarf að fjölyrða um hversu mikilvægt það er fyrir okkur sem þjóð að geta státað okkur af fjölbreyttu og efnilegu keppnis- og afreksíþróttafólki. Forvarnargildi íþrótta er ótvírætt og mikilvægt er að börn og ungmenni eigi sér öflugar fyrirmyndir en rannsóknir hafa sýnt fram á að þátttaka í íþróttum hefur m.a. jákvæð áhrif á námsárangur, sjálfsmynd, sjálfsvirðingu, líkamsmynd, heilsu og almenna líðan. Með því að styðja við keppnis- og afreksíþróttafólk eignumst við fleiri fyrirmyndir og stærri hóp af öflugu íþróttafólki.
Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar.
Samningar um aukið framboð á húsnæði í undirbúningi
Sameiginlegt átak ríkis og sveitarfélaga um stóraukið framboð íbúða á næstu árum hófst formlega í dag þegar haldinn var upphafsfundur um framkvæmd rammasamnings sem undirritaður var í júlí sl. Rammasamningurinn kveður á um að fjölga íbúðum um 20.000 á fimm árum og 35.000 á tíu árum, þar af verði 30% nýrra íbúða hagkvæmar á viðráðanlegu verði og 5% íbúða félagsleg húsnæðisúrræði.
HMS mun á næstu vikum, fyrir hönd ríkisins, vinna með sveitarfélögum við að meta núverandi húsnæðisáætlanir, greina tækifæri til frekari uppbyggingar og gera samninga um slíkar áætlanir. Samningarnir munu kveða á um fjölda íbúða, íbúðagerð og staðsetningu til að skapa fyrirsjáanleika til næstu ára. Samkvæmt húsnæðisáætlunum fyrir árið 2022 er aðeins gert ráð fyrir um 16.000 nýjum íbúðum á fimm árum. Á sama tíma verður farið yfir áskoranir sem sveitarfélögin standa frammi fyrir vegna aukinnar uppbyggingar og endurmat á íbúðaþörf.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra: „Nú verða allir að róa í sömu átt og leggja allt kapp á að tryggja aukið framboð íbúða. Jafnvægi á húsnæðismarkaði er nauðsynlegt til þess að skapa húsnæðisöryggi, hagstætt vaxtaumhverfi til lengri tíma og verja efnahag heimilanna. Rammasamningur ríkis og sveitarfélaga sem undirritaður var í sumar var mikilvægur áfangi að ná sameiginlegri sýn um það hvernig megi ná jafnvægi á húsnæðismarkaði og fyrirsjáanleika fyrir stjórnvöld og byggingaraðila um uppbyggingu. Nú er unnið markvisst að því að útfæra samninginn með sveitarfélögum, m.a. til að tryggja nægjanlega fjölda byggingarhæfra lóða, eyða flöskuhálsum í skipulagsferlum og meta hvaða fjármuni ríkið leggur til í húsnæðisstuðning og stofnframlög. Við bíðum nú eftir kostnaðarmati HMS og sveitarfélaga til að geta metið endanlegar tillögur að fjármögnun til verkefnisins úr ríkissjóði. Þetta er viss áskorun á tímum þegar gæta þarf sjónarmiða um aðhald á fjárlögum. Þó er ljóst að hússnæðisskortur hækkar fasteignaverð og vísitölu, sem aftur getur hækkað verðbólgu og hefur þannig bein áhrif á ráðstöfunartekjur fólksins í landinu. Skynsamleg fjárfesting hins opinbera í húsnæðisstuðning er því mikilvæg og tryggir aukið framboð íbúða og dregur úr þenslu á fasteignamarkaði.“
Kostnaðarmat húsnæðisstuðnings í undirbúningi
HMS og Samband íslenskra sveitarfélaga munu í október nk. skila innviðaráðherra kostnaðarmati og tillögum um það hver húsnæðisstuðningur við sveitarfélög þarf að vera til að byggja upp hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði í samræmi við markmið rammasamningsins.
Þá er starfshópur um húsnæðisstuðning að störfum með það hlutverk að endurskoða beinan húsnæðisstuðning til einstaklinga. Á grundvelli þeirrar vinnu og á grundvelli tillagna starfshóps um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði, frá maí 2022, er gert ráð fyrir breytingum og auknum húsnæðisstuðningi ríkisins frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga 2023. Þar sem starfshóparnir eru enn að störfum er horft til annarrar umræðu fjárlaga í því samhengi.
Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga „Að útfæra einstaka þætti rammasamningsins er mikil en jákvæð áskorun fyrir ríki og sveitarfélög. Við erum að feta nýja slóð í þessari samvinnu og mikilvægt er að vel til takist. Rammasamningurinn hefur nú þegar skapað væntingar sem við megum ekki bregðast. Fyrir liggur tímasett aðgerðaáætlun með 24 verkefnum og aðgerðum sem við verðum að einhenda okkur í að framkvæma. Með samstilltu átaki geta ríki og sveitarfélög vonandi náð markmiðum samningsins.“
Þriðjungur íbúða hagkvæmar á viðráðanlegu verði eða félagsleg húsnæðisúrræði
Samkvæmt rammasamningi er gert ráð fyrir að 30% nýrra íbúða verði hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði, sem byggðar er með stofnframlögum frá ríkinu eða með hlutdeildarlánum, samtals um 6.000 íbúðir á næstu fimm árum. Að sama skapi er áætlað að 5% íbúðanna verði félagsleg húsnæðisúrræði á vegum sveitarfélaganna, eða um 1.000 íbúðir á næstu fimm árum. Með þessum aðgerðum er verið að mæta þeim hópi sem hefur átt erfitt með að komast inn á húsnæðismarkaðinn bæði fyrstu kaupendum og tekju- og eignalægri hópum.
Húsnæðisstefna og húsnæðisáætlun í byrjun næsta árs
Að lokinni þessari vinnu og þegar samningar milli HMS og sveitarfélaga um aukna uppbyggingu á hverjum stað liggja fyrir mun HMS í upphafi næsta árs leggja fram og birta heildstæða húsnæðisáætlun fyrir allt landið. Í húsnæðisáætluninni, sem verður stafræn, verður nákvæm áætlun um uppbyggingu í hverju sveitarfélagi fyrir sig og því verður hægt fylgjast með framvindu uppbyggingar nýrra íbúða á vef HMS.
Innviðaráðuneytið vinnur nú að gerð húsnæðisstefnu með aðgerðaáætlun, sem verður sú fyrsta sem gerð hefur verið í málaflokknum. Grænbók verður kynnt í haust og þingsályktunartillaga um húsnæðisstefnu kynnt í upphafi árs 2023.
Helstu áfangar
30. nóvember – Húsnæðis- og skipulagsmál færð til innviðaráðuneytisins í tengslum við ríkisstjórnarskipti í því skyni að tryggja betri samhæfingu með sveitarfélögum og aukinn stöðugleika á húsnæðismarkaði.
17. febrúar – Starfshópur um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði skipaður – Frétt
19. maí – Starfshópur um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði kynnti tillögur – Frétt
6. júlí – Starfshópar skipaðir um húsnæðisstuðning og húsaleigulög – Frétt
12. júlí – Rammasamningur ríkis og sveitarfélaga um húsnæðismál undirritað – Frétt
Lok september – Starfshópar um húsnæðisstuðning og húsaleigulög skila niðurstöðum.
Október – HMS og Samband íslenskra sveitarfélaga skila kostnaðarmati og tillögum um aukinn húsnæðisstuðning sem þarf til uppbyggingar hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði í samræmi við markmið rammasamningsins.
Áramótin 2022-2023 – HMS hefur tekið saman allar húsnæðisáætlanir sveitarfélaga í eina heildstæða og stafræna húsnæðisáætlun fyrir allt landið – eftir að sveitarfélög og HMS hafa gert samninga um einstakar húsnæðisáætlanir.
Vorþing 2023 – Húsnæðisstefna stjórnvalda með aðgerðaáætlun kynnt og lögð fram á Alþingi sem þingsályktunartillaga.
Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 13. september 2022.
This website uses cookies to improve your experience while you navigate through the website. Out of these cookies, the cookies that are categorized as necessary are stored on your browser as they are essential for the working of basic functionalities of the website. We also use third-party cookies that help us analyze and understand how you use this website. These cookies will be stored in your browser only with your consent. You also have the option to opt-out of these cookies. But opting out of some of these cookies may have an effect on your browsing experience.
Necessary cookies are absolutely essential for the website to function properly. This category only includes cookies that ensures basic functionalities and security features of the website. These cookies do not store any personal information.
Any cookies that may not be particularly necessary for the website to function and is used specifically to collect user personal data via analytics, ads, other embedded contents are termed as non-necessary cookies. It is mandatory to procure user consent prior to running these cookies on your website.