Categories
Greinar

Tækifæri Íslands utan ESB

Deila grein

15/12/2024

Tækifæri Íslands utan ESB

Ísland hef­ur farið þá leið að standa utan Evr­ópu­sam­bands­ins (ESB) en eiga í góðu og upp­byggi­legu sam­starfi við banda­lagið á grund­velli EES-samn­ings. Það hef­ur veitt okk­ur tæki­færi fyr­ir sjálf­stæða stefnu­mót­un á sviðum eins og fisk­veiði- og auðlinda­mál­um, og efna­hags- og pen­inga­mál­um, ásamt því sem Ísland get­ur eflt tengsl við önn­ur svæði fyr­ir utan Evr­ópu á grund­velli fríversl­un­ar­samn­inga.

Stóri kost­ur­inn við að vera utan ESB er frelsið til að móta eig­in fisk­veiðistefnu. Sjáv­ar­út­veg­ur­inn er burðarás í ís­lensku hag­kerfi, og sjálf­stæði frá sam­eig­in­legri fisk­veiðistefnu ESB ger­ir Íslandi kleift að stýra þess­ari auðlind sjálft, stjórna veiðum á sjálf­bær­an hátt og tryggja að sjáv­ar­af­urðir skili þjóðarbú­inu meiri tekj­um en ella. Í dag er staðan sú að Ísland er leiðandi þjóð í sjálf­bær­um og arðbær­um sjáv­ar­út­vegi á alþjóðavísu.

Það sama á við um land­búnað, þar sem við get­um mótað eig­in stefnu án þess að þurfa að aðlaga okk­ur sam­eig­in­legri land­búnaðar­stefnu ESB. Þetta leyf­ir land­inu að þróa sér­tæka nálg­un sem hent­ar ís­lensk­um aðstæðum best, þar sem veður­skil­yrði og land­fræðileg­ar aðstæður eru tölu­vert frá­brugðnar meg­in­landi Evr­ópu. Það ligg­ur í aug­um uppi að inn­ganga í tolla­banda­lag ESB-ríkja að þessu leyti myndi veikja ís­lensk­an land­búnað til muna, á tím­um þar sem fæðuör­yggi þjóða verður sí­fellt mik­il­væg­ara. Orðið fæðuör­yggi kann að hljóma óspenn­andi en þýðing þess er hins veg­ar gríðarlega mik­il­væg. Flokk­ar sem tala fyr­ir inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið hafa aldrei svarað þeirri spurn­ingu hvernig þeir sjái fyr­ir sér að tryggja mat­væla­ör­yggi hér á landi með öfl­ugri inn­lendri mat­væla­fram­leiðslu, en það þarf að huga að henni.

Ísland get­ur einnig ein­beitt sér að því að nýta nátt­úru­lega eig­in­leika til að fram­leiða ein­stak­ar land­búnaðar­vör­ur. Dæmi um þetta eru ís­lenskt lamba­kjöt, mjólk­ur­vör­ur og græn­meti ræktað við sér­stak­ar aðstæður, eins og í gróður­hús­um sem nýta jarðhita. Þess­ar vör­ur hafa mögu­leika á að öðlast sér­stöðu á alþjóðleg­um mörkuðum þar sem upp­runi og gæði eru met­in hátt.

Þá fylg­ir því aukið viðskiptafrelsi fyr­ir Ísland að standa utan ESB. En landið býr við auk­inn sveigj­an­leika með gerð tví­hliða viðskipta­samn­inga sem geta hentað ís­lensk­um aðstæðum bet­ur en stór­ir alþjóðasamn­ing­ar. Nýta má þessa sér­stöðu til að byggja upp betri út­flutn­ings­mögu­leika og auka fjöl­breytni í markaðssetn­ingu ís­lenskra afurða á er­lend­um mörkuðum.

Staðan er sú að Íslandi hef­ur vegnað vel á grund­velli EES-samn­ings­ins, utan Evr­ópu­sam­bands­ins. Hér hef­ur hag­vöxt­ur verið meiri, at­vinnu­leysi minna og laun og kaup­mátt­ur hærri. Það verður áhuga­vert að sjá hvort Sam­fylk­ing­in og Flokk­ur fólks­ins láti Viðreisn teyma sig í aðild­ar­viðræður að Evr­ópu­sam­band­inu á þess­um tíma­punkti í yf­ir­stand­andi stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræðum en slík veg­ferð yrði ekki góð nýt­ing á tíma og fjár­mun­um næstu rík­is­stjórn­ar verði hún að veru­leika.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins í Norðaust­ur­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. desember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Í þágu upplýstrar umræðu: Svar við grein Páls Gunnars Pálssonar

Deila grein

30/05/2024

Í þágu upplýstrar umræðu: Svar við grein Páls Gunnars Pálssonar

Í síðasta Bændablaði kom út margt áhugaverð grein eftir Pál Gunnar Pálsson forstjóra Samkeppniseftirlitsins þar sem hann fer mikinn varðandi nýlega samþykktar breytingar á búvörulögum. Greinin er sérstaklega áhugaverð fyrir þær sakir hversu litla innsýn Páll Gunnar virðist hafa á ný samþykktum breytingum á búvörulögum og stöðu bænda hérlendis. Sé ég mig nauðbeygðan til þess að svara þessar grein sem hann ritar að hans sögn í þágu upplýstrar umræðu.

Engar sérreglur

Páll Gunnar segir að það sé ekki rétt að nýsamþykktar undanþágur séu sambærilegar þeim sem þekkjast í Noregi og innan Evrópusambandsins. Það rétt er að lögin taka tillit til aðstæðna á Íslandi og eru því að hluta til frábrugðið undanþágureglum nágrannaríkja Íslands en byggja þó að öðru leyti á þeirri grunnforsendu sem gildir í nágrannalöndunum,  að afurðastöðvum sé heimilt að hafa með sér samráð og samvinnu til að ná fram hagræðingu til hagsbóta fyrir neytendur og bændur. Auk þess stendur Ísland utan landbúnaðarstefnu ESB, sbr. 3. mgr. 8. gr. EES-samningsins. Ákvæði samningsins, og þar með samkeppnisreglur hans, ná því aðeins að litlu leyti til framleiðslukerfis landbúnaðar hér á landi, og svigrúm til að móta stefnu í málaflokknum er því umtalsvert.

Rétt er að halda því til haga að atvinnuveganefnd hefði geta gengið lengra en gert var. Lögin ganga t.d. mun skemur en undanþágureglan í Noregi. Þar gilda samrunareglur þrátt fyrir undanþágu en misnotkun á markaðsráðandi stöðu er heimil. Ef Noregur getur sérsniðið undanþágu fyrir norskan landbúnað þá getur Ísland sérsniðið undanþágu fyrir íslenskan landbúnað sem tekur mið af aðstæðum hér á landi, líkt og var gert með 71. gr. um mjólkuriðnaðinn. Rétt er að geta þess að Noregur er EFTA land líkt og Ísland og aðili að EES-samningnum.

ESB, landbúnaður og samkeppnisreglur

Landbúnaður nýtur sérstöðu í grundvallarlögum Evrópusambandsins. Í 1. mgr. 42. gr. sáttmálans um starfshætti ESB er mælt fyrir um að samkeppnisreglur sáttmálans gildi aðeins um framleiðslu og viðskipti með landbúnaðarafurðir að því marki sem Evrópuþingið og ráðið ákveða skv. 2. mgr. 43. gr. sáttmálans og með hliðsjón af markmiðum sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar sem er lýst í 39. gr. sáttmálans. Eru þau að auka framleiðni, tryggja lífskjör í dreifbýlissamfélögum, tryggja stöðugleika á mörkuðum, auka framboð á matvöru og tryggja viðunandi verð til neytenda. Í dómi dómstóls Evrópusambandsins frá 14. nóvember 2017 í máli nr. C-671/15 var því slegið föstu að áherslur samkeppnisréttar um hag neytenda geti ekki einar varðað veginn um mat á gildi samstarfs framleiðenda í landbúnaði. Þar yrði einnig að horfa til markmiða sáttmálans með hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu. Með öðrum orðum var kveðið á um ákveðin forgangsáhrif landbúnaðarstefnunnar gagnvart samkeppnisreglum sambandsins.

Framleiðendur og framleiðendafélög njóta almennrar heimildar til samstarfs sem tekur til ýmiss konar innviðaverkefna, svo sem sameiginlegrar vinnslu, dreifingar, flutninga, pökkunar, geymslu og meðhöndlunar úrgangs og sameiginlegra innkaupa á aðföngum. Í reglugerð (ESB) nr. 1308/2013 um sameiginlegt markaðskerfi fyrir landbúnaðarafurðir er sérstakur kafli um samkeppnismál. Þar er tekið fram að ráðstafanir framleiðendafélaga um framleiðslu eða sölu landbúnaðarafurða, eða sameiginlega geymslu, vinnslu eða meðferð afurða, falli ekki undir bannreglur samkeppnisákvæða sáttmála um starfshætti ESB nema markmiðum landbúnaðarstefnunnar samkvæmt sáttmálanum sé stefnt í hættu. Um leið er tekið fram að þessar ráðstafanir megi ekki fela í sér skyldu til samræmdrar verðlagningar eða leiða til útilokunar á samkeppni. Ekki er gerð krafa innan ESB um að slík félög séu sérstaklega skráð eða viðurkennd af hálfu opinberra aðila til að þau njóti hinnar almennu undanþágu. Þau geta þó óskað skráningar og þá njóta þau enn frekari réttinda í tilteknum tilvikum.

Völd bænda?

Páll Gunnar kemur inn á að Samkeppniseftirlitið hafi lýst jákvæðri afstöðu við upphaflegt frumvarp matvælaráðherra og að í umsögn við frumvarpið hafi eftirlitið lagt áherslu á að bændur myndu með skýrum hætti ráða þeim fyrirtækjum sem undanþágurnar tækju til. Með því hefðu skapast hvatar til að færa bændum meiri áhrif og völd í starfandi kjötafurðastöðvum. Staðreyndin er sú að það voru aðeins þrjú fyrirtæki sem hefðu fengið þessa undanþágu, það eru Matfugl, Stjörnugrís og Ísfugl. Hvernig áttu þessar breytingar að styrkja stöðu bænda?  Stjórn hvers félags þarf alltaf að hafa hag félagsins að leiðarljósi, þó að fyrirtæki sé í eigu bænda þá eru þeir ekki að borga meira en fyrirtækið ræður við. Allt tal um aukin völd eru því hér innantómt hjal.

Þegar ljóst var að frumvarpið kæmi ekki til með að ná þeim tilgangi sem lagt var upp með í upphafi lagði meirihluti atvinnuveganefndar til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Nefndin taldi nauðsynlegt að horfa til þess hvernig hægt væri að nálgast frumvarpið betur með það að markmiði að það myndi gagnast fleirum, þar með talið bændum.

Um einokun

Þá er það merkilegt að lesa umfjöllunina um meinta heimild til einokunar sem Páll Gunnar kemur inn á í greininni,  hann heldur því fram að með því að veita umræddar undanþágur sé verið að taka úr sambandi eftirlit með samrunum kjötafurðastöðva og opnað fyrir því að komið verði á algerri einokun á íslenskum kjötmarkaði. Þessi fullyrðing er á þunnum ís og forstjóri Samkeppniseftirlitsins kýs að skauta algerlega fram hjá þeirri staðreynd að öll samkeppni við íslenska kjötframleiðslu kemur erlendis frá. Íslenskur landbúnaður þarf á íslenskum neytendum að halda og á sama tíma þarf innlend framleiðsla að vera samkeppnishæf við innflutta matvöru. Ef ekki er veitt svigrúm til hagræðingar í greininni er næsta víst að neytendur færi sig í auknum mæli yfir í erlenda staðgönguvöru með þeim afleiðingum að það fjarar undan íslenskum landbúnaði.  Það sama myndi gerast ef sú hagræðing sem nú er möguleg skilar sér ekki á endanum til íslenskra neytenda. Hátt verð á innlendri landbúnaðarvöru veldur því að neytendur versla aðrar vörur og á sama tíma hafa sífellt fleiri íslenskir bændur verið að bregða búi, því er nú verið að reyna að breyta.

Ástæðan fyrir því að ekki var farin sú leið að fara í opinbera verðlagningu er sú að ákveðið var að treysta að afurðastöðvarnar myndu skila hagræðingunni til bænda, ef ekki þá er það næsta víst að afurðastöðvarnar munu einar af annarri fara að skella í lás, því það er engin íslensk afurðastöð ef það er enginn íslenskur bóndi. Auk þess er rétt að geta þess og halda til haga að í lögunum er að finna ákvæði sem segir að fyrir lok árs árið 2028 skuli ráðherra flytja Alþingi skýrslu þriggja óháðra sérfræðinga á sviði hagfræði og samkeppnisrekstrar um reynsluna af framkvæmd undanþágureglu 71. gr. A og meta áhrif hennar m.a. með hliðsjón af markmiðsákvæðum laganna. Meta skal sérstaklega hver ávinningur bænda og neytenda hefur verið. Það verður fróðlegt að lesa þessa skýrslu eftir fjögur ár.

Varðandi samrunaeftirlit

Þá er það sérstaklega gott að Páll Gunnar opnaði á umfjöllunina um samrunaeftirlit í grein sinni, það veitir tækifæri til þess að fjalla um það. Staðreyndin er sú að ferlið sem fer í gang við fyrirhugaðan samruna er mjög dýrt og langt, auk þess sem það er alls óvíst hvort það skili einhverjum árangri. Því er um töluverða áhættu fyrir fyrirtæki að fara þessa leið. Málsmeðferðin þegar Norðlenska, Kjarnafæði og SAH afurðir óskuðu eftir að sameinast tók mjög langan tíma, kallaði á mikla lögfræðiaðstoð og vinnu starfsmanna. Á þessum tíma var sá sem hér skrifar búinn að vera stjórnarmaður í Búsæld sem er hlutafélag bænda sem fer með eignarhlut bænda í Norðlenska og í varastjórn Norðlenska og þekki þar af leiðandi mjög vel til hvað gekk á í þessum samruna. Þeir snúningar sem Samkeppniseftirlitið tók í tengslum við þennan samruna kostuðu fyrirtækið og bændur ríflega 600 milljónir króna og því alls ekki hægt að tala um það sem einfalda og léttvæga leið til þess að feta. Þá er rétt að geta þess að umrædd viðhorfskönnun sem Páll Gunnar vísar í greininni var þannig úr garði gerð að það var engan veginn hægt að svara henni á þann hátt en að hún kæmi illa út fyrir bændur. En ekki hvað samruninn gæti þýtt fyrir bændur. Þannig er nær undantekningarlaust háttað með allar skoðanakannanir sem Samkeppniseftirlitið setur fyrir bændur, yfirleitt er niðurstaðan fyrir fram sögð.

Varðandi 15. gr. samkeppnislaga

Gagnrýnt er í greininni að ekki sé valið að nýta heimild í 15. gr. samkeppnislaga sem heimilar samstarf keppinauta ef sýnt er fram á að samstarfið stuðli að bættri framleiðslu eða dreifingu á vöru eða þjónustu og veiti viðskiptavinum sanngjarna hlutdeild í ávinningnum.  Því vil ég svara, það er eitt fyrirtæki sem hefur reynt þessa leið, Markaðsráð kindakjöts, og talið að þessi leið sé ófær því hún byggir á sjálfsmati þegar menn fara saman. Ef fyrirtæki ná ekki markmiðum sínum þá hafa þau brotið samkeppnislög og eiga yfir höfð sér mjög háar sektir, því velur því enginn að fara þessa leið. Rangt mat á skilyrðum 15. gr. samkeppnislaga kann að leiða til þess að fyrirtæki og samtök fyrirtækja teljast hafa brotið gegn 10. gr. og 12. gr. samkeppnislaga og eftir atvikum 53. gr. EES-samningsins. Brotið kann því að valda fyrirtækjum eða samtökum þeirra stjórnvaldssektum og baka starfsmönnum eða stjórnarmönnum fyrirtækjanna eða samtaka fyrirtækja refsiábyrgð skv. 41. gr. a laganna. Þá leiðir það af 33. gr. samkeppnislaga að ef skilyrðum 15. gr. er ekki fullnægt er samningurinn ógildur. Þá kann rangt mat á skilyrðum 15. gr. samkeppnislaga að leiða til þess að viðkomandi aðilar verði dæmdir til greiðslu skaðabóta ef brot þeirra á 10. eða 12. gr. samkeppnislaga hefur valdið tjóni.

Þá taldi meirihluti atvinnuveganefndar að ákvæði 15. gr. samkeppnislaga veiti ekki nægjanlegt svigrúm til samstarfs, m.a. þar sem ekki er heimilt að taka tillit til hagsmuna framleiðenda. Þess utan er tilgangur búvörulaga m.a. að stuðla að framförum og aukinni hagkvæmni í búvöruframleiðslu og vinnslu og sölu búvara til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur. Þá er tilgangur laganna að kjör þeirra sem landbúnað stunda verði í sem nánustu samræmi við kjör annarra stétta og að stuðla að jöfnuði milli framleiðenda í hverri búgrein hvað varðar afurðaverð og markað. Þá skal nefnt að innan regluverks ESB, einstakra aðildarríkja og Noregs hefur verið talið nauðsynlegt og æskilegt að lögfesta sérstakar undanþágur varðandi landbúnað til viðbótar við sambærileg ákvæði 15. gr. íslensku samkeppnislaganna. Með öðrum orðum þá  eru til staðar almennar undanþágur sambærilegar þeim sem eru í 15. gr. og síðan sértækar undanþágur fyrir landbúnað. Er það talið nauðsynlegt vegna sérstaks eðlis landbúnaðarstarfsemi og hafa þær undanþágur ákveðin forgangsáhrif gagnvart samkeppnislögum

Það eru skilyrði

Enn og aftur, í ljósi upplýstrar umræðu er rétt að leiðrétta rangfærslur um hvað afurðastöðvarnar mega og mega ekki gera.  Því er rétt að fara hér betur yfir 71. gr. og skilyrði afurðastöðva til þess að nýta heimildina. Í lagagreininni segir „Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er framleiðendafélögum skv. 5. gr. heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli afurðastöðva að því er varðar framleiðslu einstakra kjötafurða og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Framleiðendafélög sem nýta sér heimild 1. mgr. skulu:“ Þá eru talin upp skilyrði í fjórum stafliðum sem ástæða er til þess að fjalla um betur og það ekki í fyrsta skiptið.  

Fyrst ber að nefna staflið a. sem segir að afurðastöðvum sem hyggjast nýta sér heimildina sé skylt að safna afurðum frá framleiðendum kjötvöru á sömu viðskiptakjörum. Þetta skilyrði var sett inn til að tryggja að allir framleiðendur séu jafnsettir hvað varðar möguleika á að koma búfé til slátrunar óháð staðsetningu og á sömu viðskiptakjörum. Með öðrum orðum, bændur geta valið hvar gripum er slátrað, öfugt við það sem Páll Gunnar heldur fram. Vissulega mun framtíðin ein leiða í ljós hvar slátrað verður í framtíðinni,  en það er nokkuð víst að lítið land eins og Ísland þarf ekki á mörgum sláturhúsum að halda.

Þá að öðru skilyrði staflið b. þar sem segir að framleiðendafélögum sé skylt að selja öðrum vinnsluaðilum afurðir til frekari vinnslu á sömu viðskiptakjörum og vinnsluaðilum sem lúta þeirra stjórn. Með þessu skilyrði er stefnt að því að stuðla að samkeppni og fyrirbyggja að aðrir vinnsluaðilar þurfi að greiða hærra verð fyrir sömu vöru og aðilar sem lúta stjórn framleiðendafélaga.

Þriðja skilyrðið stafliður c. kveður á um að ekki sé heimilt að setja skorður við því að framleiðendur færi viðskipti sín til annars aðila. Er þessu skilyrði ætlað að efla og tryggja samningsstöðu bænda og stuðla að því að samkeppni ríki áfram á markaði. Enda er ekki ljóst að allir sláturleyfishafar taki þátt í því samstarfi heimilað var með þessum breytingum.

Að lokum í staflið d. er framleiðendum tryggður réttur til að eiga einungis viðskipti við framleiðendafélag um afmarkaða þætti, svo sem slátrun. Með þessu skilyrði er stuðlað að því að tryggja samningsstöðu bænda og fyrirbyggja hindranir fyrir minni keppinauta í slátrun og vinnslu sem lögin gætu ella skapað. Með þessum hætti er þeim auðveldað að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir ef þeir kjósa að gera það.

Þessi breytingar á búvörulögum ganga aðeins út á það að heimila samstarf um þessa afmörkuðu þætti, allar fabúleringar Páls Gunnars um að undanþágurnar veiki bann við samráði við kaup á aðföngum svo sem áburði, eða samráðs við kaup á tollkvóta eiga ekki við rök að styðjast. Frumvarpið gengur ekki út á það að heimila þessa þætti og það sætir furðu að maður sem starfar sem forstjóri Samkeppniseftirlitsins skuli halda slíkum falsfréttum á lofti. Um efni frumvarpsins og breytingartillögu meirihluta atvinnuveganefndar er fjallað um í nefndarálit sem og í umræðum á Alþingi, sem líta ber á sem lögskýringargögn við túlkun þessara laga. Ekkert er þar fjallað um heimildir varðandi þá þætti sem Páll Gunnar telur reyna muni á í framtíðinni.

Um varnir og vilja bænda

Þá í grein sinni hefur forstjóri Samkeppniseftirlitsins miklar áhyggjur að varnir bænda gagnvart þeim undanþágum sem nú hafa verið veittar  séu litlar. Til að svara því vill undirritaður benda á að afurðastöðvarnar sem í hlut eiga eru ekki í meirihlutaeigu bænda, að undanskildum afurðastöðvum í svína- og kjúklingakjöti. Bændur geta því ekki veitt fyrirtækjunum eigendaaðhald með fullum þunga – og hvernig eiga menn að veita fyrirtæki eigendaaðhald, fyrirtæki verður að geta rekið sig burt frá því hverjir sitja í stjórn, markmiðið með þessum lögum er að veita möguleika á að hagræða svo hægt sé hækka verð til frumframleiðenda og halda verði samkeppnishæfu við innflutning.

Þá segir í greininni að hagsmunir starfandi kjötafurðastöðva beinast að því að þrengja svigrúm bænda til að stjórna afurðum sýnum sjálfir fremur en rýmka, s.s. með því að hækka verð á heimtöku og herða heilbrigðiskröfur. Hvaða rangfærslur er þetta! Þetta er þvert á móti skrifað inn í frumvarpið og vil ég benda Páli Gunnari að renna enn einu sinni yfir skilyrðin. Auk þess segir í greininni að eina verndin sem hin nýja löggjöf veiti bændum sé að það sé óheimilt að neita bændum um að taka við gripum til slátrunar. Þetta er rangt, þeim ber skilda til að ná í alla gripi, þeim ber skilda til þess að slátra þeim sem og að þjónusta. Þá er ekki heimilt að okra á heimtöku.  Þá veltir greinaskrifari fyrir sér hver vilji bænda sé, það rétta er að bændur höfðu ekkert um stöðuna að segja í gamla kerfinu og hafa heldur ekki núna þar sem þeim er óheimilt að semja um verð. En við getum alveg farið í það ef það er vilji Samkeppniseftirlitinu að heimila undanþágu frá samkeppnislögum þess lútandi.

Að lokum, það er svo sannarlega nýtt upphaf hjá bændum með þessum lögum, þetta er upphafið að því að breyta starfsskilyrðum bænda til góðs og þetta verður til þess að afurðastöðvar skila hagræðingunni til bænda, hvort sem það er skrifað inn í lög eða ekki. Ég fagna áhuga Páll Gunnars á málefnum bænda, en það færi betur að hann myndi ganga í takt við vilja þeirra og skilja þeirra skoðanir.

Þórarinn Ingi Pétursson, formaður atvinnuveganefndar og þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 30. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Um afgreiðslu nýrra búvörulaga

Deila grein

18/04/2024

Um afgreiðslu nýrra búvörulaga

Und­an­farna daga hef­ur verið linnu­laus frétta­flutn­ing­ur um af­greiðslu at­vinnu­vega­nefnd­ar Alþing­is á frum­varpi Svandís­ar Svavars­dótt­ur, þá mat­vælaráðherra, um fram­leiðenda­fé­lög. Í þess­um frétta­flutn­ingi, sem hef­ur verið sér­stak­lega óbil­gjarn, hef­ur verið farið fram með gíf­ur­yrðum og rang­færsl­um og af því til­efni tel ég rétt að fara hér yfir nokkr­ar staðreynd­ir.

Eina Evr­ópu­landið án und­anþágu fyr­ir kjötaf­urðastöðvar

Allt frá ár­inu 2020 hafa stjórn­ar­flokk­arn­ir haft það til skoðunar að inn­leiða und­anþágu fyr­ir kjötaf­urðastöðvar frá sam­keppn­is­lög­um. Tvær ástæður búa þar að baki. Fyrri ástæðan er vel þekkt en lengi hef­ur af­koma í land­búnaði, m.a. vegna rekst­urs kjötaf­urðastöðva, verið mjög slæm – reynd­ar svo slæm að nú er svo komið að kjötaf­urðastöðvar eru langt­um of marg­ar og rekst­ur­inn svo erfiður að eig­end­ur þeirra hafa ekki getað ráðist í nauðsyn­leg­ar end­ur­bæt­ur. Seinni ástæðuna má rekja til út­gáfu skýrslu Laga­stofn­un­ar Há­skóla Íslands, sem unn­in var að beiðni Kristjáns Þórs Júlí­us­son­ar, þáver­andi at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, þar sem kom­ist var að þeirri niður­stöðu að víðtæk­ar und­anþágur hefðu gilt í ESB-rétti og norsk­um rétti um ára­tuga­skeið. Það mætti líkja þessu við að ís­lensk­ir bænd­ur mættu með smjör­hníf á móti sverði þegar kem­ur að sam­keppni við inn­flutt­ar land­búnaðar­vör­ur.

Um frum­varp mat­vælaráðherra

Sú staða sem ís­lensk­ur land­búnaður hef­ur búið við var ástæða þess af hverju fyrr­ver­andi mat­vælaráðherra lagði fram frum­varp um und­anþágu fyr­ir fram­leiðenda­fé­lög sem fól í sér und­anþágu frá sam­keppn­is­lög­um. Við fram­lagn­ingu frum­varps­ins var hins veg­ar strax ljóst að van­kant­ar væru á mál­inu þar sem það gagnaðist í raun ein­ung­is litl­um hluta fram­leiðslu­kerf­is land­búnaðar, nán­ar til­tekið ali­fugla- og svína­bænd­um. Þannig var ljóst að frum­varpið hefði ekki gagn­ast meg­inþorra afurðastöðva í stór­gripa- og sauðfjár­slátrun þar sem vand­inn hef­ur verið mest­ur. Haf­andi heyrt ábend­ing­ar frá þing­mönn­um full­yrti fyrr­ver­andi mat­vælaráðherra þetta í ræðustól á Alþingi í umræðum um málið og sagði: „Ég held að þetta sé gott dæmi um mál sem þingið á að taka til kost­anna og sýna hvað í því býr og sýna hvað frum­varpið hef­ur að geyma þegar það er dregið úr því það mesta og mik­il­væg­asta sem kem­ur til með að styðja við mark­miðin sem við erum sam­mála um hér. Þingið fær að glíma við þetta. Þingið fær að sýna hvað í því býr.“ At­vinnu­vega­nefnd tók til­lit til þess­ara orða ráðherr­ans þegar nefnd­in hóf vinnu sína og móttók um­sagn­ir frá um­sagnaraðilum.

Um meiri­hluta­álit at­vinnu­vega­nefnd­ar

Hvað um­sagn­ir um­sagnaraðila varðar, þá ber að taka skýrt fram að þær voru mjög mis­jafn­ar. Hér var að veru­legu leyti um end­ur­tekið efni und­an­far­inna þriggja ára að ræða. Til að mynda vísaði Sam­keppnis­eft­ir­litið að mestu leyti til fyrri um­sagna sinna þar sem t.d. hef­ur verið full­yrt að und­anþága gangi gegn EES-samn­ingn­um. Aldrei hef­ur hins veg­ar verið rök­stutt af hálfu Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins, eða þeirra hags­munaaðila sem vísa til um­sagn­ar þess, hvernig und­anþága frá sam­keppn­is­regl­um gangi gegn EES-samn­ingn­um. Þetta vek­ur sér­staka at­hygli í ljósi þess að fyr­ir ligg­ur í dóm­um EFTA-dóm­stóls­ins sú afstaða dóms­ins, auk Eft­ir­lits­stofn­un­ar EFTA, fram­kvæmda­stjórn­ar ESB og ís­lenskra og norskra stjórn­valda, að fram­leiðslu­kerfi land­búnaðar standi al­mennt utan EES-samn­ings­ins. Það væri fróðlegt og gott fyr­ir umræðuna ef eft­ir­tald­ir aðilar gætu rök­stutt um­sagn­ir sín­ar með ein­hverj­um hald­bær­um gögn­um í stað þess að þyrla upp moldviðri. Þá er einnig rétt að halda því til haga að meiri­hluta­álitið lá fyr­ir at­vinnu­vega­nefnd­inni í fjóra daga áður en það var birt, án at­huga­semda frá minni­hluta at­vinnu­vega­nefnd­ar.

Um gagn­rýni Viðreisn­ar

Viðreisn hef­ur farið mik­inn í gagn­rýni sinni á hin nýju bú­vöru­lög. Það kem­ur þeim sem til Viðreisn­ar þekkja ekki á óvart. Það sem hins veg­ar kem­ur á óvart er að stjórn­mála­flokk­ur sem aðhyll­ist aðild að ESB skuli ekki geta sætt sig við það að inn­leidd­ar séu und­anþágur fyr­ir land­búnað, sem í grunn­inn byggj­ast á sam­svar­andi heim­ild­um til sam­starfs og gilda inn­an Evr­ópu en taka til­lit til ís­lenskra aðstæðna. Viðreisn virðist al­gjör­lega horfa fram hjá því að þar gilda und­anþágu­regl­ur fyr­ir evr­ópsk­an land­búnað frá sam­keppn­is­regl­um og hafa gert í nær 60 ár. Það er því hol­ur hljóm­ur í þing­ræðum og greina­skrif­um þing­manna Viðreisn­ar þegar það er látið í veðri vaka að full­komið viðskiptafrelsi gildi á markaði með land­búnaðar­vör­ur inn­an ESB. Því fer fjarri, þar gilda und­anþágu­regl­ur, og hafa gert lengi. Af nýj­ustu frétt­um að dæma var ný und­anþága frá sam­keppn­is­regl­um fyr­ir land­búnað inn­leidd í ESB, vegna um­hverf­is­sjón­ar­miða, nú síðast í des­em­ber 2023.

Hér má einnig benda á að Viðreisn hef­ur gert mikið úr því að fé­lög í blönduðum rekstri kunni að hagn­ast á und­anþág­unni. Slík afstaða bygg­ist á grund­vall­armis­skiln­ingi enda tek­ur und­anþágan ein­ung­is til slátr­un­ar og/​eða vinnslu kjötaf­urða og af­leiddra afurða. Eðli máls­ins sam­kvæmt myndi und­anþága ekki taka til annarr­ar starf­semi.

Sér­hags­mun­ir og al­manna­hags­mun­ir

Hags­munaaðilar hafa gagn­rýnt hin nýju lög og full­yrt að sér­hags­mun­ir hafi gengið fram­ar al­manna­hags­mun­um. Það kann að vera auðvelt fyr­ir hags­munaaðila, einkum Fé­lag at­vinnu­rek­enda, að ganga fram með þeim hætti sem gert er. Enda gæt­ir fé­lagið hags­muna inn­flutn­ings­fyr­ir­tækja og geng­ur mjög hart fram í þeim efn­um án þess, að því er virðist, að taka nokk­urt til­lit til annarra sjón­ar­miða, s.s. byggðasjón­ar­miða og fæðuör­ygg­is, o.s.frv. En mál af þessu tagi horfa öðru­vísi við hvað þing­menn varðar. Þing­menn þurfa að taka til­lit til þess að þjóðin býr ekki bara á höfuðborg­ar­svæðinu. Þjóðin býr um allt land og það er á ábyrgð lög­gjaf­ans og fram­kvæmda­valds­ins að tryggja að byggð sé um gjörv­allt landið. Það er þing­manna að gæta að at­vinnu­stigi, at­vinnu­ör­yggi, fæðuör­yggi og þjóðarör­yggi, en til alls þessa, hvers og eins þátt­ar og svo allra til sam­ans, þarf að horfa við laga­setn­ingu.

Það er ágætt les­andi góður að velta fyr­ir sér í þessu sam­hengi hvers vegna fé­lag at­vinnu­rek­enda, áður nefnt Fé­lag stór­kaup­manna, hafi farið svo hart fram síðustu daga sem raun ber vitni. Hér er um að ræða sama fé­lag og vildi selja Íslend­ing­um jurta­ost sem venju­leg­an ost. Er fram­kvæmda­stjóri fé­lags at­vinu­rek­enda í al­vöru að berj­ast með hag neyt­enda að leiðarljósi eða er það kannski frek­ar fyr­ir hag um­bjóðenda sinna, eft­ir sem áður? Þá sæt­ir það furðu að Neyt­enda­sam­tök­in og VR hafa kosið að hoppa á þenn­an vagn og kalla sig nú ásamt Fé­lagi at­vinnu­rek­enda „Sam­keppn­i­stríóið“!

Um fram­hald máls­ins

Ef við horf­um til þeirra landa sem við ber­um okk­ur sam­an við sést að all­ar þjóðir eru í dag að reyna að verja sína fram­leiðslu með ein­hverj­um hætti, hvers vegna ætt­um við ekki gera allt sem í okk­ar valdi stend­ur til að tryggja betri starfs­skil­yrði fyr­ir grein­ina? Ég full­yrði það enn og aft­ur að neyt­end­ur munu njóta góðs af þess­um breyt­ing­um, því ef bænd­ur og afurðastöðvar standa sig ekki með bætt­um starfs­skil­yrðum þá munu neyt­end­ur ein­fald­lega líta fram hjá inn­lend­um land­búnaðar­vör­um og fara í aðrar vör­ur. Þetta vita bænd­ur og eig­end­ur afurðastöðva hér á landi.

At­vinnu­vega­nefnd hef­ur lokið af­greiðslu máls­ins og er það mat­vælaráðuneyt­is­ins að fram­kvæma lög­in eins og þau eru samþykkt af hálfu lög­gjaf­ar­valds­ins. Enda rík­ir þing­ræði í land­inu. Þá vil ég benda á í lok­in að at­vinnu­vega­nefnd hefði getið gengið lengra og samþykkt að veita und­anþágu frá banni við mis­notk­un á markaðsráðandi stöðu, líkt og gert er í Nor­egi, en hún taldi ekki rétt að gera það. Það er því fjarri lagi að at­vinnu­vega­nefnd hafi gengið er­inda ein­hverra risa­fyr­ir­tækja, rétt skal vera rétt, heild­armat nefnd­ar­inn­ar grund­vallaðist á al­manna­hags­mun­um.

Þórarinn Ingi Pétursson, formaður at­vinnu­vega­nefnd­ar Alþingis og þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. apríl 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­sókn stendur með bændum og neyt­endum

Deila grein

25/03/2024

Fram­sókn stendur með bændum og neyt­endum

Í síðustu viku voru samþykkt lög um breytingar á búvörulögum nr. 99/1993, framleiðendafélög. Þær miklu umræður sem fylgt hafa í kjölfarið hafa væntanlega ekki farið fram hjá nokkrum manni enda hafa stór orð verið látin falla sem eiga ekki öll rétt á sér.

Staða íslenskra bænda hefur verið erfið um langt skeið. Stóraukning á innfluttum landbúnaðarvörum og stökkbreytingar í verði á aðföngum hefur reynst greininni erfið síðustu ár, bara á síðasta ári jókst innflutningur á kjöti um 17%. Rekstur afurðastöðva í sauðfjár- og nautakjöti hefur lengi átt undir höggi að sækja og augljóst er ef að íslenskt lamba- og nautakjöt á að standast samkeppni frá innfluttu kjöti þarf að bregðast við. Hagræðing verður að eiga sér stað hjá afurðastöðvum til að standast erlenda samkeppni. Afurðastöðvar eru almennt að hluta í eigu bænda. Með þessum breytingum á búvörulögum sem nú hafa verið samþykkt er kjötafurðarstöðvum gert kleift að vinna saman eða sameinast til að ná fram rekstrarhagræði sem gagnast bæði bændum og neytendum.

Hagur bænda og neytenda

Því hefur verið haldið á lofti að þessar breytinga komi til með að stuðla að einokun, hækka vöruverð og verðbólgu. Þessar fullyrðingar eru á þunnum ís. Staðreyndin er sú að hagur bænda og neytenda fer saman. Íslenskur landbúnaður þarf á íslenskum neytendum að halda og á sama tíma þarf innlend framleiðsla að vera samkeppnishæf við innflutta matvöru. Ef ekki er veitt svigrúm til hagræðingar í greininni er næsta víst að neytendur færi sig í auknu mæli yfir í erlenda staðgönguvöru með þeim afleiðingum að það fjari undan íslenskum landbúnaði. Það sama myndi gerast ef sú hagræðing sem nú er möguleg skilar sér ekki til íslenskra neytenda. Hátt verð á innlendri landbúnaðarvöru veldur því að neytendur versla aðrar vörur. Þetta er einfalt reiknisdæmi. Að þessu leyti fara hagsmunir bænda og neytenda saman.

Rétt skal vera rétt

Þá er það hreinlega rangt það sem hefur verið haldið fram að afurðastöðvum sé nú heimilt að sameinast án takmarkana. Þeir sem skoða lögin geta séð að í þau eru skrifuð ákveðin skilyrði hyggist afurðastöðvar nýta sér þessa heimild. Þessi skilyrði voru sett inn í ljósi þess að samrunareglur eiga ekki lengur við. Þessi skilyrði tryggja að allir framleiðendur eru jafnsettir hvað varðar möguleika á að koma búfé til slátrunar óháð staðsetningu. Þá er afurðastöðvum skylt að selja öðrum vinnsluaðilum afurðir til frekari vinnslu á sömu viðskiptakjörum og vinnsluaðilum sem lúta þeirra stjórn. Með þessum skilyrðum er stuðlað að samkeppni og tryggt að aðrir vinnsluaðilar greiði sama verð fyrir sömu vöru og aðilar sem lúta stjórn framleiðendafélaga.

Þá er ekki heimilt að setja skorður við því að framleiðendur færi viðskipti sín til annars aðila. Er þessu skilyrði ætlað að efla og tryggja samningsstöðu bænda og tryggja að samkeppni ríki áfram á markaði. Að lokum er tryggður réttur til að eiga einungis viðskipti við framleiðendafélag um afmarkaða þætti, svo sem slátrun. Með þessu skilyrði er stuðlað að því að tryggja samningsstöðu bænda og fyrirbyggja hindranir fyrir minni keppinauta í slátrun og vinnslu. Þannig verður bændum auðveldað að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir ef þeir kjósa að gera það.

Sérstaða íslenskra kjörframleiðslu

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er sýklalyfjaónæmi einhver mesta ógn við heilsufar manna í dag. Nýútkomin skýrsla hóps á vegum heilbrigðisráðuneytisins í samvinnu við matvæla og umhverfis-, orku- og loflagsráðherra um aðgerðir til varnar útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería tekur undir þær staðhæfingar. Í skýrslu hópsins kemur fram að fæðuöryggi muni enn minnka þar sem sýklalyfjaónæmi hefur einnig áhrif á dýraheilbrigði og þar með matvælaframleiðslu. Sýklalyfjanotkun hér á landi í landbúnaði er með því minnsta sem þekkist og hefur það verið staðfest í eftirliti Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar um notkun sýklalyfja í landibúnaði

Það er ekki ofsagt að íslensk matvælaframleiðsla eigi sér sérstöðu á heimsvísu og undir þetta taka helstu sérfræðingar á sviði sýkla- og veirufræða. Þeir hafa brýnt fyrir okkur að verja þurfi þá sérstöðu sem við búum við á Íslandi. Á grunni sérstöðunnar á Ísland að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með banni á dreifingu matvæla sem í greinist sýklalyfjaónæmar bakteríur. Það er bein skylda okkar að standa með íslenskri matvælaframleiðslu. Þá þarf að þora að stíga þau skref sem þarf til að koma því þannig fyrir að heilnæmt kjöt sé á boðstólum íslenskra neytanda á viðráðanlegu verði.

Samstaða frekar en sundrung

Við sem smáþjóð þurfum að standa vörð um innlenda framleiðslu og fyrir því eru fleiri en ein ástæða. Fyrst má þar nefna mikilvægi þess að halda framleiðslunni innanlands vegna allra þeirra starfa sem hún skapar, fyrir utan þá staðreynd að við viljum viðhalda innlendum landbúnaði og matvælaframleiðslu í landinu. Að ótöldu fæðuörygginu, matvælaöryggi með heilnæmi landbúnaðarvara og mikilvægi þess að vera sjálfbær.

Framsókn hefur í gegnum tíðina staðið með landbúnaði og mun ávallt gera, enda á flokkurinn uppruna sinn í sveitum landsins og hefur sú taug aldrei slitnað öll þessi ár. Þingmenn Framsóknar hafa í gegnum tíðina gert sitt besta til þess að vera öflugir málsvarar bænda í landinu. Okkar verkefni nú er að halda áfram að ræða mikilvægi innlends landbúnaðar og koma sjónarmiðum okkar á framfæri við samstarfsflokkanna sem og aðra flokka á Alþingi með hag bænda og neytenda að leiðarljósi.

Halla Signý Kristjánsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Sam­staða um aukna vel­sæld

Deila grein

13/03/2024

Sam­staða um aukna vel­sæld

Skrifað hefur verið undir langtíma kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og SGS, Eflingar og Samiðnar – breiðfylkingar stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði. Það er rétt að hrósa samningsaðilum fyrir þeirra góðu vinnu og þann metnað sem lagður var í það verkefni að ná saman. Samningarnir skipta okkur sem samfélag gríðarlega miklu máli, sér í lagi í baráttunni við að ná niður verðbólgu. Hér hefur fólk ákveðið að standa bak í bak með það að markmiði að bæta lífskjör hér á landi, lækka vexti, minnka verðbólgu og auka kaupmátt.

Á samningstímanum verða lagðir allt að 80 milljarðar í aðgerðir sem eiga að m.a. að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði og fjölskylduvænna samfélagi samhliða. Með þessum aðgerðum munu ráðstöfunartekjur fjölskyldna aukast verulega á samningstímanum, eða um allt að 500 þúsund krónur á ári.

Mikill ávinningur

Ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga lögðu lóð á vogarskálarnar við gerð þessara samninga með aðgerðum til næstu fjögurra ára. Hér vilja allir leggjast á eitt við að auka velsæld. Almennt má segja að kjarasamningarnir samrýmist þeim spám sem hafa komið út nýlega og gera ráð fyrir áframhaldandi markverðri lækkun verðbólgu í ár sem tryggja á lækkun vaxta.

Mikill ávinningur er af lækkun á vaxtastigi hvort sem er fyrir heimilin í landinu, fyrirtæki, ríki og sveitarfélög. Fyrir heimili sem skuldar 40 m.kr. húsnæðislán er 1% lækkun um 400 þús. kr. á ári. Ef við horfum til sveitarfélaganna má gera ráð fyrir að 1% lækkun á vöxtum samsvari um 5,7-6,0 milljörðum króna. Þá er rétt að það komi fram að skuldir ríkissjóðs eru með föstum kjörum. Það þýðir að vaxtalækkun hefur eingöngu áhrif á nýjar lántökur. Fyrir hvern 1 milljarð sem ríkið tekur að láni þýða 1% lægri vextir 10 m.kr. lægri vaxtagjöld á ári. Það er fljótt að safnast saman við hverja prósentulækkun og til mikils að vinna.

Öruggt heimili fyrir alla

Aukinn stöðugleika á húsnæðismarkaði og vinna gegn auknum kostnaði almennings vegna húsnæðis er forgangsmál og nú þegar er búið að fjármagna þær aðgerðir. Heilbrigður húsnæðismarkaður er mikilvæg kjarabót fyrir almenning í landinu. Til að mæta auknum vaxtakostnaði heimila nú um stundir verða á árinu 2024 greiddir út allt að 7 milljarðar króna í sérstakan vaxtastuðning til heimila með íbúðalán. Stuðningurinn tekur mið af vaxtagjöldum ársins 2023 og kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Þessu til viðbótar og til að daga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda verða húsnæðisbætur hækkaðar frá 1. júní nk. og munu grunnfjárhæðir húsnæðisbóta til leigjenda hækka um 25%, auk þess sem tillit verður tekið til fjölskyldustærðar þannig að greiddar verða húsnæðisbætur fyrir allt að sex heimilismenn í stað fjögurra áður.

Fyrir fjölskyldurnar í landinu

Sérstök áhersla er lögð á stuðla að fjölskylduvænna samfélagi með aðgerðum sem miða að því að auka velsæld barnafjölskyldna. Auka á framlög til barnabóta um 18 milljarða króna á samningstímanum. Barnabætur verða hækkaðar og dregið verður úr tekjuskerðingum sem mun fjölga þeim foreldrum sem fá stuðning um 10.000. Þá verður útfærð leið til að skólamáltíðir grunnskólabarna verði gjaldfrjálsar frá og með ágúst 2024. Þessum lið fögnum við sérstaklega enda mikilvægt að öll börn eigi kost á hollum og staðgóðum skólamáltíðum. Hér er um lýðheilsu- og jafnréttismál að ræða. Við í Framsókn höfum í gegnum árin lagt mikla áherslu á að bæta fæðingarorlofskerfið og með þeim aðgerðum sem hér hafa verið lagðar til verða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í þremur áföngum á næstu tveimur árum. Þá munu stjórnvöld og sveitarfélögin taka höndum saman og vinna með markvissum hætti að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla á samningstímanum með því að tryggja öllum börnum leikskólavist.

Markvisst er unnið að því að draga úr kostnaði við að sækja heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð. Á síðasta ári bætti heilbrigðisráðherra við þriðju flugferðinni og með þessum aðgerðum eru þær nú orðnar fjórar. Þá á að gera breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna sem lúta að því að létta vaxtabyrði og draga úr skyndilegum og ófyrirséðum hækkunum vegna verðbólgu og vaxta á afborganir námslána. Þá líkt og lengi hefur verið kallað eftir á að afnema ábyrgðarmannakerfi námslána. Fleiri aðgerðir eru hér lagðar til og um þær má lesa á vef Stjórnarráðsins, en allar miða þær að sama marki; styðja með öflugum hætti við fólkið í landinu og lækkun verðbólgu og vaxta.

Mál málanna

Allt of lengi höfum við verið að berjast við að ná niður verðbólgunni og vaxtakostnaður hefur rokið upp úr öllu valdi með tilheyrandi hækkunum og þar með minnkandi ráðstöfunartekjum. Með þessum samningum og sér í lagi loforðum ríkis og sveitarfélaga um að halda aftur að gjaldskrárhækkunum er verið að bregðast við með markvissum hætti. Við höfum áður rætt um hvað einkennir gott samfélag, það er að standa saman og rétta fram hjálparhönd. Um þessar mundir reynir á að sýna samstöðu og samfélagslega ábyrgð í því verkefni að ná niður verðbólgu. Því vil viðbótar köllum við eftir að hin „breiðu bök“ standi nú með þjóðinni á vegi til aukinnar velsældar.

Fyrir þetta stendur Framsókn – framtíðin ræðst á miðjunni.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar 

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. mars 2024.

Categories
Fréttir

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Deila grein

26/02/2024

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Þingmenn og ráðherrar Framsóknar verða á ferð og flugi um land allt næstu daga. Þingflokknum er mikilvægt að heyra raddir kjósenda með reglubundnum hætti. Áhersla verður á heimsóknir í bland við opna fundi.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir alla opna fundi, en einnig má nálgast viðburðina á Facebook: https://fb.me/e/3vOUaC0mJ

Mánudagur 26. febrúar:
Reykjavík – Sykursalnum Grósku, kl. 20.00.
Suðurnesjabær – Samkomuhúsinu Sandgerði, kl. 20.00.

Þriðjudagur 27. febrúar:
Mosfellsbær – Skátaheimili Mosverja, kl. 20.00.
Bláskógabyggð – Efsti Dalur, kl. 20.00.
Borgarbyggð – Landnámssetrinu, kl. 20.00.

Miðvikudagur 28. febrúar:
Kópavogur – Siglingafélaginu Ými, Naustavör 14, kl. 20.00.
Akranes – Dalbraut 4, kl. 20.00.
Vopnafjörður – Safnaðarheimilinu, kl. 18.00.

Fimmtudaginn 29. febrúar:
Reyðarfjörður – Þórðarbúð, Austurvegi 39, kl. 17.30.
Sauðárkrókur – Kaffi Krók, kl. 20:15.
Egilsstaðir – Tehúsið, kl 20.00.
Árborg – Hótel Selfoss, kl 20.00.

Föstudagur 1. mars:
Húsavík – Félagsheimili eldri borgara, Hlyn, kl. 16.00.

Laugardagur 2. mars:
Hafnarfjörður – Kiwanissalnum, Helluhrauni 22, kl. 11.00.

Á næstu vikum munu þingmenn og ráðherrar heimsækja Höfn, Vestmannaeyjar, Vestfirði, en nánari upplýsingar verða birtar síðar.

ATH. að dagskráin kann að taka breytingum með skömmum fyrirvara.

Við erum Framsókn!

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi.

Í meira en öld höfum við unnið að framfaramálum fyrir Ísland með hugsjónir samvinnunnar að leiðarljósi.

Við í Framsókn trúum því að yfirvegað samtal skili samfélaginu meiri árangri en upphrópanir.
Við setjum manngildi ofar auðgildi.

Categories
Fréttir Greinar

Orkuuppbygging er nauðsynleg til framtíðar

Deila grein

29/12/2023

Orkuuppbygging er nauðsynleg til framtíðar

„Nú árið er liðið í ald­anna skaut og aldrei það kem­ur til baka“ seg­ir í texta Valdi­mars Briem. Um ára­mót höf­um við til­hneig­ingu til þess að horfa til baka yfir far­inn veg og velta fyr­ir okk­ur hvernig við höf­um staðið okk­ur í leik og starfi. Á sama tíma horf­um við fram á við á þær áskor­an­ir sem blasa við okk­ur. Lífið líður áfram og það verður aldrei þannig að öll­um verk­efn­um sé lokið. Þessi miss­er­in eru áskor­an­ir í orku­mál­um þjóðar­inn­ar eitt af þeim stóru verk­efn­um sem brýn þörf er á að leysa. Það er afar mik­il­vægt að við sem störf­um á Alþingi náum giftu­ríkri niður­stöðu í þeim mál­um á kom­andi mánuðum.

Eft­ir­spurn um­fram fram­boð

Einn af helstu kost­um þess að búa á Íslandi er gott aðgengi að orku­auðlind­inni og höf­um við borið gæfu til þess að vera fram­sýn í fram­leiðslu á end­ur­nýj­an­legri orku. Öll framtíðar­hag­kerfi eru háð góðu aðgengi að orku. Íslensk heim­ili og at­vinnu­líf hafa getað treyst á gott og hag­kvæmt aðgengi orku og hef­ur það verið lyk­ill­inn að góðum lífs­kjör­um á Íslandi.

For­stjóri Lands­virkj­un­ar skrifaði grein í Morg­un­blaðið þann 27.12. 2023 með yf­ir­skrift­inni „Rán­dýr leki fyr­ir (næst­um) alla“. Í grein­inni er farið vel yfir þær áskor­an­ir sem blasa við orku­vinnslu­fyr­ir­tækj­um og neyt­end­um stór­um sem smá­um, á markaði þar sem eft­ir­spurn eft­ir grænni orku vex en því er ekki að heilsa hvað fram­boð varðar. Í grein­inni kem­ur m.a. fram að pant­an­ir á orku fyr­ir heild­sölu­markaðinn (þ.e. fyr­ir heim­ili og smærri fyr­ir­tæki) á næsta ári séu 25% meiri en sem nem­ur al­menn­um vexti í sam­fé­lag­inu og vek­ur það spurn­ing­ar um hvert ork­an sé að fara.

Al­menn­ing­ur og smærri fyr­ir­tæki á Íslandi hafa hingað til búið við þann munað að hafa haft óheft­an aðgang að grænni orku á hóf­legu verði. En nú eru blik­ur á lofti. Með vax­andi eft­ir­spurn stærri not­enda sem eru til­bún­ir að greiða mun hærra verð fyr­ir raf­orku en geng­ur og ger­ist er hætta á að breyt­ing­ar verði á raf­orku­markaðnum til framtíðar, það er að segja ef ekk­ert verður að gert. Með óbreyttu ástandi skap­ast hætta á að heim­ili í land­inu þurfi að fara að greiða mun hærra verð fyr­ir raf­orku en við höf­um van­ist hingað til. Ég hef litla trú á því að það sé póli­tísk­ur vilji í land­inu að stefna á þá leið að hækka raf­orku­verð til al­menn­ings með þess­um hætti, það er alla­vega ekki minn vilji né vilji okk­ar í Fram­sókn.

Frum­varp at­vinnu­vega­nefnd­ar

Á nýliðnu haustþingi lagði at­vinnu­vega­nefnd Alþing­is að beiðni um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra fram frum­varp til laga um breyt­ing­ar á raf­orku­lög­um nr. 65/​2003. Þetta frum­varp varð ekki til í ein­hverju tóma­rúmi held­ur er mark­miðið með því að tryggja raf­orku­ör­yggi heim­ila og minni fyr­ir­tækja í land­inu í sam­ræmi við stefnu stjórn­valda. Nái frum­varpið fram að ganga mun það tryggja að heim­ili og minni fyr­ir­tæki hafi ávallt aðgang að svo­kallaðri for­gangsra­f­orku í kerf­inu. Málið fékk efn­is­lega um­fjöll­un inn­an nefnd­ar­inn­ar og fór í gegn­um aðra umræðu. Við þriðju umræðu var það ein­róma niðurstaða at­vinnu­vega­nefnd­ar að fresta af­greiðslu máls­ins fram á nýtt ár 2024.

Ekki vilji til að hækka raf­orku­verð til al­menn­ings en úr­bóta er þörf

Það er mik­il­vægt að lög­festa aðgang al­menn­ings og smærri not­enda að for­gangsra­f­orku tíma­bundið, meðan leitað er allra leiða til frek­ari orku­öfl­un­ar, ork­u­nýt­ing­ar og efl­ing­ar á flutn­ings- og dreifi­kerfi raf­orku. Annað er ekki í boðlegt. Verk­efn­inu er hvergi nærri lokið.

Við í Fram­sókn leggj­um of­urá­herslu á fjöl­breytta þróun á end­ur­nýj­an­legri orku en að sama skapi að horft verði til hag­kvæmra kosta. Ljóst er að ork­u­nýt­ing hef­ur auk­ist til muna ár frá ári og því miður er staðan sem upp er kom­in fyr­ir­sjá­an­leg. Stjórn­völd verða að vera meira af­ger­andi og fram­sýnni í raf­orku­mál­um og mun at­vinnu­vega­nefnd sann­ar­lega leggja sitt af mörk­um í þeirri veg­ferð. Við í at­vinnu­vega­nefnd höld­um áfram þar sem frá var horfið fyr­ir jól og það er mín trú að við náum sam­an góðri og far­sælli niður­stöðu.

Með von í hjarta óska ég þess að bjart­ir og orku­mikl­ir tím­ar bíði okk­ar á nýju ári. Gleðilegt nýtt ár.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Fram­sókn­ar og formaður at­vinnu­vega­nefnd­ar Alþing­is.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. desember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Opinská samtöl í átt að betri landbúnaði

Deila grein

01/12/2023

Opinská samtöl í átt að betri landbúnaði

Matarkista okkar Íslendinga er fjölbreytt og margþætt. Hér á landi eru framleiddar heilnæmar afurðir sem unnar eru af alúð. Íslensk matvælaframleiðsla göfgar okkar samfélag og menningu.

Við erum rík af náttúrutengingu okkar, en einn af hornsteinum landbúnaðarins er að tryggð sé rétt nýting lands og verndun þess. Með öflugum landbúnaði, sem hingað til hefur verið eitt einkenna okkar Íslendinga, er stuðlað að bæði fæðuöryggi landsmanna og afli til að viðhalda blómlegri byggð um landið. Framleiðslan hefst hjá bændum, sem hafa unnið hörðum höndum við að tryggja að íslensk matvæli eru heilnæm, örugg og í hæsta gæðaflokki. Þrátt fyrir þrotlausa vinnu á stéttin undir þungt högg að sækja.

Við í Framsókn höfum alltaf unnið við að styðja þessa mikilvægu stétt og þeirri vinnu mun aldrei ljúka. Við höfum talað fyrir þeim sjónarmiðum að áfram þurfi að leita leiða til að styrkja landbúnað sem atvinnugrein, stuðla að aukinni sjálfbærni og gæta að búsetuöryggi á landsbyggðinni.

Ein elsta starfsgrein landsins sinnir mjög mikilvægu hlutverki til framtíðar og við verðum að tryggja henni tækifærin til þess.

Grafalvarleg staða

Þó svo að bændur séu því vanir að staða starfsgreinarinnar sé sveiflukennd þá hefur útlitið sjaldan verið eins slæmt né óvissan jafnmikil og núna. Það hefur varla farið fram hjá landsmönnum að aðstæður bænda og rekstrargrundvöllur fara versnandi með hverjum mánuði.

Margar ástæður eru fyrir þessari stöðu, en hana má aðallega rekja til utanaðkomandi atburða og aðstæðna. Við í Framsókn horfum á núverandi stöðu innan stéttarinnar alvarlegum augum, en hún er í raunverulegri hættu sem við verðum að gera út af við.

Á undanförnum vikum buðum við bændum á opna fundi á Norður- og Austurlandi, enda er það allra mikilvægasta að heyra áhyggjur þeirra beint. Andrúmsloftið á fundunum var skiljanlega þungt á köflum, en þeir voru góðir, gagnlegir og vel sóttir þar sem farið var yfir stöðuna og ekki síður horfur innan greinarinnar á opinskáan máta.

Af umfjöllun síðustu mánaða og framangreindum fundum með bændum er ljóst að fjöldi verkefna hefur beðið úrlausnar í of langan tíma þegar kemur að málefni landbúnaðarins og styrkingu á öflugri byggð á dreifðari svæðum. Allir eru sammála um að einfalda þurfi regluverkið í kringum atvinnugreinina, bæta aðgengi og efla rekstrarumhverfi innan landbúnaðarins.

Langur verkefnalisti

Bændur hafa lengi bent á að bú sé langtímastarfsemi, en bændur hafa farið í nauðsynlegar fjárfestingar sem hafa leitt til talsverðrar skuldsetningar.

Takmarkaðir fjármögnunarmöguleikar hafa, í samspili við hátt vaxtaumhverfi, leitt til þess að þungbærar horfur blasa nú við.

Á fundum okkar með bændum kom m.a. fram að rík þörf er fyrir endurfjármögnunarmöguleikum þar sem horft er til lengri tíma lánveitingu. Við viljum skoða möguleika á opinberu fyrirkomulagi sem getur styrkt greinina í heild og miðar að eðli starfseminnar.

Á sama tíma er mikilvægt að einfalda rekstrarumhverfi svo að unnt sé að skapa aukin tækifæri í landbúnaði með sjálfbærni að leiðarljósi. Þau sjónarmið eru í samræmi við það sem ungir bændur og nýliðar í greininni hafa lagt mikla áherslu á. Þau úrræði sem komið hafa fram að undanförnu, svo sem hlutdeildarlán, hafa ekki nýst ungum fjölskyldum í búrekstri sem skyldi. Þessar leiðir eru áhugaverðar og jákvæðar en þarfnast frekari útfærslu svo þær gefi góða raun, enda teljum við brýnt að nýliðun í landbúnaði verði útfærð þannig að hún hjálpi til við að lækka þröskuldinn fyrir þá aðila sem hyggjast hefja búrekstur.

Við í Framsókn tökum undir með bændum um að endurskoða þurfi fyrirkomulag tolla hér á landi og innflutning á afurðum erlendis frá. Tollavernd er innlendri matvælaframleiðslu afar mikilvæg og á að stuðla að því að hún geti stundað eðlilega samkeppni við sívaxandi innflutning á réttum og sanngjörnum forsendum. Á fundum okkar með bændum voru ræddar þær kröfur  sem við eigum að gera til innfluttra matvæla. Þær verða að vera í samræmi við þær kröfur sem við gerum hér heima. Þá eiga að vera gerðar kröfur m.t.t. sýklalyfjanotkunar, aðbúnað dýra og túlkun á gildandi löggjöf.

Tekjur og málefni afurðastöðva voru einnig rædd. Ekki síst í tengslum við verðmið við innflutning, sem er krónutölubundinn að hluta en fylgir ekki verðlagi. Það eru fjölmörg skýr dæmi um hversu brýnt er að huga sérstaklega að tekjum afurðastöðva innan landbúnaðarins.

Augljóst er að verkefnin eru fjölmörg og geta ekki beðið úrlausnar í langan tíma. Sjaldan hefur verið jafn nauðsynlegt að bretta upp ermar í þessum málaflokki. Bændur eiga það skilið að ríkið vinni með þeim á erfiðum tímum og aðstoði þá við að bæta stöðu þeirra og rekstrargrundvöll áður en að stór hluti greinarinnar heyri sögunni til í stað þess að spila sitt hlutverk til framtíðar.

Ingibjörg Isaksen og Þórarinn Ingi Pétursson, þingmenn Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 30. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Líf ís­lensk land­búnaðar hangir á blá­þræði

Deila grein

17/10/2023

Líf ís­lensk land­búnaðar hangir á blá­þræði

Það hefur legið fyrir um tíma að staða bænda hafi farið versnandi á síðustu árum, staðan hefur verið margrædd en lítið að gert. Veruleikinn er sá að afkoma bænda hefur verið með öllu óviðunandi frá árinu 2020, rekstrargrundvöllurinn er hverfandi með hverjum mánuði, nýliðun er lítil sem engin og bændur kalla ítrekað eftir aðgerðum til að koma starfsgreininni aftur í fyrra horf.

Það er ekkert einkamál bænda að standa vörð um fæðuöryggi þjóðarinnar. Fæðuöryggi þjóðarinnar er sameiginlegt verkefni stjórnvalda og bænda. Vel rekin bú berjast í bökkunum vegna fjárhagsvanda. Hækkun stýrivaxta ásamt ófyrirséðum stökkbreytingum í verði á aðföngum síðustu ára hafa eðli málsins samkvæmt gríðarleg áhrif á rekstur búa. Hækkun afborgana vegna hækkunar stýrivaxta nemur allt að 5,8 milljörðum hjá kúabúum, nautakjötsframleiðendum, sauðfjárbúum og í garðyrkju. Á sama tíma hafa bændur undirgengist ýmist strangt regluverk um velferð búfjár, mikilvægt regluverk sem kostað hafa miklar fjárfestingar á síðustu árum. Því miður er staða bænda á Íslandi nú svo grafalvarleg að fjöldagjaldþrot blasir við greininni verið ekkert að gert. Það sér hver í hendi sér að íslenskur landbúnaður getur ekki ofan í allt annað tekið á sig þessar hækkanir, stjórnvöld verða að bregðast við án tafar.

Betri lán í gegnum Byggðastofnun

Til að reka bú í dag þarf að fara í gríðarmikla fjárfestingar, fjárfestingar sem eru í engum takti við veltu búa. Í núverandi stöðu eru bændur að ganga á eignir til þess að geta staðið við rekstrarlegar skuldbindingar. Sá sem hér skrifar telur mikilvægt að við finnum leiðir til þess að hægt sé að byggja afkomu sína á matvælaframleiðslu, við verðum að bæta starfsskilyrði bænda. Rétta leiðin er ekki sú sem lagt er upp með í dag, það er, að eignast húseignir, bústofn, jarðnæði og land á 20 árum. Það er ekki raunhæft að ætla bændum að greiða niður nokkur hundruð milljón króna fjárfestingar á aðeins 20 árum og það er engin skynsemi í því. Við þurfum aðrar leiðir, að mínu mati ætti að veita bændum lán í gegnum Byggðastofnun á lágum vöxtum til lengri tíma, í anda gömlu stofnlánadeildarinnar. Svo það sé mögulegt þarf að stórauka fjármagn til Byggðastofnunar. Það er aðgerð sem myndi skila sér aftur til þjóðarinnar, ekki bara fyrir bændur heldur einnig sem liður í fæðuöryggi þjóðar. Markmiðið með þessum aðgerðum væri ekki að hækka vöruverð til neytenda heldur að tryggja að hér verði öflug matvælaframleiðsla í framtíðinni.

Hlutdeildarlán fyrir nýliða

Þá er nýliðun orðið „orð“ sem maður heyrir allt of sjaldan. Það að gerast bóndi í dag er ekki aðlaðandi verkefni. Það er ekki aðlaðandi fyrir ungt fólk að takast á við allar þær skyldur sem fylgja því að vera í búskap og þurfa síðan auk þess fyrir utan hefðbundinn vinnudag að fara í aðra vinnu til þess eins að geta framfleytt fjölskyldu sinni. Það að fara út í jarðarkaup í dag með öllu tilheyrandi er á fárra færi, undirritaður telur að skoða þurfi af fullri alvöru möguleika á að útfæra hlutdeildarlán til nýliðunar bænda.

Fyrir þá sem ekki þekkja til þá eru hlutdeildarlán úrræði fyrir tekju- og eignaminni einstaklinga og er ætlað að hjálpa fyrstu kaupendum undir ákveðnum tekjumörkum að brúa bilið við fasteignakaup. Í þeim tilvikum veitir HMS kaupanda hlutdeildarlán fyrir allt að 20% kaupverðs. Að mínu mati mætti útfæra lán til bænda með þeim hætti að stjórnvöld legði til 25-30% af kaupverði jarða og líkt og er með hlutdeildarlán til fasteignakaupa endurgreiði stjórnvöld sinn hlut að lánstíma loknum eða ef kæmi til sölu. Í rauninni er þetta eina leiðin sem er fær ef við viljum í alvöru tryggja nýliðun innan bændastéttarinnar.

Það er verk að vinna

Bændur á Íslandi framleiða með heilnæmustu matvörum í heiminum, það segir sig sjálft að það er mun kostnaðarsamara en að framleiða matvöru með aðstoð aukaefna líkt og gert er víða erlendis. Bændur vilja halda áfram að framleiða gæða landbúnaðarvörur, þar sem velferð búfjár, umhverfismál og loftslagsmál eru í fyrirrúmi. Svo að það sé og verði mögulegt áfram verðum við að bregðast við þeirri stöðu sem er nú uppi með ýmsum nýjum ráðum og afkoman verður að batna. Þá verður að tryggja að tollverndin haldi, því kerfið er hriplekt eins og það er í dag. Við verðum að tryggja að skipulag Íslands sem matvælaframleiðslulands verði forgangsmál hjá stjórnvöldum. En fyrsta verkefnið er að setjast niður með bændum og fara yfir stöðuna, hvað er til ráða, því að ef ekkert verður að gert þá mun fara illa og við eigum eftir að sjá á eftir þeirri matvælaframleiðslu sem við stundum í dag.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar og formaður atvinnuveganefndar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Síðasti bóndinn í dalnum?

Deila grein

02/06/2023

Síðasti bóndinn í dalnum?

Saga íslenska bóndans nær langt aftur, allt aftur til landnáms, og hefur verið í lykilhlutverki við að móta íslenska menningu og samfélag. Í gegnum aldirnar hafa Íslendingar aðlagað búskaparhætti sína að náttúrulegum aðstæðum landsins og skapað með því djúpa tengingu milli náttúrunnar og þjóðarinnar. Það er fátt íslenskara en hin íslenska lopapeysa og lambalæri með brúnni. Íslenskur landbúnaður hefur ekki bara verið mikilvægur út frá hagfræðilegum sjónarmiðum og skapað atvinnutækifæri heldur hefur hann haft djúpstæð áhrif á sjálfsmynd okkar sem þjóð. Það sjáum við einna best í áhrifum hans á menningu landsins enda á hann margar birtingarmyndir í skáldskap, tónlist, kvikmyndum, myndlist og handverki. Ferðamaðurinn sem sækir Ísland heim vill fá að njóta alls þess sem við höfum upp á að bjóða, hann vill íslenskan mat á diskinn sinn ekki innflutta kengúru eða lopapeysu frá Kína.

Hvers virði eru góð orð?

Sá sem hér skrifar hefur velt fyrir sér í ljósi núverandi ástands hvort öll sú umræða um fæðuöryggi þjóðarinnar og mikilvægi þess að vera sjálfbær sé bara innantómt hjal sem draga megi fram á tyllidögum. Á sólardögum berjum við okkur á brjóst og segjumst standa fyrir dýravelferð, viljum að sú fæða sem við neytum sé án sýklalyfja og að aðbúnaður sé góður, bæði fyrir dýr og þá einstaklinga sem vinna við greinina. Við gerum ríkar kröfur til íslensk landbúnaðar og það er vel, því sætir það furðu að margir hverjir snúa blinda auganu við þegar hingað flæðir inn innfluttar landbúnaðarvörur sem margar hverjar koma úr stórverksmiðju búskap sem á ekkert skylt við öll okkar grunngildi.

Innflutningur gerir út af við innlendan landbúnað

Síðasta sumar samþykkti Alþingi að fella niður tolla af landbúnaðarvörum sem eiga uppruna sinn að rekja til Úkraínu. Tilgangurinn með þessum aðgerðum var að efla vöruviðskipti milli landanna og halda efnahag Úkraínu gangandi þrátt fyrir stríðsátök. Með þessum aðgerðum var svo litið á að Alþingi sameinaðist um sýna Úkraínu stuðning í verki. Við mat á áhrifum frumvarpsins var ekki talið líklegt að áhrifin yrðu veruleg en annað hefur síðan komið á daginn. Í dag er það ljóst að niðurfelling á tollum á vörum frá Úkraínu hefur haft veruleg áhrif á framleiðendur landbúnaðarvara hér á landi, sér í lagi vegna gríðarlegs innflutnings á kjúklingakjöti sem ekki var talið líklegt að fluttur yrði inn. Flutt hafa verið inn um 200 tonn af kjúklingakjöti frá því að lögin tóku gildi og út febrúar á þessu ári. Það er 200 tonn á sex mánuðum. Þar sem tölur fyrir mars, apríl og maí liggja ekki fyrir má gera ráð fyrir enn meira magn hafi komið til landsins. Það er erfitt ef ekki ómögulegt fyrir innlenda bændur að keppa við innflutningsverð á kjúklingi frá Úkraínu, en meðalinnflutningsverð hefur verið um 540 kr. og er það talsvert undir framleiðsluverði á Íslandi. Íslenskir alifuglabændur eiga ekki roð erlend stórfyrirtæki sem framleiða á einum degi sama magn og íslenskur bóndi framleiðir á einu ári.

Við þurfum að breyta um stefnu

Sem betur fer hefur ekki borið á innflutningi á mjólkur- og undanrennudufti á þessum tíma, það kann þó að vera sökum þess að verð á mjólkur- og undanrennudufti hækkaði mjög í upphafi árs 2022 en hefur nú farið lækkandi aftur. Útflutningur á undanrennu- og nýmjólkurdufti frá Úkraínu árið 2022 var um 24.600 tonn en það er 18 föld innanlandssala á Íslandi. Það tekur um 4 mánuði að byggja upp viðskiptasambönd og við sjáum það að ef við ætlum okkur að halda áfram þessum táknræna stuðningi sem þessum tekur það ekki langan tíma að gera út af við innlenda framleiðslu. Fréttir eru einnig að berast af því að öllu óbreyttu sé nautakjötið einnig á leiðinni frá Úkraínu. Það má ekki verða þannig að táknrænar aðgerðir Íslands í alþjóðasamfélaginu kippi hreinlega stoðunum undan heilu atvinnugreinunum hérlendis. Hér þurfum við frekar að líta til nágranna okkar í Noregi sem í staðinn fyrir að fórna innlendum landbúnaði með niðurfellingu tolla hefur styrkt Úkraínu og þannig úkraínska bændur með fjárframlögum í gegnum alþjóðastofnanir.

Vissulega er breytinga þörf

Í staðinn fyrir óheftan og gegndarlausan innflutning á landbúnaðarvörum til landsins þurfum við að gera betur við íslenskan landbúnað, og við viljum gera vel. Til marks um það liggur nú fyrir Alþingi Landbúnaðarstefna til ársins 2040, þessi stefna rímar margt í hverju við stefnu Framsóknar í landbúnaðarmálum síðustu ár. Stefnan markar nokkuð vel þann veg sem skynsamlegt er að fara við að nýta landið, auðlindir landsins, til góðra verka. Það gerum við með því að nýta landið til þess að framleiða matvæli. Nokkur umræða hefur verið síðustu misseri um stuðningskerfi landbúnaðarins, það fyrirkomulag sem við höfum í dag er að mínu mati svo sannarlega ekki meitlað í stein. Það er þörf á að gera breytingar á því með það að markmiði að hvetja bændur til þess að framleiða hollar og góðar afurðir, stuðningurinn á ekki að vera reiknaður út frá fjöldi ærgilda o.s.frv. heldur sé til þess fallin að hvetja bændur til þess að framleiða næg matvæli og að bændur hafi afkomu af sínum búskap. Í því samhengi er mikilvægt fyrir stjórnvöld að horfa á hvernig starfsumhverfið er í greininni. Við eigum að vera ófeiminn að ræða stuðning við landbúnað og við bændur þurfum að koma að þessu samtali líka með stjórnvöldum.

Að lokum, landbúnaður er ekki bara kjöt og mjólk, hann er einnig akuryrkja, garðyrkja, skógrækt og landgræðsla. Líkt og ég kom að í upphafi er landbúnaður eining hluti af menningu okkar og aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Með íslenskum landbúnaði, með því að nýta auðlindir landsins höfum við rík tækifæri til verðmætasköpunar ásamt því að tryggja afkomu þjóðarinnar. Töpum ekki niður því sem við höfum byggt upp frá landnámi, stöndum vörð um innlenda framleiðslu.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. júní 2023.