Categories
Greinar

Skip sem landi ná

Deila grein

12/06/2021

Skip sem landi ná

Mennt er máttur og menningin auðgar andann og því þurfa mennta- og menningarstofnanir okkar að vera lifandi og kröftugar. Undirrituð hefur átt sæti í allsherjar- og menntamálanefnd síðustu misseri og fengið að fylgja eftir nokkrum málum  í gegnum nefndina sem menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, hefur lagt fram. Þar eru mál sem þjóna að sjálfsögðu landinu öllu en líka nokkur verkefni sem snúa beint að Suðurnesjum og ætla ég að rekja nokkur þeirra hér.

Árangursríkar aðgerðir

Þegar Wow varð gjaldþrota vorið 2019, ákvað ríkisstjórnin að setja 45 milljónir í fyrri hluta aðgerðaráætlunar til að efla menntaúrræði á Suðurnesjum sem andsvar við miklu atvinnuleysi. Aðgerðaáætlunin var unnin í nánu samráði við fræðsluaðila á svæðinu og Vinnumálastofnun. Í áætluninni var lögð áhersla á íþrótta- og æskulýðsstarf sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka, raunfærnimat með náms- og starfsráðgjöf og styttri námslínur og námskeið. Það er óumdeilt að það skipti miklu máli fyrir svæðið að menntamálaráðherra brást strax við kalli íbúa á þessum erfiða tíma.

Menntanetið og Keilir

Atvinnuleysi á Suðurnesjum hélt áfram að vaxa vegna Covid-19. Þá ákvað ríkisstjórnin, í samráði við sveitarfélög, atvinnurekendur, menntastofnanir og fleiri, að koma á fót menntaneti til að efla náms- og starfsúrræði fyrir atvinnuleitendur. Þrjú hundruð milljónum var ráðstafað úr ríkissjóði til að kaupa þjónustu hjá menntanetinu sem hluti af átakinu Nám er tækifæri. Þá var ákveðið að styrkja námsleiðir Keilis, gegn því að sveitarfélögin á Suðurnesjum kæmu einnig inn með fjármuni. Þannig var hægt að styrkja rekstrarstöðu Keilis.

Niðurfelling námslána

Meðal þeirra framfaramála sem Alþingi hefur samþykkt frá menntamálaráðherra á kjörtímabilinu eru lög um lýðskóla, lög um Menntasjóð sem fela m.a. í sér 30% niðurfellingu á námslánum, styrki til barnafólks og afnám ábyrgðamannakerfisins, menntastefna, kvikmyndastefna, lög um leyfisbréf kennara, hvatar til fjölgunar nema í kennaranámi og nýlega samþykkti Alþingi lög um breytingum á aðgengi í háskóla. Nú getur fólk sem hefur lokið 3. hæfnisstigi í starfs- eða tækninámi fengið aðgang í háskólanám. Nú gildir ekki einungis stúdentspróf, eins og áður. Ég tel að þessi breyting svari kalli atvinnulífsins um fjölbreyttari hæfni á vinnumarkaði, sér í lagi hæfni á tæknisviði og starfsmenntun.

Fiskur og flug

Fisktækniskóli Íslands er staðsettur í Grindavík en þjónar öllu landinu og er afar mikilvæg menntastofnun. Fyrirhuguð er að gera samning við skólann um fisktækninám og annað nám tengt því. Áætlað er að samningurinn muni taka gildi 1. ágúst 2021, verði til fimm ára og að árlegt framlag ríkisins verði 71 milljón króna.

Stækkun Fjölbrautaskóla Suðurnesja er einnig verkefni sem sett hefur verið af stað á þessu kjörtímabili, sem ég er mjög stolt af. Reist verður 300 fermetra viðbyggingu sem mun hýsa félagsrými nemenda. Þá mun ríkissjóður leggja til 80 milljónir á ári næstu þrjú árin til Flugakademíu Keilis til stuðnings flugnáms í landinu.

Forsenda velferðar og lífsgæða á Íslandi er öflugt og fjölbreytt atvinnulíf. Sterkar menntastofnanir um land allt eru algjört lykilatriði í því samhengi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á vf.is 10. júní 2021.

Categories
Fréttir

Ræða Sigurðar Inga á vorfundi miðstjórnar

Deila grein

12/06/2021

Ræða Sigurðar Inga á vorfundi miðstjórnar

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, flutti góða yfirlitsræðu á vorfundi miðstjórnar í dag í Reykjavík. Ræða Sigurðar Inga er í heild sinni hér að neðan:

Kæru félagar.

Mikið er gaman að sjá ykkur hér í dag. Yfir mann hellist þakklæti fyrir að geta aftur hitt vini og félaga, eitthvað sem maður hefði ekki hugsað út í fyrir einu og hálfu ári síðan að gæti verið vandamál. Það sem var sjálfsagt fyrir heimsfaraldur er það ekki lengur. Og það verður eitt af stóru verkefnum okkar sem samfélags að sleppa takinu, segja skilið við óttann sem hefur staðið okkur svo nærri síðustu mánuðina. Óttinn er ekki góður förunautur í lífinu. Óttinn nagar sundur tryggðaböndin milli okkar og traustið. Faraldurinn hefur þó fyrst og fremst sýnt fram á styrk samfélagsins okkar, hvað það er gott og hvað það er sterkt. Af því megum við vera mjög stolt.

Við sjáum til lands. Að baki eru fimmtán erfiðir mánuðir í baráttu við heimsfaraldur. Við höfum unnið saman, staðið saman sem flokkur, staðið saman sem þjóð, og þannig leyst erfið verkefni. Fram undan er tími þar sem við þurfum að vinna saman úr þeim áföllum sem gengu yfir okkur árið 2020. Við þurfum að skapa atvinnu, skapa tækifæri, skapa samstöðu um framtíðina.

Það líður að kosningum. Þær bíða okkar handan sumarsins. Við mætum þeim bjartsýn með árangur í farangrinum. Okkur hefur tekist það, okkur í Framsókn, að vinna stefnu okkar brautargengi og það sem meira er við höfum náð stórkostlegum árangri í því að láta stefnuna verða að veruleika, raungerast í mikilvægum framfaramálum. Stórkostleg aukning í framlögum til samgöngumála er raunveruleiki. Við höfum fundið fyrir því á ferðum okkar um landið að það er alls staðar verið að byggja upp. Alls staðar. Og í þessum orðum, „alls staðar á landinu“, felst líklega ein helsta sérstaða okkar sem stjórnmálaafls. Við hugsum um landið allt. Við erum sannkallað hreyfiafl í stjórnmálum. Ég get tekið tvö dæmi úr mínu ráðuneyti, tvö dæmi um verkefni sem sýna fram á það hvernig við náum sem flokkur, Framsókn, að rjúfa kyrrstöðu, að hreyfa við málum. Fyrra dæmið sem ég vil nefna er samgöngusáttmálinn. Í alltof langan tíma hefur ríkt kyrrstaða í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Það ríkti frost í samskiptum ríkisins og höfuðborgarinnar þegar kom að samgöngumálum. Og við vitum það sem eigum rætur okkar í sveitunum að langvarandi frost getur verið okkur dýrkeypt. Ég ákvað að höggva á þennan hnút og leiða saman ríkið og sveitarfélögin öll á höfuðborgarsvæðinu: við skyldum finna sameiginlega fleti, við skyldum skapa sameiginlega framtíðarsýn í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Það tókst – og af því er ég stoltur.

Annað dæmi sem ég vil nefna um áratuga kyrrstöðu er ástand samgangna á sunnanverðum Vestfjörðum sem eiga birtingarmynd sína í Teigsskógi. Vegavinnufólk er komið á staðinn, kyrrstaðan hefur verið rofin og við sjáum fram á stórkostlegar samgöngubætur fyrir Vestfirðinga alla.

Loftbrúin. Loftbrúin hóf sig til flugs síðasta haust og markar tímamót í jöfnun á aðstöðumun landsmanna. Afsláttur af flugfargjöldum til þeirra sem búa fjærst höfuðborgarsvæðinu er orðinn að veruleika. Aðgerðin er mikilvæg, nánast byltingarkennd, og viðtökur við henni hafa verið einstaklega góðar. Og það sem meira er, þá hafa gagnrýnisraddirnar verið fáar og lágværar sem er ólíkt því sem áður hefur verið þegar afgerandi byggðaaðgerðir verða að veruleika. Ég held að ég viti ástæðuna fyrir því hvers vegna viðtökurnar voru svo góðar. Ég held að árið 2020 hafi Íslendingar kynnst landinu sínu aftur þegar þeir ferðuðust innanlands. Flestir voru að endurnýja kynnin og sumir að kynnast einstakri náttúru og kraftmikilli íslenskri ferðaþjónustu í fyrsta sinn. Við öðluðumst öll meiri skilning á landinu okkar og þjóðinni, tækifærunum sem við eigum og verkefnunum sem við þurfum að vinna – saman.

Ísland ljóstengt, verkefnið sem á rætur sínar í lítilli grein í Mogganum árið 2013, grein sem bar yfirskriftina „Ljós í fjós“; þessu verkefni er lokið. Engin þjóð í heiminum er betur tengd en við og næsta verkefni tekur við: Ísland fulltengt.

Ég ætla ekki að telja upp fleiri verkefni úr ráðuneyti mínu, það væri of langt mál.

Hinum megin við götuna sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið er stendur við er myndarleg bygging sem einu sinni hýsti Samband íslenskra samvinnufélaga. Í þessari byggingu er mennta- og menningarmálaráðuneytið sem Lilja Dögg hefur leitt af krafti á kjörtímabilinu.

Í mennta- og menningarmálum hafa kerfis- og réttindabætur verið áberandi. Faglegt sjálfstæði kennara hefur verið aukið, starfstækifæri kennara hafa aukist með einföldun leyfisbréfakerfis, kennaranemum hefur fjölgað og ráðherrann okkar hefur sýnt kennarastéttinni þá virðingu sem hún á skilið. Loksins, loksins myndi einhver segja.

Grundvallarbreytingar hafa verið gerðar á verknámskerfinu. Iðnmenntaðir hafa nú sama rétt og bókmenntaðir til háskólanáms og skipulagi vinnustaðanáms hefur verið breytt. Nýr Menntasjóður er stórvirki sem stuðlar enn frekar að jafnrétti til náms. Fyrstu sviðslistalögin eru orðin að veruleika og ný miðstöð sviðslista er að komast á laggirnar. Að lokum vil ég sérstaklega nefna lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku sem hafa nú þegar skilað því að fjöldi íslenskra titla hefur aukist um tugi prósenta.

Í öllum þessum aðgerðum sjáum við framsýni og djúpan skilning á mikilvægi menntunar og lista.

Í gær, föstudag, var stór dagur. Fyrir þjóðina og fyrir okkar kæra stjórnamálaafl: Framsókn. Þá voru á Alþingi Íslendinga samþykkt lög sem gjörbreyta kerfinu í kringum framtíðina, börnin okkar og barnabörn. Ásmundur Einar er fyrsti barnamálaráðherra íslensku þjóðarinnar og hefur sýnt það í störfum sínum að þessi titill er engin skrautfjöður í hans hatti heldur slær hjarta hans í þessum málaflokki. Og ekki má gleyma því mikla framfaraskrefi að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði. Framsókn sýnir enn og aftur að við erum flokkur fjölskyldunnar.

Hlutdeildarlánin sem urðu að veruleika á haustmánuðum hafa nú þegar borið ávöxt sem sést best í því að hlutfall fyrstu kaupenda á fyrstu mánuðum ársins var þriðjungur af íbúðakaupum landsmanna. Tryggð byggð er magnað hreyfiafl í uppbyggingu nýrra íbúðanna á landsbyggðunum en líklega hefur aldrei í seinni tíð verið byggt upp meira íbúðarhúsnæði út um landið en á síðustu mánuðum. Það er hafin ný framsókn fyrir landið allt.

Þessi verkefni sem ég hef talið upp eru einungis dæmi um það sem við sjáum í baksýnisspeglinum. Af árangri okkar á þessu kjörtímabili getum við verið stolt. Árangur okkar leggur grunninn að því sem er framundan í mikilvægum kosningum í haust.

Fyrir að verða fjórum árum, þegar boðað var til kosninga, fundum við öll fyrir þreytu, bæði okkar sjálfra og fólks í kringum okkur, þreytu á óróleikanum í stjórnmálunum, ójafnvæginu. Við tókum þátt í því að mynda ríkisstjórn sem á ekki marga sína líka. Það er mín skoðun að það hafi verið styrkur fyrir þjóðina að ríkisstjórnin sem hefur leitt þjóðina í gegnum heimsfaraldurinn sé breið samvinnustjórn þriggja flokka sem hver og einn endurspeglar ólíka þætti í litrófi stjórnmálanna, vinstri, hægri og miðju. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar endurspegla þessa litríku samsetningu.

Við lögðum af stað með stjórnarsáttmála stjórnarflokkanna þriggja, með um 100 aðgerðir og áherslumál. Sjaldan eða aldrei hefur árangurinn verið eins góður á einu kjörtímabili. Við getum litið með ánægju um öxl og verið stolt af þeim árangri sem við höfum náð, verið stolt af þeim árangri og því fjármagni sem hefur farið í samgöngur, sveitarstjórnarmál og byggðamál, verið stolt af þeirri sátt og samstöðu sem hefur náðst á milli ólíkra sjónarmiða, verið stolt að búa yfir seiglu og halda áfram með mál sem hefðu svo auðveldlega getað dagað uppi ef ekki væri fyrir þá trú sem við í Framsókn höfum þegar sækja þarf fram í málum sem færa okkur jöfnuð, öryggi og betri lífsgæði. Öflugir og öruggir innviðir er grunnurinn að lífsgæðum.

Ríkisstjórnin sýnir ábyrgð  og tekur  ábyrgð. Ábyrgð á því að koma þjóðinni út úr þessum tímabundnu erfiðleikum. Ábyrgð sem felst í því skapa ný störf og standa vörð um þau sem fyrir eru efla fjárfestingar og nýsköpun. Ábyrgð á því að styrkja stöðu þeirra sem misst hafa vinnuna um stund. Ábyrgð á því að styrkja stöðu atvinnulífsins og sveitarfélaga. Rétti tíminni til að fjárfesta í innviðum ríkisins er núna, slíkt skapar atvinnu og heldur hjólum efnahagslífsins gangandi. Á dögunum kom út úttekt sem sýndi að fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar í fyrra vor hefði skilað sér í 1.000 störfum. Áætla má að um 8000 störf verði til ef allar samgönguframkvæmdir eru lagðar saman næstu 5 árin. Sundabraut skapar ein og sér um 2000 störf. Störfin eiga sér ekki aðeins upphaf og endi á meðan á þeim stendur heldur vara óbeinu áhrifin af þeim til lengri tíma. Þannig benda rannsóknir OECD til þess að varanleg aukning opinberrar fjárfestingar um 0,5% af vergri landsframleiðslu á ári, auki landsframleiðslu eftir 10 um 1,5%.

Þessi árangur okkar í ríkisstjórnarsamstarfinu og sá árangur sem við sjáum í störfum Framsóknar í sveitarfélögum um allt land sýnir erindi okkar í stjórnmálum. Við erum hreyfiafl góðra hluta.

Framsókn er stjórnmálaafl sem setur fjölskylduna og velsæld hennar í fyrsta sæti. Fjölskyldan er grundvallareining í samfélaginu. Fjölskyldurnar eru fjölbreyttar, allskonar, og saga Framsóknar hefur hverfst um hagsmuni hennar. Mjúkt mál gæti einhver sagt en mælikvarðinn á gott samfélag er við morgunverðarborðið: Jafnrétti, velsæld, efnahagur, umhverfismálin, öryggi, atvinna, atvinna, atvinna.

Ísland er á flestum mælikvörðum fyrirmyndarríki. Jafnrétti, velsæld, öryggi og síðast en ekki síst félagslegur hreyfanleiki, það að geta unnið sig upp úr fátækt til bjargálna, það að einstaklingur geti búið börnum sínum betra líf en það sem hann sjálfur byrjaði með. Í því felst sjálfstæði og valdefling. Grundvallarþáttur í því er að skapa öllum jafnrétti til náms því menntunin er hreyfiafl samfélagsins, hreyfiafl einstaklingsins, hreyfiafl framfara og lífsgæða.

Við höfum síðasta rúma áratuginn sem liðinn er frá hruni upplifað miklar breytingar á íslenskum stjórnmálum. Á þingi sitja fulltrúar átta flokka. Enn eimir eftir af reiði hrunsins og lítið þarf til að kynda undir henni til að vekja á sér athygli. Við slíkar aðstæður er hætt við því að skemmtanagildi sé tekið fram fyrir málefnanlegar umræður, að allt kapp sé lagt á að etja saman andstæðum pólum ysta hægrisins, frjálshyggjunnar þar sem allir eru eyland, og ysta vinstrisins, sósíalismans þar sem enginn má hafa það betra en næsti maður. Báðar þessar stefnur einkennast af trúarlegri sýn á stjórnmálin, forystumenn þeirra hafa fundið stóra sannleikann og reyna að selja hann sem hina fullkomnu sýn á samfélagið. Gleymist þá raunveruleikinn sjálfur. Tvisvar á síðustu rúmu 12 árum hefur heimsmynd frjálshyggjunnar og hins óhefta markaðar hrunið og almenningur þurft að tína upp brotin. Um sósíalismann þarf heldur ekki að hafa mörg orð því síðasta öld er ekki síst hörmungarsaga þeirrar stefnu ofstækis og kúgunar.

Stjórnmál eru ekki trúarbrögð. Stjórnmál eru tæki til að bæta heiminn.

Viðbrögð stjórnvalda á Íslandi við heimsfaraldri kórónuveirunnar voru þau að treysta vísindunum fyrir sóttvörnum og nýta það afl sem býr í samvinnunni til að mæta efnahagslegum áföllum og undirbúa öfluga viðspyrnu til að samfélagið rísi hratt á fætur eftir erfiða tíma. Hagsmunir fjölskyldunnar eru að skapa atvinnu, atvinnu, atvinnu til að skjóta sterkum stoðum undir lífsgæði á Íslandi. Það verður helst gert með því að hlúa að litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem eru mikill meirihluti íslenskra fyrirtækja. Það verður meginviðfangsefni stjórnmálanna næstu mánuði og ár að vinna úr þessum áföllum. Og líkt og raunin er með viðbragðið við farsóttinni þá munum við vinna okkur út úr efnahagsþrengingum með samvinnu, með því að nýta krafta samstöðunnar sem einkennir íslenskt samfélag við erfiðar aðstæður til að byggja upp og bæta, nýta samúð og samlíðan til að hjálpa þeim  sem ganga í gegnum erfiðan tíma vegna tekjumissis á fætur að nýju.

Viðhorf okkar til þess sem kallað hefur verið stærsta verkefni samtímans, loftlagsbreytinganna, er smá saman að breytast – og verður að breytast til að við getum tekist á við það með sama krafti og við tókumst á við veiruna. Eins og valdamesti núlifandi Framsóknarmaðurinn, Joe Biden, hefur boðað vestanhafs, er lykillinn að því að berjast gegn hamfarahlýnun sá að fjárfesta í fólki og þekkingu og skapa tækifæri og störf í grænum geirum. Við þekkjum þessa geira, þeir hafa verið burðarás íslensks efnahags í áratugi: Sjávarútvegur, orkuframleiðsla, landbúnaður, skapandi greinar, ferðaþjónusta, hugverkaiðnaður.

Þeir sem sjá fyrir sér að leiðin til þess að mæta loftlagsvánni sé að kippa öllum meginkerfum heimsins úr sambandi, að við hættum að ferðast, að við á Vesturlöndum sættum okkur við lakari lífsgæði, að þau sem búa í þróunarlöndunum sætti sig við hægari lífsgæðaaukningu, þeir sem telja að dómsdagsspár séu lykillinn að almennri breytingu á viðhorfum og hegðun, þeir munu ekki leiða heiminn í lausn þessa vanda. Í þessu verkefni eins og öðrum þarf samvinnu, þekkingu og framsýni til að leysa málin.

Kæru félagar. Það er til lítils hafa fallega stefnuskrá ef engu er komið í framkvæmd. Íslenskt samfélag þarf stjórnmálaafl sem framkvæmir stefnumál sín, stendur fyrir umbætur fyrir fjölskyldur og fyrirtæki. Öfgaöflin til hægri og til vinstri geta talað sig blá í framan í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum en eina framlag þeirra til samfélagsins er og verður að róta upp moldviðri meðan við, hófsama fólkið á miðjunni vinnur að umbótum fyrir samfélagið allt.

Næstu kosningar snúast um við komum saman út úr þessum faraldri. Okkur hefur tekist að mæta faraldrinum saman, ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á standa vörð um líf, heilsu og afkomu fólks. Nú er viðspyrnan hafin, við sjáum landið rísa. Verkefni næstu ára er að skapa atvinnu, atvinnu og græna atvinnu og tryggja þannig aukin lífsgæði. Málefni aldraðra þarf að nálgast á svipaðan hátt og Ásmundur Einar hefur nálgast málefni barna. Það er verkefni sem þarf að leysa með samvinnu.

Stjórnmál snúast nefnilega ekki bara um stefnu, þau snúast um hugarfar og vinnubrögð. Samvinnan er bæði hugsjón og aðferð. Í því liggur ekki síst styrkur okkar sem stjórnmálaafls.

Næstu kosningar verða þær mikilvægustu á lýðveldistímanum. Þau stjórnmálaöfl sem eiga fulltrúa í næstu ríkisstjórn munu þurfa að taka örlagaríkar ákvarðanir varðandi uppbyggingu íslensks samfélags. Þá er mikilvægt að hófsamur og skynsamur miðjuflokkur, flokkur sem skilur að hagsmunir fjölskyldunnar séu hagsmunir þjóðarinnar fái góða kosningu. Ísland þarf nýja framsókn í atvinnumálum, nýja framsókn fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, nýja framsókn fyrir fjölskylduna, nýja framsókn fyrir landið allt.

Við sjáum til lands. Að baki eru fimmtán erfiðir mánuðir í baráttu við heimsfaraldur. Við höfum unnið saman, staðið saman sem flokkur, staðið saman sem þjóð, og þannig leyst erfið verkefni. Fram undan er tími þar sem við þurfum að vinna saman úr þeim áföllum sem gengu yfir okkur árið 2020. Við þurfum að skapa atvinnu, skapa tækifæri, skapa samstöðu um framtíðina.

Ég er þakklátur að sjá ykkur öll hér í dag. Ég er þakklátur fyrir alla þá vinnu sem þið leggið á ykkur til að afla hugsjónum okkar og stefnu fylgist. Ég er þakklátur að sjá gömul andlit og ný mætast hér í dag til að leggja grunninn að öflugri kosningabaráttu.

Categories
Greinar

Við­brögð við náttúru­ham­förum

Deila grein

11/06/2021

Við­brögð við náttúru­ham­förum

Áskoranir hafa alla tíð fylgt sambúð við náttúruöflin á Íslandi og þar eru síðustu ár engin undantekning. Náttúruhamfarir hafa valdið umtalsverðu eigna- og rekstrartjóni, en þar nægir að nefna aðventustorminn í desember 2019, snjóflóð á Flateyri og aurflóð á Seyðisfirði. Samkvæmt nýjustu ársskýrslu Náttúruhamfaratryggingar Íslands voru 14 stórtjón á árinu 2020, en frá árinu 1987 hafa slík tjón verið að meðaltali sjö á ári.

Samræmi í tryggingarvernd er nauðsyn

Tjón af völdum náttúruhamfara geta reynst hvort sem er einstaklingum, fyrirtækjum eða annarri starfsemi ofviða og þar með ógnað heilu samfélögunum. Tryggingarvernd vegna náttúruhamfara hefur því verulega þýðingu hér á landi, sem og skilvirk og sanngjörn úrvinnsla í kjölfar hamfara.

Á síðustu árum hefur verið farið í margvíslegar aðgerðir til að verjast náttúruhamförum og koma á samtryggingu vegna slíkra tjóna. Má þar nefna ýmiss konar vöktun náttúruvár, Náttúruhamfaratryggingu Íslands, verkefni Ofanflóðasjóðs og Bjargráðasjóð ásamt þróun verklags stjórnvalda í viðbrögðum og úrvinnslu afleiðinga einstakra atburða. Þá spila tryggingar sem keyptar eru af tryggingarfélögum inn í verndina, bæði lögboðnar tryggingar og valfrjálsar tryggingar.

Þó við séum miklu betur í stakk búin fyrir glímuna við náttúruöflin núna heldur en lengst af í Íslandssögunni þá er ljóst að enn er hægt er að gera betur. Mikilvægar upplýsingar verða til hjá heimamönnum jafnt og stjórnvöldum í kjölfar hvers atburðar. Mikilvægt er að læra af reynslunni til að halda áfram að bæta vinnubrögð. Eftir skriðuföllin á Seyðisfirði hafa komið fram ýmsar áskoranir sem við höfum ekki séð áður, ásamt öðrum sem við höfum margoft heyrt umræður um. Þar má nefna að ítrekað hefur verið bent á ósamræmi í bótum til þeirra sem missa húsnæði sitt í hamförum og þeirra sem þurfa að flytja úr húsnæði vegna hættu á hamförum. Þá er margt óljóst varðandi vernd og tryggingar atvinnulífsins, atvinnutækja og atvinnuhúsnæðis.

Tillaga um úttekt á tryggingarvernd og verklagi

Ég álít að það sé löngu tímabært að gerð verði úttekt á þessum málum og hef því, ásamt öðrum þingmönnum Framsóknar, lagt fram þingsályktunartillögu um úttekt á tryggingarvernd og úrvinnslu tjóna í kjölfar náttúruhamfara. Markmið tillögunnar er að greina hverju sé helst ábótavant í tryggingarvernd og úrvinnslu tjóna og að draga fram leiðir til úrbóta. Þar þarf að meta samræmi í viðbrögðum, hvort einhvers staðar séu göt í kerfinu, hvað hefur ekki fengist bætt og hvers vegna ekki, og á hverja kostnaður vegna hreinsunaraðgerða og annarra verkefna í kjölfar hamfara fellur.

Þá er lagt til að í úttektinni verði metið hvernig hægt sé að auka skilvirkni, jafnræði og sanngirni í viðbrögðum vegna náttúruhamfara til framtíðar, svo sem með breytingum á lögum, reglugerðum eða verklagsreglum. Þá væri þarft að bæta upplýsingagjöf og fræðslu til einstaklinga og fyrirtækja sem búa við náttúruvá eða hafa lent í hamförum. Úttekt sem þessi er löngu orðin tímabær. Það er margt hægt að læra af liðnum atburðum og mikilvægt er að nýta reynsluna til frekari framfara.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar og frambjóðandi flokksins í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. júní 2021.

Categories
Greinar

Hamingjan er heima

Deila grein

10/06/2021

Hamingjan er heima

Síðustu mánuðir hafa kennt okkur að mörg störf krefjast ekki stöðugrar viðveru á tilteknum stað. Við sinnum vinnunni hvar sem er í veröldinni. Forsenda þess eru góð og örugg fjarskipti. Stjórnvöld eiga að skapa umhverfi fyrir störf án staðsetningar í samvinnu við sveitarfélög í öllum landbyggðum.

Sveigjanleiki og starfsánægja

Tæknin til þess að sinna störfum án staðsetningar er löngu komin fram. Kórónufaraldurinn kenndi okkur nýja hluti og við aðlögumst nýjum veruleika. Nágrannaþjóðir okkar eru þó margar komnar lengra hvað varðar hlutfall fjarvinnu. Fyrirtæki geta sparað miklar fjárhæðir í fastan rekstrarkostnað. Víða hefur starfsánægja aukist og um leið afköst. Margir kunna að meta sveigjanleikann og tímasparnað vegna ferða. Kolefnisfótsporið minnkar og mögulega dregur úr streitu. Kostir fjarvinnu eru augljósir.

Góðar fréttir

Störf án staðsetningar er markviss aðgerð sem finna má bæði í ríkisstjórnarsáttmálanum og í Byggðaáætlun.  Nýleg niðurstaða vinnuhóps ríkisstjórnarinnar sýnir okkur að það sé raunhæft markmið að 10% allra starfa í ráðuneytum og stofnunum verði auglýst án staðsetningar árið 2024.  100 stofnanir af 122 skiluðu greiningu þar að lútandi. Þar kemur fram að mögulegt er að auglýsa allt að 890 störf án staðsetningar eða 13% stöðugilda þeirra stofnana sem svöruðu.

Samvinnuverkefni

Tryggja þarf aðgengi að húsnæði og aðstöðu til þess að koma upp starfsstöðvum. Góðar fyrirmyndir má t.a.m. finna á Þingeyri og á Flateyri. Byggðastofnun hefur tekið saman upplýsingar um mögulegt húsnæði fyrir störf án staðsetningar. Upplýsingum var safnað saman með aðstoð landshlutasamtaka sveitarfélaga og hafa verið settar fram á sérstöku korti. Kortinu er ætlað að vera lifandi upplýsingagátt fyrir forstöðumenn ráðuneyta og stofnana og alla þá sem hugsa sér að sinna opinberu starfi án staðsetningar. Á kortinu eru nú 83 staðir þar sem hægt er að taka við fólki sem vinnur starf án staðsetningar með rúmlega 100 starfsstöðvar fyrir einstaklinga.

Stjórnvöld, sveitarfélög og einkageirinn þurfa að eiga samtal um hvaða stefnu sé best að taka þannig að tryggja megi öflugar starfsstöðvar um allt land.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 10. júní 2021.

Categories
Greinar

Ávinningur og arðsemi umferðaröryggis

Deila grein

10/06/2021

Ávinningur og arðsemi umferðaröryggis

Í störf­um mín­um sem sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra hef ég lagt ríka áherslu á um­ferðarör­yggi og hvatt stofn­an­ir ráðuneyt­is­ins til að hafa ör­yggi ávallt í for­gangi. Stefn­an hef­ur skilað góðum ár­angri. Í mín­um huga er al­veg ljóst að hver króna sem fer til þess að auka um­ferðarör­yggi okk­ar skil­ar sér marg­falt, m.a. í fækk­un slysa.

Um­ferðarslys eru hræðileg

Um­ferðarslys eru harm­leik­ur en bana­slys og al­var­leg slys í um­ferðinni eru alltof mörg. Þau eru ekki aðeins hræðileg fyr­ir þá sem í þeim lenda og aðstand­end­ur þeirra, held­ur eru þau líka gríðarlega kostnaðar­söm fyr­ir sam­fé­lagið. Árleg­ur kostnaður sam­fé­lags­ins vegna um­ferðarslysa og af­leiðinga þeirra er nú tal­inn nema að meðaltali um 50 millj­örðum króna á ári eða 14 krón­um á hvern ek­inn kíló­metra, en væri mun hærri hefðu um­ferðarör­yggisaðgerðir ekki verið í for­gangi.

Lang­stærst­ur hluti þess kostnaðar er vegna um­sýslu og tjóna­bóta trygg­inga­fé­laga, kostnaður heil­brigðis­kerf­is, Sjúkra­trygg­inga Íslands, líf­eyr­is­sjóða, lög­gæslu og sjúkra­flutn­inga o.fl. Þá er ótal­inn tekjum­iss­ir þeirra sem í slys­un­um lenda og ást­vina þeirra sem sjaldn­ast fæst bætt­ur. Mesta tjónið verður á hinn bóg­inn aldrei metið til fjár en það er hinn mann­legi harm­leik­ur sem slys hafa í för með sér.

Fækk­um slys­um

Í nýrri stefnu um­ferðarör­ygg­is­áætl­un­ar 2023-2037 sem nú er í und­ir­bún­ingi er allt kapp lagt á að auka um­ferðarör­yggi og fækka slys­um. Við for­gangs­röðun aðgerða verður byggt á niður­stöðum arðsem­is­mats sem og slysa­skýrsl­um síðustu ára sem sýna hvar þörf­in er mest, slysa­kort­inu sem sýn­ir verstu slys­astaðina og könn­un­um á hegðun veg­far­enda. Á þess­um góða grunni tel ég að okk­ur muni tak­ast að fækka slys­um enn frek­ar með mark­viss­um aðgerðum og fræðslu. Vil ég þar sér­stak­lega nefna ár­ang­ur ungra öku­manna en með bættu öku­námi og fræðslu hef­ur slys­um sem valdið er af ung­um öku­mönn­um fækkað mikið.

Aðgerðir sem skila mik­illi arðsemi

• Aðskilnaður akst­urs­stefna á fjöl­förn­ustu veg­köfl­un­um til og frá höfuðborg­ar­svæðinu, Reykja­nes­braut, Suður­lands­vegi og Vest­ur­lands­vegi. Á Suður­lands­vegi hef­ur aðskilnaður fækkað slys­um mikið og slysa­kostnaður á hvern ek­inn kíló­metra lækkað um 70%. Á Reykja­nes­braut hef­ur aðgerðin skilað mikl­um ár­angri og nú er haf­in vinna við aðskilnað akst­urs­stefna á Vest­ur­lands­vegi.

• Hring­torg skila bættu ör­yggi á hættu­leg­um gatna­mót­um á Hring­veg­in­um. Vegrið og lag­fær­ing­ar sem auka ör­yggi veg­far­enda eru aðgerðir sem kosta ekki mikið en vega sam­an­lagt þungt.

• Aukið hraðaeft­ir­lit, þ.m.t meðal­hraðaeft­ir­lit, sem mun fækka hraðakst­urs­brot­um og auka um­ferðarör­yggi. Með því er hægt að ná þeim sem freist­ast til að gefa í um leið og þeir aka fram­hjá mynda­vél og halda að þeir sleppi ef þeir hægja á sér við næstu mynda­vél. Hafi þeir verið grun­sam­lega fljót­ir á milli véla er nokkuð ljóst að þeir hafa farið yfir leyfi­leg hraðamörk. Slíkt meðal­hraðaeft­ir­lit hef­ur gefið góða raun í ná­granna­lönd­um okk­ar. Meðal­hraði á Hring­veg­in­um hef­ur lækkað um 5 km/​klst. frá 2004 en sú hraðalækk­un er tal­in fækka bana­slys­um um allt að 40% sam­kvæmt er­lend­um mæl­ing­um.

• Fræðsla til ferðamanna og annarra er­lendra öku­manna hef­ur haft mark­tæk áhrif og slys­um fækkað þó ferðamanna­fjöld­inn hafi auk­ist.

• Loks ber að nefna bíl­belta­notk­un öku­manna sem og farþega en því miður er bíl­belta­notk­un ábóta­vant, sér­stak­lega inn­an­bæjar. Það verður seint of oft sagt að bíl­belt­in bjarga.

Á und­an­förn­um árum hef­ur þeim fjölgað mikið sem nýta sér fjöl­breytta ferðamáta sam­hliða því að göngu- og hjóla­stíg­um hef­ur fjölgað, sem er vel. Nýj­um ferðamát­um fylgja nýj­ar hætt­ur sem krefjast þess að aðgát sé sýnd og fyllsta ör­ygg­is gætt. Við ber­um öll ábyrgð á eig­in ör­yggi og það er brýnt að for­eldr­ar fræði börn sín um ábyrgðina sem fylg­ir því að ferðast um á smáfar­ar­tækj­um.

Nú í upp­hafi ferðasum­ars vil ég óska öll­um veg­far­end­um far­ar­heilla. Mun­um að við erum aldrei ein í um­ferðinni, sýn­um aðgát, spenn­um belti og setj­um hjálm­ana á höfuðið.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. júní 2021.

Categories
Greinar

Prúðbúin ungmenni eru tímanna tákn

Deila grein

09/06/2021

Prúðbúin ungmenni eru tímanna tákn

Prúðbúin ung­menni, með bros á vör, skjal í hendi og jafn­vel húfu á höfði, hafa und­an­farið sett svip sinn á borg og bæ. Tíma­mót unga fólks­ins eru sér­lega tákn­ræn í þetta skiptið, því skóla­slit og út­skrift­ir eru staðfest­ing á sigri and­ans yfir efn­inu. Staðfest­ing á sam­stöðu skóla­fólks, kenn­ara, skóla­stjórn­enda, nem­enda og kenn­ara í ein­hverri mestu sam­fé­lagskreppu síðari tíma. Á sama tíma ber­ast góðar frétt­ir af bólu­setn­ing­um, at­vinnu­stigið hækk­ar, íþrótta- og menn­ing­ar­líf er komið á skrið og ferðaþjón­ust­an lifn­ar við. Og þegar litið er um öxl rifjast upp vetr­arkveðja Páls Ólafs­son­ar, sem auðveld­lega má yfir færa á Covid-vet­ur­inn sem nú er að baki:

Margt er gott að muna þér

þó mér þú fynd­ist lang­ur.

Farðu vel, þú færðir mér

fögnuð bæði og ang­ur.

Fram und­an er sum­arið í allri sinni dýrð, tími hlýju, birtu og upp­skeru. Og það er óhætt að segja að á hinum póli­tíska vett­vangi séu tún­in græn og upp­sker­an góð. Verk­efna­listi rík­is­stjórn­ar­inn­ar er svo til tæmd­ur. Fram­boðslist­ar Fram­sókn­ar­flokks­ins eru skipaðir kraft­miklu fólki, þar sem bland­ast sam­an í rétt­um hlut­föll­um fólk úr ólík­um átt­um. Reynslu­bolt­ar úr lands­mál­un­um, dug­mikl­ir sveit­ar­stjórn­ar­menn og ungt fólk með sterk­ar hug­sjón­ir. Við mun­um áfram vinna að fram­förum, berj­ast fyr­ir hags­mun­um fjöl­skyldna af öll­um stærðum og gerðum, og jafna tæki­færi barna til mennt­un­ar.

Barna­mál­in hafa svo sann­ar­lega verið okk­ur hug­leik­in á kjör­tíma­tíma­bil­inu. Barna­málaráðherra hef­ur lyft grett­i­staki og m.a. gert kerf­is­breyt­ing­ar svo hags­mun­ir barna séu í for­gangi, en ekki þarf­ir kerf­is­ins. Í skóla­mál­um hafa skýr­ar lín­ur verið markaðar, þar sem áhersl­an er lögð á ólík­ar þarf­ir barna og stuðning við þá sem þurfa á hon­um að halda. Við vilj­um sjá framúrsk­ar­andi mennta­kerfi og með nýrri mennta­stefnu höf­um við lagt veg­inn í átt að ár­angri.

Þessi vet­ur sem nú er liðinn minnti okk­ur hins veg­ar á að til að ná ár­angri þarf að berj­ast með kjafti og klóm. Við lögðum gríðarlega áherslu á að halda skól­un­um opn­um, til að tryggja mennt­un barna og lág­marka áhrif­in á líf þeirra. Það tókst og sam­an­b­urður við önn­ur lönd sýn­ir glögg­lega að ár­ang­ur­inn er merki­leg­ur, því víða voru skól­ar lokaðir með ófyr­ir­séðum lang­tíma­áhrif­um á börn. Þessi vet­ur kenndi okk­ur að þegar all­ir leggj­ast á eitt, þá er mennta­kerfið okk­ar gríðarlega sterkt afl sem stend­ur vörð um hags­muni barn­anna á hverj­um ein­asta degi.

Það er því ekki að ástæðulausu að um mann fer gleðistraum­ur, þegar maður sér leik-, grunn-, fram­halds- og há­skóla­út­skrift­ar­mynd­ir á sam­fé­lags­miðlum. Stolt­ir for­eldr­ar og frels­inu fegn­ir ung­ling­ar. Ung­menni sem eiga framtíðina fyr­ir sér, horfa stolt í mynda­vél­ina. Eft­ir erfiðan vet­ur er þetta af­rek okk­ar allra – sam­fé­lags­ins alls – og því má aldrei gleyma.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. júní 2021.

Categories
Greinar

Skipulagt starf um stafræn áhugamál – fjárfesting til framtíðar!

Deila grein

08/06/2021

Skipulagt starf um stafræn áhugamál – fjárfesting til framtíðar!

Son­ur minn var fermd­ur síðastliðna helgi í Bú­staðakirkju ásamt skóla­fé­lög­um sín­um. Heil röð af stolt­um for­eldr­um, systkin­um, öfum og ömm­um fylgd­ist með þegar þessi ljúfi, hæg­láti og hjarta­góði strák­ur varð að ung­um manni. Mik­il gleðistund!

Hann var sjö ára þegar hann greind­ist með ódæmi­gerða ein­hverfu, reynd­ar hafði grun­ur um hans rösk­un vaknað fyrst þegar hann var þriggja ára en niðurstaðan, sem lá fyr­ir fjór­um árum seinna, er efni í aðra grein. Eins og marg­ir sem eru greind­ir á ein­hverfuróf­inu á hann erfitt með að halda uppi því sem er skil­greint sem „eðli­leg fé­lags­leg sam­skipti“, hvað svo sem það þýðir. En það hef­ur vissu­lega haft áhrif á getu hans til að rækta og halda vin­skap og valdið ákveðinni fé­lags­legri ein­angr­un, sér­stak­lega síðustu árin þegar krakk­ar hætta að vera krakk­ar og verða ung­ling­ar. Sem bet­ur fer hef­ur þessi fé­lags­lega ein­angr­un ekki þró­ast í að hann hafi lent í einelti eða ein­hverju slíku, það þakka ég fyrst og fremst hon­um sjálf­um og skól­un­um tveim­ur, Breiðagerðis- og Rétt­ar­holts­skól­um, og hvernig var haldið utan um hans mál. Þó hef­ur þessi ein­angr­un auk­ist meira sl. þrjú ár. Sem for­eldr­ar höf­um við skilj­an­lega áhyggj­ur af slíkri þróun og Covid hef­ur sett ákveðið strik í reikn­ing­inn þar sem ekki var mögu­leiki fyr­ir hann að sækja skáta­fundi sem hann hef­ur gert síðan hann var sex ára.

Líkt og marg­ir krakk­ar hef­ur son­ur minn mikið dá­læti á tölvu­leikj­um, hann hef­ur sér­staka ánægju af að spila tölvu­leiki þar sem maður bygg­ir upp borg­ir með allri til­heyr­andi þjón­ustu sem hver borg þarf á að halda. Þegar hann spil­ar sína tölvu­leiki ger­ir hann það yf­ir­leitt í slag­togi við aðra spil­ara, ým­ist á Íslandi eða í út­lönd­um, og þá er oft mikið fjör. Eft­ir að hann fór að eiga sam­skipti við aðra á net­inu fór­um við mamma hans að taka eft­ir því að færni hans til að eiga sam­ræður tók mikl­um fram­förum. Það voru samt erfiðir hlut­ir sem þurfti að tækla sem komu upp í kjöl­far tölvu­notk­un­ar­inn­ar; að fylgj­ast með að ekki væri verið að svíkja þar til gerða samn­inga um skil­greind­an skjá­tíma og tryggja að hann stundaði ein­hverja úti­veru á hverj­um degi. Þó að þetta hafi að mestu gengið vel vild­um við ólm fá hjálp við að styðja bet­ur við þetta áhuga­mál hans.

Fyr­ir rétt rúm­um tveim­ur árum fékk ég boð frá vini mín­um um að mæta á kynn­ingu hjá GMI (Game Makers Ice­land). Þar var há­vax­inn ung­ur maður að nafni Ólaf­ur Hrafn Stein­ars­son sem hélt fyr­ir­lest­ur um ný­stofnuð rafíþrótta­sam­tök og þá sýn sem hann og sam­tök­in höfðu á framtíð tölvu­leikja­áhuga­máls­ins á Íslandi. Í er­indi sínu benti Ólaf­ur á að tölvu­leik­ir ættu snerti­flöt við yfir 90% barna og ung­menna í land­inu, en það var áhuga­mál sem bauð upp á næst­um enga skipu­lagða iðkun eða þjálf­un. Á þessu boðaði hann breyt­ing­ar; með vax­andi rafíþróttaum­hverfi á heimsvísu væru for­send­ur fyr­ir því að færa tölvu­leikja­áhuga­málið í skipu­lagt starf sem und­ir­býr rafíþrótta­menn framtíðar­inn­ar á heild­stæðan hátt fyr­ir að tak­ast á við krefj­andi um­hverfi at­vinnu­manns­ins í rafíþrótt­um. Þá væri mik­il­vægt að huga að því að byggja heild­stæðan ramma utan um starfið sem miðaði að því að skila já­kvæðum ávinn­ingi til allra iðkenda en ekki bara af­reks­spil­ara. Til þess boðaði Ólaf­ur skil­grein­ingu Rafíþrótta­sam­taka Íslands á rafíþrótt­um sem „heil­brigða iðkun tölvu­leikja í skipu­lögðu starfi“ og að sú iðkun feli í sér að iðkandi upp­lifi sig sem hluta af liði, taki þátt í lík­am­leg­um og and­leg­um æf­ing­um, fái fræðslu um mik­il­vægi og ávinn­ing heil­brigðra spila­hátta og lífs­stíls, allt hlut­ir sem eru mik­il­væg­ir til að feta veg at­vinnu­manns­ins í rafíþrótt­um.

Þessi fyr­ir­lest­ur bæði heillaði og sann­færði mig um að þessi nálg­un sem Ólaf­ur kynnti væri skyn­sam­leg og rök­rétt leið til að kenna börn­um heil­brigða tölvu­leikjaiðkun. Svo mjög að ég skráði son minn í rafíþrótta­deild Ármanns. Það leið ekki á löngu þar til ég og móðir hans tók­um eft­ir mikl­um fram­förum. Hann var mun ánægðari al­mennt, sam­skipti við hann á heim­il­inu voru auðveld­ari og hann var far­inn að setja sín­ar eig­in regl­ur varðandi skjá­tíma sem upp­fyll­ir þær regl­ur sem við for­eldr­arn­ir höfðum skil­greint. Ekki nóg með það held­ur mætti þessi flotti strák­ur, sem hef­ur aldrei haft áhuga á iðkun hefðbund­inna íþrótta, einn dag­inn með stolt bros á vör og kvartaði yfir því að vera drep­ast úr harðsperr­um eft­ir rafíþróttaæf­ingu. Hann ákvað svo í vik­unni að kaupa sér lóð og upphíf­inga­stöng fyr­ir ferm­ingar­pen­ing­ana. Það var ótrú­legt fyr­ir mig sem for­eldri að sjá barnið mitt loks­ins blómstra í skipu­lögðu starfi, þegar ein­hver var til­bú­inn að mæta hon­um þar sem hann var stadd­ur í sínu áhuga­máli og hvetja hann til þess að gera meira, reyna meira og að hann geti meira. Þetta var ein­mitt það sem heillaði mig við fyr­ir­lest­ur­inn hans Ólafs og það sem ég tel að við þurf­um meira af; ný­stár­leg­ar aðferðir fyr­ir okk­ar ört breyti­lega sam­fé­lag til þess að taka utan um og fjár­festa í ein­stak­lingn­um til framtíðar.

Ég hlakka til að fylgj­ast með framtíð hans í rafíþrótt­um og framtíð okk­ar í sam­fé­lagi þar sem fjár­fest er í fólk­inu!

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, formaður Fram­sókn­ar­fé­lags Reykja­vík­ur og skip­ar 2. sæti á lista Fram­sókn­ar í Reykja­vík suður. adal­steinn@recon.is

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júní 2021.

Categories
Greinar

Vel­ferð barna – fram­tíðin krefst þess

Deila grein

08/06/2021

Vel­ferð barna – fram­tíðin krefst þess

Í síðustu viku mælti undirrituð fyrir þremur frumvörpum í þingsal sem koma til með að skipta veigamiklu máli fyrir velferð barna. Þessi þrjú frumvörp má setja saman í einn pakka um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, en þau eru afurð mikillar vinnu að hálfu félags- og barnamálaráðherra yfir kjörtímabilið með það að markmiði að bæta hag allra þeirra barna hér á landi sem þurfa á þjónustu að halda. Fylgst verður með velferð barna og metin þörf fyrir þjónustu og sem mikilvægt er að samráð sé á milli þjónustuveitenda með það að markmiði að þjónustan verði samfelld og samþætt í þágu velferðar barna og fjölskyldna þeirra.

Róttækar breytingar í þágu farsældar barna

Til að ná því markmiði þarf róttækar og veigamiklar breytingar á því kerfi sem er til staðar í dag. Rauði þráðurinn í þessum róttæku og veigamiklu breytingum er snemmtæk íhlutun, þ.e. að gripið verði fyrr inn í að þjónusta börn en áður. Einnig er í fyrsta sinn kveðið á um samræmda mælikvarða sem lýsa stigskiptingu þjónustu í þágu farsældar barna. Öll þjónusta til barna í vanda verður stigskipt eftir því hversu mikil þörfin á þjónustu er. Slík „farsældarþjónusta“ er skilgreind allt frá grunnþjónustu, sem stendur öllum börnum til boða, til mjög sérhæfðrar þjónustu sem gert er ráð fyrir að einungis lítill hluti barna þurfi á að halda. Með heildstæðri mynd af stigskiptri þjónustu í þágu farsældar barna er ætlunin að stuðla að meðalhófi, skilvirkni og samfellu í veitingu þjónustu.

Snemmtæk íhlutun

Eins og áður kom fram er snemmtæk íhlutun þungamiðjan þeirra breytinga sem félags- og barnamálaráðherra hefur hrint af stað. Snemmtækri íhlutun hefur verið beitt á síðustu árum, og nokkur sveitarfélög hafa unnið slíka vinnu innan sinna raða. Sú vinna er talin hafa skilað þeim góðum árangri. Snemmtæk íhlutun er mikilvæg á fyrstu æviárunum fyrir allan síðari þroska einstaklingsins og getur því komið í veg fyrir erfiðleika síðar á lífsleiðinni. Í kjölfarið er þeim börnum fyrr veitt þjónusta en kerfið gerir ráð fyrir í dag.

Framtíðin er björt

Það liggur fyrir að kostnaður fylgi róttækum og stórum breytingum á kerfinu. Hins vegar er talið að arðsemin til lengri tíma verði gríðarleg bæði fyrir sveitarfélög og ríki. Ávinningurinn felst í minni inngripum síðar á ævinni og með því að veita umræddan stuðning sem fyrst hjá börnum er verið að skila þeim sterkari inn í fullorðinsárin. Með samþykkt þessara mála félags- og barnamálaráðherra stígum við skref í átt að því markmiði og leggjum hönd á plóg við að auka farsæld barna hér á landi.

Vegna alls þessa bind ég vonir við það að allir þingmenn á Alþingi sjái hversu jákvætt umrædd mál eru og smelli á græna takkann þegar að því kemur. Framtíðin krefst þess.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar og er í framboði fyrir flokkinn í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. júní 2021.

Categories
Greinar

Fjölgun starfa, fram­kvæmdir og menning í Hafnar­firði

Deila grein

08/06/2021

Fjölgun starfa, fram­kvæmdir og menning í Hafnar­firði

Í lok maí samþykkti bæjarráð Hafnarfjarðar áframhaldandi aðgerðir vegna Covid19 sem eru til þess fallnar að styðja enn frekar við íbúa og atvinnulíf í bæjarfélaginu. Aðgerðirnar eru aukin fjárframlög til fjölgunar starfa, til innviðauppbyggingar og til sérstakra menningarviðburða sumarið 2021.

Það birtir til

Það er sérstaklega gleðilegt að sjá hve vel okkur gengur að bólusetja hér á landi. Við erum farin að sjá vel í ljósið við enda ganganna og líf okkar færist því samhliða hægt og bítandi í rétt horf. Verkefni okkar og viðfangsefni verða þó áfram krefjandi. Það mun taka tíma að vinna úr efnahagslegum afleiðingum faraldursins; minni umsvifum fyrirtækja, auknu atvinnuleysi og minni tekjum í samfélaginu. Þó verður að hafa það í huga að tímabundnar stuðningsaðgerðir stjórnvalda hafa heppnast vel og mýkt höggið. Rauði þráðurinn í allri okkar vinnu hér í Hafnarfirði í gegnum faraldurinn hefur verið að halda uppi og tryggja góða og trausta þjónustu við íbúa ásamt því að viðhalda nauðsynlegu framkvæmdastigi.

Aukin framlög til sumarstarfa ungmenna

Samþykkt hefur verið að auka fjármagn um 250 milljónir króna í tímabundin störf. Sérstaklega mikilvægt er að tryggja þátttöku ungs fólks í vinnu og byggja upp fjölbreytta reynslu. Þessi mikla aukning verður til þess að hægt verður að fjölga störfum verulega, en í ár er gert ráð fyrir að störfum muni fjölga um 100 frá því í fyrra og verði þá um 200 störfum fleiri en eru á venjulegu ári. Störfin verða á vegum bæjarins þar sem boðið verður upp á fleiri störf í vinnuskóla, auk myndarlegrar þátttöku í atvinnuátaki stjórnvalda. Þar er boðið upp á sumarstörf fyrir námsmenn og tímabundin störf fyrir fólk í atvinnuleit. Hér er um að ræða fjölbreytt og spennandi störf og verður nýsköpunarstofan, sem sett var upp í Menntasetrinu við Lækinn síðasta sumar, m.a. nýtt.

Kröftug innspýting til framkvæmda og stuðningur við öflugt menningarlíf

Samhliða fjölgun starfa var samþykkt að bæta 340 milljónum króna í framkvæmdir í bæjarfélaginu. Þar má nefna mikla þörf í endurnýjun gangstétta í eldri hverfum auk frágangs í þeim hverfum sem nýrri eru, nauðsynlegt viðhald á skólalóðum og endurnýjun stíga og rafmagns í Hellisgerði. Faraldurinn hefur auk þess haft veruleg áhrif á allt menningarlíf og viðburðarhald undanfarna mánuði. Því hefur verið ákveðið að bæta við 5 milljónum króna til sérstakra menningarviðburða í Hafnarfirði sumarið 2021. Þar, líkt og annars staðar í samfélaginu, er nú að rofa til og ég segi að við getum farið að leyfa okkur að hlakka til hinna ýmsu viðburða. Nú stendur yfir bæjarhátíðin Bjartir dagar og mun hún standa yfir í allt sumar þar sem reynt verður að endurspegla allt það fjölbreytta menningarlíf sem til staðar er í Hafnarfirði. Auk þess styttist óðum í Hjarta Hafnarfjarðar, hátíð sem forsvarsmenn Bæjarbíós halda í góðu samstarfi við Hafnarfjarðarbæ. Hjarta Hafnarfjarðar hefst með glæsilegri dagskrá þann 7. júlí næstkomandi.

Það er bjart framundan. Förum varlega, virðum gildandi reglur en leyfum okkur að hlakka til komandi tíma. Við þurfum á því að halda.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. júní 2021.

Categories
Fréttir

Kynningarblað á frambjóðendum í prófkjöri í Suðurkjördæmi

Deila grein

08/06/2021

Kynningarblað á frambjóðendum í prófkjöri í Suðurkjördæmi

Átta verða í framboði hjá Framsóknarflokknum í Suðurkjördæmi í prófkjöri 19. júní 2021. Kosið verður um fimm efstu sætin. Talning atkvæða mun fara fram sunnudaginn 20. júní.

Í framboði eru:

  • Sigurður Ingi Jóhannsson, Hrunamannahreppi – sækist eftir 1. sæti
  • Jóhann Friðrik Friðriksson, Reykjanesbæ – sækist eftir 2. sæti
  • Silja Dögg Gunnarsdóttir, Reykjanesbæ – sækist eftir 2. sæti
  • Daði Geir Samúelsson, Hrunamannahreppi – sækist eftir 2.- 4. sæti
  • Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Árborg – sækist eftir 3. sæti
  • Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Reykjanesbæ – sækist eftir 3.- 4. sæti
  • Njáll Ragnarsson, Vestmannaeyjum – sækist eftir 3.- 4. sæti
  • Ragnhildur Hrund Jónsdóttir, Vík í Mýrdal – sækist eftir 3.- 5. sæti

Kjósendur skulu velja 5 frambjóðendur, hvorki fleiri né færri, og merkja með tölustöfum við nöfn þeirra og í þeirri röð sem þeir vilja að frambjóðendur taki sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í kjördæminu. Það er 1 við þann sem kjósandi vill að skipi efsta sæti, 2 við þann sem kjósandi vill í annað sæti, 3 við þann sem skipa skal þriðja sætið, o.s.frv.

Athugið að ekki má merkja við færri eða fleiri frambjóðendur en fimm, annars verður atkvæðið ógilt.