Categories
Greinar

Viðbótarstuðningur við aldraða

Deila grein

09/07/2020

Viðbótarstuðningur við aldraða

Á loka­dög­um þings­ins var samþykkt frum­varp til laga um fé­lags­leg­an viðbót­arstuðning við aldraða frá fé­lags- og barna­málaráðherra. Viðbót­arstuðning­ur­inn tek­ur til eldri borg­ara sem bú­sett­ir eru hér á landi og eiga eng­in eða tak­mörkuð líf­eyr­is­rétt­indi í al­manna­trygg­ing­um. Þessi hóp­ur hef­ur fallið óbætt­ur hjá garði og haft litla sem enga fram­færslu og jafn­vel þurft að reiða sig á fjár­hags­stuðning sveit­ar­fé­laga frá mánuði til mánaðar. Þetta nær til ein­stak­linga sem hafa náð 67 ára aldri, hafa fasta bú­setu og lög­heim­ili á Íslandi og dvelja hér var­an­lega. Þegar lög­in eru sett er talið að hóp­ur­inn telji um 400 ein­stak­linga. Til að eiga rétt á viðbót­arstuðningi þurfa er­lend­ir rík­is­borg­ar­ar að hafa ótíma­bundið dval­ar­leyfi á Íslandi og eiga lít­inn sem eng­an rétt frá sínu heimalandi. Það á einnig við um Íslend­inga sem eru að koma heim eft­ir langa fjar­veru á er­lendri grundu. Frum­varpið bygg­ist á niður­stöðum starfs­hóps um kjör aldraðra þar sem fjallað var um þann hóp aldraðra sem býr við lök­ustu kjör­in.

Þessi hóp­ur hef­ur verið jaðar­sett­ur þar sem ís­lenska al­manna­trygg­inga­kerfið hef­ur byggst á því að fólk hafi búið hér alla sína starfsævi og því áunnið sér rétt í 40 ár þegar eft­ir­launa­aldri er náð. Við búum í fjöl­menn­ing­ar­sam­fé­lagi og þeir ein­stak­ling­ar sem hafa flust hingað til lands­ins með lít­il eða eng­in rétt­indi frá sínu heimalandi eru marg­ir hverj­ir fast­ir í fá­tækt­ar­gildru, með þess­ari breyt­ingu er verið að tryggja þeim lág­marks­fram­færslu.

Það var ánægju­legt að fá að fylgja þessu máli í gegn­um vel­ferðar­nefnd, þar sem ég var fram­sögumaður máls­ins, og lenda því í sam­hljómi þing­manna við loka­af­greiðslu máls­ins inni í þingsal.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Fram­sókn­ar­ í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. júlí 2020.

Categories
Greinar

Umsóknum í kennaranám á Íslandi fjölgar um 46%

Deila grein

08/07/2020

Umsóknum í kennaranám á Íslandi fjölgar um 46%

Mennt­un er grund­völl­ur vel­sæld­ar og fram­fara þjóða. John Stu­art Mill stjórn­mála­heim­spek­ing­ur skrifaði á sín­um tíma að: „Öll efl­ing mennt­un­ar stuðlar að jöfnuði og veit­ir fólki aðgang að sama sjóði þekk­ing­ar.“ Þetta eru orð að sönnu. Þjóðir í fremstu röð eru með framúrsk­ar­andi mennta­kerfi. Í framúrsk­ar­andi mennta­kerfi er staða kenn­ar­ans afar sterk. Því var þess getið í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar að bregðast þyrfti við kenn­ara­skorti með sam­starfi rík­is, sveit­ar­fé­laga og stétt­ar­fé­laga. Ég er stolt af að greina frá því að sam­an höf­um við náð að snúa vörn í sókn.

Staða kenn­ara­náms styrkt

Ráðist var í heild­stæðar aðgerðir í víðtæku sam­starfi við Kenn­ara­sam­band Íslands, Há­skól­ann á Ak­ur­eyri, menntavís­inda­svið Há­skóla Íslands, Lista­há­skóla Íslands, Heim­ili og skóla og Sam­tök iðnaðar­ins. Að auki komu að vinn­unni full­trú­ar fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­is og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneyt­is. Meðal ann­ars þurfti að bregðast við því að inn­rit­un í leik- og grunn­skóla­kenn­ara­nám hafði dreg­ist sam­an um 40% frá 2008. Í þess­um aðgerðum fólst meðal ann­ars launað starfs­nám leik- og grunn­skóla­kenn­ara­nema á loka­ári. Aðgerðirn­ar höfðu afar já­kvæð áhrif og hafa leitt til gríðarlegr­ar fjölg­un­ar um­sókna í kenn­ara­nám. Alls fjölgaði um­sókn­um um 591 milli ár­anna 2019 og 2020, eða um 46%. Þar af er fjölg­un­in mest við Há­skóla Íslands en þar fjölg­ar um­sókn­um um 580 milli ára, eða um 61%.

Mennta­stefna til árs­ins 2030

Þess­ar aðgerðir eru hluti af nýrri mennta­stefnu til árs­ins 2030, sem verður kynnt í upp­hafi nýs skóla­árs. Mark­mið stjórn­valda með stefn­unni er að veita framúrsk­ar­andi mennt­un með áherslu á þekk­ingu, vellíðan, þraut­seigju og ár­ang­ur í um­hverfi þar sem all­ir skipta máli og geta lært í öfl­ugu og sveigj­an­legu mennta­kerfi. Stefn­an mun end­ur­spegla leiðarljósið all­ir geta lært sem fel­ur í sér áherslu á virka þátt­töku allra í lýðræðis­sam­fé­lagi sem bygg­ist á jafn­rétti og mann­rétt­ind­um, heil­brigði, vel­ferð og sjálf­bærni. Mennta­stefn­an er mótuð með aðkomu fjöl­margra aðila úr skóla­sam­fé­lag­inu, meðal ann­ars með fundaröð um land allt um mennt­un fyr­ir alla haustið 2018 og 2019.

Mennt­un efl­ir jöfnuð og all­ir eiga að hafa jöfn tæki­færi til náms. Ég hef þá trú að all­ir geti lært og all­ir skipti máli. Kenn­ar­ar, skóla­stjórn­end­ur og aðrar starfs­stétt­ir inn­an mennta­kerf­is­ins eru ein mesta auðlind hvers sam­fé­lags og leggja grunn að öðrum störf­um. Aðsókn í kenn­ara­nám hef­ur stór­auk­ist vegna mark­vissra aðgerða sem hrint hef­ur verið í fram­kvæmd. Með skýrri sýn og stefnu er hægt að bæta sam­fé­lagið sitt. Ég vil þakka öll­um þeim sem hafa komið að því að efla stöðu kenn­ara­náms í land­inu, því það sann­ar­lega skipt­ir máli fyr­ir kom­andi kyn­slóðir.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júlí 2020.

Categories
Greinar

STYRKING FJÖLMENNINGARSETURS Á ÍS Í BOÐI MIÐFLOKKSINS

Deila grein

06/07/2020

STYRKING FJÖLMENNINGARSETURS Á ÍS Í BOÐI MIÐFLOKKSINS

Frumvarp félags- og barnamálaráðherra, Ásmundar Daða Einarssonar, um málefni innflytjenda sem snýr að móttöku flóttafólks og innflytjendaráð hefur verið afgreitt úr út velferðarnefnd á Alþingi. Eftir vandaða yfirferð, góðar umsagnir og samhljóm innan nefndarinnar var málið  samþykkt en að kröfu Miðflokksins í lok þingsins var málið ekki flutt til afgreiðslu í þingsal. Það má ætla að í þeirri kröfu endurspeglist þeirra viðhorft til málefni innflytjenda.

Frumvarp þetta er samið í félagsmálaráðuneytinu í samráði við starfshóp um móttökuáætlanir sveitarfélaga. Með þessum breytingum er verið að styrkja Fjölmenningasetrið á Ísafirði þar sem því er ætlað að stýra þessu mikilvægu verkefni og því falið víðtækara hlutverk vegna samræmdar móttöku flóttafólks með því að fela stofnuninni að veita sveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf í tengslum við móttöku flóttafólks.

Það er mikilvægt í ljósi fjölgunar flóttafólks á liðnum árum að ríki og sveitarfélög tryggi samfellda og jafna þjónustu þessa fólks. Frumvarpið var fullunnið inn í velferðarnefnd Alþingis þar sem undirrituð var framsögumaður málsins. Meirihluti velferðarnefndar taldi brýnt að bæta móttöku einstaklinga með vernd sem hafi ríka þörf fyrir aukinn stuðning fyrst við komu til landsins.

Því miður er málið sett á ís, í boði Miðflokksins.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 4. júlí 2020.

Categories
Greinar

Afglæpavæðing á neyslu fíkniefna

Deila grein

03/07/2020

Afglæpavæðing á neyslu fíkniefna

Mikið hefur verið rætt um afglæpavæðingu á neyslu fíkniefna og fjölmiðlar gera því í skóna að meirihlutinn á Alþingi hafi hafnað henni í atkvæðagreiðslu nú á síðustu degi þingsins. Sem er í raun ekki rétt. Það hefur verið unnið að þessum málum undanfarin misseri og lögð áhersla á skaðaminnkun í aðgerðum stjórnvalda til að sporna við neikvæðum afleiðingum neyslu.

Í vor var samþykkt frumvarp frá heilbrigðisráðherra um neyslurými  sem er að heimila stofnun og rekstur neyslurýma en þau teljast til skaðaminnkandi aðgerða. Mikilvægur áfangi og stór. Þá hefur verið horfið frá þyngri refsingum fyrir vörslu neysluskammta og smávægileg brot fara ekki á sakskrá lengur og með breyttum umferðarlögum sem kveða á um að mæling á ávana- og fíkniefni í blóði sé einungis grundvöllur refsinga, ekki mæling í þvagi og blóði eins og áður var. Allt er þetta samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir að snúa þurfi af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefni og vinna frekar að viðunandi meðferðarúrræði.

Frumvarp Pírata sem fellt var á Alþingi fjallaði einfaldlega um  að ákvæði laga um ávana- og fíkniefni um bann við vörslu og meðferð fíkniefna verði breytt á þann hátt að bann við vörslu, kaupum og móttöku efna verði fellt brott. Lítið útfært og í litlu samráði. Vissulega er það samhljóma við skýrslu sem gerð var um málið á sínum tíma en frumvarpið sjálft var ekki unnið í samstarfi við þá aðila sem vinna þurftu svo með útkomuna. Í meðförum nefndarinnar breyttist málið og var á réttri leið þegar það var tekið út en ekki fullunnið og ekki í sátt. Þess vegna var ég ekki tilbúin að fylgja því eftir inni í þingsal þótt ég sé sammála frumhugmyndinni. Við svona stórt skref þarf að skilgreina þetta mun betur og vinna jafnframt að aðgerðum til að mæta breyttu landslagi í þessum efnum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júlí 2020.

Categories
Greinar

Bættar sam­göngur í Hafnar­firði og ná­grenni

Deila grein

03/07/2020

Bættar sam­göngur í Hafnar­firði og ná­grenni

Ámánu­dags­kvöld urðu þau stór­tíðindi á Al­þingi að fjögur stór sam­göngu­verk­efni voru sam­þykkt: sam­göngu­á­ætlanir til fimm og fimm­tán ára, lög um sam­vinnu­verk­efni í sam­göngum sem byggja á Hval­fjarðar­ganga­módelinu og lög um hluta­fé­lag um fram­kvæmdir vegna sam­göngu­sátt­mála höfuð­borgar­svæðisins.

Fólk gerir sér ef­laust ekki fylli­lega grein fyrir því af­reki sem Sigurður Ingi Jóhanns­son, sam­göngu- og sveitar­stjórnar­ráð­herra, hefur unnið með því að ná þessum málum í gegn. Þeir sem hafa fylgst með um­ræðum um sam­göngu­mál á höfuð­borgar­svæðinu síðustu árin og ára­tugina vita að þar hefur verið mikill á­greiningur milli ríkisins og sveitar­fé­laganna og þá sér­stak­lega Reykja­víkur­borgar. Enda hefur ríkt al­gjör stöðnun í sam­göngum á þessu fjöl­mennasta svæði landsins og af­leiðingarnar aug­ljósar: sí­fellt þyngri um­ferð, meiri tafir og meiri mengun.

Sam­göngu­sátt­málinn sem skrifað var undir markar tíma­mót að mörgu leyti. Stóra af­rekið felst ekki síst í að ná öllum sveitar­fé­lögunum og ríkinu að sama borði með það að mark­miði að ná sam­komu­lagi um niður­stöðu sem allir aðilar geta sætt sig við. Sú leið hefur ekki verið ein­föld enda ólík sjónar­mið uppi. Með þessu sam­tali ráð­herrans við sveitar­fé­lögin og Vega­gerðina hefur ísinn verið brotinn og við, í­búar í Hafnar­firði og á höfuð­borgar­svæðinu öllu, sjáum nú loks fram á betri tíð í sam­göngum.

Niður­staðan er fjöl­breyttar sam­göngur þar sem stofn­brautir verða byggðar upp, göngu- og hjóla­stígar lagðir og inn­viðir al­vöru al­mennings­sam­gangna verða að veru­leika. Allt styður þetta við heil­brigðara sam­fé­lag, styttir ferða­tíma á svæðinu, minnkar mengun og eykur allt um­ferðar­öryggi.

Þetta var mögu­legt með leið Fram­sóknar: sam­vinnu. Ekki vinstri, ekki hægri heldur á­fram veginn.

Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrí og formaður bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. júní 2020.

Categories
Greinar

Nýr Mennta­sjóður náms­manna: Stærsta hags­muna­málið í ára­tugi

Deila grein

01/07/2020

Nýr Mennta­sjóður náms­manna: Stærsta hags­muna­málið í ára­tugi

Til­gangur stjórn­málanna er að breyta rétt og bæta sam­fé­lagið þar sem hið lýð­ræðis­lega um­boð verður til. Fram kemur í stjórnar­sátt­mála ríkis­stjórnarinnar að ráðist verði í endur­skoðun náms­lána­kerfisins, þar sem lögð er á­hersla á jafn­rétti til náms, skil­virkni og náms­styrkja­kerfi að nor­rænni fyrir­mynd. Öll þessi fyrir­heit hafa verið efnd í nýjum Mennta­sjóði náms­manna en ný lög, nr. 60/2020, taka gildi í dag.

Jafn­rétti til náms

Lögin fela í sér grund­vallar­breytingar á stuðningi við náms­menn. Fjár­hags­staða nem­enda verður betri og skulda­staða þeirra að loknu námi mun síður ráðast af fjöl­skyldu­að­stæðum. Ein leið til að ná þessu fram var að tryggja barna­styrkinn sem lögin kveða á um – for­eldrar í námi fá fjár­styrk en ekki lán til að fram­fleyta börnum sínum. Nýja kerfið miðar að því að jafna stuðning og dreifingu styrkja ríkisins til náms­manna sem taka náms­lán. Sér­stak­lega verður hugað að hópum sem reynst hefur erfiðara að sækja nám s.s. ein­stæðum for­eldrum, fjöl­skyldu­fólki og náms­mönnum utan höfuð­borgar­svæðisins. Með þessari kerfis­breytingu viljum við auka gagn­sæi, fyrir­sjáan­leika og skipta gæðum með jafnari og rétt­látari hætti milli náms­manna.

Af­nám á­byrgða­manna­kerfisins

Ný lög boða einnig af­nám á­byrgðar­manna­kerfisins. Á­byrgð á­byrgðar­manns á náms­lánum teknum í tíð eldri laga falla niður sé lán­þegi í skilum við Lána­sjóð ís­lenskra náms­manna, LÍN, og ekki á van­skila­skrá. Þetta er gríðar­lega mikið hags­muna­mál fyrir marga í ís­lensku sam­fé­lagi. Það er mikil­vægt að allir hafi jöfn tæki­færi til menntunar og geti fundið nám við sitt hæfi.

Aukin skil­virkni og bestu kjör

Þá er jafn­framt inn­byggður mikill hvati til bættrar náms­fram­vindu með 30% niður­færslu á höfuð­stól og verð­bótum ef námi er lokið innan til­tekins tíma. Enn fremur munu náms­menn njóta bestu láns­kjara ríkis­sjóðs Ís­lands og náms­að­stoðin, lán og styrkir, verða undan­þegin lögum um stað­greiðslu opin­berra gjalda. Heimilt verður að greiða út náms­lánin mánaðar­lega og lán­þegar geta valið hvort lánin séu verð­tryggð eða ó­verð­tryggð. Þessi mikil­vægu lög munu því stuðla mark­visst að betra nýtingu fjár­muna, aukinni skil­virkni og þjóð­hags­legum á­vinningi fyrir sam­fé­lagið.

Aukinn sveigjan­leiki á tímum CO­VID-19

Á vanda­sömum tímum er mikil­vægt að tryggja vel­líðan nem­enda og standa vörð um mennta­kerfið okkar. Á tímum CO­VID-19 sýndi LÍN skjót og sveigjan­leg við­brögð með hags­muni nem­enda að leiðar­ljósi. Þessi við­horf verða á­fram í há­vegum höfð í nýjum Mennta­sjóði. Búið er að hrinda í fram­kvæmd nýju náms­styrkja­kerfi sem er að nor­rænni fyrir­mynd. Með nýjum lögum er verið að sinna til­gangi stjórn­málanna, þ.e. að breyta rétt, bæta sam­fé­lagið og standa við fyrir­heit stjórnar­sátt­málans.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. júní 2020.

Categories
Greinar

Stóra stökkið í samgöngum

Deila grein

01/07/2020

Stóra stökkið í samgöngum

Ný­samþykkt sam­göngu­áætlun sem nær til ár­anna 2020-2034 er stórt stökk í sam­göng­um á Íslandi. Þetta er ein mik­il­væg­asta áætl­un sem ríkið stend­ur að enda er sam­göngu­kerfið, vega­kerfið, flug­vell­ir og hafn­ir, lík­lega stærsta eign ís­lenska rík­is­ins, metið á tæpa 900 millj­arða króna. Aldrei áður hef­ur jafn­mikl­um fjár­mun­um verið varið til sam­gangna og gert er í þess­ari áætl­un sem á eft­ir að skila sér í ör­ugg­ari og greiðari um­ferð um allt land.

Stóra byggðastefn­an

Í ná­granna­lönd­um okk­ar er stund­um talað um stóru byggðastefn­una þegar rætt er um sam­göngu­áætlan­ir land­anna. Í sam­göngu­áætlun fel­ast enda gríðarlega mikl­ir hags­mun­ir fyr­ir sam­fé­lög­in vítt og breytt um landið. Efna­hags­leg­ir hags­mun­ir eru líka mjög mikl­ir því all­ar stytt­ing­ar á leiðum inn­an og milli svæða fela í sér þjóðhags­leg­an sparnað.

Skoska leiðin – niður­greiðsla á far­gjöld­um

Sam­göngu­áætlun­in sem ég lagði fram í lok árs­ins 2019 og var samþykkt á Alþingi á mánu­dag mark­ar að mörgu leyti tíma­mót. Inn­an henn­ar er fyrsta flug­stefna sem gerð hef­ur verið á land­inu þótt flug á Íslandi hafi átt ald­araf­mæli á síðasta ári. Eitt af stóru mál­un­um er að í haust hef­ur það sem í dag­legu tali hef­ur verið nefnt „skoska leiðin“ göngu sína. Í henni felst að ríkið mun greiða niður hluta af flug­far­gjaldi þeirra sem búa á lands­byggðinni. Það er mikið rétt­læt­is­mál að þeir sem búa fjarri höfuðborg­inni og vilja og þurfa að sækja þjón­ustu þangað fái niður­greiðslur á ferðum sín­um með flugi. Þetta er mik­il­vægt skref í því að jafna aðstöðumun þeirra sem búa ann­ar staðar en á suðvest­ur­horn­inu.

Greiðar og góðar sam­göng­ur fyr­ir alla ferðamáta

Inn­an sam­göngu­áætlun­ar er einnig sér­stök áætl­un um al­menn­ings­sam­göng­ur milli lands­hluta. Þar er líka mik­il áhersla á upp­bygg­ingu, göngu- og hjóla­stíga og reiðvega. Er því mik­il áhersla lögð á alla far­ar­máta til að mæta kröf­um sem flestra um greiðar og góðar sam­göng­ur.

Sam­vinnu­verk­efni flýta fram­förum

Sam­hliða sam­göngu­áætlun voru líka samþykkt lög um sam­vinnu­verk­efni í sam­göng­um sem byggja á Hval­fjarðarganga­mód­el­inu. Þau verk­efni sem falla und­ir lög­gjöf­ina eru ný brú yfir Ölfusá ofan Sel­foss, lág­lendis­veg­ur og göng í gegn­um Reyn­is­fjall, ný brú yfir Horna­fjarðarfljót, nýr veg­ur yfir Öxi, önn­ur göng und­ir Hval­fjörð og hin langþráða Sunda­braut. Allt eru þetta verk­efni sem fela í sér veru­lega stytt­ingu leiða og aukið ör­yggi en þeir sem vilja ekki nýta sér þessi mann­virki geta áfram farið gömlu leiðina en munu þá verða af þeim ávinn­ingi, fjár­hags­leg­um og varðandi ör­yggi.

Raf­væðing ferja og hafna

Á síðasta ári urðu þau tíma­mót að nýr Herjólf­ur hóf sigl­ing­ar milli Eyja og lands. Ekki er síst ánægju­legt að ferj­an er knú­in raf­magni, svo­kölluð tvinn-ferja. Áfram verður hlúð að al­menn­ings­sam­göng­um með ferj­um. Mik­il fjár­fest­ing verður í höfn­um víða um land og áhersla lögð á að búa þær búnaði til að skip geti tengst raf­magni til að vinna gegn óþarfa út­blæstri.

Tíma­mót í sam­göng­um á höfuðborg­ar­svæðinu

Að síðustu vil ég nefna að með sam­göngu­áætlun og samþykkt laga um stofn­un hluta­fé­lags um upp­bygg­ingu sam­göngu­innviða höfuðborg­ar­svæðis­ins er stigið stærsta skref sem stigið hef­ur verið í upp­bygg­ingu á höfuðborg­ar­svæðinu. Eru þær fram­kvæmd­ir byggðar á sam­göngusátt­mála rík­is­ins og sex sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu sem und­ir­ritaður var í fyrra. Með hon­um var höggvið á þann hnút sem hef­ur verið í sam­skipt­um rík­is­ins og sveit­ar­fé­lag­anna á höfuðborg­ar­svæðinu og komið hafði í veg fyr­ir al­vöru­upp­bygg­ingu á svæðinu. Sátt­mál­inn mark­ar tíma­mót sem mun skila sér í greiðari sam­göng­um, hvort sem litið er á fjöl­skyldu­bíl­inn, al­menn­ings­sam­göng­ur eða gang­andi og hjólandi um­ferð.

Ég bið alla um að fara var­lega í um­ferðinni í sum­ar og sýna til­lit þeim fjöl­mörgu sem vinna við upp­bygg­ingu og end­ur­bæt­ur á veg­un­um. Góða ferð á ís­lensku ferðasumri.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra og formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. júní 2020.

Categories
Fréttir

Náttúrustofur

Deila grein

01/07/2020

Náttúrustofur

„Dropinn holar steininn, en á mánudag samþykkti Alþingi tillögu mína um Náttúrustofur“ segir Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í yfirlýsingu á Facebook í dag.

„Með henni er umhverfis- og auðlindaráðherra falið að koma á fót starfshópi til að meta reynsluna af starfi náttúrustofa og kanna hvort hagkvæmt sé að náttúrustofur taki formlega að sér fleiri svæðisbundin verkefni en þær hafa nú með höndum.

Starfshópnum verði falið að móta leiðir til að styrkja samstarf náttúrustofa og stofnana ríkisins í þeim tilgangi að nýta fjármagn til þekkingaröflunar og vöktunar á náttúru landsins sem best og til að auka skilvirkni í samstarfi um náttúruvernd,“ segir Líneik Anna.

Líneik Anna þakkar þakkar meðflutningsmönnum sínum í gegnum tíðina og samstarfsfólki í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.

Categories
Fréttir

Stóra stökkið í samgöngum

Deila grein

30/06/2020

Stóra stökkið í samgöngum

Alþingi samþykkti í gær fimm ára samgönguáætlun 2020-2024, samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034 og samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir á síðasta fundi fyrir þingfrestun. Þessu til viðbótar voru samþykkt lög um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

„Nýsamþykkt samgönguáætlun sem nær til áranna 2020-2034 er stórt stökk í samgöngum á Íslandi. Þetta er ein mikilvægasta áætlun sem ríkið stendur að enda er samgöngukerfið, vegakerfið, flugvellir og hafnir, líklega stærsta eign íslenska ríkisins, metið á tæpa 900 milljarða króna. Aldrei áður hefur jafnmiklum fjármunum verið varið til samgangna og gert er í þessari áætlun sem á eftir að skila sér í öruggari og greiðari umferð um allt land,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, í færslu á Facebook í gær.

Sigurður Ingi sagði við atkvæðagreiðsluna í gær vilja þakka þingheimi fyrir að fara í gegnum þetta flókna og mikla úrlausnarefni. „Við erum að leggja af stað með sókn í samgöngumálum og atvinnusköpun,“ sagði Sigurður Ingi. Jafnframt þakkaði hann nefndarmönnum samgöngunefndar Alþingis þeirra mikla framlag.

Stóra byggðastefnan

„Í nágrannalöndum okkar er stundum talað um stóru byggðastefnuna þegar rætt er um samgönguáætlanir landanna. Í samgönguáætlun felast enda gríðarlega miklir hagsmunir fyrir samfélögin vítt og breytt um landið. Efnahagslegir hagsmunir eru líka mjög miklir því allar styttingar á leiðum innan og milli svæða fela í sér þjóðhagslegan sparnað,“ segir Sigurður Ingi.

Sigurður Ingi segir samgönguáætlunina marka tímamót, en nú hefur verið mörkuð fyrsta flugstefna stjórnvalda enda þótt flug á Íslandi hafi átt aldarafmæli á síðasta ári. Þá mun „Skoska-leiðin“, baráttumál Framsóknar um að taka upp niðurgreiðslu á flugi innanlands fyrir íbúa á landsbyggðinni, verða að veruleika. „Það er mikið réttlætismál að þeir sem búa fjarri höfuðborginni og vilja og þurfa að sækja þjónustu þangað fái niðurgreiðslur á ferðum sínum með flugi. Þetta er mikilvægt skref í því að jafna aðstöðumun þeirra sem búa annar staðar en á suðvesturhorninu“.

Samvinnuverkefni í samgöngum

„Samhliða samgönguáætlun voru líka samþykkt lög um samvinnuverkefni í samgöngum sem byggja á Hvalfjarðargangamódelinu. Þau verkefni sem falla undir löggjöfina eru ný brú yfir Ölfusá ofan Selfoss, láglendisvegur og göng í gegnum Reynisfjall, ný brú yfir Hornafjarðarfljót, nýr vegur yfir Öxi, önnur göng undir Hvalfjörð og hin langþráða Sundabraut. Allt eru þetta verkefni sem fela í sér verulega styttingu leiða og aukið öryggi en þeir sem vilja ekki nýta sér þessi mannvirki geta áfram farið aðra leið en munu þá verða af þeim ávinningi, fjárhagslegum og varðandi öryggi,“ sagði Sigurður Ingi.

Samgönguinnviðir á höfuðborgarsvæðinu

Alþingi samþykkti og stofnun hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðisins. Hlutafélaginu er ætlað að halda utan um fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum og hrinda þeirri uppbyggingu í framkvæmd, þ.m.t. innviðum almenningssamgangna, til 15 ára.

„Hér er stigið stærsta skref sem stigið hefur verið í uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu. Byggja þær framkvæmdir á samgöngusáttmála ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem undirritaður var í fyrra. Með honum var höggvið á þann hnút sem hefur verið í samskiptum ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og komið hafði í veg fyrir alvöru uppbyggingu á svæðinu. Sáttmálinn markar tímamót sem mun skila sér í greiðari samgöngum, hvort sem litið er á fjölskyldubílinn, almenningssamgöngur eða gangandi og hjólandi umferð,“ segir Sigurður Ingi.

Vegna þessa er áætlað beint heildarframlag ríkisins 45 milljarðar kr. að lágmarki til og með 2033. Bein framlög sveitarfélaganna verða samtals einn milljarður kr. á ári eða 15 milljarðar kr. á tímabilinu, þ.e. til og með 2033. Samkvæmt samgöngusáttmálanum er gert ráð fyrir að flýti- og umferðargjöld verði tekin upp með sérstakri lagasetningu til að standa undir hluta af fjármögnun verkefnisins eða um 60 (nettó) milljarðar kr. Er gjöldunum ætlað að standa straum af stofnframkvæmdum, fjármögnun og afleiddum kostnaði. Aðrir fjármögnunarkostir verða þó einnig skoðaðir samhliða orkuskiptum og endurskoðuð skattlagning á ökutæki og eldsneyti, enda raski það ekki fjármögnun framkvæmdaáætlunar.

Categories
Fréttir

Kaupandi lands búi á Íslandi

Deila grein

29/06/2020

Kaupandi lands búi á Íslandi

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, ræddi frumvarp forsætisráðherra um nýtingu og ráðstöfun landeigna á Alþingi í dag. Fram kom í ræðu hennar að ríkisstjórnin hafi frá upphafi kjörtímabilsins verið skýr með afstöðu sína. Stjórnarsáttmálinn kveður á um að setja skilyrði við kaup á landi sem taka mið af stefnu stjórnvalda um þróun byggðar, landnýtingu og umgengni um auðlindir. 

Silja Dögg fór yfir að Framsóknarflokkurinn geri þá kröfu „að kaupandi lands búi á Íslandi, að kaupandi hafi búið á Íslandi í a.m.k. fimm ár eða hafi starfsemi í landinu, þ.e. hafi bein tengsl  við landið. Að mati okkar Framsóknarmanna þarf tilgangur jarðakaupa að vera skýr. Margskonar markmið sem styrkja búsetu og samfélög gætu fallið þar undir, s.s. búfjárrækt, uppbygging gróðurauðlindar, landfrek atvinnustarfsemi eða nýsköpun byggð á sérstöðu viðkomandi jarðar eins og menningarverðmætum eða náttúru. Aðalatriði er eins og fyrr segir, að tilgangur jarðnýtingar liggi fyrir. Það er einnig algert lykilatriði að sveitarfélög og ríkisvald fái aðkomu að ráðstöfun landsins. Regluverkið þarf að vera það sveigjanlegt svo hægt sé að bregðast við ólíkum aðstæðum í byggðarlögum og landshlutum“.

Silja Dögg fór yfir helstu breytingar á gildandi lögum og þær viðbætur sem birtast í framlögðu frumvarpi forsætisráðherra. Sagði hún m.a. að ráðherra fái heimild til að veita aðilum frá ríkjum utan EES leyfi til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteign ef þeir uppfylla ekki skilyrði laganna um íslenskan ríkisborgararétt eða skilyrði um lögheimili hér á landi. Þá gæti ráðherra veitt einstaklingi eða lögaðila utan EES, heimild til að öðlast eignar- eða afnotarétt yfir fasteign til beinna nota í atvinnustarfsemi. Verði þetta frumvarp að lögum fær ráðherra einnig heimilað einstaklingi, sem hefur sterk tengsl við Ísland, s.s. vegna hjúskapar við íslenskan ríkisborgara, að eignast hér fasteign“.

Þá er lögð til „breyting á þinglýsingalögum þess efnis að upplýsingar um kaupverð eignar verði meðal skilyrða fyrir þinglýsingu afsals nema skýrt komi fram að ekkert endurgjald komi fyrir hina seldu eign. Þá er lagt til að í lög um skráningu og mat fasteigna komi ákvæði um landeignaskrá, sem er hluti fasteignaskrár og inniheldur m.a. upplýsingar um eignarmörk lands í samræmdum kortagrunni. Ákvæðinu er ætlað að ryðja úr vegi hindrunum fyrir frekari uppbyggingu landeignaskrár Þjóðskrár Íslands“.

„Það sem snýr að breytingum á jarðarlögum í frumvarpinu, eru m.a. að markmiðsákvæði laganna verði fyllra og ítarlegra en nú og innihaldi markmið um landnýtingu í samræmi við skilgreind markmið, þ.á.m. um að land sem vel er fallið til búvöruframleiðslu verði nýtt í því skyni. Lagðar eru til breytingar á ákvæðum um lögbýli þannig að þau verði einungis stofnuð til starfsemi á sviði landbúnaðar eins og hann er skilgreindur í lögunum,“ sagði Silja Dögg.

Silja Dögg segir að gerð landeignaskrár sé lykilatriði, hún sé forsenda þess að hægt sé að uppfæra fasteignamat í dreifbýli.

„Það er tími til kominn að löggjafinn setji skýrari ramma um landakaup og ræði jafnframt hvort það sé eðlilegt að vatnsréttindi fylgi landsréttindum. Hér eru erlendir fjárfestar að fjárfesta fyrir á fimmta milljarð í vatnsverksmiðjum. Þeir eru að fjárfesta í vatnsréttindum og vatnsauðlindinni. Ég er ekki viss um að það þjóni hagsmunum Íslands til lengri tíma.

Við höfum ekki enn sett regluverk um kaup á landi og endurskoðað þar með þá löggjöf sem sett var fyrir 16 árum. Þá voru allar gáttir opnaðar, sem var ekki til bóta. Það felast miklir almannahagsmunir í ráðstöfun og meðferð lands og því geta ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og á hverri annarri fasteign.

Það frumvarp sem við ræðum nú, tekur ekki á öllum þeim þáttum í jarðamálum, sem gera þarf breytingar á. En frumvarpið er tvímælalaust skref í rétta á, eins og ég hef þegar farið yfir,“ sagði Silja Dögg.