Categories
Greinar

Samningur og sam­vinna um með­ferð við endó­metríósu

Deila grein

01/12/2022

Samningur og sam­vinna um með­ferð við endó­metríósu

Aðgangur að heilbrigðisþjónustu er réttlætismál og áherslumál ríkisstjórnarinnar. Það er mikilvægt að allir hafi jafnt aðgengi að bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni. Aðgengi sé óháð kyni, stöðu, bakgrunni, efnahag og búsetu. Bið eftir heilbrigðisþjónustu eða skert aðgengi getur verið dýrkeypt einstaklingnum og samfélaginu.

Biðlistar endurspegla álag á kerfið og lengdust þeir í heimsfaraldrinum. Ef ekkert er að gert mun gliðna meira á milli þarfarinnar fyrir heilbrigðisþjónustu og þeirrar þjónustu sem að við getum veitt. Það er ljóst að nýta þarf allt heilbrigðiskerfið til þess að vinna á biðlistum og hefur undirbúningur þess efnis verið í forgangi í heilbrigðisráðuneytinu undanfarið.

Til að bregðast við þessari stöðu hafa Sjúkratryggingar Íslands samið við Klíníkina um kaup á endómetríósuaðgerðum til að vinna niður biðlista og bæta aðgengi að þeim óháð efnahag. Það er mikið gleðiefni að samningar hafi náðst um þessar mikilvægu aðgerðir. Eins er samningurinn mikilvægur liður í framtíðarfyrirkomulagi þessara aðgerða og annarra.

Endómetríósa

Endómetríósa er langvinnur, fjölkerfa sjúkdómur sem leggst á einn af hverjum tíu leghafa. Orsökin er óþekkt en sjúkdómurinn getur gengið í erfðir. Því miður er greiningartími sjúkdómsins oft langur þar sem um flókna sjúkdómsmynd er að ræða. Þekkingin á sjúkdómnum er alltaf að aukast en enn er ekki til lækning við honum. Kviðarholsspeglun er bæði notuð til greiningar og meðferðar. Stundum þarfnast hver einstaklingur fleiri en einnar aðgerðar og þær geta verið nokkuð umfangsmiklar þegar fjarlægja þarf til dæmis leg eða eggjastokk.

Samtök um endómetríósu á Íslandi hafa verið ötul við að fræða samfélagið um sjúkdóminn og beita sér fyrir bættri heilbrigðisþjónustu við þá einstaklinga sem eiga við sjúkdóminn að etja. Samtökin hafa allt frá árinu 2006 haft það að leiðarljósi að vinna með heilbrigðisyfirvöldum og heilbrigðisstarfsfólki að markmiðum sínum. Hið óeigingjarna starf félagsins, sem hefur einkennst af yfirvegun og fagmennsku, hefur ekki aðeins leitt til umbóta í heilbrigðisþjónustunni heldur líka vitundarvakningar um sjúkdóminn í samfélaginu almennt.

Teymisvinna

Á Landspítala var stofnað þverfaglegt endómetríósuteymi árið 2017. Nú er Klíníkin einnig að byggja upp sérhæfða þjónustu fyrir þennan sjúkdóm og er jákvætt að úrræðum sé að fjölga og þjónustan að eflast. Einnig gegna aðrar starfsstöðvar, sjálfstætt starfandi kvensjúkdómalæknar og heilsugæslan mikilvægu hlutverki í heilbrigðisþjónustu við þennan flókna og langvinnan sjúkdóm.

Það er ljóst að teymisvinna er ekki aðeins nauðsynleg innan heilbrigðisstofnanna heldur líka milli stofnanna, úrræða, félagasamtaka, yfirvalda og einstaklinga. Er þessi samningur því mikilvægt skref í þeirri vegferð að taka saman höndum um að stytta bið og jafna aðgengi. Samvinna og samfella eru lykilbreytur í því að láta heilbrigðiskerfið ganga upp.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á vísir.is 30. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Getur þú ekki bara harkað þetta af þér?

Deila grein

01/12/2022

Getur þú ekki bara harkað þetta af þér?

Ánægjulegt og langþráð skref var stigið nú í vikunni þegar Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra staðfesti samning sem Sjúkratryggingar Íslands hafa gert við Klíníkina um kaup á aðgerðum vegna endómetríósu. Samningurinn kveður á um að þær sem eru í brýnustu þörfinni njóti forgangs að aðgerðum.

Endómetríósa er krónískur, fjölkerfa sjúkdómur sem getur verið afar sársaukafullur. Sjúkdómurinn er gjarnan kallaður endó í daglegu tali, en einnig var notast við hugtakið legslímuflakk. Á 20 ára tímabili greindust um 1.400 konur með sjúkdóminn á Íslandi. Má því reikna með að á hverj­um tíma eigi hundruð ef ekki þúsundir kvenna í vanda vegna sjúkdómsins hér á landi, en hjá mörg­um þeirra greinist sjúkdómurinn seint og ekki fyrr en óafturkræfar vefja­skemmdir hafa orðið. Það hefur verið vitað um tíma að nauðsynlegt er að sinna þeim sem greinast með endómetríósu og af því tilefni var stofnað þverfaglegt endómetríósuteymi á Landspítalanum árið 2017. Þá hefur Klíníkin einnig byggt upp sérhæfða þjónustu fyrir endómetríósu og nú er þjónustan enn frekar tryggð með þessum samning.

Aukin fræðsla og þjónusta

Á síðasta þingvetri lagði ég fram þingsályktunartillögu um að fela heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir að efla fræðslu meðal almennings og starfsfólks heilbrigðisstofnananna. Í ályktuninni er ráðherra falið að láta fara fram endurskoðun á heildarskipulagi þjónustunnar með það að markmiði að stytta greinarferlið og bjóða upp á heildræna meðferð. Heilbrigðisráðherra skipaði starfshóp um úrbætur á þjónustu og meðferð endómetríósu sjúklinga. Hópurinn skilaði tillögum til úrbóta í vor sem nú er verið að vinna úr og hrinda í framkvæmd. Í þeim má m.a. finna tillögur að aukinni fræðslu til heilbrigðisfólks og einstaklinga, skipulagi þjónustunnar og jöfnu aðgengi að sérfræðiþjónustu óháð efnahag. Þarfir fólks með langvinna verki voru sérstaklega teknar fyrir í vinnu hópsins þar sem mikil þörf er fyrir aukna áherslu á heildræna meðhöndlun verkja.

Jafnrétti í heilbrigðisþjónustu

Núverandi stjórnvöld hafa lagt áherslu á jafnrétti landsmanna að heilbrigðisþjónustu, líkt og kemur fram kemur í heilbrigðisstefnu sem samþykkt var á Alþingi á vordögum 2019. Þá er það einnig mikilvægt að huga að heilbrigðisþjónustu út frá kynjum. Kvenheilsa er nýtt teymi innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hlutverk teymisins er að sinna heilsufarsvanda og sjúkdómum sem eingöngu eru til staðar hjá konum og er viðbót við þá þjónustu sem er þegar fyrir. Hér er um að ræða mikilvægt skref því fram að þessu hefur lítil athygli beinst að þeim sjúkdómum sem leggjast sérstaklega á konur. Þær hafa mætt höfnun þegar þær leita til heilbrigðiskerfisins og gengið gegnum erfitt greiningarferli, en skortur er á almennri fræðslu um slíka sjúkdóma og þá er líka skortir á þekkingu á meðhöndlun og afleiðingum á þeim sjúkdómum sem leggjast á konur.

Með þessum nýja samning sjúkratrygginga við Klíníkina hefur verið stigið stórt skref sem kemur til með að bæta líf margra kvenna og á sama tíma fá margar konur viðurkenningu á því að það sem hafi verið að hrjá þær í mörg ár sé ekki bara eðlilegir túrverkir. Endómetríósa er sjúkdómur sem þarf oft og tíðum meðferðar við, það dugar ekki alltaf að harka bara af sér.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. desember 2022.

Categories
Greinar

Vannýtt tækifæri Menntasjóðs

Deila grein

29/11/2022

Vannýtt tækifæri Menntasjóðs

Und­ir liðnum Störf þings­ins í síðustu viku nýtti ég tæki­færið og ræddi um þann lækna­skort sem við búum við hér á landi miðað við þá heil­brigðisþjón­ustu sem við vilj­um veita. Á kom­andi árum eru áhyggj­ur um að skort­ur­inn verði jafn­vel al­var­legri en sá sem við stönd­um frammi fyr­ir í dag. Mann­ekla á heil­brigðis­stofn­un­um er vanda­mál víða og fólks­fjölg­un og öldrun þjóðar­inn­ar mun, eðli máls­ins sam­kvæmt, krefjast auk­inna um­svifa í heil­brigðis­kerf­inu.

Há­skóli Íslands er eini há­skól­inn á Íslandi sem út­skrif­ar lækna en hann get­ur ein­ung­is tekið inn 60 nema á ári. Sá fjöldi næg­ir hins veg­ar ekki til að bregðast við þeim skorti sem við horf­um fram á. Við bregðumst við, ann­ars veg­ar með því að flytja inn sér­menntað fólk og hins veg­ar með því að tryggja ís­lensk­um náms­mönn­um tæki­færi til lækna­náms og auk­inn­ar sér­hæf­ing­ar. Mik­ill fjöldi ís­lenskra náms­manna held­ur út í nám og meiri­hluti þeirra snýr heim með hald­bæra reynslu og sérþekk­ingu sem sam­fé­lagið nýt­ur góðs af. Íslensk­ir lækna­nem­ar sem stunda nám sitt er­lend­is hafa bent á að þeir fái ekki sama stuðning og þeir sem læra hér á landi. Stór hluti náms­gjalda þeirra þarf að greiðast úr eig­in vasa eða með stuðningi frá öðrum, sem veld­ur því að marg­ir missa af tæki­fær­inu til að ger­ast lækn­ar eða neyðast til að hætta í miðju námi. Ávinn­ing­ur sam­fé­lags­ins af því að styðja bet­ur við lækna­nema er­lend­is er mik­ill.

Sér­tæk­ar aðgerðir mennta­sjóðs

Í mennta­sjóði náms­manna er fjallað um sér­stak­ar íviln­an­ir náms­greina. Í 27. grein lag­anna er ráðherra gert heim­ilt með aug­lýs­ingu að ákveða sér­staka tíma­bundna íviln­un við end­ur­greiðslu náms­lána vegna til­tek­inna náms­greina. Fyr­ir þeim íviln­un­um liggja ákveðin skil­yrði eins og að upp­lýs­ing­ar liggi fyr­ir um viðvar­andi skort í starfs­stétt eða að skort­ur sé fyr­ir­sjá­an­leg­ur og að fyr­ir liggi skýrsla unn­in af stjórn­völd­um í sam­ráði við hlutaðeig­andi at­vinnu­rek­end­ur um mik­il­vægi þess að bregðast við aðstæðum.

Þess­ar aðgerðir hafa ekki verið nýtt­ar. Ráðherra hef­ur ekki nýtt þess­ar heim­ild­ir til þess að koma til móts við grein­ar eða byggðir sem þurfa á sér­tæk­um aðgerðum að halda. Við finn­um helst fyr­ir þessu í heil­brigðis­geir­an­um.

Skort­ur á sér­fræðing­um í sveit­ar­fé­lög­um

Í lög­un­um er einnig fjallað um sér­staka íviln­un vegna náms­greina á sér­stök­um svæðum í 28. grein. Þar er ráðherra heim­ilt með aug­lýs­ingu að ákveða sér­staka tíma­bundna íviln­un við end­ur­greiðslu náms­lána til lánþega sem bú­sett­ir eru á svæðum skil­greind­um í sam­ráði við Byggðastofn­un. Skil­yrði fyr­ir íviln­un­um skv. þessu eru að fyr­ir liggi til­laga frá sveit­ar­fé­lagi eða sveit­ar­fé­lög­um til stjórn­valda um þörf á menntuðu fólki í byggð sinni og að fyr­ir liggi skýrsla unn­in af Byggðastofn­un í sam­ráði við Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga um mik­il­vægi þess að bregðast við aðstæðum. Þá seg­ir enn frem­ur að skil­yrði sé að lánþegi hafi lokið námi og sé bú­sett­ur á skil­greindu svæði og nýti mennt­un sína þar að lág­marki í 50% starfs­hlut­falli í a.m.k. tvö ár.

Það er þörf á sér­fræðimenntuðu fólki í mörg sveit­ar­fé­lög og sveit­ar­fé­lög þurfa að vita að þessi mögu­leiki sé til staðar. Ég vil því hvetja þau sveit­ar­fé­lög sem telja sig upp­fylla fram­an­greind skil­yrði til að óska eft­ir því að þess­ar sér­tæku aðgerðir séu nýtt­ar á þeirra svæði.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar

Greinin birtist fyrst á mbl.is 29. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Út með ruslið!

Deila grein

28/11/2022

Út með ruslið!

Aðventa og jólin eru að koma í allri sinni dýrð, samveran lýsir upp skammdegið, gleðin er við völd og sem fyrr bregðumst við felst öll við með því að leggjast í mikla neyslu. Það má auðveldlega halda því fram að líklega sé aldrei meira úrgangur frá heimilum og fyrirtækjum landsmanna en einmitt á þessum árstíma.

Um komandi áramót taka ný lög um söfnun á meðhöndlun úrgangs í landinu gildi, eða hringrásarhagkerfislögin eins og þau eru kölluð. Þessi lög voru samþykkt á vorþingi 2021. Markmiðið með innleiðingu hringrásarhagkerfisins er að lágmarka auðlindanotkun og þar með úrgangsmyndum.

Ábyrgðin er allra

Sveitarstjórnir fara með stjórnsýslu úrgangsmála í landinu en ábyrgðin er einnig á hendi ríkisins, þ.e. að innviðir séu til staðar og að móta lagaumhverfi sem auðveldar innleiðingu hringrásarhagkerfisins. Sveitarfélög um allt land hafa unnið að innleiðingunni og eru þau mislangt á veg komin enda er hér um miklar breytingar að ræða. Um helmingur sveitarfélaga hefur nú þegar tekist að innleiða lögbundnar samræmdar merkingar fyrir úrgangsflokka og þar hafa fámenn sveitarfélag ekki staðið sig verr í innleiðingunni en þau stóru. Sveitarfélög og ríki hafa ríka ábyrgð við innleiðinguna en við íbúarnir höfum einnig mikilvægt hlutverk við að tryggja að innleiðingin gangi vel. Við erum jú öll hluti af hringrásinni.

Plast er ekki sama og plast

Að innleiðingu lokinni er gert ráð fyrir að íbúar geti flokkað úrgang sinn enn frekar en nú er gert og þá í fleiri flokka. Þá flokkast samsvarandi efni líkt og plast í fleiri efnisflokka, er það talið nauðsynlegt til þess að endurvinnslu sé betur möguleg. Samhliða þessu er nauðsynlegt að innleiða samræmda merkingu efna. Þá er það ekki nóg að auka ábyrgð heimila og fyrirtækja heldur þarf einnig að auka ábyrgð framleiðenda í lágmarka og bæta umbúðir með það að sjónarmiði að neytendur geti skilað úrgangi og umbúðum til endurvinnslu á réttan hátt. Markmiðið þarf alltaf að vera að auka endurnýtingu og lágmarka urðun, en í dag er því miður verið að urða mikil verðmæti sem felast í umbúðum og fleiru sem hægt væri að endurvinna inn í hringráshagkerfinu.

Nýsköpun er lausn

Aukin umræða um loftlagsmál og innleiðing hringrásarhagkerfisins hefur þegar skilað sér í aukinni nýsköpun í efnisvinnslu úrgangs. Í því samhengi vil ég nefna verkefnið Bláma á Vestfjörðum þar sem unnið er með hugmyndir á framleiðslu metangass úr lífrænum úrgangi sem fellur til í fjórðungnum og er þónokkur. En lífrænn úrgangur hefur aukist verulega samhliða uppbyggingu á fiskeldi og framleiða má með honum orkugjafa sem þegar skortir á svæðinu. Hér er um að ræða verkefni sem er algjörlega samhljóða markmiðum hringrásarhagkerfisins og spennandi verður að fylgjast með framgangi þess.

Hlutverk okkar er mikilvægt

Líkt og kemur fram í texta sem við öll þekkjum örugglega flest þá erum við aðeins gestir og hótel okkar er jörðin. Við eigum aðeins eina jörð og við eigum ávallt að miða að því að hún verði áfram byggileg fyrir komandi kynslóðir. Þá er það ábyrgð okkar sem gesta á þessari jörð er að taka þátt í að minnka þann úrgang sem urðaður er og taka þátt í möguleikum á meiri endurvinnslu. Okkur ber samfélagsleg skylda til þess að bregðast við í loftlags- og umhverfismálum. Með hringrásarhagkerfinu þurfum við að taka upp nýjan lífstíl sem felur í sér að endurnýta þau hráefni sem við höfum með fjölbreyttum hætti. Það er ekki lengur í boði að henda öllu rusli á haugana heldur þurfum við öll að leggja hendur á plóg til þess að breyta hugarfari og ná þannig jákvæðum árangri til framtíðar.

Categories
Greinar

Venjulega fólkið

Deila grein

28/11/2022

Venjulega fólkið

Ég vil hér í þessum greinarstúf fjalla um hið venjulega fólk, hina venjulegu fjölskyldu sama hvernig hún er samansett. Um er að ræða hóp sem fær ekki alltaf mikla athygli, hver sem ástæðan er fyrir því, hvort sem það er vegna þess að sá hópur telst ekki vera í viðkvæmri stöðu eða til minnihlutahóps. Hann hefur ekki hátt og er í raun nokkuð ósýnilegur ef svo má segja. Hann mætir til vinnu, sér um börnin sín séu þau til staðar, eldar matinn og borgar reikninga. Svona gengur lífið fyrir sig dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Líkt og hamstur í hjóli. Ég leyfi mér að segja að þetta sé hópurinn sem telur sig ekki vera í þeirri stöðu að geta kvartað, eða eiga yfir höfuð rétt á því að kvarta. Þau sem þessum hópi tilheyra eru ekki meðal þeirra tekjulægstu, en eru ólík og bera oft mikið álag. Þetta er hópurinn sem heldur samfélaginu á floti.

Að koma undir sig fótunum

Hér er ég meðal annars að tala um ungt fólk, fólk á aldrinum 25-40 ára, sem er að koma undir sig fótunum í lífinu á sama tíma og það er að ljúka námi, mögulega eignast börn, fara í fæðingarorlof, koma sér þaki yfir höfuðið eða jafnvel stækka við sig. Allt þetta á sama tíma og verið er að byggja upp atvinnuferil með tilheyrandi kröfum um að standa sig vel. Þetta tímabil í lífi fólks getur verið allt í senn hið ánægjulegasta og hið kvíðvænlegasta.

Það er mikil gleði og blessun sem fylgir því að eignast barn. Það hef ég verið svo lánsamur að fá að upplifa. Á sama tíma getur það verið verulega flókið, sérstaklega þegar um er að ræða barn tvö, þrjú eða jafnvel fjögur. Með hverju barni bætist við auka kostnaður vegna leikskóla, fæðiskostnaðar, íþróttaiðkunar og áfram mætti telja. Ofan á þetta bætast síðan við aðrar greiðslur svo sem vegna húsnæðis, trygginga, bifreiða, námslána og svo framvegis. Allt sem fylgir því að reka heimili og fjölskyldu. Það á sama tíma og laun skerðast vegna fæðingarorlofs. Oft og tíðum er þessi hópur of tekjuhár til þess að fá greiddar barnabætur, en hjá hjónum og sambúðarfólki reiknast skerðing á barnabótum vegna tekna af samanlögðum tekjustofni sé hann umfram 9.098.000 kr. Vissulega hafa verið gerðar breytingar á barnabótakerfinu síðustu misseri en betur má ef duga skal, sérstaklega í þeim aðstæðum sem uppi eru í dag.

Hækkanir á hækkanir ofan

Þær hækkanir sem orðið hafa í samfélaginu síðustu mánuði hafa ekki farið framhjá neinum. Þær eru nú þegar farnar að bíta verulega fast í hinn venjulega borgara. Við finnum fyrir þessu, ég fæ sendingar frá fólki; vinum og kunningjum, jafnvel frá fólki sem gefur sér tíma til að setjast niður og skrifa mér og lýsa stöðu sinni. Það kann ég að meta. Þetta er hið duglegasta fólk sem er að keyra sig út í vinnu og jafnvel vinnum til þess eins að ná endum saman milli mánaða. Og það er oft bara fjári erfitt.

Það þarf því ekki að koma neinum neitt sérstaklega á óvart – og það kemur ekki eins og þruma úr heiðskýru – að kallað sé eftir launahækkunum. Við verðum þó að hafa í huga, og horfa um leið á stóru myndina, að hækkun launa ein og sér getur virkað eins og olía á verðbólgubálið á þessum tímapunkti. Því er mikilvægt að leita einnig annarra leiða og þar þurfa ríki, sveitarfélög og atvinnulífið í heild með banka- og fjármálakerfið fremst í flokki að snúa bökum saman.

Þó svo að öllum sé það ljóst að hlutverk Seðlabanka Íslands sé að halda aftur af verðbólgu geta ákvarðanir hans einnig haft veruleg áhrif á líf fólks. Vaxtahækkun Seðlabankans nú á viðkvæmum tíma í kjaraviðræðum geta haft víðtæk áhrif á samfélagið allt ef marka má orð verkalýðsforystunnar. Það virðist því miður vera að raungerast. Hækkun vaxta á þessum tímapunkti er eins og að kasta sprengju inn í kjaraviðræður. Endurteknar yfirlýsingar um Tene-fólkið eru yfirlætisfullar og ekki til þess fallnar að skapa sátt og einingu um baráttuna gegn verðbólgu. Eins og sagt er; af litlum neista verður oft mikið bál. Álögur á heimilin í landinu eru þegar komin að þolmörkum!

Það er lýðheilsumál að taka betur utan um barnafjölskyldur

Það er svo sannarlega rétt að það er ákveðinn hópur fólks hefur það gott, jafnvel mjög gott og það sýnir neyslan. Ég er fullviss um að það eru ekki barnafjölskyldur þessa lands sem halda henni uppi. Hjá þeim er ástandið viðkvæmt og ég tel að það þurfi að ná betur utan um þennan hóp og greina stöðuna. Því tel ég nauðsynlegt að rýna í stöðu barnafjölskyldna á Íslandi með það að markmið að skoða með hvaða hætti og hvaða aðgerðum er hægt að beita til að koma enn betur til móts við þann þunga róður sem margar fjölskyldur í landinu standa frammi fyrir þessa stundina. Það er staðreynd að við þurfum að einbeita okkur betur að barnafjölskyldum. Það er hreinlega lýðheilsumál, því ekki viljum við sjá þennan aldurshóp brenna upp í báða enda fyrir fimmtugt. Það yrði samfélagslega mjög dýrt.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Uppbygging íbúðarhúsnæðis og metfjöldi lóða umsókna

Deila grein

24/11/2022

Uppbygging íbúðarhúsnæðis og metfjöldi lóða umsókna

Að búa í víðfeðmu fjölkjarna samfélagi getur oft á tíðum verið flókið en það er jafnframt mjög lærdómsríkt því hver og einn byggðarkjarni býr yfir einstakri sögu sem einkennir hann og skilgreinir.

Frá því ég tók sæti sem bæjarfulltrúi í maí hefur ýmislegt gengið á eins og venja er fyrir á þessum vettvangi. Verst finnst mér þegar fólk festist í því að ræða eingöngu neikvæða hluti, við verðum að muna að þakka fyrir og vera stolt af því sem vel er gert og því flotta samfélagi sem við búum í. Ég hef passað að temja mér ávallt framsýni og velta mér ekki upp úr orðnum hlutum sem ég get ekki breytt. Ég vil heldur einbeita mér að framtíðinni og þeim markmiðum sem ég vil ná fyrir samfélagið okkar á þeim tíma sem mér hefur verið úthlutað. Ég brenn fyrir samfélagið okkar og vil að allir geti notið þess að lifa hér, starfa og njóta.    

Við búum í samfélagi sem hefur farið í gegnum margar stórar áskoranir og má þar helst nefna byggingu Alcoa fjarðaráls sem hefur verið gríðarleg lyftistöng fyrir samfélagið. Í kjölfarið fengum við mikið af nýju fólki og samfélagið varð fjölbreyttara en jafnframt mikið opnara. Þá sem og nú varð uppsveifla í sveitarfélaginu, núna skýrist uppsveiflan þó að öðru en hér er mikið atvinnuframboð, góð launakjör og frábært umhverfi fyrir fjölskyldur sem og einstaklinga að setjast að.

Það sem hefur staðið okkur fyrir þrifum er framboð á íbúðarhúsnæði sem hefur verið mjög takmarkandi þáttur og bitnar á mörgum. Þar má til dæmis nefna fyrirtæki sem hér starfa og vilja stækka og efla sína starfsemi en geta ekki bætt við sig starfskröftum vegna íbúðarskorts og það sama á við um iðnaðarmenn sem vilja koma hingað að vinna.

Ég sé þó blikur á lofti í þessum málum. Það er orðið mun fýsilegra að byggja í sveitarfélaginu nú en áður þar sem íbúðarverð hefur loksins náð skurðpunkti byggingarkostnaðar í flestum þéttbýliskjörnum Fjarðabyggðar. Það er fljótt að skila sér þar sem eftirspurn eftir lóðum síðustu mánuði hefur farið fram úr björtustu vonum. Sem formaður Umhverfis- og Skipulagsnefndar finnst mér ótrúlega gaman að segja frá því að í október á þessu ári höfðum við úthlutað 35 lóðum fyrir íbúðarhús og sjö fyrir atvinnu húsnæði sem er mikil aukning frá síðustu árum.

Að finna kraftinn og samheldnina í íbúum hér er ótrúlega hvetjandi, ég held og veit að Fjarðabyggð sem og Austurland allt býr yfir miklum tækifærum ef haldið er rétt á spöðunum. Ég á mér stóra drauma varðandi uppbyggingu, afþreyingu og þjónustu fyrir alla í sveitarfélaginu og tel að í góðu samstarfi við grasrótina, íbúa og starfsfólk Fjarðabyggðar getum við náð ansi langt sem ein heild, Fjarðabyggð.

Þuríður Lillý Sigurðardóttir, formaður umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðabyggðar.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 22. nóvember 2022.

Categories
Greinar

60 ára stjórnmálasamband vinaþjóða

Deila grein

23/11/2022

60 ára stjórnmálasamband vinaþjóða

Ísland og Suður-Kórea fagna 60 ára stjórn­mála­sam­bandi í ár en lönd­in tóku upp form­legt stjórn­mála­sam­band 10. októ­ber 1962. Á þess­um sex­tíu árum hafa rík­in þróað náið sam­starf á ýms­um sviðum, svo sem í mennta- og menn­ing­ar­mál­um, vís­ind­um og mál­efn­um norður­slóða

Ísland og Suður-Kórea fagna 60 ára stjórn­mála­sam­bandi í ár en lönd­in tóku upp form­legt stjórn­mála­sam­band 10. októ­ber 1962. Á þess­um sex­tíu árum hafa rík­in þróað náið sam­starf á ýms­um sviðum, svo sem í mennta- og menn­ing­ar­mál­um, vís­ind­um og mál­efn­um norður­slóða. Þannig hef­ur Suður-Kórea verið áheyrn­araðili að Norður­skauts­ráðinu síðan árið 2013 og verið virk­ur þátt­tak­andi á þeim vett­vangi. Ný­lega var stofnuð Kór­eu­deild við Há­skóla Íslands sem er afrakst­ur fund­ar míns með Sang-Kon, þáver­andi mennta­málaráðherra og vara­for­sæt­is­ráðherra Suður-Kór­eu í Seúl, árið 2018.

Vænt­ing­ar eru um að deild­in muni vaxa og síðar taka til menn­ing­ar­legra þátta til viðbót­ar tungu­mál­inu. Samn­ing­ar til dæm­is á sviði tví­skött­un­ar og fríversl­un­ar eru í gildi milli land­anna en árið 2020 nam um­fang inn- og út­flutn­ings milli Íslands og Suður-Kór­eu um 8 millj­örðum króna. Suðurkór­esk fyr­ir­tæki hafa fjár­fest í ís­lensk­um fyr­ir­tækj­um á umliðnum árum, má þar nefna kaup Kór­eu­búa á tölvu­leikja­fyr­ir­tæk­inu CCP og stóra fjár­fest­ingu í lyfja­fyr­ir­tæk­inu Al­votech.

Tíma­mót eins og 60 ára stjórn­mála­sam­band eru merki­leg og vel til þess fall­in að líta yfir far­inn veg og horfa til framtíðar. Fyrr í haust kom sér­stök sendi­nefnd á veg­um suðurkór­eskra stjórn­valda heim­sókn til Íslands í til­efni af þess­um merk­is­áfanga. Í þess­ari viku mun ég svo leiða ís­lenska viðskipta­sendi­nefnd í Suður-Kór­eu, með sér­stakri áherslu á menn­ingu og skap­andi grein­ar, en Kór­eu­bú­ar hafa náð langt í því að flytja út menn­ingu sína. K-Pop-tónlist, marg­verðlaunaðar sjón­varpsþátt­araðir, ósk­ar­sverðlauna­bíó­mynd­ir og annað afþrey­ing­ar­efni hef­ur farið sem eld­ur í sinu um heims­byggðina með til­heyr­andi virðis­auka og út­flutn­ings­tekj­um fyr­ir suðurkór­eskt sam­fé­lag.

Suður-Kórea á einnig sér­stak­an stað í hjarta mér af per­sónu­legri ástæðum en ég var svo hepp­in að búa þar á ár­un­um 1993-1994 þegar ég nam stjórn­mála- og hag­sögu Suður-Kór­eu við Ewha-kvenna­há­skól­ann í Seúl. Það var ein­stakt að fá að kynn­ast þess­ari fjar­lægu vinaþjóð okk­ar með þeim hætti, en þrátt fyr­ir að vera langt í burtu á landa­kort­inu eru ýmis lík­indi með Íslandi og Suður-Kór­eu. Bæði rík­in glímdu við mikla fá­tækt í kring­um sjálf­stæði sitt sem þau fengu um sviptað leyti, Ísland 1944 og Suður-Kórea 1945. Síðan þá hafa bæði lönd náð langt og geta í dag státað af ein­um bestu lífs­kjör­um í ver­öld­inni. Land­fræðileg lega ríkj­anna er mik­il­væg og bæði eiga þau í sér­töku sam­bandi við Banda­rík­in, meðal ann­ars á sviði varn­ar­mála. Áhersla á menn­ingu og sér­stak­lega al­mennt læsi hef­ur lengi verið mik­il. Ég tel að það hafi skipt öllu máli í þeim þjóðfé­lags- og efna­hags­legu fram­förum sem rík­in hafa náð. Ekki má gleyma að því að lönd­in deila gild­um frels­is, lýðræðis og op­inna alþjóðaviðskipta – en Kór­eu­skag­inn, með skipt­ingu sinni í norður og suður, geym­ir best þann lær­dóm hversu mik­il­vægt slíkt stjórn­ar­far er.

Ég er bjart­sýn á framtíðarsam­skipti ríkj­anna og ég tel að lönd­in tvö geti dýpkað sam­starf sitt og vináttu enn frek­ar, með hags­bót­um fyr­ir þegna sína.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 22. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Ferðaþjónustan kom vel undan vetri

Deila grein

22/11/2022

Ferðaþjónustan kom vel undan vetri

Veturinn er hreint ekkert að á því að síga yfir landið og haustið heldur enn velli þótt aðventan sé handan við hornið. Það er auðvelt að ferðast um landið og það nýta ferðamenn sér. Strax eftir að heimsfaraldurinn rénaði jókst ferðamannastraumur mikið enda fólk komið í þörf fyrir að hleypa heimdraganum. Ferðaþjónustan og aðrar atvinnugreinar hafa brugðist hratt við auknum ferðamannastraumi til landsins eftir heimsfaraldur Covid-19. Við Austurvöll, við Gullfoss, á Vestfjörðum, Austfjörðum og já um allt land hefur mátt sjá hrifnæma ferðamenn sem hafa notið þess að fanga það sem fyrir augu ber.

Stuðningur stjórnvalda í heimsfaraldri

Íslendingar og heimurinn allur stóð frammi fyrir algerlega fordæmalausri stöðu vorið 2020, áhrifin skullu á alla heimsbyggðina af miklum þunga á örskömmum tíma. Íslendingar stóðu frammi fyrir harkalegri niðursveiflu í efnahagslífinu eins og heimurinn allur og fljótt var ljóst að ráðast yrði í aðgerðir án hliðstæðu af hendi stjórnvalda. Með mörgum ákveðnum skrefum voru settir saman aðgerðarpakkar til að verja fólk og fyrirtæki. Augljóst var að það þyrfti að verja ferðaþjónustufyrirtæki svo niðursveiflan feldi þau ekki sem strá í sviptivindum.

Ráðist var í aðgerðir er fólu í sér m.a. frestun greiddra gjalda og með auknum útgjöldum ríkissjóðs, skattalækkunum og lánafyrirgreiðslu með ríkisábyrgð. Seðlabankinn fór í lækkun stýrivaxta og bindiskyldu. Lagðar voru fram aðgerðir sem var ætlað að vinna gegn atvinnuleysi og tekjumissi einstaklinga með hlutaatvinnuleysisbótum, aðgengi að séreignarsparnaði, frestun skattgreiðslna fyrirtækja og fyrirgreiðslu vegna rekstrarlána til þeirra. Allar þessar aðgerðir voru hluti af fjölmörgum úrræðum er stjórnvöld settu fram. Ferðagjöfin var og nýtt af landanum í glugganum er opnaðist sumarið 2020 og aftur sumarið 2021. Gistináttaskattur var felldur niður tímabundið á tímabilinu og gjalddagar skatts frestað.

Ferðaþjónustan heldur velli

Í dag er ferðaþjónustan á fleygi ferð, kortavelta ferðamanna staðfestir það. Í umræðunni hefur komið fram að hún sé næst því sem var fyrir faraldurinn. Það er mikilsvert að ferðaþjónustan verði aftur grunnstoð í atvinnulífinu og þannig áhrifaþáttur í efnahagsbata út úr Covid. Við erum öll minnug þess hvað gosið í Eyjafjallajökli hafði gríðarlega mikil áhrif á aukin ferðamannastraum til Íslands sem skilaði sér í auknum gjaldeyrisforða og kom okkur hraðar út úr fjármálahruninu. Ferðaþjónustuaðilar eru á því að sjaldan eða aldrei hafi gengið eins vel og liðið sumar. Það er mikill kraftur er býr í íslenskum ferðaþjónustuaðilum, þeir nú sem fyrr eru mjög einbeittir í taka vel á móti okkar ferðamönnum og er möguleikar hvers staðar nýttir til að skapa upplifun og ógleymanlegar minningar.

Árangur aðgerða þegar ljós

Í skýrslu fjármálaráðherra til Alþingis um mat á árangri aðgerða heimsfaraldursins kemur fram að stjórnvöld veittu sveitarfélögum þar sem ferðaþjónustan lék stórt hlutverk í atvinnusköpun beinan fjárstuðning.

Tekjufallsstyrkjum sem var ætlað að styðja rekstraraðila sem höfðu orðið fyrir tímabundnu tekjufalli nýttist mjög vel rekstraraðilum í ferðaþjónustu eða 66% hlutdeild af heildarfjárhæð úrræðisins. Eins var með lokunarstyrki en um 87% fjárhæðarinnar fór til fyrirtækja í ferðaþjónustu. Ríflega helmingur stuðningslána fór til rekstraraðilar í ferðaþjónustu. Einstaklingar starfandi í ferðaþjónustu fengu um 47% af greiddum hlutabótum, flestir þeirra störfuðu í veitingasölu og þjónustu og rekstri gististaða. Heildarniðurstaða af árangri aðgerðapakka stjórnvalda verður þó ekki ljós fyrr en af einhverjum árum liðnum.

Ísland sem ferðamannaland verður til með orðspori um stórbrotna og fallega náttúru og land sem er aðgengilegt og öruggt. Við búum að því að vera gestrisin og það skipti máli að styðja þétt við bakið á atvinnugreininni í heimsfaraldi sem varð til þess að við gátum boðið fólki heim og boðið upp á góðar minningar sem það tekur með sér heim aftur.

Íslendingar hafa lagt mikið á sig til að ná þessum árangri.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst visir.is 22. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Alþjóðaviðskipti í ólgusjó

Deila grein

21/11/2022

Alþjóðaviðskipti í ólgusjó

Einn helsti drif­kraftur vel­ferðar á heims­vísu á mínu ævi­skeiði hafa verið öflug alþjóða­við­skipti þjóð­ríkja. Hund­ruð millj­ónir manna hafa náð að brjót­ast út úr sárri fátækt á þessum tíma og má full­yrða að aldrei í mann­kyns­sög­unni hafi kaup­máttur almenn­ings auk­ist jafn hratt og þar ekki er síst mik­il­vægt að fæðu­ör­yggi hefur auk­ist veru­lega hjá þeim sem minnst mega sín. Hins vegar erum við að horfa upp ákveðið upp­brot á heims­við­skipt­unum vegna stríðs­átaka, vernd­ar­stefnu og við­skipta­stríða og auknum mætti alræð­is­stjórna. Að auki er tíma­bil ódýrs láns­fjár­magns lík­lega lokið í bili og víða þarf að herða að í rík­is­fjár­mál­um.

Áfram­hald­andi áskor­anir í alþjóða­kerf­inu en farið að birta til í Banda­ríkj­un­um 

Vísi­tala neyslu­verðs í Banda­ríkj­unum hækk­aði um 0,4 pró­sent í októ­ber en það er minnsta árs­hækkun frá því í mars. Mark­aðs­að­ilar gera sér vonir um að þetta marki straum­hvörf í bar­átt­unni við verð­bólg­una og að banda­ríski Seðla­bank­inn þurfi minna að beita stýri­vöxtum en gert var ráð fyr­ir. Fréttir um að Kína kunni að slaka á Covid-að­gerðum voru einnig nýlega talin lyfti­stöng fyrir alþjóða­hag­kerf­ið. Í báðum til­fellum er lík­lega of snemmt að fagna. Horfur fyrir Evr­ópu eru enn dökkar ekki síst í ljósi orku­mála. Sam­drátt­ar­skeið er hafið í Bret­landi, mikil verð­bólga og skatta­hækk­anir virð­ast fram undan og er ljóst að lífs­kjör þar muni versna. Mark­aðs­að­ilar í Evr­ópu eru líka nokkuð svart­sýnir sökum þess að þeir búast við frek­ari stýri­vaxta­hækk­unum vegna vax­andi verð­bólg­u. Eins og víða má búast við að óburðug rík­is­fjár­mál landa innan ESB finni einnig fyrir vaxta­hækk­un­um.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir hægum hag­vexti á heims­vísu, úr 6,0 pró­sentum árið 2021 í 3,2 pró­sent árið 2022 og 2,7 pró­sent árið 2023. Við fyrstu sýn gefur 2,7% hag­vöxtur ekki til­efni til svart­sýni. Hins vegar er sam­drátt­ur­inn skarpur og ef þessi hag­vaxt­ar­spá ræt­ist, þá er þetta minnsti hag­vöxtur í tvo ára­tugi fyrir utan alþjóð­legu fjár­málakrepp­una og Covid-19. Spáð er að verð­bólga á heims­vísu fari úr 4,7 pró­sentum árið 2021 í 8,8 pró­sent árið 2022 en lækki í 6,5 pró­sent árið 2023 og í 4,1 pró­sent árið 2024. Að sama skapi er þetta ein versta verð­bólgu­spá í ára­tugi. Þessar versn­andi horfur kalla á afar sam­stillt efna­hags­við­brögð á heims­vísu.

Kerf­isum­bætur hag­kerfa á 8. ára­tugnum og Kína í brennid­epli

Eftir að Bretton-Woods gjald­miðlaum­gjörðin leið end­an­lega undir lok á átt­unda ára­tugn­um, tók við tíma­bil á sem ein­kennd­ist af efna­hags­legri stöðnun og hárri verð­bólgu. Brugð­ist var við verð­bólg­unni með miklum vaxta­hækk­unum og eru þekkt við­brögð banda­ríska seðla­bank­ans undir stjórn Vol­kers með miklum vaxta­hækk­un­um. Þegar leið á þetta tíma­bil kom jafn­framt fram það mat ýmissa hag­fræð­inga að fyr­ir­ferð rík­is­ins væri orðið óþarf­lega mikil í ýmsum hag­kerf­um. Banda­ríkin og Bret­land réð­ust í umfangs­miklar kerf­is­breyt­ingar sem fólust meðal ann­ars í því að losa um eign­ar­hald rík­is­ins á ýmsum þáttum hag­kerf­is­ins, skattar voru lækk­að­ir, rík­is­fyr­ir­tæki einka­vædd og verð­lags­eft­ir­liti hætt. Ein­blínt var á fram­boðs­hlið­ina og létt var á reglu­verki. Eftir gríð­ar­legt póli­tískt umrót í Kína ára­tug­ina á und­an, þá náð­ist sam­staða um að hefja mikið efna­hags­legt umbóta­skeið. Í fyrstu var ráð­ist var í að veita smá­bændum frjálsan aðgang að rækt­uðu landi ásamt því að opna fyrir utan­rík­is­við­skipti og fjár­fest­ingu. Í kjöl­far þess að Banda­ríkin og Bret­land fara að styrkj­ast efna­hags­lega ásamt Kína, þá fóru mörg önnur ríki að þeirra for­dæmi. Þegar nær er litið eru bestu dæmin aukin við­skipti innan EFTA, ESB og EES sem styrktu hag­kerfi innan þeirra vébanda og ekki síst þeirra ríkja sem opn­uð­ust eftir fall ráð­stjórn­ar­ríkj­anna.

Tíma­bil mik­illa efna­hags­um­bóta hófst í Kína eftir að Deng Xia­op­ing komst til valda 1978. Að sama skapi skipti sköpum fyrir þróun heims­við­skipta inn­ganga Kína í Alþjóða­við­skipta­stofn­un­ina árið 2001. Í kjöl­farið verða breyt­ingar á sam­keppn­is­hæfni og útflutn­ingi Kín­verja. Við­skipta­af­gangur jókst mikið ásamt spar­fé, sem verður þess vald­andi að Kína verður fjár­hags­veldi á heims­vísu og er nú næst stærsta hag­kerfi heims á eftir Banda­ríkj­un­um.

Mynd 1: Tímabil hnattævðingar verður að af-hnattvæðingu. Heimild: Martin Wolf, Financial Times 2022.

Mynd 1: Tímabil hnattævðingar verður að af-hnattvæðingu. Heimild: Martin Wolf, Financial Times 2022.

Verð­bólga á átt­unda ára­tugnum minnk­aði veru­lega í kjöl­far ofan­greindra aðgerða og ekki síst vegna þess að opnað var á alþjóða­við­skipti við Kína. Heim­ur­inn er miklu sam­tengd­ari nú vegna þessa. Þrátt fyrir að nýlega hafi hægst á heims­við­skiptum halda við­skipti við ríki á borð við Kína vísi­tölu neyslu­verðs enn niðri á heims­vís­u. 

Minnk­andi heims­við­skipti og áhrifin á verð­bólgu

Tog­streita á milli hinna efna­hags­legu stór­velda, Banda­ríkj­anna og Kína, leiðir hug­ann að því hvernig alþjóða­við­skipti munu þró­ast á næstu miss­er­um. Ef þessi átök magn­ast þá verður efna­hags­legt tap á heims­vísu mik­ið, sér­stak­lega fyrir Asíu. Til að setja það í sam­hengi, þá kemur um helm­ingur alls inn­flutn­ings til Banda­ríkj­anna frá Asíu og í Evr­ópu er þetta um þriðj­ung­ur.

Ofan á þetta bæt­ist að eftir að stríðið hófst í Úkra­ínu, þá hafa mörg fyr­ir­tæki verið að minnka starf­semi þar sem geópóli­tísk áhætta er mik­il. Afleið­ingar þess má sjá á mynd­inni en alþjóða­við­skipti eru að drag­ast saman sem hlut­fall af heims­fram­leiðsl­unn­i. Það er heldur engin til­viljun að í fyrsta skipti í ára­tugi eru farin að sjást merki þess að fátækt er vaxa og dregið hefur úr fæðu­ör­yggi.

Mynd 2: Stormasamir tímar. Heimild: Ahir, Bloom og Fuceri 2022

Mynd 2: Stormasamir tímar. Heimild: Ahir, Bloom og Fuceri 2022

Sam­kvæmt rann­sóknum Alþjóða­gjald­eyr­is­sjóðs­ins eru að koma fram sterkar vís­bend­ingar um að ákveðið upp­brot sé að eiga sér stað í heims­við­skipt­u­m. Ef ein­angrun heims­við­skipt­anna nær aðeins til Rúss­lands, þá er ekki gert ráð fyrir að 

fram­leiðslutapið í heims­hag­kerf­inu verði mik­ið. Hins veg­ar, ef til kemur til mynd­unar við­skipta­blokka og heim­ur­inn skipt­ist í tvær fylk­ingar þar sem við­skipti eru tak­mörkuð á milli ríkja, er talið að meta megi var­an­legt tap á heims­vísu á 1,5 pró­sent af vergri heims­fram­leiðslu og tap á árs­grund­velli verði meira í Asíu eða sem gæti numið yfir 3 pró­sent­um.

Alþjóða­sam­skipti með hags­muni Íslands að leið­ar­ljósi 

Ljóst er að blikur eru á lofti í heims­við­skiptum og það eru margir þættir sem spila þar inn, eins og rakið er í hér að ofan. ­Tíma­bil efna­hags­fram­fara og hag­sældar á Íslandi hafa um áar­hund­ruð fallið saman með tíma­bilum þar sem við­skipti milli þjóða hafa blómstr­að. Því ber einnig að halda til haga að sjálf­stæð­is­bar­átta Íslend­inga átti að mörgu leyti að rekja til ákalls um aukið versl­un­ar­frelsi. Síð­asta tíma­bili hnatt­væð­ingar lauk með fyrri heims­styrj­öld­inni og nýtt skeið fór ekki af stað fyrr en að heims­styrj­öld­inni síð­ari lauk. Þá voru settar á fót stofn­anir til að glæða við­skipti og hafa þau vaxið af miklum þrótti á þeim ára­tugum sem liðið hafa frá þeim tíma. Ís­land hefur notið mik­illa hags­bóta með frá­hvarfi frá hafta­bú­skap, auknu við­skipta­frelsi og þátt­töku í alþjóða­stofn­un­um, við­skipta­sam­tökum og við­skipta­samn­ingum sem tekið hefur verið þátt í á for­sendum Íslands.

Ljóst er að blikur eru á lofti í heims­við­skiptum og það eru margir þættir sem spila þar inn, eins og rakið er í grein­inni. Á nýaf­stöðnum leið­toga­fundi G20 ríkj­anna á Balí kom fram skiln­ingur á mik­il­vægi sam­stöðu og sam­ræmdra aðgerða til að efla alþjóða­við­skipti. Það er afar brýnt að Ísland láti sig alþjóða­við­skipti varða þar sem verslun og við­skipti skipta minni lönd með opin hag­kerfi afar miklu máli.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og við­skipta­ráð­herra og vara­for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 21. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Lýðheilsa: Heilsa eins – hagur allra

Deila grein

18/11/2022

Lýðheilsa: Heilsa eins – hagur allra

Willum Þór Þórsson: „Markmiðið er að heilbrigðiskerfið geti staðið undir því að veita bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem völ er á á hverjum tíma.“

Í lífsgæðum eru fólgin verðmæti sem þarf að standa vörð um. Með auknum lífsgæðum og góðu aðgengilegu heilbrigðiskerfi eru lífslíkur við fæðingu á Íslandi orðnar með þeim mestu á heimsvísu. Við getum verið stolt af samfélaginu okkar og því að fá tækifæri til að eldast, en það að eldast vel er langt því frá að vera sjálfsagt.

Lifnaðarhættir Íslendinga hafa breyst og því fylgja nýjar lýðheilsuáskoranir. Óhollt mataræði, of lítil hreyfing, aukin streita og of lítill svefn eru á meðal þessara áskorana. Samfélagslegar breytingar kalla á breytt heilbrigðiskerfi. Heilbrigðiskerfi sem tekur tillit til öldrunar, fjölþættra veikinda, breytts umhverfis og aukinnar sjúkdómsbyrði.

Lýðheilsa er hornsteinn meiri lífsgæða.

Hvernig gerum við sem flestum kleift að lifa lengur við sem mest lífsgæði? Það er stór spurning og eitt veigamesta svarið er efling lýðheilsu. Lýðheilsa er lykill að sjálfbærni heilbrigðiskerfisins til framtíðar.

Líf einstaklings frá vöggu til grafar er jafnverðmætt á öllum lífsskeiðum. Markmið heilbrigðiskerfisins er að allir fái jafna meðferð, af sömu gæðum, alltaf. Við alla ákvarðanatöku má ekki missa sjónar á því að gæði heilbrigðisþjónustu mynda órofa heild með öryggi, skilvirkni, hagkvæmni, jöfnu aðgengi, þekkingu, nýsköpun og afköstum. Eitt á ekki að útiloka annað. Markmiðið er að heilbrigðiskerfið geti staðið undir því að veita bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem völ er á á hverjum tíma.

Heilbrigðisþing 2022 er helgað lýðheilsu

Heilbrigðisþingið í ár er helgað lýðheilsu. Heilsa eins – hagur allra er yfirskrift þingsins og hún fangar viðfangsefnið vel. Þingið fer fram í dag og það er ánægjulegt að finna hversu mikill áhugi er á viðfangsefninu. Það er hægt að fylgjast með þinginu í streymi á vefsíðunni www.heilbrigdisthing.is en það er húsfyllir á viðburðinn.

Heilbrigðisþingið mun slá tóninn fyrir eitt stærsta áherslumál heilbrigðisráðuneytisins næstu árin. Erindi, þátttakendur og fjölbreytt dagskrá þingsins bera það með sér hversu fjölþætta nálgun þarf til að efla lýðheilsu. Við þurfum öll að hjálpast að. Við þurfum að átta okkur á því að heilsa eins einstaklings snertir okkur öll og því er hagur allra að leggja við hlustir, taka þátt, skilja og framkvæma það sem þarf til að efla eigin heilsu. Lýðheilsa er ekki froða eða pólitískur hráskinnaleikur. Betri lýðheilsa gerir heilbrigðiskerfinu kleift að viðhalda gæðum þrátt fyrir áskoranir framtíðarinnar og með því halda uppi lífsgæðum þjóðarinnar til framtíðar.

Áherslur og áskoranir

Margar áskoranir heilbrigðiskerfisins eru teknar fyrir og greindar í skýrslu heilbrigðisráðuneytisins um framtíðarþróun þjónustu Landspítalans sem kom út í desember 2021. Í skýrslunni, sem unnin var af ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey, er á uppbyggilegan og lausnamiðaðan hátt rætt um leiðir til að auka afköst, hagkvæmni og skilvirkni heilbrigðiskerfisins með Landspítalann í forgrunni. Þar eru settar fram margar tillögur að aðgerðum sem styðja þessa vegferð að auknum lífsgæðum og gæðum heilbrigðiskerfisins.

Í skýrslunni eru meðal annars málefni aldraðra, geðheilbrigði og endurhæfing sérstaklega tekin fyrir. Í þeim málaflokkum mun þjónustuþörfin aukast hratt á næstu árum og mikill hluti umbóta þarf að eiga sér stað utan spítala, á sviði forvarna og heilsueflingar og með fjölbreyttum úrræðum þvert á velferðarkerfið.

Lýðheilsa í forgrunni allra ákvarðana

Heilbrigðisráðuneytið hefur sett lýðheilsu og forvarnir í forgrunn allrar ákvarðanatöku og hefur lýðheilsuáherslan skilað sér inn í allar nýlega stefnur, aðgerðaáætlanir og áherslumál ráðuneytisins. Það er brýning fyrir önnur ráðuneyti, stofnanir, atvinnulífið og einstaklinga að gera slíkt hið sama.

Í aðgerðaáætlun um heilbrigðistengda endurhæfingu var lögð áhersla á snemmtæka íhlutun og mikilvægi fræðslu og forvarna. Þar birtist eitt helsta lýðheilsumarkmið þjóðarinnar; að viðhalda færni og virkni einstaklinga. Í nýsamþykktri þingsályktunartillögu um geðheilsustefnu til ársins 2030 lýtur einn af fjórum áhersluþáttum hennar að geðrækt, forvörnum og mikilvægi heildrænnar heilsueflingar. Í nýskipaðri verkefnastjórn um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk er aðgerðaáætlun í smíðum sem mun taka mið af samþættingu á þjónustu, forvörnum, heilsueflingu og aukinni virkni fólks. Með verkefnastjórninni er stigið mikilvægt skref í átt að samvinnu og samþættingu á milli ráðuneyta, sveitarfélaga og annarra þjónustuaðila.

Lýðheilsa á ábyrgð okkar allra

Eins og stendur skýrt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru það sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar, bæði efnahagslegir og félagslegir, að lögð sé aukin áhersla á lýðheilsu og forvarnir. Fyrir liggur stefna heilbrigðisráðuneytisins í lýðheilsu til ársins 2030 og verður heilbrigðisþingið vel nýtt til að fá innlegg í aðgerðaáætlun í lýðheilsu sem nú er í mótun. Áætlunin verður síðan kynnt í næsta mánuði ásamt röð viðburða helgaðra forvörnum, heilsueflingu og lýðheilsu á næsta ári.

Lýðheilsa verður aftur á móti ekki efld inni á borði eins ráðuneytis eða nokkurra stofnanna. Samvinnu opinberra aðila, einkaaðila og fólksins í landinu þarf til að finna bestu leiðina að markmiðinu. Við þurfum sem samfélag að taka höndum saman um lýðheilsu. Við þurfum öll að átta okkur á því að þær samfélagslegu breytingar sem við stöndum frammi fyrir munu leggjast þungt á heilbrigðiskerfið ef við eflum ekki lýðheilsu, forvarnir, heilsueflingu og heilsulæsi. Það þarf enga aðgerðaáætlun eða skýrslu til að sjá það. Við getum byrjað strax í dag.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 10. nóvember 2022.