Categories
Greinar

Drifkraftur verðmætasköpunar

Deila grein

09/04/2022

Drifkraftur verðmætasköpunar

Hönn­un og arki­tekt­úr snerta dag­legt líf okk­ar á ótal vegu. Í vik­unni heim­sótti ég bæði Nor­eg og Dan­mörku ásamt full­trú­um ís­lensks at­vinnu­lífs til þess að kynna mér hvernig bæði lönd hafa hlúð að og stutt við hönn­un og arki­tekt­úr. Þarlend stjórn­völd í góðu sam­starfi við at­vinnu­líf hafa á und­an­förn­um árum lagt aukna áherslu á að styðja við þess­ar grein­ar með það að mark­miði að auka verðmæta­sköp­un og lífs­gæði með mark­viss­um hætti.

Í Dan­mörku hef­ur til að mynda um­fang hönn­un­ar, arki­tekt­úrs og annarra skap­andi greina farið vax­andi í dönsku hag­kerfi und­an­far­in ár. Tug­ir þúsunda starfa inn­an skap­andi greina þar í landi og hef­ur vöxt­ur í út­flutn­ingi grein­anna verið um 4,8% ár­lega síðan 2011. Árið 2020 fóru út­flutn­ings­verðmæti skap­andi greina yfir 14 millj­arða evra en tísku­varn­ing­ur er til að mynda fjórða stærsta út­flutn­ings­stoð Dan­merk­ur. Dönsk stjórn­völd hafa lagt auk­inn þunga í stefnu­mót­un fyr­ir skap­andi grein­ar með sér­stök­um sókn­aráætl­un­um.

Það var einnig lær­dóms­ríkt að heyra hvernig norsk stjórn­völd hafa séð tæki­fær­in í að styðja við og efla hönn­un til þess tak­ast á við sam­fé­lags­leg­ar áskor­an­ir og auka lífs­gæði. Lögð er áhersla á að fá hönnuði að borðinu strax í upp­hafi verk­efna til þess bæta loka­út­komu verk­efna, hvort sem um er að ræða í op­in­berri þjón­ustu eða ann­ars staðar.

Með nýju menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyti verður skap­andi grein­um sem þess­um gert hærra und­ir höfði enda tæki­fær­in í slíku ótví­ræð. Það er mik­il­vægt að auka skiln­ing á mik­il­vægi hönn­un­ar og arki­tekt­úrs fyr­ir þjóðfé­lagið og kynna ís­lenska hönn­un og arki­tekt­úr hér á landi og er­lend­is. Þar gegna bæði stjórn­völd og at­vinnu­líf mik­il­vægu hlut­verki til þess að auka vægi hönn­un­ar og arki­tekt­úrs í verk­efn­um sín­um og auka virði og gæði vöru og þjón­ustu sem fram­leidd er í land­inu og leiða þannig til bættr­ar sam­keppn­is­stöðu Íslands.

Í nýrri fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar eru þess­ar áhersl­ur und­ir­strikaðar með af­ger­andi hætti. Gert er ráð fyr­ir að fram­lög til mál­efna hönn­un­ar, þar með talið Hönn­un­ar­sjóðs og Hönn­un­ar­miðstöðvar, og stofn­un­ar og rekst­urs Rann­sókna­set­urs skap­andi greina, hækki var­an­lega um sam­tals 75 millj­ón­ir króna frá og með 2023. Mark­miðið með stofn­un Rann­sókna­set­urs skap­andi greina er að efla fræðileg­ar og hag­nýt­ar rann­sókn­ir í þeim ört vax­andi at­vinnu­vegi sem skap­andi grein­ar eru. Slíkt eyk­ur getu okk­ar til að ná ár­angri með mark­viss­ari hætti til framtíðar. Þá verður ný og metnaðarfull hönn­un­ar­stefna fyr­ir Ísland kynnt á næstu vik­um sem mun varða leiðina fram á við til auk­inna lífs­gæða fyr­ir sam­fé­lagið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. apríl. 2022.

Categories
Greinar

Aldrei fór ég suður

Deila grein

08/04/2022

Aldrei fór ég suður

Við getum örugglega öll verið sammála um mikilvægi þess að um allt land séu blómlegar byggðir með hamingjusömum íbúum. Á landsbyggðinni eru starfandi öflug fyrirtæki sem skapa tekjur inn í þjóðarbúið. Lífið á landsbyggðinni er allskonar og kallar á mismunandi nálganir. En ekkert gerist af sjálfu sér, svo við getum haldið öflugum byggðum allt í kringum landið er nauðsynlegt að hafa raunhæfa byggðaáætlun.

Hvað er byggðaáætlun?

Byggðaáætlun leggur grunn að aðgerðum til að jafna búsetuskilyrði hvað varðar húsnæðismál, heilbrigðisþjónustu, fjarskipta, menntunar og jafnari tækifæri til atvinnu svo fátt eitt sé nefnt. Með byggðaáætlun má lesa stefna stjórnvalda hverju sinni í byggðamálum. Er hún samhæfing við aðra stefnumótun og áætlunargerð hins opinbera og samráð við ráðuneyti, sveitarfélög og landshlutasamtök. Samvinna er lykilinn í að viðhalda sjálfbærni byggða um land allt.

Innviðaráðaherra hefur lagt fram á Alþingi stefnu í byggðamálum til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára. Byggðaáætlunin er lögð til grundvallar við gerð fjárlaga og í henni má finna metnaðarfull markmið að því marki að landsbyggðin vaxi og dafni.

Heimsmarkmiðin í byggðaáætlun

Sú byggðastefna sem nú hefur verið lögð fram á Alþingi styðst við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, enda eru þau mikilvægur vegvísir samfélagsþróunar næstu ára. Heimsmarkmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Þau fela einnig í sér fimm meginþemu sem er mannkyn, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Sem leiða okkur að aðalinntakinu sem er að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir.

Það er þess vegna sem þau falla svo sérstaklega vel við byggðaáætlun. Því það er mikilvægt að þessar stoðir séu virtar sem leiðarljós til að nálgast jafnrétti til búsetu út frá kröfum okkar og viðmiðum við þau byggðarlög sem við berum okkur saman við.

Vegvísir

Að lokum langaði mig að koma inn á sérstaklega skemmtilega nýjung. En fylgjast má með metnaðarfullum markmiðum íslenskra stjórnvalda í byggða- fjarskipta og samgönguáætlunum á nýrri heimasíðu sem haldið er úti af innviðaráðuneytinu.  Vefurinn er undir léninu vegvisir.is og er gagnvirkur upplýsingarvefur þar sem hægt er að fylgjast með fjármögnun, framvindu og árangri verkefna og árangursmælikvarða.  

Á vefnum er hægt að skoða allar áætlanir í einu, einstaka áætlun eða tiltekinn hluta af áætlun. Sem dæmi er hægt að skoða allar aðgerðir byggðaáætlunar á landsvísu, eða aðgerðir byggðaáætlunar eftir landshlutum og til að mynda styrki til verslana eða fjarheilbrigðisþjónustu. Fyrir áhugafólk um stöðu á  byggðastefnu og aðgerða stjórnvalda í þeim efnum er upplagt að nýta sér þennan vef.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á bb.is 8. apríl 2022.

Categories
Greinar

Ný­sköpun – Sleppum te­skeiðinni og mundum skófluna

Deila grein

08/04/2022

Ný­sköpun – Sleppum te­skeiðinni og mundum skófluna

Ísland er eitt mesta velsældarríki heims. Þrátt fyrir góða stöðu landsins þá eigum við alltaf að bæta okkur til aukinnar velsældar. Það hefur sýnt sig á síðustu árum að margt er hægt að bæta, til dæmis í heilbrigðiskerfinu og samgöngumálum (sérstaklega í höfuðborginni) til að mæta væntingum almennings.

Til þess að við getum tryggt áframhaldandi uppbyggingu og bættri velferð þá þurfum við einnig að tryggja langtímasjálfbærni. Það er gert með því að stækka hagkerfið okkar m.a. með því að hlúa að vænlegustu vaxtasprotum þess.

Hagstætt veðmál

Okkar vænlegustu vaxtasprotar eru ung tæknifyrirtæki. Þau skapa góð og fjölbreytt störf ásamt því að auka útflutnings- og skatttekjur. Við eigum að gefa rækilega í til uppbyggingar á tækniiðnaði hér á landi. Það er til hagsbóta samfélagsins alls og skilar sér í auknum tekjum ríkissjóðs til langs tíma.

Með slíkri uppbyggingu værum við ekki að finna upp hjólið. Í mörgum af auðugustu þjóðum heims má finna mýmörg dæmi um ágæti þess að styðja þétt við bakið á tæknifyrirtækjum. Í þessu samhengi er sérstaklega litið til Ísrael, en ísraelska hagkerfið var tiltölulega veikt fyrir nokkrum áratugum. Þar byrjuðu þarlend stjórnvöld að styðja tækniiðnað með ráðum og dáð. Í kjölfarið hefur iðnaðurinn vaxið hratt og örugglega. Við sjáum jákvæðu áhrifin sem það hefur haft á ísraelskan atvinnumarkað, ríkissjóð þeirra og samfélag.

Árið 2021 var það besta í ísraelskum tækniiðnaði frá upphafi frá en þarlend tæknifyrirtæki sóttu sér 25,4 milljarða dala vaxtafjármagn, sem er 136% vöxtur frá 2020. Ísraelskum einhyrningum, þ.e. tæknifyrirtæki sem metin eru á meira en milljarð dala, fjölgaði um 33 á árinu 2021 og eru núna orðin samtals 53. Þetta er öfundsverð staða, en fjárfestingar og stuðningur ísraelska ríkisins er núna að skila sér margfalt til baka og hefur umbyltað hagkerfi landsins. Gjöf sem heldur áfram að gefa.

Veðjum á tæknifyrirtæki

Það sama getur gerst hér á landi. Við höfum nú þegar byggt grundvöllinn og búum yfir kröftugum iðnaði sem bíður spenntur eftir tækifæri. Margt hefur verið gert hér á landi samanber aukin endurgreiðsla á rannsókna- og þróunarkostnaði og skattalegir hvatar til einstaklinga sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum.

Það er hægt að gera svo margt fleira í kjölfarið. Til dæmis þarf að mæta skorti á tæknimenntuðum sérfræðingum. Við þurfum að geta verið samkeppnishæf á atvinnumarkaði og laðað að erlenda sérfræðinga til starfa svo að íslenskur tækniiðnaður vaxi og dafni enn meir.

Í því sambandi er nauðsynlegt fyrir hið opinbera að fara í gagngera endurskoðun á lögum um innflytjendur og atvinnuleyfi svo að núverandi regluverk fyrir erlenda sérfræðinga sem koma utan ESB verði mun skilvirkara en það er í dag. Ásamt þessu getum við aukið skattalega hvata til að gera Ísland meira aðlagandi. Árið 2016 var opnað fyrir að erlendir sérfræðingar gætu fengið 25% lækkun á tekjuskattsstofni í þrjú ár. Ég tel að við eigum bæði að hækka þetta hlutfall og lengja tímann.

Núna er kominn tími til að hugsa stórt. Við höfum innviðina og fjármunina en okkur sárvantar fólk. Ráðumst í aðgerðir til að ná í þann fjölda erlendra tæknimenntaðra sérfræðinga sem þarf.

Sleppum teskeiðinni og mundum skófluna.

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, varaþingmaður Framsóknar og situr í 4. sæti á lista flokksins í Reykjavík fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Categories
Greinar

Að vera vinur í raun

Deila grein

07/04/2022

Að vera vinur í raun

Fæst okkar hefðu trúað því að árið 2022 væri stríð í Evrópu og undirbúa þyrfti komu flóttamanna frá Úkraínu til landsins. Í einum vettvangi er lífi fjölda fólks snúið á hvolf. Í upphafi árs áttu þau venjulegt líf, keyptu í matinn, mættu í skóla og vinnu, héldu barnaafmæli, elskuðu og voru elskuð. Hversdagurinn í reynd en nú tilheyrir hann annarri vídd. Í dag eru þau á flótta frá heimalandinu með ekkert nema handfarangur og sorg í hjarta. Borgir hafa verið lagðar í rúst og saklaust fólk tapað lífinu. Á meðan stjórnvöld bregðast við í alþjóðasamvinnu hefur almenningur á Íslandi fylgist sorgmæddur á þróun mála og fyllst vanmætti. Það er erfitt að fylgjast með úr fjarlægð og geta lítið gert.

Stjórnvöld þurfa að bregðast hratt við

Íslensk stjórnvöld tóku strax ákvörðun um að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu, fyrstu hóparnir eru þessar vikurnar að koma til landsins. 4,6 milljónir barna eru á flótta vegna stríðsins í Úkraínu, þessi börn verða fyrir miklu áfalli og óvíst er hvaða áhrif stríðið kemur til með að hafa á þessi börn og þeirra fjölskyldur, hvort sem litið er til skemmri eða lengri tíma. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra hefur sett á laggirnar sérstakt viðbragðsteymi ásamt sérstöku vöktunarteymi vegna þess fjölda barna sem komin er og væntanleg eru til landsins. Mikilvægt er að þær fjölskyldur sem hingað koma geti leitað á einn staða varðandi þjónustu við börn. Þau þurfa að finna að tekið sé utan um þau með öllum mögulegum hætti.

Íslenska þjóðin er með stórt hjarta

Þá fyllist ég stolti þegar ég sé viðbrögð fyrirtækja og almennings á Íslandi. Fljótt var ljóst að útvega þyrfti húsnæði fyrir allan þann fjölda fólks sem væntanlegur er til landsins. Nú þegar er búið er að semja um pláss fyrir tvö þúsund einstaklinga á mismunandi stigum dvalar flóttamanna. Er það vel gert á svo stuttum tíma, en enn er þó þörf fyrir meira húsnæði. Þá er það sérstaklega ánægjulegt að nokkrir aðilar, fyrirtæki, einstaklingar og stofnanir hafa tekið ákvörðun um að innheimta ekki leigu fyrir húsnæðið sitt.

Síðustu daga hef ég séð inn á hópum á Facebook þar sem unnið er að undirbúningi komu flóttamanna til landsins. Sjálfboðaliðar eru að safna saman fötum, húsgögnum og leikföngum fyrir börn. Allskonar húsbúnaði til þess að búa flóttamönnum fallegt heimili. Þá sá ég að starfsfólk Háskólans á Bifröst ásamt fleiri sjálfboðaliðum gengu úr vinnu til þess að bera inn húsgögn, dusta sængur og búa um rúm. Lítill bangsi var settur ofan á sæng.

Þessi samstaða kemur mér ekki á óvart, en samt sem áður fyllist ég þakklæti að búa í landi sem tekur opnum örmum á móti fólki á flótta og er tilbúið að leggja á sig auka vinnu fyrir aðra. Við erum öll ein stór fjölskylda.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. apríl 2022.

Categories
Greinar

Askur – fram­tíðin á sviði mann­virkja­gerðar

Deila grein

06/04/2022

Askur – fram­tíðin á sviði mann­virkja­gerðar

Nýlega voru styrkir veittir í fyrsta sinn úr Aski – mannvirkjarannsóknarsjóði. Sjóðurinn hefur bæði það hlutverk og þá áherslu að auka þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta þeim samfélagslegu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir á sviði mannvirkjagerðar. Alls var 95 milljónum króna veitt til 23 nýsköpunar- eða rannsóknarverkefna á sviði mannvirkjagerðar.

Sjóðurinn er fjármagnaður af innviðaráðuneytinu og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu en umsýsla hans er í höndum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Sjóðurinn var stofnaður árið 2021 og rann umsóknarfrestur fyrir fyrstu úthlutun rann út 9. desember síðastliðinn. Alls bárust fjörutíu umsóknir og var heildaupphæð umsókna 452 milljónir króna. Til að meta umsóknir var sett á fót sérstakt fagráð sem gerir tillögu að úthlutun til innviðaráðherra sem síðan veitir styrkina samkvæmt reglum sjóðsins.

Það er mikilvægt að sjóðurinn sé farinn að virka og fjármagn byrjað að streyma í hin ýmsu verkefni. Það er alveg ljóst að það er bæði þjóðfélagslega hagkvæmt og mikilvægt að efla rannsóknir og nýsköpun á sviði mannvirkjagerðar. Nauðsynlegt er að efla íslenskt hugvit og kalla fram hugmyndir um notkun á íslensku hráefni í byggingariðnaði. Um leið og slíkt er gert er mikilvægt er að leita leiða til að draga úr kolefnisspori mannvirkja og draga úr notkun óumhverfisvænna byggingarefna. Það verður einungis gert með aukinni nýsköpun á þessu sviði og frekari rannsóknum hér á landi.

Stóra myndin segir okkur það að byggingariðnaðurinn er talinn bera ábyrgð á um 40% af allri losun á heimsvísu. Það er því alveg ljóst að það er til mikils að vinna og þessi stóri iðnaður sem byggingariðnaðurinn er mun geta spilað stórt hlutverk þegar kemur að úrbótum í loftslagsmálum.

Ég er því mjög ánægður að sjá að áherslur sjóðsins í úthlutuninni hafi snúið að þeim samfélagslegu áskorunum sem við höfum staðið frammi fyrir í byggingariðnaði, s.s. rakaskemmdum í mannvirkjum og aðgerðum til lækkunar kolefnisspors. Vistvænt steinsteypa með minna sementi, vistbók – gagnabanki vistvænna byggingarefna á Íslandi, fyrsta hampsteypuhús á Íslandi og hámörkun steinefna til að lækka kolefnisspor venjulegrar og vistvænni steypu eru meðal verkefna sem öll fá styrk úr sjóðnum við fyrstu úthlutun.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. apríl 2022.

Categories
Greinar

Stuðningur á erfiðum stundum

Deila grein

04/04/2022

Stuðningur á erfiðum stundum

Í síðustu viku voru samþykkt í ríkisstjórn tvö frumvörp sem hófust í félagsmálaráðuneytinu í tíð Ásmundar Einars Daðasonar en frestuðust því miður vegna kórónuveirufaraldursins. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur nú lagt þau fram og koma þau til umræðu á Alþingi á næstu dögum.

Sorgarorlof

Annars vegar er um að ræða frumvarp um sorgarorlof, en hingað til hefur það verið undir vinnuveitanda komið hvort foreldrar fái orlof eða leyfi eftir að þeir missa barn. Að sjálfsögðu á það að vera hlutverk ríkisins að grípa utan um foreldra og fjölskyldur sem verða fyrir áfalli sem þessu. Ekkert foreldri á að þurfa að standa í því að hafa áhyggjur af framfærslu eða vinnuskyldu þegar tekist er á við sorgina við að missa barn. Með frumvarpinu verður foreldrum á vinnumarkaði tryggt leyfi frá störfum auk þess sem þeir fá greiðslur til að koma til móts við tekjutap á tilteknu tímabili í tengslum við fjarveru frá vinnumarkaði í kjölfar barnsmissis. Foreldrum á vinnumarkaði sem verða fyrir barnsmissi verður því tryggður réttur til sorgarleyfis í sex mánuði sem og greiðslur til að koma til móts við tekjutap á tímabilinu. Markmiðið með frumvarpinu er að viðurkenna áhrif sorgarinnar vegna barnsmissis á fjölskylduna í heild, ásamt því að auka líkur á að foreldrar eigi farsæla endurkomu á vinnumarkað og taki frekar virkan þátt í samfélaginu í kjölfar barnsmissis.

Varla er til verri tilhugsun hjá foreldrum en að missa barnið sitt, getur það tekið langan tíma að vinna úr sorginni og áfalli við barnsmissi. Margir foreldra eru lítt vinnufærir fyrstu mánuðina eða árið og þurfa sumir hverjir að leita sér aðstoðar í langan tíma. Í mínum hug er það skylda ríkisins að styðja við þá örfáu foreldra sem missa börn sín ár hvert. Það er það minnsta sem við sem samfélag getum gert.

Umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra eða fatlaðra barna

Hins vegar er um að ræða frumvarp um umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra eða fatlaðra barna. Þar er lagt er til að sett verði sérstök lög um greiðslur til umönnunaraðila langveikra og fatlaðra barna sem koma í stað gildandi laga, með það að markmiði að styðja betur við umönnunaraðila langveikra og fatlaðra barna. Meðal annars með því að auka skilvirkni stuðningskerfisins og draga úr félagslegri einangrun umönnunaraðila. Frumvarp um umönnunargreiðslur er byggt á skýrslu starfshóps um umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra eða fatlaðra barna, en hópurinn skilaði skýrslu til ráðherra í ársbyrjun 2020 með tillögum um breytingar á stuðningskerfinu. Þetta frumvarp er mikið framfaraskref, en það fylgir því oft gríðarlegt álag að eiga fatlað eða langveikt barn sem krefst mikillar umönnunar. Markmiðið með frumvarpinu er að létta byrðarnar á foreldrum þessara barna þannig að þeirra kraftur geti farið í sinna því sem mikilvægast er, barninu.

Einstaklingar sem lenda í þeirri stöðu að missa eða annast langveikt barn eiga ekki að þurfa að glíma við fjárhagsáhyggjur ofan á allt annað. Nóg er álagið fyrir. Ég fagna því að þessi mál eru að koma til umræðu á Alþingi og bind einlægar vonir við þau komist hratt í gegnum þingið. Við hljótum að vera sammála um það hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. apríl 2022.

Categories
Greinar

Alþjóðaviðskipti eru lífæð landsins

Deila grein

03/04/2022

Alþjóðaviðskipti eru lífæð landsins

Greiðari alþjóðaviðskipti und­an­far­inna ára­tuga hafa skilað þjóðum heims mikl­um ávinn­ingi og eru það ekki síst fá­tæk­ustu lönd­in sem hafa notið þess í formi bættra lífs­kjara. Alþjóðabank­inn tel­ur að þeim ein­stak­ling­um sem búa við sára fá­tækt hafi fækkað um meira en helm­ing á síðustu þrjá­tíu árum þar sem meira en millj­arði manna hef­ur verið lyft úr gildru fá­tækt­ar. Þessa þróun má ekki síst rekja til greiðari alþjóðaviðskipta.

Á und­an­gengn­um árum hef­ur heims­bú­skap­ur­inn orðið fyr­ir tals­verðum áföll­um og í fyrsta skipti í meira en tvo ára­tugi hef­ur fjölgað í hópi þeirra sem búa við sára fá­tækt. Það eru ákveðnar blik­ur á lofti um sam­drátt í heimsviðskipt­um og spor kreppu­ára síðustu ald­ar hræða. Þá voru fyrstu viðbrögð þjóðríkja ein­angr­un­ar­hyggja og var það ekki fyrr en eft­ir seinni heims­styrj­öld­ina, ekki síst með til­komu Brett­on Woods-stofn­ana og GATT, að viðskipti byrjuðu að glæðast á ný með til­heyr­andi hag­sæld.

Kenn­ing­ar Smith og Ricar­do

Árið 1776 kom út bók skoska hag­fræðings­ins Adams Smith, Auðlegð þjóðanna . Í þeirri bók kynnti hann kenn­ingu sína sem kall­ast al­gjört for­skot (e. ab­solu­te advanta­ge) í alþjóðaviðskipt­um, sem geng­ur út á að hver þjóð ein­blíni á að fram­leiða eina vöru á skil­virk­ari hátt en aðrar. Jafn­framt taldi Smith að viðskipt­um á milli landa ætti ekki að vera stjórnað eða þau tak­mörkuð með inn­grip­um stjórn­valda. Hann full­yrti að viðskipti ættu að flæða eðli­lega í sam­ræmi við markaðsöfl eða „ósýni­legu hönd­ina“. Ekki voru all­ir hag­fræðing­ar sam­mála þess­ari nálg­un og héldu sum­ir hag­fræðing­ar því fram að sum lönd gætu verið betri í að fram­leiða marg­ar vör­ur og þannig haft for­skot á mörg­um sviðum, sem lýs­ir raun­veru­leik­an­um bet­ur. Breski hag­fræðing­ur­inn Dav­id Ricar­do kom fram í kjöl­farið með kenn­ing­una um sam­an­b­urðarfor­skot (e. comparati­ve at­vanta­ge) árið 1817. Hann hélt því fram að jafn­vel þótt land A hefði al­gera yf­ir­burði í fram­leiðslu ým­issa vara gæti samt verið sér­hæf­ing og viðskipti milli tveggja landa. Staðreynd­in er sú að mun­ur­inn á þess­um tveim­ur kenn­ing­um er lít­ill. Alþjóðaviðskipti byggj­ast enn í dag að grunni til á þess­um kenn­ing­um og hag­ur þjóða hef­ur vænkast veru­lega í kjöl­farið.

Áföll­in; Trump, C-19 og Pútín

Inn­rás­in í Úkraínu er þriðja áfallið sem heimsviðskipt­in verða fyr­ir á ein­um ára­tug. Fyrst gaf Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti tón­inn 2016-2020, með boðun ein­angr­un­ar­hyggju og viðskipta­stríði við nokk­ur lyk­il­ríki. Nú­ver­andi stjórn­völd hafa ekki dregið nægj­an­lega mikið til baka í þess­um efn­um og er það áhyggju­efni. Næst tók hin ill­ræmda far­sótt við, þar sem hag­kerf­in urðu fyr­ir mikl­um áföll­um í alþjóðleg­um vöru­viðskipt­um, fjár­magns- og fólks­flutn­ing­um. Nú er hafið skelfi­legt stríð í brauðkörfu Evr­ópu með þeim af­leiðing­um að setið er um hafn­ir Svarta­hafs­ins og efna­hagsþving­an­ir á Rúss­land hafa hrundið af stað fram­boðsáfalli sem allt heims­hag­kerfið finn­ur sár­lega fyr­ir. Verðið á hveiti hef­ur hækkað um 40% og það kann að vera að Evr­ópu­bú­ar upp­lifi skort á gasi til hit­un­ar næsta vet­ur. Þá hef­ur verð á nikk­eli rokið upp en það er meðal ann­ars notað í raf­geyma, t.d. fyr­ir raf­magns­bíla.

Frek­ari aðför að alþjóðaviðskipt­um mun vinna gegn lífs­kjör­um á heimsvísu, því verða þjóðir heims að standa sam­an gegn því að al­var­leg aft­ur­för verði í alþjóðaviðskipt­um. Það kall­ar meðal ann­ars á nýtt átak til efl­ing­ar heimsviðskipt­um þar sem snúið verður af braut viðskipta­tak­mark­ana, sem skotið hafa upp koll­in­um á síðustu árum, en horft verði til þess hvað bet­ur má fara í viðskipt­um landa á milli með skýr­ari regl­um og stuðningi við alþjóðastofn­an­ir á þessu sviði, þar með talið Alþjóðaviðskipta­stofn­un­ina (WTO).

Staða Íslands í alþjóðaviðskipt­um

Ekk­ert er sjálf­gefið í þess­um efn­um. Viðskiptaum­hverfi Íslands er með besta móti. Hags­mun­ir okk­ar eru tryggðir í gegn­um EFTA, með samn­ingn­um um Evr­ópska efna­hags­svæðið, í gegn­um tví­hliða viðskipta­samn­inga og inn­an fjölþjóðlegra stofn­ana eins og Alþjóðaviðskipta­stofn­un­ar­inn­ar og Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar (e. OECD). Við erum þjóð sem þrífst á alþjóðaviðskipt­um!

Í sögu­legu ljósi hef­ur hag­ur ís­lensku þjóðar­inn­ar vænkast með aukn­um viðskipt­um enda er talið að smærri ríki njóti einkum góðs af frjáls­um viðskipt­um. Oft er talið að fyrra tíma­bil hnatt­væðing­ar hafi átt sér stað í fram­haldi af tækni­fram­förum upp úr miðri 19. öld og staðið fram að fyrra stríði. Seinna tíma­bilið hófst síðan eft­ir að seinni heims­styrj­öld­inni lauk. Lífs­kjör okk­ar eru góð vegna þess að aðgengi að helstu mörkuðum, hvort held­ur með sjáv­ar­fang, orku, ferðaþjón­ustu eða hug­verk, er gott. Um leið og ein­hverj­ar blik­ur eru á lofti um slíkt aðgengi, þá rýrna lífs­kjör hratt á Íslandi og því þurfa stjórn­völd stöðugt að vera á tán­um og end­ur­meta stöðuna.

Góður ár­ang­ur Íslands utan ESB

Á hverj­um degi á Ísland í frá­bæru alþjóðlegu sam­starfi á fjöl­mörg­um sviðum sem við get­um verið stolt af. Þar er mjög gott sam­starf við Evr­ópu eng­in und­an­tekn­ing. Ísland er í raun í öf­undsverðri stöðu að vera þátt­tak­andi í góðu sam­starfi við Evr­ópu­sam­bandið og önn­ur ríki inn­an Evr­ópska efna­hags­svæðis­ins á grund­velli EES-samn­ings­ins – og á sama tíma geta gert tví­hliða fríversl­un­ar­samn­inga við önn­ur ríki í heim­in­um. Versl­un­ar­frelsi Íslands er gott og á und­an­förn­um árum hef­ur viðskipta­stefna Íslands, til dæm­is hvað varðar álagn­ingu tolla og vöru­gjalda, þró­ast mjög í frjáls­ræðisátt. Þannig voru al­menn­ir toll­ar felld­ir niður af fatnaði og skóm í árs­byrj­un 2016 og af hvers kyns ann­arri iðnaðar­vöru í árs­byrj­un 2017 svo dæmi séu tek­in. Í sam­an­b­urði á tollaum­hverfi Íslands, ESB og hinna EFTA-ríkj­anna kom fram að hlut­fall toll­skrár­núm­era sem bera ekki toll nam tæp­um 90% hér á landi en var um 27% í ESB. Þá var meðaltoll­ur einnig lægri hér, 4,6% miðað við 6,3% inn­an ESB.

Snýst á end­an­um um lífs­kjör

Það er ljóst að vel­meg­un á Íslandi er með því mesta sem geng­ur og ger­ist í ver­öld­inni allri – og þar skip­um við okk­ur í deild með lönd­um eins og Nor­egi og Sviss sem einnig standa utan ESB. Það er stefna okk­ar í Fram­sókn sem og stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar að hags­mun­um Íslands sé best borgið utan ESB. Ný­verið var þings­álykt­un­ar­til­laga um þjóðar­at­kvæðagreiðslu um aðild­ar­viðræður að Evr­ópu­sam­band­inu lögð fram af þing­flokki Pírata, Sam­fylk­ing­ar og Viðreisn­ar. Rök­semd­in fyr­ir tíma­setn­ingu þjóðar­at­kvæðagreiðslu um svona veiga­mikið atriði er vík­ur að skerðingu full­veld­is­ins ligg­ur ekki fyr­ir. En leiða má að því lík­ur að tíma­bund­inn auk­inn stuðning­ur við aðild að ESB í skoðana­könn­un­um spili þar inn í. Stuðning­ur sem sum­ir telja til­kom­inn vegna óviss­unn­ar sem inn­rás Rússa í Úkraínu hef­ur valdið. Síðast þegar stuðning­ur við aðild að ESB jókst tals­vert var í kjöl­far fjár­mála­áfalls­ins 2008. Fram­lagn­ing fyrr­nefndr­ar þings­álykt­un­ar­til­lögu er ekki síður at­hygl­is­verð í ljósi þess að aðeins 6 mánuðir eru liðnir frá þing­kosn­ing­um í land­inu þar sem kjós­end­ur sögðu skoðun sína á lýðræðis­leg­an hátt. Óhætt er að segja að þeir flokk­ar sem vilja ganga í Evr­ópu­sam­bandið, Sam­fylk­ing­in og Viðreisn, hafi ekki riðið feit­um hesti frá þeim kosn­ing­um með aðild­ar­mál­in að vopni. Þannig var Viðreisn gerð aft­ur­reka í kosn­inga­bar­átt­unni með efna­hags­hug­mynd­ir sín­ar um að varða leiðina í átt að upp­töku evru. Mig rek­ur einnig ekki minni til þess að Viðreisn hafi gert aðild­ar­viðræður að Evr­ópu­sam­band­inu að skil­yrði þegar hún hafði tæki­færi til þess í rík­is­stjórn með Sjálf­stæðis­flokkn­um og Bjartri framtíð. Það seg­ir vissu­lega ákveðna sögu. Þegar öllu er á botn­inn hvolft snýst þetta um góð lífs­kjör. Líkt og hef­ur verið rakið hér að ofan hef­ur Ísland komið sér í sterka stöðu á sviði alþjóðaviðskipta og lífs­kjara í fremstu röð. Stefna okk­ar hingað til hef­ur virkað vel í þeim efn­um, og á þeirri braut eig­um við að halda ótrauð áfram.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. apríl 2022.

Categories
Greinar

Meira bíó!

Deila grein

01/04/2022

Meira bíó!

Nýlega fjallaði RÚV um gott gengi kvikmyndaiðnaðarins hér á landi en áætlað er að hann hafi skilað samfélaginu 9 milljörðum króna á síðasta ári. Þá er gert er ráð fyrir áframhaldandi velgengni íslenskrar kvikmyndagerðar á næstkomandi árum. Þetta er fagnaðarefni en kemur þó lítið á óvart, enda býr Ísland yfir stórum hópi af fagfólki í greininni sem vinnur frábært starf á hverjum degi hvort sem um er að ræða leikstjóra, leikara, tónskáld, tæknimenn eða aðra. Velgengni Íslendinga er aðdáunarverð og hróður íslenskar kvikmyndagerðar hefur farið vaxandi á erlendri grundu síðustu ár.

Suðupottur tækifæra

Íslenskt kvikmyndaefni er sýnt í erlendri dagskrá í auknu mæli ásamt erlendum kvikmynda- og sjónvarpsverkefnum sem tekin hafa verið upp hér á landi. Af því leiðir að Ísland fær mikilvæga landkynningu sem hefur aftur jákvæð áhrif á ferðaþjónustu og ímynd landsins. Tækifærin sem felast í öflugum kvikmyndaiðnaði eru fjölmörg. Við sjáum að erlendir aðilar sækja til landsins í auknu mæli. Nú um stundir er verið að taka upp fjögur erlend kvikmyndaverkefni í stærri kantinum hér á landi. Þar á meðal er stórt verkefni frá Sony og annað frá Netflix og BBC. Eitt af þessum verkefnum er hasarmyndin Heart of Stone, sem framleidd er af Netflix. Um er að stóra framleiðslu, fyrstu myndina í flokki mynda sem ætlað er að sverja sig í ætt við hasarmyndir á borð við Mission: Impossible og James Bond myndirnar. Söguþráður myndarinnar á sér stað að hluta til hér á landi og ýmis konar kennileiti Íslands koma til sögunnar. Þvílík auglýsing fyrir Ísland.

Auknum umsvifum í kvikmyndagerð fylgja fjölbreytt og spennandi atvinnutækifæri um land allt sem kallar á ýmsa sérfræðiþekkingu. Á bak við eina bíómynd eru mörg handtök og mörg sérhæfð störf lista- og kvikmyndagerðarmanna. Þá skapast við framleiðslu á kvikmynd fjöldi annarra afleiddra starfa. Hótel, gistiheimili, leiðsögumenn, bílaleigur og veitingastaðir víða um land njóta góðs af. Þúsundir starfa og auknar tekjur í ríkissjóð eru skýr dæmi um jákvæð áhrif kvikmyndagerðar hér á landi – og þar getum við náð enn lengra. Framsókn lagði ríka áherslu á kvikmyndagerð fyrir síðustu alþingiskosningar en við höfum óbilandi trú á getu kvikmyndaiðnaðarins til að skapa raunveruleg verðmæti fyrir samfélagið.

Í orði og á borði

Þessi þróun sýnir og sannar að afslættir til iðnaðarins virka. Í stóru myndinni leiða þeir til aukinnar velmegunar innan hans til lengri tíma. Ríkisstjórnin hefur sett það á oddinn að hækka endurgreiðsluhlutfall í kvikmyndagerð til þess að laða stór verkefni sem væru að stærstum hluta tekin upp hér á landi. Það er í samræmi við fyrstu heildstæðu kvikmyndastefnuna fyrir Ísland sem Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra kynnti til leiks á síðasta kjörtímabili. Í stefnunni er að finna metnaðarfullar aðgerðir sem munu auka verulega samkeppnishæfni kvikmyndagerðar hér á landi. Strax hefur verið hafist handa við að hrinda þeim í framkvæmd.

Við í Framsókn skiljum mikilvægi þess að styðja við íslenska kvikmyndagerð. Á okkar vakt hefur verið staðið fyrir stofnun Kvikmyndasjóðs Íslands og Kvikmyndasafns Íslands ásamt því að komið var á fyrstu endurgreiðslum í kvikmyndagerð á laggirnar. Sagan hefur sannað gildi þessara mikilvægu aðgerða og undirstrikað tækifærin sem felast í kvikmyndagerð fyrir land og þjóð. Framtíðin er björt og það verður ánægjulegt að taka þátt í því að styðja menningarmálaráðherra og ríkisstjórnina í því verkefni að ná enn lengra fyrir kvikmyndagerð í landinu.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. mars 2022.

Categories
Greinar

30. mars 1949

Deila grein

30/03/2022

30. mars 1949

„Hver sá sem hef­ur yf­ir­ráð yfir Íslandi held­ur á byssu miðaðri á Eng­land, Am­er­íku og Kan­ada,“ sagði Winst­on Churchill, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, er hann kjarnaði orð eins hers­höfðingja sinna um hernaðarlegt mik­il­vægi Íslands í seinni heims­styrj­öld­inni. All­ar göt­ur síðan hef­ur land­fræðileg lega Íslands skipað grund­vall­arsess í varn­ar­mál­um vest­rænna ríkja.

Tryggt frelsi og ör­yggi hef­ur um ára­bil verið grund­vall­arþátt­ur í vel­ferð okk­ar. Það var því fram­sýnt skref sem ís­lensk stjórn­völd stigu 30. mars 1949 þegar ákveðið var að Ísland myndi ger­ast stofnaðili að Atlants­hafs­banda­lag­inu. Með því skipaði Ísland sér í hóp 12 stofn­ríkja sam­bands­ins. Þar sem herlaus þjóð gat ekki varið sig fór Atlants­hafs­banda­lagið þess á leit við Ísland og Banda­rík­in að rík­in gerðu ráðstaf­an­ir sín á milli með varn­ar­samn­ingn­um árið 1951 við Banda­rík­in. Á þeim tíma var varn­ar­leysi lands­ins talið stofna ör­yggi þess sjálfs og friðsamra ná­granna þess í voða eins og það er orðað í samn­ingn­um. Staðfesta stjórn­valda þess tíma tryggði aðstöðu hér á landi til að sinna vörn­um og varðveita þannig frið og ör­yggi á svæðinu.

Í ljósi þess friðsama veru­leika sem við á Íslandi höf­um búið við und­an­far­in ár hef­ur umræða um varn­ar­mál verið í lág­marki. Það má segja að á einni nóttu hafi veru­leiki Evr­ópuþjóða breyst með óverj­an­legri inn­rás Rússa í Úkraínu. Stríðið sem þar geis­ar er köld áminn­ing um að sú sam­fé­lags­gerð sem við búum við hér á vest­ur­hveli jarðar er ekki sjálf­sögð. Lýðræðið, frelsið og mann­rétt­ind­in eru ekki sjálf­gef­in. Það er nauðsyn­legt að standa vörð um þessi gildi og verja þau gegn ábyrgðarleysi og þeim sem kæra sig lítt um þau.

Árás­ar­stríðið í Evr­ópu und­ir­strik­ar mik­il­vægi varn­ar­mála og staðfest­ir nú sem endra­nær mik­il­vægi þess að taka virk­an þátt í ör­ygg­is- og varn­ar­sam­starfi vest­rænna lýðræðisþjóða. Ég er stolt að hafa staðið í stafni sem ut­an­rík­is­ráðherra þegar fyrsta þjóðarör­ygg­is­stefna lands­ins var samþykkt á Alþingi Íslend­inga 13. apríl 2016. Í henni eru tí­undaðar áhersl­ur sem ætlað er að tryggja sjálf­stæði, full­veldi og friðhelgi landa­mæra Íslands, ör­yggi borg­ar­anna og vernd stjórn­kerf­is og grunn­innviða sam­fé­lags­ins. Þá var nýtt þjóðarör­ygg­is­ráð sett á lagg­irn­ar sem met­ur ástand og horf­ur í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um með reglu­legu milli­bili og hef­ur eft­ir­lit með fram­fylgd þjóðarör­ygg­is­stefn­unn­ar.

Á þeim árum sem liðin eru frá stofn­un Atlants­hafs­banda­lags­ins hef­ur starf­semi þess og þátt­taka Íslands tekið mikl­um breyt­ing­um. Það end­ur­spegl­ar hinn sí­breyti­lega veru­leika sem við búum við og þurf­um að laga okk­ur að hverju sinni – hvort sem um er að ræða kalda­stríðs-, hryðju­verka-, netör­ygg­is- eða Rúss­land­s­ógn­ir. Reglu­lega ger­ast at­b­urðir sem und­ir­strika mik­il­vægi þess að huga vel að varn­ar­mál­um. Þá vakt þurf­um við ávallt að standa og taka virk­an þátt með vinaþjóðum okk­ar í að standa vörð um þá sam­fé­lags­gerð sem við þekkj­um. Þrátt fyr­ir að Ísland sé lítið skipt­ir fram­lag okk­ar miklu máli í þessu sam­hengi – rétt eins og Winst­on Churchill benti rétti­lega á hér á árum áður.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. mars 2022.

Categories
Greinar

Fæðu­öryggi er þjóðar­öryggis­mál

Deila grein

30/03/2022

Fæðu­öryggi er þjóðar­öryggis­mál

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekanda, hefur farið mikinn í umræðunni um fæðuöryggi. Þar hefur hann talað niður ógnina sem steðjar að fæðuöryggi þjóðarinnar og leggur til aðgerðir sem grafa undan fæðuörygginu og eru þess eðlis að þær draga úr innlendri matvælaframleiðslu.

Þessi málflutningur er óábyrgur. Ógnin er raunveruleg. Fæðuöryggi er þjóðaröryggismál en ekki hagsmunamál atvinnurekenda eða bænda.

Fæðuöryggi á Íslandi

Í skýrslunni Fæðuöryggi á Íslandi frá 2021 segir að eiginlegt fæðuöryggi Íslendinga sé háð 4 meginforsendum; að auðlindir til framleiðslu eru til staðar, að þekking og tæki til framleiðslu eru til staðar, að birgðir eru til að af þeim fæðutegundum sem innlend matvælaframleiðsla getur ekki tryggt og, síðast en ekki síst, að aðgengi að aðföngum fyrir innlenda framleiðslu er tryggt.

Staðan er þessi. Innlend matvælaframleiðsla er háð innfluttum aðföngum, svo sem hráefni til fóðurgerðar, áburði, fræjum og olíu.

Í því ástandi sem birtist okkur í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu er staðan sú að aðgengi að aðföngum til matvælaframleiðslu er tvísýnt. Þá sérstaklega að hráefnum til fóðurgerðar og áburði til lengri tíma litið.

Viðkvæm staða

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda hefur hins vegar litlar áhyggjur.

Hann talar um að nægt framboð sé til staðar á aðföngum og aðeins séu verðhækkanir í kortunum. Sjálfur vona ég að hann hafi rétt fyrir sér, en staðreyndin er sú að ástandið í korn- og ábuðraframleiðslu í heiminu er laklegt. Staðan er viðkvæm og það má ekkert út af bregða svo illa fari.

Í skýrslunni Fæðuöryggi á Íslandi kemur fram að ,,stríð eru sennilega sú tegund „hamfara” sem líklegast er að geti á skjótan hátt stöðvað innflutning á fóðri.“

Korn er undirstaðan í dýrafóðri og Úkraína er stærsti framleiðandi korns í álfunni. Almennt er hátt í 40 milljón tonn af korni framleitt í Úkraínu á ári hverju. Í eðlilegu árferði væru úkraínskir bændur að sá fræjum á akra sína en hafa þurft að vopnast og verjast.

Sömuleiðis hefur áburður meira en tvöfaldast í verði þar sem Rússland og Hvíta Rússland, sem bæði eru undir viðskiptaþvingunum, spila stórt hlutverk í aðfangakeðju áburðaframleiðslu. Sú hækkun hefur keðjuverkandi og markþætt áhrif á framboð landbúnaðarafurða, þ.a.m. kornafurðum.

Svartar sviðsmyndir

Skortur á fóðri hér á landi veldur framleiðslustöðvun í eggja-, alífugla- og svínarækt og dregur úr framleiðslu í nautgriparækt, mjólkuriðnaði og að einhverju marki í sauðfjárrækt.

Skortur á áburði hefur aðeins hægari áhrif en mun draga smá saman úr framleiðslu á lambakjöti, nautakjöti og mjólk. Varlega áætlað mun uppskera dragast saman um fjórðung á fyrsta ári áburðarleysis.

Sjálfur tel ég skynsamlegt að við tryggjum okkur gagnvart mögulegum skorti á aðföngum, olíu, korni, sáðvöru og áburði. Varabyrgðir sem duga að lágmarki til eins árs.

Það er mikilvægt að yfirvöld grípi inn í og komi fram með aðgerðaráætlun sem snýr að því að tryggja aðgengi að aðföngum til matvælaframleiðslu ásamt aðgerðum til að bregðast við miklum verðhækkunum við framleiðslu til að tryggja afkomu matvælaframleiðenda.

Til framtíðar þurfum við að skapa íslenskum bændum sanngjarnari starfsskilyrði, atvinnugreininni og neytendum til hagsbóta. Á sama tíma þurfum við að auka sjálfbærni í fóðurframleiðslu og nýta þau tækifæri sem felast í aukinni kornframleiðslu hér á landi. Með markvissum aðgerðum getum við framleitt allt að 80% af því kjarnfóðri sem við þurfum til innlendrar matvælaframleiðslu.

Ólafi er mikið í mun að benda á hið augljósa í umræðunni, þ.e. að lega landsins á norðurhveli jarðar veldur því að við verðum aldrei sjálfum okkur næg, að við getum ekki borðað allan fiskinn sem við veiðum og að stríðsátökin í Úkraínu marka ekki endalok frjálsra heimsviðskipta. Það er allt satt og rétt og enginn sem heldur öðru fram. Hins vegar er skynsamlegt að nýta þá styrkleika og þau tækifæri til framleiðslu sem landið hefur upp á að bjóða. Að stuðla að aukinni sjálfbærni í matvælaframleiðslu eykur fæðuöryggi. Um það eru sérfræðingar, þjóðaröryggisráð og alþjóðastofnanir sammála um þó svo að Ólafur Stephensen hafi einhverjar aðrar hugmyndir.

Fæðuöryggi þjóðarinnar er nefnilega of mikilvægt til að leyfa sérhagsmunum að grafa undan því til að skara eld að eigin köku.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. mars 2022.