Categories
Greinar

Tvær leiðir til að bæta starfsumhverfi lögreglunnar

Deila grein

31/08/2021

Tvær leiðir til að bæta starfsumhverfi lögreglunnar

Mikið mæðir á okk­ar fram­lín­u­starfs­mönn­um þessa dag­ana vegna Covid- far­ald­urs­ins. Þá á ég fyrst og fremst við hjúkr­un­ar­fólk, lækna, sjúkra­flutn­inga­fólk, slökkviliðsmenn og lög­regluþjóna. Hægt væri að skrifa lýs­ing­ar um sér­hverja starfs­grein en ég ætla nú að beina at­hygli minni að okk­ar frá­bæra fólki í lög­regl­unni. Und­an­farna mánuði hef ég átt mörg sam­töl við lög­regluþjóna um hvernig þeir upp­lifa sig í störf­um sín­um.

Fjölg­un lög­regluþjóna

Á vef Alþing­is er til­greint að fjöldi lög­regluþjóna á Íslandi hafi verið 662 þann 1. fe­brú­ar 2020. Þetta sam­svar­ar að á Íslandi er einn lög­regluþjónn á hverja 557 íbúa. Í skýrslu dóms­málaráðherra frá ár­inu 2001 kem­ur fram að fjöldi lög­regluþjóna var þá hlut­falls­lega mest­ur á Íslandi af öll­um Norður­lönd­um eða einn á hvern 441 íbúa, en meðaltalið á Norður­lönd­um var þá 573 íbú­ar á lög­regluþjón. Í dag hef­ur fjöldi lög­regluþjóna á Norður­lönd­um hald­ist óbreytt­ur eða einn á 577 íbúa. Ljóst er að á meðan fjöldi lög­regluþjóna hef­ur staðið í stað á Norður­lönd­um þá hef­ur þeim hlut­falls­lega fækkað veru­lega á Íslandi. Þess­ar töl­ur eru í sam­ræmi við þau sam­töl sem ég hef átt. Jafn­framt hef­ur ný­leg ákvörðun um stytt­ingu vinnu­tíma orðið til þess að vakt­ir eru nú mannaðar með færri lög­reglu­mönn­um, sem eyk­ur enn meira það álag sem fyr­ir er. Þegar tekið er til­lit til auk­inna og nýrra verk­efna lög­regl­unn­ar, tveggja millj­óna ferðamanna, net­glæpa, viðveru af­brota­gengja frá Evr­ópu, fjár­mála­af­brota, man­sals og auk­inna verk­efna varðandi fjöl­skyldu­tengd af­brot, verk­efni sem flest þekkt­ust vart hér á landi fyr­ir 20 árum, er ljóst að ástandið er grafal­var­legt.

Lausn­in er mjög skýr. Það þarf að fara í aðgerðir til að fjölga lög­regluþjón­um á land­inu strax.

End­ur­vakn­ing lög­reglu­skól­ans

Þegar lög­reglu­skól­inn var lagður niður 2016 var það gert skil­yrt að verðandi lög­regluþjón­ar þyrftu að ljúka tveggja ára skóla­námi (diplóma) á há­skóla­stigi og að starfs­náms­hluti yrði síðan í um­sjá mennta- og starfsþró­un­ar­set­urs rík­is­lög­reglu­stjóra sem stofnað var í kjöl­farið. Farið var í þess­ar aðgerðir til að ná fram sparnaði í rík­is­rekstri. Það er gott og vel að reyna að spara þar sem hægt er, en það sem hef­ur skap­ast í kjöl­farið er að praktísk/​raunþjálf­un lög­reglu­nema hef­ur verið minnkuð til muna. Ekki er leng­ur kennt yfir heilt náms­ár eins og var í lög­reglu­skól­an­um hér áður held­ur er þetta nokk­urra vikna nám­skeið sem kem­ur í kjöl­far þess að nem­end­ur ljúka sínu diplóma­námi. Þetta hef­ur leitt til þess að lög­regluþjón­ar eru ekki jafn vel und­ir­bún­ir til að tak­ast á við hin dag­legu vanda­mál sem koma upp í þeirra vinnu. Hvort lausn­in sé að end­ur­vekja starf­semi gamla lög­reglu­skól­ans skal ég ekki segja en það er ein­róma skoðun viðmæl­enda minna að lengja þurfi verk­lega námið til muna, svo að nýliðar í lög­regl­unni séu bet­ur und­ir­bún­ir til að tak­ast á við þær áskor­an­ir sem þeir mæta á hverj­um degi.

Fyr­ir þjóð sem tel­ur aðeins 360 þúsund íbúa og eng­an her er nauðsyn­legt að efla stöðugt og styrkja lög­gæsluaðila rík­is­ins, þannig að ávallt sé vel þjálfað starfs­fólk fyr­ir hendi í lög­regl­unni.

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, sit­ur í 2. sæti á lista Fram­sókn­ar í Reykja­vík suður.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Úr stöðnun í uppbyggingu um land allt

Deila grein

27/08/2021

Úr stöðnun í uppbyggingu um land allt

Undanfarna áratugi hefur ríkt viðvarandi stöðnun á húsnæðismarkaði víða um land með þeim afleiðingum að atvinnuuppbygging og eðlileg samfélagsþróun hefur tafist. Til þess að bregðast við þessari þróun hefur Framsókn sett húsnæðismál á landsbyggðinni á oddinn síðustu ár. Árangurinn af þessum aðgerðum er farinn að sjást víða um land. Sú stöðnun sem áður var í húsbyggingum í landsbyggðunum hefur nú verið rofin með fjölþættum aðgerðum stjórnvalda.

Vandinn staðfestur

Í skýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um þróun húsnæðismarkaðar utan suðvesturhornsins, sem kom út í vetur, er það augljósa staðfest, þ.e. að stöðnun hefur ríkt í húsnæðismálum margra byggðarlaga. Í sömu skýrslu er einnig farið yfir ástæður þess að uppbygging á landsbyggðinni hefur verið sáralítil í samanburði við höfuðborgarsvæðið.

„Helstu ástæður má rekja til þess að víða á landsbyggðinni stendur söluverð eigna ekki undir byggingarkostnaði, seljanleiki eigna er minni og fólksfækkun hefur verið í sumum sveitarfélögum sem veldur minni eftirspurn. Á sama tíma hefur fjölgun verið í öðrum sveitarfélögum sem hefur skapað húsnæðisskort. Þá hafa lánastofnanir haft minni áhuga á að lána til íbúðarkaupa og íbúðauppbyggingar á landsbyggðinni,“ segir í skýrslunni

Framsókn gengur í verkið

Þær aðgerðir sem komnar eru til framkvæmda í húsnæðismálum undir forystu Framsóknar snúa einmitt að þessum þáttum sem bent er á og ráðast að rót vandans. Þær eru sérstök landsbyggðarlán, stofnframlög og byggðaframlög, hlutdeildarlán, samstarf við opinbera leigufélagið Bríeti og tilraunaverkefni á vegum HMS í samstarfi við sveitarfélög.

Finna má yfirlit yfir allar þessar aðgerðir á vefnum Tryggð byggð, tryggdbyggd.is, sem er samstarfsvettvangur allra þeirra sem koma að húsnæðismálum á landsbyggðinni. Vefur verkefnisins sýnir árangurinn af þessum aðgerðum svart á hvítu, en framkvæmdir eru hafnar við yfir 400 íbúðir í 36 sveitarfélögum og heildarfjárfestingin eru rúmlega 10 milljarðar. Upplýsingarnar á vefnum geta nýst öllum sem hugsa til húsbygginga á landsbyggðinni við leit að leiðum og fyrirmyndum.

Þróum verkefnin áfram

Það er mikilvægt að halda áfram á þessari braut og tryggja aðgengi að fjölbreyttum húsnæðiskostum við hæfi, óháð búsetu. Allar þær aðgerðir sem nú eru farnar í gang eru hugsaðar sem langtímaverkefni. Mikil tækifæri liggja í að þróa verkefnin áfram. Til dæmismætti útfæra hlutdeildarlán enn frekar fyrir hópa sem hafa átt erfitt með að eignast hentugt húsnæði.

Þá liggur fyrir að finna þurfi leiðir til að greiða aðgengi einstaklinga að lánsfjármagni óháð búsetu því margir vilja og þurfa sjálfir að byggja sitt húsnæði.

Við komumst þangað saman.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar og í 2. sæti á framboðslista flokksins í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 26. ágúst 2021.

Categories
Greinar

At­vinna, at­vinna, at­vinna gegn at­vinnu­leysi

Deila grein

26/08/2021

At­vinna, at­vinna, at­vinna gegn at­vinnu­leysi

Það er á allra vitorði að atvinnuleysi fór að stóraukast strax í kjölfar komu Covid-19 hingað til lands. Mörg vandamál spruttu í kjölfar komu veirunnar til landsins, en meðal þeirra stærstu var án efa það gífurlega atvinnuleysi sem birtist samfélaginu. Atvinnuleysið hafði vissulega mikil áhrif á ríkissjóð, vinnumarkaðinn, efnahaginn og andlega líðan samfélagsins í heild. Þessum vanda var nauðsynlegt að mæta af ákveðni til að snúa við blaðinu, og þar kom Framsókn sterk inn.

Vinnumarkaðsaðgerðir

Vegna fjölgunar atvinnulausra í kjölfar Covid-19 talaði Framsókn fyrir vinnumarkaðsaðgerðum af hálfu ríkisins til að bregðast við ástandinu og standa vörð um ráðstöfunartekjur heimilanna. Formaður Framsóknar, Sigurður Ingi, stóð á ræðupúlti Alþingis í stefnuræðum og sagði hin fleygu orð:

Við stöndum vörð um störfin og við sköpum ný störf. Það er atvinna, atvinna, atvinna sem málið snýst um.“

Það er rétt. Í þessu ástandi var það mikilvægasta málið að ná vinnumarkaðnum aftur á réttan kjöl með því að sporna við hækkandi atvinnuleysi og standa vörð um lifibrauð fólksins í landinu. Vinnumarkaðsaðgerðir að hálfu ríkisins voru settar á laggirnar, til dæmis átak Ásmundar Einars, félags- og barnamálaráðherra, „Hefjum Störf“. Með því voru sjö þúsund störf sköpuð fyrir þá sem höfðu dottið af atvinnumarkaðinum vegna Covid.

Aðgerðirnar hafa skilað áþreifanlegum árangri

Nú í ágúst hefur Vinnumálastofnun birt nýjustu skýrslu um stöðu atvinnumarkaðsins. Þar sjáum við svart á hvítu að umræddar vinnumarkaðsaðgerðir hafa skilað okkur áþreifanlegum árangri. Tölfræðin segir okkur að aðgerðirnar, ásamt bólusetningum, hafa virkað. Í júlímánuði hafði hlutfall atvinnulausra (6,1%) lækkað um 1,3% milli mánaða og um 3% frá upphafi sumars. Einnig spáir Vinnumálastofnun áframhaldandi minnkun atvinnuleysis á næstu mánuðum, sem hefur lækkað um 6,7% frá upphafi árs.

Höldum áfram

Að sjálfsögðu er það mikið ánægjuefni að sjá atvinnuleysið minnka ört, en ferðinni er ekki lokið. Betur má ef duga skal, og atvinnuleysið þarf að minnka meira. Nú horfum við upp á sóttvarnarráðstafanir innan samfélagsins sem hafa gífurleg áhrif á hinar ýmsu starfsstéttir. Fyrir sumar boða þessar ráðstafanir dauðadóm ef takmörkunum verða ekki aflétt fljótlega. Næsta skrefið er að aðstoða aðila við að byggja upp störfin að nýju. Ferðaþjónustan, skemmtanaiðnaðurinn og fleiri starfsstéttir eiga enn erfitt með að ná endum saman og nú er kominn tími til að standa vörð um þær og veita þeim viðeigandi athygli. Vinnumarkaðurinn á Íslandi má ekki við því að þessar starfstéttir heltast úr lestinni.

Höldum áfram veginn í átt að minnkun atvinnuleysis og tryggjum störf!

Aðalstein Haukur Sverrisson, situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík Suður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Landhelgi íslenskrar ferðaþjónustu – 0 mílur

Deila grein

25/08/2021

Landhelgi íslenskrar ferðaþjónustu – 0 mílur

Fyrir Covid var komin af stað réttmæt umræða um að rekstrarstaða margra íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja væri slæm og hefði versnað. Hluti vandans var rakin till falls WOW en einnig til almenns rekstrarvanda í greininni og skakkrar samkeppnisstöðu.

Umsvif erlendra ferðaskrifstofa var nánast í veldisvexti hér á landi fyrir Covid. Lítið sem ekkert var gert til að tryggja að þessi fyrirtæki færu eftir sömu kjarasamningum, lögum og reglum og innlendu fyrirtækin. Ekkert var heldur gert til að sporna við þessari þróun. Í mörgum löndum er t.d. krafa um að leiðsögumaður sem er búsettur og viðurkenndur af þarlendum stjórnvöldum sé til staðar í öllum skipulögðum hópferðum.

Sameining og sjálfvirknivæðing

Hinsvegar voru hér haldnir fundir og málþing sem mörg báru þann boðskap að sameining fyrirtækja og sjálfvirknivæðing væri nauðsynleg í ferðaþjónustu.

Í þessu sambandi hefur oft verið vísað til arðsemisaukningar í sjávarútvegi þar sjálfvirknivæðing hefur verið gríðarleg og fyrirtæki hafa sameinast og orðið stærri og “öflugri.” Það þarf ekki að tíunda að sú samþjöppun hefur haft bæði jákvæð og neikvæð áhrif á byggðarþróun, skiptingu auðs og skuldsetningu greinarinnar sjálfrar.

Það má þó segja að ógnin sem að þjóðarbúinu stafar af samþjöppun í sjávarútvegi sé minni en af samþjöppun í ferðaþjónustu. Í EES-samningum eru ákveðnar girðingar þegar kemur að eignarhaldi erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi. Engar slíkar girðingar eru þegar kemur að eignarhaldi ferðaþjónustufyrirtækja.

Erlend yfirtaka?

Það er ekkert sem segir að stór íslensk ferðaþjónustufyrirtæki sem sum hver hafa á undanförnum árum keppst við að kaupa upp fjölda smærri fyrirtækja til að blása út efnahagsreikning sinn verði seld í heilu lagi til erlendra aðila. Hvar stöndum við þá?

Skiptir það máli hvort innlendir eða erlendir aðilar eigi innviði íslenskrar ferðaþjónustu?

Svarið er já, það skiptir verulegu máli fyrir menningarleg og efnahagsleg áhrif greinarinnar. Erlent fyrirtæki með starfsemi á Íslandi greiða skatta erlendis og geta þessvegna gert út starfsfólk, íslenskt eða erlent, með ráðningarsamband erlendis.

Þá verður mun erfiðara fyrir íslensk stjórnvöld og verkalýðshreyfingu að hafa eftirlit með því að þeir sem starfa hér í ferðaþjónustu séu að vinna eftir gildandi kjarasamningum.

Þetta mun skekkja enn frekar samkeppnisstöðu innlendra ferðaþjónustufyrirtækja gagnvart erlendum ferðaskrifstofum sem gera hér út nú þegar í stórum stíl.

Ferðamálayfirvöld hafa ekki nýtt tímann í Covid til að vinna að því að efla samkeppnisstöðu innlendra ferðaþjónustufyrirtækja til framtíðar.

Viðbrögð ferðamálayfirvalda fyrir og í Covid hafa fremur verið að leggja auknar kvaðir á innlend fyrirtæki sem stunda leyfisskylda starfsemi á sviði ferðþjónustu, krefjast árlega ítarlegri gagna til að viðhalda leyfum og sömu kvaðir lagðar á stór fyrirtæki og ör fyrirtæki.

Samanburður við sjávarútveg

Það er áhugavert að velta því fyrir sér, hverjar afleiðingarnar hefðu orðið af afskiptaleysi stjórnvalda í landhelgisdeilunni. Ef stjórnvöld hefðu litið fram hjá veiðum erlendra þjóða á landgrunninum en sett í staðinn íþyngjandi kvaðir á íslenska flotann – þær sömu á stórútgerðir og trillur! Hvatt til uppkaupa og sameingingar og svo bara beðið eftir því að erlendir aðilar hefðu keypt stórútgerðirnar upp. Ef þessi leið hefði verið farin er óumdeilt að efnahagsleg staða á Íslandi væri önnur í dag en hún er.

Nú erum við með atvinnugrein sem í eðlilegu árferði skilar meiri gjaldeyristekjum og skapar fleiri störf en sjávarútvegur og hefur alla burði til þess að vera undirstaða hagsældar í landinu til framtíðar. En ferðamálayfirvöld eru uppteknari af því að sauma að litlum innlendum fyrirtækjum en að reyna að tryggja samkeppnisstöu innlendrar ferðaþjónustu fyrir ágangi erlendra fyrirtækja og finna leiðir til að sporna við erlendri yfirtöku á greininni.

Sigrún Elsa Smáradóttir, framkvæmdastjóri í ferðaþjónustu og skipar 3. sæti Framsóknarflokksins í Reykjavík suður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Þurfa unglingar að synda?

Deila grein

24/08/2021

Þurfa unglingar að synda?

Sund er frá­bær hreyf­ing, nær­andi fyr­ir bæði lík­ama og sál. Bað- og sund­menn­ing land­ans er raun­ar svo sterk, að for­eldr­ar kenna börn­um sín­um að um­gang­ast vatn frá unga aldri, ým­ist í ung­barna­sundi eða með reglu­legu busli og leik í laug­um lands­ins. Skóla­kerfið gegn­ir einnig lyk­il­hlut­verki, því sund­kennsla er hluti af íþrótta­kennslu öll grunn­skóla­ár­in. Und­an­farið hafa hins veg­ar ýms­ir dregið í efa þörf­ina á því, enda ættu ung­ling­ar frek­ar að læra aðra hluti á efsta stigi grunn­skóla.

Á dög­un­um lagði hóp­ur ung­menna, sem skipa ung­mennaráð heims­mark­miða Sam­einuðu þjóðanna, breyt­inga­til­lög­ur fyr­ir rík­is­stjórn­ina. Hóp­ur­inn lagði til, að sund­kennsla yrði val­frjáls á efsta stigi í grunn­skóla en aðrir þætt­ir sett­ir í nám­skrána í henn­ar stað. Ung­menn­in vilja kennslu í fjár­mála­læsi í aðal­nám­skrá grunn­skóla, svo nem­end­ur skilji allt frá launa­seðli til stýri­vaxta. Þau vilja vandaða um­hverf­is­fræðslu fyrr á náms­ferl­in­um, í stað hræðslu-fræðslu eins og þau segj­ast fá núna. Þau vilja aukna kennslu um rétt­indi barna, hinseg­in fræðslu og lífs­leikni í aðal­nám­skrá grunn­skól­anna. Þá leggja þau til breytt ein­kunna­kerfi, þar sem talna­ein­kunn komi í stað hæfniviðmiða sem fáir nem­end­ur og for­eldr­ar skilji til fulls.

Hug­mynd­ir ung­mennaráðs eru góðar og ríma vel við mark­mið mennta­stefnu, sem ég lagði fyr­ir og Alþingi samþykkti síðastliðinn vet­ur. Mennta­stefn­an tek­ur mið af þörf­um sam­fé­lags­ins á hverj­um tíma, þar sem mark­miðið er að tryggja öll­um börn­um góða mennt­un og jafna tæki­færi þeirra til lífs­gæða í framtíðinni. Skyld­u­sund á unglings­ár­um er ekki endi­lega lyk­ill­inn að því, þótt mik­il­vægi góðrar hreyf­ing­ar verði seint of­metið.

Mennta­stefna er einskis virði án aðgerða, sem varða leiðina að mark­miðinu. Þess vegna er um­fangs­mik­il og metnaðarfull aðgerðaáætl­un í smíðum, í víðtæku sam­ráði við lyk­ilaðila í skóla­kerf­inu og Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ina (OECD). Fyrsta áfanga af þrem­ur verður hleypt af stokk­un­um í sept­em­ber, þegar nýhafið skólastarf vetr­ar­ins verður komið vel af stað og ég hlakka til að taka utan af þeim harða pakka. Aðgerðirn­ar eiga að efla mennta­kerfið okk­ar, tryggja bet­ur en áður skóla án aðgrein­ing­ar og stuðla að bættu starfs­um­hverfi kenn­ara.

Efn­is­breyt­ing­ar á aðal­nám­skrá grunn­skól­anna koma sann­ar­lega til greina, við inn­leiðingu mennta­stefn­unn­ar. Þær eru vandmeðfarn­ar og var­færni inn­byggð í grunn­skóla­kerfið, enda leiðir aukið vægi einn­ar náms­grein­ar til minna væg­is annarr­ar.

Ung­ling­arn­ir okk­ar þurfa svo sann­ar­lega að synda en all­ar breyt­ing­ar eru mögu­leg­ar með góðum vilja og minna vægi sund­kennsl­unn­ar gæti skapað svig­rúm fyr­ir aðrar aðkallandi grein­ar. Skóla­sam­fé­lagið þyrfti svo í sam­ein­ingu að ákveða, hvernig sá tími yrði best nýtt­ur.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Á næsta kjörtímabili

Deila grein

23/08/2021

Á næsta kjörtímabili

Á engu hafði ég eins mikla óbeit þegar ég æfði íþróttir á yngri árum og útihlaupum. Tilbreytingalaus og langdregin og enginn fótbolti. Virtust allt að því tilgangslaus. Því var það einn góðan veðurdag að ég mannaði mig upp í að ræða þetta mál við þjálfarann. Fá einhverja umræðu um þessa afstöðu mína og botn í málið. Svarið sem barnið fékk var snjallt og þurrkaði út allar efasemdir mínar á augabragði; „Ágúst, ef þú getur bent mér á smið sem byggir hús án þess að byrja á grunninum, þá máttu endilega biðja hann um að hafa samband við mig.“ Þetta virkaði mjög hvetjandi á mig og steinlá hjá þjálfaranum, efasemdir mínar þurrkuðust út í einni svipan. Sýn þjálfarans var rökrétt og eðlileg, sá sem hefur úthaldið í hlaupin byggir tæknina ofan á það, en sá sem ekki getur hlaupið á kannski ekki mikið erindi í boltann.

En úr æskuminningum yfir í raunveruleikann. Verkefni stjórnvalda á næsta kjörtímabili verður einmitt þetta, svolítið langhlaup til að byrja með. Við þurfum að halda áfram að treysta þá innviði sem markvisst hafa verið byggðir upp á kjörtímabilinu; og má þar helst nefna stórátak í samgöngumálum vítt og breitt um landið. Á öðrum sviðum þarf að lyfta grettistaki, líkt og í heilbrigðismálum. Það þarf að búa atvinnulífinu og fyrirtækjum slíkt umhverfi að þau geti tekist á við krefjandi verkefni. Það þarf að auka verðmætasköpun og fyrirtækin þurfa að geta fjárfest í tækjum og tólum til þess að standast samkeppni og ekki síður til að ráða fólk í vinnu. Saman mun þetta auka verðmætasköpun í þjóðfélaginu, öllum til góðs.

Einstaka menn telja að þetta verði best gert með því að veðja á þjóðfélagsgerð sem víða um heim er hruninn með ómældum hörmungum fyrir þegnana. Það skal fullyrt að boðberar hennar eru á villigötum. Framleiðslutæki þjóðfélaga verða ekki þjóðnýtt, þjóðinni til heilla, heldur yrði það þvert á móti okkar sameiginlega hörmung. Öflugt atvinnulíf er forsenda velferðar; góðrar heilbrigðisþjónustu, traustra menntastofnanna og blómlegs menningarlífs. Það kann vissulega að vera að einhverjir vilji nú prófa úrelt og mannskemmandi fyrirkomulag, svona beint ofan í COVID-19. En frá mínum bæjardyrum séð, held ég að sú aðferðafærði sé fullreynd og alger óþarfi að taka þá áhættu. Við þurfum að halda áfram án öfga til hægri eða vinstri og með skynsemina á lofti. Framtíðin ræðst á miðjunni.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs í Hafnarfirði og situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Hver er fram­tíð ís­lenskrar mat­væla­fram­leiðslu?

Deila grein

23/08/2021

Hver er fram­tíð ís­lenskrar mat­væla­fram­leiðslu?

Það er sorglegt að flókið regluverk, úr sér gengin löggjöf, steinrunnar stofnanir og skilningsleysi kerfisins sé dragbítur framfara og verðmætasköpunar í íslenskri matvælaframleiðslu. Á sama tíma höfum við fjölmörg sóknarfæri í óbeisluðum krafti, hugviti, auðlindum og dugnaði í íslenskum sveitum og sjávarplássum. Þessi kraftur býður þess að fá að skapa verðmæti og velsæld, þjóðinni til heilla. Skilningsleysi verulegs hluta stjórnmálastéttarinnar, sem kristallast í úreltu regluverki og sorglegri vöntun á metnaðarfullri framtíðarsýn, eru hins vegar eins og myllusteinn sem halda aftur af framförum í íslenskum landbúnaði.

Raddir forneskju

Tveir kórar, skipaðir mismunandi röddum úreltra hugmynda, láta mikið að sér kveða í opinberri umræðu um íslenskan landbúnað. Annars vegar eru það þeir sem telja að lausn allra vandamála í íslenskum landbúnaði felist í því að moka sífellt meiri fjármunum inn í greinina. Slíkt hefur engin áhrif til langframa nema með fylgi breytt viðhorf og vel ígrundaðar kerfisbreytingar. Þá hrópa úr annarri átt þeir sem vilja að Ísland snúi baki við bændum og landsbyggðinni. Oft eru þessi skilaboð klædd í búning skrúðmælgi og því hnýtt við að Evrópusambandsaðild gæti leyst allan vanda. Megin þorri þjóðarinnar vill hins vegar ekki fórna landbúnaði, bændum og landsbyggðinni fyrir hagsmuni fámennar heildsalaklíku. Sem betur fer er staðan ekki svona svarthvít það eru fleiri hliðar á teningnum.

Sanngjörn samkeppni

Í heimi hraðra breytinga þarf að laga starfsskilyrði landbúnaðarins að breyttri heimsmynd og kröfum neytenda um betri vöru sem framleidd er á forsendum umhverfis, velferðar og heilnæmis. Það er forgangsatriði að laga regluverkið þannig að bændur og afurðarfyrirtæki þeirra geti keppt á sanngirnisgrundvelli við innflutning og erlenda verksmiðjuframleiðslu. Það eru engar töfralausnir til en það er ýmislegt sem hægt er að gera til að hjálpa íslenskum landbúnaði að bjarga sér sjálfur. Bændur eru ekki að biðja um ölmusu, heldur einfaldlega að leikreglurnar séu sanngjarnar.

Framsókn íslenskrar matvælaframleiðslu

Íslenskir bændur standa einstaklega vel að vígi þegar kröfur um umhverfisvænleika, loftslagsábyrgð og dýravelferð eru sífellt að verða háværari. Sjálfur hef ég í áratugi barist fyrir hagsmunum bænda og annarra matvælaframleiðenda á ýmsum vettvangi. Meðal annars lagt til aukna skógrækt, frelsi til samvinnu afurðastöðva, meiri stuðning við nýsköpun og svo mætti áfram telja. Íslenskir bændur og aðrir matvælaframleiðendur standa frammi fyrir fjölda tækifæra í heimi þar sem vaxandi eftirspurn er eftir afurðum sem framleiddar eru á forsendum helstu styrkleika Íslands. Við þurfum að sjá þessa styrkleika og nýta okkur þá. Nú er kominn tími til að láta verkin tala og hefja fyrir alvöru framsókn íslenskrar matvælaframleiðslu.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar og er í framboði fyrir sama flokk í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Börnin okkar

Deila grein

20/08/2021

Börnin okkar

Í heimi sem einkennist af síauknum hraða og kapphlaupi við lífsins gæði, hættir okkur til að gleyma því sem mestu máli skiptir. Við gleymum að hugsa um heilsuna og vöknum upp við það einn daginn að við erum komin upp við vegg. Við gleymum að rækta samböndin sem allt í einu eru kulnuð. Við gætum ekki að því að njóta samvista með börnunum okkar sem allt í einu eru orðin fullorðin. Við gerum öll sömu mistökin. Dag eftir dag, ár eftir ár.

Mörg höfum við orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að ala upp börn. Börn setja alla hluti í annað samhengi og opna fyrir okkur víddir sem við vissum ekki að væru til. Allt í einu er ekkert eins og áður. Við grátum af gleði. Við óttumst skyndilega hluti sem áður voru sjálfsagðir. Við upplifum tilfinningar af áður óþekktum styrk og það rennur upp fyrir okkur þegar við horfum á börnin að í þeim koma saman allir geislar sólarinnar. Allar gersemar mannlegrar tilvistar.

Framfarir

Mörg helstu framfaraskref sögunnar eiga það sameiginlegt að vera svo augljós, en aðeins þegar einhver annar hefur rutt veginn. Oft af ómældum metnaði sem drifinn er áfram af skýrri sín á markmiðið og tilganginn. Mér varð hugsað til þess þegar ég las viðtal við Ásmund Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra Framsóknarflokksins, þar sem hann lýsti því hvers vegna hann setti málefni barna í algeran forgang, að þarna hefði hann stigið skref af þessu tagi. Augljóst framfaraskref og vakti mann til umhugsunar hvers vegna þetta hafði ekki verið gert fyrir löngu. Hvað gæti eiginlega skipt meira máli?

Vegferð Ásmundar og þess öfluga Framsóknarfólks sem er honum að baki hefur verið aðdáunarverð og á skömmum tíma hefur hann hrundið í framkvæmd kerfisbreytingum sem skipta munu sköpum í lífi barna og aðstandenda þeirra. Í stað þess að börn og aðstandendur þurfi að aðlaga sig að flóknu kerfinu verður kerfið aðlagað til að mæta fjölbreyttum þörfum barnanna. Börnin miðpunkturinn og þarfir þeirra aðalatriðið. Við þurfum nefnilega æði mörg stuðning og aðstoð þegar á reynir og hvert einasta barn sem við náum að styðja til betra lífs er verðmætara en allt gull heimsins. Margt er enn óunnið, en ég vona sannarlega að Ásmundur leiði þá vegferð sem hann hefur komið af stað á komandi kjörtímabili. Það er kjósenda að tryggja að svo verði.

Helgi Héðinsson, oddviti Skútustaðahrepps og frambjóðandi Framsóknarflokksins í komandi alþingiskosningum.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Það sem enginn þorir að ræða!

Deila grein

20/08/2021

Það sem enginn þorir að ræða!

Grænir orkugjafar hafa verið grundvöllur lífsskilyrða í landinu og knúið efnahagslífið áfram. Við Íslendingar höfum náð eftirtektarverðum árangri við útskiptum jarðefnaeldsneytis fyrir hreina orkugjafa og nú liggur fyrir að taka þarf enn stærri skref. Stóra áskorunin sem við stöndum frammi fyrir felst í orkuskiptum í samgöngum á landi, lofti og sjó. Flestir virðast vera sammála því að ráðast þurfi í orkuskipti – hins vegar nálgast enginn umræðuna út frá því hvaðan sú græna orka eigi að koma.

Samkvæmt orkustefnu Íslands er markmiðið að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2050. Þetta er loftlagsvænt og efnahagslegt markmið. Við sem þjóð erum í einstakri stöðu á heimsvísu til að auka nýtingu innlendra, hagkvæmra og hreinna orkugjafa í samgöngum til að ná þessu markmiði.

Aukin eftirspurn eftir grænni orku

Ljóst er að orkuþörf heimsins muni aukast á komandi árum. Þjóðir allt í kringum okkur gera ráð fyrir umtalsvert aukinni orkuþörf og áskorunin sem er að tryggja að þessari þörf sé mætt með grænni orku. Því er viðbúið að verðmæti hennar muni vaxa á komandi árum.

Samkvæmt núverandi raforkuspá fyrir Ísland er gert ráð fyrir að orkuþörf hér á landi geti aukist um tæplega 60% til ársins 2050 í stærstu sviðsmyndinni. Stoðir samfélagsins, atvinnulífið sem og heimilin í landinu, munu áfram þurfa græna orku. Þar að auki þarf orku í orkuskiptin. Það er því forgangsmál að skoða hvaða möguleikar eru fýsilegir til að veita okkur aukna orku og mikilvægt að greina og velja hagkvæmustu orkukostina.

Græn orka – olía Íslands

Líkt og orkustefnan kemur inn á eykur það hagkvæmni og dregur úr áhættu að hafa fjölbreyttar lausnir í grænni orkuöflun. Vatnsorka, vindorka og jarðvarmi eru orkukostir sem horfa þarf til ef mæta á aukinni orkuþörf á komandi árum, en þessir valkostir eru ein stærsta auðlind Íslendinga. Því skýtur skökku við hvernig ýmsir ráðamenn, sem vilja ýta þessum óumflýjanlegu orkuskiptum hratt og vel í gegnum kerfið, skirrast við að ræða hvaðan hreina orkan á að koma. Vilja jafnvel þrengja að tækifærum þjóðarinnar til grænnar orkuframleiðslu eins og tillögur um Hálendisþjóðgarð sýna glöggt.

Það er ekki bæði haldið og sleppt í þessu samhengi, ef bæði fyrirsjáanleg aukning í orkunotkun Íslendinga og aukin orkuþörf í orkuskiptin eiga að geta átt sér stað er nauðsynlegt að ræða af fullri alvöru hvaðan við eigum að fá innlendu grænu orkuna sem á að koma í stað innflutts jarðefnaeldsneytis.

Lykillinn að árangri í loftlagsmálum

Íslendingar hafa sýnt það í gegnum árin að við höfum þekkingu og reynslu að virkja náttúruna og á sama tíma umgangast landið okkar af virðing og varfærni.

Ef þjóðin heldur rétt á spilunum eru mikil tækifæri á Íslandi falin í öflun á grænni orku. Fáir eru í betri færum til að taka orkuskipti alla leið, byrja á bílaflotanum, horfa svo til vinnuvéla og skipaflotans og loks til flugsamgangna í framtíðinni, eftir því sem grænni tækni fleygir fram. Traustir orkuinnviðir um land allt eru lykillinn að að þessari umbreytingu og þeim árangri í loftlagsmálum sem við gætum náð. Því er mikilvægt að hugsa og nálgast málin af skynsemi, vega og meta þá kosti sem eru í boði og taka ákvarðanir sem koma sér vel fyrir framtíðarkynslóðir í landinu til lengri tíma. Ef við ætlum að vera forystuþjóð á sviði grænnar orku – þá þurfum við að afla hennar. Það liggur í augum uppi. Skynsemin liggur á miðjunni.

Ingibjörg Isaksen, oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi við næstu Alþingiskosningar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Betri þjónusta og aukin lífsgæði eldra fólks

Deila grein

20/08/2021

Betri þjónusta og aukin lífsgæði eldra fólks

Á því kjör­tíma­bili sem er að líða lýsti ég því yfir að mín aðaláhersla yrði mál­efni barna. Það væri brýnt að fjár­festa í börn­um sem allra fyrst, það er nefni­lega hag­kvæmt og dreg­ur úr þeim kostnaði sem hlýst síðar meir af því að sinna þeim mála­flokki ekki nægi­lega vel. Bæði fjár­hags­leg­um kostnaði og ekki hvað síst þeim kostnaði, bæði sam­fé­lags­leg­um og efn­is­leg­um, sem hlýst af fyr­ir viðkom­andi barn og fjöl­skyldu þess allt frá upp­hafi og kostnaði sem barnið fær­ir með sér upp á full­orðins­ár. En fyr­ir ligg­ur að börn sem verða fyr­ir áföll­um í æsku, sem ekki eru tækluð snemma og á rétt­an hátt, taka þau áföll með sér áfram í líf­inu og eiga það á hættu að þróa með sér and­leg­an og lík­am­leg­an vanda sem veld­ur því að þau glíma við sjúk­dóma og ann­ars kon­ar erfiðleika, lifa styttra og geta síður gefið til baka til sam­fé­lags­ins á síðari árum. Fjár­fest­ing í börn­um dreg­ur úr fjár­magni sem ríkið þarf að inna af hendi síðar, til dæm­is til heil­brigðis­kerf­is, greiðslu ör­orku­líf­eyr­is, greiðslur sem falla til í refsi­vörslu­kerf­inu og ann­ars staðar.

Í upp­hafi kjör­tíma­bils fundaði ég með fjöl­mörg­um aðilum sem höfðu reynslu og upp­lýs­ing­ar um hvernig við gæt­um breytt vel­ferðar­kerf­inu fyr­ir börn og fjöl­skyld­ur þeirra. Börn­in sjálf voru spurð, for­eldr­ar þeirra, aðrir fjöl­skyldumeðlim­ir, fagaðilar og ekki síst þeir ein­stak­ling­ar sem hefði þurft að aðstoða á barns­aldri en eru orðnir full­orðnir nú.

Ein­stak­ling­ur­inn á að vera hjartað í kerf­inu

Upp úr stóð að meiri­hluti lýsti því að kerfið væri flókið. Fjöl­skyld­um fannst að þær þyrftu að eyða mikl­um tíma í það að finna út hvaða þjón­ustu þær þyrftu, hvar slíka þjón­ustu væri að fá og sækja hana, oft til nokk­urra mis­mun­andi aðila. Kerf­inu var lýst sem völ­und­ar­húsi og ljóst að það væri ekki á færi allra að rata gegn­um það.

Síðastliðið vor samþykkti Alþingi frum­varp mitt til nýrra laga um samþætt­ingu þjón­ustu í þágu far­sæld­ar barna. Lög­fest­ing skipu­lags samþættr­ar þjón­ustu við börn þvert á alla þjón­ustu­veit­end­ur er ein­hver sú stærsta kerf­is­breyt­ing sem ráðist hef­ur verið í í mál­efn­um barna í seinni tíð. Breyt­ing sem aldrei hefði verið hægt að ná í gegn án gíf­ur­lega um­fangs­mik­ils sam­ráðs og þátt­töku fjöl­margra aðila sem koma að mál­efn­um barna hér á landi. Meira en 1.000 manns komu að vinn­unni með ein­um eða öðrum hætti á þriggja ára tíma­bili, börn, for­eldr­ar og sér­fræðing­ar, þvert á ráðuneyti, kerfi, fag­stétt­ir og póli­tík. Við ákváðum að fjár­festa í fólki vegna þess að það er ein arðbær­asta fjár­fest­ing­in.

Við þurf­um nýja nálg­un

Þessa reynslu má nýta til um­bóta í öðrum mála­flokk­um þar sem þörf er á samþætt­ingu þjón­ustu og betra sam­tali þjón­ustu­veit­enda. Meðal þeirra mála­flokka eru mál­efni eldra fólks.

Íslenska þjóðin er að eld­ast. Nú er sjö­undi hver landsmaður 65 ára eða eldri en árið 2050 verður fjórði hver landsmaður á þeim aldri. Breytt ald­urs­sam­setn­ing þjóðar­inn­ar ger­ir meiri og aðrar kröf­ur til

ým­issa þjón­ustu­veit­enda svo tryggja megi öldruðu fólki hér á landi frelsi, fjár­hags­legt ör­yggi og góð lífs­gæði. Til þess að svo megi vera þarf þjón­usta við eldra fólk að taka mið af þörf­um ein­stak­linga og ganga þvert á kerfi og stofn­an­ir. Með öðrum orðum, við þurf­um að samþætta þjón­ustu við eldra fólk, þvert á kerfi, ráðuneyti og sér­fræðinga og tryggja heild­ræna sýn á mál­efni hvers ein­stak­lings með sam­starfi allra viðeig­andi þjón­ustu­veit­enda. Mik­il­vægt er að hér á landi verði mótuð heild­stæð nálg­un á það hvernig skuli haga slíku sam­starfi í þágu rétt­inda og lífs­gæða eldra fólks.

Þau mál­efni sem eldra fólk lýs­ir hvað helst eru að vissu leyti sam­bæri­leg við þau mál­efni sem lýst var í þeirri vinnu sem snýr að börn­um. Þjón­usta við eldra fólk er á hendi margra mis­mun­andi þjón­ustu­veit­enda sem heyra und­ir mis­mun­andi ráðuneyti. Ekki þarf allt eldra fólk sams kon­ar þjón­ustu – hóp­ur­inn er afar mis­mun­andi inn­byrðis, enda um að ræða fólk á aldr­in­um 67-100 ára, 67 ára ein­stak­ling­ur sem er að láta af störf­um eða minnka við sig hef­ur al­mennt ekki sömu þarf­ir og sá sem er 100 ára gam­all – og einn 75 ára ein­stak­ling­ur hef­ur hreint ekki sömu þjón­ustuþarf­ir og ná­granni hans/​henn­ar sem einnig er 75 ára.

Það er al­gjört lyk­il­atriði að ein­stak­ling­ur­inn sjálf­ur eða aðstand­end­ur hans þurfi ekki að vera sér­fræðing­ar í þjón­ustu til eldra fólks, eða viti strax hvaða þjón­ustu þörf sé á, hvar hana sé að finna og í viss­um til­fell­um tengja sam­an tvo eða fleiri þjón­ustu­veit­end­ur sem veiti heild­ræna þjón­ustu. Þetta er ekki hlut­verk aðstand­enda og ekki eldra fólks­ins sjálfs, ein­stak­ling­ur­inn þarf að vera hjartað í kerf­inu.

Á kom­andi kjör­tíma­bili vil ég setja mál­efni eldra fólks í sama far­veg og mál­efni barna á kjör­tíma­bil­inu sem er að líða. Við höf­um þegar sýnt að það er mögu­legt að fara í stór­ar kerf­is­breyt­ing­ar. Þjón­usta við eldra fólk get­ur verið og á að vera svo miklu ein­fald­ari. Við þurf­um að fjár­festa í fólki vegna þess að það er arðbær­asta fjár­fest­ing­in út frá öll­um hliðum.

Fyr­ir ein­stak­ling­inn og sam­fé­lagið allt. Við erum nefni­lega rétt að byrja!

Ásmundur Einar Daðason, fé­lags- og barna­málaráðherra og fram­bjóðandi fyr­ir xB í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi norður.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. ágúst 2021.