Categories
Fréttir

Áhersla á að greiða niður skuldir og minnka vaxtabyrði og þar með styrkja stöðu ríkissjóðs

Deila grein

17/09/2019

Áhersla á að greiða niður skuldir og minnka vaxtabyrði og þar með styrkja stöðu ríkissjóðs

Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi og formaður fjárlaganefndar, fór yfir, í 1. umræðu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020 á Alþingi, að í heildarmyndinni í samhengi hagstjórnar þá sé fjármálastefna og peningamálastefna að spila saman, alla vega séu „sterkari vísbendingar um slíkt samspil, að ríkisfjármálin og peningastefnan leggist á sömu sveif um að umgjörðin og breytingar sem við höfum gert á henni, þá er ég að tala um lög um opinber fjármál, sé til þess fallin í þessu tilviki, horfandi á þetta frumvarp, að mæta hjaðnandi hagvexti eða samdrætti, eftir því hvernig það fer. Það liggur fyrir og staðfestist í frumvarpinu,“ sagði Willum Þór.
Í vaxtaákvörðunum Seðlabankans í samspili við peningastefnuna sést að ábyrgir kjarasamningar hafa skapað þær forsendur að hægt sé að lækka vexti eins og Seðlabankinn hefur gert.
„Það má spyrja sig hvort ekki væri sama togstreitan uppi og fyrr varðandi ríkisfjármálastefnu og peningastefnu ef ekki væri fyrir skynsamlega ráðstöfun ríkisfjár, aukinn aga og fyrirsjáanleika, hvort slíkt samspil væri til staðar sem við sjáum í vaxtalækkunarferli Seðlabankans,“ sagði Willum Þór.
„Nú þegar dregur úr hagvexti hefði slíkt samspil auðvitað ekki verið mögulegt nema fyrir skynsamlega ríkisfjármálastefnu, markvissar áætlanir og fjárlög sem uppfylla grunngildi ríkisfjármála með áherslu á að greiða niður skuldir og minnka vaxtabyrði og þar með styrkja stöðu ríkissjóðs. Mér finnst þetta vera stóra myndin. Mér finnst þetta vera skilaboðin. Og þetta er mikilvægt í samhengi hagstjórnar,“ sagði Willum Þór.
***

Fjárlög 2020 – ræða Willum Þórs Þórssonar, alþingismanns og formanns fjárlaganefndar:


„Hæstv. forseti. Við fjöllum hér í 1. umr. um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020. Frumvarpið hefur, held ég að megi segja, aldrei verið kynnt fjárlaganefnd og fjölmiðlum jafn snemma, þ.e. áður en það kemur á dagskrá þingsins. Það er að einhverju marki til marks um bætt vinnubrögð, skilvirkara ferli í öllu falli. Það hefur auðvitað þá kosti að þingmenn hafa meiri tíma til að kynna sér frumvarpið, sem er eðli máls viðamikið og spannar allt sviðið.
Þrátt fyrir að hafa haft meiri tíma en áður til að fara yfir helstu svið og flokka finnst mér við hæfi í 1. umr. að skoða heildarmyndina eins og hún birtist í formi gjalda og tekna og einnig áhrif og hlutverk ríkisfjármálastefnunnar í samhengi hagstjórnar, og mér finnst umræðan hafa verið svolítið þar í dag, hingað til alla vega, og máta hana við efnahagslega þróun í okkar hagkerfi, sem er að vissu marki háð því sem annars staðar gerist í okkar helstu viðskiptalöndum. Í greinargerð í kafla 2.3 með frumvarpinu er fjallað allítarlega um hagþróun í helstu viðskiptalöndum okkar. Eins finnst mér það eðlileg nálgun í umræðunni að tengja hana þeirri mynd sem við skildum við í umfjöllun um ríkisfjármálaáætlun fyrir tímabilið 2020–2024.
Í umfjöllun um fjármálaáætlun og samþykkt fjármálaáætlunar fórum við samhliða í breytingar á fjármálastefnu þar sem óvissusvigrúm var byggt inn í stefnuna. Það er til þess fallið að auka áreiðanleika þess að áætlanir haldi, sem skilar sér síðan inn í fjárlagafrumvarpið. Þetta er mikilvægt og fjármálaráð hefur margoft bent á það. Á þeim tíma var uppi óvissa í ferðaþjónustu um afdrif flugfélagsins WOW air og um loðnuveiðar og má segja að við höfum á þeim tíma sem við fjölluðum um málið, og hagspár voru að breytast hratt, upplifað skelli á framboðshliðinni.
Í samþykktri ríkisfjármálaáætlun er boðað að halda sig við fyrri áform um uppbyggingu og útgjöld og gefa eftir fyrirhugaðan afgang frá fyrri stefnu. Þetta fjárlagafrumvarp er í raun staðfesting á þeim áformum, sem er gríðarlega mikilvægt þegar við horfum til árangurs og hagstjórnar. Það hefur lengi verið gagnrýnt að fjármálastefna og peningamálastefna spili ekki saman. En nú sjáum við það gerast, alla vega eru sterkari vísbendingar um slíkt samspil, að ríkisfjármálin og peningastefnan leggist á sömu sveif um að umgjörðin og breytingar sem við höfum gert á henni, þá er ég að tala um lög um opinber fjármál, sé til þess fallin í þessu tilviki, horfandi á þetta frumvarp, að mæta hjaðnandi hagvexti eða samdrætti, eftir því hvernig það fer. Það liggur fyrir og staðfestist í frumvarpinu. Í þriðja lagi horfum við á sama tíma til vaxtaákvarðana Seðlabankans í samspili við peningastefnuna og sjáum að í raun hafa ábyrgir kjarasamningar skapað þær forsendur að hægt sé að lækka vexti eins og Seðlabankinn hefur gert. Meginvextir Seðlabankans hafa ekki verið lægri áður eins og fram hefur komið í umræðunni. Það má spyrja sig hvort ekki væri sama togstreitan uppi og fyrr varðandi ríkisfjármálastefnu og peningastefnu ef ekki væri fyrir skynsamlega ráðstöfun ríkisfjár, aukinn aga og fyrirsjáanleika, hvort slíkt samspil væri til staðar sem við sjáum í vaxtalækkunarferli Seðlabankans. Nú þegar dregur úr hagvexti hefði slíkt samspil auðvitað ekki verið mögulegt nema fyrir skynsamlega ríkisfjármálastefnu, markvissar áætlanir og fjárlög sem uppfylla grunngildi ríkisfjármála með áherslu á að greiða niður skuldir og minnka vaxtabyrði og þar með styrkja stöðu ríkissjóðs. Mér finnst þetta vera stóra myndin. Mér finnst þetta vera skilaboðin. Og þetta er mikilvægt í samhengi hagstjórnar.
Ég verð að taka fram hér mikilsvert framlag vinnumarkaðarins með ábyrgum kjarasamningum. Það samtal sem þeir aðilar áttu við ríkisstjórnina um framlag til þeirra samninga birtist nú í algjörlega nýrri hugsun og útfærslu á tekjuskatti einstaklinga með nýju grunnþrepi og innbyggðum neysluverðs- og framleiðniviðmiðum, þannig að launþegar munu njóta þess hagvaxtar þegar fram í sækir. Þessar aðgerðir létta skattbyrðinni mest af lægri tekjuhópum og millitekjuhópum. Það er mjög fróðlegt að líta aðeins á þá mynd hvernig þetta fer eftir mismunandi launum. Það er augljóst að skattbyrðin rénar í rúmlega 900.000 kr., frá lægstu launum. Mest lækkar hún í lægri tekjum og millitekjum. Það er mjög mikilvægt að horfa á raundæmi þar.
Þá má ekki gleyma hinni hlið vinnumarkaðarins, rekstrargrundvelli fyrirtækja. Þar er atvinnustigið undir og tryggingagjaldið vegur þungt í því efni. Það verður lækkað um 0,25 prósentustig, um sama hlutfall og á þessu ári. Þessar aðgerðir og fleiri til — það má nefna aðgerðir til lengingar fæðingarorlofs, hækkun barnabóta og hækkun skerðingarmarka barnabóta, aðgerðir í húsnæðismálum, uppbyggingu félagslegs húsnæðis, aukinn stuðning við fyrstu kaupendur, stuðningur við húsnæðisuppbyggingu á köldum svæðum — gera meira en að bæta hag og lífskjör. Allar eru þær til þess fallnar að jafna kjör og auka jöfnuð, sem við Framsóknarmenn leggjum mikla áherslu á í okkar stefnu og birtist svo um munar í þessu fjárlagafrumvarpi. Þetta er að finna einnig í sáttmála og aðgerðum ríkisstjórnarinnar.
Nú gefur ríkisstjórnin eftir, eins og ég kom að, fyrirhugaðan afgang frá fyrri stefnu, frá því að vera 0,9% af vergri landsframleiðslu, u.þ.b. 30 milljarðar, og skilar ríkissjóði í jafnvægi og getur á sama tíma haldið áfram að uppfylla loforð stjórnarsáttmála um auknar innviðafjárfestingar. Ég segi haldið áfram vegna þess að fjárfestingar hafa verið auknar allt kjörtímabilið frá ári til þess næsta, hlutfallslega mest til samgöngu– og fjarskiptainnviða. Áfram er áhersla á heilbrigðismál og efling velferðarmála er í forgangi, aukinn kraftur settur í uppbyggingu nýs meðferðarkjarna Landspítalans, en 8,5 milljarðar eru settir í verkefnið 2020. Það er mikilvægt við svo stóra framkvæmd að við fylgjumst vel með og að þær tefjist ekki vegna þess að allar tafir á slíku stórverkefni geti orðið kostnaðarsamar.
Hæstv. ríkisstjórn leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál og leggur kapp á að koma í veg fyrir áhrif loftslagsbreytinga á lífríki og lífríki hafsins. Þar gegna rannsóknir lykilhlutverki og smíði nýs hafrannsóknarskips er mikilvægt framlag til að efla rannsóknir á því sviði. Ríkisstjórnin fylgir þessu eftir með raunverulegum aðgerðum, með uppbyggingu innviða, með grænum sköttum. Auðvitað eru slíkir skattar ávallt umdeildir en þeir eru hluti af því ef árangur á að nást. Þá dugar ekkert minna en raunverulegar aðgerðir og hvatar í þá veru og sameiginlegt átak. En þessum sköttum er ekki beinlínis ætlað að afla tekna heldur að vera hvati til þess að ná fram hraðari orkuskiptum í samgöngum.
Um leið og það er ánægjulegt að sjá áherslur stjórnarsáttmálans raungerast í fjármálaáætlun og svo fjárlagafrumvarpi í þeim verkefnum sem ég hef komið inn á í minni ræðu, forgangi og eflingu heilbrigðis- og velferðarþjónustu, heilbrigðisstefnu og þjónustu við landsmenn í forgrunni má auðvitað nefna margt annað. Hækkun á frítekjumarki atvinnutekna aldraðra þessu tengt, styrkingu heilsugæslunnar, aukin framlög til að draga úr tannlæknakostnaði aldraðra, átaki í samgönguframkvæmdum og stóraukin framlög til málaflokksins. Aukin framlög til byggðamála um uppbyggingu innviða, fjárfestingar ýmiss konar þessu tengdar, til löggæslu og landhelgisgæslu, þyrlukaup, aðgerðir á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Og ég vil koma að lokum inn á nýsköpun, rannsóknir og menntamál þar sem við erum að leggja verulega til. Þar horfum við auðvitað til eflingar mannauðs, atvinnulífs og framtíðar hagvaxtar. Mikil sókn er í menntamálum og farið í raunverulegar aðgerðir til að hlúa að kennarastarfinu, fjármagna aðgerðir fyrir umgjörð lánasjóðsins til að auka aðgengi og jöfnuð námsmanna, aðgerðaáætlun fyrir tungumálið, stuðningur við bókaútgáfu og breytingar á rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Sjaldan eða bara aldrei fullyrði ég er menntun og menningu jafn sterkt á dagskrá og nú. Það er verið að auka framlög útgjöld til þessara mála í samræmi við sáttmála og áætlanir allt tímabilið og er aukning heildarútgjalda mismunandi eftir málaflokkum en 4,9% að raunvirði. Ef við skoðum málefnasviðin er hlutfallsleg aukning á tímabili ríkisstjórnarinnar mest til samgöngu– og fjarskiptamála.
Að lokum, virðulegi forseti, þetta: Með jafnvægi í ríkisfjármálum er stuðlað að áframhaldandi efnahagslegum stöðugleika og sjálfbærni ríkisfjármála.“

Categories
Fréttir

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Díana Hilmarsdóttir

Deila grein

16/09/2019

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Díana Hilmarsdóttir

Í Reykjanesbæ var Díana Hilmarsdóttir, forstöðumaður og bæjarfulltrúi, í öðru sæti á framboðslista Framsóknar í sveitarstjórnarkosningunum 2018. Díana er fædd á Skaganum, bjó fyrstu níu árin í Ólafsvík á Snæfellsnesi og lauk síðustu grunnskólaárunum í Garðabæ. Hún gekk í Kvennaskólann í Reykjavík en skellti sér svo til Bandaríkjanna í ár sem au pair. Díana bjó í höfuðborginni þegar hún kynntist manninum sínum, þau fluttu saman til Keflavíkur árið 2000. Díana er gift Önundi Jónassyni, véltæknifræðingi og Keflvíkingi og á þrjú börn, fædd 1997, 2003 og 2005. „Sá yngsti er í Heiðarskóla, dóttir mín fædd 2003 byrjaði í framhaldsskóla í haust og valdi Fjölbrautaskólann í Garðabæ. Elsti sonur minn er í námi í sálfræði við Delta State University í Cleveland í Missisippi í Bandaríkjunum auk þess að spila fótbolta og er hann á þriðja ári.“
Díana er forstöðumaður Bjargarinnar, geðræktarmiðstöðvar Suðurnesja. Þau hjónin skelltu sér í nám í Danmörku árin 2005 til 2009 þar sem Díana hóf nám í félagsráðgjöf og lauk því svo hér heima og er með BA-gráðu í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands. Díana lauk námi, vorið 2018, í fjármálum og rekstri frá endurmenntun Háskóla Íslands. Hún er í dag í diplómanámi í opinberri stjórnsýslu í fjarnámi við HÍ.

Hvers vegna stjórnmál?

Díana brennur fyrir velferðarmálum og þá sérstaklega geðheilbrigðismálum og vill þar sjá bætta þjónustu og auknar forvarnir. Hún vill einnig sjá gagngera endurskoðun á rekstri HSS og aðkomu heimamanna að starfseminni. Málefni aldraðra skipta Díönu miklu máli, fjölgun hjúkrunarrýma og að hjón geti verið saman út ævikvöldið þrátt fyrir mismunandi heilsufar. Díana er fjárhaldsmaður fyrir sjö einstaklinga skipuð af sýslumanni og hefur sinnt því frá árinu 2015.
„Ég hef alltaf talið mig ópólitíska en áttaði mig svo á því að ég væri mjög pólitísk, ég var með skoðanir á hinu og þessu og sérstaklega velferðarmálum, en taldi mér trú um að mitt álit skipti ekki máli og að ég gæti ekki haft áhrif á eitt eða neitt enda bara ein manneskja og hver ætti svo sem að hlusta? Svo er það – ég veit ekki hvað nákvæmlega gerðist en ég áttaði mig einn daginn: „Af hverju ekki ég, frekar en einhver annar?“ Ég er með reynslu og þekkingu á velferðarmálum og hef unnið í þeim málaflokki frá árinu 2010 – „teningunum er kastað“.“

„Tel mig hafa þá þekkingu og reynslu sem þarf“

„Ég er dugleg og brenn fyrir því sem ég geri. Ég er baráttumanneskja og ég er þrjósk en líka diplómatísk og réttsýn. Ég er ekki mikið fyrir rifrildi og leðjuslagi, ég vil að fólk og ólíkir hópar geti unnið saman með hagsmuni bæjarins að leiðarljósi. Ég er ný í pólitík og tel það mikinn kost þar sem ég er ómörkuð, ef svo má að orði komast. Mér þykir vænt um bæinn minn og ég vil taka þátt í að byggja hann upp og gera hann blómlegan og tel mig hafa þá þekkingu og reynslu sem þarf til þess. Við Framsóknarfólk erum trú okkur, fylgjum hjartanu og vinnum af heilindum. Við erum raunsæ og lofum ekki upp í ermina á okkur. Við komum til dyranna eins og við erum klædd.“
Díana vill einnig sjá sem best haldið utan um aðlögun íbúa af erlendum uppruna svo að þeir komist vel og örugglega inn í samfélagið.
Díana hefur endurvakið þverfaglegt teymi fagaðila í velferðarþjónustu og heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum. Með því að hafa sameiginlegan vettvang til umræðna geta þessir aðilar sinnt skjólstæðingum sínum betur. Meðal þeirra sem að teyminu koma eru félagsþjónusturnar á svæðinu, félagsleg heimaþjónusta, Björgin, geðteymi og fleiri deildir innan HSS.
Ásamt aðila frá Rauða krossinum er Díana að vonast til að geta hafist handa von bráðar hér á Suðurnesjum með „Frú Ragnheiði“ verkefni, líkt og starfrækt er í Reykjavík. Frú Ragnheiður er verkefni sem hefur skaðaminnkun að leiðarljósi og nær til jaðarhópa í samfélaginu eins og heimilislausra og vímuefnaneytenda. Ungu fólki í harðri neyslu fer því miður fjölgandi á Suðurnesjum en meðal þess sem Frú Ragnheiður gerir er að veita heilbrigðisráðgjöf, nálaskiptaþjónustu og skaðaminnkandi ráðgjöf um öruggari leiðir í sprautunotkun og smitleiðir á HIV og lifrarbólgu.

Áherslumál Framsóknar í Reykjanesbæ

Stjórnsýslan er lykilatriði til árangurs á öllum sviðum. B-listinn vill sérstaklega sjá meira samtal við bæjarbúa, meira gegnsæi og meiri samvinnu. • Við þurfum að tryggja að íbúar okkar njóti góðs af nálægð við alþjóðaflugvöllinn. • Við ætlum að efla ímynd svæðisins og laða að okkur fjölbreyttari atvinnurekstur, ekki síst sem veitir góð störf fyrir fólk með menntun. • Við viljum sjá stóreflingu ferðaþjónustu á Reykjanesinu öllu en ekki síst tryggja hagsmuni Reykjanesbæjar í þessum málaflokki. • Gildi íþrótta þegar kemur að forvörnum fyrir börn og unglinga er margsannað, auk þess sem öflugt íþróttastarf veitir öllum bæjarbúum innblástur til heilsueflingar og heilbrigðs lífsstíls. • Reykjanesbær er menningarbær og við getum verið stolt af frábærum verkefnum, hátíðum og árlegum viðburðum í þeim málaflokki. Við viljum efla það góða menningarstarf enn frekar. • Reykjanesbær hefur náð góðum árangri í menntamálum og mjög mikilvægt að það góða starf festi sig í sessi. Í Reykjanesbæ starfa hæfir og áhugasamir kennarar, sú auðlind verður seint metin til fjár. • Líkamlegt og andlegt heilbrigði er undirstaða hamingjuríks lífs og við megum ekki gleyma til hvers allt þetta er: svo við getum notið lífsins með þeim sem okkur þykir vænt um.

Fréttir og greinar

„Fátt skemmtilegra en að ferðast“

Díana segist vera þessi klassíski dugnaðarforkur og alltaf að. „Ég veit fátt skemmtilegra en að ferðast. Hann Önundur minn er ættaður úr Dölunum og förum við árlega í leitir og réttir með stórfjölskyldunni sem er alveg dásamlegt. Ég æfði einnig fótbolta á yngri árum og finnst gaman að fylgjast með fótbolta í dag, fer á leiki og held með Liverpool í enska boltanum. Það hefur verið draumur hjá mér í mörg ár að fara út í sjálfboðastarf sem hefur smitast yfir til dóttur minnar og stefnum við að því  að láta þann draum rætast og fara í lágmark 6 vikur þegar hún útskrifast út framhaldsskóla.
Sá litli frítími sem gefst fer í að lesa góðar bækur, ræktina og sund en fyrst og fremst í að njóta tíma með fjölskyldunni heima fyrir. Svo er ég nammigrís og finnst fátt betra en snakk, bland í poka og góð mynd á laugardagskvöldi.
Hreindýrakjöt og humar er uppáhaldsmaturinn minn.“

Categories
Fréttir

Leiðarljósið verður samvinna og samfélagsleg ábyrgð

Deila grein

16/09/2019

Leiðarljósið verður samvinna og samfélagsleg ábyrgð

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, segir leiðarljósið vera samvinnu og samfélagslega ábyrgð í verkum Þingflokks Framsóknarmanna á Alþingi í vetur. Unnið verði að bættum hag fjölskyldna af festu svo þær njóti skilvirkari þjónustu og farsælla samfélags. Lykillinn að árangri sé samvinna. Þetta kemur fram í grein hennar í Morgunblaðinu á dögunum.
„Fé­lags- og barna­málaráðherra vinn­ur að um­bót­um á fæðing­ar­or­lofs­kerf­inu til að auka rétt for­eldra með leng­ingu or­lofs, hækk­un á mánaðarleg­um há­marks­greiðslum og end­ur­skoðun á for­send­um greiðslna,“ segir Líneik Anna.
„Heild­stæðar aðgerðir mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra hafa skilað sér í stór­auk­inni aðsókn að kenn­ara­námi sem und­ir­bygg­ir enn öfl­ugra mennta­kerfi til framtíðar. Í haust verður lagt fram frum­varp sem mun um­bylta lánaum­hverfi náms­manna.“

Categories
Fréttir

„Við höfum tækifæri til að verða sjálfbærari með orku“

Deila grein

16/09/2019

„Við höfum tækifæri til að verða sjálfbærari með orku“

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, hefur lagt fram á Alþingi þingsályktun um að mótaðir verði efnahagslegir hvatar til ræktunar orkujurta á Íslandi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar í dag.
„Við höfum tækifæri til að verða sjálfbærari með orku. Gætum jafnvel knúið stóran hluta fiskiskipaflotans með lífdíselolíu unna úr íslenskum orkujurtum. Einnig verða til hliðarafurði af jurtunum sem nýtast sem fóður og áburður. Umhverfisáhrif af ræktun orkujurta er einnig verulega jákvæð, ekki síst vegna þess að með ræktun þeirra gætum við fækkað kolefnisfótsporum með því að minnka innflutning á fóðri, díselolíu og áburði,“ segir Silja Dögg.

Categories
Fréttir

Ræða Ásmundar Einars Daðasonar – umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Deila grein

12/09/2019

Ræða Ásmundar Einars Daðasonar – umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra að verkefni fjölskyldna hafi breyst mikið samfara breyttum lífsháttum, en að heimilislífið hafi leitast við að aðlaga sig að flóknu samfélagi. Langur vinnudagur foreldra hafi orðið til þess að skólarnir taki orðið við auknu hlutverki í uppeldi barnanna. En Ásmundur Einar minnti á að fjölskyldan sé enn mikilvægasti aðilinn er kemur að umönnun og uppeldi barna.
„Kulnun, langur vinnudagur, mönnunarvandi, aukinn kvíði barna og ungmenna, fjölgun ungra einstaklinga á örorku, bágur efnahagur og skortur á viðeigandi húsnæði eru því miður dæmi um áskoranir sem íslenskt samfélag og stjórnvöld þurfa að horfast í augu við. Að hlúa að fjölskyldunni er fjárfesting til framtíðar og sterk og heilbrigð fjölskyldueining myndar sterkt íslenskt samfélag.“
„Núverandi ríkisstjórn er að vinna að mörgum aðgerðum og kerfisbreytingum til að styrkja stöðu fjölskyldna á Íslandi. Við erum að vinna að því að endurreisa fæðingarorlofskerfið með því m.a. að lengja rétt foreldra til fæðingarorlofs í 12 mánuði og hækka greiðslur í fæðingarorlofi. Þessi aðgerð ein og sér mun þýða 10 milljarða aukningu til fjölskyldna landsins á ársgrunni í lok þessa kjörtímabils. Við erum líka að vinna að mjög róttækum breytingum í málefnum barna sem miða að því að grípa unga einstaklinga fyrr á lífsleiðinni. Þar vinnum við í góðu samstarfi þvert á ráðuneyti og þvert á stjórnmálaflokka,“ sagði Ásmundur Einar.

***

Ræða Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra – í umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

„Virðulegur forseti. Góðir landsmenn.

Mig langar að ræða um grunneiningu og mikilvægustu einingu samfélagsins, fjölskylduna. Verkefni fjölskyldna hafa breyst mikið samfara breyttum lífsháttum, ekki síst á síðustu árum. Samfélagið er orðið flóknara og heimilislífið hefur leitast við að aðlaga sig að þessum breytingum. Breytt verkefni fjölskyldna stafa m.a. af löngum vinnudegi beggja foreldra utan heimilis. Því hafa skólarnir orðið að taka við auknu hlutverki í uppeldi barnanna. Þrátt fyrir þetta er umönnun og uppeldi barna enn í dag mikilvægasta verkefni hverrar fjölskyldu.
Kæru landsmenn. Staða íslensku fjölskyldunnar í dag er að mörgu leyti mjög góð en því miður berast okkur fregnir og við sjáum tölur um að staða fjölskyldunnar sé að verða erfiðari vegna hraðra og breyttra þjóðfélagshátta. Verkefni stjórnvalda á hverjum tíma eiga og þurfa að lúta í meira mæli að því að bæta aðbúnað og hag fjölskyldna í landinu. Kulnun, langur vinnudagur, mönnunarvandi, aukinn kvíði barna og ungmenna, fjölgun ungra einstaklinga á örorku, bágur efnahagur og skortur á viðeigandi húsnæði eru því miður dæmi um áskoranir sem íslenskt samfélag og stjórnvöld þurfa að horfast í augu við. Að hlúa að fjölskyldunni er fjárfesting til framtíðar og sterk og heilbrigð fjölskyldueining myndar sterkt íslenskt samfélag.
Núverandi ríkisstjórn er að vinna að mörgum aðgerðum og kerfisbreytingum til að styrkja stöðu fjölskyldna á Íslandi. Við erum að vinna að því að endurreisa fæðingarorlofskerfið með því m.a. að lengja rétt foreldra til fæðingarorlofs í 12 mánuði og hækka greiðslur í fæðingarorlofi. Þessi aðgerð ein og sér mun þýða 10 milljarða aukningu til fjölskyldna landsins á ársgrunni í lok þessa kjörtímabils. Við erum líka að vinna að mjög róttækum breytingum í málefnum barna sem miða að því að grípa unga einstaklinga fyrr á lífsleiðinni. Þar vinnum við í góðu samstarfi þvert á ráðuneyti og þvert á stjórnmálaflokka.
Eitt af grundvallaratriðum hvers samfélags er húsnæðismál. Það á að vera sjálfsögð krafa, eins og krafan sem við gerum um aðgengi í mennta- og heilbrigðismálum, að hver og einn geti komið sér þaki yfir höfuðið. Þarna er ríkisstjórnin að vinna að margvíslegum aðgerðum og m.a. munu á næsta ári 3,7 milljarðar renna til þess að fjölga almennum íbúðum á leigumarkaði, m.a. í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins.
Virðulegur forseti. Við erum að stíga gríðarlega stór skref þegar kemur að afnámi verðtryggingar í íslensku samfélagi. Það er svo sannarlega kerfisbreyting sem er í undirbúningi og mun frumvarp koma fram á þessu þingi. Við erum líka að vinna að kerfisbreytingum sem miða að því að styðja ungt fólk, tekjulágt fólk og fólk sem missti eignir sínar í hruninu, við það að geta keypt sér íbúð á nýjan leik.
Virðulegur forseti. Við erum að vinna að aðgerðum í húsnæðismálum gagnvart landsbyggðinni. Nýlega undirritaði ég reglugerð sem setur af stað nýjan lánaflokk til handa landsbyggðinni, til kaldra markaðssvæða, en kallað hefur verið eftir slíkri kerfisbreytingu í mjög langan tíma.
Góðir landsmenn. Við getum rifist og stundað málþóf út í hið óendanlega í þessum sal, t.d. um þriðja orkupakkann, en tölum um það sem raunverulega skiptir máli. Hvenær hefur verið málþóf um stöðu fjölskyldunnar í íslensku samfélagi? Ég er tilbúinn til að taka þátt í slíku málþófi með þeim sem hafa verið í því.
En, virðulegi forseti, þeir sem stunda slíkt málþóf koma síðan hér og gagnrýna það að við séum að auka fjármagn til fæðingarorlofs til fjölskyldna í landinu og kalla það óeðlilegan vöxt eða að báknið sé að vaxa.
Virðulegur forseti. Ef það er raunin þá er ég mjög stoltur af því að báknið sé að vaxa. Ég mun í vetur leggja mig allan fram við að ýta fyrrnefndum verkefnum úr vör vegna þess að það er mikilvægt fyrir okkar samfélag að við stöndum vel við bakið á fjölskyldum þessa lands. Þær eru grunneining samfélagsins. — Góðar stundir.“

***

Categories
Fréttir

Ræða Lilju Alfreðsdóttur – umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Deila grein

12/09/2019

Ræða Lilju Alfreðsdóttur – umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar, sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra að öll viljum við Ísland sé í fremstu röð, að unga fólkið hafi aðgang að bestu skólum veraldar og að atvinnulífið nái árangri á heimsvísu með réttum rekstrarskilyrðum. Þetta sé mögulegt með samkeppnishæfu menntakerfi og atvinnulífi.
„Í upphafi kjörtímabilsins boðaði ríkisstjórnin stórsókn í menntamálum. Ljóst var að ýmsar áskoranir biðu okkar á því sviði en sú allra stærsta sneri að mikilvægasta starfi samfélagsins, því sem leggur grunninn að öllum öðrum störfum, sjálfu kennarastarfinu. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar er afar skýr í þessum efnum. Fram kemur að mikilvægt sé að stuðla að viðurkenningu á störfum kennara. Jafnframt kemur fram að bregðast þurfi við yfirvofandi kennaraþörf. Stjórnvöld hafa ásamt lykilfólki í menntamálum og atvinnulífinu unnið að því að mæta þessari áskorun og fyrr á árinu kynntum við tillögur og hrintum þeim í framkvæmd.“
„Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og það er mikið fagnaðarefni. Afar ánægjulegt að umsóknum um grunnnám í grunnskólakennarafræðum við Háskóla Íslands fjölgaði um 45%. Gaman er líka frá því að segja fleiri karlar sóttu um grunnskólakennaranám í Háskóla Íslands en í fyrra og þrefalt fleiri í nám í leikskólakennarafræðum. Þetta er frábær þróun, góðir landsmenn,“ sagði Lilja.

***

Ræða Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformanns Framsóknar – í umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

„Virðulegi forseti. Góðir landsmenn.

Við viljum öll að Ísland sé í fremstu röð og að samkeppnishæfni menntakerfisins og atvinnulífsins sé þannig að unga fólkið okkar hafi aðgengi í bestu skólum veraldar og að atvinnulífið okkar búi við þannig rekstrarskilyrði að það nái árangri á heimsvísu.
Góðir landsmenn. Í upphafi kjörtímabilsins boðaði ríkisstjórnin stórsókn í menntamálum. Ljóst var að ýmsar áskoranir biðu okkar á því sviði en sú allra stærsta sneri að mikilvægasta starfi samfélagsins, því sem leggur grunninn að öllum öðrum störfum, sjálfu kennarastarfinu. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar er afar skýr í þessum efnum. Fram kemur að mikilvægt sé að stuðla að viðurkenningu á störfum kennara. Jafnframt kemur fram að bregðast þurfi við yfirvofandi kennaraþörf. Stjórnvöld hafa ásamt lykilfólki í menntamálum og atvinnulífinu unnið að því að mæta þessari áskorun og fyrr á árinu kynntum við tillögur og hrintum þeim í framkvæmd. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og það er mikið fagnaðarefni. Afar ánægjulegt að umsóknum um grunnnám í grunnskólakennarafræðum við Háskóla Íslands fjölgaði um 45%. Gaman er líka frá því að segja fleiri karlar sóttu um grunnskólakennaranám í Háskóla Íslands en í fyrra og þrefalt fleiri í nám í leikskólakennarafræðum. Þetta er frábær þróun, góðir landsmenn. Verkefnin á komandi þingvetri snúa m.a. að því að efla starfsnám í landinu, róttækum kerfisbreytingum á Lánasjóði íslenskra námsmanna, aðgerðum á fjölmiðlamarkaði, því að hrinda í framkvæmd þingsályktun um að efla íslensku á öllum sviðum samfélagsins og mótun nýrrar menntastefnu. Markmið nýrrar menntastefnu er einfalt, það er að íslenska menntakerfið verði framúrskarandi.
Í fjárlagafrumvarpinu er 36 milljörðum varið til framhaldsskólastigsins og sérstakt áherslumál verður að efla starfsnám í landinu. Því erum við að forgangsraða tíma og fjármunum í það verðuga verkefni. Við höfum séð aukningu í tækni- og starfsnám og sérstaklega ánægjulegt var að sjá aukningu hjá Tækniskóla Íslands um 32%.
Fyrirhugaðar eru róttækar breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna sem fela í sér 30% niðurfellingu á lánum ásamt sérstökum stuðningi fyrir barnafólk. Um er að ræða mestu breytingar sem hafa verið gerðar á lánasjóðnum í 30 ár. Tímamót eru að eiga sér stað, ágætu landsmenn. Ég vil taka fram að að þessari vinnu kemur fjöldi fólks og vil ég þakka stúdentum sérstaklega afar gott og uppbyggilegt samstarf.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að styðja eigi betur við rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Ég hef unnið að metnaðarfullu frumvarpi í þá veru ásamt því að vinna að því með fjármála- og efnahagsráðherra að samræma skattlagningu á auglýsingum milli innlendra aðila og alþjóðlegra efnisveita eins og Google og Facebook. Ljóst er að rekstrarumhverfið er erfitt og við viljum öll hafa öfluga fjölmiðla á Íslandi, bæði ríkisútvarp og einkarekna fjölmiðla.
Góðir landsmenn. Á vorþingi var samþykkt þingsályktun í 22 liðum um að efla stöðu íslenskunnar á öllum sviðum samfélagsins. Sumarið hefur farið í að útfæra aðgerðaáætlunina og verður sérstaklega ánægjulegt að kynna hana á degi íslenskrar tungu 16. nóvember nk. Tungumálið forsenda hugsunar og án þess verður engin hugsun til. Án góðrar þekkingar á tungumálinu komum við hugmyndum okkar ekki í orð, hættum að fá nýjar hugmyndir og drögum úr færni okkar til að hafa áhrif. Af því má leiða að lestur sé ein mikilvægasta breytan í skapandi hugsun. Þess vegna eigum við að gera allt sem við getum til að tryggja læsi allra barna sem grundvallarforsendu fyrir jöfnum tækifærum. Við erum stöðugt að vinna að framgangi íslenskunnar og erum að ráðast í framkvæmdir við Hús íslenskunnar og vinna að því að fá handritin heim sem eru ein merkustu menningarverðmæti þjóðarinnar.
Góðir landsmenn. Við berum öll ábyrgð á því að auka samkeppnishæfni þjóðarinnar og sem mun á næstu áratugum ráðast af hæfni og færni fólksins. Þess vegna erum við að fjárfesta í fólki og færni þess.
Mig langar að lokum, góðir landsmenn, að vitna í John Stuart Mill heimspeking og brýna okkur öll í því að sinna þessari speki en þar segir:
„Öll efling menntunar stuðlar að jöfnuði því að menntunin selur alla undir sömu áhrif og veitir þeim aðgang að sama sjóði þekkingar og skoðana.“
Ég þakka áheyrnina. — Góðar stundir.“

***

Categories
Fréttir

Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar – umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Deila grein

12/09/2019

Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar – umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra að Framsókn hafi alltaf verið framsækinn samvinnuflokkur sem hafi með afgerandi hætti haft áhrif á íslenskt samfélag, fylgt því í meira en hundrað ár. Að saga Framsóknar væri samofin sögu þjóðarinnar og hafi leitt í mikilvægum hagsmunamálum þjóðarinnar, ekki síst á sviði atvinnu, menntunar og heilbrigðismála. Að hlutverk Framsóknar hafi verið að leiða saman ólík öfl til samvinnu fyrir land og þjóð.
„Hagsæld Íslendinga hefur ekki síst sprottið af landinu og hagnýtingu þess. Því er mikilvægt, og stendur hjarta mínu nærri, að styðja dyggilega við íslenska bændur og landbúnað þeirra. Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá baráttumál Framsóknar staðfesta um að standa vörð um lýðheilsu Íslendinga og heilbrigði dýra með því að koma í veg fyrir innflutning á sýktum matvælum, auk þess er kolefnisspor þess er stórt. Þannig að Ísland verði í fararbroddi þjóða í baráttunni gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með matvælum sem er að mati vísindamanna ein mesta ógnin við lýðheilsu í heiminum í dag,“ sagði Sigurður Ingi.

***

Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formanns Framsóknar – í umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Herra forseti, góðir landsmenn.

„Framsókn hefur í gegnum tíðina verið framsækinn samvinnuflokkur sem hefur með afgerandi hætti haft áhrif á íslenskt samfélag, fylgt því í meira en hundrað ár, saga flokksins samofin sögu þjóðarinnar. Framsókn hefur leitt í mikilvægum hagsmunamálum þjóðarinnar, ekki síst á sviði atvinnu, menntunar og heilbrigðismála. Framsókn hefur líka leitt saman ólík öfl til samvinnu fyrir land og þjóð.
Á miðju kjörtímabili er tækifæri til að líta um öxl og velta fyrir sér árangri ríkisstjórnar Framsóknar, Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Sjálfstæðisflokksins undir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Strax síðasta vetur skilaði þessi einstaka pólitíska samsetning gríðarlegum árangri þegar aðilar á vinnumarkaði skrifuðu undir lífskjarasamningana þar sem aðkoma ríkisstjórnarinnar skipti höfuðmáli til þess að ná niðurstöðu sem tryggði stöðugleika. Ávinningurinn sést ekki hvað síst í því að vextir hafa jafnt og þétt lækkað sem er eitt helsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja á Íslandi.
Á næstu mánuðum sjá landsmenn ríkisstjórnina standa við sinn hluta samninganna þegar á borð Alþingis kemur lækkun tekjuskatts, sérstaklega hjá lág- og millitekjuhópum, frumvörp um stuðning við leigjendur og aukinn stuðning við kaup á fasteignum svo eitthvað sé nefnt.
Ráðherrar Framsóknar hafa unnið gott starf. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur eflt kennslu, kennara og kennaranám og árangurinn sést ekki hvað síst í stóraukinni aðsókn að kennaranámi. Í vetur munum við sjá afrakstur ráðherrans í algjörri umbreytingu Lánasjóðskerfisins sem mun þýða meiri stuðning og meiri jöfnuð og tryggja jafnrétti til náms óháð efnahag og búsetu.
Barnamálaráðherrann leggur auk húsnæðismála ofuráherslu á að bæta aðstæður barna og foreldra sem sést best á því að innan skamms verður stigið það mikilvæga skref að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði. Í því sambandi er rétt að minna á að það var einmitt ráðherra Framsóknar sem á sínum tíma gerði fæðingarorlof feðra að veruleika. Ráðherrann vinnur einnig að lausnum sem eiga að taka á húsnæðisskorti á landsbyggðinni.
Af því sem ríkisstjórnin hefur áorkað er það ekki síst ánægjulegt að heilbrigðisstefna var samþykkt á síðasta þingi en hún á sér aðdraganda frá þar síðasta kjörtímabili undir forystu Framsóknar. Það eru sjálfsögð mannréttindi að allir eigi að hafa jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, stöðu eða búsetu.
Hagsæld Íslendinga hefur ekki síst sprottið af landinu og hagnýtingu þess. Því er mikilvægt, og stendur hjarta mínu nærri, að styðja dyggilega við íslenska bændur og landbúnað þeirra. Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá baráttumál Framsóknar staðfesta um að standa vörð um lýðheilsu Íslendinga og heilbrigði dýra með því að koma í veg fyrir innflutning á sýktum matvælum, auk þess er kolefnisspor þess er stórt. Þannig að Ísland verði í fararbroddi þjóða í baráttunni gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með matvælum sem er að mati vísindamanna ein mesta ógnin við lýðheilsu í heiminum í dag.
Jarðamálin verða í brennidepli á næstu mánuðum en brýnt er að setja skýrar reglur um kaup og sölu á jörðum. Þróun síðustu ára er algjörlega óviðunandi. Land er ekki eins og hver önnur fasteign. Við verðum að horfa til nágrannaþjóða okkar um það hvernig jarðamálum er best búin umgjörð. Vil ég þeim efnum sérstaklega horfa til Danmerkur og Noregs sem hafa stífa umgjörð um jarðamál.
Lífsgæði og tækifæri þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins byggjast á skynsamri nýtingu landsins og samspili við verndun. Það má ekki búa svo um hnúta að engin þróun geti orðið í atvinnumálum út um land. Íslendingar eru að sönnu góðir gestgjafar en landið og náttúran er ekki aðeins til fyrir gesti, innlenda og erlenda, heldur fyrir þá sem kjósa að búa sér heimili og byggja upp starfsemi vítt um landið.
Samgöngumálin hafa frá upphafi kjörtímabilsins verið tekin föstum tökum, verulegur viðsnúningur hefur orðið og er blásið til stórsóknar á öllum sviðum, víðsvegar um landið. Við erum að sjá að markmiðið sem sett var í stjórnarsáttmálanum um að hraða uppbyggingu sé að verða að veruleika, hvort sem litið er til landsbyggðar eða höfuðborgarsvæðisins. Með auknum orkuskiptum í samgöngum horfum við fram á nýja tíma í fjármögnun til vegakerfisins. Leiðir sem endurspegla afnot af þjóðvegakerfinu og sanngjarnt flýtigjald til að hraða stærri framkvæmdum. Þá er unnið að lausnum til að styrkja uppbyggingu innanlandsflugs.

Herra forseti og landsmenn góðir.

Ísland er um margt fyrirmyndarsamfélag sem er jafnan ofarlega á listum um hagsæld og lífsgæði í heiminum, deilir toppsætunum með nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndum. Góð heilsa, góð samskipti, húsnæði, öryggi og atvinna eru öllum mikilvæg og þá ekki síður menntun, lýðræði og jöfnuður manna á milli.
Ríkisstjórnin hefur skýra sýn hvað varðar lífsgæði og tækifæri á Íslandi og metnað til að gera stöðugt betur. Það er gott að búa á Íslandi.“

***

Categories
Fréttir

Leiðsöguhundaverkefnið hefur að markmiði að bæta lífskjör og aðstæður blindra og sjónskertra

Deila grein

06/09/2019

Leiðsöguhundaverkefnið hefur að markmiði að bæta lífskjör og aðstæður blindra og sjónskertra

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur ákveðið að leggja leiðsöguhundaverkefninu til þriggja milljóna króna styrk fyrir kaupum og þjálfun á leiðsöguhundi. Tilefnið er að Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, fagnaði áttatíu ára afmæli þann 19. ágúst síðastliðinn. Þetta kemur fram í grein hans í Morgunblaðinu á dögunum.
Blindrafélagið hefur frá upphafi unnið að hagsmunamálum blindra og sjónskertra auk þess að veita margvíslega þjónustu og standa fyrir öflugu félagsstarfi, fræðslu og jafningjastuðningi. Félagið hefur jafnframt stuðlað að því að tryggja samræmda heild í þjónustunni þar sem ríki, sveitarfélög og hagsmunasamtök notenda hafa tekið höndum saman með góðum árangri.
Á liðnum árum hefur Blindrafélagið unnið markvisst að því að fjölga leiðsöguhundum til að mæta þörfum félagsmanna sinna. Tólf leiðsöguhundar hafa verið keyptir í gegnum leiðsöguhundaverkefnið á síðastliðnum tíu árum og sem stendur eru átta leiðsöguhundar hér á landi. Fimm koma fullþjálfaðir frá Svíþjóð og þrír eru fæddir og þjálfaðir hér á Íslandi.
„Hugmyndin er að flýta þannig fyrir framvindu verkefnisins. Þá hyggst ég stofna sérstakan samráðshóp sem fær það hlutverk að vinna að framþróun verkefnisins með tilliti til þeirra tillagna sem komið hafa fram.“
„Hundarnir mættu hins vegar vera fleiri enda eru þeir afar mikilvægur liður í því að auka sjálfstæði blindra og aðlögun þeirra og þátttöku í samfélaginu,“ segir Ásmundur Einar, og bætir við „Blindrafélagið hefur alla tíð vakað yfir þörfum félagsmanna og stöðugt leitað leiða til að sækja fram á við með það að markmiði að bæta lífskjör og aðstæður þeirra. Leiðsöguhundaverkefnið er skýrt dæmi þess.“

Categories
Fréttir

„Gerð öflugri og hagkvæmari til hagsbóta fyrir alla – þó aðallega íbúana“

Deila grein

06/09/2019

„Gerð öflugri og hagkvæmari til hagsbóta fyrir alla – þó aðallega íbúana“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, segir tækifæri framtíðarinnar á sveitarstjórnarstiginu sé „að pólitísk forysta er efld í sveitarfélögum um allt land, til hagsbóta fyrir einstök byggðarlög og íbúana. Ákvæði um íbúamark felur ekki í sér sameiningu byggðarlaga, að þeim þarf að hlúa áfram með ráðum og dáð. Hins vegar er pólitíska forystan sameinuð, stjórnsýslan gerð öflugri og hagkvæmari til hagsbóta fyrir alla – þó aðallega íbúana.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu hans í dag.
„Ég hef trú á að þessi stefna leiði sveitarstjórnarstigið vel til móts við framtíðina – til að nýta tækifærin og til að takast á við áskoranir,“ segir Sigurður Ingi.
Aukalandsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga stendur nú yfir. Þar er rætt um stefnumótun sveitarstjórnarstigsins en þingsályktunartillaga verður lögð fram á Alþingi í haust.

Categories
Fréttir

„Að standa við bakið á heimamönnum“

Deila grein

06/09/2019

„Að standa við bakið á heimamönnum“

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálráðherra, segir að aukið jafnvægi verði að vera milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins í húsnæðismálum og að dæmi séu „um að skortur á íbúðarhúsnæði hafi staðið atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni fyrir þrifum. Þetta kemur fram í grein hans í Morgunblaðinu á dögunum.
„Á haustmánuðum setti ég af stað tilraunaverkefni um húsnæðismál á landsbyggðinni með Íbúðalánasjóði, Byggðastofnun og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Var það gert í því skyni að leita leiða til þess að bregðast við langvarandi stöðnun á húsnæðismarkaði víða um land.“
„Uppbygging íbúðarhúsnæðis víða um land hefur ekki fylgt auknum íbúafjölda, frekar en á höfuðborgarsvæðinu og eru dæmi um að skortur á íbúðarhúsnæði hafi staðið atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni fyrir þrifum.“
„Það er mikilvægt að atvinnutækifæri séu nýtt allt í kringum landið en dæmi eru um að skortur á íbúðarhúsnæði hamli frekari uppbyggingu. Sá skortur er tilkominn vegna þess að misvægi er á milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs. Mikilvægt er að húsnæðisskortur standi ekki í vegi fyrir því og geri það að verkum að fólk fáist ekki til starfa. Sé það raunin ber stjórnvöldum að mínu viti skylda til þess að grípa til aðgerða og eftir því hefur ítrekað verið kallað. Með þeim aðgerðum sem ákveðið hefur verið að ráðast í til að bregðast við húsnæðisvanda á landsbyggðinni erum við að undirstrika vilja ríkisvaldsins til að standa við bakið á heimamönnum í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis,“ segir Ásmundur Einar.