Categories
Greinar

Ferðaþjónustan styrkir ytri stöðu íslenska þjóðarbúsins

Deila grein

29/08/2022

Ferðaþjónustan styrkir ytri stöðu íslenska þjóðarbúsins

„Ekki þarf nein­um blöðum um það að fletta, að frá lands­ins hálfu eru skil­yrði svo góð, sem hugs­ast get­ur, til þess að hingað ferðist fjöldi fólks á hverju ein­asta sumri. Hér er ein­kenni­leg og marg­háttuð nátt­úru­feg­urð, sem flest­ir hafa heill­ast af er hingað hafa komið. Íslend­ing­ar verða nú að fara að gera sér það ljóst, hvort þeir vilja að landið verði ferðamanna­land eða ekki.“Þessi brýn­ing var rituð í leiðara Morg­un­blaðsins 19. ág­úst árið 1920 eða fyr­ir rúm­um 100 árum.

Staðreynd­in í dag er sú að ferðaþjón­ust­an er einn af burðarás­um í ís­lensku efna­hags­lífi.

Staða og horf­ur ferðaþjón­ustu

Hag­vaxt­ar­horf­ur á Íslandi hafa verið að styrkj­ast og þjóðhags­spá­in ger­ir ráð fyr­ir 5,9% hag­vexti í ár. Eft­ir mik­inn sam­drátt í upp­hafi far­ald­urs­ins er það ferðaþjón­ust­an enn á ný sem dríf­ur hag­vöxt­inn áfram. Í ár hafa 870 þúsund ferðamenn heim­sótt landið og þá voru kom­ur þeirra í júlí­mánuði fleiri en í sama mánuði árið 2019. Áfram er gert er ráð fyr­ir kröft­ug­um bata ferðaþjón­ust­unn­ar, út­flutn­ings­tekj­ur haldi áfram að aukast og stuðli þannig að stöðugra gengi ís­lensku krón­unn­ar. Bók­un­arstaða er al­mennt góð, bæði inn í haustið og fram á næsta sum­ar. Það eru vissu­lega áskor­an­ir í haust og vet­ur sem snúa m.a. að verðlags­hækk­un­um og verðbólgu bæði hér á landi og í helstu markaðslönd­um okk­ar og hvaða áhrif það mun hafa á ferðagetu og ferðavilja fólks til lengri og skemmri tíma.

Ytri staða þjóðarbús­ins sterk

Sjálf­bær ytri staða þjóðarbúa skipt­ir höfuðmáli í hag­stjórn. Þjóðríki verða að hafa viðskipta­jöfnuðinn í jafn­vægi til lengri tíma. Lyk­il­breyt­ur eru okk­ar hag­kerfi hag­stæðar um þessi miss­eri. Hrein skuld­astaða rík­is­sjóðs nem­ur 28,5% af lands­fram­leiðslu, gjald­eyr­is­forðinn nem­ur um 25,5% og á sama tíma eru er­lend­ar skuld­ir rík­is­sjóðs inn­an við 5%. Þetta er gjör­breytt staða frá því sem áður var. Gjald­eyr­is­forði þjóðarbús­ins hef­ur vaxið veru­lega í kjöl­far þess af­gangs sem hef­ur verið á viðskipta­jöfnuðinum í kjöl­far vaxt­ar ferðaþjón­ustu ásamt því að aðrar lyk­ilút­flutn­ings­grein­ar hafa átt mjög góðu gengi að fagna. Gjald­eyr­is­forðinn var á bil­inu 5-10% lengst af og oft skuld­sett­ur.

Árið 2012 fór Seðlabank­inn að kaupa gjald­eyri til að byggja upp óskuld­sett­an gjald­eyr­is­forða til að bæta viðnámsþrótt hag­kerf­is­ins. Gjald­eyr­is­forðinn jókst frá 2008-2012 en hann var skuld­sett­ur með neyðarlán­um frá Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum og Norður­lönd­un­um í kjöl­far fjár­mála­hruns­ins. Alls ekki ákjós­an­leg staða. Viðmiðin sem Seðlabank­inn not­ar við ákvörðun á lág­marks­stærð forða byggj­ast á sögu­leg­um for­send­um, sem taka meðal ann­ars mið af því að skapa trú­verðug­leika um pen­inga­stefnu og til að mæta ör­ygg­is­sjón­ar­miðum í ut­an­rík­is­viðskipt­um og horfa til þátta er varða fjár­mála­stöðug­leika og láns­hæfi rík­is­sjóðs.

Straum­hvörf í ytri jöfnuði vegna út­flutn­ings á ferðaþjón­ustu

Ytri staða þjóðarbús­ins stóð oft á tíðum tæpt. Fyr­ir tíu árum áttu sér stað straum­hvörf á viðskipta­jöfnuðinum með til­komu sterkr­ar ferðaþjón­ustu. Fyr­ir lítið opið hag­kerfi er nauðsyn­legt að hafa styrk­ar út­flutn­ings­stoðir. Viðskipta­af­gang­ur­inn hef­ur einnig gert líf­eyr­is­sjóðum kleift að dreifa sparnaði fé­laga og byggja mynd­ar­lega sjóði er­lend­is. Á tím­um kór­ónu­veirunn­ar var hag­fellt að vera með gjald­eyr­is­forða sem gat jafnað mestu sveifl­ur. Stefna stjórn­valda er að um­gjörð hag­kerf­is­ins sé sem sterk­ust og stöðug til að Ísland sé sam­keppn­is­hæft um fólk og að það sé eft­ir­sókn­ar­verður staður sem ungt fólk kýs að dvelja á til framtíðar. Þjóðríki sem hafa mikl­ar út­flutn­ings­tekj­ur, stönd­ug­an gjald­eyr­is­forða og góðan inn­lend­an sparnað eru í mun sterk­ari stöðu til að kljást við óvænt ytri áföll og njóta betri láns­kjara á alþjóðleg­um fjár­mála­mörkuðum.

Stefn­an og áskor­an­ir í ferðaþjón­ustu

Eitt helsta for­gangs­verk­efnið nú í nýju menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyti er að móta nýja og öfl­uga aðgerðaáætl­un á sviði ferðamála á grunni Framtíðar­sýn­ar og leiðarljóss ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu til 2030. Þar er lögð áhersla á sjálf­bærni á öll­um sviðum. Mik­il­vægt er að leggja áherslu á ávinn­ing heima­manna um allt land, í því sam­bandi er dreif­ing ferðamanna lyk­il­atriði. Mikið er í húfi, t.a.m. betri nýt­ing innviða, bætt bú­setu­skil­yrði og lífs­gæði heima­manna, betri rekstr­ar- og fjár­fest­ing­ar­skil­yrði fyr­ir­tækja og fjöl­breytt­ara at­vinnu­líf um land allt. Greitt milli­landa­flug skipt­ir í þessu sam­hengi miklu máli og hafa ánægju­leg­ar frétt­ir borist af því að und­an­förnu með stofn­un flug­fé­lags­ins Nicea­ir sem mun fljúga beint frá Ak­ur­eyri og þýska flug­fé­lagið Condor mun hefja viku­legt flug frá Frankfurt til Ak­ur­eyr­ar og Eg­ilsstaða frá maí til októ­ber á næsta ári. Það eru ýms­ar áskor­an­ir sem at­vinnu­lífið og stjórn­völd þurfa að ráðast í í sam­ein­ingu til að styrkja innviði og um­gjörð grein­ar­inn­ar, meðal ann­ars mennt­un og styrkja stöðu ís­lensk­unn­ar í þess­ari at­vinnu­grein.

Loka­orð leiðarans góða frá ár­inu 1920 eru eft­ir­far­andi: „Íslend­ing­ar þurfa einnig sjálf­ir að læra að meta bet­ur land sitt og þá feg­urð, sem það hef­ir að bjóða.“ Þarna hafa orðið mikl­ar breyt­ing­ar og hef­ur ásókn Íslend­inga í að ferðast um sitt eigið land auk­ist mikið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Not­enda­gjöld í um­ferðinni

Deila grein

24/08/2022

Not­enda­gjöld í um­ferðinni

Sem hluti af loftlagsstefnu hafa stjórnvöld nú lagt aukna áherslu á orkuskipti í samgöngum. Samliða orkuskiptunum verður þó ekki litið fram hjá að huga þarf að breyttri gjaldtöku í umferðinni, en núverandi gjaldtaka hér á landi er mest í formi eldsneytisgjalds. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af eldsneytisgjöldum og vörugjöldum ökutækja muni líklega lækka um milljarða króna bara á þessu ári vegna fjölgunar rafbíla.

Í samgönguáætlun sem samþykkt var í fyrra var ákveðið að taka umferðargjald til endurskoðunar samhliða orkuskiptum í samgöngum. Lagt er til að hætt verði með bensín- og dísilgjöld og þess í stað komi einhverskonar notkunargjöld eða veggjöld líkt og tíðkast víða í nágrannalöndum okkar. Með fyrirliggjandi orkuskiptum komumst við ekki hjá því að taka upp þá umræðu hvernig við sjáum fyrir okkur framtíðar gjaldtöku af umferðinni.

Rangfærslur á samfélagsmiðlum

Í umfjöllun á samfélagsmiðlum undanfarnar vikur hefur komið fram að innheimta gjaldtöku í jarðgöngum sé til þess að fjármagna fyrirhuguð jarðgöng á landinu og hefur verið nefnt að upphæð fyrir hverja ferð verði 300 krónur. Þessi upphæð er algjörlega úr lausu lofti gripin enda hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um fjárhæðir í þessum efnum. Útfærsla á notkunargjaldi í jarðgöngum hefur ekki verið ákveðin, áður en það er gert þarf fyrst að fara fram greiningarvinna. Niðurstöður greiningarvinnu gætu falið í sér mismunandi gjöld eftir staðsetningu, gerð og samfélagsaðstæðum eða afslátt til þeirra sem búa við viðkomandi jarðgöng. Við ákvörðunartöku sem þessa þarf að sjálfsögðu að horfa til sjónarmiða sem eðlilegt og réttmætt þykir að taka tillit til, m.a. jafnræðissjónarmiða.

Færeyska leiðin í gjaldtöku í jarðgöngum.

Í greinargerð með samgönguáætlun 2020 til 2034 segir að stefnt sé að gjaldtöku af umferð í jarðgöngum á Íslandi sem fjármagna eigi rekstur og viðhald ganganna sem og hluta framkvæmdakostnaðar nýrra jarðganga. Þessi leið við framkvæmd jarðganga felur einnig í sér stofnun félags um jarðgangagerð með framlagi frá ríkinu í upphafi en síðan taki notendur þátt í hluta af kostnaði við framkvæmd. En í stefnumótun með endurskoðaðri samgönguáætlun til komandi framtíðar og fjármögnun samgangna var m.a. talað um notendagjöld í jarðgöngum.

Við undirbúningsvinnuna hefur verið horf til hvernig frændur okkar í Færeyjum hafa farið að við uppbyggingu á jarðgöngum. Í Færeyjum er gjaldtaka í neðansjávargöngum og hafa þar verið stofnuð félög til þess að standa straum af gerð þeirra en vegagerð Færeyja hefur síðan eftirlit með þeim. Veggjald í jarðgöng í Færeyjum eru mishá eftir staðsetningu jarðganga en þau eru allt að 100 DKK en veittir eru afslættir fyrir þá sem nýta þau sér mikið líkt og til íbúa nærliggjandi svæða.

Gjaldtaka af umferð í Noregi frá 1960

Norðmenn hafa innheimt veggjöld til að kosta gerð mannvirkjanna í fjölda ára eða allt frá árinu 1960. Um 1200 jarðgöng af ýmsum stærðum og gerðum eru víðs vegar í Noregi og eru veggjöld sérstaklega innheimt af nokkrum þeirra. Um þriðjungur allra veggjalda í Noregi er innheimtur af umferð á Oslóarsvæðinu, gjaldstöðvar þar eru 83 talsins. Í kringum Osló búa 1,2 milljónir manna eða um fjórðungur íbúa landsins. Upphæðir veggjalda eru misháar eftir umferðarmannvirkjum. Skuldastaða vegna stofnkostnaðar við mannvirkin hefur þar áhrif en dýrara er að fara um ný mannvirki en þau eldri. Gjaldflokkar fara einnig eftir stærð, þunga og eldsneytistegund bíla. Lægri veggjöld eru innheimt af bílum sem hvorki gefa frá sér koldíoxíð né nítrógenoxíð. Þá er líka rukkað mismunandi eftir annatíma umferðar.

Við viljum öll gott samgöngukerfi

Það hefur verið stefna núverandi stjórnvalda að hraða framkvæmdum í samgöngum og byggja upp gott og skilvirkt samgöngukerfi um allt land. Til þess að fjármagna allar þessar framkvæmdir er óhjákvæmilegt að taka upp einhverskonar gjald og hefur verið talað um þrjár leiðir við innheimtu notendagjalda: gjaldtöku á þremur meginstofnæðum til og frá höfuðborginni, samvinnuleið (PPP-verkefni) og gjaldtöku í jarðgöngum.

Útfærsla á gjaldtöku af umferð hér á landi, hvort sem það er um jarðgöng, brýr eða önnur umferðarmannvirki hefur ekki verið ákveðin. Áður en það er gert er eðlilegt að það fari fram gagnrýnin og uppbyggilega umræða um allt land. En niðurstaðan verður að vera sú að þegar umferðagjöld verða tekin til endurskoðunar og tekin upp notkunargjöld, eins og samgönguáætlun sem samþykkt var árið 2019 gerir ráð fyrir, verð horft til jafnræðissjónarmiða íbúa landsins. Þannig höldum við áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Snöggt viðbragð í leikskólamálum

Deila grein

22/08/2022

Snöggt viðbragð í leikskólamálum

Í gær samþykktum við í borginni bráðaaðgerðir í leikskólamálum í Reykjavík sem allar miða að því að auka framboð á leikskólaplássum og flýta þannig inntöku barna í leikskóla.

Á sama tíma stendur Reykjavíkurborg fyrir mestu uppbyggingu í áratugi með Brúum bilið-átakinu og mun átakið skila 553 nýjum plássum á þessu ári. Tafir á opnun nýrra skóla hafa leitt til óþolandi vandræða fyrir fjölskyldur sem gerðu ráð fyrir að leikskólavist gæti hafist snemma í haust. Það er miður og við höfum á undanförnum dögum smíðað bráðaaðgerðaáætlun.

Aðgerðirnar eru þessar. Við flýtum opnun Ævintýraborgar á Nauthólsvegi þannig að börnin geti hafið aðlögun í fyrri hluta septembermánaðar. Við ætlum líka að nýta laust húsnæði í Korpuskóla og Bakka í Grafarvogi til að taka við nýjum börnum nú í haust. Þarna skapast 160–200 ný pláss og markmiðið er að opna eftir sex vikur. Við viljum líka skoða nýtingu á frístundaheimilum fyrir leikskólabörn. Við ætlum að fjölga dagforeldrum með því að hækka niðurgreiðslur og fjölga þannig plássum. Tvær nýjar Ævintýraborgir verða pantaðar í september en þær verða tilbúnar á næsta ári.

Við verðum líka að einfalda líf foreldra. Það verður að breyta verklagi við innritun í leikskóla þannig að foreldrar þurfi ekki að hringja um alla borg í leikskólastjóra til að finna pláss. Það felst meðal annars í því að samræma innritunarkerfi Reykjavíkur og sjálfstætt starfandi leikskóla. Frábært starf fer fram á leikskólum Reykjavíkur, þar eru þúsundir barna og hundruð starfsfólks sem verja deginum saman til náms og leiks á hverjum degi. Leikskólagjöldin eru með þeim lægstu og systkinaafslættir eru afar ríflegir.

Við í meirihlutanum í Reykjavík heyrum skýrt ákall foreldra um aðgerðir. Við höfum brugðist við því með snöggu viðbragði. En verkinu er ekki lokið og við höldum áfram að vinna í þágu barna og barnafjölskyldna.

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík og formaður Borgarráðs.

Greinin birtist fyrst á frettabladid.is 19. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Tímamót fyrir íslenskt tónlistarlíf!

Deila grein

22/08/2022

Tímamót fyrir íslenskt tónlistarlíf!

Í vik­unni voru drög að fyrstu op­in­beru stefn­unni á sviði tón­list­ar á Íslandi, ásamt frum­varps­drög­um um heild­ar­lög­gjöf um tónlist, sett í opið sam­ráð. Mik­il vinna hef­ur verið lögð í að kort­leggja um­hverfi tón­list­ar í land­inu und­an­far­in miss­eri og því virki­lega ánægju­legt að geta kynnt afrakst­ur þeirr­ar vinnu.

Með nýrri lög­gjöf og stefnu verður um­gjörð tón­list­ar styrkt veru­lega. Mark­mið lag­anna verður að efla tón­list­ar­líf um land allt, bæta starfs­um­hverfi tón­listar­fólks og styðja við upp­bygg­ingu tón­list­ariðnaðar hér á landi. Með laga­setn­ing­unni verður sett­ur heildarrammi utan um aðkomu hins op­in­bera að tónlist og um­gjörð sett utan um rekst­ur og hlut­verk nýrr­ar Tón­list­armiðstöðvar, nýs Tón­list­ar­sjóðs og Sin­fón­íu­hljóm­sveit­ar Íslands. Í lög­un­um er einnig ákvæði um nýtt tón­list­ar­ráð.

Lög­in byggj­ast á drög­um að tón­list­ar­stefnu sem er fyrsta op­in­bera stefn­an um mál­efni tón­list­ar á Íslandi. Stefn­an inni­held­ur framtíðar­sýn og mark­mið tón­list­ar til árs­ins 2030 auk aðgerða sem mótaðar hafa verið sem liður í að ná til­sett­um mark­miðum. Aðgerðaáætl­un stefn­unn­ar verður í tveim­ur hlut­um. Fyrri hluti gild­ir fyr­ir árin 2023-2026 og síðar verður mótuð aðgerðaáætl­un fyr­ir árin 2027-2030. Sér­stök áhersla verður lögð á tón­list­ar­menn­ingu og -mennt­un, tónlist sem skap­andi at­vinnu­grein sem og út­flutn­ing á ís­lenskri tónlist.

Þá tek­ur ný Tón­list­armiðstöð við hlut­verk­um Útflutn­ings­skrif­stofu ís­lenskr­ar tón­list­ar (ÚTÓN) og Íslenskr­ar tón­verka­miðstöðvar og nýr Tón­list­ar­sjóður verður til með sam­ein­ingu nú­ver­andi Tón­list­ar­sjóðs, Hljóðrita­sjóðs og Útflutn­ings­sjóðs ís­lenskr­ar tón­list­ar. Þetta mun ein­falda sjóðafyr­ir­komu­lag tón­list­ar og auka skil­virkni og slag­kraft í stuðningi við ís­lenska tónlist.

Strax á næsta ári verða fjár­fram­lög til tón­list­ar auk­in um 150 m.kr. til að fram­fylgja nýrri stefnu og árið 2025 er stefnt að því að fram­lög til tón­list­ar verði 250 m.kr. hærri en þau eru í ár.

Of­an­greint er í sam­ræmi við stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar, þar sem fram kem­ur að ætl­un­in sé að tryggja und­ir­stöður ís­lensks menn­ing­ar- og list­a­lífs og skapa ný tæki­færi fyr­ir ís­lenska lista­menn. Aðgengi að menn­ingu er mik­il­væg­ur þátt­ur þess og máli skipt­ir að all­ir lands­menn geti notið lista og menn­ing­ar og tekið þátt í slíku starfi. Íslenskt tón­listar­fólk hef­ur tekið virk­an þátt í að móta dag­legt líf okk­ar með verk­um sín­um. Ég er stolt og þakk­lát fyr­ir fram­lag þeirra til ís­lenskr­ar menn­ing­ar og er sann­færð um að þau skref sem tek­in verða með nýrri stefnu og lög­um verði til þess að blása enn frek­ari vindi í segl ís­lenskr­ar tón­list­ar, stuðla að því að fleiri geti starfað við tónlist í fullu starfi og auðgað líf okk­ar enn frek­ar.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 20. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Sjálfstæði á óvissutímum

Deila grein

22/08/2022

Sjálfstæði á óvissutímum

Orku­mál og sjálf­bærni þeirra hafa verið í brenni­depli vegna hlýn­un­ar jarðar um nokkra hríð. Í kjöl­farið á inn­rás Rússa í Úkraínu og deil­um þeirra við Evr­ópu­sam­bandið vegna refsiaðgerða er kom­in upp óviss­ustaða í orku­mál­um í álf­unni. Ekk­ert ríki í heim­in­um flyt­ur út jafn mikið gas og Rúss­land, en um helm­ing­ur alls gass sem notað er inn­an ESB kem­ur frá Rússlandi. Staðan er nú þannig að ekki er víst að Evr­ópa muni eiga nóg af gasi fyr­ir kom­andi vet­ur. Skort­ur á gasi í Evr­ópu leiðir til sam­drátt­ar með til­heyr­andi af­leiðing­um fyr­ir fyr­ir­tæki og fjöl­skyld­ur. Sam­kvæmt spám gæti verg lands­fram­leiðsla í ESB-ríkj­um lækkað um allt að 1,5% ef vet­ur­inn verður harður með al­var­leg­um trufl­un­um á gasbirgðum. Talað er um að þýsk­ur iðnaður gæti staðið frammi fyr­ir al­var­legri ógn vegna skorts á orku. Orku­verð á heimsvísu hef­ur hækkað veru­lega og hækkað fram­færslu­kostnað Evr­ópu­búa. Frá því snemma á síðasta ári hef­ur heims­markaðsverð á olíu tvö­fald­ast, verð á kol­um nærri fjór­fald­ast og verð á evr­ópsku jarðgasi nán­ast sjö­fald­ast. Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn ger­ir ráð fyr­ir að fram­færslu­kostnaður heim­ila hækki að meðaltali um 7% miðað við það sem gert var ráð fyr­ir snemma árs 2021. Sum ríki skera sig þó úr en talið er að fram­færslu­kostnaður heim­ila í Eistlandi geti hækkað um allt að 20%.

Reyn­ir á sam­stöðu inn­an ESB

Í síðasta mánuði lagði fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins fram til­lögu til að sporna við gasskorti á þá leið að aðild­ar­rík­in drægju úr gasnotk­un um 15% næsta vet­ur. Til­lag­an hef­ur sætt nokk­urri and­stöðu inn­an sam­bands­ins en Spán­verj­ar, Grikk­ir, Portú­gal­ar, Ítal­ir, Pól­verj­ar og Kýp­verj­ar eru meðal ann­ars and­víg­ir áætl­un­inni og halda því fram að eitt yf­ir­grips­mikið mark­mið sé ósann­gjarnt miðað við mis­mun­andi orku­sam­setn­ingu aðild­ar­ríkj­anna. Fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins met­ur ástandið það al­var­legt að huga þurfi að því hvort sam­drátt­ur­inn þurfi að vera lög­boðinn inn­an sam­bands­ins. Það er greini­legt að fram und­an eru erfiðar samn­ingaviðræður milli ríkja Evr­ópu­sam­bands­ins þar sem reyna mun á sam­stöðu þeirra.

Ísland nýt­ur sér­stöðu í orku­mál­um

Ég vil í þessu sam­bandi vekja máls á því að það skipt­ir veru­legu máli að vera sjálf­bær á sem flest­um sviðum. Á meðan ná­grann­ar okk­ar í Evr­ópu sjá fram á harðan vet­ur í orku­mál­um stönd­um við mun bet­ur að vígi. Við Íslend­ing­ar höf­um gríðar­mik­il tæki­færi þegar kem­ur að því að búa til græna orku og þar get­um við gert enn bet­ur. Aðgerðir í lofts­lags­mál­um til að ná kol­efn­is­hlut­leysi hafa fram­kallað græna iðnbylt­ingu um all­an heim og við erum meðvituð um mik­il­vægi þess að hraða um­skipt­um yfir í græna end­ur­nýj­an­lega orku. Það er verðugt mark­mið og raun­hæft að Ísland verði fyrst ríkja óháð jarðefna­eldsneyti árið 2040 en ávinn­ing­ur­inn af því að venja okk­ur af jarðefna­eldsneyti er ekki aðeins fyr­ir lofts­lagið, held­ur skipt­ir það máli fyr­ir sjálf­stæði þjóðar­inn­ar til lengri tíma litið. Orku­ör­yggi er þjóðarör­ygg­is­mál, við Íslend­ing­ar erum óþægi­lega háð inn­flutt­um orku­gjöf­um á viss­um sviðum og mik­il­vægt að við drög­um úr inn­flutn­ingi á orku­gjöf­um. Orku­ör­yggi kall­ar á aukna raf­orku­fram­leiðslu og öfl­ugra flutn­ings- og dreifi­kerfi sem aft­ur kall­ar á heild­rænt skipu­lag orku­kerf­is­ins og samþætt­ingu verk­ferla. Þá þarf einnig að mæta orkuþörf­inni með bættri ork­u­nýt­ingu og aukn­um orku­sparnaði.

Til að ná þessu fram er mik­il­vægt að unnið sé í sem mestri sátt um vernd og nýt­ingu landsvæða og nátt­úru­auðlinda. Okk­ar verk­efni nú er að leita leiða í sam­ein­ingu og sátt um hvernig við ætl­um að fram­leiða okk­ar grænu orku, hvort sem það er með vatns­afli, vindorku eða öðrum aðferðum.

Ágúst Bjarni Garðars­son, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á mbl.is 20. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Sam­vinn­a eft­ir skiln­að – barn­ann­a vegn­a!

Deila grein

16/08/2022

Sam­vinn­a eft­ir skiln­að – barn­ann­a vegn­a!

Sambandsslit og skilnaðir foreldra eru áfall fyrir börn. Alvarleiki þess konar áfalls og áhrifin af því geta hins vegar verið mjög mismunandi. Það er sérstaklega erfitt þegar illdeilur koma upp milli foreldra og þá geta áhrifin verið alvarleg og langvarandi. Það getur stundum verið flókið að feta stíg samskipta við fyrrum maka þannig að börn verði ekki fyrir slæmum áhrifum. Til þess að aðstoða foreldra sem eru í þessari stöðu þá er nú búið að tryggja framtíð úrræðisins Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna (samvinnaeftirskilnad.is), en þar býðst foreldrum ráðgjöf til að draga úr ágreiningi í kjölfar skilnaðar með farsæld barna að leiðarljósi.

Barnið verði hjartað í kerfinu

Í upphafi árs 2020 fór ég til Danmerkur og skrifaði undir samning við danskt fyrirtæki sem býður upp á stafrænar lausnir í ráðgjöf til að draga úr ágreiningi foreldra í skilnaðarferli með farsæld barnanna að leiðarljósi. Úrræðið hafði þegar gefið mjög góða raun í Danmörku og hafði verið skylduferli fyrir foreldra sem skildu. Bæði hafði úrræðið aukið skilning foreldra á því hvernig samskiptum skyldi best háttað og þannig komið börnum til góða en auk þess lá fyrir hversu mikið hafði dregið úr vanlíðan foreldranna sjálfra eftir skilnað, dregið úr þunglyndi, dregið úr veikindadögum frá vinnu, og margt fleira.

Upphaflega var úrræðið sett upp sem tilraunaverkefni í tveimur sveitarfélögum á Íslandi til tveggja ára. Það var síðan útvíkkað til átta sveitarfélaga og er nú í boði á landsvísu. Foreldrum í skilnaðarferli er nú boðið upp á aðgang að rafrænum námskeiðum og félagslegri ráðgjöf hjá sérstökum ráðgjöfum innan sveitarfélaganna. Úrræðið fellur mjög vel að nýjum lögum um farsæld barna sem miða að því að beita sem allra mest snemmbærri aðstoð og fyrirbyggjandi aðgerðum í stað þess að glíma við flóknari vanda síðar meir.

Nær til yfir 800 barna í dag

Nú eru 764 notendur skráðir á stafræna vettvanginn, foreldrar sem eiga að meðaltali 2,1 barn saman, og haldin hafa verið átta námskeið fyrir fagfólk sem hafa veitt 142 aðilum ráðgjafaréttindi á þessu sviði til þess að veita enn frekari aðstoð en stafræni vettvangurinn býður upp á. Yfir 800 börn á Íslandi njóta þar með góðs af því að foreldrar þeirra njóta um þessar mundir leiðsagnar sérfræðinga um algeng mistök sem foreldrar gera í samskiptum í kjölfar skilnaðar. Þá er ótalið hversu jákvæð áhrif slíkt getur haft á foreldrana sjálfa, líðan þeirra og þátttöku í samfélaginu.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Greining birtist fyrst á frettabladid.is 13. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Óvissuflugið þarf að enda

Deila grein

16/08/2022

Óvissuflugið þarf að enda

Reykjanesskagi hefur enn á ný bært á sér. Jarðvísindamenn halda því fram að eldgosið í Meradölum og gosið í Geldingardölum gætu verið upphafið að löngu eldgosatímabili á Reykjanesskaga. Ekki er útilokað að þetta gostímabil gæti virkjað eldstöðvar nær Reykjavík þótt litlar líkur séu þó á því. Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér, en með vitneskju um mögulega ógn af hraunrennsli næstu ár er eðlilegt að við hugum að því hvaða uppbyggingu við viljum fjárfesta í á svæðinu.

Óvissan um Hvassahraun

Síðustu ár hefur mikið verið rætt um uppbyggingu á nýjum flugvelli í Hvassahrauni. Undanfarna daga hefur greinilega komið fram í umræðunni að eldgos á Reykjanesi breytir mati og viðhorfum sérfræðinga og almennings til flugvallarkostsins í Hvassahrauni og enn einu sinni kemur í ljós að Reykjavíkurflugvöllur er afar mikilvægur hvort sem litið er á hann sem varaflugvöll eða almennan flugvöll fyrir innanlandsflug, sjúkraflug, þyrluþjónustu Landhelgisgæslunnar o.fl. Þegar Hvassahraun þótti vænlegasti staðurinn fyrir uppbyggingu flugvallar byggði það á spám um að ekki myndi gjósa á Reykjanesskaga næstu tvær aldir. Nú er komin upp ný staða sem ekki er hægt að líta fram hjá. Veðurstofan hefur það verkefni nú að meta áhættuna og stefnt er að því að hún skili því verkefni af sér á fyrrihluta næsta árs. Ef niðurstaða þess verkefnis leiðir í ljós að Hvassahraun sé ekki vænlegur kostur þarf að skoða hvort og ef annar og betri staður finnst. Slíkt tekur mörg ár, en það tekur um 15-20 ár að meta, hanna og byggja slíkan völl. Á sama tíma eru önnur stór og dýr verkefni framundan s.s. Sundabraut, Borgarlína og Landspítali, ásamt því að bæta þarf og byggja upp flugvelli á Akureyri og Egilsstöðum svo nýta megi þá flugvelli betur þar sem kröfur eru sífellt að aukast, bæði vegna ferðaþjónustu og fraktflutninga á ferskvöru.

Við eigum flugvöll

Styrkur Reykjavíkurflugvallar er gríðarlegur. Mikilvægt er að hefjast handa við að efla hann enn frekar og bæta. Reykjavíkurflugvöllur er samfélagslega mikilvægur, nálægð við miðborg, stjórnsýslu, háskóla og Landspítala spilar þar lykilhlutverk. Í umræðunni um uppbyggingu íbúðabyggðar í Vatnsmýrinni gleymist oft mikilvægi nálægðar Reykjavíkurflugvallar við Landspítalann. Samkvæmt lögum eiga allir landsmenn rétt á sömu heilbrigðisþjónustu. Í því samhengi er mikilvægt að einfalt sé að nálgast þá þjónustu, flugvöllur í Reykjavík tryggir það. Vissulega er nauðsynlegt að bæta heilbrigðisþjónustu út á landi en óraunhæft er að veita alla þá þjónustu þar sem þörf kann að vera á. Þá er völlurinn einnig afar mikilvægur fyrir ferðaþjónustu um allt land. Á næstu árum er fyrirséð að miklar tækniframfarir komi til með að eiga sér stað í fluginu. Rafmagnsflugvélar eru á næsta leiti og Reykjavíkurflugvöllur getur orðið einn af styrkleikum borgarinnar til næstu áratuga með rafmagnsflugvélar í notkun nálægt stærsta atvinnu og háskólasvæði höfuðborgarinnar, vísinda og grósku í nýsköpun í Reykjavík Science City og með Landspítala á sama svæði.

Nú er mál að linni

Ef litið er til skýrslu vinnuhóps sem hét „Flugvallarkostir á suðvesturhluta landsins“ (skýrsla Eyjólfs Árna Rafnssonar frá árinu 2019), er ekkert sem bendir til þess að Reykjavíkurflugvöllur fari næstu 15-20 árin og afar vafasamt að Hvassahraun sé álitlegur kostur, ekki síst í ljósi síðustu atburða, þótt hann komi þar helst til greina. Vegna óvissu hefur Reykjavíkurflugvöllur ekki fengið nauðsynlega yfirhalningu í 20 ár. Beðið hefur verið með viðhald vegna hugmynda um nýjan flugvöll sem nú virðast vera að renna út í sandinn, já eða út í hraun. Við þurfum að hætta þessari óvissu um Reykjavíkurflugvöll og þrengja ekki meir að vellinum. Nú þarf að láta hendur standa fram úr ermum, við getum ekki látið önnur 20 ár líða.

Ingibjörg Isaksen,  þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Loksins lög um nikó­tín­púða

Deila grein

15/08/2022

Loksins lög um nikó­tín­púða

Eitt af þeim mikilvægu málum sem urðu að lögum við þinglok í júní var breyting á lögum nr. 87/2018 um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur þegar nikótínvörum var bætt við lögin. Þar með voru nikótínpúðar í fyrsta sinn settir undir skýrar reglur. Komið var á reglum um heimildir til sölu, markaðssetningar og notkunar á nikótínvörum og þar eru púðarnir að mestu felldir undir sömu reglur og gilda um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur. Vissulega sýnist sitt hverjum um reglur varðandi meðferð og markaðssetningu tóbaks og skyldra vara sem oft eru kallaðar staðgönguvörur tóbaks.

Það eru þó allir sammála, jafnt söluaðilar sem og fólk sem vinnur að forvörnum, um mikilvægi þess að um þessar vörur gildi skýrt regluverk og að leitað sé leiða til að draga úr líkum á að börn og ungmenni verði háð neyslu vöru af þessu tagi.

Hvað tafði?

Margir furða sig á að löggjafinn hafi ekki sett lög um notkun nikótínpúða fyrir löngu, en þegar nánar er að gáð hefur þessi vara aðeins verið á markaði í tæplega 3 ár. Þrátt fyrir það hafa heilbrigðisyfirvöldum borist fjölmörg erindi er varða nikótínpúða og fyrirspurnir um lagaumhverfi þeirra, hugsanlega leyfisskyldu fyrir sölu og markaðssetningu þeirra. Eftirlitsstofnanir sem fylgjast með öryggi vöru á markaði lentu í vandræðum því varan féll hvorki undir lög um lyf, matvæli eða tóbak. Fólk sem starfar með börnum og ungmennum átti í vandræðum við að móta reglur um neyslu, þar sem starfsemi fyrir börn og ungmenni fer fram, vegna skorts á leiðsögn í löggjöfinni.

Hvað breytist?

Með lagabreytingunni eru settar skýrar reglur um meðferð, sölu og markaðssetningu nikótínpúða og er ætlunin að tryggja eftir fremsta megni öryggi neytenda varanna og annarra sem til þeirra gætu náð, þar á meðal barna.

Nú liggur fyrir að einungis einstaklingum 18 ára og eldri er heimilt að kaupa nikótínvörur og sama gildir um þá sem selja nikótínvörur. Óheimilt er að hafa á umbúðum nikótínvara texta eða myndmál sem geti höfðað sérstaklega til barna og ungmenna, að tryggt sé að nikótínvörur séu ekki staðsettar þar sem börn nái til og sýnileikabann gildi um vörurnar á sölustöðum þannig að þær verði ekki sýnilegar viðskiptavinum. Þá er skýrt að: „Notkun nikótínvara er óheimil þar sem starfsemi fyrir börn og ungmenni fer fram, svo sem í dagvistun, félags-, íþrótta- og tómstundastarfi, eins og til dæmis leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum, vinnuskólum og annarri sambærilegri starfsemi fyrir börn yngri en 18 ára.“

Þar með hefur allur vafi verið tekinn af um að notkun nikótínpúða sé óheimil alls staðar þar sem börn og ungmenni koma saman í dagvistun, sem og í skipulögðu skóla-, íþrótta- og tómstundastarfi, hvort sem það á sér stað innan dyra eða utan. Þá er smásalan felld undir sambærilegar reglur og tóbak og neftóbak og á nú ekki að vera sýnileg í verslunum, nema um sérverslanir sé að ræða.

Við samþykkt málsins voru álitamálin leyst af virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum og með mikilvægi forvarna að leiðarljósi. Forvarnir og lýðheilsa eru viðvarandi verkefni sem þarf að halda áfram að vinna að og horfa samtímis til öryggis, samræmis og jafnræðis varðandi reglur um sölu, auglýsingar og eftirlit.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Stórskipahöfn í Hveragerði

Deila grein

12/08/2022

Stórskipahöfn í Hveragerði

Að nýloknum sveitarstjónarkosningum hefur nýr meirihluti í Hveragerði fengið verðug verkefni til að leysa og vinna úr og hefur verið ánægjulegt að finna þeim farveg. Verkefnin hafa mörg hver verið áskorun en það er einmitt það sem við sem þarna sitjum buðum okkar krafta í, fengum umboð til og tökumst á við af miklum áhuga og vilja.

Eitt af þeim fjölmörgu verkefnum sem komið hafa inn á borð bæjarstjórnar er viljayfirlýsing Hveragerðisbæjar og Þróunarfélags NLFÍ slhf. Viljayfirlýsing þessi fjallar í megindráttum um að hefja viðræður með það að markmiði að ná samkomulagi um skipulagningu á svokölluðu Sólborgarsvæði sem liggur austan Varmár og að Þróunarfélagið fái heimild til uppbyggingar á landinu.

Áformuð uppbygging felur m.a. í sér íbúðabyggð, svæði fyrir 6* hótel, heilsu- og vellíðunar dvalarstað, sem njóti sérhæfðrar ráðgjafar og faglegrar þjónustu frá Heilsustofnun, og fræðslusetur á sviði sjálfbærni og umhverfismála. Jafnframt verði fjallað um möguleika á stækkun og endurnýjun á húsnæði og aðstöðu Heilsustofnunar á núverandi svæði hennar í Hveragerði. Í viljayfirlýsingunni kemur einnig fram að farið verði yfir uppbyggingu nauðsynlegra innviða á svæðinu og greiðslur þar að lútandi. Mikil áhersla er á að hafa víðtækt samráð við íbúa sveitarfélagsins um þróun og uppbyggingu svæðisins. Viljayfirlýsingin gildir til næstu áramóta með möguleika á framlengingu um sex mánuði.

Það eru tækifæri í fyrirhugaðri uppbyggingu, m.a. á heilsu- og vellíðunar dvalarstað og íbúðabyggð, ásamt skólum og annarri þjónustu við íbúa með sjálfbærni að leiðarljósi, auk þess að styðja við starfsemi Heilsustofnunar og uppbyggingu á atvinnu í Hveragerði.

Hér höfum við í Hveragerði fengið tækifæri til að byggja upp samfélagið okkar enn frekar og er það vel þess virði að kanna málið til hlítar, hvort hér leynist ef til vill okkar eigin stórskipahöfn. Það er hlutverk okkar bæjarfulltrúanna að vera opin fyrir þeim tækifærum sem koma upp og geta eflt stoðir sveitarfélagsins, styrkt fjárhaginn og eflt atvinnulífið. Umfram allt er það mannauðurinn, íbúarnir og starfsfólkið sem er stórskipahöfnin okkar.

Fram undan er bæjarhátíð Hvergerðinga, Blómstrandi dagar, en eins og gefur að skilja hefur sú hátíð ekki verið haldin hátíðleg síðustu tvö ár frekar en aðrir viðburðir. Það er því sérstök eftirvænting fyrir hátíðinni og munum við án efa gleðjast og njóta allra þeirra viðburða sem hátíðin hefur í för með sér. Um leið og ég óska okkur öllum í Hveragerði til hamingju með hátíðina fram undan þá bíð ég gesti einnig hjartanlega velkomna til að njóta með okkur.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, oddviti Framsóknar og forseti bæjarstjórnar í Hveragerði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Endurreisn ferðaþjónustunnar

Deila grein

11/08/2022

Endurreisn ferðaþjónustunnar

Eft­ir tvö krefj­andi ár sök­um heims­far­ald­urs er ljóst er að end­ur­reisn ferðaþjón­ust­unn­ar er haf­in af full­um krafti. Útlit er fyr­ir að kom­ur er­lendra ferðamanna yfir árið fari fram úr bjart­sýn­ustu spám. Ferðamála­stofa áætl­ar að heild­ar­fjöldi ferðamanna árið 2022 verði um 1,6 millj­ón, sem er um 80% af heild­ar­fjölda árs­ins 2019.

Það er ánægju­legt að heyra fjöl­marg­ar fregn­ir um gott gengi ferðaþjón­ust­unn­ar en sum­arið hef­ur gengið vel í grein­inni og vís­bend­ing­ar eru um að helstu kenni­töl­ur verði svipaðar og árið 2019. Veru­leg­ur stíg­andi hef­ur verið í kom­um er­lendra ferðamanna það sem af er ári, einkum síðustu mánuði. Þannig benda bráðabirgðatöl­ur Isa­via fyr­ir júlí til þess að ákveðnum vendipunkti hafi verið náð í mánuðinum. Brott­far­ir ferðamanna hafi verið alls 233.834 eða 101% af heild­ar­fjöld­an­um sama mánuð árið 2019. Er það í fyrsta skipti sem við sjá­um fjölg­un ferðamanna þegar töl­ur eru born­ar sam­an við 2019! Þá stefn­ir í stærsta komu­ár skemmti­ferðaskipa hingað til.

Þessi auknu um­svif ferðaþjón­ust­unn­ar koma greini­lega fram í hag­töl­um. Gjald­eyr­is­inn­flæði vegna ferðaþjón­ustu, miðað við greiðslu­korta­veltu fyrstu 6 mánuði árs­ins, nam alls 692 millj­ón­um evra. Það er u.þ.b. fjór­föld­un miðað við fyrra ár og um 88% af heild­ar­velt­unni sama tíma­bil árið 2019, í evr­um talið. Þá er meðal­velta á hvern ferðamann tölu­vert meiri en fyr­ir far­ald­ur­inn, sem er fagnaðarefni. Það skipt­ir höfuðmáli fyr­ir ís­lenska hag­kerfið að út­flutn­ings­grein­um þess vegni vel. Ferðaþjón­ust­an legg­ur þar gríðarlega mikið af mörk­um en á skömm­um tíma get­ur hún skapað mikl­ar gjald­eyris­tekj­ur fyr­ir þjóðarbúið, eins og rakið er að ofan.

Þessi ár­ang­ur er staðfest­ing þess að tím­inn í heims­far­aldr­in­um hafi verið vel nýtt­ur, bæði hjá stjórn­völd­um sem og hjá ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tækj­un­um og hörkudug­legu starfs­fólki þeirra. Lögð var áhersla á að styðja við fyr­ir­tæki í gegn­um far­ald­ur­inn og verja þannig mik­il­væga þekk­ingu fyr­ir­tækj­anna og þá innviði sem nauðsyn­leg­ir eru til að taka á móti fjölda ferðamanna á ný. Að sama skapi juku stjórn­völd veru­lega fjár­fest­ing­ar í innviðum, bæði í sam­göng­um og á ferðamanna­stöðum, svo þeir yrðu bet­ur í stakk bún­ir til að taka á móti fleiri gest­um á ný. Auk­in­held­ur ákvað rík­is­stjórn­in að verja háum fjár­hæðum í markaðssetn­ingu á Íslandi sem áfangastað, með markaðsverk­efn­inu ,,Sam­an í sókn‘{lsquo} í gegn­um all­an far­ald­ur­inn, þrátt fyr­ir litla eft­ir­spurn eft­ir ferðalög­um á þeim tíma. Eitt af fyrstu verk­um mín­um sem ferðamálaráðherra var að verja 550 m. kr. í aukna markaðssetn­ingu til að tryggja enn kröft­ugri viðspyrnu ferðaþjón­ust­unn­ar.

Þær ákv­arðanir, sem tekn­ar eru hverju sinni, skipta framtíðina öllu máli. Með sam­stilltu átaki er okk­ur að tak­ast að end­ur­reisa ferðaþjón­ust­una eft­ir heims­far­ald­ur­inn.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 11. ágúst 2022.