Categories
Fréttir

Tryggjum ungmennum 18-25 ára ókeypis smokka

Deila grein

14/12/2022

Tryggjum ungmennum 18-25 ára ókeypis smokka

„Í þessari viku tilkynnti franska ríkisstjórnin að hún ætli að tryggja ungmennum 18-25 ára ókeypis smokka. Það gerist í kjölfar þess að ríkisstjórnin hafði tryggt konum undir 25 ára ókeypis getnaðarvarnir. Það er nefnilega stefna frönsku ríkisstjórnarinnar að ekkert ungmenni eigi að þurfa að sleppa notkun getnaðarvarna sökum kostnaðar,“ sagði Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.

„Þetta er ekki einungis gert til að sporna við þungun ungra einstaklinga sem vilja ekki eignast börn eða telja sig ekki tilbúna til barneigna strax, þetta er einnig árangursríkasta aðgerðin til að sporna gegn dreifingu kynsjúkdóma. Þetta er stefna Frakklands.“

„En af hverju er þetta ekki stefna Íslands líka? Við höfum burði til að vera leiðandi ríki í kynheilbrigði en tölfræðin hefur sýnt andstæða vegferð hér á landi. Kynheilbrigði er lýðheilsumál, mörg ungmenni stunda kynlíf og við getum ekki breytt því en við getum hvatt þau til að gera það á heilbrigðan og skynsaman máta,“ sagði Lilja Rannveig.

Nýlegar kannanir hafa sýnt að notkun getnaðarvarna meðal barna og ungmenna í Evrópu og Norður-Ameríku fari minnkandi. Það er m.a. af fjárhagslegum ástæðum.

„Við eigum að tryggja ungu fólki þann kost að geta notað getnaðarvarnir sama hvað. Því hef ég lagt tvívegis fram þingsályktunartillögu um ókeypis getnaðarvarnir fyrir einstaklinga yngri en 25 ára. Þetta er mikilvægt lýðheilsu- og forvarnamál. Með því að tryggja ungu fólki ókeypis getnaðarvarnir getum við unnið gegn útbreiðslu kynsjúkdóma og tryggt að ungt fólk geti stuðlað að kynheilbrigði og komið í veg fyrir óskipulagðar barneignir án þess að þurfa að hafa fjárhagslegar áhyggjur. Í þessu tilviki væri mjög sniðugt að gera eins og Frakkland,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.


Ræða Lilju Rannveigar:

„Hæstv. forseti. Í þessari viku tilkynnti franska ríkisstjórnin að hún ætli að tryggja ungmennum 18–25 ára ókeypis smokka. Það gerist í kjölfar þess að ríkisstjórnin hafði tryggt konum undir 25 ára ókeypis getnaðarvarnir. Það er nefnilega stefna frönsku ríkisstjórnarinnar að ekkert ungmenni eigi að þurfa að sleppa notkun getnaðarvarna sökum kostnaðar. Þetta er ekki einungis gert til að sporna við þungun ungra einstaklinga sem vilja ekki eignast börn eða telja sig ekki tilbúna til barneigna strax, þetta er einnig árangursríkasta aðgerðin til að sporna gegn dreifingu kynsjúkdóma. Þetta er stefna Frakklands. En af hverju er þetta ekki stefna Íslands líka? Við höfum burði til að vera leiðandi ríki í kynheilbrigði en tölfræðin hefur sýnt andstæða vegferð hér á landi. Kynheilbrigði er lýðheilsumál, mörg ungmenni stunda kynlíf og við getum ekki breytt því en við getum hvatt þau til að gera það á heilbrigðan og skynsaman máta. Nýlegar kannanir hafa sýnt að notkun getnaðarvarna meðal barna og ungmenna í Evrópu og Norður-Ameríku fari minnkandi. Það er m.a. af fjárhagslegum ástæðum. Við eigum að tryggja ungu fólki þann kost að geta notað getnaðarvarnir sama hvað. Því hef ég lagt tvívegis fram þingsályktunartillögu um ókeypis getnaðarvarnir fyrir einstaklinga yngri en 25 ára. Þetta er mikilvægt lýðheilsu- og forvarnamál. Með því að tryggja ungu fólki ókeypis getnaðarvarnir getum við unnið gegn útbreiðslu kynsjúkdóma og tryggt að ungt fólk geti stuðlað að kynheilbrigði og komið í veg fyrir óskipulagðar barneignir án þess að þurfa að hafa fjárhagslegar áhyggjur. Í þessu tilviki væri mjög sniðugt að gera eins og Frakkland.“

Categories
Fréttir

Stórt skref fyrir Vestmannaeyjar – en aðeins fyrsta skrefið

Deila grein

14/12/2022

Stórt skref fyrir Vestmannaeyjar – en aðeins fyrsta skrefið

„Í gær bárust fréttir af því að áætlunarflug flugfélagsins Ernis til Vestmannaeyja verði hafið að nýju í kjölfar samkomulags félagsins við innviðaráðuneytið. Flogið verður þrisvar í viku og gildir samningurinn til 1. apríl.“ sagði Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.

Fyrir tveimur árum var reglulegt flug til og frá Eyjum lagt niður í kjölfar heimsfaraldurs Covid. Eftirspurnin fór minnkandi og rekstrargrundvöllur fyrir fluginu fór dvínandi. Eftir það var flug til og frá Eyjum í miklu uppnámi og íbúar Vestmannaeyja fundu fyrir því.

„Lengi hafa íbúar Vestmannaeyja kallað eftir bættum samgöngum til og frá Eyjum en bættar samgöngur af þessu tagi eru afar mikilvægar fyrir íbúa og atvinnulíf þar. Einnig er flugið liður í því að tryggja lágmarksþjónustu yfir vetrarmánuðina,“ sagði Hafdís Hrönn.

„Að hafa náð þessu samkomulagi er sigur fyrir Vestmannaeyjar, Flugfélagið Erni og innviðaráðherra. Þar njóta allir góðs af. Einnig megum við ekki gleyma því að reglulegt flug til og frá Eyjum er mikilvægt öryggismál, að hafa tvær mögulegar samgönguleiðir þar sem ein þeirra er fljótt flug beint til Reykjavíkur, sem getur skipt sköpum þegar íbúar þurfa t.d. að sækja nauðsynlega þjónustu þaðan. Að auki hafa margir nýtt sér flug til og frá Eyjum þegar óvissa er í áætlunarferðum Herjólfs sem getur verið þegar það er vont í sjóinn, sérstaklega yfir vetrartímann“

„Virðulegi forseti. Þetta er stórt skref fyrir Vestmannaeyjar en þetta er aðeins fyrsta skrefið. Við eigum að tryggja Eyjamönnum tryggar samgönguleiðir til frambúðar og finna varanlegar lausnir. Það er mikið fagnaðarefni að Ernir hafi tekið að sér að þjónusta svæðið aftur og vonandi er hægt að byggja upp flug til og frá Vestmannaeyjum til frambúðar með fleiri flugferðum í viku hverri. Ég vil óska Vestmannaeyingum og innviðaráðherra til hamingju með þetta fyrsta skref í samkomulaginu,“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.


Ræða Hafdísar Hrannar á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Í gær bárust fréttir af því að áætlunarflug flugfélagsins Ernis til Vestmannaeyja verði hafið að nýju í kjölfar samkomulags félagsins við innviðaráðuneytið. Flogið verður þrisvar í viku og gildir samningurinn til 1. apríl. Fyrir tveimur árum var reglulegt flug til og frá Eyjum lagt niður í kjölfar heimsfaraldurs Covid. Eftirspurnin fór minnkandi og rekstrargrundvöllur fyrir fluginu fór dvínandi. Eftir það var flug til og frá Eyjum í miklu uppnámi og íbúar Vestmannaeyja fundu fyrir því. Lengi hafa íbúar Vestmannaeyja kallað eftir bættum samgöngum til og frá Eyjum en bættar samgöngur af þessu tagi eru afar mikilvægar fyrir íbúa og atvinnulíf þar. Einnig er flugið liður í því að tryggja lágmarksþjónustu yfir vetrarmánuðina. Að hafa náð þessu samkomulagi er sigur fyrir Vestmannaeyjar, Flugfélagið Erni og innviðaráðherra. Þar njóta allir góðs af. Einnig megum við ekki gleyma því að reglulegt flug til og frá Eyjum er mikilvægt öryggismál, að hafa tvær mögulegar samgönguleiðir þar sem ein þeirra er fljótt flug beint til Reykjavíkur, sem getur skipt sköpum þegar íbúar þurfa t.d. að sækja nauðsynlega þjónustu þaðan. Að auki hafa margir nýtt sér flug til og frá Eyjum þegar óvissa er í áætlunarferðum Herjólfs sem getur verið þegar það er vont í sjóinn, sérstaklega yfir vetrartímann.

Virðulegi forseti. Þetta er stórt skref fyrir Vestmannaeyjar en þetta er aðeins fyrsta skrefið. Við eigum að tryggja Eyjamönnum tryggar samgönguleiðir til frambúðar og finna varanlegar lausnir. Það er mikið fagnaðarefni að Ernir hafi tekið að sér að þjónusta svæðið aftur og vonandi er hægt að byggja upp flug til og frá Vestmannaeyjum til frambúðar með fleiri flugferðum í viku hverri. Ég vil óska Vestmannaeyingum og innviðaráðherra til hamingju með þetta fyrsta skref í samkomulaginu.“

Categories
Fréttir

Hópurinn sem fær ekki alltaf mikla athygli

Deila grein

14/12/2022

Hópurinn sem fær ekki alltaf mikla athygli

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins um hóp er fái ekki alltaf mikla athygli. Sagði hann hópinn mæta til vinnu, sjá um börnin, séu þau til staðar, elda matinn og borga reikninga. Þetta sé lífsins gangur dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð.

„Ég leyfi mér að segja að þetta sé hópurinn sem telur sig ekki vera í þeirri stöðu að geta kvartað eða hafa yfir höfuð rétt á því að kvarta,“ sagði Ágúst Bjarni.

„Þau sem þessum hópi tilheyra eru ekki á meðal þeirra tekjulægstu en eru ólík og bera oft mikið álag. Hér er ég m.a. að tala um ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum í lífinu á sama tíma og það er að ljúka námi, mögulega að eignast börn, fara í fæðingarorlof, koma sér þaki yfir höfuðið eða jafnvel stækka við sig.“

Sagði hann að á sama tíma sé ungt fólk að byggja upp atvinnuferil með tilheyrandi kröfum um að standa sig vel.

„Þetta tímabil í lífi fólks getur verið allt í senn hið ánægjulegasta og hið kvíðvænlegasta. Við þurfum að huga að þessu fólki og ríkisstjórnin hefur nú kynnt aðgerðir til að styðja við markmið samninga um að verja kaupmátt og lífskjör launafólks ásamt því að skapa forsendur fyrir stöðugleika í efnahagsmálum, m.a. lækkun vaxta.

Aðgerðir stjórnvalda styðja enn frekar við lífskjör millitekjufólks og er það gert með markvissum aðgerðum í húsnæðismálum og auknum stuðningi við barnafjölskyldur.

Áhersla er á fjölgun íbúa, aukin stofnframlög auk endurbóta á húsnæðisstuðningi.

Húsnæðisbætur hækka um 13,8% í upphafi árs 2023 til samræmis við þróun verðlags undanfarin ár.

Barnabótakerfið verður einfaldað og stuðninginn aukinn verulega sem fjölga mun barnafjölskyldum sem fá barnabætur,“ sagði Ágúst Bjarni.


Ræða Ágústs Bjarna á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að tekist hafi að lenda kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Ég hef áður rætt um hóp sem fær ekki alltaf mikla athygli. Þetta er hópurinn sem mætir til vinnu, sér um börnin, séu þau til staðar, eldar matinn og borgar reikninga. Svona gengur lífið fyrir sig dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Ég leyfi mér að segja að þetta sé hópurinn sem telur sig ekki vera í þeirri stöðu að geta kvartað eða hafa yfir höfuð rétt á því að kvarta. Þau sem þessum hópi tilheyra eru ekki á meðal þeirra tekjulægstu en eru ólík og bera oft mikið álag. Hér er ég m.a. að tala um ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum í lífinu á sama tíma og það er að ljúka námi, mögulega að eignast börn, fara í fæðingarorlof, koma sér þaki yfir höfuðið eða jafnvel stækka við sig. Allt þetta á sama tíma og það er að byggja upp atvinnuferil með tilheyrandi kröfum um að standa sig vel. Þetta tímabil í lífi fólks getur verið allt í senn hið ánægjulegasta og hið kvíðvænlegasta. Við þurfum að huga að þessu fólki og ríkisstjórnin hefur nú kynnt aðgerðir til að styðja við markmið samninga um að verja kaupmátt og lífskjör launafólks ásamt því að skapa forsendur fyrir stöðugleika í efnahagsmálum, m.a. lækkun vaxta. Aðgerðir stjórnvalda styðja enn frekar við lífskjör millitekjufólks og er það gert með markvissum aðgerðum í húsnæðismálum og auknum stuðningi við barnafjölskyldur. Áhersla er á fjölgun íbúa, aukin stofnframlög auk endurbóta á húsnæðisstuðningi. Húsnæðisbætur hækka um 13,8% í upphafi árs 2023 til samræmis við þróun verðlags undanfarin ár. Barnabótakerfið verður einfaldað og stuðninginn aukinn verulega sem fjölga mun barnafjölskyldum sem fá barnabætur.“

Categories
Fréttir

Myndlistarstefna lögð fyrir Alþingi

Deila grein

14/12/2022

Myndlistarstefna lögð fyrir Alþingi

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, mun leggja fram tillögu til þingsályktunar um myndlistarstefnu fyrir Alþingi á næstu dögum.

Stefnan byggir á vinnu verkefnahóps með fulltrúum frá Sambandi íslenskra myndlistarmanna, myndlistarráði, Listasafni Íslands, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, listskreytingasjóði, i8 Gallerí og þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneyti, en hópnum var falið að móta heildstæða stefnu um málefni myndlistar á Íslandi til ársins 2030. 

„Það eru miklar gleðifréttir að geta lagt fram tillögu til þingsályktunar um myndlistarstefnu. Stefnan kallar á fjölbreyttan stuðning við listsköpun, menntun og myndlæsi sem stuðlar að kraftmikilli myndlistarmenningu. Öflug myndlistarmenning getur þannig aukið þekkingu og áhuga almennings á myndlist og bætt lífsgæði og ánægju,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. 

Í stefnunni eru lögð til markviss skref til þess að einfalda en að sama skapi styrkja stofnana- og stuðningskerfi myndlistar og hlúa markvissar en áður að innviðum atvinnulífs myndlistar. Með því má bæta samkeppnishæfni fyrirtækja og efla útflutning og markaðssetningu á íslenskri myndlist. 

Í stefnunni er fjallað um framtíðarsýn myndlistarumhverfisins til ársins 2030 og meginmarkmið hennar sem eru fjögur talsins:

1. Á Íslandi ríki kraftmikil myndlistarmenning.
2. Stuðningskerfi myndlistar á Íslandi verði einfalt og skilvirkt.
3. Íslensk myndlist verði sýnileg og vaxandi atvinnugrein.
4. Íslensk myndlist skipi alþjóðlegan sess.

Hvert og eitt þessara markmiða skal stuðla að umbótum og jákvæðum breytingum svo framtíðarsýn stefnunnar geti orðið að veruleika. 

Stefnunni fylgir aðgerðaáætlun, en aðgerðirnar verða endurskoðaðar árlega í tengslum við gerð fjármálaáætlunar og fjárlaga til að greiða götu nýrra verkefna og efla myndlistarstarfsemi hér á landi enn frekar næsta áratug. Menningar- og viðskiptaráðuneyti mun fylgjast með framvindu aðgerða og birta upplýsingar þar að lútandi með reglubundnum hætti. 

Aðgerðirnar eru 16 talsins, en þess má geta að gert hefur verið ráð fyrir fjármagni til Myndlistarmiðstöðvar að upphæð 20 m.kr. til eins árs til stofnunar miðstöðvarinnar, vitundarvakningar, kynningarefnis, vefsíðugerðar og fleira. Auk þess eru aðrar aðgerðir sem tilgreindar eru fyrir árið 2023 þegar fjármagnaðar. 

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 14. desember 2022.

Mynd: Stjórnarráðið

Categories
Greinar

Stórt skref fyrir Vestmannaeyjar

Deila grein

14/12/2022

Stórt skref fyrir Vestmannaeyjar

Þær fréttir bárust í dag að innviðaráðuneytið hefði náð samkomulagi við Flugfélagið Erni um áætlunarflug til Vestmannaeyja þrisvar sinnum í viku. Lengi hefur verið ákall frá íbúum í Vestmannaeyjum um að bæta samgöngur til og frá eyjum og er framangreint samkomulag við Flugfélagið Erni liður í því að efla samgöngur að mati ráðuneytisins. Þá er það einnig afar mikilvægt fyrir íbúa og atvinnulíf í Eyjum, að tryggja lágmarksþjónustu í vetur.

Aðdragandinn

Á árunum 2010-2020 var áætlunarflug til Vestmannaeyja í höndum Flugfélagsins Ernis og í september 2020 þótti ástæða til að leggja flugið niður vegna minnkandi eftirspurnar í kjölfar Cov-19 faraldursins. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið samdi við flugfélagið í desember 2021 um svokallað lágmarksflug á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja sem var í gildi fram til 1. júní 2022. Reglulegt flug hefur verið í miklu uppnámi frá því það lagðist af.

Flugfélagið Ernir sinnti áætlunarflugi til Vestmannaeyja frá árinu 2010 til í september 2020 þegar ekki var annað í stöðunni en að leggja niður flug sökum minnkandi eftirspurnar. Það er því mikið fagnaðarefni að félagið hafi tekið að sér að þjónusta svæðið aftur og vonandi er hægt að byggja upp flug til og frá Vestmannaeyjum til frambúðar og með fleiri flugferðum í viku hverri.

Öryggismál

Þó að hér sé um tímabundið samkomulag að ræða þá megum við ekki gleyma því að við þurfum að leita leiða til að koma þessum málum í réttan farveg, þetta er fyrsta skrefið. Ef það er fullreynt að flug til eyja á markaðslegum forsendum geti gengið upp þá þarf strax að líta til þess hver séu næstu skref um framhaldið. 

Það er í grunninn öryggismál að það séu tvær samgönguleiðir til Eyja og er gríðarlega mikilvægt fyrir íbúa sveitarfélagsins. Margir þeirra hafa kosið að nýta sér áætlunarflug yfir vetrartímann þegar það hefur verið í boði vegna óvissu í áætlunarferðum Herjólfs. Við þurfum svo til framtíðar að finna varanlega lausn á þessum málum en hér er engu að síður um að ræða mikilvægt skref í þá átt.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. desember 2022.

Categories
Fréttir

Forvarnir gegn einelti og ofbeldi

Deila grein

13/12/2022

Forvarnir gegn einelti og ofbeldi

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur undirritað samning við Barnaheill. Samningurinn er liður í aðgerðum stjórnvalda til að sporna gegn ofbeldi í þágu farsældar barna.

Markmið samningsins er að styðja við rekstur og starfsemi Barnaheilla í því að vinna að réttindum og velferð barna með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Einkum er ætlað að styðja við verkefnin Verndarar barna og Vináttu – forvarnarverkefni gegn einelti.

Verndarar barna snýr að vitundarvakningu, fræðslu og forvörnum til verndar barna gegn ofbeldi. Verkefnið var fyrst sett á laggirnar árið 2006 á vegum samtakanna Blátt áfram, sem sameinaði krafta sína við Barnaheill árið 2019.

Vinátta er forvarnaverkefni Barnaheilla gegn einelti ætlað leikskólum, 1.–4. bekk grunnskóla, frístundaheimilum og dagforeldrum. Verkefnið felst í útgáfu námsefnis sem ætlað er börnum, foreldrum þeirra og starfsfólki sem og námskeiðum fyrir starfsfólk. Vináttu er ætlað að þjálfa félagsfærni og samskipti og stuðla að góðum skólabrag.

Í lok nóvember var gengið frá samningi til styrktar Veru, úrræðis Foreldrahúss fyrir börn í áhættuhegðun, um stuðning við börn sem eru þolendur ofbeldis eða sem beita ofbeldi.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 13. desember 2022.

Categories
Fréttir

Fleiri fá barnabætur og húsnæðisbætur hækka

Deila grein

13/12/2022

Fleiri fá barnabætur og húsnæðisbætur hækka

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að grípa til aðgerða í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Eru aðgerðirnar til þess fallnar að styðja við markmið samninganna um að verja kaupmátt og lífskjör launafólks og skapa forsendur fyrir stöðugleika í efnahagsmálum, lækkun verðbólgu og vaxta.

Aðgerðir stjórnvalda snúa einkum að stuðningi við lífskjör lág- og millitekjufólks með markvissum aðgerðum í húsnæðismálum og auknum stuðningi við barnafjölskyldur.

Áhersla er lögð á fjölgun íbúða og uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu með auknum stofnframlögum, endurbótum í húsnæðisstuðningi og bætta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda.

Barnabótakerfið verður einfaldað og stuðningur aukinn verulega en með breytingunum fjölgar fjölskyldum sem fá barnabætur. Stjórnvöld munu einnig á samningstímabilinu vinna að ýmsum umbótum, m.a. er varða heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í íbúðarhúsnæði, afkomutryggingu í fæðingarorlofi, atvinnuleysistryggingum og ábyrgðarsjóði launa auk málefna vinnustaðanámssjóðs.

Þá verður stuðningur veittur til að auka aðhald á neytendamarkaði með því að bæta aðgengi almennings að upplýsingum um þróun verðlags og skapa þannig hvata fyrir fyrirtæki til að halda aftur af verðhækkunum.

Í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2023 lagði ríkisstjórnin einnig fram sérstakar aðgerðir í nokkrum veigamiklum málaflokkum sem styðja við markmið samninganna og treysta grundvöll lífskjara en þar vega þyngst yfir 12 milljarða aukning til heilbrigðismála og hækkun á frítekjumarki örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna í 200.000 krónur á mánuði. 

Nánar um aðgerðirnar

Húsnæðismál

  • Fjölgun nýrra íbúða.
    Stjórnvöld munu í samningum við sveitarfélög á grundvelli rammasamkomulags um uppbyggingu íbúða næstu 10 árin hafa að markmiði að auka lóðaframboð og veita nauðsynlegan fjárstuðning til að tryggja íbúðauppbyggingu.
  • Fjölgun almennra íbúða.
    Áfram verður unnið að öflugri uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu. Stofnframlög ríkisins til að auka framboð íbúða á viðráðanlegu verði í almenna íbúðakerfinu verða 4 milljarðar króna á árinu 2023.
  • Endurbætur verða gerðar á húsnæðisstuðningi.
    • Húsnæðisbætur leigjenda hækka um 13,8% í upphafi næsta árs og tekjuskerðingarmörk húsnæðisbóta hækka um 7,4%.
    • Eignaskerðingamörk í vaxtabótakerfinu hækka um 50% í upphafi næsta árs.
    • Almenn heimild til skattfrjálsrar nýtingar séreignarsparnaðar til kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota eða ráðstöfunar inn á höfuðstól verður framlengd til ársloka 2024.
    • Fyrirkomulag sérstaks húsnæðisstuðnings og húsnæðisbóta til leigjenda verður tekið til endurskoðunar á samningstímanum með það að markmiði að tryggja jafnræði og einfalda kerfið fyrir leigjendur.
  • Bætt réttarstaða og húsnæðisöryggi leigjenda:
    • Aðilar vinnumarkaðarins fá aðkomu að starfshópi um endurskoðun húsaleigulaga til að bæta réttarstöð og húsnæðisöryggi leigjenda.

Barnabætur

  • Barnabótakerfið verður einfaldað, stuðningur við barnafjölskyldur efldur og fjölskyldum sem njóta stuðnings fjölgað.
  • Dregið verður úr skerðingum í barnabótakerfinu, jaðarskattar af völdum barnabóta lækkaðir og skilvirkni og tímanleiki bótanna aukinn.
  • Teknar verða upp samtímagreiðslur barnabóta þannig að biðtími eftir bótum verði aldrei lengri en 4 mánuðir eftir fæðingu barns.
  • Heildarfjárhæð barnabóta verður 5 milljörðum hærri en í núverandi kerfi á næstu tveimur árum.

Önnur mál

  • Veittur verður 10 m.kr. viðbótarstuðningur til að auka aðhald á neytendamarkaði.
  • Skoðaðar verða leiðir til að auðvelda lífeyrissjóðum að koma að uppbyggingu á íbúðarhúsnæði til útleigu með því að rýmka heimildir þeirra til fjárfestinga leigufélögum.
  • Lagt verður mat á greiðslur og hámarksfjárhæðir í Fæðingarorlofssjóði og ábyrgðasjóði launa með það að markmiði að þær verði endurskoðaðar á árinu 2024. Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins munu sameiginlega leggja mat á tekjuöflun og ráðstöfun tryggingagjalds með það að markmiði að tryggja langtímajafnvægi í fjármögnun þeirra réttinda sem það stendur undir í Ábyrgðasjóði launa, Fæðingarorlofssjóði, starfsendurhæfingarsjóði og Atvinnuleysistryggingasjóði.
  • Nefnd um heildarendurskoðun atvinnuleysistrygginga skal ljúka vinnu sinni eigi síðar en í lok apríl 2023. Unnið verður að innleiðingu á umbótum í atvinnuleysistryggingakerfinu á samningstímanum í samræmi við tillögur nefndarinnar.
  • Málefni og fjármögnun vinnustaðanámssjóðs verði tekin til endurskoðunar í tengslum við gerð fjármálaáætlunar á árinu 2023 til að styðja við markmið um aukið vægi starfsnáms.

Aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinna vegna afgreiðslu fjárlaga

Ríkisstjórnin lagði á dögunum til sérstakar aðgerðir í nokkrum veigamiklum málaflokkum vegna afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2023 sem styðja við markmið samninganna og treysta grundvöll lífskjara. Heilbrigðismál vega þar þyngst en lögð er til yfir 12 milljarða aukning í þeim málaflokki. Er gert ráð fyrir að framlögin renni bæði til rekstrar sjúkrahúsa og heilsugæslunnar, eða um 4,3 milljarðar króna. Einnig er rík áhersla á að framlögin nýtist í beina þjónustu við sjúklinga, svo sem með því að vinna niður biðlista eftir liðskiptaaðgerðum og með auknum framlögum til heimahjúkrunar og aðgerða til að dreifa álagi í heilbrigðisþjónustu.

Meðal annarra mikilvægra mála má nefna að lagður er til rúmur milljarður til hækkunar frítekjumarks öryrkja í 200.000 krónur á mánuði og að gefnir verði eftir 5 milljarðar króna af tekjuskatti einstaklinga en útsvarstekjur sveitarfélaga hækkaðar á móti til að bæta afkomu þeirra í tengslum við stöðu á málaflokki fatlaðs fólks.

Þá er gert ráð fyrir stórauknum framlögum á sviði almanna- og réttaröryggis, þar á meðal um 900 milljónum króna til lögreglunnar og hálfs milljarðs hækkun í aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi.

Categories
Fréttir

Sauðfjárbændur samhljóma á aðalfundum – niðurtröppun taki ekki gildi um áramótin

Deila grein

13/12/2022

Sauðfjárbændur samhljóma á aðalfundum – niðurtröppun taki ekki gildi um áramótin

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, var með óundirbúna fyrirspurn fyrir matvælaráðherra á Alþingi um greiðslumark sauðfjárbænda.

Minnti hún matvælaráðherra á að greiðslumarkið væri eini öryggi greiðslugrunnurinn sem sauðfjárbændur hljóta sama hvort ári vel eða illa. Því komi það á óvart að ætlan ráðherra væri að hefja að nýju niðurtröppun á greiðslumarkinu.

„Árið 2019 var ákveðið að stöðva niðurtröppun greiðslumarks vegna slæmrar afkomu í stéttinni. Það var án efa rétt skref á sínum tíma en staða sauðfjárbænda í dag er því miður engu skárri en þá. Það vekur því furðu að hefja eigi niðurtröppun að nýju þegar staðan hefur ekki batnað síðan árið 2019 og nýliðun er því miður í lágmarki,“ sagði Ingibjörg.

„Sauðfjárbændur á Norðvestur- og Norðausturlandi horfa áhyggjufullir á áframhaldið, skyldi umrædd niðurtröppun verða að veruleika, enda þau svæði landsins sem verst verða úti ef þetta gengur eftir. Sauðfjárbændur hafa ítrekað ávarpað fyrirhugaða niðurtröppun og deilt áhyggjum sínum af stöðunni, bæði opinberlega og innan sinna raða.“

Á síðustu tveimur aðalfundum sauðfjárbænda hefur niðurstaðan verið samhljóma um að niðurtröppun skuli ekki taka gildi um áramótin. Augljóst sé að sauðfjárbændur standa saman í þessu hagsmunamáli.

„Að auki vekja þessi áform sérstakan óhug meðal yngri sauðfjárbænda sem margir hafa fjárfest í greiðslumarki. Þessi óvissa er alls ekki til þess fallin að auka nýliðun innan stéttarinnar. Þetta er skýr vilji bænda og hann byggir ekki á óskhyggju heldur nauðsyn.“

„Vegna þessa vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggst halda niðri niðurtröppun á greiðslumarki til sauðfjárbænda áfram í lok ársins þrátt fyrir ákall sauðfjárbænda og þann mikla sameiningarmátt sem loksins er innan greinarinnar,“ sagði Ingibjörg.

„Ekki þeir er hringja í ráðherra, ráðuneytið og í fleiri“

Matvælaráðherra segir að bændur hefðu enga eina skoðun á kerfinu, það hafi komið fram í svörum bænda í könnunum og eins í samtölum bænda er hringja í ráðherra, ráðuneytið og í fleiri, eru ólík.

„Þegar sauðfjárbændur eru spurðir hversu sanngjarnt eða ósanngjarnt þeim finnist greiðslumarkskerfið vera þá er afstaða sauðfjárbænda klofin. Sá hluti sauðfjárbænda sem á mikið greiðslumark vill halda í það kerfi og finnst það sanngjarnt. Þeir bændur sem eiga lítið greiðslumark og sjá að þangað flytjast fjármunir finnst þetta kerfi ósanngjarnt.“

„Raunar er kerfið svo umdeilt að meira að segja fimmtungur þess hluta sauðfjárbænda sem á mikið greiðslumark telur að kerfið sé ósanngjarnt þrátt fyrir það. Þessi spurning var lögð fyrir sauðfjárbændur sumarið 2021 í könnun á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og könnuninni svöruðu 770 sauðfjárbændur,“ sagði matvælaráðherra.

„Aðalatriðið er það, virðulegi forseti, að halda því til haga að á mínum tíma í embætti hefur svo sannarlega verið hlustað á bændur,“ sagði matvælaráðherra.

Vilji sauðfjárbænda sjaldan verið jafn skýr

Ingibjörg sagði það „afar ánægjulegt að heyra að það sé verið að hlusta á sauðfjárbændur. Það er varla hægt að ítreka nógu oft hversu mikilvægt það er að taka samtalið og það sé hlustað, því að sjaldan hefur vilji sauðfjárbænda verið jafn skýr og núna.“

„Við eigum að koma í veg fyrir að rekstrargrundvöllur sauðfjárbænda sem stendur höllum fæti í dag fari versnandi. Með leyfi forseta, vitna ég hér til samningsins:

„Á grundvelli upplýsinga skv. 1. mgr. getur framkvæmdanefnd búvörusamninga ákveðið að færa fjármuni á milli einstakra verkefna sem falla undir samning um starfsskilyrði sauðfjárræktar. Heimilt er að færa árlega allt að 20% þeirrar fjárhæðar sem ætluð er til hvers verkefnis.“

„Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er þetta ekki leið sem er hugsanlega fær þar sem kveðið er á um þetta í samningnum sjálfum?“

Matvælaráðherra svarði því til að ef fallast ætti á beiðnina myndi rúmlega helmingur bænda fá hærri greiðslur en helmingur bænda fá lægri greiðslur.

„Heildarumfangið er upp á rúmar 110 millj. kr. sem myndi flytjast milli bænda, en þetta eru 2,3% af heildarumfangi sauðfjársamningsins. Það er rétt að árétta að við þessa breytingu lækkar ekki stuðningurinn við sauðfjárrækt heldur færist, bara þannig að það sé sagt,“ sagði matvælaráðherra.

Categories
Greinar Uncategorized

VERJA ÞARF STERKA STÖÐU RÍKISSJÓÐS Í FJÁRLÖGUM 2023

Deila grein

13/12/2022

VERJA ÞARF STERKA STÖÐU RÍKISSJÓÐS Í FJÁRLÖGUM 2023

Það er fastur liður í aðventudagskrá Alþingis að fjalla um og samþykkja fjárlög fyrir komandi ár. Í upphafi kjörtímabils voru krefjandi tímar fram undan, heimsfaraldur stóð yfir og sama dag og takmörkunum var aflétt hér á landi réðust Rússar inn í Úkraínu. Þessir þættir hafa skapað óvissu bæði hér innanlands sem og í Evrópu. Eðli málsins samkvæmt er það ekki óeðlilegt í ástandi sem þessu að verðbólga og hækkun á aðföngum taki sér pláss í fjárlögum líkt og í heimilisrekstri landsmanna. Staðan í efnahagsmálum í Evrópu er erfiðari en lengi hefur verið.

Skýr afkomubati

Þrátt fyrir þessar staðreyndir er það markmið ríkisstjórnarinnar að verja sterka stöðu ríkissjóðs með því að lækka rekstrarhalla og stöðva hækkun skuldahlutfalls á næsta ári. Í framlögðum fjárlögum má finna skynsamleg skef framávið sem lúta að því að styrkja áfram innviði og grunnþjónustu í landinu en það er sterkur leikur til að verja kaupmátt landsmanna. Þá má einnig finna að dregið er úr útgjöldum enda var verulega bætt í útgjöld til að verja störf og heimili í gegnum heimsfaraldurinn. Það er mikilvægt skref til að vinna gegn verðbólgu þegar horft er til næstu missera í þjóðarbúskapnum. Í fjárlögum næsta árs eru þó jákvæð teikn á lofti um að við séum að vaxa út úr þeim stóru verkefnum sem við höfum staðið frammi fyrir og að viðsnúningur geti orðið hraður ef rétt er haldið á spöðunum.

Treystum heilbrigðisþjónustu

Heilbrigðiskerfið með öllu sínu frábæra starfsfólki hefur staðið sem klettur í gegnum heimsfaraldur þrátt fyrir mikla ágjöf. En svo það geti staðið sterkt áfram þarf að bæta verulega í málaflokkinn. Við erum enn að glíma við eftirköstin eftir faraldurinn og þá þurfum við einnig að mæta næstu áskorun sem er fjölgun landsmanna og stækkandi hópur eldra fólks. Auk þess er til staðar uppsöfnuð þjónustuþörf eftir COVID. Ríkisstjórnin stendur með heilbrigðiskerfinu en framlög til heilbrigðismála hækka um 17,4 ma.kr. á næsta ári. Þar vegur þyngst 6.8 ma.kr raunhækkun til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga til að koma til móts við aukna eftirspurn og öldrun þjóðarinnar. Þá verður áfram haldið við að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað innan heilbrigðiskerfisins með 2. ma. viðbótarframlagi auk þess sem horft er til þess að efla heimahjúkrun.

Framlag til jarðhitaleitarátaks

Í tillögum starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Til þess þarf að tryggja fjármagn til jarðhitaleitar þannig að hægt verði að rannsaka til hlítar möguleika á jarðhita við rafkyntar hitaveitur. Það er því sérstaklega jákvætt að í fjárlögum næsta árs má finna 150 m.kr fram til jarðhitaleitarátaks á næsta ári. Hér er um að ræða sérstaklega arðbært verkefni á Vestfjörðum þar sem jákvæð niðurstaða slíkra rannsókna myndi draga úr notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar. Allt er þetta liður í því að nálgast markmið okkar um að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040.

Ferjurekstur tryggður

Það er örugglega öllum enn í fersku minni þegar Breiðafjarðarferjan Baldur bilaði í siglingu sinni yfir fjörðinn og minnti okkur rækilega á mikilvægi þess að þeir farþegar sem nýta sér þennan samgöngumáta geti treyst á öryggi skipsins. Sveitarfélög beggja megin Breiðafjarðar telja mikilvægt að tryggja þennan samgöngumáta, þrátt fyrir að bættar samgöngur á vegum stæði fyrir dyrum.

Í fjárlögum næsta árs má nú finna 210 m.kr. til þess að tryggja ferjurekstur um Breiðafjörð. Þá er það fyrirséð að núverandi rekstraraðili ferjunnar Baldurs mun hætta siglingum um Breiðafjörð. Þess í stað er gert ráð fyrir því að leigja eða kaupa aðra ferju og hefur eitt skip komið til álita, Röst, sem er nú í siglingum í Norður – Noregi.

Löggæsla efld

Áform eru uppi um að styrkja lögregluna um allt land með því að dreifa verkefnum á lögregluembættin út um landið og dreifa þannig álaginu. Á sama tíma á að styrkja grunnviðbragð lögregluembættanna á landsbyggðunum. Auk þess sem meirihluti fjárlaganefndar lagði til aukna fjárheimild upp á 200 milljónir til að draga úr aðhaldskröfu á lögregluna.

Velferðarfjárlög

Heilt yfir getum við horft til þess að fjárlög fyrir árið 2023 séu velferðarfjárlög, þar má m.a. finna hækkun á frítekjumarki atvinnutekna örorku og endurhæfingalífeyrisþegar í 200 þús , aukið kastljós á heilbrigðiskerfið, tímabundið framlag til sveitarfélaga vegna samræmda móttöku flóttamanna og ásamt sérstöku úrræði í tengslum við móttöku flóttabarna.

Sterk landsbyggð tekur á móti nýjum áskorunum

Við horfum fram á veginn inn í nýja framtíð. Við sjáum það nú að stuðningur stjórnvalda í gegnum heimsfaraldur við atvinnulífið og fjölskyldur í landinu skilaði því að við komum standandi niður eftir heimsfaraldur og stöndum mun betur en margar aðrar þjóðir. Með mörgum ákveðnum og markvissum skrefum voru settir saman aðgerðarpakkar til að verja fólk og fyrirtæki. Áfram verða þó til staðar áskoranir sem takast þarf á við, en þetta ár hefur sýnt að byggðarlög um land allt eru tilbúin í að nýta sér þau tækifæri og sérstöðu sem þau búa við, til að vaxa áfram og dafna.

Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmenn Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 10. desember 2022.

Categories
Greinar

Kastljós kvikmyndaheimsins á Íslandi

Deila grein

12/12/2022

Kastljós kvikmyndaheimsins á Íslandi

Kast­ljós kvik­mynda­heims­ins bein­ast nú að Íslandi þegar Evr­ópsku kvik­mynda­verðlaun­in (e. Europe­an Film Aw­ards) fara fram í Hörpu í kvöld. Það er mik­ill heiður fyr­ir Ísland að Reykja­vík hafi orðið fyr­ir val­inu sem vett­vang­ur verðlaun­anna en hátíðin er hald­in annað hvert ár í Berlín en þess á milli til skipt­is í öðrum borg­um Evr­ópu en ís­lenska ríkið og Reykja­vík­ur­borg halda hátíðina í sam­starfi við Evr­ópsku kvik­mynda­aka­demí­una.

Það að halda hátíð sem þessa hér á landi er enn ein rós­in í hnappagat ís­lenskr­ar kvik­mynda­menn­ing­ar sem hef­ur eflst mjög á umliðnum árum. Miklu er til tjaldað við að halda hátíðina en um 1.200 gest­ir verða viðstadd­ir hana, þar af um 700 er­lend­ir gest­ir frá yfir 40 lönd­um auk yfir 100 blaðamanna og áhrifa­valda sem munu gera hátíðinni skil.

Á umliðnum árum hafa stór skref verið tek­in til þess að efla ís­lenska kvik­mynda­gerð. Fyrsta heild­stæða kvik­mynda­stefn­an fyr­ir Ísland, Kvik­mynda­stefna til árs­ins 2030 – List­grein á tíma­mót­um, var kynnt fyr­ir tveim­ur árum sem markaði ákveðin vatna­skil. Í henni eru út­l­istuð ýmis mark­mið og fjölþætt­ar aðgerðir til þess að efla um­gjörð kvik­mynda­gerðar hér á landi, til að mynda í mennta­mál­um, betri sam­keppn­is­stöðu, auk­inni sjálf­bærni og mark­vissu alþjóðlegu kynn­ing­ar­starfi.

Mik­ill metnaður hef­ur verið lagður í fram­fylgd stefn­unn­ar á skömm­um tíma. Þannig fékk Kvik­mynda­sjóður aukainn­spýt­ingu upp á tæp­an millj­arð króna vegna heims­far­ald­urs­ins. Í gær var til­kynnt um áætlaða viðbótar­fjármuni á næsta ári til þess að koma til móts við breyt­ing­ar í rík­is­fjár­mála­áætl­un frá því í sum­ar. End­ur­greiðslu­hlut­fall í kvik­mynda­gerð á Íslandi hef­ur verið hækkað í vor úr 25% í 35% en fram­lag til end­ur­greiðslna í kvik­mynda­gerð á næsta ári er áætlað upp á 5,7 millj­arða króna, sem er veru­leg hækk­un. Fjár­mun­ir til kvik­mynda­mennt­un­ar á fram­halds­skóla­stigi voru aukn­ir og langþráðu kvik­mynda­námi á há­skóla­stigi komið á lagg­irn­ar svo dæmi séu tek­in.

Allt þetta skipt­ir máli fyr­ir þann öfl­uga hóp fólks sem hef­ur helgað sig ís­lenskri kvik­mynda­gerð, en án hans væri kvik­myndaiðnaður­inn fá­tæk­leg­ur hér á landi. Íslensk kvik­mynda­menn­ing er orðin samof­in þjóðarsál­inni og menn­ingu lands­ins. Sá ríki vilji stjórn­valda til þess að sækja um að halda Evr­ópsku kvik­mynda­verðlaun­in hér á landi var meðal ann­ars með of­an­greint í huga, að til­einka hátíðina gras­rót­inni í ís­lenskri kvik­mynda­gerð og und­ir­strika það, með veg­leg­um kast­ljós­um, hversu framar­lega Ísland stend­ur í heimi kvik­mynd­anna. Ég óska öll­um til ham­ingju með hátíð dags­ins, sem verður landi, þjóð og menn­ingu til sóma.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar­málaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 10. desember 2022.