Categories
Fréttir Greinar

Alþjóðahagkerfið sýnir styrk en verðbólga lækkar hægt

Deila grein

22/04/2023

Alþjóðahagkerfið sýnir styrk en verðbólga lækkar hægt

Alþjóðahagkerfið náði að miklu leyti að rétta úr kútnum eftir heimsfaraldurinn og innrás Rússlands í Úkraínu. Kínverska hagkerfið hefur komið sterkt inn eftir opnun þess. Aðfangakeðjur eru að komast í samt lag og hækkanir á olíu- og hrávörumörkuðum hafa gengið til baka að stórum hluta.

Alþjóðasamfélagið stendur þó frammi fyrir nýjum áskorunum sem tengja má beint eða óbeint til þessara áfalla. Verðbólgudraugurinn hefur vaknað úr löngum dvala og seðlabankar um allan heim hafa þurft að stíga fast á bremsuna og hækkað vexti. Sagan kennir okkur að miklar vaxtahækkanir á skömmum tíma geta haft afleiðingar ekki bara á heimili heldur einnig á heimshagkerfið.

Vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var haldinn um helgina og margt áhugavert til umræðu enda hefur ýmislegt reynt á hagstjórn og fjármálamarkaði síðustu mánuði. Á vorfundum Sjóðsins ber yfirleitt hæst hagvaxtarspá þeirra og áhættugreining á alþjóðahagkerfinu.

Verðbólga lækkar en hægir á hagvexti

Mikið aðhald peningastefnu á heimsvísu er farin að hafa áhrif og ætti að draga úr verðbólgu á heimsvísu. Vísbendingar þess efnis eru þegar komnar fram. Verðbólga á Spáni er til að mynda orðin 3,3%. Hins vegar hefur hægt á hagvexti hjá þróuðum ríkjum og þótt víða hafi dregið úr verðbólgu er hún enn til staðar. Samkvæmt spá Sjóðsins þá mun verðbólga lækka á heimsvísu, þó hægar en gert var ráð fyrir í upphafi, úr 8,7 prósentum í fyrra í 7 prósent í ár og 4,9 prósent árið 2024. Áhrifin af miklu aðhaldi peningastefnu eru þó jafnframt að koma fram í minnkandi hagvexti, en Sjóðurinn spáir að hagvöxtur lækki úr 3,4% á síðasta ári í 2,8% á þessu ári. 

Sagan kennir okkur að miklar vaxtahækkanir á skömmum tíma geta haft afleiðingar ekki bara á heimili heldur einnig á heimshagkerfið.

Það er ljóst af fréttum undanfarinna vikna að þegar er farið að reyna á fjármálamálakerfið. Þá er einnig ljóst að það mun reyna á skuldug þjóðríki í næstu framtíð, en skuldir þeirra hækkuðu verulega vegna Covid-kreppunnar. Þar verður á ferðinni önnur áskorun.

Hækkandi vaxtaumhverfi er stóráhætta í alþjóðahagkerfi

„Það er afar líklegt að leitin að ávöxtun í lágvaxtaumhverfi geti stuðlað óróleika í fjármálakerfinu, þegar fram líða stundir. Þegar fjárfestar hafa væntingar til að lágvaxtaumhverfið verði viðvarandi eða að taumhald peningastefnunnar verði lítið, þá taka fjárfestingar mið af því”, var haft eftir Jaime Caruana, fyrrverandi forstjóra Alþjóðagreiðslubankans BIS, á fundi í Abu Dhabi árið 2014, þegar hann tjáði sig um hvað mögulegar breytingar á peningastefnu gætu haft í för með sér. 

Það er líklegt að við munum sjá frekara umrót á fjármálamörkuðum, þegar fram líða stundir.

Alþjóðahagkerfið hefur búið við lágvaxtaumhverfi um afar langt skeið og líklega lengur en Jamie Caruana reiknaði með þegar hann hafði uppi þessi orð. Peningastefnan hefur notið þess að verðbólga hefur líka verið lág á heimsvísu um langt skeið. Aukin hnattvæðing undanfarna áratugi á sinn hlut í þessari þróun. Breytingarnar á vaxtaumhverfinu hafa verið miklar í sögulegu samhengi og komið fram á skömmum tíma. Það var því líklegt að eitthvað gæfi eftir. Veikleikar hafa verið að koma fram í fjármálakerfinu eins og fall Silicon-Valley bankans í Kaliforníu og Crédit Suisse í Sviss báru með sér. Það er jafnframt líklegt að við munum sjá frekara umrót á fjármálamörkuðum, þegar fram líða stundir.

Arðsemi fyrirtækja á að hjálpa í baráttunni við verðbólgu

Spenna ríkir enn á vinnumörkuðum víða um heim, þar sem allir hafa ekki enn skilað sér á vinnumarkaðinn eftir Covid-kreppuna. Á sama tíma er lífaldur þjóða að hækka hratt og fækkar því vinnandi höndum. Þessi þróun getur leitt það af sér að stýrivextir verði hærri í lengri tíma en ella. Þýðir þetta að við séum komin í umhverfi víxlverkunar launa og verðlags? Hagtölurnar benda ekki til þess. Kaupmáttur launa hefur í besta falli staðið í stað en líklegt er þó að hann hækki eitthvað vegna þeirrar eftirspurnar sem er eftir vinnuafli. Að sama skapi hefur arðsemi fyrirtækja og framlegð aukist á undanförnum árum meðal annars vegna hnattvæðingar og aukinnar sjálfvirkni. 

Eðlileg framvinda hagkerfisins er að fyrirtækin ættu að geta tekið við hækkandi launakostnaði, að því gefnu að verðbólguvæntingar séu innan skynsamlegra marka. Helsta áskorun íslenskra stjórnvalda er að takast á við verðbólguna og það er afar mikilvægt að allir taki höndum saman í þeirri baráttu. Það á jafnt við um hið opinbera og einkaaðila.

Ef hægir á hagvexti í umheiminum kemur það fljótlega fram í hagvexti hér. Það mun einnig hafa áhrif á fjármögnun þjóðarbúsins í gegnum bankakerfið og beina erlenda fjárfestingu sem verður þyngri og dýrari.

Áhrifin á Íslandi

Í vorspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er því spáð að verulega muni hægja á hagvexti á Íslandi á næsta ári eða úr 6,4% í 2,3%. Þá er því jafnframt spáð að verðbólga fari lækkandi. Skuldir ríkissjóðs eru lágar í samanburði við margar nágrannaþjóðir og bankakerfið stendur hér traustum fótum. Vaxtahækkanir erlendis hafa þó áhrif hér eins og annars staðar í heiminum. Ef hægir á hagvexti í umheiminum kemur það fljótlega fram í hagvexti hér. Það mun einnig hafa áhrif á fjármögnun þjóðarbúsins í gegnum bankakerfið og beina erlenda fjárfestingu sem verður þyngri og dýrari.

Á vorfundinum komu einnig fram áhyggjur um það að í ljósi rofs á áfangakeðjum í kjölfar Covid og aukinnar hörku í alþjóðastjórnmálum gæti dregið úr mætti alþjóðaviðskipta á næstu misserum og það gæti komið niður á lífskjörum víða um heim. Lífskjör Íslendinga hafa frá upphafi síðustu aldar verið afar háð opnum og bættum alþjóðaviðskipum. Mikilvægt verður að fylgjast vel með þessari þróun mála.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á Innherji á visir.is 19. apríl 2023.

Categories
Fréttir

„Stórsókn í uppbyggingu íbúða en betur má ef duga skal“

Deila grein

19/04/2023

„Stórsókn í uppbyggingu íbúða en betur má ef duga skal“

„Við Íslendingar berum okkur jafnan saman við Evrópu en íbúaþróun á Íslandi er í engu samhengi við Evrópu og því er erfitt að gera raunhæfan samanburð. Íbúum í Evrópu hefur fjölgað um 2,8% frá aldamótum en íbúum á Íslandi hefur fjölgað um nær 40%. Auknum vinsældum og vexti íbúafjölda fylgja vissulega áskoranir og eitt af því er að tryggja nægilegan fjölda íbúða á hverjum tíma. Síðustu ár hefur verið gerð stórsókn í uppbyggingu íbúða en betur má ef duga skal,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.

Fór hún yfir að síðustu ár hafi verkefnin fyrst og fremst miðast að því „að mæta uppsafnaðri þörf fyrri ára en það er afleiðing af aðgerðaleysi þeirra sem sátu við stjórnvölinn frá 2007–2012 sem segja má að hafi sett met í skorti á íbúðum.“

Núverandi ríkisstjórn vinnu að því að fjölga íbúðum og þá um leið að hjálpa fólki að komast í eigið húsnæði og tryggja fleiri leiguíbúðir í óhagnaðardrifnu eða samvinnuformi.

„Í kjölfarið hefur verið ánægjulegt að sjá þá þróun að einkaaðilum á leigumarkaði hefur fækkað mikið og varanlegt húsnæði í eigu hins opinbera og félaga hefur aukist. Það segir okkur að markaðurinn hafi hægt og rólega verið að lagast.

En við þurfum að halda áfram því við glímum enn við afleiðingar stöðnunar fyrri ára og í ofanálag erum við að glíma við alþjóðlega verðbólgu sem klárlega mun hafa áhrif á markaðinn. Okkar markmið ætti núna að vera fyrst og fremst að tryggja að við séum ekki að safna í aðra snjóhengju og halda áfram að byggja nægilega mikið af húsnæði og fjölga íbúðum í óhagnaðardrifnu leigukerfi á sem flestum stöðum hringinn í kringum landið,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Undanfarið hefur borið á gagnrýni á stöðu húsnæðismála hér á landi. Ég ætla mér ekki hér í dag að gera lítið úr þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í húsnæðismálum en það er langt því frá að ekkert hafi verið gert í tíð núverandi ríkisstjórnar. Við Íslendingar berum okkur jafnan saman við Evrópu en íbúaþróun á Íslandi er í engu samhengi við Evrópu og því er erfitt að gera raunhæfan samanburð. Íbúum í Evrópu hefur fjölgað um 2,8% frá aldamótum en íbúum á Íslandi hefur fjölgað um nær 40%. Auknum vinsældum og vexti íbúafjölda fylgja vissulega áskoranir og eitt af því er að tryggja nægilegan fjölda íbúða á hverjum tíma. Síðustu ár hefur verið gerð stórsókn í uppbyggingu íbúða en betur má ef duga skal.

Aðgerðir síðustu ára hafa fyrst og fremst miðað að því að mæta uppsafnaðri þörf fyrri ára en það er afleiðing af aðgerðaleysi þeirra sem sátu við stjórnvölinn frá 2007–2012 sem segja má að hafi sett met í skorti á íbúðum. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa miðað að því að fjölga íbúðum, hjálpa fólki að komast í eigið húsnæði og byggja fleiri leiguíbúðir í óhagnaðardrifnu eða samvinnuformi. Í kjölfarið hefur verið ánægjulegt að sjá þá þróun að einkaaðilum á leigumarkaði hefur fækkað mikið og varanlegt húsnæði í eigu hins opinbera og félaga hefur aukist. Það segir okkur að markaðurinn hafi hægt og rólega verið að lagast. En við þurfum að halda áfram því við glímum enn við afleiðingar stöðnunar fyrri ára og í ofanálag erum við að glíma við alþjóðlega verðbólgu sem klárlega mun hafa áhrif á markaðinn. Okkar markmið ætti núna að vera fyrst og fremst að tryggja að við séum ekki að safna í aðra snjóhengju og halda áfram að byggja nægilega mikið af húsnæði og fjölga íbúðum í óhagnaðardrifnu leigukerfi á sem flestum stöðum hringinn í kringum landið.“

Categories
Fréttir

„Smelltu til að segja upp“

Deila grein

19/04/2023

„Smelltu til að segja upp“

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, ræddi neytendavernd í störfum þingsins og benti á athyglisvert framtak hjá bandarísku neytendastofnuninni, sem hefur gert kröfu um svokallað „smelltu til að segja upp“-ákvæði. Þannig er seljendum tryggt að jafn auðvelt sé að koma upplýsingum til leiðar til neytenda og neytendum að neyta þjónustu eða skrá sig úr henni.

„Hver hefur ekki lent í vandræðum við að segja upp þjónustu eða jafnvel skráð sig í þjónustu fyrir mistök sem erfitt er að segja upp? Ýmis dæmi eru til þar sem seljendur þjónustu hanna og markaðssetja oft ókeypis prufuáskriftir og endurteknar áskriftir en þær reynast svo stundum erfiðar þegar kemur að upplýsingagjöf til þeirra sem lenda í því að skrá sig óviljandi,“ sagði Jóhann Friðrik.

Þess eru dæmi að seljendur gefi „takmarkaðar upplýsingar um aukagjöld og því miður fær fólk stundum reikninga eða rukkanir á greiðslukort sín sem neytendur hafa ekki samþykkt eða kannast illa við. Seljendur gera það oft verulega torvelt eða jafnvel ómögulegt að hætta við kaup á þjónustu, sér í lagi á internetinu.“

„Rannsóknir vestan hafs hafa leitt í ljós að vinnubrögð sem þessi hafa skaðað neytendur í áratugi. Þar í landi hefur fólk verið fast í endurteknum greiðslum fyrir hluti sem það vildi aldrei eða vildi ekki halda áfram að fá og lög og reglur hafa náð illa utan um.

Ég hef sent Neytendastofu fyrirspurn um það hvernig núverandi lög og reglur hér á landi ná utan um vandamálið en mig grunar að okkur skorti úrræði. Það þarf ekkert að velkjast í vafa um mikilvægi þess að banna rangfærslur, að gefa fólki mikilvægar upplýsingar á skýran hátt, ganga úr skugga um að fólk viti hvað það er að samþykkja og leyfa fólki að hætta við á einfaldan og auðveldan hátt.

Tökum dæmi: Ef aðili er með hnapp á sinni sölusíðu sem skráður er „skráðu þig í þjónustu“ á að vera hnappur á sömu síðu sem merktur er til að skrá sig úr þeirri sömu þjónustu,“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.


Ræða Jóhanns Friðriks í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Mig langar að ræða hérna undir störfum þingsins neytendavernd. Bandaríska neytendastofnunin hefur nú lagt fram svokallað „smelltu til að segja upp“-ákvæði sem krefst þess að seljendum sé gert það jafn auðvelt að koma upplýsingum til leiðar til neytenda og neytendum að neyta þjónustu eða skrá sig úr henni. Hver hefur ekki lent í vandræðum við að segja upp þjónustu eða jafnvel skráð sig í þjónustu fyrir mistök sem erfitt er að segja upp? Ýmis dæmi eru til þar sem seljendur þjónustu hanna og markaðssetja oft ókeypis prufuáskriftir og endurteknar áskriftir en þær reynast svo stundum erfiðar þegar kemur að upplýsingagjöf til þeirra sem lenda í því að skrá sig óviljandi. Í einhverjum tilvikum gefa seljendur takmarkaðar upplýsingar um aukagjöld og því miður fær fólk stundum reikninga eða rukkanir á greiðslukort sín sem neytendur hafa ekki samþykkt eða kannast illa við. Seljendur gera það oft verulega torvelt eða jafnvel ómögulegt að hætta við kaup á þjónustu, sér í lagi á internetinu.

Rannsóknir vestan hafs hafa leitt í ljós að vinnubrögð sem þessi hafa skaðað neytendur í áratugi. Þar í landi hefur fólk verið fast í endurteknum greiðslum fyrir hluti sem það vildi aldrei eða vildi ekki halda áfram að fá og lög og reglur hafa náð illa utan um.

Ég hef sent Neytendastofu fyrirspurn um það hvernig núverandi lög og reglur hér á landi ná utan um vandamálið en mig grunar að okkur skorti úrræði. Það þarf ekkert að velkjast í vafa um mikilvægi þess að banna rangfærslur, að gefa fólki mikilvægar upplýsingar á skýran hátt, ganga úr skugga um að fólk viti hvað það er að samþykkja og leyfa fólki að hætta við á einfaldan og auðveldan hátt.

Tökum dæmi: Ef aðili er með hnapp á sinni sölusíðu sem skráður er „skráðu þig í þjónustu“ á að vera hnappur á sömu síðu sem merktur er til að skrá sig úr þeirri sömu þjónustu.“

Categories
Fréttir Greinar

Til hamingju!

Deila grein

19/04/2023

Til hamingju!

Tíma­mót í menn­ing­ar­sögu þjóðar­inn­ar eru í dag þegar að Hús ís­lensk­unn­ar verður vígt form­lega og end­an­legt nafn þess op­in­berað. Húsið á að hýsa starf­semi Stofn­un­ar Árna Magnús­son­ar í ís­lensk­um fræðum og Íslensku- og menn­ing­ar­deild Há­skóla Íslands og verður miðstöð rann­sókna og kennslu í ís­lensk­um fræðum: tungu, bók­mennt­um og sögu. Þar verða jafn­framt varðveitt frum­gögn um ís­lenska menn­ingu, þ.e. hand­rit, skjöl, orða- og nafn­fræðisöfn og þjóðfræðasöfn. Í bygg­ing­unni eru ýmis sér­hönnuð rými, svo sem fyr­ir varðveislu, rann­sókn­ir og sýn­ingu á forn­um ís­lensk­um skinn­hand­rit­um, vinnu­stof­ur kenn­ara og fræðimanna, lesaðstaða fyr­ir nem­end­ur, fyr­ir­lestra- og kennslu­sal­ir og bóka­safn með lesaðstöðu.

18 ára meðganga

Verk­efnið hef­ur átt sér nokk­urn aðdrag­anda en ákvörðun um fram­lag til að byggja húsið var tek­in á Alþingi árið 2005. Niðurstaða hönn­un­ar­sam­keppni um út­lit húss­ins var kynnt árið 2008. Árið 2013 tók þáver­andi mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra, og nú for­sæt­is­ráðherra, fyrstu skóflu­stung­una á lóðinni við Arn­gríms­götu 5 og var síðar ráðist í jarðvinnu á lóðinni. Á ár­un­um 2016-2018 fór síðan fram ít­ar­leg end­ur­skoðun og rýni á hönn­un húss­ins með það fyr­ir aug­um að ná fram hag­kvæmni í bygg­ingu og rekstri. Ég tók við þessu mik­il­væga kefli sem menn­ing­ar­málaráðherra árið 2017 en í maí 2019 var gengið frá samn­ing­um um bygg­ingu þess og hóf­ust fram­kvæmd­ir í kjöl­farið.

Það er virki­lega ánægju­legt að nú, tæp­um fjór­um árum síðar, sé komið að því að vígja þessa mik­il­vægu bygg­ingu en það er löngu tíma­bært að verðugt hús sé reist til að varðveita hand­rit­in okk­ar. Þau eru ein­ar merk­ustu ger­sem­ar þjóðar­inn­ar og geyma sagna­arf sem ekki aðeins er dýr­mæt­ur fyr­ir okk­ur held­ur hluti af bók­mennta­sögu heims­ins. Stjórn­völd eru staðráðin í að viðhalda og miðla þess­um menn­ing­ar­arfi okk­ar og kynna börn­in okk­ar fyr­ir þeim sem og kom­andi kyn­slóðir.

Tungu­málið í önd­vegi

Á und­an­förn­um árum hef­ur rík­is­stjórn­in sett ís­lensk­una í önd­vegi með fjölþætt­um aðgerðum. Þannig nam fjár­fest­ing í mál­efn­um ís­lensk­unn­ar á síðasta kjör­tíma­bili yfir 10 millj­örðum kr. Í nú­ver­andi stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­flokk­anna er áfram lögð áhersla á að styðja við ís­lenska tungu með ýmsu móti. Þegar litið er yfir far­inn veg hef­ur margt áunn­ist til þess að styðja við tungu­málið okk­ar. Þings­álykt­un um að efla ís­lensku sem op­in­bert mál á Íslandi var samþykkt á Alþingi 2019 og var aðgerðaáætl­un ýtt úr vör und­ir heit­inu „Áfram ís­lenska“.

Meg­in­mark­mið henn­ar var að ís­lenska væri notuð á öll­um sviðum sam­fé­lags­ins, ís­lensku­kennsla og mennt­un yrði efld á öll­um skóla­stig­um og að framtíð ís­lenskr­ar tungu í sta­f­ræn­um heimi yrði tryggð með því að gera tækj­un­um okk­ar kleift að eiga í sam­skipt­um okk­ar á ís­lensku. Auk­in­held­ur var fjár­mun­um for­gangsraðað í að styðja skap­andi grein­ar þar sem ís­lenska er aðal­verk­færið. Bóka­út­gáfa var efld með nýju stuðnings­kerfi og hef­ur fjöldi út­gef­inna bóka á ís­lensku auk­ist mjög. Síðastliðið haust var svo ráðherra­nefnd um ís­lenska tungu sett á lagg­irn­ar sem ætlað að efla sam­ráð og sam­starf milli ráðuneyta um mál­efni ís­lenskr­ar tungu.

For­skot fyr­ir ís­lensk­una

Við erum far­in að sjá upp­sker­una birt­ast okk­ur með ýms­um hætti. Lang­ar mig sér­stak­lega að nefna ný­leg stórtíðindi þegar banda­ríska tæknifyr­ir­tækið OpenAI kynnti að ís­lenska hefði verið val­in í þró­un­ar­fasa fyr­ir nýj­ustu út­gáfu gervi­greind­ar­mállík­ans­ins GPT-4, fyrst allra tungu­mála fyr­ir utan ensku. Þetta er stór áfangi fyr­ir tungu­málið okk­ar en um er að ræða stærsta gervi­greind­ar­net heims sem nú er fínþjálfað til þess að skilja og miðla upp­lýs­ing­um á ís­lensku. Var þetta afrakst­ur ferðar minn­ar ásamt for­seta Íslands og ís­lenskri sendi­nefnd þar sem við heim­sótt­um alþjóðleg tæknifyr­ir­tæki til að tala máli ís­lensk­unn­ar. Fyr­ir­tæk­in geta nýtt þær tækni­lausn­ir sem ís­lensk stjórn­völd hafa fjár­fest í á und­an­förn­um árum en um 60 sér­fræðing­ar hafa unnið af mikl­um metnaði til þess að koma þess­um tækni­lausn­um á kopp­inn og gera ís­lensk­una í stakk búna til þess að hægt sé að nýta hana í snjall­tækj­um.

Fleiri hand­rit heim

Við eig­um að auka veg og virðingu menn­ing­ar­arfs­ins, að sýna hand­rit­in, ræða þau og rann­saka. Um 700 hand­rit eru í vörslu á söfn­um í Dan­mörku, en sátt­máli var gerður um vörslu þeirra árið 1965 milli Íslands og Dan­merk­ur. Ég tel að fleiri ís­lensk hand­rit eigi að koma til Íslands frá Dan­mörku og hef unnið að auknu sam­starfi ríkj­anna á þessu sviði. Þannig mun Árna­safn við Kaup­manna­hafn­ar­há­skóla taka þátt í nýrri hand­rita­sýn­ingu Stofn­un­ar Árna Magnús­son­ar í ís­lensk­um fræðum með lang­tíma­láni á hand­rit­um. Þá ætla lönd­in tvö að efna til átaks til að styrkja rann­sókn­ir, sta­f­ræna end­ur­gerð og miðlun á forn­um ís­lensk­um hand­rit­um með sér­stakri áherslu á að styrkja ungt fræðafólk og doktorsnema.

Hús þjóðar

Á morg­un, sum­ar­dag­inn fyrsta, verður opið hús í Húsi ís­lensk­unn­ar þar sem gest­ir geta skoðað bygg­ing­una áður en starf­semi hefst í henni. Boðið verður upp á fjöl­breytta dag­skrá fyr­ir alla fjöl­skyld­una þar sem ís­lensk tunga verður í aðal­hlut­verki. Til marks um mik­inn áhuga á hús­inu bár­ust til­lög­ur frá 3.400 þátt­tak­end­um í nafna­sam­keppni fyr­ir húsið. Ég vil þakka öll­um þeim stóra og fjöl­breytta hópi sem hef­ur komið að þessu verk­efni í gegn­um tíðina og ég óska ís­lensku þjóðinni til ham­ingju með húsið sitt – en af því get­um við öll verið stolt. Með til­komu þess verður menn­ing­ar­arfi okk­ar tryggt gott og ör­uggt þak yfir höfuðið og tungu­mál­inu okk­ar fært það langþráða lög­heim­ili sem það á svo sann­ar­lega skilið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. apríl 2023.

Categories
Fréttir

Fjárfesting í heilbrigði þjóðarinnar!

Deila grein

19/04/2023

Fjárfesting í heilbrigði þjóðarinnar!

Heildstæð áætlun um uppbyggingu innviða heilbrigðiskerfisins til ársins 2030 var kynnt af forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra í dag. Farið var yfir stöðu Landspítalaverkefnisins og metnaðarfulla áætlun um áframhaldandi fjárfestingu í innviðum heilbrigðiskerfisins. Uppbygging Landspítala er langtímaáætlun sem tekur tillit til þróunar og breyttra þarfa í heilbrigðisþjónustu. Henni er ætlað að byggja undir velsæld þjóðarinnar og felur í sér heildarfjárfestingu fyrir um 210 milljarða króna sem dreifist yfir tímabilið.

Öflugt heilbrigðiskerfi til framtíðar

Uppbygging Landspítala er mikilvægur liður í stefnu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum, en um er að ræða einhverja umfangsmestu innviðauppbyggingu Íslandssögunnar. Í fjármálaáætlun til næstu fimm ára er lögð rík áhersla á að halda áfram markvissri og fjármagnaðri innviðauppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Frá árinu 2010 hefur verið fjárfest í uppbyggingu Landspítala fyrir 28,7 milljarða króna, þar af fyrir 10,3 milljarða króna árið 2022. Á þessu ári er áætlað að fjárfestingin ríflega tvöfaldist á milli ára og nemi 21,5 milljörðum króna.

Settur var á fót stýrihópur um nýjan Landspítala árið 2020 sem ber ábyrgð á samhæfingu og stjórn meginþátta verkefnisins. Hópnum er ætlað að tryggja skýra forgangsröðun og góða nýtingu fjármuna. Hefur stýrihópurinn nú birt fyrstu áfangaskýrslu sína sem byggir á upplýsingum frá NLSH ohf. um heildaráætlun verkefnisins á tímabilinu 2010-2030. 

Fullfjármagnaður fyrsti áfangi

Fyrsti áfangi uppbyggingarinnar er fullfjármagnaður og vel á veg kominn. Áætlað er að honum ljúki að mestu leyti innan tímaramma nýrrar fjármálaáætlunar. Nýtt sjúkrahótel var fyrsta verkefnið sem lokið var við en það var tekið í notkun vorið 2019. Öðrum verkefnum miðar vel áfram og nýjar lykilbyggingar Landspítala rísa nú hratt. Þar má helst nefna svokallaðan meðferðarkjarna og rannsóknahús sem munu gjörbylta aðstöðu Landspítala til hins betra. Fyrsti áfangi felur einnig í sér nýbyggingu við endurhæfingardeildina á Grensás og umfangsmikla fjárfestingu í margs konar tækjum, búnaði og stoðþjónustu. 

Annar áfangi hafinn

Annar áfangi verkefnisins felur í sér uppbyggingu dag- og göngudeilda, legudeilda og annarra mikilvægra þjónustueininga og innviða, sem munu nýtast öllu heilbrigðiskerfinu. Einnig er unnið að því að meta nýtingu eldri bygginga og þörf á nýjum byggingum. Við þá vinnu verður horft til þarfa samfélagsins, starfsfólks og framtíðarhlutverks Landspítala. Þá er jafnframt unnið að skipulagi á fjölmörgum mikilvægum þjónustueiningum, meðal annars geð-, krabbameins- og öldrunarþjónustu. Nú þegar hefur verkefnahópur á vegum heilbrigðisráðuneytisins skilað af sér skýrslu um framtíðarsýn húsnæðis fyrir geðþjónustu Landspítala. Á grunni hennar hefur verið tekin ákvörðun um uppbyggingu nýrrar geðheilbrigðiseiningar sem mun koma í stað núverandi húsnæðis geðþjónustu. Kostnaður við þessa uppbyggingu er áætlaður um 13 milljarða króna. 

Nánar er skýrt hvernig fjárfestingaráform beggja áfanga raðast niður í meðfylgjandi töflu og skýrslu stýrihópsins:

  • Uppbygging Landspítala er mikilvæg fjárfesting í velsæld þjóðarinnar og heilbrigðiskerfinu í heild
  • Heildaráætlun hefur verið gerð til ársins 2030 sem felur í sér vel skilgreinda áfanga og fjármögnun þeirra.
  • Fjárfesting fyrir 210 milljarða á tímabilinu 2010-2030, þar af 182 milljarða 2023-2030.
  • Nýjar ákvarðanir liggja fyrir vegna næsta áfanga verkefnisins, m.a. um flutning á geðþjónustu í nýja einingu, nýja og bætta aðstöðu vegan krabbameinsþjónustu og öldrunarþjónustu auk umfangsmikillar fjárfestingar í tækjum, búnaði og stoðþjónustu.
  • Núverandi ríkisstjórn hefur sett verkefnið í forgang, bætt í fjármögnun, horft á uppbygginguna í víðara samhengi og hraðað framkvæmdum með stefnu sína um styrkingu heilbrigðiskerfisins að leiðarljósi.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra:

„Uppbygging heilbrigðiskerfisins þarf að byggja á langtímahugsun sem tekur mið af breytileika í þjónustuþörfum samfélagsins og nauðsyn þess að geta nýtt okkur tækni, nýsköpun og vísindi til framþróunar og umbóta. Við þurfum einnig að tryggja heilbrigðisstarfsfólki, þeim sem á þjónustunni þurfa að halda og aðstandendum þeirra fyrsta flokks aðstæður. Það er ánægjulegt að geta forgangsraðað í þágu uppbyggingar heilbrigðisþjónustunnar þrátt fyrir aðhald gegn verðbólgu. Styrkir innviðir heilbrigðiskerfisins munu reynast dýrmætir til framtíðar.“

Heimild: stjr.is

Categories
Greinar

Í kjölfar riðusmits

Deila grein

19/04/2023

Í kjölfar riðusmits

Í gærkvöldi (18. apríl 2023) var haldinn upplýsingafundur í Húnaþingi vestra vegna þeirra riðusmita sem komið hafa upp á tveimur sauðfjárbúum þar. Þau smit eru mikið áfall fyrir bændur á þeim bæjum og í raun fyrir alla ábúendur í nágrenninu. Hugur minn er hjá bændum á Bergsstöðum og Syðri-Urriðaá.

Á fundinum komu fram margar athugasemdir sem vert er að taka til greina. Má þar nefna girðingamál, arfgerðargreiningu, upplýsingagjöf, verkferla, rannsóknir, almennt utanumhald og sálfræðiaðstoð.

Umræðan hjá stjórnmálamönnum þarf að snúast um það hvað við getum gert strax. Þá getum við litið til þess að arfgerðargreina allt eða meginþorra alls sauðfjár á landinu til þess að finna þær ær sem hafa vörn gegn riðunni. Þrátt fyrir að það verkefni yrði mjög kostnaðarsamt þá þurfum við að ræða þann möguleika. Einnig þarf að hafa reglubundið viðhald og eftirlit með varnarlínunum. Stór hluti varnarlína eru girðingar. Hér er um að ræða mörg hundruð kílómetra og því tímafrekt að hafa eftirlit og viðhald með þeim en jafnframt nauðsynlegt. Náttúra, veður og menn geta haft áhrif á girðingarnar og þess vegna þarf að skoða þær reglulega. Varnarhólfin eru mörg í kringum landið og Miðfjarðarhólfið var ósýkt. Eitt nærliggjandi hólfa var í forgangi í viðhaldi vegna riðusmita en nú þarf að einblína á hin hólfin líka.

Við þurfum að treysta fagfólkinu okkar til þess að taka ákvarðanir á fyrirliggjandi rannsóknum hverju sinni en megum heldur ekki sofna á verðinum. Það er mikilvægt að leggja mikinn þunga í rannsóknir á riðu og vinna saman að því að styrkja stöðu bænda. Þó að það veki von að finna arfgerð sem veitir vörn gegn riðu þá tekur mörg ár að rækta upp þann eiginleika í heilu hjörðunum. Einnig þarf á sama tíma að líta til annars konar kynbótastarfs, sem margir hafa unnið að í mörg ár eða áratugi.

Upplýsingagjöf og stuðningur til samfélagsins

Það kom einnig fram á fundinum að sveitastjórn, bændur og samfélag hafi ekki fengið nægilegar upplýsingar um stöðuna. Þetta er gagnrýni sem stjórnvöld þurfa að taka til sín, skapa verkferla og koma í veg fyrir að það gerist aftur. Verkferlar þurfa að taka á upplýsingagjöf til bændanna, nærsamfélags, heilbrigðisstofnanna, sveitarfélags, fjölmiðla og ríkisins. Samskiptin þurfa að vera skýr, skipulag eins gott og mögulegt er og stuðningur til staðar frá fyrsta degi.

Riðusmiti hefur oft verið líkt við náttúruhamfarir. Áfallið er slíkt. Þar af leiðandi þarf að tryggja að viðbrögðin séu í samræmi við áfallið. Verkferlar eiga að vera skýrir og utanumhald þarf að vera tryggt.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtis fyrst á visir.is 19. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Staða heimila á húsnæðismarkaði

Deila grein

19/04/2023

Staða heimila á húsnæðismarkaði

Undanfarið hefur borið á gagnrýni á Framsókn vegna aðgerðaleysis eins og það er orðað í húsnæðismálum. Það er eðlilegt að Framsókn sé gagnrýnd því flokkurinn hefur farið með húsnæðismálin síðustu 10 ár en staðreyndin er sú að Framsókn hefur virkilega látið sig húsnæðismál varða því þau eru grundvöllurinn sem heimili landsins byggja sig í kringum.

Þessi grein er ekki til þess falinn að slá út af borðinu að það séu erfiðleikar á húsnæðismarkaði í dag, við gerum okkur fulla grein fyrir því og unnið er hörðum höndum að því að tryggja eðlilega húsnæðisuppbyggingu. En til að við getum metið aðgerðir og aðgerðarleysi þá er mikilvægt að draga saman heildarmyndina og sjá hvort við séum á réttri leið.

Gríðarleg fjölgun íbúa

Við berum okkur jafnan saman við Evrópu og viljum hafa húsnæðismálin í sama ef ekki betra horfi en þar. En til að sjá hvernig við erum að standa okkur er mikilvægt að bera saman rauntölur. Ef við byrjum á íbúaþróun þá þarf ekki að skoða lengi til að sjá að íbúaþróun á Íslandi er í engu samhengi við íbúaþróun í Evrópu. Íbúum Evrópu hefur fjölgað um 2,8% frá aldamótum á meðan íbúum á Íslandi hefur fjölgað um nærri 40% (ca. 50.000 erlendir ríkisborgarar og 58.000 íslenskir ríkisborgarar) og ef einungis eru skoðuð síðustu ár þá er fækkun í Evrópu, fækkun meðan hraðinn í fjölgun eykst á Íslandi. Ísland er því á allt öðrum stað en þau lönd sem við berum okkur helst saman við, en þar eru tölur um fjölgun eftirfarandi; Danmörk (9,8% fjölgun), Þýskaland (3% fjölgun), Noregur (24,4%), Finnland (8,4%), Bretland (17,3%) og Svíþjóð (16,2%).

Vinsældum og vexti í íbúafjölda fylgja vissulega áskoranir og ein þeim er að tryggja nægilegan fjölda íbúða á hverjum tíma. Hér í töflu frá HMS og Hagstofunni sést hvernig íbúðauppbyggingin síðustu ára hefur verið. Þetta eru íbúðir sem tekur að jafnaði 2 ár að skila fullbúnum frá því að sótt er um byggingarleyfi. Það er allavega ljóst að í tíð þeirra ríkisstjórna sem sátu á árunum 2007 til 2013 varð til gríðarleg snjóhengja í húsnæðismálum sem við erum enn að glíma við. Ef við hliðrum því tímabili um 2 ár (Sem tekur að byggja) þá sjáum við að tímabilið frá 2009 til 2015 eru met ár í skorti á íbúðum. Aðgerðir síðustu ára hafa því fyrst og fremst miðað að því að mæta þessari uppsöfnuðu þörf til að tryggja nægilegt húsnæði.

Fleiri eignast húsnæði

Gagnrýnt hefur verið að stór hlut þeirra íbúða sem byggðar hafa verið hafi endað hjá eignafólki og leigufélögum í einkaeigu og þannig hafi ávinningurinn í aukinni húsnæðis uppbyggingu fyrst og fremst farið í að okra á leigjendum. Staðreyndir vísa í aðra átt líkt og þessi mynd sýnir, en hér hefur verið tekin saman þróun á eigin húsnæði, einkareknu leiguhúsnæði (einstaklingar, ættingjar og vinir, einkarekin leigufélög, vinnuveitendur og aðrir) og opinberu/félögum (Sveitarfélög, óhagnaðardrifið leiguhúsnæði, búseturéttur og stúdentagarðar).

Þessi mynd sýnir okkur hver þróunin hefur verið í heimilum landsins á árunum 2015-2022 (ath. gögn frá 2016 skortir). Þá sýnir líkindalínan hvert við stefnum, það er í rétta átt. Því miður eru ávallt einhverjir sem reyna að nýta sér erfiða stöðu annarra en grafið sýnir augljóslega að einkaaðilum á leigumarkaði hefur fækkað mikið síðustu ár öfugt við það sem einhverjir halda fram og varanlegt húsnæði í eigu hins opinbera og félaga hefur aukist. Það segir okkur að markaðurinn hefur hægt og rólega verið að lagast og þróast í þá átt sem við viljum sjá.

Aðgerðir í þágu heimila

Margvíslegar breytingar hafa verið gerðir síðustu ár með það að markmiðið að auka framboð á íbúðum og bæta stöðuna á húsnæðismarkaði. Má þar nefna lög um almennar íbúðir sem tóku gildi 15. júní 2016 en með þeim var sett á fót nýtt kerfi húsnæðisstuðnings með það að markmiði að bæta húsnæðisöryggi og lækka húsnæðiskostnað tekju- og eignaminni leigjenda. Árið 2020 komu síðan inn í lögin breytingar til batnaðar varðandi stofnframlög. Þá voru sett árið 2016 lög um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð og tóku þau í gildi 1. júlí 2017. Auk þess hefur verið lögð mikil vinna í að kortleggja markaðinn ásamt því að einfalda reglugerðir og auka samvinnu við sveitarfélögin í sambandi við lóðaúthlutun.

Ef við skoðum hvað þessi lög hafa gert fyrir markaðinn er nokkuð ljóst að þau hafa haft gríðarleg áhrif, sérstaklega hvað varðar leigumarkaðinn. Leigumarkaðurinn náði hámarki árið 2018 þegar 32,2% heimila á Íslandi var á leigumarkaði eða 47.900 heimili. Í fyrra var þetta hlutfall komið niður í 21% og heimilin einungis 34.100. 

Það er alveg ljóst að þær aðgerðir sem farið hefur verið í til að fjölga íbúðum, hjálpa fólki að komast í eigið húsnæði og byggja fleiri leiguíbúðir í óhagnaðardrifnu eða samvinnuformi hafa tekist vel. En þá er ekki þar með sagt að björninn sé unninn. Við erum enn að ráða niður afleiðingar á skorti á stefnu í húsnæðismálum í tíð fyrri ríkisstjórna sem komið var inn á hér að framan. Því til viðbótar erum við að glíma við alþjóðlega verðbólgu sem klárlega mun hafa áhrif á markaðinn til styttri tíma, en okkar markmið ætti núna að vera fyrst og fremst að tryggja við séum ekki að safna í aðra snjóhengju með frekari skort í framtíðinni. Mikilvægast núna er að halda áfram að byggja nægilegt húsnæði yfir höfuð og halda áfram að fjölga íbúðum í óhagnaðardrifnu leigukerfi.

Uppbygging um land allt

Að lokum verðum einnig að ræða um mikilvægi þess að byggja upp íbúðir á sem flestum stöðum á landinu. Við sjáum sveitarfélag eins og Árborg og áður Reykjanesbæ sem hafa glímt við þann vanda að byggja upp nauðsynlega innviði í kjölfarið á fjölgun íbúa, sem dæmi þá hefur frá aldamótum íbúum Árborgar fjölgað um 100% og í Reykjanesbæ um 110% á meðan íbúum Íslands hefur fjölgað um 40%. Víða um land eru nægir innviðir til að taka á móti fleiri íbúum og sum staðar þarf kannski einungis að byggja upp eða við hluta af innviðunum en ekki alla innviði eins og í þeim sveitarfélögum sem vaxið hafa hvað hraðast. Víða um land eru fyrir götur, vatnsveitur, fráveitur, leikskólar, grunnskólar, íþróttamannvirki og önnur þjónusta og það er hagkvæmt að byggja þar upp og fjölga íbúum um allt land. Fyrir utan að nýta þá innviði sem þegar eru til staðar mun það skila sér í bættri þjónusta fyrir þá íbúa sem fyrir eru.

Eitt af því sem hægt væri að bæta við þær aðgerðir sem eru nú þegar komnar í gang er að kortleggja hvaða sveitarfélög eða byggðakjarnar geta tekið við fleiri íbúum án þess að leggja í mikla innviðauppbyggingu. Sem dæmi má taka að nú er verið að byggja stúdentagarða á Flateyri fyrir lýðskólann. Þar er verið að tryggja leiguhúsnæði á góðum kjörum, við gamla götu með alla innviði, þar er vannýtt pláss bæði á leikskóla og í grunnskóla og þar er sundlaug og íþróttahús til staðar.

Framsókn hefur staðið fyrir öflugum aðgerðum í húsnæðismálum sem skilað hafa árangri, en það er þó nóg eftir, við getum öll verið sammála því að við séum ekki komin á áfangastað og árið 2023 verður erfitt í kjölfar alþjóðlegrar verðbólgu. Það sem þjóðin þarf að spyrja sig er hvort hún sé tilbúin að kjósa yfir sig aðgerðaleysi líkt og var árin 2007-2013 eða halda áfram með þær aðgerðir sem nú eru í gangi, bæta frekar í og tryggja að ekki verði stopp í húsnæðisuppbyggingu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. apríl 2023.

Categories
Fréttir

Keðjuverkunin rofin sem frostið veldur

Deila grein

19/04/2023

Keðjuverkunin rofin sem frostið veldur

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, ræddi stöðu ungs fólks og annarra fyrstu kaupenda sem sjá sér ekki fært að kaupa fasteign á algerlega frosnum markaði, í störfum þingsins. Segi hann þessa þróun hafa verið að raungerast á síðustu 12 mánuðum og muni að óbreyttu halda áfram. Segir Ágúst Bjarni að aðgerðir Seðlabankans varðandi lánþegaskilyrði skipta hér öllu máli. „Það skiptir engu máli hversu vel eignir eru auglýstar og hversu oft er opið hús, eignin hreinlega selst ekki.“

Bendir Ágúst Bjarni á að bregðast verði við ástandinu, fyrstu kaupendur og aðrir sem vilja kaupa eða selja í núverandi árferði lenda í rofinni keðjuverkun sem frostið veldur.

„Nú berast okkur fréttir af því að keðjan sé rofin og fáum takist að kaupa eða selja eignir í núverandi ástandi. Almennt gerir fólk tilboð í fasteign með fyrirvara um sölu en það sem hefur færst í aukana er að veita þurfi lengri frest, með fyrirvara, eða hætta þurfi við viðskipti sökum þess að í núverandi ástandi er eftirspurnin lítil sem engin,“ sagði Ágúst Bjarni.

Alþingi hefur þau verkfæri er þarf til s.s., „að rýmka reglur og kröfur um veitingu hlutdeildarlána, breyta reglum um veðsetningu lána til fyrstu kaupenda og ráðast í framkvæmdir til að auka framboð á hagkvæmu húsnæði sem hentar fyrstu kaupendum, í góðu samstarfi við verkalýðshreyfinguna og lífeyrissjóði.

Við getum stuðlað að því, með hækkandi sól, að frostið sem einkennir fasteignamarkaðinn um þessar mundir fari að þiðna,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.


Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi

„Virðulegur forseti. Ég ætla enn og aftur að koma hingað upp og ræða ástandið á húsnæðismarkaði. Aðgerðir Seðlabankans varðandi lánþegaskilyrði hafa orðið til þess að algjört frost er á markaðnum um þessar mundir. Ungt fólk og aðrir fyrstu kaupendur sjá sér ekki fært að kaupa fasteign á algerlega frosnum markaði. Þessi þróun hefur verið að raungerast síðustu 12 mánuði og mun að óbreyttu halda áfram.

Við sjáum þá keðjuverkun sem frostið veldur. Nú berast okkur fréttir af því að keðjan sé rofin og fáum takist að kaupa eða selja eignir í núverandi ástandi. Almennt gerir fólk tilboð í fasteign með fyrirvara um sölu en það sem hefur færst í aukana er að veita þurfi lengri frest, með fyrirvara, eða hætta þurfi við viðskipti sökum þess að í núverandi ástandi er eftirspurnin lítil sem engin.

Við sjáum það að einstaklingum sem eru að stækka við sig og ætla að selja sína fyrstu eign reynist það oft ómögulegt þar sem kaupendahópur fyrstu eigna er horfinn af markaðnum. Það skiptir engu máli hversu vel eignir eru auglýstar og hversu oft er opið hús, eignin hreinlega selst ekki. Eins og ég segi getur þetta t.d. verið fjölskylda sem þarf að stækka við sig í samræmi við fjölgun.

Virðulegi forseti. Enn og aftur sjáum við að bregðast þarf við ástandinu á fasteignamarkaði. Það eru ekki einungis fyrstu kaupendur sem bíta í það súra, heldur á það við um alla sem vilja kaupa eða selja í núverandi árferði. Nauðsynlegt er að nýta þau verkfæri sem við hér á Alþingi höfum og ég hef oft nefnt, t.d. að rýmka reglur og kröfur um veitingu hlutdeildarlána, breyta reglum um veðsetningu lána til fyrstu kaupenda og ráðast í framkvæmdir til að auka framboð á hagkvæmu húsnæði sem hentar fyrstu kaupendum, í góðu samstarfi við verkalýðshreyfinguna og lífeyrissjóði. Við getum stuðlað að því, með hækkandi sól, að frostið sem einkennir fasteignamarkaðinn um þessar mundir fari að þiðna.“

Categories
Fréttir Greinar

Verjumst riðu! Ný nálgun við 100 ára gamalt verkefni

Deila grein

18/04/2023

Verjumst riðu! Ný nálgun við 100 ára gamalt verkefni

Á dögunum bárust okkur þær hræðilegu fréttir að riðusmit hafi greinst Miðfjarðarhólfi, en það svæði hefur verið talið musteri sauðfjárræktar í landinu. Það er ávallt áfall þegar riða greinist í sauðfé og aflífa þarf allan stofninn, áfall sem ekki nokkur bóndi á að þurfa að ganga í gegnum. Miðfjarðarhólf var fram að þessu talið hreint svæði og því er erfitt að kyngja þessum nýju tíðindum og hugur okkar er hjá bændum sem nú þurfa að drepa allt sitt fé nokkrum dögum fyrir sauðburð.

Riða hefur verið greind hér á landi í sauðfé í meira en öld, um er að ræða banvænan og ólæknandi sjúkdóm sem ekki hefur fundist lækning við. Því þarf þegar riða greinist á býli að fella allan stofninn auk þess sem mikillar varúðar þarf að gæta í mörg ár því smit getur dvalið í umhverfi og legið sem falin eldur í áratugi.

Á sama tíma er förgun á dýrahræjum í ólestri og einungis ein brennslustöð til taks á landinu til að taka við dýrahræjum til brennslu. Brennsla er nauðsynleg þegar um sýktar afurðir er að ræða. Þá er heldur ekki ásættanlegt að flytja sýkt dýrahræ milli varnarhólfa til förgunar með tilheyrandi áhættu.

Hin verndandi arfgerð

Þau tímamót urðu á síðasta ári að verndandi arfgerð gegn riðu var fundin í kind hér landi, það er að fundist hafa kindur hér á landi með ákveðnar stökkbreytingar sem eru ónæmar fyrir sjúkdómnum. Þessi breytileiki erfist og því væri hægt að rækta riðu úr íslenska sauðfjárstofninum á nokkrum árum. Til þess að það geti talist raunveruleg lausn þarf að setja á stað öflugt verkefni við að kortleggja stofninn og vinna sig þannig upp frá grunni. Því eru það ánægjulegar fréttir að Kári Stefánsson og Íslensk erfðagreining hafa sýnt því áhuga að leita að hinni verndandi arfgerð gegn riðu í öllu íslensku sauðfé. Íslensk erfðagreining er öflugt fyrirtæki með færa sérfræðinga og tæki og tól til að vinna að slíku verkefni.

Íslenski sauðfjárstofninn er nærri 100 % skrásettur og því hægt að vinna hratt og örugglega við að rækta upp riðþolinn stofn hér á landi. Öflug greining gæti líka komið í veg fyrir að það þyrfti að farga heilbrigðu fé og eins og nú er gert. Hægt yrði að grisja úr sýkt fé og koma þannig í veg fyrir sársaukafullar aðgerðir.

Mikilvægt frumkvæði

Fyrir tveimur árum síðan var farið í að safna sýnum úr kindum. Þetta er vinna sem bændur sjálfir hrundu á stað og kostuðu að frumkvæði og forystu Karólínu Elísabetardóttur sauðfjárbónda í Hvammshlíð í Skagabyggð. Þróunarsjóður sauðfjárræktarinnar styrkti verkefnið og tekin voru sýni úr tæplega 30.000 kindum víða um land. Með Karólínu hafa unnið fulltrúar frá þýskri rannsóknarmiðstöð, riðusérfræðingar frá Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins auk þess sem fleiri erlendir sérfræðingar hafa komið að verkefninu. Um er að ræða frumkvöðlastarf sem getur verið upphafið að breytingu sem beðið hefur verið eftir í áratugi við að útrýma riðu í sauðfé hér á landi.

Verkefni sem skiptir máli

Riðutilfelli hér á landi eru ávallt alvarleg, sérstaklega nú þegar sauðfjárræktun stendur höllum fæti vegna annarra ytri komandi þátta. Síðasta áratug hefur verið erfiður rekstrargrundvöllur í sauðfjárrækt og þær aðstæður sem eru nú uppi í efnahagsmálum hvetja bændur enn frekar til að bregða búi og leita á önnur mið. Riðusmit á öflugustu sauðfjársvæðum landsins er fráhrindandi raunveruleiki fyrir unga bændur að búa við.

Undirrituð telja að ríkið verði því að stiga inn með fjármagn í arfgerðargreingar. Við búum við þá góðu stöðu að hér á landi er til staðar þekking og vilji til þess að vinna á þessum vanda. Það er arðsamt verkefni fyrir ríkið að fara í slíkt verkefni enda fylgir því nokkur kostnaður að fara í niðurskurð á þúsundum kinda á nokkrum árum ásamt því að greiða tilheyrandi bætur.

Íslenska lambakjötið er dýrmæt afurð

Íslenska lambakjötið er merkileg vara og það hefur nýlega verið staðfest en í síðasta mánuði fékk íslenska lambakjötið, fyrst íslenskra afurða, upprunatilvísun og er eina matvaran á landinu sem hlotið hefur slíka merkingu. Um er að ræða PDO-merkingu (e. Protected designation of origin), sem er hæsta stig verndaðra upprunatilvísana í Evrópu og er íslenska lambakjötið er þar með komið í hóp með þekktum evrópskum landbúnaðarafurðum líkt og parmaskinku, parmesanosti, kampavíni og fetaosti. Hér er um að ræða gríðarlega stóra viðurkenningu sem kemur til með að skapa aukin verðmæti íslensk lambakjöts ásamt því að festa í sessi stöðu þess á erlendum mörkuðum.

Viðurkenningin er afrakstur mikillar vinnu sem hófst hjá Bændasamtökunum fyrir sex árum og hún kemur til með að auka virði lambakjötsins og eftirspurn. Hér er um að ræða gríðarmikla sönnun á því sem við þó vissum fyrir, að við erum með dýrmæta afurð hérlendis sem við verðum með öllu hætti að vernda. Þessi viðurkenning blæs okkur vonandi byr í seglin við að styðja frekar við og auka framleiðslu á íslensku lambakjöti til þess að standast aukinni eftirspurn. Ásamt því að leita allra leiða til þess að uppræta riðu hérlendis í eitt skipti fyrir öll.

Þórarinn Ingi Pétursson og Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmenn Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Uppbygging um allt land

Deila grein

15/04/2023

Uppbygging um allt land

Á und­an­förn­um árum hafa stjórn­völd fjár­fest mynd­ar­lega í ýms­um innviðum tengdri ferðaþjón­ustu í gegn­um Fram­kvæmda­sjóð ferðamannastaða. Á tíu árum hafa 849 verk­efni hlotið styrk úr sjóðnum og í gær kynnti ég nýj­ustu út­hlut­un sjóðsins, að upp­hæð 550 m.kr. Verk­efn­in sem hljóta styrk eru að vanda afar fjöl­breytt en hverf­ast öll um ör­yggi ferðamanna, bætt aðgengi, bætta innviði, nátt­úru­vernd og sjálf­bærni. Styrk­irn­ir fara til verk­efna hring­inn í kring­um landið, stórra sem smárra, sem öll skipta máli. Upp­bygg­ing­in er grund­völluð á heild­ar­sýn fyr­ir hvern lands­hluta og áfangastaðaáætlan­ir.

101 um­sókn barst í sjóðinn í þetta skipti sem sýn­ir fram á þá miklu hug­mynda­auðgi og kraft sem býr í ís­lenskri ferðaþjón­ustu og þann metnað sem heima­menn í hverj­um lands­hluta fyr­ir sig hafa til þess að byggja upp góða áfangastaði. Marg­ir Íslend­ing­ar urðu þess ein­mitt áskynja þegar þeir ferðuðust mikið um eigið land á tím­um heims­far­ald­urs­ins. Fram­kvæmda­sjóður ferðamannastaða hef­ur skipt sköp­um við að styðja við upp­bygg­ingu góðra áfangastaða. Sem dæmi um nokk­ur vel heppnuð verk­efni eru upp­bygg­ing „svíf­andi“ sjálf­ber­andi göngu­stíga úr áli í Hvera­döl­um sem lág­marka snert­ingu við jörðina og hlífa þannig hinu viðkvæma hvera­svæði sem er vin­sæll áfangastaður ferðamanna. Útsýn­ispall­ur­inn á Bola­fjalli er annað frá­bært verk­efni sem vert er að nefna, en pall­ur­inn hang­ir utan í þver­hnípt­um stórstuðluðum klett­um með stór­brotið út­sýni yfir Ísa­fjarðar­djúp, inn Jök­ulf­irði og út yfir sjón­deild­ar­hring í átt til Græn­lands. Innviðaupp­bygg­ing við Goðafoss er einnig dæmi um vel heppnað verk­efni þar sem hugað er að ör­yggi og nátt­úru­vernd með ráðgjöf fag­fólks.

Í út­hlut­un gær­dags­ins fengu 28 verk­efni í öll­um lands­hlut­um styrk. Hæsta styrk­inn að þessu sinni, 158 m.kr., fékk verk­efnið Baug­ur Bjólfs á Seyðis­firði, en um er að ræða hring­laga út­sýn­ispall sem sit­ur á fjalls­brún með ein­stöku út­sýni yfir Seyðis­fjörð. Þá hlaut Stuðlagil næst­hæsta styrk­inn, að upp­hæð 81 m.kr., til að stuðla að auknu ör­yggi og nátt­úru­vernd við þenn­an afar vin­sæla ferðamannastað. Þá fékk út­sýn­ispall­ur við Reyn­is­fjall 72 m.kr. styrk sem eyk­ur ör­yggi þeirra sem ferðast um hlíðar fjalls­ins.

Ferðaþjón­ust­an hef­ur á til­tölu­lega skömm­um tíma orðið einn af grunn­atvinnu­veg­um þjóðar­inn­ar, og get­ur skapað mikl­ar gjald­eyris­tekj­ur á til­tölu­lega skömm­um tíma. Við þurf­um því að halda áfram að treysta þá innviði sem nauðsyn­leg­ir eru til þess að taka vel á móti þeim ferðamönn­um sem hingað koma. Styrk­ur úr Fram­kvæmda­sjóði ferðamannastaða stuðlar að bættri upp­lif­un og aðgengi ferðamanna, meira ör­yggi og við styðjum við viðkvæma nátt­úru lands­ins. Með þessu stuðlum við að sjálf­bærni og tryggj­um framtíð svæðanna sem áfangastaða um ókomna tíð.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, ferðamálaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. apríl 2023.