Categories
Greinar

Tryggjum fæðuöryggi þjóðar

Deila grein

07/02/2023

Tryggjum fæðuöryggi þjóðar

Sjald­an hef­ur fæðuör­yggi skipt okk­ur Íslend­inga meira máli en nú, ófriður í Evr­ópu veg­ur þar þungt í umræðunni, víða eru menn farn­ir að finna fyr­ir vöru­skorti og hækk­andi verði á allri hrávöru.

En hvað þýðir þetta orð, fæðuör­yggi? Þegar talað er um fæðuör­yggi sam­kvæmt skil­grein­ingu mat­vælaráðuneyt­is­ins er átt við að allt fólk, á öll­um tím­um, hafi raun­veru­leg­an og efna­hags­leg­an aðgang að næg­um heil­næm­um og nær­ing­ar­rík­um mat sem full­næg­ir þörf­um þess til að lifa virku og heilsu­sam­legu lífi.

Nú­ver­andi bú­vöru­samn­ing­ar tóku gildi 1. janú­ar 2017. Þeir eru gerðir milli rík­is­ins og Bænda­sam­taka Íslands en þar er fjallað um stjórn á fram­leiðslu búvara og fram­laga til land­búnaðar­ins af hálfu rík­is­ins. Fram­lög á fjár­lög­um vegna bú­vöru­samn­ing­anna í ár hljóða upp á 17,2 milj­arða króna, naut­griparækt fær um 8,4 milj­arða, sauðfjár­rækt 6,2 milj­arða, garðyrkja rúm­an millj­arð og svo erum við með ramma­samn­ing­inn sem hljóðar upp á 1,5 millj­arða króna. Ramma­samn­ing­ur á að taka utan um jarðrækt­ar­styrki og nýliðun svo fátt eitt sé nefnt.

Bú­vöru­samn­ing­arn­ir gilda í 10 ár með tveim­ur end­ur­skoðun­ar­á­kvæðum, fyrst árið 2019 og nú stend­ur þessi síðari end­ur­skoðun fyr­ir dyr­um 2023. Staðreynd­in er sú að krefj­andi tím­ar eru fram und­an í land­búnaði með hækk­un á öll­um aðföng­um til bænda.

Einnig verðum við að horf­ast í augu við þá staðreynd að meðal­ald­ur bænda er um 60 ár og nýliðun lít­il í bænda­stétt­inni. Leggja þarf aukið fé til bú­vöru­samn­inga að mínu mati til að stuðla að til­vist bænda í ís­lensk­um land­búnaði. Einnig þarf að setja aukið fé í ramma­samn­ing­inn og vinna mark­visst að því að hvetja ungt og kraft­mikið fólk til starfa í land­búnaði.

Við vit­um það Íslend­ing­ar að okk­ar kjöt er eitt það besta í heimi; mjög lít­il notk­un sýkla­lyfja, ásamt aðgangi að hreinu og tæru vatni og fæði, trygg­ir gæðin í okk­ar mat­væla­fram­leiðslu.

Ég skora því á sam­flokks­menn mína, þing­menn og ráðherra Fram­sókn­ar­flokks­ins, að beita sér fyr­ir því að þessi end­ur­skoðun bú­vöru­samn­inga tryggi styrk­ari stoð und­ir fæðuör­yggi ís­lensku þjóðar­inn­ar.

Anton Guðmundsson, odd­viti Fram­sókn­ar í Suður­nesja­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. febrúar 2023.

Categories
Greinar

Það er mismunandi heitt

Deila grein

02/02/2023

Það er mismunandi heitt

Byggðastofnun hefur gefið út skýrslu um samanburð á orkukostnaði heimila fyrir síðasta ár. Byggðastofnun hefur áður gefið út slíkar skýrslur og hefur fengið Orkustofnun til að reikna út kostnað á ársgrundvelli, við raforkunotkun og húshitun á sambærilegum fasteignum víða um land.

Það er fátt í þessari skýrslu sem kemur á óvart eða hefur verið dulið varðandi það hve kostnaður er mismunandi eftir landssvæðum og er margt sem skýrir þann mismun.

Húshitun er munaður

Þegar rýnt er í húshitunarkostnað er sem fyrr að munurinn á milli svæða er mun meiri en á raforkuverði. Hann er mikill , miklu meiri en ásættanlegt er. Munurinn á lægsta og hæsta mögulega húshitunarkostnaði er þrefaldur. Þó hefur þessi munur dregist saman m.a. vegna hækkunar niðurgreiðslna á dreif- og flutningskostnaði, aukinnar samkeppni á raforkusölumarkaði og húshitunarkostnaður hefur lækkað umtalsvert þar sem kynt er með rafmagni með tilkomu varmadæla. Margir hafa nýtt sér styrki til að setja upp varmadælur og geta því lækkað hitunarkosnað umtalsvert.

Það sem heldur kemur ekki á óvart er að Vestfirðir tróni á toppi hvað húshitunarkostnað varðar ásamt Grímsey. Gamansagan af Vestfirðingnum sem var nýfluttur suður og greiddi glaður hitaveitureikninginn fyrir allan stigaganginn og þótti vel sloppið á mögulega enn við.

Sameiginleg auðlind

Við tölum oft um að þeir sem nýti auðlindir sjávarins eigi að greiða fyrir þann aðgang. Aðgangur að heitu vatni er auðlindanýting og það hafa ekki allir aðgang að þeirri auðlind. Íslendingar eru lánsamir að hafa aðgang að þessari einstöku auðlind þar sem jarðhitinn er og þegar við hófum orkuskipti í húshitun var það mikil umskipti og nú eru um 90% heimila kynt með jarðhita

Á Vestfjörðum eru kynntar hitaveitur, raforkuöryggi er ótryggt og vegna þess eru þessar hitaveitur oft kynntar með olíu sem eykur kostnað og losun gróðurhúsalofttegunda eykst. Í tillögum starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Heitt vatn er að finna víða í fjórðungnum og hann þarf að nýta betur. Til þess þarf að tryggja fjármagn til jarðhitaleitar þannig að hægt verði að rannsaka til hlítar möguleika á jarðhita við rafkyntar hitaveitur. Það er því sérstaklega jákvætt að í fjárlögum næsta árs má finna 150 m.kr fram til jarðhitaleitarátaks á næsta ári. Hér er um að ræða sérstaklega arðbært verkefni á Vestfjörðum þar sem jákvæð niðurstaða slíkra rannsókna myndi draga úr notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar. Raforka er forsenda þess að uppbygging atvinnu, samfélaga og orkuskipta verði á svæðinu. Að auki eykur það jafnræði íbúa á svæðinu gagnvart öðrum íbúum landsins.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. febrúar 2023.

Categories
Greinar

Heilsa þjóðar

Deila grein

02/02/2023

Heilsa þjóðar

Þeir sem misst hafa heilsuna, tíma­bundið eða um lengri tíma, þekkja vel hversu dýr­mæt heilsan er. Allt annað lendir í öðru sæti þegar fólk lendir í veikindum og lífs­gæði skerðast veru­lega. Geð­raskanir og stoð­kerfis­vanda­mál eru megin­or­sök ör­orku hér á landi og á­skoranir tengdar lífs­stíls­sjúk­dómum vega þungt í þjónustu heil­brigðis­kerfisins. Aukin á­hersla á lýð­heilsu þjóðarinnar er gríðar­lega mikil­vægt skref til fram­tíðar og þar gegna stjórn­völd mikil­vægu hlut­verki.

Ein af þeim leiðum sem Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunin og Em­bætti land­læknis hafa bent á til þess að efla lýð­heilsu er inn­leiðing lýð­heilsu­mats. Við inn­leiðingu matsins er skoðað á kerfis­bundinn hátt hvaða á­hrif lög­gjöf og stjórn­valds­á­kvarðanir hafa á heilsu þeirra hópa sem verða fyrir á­hrifum. Gildir þá einu hvort um já­kvæð eða nei­kvæð á­hrif er að ræða. Til­gangurinn er að undir­byggja betri á­kvarðana­töku og eftir at­vikum bregðast við með mót­vægis­að­gerðum. Það er því grund­vallar­for­senda að stjórn­völd vinni að því mark­miði með öllum þeim kerfum sem ein­kenna vel­ferðar­ríki. Lög­gjöf hefur haft ó­um­deilan­leg á­hrif á heilsu þjóðarinnar í gegnum tíðina. Í lýð­heilsu­stefnu til 2030 er sér­stak­lega tekið fram að stjórn­völdum beri að hafa lýð­heilsu að leiðar­ljósi við alla á­ætlana­gerð og stefnu­mótun. Inn­leiðingin verður því að vera mark­viss rétt eins og á við um kostnaðar­mat eða mat á á­hrifum á jafn­rétti, svo eitt­hvað sé nefnt.

Á haust­þingi lagði ég fram þings­á­lyktunar­til­lögu þess efnis að ríkis­stjórninni yrði falið að hefja vinnu við að festa í sessi lýð­heilsu­mat hér á landi. Lagt er til að skipaður verði sér­fræði­hópur með þátt­töku fagráðu­neyta, fræða­sam­fé­lags og Em­bættis land­læknis sem síðan legði til leiðir sem tryggja rýni allra frum­varpa sem lögð eru fyrir Al­þingi út frá á­hrifum þeirra á lýð­heilsu þjóðarinnar. Nær­tækast er að horfa til Finn­lands í þessum efnum þar sem Finnar hafa sett sér slíkar á­herslur.

Heilsa okkar er undir­staða lífs­gæða og heilsan verður aldrei metin til fjár. Festum því lýð­heilsu­mat í sessi sem eitt skref í átt að bættri lýð­heilsu hér á landi.

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. febrúar 2023.

Categories
Fréttir

Margt hækkað umfram verðlagshækkanir

Deila grein

01/02/2023

Margt hækkað umfram verðlagshækkanir

„Neytendamál skipta okkur öll máli og sjálfur hef ég aðeins tjáð mig um þau. Ég byrjaði á að fjalla um húsnæðismarkaðinn hér snemma á síðasta ári og hef rætt tryggingamál,“ sagði Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, í störfum þingsins.

„Það svar sem ég fékk við fyrirspurn minni til fjármála- og efnahagsráðherra sýndi að iðgjöld bílatrygginga hafa hækkað umfram verðlagshækkanir. Það kemur auðvitað ofan á allt annað. Hækkandi lán á húsnæðinu okkar, leigan, matarkarfan – þetta er auðvitað eitthvað sem við finnum öll fyrir sem búum hér.“

Ágúst Bjarni fór nýlega yfir stöðu innlendrar netverslunar í samkeppni við erlendar netverslanir sem byggja á tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar í viðtali á RÚV.

„Það er alveg ljóst að þetta er áskorun fyrir innlenda verslun í heild sinni, hún er að keppa við verslun á miklu stærri markaði. En við sjáum það líka að það hafa mörg jákvæð skref verið stigin til handa neytendum. Við getum nefnt tollasamninginn, fríverslunarsamninginn, niðurfellingu tolla og vörugjalda og svo mætti lengi telja. Ég held að við þurfum áfram að vinna í þá átt að tala fyrir tvíhliða tollasamningum,“ sagði Ágúst Bjarni.

„Við sjáum það líka þegar við rýnum í þessar tölur og það er sérstaklega áhugavert — ég hvet þingmenn til þess að rýna skýrslu frá McKinsey frá árinu 2012 sem fjallar um stöðu innlendrar verslunar og þær áskoranir sem fram undan eru. Þar er rými til að hagræða, ná niður fermetrafjölda í verslun og ná upp raunverulegri stærðarhagkvæmni svo að innlend verslun verði samkeppnishæf við þá erlendu,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.


Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:

„Forseti. Neytendamál skipta okkur öll máli og sjálfur hef ég aðeins tjáð mig um þau. Ég byrjaði á að fjalla um húsnæðismarkaðinn hér snemma á síðasta ári og hef rætt tryggingamál. Það svar sem ég fékk við fyrirspurn minni til fjármála- og efnahagsráðherra sýndi að iðgjöld bílatrygginga hafa hækkað umfram verðlagshækkanir. Það kemur auðvitað ofan á allt annað. Hækkandi lán á húsnæðinu okkar, leigan, matarkarfan — þetta er auðvitað eitthvað sem við finnum öll fyrir sem búum hér.

Nýlega fór ég í viðtal á RÚV, ásamt hv. þm. Guðbrandi Einarssyni frá Viðreisn, varðandi þá stöðu sem innlend netverslun er í í samkeppni við þá erlendu sem byggir á tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Það er alveg ljóst að þetta er áskorun fyrir innlenda verslun í heild sinni, hún er að keppa við verslun á miklu stærri markaði. En við sjáum það líka að það hafa mörg jákvæð skref verið stigin til handa neytendum. Við getum nefnt tollasamninginn, fríverslunarsamninginn, niðurfellingu tolla og vörugjalda og svo mætti lengi telja. Ég held að við þurfum áfram að vinna í þá átt að tala fyrir tvíhliða tollasamningum.

Við sjáum það líka þegar við rýnum í þessar tölur og það er sérstaklega áhugavert — ég hvet þingmenn til þess að rýna skýrslu frá McKinsey frá árinu 2012 sem fjallar um stöðu innlendrar verslunar og þær áskoranir sem fram undan eru. Þar er rými til að hagræða, ná niður fermetrafjölda í verslun og ná upp raunverulegri stærðarhagkvæmni svo að innlend verslun verði samkeppnishæf við þá erlendu.“

Categories
Fréttir

„Greiddi glaður hitaveitureikninginn fyrir allan stigaganginn“

Deila grein

01/02/2023

„Greiddi glaður hitaveitureikninginn fyrir allan stigaganginn“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, fór yfir skýrslu um samanburð á orkukostnaði heimila fyrir síðasta ár frá Byggðastofnun í störfum þingsins.

Orkustofnun hefur unnið upp gögnin um kostnað á ársgrundvelli við raforkunotkun og húshitun á sambærilegum fasteignum víða um land fyrir Byggðastofnun.

„Það er fátt í þessari skýrslu sem kemur á óvart eða hefur verið dulið varðandi það hvað kostnaðurinn er mismunandi eftir landsvæðum og það er margt sem skýrir þann mismun,“ sagði Halla Signý.

Húshitunarkostnaður er mikill á milli svæða og sem fyrr mun meiri en á raforkuverði, er munurinn allt að þrefaldur á lægsta og hæsta verði.

„Þó hefur þessi munur dregist saman, m.a. vegna hækkunar niðurgreiðslna á dreifikostnaði, aukinnar samkeppni á raforkusölumarkaði og húshitunarkostnaður hefur lækkað umtalsvert þar sem kynt er með rafmagni með tilkomu varmadæla,“ sagði Halla Signý.

Vestfirðir tróna á toppnum hvað húshitunarkostnað varðar ásamt Grímsey.

„Gamansagan af Vestfirðingnum, sem var nýfluttur suður og greiddi glaður hitaveitureikninginn fyrir allan stigaganginn, á mögulega enn við,“ sagði Halla Signý.

„Aðgangur að heitu vatni er auðlindanýting og ekki hafa allir aðgang að þeirri auðlind. Á Vestfjörðum eru kyntar hitaveitur, raforkuöryggi er ótryggt og vegna þess eru þessar hitaveitur oft kyntar með olíu.“

„Í tillögum starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Því þarf að hraða. Auk þess þarf að ráðast í að auka raforkuöryggi á Vestfjörðum með sterkari hætti. Raforka er forsenda þess að uppbygging atvinnusamfélaga og orkuskipta verði á svæðinu. Auk þess eykur það jafnræði íbúa á svæðinu gagnvart öðrum íbúum landsins,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Byggðastofnun hefur gefið út skýrslu um samanburð á orkukostnaði heimila fyrir síðasta ár. Hún hefur áður gefið út slíkar skýrslur og hefur fengið Orkustofnun til að reikna út kostnað á ársgrundvelli við raforkunotkun og húshitun á sambærilegum fasteignum víða um land. Það er fátt í þessari skýrslu sem kemur á óvart eða hefur verið dulið varðandi það hvað kostnaðurinn er mismunandi eftir landsvæðum og það er margt sem skýrir þann mismun.

Þegar rýnt er í húshitunarkostnað er munurinn á milli svæða sem fyrr mun meiri en á raforkuverði. Hann er mikill, miklu meiri en ásættanlegt er. Munurinn á lægsta og hæsta mögulega húshitunarkostnaði er þrefaldur. Þó hefur þessi munur dregist saman, m.a. vegna hækkunar niðurgreiðslna á dreifikostnaði, aukinnar samkeppni á raforkusölumarkaði og húshitunarkostnaður hefur lækkað umtalsvert þar sem kynt er með rafmagni með tilkomu varmadæla. Það kemur heldur ekki á óvart að Vestfirðir tróni á toppnum hvað húshitunarkostnað varðar ásamt Grímsey. Gamansagan af Vestfirðingnum, sem var nýfluttur suður og greiddi glaður hitaveitureikninginn fyrir allan stigaganginn, á mögulega enn við.

Virðulegi forseti. Við tölum oft um að þeir sem nýti auðlindir sjávar eigi að greiða fyrir það með arði. Aðgangur að heitu vatni er auðlindanýting og ekki hafa allir aðgang að þeirri auðlind. Á Vestfjörðum eru kyntar hitaveitur, raforkuöryggi er ótryggt og vegna þess eru þessar hitaveitur oft kyntar með olíu.

Í tillögum starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Því þarf að hraða. Auk þess þarf að ráðast í að auka raforkuöryggi á Vestfjörðum með sterkari hætti. Raforka er forsenda þess að uppbygging atvinnusamfélaga og orkuskipta verði á svæðinu. Auk þess eykur það jafnræði íbúa á svæðinu gagnvart öðrum íbúum landsins.“

Categories
Fréttir

Er ekki þörf á birgðastöðum á fleiri stöðum á landinu?

Deila grein

01/02/2023

Er ekki þörf á birgðastöðum á fleiri stöðum á landinu?

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins áform umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um frumvarp til laga um neyðarbirgðir eldsneytis. Frumvarpinu er ætlað að skylda söluaðila eldsneytis eigi birgðir að jafngildi notkunar til 90 daga.

„Líkt og við höfum orðið óþægilega vör við síðustu misseri skipast veður skjótt í lofti. Eldgos, heimsfaraldur og stríð geta valdið aðstæðum þar sem lífsnauðsynlegar vörur verða af skornum skammti en nægt framboð er forsenda öryggis á fjöldamörgum sviðum og gæti fljótt stefnt í óefni í samfélaginu ef skortur yrði á jarðefnaeldsneyti,“ sagði Ingibjörg.

Minnti hún á markmið Íslands að verða óháð jarðefnaeldsneyti hér á landi, en fram að því eigi að hafa tiltækar olíubirgðir á landinu. Telur Ingibjörg að skoða verði hvort ekki sé þörf á birgðastöðum á fleiri stöðum á landinu.

„Við vitum aldrei hvaða aðstæður geta skapast, hvort sem er hér á landi eða í heiminum öllum, og því mikilvægt að við séum ekki með öll eggin í sömu körfu. Hér er ég ekki síst að horfa til flugvélaeldsneytis. Við þurfum að vera við því búin að þannig aðstæður skapist hér á suðvesturhorninu að flugvellir lokist. Eldgos á Reykjanesi og óveður undanfarnar vikur eru ágætisáminning fyrir okkur um það,“ sagði Ingibjörg að lokum.


Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Í síðustu viku kynnti hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í samráðsgátt áform um frumvarp til laga um neyðarbirgðir eldsneytis. Samkvæmt frumvarpinu er áformað að leggja skyldu á söluaðila eldsneytis, að þeir viðhaldi jarðefnaeldsneytisbirgðum sem jafngildi notkun til 90 daga. Líkt og við höfum orðið óþægilega vör við síðustu misseri skipast veður skjótt í lofti. Eldgos, heimsfaraldur og stríð geta valdið aðstæðum þar sem lífsnauðsynlegar vörur verða af skornum skammti en nægt framboð er forsenda öryggis á fjöldamörgum sviðum og gæti fljótt stefnt í óefni í samfélaginu ef skortur yrði á jarðefnaeldsneyti.

Markmið okkar til framtíðar er auðvitað að verða óháð jarðefnaeldsneyti hér á landi en enn er nokkuð í það að þeim markmiðum verði náð. Þar til orkuskiptum hefur verið náð þurfum við að hafa tiltækar olíubirgðir hér á landi. En einmitt í þessu samhengi langar mig að minnast hér á mikilvægi þess að landið sé allt tengt, að við þessa vinnu sem og annað, þegar hugað er að neyðarbirgðum, verði skoðað hvort ekki sé þörf á að koma upp birgðastöð á fleiri stöðum á landinu. Við vitum aldrei hvaða aðstæður geta skapast, hvort sem er hér á landi eða í heiminum öllum, og því mikilvægt að við séum ekki með öll eggin í sömu körfu. Hér er ég ekki síst að horfa til flugvélaeldsneytis. Við þurfum að vera við því búin að þannig aðstæður skapist hér á suðvesturhorninu að flugvellir lokist. Eldgos á Reykjanesi og óveður undanfarnar vikur eru ágætisáminning fyrir okkur um það.“

Categories
Greinar

Stuðningur við börn sem verða fyrireða beita ofbeldi

Deila grein

01/02/2023

Stuðningur við börn sem verða fyrireða beita ofbeldi

Í haust bárust fréttir af ofbeldi og einelti meðal barna, því miður er ekki um einsdæmi að ræða, það eru til börn sem beita ofbeldi og þá eru börn sem verða fyrir ofbeldi. Um er að ræða samfélagslegt mein sem mikilvægt er að uppræta með öllum tiltækum ráðum. Ekki eru vísbendingar um að börn sem beita ofbeldi í barnæsku verði ofbeldisfull þegar þau verða eldri. Þörf er á að grípa inn í ofbeldi barna ásamt því að leita allra leiða til þess að stöðva ofbeldi í samfélaginu á öllum stigum.

Aukin áhersla á að leysa vanda

Lengi hefur aðaláherslan verið á að veita þeim sem verður fyrir ofbeldi aðstoð. Það er vissulega nauðsynlegt enda er það gríðarlegt áfall að verða fyrir ofbeldi. Þá er það engu að síður mikilvægt að veita viðeigandi fræðslu og stuðning til þeirra sem beita ofbeldi. Þeir sem beita ofbeldi eiga oft og tíðum við einhvern vanda að stríða og því er mikilvægt að þeir einstaklingar fái rétta leiðsögn og stuðning út í lífið. Með öðrum orðum, það er jafn mikilvægt að aðstoða þá sem beita ofbeldi og þá sem verða fyrir ofbeldi.

Samningur við VERU

Ofbeldi barna er enn aðeins lítill hluti mála sem skila sér til lögreglu og barnaverndar. Því miður hefur allt of lengi verið litið á ofbeldi barna sem vandamál sem hægt er að leysa heima fyrir en sem betur fer eru tímarnir að breytast. Fyrir áramót undirritaði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, samning til styrktar VERU, úrræðis Foreldrahúss fyrir börn í áhættuhegðun. Samningurinn snýr að stuðningi við börn sem eru þolendur ofbeldis eða sem beita ofbeldi. VERA er heildstætt langtíma meðferðarúrræði fyrir unglinga í fikti og neyslu sem rekin eru af Vímulausri æsku, en samtökin stofnuðu Foreldrahús árið 1999 og kjarnastarfsemi þess er ráðgjöf, meðferð og fræðsla. Í Foreldrahúsi er starfrækt fjölskylduráðgjöf, foreldrahópar og foreldranámskeið, sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga og stuðningsmeðferð fyrir ungmenni í vímuefnavanda.

Mikilvægi forvarna

Þessi samningur sem gerður var við VERU er stórt og mikilvægt skref í áttinni að því að bæta líðan barnanna okkar. Hér er um að ræða lið í aðgerðum stjórnvalda til að sporna gegn ofbeldi og samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Markmið stjórnvalda gegn ofbeldi er meðal annars að koma á markvissri fræðslu og forvörnum gegn hvers konar ofbeldi, einkum í skólakerfinu, á íþrótta- og æskulýðsvettvanginum, á vinnustöðum og í stafrænum heimi. En mikilvægt er að allar aðgerðir sem lúta að réttindum barna og vernd þeirra gegn ofbeldi taki sérstaklega til forvarna og fræðslu.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Ásýnd Íslands og sérstaða

Deila grein

01/02/2023

Ásýnd Íslands og sérstaða

Milljónir manna um allan heim dreymir um að ferðast til Íslands. Orðspor landsins hefur dreifst um allar heimsálfur og er náttúra landsins og menningarminjar eitt helsta aðdráttarafl ferðaþjónustunnar. Ferðamönnum hefur fjölgað hratt síðustu árin og ferðaþjónustan hefur náð þeim stað að verða ein af okkar stærstu atvinnugreinum. Þá er Ísland í þeirri stöðu umfram margar aðrar þjóðir að ferðaþjónustan er aftur komin á fullt skrið eftir heimsfaraldur. Því má meðal annars þakka aðgerðum stjórnvalda við heimsfaraldri Covid-19 en einnig seiglu og dugnaði þeirra fyrirtækja og starfsmanna sem hér starfa. Ferðaþjónusta á Íslandi hefur öll tækifæri til þess að halda áfram að vaxa og dafna en aðeins ef rétt er staðið að málum.

En hvað með íslenskuna?

Í allri umræðu um náttúru landsins og uppbyggingu ferðamannastaða megum við þó ekki gleyma einu af okkar aðalsmerkjum, íslenskunni, en Ísland er áhugavert land m.a. vegna hennar. Ef við glötum íslenskunni mun bæði hljómur og ásýnd landsins breytast. Því miður hefur það verið tilhneiging síðustu ár að enskan hafi tekið yfir sem tungumál ferðaþjónustunnar. Æ fleiri fyrirtæki bera ensk nöfn og enskuvæðing á skiltum víðs vegar um land er orðin mjög áberandi. Hér þarf sameiginlegt átak stjórnvalda, sveitarfélaga og ferðaþjónustuaðila til að færa þróunina til betri vegar. Leyfum ferðamönnum að sjá og lesa íslenskuna, það er upplifun til jafns við náttúru og menningu landsins.

Trú á verkefnum og fjárfestingar

Víða um land er kallað eftir aukinni fjárfestingu, sér í lagi á landsbyggðinni. Á sama tíma er takmarkað aðgengi að lánveitingum til fjárfestinga í ferðaþjónustu, sem er áhyggjuefni og mikilvægt að bregðast við með einhverjum hætti. Þörf er á gistirýmum í hærri gæðum og seglum á svæði, t.d. fyrir austan og vestan og ljóst er að ekki er hægt að ráðast í slíkt án fjármagns. Fjárfestar verða að hafa trú á v verkefnum og því þarf að tryggja með betri hætti nýtingu um allt land, allt árið um kring.

Gjaldtaka

Þá kallar fjölgun ferðamanna á aðgerðir af okkar hálfu, sér í lagi ef við ætlum að ná markmiðum okkar um ferðaþjónustu á landsbyggðinni allt árið um kring. Framlög til ferðaþjónustunnar eru ekki há í samanburði við margar aðrar greinar, þrátt fyrir að hér sé um að ræða eina af okkar mikilvægustu atvinnugreinum. Við þurfum að gæta þess að náttúra landsins, auðlind ferðaþjónustunnar, verði ekki fyrir of miklum ágangi og tapi þannig sérstöðu sinni. Það er því óumflýjanlegt, ef við ætlum að byggja hér upp af meiri gæðum til framtíðar, að taka umræðu um gjaldtöku í ferðaþjónustu af meiri festu. Á sama tíma er þó mikilvægt að gera það í samráði við alla hagaðila og gæta þess að ferðaþjónustan hafi gott svigrúm til þess að koma auknum gjöldum inn í verðskrár enda eru þær ákvarðaðar langt fram í tímann. Með góðum innviðum og áhugaverðum seglum bætum við sérstöðu okkar og um leið sérstöðu landsins. Þannig tryggjum við betur ásýnd og framtíð ferðaþjónustu á Íslandi.

Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. febrúar 2023.

Categories
Fréttir

Til umsagnar: Reglugerð um atvinnusjúkdóma og rétt til bóta

Deila grein

31/01/2023

Til umsagnar: Reglugerð um atvinnusjúkdóma og rétt til bóta

Birt hafa verið til umsagnar drög að reglugerð Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra sem fjallar um bótaskylda atvinnusjúkdóma. Markmiðið er að tryggja þeim bætur sem eru slysatryggðir og greinast með atvinnusjúkdóm, óháð tekjum viðkomandi. Með reglugerðinni er fylgt eftir breytingu á lögum um slysatryggingar almannatrygginga nr. 45/2015 sem samþykktar voru á Alþingi í júní 2021.

Með lagabreytingunni 2021 var skýrt kveðið á um að tryggingavernd laganna nái einnig til bótaskyldra atvinnusjúkdóma. Jafnframt var í fyrsta sinn hér á landi skilgreint í lögum hvað felst í atvinnusjúkdómi, en það er „sjúkdómur sem orsakast af vinnu og aðstæðum í starfsumhverfi“. Í framhaldi af lagabreytingunni skipaði heilbrigðisráðherra starfshóp sem falið var að semja drög að reglugerð með yfirliti yfir bótaskylda sjúkdóma.

Meðfylgjandi reglugerðardrög byggja á leiðbeiningum Evrópusambandsins um greiningu atvinnusjúkdóma og skiptast í þrjá kafla. Í fyrsta kafla er kveðið á um gildissvið og markmið reglugerðarinnar. Annar kaflinn fjallar um hlutverk Sjúkratrygginga Íslands um framkvæmd reglugerðarinnar og hvernig staðið skuli að umsóknum um bætur og í þriðja kafla er fjallað um skilyrði þess að sjúkdómur teljist atvinnusjúkdómur og hvernig það skuli metið.

Í samræmi við tillögu fyrrnefnds starfshóps var ákveðið að taka upp lista Evrópusambandsins yfir atvinnusjúkdóma og fylgir hann reglugerðardrögunum sem viðauki.

Umsagnarfrestur er til 22. febrúar næstkomandi.

Heimild: stjr.is

Categories
Greinar

160 prósent fjölgun útskrifaðra kennara

Deila grein

30/01/2023

160 prósent fjölgun útskrifaðra kennara

Þegar ég gekk inn í mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneytið í des­em­ber­mánuði 2017 blasti við að öllu óbreyttu yf­ir­vof­andi kenn­ara­skort­ur á Íslandi, en al­gjört hrun hafði orðið í braut­skrán­ing­um frá 2008; 80% í leik­skóla­kenn­ara­námi og 67% í grunn­skóla­kenn­ara­námi.

Sam­fé­lag án kenn­ara er ekki sam­keppn­is­hæft enda er kenn­ara­starfið mik­il­væg­asta starf sam­fé­lags­ins þar sem það legg­ur grunn­inn að öll­um öðrum störf­um. Kenn­ar­ar hafa leikið stórt hlut­verk í lífi okk­ar allra þar sem fyrstu tveir ára­tug­ir hverj­ar mann­eskju fara að tals­verðum hluta fram í kennslu­stofu. Við mun­um öll eft­ir kenn­ur­um sem höfðu mik­il áhrif á okk­ur sem ein­stak­linga, námsval og líðan í skóla. Góður kenn­ari skipt­ir sköp­um. Góður kenn­ari mót­ar framtíðina. Góður kenn­ari dýpk­ar skiln­ing á mál­efn­um og fær nem­andann til að hugsa af­stætt í leit að lausn­um á viðfangs­efn­um. Góður kenn­ari opn­ar augu nem­enda fyr­ir nýj­um hlut­um, hjálp­ar þeim áfram á beinu braut­inni og stend­ur við bakið á þeim sem þurfa á því að halda.

Það var því ekk­ert mik­il­væg­ara en að snúa þess­ari nei­kvæðu þróun við, tak­ast á við yf­ir­vof­andi kenn­ara­skort og sækja fram af full­um krafti fyr­ir kenn­ara­starfið. Strax í byrj­un síðasta kjör­tíma­bils var málið sett í for­gang í þáver­andi mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyti og voru aðgerðir kynnt­ar á fyrsta árs­fjórðungi 2019. Þær fólu í sér:

Launað starfs­nám fyr­ir nem­end­ur á loka­ári meist­ara­náms til kennslu­rétt­inda á leik- og grunn­skóla­stigi.

Náms­styrk til nem­enda á loka­ári meist­ara­náms til kennslu­rétt­inda á leik- og grunn­skóla­stigi til að auðvelda nem­end­um að sinna loka­verk­efn­um sín­um sam­hliða launuðu starfs­námi og skapa hvata til þess að nem­end­ur klári nám sitt á til­sett­um tíma.

Styrki til starf­andi kenn­ara til náms í starfstengdri leiðsögn til að fjölga kenn­ur­um í ís­lensk­um skól­um sem hafa þekk­ingu á mót­töku nýliða í kennslu.

Sam­hliða var kenn­ara­frum­varp lagt fram og samþykkt af Alþingi til að leiða til meiri sveigj­an­leika og flæðis kenn­ara milli skóla­stiga til þess að auka starfs­mögu­leika þeirra.

Ég er stolt og glöð nú fjór­um árum síðar að sjá frétt­ir þess efn­is að út­skrifuðum kenn­ur­um hafi fjölgað um 160% sé miðað við meðaltal ár­anna 2015-2019 sem var 174. 454 út­skrifuðust sem kenn­ar­ar árið 2022!

Þetta er stór­sig­ur fyr­ir sam­fé­lagið okk­ar og hefði aldrei tek­ist nema fyr­ir frá­bæra sam­vinnu mennta­mála­yf­ir­valda, Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga, Kenn­ara­sam­bands Íslands, Há­skól­ans á Ak­ur­eyri, Menntavís­inda­sviðs Há­skóla Íslands, Lista­há­skóla Íslands, Sam­taka iðnaðar­ins og sam­tak­anna Heim­ili og skóli.

Þetta sýn­ir svart á hvítu að aðgerðir dags­ins í dag skipta sköp­um fyr­ir framtíðina og það er vel hægt að tak­ast vel á við stór­ar áskor­an­ir á til­tölu­lega stutt­um tíma þegar all­ir róa í sömu átt með sam­vinn­una að leiðarljósi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. mennta­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. janúar 2023.