Categories
Fréttir

Hinn rómaði Framsóknargrautur

Deila grein

07/12/2022

Hinn rómaði Framsóknargrautur

Framsókn í Norðurþingi býður upp á hinn marg rómaða Framsóknargrautu og grænu sósuna í Kíwanissalnum, laugardaginn 10. desember kl. 11:00.

Öll velkomin og sérstakur gestur er Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður kjördæmisins og þingflokksformaður.

Categories
Fréttir

Fyrirspurn til matvælaráðherra

Deila grein

06/12/2022

Fyrirspurn til matvælaráðherra

Eftir samtal við bændur lagði Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður norðausturkjördæmis eftirfarandi spurningar, vegna greiðslumarks sauðfjárbænda, til matvælaráðherra:

Spurningar í fyrirspurninni eru eftirfarandi:
1. Hyggst ráðherra trappa niður greiðslumark til sauðfjárbænda fyrir endurskoðun samninga við þá?
2. Ef svo er. Hver eru helstu rökin fyrir því að trappa niður greiðslumark þegar stutt er í endurskoðun samninganna?
3. Getur framkvæmdanefnd búvörusamninga komið til móts við ofangreinda niðurtröppun með vísun í 2. mgr. 7. gr. reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt nr. 144/2022?

Fyrirspurnir Ingibjargar voru lagðar fram 5. desember 2022.

Categories
Fréttir Greinar

Skýr skref í þágu lög­gæslunnar

Deila grein

06/12/2022

Skýr skref í þágu lög­gæslunnar

Við höfum öll orðin vör við aukna hörku og breyttar aðstæður í glæpastarfsemi á Íslandi. Síðustu vikur hafa fregnir af hrottalegum árásum og auknum umsvifum glæpasamtaka verið daglegt brauð. Lögreglan gerir allt sem hún getur með þann mannafla og þá tækni sem hún hefur í höndum sér, en þó sjáum við íbúa óttaslegna við þróun skipulagðrar glæpastarfsemi hér á landi. Með stöðugri þróun glæpasamtaka, t.d. með aukinni notkun internetisins, hefur reynst sífellt erfiðara að rannsaka starfsemi þeirra og fara í viðeigandi aðgerðir. Það er öllum ljóst að taka þurfi á þessum málaflokki af krafti og styðja löggæsluna í sínum viðbrögðum við nýjan veruleika. Til þess að halda uppi reglu og koma í veg fyrir glæpi þarf að stíga ákveðin skref í rannsóknum, greiningum og viðbrögðum.

Löggæslan komin að þolmörkum

Allir fasar löggæslunnar eru komnir að þolmörkum. Lögreglustjórar hafa þurft að hagræða hverri krónu, lögreglan er undirmönnuð og fangelsin þarfnast umbótunar. Verkefnin eru fjölmörg og við þurfum að klára þau svo að hægt sé að bregðast við breyttum aðstæðum af ákveðni. Ríkisstjórnin hefur brugðist við þessu með auknum fjárveitingum til almennrar löggæslu, Landhelgisgæslunnar og fangelsanna. Með auknum fjárveitingum geta viðbragðsaðilar okkar og rannsakendur verið betur í stakk búnir til að mæta sífellt flóknari verkefnum.

Sjaldséð aukning

Ríkisstjórnin hyggst auka fjárframlög um 2,5 milljarða króna frá því sem upphaflega var áætlað. Af þessu eiga 900 milljónir króna að fara í aukið öryggi, aukinn viðbragðstíma og málsmeðferðarhraða og 500 milljónir í sérstakar aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Þetta eru skýr skilaboð frá ríkisstjórninni að styðja skuli við löggæslu landsins. Slíkur stuðningur við löggæsluna hefur ekki sést í langan tíma, marga áratugi, og gerir okkur kleift að bregðast við ástandinu í dag af krafti.

Mikilvægi frumkvæðislöggæslu

Ásamt þessu mun lögreglan geta unnið enn frekar í þágu forvarna. Oft er horft fram hjá mikilvægi forvarnarstarfs lögreglunnar, en bestu aðgerðirnar eru fyrirbyggjandi aðgerðir. Með öflugu forvarnarstarfi er hægt að koma í veg fyrir að ungmenni taki ranga beygju á lífsleiðinni. Það er ungmennum og samfélaginu í heild til hagsbóta.

Undirrituð fagnar því að efla skuli löggæslu landsins og tryggja það að við Íslendingar búum í enn öruggara landi.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. desember 2022.

Categories
Greinar

Aukið fjármagn frá ríkinu breytir stöðunni

Deila grein

06/12/2022

Aukið fjármagn frá ríkinu breytir stöðunni

Þann 6. desember verður seinni umræða um fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2023. Fjárhagsáætlunin hefur tekið nokkuð miklum breytingum milli umræðna sem ræðst einna helst af því að von er á auknum tekjum úr jöfnunarsjóði vegna aukins framlags ríkisins í málaflokk fatlaðra. Ráðherra sveitarstjórnarmála, Sigurður Ingi Jóhannsson, hafði gefið sveitarfélögum von um aukið fjármagn milli umræðna og stóð við sín orð. Við þetta hefur komist betra jafnvægi á reksturinn og hyllir í sjálfbærari rekstur í A-hluta sveitarfélagsins við lok kjörtímabilsins. Bæjarfulltrúar Framsóknar gagnrýndu einmitt í fyrri umræðum að ekki skyldi lengur stefnt að sjálfbærni 2025 eins og markmið síðustu bæjarstjórnar voru og einsýnt að verði lagaleg krafa í nánustu framtíð.

Skortur á vönduðum vinnubrögðum

Meirihlutinn hefur haldið spilunum þétt að sér þegar kemur að fyrirhuguðum framkvæmdum á kjörtímabilinu. Ekki er að sjá að hann ætli að fara í viðbyggingu við þjónustukjarna eldri borgara í Bugðusíðu né huga að þörfum þessa sístækkandi hóps í uppbyggingu íþróttamannvirkja. Ákvarðanir um framkvæmdir sem tengjast lögbundnum verkefnum eru byggðar á þarfagreiningu og faglegum vinnubrögðum en þegar kemur að öðrum ákvörðunum þá gagnrýnum við ógagnsætt og ófaglegt ferli. Lítið sem ekkert samráð hefur verið í viðeigandi fagráðum og enga þarfagreiningu að finna eða kostnaðargreiningu á auknum rekstrarkostnaði.

Fjárhagsbyrðir heimilanna minnka

Í fyrri umræðu var gert ráð fyrir 10% flötum hækkunum á gjaldskrám, fyrir utan nokkrar undantekningar, sem er bæði verðbólguhvetjandi og ekki til þess fallið að vernda heimilin. Meirihlutinn hefur hlustað á þá gagnrýni og dregið úr hækkunum. Ekki var heldur gert ráð fyrir lækkunum á fasteignaskatti til að koma til móts við gríðarlegar hækkanir á fasteignamati. Bæjarfulltrúar Framsóknar töluðu fyrir því í fyrri umræðu og í greinaskrifum. Við fögnum því að bæjarráð hefur nú afgreitt frá sér lækkun álagningarhlutfalls fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði en eftir standa óbreyttar hækkanir fasteignagjalda gagnvart atvinnuhúsnæði.

Aukið fjármagn sett í málefni barna en skortur á framtíðarsýn

Í málefnaskrá Framsóknar í vor var lögð áhersla á framsókn í velferð og verðmætasköpun án þess þó að taka þátt í miklu loforðakapphlaupi. Meirihlutanum til hróss þá er verið að gefa í í málefnum barna og leggja aukið fjármagn til félagsþjónustunnar og aukins stuðnings í fræðslumálum. Einnig erum við ánægð með að aukið fjármagn verði sett í skipulagsmál. Umhverfis- og loftslagsmál virðast þó ekki í forgangi hjá meirihlutanum.

Það sem við söknum þó er skortur á framtíðarsýn. Hvernig ætlum við að efla bæinn og auka fjölbreytni í atvinnulífinu til framtíðar og þannig auka verðmætasköpun og tekjur. Bæjarfulltrúar Framsóknar leggja því eftirfarandi tillögu fram á bæjarstjórnarfundi á morgun:

  • Akureyrarbær er að hefja þátttöku í gerð nýrrar borgarstefnu þar sem m.a. verður horft til uppbyggingu Akureyrar sem svæðisborgar sem geti boðið upp á aukna fjölbreytni í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum. Samhliða þeirri vinnu er mikilvægt að við horfum til framtíðar og setjum okkur markmið um hvert við viljum stefna sem sveitarfélag til lengri tíma. Eitt af þeim verkefnum er að vinna metnaðarfulla stefnu í verðmætasköpun í samstarfi við atvinnulífið, stofnanir, frumkvöðla, íþróttahreyfinguna og ferðaþjónustuaðila. Það er mikilvægt að þess sjáist skýrari merki í fjárhagsáætlun að bæjarstjórn Akureyrarbæjar sé tilbúin í þessa vinnu. Bæjarfulltrúar Framsóknar leggja því til að sett verði fjármagn í mótun framtíðarsýnar um fjölbreytta atvinnuuppbyggingu.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, oddviti Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 5. desember 2022.

Categories
Greinar

Von­brigði fyrir starfs­stétt sauð­fjár­bænda

Deila grein

05/12/2022

Von­brigði fyrir starfs­stétt sauð­fjár­bænda

Það sat þungt hugsi og mjög vonsvikinn ungur bóndi við morgunverðarboðið fyrr í vikunni eftir að hafa lesið grein matvælaráðherra í nýjasta tölublaði Bændablaðsins. Greinin bar fyrirsögnina „Bjartsýni í sauðfjárrækt“ en skyldi eftir fleiri spurningar en svör. Síðustu vikur hef ég ásamt öflugum einstaklingum og hagsmunasamtökum barist fyrir því að stöðva fyrirhugaða niðurtröppun á greiðslumarki sem á að taka gildi 1.janúar 2023. Þegar ég heyrði að þetta væri ekki borðleggjandi, að niðurtröppun greiðslumarks yrði stöðvuð varð ég ansi hissa. Mér fannst það undarlegt og fór að velta fyrir mér hvað ráðherra hefði fyrir sér í þessum efnum, þetta var mér í raun óskiljanlegt. Eftir að hafa farið á aðalfund Landssamtaka sauðfjárbænda árið 2021 og búgreinaþing deildar sauðfjárbænda árið 2022 þar sem samþykkt var samhljóða sú ályktun að stöðva niðurtröppun greiðslumarks sá ég ekki annað í stöðunni en á okkur yrði hlustað. Það hlýtur að teljast sögulegt að sauðfjárbændur hafi verið sammála um greiðslumark og að ályktunin hafi verið samþykkt án mótatkvæða. Bændur leggja á sig mikinn tíma og kostnað í það að sinna félagsstarfi greinarinnar, með það að markmiði að standa vörð um greinina og berjast fyrir bættri afkomu hennar. Það er engum blöðum um það að fletta að niðurtröppun greiðslumarks og afurðarverð hafa verið þeir þættir sem valda mestum áhyggjum kollega minna síðustu ár. Niðurtröppun greiðslumarks mun koma hart niður á mörgum sauðfjárbændum og sér í lagi á Austur- og Norðausturlandi. Þar eru talsverð eign á greiðslumarki og jafnframt flest bú með yfir 300 fjár á vetrarfóðrum. Þessi tekjulækkun mun gera mörgum erfitt fyrir, sérstaklega þeim sem reyna að stunda sauðfjárrækt í atvinnuskyni.

Niðurtröppun seinkað árið 2019

Upphaflega átti niðurtröppun greiðslumarks að taka gildi árið 2019, þá var ákveðið að fresta henni vegna slæmrar afkomu í greininni. Staðan í dag er svo sannarlega engu skárri með ört hækkandi aðfangaverði og náttúruógnum. Árið 2019 var jafnframt settur á innlausnarmarkaður til að jafna stöðu bænda innan greinarinnar sem var gott, þar var settur forgangshópar sem innihélt að lang stærstum hluta unga bændur eða þá sem voru að hefja sauðfjárbúskap. Aðsókn í markaðinn hefur verið mikil og núna árið 2022 var sótt um tæp 60.000 ærgildi en potturinn innihélt ekki nema rétt rúm 5000, þau fóru öll til forgangshóps. Það þarf svo varla að deila um taktleysi þess að auglýsa innlausnarmarkað örfáum vikum áður en fyrirhugað er að skerða greiðslumarkið um heil 20%.

Berja á ungum bændum

Tölurnar sína að núorðið er stærstur eignarhlutur greiðslumarks meðal yngri bænda og það eru einnig þeir sem hafa fjárfest mest í greiðslumarki síðustu ár. Það er því nokkuð ljóst að þeir sem koma verst út úr fyrirhugaðri niðurtröppun eru ungir bændur. Hópur sauðfjárbænda sem stendur hvað höllustum fæti en er jafnframt mikilvægastur fyrir framtíð íslenskrar sauðfjárræktar. Maður veltir því fyrir sér á hvaða vegferð hæstvirtur ráðherra sé og hvaða tilgang það hafi fyrir bændur að eyða tíma og kostnaði í vinnu fyrir hagsmuna- og félagasamtök ef ekki er hlustað á niðurstöðu þeirrar vinnu. Það liggur í augum uppi að breytinga er þörf og vonandi verða þær við endurskoðun starfssamnings sauðfjárbænda sem fram fer árið 2023. Það var þó ekki tímabært að fara í þessar aðgerðir núna þvert á vilja sauðfjárbænda, stéttin er löskuð og við þurfum tíma og svigrúm í öruggu starfsumhverfi til að ná vopnum okkar á ný.

Þuríður Lillý Sigurðardóttir, sauðfjárbóndi í Reyðarfirði og bæjarfulltrúi Framsóknar í Fjarðabyggð.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. desember 2022.

Categories
Greinar

Tímamót í tónlistarlífi þjóðarinnar

Deila grein

05/12/2022

Tímamót í tónlistarlífi þjóðarinnar

„Tónlistin lýsir því sem verður ekki með orðum tjáð og ógerlegt er að þegja yfir“, sagði franski rithöfundurinn Victor Hugo. Ég tek undir þessa fullyrðingu og tel jafnframt að tónlist sé ein besta heilsulind sem völ er á. Hið blómlega tónlistarlíf Íslands hefur fært okkur ríkan menningararf sem á sér fastan sess í hjörtum okkar allra. Tónlist er ekki bara einn veigamesti hlutinn af menningu landsins, hún er einnig atvinnuskapandi og mikilvæg útflutningsgrein þar sem hvert tónlistarverkefni skapar mörg afleidd störf.  Því er ánægjulegt að greina frá því að Ríkisstjórn Íslands samþykkti í vikunni frumvarp mitt til tónlistarlaga. Þetta er í fyrsta sinn sem lögð eru fram heildarlög um tónlist á Íslandi. Frumvarpið byggir á tillögum starfshóps sem skipaður var á degi íslenskrar tónlistar, hinn 1. desember 2020. Hlutverk hópsins var að rýna umhverfi tónlistargeirans á Íslandi, skoða hvernig stuðnings- og sjóðakerfi tónlistar væri best skipulagt, leggja drög að tónlistarstefnu og skilgreina hlutverk og ramma Tónlistarmiðstöðvar, sem ráðgert var að setja á laggirnar. Það er því mikið fagnaðarefni að frumvarpið hafi litið dagsins ljós.

Markmið laga þessara er að efla umgjörð fyrir sköpun og flutning tónlistar á Íslandi með því að marka heildarramma fyrir málefni tónlistar og búa henni hagstæð skilyrði. Frumvarpið tekur einnig mið af drögum að tónlistarstefnu 2023–2030 sem var kláruð samhliða samningu frumvarpsins. Við samningu frumvarpsins var litið til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar einsettum við okkur að tryggja undirstöður íslensks menningar- og listalífs og skapa ný og fleiri tækifæri fyrir íslenskt listafólk. Greitt aðgengi að menningunni er mikilvægur þáttur þessa því það skiptir miklu máli að við öll getum notið lista og menningar og tekið þátt í slíku starfi. 

Ný Tónlistarmiðstöð

Í frumvarpinu er kveðið á um nýja tónlistarmiðstöð. Tónlistarmiðstöð sem er ætlað að sinna uppbyggingu og stuðningi við hvers konar tónlistarstarfsemi sem og útflutn­ings­verkefni allra tónlistargreina. Þar að auki mun miðstöðin sinna skráningu, umsýslu og miðlun íslenskra tónverka. Með stofnun Tónlistarmiðstöðvar er stigið stórt skref í áttina að því að veita listgreininni aukið vægi og til að greiða leið íslensks tónlistarfólks innan lands sem utan.  Þá verður lögð áhersla á að teikna upp nútímalegt og hvetjandi umhverfi fyrir íslenskt tónlistarlíf. Markmiðið er að miðstöðin verði raunverulegur miðpunktur tónlistargeirans og tengipunktur við stjórnvöld. Mikilvægt er að markmið, hlutverk og skipulag miðstöðvarinnar sé skýrt frá upphafi og endurspegli fjölbreytni tónlistarlífsins. Tónlistarmiðstöð sinnir þremur kjarnasviðum. Fyrsta kjarnasviðið, Inntón, kemur til með að sinna því hlutverki að annast fræðslu og  styðja við tónlistartengd verkefni og uppbyggingu tónlistariðnaðar. Kjarnasviðið Útón, veitir útflutningsráðgjöf og styður við útflutn­ings­verkefni allra tónlistargreina. Útón byggir á því góða starfi sem Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar hefur sinnt frá árinu 2006; að efla útflutning á íslenskri tónlist og skapa sóknarfæri fyrir íslenska tónlist á erlendum mörkuðum. Loks verður það hlutverk Tónverks að sjá um  skráningu, umsýslu og miðlun íslenskra tónverka, meðal annars með því að halda úti nótnaveitu, þ.e. rafrænum nótnagrunni.  Að lokum má nefna að hin nýja tónlistarmiðstöð er sömuleiðis ætlað að annast  umsýslu nýs tónlistarsjóðs.

Nýr Tónlistarsjóður og Tónlistarráð

Lagt er til að settur verði á laggirnar nýr tónlistarsjóður en hann sameinar þrjá sjóði sem fyrir eru á sviði tónlistar. Lykilhlutverk hans verður að efla íslenska tónlist, hljóðritagerð og þróunarstarf í tónlistariðnaði. Sjóðurinn mun taka yfir hlutverk Tónlistar­sjóðs, Hljóðritasjóðs og Útflutningssjóðs íslenskrar tónlistar. Með tilkomu sjóðsins verður styrkjaumhverfi tónlistar einfaldað til muna og skilvirkni aukin.

Í frumvarpinu er sömuleiðis að finna ákvæði um sérstakt tónlistarráð sem verður stjórnvöldum og tónlistarmiðstöð til ráðgjafar um málefni tónlistar. Tónlistarráði er ætlað að vera öflugur samráðsvettvangur  milli stjórnvalda, tónlistar­miðstöðvar og tónlistargeirans enda felst í því mikill styrkur  að ólík og fjölbreytt sjónarmið komi fram við alla stefnumótunarvinnu á sviði tónlistar.

Þakkir

Blómlegur tónlistariðnaður er forsenda þess að utanumhald tónlistarverkefna haldist á Íslandi og upp byggist sterkt tónlistarumhverfi. Umhverfi tónlistar á Íslandi er frjótt og er það öflugu tónlistarfólki og fagfólki innan tónlistar að þakka. Hlutverk stjórnvalda er að hlúa að tónlistargeiranum og rækta, með því að styðja við bakið á listafólki og huga um leið að því að jarðvegurinn geti nært grasrótina og vöxt sprota sem og annarra fyrirtækja. Ég vil þakka formanni vinnuhópsins, Jakobi Frímanni Magnússyni, sérstaklega fyrir að leiða þessa vinnu ásamt þeim Val­gerði Guðrúnu Hall­dórs­dótt­ir, Bryn­dísi Jónatans­dótt­ur, Braga Valdi­mar Skúla­syni, Gunn­ari Hrafns­syni, Eiði Arn­arssyni og Arn­fríði Sól­rúnu Valdemarsdótt­ur. Með frumvarpinu eru stigin stór skref í stuðningi við frekari uppbyggingu þessarar mikilvægar listgreinar, sem er okkur svo mikilvæg og kær.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. desember 2022.

Categories
Fréttir

Opinn fundur með Ásmundi Einar og Stefáni Vagni

Deila grein

05/12/2022

Opinn fundur með Ásmundi Einar og Stefáni Vagni

Opinn fundur með Ásmundi Einar Daðasyni, mennta og barnamálaráðherra og Stefáni Vagni Stefánssyni, fyrsta þingmanni Norðvesturkjördæmis á Kaffi Króki Sauðárkróki, mánudaginn 5. desember kl. 20:00.

Categories
Greinar

Staðið með heilbrigðiskerfinu

Deila grein

05/12/2022

Staðið með heilbrigðiskerfinu

Staðið með heilbrigðiskerfinu

Fjárlög komandi árs, sem nú eru til umræðu á Alþingi, endurspegla forgangsröðun og áherslur stjórnvalda. Með rúmlega 12 milljarða viðbótarframlagi til heilbrigðismála fyrir aðra umræðu um fjárlög er ljóst að ríkisstjórnin stendur með heilbrigðiskerfinu og er að efna stjórnarsáttmála um að styrkja heilbrigðiskerfið.

Raunverulegar umbætur til framtíðar þarf að undirbúa vel. Nú er ár síðan undirritaður tók við ráðherrastól heilbrigðisráðuneytisins. Þjóðin var enn í klóm heimsfaraldurs og dagarnir snerust um sóttvarnaraðgerðir og smitstuðla. Þegar það fór að rofa til og samfélagið fór af stað blöstu við fjölmargar áskoranir. Heilbrigðiskerfið okkar hefur staðist eitt erfiðasta álagspróf síðari tíma en það er ljóst að til þess að það nái að fylgja hraðri þróun og breyttum þörfum samfélagsins þarf að bregðast við. Setja þarf skýr markmið og viðmið til grundvallar ákvörðunartöku um það hvernig við forgangsröðum og skipuleggjum framtíðarheilbrigðiskerfið með þarfir þjóðarinnar í forgrunni.

Norræn nálgun á heilbrigðismál

Heilbrigðiskerfið er samofið efnahagslegum- og félagslegum þáttum samfélagsins. Áskoranir kerfisins verða ekki leystar inni á borði eins ráðuneytis heldur þarf aðkomu fleiri ráðuneyta, sveitarfélagar, stofnanna, samtaka, einstaklinga og fyrirtækja.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að aðgangur allra að heilbrigðisþjónustu er réttlætismál. Það er síðan hlutverk heilbrigðisráðuneytis að tryggja jafnan aðgang að bestu mögulegu þjónustu og meðferð sem völ er á yfir allt landið. Til þess þarf að nýta allt kerfið en um leið stýra för varðandi verð, magn og gæði. Þannig náum við raunverulegum árangri til hagsbótar fyrir samfélagið í heild.

Samningar og biðlistar

Langvarandi samningsleysi við þá sem veita heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa hindrar aðgengi og eykur ójöfnuð. Önnur birtingarmynd samningsleysis eru biðlistar og uppsöfnuð þörf fyrir þjónustu þó að heimsfaraldurinn hafi þar líka spilað stórt hlutverk. Það er því mikið hagsmunamál fyrir þjóðina og forgangsmál í heilbrigðisráðuneytinu að það náist samningar.

Í ráðuneytinu höfum við lagt stefnumarkandi línur og opnað á samtal um það hvernig við viljum sjá þennan mikilvæga hluta heilbrigðisþjónustunnar þróast til framtíðar. Það er mjög jákvætt að nú eru helstu samningsaðilar sestir við borðið með sama markmið að leiðarljósi, að jafna aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu. Skref í þá átt var tekið í vikunni þar sem samningar náðust um endómetríósuaðgerðir við Klíníkina. Mikilvægt er að halda áfram á þeirri vegferð og því eru 750 milljónir eyrnamerktar í liðskiptaaðgerðir og verulegar upphæðir í að styrkja rekstrargrunn heilbrigðisstofnanna.

Mannauður

Mönnun í heilbrigðisþjónustu er gríðarleg áskorun á heimsvísu. Fjárlög næsta árs tryggja aukinn stuðning við heilbrigðiskerfið og endurheimt heilbrigðisstarfsfólks. Starfsumhverfi og öryggi eru lykilþættir í því að hlúa að þessum mikilvæga mannauði.

Til að ná betur utan um mönnun í heilbrigðiskerfinu hefur verið sett af stað vinna innan ráðuneytisins sem miðar að því að öðlast heildstæða sýn á stöðu mönnunar í dag og til framtíðar. Til að efla menntun heilbrigðisstétta og fjölga heilbrigðisstarfsmönnum hefur verið ráðist í aukið samstarf við háskóla, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og mennta- og barnarmálaráðuneytið. Samhliða þarf að styrkja framhaldsnám, sérnám lækna, vísindi og nýsköpun og verður meðal annars ný reglugerð um sérnám lækna birt á næstu vikum. Einnig er verið að skipa í starfshóp í þeim tilgangi að nýta ákvæði í menntasjóði íslenskra námsmanna sem snýr að sérstakri ívilnun fyrir heilbrigðisstarfsfólk á landsbyggðinni.

Starfsumhverfi

Að skapa samkeppnishæft starfsumhverfi fyrir okkar vel menntaða heilbrigðisstarfsfólk til framtíðar er nauðsyn. Þannig fóstrum við nýsköpun, framþróun og vísindi og tryggjum að fólkið sem getur unnið hvar sem er í heiminum velji að starfa á Íslandi til að láta gott af sér leiða. Liður í því er aukið fjármagn til fjárfestinga og uppbyggingar heilbrigðisstofnanna. Rúmir 13 milljarðar fara til Nýs Landspítala við Hringbraut þar sem við sjáum núna útveggina rísa upp úr grunninum.

Í öryggiskennd felast verðmæti. Á þingmálaskrá er að finna frumvarp til laga sem snýr að refsiábyrgð heilbrigðisstofnanna og rannsókn óvæntra atvika. Markmiðið er að tryggja betur öryggi sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna. Sömuleiðis er hækkun hámarksstarfsaldurs heilbrigðisstarfsfólks hjá ríkinu að finna á þingmálaskrá vetrarins. Það er liður í að tryggja kjör og réttindi heilbrigðisstarfsmanna sem margir vinna eftir sjötugt.

Samvinna er vænlegust til árangurs

Í stórum málaflokkum eins og lýðheilsu, geðheilbrigðismálum, endurhæfingu og öldrunarþjónustu leggur heilbrigðisráðuneytið mikið upp úr samvinnu. Nýverið skipuðum við ráðherrar heilbrigðismála og félagsmála sameiginlegt endurhæfingarráð sem hefur það hlutverk að vera okkur til ráðgjafar um faglega stefnumörkun og skipulag þjónustu á sviði endurhæfingar. Það er fátt verðmætara en að aðstoða einstaklinga við að ná upp tapaðri færni til að geta haldið sjálfstæði sínu, lífsgæðum og virkni í samfélaginu.

Einnig er sameiginlegt verkefni þvert á ráðuneyti okkar félags- og vinnumálaráðherra, fjármálaráðherra og sveitafélaganna að huga betur að málefnum aldraðra og er stýrihópur þess efnis að störfum. Þá er ekki síður mikilvægt að nefna ályktun Alþingis frá því í vor um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Mikil vinna hefur verið lögð í að móta markvissa áætlun um aðgerðir til að hrinda henni í framkvæmd.

Heilbrigðiskerfið snýst ekki aðeins um öfluga heilbrigðisþjónustu heldur það að gera fólki betur kleift að huga að eigin heilsu. Á heilbrigðisþingi í nóvember voru forvarnir og lýðheilsa í forgrunni. Það var haldið undir yfirskriftinni Heilsa eins, hagur allra. Sú yfirskrift kjarnaði vel viðfangsefni þingsins þar sem góð lýðheilsa er jarðvegurinn sem heilbrigðiskerfið þarf til vaxa og dafna þannig að allir fái notið ávaxtanna.

Forsendur sem standast til framtíðar

Þjóðin er að eldast hratt. Það er staðfesting vaxandi lífsgæða og bættrar stöðu fólks en sú gæfa að eldast felur einnig í sér þörf á breyttri nálgun heilbrigðiskerfisins. Eins og formaður Læknafélags Íslands orðaði það er þessi myndarlega fjárinnspýtingu í heilbrigðiskerfið vísir að nýrri nálgun. Við vitum að aukið fjármagn er nauðsynlegt en ekki nægjanlegt skilyrði fyrir bættri þjónustu. Því er verið að tryggja með metnaðarfullum aðgerðum að verið sé að fjárfesta í breytingum og umbótum til framtíðar.

Traust og góð heilbrigðisþjónusta er ekki aðeins ofarlega á blaði í forgangsröðun þjóðarinnar heldur líka ríkisstjórnarinnar. Þrátt fyrir ágjöf undanfarinna ára í heimsfaraldri eru fjöldamörg tækifæri sem mikilvægt er að grípa. Með því að auka fjárframlög til málaflokksins er ríkisstjórnin að virða þessa forgangsröðun og í kjörstöðu til að fylgja orðum eftir með efndum.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin biritist fyrst í Morgunblaðinu 3. desember 2022.

Categories
Greinar

Takk sjálfboðaliðar!

Deila grein

05/12/2022

Takk sjálfboðaliðar!

Ásmund­ur Ein­ar Daðason: „Íþrótta- og æsku­lýðsstarf hér á landi get­ur ekki átt sér stað í nú­ver­andi mynd án sjálf­boðaliða sem sí­fellt gefa af sér í þágu heild­ar­inn­ar.

Í dag er alþjóðleg­ur dag­ur sjálf­boðaliðans. Af því til­efni hef­ur mennta- og barna­málaráðuneytið beint sjón­um að mik­il­vægi sjálf­boðaliða fyr­ir íþrótta- og æsku­lýðsstarf með kynn­ingar­átaki und­ir yf­ir­skrift­inni „al­veg sjálfsagt“. Það er til um­hugs­un­ar um vinnu­fram­lag sem er aðdá­un­ar­vert og hreint ekki sjálfsagt. Í dag fer fram ráðstefna ráðuneyt­is­ins um þær áskor­an­ir sem skipu­leggj­end­ur starfs sem reiðir sig á sjálf­boðaliða standa frammi fyr­ir.

Með því að fagna deg­in­um vilja Sam­einuðu þjóðirn­ar benda á mik­il­vægi sjálf­boðastarfs fyr­ir sam­fé­lagið og heims­mark­mið Sam­einuðu þjóðanna um sjálf­bæra þróun. Evr­ópuk­ann­an­ir gefa til kynna að um 30% Íslend­inga eldri en 18 ára vinni sjálf­boðastörf á hverj­um tíma. Við minn­umst með þakk­læti og hlýju þeirra ótal sjálf­boðaliða sem á hverj­um degi verja tíma sín­um í marg­vís­leg sam­fé­lags­leg verk­efni af um­hyggju og ein­stakri ósér­hlífni.

Í heims­far­aldr­in­um kom mik­il­vægi íþrótta- og æsku­lýðsstarfs fyr­ir sam­fé­lagið allt ber­lega í ljós. Þegar við sigl­um út úr far­aldr­in­um er mik­il­vægt að skoða hvort starf með sjálf­boðaliðum hafi breyst og hvaða áskor­an­ir eru fram und­an.

Við þurf­um að hlúa vel að sjálf­boðastarf­inu okk­ar og búa þannig um að það haldi áfram að vera eft­ir­sókn­ar­vert. Áfram þarf að und­ir­búa nýj­ar kyn­slóðir und­ir kom­andi verk­efni þar sem sjálf­boðastarf verður áfram mik­il­vægt. Sjálf­boðaliðar þurfa að geta öðlast þekk­ingu og reynslu sem nýt­ist til lífstíðar og að tak­ast á við spenn­andi og krefj­andi verk­efni á eig­in for­send­um. Ekki síður er mik­il­vægt að þátt­taka í sjálf­boðastarfi geti áfram skapað tæki­færi til að kynn­ast nýju fólki og skapa vina­tengsl til fram­búðar. Í sam­fé­lagi þar sem sam­keppni um tíma fólks og at­hygli verður sí­fellt meiri er áskor­un að ná til ein­stak­linga sem reiðubún­ir eru að taka að sér sjálf­boðastörf og finna verk­efni við hæfi.

Íþrótta- og æsku­lýðsstarf hér á landi get­ur ekki átt sér stað í nú­ver­andi mynd án sjálf­boðaliða sem sí­fellt gefa af sér í þágu heild­ar­inn­ar. Fögn­um því að búa í sam­fé­lagi þar sem þátt­taka í sjálf­boðastarfi er jafn sjálf­sögð og raun ber vitni.

Takk sjálf­boðaliðar!

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 5. desember 2022.

Categories
Greinar

Orkumál eru fullveldismál

Deila grein

05/12/2022

Orkumál eru fullveldismál

Það er hátíð í dag. Til­efnið er sjálft full­veldið, en við fögn­um því að fyr­ir 104 árum var viður­kennt að Ísland væri full­valda og frjálst ríki og hef­ur því 1. des­em­ber sér­stöðu í sögu og menn­ingu okk­ar. Með sam­bands­lög­un­um milli Íslands og Dan­merk­ur, sem gildi tóku 1. des­em­ber 1918, urðu þátta­skil í sögu þjóðar­inn­ar sem mörkuðu upp­haf að sam­felldri fram­fara­sögu henn­ar.

Tíma­mót sem þessi gefa færi á að líta um öxl og til framtíðar, þakka fyr­ir það sem vel hef­ur tek­ist og hug­leiða hvernig tak­ast skuli á við áskor­an­ir framtíðar­inn­ar. Full­veldi þjóða er ekki sjálf­sagður hlut­ur og verður ekki til af sjálfu sér. Það er drifið áfram af þrám og löng­un­um þjóða til þess að fara með stjórn á eig­in mál­um; trú­in á að með slíku fyr­ir­komu­lagi ná­ist fram betra sam­fé­lag á for­send­um þjóðfé­lagsþegn­anna sjálfra.

Á und­an­förn­um miss­er­um höf­um við verið minnt á það með óhugn­an­leg­um hætti hversu brot­hætt full­veldi ríkja get­ur verið. Grimmi­leg inn­rás Rússa inn í hina frjálsu og full­valda Úkraínu er skýrt dæmi um brot á full­veldi rík­is með skelfi­leg­um af­leiðing­um. Ísland ásamt banda­lagsþjóðum sín­um mun áfram standa heils­hug­ar með Úkraínu gegn þeirri ólög­legu inn­rás sem geis­ar í land­inu.

Það sem stríðið í Úkraínu hef­ur meðal ann­ars varpað ljósi á og vakið umræðu um eru ör­ygg­is­mál í víðu sam­hengi. Til að mynda orku- og fæðuör­yggi sem er gríðarlega mik­il­vægt að huga að. Ég vil meina að hvert það nú­tímaþjóðfé­lag, sem ekki get­ur tryggt greiðan aðgang að fæðu og orku, geti teflt eig­in­legu full­veldi í tví­sýnu.

Íslend­ing­ar hafa borið gæfu til þess að byggja hér upp eitt öfl­ug­asta vel­ferðarþjóðfé­lag heims­ins sem hef­ur meðal ann­ars grund­vall­ast á sjálf­bærri orku­öfl­un. Við eig­um að halda áfram á þeirri braut að auka orku­ör­yggi sem mun leiða til enn meiri sjálf­bærni hag­kerf­is­ins og treysta stöðu lands­ins sem full­valda rík­is enn frek­ar. Sú staðreynd að raf­orku­kerfi lands­ins er ekki tengt raf­orku­kerfi Evr­ópu kem­ur sér sér­stak­lega vel í því ár­ferði sem nú rík­ir og bregður ljósi á mik­il­vægi þess að standa vörð um sjálf­stæði í orku­mál­um. Það sjá­um við til dæm­is með því að líta á þróun raf­orku­verðs ann­ars staðar á Norður­lönd­um, sem hef­ur hækkað mikið. Ísland hef­ur alla mögu­leika á að ná fullu sjálf­stæði í orku­mál­um með auk­inni fram­leiðslu á end­ur­nýj­an­legri orku til þess að standa und­ir raf­væðingu í sam­göng­um í lofti, á láði og legi. Þrátt fyr­ir allt það frá­bæra sam­starf í alþjóðamál­um, sem við tök­um þátt í, er það gæfu­spor fyr­ir þjóðina að vera ekki í Evr­ópu­sam­band­inu. Með fullu for­ræði á stjórn efna­hags- og pen­inga­mála sem og orku­mála hef­ur Íslend­ing­um vegnað vel, eins og alþjóðleg­ur sam­an­b­urður sýn­ir glögg­lega á ýms­um sviðum. Á þeirri braut skul­um við halda áfram. Ég óska lands­mönn­um öll­um til ham­ingju með full­veld­is­dag­inn.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 1. desember 2022.