Categories
Fréttir

Eflum kvikmyndagerð áfram á Íslandi

Deila grein

19/11/2022

Eflum kvikmyndagerð áfram á Íslandi

„Eitt stærsta kvikmyndaver Evrópu er staðsett hér á landi, nánar tiltekið í Gufunesinu í Reykjavík. Þessa dagana er margt um að vera þar enda er gríðarlegt umfang á svæðinu þar sem m.a. ný sería af hinni margverðlaunuðu þáttaröð True detective er tekin upp. Þar er einnig tekið upp á Norðurlandi en sögusvið seríunnar er Alaska í Bandaríkjunum,“ sagði Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins á Alþingi í liðinni viku.

„Með stóru kvikmyndaveri og því sjónarspili sem íslensk náttúra er hefur Ísland lengi verið aðlaðandi starfsumhverfi til kvikmyndagerðar. Tækifærin eru fjölmörg og við í Framsókn vildum grípa þau. Meðal áherslna Framsóknar fyrir síðustu alþingiskosningar var að efla kvikmyndagerð á Íslandi og hækka endurgreiðslur á kostnaði við kvikmyndagerð hérlendis í 35%. Þessar áherslur rötuðu einnig í stjórnarsáttmálann og hafa raungerst í dag og við sjáum þá miklu grósku sem sú ákvörðun leiddi til,“ sagði Hafdís Hrönn.

„Í öllu þessu felst töluvert aðdráttarafl fyrir erlenda kvikmyndaframleiðendur og ég tek undir það þegar þau orð eru sögð að kvikmyndaiðnaðurinn geti vel verið ein af stoðgreinum íslensks efnahagslífs. Mikið af afleiddum störfum myndast í kringum svona verkefni og það er út af framtaki ríkisstjórnarinnar sem það er möguleiki að taka upp þættina sem ég nefndi áðan hér á landi.“

„Því skiptir miklu máli að styðja áfram vel við kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi. Við sjáum það að kvikmyndaverin hér á landi er uppbókuð fram á vor sem sýnir hversu eftirsóknarvert Ísland er í þessum geira. Í þessu felast endalausir möguleikar og mikill ábati fyrir íslenskt atvinnulíf.“

„Með hæstv. viðskipta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, í broddi fylkingar getum við margfaldað kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi og framleiðendur á Íslandi telja það vel raunhæft. Við getum með sanni sagt að þetta er frábær viðbót við efnahagslíf á Íslandi og sterk stoð til framtíðar,“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.

Categories
Fréttir

Almenningur ekki undanskilinn ógnum beitt af óvinveittum ríkjum eða glæpahópum

Deila grein

18/11/2022

Almenningur ekki undanskilinn ógnum beitt af óvinveittum ríkjum eða glæpahópum

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, var málshefjandi í sérstakri umræðu um fjölþáttaógnir og netöryggismál á Alþingi.

Sagði Jóhann Friðrik netöryggi vera einn anga af fjölþáttaógnum er samfélög standi frami fyrir. Herjað sé með samstilltum aðferðum á kerfislega veikleika lýðræðisríkja, stofnana og hópa samfélagsins. Markmiðið er að valda óæskilegum áhrifum og/eða skaða, svo sem með dreifingu falsfrétta, netárása, íhlutun í lýðræðislegt ferli, fjárfestingum í mikilvægum innviðum. Þar liggja að baki annarlegar hvatir og tilraunir til að grafa markvisst undan stjórnvöldum og stofnunum. Farnar eru leiðir sem eru til þess fallnar að valda skaða án þess að beita hefðbundnum hernaði.

„Árásir geta verið fjölbreyttar og hægt er að beita þeim í skjóli leyndar og afdráttarlausar neitunar á ábyrgð, enda virða aðgerðir hvorki landamæri né skil á milli opinberra aðila og einkaaðila,“ sagði Jóhann Friðrik.

Netnotkun á Íslandi er hvergi meiri í heiminum en þegar komi að netöryggi verðum við að gera mun betur að mati Jóhanns Friðriks. „Almenningur er ekki undanskilinn hættunni af fjölþáttaógnum sem kann að vera beitt af óvinveittum ríkjum eða glæpahópum.“

„Við erum í hópi þeirra þjóða þar sem læsi er almennt, menntunarstig hátt og fáar hraðahindranir til staðar til aukinnar og markvissrar fræðslu. Á málþingi þjóðaröryggisráðs um fjölþáttaógnir kom fram að um 70% netsvika og fjölþáttaherferða virka vegna veikleika hjá einstökum notendum. Því er mikilvægt að auka árvekni og þekkingu okkar á hættum sem stafa af fölskum upplýsingum og tryggja örugga netumgengni,“ sagði Jóhann Friðrik.

„Við höfum á síðustu árum fjölmörg dæmi um fjölþáttaógnir, netárásir á innviði samfélags, svo sem netárásir á stofnanir, orkukerfi og fjármálakerfi, og eru þær staðreyndir, en einnig tilraunir til að hafa óæskileg áhrif á niðurstöður kosninga. Með tilkomu reiknirita eða algóritma má ná til einstaklinga og hópa og beina að þeim upplýsingum án þeirra vitundar sem áhrif hafa á skoðanir þeirra og hegðun.“

Vera á varðbergi og skrefi á undan

„Besta leiðin að mínu mati og margra annarra er að skýr stefna stjórnvalda liggi fyrir með þátttöku alls samfélagsins, m.a. með því að leggja áherslu á lýðræðisleg gildi, upplýsingalæsi og árvekni í skólum og í samfélaginu. Annar veigamikill þáttur í árangri getur falist í því að berjast gegn upplýsingafölsun og þá með sannreyndum og áreiðanlegum opinberum upplýsingum sem öllum eru aðgengilegar. Alþjóðasamstarf er einnig gríðarlega mikilvægt til að tryggja og fyrirbyggja slíkar árásir. Atlantshafsbandalagið hefur lagt áherslu á umrædda þætti sérstaklega og tekur Ísland virkan þátt í þeim.“

„Útgangspunktur minn, virðulegi forseti, er því þessi: Eins og áður sagði eru netárásir aðeins hluti af vopnabúri fjölþáttaógna en sannarlega sá þáttur sem almenningur finnur hvað mest fyrir í sínu daglega lífi. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra, í ljósi aukinnar hættu sem samfélaginu kann að stafa af fjölþáttaógnum ásamt hröðum tæknibreytingum sem kunna að auðvelda framkvæmd þeirra, hvort stjórnvöld, atvinnulíf og samfélag séu nógu vel í stakk búin til að mæta þessum áskorunum og hins vegar hver sé framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar varðandi fjölþáttaógnir og netöryggismál hér á landi,“ sagði Jóhann Friðrik.

Forsætisráðherra var til andsvara í umræðunni.

Categories
Greinar

Lýðheilsa: Heilsa eins – hagur allra

Deila grein

18/11/2022

Lýðheilsa: Heilsa eins – hagur allra

Willum Þór Þórsson: „Markmiðið er að heilbrigðiskerfið geti staðið undir því að veita bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem völ er á á hverjum tíma.“

Í lífsgæðum eru fólgin verðmæti sem þarf að standa vörð um. Með auknum lífsgæðum og góðu aðgengilegu heilbrigðiskerfi eru lífslíkur við fæðingu á Íslandi orðnar með þeim mestu á heimsvísu. Við getum verið stolt af samfélaginu okkar og því að fá tækifæri til að eldast, en það að eldast vel er langt því frá að vera sjálfsagt.

Lifnaðarhættir Íslendinga hafa breyst og því fylgja nýjar lýðheilsuáskoranir. Óhollt mataræði, of lítil hreyfing, aukin streita og of lítill svefn eru á meðal þessara áskorana. Samfélagslegar breytingar kalla á breytt heilbrigðiskerfi. Heilbrigðiskerfi sem tekur tillit til öldrunar, fjölþættra veikinda, breytts umhverfis og aukinnar sjúkdómsbyrði.

Lýðheilsa er hornsteinn meiri lífsgæða.

Hvernig gerum við sem flestum kleift að lifa lengur við sem mest lífsgæði? Það er stór spurning og eitt veigamesta svarið er efling lýðheilsu. Lýðheilsa er lykill að sjálfbærni heilbrigðiskerfisins til framtíðar.

Líf einstaklings frá vöggu til grafar er jafnverðmætt á öllum lífsskeiðum. Markmið heilbrigðiskerfisins er að allir fái jafna meðferð, af sömu gæðum, alltaf. Við alla ákvarðanatöku má ekki missa sjónar á því að gæði heilbrigðisþjónustu mynda órofa heild með öryggi, skilvirkni, hagkvæmni, jöfnu aðgengi, þekkingu, nýsköpun og afköstum. Eitt á ekki að útiloka annað. Markmiðið er að heilbrigðiskerfið geti staðið undir því að veita bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem völ er á á hverjum tíma.

Heilbrigðisþing 2022 er helgað lýðheilsu

Heilbrigðisþingið í ár er helgað lýðheilsu. Heilsa eins – hagur allra er yfirskrift þingsins og hún fangar viðfangsefnið vel. Þingið fer fram í dag og það er ánægjulegt að finna hversu mikill áhugi er á viðfangsefninu. Það er hægt að fylgjast með þinginu í streymi á vefsíðunni www.heilbrigdisthing.is en það er húsfyllir á viðburðinn.

Heilbrigðisþingið mun slá tóninn fyrir eitt stærsta áherslumál heilbrigðisráðuneytisins næstu árin. Erindi, þátttakendur og fjölbreytt dagskrá þingsins bera það með sér hversu fjölþætta nálgun þarf til að efla lýðheilsu. Við þurfum öll að hjálpast að. Við þurfum að átta okkur á því að heilsa eins einstaklings snertir okkur öll og því er hagur allra að leggja við hlustir, taka þátt, skilja og framkvæma það sem þarf til að efla eigin heilsu. Lýðheilsa er ekki froða eða pólitískur hráskinnaleikur. Betri lýðheilsa gerir heilbrigðiskerfinu kleift að viðhalda gæðum þrátt fyrir áskoranir framtíðarinnar og með því halda uppi lífsgæðum þjóðarinnar til framtíðar.

Áherslur og áskoranir

Margar áskoranir heilbrigðiskerfisins eru teknar fyrir og greindar í skýrslu heilbrigðisráðuneytisins um framtíðarþróun þjónustu Landspítalans sem kom út í desember 2021. Í skýrslunni, sem unnin var af ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey, er á uppbyggilegan og lausnamiðaðan hátt rætt um leiðir til að auka afköst, hagkvæmni og skilvirkni heilbrigðiskerfisins með Landspítalann í forgrunni. Þar eru settar fram margar tillögur að aðgerðum sem styðja þessa vegferð að auknum lífsgæðum og gæðum heilbrigðiskerfisins.

Í skýrslunni eru meðal annars málefni aldraðra, geðheilbrigði og endurhæfing sérstaklega tekin fyrir. Í þeim málaflokkum mun þjónustuþörfin aukast hratt á næstu árum og mikill hluti umbóta þarf að eiga sér stað utan spítala, á sviði forvarna og heilsueflingar og með fjölbreyttum úrræðum þvert á velferðarkerfið.

Lýðheilsa í forgrunni allra ákvarðana

Heilbrigðisráðuneytið hefur sett lýðheilsu og forvarnir í forgrunn allrar ákvarðanatöku og hefur lýðheilsuáherslan skilað sér inn í allar nýlega stefnur, aðgerðaáætlanir og áherslumál ráðuneytisins. Það er brýning fyrir önnur ráðuneyti, stofnanir, atvinnulífið og einstaklinga að gera slíkt hið sama.

Í aðgerðaáætlun um heilbrigðistengda endurhæfingu var lögð áhersla á snemmtæka íhlutun og mikilvægi fræðslu og forvarna. Þar birtist eitt helsta lýðheilsumarkmið þjóðarinnar; að viðhalda færni og virkni einstaklinga. Í nýsamþykktri þingsályktunartillögu um geðheilsustefnu til ársins 2030 lýtur einn af fjórum áhersluþáttum hennar að geðrækt, forvörnum og mikilvægi heildrænnar heilsueflingar. Í nýskipaðri verkefnastjórn um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk er aðgerðaáætlun í smíðum sem mun taka mið af samþættingu á þjónustu, forvörnum, heilsueflingu og aukinni virkni fólks. Með verkefnastjórninni er stigið mikilvægt skref í átt að samvinnu og samþættingu á milli ráðuneyta, sveitarfélaga og annarra þjónustuaðila.

Lýðheilsa á ábyrgð okkar allra

Eins og stendur skýrt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru það sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar, bæði efnahagslegir og félagslegir, að lögð sé aukin áhersla á lýðheilsu og forvarnir. Fyrir liggur stefna heilbrigðisráðuneytisins í lýðheilsu til ársins 2030 og verður heilbrigðisþingið vel nýtt til að fá innlegg í aðgerðaáætlun í lýðheilsu sem nú er í mótun. Áætlunin verður síðan kynnt í næsta mánuði ásamt röð viðburða helgaðra forvörnum, heilsueflingu og lýðheilsu á næsta ári.

Lýðheilsa verður aftur á móti ekki efld inni á borði eins ráðuneytis eða nokkurra stofnanna. Samvinnu opinberra aðila, einkaaðila og fólksins í landinu þarf til að finna bestu leiðina að markmiðinu. Við þurfum sem samfélag að taka höndum saman um lýðheilsu. Við þurfum öll að átta okkur á því að þær samfélagslegu breytingar sem við stöndum frammi fyrir munu leggjast þungt á heilbrigðiskerfið ef við eflum ekki lýðheilsu, forvarnir, heilsueflingu og heilsulæsi. Það þarf enga aðgerðaáætlun eða skýrslu til að sjá það. Við getum byrjað strax í dag.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 10. nóvember 2022.

Categories
Fréttir Uncategorized

Sveitarstjórnaráætlun – nýr starfshópur hefur störf

Deila grein

17/11/2022

Sveitarstjórnaráætlun – nýr starfshópur hefur störf

Nýr starfshópur um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga hélt sinn fyrsta fund í innviðaráðuneytinu í gær. Hópnum er ætlað að skila tillögu til innviðaráðherra um stefnu stjórnvalda gagnvart sveitarfélögum til fimmtán ára 2024 til 2038 og aðgerðaáætlun til fimm ára 2024 til 2028 í byrjun næsta árs. Stefnumótunin byggir á ákvæði sveitarstjórnarlaga um að ráðherra leggi fram endurskoðaða stefnu í málaflokki sveitarfélaga á þriggja ára fresti. Stefnan tekur við af fyrstu stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda í málefnum sveitarfélaganna í landinu á næsta ári.

Stefán Vagn Stefánsson veitir starfshópnum formennsku fyrir hönd innviðaráðherra. Annar fulltrúi ráðherra í hópnum er Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri í Hafnarfirði. Tveir fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga eru Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður sambandsins og borgarfulltrúi, og Jón Björn Hákonarson, varaformaður sambandsins og bæjarstjóri í Fjarðabyggð. Áheyrnarfulltrúar í hópnum eru Aðalsteinn Þorsteinsson, skrifstofustjóri sveitarfélaga og byggðamála í ráðuneytinu, og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri sambandsins.

Fyrsta stefna og aðgerðaáætlun stjórnvalda í málefnum sveitarfélaganna fól m.a. í sér aukinn stuðning Jöfnunarsjóðs við sameiningu sveitarfélaga, átak í stafrænni umbreytingu sveitarfélaga, umbætur á starfsaðstæðum kjörinna fulltrúa og vinnu við fjármálaviðmið og endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga. Endurskoðun stefnumótunarinnar felur m.a. í sér víðtækt samráð við sveitarfélögin í landinu, íbúa og aðra hagsmunaaðila um stöðu sveitarfélaga, áskoranir og tækifæri til framtíðar. Á fyrsta fundi starfshópsins lagði innviðaráðherra áherslu á mikilvægi stefnumótunarinnar, sagðist hlakka til að taka á móti tillögum hópsins og óskaði honum velfarnaðar í vinnunni framundan.

Stefnt er að því að starfshópurinn skili tillögum til ráðherra í mars á næsta ári.

Categories
Fréttir

Farsæld barna

Deila grein

17/11/2022

Farsæld barna

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynnti nýlega áform um ný heildarlög um skólaþjónustu og í þeirri vinnu gegnir samráð við hlutaðeigandi lykilhlutverki til að koma sem best til móts við þarfir skólasamfélagsins og tengdra þjónustukerfa.

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur birt upptöku af öllum erindum og pallborðsumræðum á ráðstefnu um farsæla skólagöngu allra barna sem haldin var á mánudag, 14. nóvember 2022. Ráðstefnan var vel sótt með 260 ráðstefnugestum og 1.827 í streymi. 

Þeim 500 sem skráðu sig á ráðstefnuna, á staðnum og í streymi, hefur verið boðið að taka þátt í samráðshópum um mótun skólaþjónustu til framtíðar sem munu funda á næstu vikum. Áður höfðu 500 einstaklingar brugðist við auglýsingu ráðuneytisins um samráð og lýst yfir áhuga á þátttöku í samráðshópunum.

Lokaorð Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, með orðaskýi frá ráðstefnugestum í baksýn yfir þau orð sem koma í huga þegar hugsað er um farsæla skólagöngu barna

 „Menntun er algjört lykilatriði til að vera farsæll einstaklingur, alveg eins og það er mikilvægt að búa við góða velferð og fjárhagslegt öryggi,“ sagði Ásmundur í lokaorðum. „Það er það sem við erum að reyna að kalla fram með farsældarlöggjöfinni: Þú getur ekki slitið eitt frá öðru, þetta hangir allt saman á sömu spýtunni.“

Snærós Sindradóttir ráðstefnustjóri tekur við spurningum þátttakenda á Slido og beinir til pallborðs. Í því sátu frá vinstri: Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, Helgi Grímsson, sviðsstjóri Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, Anna-Lind Pétursdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Hermína Gunnþórsdóttir, prófessor við Háskólann á Akureyri, Þorsteinn Hjartarson, sviðsstjóri Fjölskyldusviðs Árborgar og nýráðinn skrifstofustjóri í mennta- og barnamálaráðuneytinu, og Ingvar Sigurgeirsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 16. nóvember 2022.

Myndir: stjornarradid.is

Categories
Fréttir

Lilja Dögg Alfreðsdóttir veitir Jónasar verðlaunin á degi íslenskrar tungu

Deila grein

17/11/2022

Lilja Dögg Alfreðsdóttir veitir Jónasar verðlaunin á degi íslenskrar tungu

„Í dag kynnast börn, ungmenni, nýir málhafar og aðrir um allt land deginum og tungumálinu á nýjan og ólíkan hátt. Deginum sem fagnar tungumáli okkar allra. Tungumálið er lykillinn að samfélaginu, hvort sem er í lestri bóka, í samfélagsumræðu, á netmiðlum eða í leik og starfi,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

„Íslenskan er í fyrirrúmi í dag, en hún á alltaf að vera það. Við skulum fagna þessum degi saman og standa saman vörð um íslenskuna. Við skulum þróa hana saman og kætast yfir því að hún á bjarta framtíð fyrir sér ef rétt er haldið á spöðunum. Íslenskan er okkar allra. Til hamingju með daginn í dag.“

Bragi Valdimar Skúlason, tónlistarmaður og textasmiður, hlaut í dag Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Verðlaunin eru veitt árlega, á degi íslenskrar tungu, þeim einstaklingi sem hefur með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar. Sérstaka viðurkenningu dags íslenskrar tungu hlaut að þessu sinni verkefnið Tungumálatöfrar á Ísafirði sem býður upp á upp á málörvandi umhverfi í gegnum skapandi kennsluaðferðir fyrir fjöltyngd börn.

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

Bragi Valdimar Skúlason hlýtur verðlaunin í þetta skipti. Í rökstuðningi ráðgjafanefndarinnar segir:
Tungumál slitna ekki við notkun heldur styrkjast. Til þess að íslenska haldi velli þarf að pönkast í henni, leika sér með hana, snúa upp á hana og út úr henni. Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar hlýtur að þessu sinni skáld, grínisti, auglýsingamaður og uppfræðari. Textar hans eru sungnir við brúðkaup, jarðarfarir og skírnir, kyrjaðir í tjaldútilegum og eru jafn ómissandi hluti af jólahaldi Íslendinga og ítölsk dægurlög. Hann er eftirlæti unglinga og vinnustaðagrínara, kennara og kaffibrúsakarla.

Um hann má segja að hann sé dúndur, hann sé diskó, það sé mikið í hann lagt! Verðlaunin í ár hlýtur Bragi Valdimar Skúlason sem hefur unnið markvisst að því að vekja áhuga fólks á íslenskri tungu og ræktað hana á óvenjumörgum sviðum. Hann er ekki aðeins skáld, textahöfundur og þýðandi heldur hefur hann gert vinsæla sjónvarpsþætti þar sem viðfangsefnið er tungumálið er sjálft. Að auki hefur hann lagt til efni á vef Baggalúts og unnið að auglýsingagerð.

Viðurkenning Jónasar Hallgrímssonar

Í rökstuðningi ráðgjafanefndar segir um Tungumálatöfra:

„Tungumálatöfrar, Tungumálatöfrar, í takti tölum við saman,“ má heyra sungið af kór barna og fullorðinna á myndbandi sem finna má á netinu. Það var tekið upp á sumarnámskeiði fyrir börn á Ísafirði en þar saman komu krakkar á aldrinum 5–11 ára til að læra íslensku í gegnum listsköpun og leik. Námskeiðið hefur verið haldið frá árinu 2017 og er ætlað íslenskum börnum sem hafa fæðst erlendis eða flutt til annarra landa og börnum af erlendum uppruna sem hafa sest að hér á landi. Börnin eiga það því sameiginlegt að vera fjöltyngd og um leið og þau eru örvuð til að nota íslensku er þeim bent á þann styrk sem felst í því að kunna fleiri tungumál en eitt. Í lok námskeiðsins hefur verið gengin tungumálaskrúðganga á Ísafirði en einnig hafa aðstandendur þess staðið fyrir málþingum. Komið hefur fram að þeir vonist eftir því að Tungumálatöfrar á Ísafirði verði uppspretta þekkingar sem geti nýst við þróun námsefnis víðar á landinu.

Viðurkenningarhafar- Tungumálatöfrar

Tungumálatöfrar hljóta sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu vegna frumkvöðlastarfs á sviði íslenskukennslu. Um leið á viðurkenningin að vera Tungumálatöfrum hvatning til frekari rannsókna og uppbyggingarstarfs.https://www.youtube.com/embed/kVShgV4e7C8

Ráðgjafanefnd Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar 2022 skipuðu Haukur Ingvarsson, formaður, Katrín Olga Jóhannesdóttir og Bergljót Soffía Kristjánsdóttir.

Hlýjar móttökur í Fellaskóla

Börnin í Fellaskóla tóku á móti ráðherra og verðlaunahöfum og voru viðstödd hátíðlega athöfn í dag. Nemendur sýndu verðlaunaatriði sitt af sviðslistahátíðinni Skrekk, en þau urðu í öðru sæti á hátíðinni. 

Börnin í Fellaskóla

Í Fellaskóla hefur verið unnið að fyrirmyndarverkefninu Okkar mál-samstarf um menningu, mál og læsi í Fellahverfi.
Verkefnið hefur það að meginmarkmiði að auka samstarf skóla í Fellahverfi og stofnana í Breiðholti. Leiðarljósið er að efla félagslegan jöfnuð, námsárangur og vellíðan barna í hverfinu.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 16. nóvember 2022.

Myndir: stjornarradid.is

Categories
Greinar

Íslenskan er okkar allra

Deila grein

16/11/2022

Íslenskan er okkar allra

Íslensk tunga er dýrmæt auðlind sem á stóran þátt í að móta okkar sterka samfélag. Tungumálið er tenging við söguna og mikilvægur hluti af menningarlegu fullveldi þjóðarinnar. Upp er runnin dagur íslenskrar tungu þar sem við minnum okkur á það grundvallarhlutverk sem tungumálið okkar gegnir fyrir sjálfsmynd þjóðarinnar.

Á undanförnum árum hefur ríkisstjórnin sett íslenskuna í öndvegi með fjölþættum aðgerðum. Þannig nam fjárfesting í málefnum íslenskunnar á síðasta kjörtímabili rúmum 10 milljörðum kr. Í núverandi stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna er áfram lögð áhersla á að styðja við íslenska tungu.

Ráðherranefnd um íslensku 

Í vikunni raungerðist ein varða á þeirri vegferð þegar að ný ráðherranefnd um íslenska tungu var sett á laggirnar. Í henni eiga fast sæti forsætisráðherra, menningar- og viðskiptaráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Nefndinni er ætlað að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast. Þá mun ráðherranefndin vinna markvisst að stefnumótun stjórnvalda og aðgerða í þágu tungumálsins. 

Áfram íslenska 

Þegar litið er yfir farinn veg hefur margt áunnist til þess að styðja við tungumálið okkar. Sú vinna hefur grundvallast á meðal annars á þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi en hún var samþykkt á Alþingi 2019. Í kjölfarið fylgdi aðgerðaáætlun fyrir árin 2019-2022 undir yfirskriftinni „Áfram íslenska“.

Meginmarkmið hennar var að íslenska væri notuð á öllum sviðum samfélagsins, íslenskukennsla og menntun yrði efld á öllum skólastigum og að framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi yrði tryggð með því að gera tækjunum okkar kleift að eiga í samskiptum okkar á íslensku. Aukinheldur var fjármunum forgangsraðað í að styðja skapandi greinar þar sem íslenska er aðalverkfærið. Bókaútgáfa var efld með nýju stuðningskerfi og hefur fjöldi útgefinna bóka á íslensku aukist mjög. Sérstakur barnabókasjóður var settur á laggirnar til þess að fjölga barnabókum á íslensku og einkareknir fjölmiðlar studdir enda gegna þeir mikilvægu hlutverki í að miðla efni á móðurmálinu.

Hugmyndir og samtakamáttur 

Á málþingi um málefni íslenskunnar í upphafi vikunnar, þar sem ráðherranefnd um íslensku var kynnt, voru stjórnvöld brýnd til áframhaldandi aðgerða í þágu íslenskunnar. Þar komu fram margar góðar hugmyndir og gagnlegar vangaveltur – meðal annars frá fulltrúum yngri kynslóða sem meðal annars töluðu ötullega fyrir bættu aðgengi að bæði mynd- og lesefni á íslensku fyrir sinn aldur og áhugasvið. Skýrt ákall mátti finna í erindum á málþinginu að huga þyrfti betur að íslenskukennslu fyrir fullorðna, þá sér í lagi talþjálfun og jafnframt auka almennt umburðarlyndi fyrir íslensku sem töluð er með hreim. Eða líkt og frú Vigdís Finnbogadóttir áréttaði í sinni hugvekju á málþinginu – við erum öll með hreim, öll tölum við tungumálið með okkar eigin blæbrigðum.

Næstu skref

Stjórnvöld eru staðráðin í að halda áfram að efla íslenskuna og verður ný þingsályktunartillaga og uppfærð aðgerðaáætlun þess efnis lögð fram á komandi vorþingi. Í þeim verður meðal annars boðað stóraukið aðgengi að íslenskukennslu fyrir útlendinga, áframhaldandi þróun máltæknilausna sem nýtast fólki á öllum aldri bæði í leik og starfi og vitundarvakning um mikilvægi þess að íslenskan verði sýnilegri í samfélaginu.

Á undanförnum vikum hafa okkur birst ýmsar fréttir um aukna samfélagsvitund í þá veru. Má þar til dæmis nefna stefnubreytingu Isavia um að merkingar í Flugsstöð Leifs Eiríkssonar verði fyrst á íslensku í stað ensku og fyrirmyndar framtak sama fyrirtækis um að veita erlendu starfsfólki aðgang að íslenskukennslu á vinnutíma.

Ég hvet fólk og fyrirtæki til þess að taka virkan þátt í þessari vegferð. Það er sameiginlegt verkefni okkar sem samfélags að tryggja að móðurmálið standi tímans tönn og verði á vörum okkar um aldur og ævi – því íslenskan er okkar allra.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, er menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Vörðusteinar

Deila grein

16/11/2022

Vörðusteinar

Verklagsreglur ríkislögreglustjóra um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála hefur reynst vel, samstarf við fagaðila heftur aukist og þolendum verið tryggð betri þjónusta. Þolendur heimilisofbeldis veigra sér oft við því að tilkynna lögreglu um ofbeldi enda gerandinn oft einstaklingur sem er nákominn þolanda. Í smærri sveitarfélögum þar sem íbúar þekkja flestir hvern annan getur það ekki síður verið þungbært að tilkynna um heimilisofbeldi. Því er mikilvægt að þau stjórnvöld sem starfa náið með íbúunum hafi víðtækar heimildir til þess að eiga frumkvæði að því að grípa inn í og eiga samstarf við önnur stjórnvöld um viðbrögð við slíkum brotum. Þótt verklagsreglur ríkislögreglustjóra hafi tryggt samstarf lögreglu við önnur stjórnvöld þarf samstarfið einnig að verða formfast í hina áttina, þ.e. með tilkynningum félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og menntastofnana til lögreglu og með samstarfi þeirra á milli að frumkvæði annarra yfirvalda. En til þess að slík upplýsingagjöf geti átt sér stað með skilvirkum hætti, með hagsmuni brotaþola að leiðarljósi, þarf skýrari lagaheimildir til upplýsingamiðlunar. Allt samráð milli stofnana samfélagsins þarf að eiga sér stað með þátttöku og samþykki brotaþola. Þegar ástæða er til að ætla að barn hafi orðið vitni að heimilisofbeldi eða orðið þolandi þess þarf þó að tryggja að skilyrði um þátttöku og samþykki brotaþola komi ekki í veg fyrir inngrip stjórnvalda sem sé andstætt hagsmunum barnsins. Kanna þarf hvort rýmka þurfi og skilgreina betur tilkynningarskyldu stjórnvalda, sem hafa afskipti af málum barna, til barnaverndarnefndar og lögreglu og kerfin utan um barnið geti miðlað upplýsingum sín á milli til að grípa börnin betur í þeim aðstæðum sem þau eru því miður alltof oft sett í.

Fleiri steinar styrkja vörðuna.

Í lok síðustu viku bárust fréttir frá Heilbrigðisráðuneytinu um að unnið sé að því að innleiða samræmt verklag og bæta þjónustu heilbrigðiskerfisins við þolendur heimilisofbeldis. Markmið þeirrar vinnu er að þolendum heimilisofbeldis verði tryggð sem best þjónusta og þjónustan þróuð og efld til lengri tíma litið. Vinnan er gerð í samstarfi við embætti Landlæknis í kjölfar niðurstaðna skýrslu sem unnin var fyrir ráðuneytið á síðasta ári. Skýrslan fól í sér mat á því hvernig heilbrigðisþjónusta mætir ólíkum þörfum kynjanna og tillögur að úrbótum. Ein tillagan var ákvörðun um að móta samræmt og bætt verklag. Þjónustan felur m.a. í sér þær breytingar að framvegis geti allir þeir sem þurfa að leita til heilbrigðisþjónustunnar í kjölfar heimilisofbeldis fengið tilvísun til félagsráðgjafa sem hefur sérfræðiþekkingu í málaflokknum. Einnig bætist við boð um þjónustu sálfræðings. Þá er hafin vinna við að setja upp rafrænt skráningarform í sjúkraskrá sem áætlað er að verði komið inn hjá öllum heilbrigðisstofnunum á næsta ári. Þar verða skráðar niðurstöður á réttarlæknisfræðilegum skoðunum á þolendum ofbeldis þegar svo ber við og framkvæmdar eru í alvarlegustu tilfellunum.

Hér er um að ræða mikilvægan stein í vörðuna og þetta ýtir áfram þingmáli sem ég lagði fram um að starfshópur yrði settur á fót sem yrði falið að móta tillögur um bætt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldi á milli kerfa. Markmiðið með þingsályktunartillögunni er að endurskoðun fari fram á núverandi kerfum með það fyrir augum að einfalda upplýsingamiðlun milli barnaverndaryfirvalda, félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og menntamálayfirvalda við að miðla upplýsinga milli stofnana og til lögreglu. Skoðanir og skráning áverka í heimilisofbeldismálum og skráning sönnunargagna sem fást hjá heilbrigðisyfirvöldum þurfa að fara fram með óyggjandi hætti svo þær upplýsingar séu nothæfar ef til sakamáls kemur.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. nóvember 2022.

Categories
Fréttir

Höfum við næga orku?

Deila grein

15/11/2022

Höfum við næga orku?

„Hæstv. forseti. Við höfum næga orku. Það er setning sem við fáum mjög oft að heyra. Og það er alveg rétt, við höfum næga orku ef við ætlum að halda áfram að keyra alla flutninga á mengandi jarðefnaeldsneyti. Við höfum næga orku ef við ætlum ekki að fara í orkuskipti. Við höfum næga orku ef við ætlum ekki að veita fyrirtækjum tækifæri til að styrkja eigin innviði og tryggja samkeppnishæfni sína og minnka kolefnisspor sitt á alþjóðavísu.

Þannig að ef við ætlum að fara í orkuskiptin, taka þátt í alþjóðlegum verkefnum og minnka kolefnisspor heimsins þá sé ég ekki annað en við séum ekki með næga orku. Við erum ekki sjálfbær í orkuframleiðslu og þurfum að geta farið í rannsóknir, skoðað og rætt þá orkukosti sem við höfum á Íslandi. Orkukostirnir sem við höfum eru misjafnir að gæðum og sumir munu aldrei verða að veruleika. En það er mikilvægt að við ræðum þær hugmyndir sem koma fram.

Rannsóknir á orkukostum skipta miklu máli til þess að við vitum um hvað við erum að tala og um hverja við erum raunverulega að taka ákvörðun. Það má nefna dæmi um rannsóknir á náttúru, á hljóðvist og nærliggjandi samfélagi. Þetta eru hlutir sem þarf að rannsaka áður en tekin er ákvörðun um að virkja og því er mjög mikilvægt að gera rannsóknir.

Loftslagsmál eru ekki eitthvað sem við leysum á eyju úti í Atlantshafi en við þurfum að geta lagt okkar af mörkum fyrir heimsbyggðina því að þetta er alþjóðlegt vandamál. Hvert skref skiptir máli,“ sagði Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins á Alþingi..

Categories
Fréttir

Vetrardagskrá Framsóknar í Reykjanesbæ

Deila grein

14/11/2022

Vetrardagskrá Framsóknar í Reykjanesbæ

Öflugt starf er á vegum Framsóknar í Reykjanesbæ og fram í desember eru eftirfarandi viðburðir á dagskrá að Hafnargötu 62.

Vöfflukaffi laugardaginn 19. nóvember Kl. 10:30- 12:00

Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknar og Eva Stefánsdóttir, fulltrúi í menningar- og atvinnuráði Reykjanesbæjar

Vöfflukaffi laugardaginn 26 nóvember Kl. 10:30-12:00

Það verður fjölmenni sem tekur á móti gestum þann 26. nóvember en þá verða þingmennirnir Jóhann Friðrik Friðriksson og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir með okkur og fara yfir störf þingsins. Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, bæjarfulltrúi og varaþingmaður Framsóknar og Friðþjófur H Karlsson, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar fara yfir gang mála í sveitarfélaginu.

Jólakaffi Framsóknar í Reykjanesbæ laugardaginn 3. desember kl. 10:30- 12:00

Þær Bjarney Rut Jensdóttir, formaður lýðheilsuráðs og Magnea H. Bjarnadóttir, formaður Framsóknarfélags Reykjanesbæjar taka á móti gestum í jólakaffi.

Stjórn Framsóknar í Reykjanesbæ býður gesti hjartanlega velkomna á viðburðina framundan.

Mynd: samband.is 14. nóv. 2022.