Categories
Fréttir

„Gerum þetta almennilega í eitt skipti fyrir öll!“

Deila grein

22/02/2023

„Gerum þetta almennilega í eitt skipti fyrir öll!“

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, fór yfir komandi viðræður um endurskoðun búvörusamninga í störfum þingsins. Vildi hún brýna matvælaráðherra til að hlusta á þarfir og kröfur bænda. Íslenskir neytendur vilja „búa við fæðuöryggi þar sem framleiðsluhvatar eru miklir og við líðum aldrei skort á innlendum matvælum. Við sjáum augljósa þörf fyrir stuðning frá ríkinu bæði í formi framlaga og tollverndar. Öll umræða um að breyta kerfinu og taka út greiðslur sem eru beintengdar framleiðslu er aðeins til þess fallin að veikja stoðir landbúnaðarins og þá sérstaklega þegar kemur að nautgriparækt og sauðfjárrækt.“

„Óframleiðslutengdur stuðningur eða grænar greiðslur tryggja ekki næga framleiðslu með skilvirkum hætti. Með minni stuðningi komum við í veg fyrir nauðsynlega endurnýjun í greininni. Öflugur stuðningur og skilvirkt kerfi tryggir grundvöll til upphafs og áframhalds matvælaframleiðslu. Við sjáum að fjárfestingin í búskap er töluverð. Vextir eru kringum 10% af jarðalánum, sem er virkilega mikið umhugsunarefni. Hvernig ætlumst við til þess að tryggja endurnýjun á þessum forsendum?“

„Tryggja þarf öfluga tollvernd og endurskoðun verðlagsgrunnsins, sem er bæði hagsmunamál bænda og neytenda. Öll umræða um að það hækki verð til neytenda er á villigötum og markmiðið á að vera að tryggja framleiðslu afurða. Þá eflum við ekki landbúnað með því að draga úr stuðningi við eina grein í þágu annarrar. Við Íslendingar stærum okkur af því að við búum við gæði og heilnæmi í matvælunum okkar, það byggir jú á íslenskum landbúnaði. Hættan er að þau gæði hverfi ef landbúnaðurinn fær ekki þá virðingu og þann stuðning sem hann á skilið. — Gerum þetta almennilega í eitt skipti fyrir öll,“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.


Ræða Hafdísar Hrannar í heild sinni á Alþingi:

„Í dag hófst búgreinaþing og því er vert að ræða komandi endurskoðun búvörusamninga. Nauðsynlegt er að samningar séu bændum og matvælaframleiðslu landsins til hagsbóta og því vil ég brýna hæstv. matvælaráðherra í þeim efnum. Hlusta þarf á þarfir og kröfur bænda. Það skiptir ekki bara máli fyrir þá heldur einnig fyrir samfélagið allt. Við viljum búa við fæðuöryggi þar sem framleiðsluhvatar eru miklir og við líðum aldrei skort á innlendum matvælum. Við sjáum augljósa þörf fyrir stuðning frá ríkinu bæði í formi framlaga og tollverndar. Öll umræða um að breyta kerfinu og taka út greiðslur sem eru beintengdar framleiðslu er aðeins til þess fallin að veikja stoðir landbúnaðarins og þá sérstaklega þegar kemur að nautgriparækt og sauðfjárrækt. Óframleiðslutengdur stuðningur eða grænar greiðslur tryggja ekki næga framleiðslu með skilvirkum hætti. Með minni stuðningi komum við í veg fyrir nauðsynlega endurnýjun í greininni. Öflugur stuðningur og skilvirkt kerfi tryggir grundvöll til upphafs og áframhalds matvælaframleiðslu. Við sjáum að fjárfestingin í búskap er töluverð. Vextir eru kringum 10% af jarðalánum, sem er virkilega mikið umhugsunarefni. Hvernig ætlumst við til þess að tryggja endurnýjun á þessum forsendum? Tryggja þarf öfluga tollvernd og endurskoðun verðlagsgrunnsins, sem er bæði hagsmunamál bænda og neytenda. Öll umræða um að það hækki verð til neytenda er á villigötum og markmiðið á að vera að tryggja framleiðslu afurða. Þá eflum við ekki landbúnað með því að draga úr stuðningi við eina grein í þágu annarrar. Við Íslendingar stærum okkur af því að við búum við gæði og heilnæmi í matvælunum okkar, það byggir jú á íslenskum landbúnaði. Hættan er að þau gæði hverfi ef landbúnaðurinn fær ekki þá virðingu og þann stuðning sem hann á skilið. — Gerum þetta almennilega í eitt skipti fyrir öll.“

Categories
Fréttir

Er nám bara fyrir þá ríku?

Deila grein

22/02/2023

Er nám bara fyrir þá ríku?

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, fór yfir aðstöðumun þeirra sem fara í atvinnuflugmannsnám hér á landi og þeirra sem fara í skipstjórnarnám, það nám er inni í hinu hefðbundna menntakerfi og láns hæft að fullu. Er ekki vilji til að tryggja aðgengi menntunar fyrir sem flesta, óháð efnahag og bakgrunni, hér á landi spurði Jóhann Friðrik í störfum þingsins.

„Atvinnuflugmannsnám hér á landi hefur verið kennt um árabil enda eru skilyrði hér til flugnáms með því besta sem gerist í heiminum. Allir eru sammála um mikilvægi þess að námið sé til staðar hérlendis. Æfingasvæði hér á landi er opið, veður fjölbreytt og innviðir góðir, þótt ákjósanlegra væri að hér væri sérstakur æfingaflugvöllur fyrir flugnám. Flugnám er mjög krefjandi enda ábyrgðin mikil. Það er því ekki á það bætandi fyrir nemendur að Menntasjóður skuli aðeins veita námslán fyrir sirka einum fjórða af heildarkostnaði lánsins. Mér skilst að það kosti um 14,5 millj. kr. að klára atvinnuflugmannsnám hér á landi í dag. Fyrirkomulagið er t.d. annað í Noregi og raunar er mjög sérstakt að ef nemandi ákveður að fara í skipstjórnarnám hér á landi er námið inni í hinu hefðbundna menntakerfi, en ef nemandinn vill fara í flugnám þá er það ekki á færi nema þeirra sem hafa verulega sterkt bakland,“ sagði Jóhann Friðrik.

„Laun flugmanna eru mjög góð og því ættu endurheimtur af námslánum að vera með því besta sem gerist. Því er við að bæta að í flugstefnu fyrir Ísland, sem samþykkt hefur verið á Alþingi, er lögð þung áhersla á það að flugnám verði fært inn í hið hefðbundna menntakerfi.

Ég vil því brýna stjórnvöld og hvetja þau til dáða að klára þetta mikilvæga mál. Enginn þarf að velkjast í vafa um mikilvægi flugs á Íslandi og þar eigum við að vera í forystu,“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.


Ræða Jóhanns Friðriks í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Hér á landi viljum við tryggja aðgengi menntunar fyrir sem flesta, óháð efnahag og bakgrunni. En í sumum tilfellum virðist nám vera bara fyrir þá ríku. Atvinnuflugmannsnám hér á landi hefur verið kennt um árabil enda eru skilyrði hér til flugnáms með því besta sem gerist í heiminum. Allir eru sammála um mikilvægi þess að námið sé til staðar hérlendis. Æfingasvæði hér á landi er opið, veður fjölbreytt og innviðir góðir, þótt ákjósanlegra væri að hér væri sérstakur æfingaflugvöllur fyrir flugnám. Flugnám er mjög krefjandi enda ábyrgðin mikil. Það er því ekki á það bætandi fyrir nemendur að Menntasjóður skuli aðeins veita námslán fyrir sirka einum fjórða af heildarkostnaði lánsins. Mér skilst að það kosti um 14,5 millj. kr. að klára atvinnuflugmannsnám hér á landi í dag. Fyrirkomulagið er t.d. annað í Noregi og raunar er mjög sérstakt að ef nemandi ákveður að fara í skipstjórnarnám hér á landi er námið inni í hinu hefðbundna menntakerfi, en ef nemandinn vill fara í flugnám þá er það ekki á færi nema þeirra sem hafa verulega sterkt bakland. Laun flugmanna eru mjög góð og því ættu endurheimtur af námslánum að vera með því besta sem gerist. Því er við að bæta að í flugstefnu fyrir Ísland, sem samþykkt hefur verið á Alþingi, er lögð þung áhersla á það að flugnám verði fært inn í hið hefðbundna menntakerfi.

Ég vil því brýna stjórnvöld og hvetja þau til dáða að klára þetta mikilvæga mál. Enginn þarf að velkjast í vafa um mikilvægi flugs á Íslandi og þar eigum við að vera í forystu.“

Categories
Fréttir

Hvers vegna er skammtíma hvati til að fækka notendum?

Deila grein

22/02/2023

Hvers vegna er skammtíma hvati til að fækka notendum?

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, vakti máls á jöfnun raforkukostnaðar í störfum þingsins. Eins og allir vita eru í landinu eru tvær gjaldskrár vegna dreifingar rafmagns, dreifbýlisverð og þéttbýlisverð. Staðreyndin er sú að íbúar og og fyrirtæki í dreifbýli borga umtalsvert meira fyrir dreifingu raforku en þéttbýlisbúar.

„Ríkisstjórnin hefur gert vel í að jafna dreifikostnaðinn undanfarin misseri en samt sem áður er innbyggð óvissa í fyrirkomulagið eins og það er. Bæði almenna jöfnunin og samningar við garðyrkjubændur byggja á skiptingu á ákveðinni fjárveitingu milli þeirra sem njóta jöfnunarinnar. Þannig er enginn hvati til að fjölga notendum í dreifbýli – má raunar segja að þverrt á móti sé skammtíma hvati til að fækka notendum,“ sagði Líneik Anna.

Líneik Anna bendir á að það yrði allra hagur að horfa á heildarmyndina og til lengri tíma væri það hagur allra að fjölga notendum í dreifbýlinu. Kostnaðurinn myndi lækka vegna dreifingar á fleiri notendur og um leið þörfina fyrir jöfnunargreiðslur úr ríkissjóði.

„Stjórnvöld verða því að halda áfram að leita betri og fyrirsjáanlegri lausna við jöfnun dreifikostnaðar raforku, hvort sem er til almennra notenda eða í stuðningi við orkufreka framleiðslu eins og garðyrkju. Í því sambandi er rétt að rifja upp að samkvæmt stjórnarsáttmála er ætlunin að auka grænmetisframleiðslu með föstu niðurgreiðsluhlutfalli á raforkuverði til ylræktar,“ sagði Líneik Anna.

„Dreifikerfi í jörð, þrífösun rafmagns og fyrirsjáanleiki í dreifikostnaðar raforku eru brýnustu hagsmunamálin fyrir fyrirtækin sem staðsett eru í dreifbýlinu jafnt fyrirtæki í ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu og á öðrum sviðum.

Nýsköpun, orkuskipti, nýliðun og öll framtíð dreifðra byggða er háð því að orka fáist, hún sé afhent á öruggan hátt og á samkeppnishæfu verði,“ sagði Líneik Anna að lokum.


Ræða Líneikar Önnu í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Að lokinni vel heppnaðri kjördæmaviku er kominn tími á eina af mínum reglulegu ræðum um jöfnun raforkukostnaðar.
Í landinu eru tvær gjaldskrár vegna dreifingar rafmagns, dreifbýlisverð og þéttbýlisverð. Íbúar og fyrirtæki í dreifbýli borga umtalsvert meira fyrir dreifingu raforku en þéttbýlisbúar.

Ríkisstjórnin hefur gert vel í að jafna dreifikostnaðinn undanfarin misseri en samt sem áður er innbyggð óvissa í fyrirkomulagið eins og það er. Bæði almenna jöfnunin og samningar við garðyrkjubændur byggja á skiptingu á ákveðinni fjárveitingu milli þeirra sem njóta jöfnunarinnar. Þannig er enginn hvati til að fjölga notendum í dreifbýli – má raunar segja að þverrt á móti sé skammtíma hvati til að fækka notendum. Ef aftur á móti væri litið á heildarmyndina og til langtíma sjónarmiða væri það allra hagur að fjölga notendum í dreifbýli því þá skiptist dreifikostnaðurinn á fleiri notendur, verðið gæti lækkað og um leið þörfin fyrir jöfnunargreiðslur úr ríkissjóði.
Stjórnvöld verða því að halda áfram að leita betri og fyrirsjáanlegri lausna við jöfnun dreifikostnaðar raforku, hvort sem er til almennra notenda eða í stuðningi við orkufreka framleiðslu eins og garðyrkju. Í því sambandi er rétt að rifja upp að samkvæmt stjórnarsáttmála er ætlunin að auka grænmetisframleiðslu með föstu niðurgreiðsluhlutfalli á raforkuverði til ylræktar.

Dreifikerfi í jörð, þrífösun rafmagns og fyrirsjáanleiki í dreifikostnaði raforku eru brýnustu hagsmunamálin fyrir fyrirtækin sem staðsett eru í dreifbýlinu jafnt fyrirtæki í ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu og á öðrum sviðum.

Nýsköpun, orkuskipti, nýliðun og öll framtíð dreifðra byggða er háð því að orka fáist, hún sé afhent á öruggan hátt og á samkeppnishæfu verði.“

Categories
Fréttir

„Við megum aldrei hætta vinnu okkar í átt að því að jafna heilbrigðisþjónustu óháð búsetu“

Deila grein

21/02/2023

„Við megum aldrei hætta vinnu okkar í átt að því að jafna heilbrigðisþjónustu óháð búsetu“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Landsbyggðin hefur áþreifanlega fundið fyrir lítilli nýliðun sérfræðilækna undanfarin ár. Sama saga á við hjá fjölmörgum öðrum þjóðum. „Það er áskorun að finna nýjar leiðir, nýta þann mannauð sem við búum að í dag, hlúa að honum eftir mikið álag undanfarin ár, en einnig að fjölga heilbrigðisstarfsfólki,“ sagði Ingibjörg.

„Margir neyðast til að gera sér ferð til höfuðborgarinnar til að sækja sér viðeigandi heilbrigðisþjónustu, jafnvel einungis til þess að fara til augnlæknis með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn,“ sagði Ingibjörg.

„Sérfræðilæknar hafa sinnt þjónustu víðs vegar um landið í samstarfi við heilbrigðisstofnanir um land allt. Það er mikilvægt að það haldi áfram, en í því ljósi er einnig mikilvægt að skapa umgjörð, ná samningum við sérfræðilækna og nýta tækni í fjarheilbrigðisþjónustu þó svo að hún muni aldrei koma í staðinn fyrir persónulega þjónustu.“

„Hæstv. heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, hefur sett á laggirnar starfshóp sem vinnur að aðgerðum til að bæta mönnun sérhæfðs starfsfólks heilbrigðisumdæma Vestfjarða og Austurlands. Þetta er gert ásamt því að farið hefur verið í aðgerðir innan heilbrigðisráðuneytisins til að bæta nýliðun og mönnun sérfræðilækna utan höfuðborgarsvæðisins. Starfshópi verkefnisins Öflug sjúkrahúsþjónusta í dreifbýli er ætlað að skoða viðeigandi lausnir á hverju svæði fyrir sig og hvernig best er að bregðast við mönnunarvanda á landsbyggðinni með skilvirkum máta, með samvinnu sjúkrahúsa að leiðarljósi. Starfshópurinn mun einnig taka þætti á borð við vaktþjónustu, þjálfunarmöguleika, sérnámsmöguleika og fleira til athugunar í sinni vinnu. Við megum aldrei hætta vinnu okkar í átt að því að jafna heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar,“ sagði Ingibjörg að lokum.


Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Í lögunum stendur að allir eigi jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Við erum auðvitað meðvituð um að ekki er hægt að veita alla þjónustu alls staðar á landinu en vissulega er hægt að gera betur. Landsbyggðin hefur áþreifanlega fundið fyrir lítilli nýliðun sérfræðilækna undanfarin ár. Margir neyðast til að gera sér ferð til höfuðborgarinnar til að sækja sér viðeigandi heilbrigðisþjónustu, jafnvel einungis til þess að fara til augnlæknis með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn. Margar þjóðir glíma við sama verkefni og við hér á Íslandi; að efla og fjölga heilbrigðisstarfsfólki. Það er áskorun að finna nýjar leiðir, nýta þann mannauð sem við búum að í dag, hlúa að honum eftir mikið álag undanfarin ár, en einnig að fjölga heilbrigðisstarfsfólki.

Sérfræðilæknar hafa sinnt þjónustu víðs vegar um landið í samstarfi við heilbrigðisstofnanir um land allt. Það er mikilvægt að það haldi áfram, en í því ljósi er einnig mikilvægt að skapa umgjörð, ná samningum við sérfræðilækna og nýta tækni í fjarheilbrigðisþjónustu þó svo að hún muni aldrei koma í staðinn fyrir persónulega þjónustu.

Hæstv. heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, hefur sett á laggirnar starfshóp sem vinnur að aðgerðum til að bæta mönnun sérhæfðs starfsfólks heilbrigðisumdæma Vestfjarða og Austurlands. Þetta er gert ásamt því að farið hefur verið í aðgerðir innan heilbrigðisráðuneytisins til að bæta nýliðun og mönnun sérfræðilækna utan höfuðborgarsvæðisins. Starfshópi verkefnisins Öflug sjúkrahúsþjónusta í dreifbýli er ætlað að skoða viðeigandi lausnir á hverju svæði fyrir sig og hvernig best er að bregðast við mönnunarvanda á landsbyggðinni með skilvirkum máta, með samvinnu sjúkrahúsa að leiðarljósi. Starfshópurinn mun einnig taka þætti á borð við vaktþjónustu, þjálfunarmöguleika, sérnámsmöguleika og fleira til athugunar í sinni vinnu. Við megum aldrei hætta vinnu okkar í átt að því að jafna heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar.“

Categories
Fréttir

Tími til að sýna samfélagslega ábyrgð

Deila grein

21/02/2023

Tími til að sýna samfélagslega ábyrgð

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, ræddi verðbólguna í störfum þingsins.

„Verðbólga hefur risið skjótt upp, stýrivextir hækka og bankarnir hækka vexti sína í kjölfarið. Flestallir landsmenn hafa fundið fyrir áhrifunum og ekki síst okkar viðkvæmustu hópar, ásamt ungu fólki sem margt hvert er að stíga sín fyrstu skref inn á húsnæðismarkað með börn eða börn á leiðinni,“ sagði Hafdís Hrönn.

„Það er aldrei skemmtilegt að horfa upp á vaxandi verðbólgu, sérstaklega í ljósi þess hversu vel okkur hefur gengið í efnahagsmálum undanfarin ár þrátt fyrir oft á tíðum erfiðar aðstæður. Margar ástæður eru fyrir stöðunni í dag. Sumar hverjar ráðum við ekkert við. Hins vegar þýðir það ekki að við megum staldra við og vona það besta; allt samfélagið, ríkið og einkaaðilar þarf að standa saman í því verkefni að vinna bug á verðbólgunni.“

Ríkisstjórnin hefur lagt sig fram um að grípa viðkvæmustu hópana. Þegar hefur verið farið í aðgerðir eins og að hækka húsnæðisbætur, hækka bætur almannatrygginga, hækka barnabætur og fara í ýmsar aðgerðir til að bregðast við stöðunni á húsnæðismarkaði. Þetta er ekki tæmandi talning en allar þessar aðgerðir geta skipt sköpum fyrir einstaklinga sem sjá peninga sína hverfa í hærri vöxtum og hækkandi verði á heimilisvörum, matvælum og öðrum nauðsynjum.

„Það eru þó ekki einungis stjórnvöld sem þurfa að grípa til aðgerða heldur þurfum við öll að taka höndum saman, við í samfélaginu, bankarnir og þeir einkaaðilar sem hafa burði og veita fyrrnefndar nauðsynjar á við matvæli, að sýna samfélagslega ábyrgð. Á tímum hárrar verðbólgu eykst mikilvægi þess að tannhjólið gangi smurt og ef við vinnum öll saman þá getum við náð stórkostlegum árangri,“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.


Ræða Hafdísar Hrannar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Umræða um verðbólgu hér á landi hefur verið áberandi síðustu vikur. Verðbólga hefur risið skjótt upp, stýrivextir hækka og bankarnir hækka vexti sína í kjölfarið. Flestallir landsmenn hafa fundið fyrir áhrifunum og ekki síst okkar viðkvæmustu hópar, ásamt ungu fólki sem margt hvert er að stíga sín fyrstu skref inn á húsnæðismarkað með börn eða börn á leiðinni. Það er aldrei skemmtilegt að horfa upp á vaxandi verðbólgu, sérstaklega í ljósi þess hversu vel okkur hefur gengið í efnahagsmálum undanfarin ár þrátt fyrir oft á tíðum erfiðar aðstæður. Margar ástæður eru fyrir stöðunni í dag. Sumar hverjar ráðum við ekkert við. Hins vegar þýðir það ekki að við megum staldra við og vona það besta; allt samfélagið, ríkið og einkaaðilar þarf að standa saman í því verkefni að vinna bug á verðbólgunni.

Ríkisstjórnin ætlar sér alls ekki að draga lappirnar og er vel meðvituð um að grípa þarf okkar viðkvæmustu hópa og koma í veg fyrir hremmingar. Nú þegar hefur verið farið í aðgerðir eins og að hækka húsnæðisbætur, hækka bætur almannatrygginga, hækka barnabætur og fara í ýmsar aðgerðir til að bregðast við stöðunni á húsnæðismarkaði. Þetta er ekki tæmandi talning en allar þessar aðgerðir geta skipt sköpum fyrir einstaklinga sem sjá peninga sína hverfa í hærri vöxtum og hækkandi verði á heimilisvörum, matvælum og öðrum nauðsynjum. Það eru þó ekki einungis stjórnvöld sem þurfa að grípa til aðgerða heldur þurfum við öll að taka höndum saman, við í samfélaginu, bankarnir og þeir einkaaðilar sem hafa burði og veita fyrrnefndar nauðsynjar á við matvæli, að sýna samfélagslega ábyrgð. Á tímum hárrar verðbólgu eykst mikilvægi þess að tannhjólið gangi smurt og ef við vinnum öll saman þá getum við náð stórkostlegum árangri.“

Categories
Fréttir

Tíu ára afmæli lögfestingar Barnasáttmálans á Íslandi

Deila grein

20/02/2023

Tíu ára afmæli lögfestingar Barnasáttmálans á Íslandi

Í dag eru tíu ár liðin frá lögfestingu Barnasáttmálans á Íslandi. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, heimsótti Vesturbæjarskóla í tilefni dagsins þar sem myndband KrakkaRÚV og mennta- og barnamálaráðuneytisins um Barnasáttmálann var frumsýnt og skólabörn sungu frumsamið réttindalag byggt á sáttmálanum.

Myndband KrakkaRÚV:

Ísland var í hópi fyrstu landa til að lögfesta Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hinn 20. febrúar 2013. Umfangsmikil aðgerðaáætlun um innleiðingu sáttmálans hér á landi hefur verið mótuð í stefnu um Barnvænt Ísland. Stefnan uppfyllir ýtrustu kröfur Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, skyldur stjórnvalda samkvæmt Barnasáttmálanum og felur í sér innleiðingu verklags og ferla sem tryggja jafnræði og markvissa þátttöku barna og ungmenna innan stjórnsýslunnar.


Skólabörn deila með ráðherra skoðunum sínum um hvað betur megi fara í skólastarfi

„Það var ánægjulegt að fá að heimsækja börnin í Vesturbæjarskóla og svara spurningum þeirra um Barnasáttmálann, réttindi þeirra og margt fleira. Ég vil þakka skólanum fyrir blíðar móttökur og hrósa honum fyrir réttindamiðaða nálgun á skólastarfið í samræmi við Barnasáttmálann. Mikilvægt er að lyfta stefnunni um Barnvænt Ísland og kynna hana með markvissum hætti fyrir börnum og almenningi í landinu til að hún nái fram að ganga. Slík kynning á stefnunni er ein af meginaðgerðum hennar jafnt sem lykilþáttur í innleiðingu aðgerðaáætlun menntastefnu og aðalnámskrár. Samstarf ráðuneytisins við KrakkaRÚV er liður í því kynningarstarfi,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.


Mennta- og barnamálaráðherra heimsækir skólastofur

Barnasáttmálinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn heimsins þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu. Hann staðfestir að börn eru sjálfstæðir einstaklingar með fullgild réttindi óháð réttindum fullorðinna. Öllum þeim sem koma að málefnum barna ber að gera það sem í þeirra valdi stendur til að framfylgja samningnum. Hér er átt við stjórnvöld, foreldra, skóla og alla aðra sem vinna með börnum eða fyrir börn.


Réttindaráð Vesturbæjarskóla afhendir mennta- og barnamálaráðherra Barnaréttindabingó sem þau hönnuðu og verður sent nemendum skólans í tilefni dagsins

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

Framlög Jöfnunarsjóðs vegna málefna fatlaðs fólks hækka um 5 milljarða

Deila grein

20/02/2023

Framlög Jöfnunarsjóðs vegna málefna fatlaðs fólks hækka um 5 milljarða

Sigurður Ingi Jóhannesson, innviðaráðherra, samþykkti nýlega tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um að hækka áætluð framlög sjóðsins vegna málefna fatlaðs fólks á árinu 2023 um 5 ma.kr. og nema áætluð framlög sjóðsins vegna reksturs málaflokksins nú 27,4 ma.kr.

Hækkunina má rekja til samkomulag sem fjármála- og efnahagsráðherra, innviðaráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra undirrituðu í desember við formann og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga um breytingu á fjármögnun lögbundinnar þjónustu sveitarfélag við fatlað fólk. Samkomulagið felur í sér varanlega tilfærslu fjármuna sem nema 5 ma.kr. árlega frá ríki til sveitarfélaga.

Framlögin eru greidd mánaðarlega og fer fyrsta greiðsla ársins 2023 fram nú í lok febrúar. Framlögin taka mið af innkomnum tekjum sjóðsins af 1,21% hlutdeild hans í staðgreiðsluskilum viðkomandi mánaðar og tekna sjóðsins af 0,235% af innheimtum skatttekjum ríkisins.

Áætlunin verður tekin til endurskoðunar í nóvember 2023.

Heimild: stjr.is

Categories
Greinar

Miðstöð skapandi greina á Íslandi

Deila grein

18/02/2023

Miðstöð skapandi greina á Íslandi

Eitt af því skemmti­lega við að starfa í stjórn­mál­um er að sjá afrakst­ur verka sinna fyr­ir sam­fé­lagið. Sú veg­ferð get­ur tekið á sig ýms­ar mynd­ir og verið mislöng. Síðastliðin vika var viðburðarík í þessu sam­hengi, en mik­il­væg­ir áfang­ar náðust fyr­ir mál­efni tón­list­ar, mynd­list­ar, hönn­un­ar og arki­tekt­úrs.

Á Alþingi mælti ég fyr­ir frum­varpi að tón­list­ar­lög­um og þings­álykt­un­ar­til­lögu um tón­list­ar­stefnu fyr­ir árin 2023-2030. Um er að ræða bæði fyrstu heild­ar­lög um tónlist í land­inu og fyrstu op­in­beru stefnu í mál­efn­um tón­list­ar á Íslandi. Ný heild­ar­lög um tónlist og tón­list­ar­stefna marka ákveðin vatna­skil fyr­ir tón­list­ar­lífið í land­inu en fram und­an eru nokkuð rót­tæk­ar breyt­ing­ar til þess að efla stuðnings­kerfi tón­list­ar á Íslandi og styðja við ís­lenskt tón­listar­fólk í verk­um sín­um, bæði hér­lend­is og er­lend­is. Þannig verður ný tón­list­armiðstöð sett á lagg­irn­ar en henni er ætlað að verða horn­steinn ís­lensks tón­list­ar­lífs og sinna upp­bygg­ingu og stuðningi við hvers kon­ar tón­list­ar­starf­semi sem og út­flutn­ings­verk­efni allra tón­list­ar­greina. Þá mun nýr tón­list­ar­sjóður sam­eina þrjá sjóði sem fyr­ir eru á sviði tón­list­ar í einn sam­eig­in­leg­an sjóð með það að mark­miði að ein­falda styrkjaum­hverfi ís­lensks tón­list­ar­lífs og auka skil­virkni þess.

Í þing­inu mælti ég einnig fyr­ir nýrri mynd­list­ar­stefnu til árs­ins 2030 sem bygg­ist á fjór­um meg­in­mark­miðum sem hvert og eitt stuðli að um­bót­um og já­kvæðum breyt­ing­um svo að framtíðar­sýn stefn­unn­ar geti orðið að veru­leika. Meg­in­mark­miðin eru að á Íslandi ríki kraft­mik­il mynd­list­ar­menn­ing, að stuðnings­kerfi mynd­list­ar verði ein­falt og skil­virkt, að ís­lensk mynd­list verði sýni­leg og vax­andi at­vinnu­grein og að ís­lensk mynd­list skipi alþjóðleg­an sess. Í stefn­unni er einnig að finna fjölþætt­ar aðgerðir til þess að ná sett­um mark­miðum.

Síðastliðinn föstu­dag kynnti ég svo nýja stefnu í mál­efn­um hönn­un­ar og arki­tekt­úrs til árs­ins 2030. Leiðir að meg­in­mark­miðum stefn­unn­ar tengj­ast fimm áherslu­sviðum sem nán­ar er fjallað um í stefnu­skjal­inu; verðmæta­sköp­un, mennt­un fram­sæk­inna kyn­slóða, hag­nýt­ingu hönn­un­ar sem breyt­inga­afls, sjálf­bærri innviðaupp­bygg­ingu og kynn­ingu á ís­lenskri hönn­un og arki­tekt­úr.

Að baki öllu fyrr­nefndu ligg­ur mik­il og góð sam­vinna við fjölda sam­starfsaðila, og hag- og fagaðila í viðkom­andi grein­um. Í eyr­um sumra kunna orð eins og stefna og stefnu­mót­un að hljóma eins og froðukennd­ir fras­ar, en staðreynd­in er engu að síður sú að hér er kom­inn sam­eig­in­leg­ur leiðar­vís­ir til framtíðar, sem all­ir eru sam­mála um og nú er hægt að hrinda í fram­kvæmd. Fjár­mun­ir hafa nú þegar verið tryggðir til þess að hefja þá vinnu. Stjórn­völd­um er al­vara með því að sækja fram fyr­ir skap­andi grein­ar. Mikið af und­ir­bún­ings­vinn­unni er nú að baki, við tek­ur að bretta upp erm­ar og halda áfram að fram­kvæma.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Nú er komið að okkur

Deila grein

17/02/2023

Nú er komið að okkur

Nýlega birtust fréttir þess efnis að matvælaráðherra hafi ákveðið að sleppa framlagningu frumvarps um sameiningu afurðastöðva í kjötiðnaði og tekið það úr málaskrá ráðuneytisins. Þetta eru vissulega vonbrigði þar sem hagræðing af slíkri sameiningu í þágu matvælaframleiðenda og neytenda hefur fengið mikla umfjöllun, bæði á Alþingi og á vettvangi bænda. Þegar við tölum um þessa hagræðingu þá erum við að tala um milljarða. Upphæðir sem geta skipt sköpum fyrir bændur og framtíð íslensks kjötiðnaðar.

Bóndinn tryggir fæðu

Skilaboð ríkisstjórnarinnar um mikilvægi þess að tryggja fæðu- og matvælaöryggi hér á landi hefur verið skýrt. Mikilvægt er að við getum reitt okkur á íslenska matvælaframleiðslu, og við sjáum á nýliðnum atburðum erlendis að aðstæður heillar þjóðar geta breyst á augnabliki. Að vera sjálfum okkur nóg með nauðsynjar á borð við mat getur skipt sköpum.

Þeir sem tryggja matvæla- og fæðuöryggi landsins eru bændur. Innlendir matvælaframleiðendur, sem hafa tryggt okkur gæða afurð í áranna raðir þrátt fyrir marga erfiða tíma. Í dag, á tímum mikillar samkeppni við erlendar stórverksmiðjur, eykst mikilvægi þess að innlendir framleiðendur, sem uppfylla allar þá kröfur sem við gerum til okkar fæðu hvað varðar öryggi og gæði, hafi ríkisstjórnina með þeim í liði.

Milljarða króna hagræðing

Framsókn hefur lengi talað fyrir að sameining afurðastöðva í kjötiðnaði verði gerð heimil hér á landi. Tölfræðin og framtíðarspár liggja fyrir. Sú hagræðing getur komið rekstrargrundvelli bænda aftur á réttan kjöl eftir erfiða tíma og myndi að öllum líkindum skila sér til neytenda í formi lægra verðs. Í núverandi stöðu geta bændur ekki selt sína vöru á sama verði og innfluttar vörur eru keyptar á. Aðstöðumunurinn er gífurlegur þegar við horfum til erlendra stórverksmiðja, þar sem ekki eru gerðar sömu kröfur til öryggis, staðla og dýraverndar á mörgum stöðum. Framleiðslukostnaður þeirra er, eðli máls samkvæmt, lægri per kíló en hjá íslenskum fjölskyldubónda.

Þeir sem setja fyrirvara á framtíðarspárnar geta horft á þá raunverulegu hagræðingu, sem hefur átt sér stað í kjölfar sameiningar afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Þar hafa mjólkurframleiðendur náð að hagræða milljörðum króna, sem skilar sér bæði til framleiðenda og bænda.

Deila um samkeppni

Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur gert athugasemdir við veitingu ofangreindrar heimildar, en þar eru gerðar athugasemdir við að sameining afurðastöðva gæti dregið verulega úr samkeppni á þeim markaði, með tilheyrandi áhrifum. Það er vissulega hlutverk SKE að fylgjast með samkeppni hér á landi og tryggja jafnvægi á markaði. Hins vegar þurfum við að geta horft á raunverulegar aðstæður, til dæmis hvað varðar samkeppnisbaráttu innlendrar matvælaframleiðslu við innflutt matvæli. Samkeppni sem má líkja við Davíð og Golíat. Það er komið að okkur að standa með Davíð og rétta honum slöngvuna. Í þessu máli eigum við frekar að líta til búvörulaga en samkeppnislaga, en markmið búvörulaga er einmitt að tryggja innlenda framleiðslu landbúnaðarvara og afkomu íslenskra bænda.

Lög og túlkun þeirra

Í málum sem varða matvælaframleiðslu og landbúnað hefur sú regla almennt gilt að landbúnaðarstefna skuli hafa forgang fram yfir samkeppnisákvæði. Þennan forgang hefur Evrópusambandið m.a. staðfest.

Í umfangsmikilli umsögn SKE, sem margir leggja grundvöll á í þessu máli, er meginþunginn lagður á túlkun samkeppnislaga. Það er skiljanlegt, enda samkeppnislögin þau lög sem stofnunin byggir almennt sínar ákvarðanir og athugasemdir á. Hins vegar gilda sérlög um landbúnað hér á landi, þ.e. búvörulögin, sem eiga að njóta forgangs. Við í Framsókn höfum margsinnis lagt það til að undanþága frá samkeppnisákvæðum verði sett í búvörulög, 71. gr. A búvörulaga sem veitir slíka undanþágu, og með því verði sameining afurðastöðva gerð heimil.

Skjaldborgin

Það er hlutverk ríkisstjórnarinnar að styðja við íslenskan landbúnað, neytendur og tryggja fæðuöryggi landsins. Með lagagjöf sem þessari eflum við íslenskan kjötiðnað til muna, gerum hann samkeppnishæfari á innlendum og alþjóðlegum markaði ásamt því að gera íslenskar afurðir aðgengilegri neytendum. Það er skjaldborgin sem við eigum að slá og við höfum engan tíma að missa. Ég vil því hvetja matvæla­ráðherra áfram í að vinna í þágu íslensks landbúnaðar og koma með frumvarp til þingsins um undanþágu frá samkeppnisákvæðum fyrir afurðastöðvar í kjötiðnaði.

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtis fyrst í Fréttablaðinu 16. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Sam­mála eða ekki

Deila grein

17/02/2023

Sam­mála eða ekki

Þeir tímar sem við lifum á virðast kalla á það að skoðanir fólks þurfi allar að vera af einum meiði og helst þannig að allir geti fellt sig við þær.

En hvað ef ég er ekki sammála? Heilbrigð skoðanaskipti og rökræður um málefni samfélagsins eru það sem drífur áfram breytingar og snúast um að finna bestu mögulegu niðurstöðuna hverju sinni.

Ef allir væru sammála um eina ríkisskoðun á öllu – myndum við þá vera að sjá þær breytingar sem hafa átt sér stað í hinum ýmsu málefnum?

Tökum samtalið

Við þurfum að eiga þetta samtal og þurfum að þora að eiga þessi skoðanaskipti og rökræður, því að mínu viti er ljóst að ef allir ætla að fella sig við sömu skoðanirnar og sömu sjónarmiðin, þá kaffærum við framþróun í samfélaginu og það viljum við ekki.

Við þurfum að þora að vekja athygli á öðrum hliðum umræðunnar, þora að taka rökræðuna og þora að skiptast á skoðunum um málefnin.

Miðlum málum

Það er ekki til sá einstaklingur sem er sérfræðingur í öllu. Það hefur hingað til reynst ágætlega að miðla málum til að komast að heilbrigðri og skynsamari lausn og við ættum að vera að gera meira af því í staðinn fyrir að hugsa alltaf „mín skoðun er rétt“.

Skoðanaskipti eru góð

Skoðanaskipti og að hlusta á sjónarmið annarra eru alltaf af hinu góða. Með því að taka allar hliðar umræðunnar og mætast á miðri leið tel ég að við komumst að niðurstöðu sem er til hagsbóta fyrir heildina.

Fjarlægjum blöðkurnar frá augunum

Við megum ekki eingöngu horfa á verkefnin út frá sjónarhorni vagnhestsins – verum tilbúin að horfa til hliðar og líta á það sem tækifæri til að vera víðsýnni.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. febrúar 2023.