Categories
Greinar

Komdu inn úr kuldanum

Deila grein

17/02/2022

Komdu inn úr kuldanum

Þing­flokk­ur Fram­sókn­ar mun eins og und­an­far­in ár leggja upp með metnaðarfulla fundaröð í kjör­dæm­a­viku. Við verðum með opna fundi Fram­sókn­ar í kjör­dæm­a­viku um land allt. Það er okk­ur mik­il­vægt að ná að nálg­ast og hlusta á radd­ir kjós­enda, ekki aðeins á fjög­urra ára fresti, held­ur með reglu­bundn­um hætti. Þannig leggj­um við okk­ar af mörk­um til að hlusta á fólkið okk­ar og skapa okk­ur öll­um sam­fé­lag sem við erum stolt af, tryggja fólki góð lífs­kjör og treysta bú­setu í land­inu. Það er og verður meg­in­verk­efni okk­ar í þing­flokki Fram­sókn­ar nú sem endra­nær.

Í kosn­inga­bar­átt­unni síðasta haust fund­um við vel að fólk vill sjá alþing­is­menn sinna brýn­um hags­mun­um sam­fé­lags­ins. Kjós­end­ur vildu heyra að við ynn­um að lausn­um, um­bót­um og jafn­vel rót­tæk­um kerf­is­breyt­ing­um. Þing­flokk­ur Fram­sókn­ar hef­ur sýnt fram á að hann er hóp­ur fólks er hef­ur fólk í fyr­ir­rúmi, við fjár­fest­um í fólki og mun­um halda því áfram. Við fór­um m.a. í rót­tæk­ar kerf­is­breyt­ing­ar á mál­efn­um barna. Slík­ar breyt­ing­ar og fleiri til hafa og munu skipta fólk máli, um land allt.

Í grunn­stef­inu Fram­sókn­ar seg­ir að við aðhyll­umst frjáls­lynda hug­mynda­fræði og að far­sæl­ast sé að ná fram niður­stöðu með sam­vinnu ólíkra afla og hags­muna sem byggð er á hóf­semi og heiðarleika. Það er aldrei mik­il­væg­ara en nú að hlusta vel á ólík­ar radd­ir og leiða mál til lykta með sam­vinnu. Við tryggj­um öfl­ugri og sterk­ari þing­flokk Fram­sókn­ar með því að hlusta á þarf­ir og vænt­ing­ar fólks á brýn­um hags­muna­mál­um.

Við erum nefni­lega rétt að byrja!

Okk­ur alþing­is­mönn­um er kjör­dæm­a­vika sér­stak­lega mik­il­væg. Okk­ur gefst tími og ráðrúm til að sinna hags­mun­um kjör­dæm­anna, það þarf sterka full­trúa með skýra sýn til að styðja og styrkja það val fólks að halda byggð í land­inu. Þing­flokk­ur Fram­sókn­ar vill áfram vera for­ystu­afl í brýn­um hags­mun­um lands­byggðar. Við vilj­um tryggja áfram að sam­göng­ur, mennt­un, menn­ing og síðast en ekki síst fjöl­breytt tæki­færi á at­vinnu­markaði séu fyr­ir hendi.

Ég vil nefna sér­stak­lega gríðarlega mik­il­vægt tæki­færi er við upp­götvuðum í heims­far­aldr­in­um; að fólk gat unnið heim­an frá sér, og þetta eig­um við að nýta og skapa já­kvæðan hvata til að fram­kvæma í frek­ari mæli. Nýta okk­ur þekk­ing­una og tækn­ina og skapa um leið sterk­ari byggðir. Fram­sókn er stjórn­mála­aflið til að standa við orð sín og gerðir.

Skyn­sem­in ligg­ur á miðjunni.

Ingibjörg Isaksen, formaður þing­flokks Fram­sókn­ar.

ingi­bjorg.isak­sen@alt­hingi.is

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. febrúar 2022.

Categories
Greinar

Muggur, myndlistin og menningararfurinn

Deila grein

11/02/2022

Muggur, myndlistin og menningararfurinn

Und­an­farna mánuði hef­ur sýn­ing­in MUGG­UR – Guðmund­ur Thor­steins­son staðið yfir í Lista­safni Íslands. Guðmund­ur (1891-1924), eða Mugg­ur, er einn merk­asti og af­kasta­mesti mynd­listamaður þjóðar­inn­ar – og í raun okk­ar fyrsti fjöll­istamaður. Ung­ur að árum flutt­ist hann til Kaup­manna­hafn­ar árið 1903 ásamt fjöl­skyldu sinni þar sem hann nam mynd­list við Kon­ung­lega lista­há­skól­ann á ár­un­um 1911-1915. Þrátt fyr­ir stutta ævi skildi Mugg­ur eft­ir sig nokkuð fjöl­breytt safn verka sem bera þess glöggt merki að hæfi­leik­um hans voru fá tak­mörk sett eins og rakið er í veg­legri bók sem Lista­safn Íslands gaf út hon­um til heiðurs árið 2021.

Mugg­ur, ásamt fleiri merk­um mynd­list­ar­mönn­um þjóðar­inn­ar, hef­ur und­ir­byggt sterk­an grunn fyr­ir menn­ing­ar­líf sam­tím­ans. Á Íslandi rík­ir kraft­mik­il og lif­andi mynd­list­ar­menn­ing og mynd­list­ar­starf­semi. Mynd­list leik­ur stórt hlut­verk í sam­fé­lag­inu. Hún er órjúf­an­leg­ur hluti af mennt­un, þroska og dag­legu lífi fólks um allt land. Mynd­listar­fólk er metið að verðleik­um og áhersla er á kennslu og nám í mynd­list og lista­sögu á öll­um skóla­stig­um. Mynd­list á vax­andi sam­fé­lags­legu hlut­verki að gegna og stuðlar að gagn­rýnni og skap­andi hugs­un og umræðu.

Fram und­an er til­efni til að beina sjón­um að frek­ari tæki­fær­um til vaxt­ar. Sköp­un ís­lenska lista­manna fang­ar at­hygli fólks hér á landi sem og er­lend­is. Árang­ur­inn birt­ist í fleiri tæki­fær­um ís­lenskra lista­manna til þátt­töku í kraft­mik­illi safn­a­starf­semi og vönduðum sýn­ing­um um allt land. Einnig end­ur­spegl­ast ár­ang­ur­inn í þátt­töku á virt­um alþjóðleg­um viðburðum og sýn­ing­um. Eft­ir­spurn eft­ir kaup­um á ís­lensk­um lista­verk­um er um­tals­verð.

Mynd­list verður eitt af áherslu­mál­um mín­um í ný­stofnuðu menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyti og hef ég boðað að ný mynd­list­ar­stefna verði kynnt á fyrstu 100 starfs­dög­um ráðuneyt­is­ins og að inn­leiðing henn­ar verði í for­grunni á næstu árum.

Stefn­an mun kalla á fjöl­breytt­an stuðning við list­sköp­un, mennt­un, mynd- og miðlalæsi sem styðji við kraft­mikla mynd­list­ar­menn­ingu og vit­und­ar­vakn­ingu á meðal al­menn­ings. All­ar for­send­ur eru til þess að efla mynd­list sem enn sýni­legri og öfl­ugri at­vinnu­grein sem að varp­ar já­kvæðu ljósi á landið okk­ar.

Ég hvet alla áhuga­sama til að heim­sækja Lista­safn Íslands um helg­ina, sem verður síðasta sýn­inga­helgi „MUGG­UR – Guðmund­ur Thor­steins­son“, og virða fyr­ir sér fjöl­breytt fram­lag hans til ís­lensks menn­ing­ar­arfs.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 11. febrúar 2022

Categories
Greinar

Raun­hæfar að­gerðir til handa heimilum

Deila grein

10/02/2022

Raun­hæfar að­gerðir til handa heimilum

Vaxandi verðbólga veldur eðlilega ákveðnum áhyggjum og það mun skipta máli hvernig brugðist verður við þeirri stöðu. Það er því rétt að fara yfir stöðuna eins og hún er. Það er ljóst að kaupmáttur launa hefur ekki verið hærri í mjög langan tíma. Sú staða er tilkomin vegna þess að efnahagsstjórn landsins hefur verið traust á undanförnum árum sem dregur að einhverju marki úr nauðsyn þess að grípa þurfi til sértækra aðgerða. Af því sögðu er rétt að taka fram að við í Framsókn munum áfram standa vörð um hagsmuni tekjulægstu hópana og þá sem finna munu hvað mest fyrir þessu tímabundna ástandi og vaxtahækkun Seðlabankans.

Húsnæðisverð

Hér á Íslandi er það húsnæðisverð sem knýr verðbólguna áfram. Staðan er einfaldlega tilkomin vegna íbúðaskorts, m.a. vegna þéttingarstefnu borgarinnar, sem hefur leitt til talsverðar hækkunar á húsnæðisverði. Það er verið að byggja dýrt húsnæði á dýrum svæðum í stað þess að mynda ný og spennandi hverfi og auka framboð lóða. Afleiðingarnar eru augljósar og áberandi; hátt húsnæðisverð. Nú á markmið næstu mánaða að vera að tryggja viðunandi framboð lóða ásamt því að auka áherslu á byggingu hagkvæms húsnæðis. Í því sambandi liggur beinast við að ráðast tafarlaust í endurskoðun á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Að því sögðu, þá fagna ég nýju innviðaráðuneyti sem er mjög gott skref, tímabær þróun og mikilvægt innlegg í það verkefni að fá heildarsýn á skipulags- og húsnæðismálin almennt. Ég hef trú á því að þetta muni skila okkur því að allir ferlar verði betrumbættir og að öll skipulagsvinnan verði skilvirkari allt frá upphafi þar til hægt er að hefja framkvæmdir af krafti. Með þessu munum við ná ofangreindum markmiðum um að byggja meira og hraðar af góðu og hagkvæmu húsnæði.

Húsnæðisliðurinn í vísitölu neysluverðs

Varðandi umræðu um stuðning til tekjulægstu hópa samfélagsins vil ég minnast á umræður milli mín og fjármálaráðherra á Alþingi í vikunni. Þar spurðist ég fyrir um húsnæðisliðinn og hvort til stæði að taka húsnæðisliðinn úr vísitölu neysluverðs, jafnvel tímabundið á meðan við erum að komast yfir erfiðasta hjallann. Ráðherra fór vel yfir stöðuna og þá vinnu sem hófst á síðasta kjörtímabili varðandi húsnæðisliðinn en var verið sett á bið ef svo má segja. Þeirri vinnu er því ekki lokið.

Að mínu mati væri afnám húsnæðisliðsins, jafnvel tímabundið, vænlegt til árangurs í núverandi stöðu og myndi styðja best við þau heimili sem nú standa frammi fyrir talsverðri hækkun á lánum. Í dag mælist verðbólgan 5,7%, en án húsnæðisliðar stæði hún í 3,7%. Til lengri tíma gæfi það líklega réttari mynd að horfa til greiddrar húsaleigu, sem hefur verið stöðugri og ekki elt þær hækkanir að fullu leyti sem verið hafa á fasteignamarkaði undanfarið. Við þetta má bæta, og ég tel það bæði rétt og sanngjarnt, að nýta arðgreiðslur bankanna til að létta undir með heimilum og fyrirtækjum landsins sem munu finna fyrir hærra vaxtabyrði eftir vaxtahækkun Seðlabankans. Þetta hefur viðskiptaráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir, nú þegar haft orð á.

Varasamar vaxtahækkanir

Að lokum er mikilvægt að horfa til stýrivaxta. Þeir eru hagstjórnartæki Seðlabankans þegar hann telur nauðsyn vera á að grípa inn í sveiflur. Verðbólgan í dag er kostnaðarverðbólga. Því tel ég að SÍ eigi ekki að auka taumhald peningastefnunnar of hratt og mikilvægara sé að fara hægt í vaxtahækkanir og sjá hvort sú kostnaðarverðbólga sem við sjáum í dag sé ekki tímabundin og muni jafna sig um leið og við komumst í það horf sem við þekktum fyrir faraldurinn.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. febrúar 2022.

Categories
Greinar Sveitarstjórnarfólk

Hafnar­fjörður til fram­tíðar

Deila grein

07/02/2022

Hafnar­fjörður til fram­tíðar

Markvisst hefur verið unnið að því á kjörtímabilinu að halda álögum á íbúum í lágmarki og sérstaklega hefur verið horft til barnafjölskyldna með það að markmiði að létta þeim róðurinn. Það hefur tekist og er óumdeilt. Í upphafi kjörtímabils var systkinaafsláttur á leikskólagjöldum hækkaður verulega og nýjum systkinaafslætti var komið á skólamáltíðir grunnskólabarna. Þar viljum við í Framsókn stíga enn frekari skref á næsta kjörtímabili og halda áfram á þeirri vegferð að lækka kostnað fjölskyldufólks með skynsamlegum hætti og um leið tryggja og treysta þjónustu við íbúa hér í bæ, unga sem aldna.

Kröftug uppbygging íbúðarhúsnæðis er hafin

Kröftug uppbygging íbúðarhúsnæðis er nú hafin víðs vegar um bæinn. Frá upphafi kjörtímabilsins hefur verið mikil uppbygging í Skarðshlíð og hefur kraftur uppbyggingarinnar aukist umtalsvert á undanförnu einu og hálfu ári. Íbúðir í Hamranesi, sem er okkar nýjasta byggingarland, eru nú byrjaðar að rísa en þar verða um 1700 íbúðir þegar hverfið verður að fullu byggt með öllum nauðsynlegum innviðum sem fylgja uppbyggingu nýrra hverfa.

Samhliða uppbyggingu á nýjum byggingarsvæðum hefur þéttingu byggðar miðað vel áfram. Þar má nefna að framkvæmdir eru hafnar á Dvergsreitnum svokallaða, Hrauntungu, Stekkjarbergi og við Hjallabraut. Hús eru eru byrjuð að rísa á Dvergsreitnum, Hrauntungu og Stekkjarbergi og þá er jarðvegsvinna í fullum gangi við Hjallabraut. Lóðarhafar áætla að framkvæmdir hefjist nú á vormánuðum í Hraunum vestur-Gjótur, en þar liggur fyrir samþykkt deiliskipulag fyrir 490 íbúðir auk verslunar og þjónustu. Deiliskipulag fyrir Ásland 4 hefur verið afgreitt úr skipulags- og byggingarráði, en þar má gera ráð fyrir um 500 íbúðum í heildina; mest sérbýli í bland við lítil fjölbýlishús.

Tækniskólinn, byggð við höfnina og miðbærinn

Það er ánægjulegt að segja frá því að mikil ásókn hefur verið í atvinnuhúsalóðir sem rokið hafa út á kjörtímabilinu. Þá hafa jafnframt stór og öflug fyrirtæki ákveðið að reisa höfuðstöðvar sínar í bæjarfélaginu, og má þar nefna fyrirtæki eins og Icelandair sem vinnur nú að því að flytja alla sína starfsemi til Hafnafjarðar. Það er ekkert launungarmál að slík fyrirtæki skila miklum tekjum til bæjarfélagsins, bæði beinum og óbeinum.

Nýr Tækniskóli mun rísa á Suðurhöfninni og ég vil leyfa mér að segja það hreint út að sá áfangi og sú ákvörðun sé ein sú stærsta á kjörtímabilinu. Hér er um að ræða gríðarstóra framkvæmd sem mun hafa jákvæð áhrif á bæjarfélagið allt; styrkja og styðja við miðbæinn okkar og þá starfsemi sem fyrir er. Framkvæmdin kemur einnig til með að efla og styðja enn frekar við þá miklu uppbyggingu sem fram undan er á Óseyrarsvæðinu og við Flensborgarhöfn.

Verkefni sem þessi eru af þeirri stærðargráðu að þau klárast ekki á einum degi, eða jafnvel á einu kjörtímabili. Hér er um að ræða samvinnuverkefni ríkis, sveitarfélags og einkaaðila. Grunnurinn hefur hins vegar verið lagður og nú þarf að halda áfram veginn, vera með augun á boltanum eins og sagt er og fylgja málum vel eftir. Þetta er spennandi verkefni fyrir Hafnarfjörð og íbúa bæjarfélagsins.

Miðbærinn okkar mun einnig taka jákvæðum breytingum á næstu árum. Þar má nefna tvær samþykktar deiliskipulagstillögur, annars vegar stækkun Fjarðar og hins vegar reit 1 sem afmarkast af Strandgötu, Reykjavíkurvegi, Austurgötu og Linnetsstíg. Tillögurnar gera það að verkum að verslunar- og veitingarrýmum mun fjölga umtalsvert í miðbænum á næstu árum, sem mun bæta við þá líflegu flóru verslana og veitingastaða sem fyrir eru í hjarta Hafnarfjarðar. Auk þess gera tillögurnar bæði ráð fyrir skynsamlegri blöndu hótelíbúða og nýrra íbúða. Allt ofangreint mun styðja við það sem fyrir er og gera miðbæ Hafnarfjarðar að enn eftirsóknarverðari stað til að sækja og reka verslun og þjónustu til framtíðar.

Snyrtilegur bær – átaksverkefni

Í upphafi síðasta sumars var samþykkt að bæta 340 milljónum króna í framkvæmdir í bæjarfélaginu. Þar var sérstaklega horft til uppsafnaðar fjárfestingaþarfar á endurnýjun gangstétta í eldri hverfum bæjarins auk nauðsynlegs frágangs í þeim hverfum sem nýrri eru. Við sjáum það nú að þessum fjármunum var vel varið og átakið vel heppnað en merki þess sjást um allan bæ. Snyrtilegur og aðgengilegur bær fyrir alla á að vera okkar helsta keppikefli. Við þurfum að horfa heildstætt á þessi mál og tryggja að bærinn sé snyrtilegur og vel þrifinn; götur sópaðar, rusl tekið, grasblettir slegnir og götur mokaðar. Snyrtilegur og aðgengilegur bær er öruggur bær. Það er Hafnarfjörður og hann verður það áfram.

Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar og formaður bæjarráðs í Hafnarfirði.

Greinin birtist á visir.is 5. febrúar 2022

Categories
Greinar

Sam­fylkingin á villi­götum

Deila grein

04/02/2022

Sam­fylkingin á villi­götum

Verðtrygging er mannanna verk, ekki náttúrleg þótt hún virðist haga sér þannig. Þegar henni var komið á hér á landi var um neyðarástand um að ræða. Það átti að tryggja sparifé landsmanna, lánsfé og laun. Vextir voru ekki frjálsir og vandinn óx, en núna erum við á öðrum stað á öðrum tíma.

Því hefur verið gert hérlendum stjórnvöldum skóna að verðbólguskotið núna sé þeim að kenna. Það heyrist talað um óstjórn og ráðaleysi. Samfylkingin rýkur í fjölmiðla með bundið fyrir augun án þess að líta til hvað sé að gerast í öðrum löndum í kringum okkur þar sem verðbólgan rís jafnvel hærra en hérlendis. Hér er um að ræða kostnaðarverðbólga því verðlag og heildareftirspurn hefur aukist umfram þjóðarframleiðslu. Það má gera ráð fyrir að hrávara til framleiðslu haldi áfram að hækka tímabundið bæði til matvælaframleiðslu og í iðnaði, þetta er að gerast út um allan heim. Það er þó von til að síðar á árinu lægi öldur og jafnvægi aukist.

Endurmeta forsendur

Nei, verðtrygging er ekki óklífanlegt fjall. Við getum nefnilega haft áhrif á gang mála. Það er nauðsynlegt að endurmeta forsendur og útreikninga verðbólgu og verðtryggingar. Framsókn hefur ítrekað kallað eftir því að stjórnvöld beiti sér fyrir því að vísitala neysluverðs til verðtryggingar verði hér eftir reiknuð án húsnæðisliðar. Fasteignaverð er liður í neysluvísitölu hér á landi og af þeim sökum hafa stýrivextir og höfuðstólar verðtryggðra lána verið hærri en í nágrannalöndum þar sem stuðst er við samræmda vísitölu neysluverðs.

Húsnæðismarkaðurinn óútreiknanleigur

Sá darraðadans sem hefur átt sér stað á húsnæðismarkaði landsmanna hefur skapað óyndi verðbólgu og hún vex vegna aukinnar eftirspurnar. Þetta hófst á höfuðborgarsvæðinu þar sem eftirspurn eftir húsnæði er umfram framboðinu. Höfuðborgin hefur alls ekki staðið sig undanfarin áratug í framboði á lóðum heldur einblínt á þéttingu byggðar og því fer sem fer. Vaxtasvæði í kringum höfuðborgina hefur staðið sig betur með að bregðast við eftirspurninni. Nágrannalönd okkar nota aðrar forsendur við útreikninga verðbólgu og þar sem húsnæðismarkaðurinn er lítill og auðhreyfður verðum við í alvöru að skoða hvort ekki sé komin tími til að horfa fram hjá honum.

Nú þegar vorar verðum við að líta til sólar. Stjórnvöld hafa borið gæfu til að leggja fram efnahagslegar mótvægisaðgerðir til að minnka þau efnahagslegu áhrif sem heimsfaraldurinn hefur hrundið af stað. Mótvægisaðgerðir eru komnar á þriðja tug. Nú þurfum við enn frekar að horfa til fjölskyldna í landinu.

Afnemum húsnæðisliðinn úr vísitölunni.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. febrúar 2022.

Categories
Greinar

Fjölbreytni í sveitarstjórnum

Deila grein

02/02/2022

Fjölbreytni í sveitarstjórnum

Þann 14. maí nk. verður kosið til sveitarstjórna í landinu. Í dag eru nærri 70 sveitarfélög í landinu, og þau eru grundvallareining í stjórnskipan landsins. Stjórnsýsla þeirra er mikilvæg í lýðræðislegri ákvörðun um grunnþjónustu í nærsamfélagi íbúa landsins. Það er því gríðarlega mikilvægt hverju sveitarfélagi að sveitastjórnin endurspegli sem best íbúasamsetningu þess.

Í núgildandi byggðaáætlun kemur fram mikilvægi þess að auka þátttöku kvenna í sveitarstjórnum og að það þurfi að hvetja konur til þátttöku. Í aðgerðaráætlun með byggðaáætlun er lögð áhersla á þennan þátt með því að fara í fræðslu- og auglýsingaherferð með þetta að markmiði.

Hver er staðan?

Eftir síðustu sveitastjórnarkosningar var niðurstaðan ásættanleg því að 47% sveitarstjórnarfólks voru konur og hefur það aldrei verið hærra. Það er brýnt að viðhalda þeirri skiptingu í komandi kosningum.

Listar endurspegli fjölbreytni

Kvenréttindafélag Íslands, Innviðaráðuneytið, Fjölmenningasetrið og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa hrint á stað framtaki sem kallast Játak. Játak vekur athygli íbúa sveitarfélaga og þeim sem fara í forsvari til þess að huga að fjölbreytni og að standa vörð um rétt allra kynja og að komandi listar til framboðs í komandi sveitarfélögum spanni litróf mannlífsins í viðkomandi sveitarfélagi. Einnig þarf að huga að dreifingu fulltrúa í fjölkjarnasveitarfélögum.

Við erum svo heppin að mannlífið er fjölbreytt um allt land. Til þess að nýta kraftinn og sköpunargleðina sem felst í því þarf að tryggja það að þessi atriði skila sér að ákvarðanatöku innan stjórnsýslu sveitarfélagsins. Ef þess er ekki gætt fer fljótt að gæta togstreitu mismunandi skoðana og hætt er á að samkeppnisstaða samfélagsins verði ekki eins kröftug og ella. Það er jú vilji allra sveitarfélaga að fólk vilji og geti þrifist í samfélaginu.

Af hverju að taka þátt?

Viltu hafa áhrif á samfélagið þitt? Hefur þú hugmyndir og sýn um uppbyggingu og tækifæri sveitafélagsins? Sveitarstjórnir og nefndir þess eru einmitt vettvangurinn til þess. Það fylgir því mikil ábyrgð að taka þátt í stjórnmálum, en það getur líka verið ótrúlega gaman.

Ef þú hefur áhuga þá hvetjum við þig til að íhuga framboð.

Ef þú situr í uppstillinganefnd eða hyggst kjósa í prófkjöri þá hvetjum við þig til að huga að fjölbreytni á lista.

Halla Signý Kristjánsdóttir og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, eru þingmenn Framsóknar í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist í Bæjarins besta 2. febrúar 2022.

Categories
Greinar

Tími tækifæranna

Deila grein

02/02/2022

Tími tækifæranna

Nýtt menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyti (MVF) tók í gær form­lega til starfa í sam­ræmi við ný­samþykkta þings­álykt­un­ar­til­lögu um skip­an Stjórn­ar­ráðsins. Breyt­ing­ar sem í henni er að finna eru rót­tæk­ar en tíma­bær­ar og eru til þess falln­ar að fella ósýni­lega múra stofn­ana­menn­ing­ar og stuðla að sam­vinnu, sam­ráði og sam­hæf­ingu inn­an Stjórn­ar­ráðsins. Und­ir hið nýja ráðuneyti falla mál­efni menn­ing­ar, ferðaþjón­ustu og viðskipta og er hlut­verk þess að skapa þess­um mála­flokk­um um­hverfi sem stuðlar að vel­sæld og verðmæta­sköp­un fyr­ir sam­fé­lagið.

Því hlut­verki mun ráðuneytið sinna með því að auka skil­virkni, bæta þjón­ustu og nýta sam­legð mála­flokk­anna með öfl­ugu sam­starfi með áherslu á mik­il­vægi skap­andi greina og sam­keppn­is­hæfni. Lögð verður áhersla á vandaða stefnu­mót­un, virka sam­vinnu og upp­lýs­inga­miðlun ásamt því að auka traust á stofn­un­um og verk­ferl­um stjórn­sýsl­unn­ar og tryggja jafn­ræði og sjálf­bærni. Inn­an hins nýja ráðuneyt­is verður auk­in geta til hag­fræðilegra grein­inga til að styðja mið mark­viss­ari stefnu­mót­un í mála­flokk­um þess.

Það eru mörg sókn­ar­færi í sam­legð þess­ara þriggja stoða sem menn­ing, ferðaþjón­usta og viðskipti eru í ís­lensku sam­fé­lagi og mark­miðið er að há­marka þá sam­legð á sama tíma og við stönd­um vörð um kjarn­a­starf­semi og sér­stöðu grein­anna. Ferðaþjón­ust­an og menn­ing­ar­lífið njóta gagn­kvæms ávinn­ings af vel­gengni og hags­mun­ir þeirra eru samofn­ir á ýms­um sviðum. Þannig hafa ís­lensk­ir menn­ing­ar­viðburðir á borð við tón­list­ar- og kvik­mynda­hátíðir verið aðdrátt­ar­afl ferðamanna um ára­bil. Að sama skapi njóta skap­andi grein­ar góðs af stærri markaði sem fylg­ir fjölg­un ferðamanna og auk­inni eft­ir­spurn eft­ir ís­lenskri list og menn­ingu.

Til grund­vall­ar aðgerðum og áhersl­um nýs ráðuneyt­is verða mæli­kv­arðar sem ná utan um efna­hags­lega, sam­fé­lags­lega og hug­læga þætti sem ganga þvert á mála­flokka okk­ar. Mér finnst spenn­andi að hugsa til þess­ara mæli­kv­arða sem einskon­ar sköp­un­ar­vísi­tölu en það er vísi­tala sem við kepp­um að því að hækka og höf­um alla burði til. Um­svif þeirra at­vinnu­greina sem heyra und­ir nýtt menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyti eru nú þegar mik­il en fram­lag þeirra til vergr­ar lands­fram­leiðslu er rúm­lega 40%. Við ætl­um okk­ur að gera enn bet­ur. Okk­ar stærstu mark­mið eru að árið 2030 muni út­gjöld ferðamanna hér á landi nema 700 millj­örðum króna og að út­flutn­ing­verðmæti menn­ing­ar verði 20 millj­arðar. Að auki vilj­um við koma Íslandi í hóp 15 efstu landa hvað viðkem­ur viðskiptaum­hverfi og sam­keppn­is­hæfni.

Það er því til mik­ils að vinna fyr­ir þjóðarbúið ef rétt er haldið á mál­um. Tími tæki­fær­anna er runn­inn upp og með samþætt­ingu þess­ara mála­flokka í nýju ráðuneyti menn­ing­ar- og viðskipta­mála eru skapaðar trygg­ari for­send­ur til að grípa þau og stuðla þannig að sókn í þágu sam­fé­lags­ins alls með til­heyr­andi vexti og vel­sæld til framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menn­ing­ar­málaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. febrúar 2022.

Categories
Greinar

Staðið með menningu

Deila grein

01/02/2022

Staðið með menningu

Með hækkandi sól og skipulögðum skrefum til afléttingar sóttvarnaráðstafana sjáum við nú loks til lands í faraldrinum sem herjað hefur á heim allan í rúm 2 ár. Listamenn og menningarhús hafa svo sannarlega fundið fyrir högginu sem veiran hefur leitt af sér. Strax í upphafi faraldursins einsettu stjórnarflokkarnir sér að beita ríkisfjármálunum af fullum þunga til þess að tryggja öfluga viðspyrnu samfélagsins og það hafa mörg sveitarfélög einnig gert. Sérstök áhersla var lögð á listir og menningu enda er mikilvægi þeirra óumdeilt fyrir samfélagið.

Uppskeran er handan við hornið

Það má einnig reikna fastlega með því að framlag lista og menningar til andlegrar og efnahagslegrar viðspyrnu þjóðarinnar verði þýðingarmikið. Mannsandinn nærist meðal annars á menningu, að skemmta sér í góðra vina hópi, sækja tónleika, leiksýningar eða aðra menningarviðburði. Það styttist óðfluga í að samfélagið lifni við eins og við þekktum það fyrir heimsfaraldur. Uppskeran er handan við hornið og vel undirbyggð viðspyrnan fer að birtast okkur með tilheyrandi ánægju. Við horfum því björtum augum fram á veginn, sannfærð um að íslenskt menningarlíf fari að blómstra sem aldrei fyrr.

Nýjustu viðspyrnuaðgerðirnar, og væntanlega þær síðustu, undirstrika það. Með þeim var 450 milljónum króna varið til tónlistar og sviðslista sem hafa farið sérlega illa út úr heimsfaraldri með allt að 87% tekjufalli. Með aðgerðunum er okkar frábæru listamönnum skapað aukið rými til frumsköpunar, framleiðslu og viðburðahalds ásamt því að styðja þá til sóknar á erlenda markaði með listsköpun sína. Íslensk list og menning á mikið erindi á erlendri grundu. Það höfum við ítrekað séð á undanförnum árum, en íslenskir listamenn hafa margir gert það gott á erlendum mörkuðum. Kynningarverðmæti skapandi greina fyrir land og þjóð er óumdeilt og er mikil­væg­ur þátt­ur í alþjóðlegri markaðssetn­ingu Íslands sem áfangastaðar fyrir ferðamenn og skapandi fólk. Við viljum halda áfram á þeirri braut.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar – og viðskiptaráðherra

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. febrúar 2022.

Categories
Greinar

Endómetríósa

Deila grein

01/02/2022

Endómetríósa

Fram að þessu hef­ur lít­il at­hygli beinst að þeim sjúk­dóm­um sem leggj­ast sér­stak­lega á kon­ur. Þær hafa mætt höfn­un þegar þær leita til heil­brigðis­kerf­is­ins og gengið gegn­um erfitt grein­ing­ar­ferli, en skort­ur er á al­mennri fræðslu um slíka sjúk­dóma.

Einn þeirra sjúk­dóma sem hrjá kon­ur og hef­ur fengið litla at­hygli hingað til, er en­dómetríósa. En­dómetríósa er krón­ísk­ur, fjöl­kerfa sjúk­dóm­ur sem get­ur verið þung­bær og afar sárs­auka­full­ur. Sjúk­dóm­ur­inn leggst á ein­stak­linga sem fæðast í kven­lík­ama og er gjarn­an kallaður „endó“ í dag­legu tali, en einnig er not­ast við hug­takið legs­límuflakk. Af þeim sem hafa sjúk­dóm­inn eru um 60% með ein­kenni og um 20% með mjög sár ein­kenni. Sjúk­dóm­ur­inn ein­kenn­ist meðal ann­ars af mikl­um sárs­auka við blæðing­ar, sárs­auka við egg­los, verkj­um í kviðar­holi á milli blæðinga, verkj­um við sam­far­ir, þvag­lát og hægðalos­un. Auk þess ger­ir sjúk­dóm­ur­inn það erfitt að verða barns­haf­andi og leiðir til erfiðleika á meðgöngu og við fæðingu. Á 20 ára tíma­bili greind­ust um 1.400 kon­ur með sjúk­dóm­inn á Íslandi. Því má reikna með að á hverj­um tíma eigi hundruð ef ekki þúsund­ir kvenna í vanda vegna sjúk­dóms­ins hér á landi, en hjá mörg­um þeirra grein­ist sjúk­dóm­ur­inn seint og ekki fyrr en óaft­ur­kræf­ar vefja­skemmd­ir hafa orðið. Í gegn­um tíðina hafa verið uppi rang­hug­mynd­ir um en­dómetríósu og upp­lýs­inga­gjöf vill­andi, enda er ekki auðvelt að út­skýra sjúk­dóms­mynd­ina. Það hef­ur leitt til þess að minna er gert úr hon­um en ella. Ein rang­hug­mynd­in er að verk­ir séu eðli­leg­ur hluti af lífi kon­unn­ar eða að tíðaverk­ir séu fyrst og fremst sál­ræn­ir.

Jafn­rétti í heilsu og heil­brigðisþjón­ustu

Nú­ver­andi stjórn­völd hafa lagt áherslu á jafn­rétti lands­manna til heil­brigðisþjón­ustu eins og fram kem­ur í heil­brigðis­stefnu sem samþykkt var á Alþingi á vor­dög­um 2019. Það þarf líka að huga að heil­brigðisþjón­ustu út frá kynj­um. Í skýrslu sem dr. Fann­borg Salome Steinþórs­dótt­ir, nýdoktor í kynja­fræði við Há­skóla Íslands, tók sam­an fyr­ir heil­brigðisráðherra á liðnu ári um heilsu­far og heil­brigðisþjón­ustu út frá kynja- og jafn­rétt­is­sjón­ar­miðum kem­ur fram að kon­ur lifi mun fleiri ár við slæma heilsu en karl­ar þótt meðalævi þeirra sé lengri. Það seg­ir kannski til um að nokkuð vanti upp á að kon­ur hafi haft nægj­an­lega aðkomu að heil­brigðisþjón­ustu.

Beina þarf at­hygli að heilsu kvenna

Fyr­ir tveim­ur árum fékk ég samþykkta þings­álykt­un mína um að fela heil­brigðisráðherra að beita sér fyr­ir fræðslu til al­menn­ings um vefjagigt og láta fara fram end­ur­skoðun á skip­an sér­hæfðrar end­ur­hæf­ing­arþjón­ustu sjúk­linga. Vorið 2020 kom út end­ur­hæf­ing­ar­stefna sem fel­ur í sér að gera sam­an­tekt um end­ur­hæf­ing­arþjón­ustu sem til staðar er í land­inu og benda á leiðir til úr­bóta í þeim efn­um. Í kjöl­farið var unn­in aðgerðaáætl­un um end­ur­hæf­ingu til fimm ára þar sem m.a. er lögð áhersla á end­ur­hæf­ingu sjúk­linga með vefjagigt. Í maí 2021 komu fram stöðuskýrsla og til­lög­ur starfs­hóps heil­brigðisráðherra um end­ur­hæf­ingu fyr­ir fólk með lang­vinna verki. Í skýrsl­unni eru tekn­ar sam­an tölu­leg­ar upp­lýs­ing­ar um fjölda þess fólks og þær meðferðir sem standa til boða kortlagðar. Auk þess eru gerðar til­lög­ur að úr­bót­um og auk­inni þjón­ustu við ein­stak­linga með lang­vinna verki. Ekk­ert er talað um en­dómetríósu í þess­ari skýrslu þó sjúk­dóm­ur­inn sé or­sök lang­vinnra verkja fjölda kvenna hér á landi. Í loka­orðum skýrsl­unn­ar er tekið fram að hér á landi skorti veru­lega upp á hvert skuli vísa ein­stak­ling­um þegar meðferð hef­ur ekki gagn­ast og talað um að tölu­vert vanti upp á að heil­brigðis­starfs­fólk fái fræðslu og þjálf­un í meðferð lang­vinnra verkja.

Auka þarf fræðslu og þjón­ustu

Ég hef lagt fram þings­álykt­un­ar­til­lögu um að fela heil­brigðisráðherra að beita sér fyr­ir að efla fræðslu meðal al­menn­ings og starfs­fólks heil­brigðis­stofn­ana. Í álykt­un­inni er ráðherra falið að láta fara fram end­ur­skoðun á heild­ar­skipu­lagi þjón­ust­unn­ar með það að mark­miði að stytta grein­ing­ar­ferlið og bjóða upp á heild­ræna meðferð, en í því felst m.a. að skoða verk­ferla, niður­greiðslu lyfja og fjár­mögn­un til að tryggja mönn­un og aðstöðu til að sinna ein­stak­ling­um með en­dómetríósu með sem bestu móti.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. janúar 2022.

Categories
Greinar

Orkuskortur – sorgleg staða sem varðar okkur öll

Deila grein

31/01/2022

Orkuskortur – sorgleg staða sem varðar okkur öll

Und­an­farn­ar vik­ur höf­um við fengið frétt­ir af yf­ir­vof­andi orku­skorti hér á landi. Í des­em­ber fengu fiski­mjöls­verk­smiðjur þá til­kynn­ingu frá Lands­virkj­un að ekki væri hægt að veita þeim hreina raf­orku í upp­hafi loðnu­vertíðar. Þær neyðast til að skipta yfir í óákjós­an­lega orku­gjafa, eins og olíu, með til­heyr­andi kostnaði og um­hverf­isáhrif­um. Áætlað er að um 20 millj­ón­um lítra af olíu verði brennt á yf­ir­stand­andi vertíð.

Neyðarkall

Á þriðju­dag­inn í síðustu viku sendu um­hverf­is- og auðlindaráðuneytið og Orku­stofn­un neyðarkall til ís­lenskra raf­orku­fram­leiðenda. Óskað var eft­ir auk­inni orku­fram­leiðslu um­fram þær skuld­bind­ing­ar sem áður höfðu verið gerðar. Of­an­greint neyðarkall varðar hús­hit­un á köld­um svæðum því vegna raf­orku­skorts búa t.d Orku­bú Vest­fjarða og RARIK sig und­ir að brenna millj­ón­um lítra af olíu á næstu mánuðum til þess að tryggja hús­hit­un á Vest­fjörðum og á Seyðis­firði. Þessu fylg­ir tölu­verður kostnaður fyr­ir íbúa og fyr­ir­tæki þess­ara svæða. Og nú ber­ast fregn­ir af því að til standi að skerða raf­orku til ferj­unn­ar Herjólfs og mun ol­íu­notk­un skips­ins þá marg­fald­ast.

Þetta er sorg­leg og ótrú­leg staða sem við eig­um ekki að þurfa að búa við sem ís­lensk þjóð með all­ar okk­ar end­ur­nýj­an­legu orku­auðlind­ir. Þetta get­ur ekki verið svona til fram­búðar. Þetta er ástand sem við vilj­um ekki búa við, svo ein­falt er það.

Ástandið er al­var­legt

Staðan í orku­mál­um er al­var­leg og kom meg­inþorra lands­manna lík­leg­ast veru­lega á óvart. Þessi staða hef­ur hins veg­ar haft sinn aðdrag­anda. Landsnet varaði í skýrslu um afl- og orku­jöfn­um 2019-2023 við mögu­leg­um aflskorti árið 2022. Þar var bent á að á tíma­bil­inu myndi ekki nægi­lega mikið af nýj­um orku­kost­um bæt­ast inn á kerfið til að duga fyr­ir sí­vax­andi eft­ir­spurn eft­ir raf­magni sam­kvæmt raf­orku­spá.

Skilj­an­lega spyrja lands­menn sig; hvað kem­ur til? Hvernig end­ar þjóð, sem er þekkt fyr­ir sjálf­bæra hreina orku, í ástandi sem þessu? Staðreynd­in er sú að mörg ljón eru á veg­in­um. Nauðsyn­legt er að kljást við þau til að leysa orku­mál, tryggja orku­ör­yggi og hag­sæld þjóðar­inn­ar. Tryggja þarf nægt fram­boð af grænni orku fyr­ir heim­il­in í land­inu, at­vinnu­lífið og orku­skipt­in. Upp á síðkastið hef­ur í umræðunni verið rætt um hvort þörf sé á meiri raf­orku fyr­ir orku­skipt­in. Ég spyr, hvernig get­ur verið að ekki þurfi meiri orku fyr­ir orku­skipt­in þegar svo lítið má út af bera til að ekki sé næg raf­orka fyr­ir nú­ver­andi not­end­ur?

Glöt­um bæði orku og tæki­fær­um

Styrk­ing flutn­ings­kerf­is raf­orku þolir enga bið. Í viðtali við fjöl­miðla áætlaði for­stjóri Landsnets að ork­an sem tap­ast í flutn­ings­kerf­inu á hverju ári sam­svari af­kasta­getu Kröflu­virkj­un­ar sök­um ann­marka flutn­ings­kerf­is­ins. Á hverju ári tap­ast millj­arðar króna vegna þess og enn meira vegna glataðra at­vinnu og upp­bygg­ing­ar­tæki­færa um allt land.

Í dag er verið að leggja nýj­ar raflín­ur á hinum ýmsu stöðum. Þó eru sum­ir hlut­ar kerf­is­ins hátt í 50 ára gaml­ir og því er aug­ljóst að þörf er á bráðnauðsyn­legri upp­færslu. Sí­fellt fleiri gíga­vatt­stund­ir tap­ast á þenn­an hátt og í fyrra var talið að um 500 gíga­vatt­stund­ir hefðu glat­ast sök­um ann­marka flutn­ings­kerf­is­ins. Það sam­svar­ar meðal­orku­notk­un 100.000 heim­ila, sem eru tveir þriðju allra heim­ila á Íslandi. Sér­fræðing­ar telja þá tölu ein­ung­is fara vax­andi í óbreyttu ástandi. Af þessu er ljóst að bregðast þarf hratt við. Viðfangs­efnið er stórt en ekki óyf­ir­stíg­an­legt.

Tími aðgerða er núna

Mik­il­vægt er að ráðast í efl­ingu fyr­ir­liggj­andi virkj­ana þar sem það er hægt, hefja und­ir­bún­ing að þeim orku­kost­um sem auðveld­ast er að hrinda í fram­kvæmd fljót­lega og ein­falda svo ferlið frá hug­mynd að fram­kvæmd þannig að nýt­ing orku­kosta sem sam­fé­lagið þarfn­ast gangi bet­ur og hraðar fyr­ir sig í framtíðinni. Á Íslandi hef­ur það sýnt sig að tím­inn sem það tek­ur frá hug­mynd um hefðbundna orku­kosti þar til fram­kvæmd­ir verða að veru­leika er um 10-20 ár. Sag­an sýn­ir að það er of lang­ur tími ef tryggja á orku­ör­yggi þjóðar­inn­ar. Vissu­lega eru til aðstæður þar sem það er vel skilj­an­legt og alltaf þarf að vanda til verka. En oft og tíðum eru óþarfa taf­ir sem sóa dýr­mæt­um tíma án þess að það skili sér í betri fram­kvæmd með til­liti til um­hverf­is­ins. Við okk­ur blas­ir að úr­bóta er þörf og tími aðgerða er núna.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. janúar 2022.