Categories
Greinar

Spurninga­leikur, 18 stig í boði

Deila grein

02/09/2021

Spurninga­leikur, 18 stig í boði

Ýmsir flokkar, sem ég myndi leyfa mér að kalla eins máls- eða eins manns flokka, hafa oftar en ekki haft uppi stór orð varðandi störf ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili. Ýmist kallað hana kyrrstöðustjórn, stjórn þriggja Framsóknarflokka (sem ég reyndar kann nokkuð vel við) eða stólastjórnina. Orðræðan hefur verið á þann veg að myndun þessarar ríkisstjórnar hafi ekki snúist um annað en völd og stóla og samstöðu um engar breytingar. Í þessu sambandi leyfi ég mér sérstaklega að nefna Evrópusambandsflokkinn, Viðreisn og flokk Sigmundar Davíðs, Miðflokkinn.

Leikurinn

Að þessu sögðu, þá ákvað ég að setjast niður og rýna nokkuð gaumgæfulega í afrekaskrá stjórnvalda á þessu kjörtímabili og útbúa lítinn spurningaleik fyrir alla; sem þó er ekki tæmandi fyrir þann árangur sem náðst hefur. Nú mæli ég með því að þú, ágæti lesandi, sækir blað og penna og merkir X fyrir framan þann bókstaf sem þú telur geyma rétta svarið. Líkt og í knattspyrnunni eru 3 stig í boði fyrir hvert rétt svar, í heildina heil 18 stig. Gangi þér vel.

Spurning #1

Fæðingarorlof í heilt ár. Hvaða flokkur lengdi fæðingarorlofið í 12 mánuði og hækkaði greiðsluhámark úr 370 þúsund krónum í 600 þúsund krónur?

__A Viðreisn 

__B Framsókn

__C Miðflokkur

Spurning #2

Auðveldari fyrstu íbúðakaup. Hvaða flokkur innleiddi sérstök hlutdeildarlán (einungis 5% útborgun), sem nýja leið fyrir ungt fólk og tekjuminni, til að eignast þak yfir höfuðið?

__A Viðreisn

__B Framsókn

__C Miðflokkur

Spurning #3

Nýr menntasjóður. Hvaða flokkur setti á fót nýjan menntasjóð sem er með hærri framfærslu, möguleika á 30 % niðurfellingu höfuðstóls, val um óverðtryggð lán og beinan fjárstuðning við foreldra í námi?

__A Viðreisn

__B Framsókn

__C Miðflokkur

Spurning #4

Loftbrúin brúar bilið. Hvaða flokkur innleiddi sérstaka Loftbrú (40% afsláttur af flugfargjaldi þrisvar sinnum á ári); aðgerð til að brúa bilið milli þeirra sem búa fjærst höfuðborgarsvæðinu og þeirra sem búa næst þjónustunni sem þar er að finna?

__A Viðreisn

__B Framsókn

__C Miðflokkur

Spurning #5

Bylting í málefnum barna. Hvaða flokki tókst að skapa breiða sátt um byltingu í málefnum barna, sem síðar skilaði sér í tímamótalöggjöf vorið 2021 sem tryggir að barnið sé hjartað í kerfinu?

__A Viðreisn

__B Framsókn

__C Miðflokkur

Spurning #6

Samgöngusáttmálinn. Hvaða flokki tókst að rjúfa áratuga kyrrstöðu í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu með samkomulagi ríkisins og sex sveitarfélaga sem þar eru?

__A Viðreisn

__B Framsókn

__C Miðflokkur

Höldum áfram að fjárfesta í fólki

Leikinn væri hægt að lengja umtalsvert en látum þetta duga í bili enda einungis til gamans gert. Hér má sjá, svo ekki verði um villst, að áherslur Framsóknar á kjörtímabilinu og í ólgusjó Covid, hafa verið að fjárfesta í fólki og innviðum í íslensku samfélagi. Engin kyrrstaða, bara framfarir. Ég vona að þér hafi gengið vel í leiknum og sért með fullt hús stiga. Rétt svar var X fyrir framan B í öllum tilfellum. Ég vil meina að það sé líka hið eina rétta svar á kjördag, þann 25. september næstkomandi. Nú sem fyrr er mikilvægt að halda áfram á veg samvinnu og skynsamlegra lausna. Er ekki bara best að kjósa Framsókn?

Ágúst Bjarni Garðsson, formaður bæjarráðs í Hafnarfirði og skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. september 2021.

Categories
Greinar

Jákvæð áhrif samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs

Deila grein

02/09/2021

Jákvæð áhrif samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs

Stuttu eft­ir að ég tók til starfa sem mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra blossaði #églíka-bylt­ing­in upp, bet­ur þekkt sem #met­oo. Kyn­ferðis­leg áreitni og of­beldi er sam­fé­lags­mein, og hug­rakk­ir hóp­ar ein­stak­linga stigu fram, sögðu sög­ur sín­ar og vöktu okk­ur öll til um­hugs­un­ar. Kon­ur í íþrótta­hreyf­ing­unni létu einnig há­vært í sér heyra, og ég boðaði full­trúa þeirra strax á fund til að ræða mögu­leg­ar aðgerðir til úr­bóta.

Í kjöl­farið skipaði ég starfs­hóp sem vann bæði hratt og ör­ugg­lega til að tryggja að raun­veru­leg­ur ár­ang­ur næðist. Öryggi iðkenda og annarra þátt­tak­enda var sett í önd­vegi við alla vinnu hóps­ins sem taldi mik­il­vægt að til­lög­urn­ar næðu einnig til æsku­lýðsstarfs utan skóla. Hóp­ur­inn skilaði afar grein­argóðu yf­ir­liti og gagn­leg­um til­lög­um sem við unn­um áfram, og út frá þeim til­lög­um lagði ég síðan fram ný lög um sam­skiptaráðgjafa íþrótta- og æsku­lýðsstarfs.

Mark­miðið var að bjóða upp á ör­uggt um­hverfi þar sem börn, ung­ling­ar og full­orðnir, óháð kyni eða stöðu að öðru leyti, geta stundað íþrótt­ir eða æsku­lýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða rétt­ar síns vegna kyn­ferðis­legr­ar áreitni og of­beld­is sem þar koma upp án ótta við af­leiðing­arn­ar.

Sam­skiptaráðgjaf­inn tók til starfa í fyrra og þar er öll­um ábend­ing­um um einelti, áreitni og of­beldi tekið al­var­lega og þær kannaðar, öll mál eru unn­in eft­ir ákveðnu verklagi með trúnað og skiln­ing að leiðarljósi. Auk þess get­ur sam­skiptaráðgjafi veitt fé­lög­um og sam­tök­um leiðbein­ing­ar varðandi slík mál og ger­ir til­lög­ur til úr­bóta þegar við á. Á fyrsta starfs­ár­inu fékk sam­skiptaráðgjaf­inn 24 mál á sitt borð, þar af átta tengd kyn­ferðis­legri áreitni eða of­beldi. Mik­il­vægi ráðgjaf­ans er því byrjað að sanna sig.

Íþrótta­hreyf­ing­in er mik­il­vægt afl í ís­lensku sam­fé­lagi. Þar fer fram öfl­ugt starf á hverj­um degi, sem styrk­ir og mót­ar ein­stak­linga á öll­um aldri. For­varn­ar­gildi íþrótta- og æsku­lýðsstarfs er ótví­rætt. Því er brýnt að til staðar séu skýr­ir ferl­ar, virk upp­lýs­inga­gjöf og hlut­leysi í mál­um af þess­um toga, sem oft eru viðkvæm og flók­in. Þessi lög voru tíma­móta­skref, sem sendu skýr skila­boð um að áreitni og of­beldi sé ekki liðið í íþrótta- og æsku­lýðsstarfi. Það hef­ur jafn­framt glatt mig í þessu ferli hve vel for­ysta ÍSÍ og UMFÍ hef­ur unnið með okk­ur, og það eru all­ir á sömu blaðsíðunni; að upp­ræta þessa mein­semd og bæta um­hverfi íþrótta- og æsku­lýðsstarfs á Íslandi.

Enn í dag er ég gríðarlega þakk­lát þeim þolend­um sem stigið hafa fram. Þeirra hug­rekki hef­ur skilað var­an­leg­um breyt­ing­um sem ég er sann­færð um að muni styrkja íþrótta- og æsku­lýðsstarf um land allt.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. september 2021.

Categories
Greinar

Sitt er hvað, sam­vinna og sam­vinna

Deila grein

01/09/2021

Sitt er hvað, sam­vinna og sam­vinna

Hann er um margt áhugaverður, skyndilegur áhugi Gunnars Smára Egilssonar forsprakka Sósíalista á samvinnunni og uppruna Framsóknar. Og eflaust er Gunnar Smári sammála mér um það að samvinna er grundvöllur allra framfara. Það er hins vegar sitt hvað, samvinna Framsóknar og samvinna Sósíalista.

Mér þótti það áhugavert þegar Gunnar Smári tók sósíalíska trú fyrir skemmstu og hefði fyrir tveimur árum síðan ekki getað sagt fyrir um það að Sósíalistar yrðu haustið 2021 að mælast í könnunum með þingmenn inni á Alþingi Íslendinga.

Samvinna frjálsra íslenskra bænda

Gunnar Smári finnur að því að Framsókn hafi þroskast með árunum, en Framsókn er orðin rúmlega aldargömul. Rætur Framsóknar er að finna í samvinnuhreyfingunni sem Gunnar Smári telur vera sósíalíska. Það má svo sem teygja það svo til að það sé eitthvað til í því en eðli þeirrar hreyfingar bænda sem kaupfélögin urðu til úr snerist ekki um sósíalisma eins og við þekkjum hann heldur um það að bændur tóku höndum saman til að bæta kjör sín. Þeir stofnuðu með sér kaupfélög til að geta einbeitt sér að ræktuninni. Bændur lögðu dilka sína inn í kaupfélögin sem sáu jafnan um að slátra, vinna og selja vörur bændanna. Svipaða sögu er að segja af mjólkinni. Einhverjir myndu sjá í þessu einhvern kapítalískan þráð. Það styður líka við það sem ég hef sagt um að Framsókn, samvinnan og framtíðin eigi sér lögheimili og varnarþing á miðju stjórnmálanna. Hugsjón samvinnuhreyfingarinnar var sterk og er sterk og kaupfélög frjálsra íslenskra bænda eiga ekkert sameiginlegt með samyrkjubúum Sovétsins.

Samvinnuhreyfingin er sterk alþjóðleg hreyfing enn í dag. Í Bandaríkjunum, til að mynda, er stór hluti raforkuflutningskerfisins rekinn af samvinnufélögum. Í Bretlandi eru sterk samvinnufélög sem reka verslanakeðjur, flutningafyrirtæki og fleira.

Draumur úr svefni fortíðar

Oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður er skeleggur maður og oft gaman að hlusta á hann halda sínar eldræður. Það er ekki síst þegar maður þekkir lítið til málaflokkanna sem manni þykir hann sannfærandi. En þegar hann talar um stjórnmál er eins og hann hafi lent í tímavél. Auðvitað þroskast stjórnmálin með tímanum og miðjan færist í róti samfélagsins, líkt og jaðrarnir til hægri og vinstri. Það sem felst í því að vera miðjuflokkur eins og Framsókn er að við höfnum þessum öfgum og trúum á raunverulega samvinnu sem leiðir okkur að niðurstöðu sem er til hagsbóta fyrir almenning. Sú bylting sem Sósíalistaflokkurinn boðar er hins vegar eins og draumur úr svefni fortíðar sem flestir hafna vaknað af – en því miður ekki allir.

Það vildi ég að sósíalisminn hefði þroskast með tímanum eins og stefna Framsóknar. Samfélagið hefur nefnilega tekið jákvæðum stakkaskiptum frá því í upphafi síðustu aldar. Fátt er það í fortíðinni sem stenst kröfur nútímans, allra síst þau lífsgæði sem voru almenn fyrir miðja síðustu öld. Það er nefnilega þannig að á öllum mælikvörðum er Ísland í efstu sætum þegar kemur að lífsgæðum; á öllum mælikvörðum nema á mælikvarða nostalgíunnar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. september 2021.

Categories
Greinar

Pappa­r­ör og pólitík

Deila grein

31/08/2021

Pappa­r­ör og pólitík

Eftir að hafa heyrt mikið talað um kolsvarta loftslagsskýrslu síðustu daga skynjar maður alvarleika málsins. Hvert og eitt okkar þarf að leggja sitt af mörkum. Vissulega er hver einstaklingur bara dropi í hafið, en margt smátt gerir eitt stórt og betur má ef duga skal. Ég er einn af eigendum Extraloppunnar sem er lítið og grænt fyrirtæki staðsett í Smáralindinni. Fyrirtæki sem vinnur að umhverfismálum og sýnir samfélagslega ábyrgð þegar kemur að endurnýtingu og minnkun kolefnisspora. Í hvert sinn sem þú kaupir notaðar vörur í stað nýrra minnkar þú koltvísýringsmengun að því er nemur framleiðslu og því flytja vöruna á áfangastað.

Breytt hugsun

Við þurfum og við erum að breyta neysluvenjum og hugsunarhætti fólks. Þegar Extraloppan var stofnuð fannst mér það vera lykilatriði. Landsmenn hafa tekið okkur betur en nokkurt okkar þorði að vona. Hringrásin hefur skapast og alltaf fleiri og fleiri ákveða að hefja leitina af því sem vantar, hjá okkur. Um það snýst málið, að við gefum þeim hlutum og fatnaði sem við hyggjumst ekki nota lengra líf og kaupum svo notaða hluti sem bíða þess að fá nýjan eiganda.

Hvað hefur sparast?

Systurfyrirtæki Extraloppunnar, Barnaloppan, fékk umhverfisverkfræðinga hjá Eflu til þess að reikna fyrir sig kolefnisspor sem hafa sparast með tilkomu verslunarinnar frá 2018-2019. Niðurstaðan er sláandi, rúm 5.000 tonn höfðu sparast í losun koltvísýrings sem jafnast á við 2.500 bíla á einu ári og ætla má að Extraloppan sé með svipaðar tölur. Frá opnun Extraloppunnar árið 2019 hafa selst yfir 400.000 vörur ef við reiknum þetta til dagsins í dag þá eru þetta um 12 – 15.000 tonn sem jafnast á við 6-7.000 bíla á ári.

Að endurnýta og endurvinna

Á heimsvísu er áætlað að textílneysla hvers jarðarbúa sé um 11 kg og að textíliðnaðurinn valdi um 8% gróðurhúsaáhrifa á jörðinni. Það fara t.d. um 6-8 þúsund lítrar af vatni í að framleiða bómul í einar gallabuxur. Sú aðgerð sem dregur hvað mest úr þessum áhrifum er að endurnýta og endurvinna.

Breytingar til hins betra

Við þurfum öll að vera meðvituð. Auðvitað finnst okkur öllum skrítið að drekka kókómjólkina með papparöri og það er í eðli mannsins að finnast breytingar erfiðar. Hér áður fyrr flokkuðum við ekki rusl og einu sinni settum við allt í litla plastpoka í grænmetisdeildinni en við venjumst öllu og furðu hratt eins og heimsfaraldurinn hefur sýnt og sannað. Öll þessi litlu skref eru skref í átt að hreinni jörð fyrir okkur og afkomendur okkar. Margt smátt gerir eitt stórt, og stjórnvöld verða því að örva og hvetja atvinnulífið til þess að leggja sitt af mörkum. Atvinnulífið verður að sjá hag sinn af því að taka þátt. Slíkt er hægt t.d. með hagrænum hvötum eða skattaívilnunum. Leiðin þarf að vera markvissari og skilvirkari. Nýsköpun og verðmætasköpun í loftslagsmálum verður að vera í forgrunni.

Það er nefnilega þannig að auðlindir heimsins eru ekki ótakmarkaðar og endurnýting á framleiddum vörum hlýtur að vera af hinu góða fyrir bæði neytendur og umhverfið. Með því að standa í stað munum við ekki ná árangri, en með því að sækja fram og hvetja fólk og fyrirtæki áfram með okkur eru okkur allir vegir færir.

Brynja Dan Gunnarsdóttir, er í 2. sæti lista Framsóknarflokksins í Reykjavík norður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Tvær leiðir til að bæta starfsumhverfi lögreglunnar

Deila grein

31/08/2021

Tvær leiðir til að bæta starfsumhverfi lögreglunnar

Mikið mæðir á okk­ar fram­lín­u­starfs­mönn­um þessa dag­ana vegna Covid- far­ald­urs­ins. Þá á ég fyrst og fremst við hjúkr­un­ar­fólk, lækna, sjúkra­flutn­inga­fólk, slökkviliðsmenn og lög­regluþjóna. Hægt væri að skrifa lýs­ing­ar um sér­hverja starfs­grein en ég ætla nú að beina at­hygli minni að okk­ar frá­bæra fólki í lög­regl­unni. Und­an­farna mánuði hef ég átt mörg sam­töl við lög­regluþjóna um hvernig þeir upp­lifa sig í störf­um sín­um.

Fjölg­un lög­regluþjóna

Á vef Alþing­is er til­greint að fjöldi lög­regluþjóna á Íslandi hafi verið 662 þann 1. fe­brú­ar 2020. Þetta sam­svar­ar að á Íslandi er einn lög­regluþjónn á hverja 557 íbúa. Í skýrslu dóms­málaráðherra frá ár­inu 2001 kem­ur fram að fjöldi lög­regluþjóna var þá hlut­falls­lega mest­ur á Íslandi af öll­um Norður­lönd­um eða einn á hvern 441 íbúa, en meðaltalið á Norður­lönd­um var þá 573 íbú­ar á lög­regluþjón. Í dag hef­ur fjöldi lög­regluþjóna á Norður­lönd­um hald­ist óbreytt­ur eða einn á 577 íbúa. Ljóst er að á meðan fjöldi lög­regluþjóna hef­ur staðið í stað á Norður­lönd­um þá hef­ur þeim hlut­falls­lega fækkað veru­lega á Íslandi. Þess­ar töl­ur eru í sam­ræmi við þau sam­töl sem ég hef átt. Jafn­framt hef­ur ný­leg ákvörðun um stytt­ingu vinnu­tíma orðið til þess að vakt­ir eru nú mannaðar með færri lög­reglu­mönn­um, sem eyk­ur enn meira það álag sem fyr­ir er. Þegar tekið er til­lit til auk­inna og nýrra verk­efna lög­regl­unn­ar, tveggja millj­óna ferðamanna, net­glæpa, viðveru af­brota­gengja frá Evr­ópu, fjár­mála­af­brota, man­sals og auk­inna verk­efna varðandi fjöl­skyldu­tengd af­brot, verk­efni sem flest þekkt­ust vart hér á landi fyr­ir 20 árum, er ljóst að ástandið er grafal­var­legt.

Lausn­in er mjög skýr. Það þarf að fara í aðgerðir til að fjölga lög­regluþjón­um á land­inu strax.

End­ur­vakn­ing lög­reglu­skól­ans

Þegar lög­reglu­skól­inn var lagður niður 2016 var það gert skil­yrt að verðandi lög­regluþjón­ar þyrftu að ljúka tveggja ára skóla­námi (diplóma) á há­skóla­stigi og að starfs­náms­hluti yrði síðan í um­sjá mennta- og starfsþró­un­ar­set­urs rík­is­lög­reglu­stjóra sem stofnað var í kjöl­farið. Farið var í þess­ar aðgerðir til að ná fram sparnaði í rík­is­rekstri. Það er gott og vel að reyna að spara þar sem hægt er, en það sem hef­ur skap­ast í kjöl­farið er að praktísk/​raunþjálf­un lög­reglu­nema hef­ur verið minnkuð til muna. Ekki er leng­ur kennt yfir heilt náms­ár eins og var í lög­reglu­skól­an­um hér áður held­ur er þetta nokk­urra vikna nám­skeið sem kem­ur í kjöl­far þess að nem­end­ur ljúka sínu diplóma­námi. Þetta hef­ur leitt til þess að lög­regluþjón­ar eru ekki jafn vel und­ir­bún­ir til að tak­ast á við hin dag­legu vanda­mál sem koma upp í þeirra vinnu. Hvort lausn­in sé að end­ur­vekja starf­semi gamla lög­reglu­skól­ans skal ég ekki segja en það er ein­róma skoðun viðmæl­enda minna að lengja þurfi verk­lega námið til muna, svo að nýliðar í lög­regl­unni séu bet­ur und­ir­bún­ir til að tak­ast á við þær áskor­an­ir sem þeir mæta á hverj­um degi.

Fyr­ir þjóð sem tel­ur aðeins 360 þúsund íbúa og eng­an her er nauðsyn­legt að efla stöðugt og styrkja lög­gæsluaðila rík­is­ins, þannig að ávallt sé vel þjálfað starfs­fólk fyr­ir hendi í lög­regl­unni.

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, sit­ur í 2. sæti á lista Fram­sókn­ar í Reykja­vík suður.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Úr stöðnun í uppbyggingu um land allt

Deila grein

27/08/2021

Úr stöðnun í uppbyggingu um land allt

Undanfarna áratugi hefur ríkt viðvarandi stöðnun á húsnæðismarkaði víða um land með þeim afleiðingum að atvinnuuppbygging og eðlileg samfélagsþróun hefur tafist. Til þess að bregðast við þessari þróun hefur Framsókn sett húsnæðismál á landsbyggðinni á oddinn síðustu ár. Árangurinn af þessum aðgerðum er farinn að sjást víða um land. Sú stöðnun sem áður var í húsbyggingum í landsbyggðunum hefur nú verið rofin með fjölþættum aðgerðum stjórnvalda.

Vandinn staðfestur

Í skýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um þróun húsnæðismarkaðar utan suðvesturhornsins, sem kom út í vetur, er það augljósa staðfest, þ.e. að stöðnun hefur ríkt í húsnæðismálum margra byggðarlaga. Í sömu skýrslu er einnig farið yfir ástæður þess að uppbygging á landsbyggðinni hefur verið sáralítil í samanburði við höfuðborgarsvæðið.

„Helstu ástæður má rekja til þess að víða á landsbyggðinni stendur söluverð eigna ekki undir byggingarkostnaði, seljanleiki eigna er minni og fólksfækkun hefur verið í sumum sveitarfélögum sem veldur minni eftirspurn. Á sama tíma hefur fjölgun verið í öðrum sveitarfélögum sem hefur skapað húsnæðisskort. Þá hafa lánastofnanir haft minni áhuga á að lána til íbúðarkaupa og íbúðauppbyggingar á landsbyggðinni,“ segir í skýrslunni

Framsókn gengur í verkið

Þær aðgerðir sem komnar eru til framkvæmda í húsnæðismálum undir forystu Framsóknar snúa einmitt að þessum þáttum sem bent er á og ráðast að rót vandans. Þær eru sérstök landsbyggðarlán, stofnframlög og byggðaframlög, hlutdeildarlán, samstarf við opinbera leigufélagið Bríeti og tilraunaverkefni á vegum HMS í samstarfi við sveitarfélög.

Finna má yfirlit yfir allar þessar aðgerðir á vefnum Tryggð byggð, tryggdbyggd.is, sem er samstarfsvettvangur allra þeirra sem koma að húsnæðismálum á landsbyggðinni. Vefur verkefnisins sýnir árangurinn af þessum aðgerðum svart á hvítu, en framkvæmdir eru hafnar við yfir 400 íbúðir í 36 sveitarfélögum og heildarfjárfestingin eru rúmlega 10 milljarðar. Upplýsingarnar á vefnum geta nýst öllum sem hugsa til húsbygginga á landsbyggðinni við leit að leiðum og fyrirmyndum.

Þróum verkefnin áfram

Það er mikilvægt að halda áfram á þessari braut og tryggja aðgengi að fjölbreyttum húsnæðiskostum við hæfi, óháð búsetu. Allar þær aðgerðir sem nú eru farnar í gang eru hugsaðar sem langtímaverkefni. Mikil tækifæri liggja í að þróa verkefnin áfram. Til dæmismætti útfæra hlutdeildarlán enn frekar fyrir hópa sem hafa átt erfitt með að eignast hentugt húsnæði.

Þá liggur fyrir að finna þurfi leiðir til að greiða aðgengi einstaklinga að lánsfjármagni óháð búsetu því margir vilja og þurfa sjálfir að byggja sitt húsnæði.

Við komumst þangað saman.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar og í 2. sæti á framboðslista flokksins í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 26. ágúst 2021.

Categories
Greinar

At­vinna, at­vinna, at­vinna gegn at­vinnu­leysi

Deila grein

26/08/2021

At­vinna, at­vinna, at­vinna gegn at­vinnu­leysi

Það er á allra vitorði að atvinnuleysi fór að stóraukast strax í kjölfar komu Covid-19 hingað til lands. Mörg vandamál spruttu í kjölfar komu veirunnar til landsins, en meðal þeirra stærstu var án efa það gífurlega atvinnuleysi sem birtist samfélaginu. Atvinnuleysið hafði vissulega mikil áhrif á ríkissjóð, vinnumarkaðinn, efnahaginn og andlega líðan samfélagsins í heild. Þessum vanda var nauðsynlegt að mæta af ákveðni til að snúa við blaðinu, og þar kom Framsókn sterk inn.

Vinnumarkaðsaðgerðir

Vegna fjölgunar atvinnulausra í kjölfar Covid-19 talaði Framsókn fyrir vinnumarkaðsaðgerðum af hálfu ríkisins til að bregðast við ástandinu og standa vörð um ráðstöfunartekjur heimilanna. Formaður Framsóknar, Sigurður Ingi, stóð á ræðupúlti Alþingis í stefnuræðum og sagði hin fleygu orð:

Við stöndum vörð um störfin og við sköpum ný störf. Það er atvinna, atvinna, atvinna sem málið snýst um.“

Það er rétt. Í þessu ástandi var það mikilvægasta málið að ná vinnumarkaðnum aftur á réttan kjöl með því að sporna við hækkandi atvinnuleysi og standa vörð um lifibrauð fólksins í landinu. Vinnumarkaðsaðgerðir að hálfu ríkisins voru settar á laggirnar, til dæmis átak Ásmundar Einars, félags- og barnamálaráðherra, „Hefjum Störf“. Með því voru sjö þúsund störf sköpuð fyrir þá sem höfðu dottið af atvinnumarkaðinum vegna Covid.

Aðgerðirnar hafa skilað áþreifanlegum árangri

Nú í ágúst hefur Vinnumálastofnun birt nýjustu skýrslu um stöðu atvinnumarkaðsins. Þar sjáum við svart á hvítu að umræddar vinnumarkaðsaðgerðir hafa skilað okkur áþreifanlegum árangri. Tölfræðin segir okkur að aðgerðirnar, ásamt bólusetningum, hafa virkað. Í júlímánuði hafði hlutfall atvinnulausra (6,1%) lækkað um 1,3% milli mánaða og um 3% frá upphafi sumars. Einnig spáir Vinnumálastofnun áframhaldandi minnkun atvinnuleysis á næstu mánuðum, sem hefur lækkað um 6,7% frá upphafi árs.

Höldum áfram

Að sjálfsögðu er það mikið ánægjuefni að sjá atvinnuleysið minnka ört, en ferðinni er ekki lokið. Betur má ef duga skal, og atvinnuleysið þarf að minnka meira. Nú horfum við upp á sóttvarnarráðstafanir innan samfélagsins sem hafa gífurleg áhrif á hinar ýmsu starfsstéttir. Fyrir sumar boða þessar ráðstafanir dauðadóm ef takmörkunum verða ekki aflétt fljótlega. Næsta skrefið er að aðstoða aðila við að byggja upp störfin að nýju. Ferðaþjónustan, skemmtanaiðnaðurinn og fleiri starfsstéttir eiga enn erfitt með að ná endum saman og nú er kominn tími til að standa vörð um þær og veita þeim viðeigandi athygli. Vinnumarkaðurinn á Íslandi má ekki við því að þessar starfstéttir heltast úr lestinni.

Höldum áfram veginn í átt að minnkun atvinnuleysis og tryggjum störf!

Aðalstein Haukur Sverrisson, situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík Suður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Landhelgi íslenskrar ferðaþjónustu – 0 mílur

Deila grein

25/08/2021

Landhelgi íslenskrar ferðaþjónustu – 0 mílur

Fyrir Covid var komin af stað réttmæt umræða um að rekstrarstaða margra íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja væri slæm og hefði versnað. Hluti vandans var rakin till falls WOW en einnig til almenns rekstrarvanda í greininni og skakkrar samkeppnisstöðu.

Umsvif erlendra ferðaskrifstofa var nánast í veldisvexti hér á landi fyrir Covid. Lítið sem ekkert var gert til að tryggja að þessi fyrirtæki færu eftir sömu kjarasamningum, lögum og reglum og innlendu fyrirtækin. Ekkert var heldur gert til að sporna við þessari þróun. Í mörgum löndum er t.d. krafa um að leiðsögumaður sem er búsettur og viðurkenndur af þarlendum stjórnvöldum sé til staðar í öllum skipulögðum hópferðum.

Sameining og sjálfvirknivæðing

Hinsvegar voru hér haldnir fundir og málþing sem mörg báru þann boðskap að sameining fyrirtækja og sjálfvirknivæðing væri nauðsynleg í ferðaþjónustu.

Í þessu sambandi hefur oft verið vísað til arðsemisaukningar í sjávarútvegi þar sjálfvirknivæðing hefur verið gríðarleg og fyrirtæki hafa sameinast og orðið stærri og “öflugri.” Það þarf ekki að tíunda að sú samþjöppun hefur haft bæði jákvæð og neikvæð áhrif á byggðarþróun, skiptingu auðs og skuldsetningu greinarinnar sjálfrar.

Það má þó segja að ógnin sem að þjóðarbúinu stafar af samþjöppun í sjávarútvegi sé minni en af samþjöppun í ferðaþjónustu. Í EES-samningum eru ákveðnar girðingar þegar kemur að eignarhaldi erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi. Engar slíkar girðingar eru þegar kemur að eignarhaldi ferðaþjónustufyrirtækja.

Erlend yfirtaka?

Það er ekkert sem segir að stór íslensk ferðaþjónustufyrirtæki sem sum hver hafa á undanförnum árum keppst við að kaupa upp fjölda smærri fyrirtækja til að blása út efnahagsreikning sinn verði seld í heilu lagi til erlendra aðila. Hvar stöndum við þá?

Skiptir það máli hvort innlendir eða erlendir aðilar eigi innviði íslenskrar ferðaþjónustu?

Svarið er já, það skiptir verulegu máli fyrir menningarleg og efnahagsleg áhrif greinarinnar. Erlent fyrirtæki með starfsemi á Íslandi greiða skatta erlendis og geta þessvegna gert út starfsfólk, íslenskt eða erlent, með ráðningarsamband erlendis.

Þá verður mun erfiðara fyrir íslensk stjórnvöld og verkalýðshreyfingu að hafa eftirlit með því að þeir sem starfa hér í ferðaþjónustu séu að vinna eftir gildandi kjarasamningum.

Þetta mun skekkja enn frekar samkeppnisstöðu innlendra ferðaþjónustufyrirtækja gagnvart erlendum ferðaskrifstofum sem gera hér út nú þegar í stórum stíl.

Ferðamálayfirvöld hafa ekki nýtt tímann í Covid til að vinna að því að efla samkeppnisstöðu innlendra ferðaþjónustufyrirtækja til framtíðar.

Viðbrögð ferðamálayfirvalda fyrir og í Covid hafa fremur verið að leggja auknar kvaðir á innlend fyrirtæki sem stunda leyfisskylda starfsemi á sviði ferðþjónustu, krefjast árlega ítarlegri gagna til að viðhalda leyfum og sömu kvaðir lagðar á stór fyrirtæki og ör fyrirtæki.

Samanburður við sjávarútveg

Það er áhugavert að velta því fyrir sér, hverjar afleiðingarnar hefðu orðið af afskiptaleysi stjórnvalda í landhelgisdeilunni. Ef stjórnvöld hefðu litið fram hjá veiðum erlendra þjóða á landgrunninum en sett í staðinn íþyngjandi kvaðir á íslenska flotann – þær sömu á stórútgerðir og trillur! Hvatt til uppkaupa og sameingingar og svo bara beðið eftir því að erlendir aðilar hefðu keypt stórútgerðirnar upp. Ef þessi leið hefði verið farin er óumdeilt að efnahagsleg staða á Íslandi væri önnur í dag en hún er.

Nú erum við með atvinnugrein sem í eðlilegu árferði skilar meiri gjaldeyristekjum og skapar fleiri störf en sjávarútvegur og hefur alla burði til þess að vera undirstaða hagsældar í landinu til framtíðar. En ferðamálayfirvöld eru uppteknari af því að sauma að litlum innlendum fyrirtækjum en að reyna að tryggja samkeppnisstöu innlendrar ferðaþjónustu fyrir ágangi erlendra fyrirtækja og finna leiðir til að sporna við erlendri yfirtöku á greininni.

Sigrún Elsa Smáradóttir, framkvæmdastjóri í ferðaþjónustu og skipar 3. sæti Framsóknarflokksins í Reykjavík suður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Þurfa unglingar að synda?

Deila grein

24/08/2021

Þurfa unglingar að synda?

Sund er frá­bær hreyf­ing, nær­andi fyr­ir bæði lík­ama og sál. Bað- og sund­menn­ing land­ans er raun­ar svo sterk, að for­eldr­ar kenna börn­um sín­um að um­gang­ast vatn frá unga aldri, ým­ist í ung­barna­sundi eða með reglu­legu busli og leik í laug­um lands­ins. Skóla­kerfið gegn­ir einnig lyk­il­hlut­verki, því sund­kennsla er hluti af íþrótta­kennslu öll grunn­skóla­ár­in. Und­an­farið hafa hins veg­ar ýms­ir dregið í efa þörf­ina á því, enda ættu ung­ling­ar frek­ar að læra aðra hluti á efsta stigi grunn­skóla.

Á dög­un­um lagði hóp­ur ung­menna, sem skipa ung­mennaráð heims­mark­miða Sam­einuðu þjóðanna, breyt­inga­til­lög­ur fyr­ir rík­is­stjórn­ina. Hóp­ur­inn lagði til, að sund­kennsla yrði val­frjáls á efsta stigi í grunn­skóla en aðrir þætt­ir sett­ir í nám­skrána í henn­ar stað. Ung­menn­in vilja kennslu í fjár­mála­læsi í aðal­nám­skrá grunn­skóla, svo nem­end­ur skilji allt frá launa­seðli til stýri­vaxta. Þau vilja vandaða um­hverf­is­fræðslu fyrr á náms­ferl­in­um, í stað hræðslu-fræðslu eins og þau segj­ast fá núna. Þau vilja aukna kennslu um rétt­indi barna, hinseg­in fræðslu og lífs­leikni í aðal­nám­skrá grunn­skól­anna. Þá leggja þau til breytt ein­kunna­kerfi, þar sem talna­ein­kunn komi í stað hæfniviðmiða sem fáir nem­end­ur og for­eldr­ar skilji til fulls.

Hug­mynd­ir ung­mennaráðs eru góðar og ríma vel við mark­mið mennta­stefnu, sem ég lagði fyr­ir og Alþingi samþykkti síðastliðinn vet­ur. Mennta­stefn­an tek­ur mið af þörf­um sam­fé­lags­ins á hverj­um tíma, þar sem mark­miðið er að tryggja öll­um börn­um góða mennt­un og jafna tæki­færi þeirra til lífs­gæða í framtíðinni. Skyld­u­sund á unglings­ár­um er ekki endi­lega lyk­ill­inn að því, þótt mik­il­vægi góðrar hreyf­ing­ar verði seint of­metið.

Mennta­stefna er einskis virði án aðgerða, sem varða leiðina að mark­miðinu. Þess vegna er um­fangs­mik­il og metnaðarfull aðgerðaáætl­un í smíðum, í víðtæku sam­ráði við lyk­ilaðila í skóla­kerf­inu og Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ina (OECD). Fyrsta áfanga af þrem­ur verður hleypt af stokk­un­um í sept­em­ber, þegar nýhafið skólastarf vetr­ar­ins verður komið vel af stað og ég hlakka til að taka utan af þeim harða pakka. Aðgerðirn­ar eiga að efla mennta­kerfið okk­ar, tryggja bet­ur en áður skóla án aðgrein­ing­ar og stuðla að bættu starfs­um­hverfi kenn­ara.

Efn­is­breyt­ing­ar á aðal­nám­skrá grunn­skól­anna koma sann­ar­lega til greina, við inn­leiðingu mennta­stefn­unn­ar. Þær eru vandmeðfarn­ar og var­færni inn­byggð í grunn­skóla­kerfið, enda leiðir aukið vægi einn­ar náms­grein­ar til minna væg­is annarr­ar.

Ung­ling­arn­ir okk­ar þurfa svo sann­ar­lega að synda en all­ar breyt­ing­ar eru mögu­leg­ar með góðum vilja og minna vægi sund­kennsl­unn­ar gæti skapað svig­rúm fyr­ir aðrar aðkallandi grein­ar. Skóla­sam­fé­lagið þyrfti svo í sam­ein­ingu að ákveða, hvernig sá tími yrði best nýtt­ur.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Á næsta kjörtímabili

Deila grein

23/08/2021

Á næsta kjörtímabili

Á engu hafði ég eins mikla óbeit þegar ég æfði íþróttir á yngri árum og útihlaupum. Tilbreytingalaus og langdregin og enginn fótbolti. Virtust allt að því tilgangslaus. Því var það einn góðan veðurdag að ég mannaði mig upp í að ræða þetta mál við þjálfarann. Fá einhverja umræðu um þessa afstöðu mína og botn í málið. Svarið sem barnið fékk var snjallt og þurrkaði út allar efasemdir mínar á augabragði; „Ágúst, ef þú getur bent mér á smið sem byggir hús án þess að byrja á grunninum, þá máttu endilega biðja hann um að hafa samband við mig.“ Þetta virkaði mjög hvetjandi á mig og steinlá hjá þjálfaranum, efasemdir mínar þurrkuðust út í einni svipan. Sýn þjálfarans var rökrétt og eðlileg, sá sem hefur úthaldið í hlaupin byggir tæknina ofan á það, en sá sem ekki getur hlaupið á kannski ekki mikið erindi í boltann.

En úr æskuminningum yfir í raunveruleikann. Verkefni stjórnvalda á næsta kjörtímabili verður einmitt þetta, svolítið langhlaup til að byrja með. Við þurfum að halda áfram að treysta þá innviði sem markvisst hafa verið byggðir upp á kjörtímabilinu; og má þar helst nefna stórátak í samgöngumálum vítt og breitt um landið. Á öðrum sviðum þarf að lyfta grettistaki, líkt og í heilbrigðismálum. Það þarf að búa atvinnulífinu og fyrirtækjum slíkt umhverfi að þau geti tekist á við krefjandi verkefni. Það þarf að auka verðmætasköpun og fyrirtækin þurfa að geta fjárfest í tækjum og tólum til þess að standast samkeppni og ekki síður til að ráða fólk í vinnu. Saman mun þetta auka verðmætasköpun í þjóðfélaginu, öllum til góðs.

Einstaka menn telja að þetta verði best gert með því að veðja á þjóðfélagsgerð sem víða um heim er hruninn með ómældum hörmungum fyrir þegnana. Það skal fullyrt að boðberar hennar eru á villigötum. Framleiðslutæki þjóðfélaga verða ekki þjóðnýtt, þjóðinni til heilla, heldur yrði það þvert á móti okkar sameiginlega hörmung. Öflugt atvinnulíf er forsenda velferðar; góðrar heilbrigðisþjónustu, traustra menntastofnanna og blómlegs menningarlífs. Það kann vissulega að vera að einhverjir vilji nú prófa úrelt og mannskemmandi fyrirkomulag, svona beint ofan í COVID-19. En frá mínum bæjardyrum séð, held ég að sú aðferðafærði sé fullreynd og alger óþarfi að taka þá áhættu. Við þurfum að halda áfram án öfga til hægri eða vinstri og með skynsemina á lofti. Framtíðin ræðst á miðjunni.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs í Hafnarfirði og situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. ágúst 2021.