Categories
Greinar

Prúðbúin ungmenni eru tímanna tákn

Deila grein

09/06/2021

Prúðbúin ungmenni eru tímanna tákn

Prúðbúin ung­menni, með bros á vör, skjal í hendi og jafn­vel húfu á höfði, hafa und­an­farið sett svip sinn á borg og bæ. Tíma­mót unga fólks­ins eru sér­lega tákn­ræn í þetta skiptið, því skóla­slit og út­skrift­ir eru staðfest­ing á sigri and­ans yfir efn­inu. Staðfest­ing á sam­stöðu skóla­fólks, kenn­ara, skóla­stjórn­enda, nem­enda og kenn­ara í ein­hverri mestu sam­fé­lagskreppu síðari tíma. Á sama tíma ber­ast góðar frétt­ir af bólu­setn­ing­um, at­vinnu­stigið hækk­ar, íþrótta- og menn­ing­ar­líf er komið á skrið og ferðaþjón­ust­an lifn­ar við. Og þegar litið er um öxl rifjast upp vetr­arkveðja Páls Ólafs­son­ar, sem auðveld­lega má yfir færa á Covid-vet­ur­inn sem nú er að baki:

Margt er gott að muna þér

þó mér þú fynd­ist lang­ur.

Farðu vel, þú færðir mér

fögnuð bæði og ang­ur.

Fram und­an er sum­arið í allri sinni dýrð, tími hlýju, birtu og upp­skeru. Og það er óhætt að segja að á hinum póli­tíska vett­vangi séu tún­in græn og upp­sker­an góð. Verk­efna­listi rík­is­stjórn­ar­inn­ar er svo til tæmd­ur. Fram­boðslist­ar Fram­sókn­ar­flokks­ins eru skipaðir kraft­miklu fólki, þar sem bland­ast sam­an í rétt­um hlut­föll­um fólk úr ólík­um átt­um. Reynslu­bolt­ar úr lands­mál­un­um, dug­mikl­ir sveit­ar­stjórn­ar­menn og ungt fólk með sterk­ar hug­sjón­ir. Við mun­um áfram vinna að fram­förum, berj­ast fyr­ir hags­mun­um fjöl­skyldna af öll­um stærðum og gerðum, og jafna tæki­færi barna til mennt­un­ar.

Barna­mál­in hafa svo sann­ar­lega verið okk­ur hug­leik­in á kjör­tíma­tíma­bil­inu. Barna­málaráðherra hef­ur lyft grett­i­staki og m.a. gert kerf­is­breyt­ing­ar svo hags­mun­ir barna séu í for­gangi, en ekki þarf­ir kerf­is­ins. Í skóla­mál­um hafa skýr­ar lín­ur verið markaðar, þar sem áhersl­an er lögð á ólík­ar þarf­ir barna og stuðning við þá sem þurfa á hon­um að halda. Við vilj­um sjá framúrsk­ar­andi mennta­kerfi og með nýrri mennta­stefnu höf­um við lagt veg­inn í átt að ár­angri.

Þessi vet­ur sem nú er liðinn minnti okk­ur hins veg­ar á að til að ná ár­angri þarf að berj­ast með kjafti og klóm. Við lögðum gríðarlega áherslu á að halda skól­un­um opn­um, til að tryggja mennt­un barna og lág­marka áhrif­in á líf þeirra. Það tókst og sam­an­b­urður við önn­ur lönd sýn­ir glögg­lega að ár­ang­ur­inn er merki­leg­ur, því víða voru skól­ar lokaðir með ófyr­ir­séðum lang­tíma­áhrif­um á börn. Þessi vet­ur kenndi okk­ur að þegar all­ir leggj­ast á eitt, þá er mennta­kerfið okk­ar gríðarlega sterkt afl sem stend­ur vörð um hags­muni barn­anna á hverj­um ein­asta degi.

Það er því ekki að ástæðulausu að um mann fer gleðistraum­ur, þegar maður sér leik-, grunn-, fram­halds- og há­skóla­út­skrift­ar­mynd­ir á sam­fé­lags­miðlum. Stolt­ir for­eldr­ar og frels­inu fegn­ir ung­ling­ar. Ung­menni sem eiga framtíðina fyr­ir sér, horfa stolt í mynda­vél­ina. Eft­ir erfiðan vet­ur er þetta af­rek okk­ar allra – sam­fé­lags­ins alls – og því má aldrei gleyma.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. júní 2021.

Categories
Greinar

Skipulagt starf um stafræn áhugamál – fjárfesting til framtíðar!

Deila grein

08/06/2021

Skipulagt starf um stafræn áhugamál – fjárfesting til framtíðar!

Son­ur minn var fermd­ur síðastliðna helgi í Bú­staðakirkju ásamt skóla­fé­lög­um sín­um. Heil röð af stolt­um for­eldr­um, systkin­um, öfum og ömm­um fylgd­ist með þegar þessi ljúfi, hæg­láti og hjarta­góði strák­ur varð að ung­um manni. Mik­il gleðistund!

Hann var sjö ára þegar hann greind­ist með ódæmi­gerða ein­hverfu, reynd­ar hafði grun­ur um hans rösk­un vaknað fyrst þegar hann var þriggja ára en niðurstaðan, sem lá fyr­ir fjór­um árum seinna, er efni í aðra grein. Eins og marg­ir sem eru greind­ir á ein­hverfuróf­inu á hann erfitt með að halda uppi því sem er skil­greint sem „eðli­leg fé­lags­leg sam­skipti“, hvað svo sem það þýðir. En það hef­ur vissu­lega haft áhrif á getu hans til að rækta og halda vin­skap og valdið ákveðinni fé­lags­legri ein­angr­un, sér­stak­lega síðustu árin þegar krakk­ar hætta að vera krakk­ar og verða ung­ling­ar. Sem bet­ur fer hef­ur þessi fé­lags­lega ein­angr­un ekki þró­ast í að hann hafi lent í einelti eða ein­hverju slíku, það þakka ég fyrst og fremst hon­um sjálf­um og skól­un­um tveim­ur, Breiðagerðis- og Rétt­ar­holts­skól­um, og hvernig var haldið utan um hans mál. Þó hef­ur þessi ein­angr­un auk­ist meira sl. þrjú ár. Sem for­eldr­ar höf­um við skilj­an­lega áhyggj­ur af slíkri þróun og Covid hef­ur sett ákveðið strik í reikn­ing­inn þar sem ekki var mögu­leiki fyr­ir hann að sækja skáta­fundi sem hann hef­ur gert síðan hann var sex ára.

Líkt og marg­ir krakk­ar hef­ur son­ur minn mikið dá­læti á tölvu­leikj­um, hann hef­ur sér­staka ánægju af að spila tölvu­leiki þar sem maður bygg­ir upp borg­ir með allri til­heyr­andi þjón­ustu sem hver borg þarf á að halda. Þegar hann spil­ar sína tölvu­leiki ger­ir hann það yf­ir­leitt í slag­togi við aðra spil­ara, ým­ist á Íslandi eða í út­lönd­um, og þá er oft mikið fjör. Eft­ir að hann fór að eiga sam­skipti við aðra á net­inu fór­um við mamma hans að taka eft­ir því að færni hans til að eiga sam­ræður tók mikl­um fram­förum. Það voru samt erfiðir hlut­ir sem þurfti að tækla sem komu upp í kjöl­far tölvu­notk­un­ar­inn­ar; að fylgj­ast með að ekki væri verið að svíkja þar til gerða samn­inga um skil­greind­an skjá­tíma og tryggja að hann stundaði ein­hverja úti­veru á hverj­um degi. Þó að þetta hafi að mestu gengið vel vild­um við ólm fá hjálp við að styðja bet­ur við þetta áhuga­mál hans.

Fyr­ir rétt rúm­um tveim­ur árum fékk ég boð frá vini mín­um um að mæta á kynn­ingu hjá GMI (Game Makers Ice­land). Þar var há­vax­inn ung­ur maður að nafni Ólaf­ur Hrafn Stein­ars­son sem hélt fyr­ir­lest­ur um ný­stofnuð rafíþrótta­sam­tök og þá sýn sem hann og sam­tök­in höfðu á framtíð tölvu­leikja­áhuga­máls­ins á Íslandi. Í er­indi sínu benti Ólaf­ur á að tölvu­leik­ir ættu snerti­flöt við yfir 90% barna og ung­menna í land­inu, en það var áhuga­mál sem bauð upp á næst­um enga skipu­lagða iðkun eða þjálf­un. Á þessu boðaði hann breyt­ing­ar; með vax­andi rafíþróttaum­hverfi á heimsvísu væru for­send­ur fyr­ir því að færa tölvu­leikja­áhuga­málið í skipu­lagt starf sem und­ir­býr rafíþrótta­menn framtíðar­inn­ar á heild­stæðan hátt fyr­ir að tak­ast á við krefj­andi um­hverfi at­vinnu­manns­ins í rafíþrótt­um. Þá væri mik­il­vægt að huga að því að byggja heild­stæðan ramma utan um starfið sem miðaði að því að skila já­kvæðum ávinn­ingi til allra iðkenda en ekki bara af­reks­spil­ara. Til þess boðaði Ólaf­ur skil­grein­ingu Rafíþrótta­sam­taka Íslands á rafíþrótt­um sem „heil­brigða iðkun tölvu­leikja í skipu­lögðu starfi“ og að sú iðkun feli í sér að iðkandi upp­lifi sig sem hluta af liði, taki þátt í lík­am­leg­um og and­leg­um æf­ing­um, fái fræðslu um mik­il­vægi og ávinn­ing heil­brigðra spila­hátta og lífs­stíls, allt hlut­ir sem eru mik­il­væg­ir til að feta veg at­vinnu­manns­ins í rafíþrótt­um.

Þessi fyr­ir­lest­ur bæði heillaði og sann­færði mig um að þessi nálg­un sem Ólaf­ur kynnti væri skyn­sam­leg og rök­rétt leið til að kenna börn­um heil­brigða tölvu­leikjaiðkun. Svo mjög að ég skráði son minn í rafíþrótta­deild Ármanns. Það leið ekki á löngu þar til ég og móðir hans tók­um eft­ir mikl­um fram­förum. Hann var mun ánægðari al­mennt, sam­skipti við hann á heim­il­inu voru auðveld­ari og hann var far­inn að setja sín­ar eig­in regl­ur varðandi skjá­tíma sem upp­fyll­ir þær regl­ur sem við for­eldr­arn­ir höfðum skil­greint. Ekki nóg með það held­ur mætti þessi flotti strák­ur, sem hef­ur aldrei haft áhuga á iðkun hefðbund­inna íþrótta, einn dag­inn með stolt bros á vör og kvartaði yfir því að vera drep­ast úr harðsperr­um eft­ir rafíþróttaæf­ingu. Hann ákvað svo í vik­unni að kaupa sér lóð og upphíf­inga­stöng fyr­ir ferm­ingar­pen­ing­ana. Það var ótrú­legt fyr­ir mig sem for­eldri að sjá barnið mitt loks­ins blómstra í skipu­lögðu starfi, þegar ein­hver var til­bú­inn að mæta hon­um þar sem hann var stadd­ur í sínu áhuga­máli og hvetja hann til þess að gera meira, reyna meira og að hann geti meira. Þetta var ein­mitt það sem heillaði mig við fyr­ir­lest­ur­inn hans Ólafs og það sem ég tel að við þurf­um meira af; ný­stár­leg­ar aðferðir fyr­ir okk­ar ört breyti­lega sam­fé­lag til þess að taka utan um og fjár­festa í ein­stak­lingn­um til framtíðar.

Ég hlakka til að fylgj­ast með framtíð hans í rafíþrótt­um og framtíð okk­ar í sam­fé­lagi þar sem fjár­fest er í fólk­inu!

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, formaður Fram­sókn­ar­fé­lags Reykja­vík­ur og skip­ar 2. sæti á lista Fram­sókn­ar í Reykja­vík suður. adal­steinn@recon.is

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júní 2021.

Categories
Greinar

Vel­ferð barna – fram­tíðin krefst þess

Deila grein

08/06/2021

Vel­ferð barna – fram­tíðin krefst þess

Í síðustu viku mælti undirrituð fyrir þremur frumvörpum í þingsal sem koma til með að skipta veigamiklu máli fyrir velferð barna. Þessi þrjú frumvörp má setja saman í einn pakka um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, en þau eru afurð mikillar vinnu að hálfu félags- og barnamálaráðherra yfir kjörtímabilið með það að markmiði að bæta hag allra þeirra barna hér á landi sem þurfa á þjónustu að halda. Fylgst verður með velferð barna og metin þörf fyrir þjónustu og sem mikilvægt er að samráð sé á milli þjónustuveitenda með það að markmiði að þjónustan verði samfelld og samþætt í þágu velferðar barna og fjölskyldna þeirra.

Róttækar breytingar í þágu farsældar barna

Til að ná því markmiði þarf róttækar og veigamiklar breytingar á því kerfi sem er til staðar í dag. Rauði þráðurinn í þessum róttæku og veigamiklu breytingum er snemmtæk íhlutun, þ.e. að gripið verði fyrr inn í að þjónusta börn en áður. Einnig er í fyrsta sinn kveðið á um samræmda mælikvarða sem lýsa stigskiptingu þjónustu í þágu farsældar barna. Öll þjónusta til barna í vanda verður stigskipt eftir því hversu mikil þörfin á þjónustu er. Slík „farsældarþjónusta“ er skilgreind allt frá grunnþjónustu, sem stendur öllum börnum til boða, til mjög sérhæfðrar þjónustu sem gert er ráð fyrir að einungis lítill hluti barna þurfi á að halda. Með heildstæðri mynd af stigskiptri þjónustu í þágu farsældar barna er ætlunin að stuðla að meðalhófi, skilvirkni og samfellu í veitingu þjónustu.

Snemmtæk íhlutun

Eins og áður kom fram er snemmtæk íhlutun þungamiðjan þeirra breytinga sem félags- og barnamálaráðherra hefur hrint af stað. Snemmtækri íhlutun hefur verið beitt á síðustu árum, og nokkur sveitarfélög hafa unnið slíka vinnu innan sinna raða. Sú vinna er talin hafa skilað þeim góðum árangri. Snemmtæk íhlutun er mikilvæg á fyrstu æviárunum fyrir allan síðari þroska einstaklingsins og getur því komið í veg fyrir erfiðleika síðar á lífsleiðinni. Í kjölfarið er þeim börnum fyrr veitt þjónusta en kerfið gerir ráð fyrir í dag.

Framtíðin er björt

Það liggur fyrir að kostnaður fylgi róttækum og stórum breytingum á kerfinu. Hins vegar er talið að arðsemin til lengri tíma verði gríðarleg bæði fyrir sveitarfélög og ríki. Ávinningurinn felst í minni inngripum síðar á ævinni og með því að veita umræddan stuðning sem fyrst hjá börnum er verið að skila þeim sterkari inn í fullorðinsárin. Með samþykkt þessara mála félags- og barnamálaráðherra stígum við skref í átt að því markmiði og leggjum hönd á plóg við að auka farsæld barna hér á landi.

Vegna alls þessa bind ég vonir við það að allir þingmenn á Alþingi sjái hversu jákvætt umrædd mál eru og smelli á græna takkann þegar að því kemur. Framtíðin krefst þess.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar og er í framboði fyrir flokkinn í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. júní 2021.

Categories
Greinar

Fjölgun starfa, fram­kvæmdir og menning í Hafnar­firði

Deila grein

08/06/2021

Fjölgun starfa, fram­kvæmdir og menning í Hafnar­firði

Í lok maí samþykkti bæjarráð Hafnarfjarðar áframhaldandi aðgerðir vegna Covid19 sem eru til þess fallnar að styðja enn frekar við íbúa og atvinnulíf í bæjarfélaginu. Aðgerðirnar eru aukin fjárframlög til fjölgunar starfa, til innviðauppbyggingar og til sérstakra menningarviðburða sumarið 2021.

Það birtir til

Það er sérstaklega gleðilegt að sjá hve vel okkur gengur að bólusetja hér á landi. Við erum farin að sjá vel í ljósið við enda ganganna og líf okkar færist því samhliða hægt og bítandi í rétt horf. Verkefni okkar og viðfangsefni verða þó áfram krefjandi. Það mun taka tíma að vinna úr efnahagslegum afleiðingum faraldursins; minni umsvifum fyrirtækja, auknu atvinnuleysi og minni tekjum í samfélaginu. Þó verður að hafa það í huga að tímabundnar stuðningsaðgerðir stjórnvalda hafa heppnast vel og mýkt höggið. Rauði þráðurinn í allri okkar vinnu hér í Hafnarfirði í gegnum faraldurinn hefur verið að halda uppi og tryggja góða og trausta þjónustu við íbúa ásamt því að viðhalda nauðsynlegu framkvæmdastigi.

Aukin framlög til sumarstarfa ungmenna

Samþykkt hefur verið að auka fjármagn um 250 milljónir króna í tímabundin störf. Sérstaklega mikilvægt er að tryggja þátttöku ungs fólks í vinnu og byggja upp fjölbreytta reynslu. Þessi mikla aukning verður til þess að hægt verður að fjölga störfum verulega, en í ár er gert ráð fyrir að störfum muni fjölga um 100 frá því í fyrra og verði þá um 200 störfum fleiri en eru á venjulegu ári. Störfin verða á vegum bæjarins þar sem boðið verður upp á fleiri störf í vinnuskóla, auk myndarlegrar þátttöku í atvinnuátaki stjórnvalda. Þar er boðið upp á sumarstörf fyrir námsmenn og tímabundin störf fyrir fólk í atvinnuleit. Hér er um að ræða fjölbreytt og spennandi störf og verður nýsköpunarstofan, sem sett var upp í Menntasetrinu við Lækinn síðasta sumar, m.a. nýtt.

Kröftug innspýting til framkvæmda og stuðningur við öflugt menningarlíf

Samhliða fjölgun starfa var samþykkt að bæta 340 milljónum króna í framkvæmdir í bæjarfélaginu. Þar má nefna mikla þörf í endurnýjun gangstétta í eldri hverfum auk frágangs í þeim hverfum sem nýrri eru, nauðsynlegt viðhald á skólalóðum og endurnýjun stíga og rafmagns í Hellisgerði. Faraldurinn hefur auk þess haft veruleg áhrif á allt menningarlíf og viðburðarhald undanfarna mánuði. Því hefur verið ákveðið að bæta við 5 milljónum króna til sérstakra menningarviðburða í Hafnarfirði sumarið 2021. Þar, líkt og annars staðar í samfélaginu, er nú að rofa til og ég segi að við getum farið að leyfa okkur að hlakka til hinna ýmsu viðburða. Nú stendur yfir bæjarhátíðin Bjartir dagar og mun hún standa yfir í allt sumar þar sem reynt verður að endurspegla allt það fjölbreytta menningarlíf sem til staðar er í Hafnarfirði. Auk þess styttist óðum í Hjarta Hafnarfjarðar, hátíð sem forsvarsmenn Bæjarbíós halda í góðu samstarfi við Hafnarfjarðarbæ. Hjarta Hafnarfjarðar hefst með glæsilegri dagskrá þann 7. júlí næstkomandi.

Það er bjart framundan. Förum varlega, virðum gildandi reglur en leyfum okkur að hlakka til komandi tíma. Við þurfum á því að halda.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. júní 2021.

Categories
Greinar

Breytingar í barna­vernd

Deila grein

07/06/2021

Breytingar í barna­vernd

Frumvarp um breytingar á barnaverndarlögum frá Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra hefur verið samþykkt úr velferðarnefnd. Nái frumvarpið fram að ganga munu meðal annars barnaverndarnefndir eins og við þekkjum þær lagðar af og umdæmi barnaverndarþjónustu stækkuð. Þessar breytingar eru sprottnar upp úr þeim breytingum sem eiga sér stað við samþættingu á barnaverndarþjónustu við aðra þjónustu í þágu farsældar barna, frumvörpum sem félags- og barnamálaráðherra hefur einnig lagt fram á yfirstandandi þingi. Um er að ræða fyrri hluta heildarendurskoðunar barnaverndarlaga.

Í samráði við sveitarfélögin

Gríðarmikil undirbúningsvinna hefur verið unnin og allt kjörtímabilið hefur verið haft mikið samráð við hlutaðeigandi aðila vegna þeirra breytinga sem liggja fyrir. Samráð hefur verið haft við sveitafélögin frá fyrsta stigi hugmyndanna auk þess sem þjónustuveitendur og þjónustuþegar hafa komið að borðinu. Með því að samþykkja þetta frumvarp er verið að gera miklar og umtalsverðar breytingar á umhverfi barnaverndar í sveitarfélögum, en þau bera ábyrgð á þessum málaflokki. Í dag eru 27 barnaverndarnefndir staðsettar vítt og breytt um landið. Lágmarksíbúatala að baki hverri barnaverndarþjónustu er miðuð við 1500 manns, við þessar breytingar hækkar það lágmark upp í 6000 manns.

Umdæmisráð

Gert er ráð fyrir að sett verði á stofn umdæmisráð barnaverndar sem hafi aðkomu að tilteknum ráðstöfunum barnaverndarþjónustu. Umdæmisráðin skulu vera sérstakar, sjálfstæðar og fjölskipaðar stjórnsýslueiningar á vettvangi sveitarfélaga. Sveitastjórn ber ábyrgð á því að skipa umdæmisráð sem skal starfa í fimm ár. Sveitarfélög geta gert samning sín á milli um samstarf um umdæmisráð enda er lágmarksstærð umdæmisins miðuð við 6000 íbúa. Umdæmisráðið er skipað að lágmarki þremur fagaðilum. Það skal taka ákvarðanir með úrskurði sem barnaverndarmál getur leitt af sér eins og vistun barns utan heimils, forsjársviptingu og umgengni í fóstri og eða vistun. Umdæmisráð eru sjálfstæð í störfum sínum og standa utan við almenna stjórnsýslu sveitarfélaga.

Farsæld barna í fyrirrúmi

Hér er um að ræða mestu breytingar sem ráðist hefur verið í síðustu áratugi. Verið er að gera grundvallarbreytingar á umgjörð og samsetningu barnaverndarnefnda, því í frumvarpinu felst að pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir verða lagðar niður. Þetta frumvarp er einnig partur af miklum breytingum á kerfinu sem ætlað er að gefa færi á samþættingu barnaverndarþjónustu sem veitt er í þágu barna. Þá er líka gert ráð fyrir ítarlegri þátttöku barna við meðferð sinna mála því það er réttur barna að fá upplýsingar um sín mál á barnvænan hátt. Barn frá 15 ára aldri getur veitt samþykki fyrir stuðningsúrræðum sem beinast einungis að því sjálfu svo eitthvað sé nefnd.

Hér er verið að svara þeirri gagnrýni sem hefur verið á umhverfi barnaverndar hér á landi í fjölda ára og mikilvægi þess að færa kerfið til nútímavitundar um réttindi barna.

Halla Signý Kristjánsdóttir er þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Halla Signý eru frambjóðendur til Alþingis fyrir sama flokk.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. júní 2021.

Categories
Greinar

Sjósókn – grunnur að velgengni þjóðar

Deila grein

05/06/2021

Sjósókn – grunnur að velgengni þjóðar

Sigl­ing­ar og sjó­mennska hafa alla tíð verið okk­ur Íslend­ing­um grund­völl­ur bú­setu á land­inu. Skipið er og var þar til á síðustu öld eina sam­skipta­tækið við um­heim­inn. Sjó­menn gegndu mik­il­vægu efna­hags­legu hlut­verki frá ör­ófa tíð og bægðu að auki hung­ur­vof­unni frá þegar ham­far­ir dundu yfir. Til þess að heiðra þetta dugnaðarfólk var í lög­um kveðið á um að fyrsti sunnu­dag­ur júní­mánaðar ár hvert skuli vera al­menn­ur frí­dag­ur sjó­manna og hef­ur hann verið hald­inn ár­lega frá 6. júní 1938. Alla tíð síðan hef­ur sjó­mannadag­ur­inn verið merkisat­b­urður í menn­ingu sjáv­ar­byggða. Það er því ærið til­efni til þess að senda öll­um sjó­mönn­um góðar kveðjur frá ráðuneyti sigl­inga­mála á þess­um degi.

Það sem af er þess­ari öld hef­ur at­vinnu­líf okk­ar tekið stakka­skipt­um og er orðið mun fjöl­breytt­ara en það breyt­ir því ekki að störf sjó­manna eru og verða okk­ur Íslend­ing­um mik­il­væg. Hluti af nýrri auðlegð teng­ist ekki síst afurðum frá fisk­veiðum sem áður var fleygt en færa nú gull í byggðir og nýja at­vinnu­mögu­leika fyr­ir ungt og vel menntað fólk. Næg­ir þar að nefna líf­tækniiðnaðinn sem nýt­ir slóg og roð í lyf, mat­væli og snyrti­vör­ur. Með slíkri þróun eykst enn mik­il­vægi þeirra sem sækja í þjóðarauðlind­ina, fisk­inn í haf­inu og skapa for­send­ur fyr­ir blóm­leg­ar byggðir um land allt.

Í starfi mínu sem ráðherra hafa sigl­inga­mál verið afar mik­il­væg. Þannig liggja fyr­ir Alþingi frum­vörp að nýj­um lög­um um skip sem og nýj­um lög­um um áhafn­ir. Ekki má gleyma að við höf­um gerst aðilar að og inn­leitt alþjóðleg­ar regl­ur um rétt­indi og ör­yggi áhafna flutn­inga­skipa. Í fáum starfs­grein­um eru kon­ur jafn fáar og í sigl­ing­um. Það hef­ur á und­an­förn­um árum verið sér­stök áhersla á að vekja at­hygli ungra kvenna á sigl­ing­um og sjó­mennsku sem at­vinnu. Þar er vígi að vinna og verðugt að minn­ast þess að meiri­hluta Íslands­sög­unn­ar sóttu kon­ur sjó­inn ekki síður en karl­ar.

Örygg­is­mál sjófar­enda eru mér hug­leik­in. Sjó­sókn er enn und­ir­stöðuat­vinnu­grein í þorp­um og bæj­um á lands­byggðinni. Það skipt­ir sköp­um í litl­um sam­fé­lög­um að ör­yggi sjó­manna sé sem best. Mikl­ar fram­far­ir hafa orðið í slysa­vörn­um á sjó, ekki síst með til­komu ör­ygg­is­áætl­un­ar sjófar­enda. Á síðustu árum hef­ur eng­inn far­ist á sjó, sem er gríðarleg fram­för, og slys­um fækkað. Þessi ár­ang­ur hef­ur vakið at­hygli víða um heim. Fyr­ir hon­um eru marg­ar ástæður en mig lang­ar sér­stak­lega að draga fram ómet­an­legt fram­lag Lands­bjarg­ar og Slysa­varna­skóla sjó­manna sem starf­rækt­ur er um borð í Sæ­björg. Rann­sókna­nefnd sam­göngu­slysa hef­ur held­ur ekki látið sitt eft­ir liggja í að leggja til úr­bæt­ur í ör­ygg­is­átt sem oft hafa orðið grunn­ur að auk­inni ör­yggis­vit­und sjó­manna og út­gerða. Ekki má held­ur gleyma vakt­stöð sigl­inga og Land­helg­is­gæslu sem ávallt standa vakt­ina og gæta sjófar­enda. Þá vil ég minn­ast á hags­muna­sam­tök sjófar­enda sem öll gegna mik­il­vægu hlut­verki við að upp­fræða sitt fólk. Mikl­ar um­bæt­ur hafa einnig orðið á upp­lýs­inga­kerf­um til sjófar­enda sem Vega­gerðin held­ur utan um og þróar. Veður­spár hafa verið efld­ar og upp­lýs­ing­ar um veður og sjó­lag, sjáv­ar­föll og öldu­spá eru sí­fellt upp­færðar og aðgengi­leg­ar sjófar­end­um um fjar­skipta­kerfi nán­ast hvar sem er við strend­ur lands­ins og á hafi úti. Með þess­um góðu kerf­um tryggj­um við sigl­inga­ör­yggi eins og best verður á kosið.

Í dag er enn eitt fram­fara­skrefið stigið en þá mun rann­sókna­nefnd sam­göngu­slysa veita mót­töku slysa- og at­vika­skrán­ing­ar­kerf­inu „At­vik Sjó­menn“ að gjöf frá VÍS en með því verður þetta góða kerfi opið öll­um sjó­mönn­um og út­gerðum lands­ins sem von­andi auðveld­ar inn­leiðingu ör­ygg­is­stjórn­un­ar um borð í ís­lensk­um fiski­skip­um. Þess má geta að grunn­ur að ör­ygg­is­hand­bók fyr­ir fiski­skip hef­ur verið unn­inn á veg­um fagráðs um sigl­inga­mál, sigl­ingaráðs, og er aðgengi­leg­ur öll­um. Þá vil ég vekja at­hygli á styrkj­um til hug­vits­manna með það mark­mið að þróa og auka ör­yggi sjófar­enda en þeir eru nú laus­ir til um­sókn­ar.

Á und­an­förn­um árum hafa orðið mikl­ar breyt­ing­ar á um­hverfi sigl­inga við landið. Kom­um farþega­skipa hef­ur fjölgað gríðarlega og fisk­eldi og náma­vinnsla í hafi auk­ist, sem ásamt fleiri nýj­ung­um gera aðrar kröf­ur til hafn­araðstöðu. Í þeirri sam­göngu­áætlun sem nú er í vinnslu er því gert ráð fyr­ir auknu fram­lagi til hafna. Á tím­um hraðra um­hverf­is­breyt­inga er ljóst að um­hverfið við strend­ur lands­ins mun breyt­ast mikið á kom­andi árum. Með hækk­andi sjáv­ar­stöðu aukast þarf­ir fyr­ir sjóvarn­ir og aðlög­un mann­virkja. Sam­tím­is hafa verið stig­in skref til að auka sigl­inga­ör­yggi og sigl­inga­vernd, sem og rétt­indi áhafna í hverf­ul­um heimi.

Á sjó­manna­deg­in­um er ástæða til þess að rifja upp allt það sem áunn­ist hef­ur í ör­ygg­is­mál­um og minna sjó­menn á að þeir eiga hauk í horni þar sem eru starfs­menn sam­gönguráðuneyt­is og þeirra stofn­ana sem fara með sigl­inga­mál. Þá er sigl­ingaráð mik­il­væg­ur sam­starfs- og sam­ráðsvett­vang­ur sam­taka sjó­manna og annarra hags­munaaðila við sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneytið og legg­ur ráðuneytið ríka áherslu á mik­il­vægi þess.

Að lok­um óska ég sjó­mönn­um og sam­tök­um þeirra og út­vegs­manna far­sæld­ar í mik­il­væg­um störf­um í þágu sjó­mennsku og sigl­inga.

Það er ávallt þörf á því að halda gang­andi umræðunni um ör­ygg­is­mál sjó­manna og halda áfram þeirri vinnu sem unn­in er í þágu ör­ygg­is­ins.

Ég óska öll­um sjó­mönn­um og fjöl­skyld­um þeirra til ham­ingju með dag­inn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. júní 2021.

Categories
Greinar

Al­þjóða­dagur for­eldra

Deila grein

01/06/2021

Al­þjóða­dagur for­eldra

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Í dag er alþjóðadagur foreldra. Hlutverkið er ærið en æ minni tími til að sinna því? Skólar, íþróttafélög og aðrir fagaðilar hafa tekið við hlutverki foreldra að einhverju leyti sem uppalendur. Foreldri þarf ekkert að læra til að vera heldur aðeins gera. Það segir í fyrra markmiði foreldrasáttmálans sem er víða í notkun: „Að vekja foreldra og forráðamenn til vitundar um mikilvægi þess að sýna börnum og unglingum umhyggju, virkan stuðning og setja þeim skýr mörk.‟ Ég vil hvetja foreldra að kynna sér sáttmálann. Svo skora ég á ykkur að taka hann upp, beita honum og iðka hann. Það er mikilvægt fyrir foreldra að hafa vettvang til að hittast, heyra frá öðrum hvernig þeir takast á við uppeldi. Ræða sömuleiðis þau gildi og viðhorf sem við teljum eiga erindi í foreldrasamfélagið. Foreldrasáttmálinn getur nýst sem öflugt stuðningstæki í uppeldinu.

Allt sem ætlast er til af foreldrum

Það er að mörgu að hyggja og hver telur sína leið þá bestu við uppeldið. Útivistartími, svefn, þátttaka í frístundastarfi og íþróttum, vinahópur, námið, vímuefni, sjálgfstraust, eftirlit og reglur, alnetið og samfélagsmiðlar og persónueinkenni. Já, viðfangsefnin eru mörg rétt eins og börnin sjálf.

Sömuleiðis vil ég hvetja foreldra til að lesa átjándu og nítjándu grein grunnskólalaga sem fjalla einmitt um foreldra. Þetta er skýrt; foreldrar skulu gæta hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri. Og svo þetta; Foreldrar bera ábyrgð á námi barna sinna og ber þeim að fylgjast með námsframvindu þeirra í samvinnu við þau og kennara þeirra.

Sterkustu bandamenn skólanna eru foreldrar

Væntir skólinn einhvers af foreldrum? Já. En það er sömuleiðis hlutverk skóla að upplýsa foreldra hvernig þeir geta stutt við barn sitt, t.d. með því að eiga samræður heima um nám og skóla. Að hlusta. Nám í dag er ekki eins og nám fyrir átján árum. Skólinn væntir þess að foreldrar kynni sér nám barna sinna og þær reglur sem gilda í skólanum. Það er algjörlega nauðsynlegt að foreldrar tali af virðingu um skólann og námið svo börnin heyri. Foreldrar þurfa að fá tækifæri til að taka þátt í námi barna sinna og skólastarfinu almennt. Að halda í gamlar hugmyndir um skólann er hætt við að það hindri nýjungar og tilraunir í skólastarfinu. Þróun er nauðsynleg til að tryggja framtíð nemenda.

Hvað viltu segja við sjálfan þig sem barn?

Já, þau læra af okkur fullorðna fólkinu. Veltu því fyrir okkur hvernig fyrirmyndir við erum. Leyfum við okkur að tala illa um annað fólk, önnur börn, þegar börnin okkar heyra? Eða um vinnuna okkar og samstarfsfélaga. Hvað viltu segja við sjálfan þig þegar þú varst tólf ára ef þú vissir allt sem þú veist í dag? Hvaða boðskap berum við áfram til næstu kynslóðar í hraðadýrkandi neysluveröld?

Hjálmar Bogi Hafliðason, kennari og sveitarstjórnarfulltrúi í Norðurþingi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. júní 2021.

Categories
Greinar

Börnin okkar og betra samfélag

Deila grein

31/05/2021

Börnin okkar og betra samfélag

Ekk­ert í heim­in­um er mik­il­væg­ara en börn­in okk­ar – vellíðan þeirra, ham­ingja og framtíðar­tæki­færi. Það er skylda stjórn­valda að gera allt hvað þau geta svo öll börn vaxi og dafni. Finni sig í skóla og tóm­stund­a­starfi, njóti jafnra tæki­færa óháð bak­grunni og fé­lags­leg­um aðstæðum. Við vilj­um að öll börn fái örvun við hæfi, hvatn­ingu og mennt­un sem legg­ur grunn­inn að framtíð þeirra. Stuðning í erfiðum aðstæðum og hjálp hvenær sem þau þurfa á henni að halda.

Það er leiðarljós Fram­sókn­ar­flokks­ins eins og verk­in sýna, bæði fyrr og síðar. Á þessu kjör­tíma­bili höf­um við breytt fé­lags­kerf­inu og lagað að hags­mun­um barna. Við höf­um eflt og ein­faldað þjón­ustu við börn og fjöl­skyld­ur þeirra, lengt fæðing­ar­or­lof, ráðist í kerf­is­breyt­ing­ar í skóla­kerf­inu, stutt sér­stak­lega við fá­tæk börn og ráðist í mik­il­væg verk­efni til að styrkja stöðu barna af er­lend­um upp­runa. Ný­samþykkt mennta­stefna tek­ur fyrst og fremst mið af þörf­um barna og vinna er haf­in við breyt­ing­ar á sam­ræmdu náms­mati, þar sem hags­mun­ir stofn­ana munu víkja fyr­ir hags­mun­um barna. Í Covid var gríðarleg áhersla lögð á að halda skól­un­um opn­um, til að tryggja mennt­un barna og lág­marka áhrif heims­far­ald­urs á líf þeirra. Það tókst og sam­an­b­urður við önn­ur lönd sýn­ir glögg­lega að ár­ang­ur­inn er merki­leg­ur, því víða voru skól­ar lokaðir með ófyr­ir­séðum lang­tíma­áhrif­um á börn. Við höf­um sagt lestr­ar­vanda barna stríð á hend­ur og gripið til aðgerða til að efla lesskiln­ing. Útgáfa nýrra barna- og ung­linga­bóka hef­ur stór­auk­ist vegna póli­tískr­ar stefnu um stuðning við ís­lenska bóka­út­gáfu.

Það eru ekki nýj­ar frétt­ir að Fram­sókn­ar­flokkn­um sé um­hugað um börn og fjöl­skyld­ur lands­ins. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn inn­leiddi á sín­um tíma feðra­or­lof, rétt­ar­bót sem þótti frum­leg í fyrstu en öll­um þykir sjálf­sögð í dag. Ávinn­ing­ur barna og for­eldra af breyt­ing­unni er ómæld­ur og fjöl­skyldu­tengsl­in sterk­ari.

En við vilj­um gera enn bet­ur, fyr­ir börn úr öll­um átt­um. Búa svo um hnút­ana að öll börn fái jöfn tæki­færi og þjón­ustu við hæfi, til dæm­is sál­fræðiþjón­ustu sem nú er bæði af skorn­um skammti og kostnaðar­söm fyr­ir for­eldra. Slík þjón­usta á að vera eins og önn­ur heil­brigðisþjón­usta; aðgengi­leg fyr­ir alla enda brýnt að leysa úr vanda á fyrstu stig­um hans, en ekki bíða eft­ir því að barnið vaxi og vand­inn með.

Full­orðið fólk, bæði í fjöl­skyld­um og flokk­um, á að kenna börn­um á lífið. Vekja for­vitni þeirra og áhuga á heim­in­um, sjálf­um sér og öðrum. Hjálpa þeim að finna sína styrk­leika, tjá sig, leika sér og læra. Í því verk­efni ætl­ar Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn ekki að láta sitt eft­ir liggja og við vilj­um að Ísland verði barn­vænsta sam­fé­lag í heimi. Taktu þátt í því með okk­ur.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. maí 2021.

Categories
Greinar

Til al­manna­heilla

Deila grein

28/05/2021

Til al­manna­heilla

Á dögunum voru samþykkt ný lög frá Alþingi. Í þeim fellst m.a. að lögaðilar sem starfa til almannaheilla eru undanþegnir tekjuskatti af tilgreindum fjármagnstekjum, fest hefur verið í sessi heimild þeirra til að fá endurgreidd 100% virðisaukaskatts af vinnulið vegna byggingarvinnu, hlutfall frádráttarheimildar atvinnurekenda vegna fjárframlaga til almannaheilla tvöfaldist í tilteknum tilvikum og einstaklingum er heimilt að draga tiltekin fjárframlög til lögaðila sem starfa til almannaheilla frá skattskyldum tekjum að nánari skilyrðum uppfylltum. Þetta mál er ekki dottið af himnum ofan heldur hefur átt sér töluverðan aðdraganda.

7 ára meðganga

Upphaf málsins má rekja til þingsályktunartillögu sem Willum Þór Þórsson flutti á 143. löggjafarþingi 2013-2014. Tillagan hljóðaði upp á endurskoðun á virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar og fól í sér að íþrótta- og ungmennafélög yrðu undanþegin virðisaukaskatti af starfsemi sinni að öllu leyti ásamt því að íþrótta- og ungmennafélög fengju heimild til að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af byggingu íþróttamannvirkja á íþróttasvæðum sínum, vinnulaunum og efniskaupum. Willum lagði áherslu á að mikilvægt væri að skoða efnahagslegt mikilvægi íþrótta og áhrif skipulagðs íþróttastarfs á vegum íþróttahreyfingarinnar í víðu samhengi. Hlutverk ríkisins hlyti að vera að tryggja sem besta umgjörð og aðbúnað fyrir almennings- og afreksíþróttir þjóðinni til heilla. Íþróttahreyfingin væri þjóðhagslega mikilvæg og meginmarkmið tillögunnar væri að leggja til að ríkisstjórnin kæmi að því að efla skipulagða íþróttastarfsemi ásamt þátttöku foreldra og annarra.

Þingsályktunin náði ekki fram að ganga á þessum tíma. Willum Þór Þórsson lagði málið fram aftur en í breyttri mynd sem frumvarp á 144. löggjafarþingi og aftur á 145. löggjafarþingi. Frumvarpið var til breytinga á lögum um virðisaukaskatt og miðaði að því að breyta virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar með sama hætti og lagt er til í þingsályktunartillögunni. Fjármála- og efnahagsráðherra hafði á þessum tíma skipað stýrihóp til að endurskoða reglur um virðisaukaskatt og vörugjöld í því skyni að einfalda og bæta skilvirkni kerfisins og lagði nefndin til að þessar tillögur yrðu teknar til skoðunar hjá stýrihópnum.

Hugmyndin þróast áfram

Á 145. löggjafarþingi lagði atvinnuveganefnd undir formennsku Jóns Gunnarssonar fram frumvarp til laga um endurgreiðslu til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda. Með frumvarpinu var lagt til að setja á fót sérstakt endurgreiðslukerfi til að efla hvers kyns starfsemi félagasamtaka til almannaheilla hér á landi. Með frumvarpinu var lögð til heimild til að endurgreiða félagasamtökum til almannaheilla fjárhæð sem nemur virðisaukaskatti vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda. Markmiðið með frumvarpinu var að styðja við starfsemi félagasamtaka af þessu tagi, til að mynda til að hvetja til uppbyggingu á ýmiss konar aðstöðu. Frumvarpið fékk ekki afgreiðslu á 145. löggjafarþingi og var endurflutt á 148. og 149. löggjafarþingi.

Starfshópur skipaður

Hinn 1. apríl 2019 skipaði fjármála- og efnahagsráðherra starfshóp sem falið var að leggja fram tillögur að breytingum á þeim lögum sem giltu um skattlagningu starfsemi sem félli undir þriðja geirann. Hitann og þungann af þeirri vinnu báru Óli Björn Kárason og Willum Þór Þórsson. Af framangreindu er ljóst að umræða um breytingar á skattalegu umhverfi lögaðila sem starfa til almannaheilla og falla undir þriðja geirann, með það að markmiði að efla það mikilvæga starf sem þar fer fram, hefur átt nokkurn aðdraganda.

Mikilvægt skref

Það var mjög ánægjulegt fyrir mig að fá að vera framsögumaður á þessu máli og fá að taka þátt í þessu verkefni því að það voru aðrir þingmenn sem hafa borið hitann og þungann af því. Þetta er eitt af þeim málum sem margir hafa beðið eftir sem starfa í þessum geira. Fyrst og fremst snýr þetta að óhagnaðardrifnum félögum þar sem fólk leggur mikið á sig með ókeypis vinnuframlagi. Þessi nýju lög koma til með að efla og styrkja starfsemi sem er öllum til heilla hvar sem er, því að mörg eru félögin og starfsemin fjölbreytt. Hér er verulega verið að koma til móts við alla mikilvægu starfsemi sem unnin er í þessum félögum. Það er dásamlegt að vera þingmaður þegar svona mál eru afgreidd. Til hamingju allir þeir sem lögðu á sig mikla vinnu síðustu ár til þess að ná þessum breytingum fram. Áfram veginn!

Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi og frambjóðandi til Alþingis fyrir sama flokk.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. maí 2021.

Categories
Greinar

Vegir hálendisins

Deila grein

28/05/2021

Vegir hálendisins

Framtíðarsýn fyrir þjóðvegi á hálendinu er mikilvægari nú en nokkru sinni fyrr. Viðfangsefnið er spennandi þar sem margir ólíkir hagsmunir koma að. Vegakerfið á þjóðvegum landsins fylgir ákveðinni stefnu í samgönguáætlun, en á hálendinu eru tækifæri til að móta skýra sýn. Hægt er að fara margar leiðir í því. Á meðan uppbygging vega er þyrnir í augum sumra er hún tækifæri í augum annarra sem vilja gott aðgengi að hálendi Íslands, óháð fararskjótum. Í mínum huga er mikilvægt að móta framtíðarsýn um það hvaða vegi við viljum að séu greiðfærir og uppbyggðir svo allir komist og hvaða vegi við viljum að aðeins að vel útbúnar bifreiðar komist yfir.

Aðgengi fyrir alla

Með auknum ferðalögum fólks inn á hálendi Íslands og fjölgun ferðamanna undanfarinn áratug hafa augu fólks opnast fyrir nauðsyn þess að byggja upp innviði á hálendinu. Stofnvegirnir eru lífæð hálendisins, Kjalvegur, Sprengisandsleið, Kaldadalsvegur og Fjallabaksleið Nyrðri eiga að geta þjónað allri almennri umferð. Vegirnir eru núna lítið sem ekkert uppbyggðir og aðeins færir vel búnum bifreiðum. Töluvert vantar upp á að allir hafi jafnan aðgang og geti upplifað dulmögnuð svæði hálendisins.

Sú stefna sem er sett fram í landsskipulagsstefnu um samgöngur á miðhálendinu byggist á þeirri stefnu sem sett var með svæðisskipulagi miðhálendisins. Þar var gert ráð fyrir að stofnvegir um miðhálendið skyldu vera byggðir upp sem góðir sumarvegir með brúuðum ám og færir fólksbílum.

Kjalvegur

Kjalvegur er til að mynda stofnleið með töluverða umferð, þverar landið frá suðri til norðurs og er annar tveggja þekktustu fjallvega landsins. Vegurinn er að stærstum hluta malarvegur. Annars vegar eru rúmlega 53 km niðurgrafnir, krókóttir og sums staðar mjór. Hins vegar hafa rúmlega 107 km verið byggðir upp, þar af tæplega 19 km með bundnu slitlagi. Umferð um Kjöl hefur aukist. Svæðið er magnað eins og við þekkjum, vinsælt útivistarsvæði og dregur að sér fjölbreyttan hóp ferðamanna, hestafólk, göngufólk, skíðafólk, hjólafólk, þá sem fara um á bifreiðum o.fl. Víða myndast stórir pollar í vegum hálendisins sem gerir það að verkum að menn leita út fyrir þá og er því töluverður utanvegaakstur meðfram þeim. Með ört vaxandi umferð er mikilvægt að hægt sé að gera lagfæringar og hugsa til framtíðar eins og Vegagerðin hefur gert, í þeim tilgangi að gera viðhald auðveldara, með því að vinna að styrkingu og lítillega að uppbyggingu, þó aðeins á stuttum köflum í senn.

Fyrirvarar þingflokks Framsóknar við miðhálendisþjóðgarð

Þingflokkur Framsóknar fjallaði um uppbyggingu Kjalvegar í fyrirvörum sínum við frumvarp um miðhálendisþjóðgarð. Fyrirvara um að nauðsynlegt sé að viðurkenna og setja inn í frumvarpstexta að byggja þurfi upp vegi t.a.m. Kjalveg og setja fjármuni í umhverfismat og hönnun. Einnig voru fyrirvarar um að jaðarsvæðið taki tillit til uppbyggingar Kjalvegar og skipulags annarra vega með beinni skírskotun til skipulags og umráðaréttar sveitarfélaga.

Orkuskipti

Þá staðfesti ég fyrir tveimur árum síðan samning við Neyðarlínuna um lagningu ljósleiðara milli Hveravalla og Blöndudals. Að því verkefni loknu komst á óslitin ljósleiðaratenging milli Suðurlands og Norðurlands sem bætir bæði öryggi og afkastagetu grunnkerfis fjarskipta hér á landi. Samhliða lagningu ljósleiðara um Kjöl var lagður raforkustrengur sem leysir af hólmi dísilvélar sem rekstraraðilar hafa hingað til reitt sig á. Raforkustrengurinn er liður í því að tryggja að Ísland nái  markmiðum Parísarsamkomulagsins til 2030 og markar framtíðarsýn fyrir Kjöl og þá uppbyggingu þarf að vera til staðar svo flestir geti notið þess að fara um á fjölbreyttum fararskjótum. Rafstrengurinn er með flutningsgetu sem í náinni framtíð verður hægt að nýta til að setja upp hleðslustöðvar fyrir rafknúna umferð um Kjalveg. Og vegna þess að við erum jú í orkuskiptum í samgöngum verða innviðirnir að haldast í hendur við nýja tíma því innan fárra ára verðar flestir bílar rafmagnsbílar.

Öryggi umfram allt

Ef horft er til umfangs ferðamennsku á hálendinu er það brýnt öryggismál í mínum huga að innviðir, hvort um er að ræða vegi eða fjarskipti geti þjónað þeim sem um svæðið fara. Til að hægt sé að uppfylla kröfur um að allir hafi sama aðgang og uppfylla ákvæði vegalaga um frjálsa för fólks um þjóðvegi þá þarf uppbygging innviða að miðast við að rafmagnsbílar komist um, hvort sem um er að ræða fólksbíla, jeppa eða rútur seinna meir. Rafstrengurinn á Kjalvegi boðar byltingu og dísilolía á tunnum heyrir nú sögunni til. Enginn þarf lengur að koma að köldum og saggafullum húsum utan mesta hlýindatímans. Þetta skapar alveg nýja möguleika og tækifæri fyrir fólk til að njóta útivistar á hálendinu. Ég vona að sem flestir sjái sér fært að njóta hálendisins, því hvergi er betra að vera, hvort sem er ríðandi eða akandi, við smalamennsku eða sem ferðamaður.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 27. maí 2021.