
15/08/2022
Þingmenn Framsóknar í Norðaustur kjördæmi bjóða í kaffispjall
15/08/2022
Þingmenn Framsóknar í Norðaustur kjördæmi bjóða í kaffispjall
20/06/2022
Geðheilbrigði er lýðheilsumálÁ lokadögum þingsins var stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 samþykkt. Stefnan ber með sér að rík áhersla er lögð á grunngildi sem hvetja til einstaklingsmiðaðrar heilbrigðisþjónustu á félagslegum grunni og stuðning í heilsueflingu á öllum æviskeiðum.
Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að auka skuli áherslu á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðisþjónustu. Ýmsu hefur verið áorkað undanfarin ár en ljóst er að enn skortir heildstæða og samhæfða nálgun í geðheilbrigðismálum. Það á við allt frá geðrækt, forvörnum og snemmbærum úrræðum til geðheilbrigðisþjónustu á öllum stigum og á milli velferðarþjónustukerfa og við dómskerfi.
Stefnan tekur mið af framangreindu og er sett fram með hliðsjón af fjórum kjarnaþáttum og áherslum, sem munu endurspeglast í þeim aðgerðum sem heilbrigðisráðuneytið mun móta.
Það skiptir miklu máli að við leggjum áherslu á mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og tryggjum að úrræði verði til staðar sem veitir viðeigandi þjónustu til þeirra barna sem eiga við geðræn vandamál að stríða. Aukin þekking og reynsla hefur leitt af sér aukinn skilning á mikilvægi þessa tímabils í lífi einstaklinga.
Hvaða varðar geðheilsu og vellíðan er mikilvægt að litið verði til fyrstu 1000 daga barnsins, sbr. skýrslu landlæknis um framtíðarsýn og tillögur að aðgerðum frá því í júní árið 2021.Í henni eru lagðar fram aðgerðir sem brýnt er að ráðast í á næstu árum. Þá er einnig mikilvægt að skoða sóknarfæri til að efla geðheilsu í æsku og líta þar til verndandi þátta sem vega hvað þyngst hvað hana varðar er tengjast æskuárunum.
Varðandi gagnreyndar og fjölbreyttar aðferðir við meðferð geðraskana er mikilvægt að nýta í ljósi bestu þekkingar sem fyrir hendi er hverju sinni. Auk þess ber að leggja áherslu á þverfaglega mönnun og fjölgun fagstétta. Heildræn geðheilbrigðisþjónusta á að vera samþætt og byggð á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð og endurhæfingu.
Stefnan gerir ráð fyrir stofnun Geðráðs þar sem allir helstu hagsmunaaðilar, stjórnvöld, fagfólk, notendur og aðstandendur koma saman og fjalla um málaflokkinn. Lagt er áherslu á að samhliða stofnun þess taki upp svokallað mælaborð geðheilsu. Slíkur gagnagrunnur væri til þess fallinn að auðvelda vinnslu og aðgengi að upplýsingum um geðheilbrigðismál og átta sig betur á stöðunni hverju sinni.
Hér er um mikilvægt framfararskref að ræða og með samþykkt þessarar stefnu í geðheilbrigðismálum erum við að senda skýr skilaboð.
Skilaboð um að við ætlum að fjárfesta í geðheilsu fólks. Fjárfesta í fólki. Það skiptir máli að við tökum utan um þennan málaflokk af festu með framtíðarsýn að leiðarljósi.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins
Greinin birtist fyrst á visir.is 16. júní 2022.
13/06/2022
Bréf frá ÍslandiUm þessar mundir er þess minnst að 250 ár eru liðin frá merkum vísindaleiðangri sem Englendingurinn sir Joseph Banks leiddi til Íslands árið 1772. Með honum í för og einna fremstur þeirra vísindamanna sem þátt tóku í leiðangrinum var hinn sænski Daniel Solander, náttúrufræðingur og fyrrverandi nemandi Linnæusar við Uppsalaháskóla.
Daniel Solander fæddist árið 1733 í Norðurbotni og það kom brátt í ljós að hann var góðum hæfileikum búinn. Solander er lýst af samtímafólki sem vinsælum og heillandi manni sem klæddist iðulega litríkum fatnaði. Að loknu námi í Uppsölum leiddi vísindastarfið Solander til Lundúna þar sem hann hóf störf við British Museum sem sérfræðingur í flokkunarkerfi Linnæusar. Í kjölfarið varð hann jafnframt samstarfsmaður Josephs Banks, hins fræga enska náttúrufræðings. Áður en af Íslandsförinni varð tóku þeir Banks meðal annars þátt í miklum landkönnunarleiðangri um Kyrrahafið með Cook kafteini og varð Solander þá fyrstur Svía til að sigla umhverfis hnöttinn.
Sir Lawrence, skipið sem bar leiðangursmenn frá Bretlandi, sigldi þann 29. ágúst inn Hafnarfjörð. Solander hélt rakleiðis til Bessastaða á fund stiftamtmanns og amtmanns og hétu embættismennirnir fullum stuðningi við leiðangurinn. Sir Lawrence fékk m.a. leyfi til að kasta akkerum í Hafnarfirði, en til þess þurfti leyfi vegna einokunarverslunar Dana sem enn var við lýði.
Ferðalöngunum var tekið með kostum og kynjum hér á landi. Þeir nutu félagsskapar frammámanna í samfélaginu, stunduðu náttúrurannsóknir, söfnuðu ýmsum ritheimildum og skrásettu jafnframt líf og aðbúnað í landinu í máli og myndum. Einn af hápunktum leiðangursins var ferð um Suðurland þar sem m.a. var gengið á Heklu.
Hinn 9. október 1772 sigldi Sir Lawrence aftur frá Hafnarfirði og áleiðis til Bretlands með gögn um náttúru, samfélag og sögu. Þessi tiltölulega stutta heimsókn til Íslands markaði djúp spor.
Með í leiðangrinum til Íslands var Uno von Troil sem síðar varð erkibiskup í Uppsölum. Hann skrifaði bók um ferð þessa, Bref rörande en resa till Island eða Bréf frá Íslandi, sem var gefin út árið 1777. Bók Uno von Troil var næstu ár á eftir þýdd á þýsku, ensku, frönsku og hollensku. Bókin seldist vel og var prentuð í nokkrum upplögum. Lýsing hans á Íslandi hafði mikil áhrif í Evrópu 18. aldar og vakti áhuga nágranna okkar á landi og þjóð.
Áhrifa leiðangursins varð ekki síst vart í Svíþjóð, þar sem Bréf frá Íslandi átti þátt í að skapa tilfinningu fyrir djúpum tengslum þjóðanna, í gegnum tungumál, sögu og menningu. Sambland af sögulegri tengingu Íslands og Svíþjóðar, forvitni og félagslyndum eiginleikum Solanders og von Troils ásamt einstakri þekkingu þeirra skipti sköpum fyrir leiðangurinn. Mennirnir tveir mynduðu sterk tengsl við íslensku gestgjafana í gegnum sameiginlegan bakgrunn í norrænu tungumáli, menningu og sögu.
Í samstarfi við menningar- og viðskiptaráðuneytið mun sænska sendiráðið standa fyrir mikilli dagskrá tengdri rannsóknarferð Daniels Solanders sem mun standa yfir í tvö ár með þátttöku um 30 íslenskra samstarfsaðila. Þema verkefnisins er Solander 250 – Bréf frá Íslandi. Tímamótaárið einkennist af nánu samtali lista og vísinda. Það er þvermenningarlegt og opnar á samtal milli norðurskauts- og Kyrrahafssvæðisins og innan Norðurlanda. Tímamótaárið lítur jafnframt fram á við, inn í sameiginlega framtíð okkar. Verkefnið snýst um samtal vinaþjóðanna Íslendinga og Svía um sameiginlega sögu, sem og loftslag, náttúru og menningu í fortíð, nútíð og framtíð.
Einstök listasýning er hornsteinn tímamótaársins. Í samstarfi við Íslenska grafík hefur tíu íslenskum listamönnum verið boðið að hugleiða Ísland, Solander og leiðangurinn árið 1772. Listamennirnir sem taka þátt í því eru Anna Líndal, Aðalheiður Valgeirsdóttir, Daði Guðbjörnsson, Gíslína Dögg Bjarkadóttir, Guðmundur Ármann Sigurjónsson, Iréne Jensen, Laura Valentino, Soffía Sæmundsdóttir, Valgerður Björnsdóttir og Viktor Hannesson. Tíu grafíklistaverk þeirra mynda sýningu sem heitir Solander 250: Bréf frá Íslandi. Sýningin verður formlega vígð í Hafnarfirði í ágúst.
Sýning þessi verður sýnd á ellefu stöðum víðsvegar um Ísland ásamt listasýningunni Paradise Lost – Daniel Solander’s Legacy og inniheldur verk eftir tíu listamenn frá Kyrrahafssvæðinu sem áður hafa verið sýnd á Nýja-Sjálandi, í Ástralíu og Svíþjóð. Þetta er einstakur viðburður, samtal í gegnum list milli norðurslóða og Kyrrahafs, hér á Íslandi. Vonast er einnig til þess að þetta veki áhuga meðal hinna fjölmörgu erlendu gesta Íslands. Auk þess er ætlunin, með öllu verkefninu árin 2022 og 2023, að vekja áhuga og forvitni barna á náttúruvísindum og stórkostlegri flóru Íslands. Við sendum vissulega bréf frá Íslandi með þönkum um listir og vísindi, um menningartengsl og um sameiginlega framtíð okkar!
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og
Pär Ahlberger sendiherra Svíþjóðar á Íslandi.
Greinin birtist fyrst á mbl.is 11. júní 2022
12/05/2022
Framboðslistar Framsóknar 2022Við í Framsókn göngum bjartsýn til þessara kosninga. Góður árangur næst sem fyrr með samstöðu og að allir leggist á eitt. Framsókn er stjórnmálaaflið til að standa við orð sín og gerðir. Við erum rétt að byrja!
05/05/2022
Að kjósa utan kjörfundarAllir þeir sem ekki komast á kjörstað þann 14. maí nk. geta kosið utankjörfundar. Dómsmálaráðuneytið hefur undirbúið leiðbeiningarmyndbönd á íslensku og ensku um hvernig er kosið utan kjörfundar í sveitarstjórnarkosningum.
Hægt er að kjósa hjá sýslumönnum um land allt. Á vefsíðu sýslumanna má sjá hvar og hvenær hægt er að kjósa. Á höfuðborgarsvæðinu fer utankjörfundaratkvæðagreiðsla fram í Holtagörðum á 2. hæð.
Á kjördag laugardaginn 14. maí verður opið frá kl. 10:00-17:00 fyrir kjósendur sem eru á kjörskrá utan höfuðborgarsvæðisins.
Þau sem eru erlendis geta kosið á skrifstofu sendiráðs, í sendiræðisskrifstofu eða í skrifstofu kjörræðismanns. Á vef utanríkisráðuneytisins eru að finna frekari upplýsingar.
Hægt er að kjósa á sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra, stofnunum fyrir fatlað fólk og í fangelsum. Tilkynnt verður um slíka kosningu á hverju heimili, sjúkrahúsi eða stofnun fyrir sig.
Kjósandi, sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, er heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi nema hann geti kosið á sjúkrahúsi, dvalarheimili, fangelsi eða á stofnun. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans og bera fram við sýslumann eigi síðar en kl. 10. tveimur dögum fyrir kjördag.
03/05/2022
Sveitarstjórnarframboð – hlekkir á framboðinAkranes – heimasíða – stefnuskrá
Akureyri – heimasíða – stefnuskrá
Fjarðabyggð – heimasíða – stefnuskrá
Grindavík – heimasíða – stefnuskrá
Húnaþing vestra – heimasíða – stefnuskrá
Ísafjarðarbær – heimasíða – stefnuskrá
Norðurþing – heimasíða – stefnuskrá
Rangárþing eystra – heimasíða – stefnuskrá
Skagafjörður – heimasíða – stefnuskrá
Suðurnesjabær – heimasíða – stefnuskrá
27/04/2022
LANDSÞINGI LFK FRESTAÐ!Vegna fjölda áskorana hefur framkvæmdastjórn LFK ákveðið að fresta á ný fyrirhuguðu landsþingi félagsins þann 30. apríl nk. Ástæða þessa er nálægð við sveitastjórnarkosningar þann 14. maí og ljóst að stór hluti Framsóknarkvenna standa nú í stafni í sinni heimabyggð og kraftar þeirra best nýttir þar flokknum okkar til framdráttar. Það er LFK mikilvægt að landsþingið sé vel sótt og að sem flestar konur sjái sér fært að taka þátt og þannig efla stöðu kvenna innan sérsambandsins, flokksins og í stjórnmálaþátttöku almennt.
Ný dagsetning fyrir Landsþing LFK verður auglýst þegar nær dregur.
Gangi okkur öllum vel í slagnum sem framundan er.
Áfram veginn!
11/04/2022
Framsókn í verðmætasköpunKröftugt atvinnulíf er forsenda þess að við eflum okkar bæ, löðum að nýja íbúa og tryggjum að unga fólkið okkar geti snúið heim aftur eftir nám. Við í Framsókn leggjum áherslu á gott samstarf við atvinnulífið og að við tölum okkur upp sem öflugt atvinnusvæði.
Hlutverk sveitarfélagsins er að markaðssetja bæinn sem öflugt atvinnusvæði, móta skipulag sem býður upp á atvinnuþróun, vera vakandi fyrir tækifærum í ytra umhverfi, styrkja við nýsköpun, tryggja raforku og í samstarfi við atvinnulífið kynna fyrir nemendum störf tengd verk- og tæknigreinum.
Sem dæmi kom fram á opnum fundi um sjávarútveg á Akureyri á dögunum að aðeins 7% fiskafla er fluttur óunninn úr landi, rest er unnið hér innanlands. Þannig skapast störf. Á sama tíma flytur Noregur helming síns afla óunninn úr landi.
Á ársfundi Norðurorku var erindi sem fjallaði um uppbyggingu Skógarbaðanna og magnað að sjá þann metnað sem lagður var í að leggja lagnir og hjóla- og göngustíg á mettíma. Hömpum því sem vel er gert.
Á Eyjafjarðarsvæðinu hefur matvælaframleiðsla lengi verið ein af mikilvægustu atvinnugreinunum. Af því hafa skapast fjöldi afleiddra starfa og skipt sköpum í verkefnastöðu margra fyrirtækja í bænum, svo sem Frost, Vélfag, Slippurinn, verkfræðistofur eins og Mannvit, Efla og Raftákn og lengi mætti telja.
Það er mikill gróska í byggingariðnaði og fyrirtæki eins og SS Byggir, BE Húsbyggingar, Húsheild, Trétak, BB Byggingar blómstra sem aldrei fyrr ásamt fleiri fyrirtækjum. Verktakar í mannvirkjageiranum eru margir hverjir öflugir eins og Áveitan, Bútur, Rafeyri, Rafmenn, Múrey, Blikkrás og Blikk og tækni. Það er gaman að sjá verktakafyrirtæki eins og Nesbræður vaxa hratt á öflugum verktakamarkaði ásamt Finni ehf, GV Gröfum og G. Hjálmarssyni.
Við í Framsókn hlökkum til að heimsækja fyrirtæki á Akureyri á næstu vikum og fræðast enn frekar um starfsemi þeirra því við trúum á framsókn í verðmætasköpun. Það er nefnilega þannig að við byggjum ekki upp það velferðarsamfélag sem við viljum búa í nema vegna þeirra öflugu fyrirtækja sem starfa í bænum.
Sunna Hlín Jóhannesdóttir, oddviti Framsóknarflokksins á Akureyri.
Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 11. apríl 2022.
22/03/2022
Ragnar B. Sæmundsson leiðir lista Framsóknar og frjálsra á AkranesiFramboðslisti Framsóknar og frjálsra á Akranesi var kynntur og samþykktur á flokksfundi á Breiðinni fyrir skemmstu.
Oddviti listans verður Ragnar B Sæmundsson bæjarfulltrúi og verslunarmaður.

Listinn í heild er þannig:
Nr. 1. Ragnar Baldvin Sæmundsson, verslunarmaður og bæjarfulltrúi
Nr. 2 Liv Åse Skarstad, verkefnastjóri
Nr. 3. Sædís Alexía Sigurmundsdóttir, verkefnastjóri
Nr. 4. Magni Grétarsson, byggingatæknifræðingur
Nr. 5. Aníta Eir Einarsdóttir, hjúkrunarnemi
Nr. 6. Guðmann Magnússon, löggildur áfengis- og vímuefnaráðgjafi
Nr. 7. Elsa Lára Arnardóttir, aðstoðarskólastjóri og bæjarfulltrúi
Nr. 8. Ellert Jón Björnsson, fjármálastjóri
Nr. 9. Martha Lind Róbertsdóttir, forstöðumarður búsetuþjónustu fatlaðra
Nr. 10. Róberta Lilja Ísólfsdóttir, lögfræðinemi og knattspyrnukona
Nr. 11. Monika Górska, verslunarmaður
Nr. 12. Jóhannes Geir Guðnason, birgðastjóri og viðskiptafræðingur
Nr. 13. Sigrún Ágústa Helgudóttir, þjónusturáðgjafi
Nr. 14. Eva Þórðardóttir, stuðningsfulltrúi og tækniteiknari
Nr. 15 Sigfús Agnar Jónsson, vélfræðingur og vaktstjóri
Nr. 16. Þórdís Eva Rúnarsdóttir, framhaldsskólanemi
Nr. 17. Þröstur Karlsson, vélstjóri
Nr. 18. Gestur Sveinbjörnsson, eldriborgari, fyrrum sjómaður.
16/03/2022
Við drögum ekki orkuna upp úr hattiÞað virðist sem að á síðustu árum hafi ríkt ákveðin hræðsla að ræða orkumál á Íslandi sem leitt hefur til ákveðnar stöðnunar hér á landi. Skort hefur hugrekki til þess að taka þessa umræðu af fullri alvöru og afleiðingarnar blasa við okkur. Staðan í orkumálum er alvarleg, ný útgefin grænbók – stöðuskýrsla áskorana í orkumálum staðfestir það. Áframhaldandi orkuskortur er fram undan og þá eru til staðar flutningstakmarkanir á milli landsvæða, það á tímum þegar græn orka hefur aldrei verið mikilvægari.
Takmarkað hefur verið virkjað á undanförnum árum miðað við eftirspurn og engin ný virkjun yfir 10 MW hefur fengið virkjunarleyfi sl. 5 ár, en veitt hafa verið virkjunarleyfi fyrir aflaukandi aðgerðum í vatnsafls og jarðvarmavirkjunum sem og fyrir allnokkrum smávirkjunum. Þær sviðsmyndir sem dregnar eru upp í Grænbókinni um aukna orkuþörf Íslands með vísan í loftslagsmarkmið spanna allt frá lítilli sem engri viðbót við raforkuframleiðslu Íslands til ríflega tvöföldunar hennar eða 124% aukningar fram til ársins 2040. Allt eftir því hvort stefnt er að stöðnun eða auknum hagvexti.
Verndun og nýting getur haldist í hendur eins og dæmin hafa sannað. En mikilvægt er að framtíðarorkuvinnslu sé fundin staður í skipulagi þar sem mest sátt ríkir um staðsetningu þeirra, jafnframt sem að umhverfisáhrif verði lágmörkuð eins og kostur er.
Stærsta framlag Íslands til loftlagsmála er nýting þjóðarinnar á grænni orku. Í dag státar engin önnur þjóð af jafn mikilli nýtingu á grænni orku líkt og við Íslendingar gerum. 85-90% af allri orku sem Íslendingar nota er græn orka. Við getum verið stolt af því. Þá skilaði þverpólitísk nefnd orkustefnunni til ársins 2050 í mikilli sátt og horfa stjórnvöld á þá stefnu sem leiðarljós inn í framtíðina. Í stefnunni voru sett metnaðarfull markmið þar sem lögð er áhersla á að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneti fyrir 2050.
Þá tilkynnti Forsætisráðherra efld markmið Íslands í loftlagsmálum á leiðtogafundi í desember síðastliðnum. Þar er markið fært úr 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2030, í 55% samdrátt. Þessum efldu aðgerðum fylgir fjármagn sem er vel, eftir því sem við aukum metnað okkar í loftlagsmálum þurfum við meiri græna orku – græna orkan er lykillinn.
Það er einlægur vilji minn að þjóðin verði sjálfbær hvað eldsneyti varðar og hætti alfarið að kaupa olíu og bensín erlendis frá. Við hljótum öll að vilja ná þessum markmiðum og leggja okkar af mörkum í loftlagsmálum. Ávinningurinn fyrir loftslagið er eitt en ef Ísland nær að verða sjálfbært varðandi orku mun það einnig hafa jákvæð efnahagsleg áhrif fyrir Ísland. Við komum til með að spara gríðarlegar gjaldeyristekjur ásamt því að mörg verðmæt störf geta skapast.
Ísland hefur öll tækifæri til þess að verða leiðandi í grænum lausnum sem leysa munu jarðefnaeldsneyti af hólmi og því samhengi er mikilvægt að hið opinbera og almenningur styðji við nýsköpunarfyrirtæki. Sjálfbærni er eftirsóknarvert markmið hvort heldur sé í eldsneyti eða fæðuöryggi þjóða og hagvöxtur framtíðarinnar mun byggjast á grænni orku.
Orkustefnan segir að orkuþörf samfélagsins verði mætt með öruggum hætti til lengri og skemmri tíma og að jafn aðgangur verði á landsvísu að orku á samkeppnishæfu verði. Að við verðum alltaf með græna orku til heimila og fyrirtækja. Þessi markmið eru metnaðarfull og góð en spurningunni hvernig við ætlum að afla þessarar grænu orku er enn ósvarað. Nú þurfum við að fara að taka ákvarðanir, sem sumum geta þótt erfiðar, en þær eru þó nauðsynlegar.
Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknar
Greinin birtist fyrst á visir.is 16. mars 2022