Categories
Fréttir

Hver nýtur vafans í kerfinu?

Deila grein

11/11/2019

Hver nýtur vafans í kerfinu?

Hjálmar Bogi Hafliðason, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, fór yfir í umræðu um málefni innflytjenda á Alþingi á dögunum að það væri fjölbreyttur hópurinn er komi til landsins af ýmsum ástæðum, svo sem til að mennta sig, atvinnu, fjölskyldutengsla eða jafnvel á flótta.
„Innflytjendur eiga sér stutta sögu á Íslandi eins og tölurnar segja og á bak við tölurnar er raunverulegt fólk. Kerfin okkar hafa þurft að takast á við miklar breytingar á skömmum tíma og hugsanlega tala kerfin ekki saman. Kerfi sem þjónustar innflytjendur og hælisleitendur beint, heilbrigðiskerfið, félagsþjónustan og fleiri. Hlutfall innflytjenda á Íslandi hefur aldrei verið hærra en árið 2018 voru innflytjendur um 13% mannfjöldans og þetta fólk er lykilþáttur í hagvexti á Íslandi.“
„Það er ljóst að við getum gert svo miklu betur til þess að virkja þennan hóp í samfélagi okkar til aukinnar þátttöku. Það er nefnilega svo ótal margt sem við, hinir venjulegu Íslendingar, getum lært af fólki með aðra reynslu, annan bakgrunn, aðra hugsun og aðra menningu,“ sagði Hjálmar Bogi.
„Við hljótum flest að vera sammála um að ólíkir menningarstraumar auðgi okkar eigin menningu og geri okkur að betra samfélagi. Það er hins vegar ógjörningur fyrir okkur sem hér störfum að setja okkur í spor fólks á flótta, fólks í leit að betra lífi, og því síður ættum við að slá pólitískar keilur vegna hræðilegra aðstæðna fólks. Það eru nefnilega viðbrögðin sem skipta máli. Hvort ætlum við að standa hér til að komast í fjölmiðla eða leggja til breytingar á kerfi sem þarfnast sannarlega endurskoðunar við?“
Gerum það að menningu okkar stjórnmálamanna að bæta það sem þarfnast sannarlega endurskoðunar við og fögnum því að hingað til lands vilji fólk koma, dvelja hér, búa, eignast börn, læra og lifa. Ég held að hv. þm. Þórhildur Sunna hafi hitt naglann á höfuðið um gallað kerfi: Hver nýtur vafans í kerfinu? Það er rétt. Og eins og hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir orðaði það: Kurteisi og samkennd verða ekki skrifuð í lög,“ sagði Hjálmar Bogi.

Categories
Greinar

Réttlátur stuðningur við námsmenn

Deila grein

11/11/2019

Réttlátur stuðningur við námsmenn

Nýtt frum­varp um Mennta­sjóð náms­manna fel­ur í sér grund­vall­ar­breyt­ingu á stuðningi við náms­menn. Það mun leiða til betri fjár­hags­stöðu náms­manna og skuld­astaða þeirra að námi loknu mun síður ráðast af fjöl­skylduaðstæðum, þar sem for­eldr­ar í námi fá fjár­styrk en ekki lán til að fram­fleyta börn­um sín­um. Þá er inn­byggður í kerfið mik­ill hvati til bættr­ar náms­fram­vindu, með 30% niður­færslu á höfuðstól og verðbót­um ef námi er lokið inn­an til­tek­ins tíma. Það stuðlar að betri nýt­ingu fjár­muna, auk­inni skil­virkni og þjóðhags­leg­um ávinn­ingi fyr­ir sam­fé­lagið. Enn­frem­ur munu náms­menn njóta bestu láns­kjara rík­is­sjóðs Íslands hjá Mennta­sjóði náms­manna og námsaðstoðin, lán og styrk­ir, verður und­anþegin lög­um um staðgreiðslu op­in­berra gjalda.

Með frum­varpi um Mennta­sjóð náms­manna er brugðist við þeim um­fangs­miklu breyt­ing­um sem orðið hafa á ís­lensku mennta­kerfi, náms­um­hverfi og sam­fé­lag­inu öllu. Nýtt kerfi miðar að því að jafna stuðning og dreif­ingu styrkja rík­is­ins til náms­manna sem taka náms­lán, með fé­lags­leg­um stuðnings­sjóði. Sér­stak­lega verður hugað að hóp­um sem reynst hef­ur erfiðara að sækja nám s.s. ein­stæðum for­eldr­um, fjöl­skyldu­fólki og náms­mönn­um utan höfuðborg­ar­svæðis­ins. Með þess­ari kerf­is­breyt­ingu vilj­um við auka gagn­sæi, fyr­ir­sjá­an­leika og skipta gæðum með jafn­ari og rétt­lát­ari hætti milli náms­manna.

Þá er leit­ast við að bæta þjón­ustu við náms­menn í nýju kerfi með því að heim­ilt verður að greiða út náms­lán mánaðarlega, lánþegar geta þar valið við náms­lok hvort þeir end­ur­greiði lán sín með verðtryggðum eða óverðtryggðum skulda­bréf­um og valið að end­ur­greiða náms­lán með tekju­tengd­um af­borg­un­um séu náms­lok lánþega áður eða á því ári er þeir ná 35 ára aldri.

Mennt­un er lyk­ill­inn að framtíðinni. Á okk­ur hvíl­ir sú skylda að horfa fram á við, setja metnaðarfull mark­mið og tryggja að námsstuðning­ur hins op­in­bera stuðli að jafn­rétti til náms. Ég trúi því að með frum­varpi um Mennta­sjóð náms­manna sé stigið mikið fram­fara­skref, sem eigi eft­ir að nýt­ast náms­mönn­um vel, at­vinnu­líf­inu og sam­fé­lag­inu öllu.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. nóvember 2019.

Categories
Fréttir

Forgangsraðað verði auknum fjármunum til skógræktarmála

Deila grein

05/11/2019

Forgangsraðað verði auknum fjármunum til skógræktarmála

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, spurði umhverfis- og auðlindaráðherra út í fjárframlög til Skógræktarinnar í  í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gær.
„Að rækta skóg er einn af þeim þáttum sem horft er til er binda á kolefni. Blásið hefur verið til sóknar í skógrækt og landgræðslu af hálfu stjórnvalda. Miðað við fjárlög 2020 er þó eins og hljóð og mynd fari ekki saman þegar talað er um framlög til Skógræktarinnar. Hinir svokölluðu Mógilsárpeningar, 28 milljónir, og Straumspeningar, 76 milljónir, samtals 104 milljónir, eru skornir af. Af þeim 200 milljónum sem stjórnvöld lögðu til sem nýja fjármuni vegna loftslagsmála skiluðu sér 32 milljónir til Skógræktarinnar.“
„Lagt var upp með á sínum tíma að skipting milli Landgræðslunnar og Skógræktarinnar væri 50:50. Mig langar að vita hvað hefur breyst, hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, því að í umsögn umhverfis- og samgöngunefndar með fjármálaáætlun 2020–2024 segir að lögð sé áhersla á, með leyfi forseta,

„að forgangsraðað verði auknum fjármunum til skógræktarmála umfram þá fjárhæð sem nú er í ríkisfjármálaáætluninni.“

Í umsögn fjárlaganefndar um fjármálaáætlun 2019–2023 í júní 2018 kemur fram að lögð er áhersla á, með leyfi forseta,

„að forgangsraðað verði til skógræktarmála. Framlög til þeirra drógust mjög saman árin eftir bankahrunið en fjárfesting í þeim málaflokki styður við mörg markmið stjórnvalda í umhverfismálum.“

„Nú þegar það lítur þannig út að Skógræktin þurfi að draga úr kostnaði við rekstur stofnunarinnar er aukning í þann lið sem heitir Framlög til skógræktar á lögbýlum, sem er vel. Skógræktin getur vel tæklað aukin umsvif miðað við hvernig hún er rekin í dag með mannafla um allt land. Skógræktin getur það hins vegar ekki þegar skorið er niður rekstrarfé til stofnunarinnar. Til að hægt sé að vera með ráðgjöf til bænda, gott gæðakerfi og árangursmat þarf fólk að vera í vinnu. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda ef Skógræktin á að fara að draga úr þessu eftirliti og segja upp fólki, minnka þjónustu við bændur, fækka störfum úti um landið og á sama tíma er talað um stórauknar aðgerðir í loftslagsmálum,“ sagði Þórarinn Ingi.
Umhverfis- og auðlindaráðherra baðst afsökunar á að þetta hafi ekki skilað sér rétt inn í fjárlagafrumvarpið. „Ástæðan fyrir því að það birtist eins og það sé niðurskurður til Skógræktarinnar á milli ára er fyrst og fremst sú að þar er um að ræða tímabundna heimild til Skógræktarinnar sem felst í eignarnámsbótum vegna jarðar sem komu inn á ákveðnu tímabili. Það voru um 76 milljónir á ári og þær eru ekki lengur til staðar. Hér er ekki verið að reyna að draga tennurnar úr Skógræktinni heldur aukast framlögin til hennar þvert á móti á næstu árum. Ég er jafnframt að leita leiða til að leiðrétta eitthvað þann mun sem verður af þeirri stóru, má segja, breytingu sem þarna er að verða á milli ára út af eignarnámsbótafjármagninu.“
Þórarinn Ingi vildi árétta í síðari ræðu sinni að þetta væri skerðing og hann gæti ekki skilið það öðruvísi en hún sé fyrir hendi í fjárlagafrumvarpinu.
„Þrátt fyrir breytingar á fjármunum varðandi Straums- og Mógilsárpeningana eru þetta 104 milljónir, sem er náttúrlega bagalegt á þeim tíma þegar við eigum að vera að bæta í skógrækt. Skógræktin vinnur mjög gott starf í gæðaeftirliti sínu og hefur t.d. gert einhverja 700 tilraunareiti o.fl. sem er verið að taka út til þess að skógræktin nái sem mestum árangri. Þá erum við að tala um nytjaskógrækt. Varðandi skiptingu á þessum 200 milljónum hef ég hingað til skilið það þannig að lagt hefði verið upp með að jöfn hlutföll væru milli Landgræðslunnar og Skógræktarinnar í þeim málum, en Skógræktin virðist einungis fá 32 milljónir. Mér leikur forvitni á að vita hvers vegna,“ sagði Þórarinn Ingi.
Umhverfis- og auðlindaráðherra sagði það vera rétt hjá Þórarin Inga það væru ekki bara eignarnámsfjármagnið sem þarna detti út heldur líka svokallaðir Mógilsárpeningar „sem ég reyndar ber enga ábyrgð á, enda ber atvinnuvegaráðuneytið ábyrgð á þeim.“

Categories
Fréttir

Einblínum á lausnir en ekki vandamál

Deila grein

01/11/2019

Einblínum á lausnir en ekki vandamál

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, segir Framsókn hafa haft samvinnu að leiðarljósi í síðustu kosningabaráttu, „en ekki sundrung sem fráfarandi flokksmenn  virðast hafa tekið með sér í baráttuna um framtíðina í nýjum flokki.“ Þetta kemur fram í grein hennar „Áfram veginn“ á bb.is á dögunum.

Á miðri leið er gott að líta yfir farinn veg og gleðjast yfir þeim árangri sem náðst hefur – hlaða sig af endurnýjanlegri orku sem skilar okkur áfram veginn. Geta ekki allir verið sammála um það?

„Ég hef fengið tækifæri til að vinna með frábæru fólki, kynnst málefnum og fengið að vinna að mikilvægum málum inn á þingi og úti í kjördæminu. Ekki síst hefur verið frábært að vinna með ríkisstjórn sem  komið var á eftir kosningar. Þetta er sú ríkisstjórn sem þurfti að koma á til ná fram félagslegum, efnahagslegum og pólitískum stöðugleika í landinu. Þegar kjörtímabilið er hálfnað má þegar sjá að ríkisstjórnin sem spannar hið pólitíska litróf allt frá vinstri til hægri hefur náð að slá nýjan tón, eins og segir í markmiði í stjórnarsáttmála hennar og náð að setja á fót lykilverkefni sem þjóðinni var mikilvægt eftir óreiðu síðasta ártugs,“ segir Halla Signý.

Framsóknarflokkurinn kom átta þingmönnum að í síðustu kosningum, þar af fimm konum. Þessi hópur hefur staðið þétt saman og liðsheildin sterk.
Ráðherrar okkar hafa unnið að mikilvægum málum og ekki bara staðið í embættum, heldur bætt og blásið í seglin svo tekið hefur eftir. Lífskjarasamningarnir sem náðust síðasta vetur voru skýrt merki um samvinnu milli verkalýðsfélaganna og ríkisstjórnarinnar.

„Við höfum unnið eftir þeirri sannfæringu að best sé að horfa fram á veginn í samvinnu við samstarfsflokka okkar og leita lausna sem allir geta sætt sig við. Má þar nefna nokkur mál eins og afgreiðslu fiskeldisfrumvarpinu á síðasta þingi og svo ekki sé minnst á hrákjötsmálið sem skilaði sameiginlegu niðurstöðu sem allir flokkar unnu að fyrir utan Miðflokkinn svo var líka um afgreiðslu á heilbrigðisstefnu.  Í þeirri vegferð einblíndum við á lausnir en ekki vandamál,“ segir Halla Signý.

Categories
Greinar

Sterkari byggðir

Deila grein

01/11/2019

Sterkari byggðir

Fyrir skemmstu mælti ég fyrir á Alþingi þingsályktunartillögu um stefnumótun fyrir sveitarstjórnarstigið. Ellefu aðgerðir þingsályktunarinnar eru innbyrðis tengdar og saman mynda þær heildstæða stefnu um sjálfbær og öflug sveitarfélög.

Sjálfur er ég gamall sveitarstjórnarmaður og ber mikla virðingu fyrir því mikilvæga stjórnsýslustigi sem sveitarstjórnir eru. Ég er þó ekki viss um að fólk geri sér almennt grein fyrir því ótrúlega öfluga starfi sem unnið er á sviði sveitarstjórna því í almennri umfjöllun er það Alþingi og ríkisstjórn sem fær mesta athygli. Sveitarstjórnarstigið er mikilvægur hluti af íslensku lýðræði. Vægi þess hefur aukist eftir því sem árin líða því stór verkefni hafa verið flutt frá ríkinu til sveitarfélaganna með það að markmiði að þjónusta sem skiptir fólk miklu frá degi til dags sé nálæg. Má þar nefna skipulagsvald, grunnskóla og málefni atlaðra. Öll þessi verkefni krefjast þess að sveitarstjórnarstigið sé sterkt og geti tekið mál föstum tökum með hagsmuni íbúa að leiðarljósi. Mörg smærri sveitarfélög og íbúar þeirra reiða sig að miklu leyti á samninga við önnur sveitarfélög, til dæmis á sviði skólamála. Það felur í sér framsal á valdi og ákvörðunum og gerir stjórnsýslumörk óljósari. Þetta veldur augljóslega ákveðnum lýðræðishalla.

Þingsályktuninni er ætlað að styrkja sveitarstjórnarstigið sem heild og efla sveitarfélög til að þau geti haldið vel á málum fyrir íbúa sína og einnig verið öflugur mótleikari við ríkið. Hún snýr að stjórnsýslu – ekki er verið að sameina samfélög heldur stjórnsýsluna með það að markmiði að efla hana. Selfyssingurinn er áfram Selfyssingur þótt stjórnsýslueiningin heiti Sveitarfélagið Árborg.

Í ráðuneyti mínu höfum við unnið að því að setja fram stefnu í málaflokkum ráðuneytisins til fimmtán ára með fimm ára verkáætlunum. Samgönguáætlun, byggðaáætlun, fjarskiptaáætlun og stefna ríkisins í sveitarstjórnarmálum vinna allar saman í átt að því að styðja við byggð um allt land – búa til sterkara Ísland.

Ég bendi áhugasömum á að kynna sér málið frekar á vef Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, srn.is.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. nóvember 2019.