Categories
Greinar

Allir landshlutar sækja fram

Deila grein

18/01/2022

Allir landshlutar sækja fram

Rétt fyrir áramótin voru fyrstu fjárlög nýrrar ríkisstjórnar samþykkt á Alþingi. Þar má finna mörg jákvæð mál sem gefa tilefni til bjartsýni inn í nýja árið. Meðal þeirra mála má sérstaklega nefna að samþykkt var 100 milljóna króna styrking á verkefninu um sóknaráætlanir landshluta.

Mikilvægi sóknaráætlana landshluta er óumdeilt, og umrædd styrking samræmist efni nýs stjórnarsáttmála. Þar kemur fram að unnið verði áfram að eflingu sóknaráætlana allra landshluta.

Uppbygging heima fyrir

Sóknaráætlanir og uppbyggingarsjóðir gegna lykilhlutverki í eflingu nýsköpunar og menningarstarfs á landsbyggðinni. Þessar sóknaráætlanir hafa nú þegar sannað sig. Þær hafa stuðlað að því að fjármunir nýtast hratt og á áhrifaríkan hátt í öflugri byggðaþróun. Í hverjum samráðsvettvangi fyrir sig eru fengnir fulltrúar frá því svæði sem hver áætlun varðar. Þar fá heimamenn að viðra sínar áherslur og uppbygging fer fram í takt við þær. Það er mikilvægt, enda vita fáir betur en heimamenn hvað vænlegast er til árangurs á sínu svæði.

Mikilvæg verkefni

Hér fyrir okkur, heimamenn í Norðausturkjördæmi, standa mikilvæg verkefni. Tækifærin til frekari uppbyggingar bæði hvað varðar menningu og atvinnu eru heldur betur til staðar. Með auknum fjárstuðningi til sóknaráætlana landshluta stuðlum við að frekari framsókn á Austurlandi og Norðurlandi eystra, þar sem fjármagnið er nýtt í takt við áherslur heimamanna.

Frekari efling og uppbygging flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum, þróun þekkingarsamfélagsins á Austurlandi og NÍN (Nýsköpun í norðri) verkefnið eru dæmi um áhersluverkefni sóknaráætlana landshluta. Þessi verkefni, ásamt fleirum, stuðla að fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifærum í Norðausturkjördæmi, og gerir svæðin meira aðlaðandi fyrir íbúa kjördæmisins sem og einstaklinga sem hafa hug á því að flytja hingað.

Framsækni um allt land

Það er ánægjulegt að hafa fengið að kjósa með auknum fjárstuðningi til sóknaráætlana landshluta. Þessar áætlanir boða frekari sókn um allt land. Slíkar aðgerðir ríma vel við áherslur Framsóknar um öfluga byggðastefnu og velsæld um alla landshluta. Mikilvægt er að á kjörtímabilinu verði enn aukið samstarf milli landshlutasamtaka og allra ráðuneyta til þess að tryggja að stærri aðgerðir sóknaráætlana nái fram að ganga. Þannig tryggjum við aukin gæði um allt Ísland.

Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd Alþingis.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 17. janúar 2022.

Categories
Greinar

Að vera manneskja

Deila grein

17/01/2022

Að vera manneskja

Ég hef átt mörg samtöl við dóttur mína sem er 15 ára um andlegt heilbrigði og líðan. Samtöl sem hafa leitt til umræðu um almenna líðan ungs fólks og hugmynda um væntinga til lífsins, hamingju og hvað það er að vera manneskja. Það er ótal margt sem hefur áhrif á börn og unglinga og þannig hefur það alltaf verið.

Sérstaklega hraðar og stöðugar breytingar hafa verið í umhverfi unglinga síðustu ár m.a. í tengslum við samfélagsmiðla og þróun samfélagsins. Áskoranirnar eru alltaf að verða flóknari og fjölbreyttari. Þrátt fyrir mikið flæði upplýsinga sem hefur vissulega sína jákvæðu hliðar þá er það mikil áskorun fyrir þennan hópa að sigta út og sortera áreitið og upplýsingarnar.

Ég leyfi mér að fullyrða að allar manneskjur glíma við á einhverjum tíma kvíða, hugsanavillur, depurð eða streitu. Þetta er einfaldlega partur af lífinu eins og fullorðið fólk þekkir. Því fannst mér mjög eðlilegt þegar dóttir mín spurði mig, af hverju það væri einblínt á kennslu og bækur um starfsemi líkamans sem snéri að vöðvum, hjarta, beinum, blóðrás o.þ.h í skólum en ekki því sem snéri að því, að vera manneskja ?

Það er eilífðar bras að vera manneskja það þekkjum við öll. Lífið gefur og tekur, vindurinn ekki alltaf mildur og dalirnir og topparnir misjafnlega krefjandi og margir.

Hvaða er í nesti í skólanum?

Það sem skiptir höfuð máli er, hvernig við erum í stakk búin til að takast á við þær áskoranir sem við mætum í lífinu og hvernig við getum stutt annað fólk. Undirbúning að þessu ferðalagi lífsins þarf að hefjast snemma og fræðslan þar að taka mið af þörfum og þroska unglinga.

Við verðum einfaldlega að huga því að endurskoða aðalnámsskrá grunnskóla að þessu leiti og nesta börnin okkar, færa þeim viðeigandi þekkingu til að hlúa að andlegri heilsu. Hjálpa þeim að þekkja þessar eðlilegu áskoranir sem við öll þurfum að takast á við, vinna með hugsanir sínar, sjálfsmynd og líðan.

Í aðalnámskrá grunnskóla er alls ekki vel tekið utanum þetta. Nauðsynlegt er að huga að þessu markvisst innan skólakerfisins til að koma til móts við þessa brýnu þörf. Kennsla á hugrænni atferlismeðferð HAM, væri sem dæmi aðferðarfræði sem mætti huga að því að kenna börnum að tileinka sér. Áherslur sem þessar munu án efa gagnast þeim út lífið.

Andlegt heilbrigði er ein grundvallar forsenda fyrir því að einstaklingurinn geti nýtt til framtíðar aðra færni og nám. Fræðsla sem þessi mun að sjálfsögðu ekki koma í staðinn fyrir sérfræðiaðstoð og stofnanir sem sinna alvarlegum veikindum og vanlíðan barna. Þetta er þó gríðarlega mikilvægur þáttur í langtíma markmiðum er lúta að heilbrigði einstaklingsins og þjóðarinnar til framtíðar.

Ég tel ekki ástæðu til að telja upp þær greinar, ræður og rit sem hafa fjallað um líðan barna og unglinga ásamt skorti á úrræðum og plássi í heilbrigðiskerfinu fyrir þennan hóp síðustu ár. Það eru mikil verðmæti sem felast í því að kenna unglingum snemma að tileinka sér aðferðir sem miða að því að hlúa að eigin líðan.

Líðan og andlegt heilbrigði barna og unglinga er viðfangsefni sem ætti að vera í forgangi í okkar samfélagi. Það þarf ekki að tíunda hverjar afleyðingarnar geta verið fyrir einstaklinginn, skólakerfið og samfélagið ef ekki er hugað að þessum málum. Að sama skapi er ávinningurinn af því að leggja áherslu á þessi mál augljós til framtíðar fyrir einstaklinginn og samfélagið allt.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti Framsóknarflokksins í Borgarbyggð.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. janúar 2022.

Categories
Greinar

Efnahagsleg loftbrú sem virkar

Deila grein

15/01/2022

Efnahagsleg loftbrú sem virkar

Þær áskor­an­ir sem heim­ur­inn hef­ur þurft að tak­ast á við vegna heims­far­ald­urs­ins eru for­dæma­laus­ar. Íslenskt sam­fé­lag, ekki síður en önn­ur sam­fé­lög, hef­ur þurft að leggja sig allt fram við að tak­ast á við þann veru­leika sem veir­an hef­ur fært okk­ur til að tryggja áfram­hald­andi hag­sæld til framtíðar. Strax í upp­hafi far­ald­urs ákvað rík­is­stjórn­in að beita rík­is­fjár­mál­un­um af krafti til þess að tryggja öfl­uga viðspyrnu sam­fé­lags­ins – sem er meðal ann­ars í anda breska hag­fræðings­ins Johns M. Keynes. Keynes hafði legið und­ir feldi við rann­sókn­ir á krepp­unni miklu, þar sem nei­kvæður spírall dró kraft­inn úr hag­kerf­um um all­an heim.

Niður­sveifla og markaðsbrest­ur snar­fækkaði störf­um, minnkaði kaup­mátt og í leiðinni tekj­ur hins op­in­bera, sem hélt að sér hönd­um til að eyða ekki um efni fram. Keynes hélt því fram að þannig hefðu stjórn­völd dýpkað krepp­una og valdið óbæt­an­legu tjóni. Þvert á móti hefði hið op­in­bera átt að örva hag­kerfið með öll­um til­tæk­um ráðum, ráðast í op­in­ber­ar fram­kvæmd­ir og eyða tíma­bundið um efni fram. Þannig væru ákveðin um­svif í hag­kerf­inu tryggð, þar til kerfið yrði sjálf­bært að nýju.

Með þetta meðal ann­ars í huga hef­ur rík­is­stjórn­in varið millj­örðum króna síðan 2020 til að tryggja kröft­uga viðspyrnu á sviði menn­ing­ar­mála. Með fjár­magn­inu hef­ur tek­ist að brúa bilið fyr­ir lista­fólkið okk­ar þar til hjól sam­fé­lags og at­vinnu­lífs fara að snú­ast á nýj­an leik. Afrakst­ur þess­ar­ar fjár­fest­ing­ar er óum­deild­ur. Menn­ing og list­ir eru auðlind sem skil­ar efna­hags­leg­um gæðum til sam­fé­lags­ins í formi at­vinnu, fram­leiðslu á vöru og þjón­ustu til neyslu inn­an­lands og út­flutn­ings. Við þurf­um ekki annað en að horfa til þeirra landa sem fremst eru, þar sem rann­sókn­ir sýna að skap­andi at­vinnu­grein­ar leggja sí­fellt meira til hag­vaxt­ar.

Sömu sögu má segja af viðspyrnuaðgerðum stjórn­valda fyr­ir ferðaþjón­ust­una en sam­tals var 31 millj­arði króna varið til þeirra árin 2020 og 2021. Ný­verið var kynnt grein­ing KPMG á áætlaðri stöðu ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu í árs­lok 2021. Aðgerðir stjórn­valda hafa skipt sköp­um í að styðja við aðlög­un­ar­hæfni ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tækja á tím­um covid og gera grein­ina bet­ur í stakk búna til þess að þjón­usta fleiri ferðamenn þegar fólks­flutn­ing­ar aukast að ráði milli landa á ný. Ferðaþjón­ust­an verður lyk­ill­inn að hröðum efna­hags­bata þjóðarbús­ins en grein­in get­ur á skömm­um tíma skapað gríðarleg­ar gjald­eyris­tekj­ur fyr­ir landið.

Þrátt fyr­ir að við séum stödd á krefj­andi tíma­punkti í far­aldr­in­um er ég bjart­sýn á framtíðina. Ég trúi því að ljósið við enda gang­anna sé ekki svo ýkja langt í burtu en þangað til munu stjórn­völd halda áfram að styðja við menn­ing­una, ferðaþjón­ust­una og fleira eins og þurfa þykir, með efna­hags­legri loft­brú sem virk­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskipta-, menn­ing­ar- og ferðamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. janúar 2022.

Categories
Greinar

Áfram í sókn

Deila grein

13/01/2022

Áfram í sókn

Sóknaráætlanir landshlutanna eru stefnumótandi áætlanir sem taka til starfssvæða landshlutasamtaka sveitarfélaga. Um er að ræða einkar vel heppnaða aðgerð þar sem landshlutasamtök sveitarfélaga stofna með sér samráðsvettvang og stilla upp áætlun sem setur fram sýn og markmið sem draga fram sérstöðu svæðanna. Þannig er stutt við ákvarðanir um úthlutun fjármagns og verkefni sem unnin eru undir merkjum sóknaráætlana.

Við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins nú í desember lagði fjárlaganefnd til 100 milljóna kr. styrkingu á verkefninu um sóknaráætlanir landshluta. Ég fagna að sú tillaga hafi hlotið samþykki. Mikilvægi sóknaráætlana kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar er sérstaklega tekið fram að unnið verði áfram að eflingu sóknaráætlana landshlutanna.

Uppbygging í takt við áherslur heimamanna

Sóknaráætlanir hafa sannað sig sem öflugt byggðarþróunartæki og þeir fjármunir sem í þær er veitt nýtast hratt og vel til ýmiss konar uppbyggingar í héraði í takti við áherslur heimamanna. Sóknaráætlanir og uppbyggingarsjóðir gegna lykilhlutverki til þess að efla nýsköpun og menningarstarf á landsbyggðinni.

Í kjölfarið á heimsfaraldri kórónuveirunnar var veitt viðbótarfjármagni inn í áætlanirnar til þess að sporna við áhrifum faraldursins. Undirritaður telur mikilvægt að áframhaldandi stuðningur sé til staðar, bæði vegna þess að faraldurinn ætlar að vera þaulsetnari en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir og einnig til að styðja við uppbyggingu vegna áhrifa faraldursins sem mun væntanlega gæta eitthvað áfram komandi ár.

Landshlutasamtökin eru mikilvægur hlekkur

Landshlutasamtökin hafa svo sannarlega staðið undir þeirri ábyrgð að verja fjármagni í mikilvæg verkefni til stuðnings atvinnu- og byggðarþróun og nýsköpun með hagkvæmum og skilvirkum hætti. Þau eru vel til þess fallinn að styðja við hverskonar nýsköpun á landsbyggðinni og hagnýtingu hugvits. Með samstarfi sem þessu gerum við atvinnulífið á landsbyggðinni fjölbreyttara og fjölgum spennandi og verðmætum störfum. Við viljum styðja við umhverfi þar sem sköpunarkraftur fólks fær að njóta sín og það getur vaxið og dafnað. Sóknaráætlanir í gegnum landshlutasamtökin stuðla að jákvæðri samfélags- og byggðarþróun í takt við heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, þær treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni landshluta og landsins alls í leið.

Áfram veginn

Aukin stuðningur við sóknaráætlanir eru í takt við stefnu Framsóknarflokksins, en við í Framsókn höfum alltaf verið talsmenn öflugrar byggðastefnu. Mikilvægt er að á kjörtímabilinu verði enn aukið samstarf milli landshlutasamtaka og allra ráðuneyta til þess að tryggja að stærri aðgerðir sóknaráætlana nái fram að ganga um allt land. Þannig byggjum við Ísland framtíðarinnar.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 13. janúar 2022.

Categories
Greinar

Jöfn tæki­færi til vel­sældar og þroska

Deila grein

07/01/2022

Jöfn tæki­færi til vel­sældar og þroska

Eftir stutt en snarpt desemberþing liggja nú fyrir helstu áherslur fyrir árið 2022. Það er mér sérstakt ánægjuefni að samþykktur hefur verið áframhaldandi íþrótta- og tómstundastyrkur barna á tekjulágum heimilum. Það er mér sem og félögum mínum í Framsókn mikið hjartans mál að öll börn eigi rétt á að taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi óháð efnahag foreldra. Endurspeglaðist það meðal annars í áherslum flokksins fyrir síðustu kosningar þar sem lagt var upp með viðbótar tómstundarstyrk fyrir öll börn.

Áframhaldandi stuðningur

Í fjáraukalögum fyrir 2020 samþykktu stjórnvöld að veita sérstakan 50.000 kr. íþrótta- og tómstundastyrki til barna á tekjulágum heimilum. Tryggja átti að úrræðið beindist að börnum foreldra sem höfðu lágar tekjur eða höfðu misst atvinnu að hluta eða öllu leyti. Úrræðið nýttist jafnframt börnum á heimilum einstæðra foreldra og öryrkja.

Við gerð fjárlaga fyrir árið 2021 samþykktu stjórnvöld að veita fjármuni í íþrótta- og tómstundastyrki að fjárhæð 25.000 kr. fyrir hvert barn. Styrkurinn miðaðist við að heildartekjur heimilisins væru lægri en 787.200 kr. á mánuði, á tímabilinu mars til júní 2021. Við gerð núverandi fjárlaga er þessum styrk áframhaldið og samþykkt hefur verið að veita 50.000 kr. styrk fyrir hvert barn á tekjulágum heimilum árið 2022. Gert er ráð fyrir að um 10.400 börn nýti styrkinn í ár.

Tækifæri skipta máli

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að þátttaka barna og unglinga í íþrótta- og tómstundastarfi hafi forvarnargildi. Sýnt hefur verið fram á að unglingar og börn sem leggja reglulega stund á íþróttir eða aðra hreyfingu eru síður líkleg til þess að þróa með sér neikvætt atferli. Auk forvarnargildis þá hafa rannsóknir einnig sýnt fram á að þátttaka í skipulögðu íþrótta og/eða tómstundastarfi skilar sér með betri námsárangri, betri líðan, betri félags þroska, meiri sjálfsvirðingu og jákvæðri líkamsmynd.

Með því að gefa börnum jöfn tækifæri til þess að stunda tómstundir eru stjórnvöld á sama tíma að veita börnum jöfn tækifæri til þess að ná árangri, bæta félagslegan þroska sinn og samskiptahæfileika. Börn sem stunda tómstundir verða alla jafnan sterkari einstaklingar á uppvaxtarárum sínum. Það hlýtur því að vera markmið samfélagsins í heild að búið sé í haginn fyrir börnin okkar og að við skilum af okkur sterkum og sjálfstæðum einstaklingum sem hafa tækifæri til að blómstra í samfélaginu.

Við erum rétt að byrja

Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar á að vinna áfram í samstarfi við sveitarfélög að jafna tækifæri barna til að stunda tómstundastarf óháð efnahag, aðstæðum og búsetu. Þar segir að lögð verði áhersla á að öll börn geti tekið þátt í íþrótta og tómstundastarfi enda sé slíkt starf mikilvægur þáttur í þroska og uppvexti barna. Áframhaldandi stuðningur við íþrótta- og tómstundastarf er upptakturinn að því sem koma skal á þessu kjörtímabili.

Hafdís Hörnn Hafsteinsdóttir, þingmaður Suðurkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. janúar 2022.

Categories
Greinar

Spennandi tímar fyrir íslenskuna

Deila grein

06/01/2022

Spennandi tímar fyrir íslenskuna

Deyi mál­in deyja líka þjóðirn­ar, eða verða að ann­arri þjóð.“ Svo komst Kon­ráð Gísla­son, pró­fess­or í nor­ræn­um fræðum við Hafn­ar­há­skóla og einn Fjöln­ismanna, að orði árið 1837 í um­fjöll­un sinni um ís­lensk­una. Orð Kon­ráðs ríma við orð fjöl­margra annarra í tím­ans rás um mik­il­vægi tungu­máls­ins okk­ar, enda óum­deilt að ís­lensk­an er dýr­mætt og ein­stakt tungu­mál sem mótað hef­ur sjálfs­mynd okk­ar sem þjóðar og und­ir­byggt sjálf­stæði lands­ins með öll­um þeim menn­ing­ar­arfi sem henni fylg­ir. Hraðar tækni­breyt­ing­ar sam­tím­ans hafa þó dregið fram nýj­ar áskor­an­ir gagn­vart ís­lensk­unni sem mik­il­vægt er að tak­ast á við af festu.

Með of­an­greint meðal ann­ars í huga höf­um við nýtt tím­ann vel und­an­far­in fjög­ur ár og unnið heima­vinn­una okk­ar til þess að styrkja stöðu ís­lensk­unn­ar á marg­vís­leg­an hátt til framtíðar. Góð og al­hliða móður­málsþekk­ing er mik­il­væg fyr­ir per­sónu­leg­an þroska barna, mennt­un þeirra og hæfni til að móta hugs­an­ir sín­ar og hug­mynd­ir. Með auk­inni snjall­tækja­notk­un eykst því þörf­in á að tæk­in skilji móður­málið okk­ar.

Íslensk stjórn­völd hafa leitt sam­an vís­inda­menn, frum­kvöðla og einka­fyr­ir­tæki í um­fangs­mikl­um og metnaðarfull­um verk­efn­um sem miða að því að efla mál­tækni hér á landi. Um 2,3 millj­arðar hafa þannig runnið til Ver­káætl­un­ar um mál­tækni sem áætlað er að ljúki í ár. Á sjötta tug sér­fræðinga hafa und­an­far­in ár unnið að rann­sókn­um og þróun mál­tækni á Íslandi. Til dæm­is eru mörg hundruð klukku­stund­ir af tal­máls­upp­tök­um aðgengi­leg­ar fyr­ir þá sem vilja þróa ís­lensk­ar snjall­tækjaradd­ir. Þúsund­ir klukku­stunda af hljóðdæm­um eru einnig fá­an­leg­ar sem má nota til að kenna tækj­un­um ís­lensku sem nýt­ist í öllu dag­legu lífi fólks.

Á næsta ári verða önn­ur þýðing­ar­mik­il verklok fyr­ir ís­lensk­una og menn­ing­ar­arf­inn henni tengd­an. Hús ís­lensk­unn­ar verður þá form­lega opnað og fær­ir þannig tungu­mál­inu okk­ar nýtt og glæsi­legt lög­heim­ili sem við get­um öll verið stolt af. Hin nýju heim­kyni munu hýsa fjöl­breytta starf­semi Stofn­un­ar Árna Magnús­son­ar í ís­lensk­um fræðum og ís­lensku- og menn­ing­ar­deild Há­skóla Íslands. Þar verða meðal ann­ars les­rými, fyr­ir­lestra- og kennslu­sal­ir, skrif­stof­ur og bóka­safn, að ógleymd­um sér­hönnuðum rým­um s.s. fyr­ir varðveislu, rann­sókn­ir og sýn­ingu á ís­lensk­um skinn­hand­rit­um – okk­ar dýr­mæt­ustu menn­ing­ar­verðmæt­um.

Við mun­um halda ótrauð áfram við að gera veg ís­lensk­unn­ar sem mest­an. Það verður áfram­hald­andi sam­vinnu­verk­efni stjórn­valda, al­menn­ings, at­vinnu­lífs­ins og annarra sem hafa lagt mikið af mörk­um und­an­far­in ár fyr­ir tungu­málið. Það er trú mín að án tungu­máls verði hug­mynd­ir ekki til og ef all­ir tala sama tungu­málið er hug­mynda­auðgi stefnt í voða og fram­förum til lengri tíma. Það eiga ekki all­ir að vera eins, þannig viðhöld­um við marg­breyti­legri og sterk­ari sam­fé­lög­um.

Höf­und­ur er menn­ing­ar­málaráðherra.

Höf­und­ur: Lilja Al­freðsdótt­ir

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. janúar 2022.

Categories
Greinar

Vinna, vöxtur og velferð

Deila grein

01/01/2022

Vinna, vöxtur og velferð

Ára­mót, þessi ímynduðu þátta­skil í lífi okk­ar, eru sér­stak­ur tími. Í þeim renn­ur sam­an í eitt, nán­ast áþreif­an­legt augna­blik, minn­ing­ar okk­ar úr fortíðinni og vænt­ing­ar okk­ar um framtíðina. Það er hollt að staldra við á þess­um skurðpunkti fortíðar og framtíðar og líta yfir sviðið. Það er margt í sam­fé­lagi okk­ar sem er gott eins og sést þegar helstu mæli­kv­arðar eru skoðaðir. Það þýðir þó ekki að hér sé allt full­komið. Alltaf er rými til að bæta þá um­gjörð sem við höf­um skapað um sam­fé­lag okk­ar.

Þegar maður er orðinn marg­fald­ur afi þá hefst nýtt tíma­bil í lífi manns. Minn­ing­ar frá fyrstu árum barn­anna verða ljós­lif­andi og þá ekki síður minn­ing­ar úr eig­in æsku. Í kring­um börn er æv­in­týra­heim­ur sem er full­ur af lit­rík­um per­són­um. Ein þeirra er Emil í Katt­holti, strák­ur­inn sem var svo óþægur að sveit­ung­arn­ir söfnuðu pen­ing­um til þess að hægt væri að senda hann til Am­er­íku. Því var auðvitað hafnað og átti fyr­ir Emil að liggja að verða odd­viti. Astrid Lind­gren hélt með börn­un­um í sög­um sín­um og opnaði leið inn í heim þeirra og það á tím­um sem ekki var á öll­um heim­il­um litið á börn sem mann­eskj­ur.

Vel­sæld barna

Á síðustu árum höf­um við lagt mikla áherslu á vel­ferð barna eins og sér glöggt merki í nýj­um lög­um um vel­sæld barna sem samþykkt voru und­ir lok síðasta kjör­tíma­bils. Rann­sókn­ir sýna að fyrstu árin eru gríðarlega mik­il­væg og hafa mót­andi áhrif á æv­ina alla. Áhersla Fram­sókn­ar hef­ur lengi verið á vel­ferð barna. Hluti af sögu Fram­sókn­ar er að koma á fæðing­ar­or­lofi fyr­ir feður sem er ekki aðeins mik­il­vægt fyr­ir jafn­rétti kynj­anna held­ur stuðlar að nán­ara og betra sam­bandi barna við feður sína. Leng­ing fæðing­ar­or­lofs í 12 mánuði sem er eitt af verk­um síðustu rík­is­stjórn­ar er einnig mik­il­vægt skref í að bæta enn aðbúnað barna.

Barnið er hjartað í kerf­inu

Þær breyt­ing­ar, sem lög­in um vel­sæld barna og sú samþætt­ing sem unnið var að í tíð Ásmund­ar Ein­ars Daðason­ar sem fé­lags- og barna­málaráðherra, fela í sér hef­ur í för með sér að vegg­ir og þrösk­uld­ar milli ólíkra kerfa voru brotn­ir til. Það er orðið al­gjör­lega skýrt að barnið er hjartað í kerf­inu og að hags­mun­ir þess séu alltaf í önd­vegi. Þær lýs­ing­ar sem heyrst hafa reglu­lega í fjöl­miðlum heyra von­andi sög­unni til inn­an skamms.

Í vinn­unni við lög­in var sér­stak­lega reiknað út hvaða áhrif þess­ar breyt­ing­ar hefðu efna­hags­lega. Það kom í ljós, sem eru ef­laust lít­il tíðindi fyr­ir marga, að þessi áhersla á vel­sæld barna hef­ur ekki aðeins gríðarlega já­kvæð áhrif á ein­stak­ling­inn sjálf­an held­ur kem­ur hún til með að skila sam­fé­lag­inu öllu fjár­hags­leg­um ávinn­ingi. Sé stutt við þau börn sem á því þurfa að halda aukast lík­urn­ar á því að þau njóti auk­inna lífs­gæða á lífs­leiðinni.

Önnur stór breyt­ing sem varð á síðasta kjör­tíma­bili var nýr Mennta­sjóður náms­manna sem varð að veru­leika með vinnu Lilju Dagg­ar Al­freðsdótt­ur sem mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra. Í þeim breyt­ing­um eru aðstæður náms­manna orðnar mun betri, ekki síst barna­fólks þar sem nú er veitt­ur styrk­ur fyr­ir hvert barn en ekki viðbót­ar­lán eins og áður. Með þessu er stutt sér­stak­lega við ungt barna­fólk og tæki­færi þess til náms auk­in veru­lega.

Ég hef lagt á það áherslu í mín­um störf­um að fá sjón­ar­horn barna og ung­menna varðandi sam­göng­ur. Sér­stak­ur starfs­hóp­ur hef­ur komið með til­lög­ur í þeim efn­um sem snú­ast meðal ann­ars um betri vegi þar sem börn fara um til að sækja skóla, aukna áherslu á göngu- og hjóla­stíga og að sam­gönguþing ung­menna og barna verði hluti af ár­legu Sam­gönguþingi. Það er nefni­lega þannig að þegar stjórn­mál­in hugsa um hags­muni barna þá verður ákv­arðana­tak­an ábyrg­ari og horf­ir meira til framtíðar. Sú áhersla sem ég lagði á um­ferðarör­yggi í störf­um mín­um er ná­tengt þess­ari sýn á sam­fé­lagið.

Hús­næði er frumþörf

Ein af stóru breyt­ing­un­um sem birt­ast í nýrri rík­is­stjórn er að hús­næðismál, skipu­lags­mál, sam­göng­ur, sveit­ar­stjórn­ar- og byggðamál eru nú öll í einu innviðaráðuneyti. Það gef­ur okk­ur tæki­færi til að leggja meiri áherslu á hús­næðismál um allt land. Það verður að ná jafn­vægi á hús­næðismarkaði. Hús­næði er frumþörf mann­eskj­unn­ar og má ekki vera fjár­hags­legt happ­drætti. Með betri og breiðari yf­ir­sýn er hægt að ná þessu jafn­vægi og leiða sam­an ólíka aðila til að bæta lífs­gæði íbúa lands­ins og búa bet­ur að fjöl­skyld­um, hvar sem þær ákveða að stofna heim­ili.

Fjöl­breytt at­vinnu­tæki­færi um allt land

Vinna, vöxt­ur og vel­ferð hef­ur lengi verið leiðar­stef Fram­sókn­ar. Sam­fé­lagið hvíl­ir á því að fólki standi til boða fjöl­breytt at­vinna um allt land. Sú viðhorfs­breyt­ing varðandi störf rík­is­ins, sem kem­ur fram í stjórn­arsátt­mála nýrr­ar rík­is­stjórn­ar Fram­sókn­ar, Sjálf­stæðis­flokks og Vinstri hreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs, er mik­il tíðindi. Störf á veg­um rík­is­ins eiga ekki að vera staðbund­in nema þau séu sér­stak­lega skil­greind þannig. Þetta þýðir að frelsi fólks til bú­setu er stór­aukið. Þessi breyt­ing kall­ar á viðhorfs­breyt­ingu meðal stjórn­enda hjá rík­inu og mun ég leggja mikla áherslu á að þessi grund­vall­ar­breyt­ing á hugs­un varðandi störf starfs­manna rík­is­ins verði al­menn og viðvar­andi.

Stjórn­mál snú­ast um þjón­ustu

Í störf­um mín­um síðustu fjög­ur árin lagði ég mikla áherslu á að efla sveit­ar­stjórn­arstigið. Það er að mati mínu og margra annarra og veik­b­urða og er það ekki síst vegna þeirra mörgu og smáu ein­inga sem sveit­ar­fé­lög­in eru. Með nýrri hugs­un í mál­efn­um barna verður það enn mik­il­væg­ara að sveit­ar­fé­lög­in standi sterk og það verður helst gert með því að þau stækki. Hlut­verk sveit­ar­stjórna er skýrt, al­veg eins og hlut­verk rík­is­stjórna: Þær eiga að tryggja lífs­gæði, þær eiga að tryggja jöfn tæki­færi íbú­anna til að blómstra og þar eru mál­efni barna mik­il­væg­asti þátt­ur­inn. Öflugt skóla­kerfi frá leik­skóla er nauðsyn­legt til þess að öll börn njóti sömu tæki­færa. Það hef­ur sýnt sig að fé­lags­leg­ur hreyf­an­leiki er mik­ill á Íslandi. Öflugt mennta­kerfi um allt land skap­ar al­menn og mik­il lífs­gæði fyr­ir kom­andi kyn­slóðir.

Heils­an í fyrsta sæti

Síðustu tvö ár hafa öðru frem­ur snú­ist um bar­áttu við heims­far­ald­ur og efna­hags­leg­ar af­leiðing­ar hans. Það er óhætt að segja að ár­ang­ur okk­ar í bar­átt­unni, bæði hvað varðar heils­una og efna­hag­inn, hef­ur gengið von­um fram­ar. Við stönd­um nú á ákveðnum tíma­mót­um í bar­átt­unni við veiruna. Við sjá­um að nýtt af­brigði virðist hafa væg­ari veik­indi í för með sér en á móti kem­ur að það er meira smit­andi og fer um sam­fé­lagið eins og eld­ur í sinu. Það er eðli­legt og ábyrgt að fara var­lega í aflétt­ing­ar en enn frem­ur ljóst að þráin eft­ir venju­legu lífi er mik­il og eðli­leg. Bar­átt­an við veiruna er þó ekki eina verk­efni nýs heil­brigðisráðherra, Will­ums Þórs Þórs­son­ar, því fram und­an er styrk­ing heil­brigðis­kerf­is­ins og þjón­ustu við eldra fólk um allt land. Ég er mjög þakk­lát­ur fyr­ir hið mikla og óeig­ingjarna starf þeirra sem standa í eld­lín­unni í far­aldr­in­um, hvort sem þau starfa í heil­brigðis­kerf­inu, mennta­kerf­inu eða lög­gæslu.

Tæki­fær­in bíða okk­ar

Lofts­lags­mál­in eru stærsta úr­lausn­ar­efni sam­tím­ans. Yngstu kyn­slóðirn­ar hafa mikl­ar áhyggj­ur og er það skilj­an­legt miðað við þá há­væru umræðu sem verið hef­ur síðustu árin. Ný rík­is­stjórn er metnaðarfull í áform­um sín­um varðandi lofts­lags­mál og hún er raun­sæ. Við höf­um nú þegar náð mikl­um ár­angri með raf- og hita­veitu­væðingu lands­ins. Græn orka er ein eft­ir­sótt­asta vara í heimi og þá orku eig­um við og höf­um gríðarlega reynslu af því að fram­leiða. Það skap­ar tæki­færi fyr­ir okk­ur, bæði í græn­um iðnaði og garðyrkju, svo eitt­hvað sé nefnt, en það skap­ar líka tæki­færi fyr­ir frum­kvöðla og ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tæki til að sækja með þessa þekk­ingu til annarra landa. Hug­verkaiðnaður­inn snýst ekki aðeins um aðgang að grænni orku held­ur að skap­andi hugs­un og þekk­ingu. Hug­verkaiðnaður­inn, hvort sem hann felst í lyfjaiðnaði eða tölvu­leikja­gerð, hef­ur stækkað mikið á síðustu miss­er­um og mun ef rétt er haldið á spöðunum blómstra enn frek­ar á næstu árum og ára­tug­um.

List­in er upp­spretta nýrra tæki­færa

Sag­an af Emil í Katt­holti er ekki bara speg­ill á sam­fé­lag. Sag­an sýn­ir okk­ur líka mik­il­vægi menn­ing­ar og lista í því að skapa verðmæti, and­leg og ver­ald­leg. Auk­in áhersla á menn­ingu og skap­andi grein­ar skap­ar ekki aðeins auk­in tæki­færi til at­vinnu held­ur skap­ar hún vit­und um sam­fé­lag. All­ir okk­ar stór­kost­legu lista­menn sem auðga líf okk­ar hafa einnig lagt mikið af mörk­um til þess að skapa sjálfs­mynd okk­ar sem þjóðar; skapa ímynd Íslands. Kvik­mynda­gerðin, tón­list­in, bók­mennt­irn­ar, mynd­list­in, leik­list­in eru upp­spretta nýrra hug­mynda og nýrra tæki­færa.

Sam­fé­lagi sem legg­ur áherslu á vel­ferð barna og hlust­ar á radd­ir þeirra hlýt­ur að farn­ast vel. Þannig sam­fé­lag horf­ir til framtíðar með hags­muni kom­andi kyn­slóða að leiðarljósi. Í þannig sam­fé­lagi vil ég búa og þannig sam­fé­lag mun ég og Fram­sókn leggja alla krafta okk­ar í að viðhalda og efla á næstu árum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2021.

Categories
Greinar

Hugleiðingar í lok árs 2021

Deila grein

29/12/2021

Hugleiðingar í lok árs 2021

Kæri lesandi.

Þegar þetta er ritað er aðeins farið að rökkva á Þorláksmessu. Daginn er tekið að lengja og helgin að færast yfir samfélagið. Þetta er fallegur og göldróttur tími. Jólaljósin lýsa upp skammdegið. Og þegar veðrið er stillt og fallegt eins og núna fyrir utan gluggann hjá mér þá færist einhver einstök kyrrð yfir sveitina. Kyrrð þessa árstíma er frábrugðin kyrrð annarra tíma ársins því í þessari kyrrð lifna minningar um fyrri jól og ekki síst jól æskunnar.

Framundan eru áramótin með tilheyrandi uppgjöri við hið liðna og þönkum um það sem koma skal. Árið sem nú er að líða frá okkur hefur verið mörgum þungt. Það hefur einkennst af baráttu við heimsfaraldurinn en eins og önnur kosningaár þá hefur það einkennst af grundvallarumræðum um samfélagið og í hvaða átt við viljum að það stefni og hvaða leiðir skuli farnar. Ég get sem formaður Framsóknar, þessa 105 ára gamla flokks, litið sáttur til baka yfir árið. Við í Framsókn nutum í haust góðrar uppskeru eftir vinnu síðustu ára. Sá sigur sem við unnum í kosningunum var mikilvægur og merkilegur. Miðjan, samvinnan og hófsemin vann stórsigur. Og eins og ég hef oft sagt þá er það á miðjunni sem framtíðin ræðst, það er á miðjunni sem það jafnvægi verður til sem framfarir byggja á.

Kosningabarátta Framsóknar gekk út á það að fjárfesta í fólki og hún gekk út á það að við trúum á afl íslensks samfélags til að skapa verðmæti sem leiðir til aukinna lífsgæða allra Íslendinga. Við erum ekki flokkur sem sér djöfla í hverju horni, við erum flokkur sem sér tækifærin. Við sjáum ekki vandamál, heldur verkefni. Og verkefni okkar næstu árin eru mörg og þau eru brýn.

Tækifærin í grænum iðnaði eru mikil og mikilvægt að stjórnvöld styðji eftir því sem hægt er við uppbyggingu hringinn í kringum landið.

Í stjórnarsáttmála Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs má heyra hjartslátt samfélagsins. Í honum ríkir bjartsýni. Bjartsýni um að framtíðin færir okkur aukin lífsgæði ef rétt er á málum haldið og bjartsýni um að við getum lagað það sem þarf að laga. Í stjórnarsáttmálanum hljómar stefna og hugsjónir Framsóknar.

Framtíðin er spennandi og framtíðin er björt. Þau tækifæri sem blasa við okkur eru mörg og þau eru um allt land. Ferðaþjónustan tekur skjótt við sér þegar aðstæður í ferðamennsku heimsins batna með hækkandi sól. Tækifærin í sjávarútvegi og landbúnaði eru mikil og öflug nýsköpun byggir ofan á þá reynslu og þekkingu sem er til í þessum rótgrónu atvinnugreinum á Íslandi. Tækifærin í grænum iðnaði eru mikil og mikilvægt að stjórnvöld styðji eftir því sem hægt er við uppbyggingu hringinn í kringum landið. Þá er sú sókn sem hafin er í hugverkaiðnaði og skapandi greinum sérstaklega spennandi og mun ef rétt er haldið á spöðunum skapa fjölmörg eftirsóknarverð og verðmæt störf fyrir unga jafnt sem eldri. Sá kraftur og sú hugmyndaauðgi sem býr í listum, sögu og menningu þjóðarinnar okkar felur í sér einstök tækifæri til að skapa verðmæti – bæði fjárhagsleg og samfélagsleg.

Ég ætla að leyfa mér að með vorinu birti ekki aðeins til í bókstaflegum skilningi heldur munum við ná sífellt betri tökum á faraldrinum og viðbrögðum okkar við honum.

Við erum okkar eigin gæfu smiðir. Það er mikilvægt að við tökum öll ábyrgð á eigin lífi og barna okkar. Það eru hins vegar hagsmunir alls samfélagsins að við búum börnum og ungmennum sterka umgjörð sem samfélag. Það er mikilvægt að stuðningskerfið snúist um hagsmuni og heilbrigði einstaklingsins en ekki kerfið sjálft. Við höfum stigið ákveðin og dýrmæt skref í þá átt á síðustu misserum og munum áfram vinna að því að skapa umgjörð þar sem allir fá tækifæri til að blómstra á sínum forsendum.

Við höfum sýnt það síðustu tvö árin að samstaða og samvinna er þjóðinni í blóð borin. Við höfum tekist á við erfiðar aðstæður og staðið okkur vel. Nú rís sólin fyrr á hverjum degi og færir okkur meira ljós. Ég ætla að leyfa mér að með vorinu birti ekki aðeins til í bókstaflegum skilningi heldur munum við ná sífellt betri tökum á faraldrinum og viðbrögðum okkar við honum. Og ef við göngum til verka bjartsýn og æðrulaus verður sú framtíð sem býður okkar björt og rík af tækifærum.

Ég óska þér, lesandi góður, gleðilegs árs og gæfuríks.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og innviðaráðherra.

Greinin birtist fyrst á 27. desember 2021.

Categories
Greinar

Það styttir upp um síðir

Deila grein

23/12/2021

Það styttir upp um síðir

Upp er runn­in stund ljóss og friðar þar sem ást­vin­ir koma sam­an og njóta sam­vista yfir jól­in um heim all­an. Þó svo að þessi jól, líkt og þau síðustu, lit­ist af heims­far­aldri er ekk­ert því til fyr­ir­stöðu að halda gleðileg jól og líta björt­um aug­um til framtíðar. Á ár­inu sem senn fer að líða hef­ur Íslend­ing­um tek­ist vel til að lifa með veirunni og spyrna við fót­um. Þannig hef­ur til dæm­is okk­ar frá­bæra skóla­fólki farn­ast vel í að halda skól­um opn­um í sam­fé­lag­inu, sviðlist­ir og önn­ur menn­ing hef­ur þrif­ist með ágæt­um, af­koma rík­i­s­jóðs var mun betri en bú­ist var við, at­vinnu­leysi hef­ur minnkað mikið og ferðaþjón­ust­an hef­ur tekið við sér miðað við fyrra ár.

Er­lend­ir gest­ir líta enn hýru auga til Íslands sem áfangastaðar en eins og sak­ir standa eru ekki merki um að verið sé að fella niður flug frá því sem plön gerðu ráð fyr­ir áður en þessi upp­sveifla í far­aldr­in­um byrjaði, þó svo að af­bók­an­ir í vél­un­um hafi auk­ist. Útlit er fyr­ir að tals­vert verði að gera um þessi jól og ára­mót í mót­töku er­lendra ferðamanna. 46% nýt­ing er á hót­el­um á höfuðborg­ar­svæðinu miðað við bók­un­ar­stöðu. Á sama tíma í fyrra var bók­un­arstaðan 3%. Tals­verðar bók­an­ir eru líka hjá afþrey­ing­ar­fyr­ir­tækj­um á svæðinu. Þetta er til marks um hversu rík­ur ferðavilji er fyr­ir hendi til þess að koma til Íslands þrátt fyr­ir upp­sveiflu í heims­far­aldr­in­um.

Þess­ar já­kvæðu vís­bend­ing­ar og fleiri til gefa okk­ur fullt til­efni til þess að líta björt­um aug­um til framtíðar. Við vit­um nefni­lega að far­ald­ur­inn mun ekki vara að ei­lífu, það mun stytta upp um síðir. Þangað til mun­um við halda áfram að styðja ferðaþjón­ust­una eins og þurfa þykir. Þannig höf­um strax haf­ist handa við að tryggja aukna fjár­muni í kynn­ingu á Íslandi sem áfangastað und­ir heit­inu Sam­an í sókn sem Íslands­stofa held­ur utan um og búa þannig í hag­inn þegar að fólks­flutn­ing­ar hefjast að nýju. Einnig hafa stjórn­völd greint frá áfor­um um að verja millj­arði í stuðning við veit­inga­hús. Þetta eru mik­il­væg­ar aðgerðir sem mun­ar um til lengri og skemmri tíma. Það er eng­in spurn­ing í huga mér að ferðaþjón­ust­an, og henn­ar öfl­uga fólk, verði burðar­ársinn í viðspyrnu þjóðarbús­ins. Enda hef­ur ferðaþjón­ust­an áður sýnt að hún geti skapað gríðarleg­ar gjald­eyris­tekj­ur fyr­ir landið á nokkuð skömm­um tíma.

Það eru von­ir mín­ar að all­ir okk­ar er­lendu gest­ir muni eiga gæðastund­ir hér á landi yfir þessi jól, ekki síður en við sem hér búum. Ég sendi því öll­um hlýj­ar jóla­kveðjur, full til­hlökk­un­ar og bjart­sýni á að bók­un­arstaðan verði 100% jól­in 2022.

Höf­und­ur er ferðamála-, viðskipta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Höf­und­ur: Lilja Al­freðsdótt­ir

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. desember 2021.

Categories
Greinar

105 ár Fram­sóknar fyrir ís­lenskt sam­fé­lag

Deila grein

17/12/2021

105 ár Fram­sóknar fyrir ís­lenskt sam­fé­lag

Kæri lesandi.

Saga Framsóknar í 105 ár er samofin framfarasögu íslensku þjóðarinnar og hvernig íslenskt samfélag hefur komist í efstu sæti í flestu því sem þykir gott og mikilvægt í samfélögum heimsins. Stóran hluta þessara 105 ára hefur Framsókn setið við ríkisstjórnarborðið en þess á milli veitt ríkisstjórnum landsins mikilvægt aðhald í stjórnarandstöðu.

Framsókn er miðjuflokkur sem hefur samvinnu að leiðarljósi í störfum sínum. Hún hafnar öfgum, hvort sem þær eru kenndar við hægri eða vinstri eða aðra ása, og leitar eftir sátt og samvinnu um leiðir og niðurstöðu sem eru almenningi til heilla. Það er samvinnan sem hefur skilað okkur á Íslandi svo hratt áfram í þróun samfélagsins. Samtakamáttur og samvinnu eru lykillinn að framförum. Við í Framsókn horfum á þann góða grunn sem samfélagið byggir á og styðjum við breytingar á því sem þarf að laga. Framsókn er ekki flokkur byltinga, við erum flokkur framfara.

Það er ekki sjálfsagt að stjórnmálahreyfingar nái háum aldri. Til þess að svo megi verða þurfa þær að vera síkvikar og hrærast með samfélaginu sem þær eru hluti af, samfélaginu sem þær þjóna. Það erindi sem Framsókn hefur í stjórnmálum á Íslandi er mikið eins og sýndi sig í kosningasigri haustsins. Erindið er margþætt en byggir á því sem var meitlað orð fyrir löngu síðan: Vinna, vöxtur, velferð. Án öflugs atvinnulífs verður ekki hægt að halda úti öflugu velferðarkerfi. Undirstaða framfaranna er einnig áhersla á að hver og einn fái tækifæri til að blómstra í sínu lífi með góðri menntun og fjölbreyttum atvinnutækifærum.

Frá því Framsókn varð til í desember 1916 hefur hún alltaf lagt áherslu á öflugt atvinnulíf um allt land. Smátt og smátt hefur stoðum efnahagslífsins fjölgað og þær gildnað: Landbúnaður, sjávarútvegur, iðnaður, ferðaþjónusta og nú síðast skapandi greinar og hugverkaiðnaður. Við okkur blasa miklar áskoranir vegna loftslagsbreytinga en í þeim áskorunum felast líka tækifæri fyrir land sem byggir á grænni orku.

Kæri lesandi. Framsókn mun hér eftir sem hingað til beita sér fyrir umbótum í íslensku samfélagi, landsmönnum til heilla. Ég þakka þann mikla stuðning sem Framsókn hefur hlotið í gegnum tíðina og þá ekki síst í kosningasigri ársins 2021. Framtíðin er græn, hún er björt, og hún ræðst á miðjunni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og innviðaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. desember 2021.