Categories
Fréttir Greinar

Verðum að taka afstöðu

Deila grein

11/05/2023

Verðum að taka afstöðu

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að „Sett verða metnaðarfull markmið um að auka hlutfall hollra og næringarríkra innlendra matvæla til að treysta fæðuöryggi.“ Síðastliðin ár hefur áskrifendum hugmyndafræðinnar um fæðuöryggi fjölgað. Við sjáum þau áhrif sem utanaðkomandi aðstæður geta skapað, þá til dæmis heimsfaraldur COVID og stríð í Evrópu. Atburðir sem Íslendingar hafa engin völd yfir en aðstæðurnar hafa þó áhrif hér á landi. Það verður sífellt mikilvægara að við tryggjum það að við séum sjálfum okkur næg til framtíðar og tryggjum fæðuöryggi landsins með hollu og næringarríku fæði.

Fæðuöryggi byrjar hjá bændum

Öflugur landbúnaður er þýðingarmikill fyrir fæðuöryggi í heimi þar sem aðfangakeðjur eru ótryggar auk þess sem ýmsar aðrar ógnir steðja að. Ef við ætlum að auka hlutfall hollra og næringarríkra innlendra matvæla þá verðum við að tryggja bændum landsins viðunandi rekstrargrundvöll og afkomu. Keðjan hefst þar. Ef starfsskilyrði bænda eru þess fallin að hrekja fólk úr stéttinni og hafa letjandi áhrif á nýliðun þá munum við væntanlega horfast í augu við talsvert brottfall.

Þrotlaus vinna bænda er ekki sjálfgefin þó svo að margir hafi tekið henni sem sjálfsögðum hlut of lengi. Mikilvægi stuðnings ríkisins til innlendrar matvælaframleiðslu er óumdeilt. Stuðningurinn er ýmist beint eða óbeinn. Sem dæmi má nefna aukna tollvernd á innfluttum afurðum og greiðslumark lögbýla. Þar eigum við langt í land. Innflutningur matvælaafurða hefur stóraukist á síðustu árum og virðist ekki linna, en hann hefur haft lamandi áhrif á innlenda matvælaframleiðslu, sem getur ekki keppt við risavaxinn verksmiðjubúskap sem uppfyllir ekki sömu kröfur og staðla og íslensk framleiðsla stenst. Þá til dæmis hvað varðar sýklalyfjaónæmi. Aukin tollvernd myndi bæði tryggja ríkinu auknar tekjur ásamt því að jafna aðstöðumun innlendrar og erlendrar matvælaframleiðslu.

Alvarleg staða

Við sjáum þá stöðu sem er við líði í innlendri matvælaframleiðslu. Nú berast fregnir að því að innlend kjötframleiðsla hopi mjög skart og jafnframt að miklir rekstrarerfiðleikar séu í mörgum búgreinum. Því er spáð að innlend kjötsala dragist mikið saman á næstu árum. Framangreindur innflutningur og dvínandi rekstrargrundvöllur veldur því að framleiðsla á innlendri kjötafurð stenst ekki undir nauðsynlegri fjárfestingu. Með þessu áframhaldi munum við horfast í augu við gríðarlegan samdrátt í íslenskum landbúnaði, með tilheyrandi skorti á svína-, nauta- og lambakjöti, ef ekki verður gripið til aðgerða. Mörg býli berjast í bökkum og sumir kjósa að hætta. Kynslóðaskipti og nýliðun eru varla möguleg í núverandi rekstar- og skuldaumhverfi.

Þetta er þeim mun sorglegra þar sem mannauðurinn er til staðar. Fullt af áhugasömu og kraftmiklu fólki vill vinna við landbúnað og viðhalda hefðinni, sögunni og hugsjóninni. Íslenskur landbúnaður er nefnilega svo mikið meira en matvælin. Hann er samofinn sögu okkar og hefðum. Gegnum landbúnaðinn miðlum við menningu og sögu landsins. Landbúnaðurinn leggur í raun til litina, lyktina og leiktjöldin á því leiksviði sem innlendir og erlendir ferðamenn sjá. Án landbúnaðarins verður dauflegt um að litast í sveitum. Að mínu viti lýsir það hnípinni þjóð sem nærir ekki þann jarðveg sem landbúnaðinum eru lífsnauðsynlegur.

Hvernig land viljum við byggja?

Málefni landbúnaðarins og fæðuöryggi eru neytendamál, lýðheilsumál og byggðamál og Íslendingar þurfa að taka afstöðu. Við þurfum að ákveða hvernig land við viljum byggja til framtíðar. Hvort við viljum viðhalda núverandi stöðu og stefna í átt að tómlegri matvælaframleiðslu, en þá er það tímaspursmál hvenær við þurfum að reiða okkur að fullu á innflutning erlendis frá. Eða viljum við byggja upp land þar sem tækifærin eru til staðar, byggðir blómstra og bændur viðhalda gæða framleiðslu með þá sérstöðu sem við Íslendingar þekkjum svo vel.

Ef við veljum seinni afstöðuna þá þurfum við að grípa til alvöru aðgerða eins fljótt og auðið er og bæta rekstrarumhverfi bænda. Í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi þann 2. maí sl. vakti ég athygli á umræddu ástandi og benti forsætisráðherra á mikilvægi þess að stofnaður verði starfshópur sem fer ítarlega yfir núverandi stöðu og leggur til aðgerðir sem myndu rétta úr kútnum og koma innlendri matvælaframleiðslu aftur í réttan farveg. Ég bind miklar vonir við að slíkur starfshópur verði stofnaður og að þeim aðgerðum, sem hann leggur til, verði fylgt af stjórnvöldum. Þannig tökum við alvöru afstöðu og tryggjum fæðuöryggi landsins, sérstöðu Íslands og tryggjum blómlega byggð um allt land.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greini birtist fyrst í Bændablaðinu 11. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Flug­völlurinn fer hvergi

Deila grein

04/05/2023

Flug­völlurinn fer hvergi

Stjórnmál geta verið allavega. Í mínum huga eru þau mikilvægt tæki til að móta samfélag og vinna að framförum. Átök eru hluti af stjórnmálunum, hluti af lýðræðinu. Almennt gilda í stjórnmálum ákveðnar leikreglur. Þær eru mikilvægar og snúa helst að því að stjórnmálamenn komi fram af heilindum og nýti sér ekki viðkvæm málefni til að skapa ótta meðal borgaranna. Það er ekki aðeins ómerkilegt heldur skaðlegt.

Öryggi vallarins skerðist ekki

Síðustu daga hefur umræðan um Reykjavíkurflugvöll verið áberandi. Tilefni umræðunnar eru niðurstöður skýrslu faglegs starfshóps sem fékk það verkefni að rýna áhrif nýrrar byggðar í Skerjafirði á flug – og rekstaröryggi flugvallarins. Niðurstaða starfshópsins er að byggðin hafi að óbreyttu áhrif á aðstæður á Reykjavíkurflugvelli en með aðgerðum muni öryggi hans ekki skerðast.

Samkomulagið tryggir völlinn í áratugi

Reykjavíkurflugvöllur er gríðarlega mikilvægur fyrir íslenskt samfélag. Ekki er hann aðeins mikilvæg brú milli borgar og landsbyggðanna heldur er hann órjúfanlegur hluti af heilbrigðisþjónustu landsins. Þetta skilja allir og þess vegna var skrifað undir samkomulag árið 2019 um það að Reykjavíkurflugvöllur myndi verða við óbreytt skilyrði í Vatnsmýrinni þar til annar jafngóður eða betri kostur fyndist og það sem meira er: Flugvöllurinn verður óbreyttur í Vatnsmýri þar til annar flugvöllur getur tekið við öllum þeim skyldum sem á Reykjavíkurflugvellli hvíla. Það þýðir einfaldlega að Reykjavíkurflugvelli verður ekki haggað í áratugi. Um það snýst samkomulag ríkis og borgar frá árinu 2019.

Reykjavíkurflugvöllur er líflína

Ég hef fullan skilning á því að sú ófaglega og á köflum ómerkilega umræða sem hefur átt sér stað síðustu daga veki ótta hjá fólki, ekki síst þeim sem búa fjarri höfuðborginni og hafa þurft að reiða sig á sjúkraflug til að koma veikum eða slösuðum ættingjum á Landspítalann. Reykjavíkurflugvöllur er nefnilega ekkert venjulegt mannvirki, hann getur verið líflína.

Staðreyndir – ekki upphrópanir

Markmið innviðaráðherra með því að skipa hóp sérfræðinga eftir tilnefningar frá Isavia, öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna, háskólasamfélaginu, Veðurstofu Íslands og Reykjavíkurborg undir forystu verkfræðingsins Eyjólfs Árna Rafnssonar var að draga fram staðreyndir og færa umræðuna um þetta viðkvæma málefni, Reykjavíkurflugvöll, af blóðvelli stjórnmálanna. Jafnmikilvæg umræða verður að vera byggð á staðreyndum en ekki upphrópunum og æsingi. Stjórnmálamenn mega ekki láta kappið bera fegurðina ofurliði.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Aukið fjármagn til flugvalla um land allt

Deila grein

01/05/2023

Aukið fjármagn til flugvalla um land allt

Uppbygging varaflugvalla á Íslandi hafa ekki verið í samræmi við vöxt alþjóðarflugs síðustu misseri. Flestar ferðir til og frá landinu eru í gegnum Keflavíkurflugvöll en hins vegar erum við að sjá aukið millilandaflug gegnum flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum. Í kjölfarið sjáum við stóraukningu veitingastaða, gistirýma, afþreyingar og verslana á svæðinu. Með auknu flugi og aukinni verslun og þjónustu getum við aukið velmegun svæðisins til muna. Við þessa þróun myndast ný tækifæri á Norðausturlandi.

Ein leið til að halda áfram að stuðla að þessum vexti er að tryggja að flugvellir okkar séu vel í stakk búnir til að takast á við fjölgun ferðamanna. Til þess að svo verði þurfum við að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir, byggja upp og stækka innviði flugvallanna svo þeir geti sinnt hlutverki sínu sem mikilvægar gáttir inn í landið.

Við getum hins vegar ekki horft fram hjá þeirri fjárhagslegu byrði sem þessum framkvæmdum fylgir. Bygging og viðhald flugvalla krefst umtalsverðrar fjárfestingar og til þess að hægt sé að ráðast í slíkar framkvæmdir þarf að tryggja að nauðsynlega fjármuni til þess.

Hóflegt gjald skilar 1,2-1,5 ma króna

Í vikunni mælti Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra fyrir frumvarpi í þinginu um svokallað varaflugvallagjald. Um er að ræða mjög hóflegt gjald á hvern farþega sem getur þó skilað stjórnvöldum 1.200-1.500 milljónum kr. ár hvert ef miðað er við sex milljónir farþega. Þá benda allar spár til þess að þessar upphæðir geti orðið enn hærri þar sem farþegaspár gera ráð fyrir mun fleiri farþegum.

Ísland er eitt af fáum ríkjum í heiminum sem leggur engan skatt á flugferðir, en skattheimta sem þessi er mjög sambærileg í flestum öðrum ríkjum innan EES. Það er því mikilvægt að við nýtum skynsamlegar leiðir til þess að fjármagna uppbyggingu á nauðsynlegum innviðum.

Ég tel afar skynsamlegt að stíga þetta skref og fara í þessa gjaldtöku og tryggja með því fjármagn til þess að fara í nauðsynlega og uppsafnaða uppbyggingu á innanlandsflugvöllum. Forgangsraða verkefnunum, byrja þar sem skóinn kreppir og svo ef vel gengur þá verður vonandi fjármagn hugsað til frekari uppbyggingar annarra flugvalla sem þjónusta m.a. sjúkraflugi í landinu.

Við þurfum, vegna öryggissjónarmiða að hafa til taks flugvelli ef loka þarf Keflavíkurflugvelli af einhverjum ástæðum líkt og reynslan sl. vetur sýndi okkur.

Eins og við vitum er ferðaþjónustan mikilvægur þáttur í atvinnulífi okkar og við höfum séð verulega aukningu á fjölda ferðamanna sem heimsækja landið okkar á undanförnum árum.

Þess vegna tel ég mikilvægt að umrætt varaflugvallagjald verði greidd leið í gegnum þingið. Með því getum við hvatt fleira fólk til að heimsækja landið okkar og leggja sitt af mörkum til hagkerfis okkar, á sama tíma og við getum aflað aukatekna til að styðja við framkvæmdir við flugvallarmannvirki okkar.

Það er von mín að þingmenn taki höndum saman um að tryggja að flugvellir okkar séu vel í stakk búnir til að takast á við vöxt ferðaþjónustunnar og viðhalda stöðu Íslands sem áhugaverðs ferðamannastaðar og samkeppnishæfum áfangastað.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. maí 2023.

Categories
Fréttir

Áframhaldandi vinna við áskoranir!

Deila grein

08/04/2023

Áframhaldandi vinna við áskoranir!

Þær hafa verið viðburðaríkar vikurnar frá síðasta bréfi. Vil ég byrja á að þakka innilega fyrir hönd þingflokksins góð samtöl við ykkur í mjög vel heppnaðri kjördæmaviku. Þið náðuð að nesta okkur af mikilvægum ábendingum sem úrlausna þarf við og eins að hvetja okkur áfram, fyrir það erum við þakklát.

Í liðinni viku kynntu formenn stjórnarflokkanna fjármálaáætlun, fyrir árin 2024-2028, þar sem koma fram áherslur og markmið til næstu fimm ára um tekjur og gjöld hins opinbera og þróun þeirra. Áætlunin er mikilvægt tæki til að beita ríkisfjármálunum með markvissum hætti. Það mátti greina góð fyrstu viðbrögð markaða við framlagningu fjármálaáætlunarinnar, vextir á ríkisskuldabréfum lækkuðu verulega og samhliða lækkaði verðbólga á milli mánaða.

Þingflokkur Framsóknar og ríkisstjórnin eru skýr með að sýna trúverðugt aðhald, en forgangsröðun brýnna verkefna og að bjóða áfram upp á góða almannaþjónusta. Þórarinn Ingi var talsmaður þingflokksins við fyrri umræðu fjármálaáætlunarinnar á Alþingi. Verður umræðunni framhaldið strax að loknu páskafríi Alþingis, þar sem ráðherrar munu m.a. fara yfir málaflokka sinna ráðuneyta.

Fjölskyldan snertir beint allt í okkar samfélagi og því er svo mikilvægt að gæta að og halda málefnum hennar á efst á blaði við alla ákvarðanatöku. Við ætlum okkur áfram að byggja gott samfélag og bjóða upp á jöfn tækifæri.

  • Við ætlum áfram að nýta barnabótakerfið til að auka ráðstöfunartekjur tekjulægri fjölskyldna.
  • Staða fjölskyldna langveikra og alvarlega fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra verður bætt með nýju fyrirkomulagi umönnunarstyrks og umönnunargreiðslna. Aðbúnaður og réttindi barna eru ávallt í fyrirrúmi, börn eru hjartað í kerfinu.
  • Áfram verður stutt við foreldra með öflugu fæðingarorlofskerfi.
  • Við veitum börnum og barnafjölskyldum þjónustu við hæfi án hindrana og stuðlum þannig að góðum lífsgæðum, sem er ávinningur samfélagsins alls.

Farsældarlögin, samþætting þjónustu í þágu farsældar barna eru umgjörð barna og foreldra, sem á þurfa að halda og veita aðgang að þjónustu þvert á kerfi, án hindrana.

Fjárframlögin til heilbrigðismála hafa aukist verulega og endurspegla forgangsröðun og áherslur ríkisstjórnarinnar um að standa með íslensku heilbrigðiskerfi.

  • Bætt var við 12 milljörðum króna í viðbótarframlag til heilbrigðismála í síðustu fjárlögum (2023) til þess að styrkja heilbrigðiskerfið og engin aðhaldskrafa er á heilbrigðisstofnanir í fjármálaáætluninni.
  • Stærsta verkefnið framundan í geðheilbrigðismálum er samþætting og samvinna milli þjónustustiga geðheilbrigðisþjónustu sem mætir þörfum notenda um allt land með árangursríkum lausnum á réttu þjónustustigi á réttum tíma. Geðheilbrigðisþjónusta við börn og ungmenni er í forgangi. Aðgerðaráætlun í geðheilbrigðisþjónustu til næstu 5 ára hefur verið lögð fram á Alþingi.
  • Samningar milli Sjúkratrygginga Íslands, Klíníkurinnar í Ármúla og Handlæknastöðvarinnar í Glæsibæ um framkvæmd 700 liðskiptaaðgerða á þessu ári voru undirritaðir á dögunum. Samningarnir munu stuðla að jöfnu aðgengi einstaklinga að þessari mikilvægu heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.

Stóra áskorunin okkar í húsnæðismálum er að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði og að skipulag sveitarfélaga horfi markvisst til framboðs á fjölbreyttri nýtingu lands. Við í Framsókn leggjum mikla áherslu á að ná þeirri stöðu á húsnæðismarkaði að framboð íbúða mæti undirliggjandi þörf mismunandi hópa fólks á öllum tímum, óháð efnahag og búsetu.

  • Það þarf að byggja þrjátíu og fimm þúsund íbúðir hér á landi á næstu tíu árum og hefur ríkið gert samninga við sveitarfélög til að ná því markmiði.

Ákveðið hefur verið að leggja á 1% tímabundinn viðbótarskattur á lögaðila á árinu 2024. Lagt er upp með að atvinnulífið komi þannig til móts við stuðning ríkissjóðs í gegnum Covid-19.

Áætlað er að ferðaþjónustan muni koma sterkt inn með auknum tekjum.

  • Tekin verður upp skattlagning á komu skemmtiferðaskipa sambærilegri og gistináttagjaldinu.
  • Jafnframt er horft til aukna tekna af greinum eins og af fiskeldi og sjávarútvegi.
  • Breytingar á skattlagningu ökutækja og eldsneytis skipta eins máli.

Lilja Dögg gerði vel á dögunum er hún fagnaði með forystu Neytendasamtakanna, á 70 ára afmæli þeirra og afhenti þeim styrk frá ríkisstjórninni og ráðuneyti hennar til að hefja úttekt þeirra á tryggingamarkaði á Íslandi og réttindum neytenda þegar kemur að tryggingamálum. Vil ég taka undir með Lilju Dögg hvað það er brýnt og mikilvægt að í núverandi efnahagsástandi sé hugað vel að neytendamálum. Ráðuneyti hennar mun setja aukinn þung í neytendavernd og unnið er að heildarstefnumótun sem áætlað er að ljúki fyrir árslok 2024.

Sigurður Ingi sagði á kynningarfundi formanna ríkisstjórnarflokkanna um fjármálaáætlunina að áfram verði hægt að takast á við arðsamar fjárfestingar í samgöngum. Framkvæmdir sem þegar eru hafnar verði ekki frestað. Í umfjöllun fjármálaáætlunar um samgöngumál er m.a. gert ráð fyrir:

  • Að hægt verði að leggja á sérstakt varaflugvallargjald, 200 kr. á farþega sem skili um 1,3 milljörðum kr. á ári til uppbyggingar innviða á innanlandsflugvöllum.
  • Að í húsnæðismálum verður stuðlað að stöðugleika með sameiginlegri sýn ríkis og sveitarfélaga til næstu 10 ára um uppbyggingu íbúða til að mæta íbúðaþörf ólíkra hópa samfélagsins. Helstu breytingar á útgjaldaramma vegna þessa málaflokks á tímabili fjármálaáætlunar er 10 milljarða kr. aukning á stofnframlögum.
  • Að um sveitarfélög og byggðamál er m.a. vakin athygli á að útgjaldarammi hækki um 5,2 milljörðum kr. á tímabilinu sem skýrist af auknu lögboðnu framlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Vil ég að lokum óska landsmönnum öllum gleðilegra páska.

Framtíðin er björt með Framsókn!

Með kveðju frá Austurvelli,

Ingibjörg Isaksen


Áhugaverðir hlekkir:

Categories
Fréttir Greinar

Hver á að borga fyrir ferminguna?

Deila grein

04/04/2023

Hver á að borga fyrir ferminguna?

Það getur verið flókið að ganga í gegnum skilnað, sér í lagi þegar fólk á börn saman. Í daglegu lífi þegar sérstök útgjöld tengdu barni eru framundan líkt og til dæmis vegna fermingar getur ágreiningur skapast milli foreldra. Í slíkum tilvikum getur lögheimilisforeldri óskað eftir úrskurði sýslumanns til að umgengnisforeldri greiði framlag þegar kemur að sérstökum útgjöldum s.s. vegna skírnar, ferminga, tannréttinga, gleraugnakaupa, sjúkdóma, greftrunar o.s.frv.

En umsóknir vegna sérstakra útgjalda geta verið bæði krefjandi og erfiðar ásamt því að vera flókið ferli fyrir foreldra sem jafnvel á sama tíma eru að ganga í gegnum erfið samskipti við fyrrverandi maka.

Óþarflega flókið ferli

Í síðasta mánuði mælti sú sem hér skrifar fyrir tillögu sem hefur það að markmiði að einfalda ferli umsókna um sérstök útgjöld vegna barns. Í tillögunni er lögð áhersla á að auðvelda aðgengi milli aðila ríkisins að upplýsingum og gögnum, en foreldri þarf við umsókn um sérstök útgjöld að leggja fram ýmis fylgiskjöl frá opinberum aðilum í samræmi við hvert tilefni fyrir sig. Má þar nefna skattframtöl, tekjuyfirlit, forsjárvottorð, gildandi ákvörðun um meðlag og yfirlit frá sjúkratryggingum vegna greiðsluþátttöku.

Allt eru þetta gögn sem nú þegar liggja fyrir hjá hinu opinbera og því væri nærtækara að sýslumaður hefði lagaheimild kalla eftir þessum gögnum í stað þess að foreldri fari á milli kóngs og prests við að týna saman upplýsingar. Undirrituð telur að skoða verði af fullri alvöru hvort hægt sé að aflétta frumkvæðisskyldu foreldris við öflun opinberra fylgiskjala og færa þá skyldu yfir á ríkið eða auka heimildir stjórnvalda til þess að staðfesta tilvist og efni upplýsinga í gegnum www.island.is. Tryggja þarf að sýslumannsembættunum sé kleift að afla nauðsynlegra gagna með stafrænum hætti.

Nýtum framvindu tækninnar

Í samræmi við þær tækniframfarir sem hafa átt sér stað á undanförnum árum ætti auðveldlega að vera hægt að einfalda ferli um sérstök útgjöld verulega. Við gerð greiðslumats hökum við í boxið um upplýsingaöflun um tekjur okkar og skuldir og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að setja upp slíkt kerfi við umsóknarferli um sérstök útgjöld. Undirrituð telur að með sambærilegum hætti væri auðveldlega hægt að veita heimild til gagnaöflunar hjá stjórnvöldum vegna umsókna um sérstök útgjöld.

Ef við höfum tök á að bæta þjónustuna á þessum vettvangi og einfalda um leið ferlið bæði fyrir foreldrið og úrvinnsluaðilann, ættum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að lausnin geti orðið að veruleika.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Heima er best

Deila grein

29/03/2023

Heima er best

Öldrun er ó­um­flýjan­legur hluti af lífinu, þegar við eldumst söfnum við að okkur þekkingu, lífs­reynslu og visku sem getur verið okkur sjálfum og öðrum dýr­mæt. Þakk­læti, sterkari og dýpri tengsl við fjöl­skyldu, vini og ást­vini og ekki síður oft og tíðum aukinn tími til að sinna á­huga­málum sem veita á­nægju og aukna lífs­fyllingu.

Það eru margir kostir sem fylgja því að eldast, en einnig á­skoranir. Með hækkandi aldri er ekki ó­senni­legt að fólk þurfi að­stoð og stuðning við dag­leg verk­efni, sér í lagi þegar heilsan tekur upp á að bregðast. Þörfin fyrir að­stoð verður stundum meiri með aldrinum og því er mikil­vægt að fólk hafi mögu­leika á að þiggja þjónustu sem það getur treyst á. Þjónustu sem eykur öryggi, lífs­gæði, vald­eflir og mætir þjónustu­þörf eins og best verður á kosið hverju sinni. Þegar við spyrjum eldra fólkið okkar út í óskir sínar eru svörin oftast á þá leið að ein­stak­lingurinn vill geta búið heima eins lengi og kostur er. En svo það sé mögu­legt verðum við að skapa að­stæður sem styðja við þeirra óskir.

Um mitt ár 2019 var undir­ritaður samningur milli Sjúkra­trygginga Ís­lands (SÍ) og Öldrunar­heimila Akur­eyrar (ÖA) sem fól m.a. í sér heimild til að hefja ný­sköpunar- og þróunar­verk­efni um sveigjan­leg dag­dvalar­rými. Þar var á­hersla lögð á þver­fag­lega teymis­vinnu til að skapa mark­vissa og öfluga starf­semi. Sveigjan­leg dag­dvöl sem var þjónusta alla daga, allan ársins hring sem að­lagaði sig þörfum ein­stak­lingsins. Á­hersla var lögð á að styðja not­endur dag­þjálfunar til sjálf­stæðis og sjálf­ræðis, á­samt því að efla færni og sjálfs­bjargar­getu heima og í dag­þjálfun.

Sveigjan­leg dag­þjálfun

Hug­mynda­fræði dag­þjálfunar eða dag­dvalar er að vera stuðnings­úr­ræði við eldra fólk sem býr í heima­húsum. Mark­miðið með þjálfuninni er að við­halda færni og getu fólks til að búa á­fram heima og er á­vinningurinn af því að koma í veg fyrir eða seinka vistun á hjúkrunar­heimili. Fjöl­breytni og sveigjan­leiki úr­ræða skiptir höfuð­máli og veitir sveigjan­leg dag­þjálfun marg­vís­legan á­vinning sem getur hjálpað til við að auka lífs­gæði.

Einn af helstu kostum þessarar þjónustu er mögu­leikinn til að hlusta á það sem eldra fólkið vill og sníða þjónustuna að þess á­herslum. Þjálfun sem þessi getur veitt veru­legan á­vinning m.a. með bættri and­legri og til­finninga­legri líðan. Fjöl­skyldu­með­limir eru oft og tíðum þeir aðilar sem bera á­byrgð á eldri ást­vinum sínum og það getur á tímum verið krefjandi.

Með því að nýta sveigjan­lega dag­þjálfun geta um­önnunar­aðilar dregið sig í hlé og sinnt sínum verk­efnum á sama tíma og þeir vita að ást­vinir þeirra fá þá um­önnun sem þörf er á. Þá hefur fé­lags­leg ein­angrun verið vanda­mál meðal eldra fólks, sér­stak­lega þeirra sem búa einir eða hafa tak­markaða hreyfi­getu. Með sveigjan­legri dag­þjálfun aukast sam­skipti við aðra sem getur hjálpað til við að koma í veg fyrir ein­mana­leika, kvíða og þung­lyndi.

Verk­efnið hefur skilað árangri

Verk­efnið hefur skilaði sýni­legum árangri, það er ó­tví­ræður á­vinningur af sveigjan­legri dag­þjálfun í formi bættra lífs­gæða fyrir not­endur og fjöl­skyldur þeirrar. Not­endur, að­stand­endur og starfs­fólk eru að mestu sam­mála um að úr­ræðið hafi bætt and­lega líðan og hafi stuðlað að við­heldni og jafn­vel fram­förum í líkam­legri færni og getu. Úr­ræðið er nú þegar orðinn mikil­vægur hlekkur í þróun milli­stigsúr­ræða í þjónustu við aldraða.

Rauði þráðurinn í niður­stöðum framan­greinds ný­sköpunar- og þróunar­verk­efnis var að um­sóknum um hjúkrunar­rými fækkaði. Þátt­tak­endum fannst þeir fá þjónustu sem veitti þeim tæki­færi til að geta búið lengur heima við öryggi, þar sem þeim var tryggð sú að­stoð sem þeir þurftu á að halda.

Þá upp­lifðu að­stand­endur þeirra sem tóku þátt í verk­efninu einnig aukið öryggi. Hér er um að ræða þjónustu sem festa þarf í sessi til fram­tíðar.

Vilji til að þjónusta eldra fólk

Sam­setning mann­fjöldans á Ís­landi er að þróast á þann veg að hlut­fall eldra fólks hækkar frá því sem áður var og við þurfum að tryggja að kerfin okkar verði til­búin til þess að styðja við þennan stækkandi hóp. Það getum við gert með því að koma til móts við fólk með fjöl­breyttum úr­ræðum og þjónustu. Ný við­horf í þjónustu við eldra fólk þar sem á­hersla er lögð á aldurs­vænt og styðjandi sam­fé­lag munu leiða okkur að betri sam­fellu og sterkari heildar­sýn fyrir þjónustu við eldra fólk.

Á­vinningurinn af að­gerðum sem þessum dregur úr á­lagi á ýmsum sviðum heil­brigðis­mála eins og t.d. heilsu­gæslu, fé­lags­þjónustu og hjúkrunar­heimilum. Auk þess með því að veita eldra fólki þjónustu við hæfi og þörf hverju sinni verða meiri líkur á auknum lífs­gæðum og sjálf­stæði eldra fólks.

Mark­miðið stjórn­valda er að bæta lífs­gæði eldra fólks með því við­halda færni og virkni ein­stak­lingsins og þar spila for­varnir, heilsu­efling og endur­hæfing stóran þátt í heil­brigðri öldrun þjóðarinnar. Það sýnir sig einna best í þings­á­lyktunar­til­lögu sem er nú í með­förum Al­þingis.

Um er að ræða að­gerða­á­ætlun um þjónustu við eldra fólk sem ætlað er að vera leiðar­vísir fyrir stjórn­völd til að skapa skýra fram­tíðar­sýn um hvaða leiðir verði farnar til að bæta þjónustu við eldra fólk og vinna heildar­stefnu sem felur í sér að eitt þjónustu­stig taki hnökra­laust við af öðru, að á­byrgð á þjónustu­þáttum milli aðila sé skýr og að gráum svæðum verði út­rýmt.

Um er að ræða að­gerða­á­ætlun til fjögurra ára og er mark­miðið að tryggja að eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um ræðir heima­þjónustu á vegum sveitar­fé­laga eða heil­brigðis­þjónustu.

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Samvinna fyrir betra heilbrigðiskerfi

Deila grein

24/03/2023

Samvinna fyrir betra heilbrigðiskerfi

Sjúkratryggingar Íslands óskuðu á dögunum eftir tilboðum frá einkaaðilum innan heilbrigðisgeirans til að framkvæma liðskiptaaðgerðir á mjöðmum og hnjám. Í síðustu viku bárust góðar fréttir frá Sjúkratryggingum Íslands sem opinberuðu hvaða tilboð voru samþykkt og meginfyrirkomulag samninga en fjögur tilboð bárust stofnuninni. Um er að ræða tilboð í allt að 700 aðgerðir sem munu bæta lífskjör einstaklinga til muna. Þessi aðgerð er að frumkvæði Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra og hefur það að markmiði að stytta biðlista fyrir liðskiptaaðgerðir.

Aðgerðir stjórnvalda

Stjórnvöld hér á landi hafa lagt kapp á að framfylgja þeirri stefnu að bjóða öllum hér á landi upp á nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, enda er það ein af meginstoðum þess að búa til gott velferðarsamfélag. Þróun samfélagsins og aukin eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu hefur leitt til þess að bregðast þarf við með nýjum áherslum innan heilbrigðiskerfisins. Ef við ætlum okkur að ná að framfylgja þeirri þjónustu sem kallað er eftir þurfa stjórnvöld að finna jafnvægi í blönduðu heilbrigðiskerfi í þágu einstaklingsins.

Ríkisstjórnin hefur lagt ríka áherslu á eflingu heilbrigðiskerfisins á þessu kjörtímabili. Fjárframlög til heilbrigðismála hafa aukist verulega sem endurspeglar aftur forgangsröðun og áherslur stjórnvalda, en lagt var til 12 milljarð króna viðbótarframlag til heilbrigðismála við síðustu fjárlög til þess að styrkja heilbrigðiskerfið. Fjárframlögin eru til þess fallin að mun betur er hægt að leysa þau mörgu verkefni sem blasa við. Ofangreindir samningar eru meðal þeirra aðgerða sem þörf var að fara í enda um mjög brýnt mál að ræða. Það er ótækt að láta fólk bíða lengi eftir nauðsynlegum aðgerðum sem hamla lífsgæði og draga úr virkni. Stjórnvöld eru með þessu að leita leiða til að stytta biðlista og koma fólki, sem þarf á ákveðinni þjónustu að halda, aftur í fyrra form. Bið eftir liðskiptiaðgerðum síðustu ár hefur verið allt of löng meðal annars vegna uppsafnaðar þarfar auk þess sem heimsfaraldurinn spilaði þar einnig stórt hlutverk.

Framsókn hefur lengi beitt sér fyrir bættri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag eða búsetu. Þjónustan þarf að vera í samræmi við aðstæður, möguleika og vilja hvers og þá þarf að horfa til þess að halda kostnaðarþáttöku eins lágri og hægt er. En það er eitt að segja það og annað að framkvæma. Við í Framsókn höfum haldið okkar stefnu sem við lögðum upp með í síðustu alþingiskosningum á lofti og unnið í átt að auknum framlögum ríkisstjórnarinnar til heilbrigðismála og stefna Framsóknar í heilbrigðismálum endurspeglast nú með þessum samningum.

Tækifæri utan stofnana

Samvinna er vænlegust til árangurs hvað varðar forvarnir, lýðheilsu, geðheilbrigðisþjónustu, öldrunarþjónustu og nær allra þá þjónustu sem varðar heilbrigði þjóðarinnar. Meðal þeirra stefnumála sem Framsókn setti í fararbrodd fyrir síðustu kosningar var að stórefla heilbrigðisþjónustu utan sjúkrastofnana. Við sjáum í verki hversu vel það reynist heilbrigðisþjónustu landsins að stuðla að frekara samspili innan blandaðs heilbrigðiskerfis. Tvö dæmi um það eru nýlegir samningar um kaup á endómetríósuaðgerðum og liðskiptaaðgerðum. Þessir samningar eru gott dæmi um hvernig hægt er að bæta kerfið til muna með auknu samstarfi með heilbrigðisþjónustuaðila utan hins opinbera. Samningarnir um kaup á endómetríósuaðgerðum eru dæmi um mikilvægt skref í átt að styttingu biðlista og jöfnun aðgengi. Of margar konur hafa glímt við einkenni endómetríósu í of langan tíma, og það er mikið fagnaðarefni að þær fá loksins nauðsynlega þjónustu.

Nú er komið að liðskiptunum, en undirrituð trúir ekki öðru en að báðir þessir samningar geta reynst fordæmi til framtíðar um hvernig samvinna heilbrigðisstarfsmanna, bæði innan og utan hins opinbera, getur skipt sköpum fyrir sjúklinginn sjálfan, enda á hann ávallt að vera í forgrunni.

Ingibjörg Isaksen, þingflokkformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Evrópu­sam­bands­draugurinn

Deila grein

05/03/2023

Evrópu­sam­bands­draugurinn

Nú þegar gefur á bátinn í hagkerfum heimsins og verðbólga hefur farið vaxandi hefur gamall draugur verið dregin út úr skápnum. Aftur er komin í gang sama orðræða og í kjölfarið á hruninu þar sem innganga í Evrópusambandið átti að leysa öll okkar vandamál og er þá litið á evruna sem galdratæki sem bjargað geti öllum okkar vandræðum í eitt skipti fyrir öll. Evrópusambandið er annað, stærra og meira en bara upptaka á evru, auk þess sem innganga í sambandið er ekki lausn undan verðbólgu. Það má best sjá með því að líta til annarra landa innan Evrópusambandsins sem tekið hafa upp evruna og eru þrátt fyrir það að glíma jafnvel við enn hærri verðbólgu en við hér á landi. Nýjar verðbólgutölur í Frakklandi og Spáni gefa einnig til kynna að verðbólga á evrusvæðinu verði viðvarandi. Við, líkt og önnur lönd í Evrópu erum að glíma við afleiðingar af heimsfaraldri sem og innrás Rússa í Úkraínu. Þá hefur evran verið háð verulegum sveiflum undanfarin ár, þar sem sum aðildarríki ESB glíma við miklar skuldir og lítinn hagvöxt. Í stað þess að hafa jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf gæti innganga í Evrópusambandið og upptaka evru haft neikvæðar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf sem hefur verið nokkuð stöðugt undanfarin ár.

EES samningurinn tryggir okkur góða stöðu

Ísland, Noregur og Sviss sem öll standa utan Evrópusambandsins eru á meðal þeirra landa sem teljast hafa hve best lífskjör í veröldinni. Ísland nýtur í dag verulegs ávinnings á því að vera aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA). Þessir samningar gera Íslandi kleift að taka þátt í innri markaði ESB og njóta góðs af frjálsum viðskiptum við ESB-ríkin. Fyrir vikið hefur Ísland aðgang að stærsta markaði heims án þess að þurfa að hlíta ströngum reglum og stefnum ESB. Þetta fyrirkomulag hefur verið hagstætt fyrir íslenskt efnahagslíf þar sem það tryggir frjálst flæði vöru og þjónustu milli Íslands og ESB-ríkja. EES samningurinn hefur skapað sterkt og stöðugt viðskiptasamband milli ESB og EES-EFTA- ríkjanna sem veitir gagnkvæman ávinning og tækifæri til vaxtar og þróunar. Auk þess hefur EES samningurinn skapað stöðugan ramman utan um pólitískt og efnahagslegt samstarf milli ESB-ríkjanna og EES- EFTA-ríkjanna. Þessu samningur hefur skapað vettvang sem gerir löndunum kleift að vinna saman að mikilvægum málum líkt og matvælaöryggi , rannsóknum og nýsköpun, fjármálastarfsemi og upplýsingatækni.

Erum við tilbúin að fórna sjálfstæði okkar?

Staðreyndin er sú að með inngöngu í Evrópusambandið yrði Ísland að undirgangast löggjöf ESB sem gætu takmarkað sjálfstæði Íslands í ákveðnum málaflokkum. Við myndum tapa sjálfstæði yfir auðlindum landsins og stjórn sjávarútvegs sem er verulegur hluti af efnahagslífi landsins þar sem ESB hefur sameiginlega fiskveiðistefnu sem leitast við að stjórna fiskistofnum á sjálfbæran hátt. Það gæti hugsanlega takmarkað möguleika Íslands til að veiða í eigin hafsvæði. Orkuverð hefur farið vaxandi innan ESB á síðustu árum og þá tók orkuverð í Evrópu enn stærra stökk upp á við eftir innrás Rússa í Úkraínu. Ísland er í farabroddi í orkumálum en amk. 85% af orku sem er notuð á Íslandi er framleidd á endurnýjanlegan grænan hátt. Við megum vera stolt af þessum árangri og um leið þakkað fyrir að vera ekki í sömu stöðu og þjóðir ESB þegar kemur að stöðu í orkumálum og orkuverði. Við getum eflaust flest verið sammála um það að í sjávarútvegs og orkumálum hafi Íslandi vegnað vel í alþjóðlegum samanburði og það væri varhugavert að kasta þeirri stöðu á glæ. Þegar við spyrjum okkur hvort við viljum ganga í Evrópusambandið þá þurfum við að hafa í huga hvort við séum að fórna stærri hagsmunum fyrir minni. Ísland er fámennt land og því er ekki ólíklegt að með aðild að Evrópusambandinu kæmi Ísland til með að falla í skugga stærri aðildarríkja en úthlutun sæta á Evrópuþinginu ræðst af flókinni formúlu sem tekur mið af íbúafjölda hvers aðildarríkis. Þar sem íbúafjöldi Íslands er innan við 1% af heildaríbúum ESB má reikna með að Ísland fengi af 705 þingsætum aðeins 6 sæti, en það en það eru lágmarksþingsæti fyrir hvert aðildarríki.

Okkur er betur borgið utan ESB

Við í Framsókn leggjum áherslu á áframhaldandi gott samstarf við Evrópusambandið en teljum hagsmunum okkar mun betur borgið utan þess. Með EES samningnum höldum við áfram sjálfstæði okkar og yfirráðum yfir auðlindum. Við höfum öll tækifæri til þess að ná tökum á ástandinu þegar fram líða stundir. Það er mikilvægt í staðinn fyrir að einblína á töfralausnir að líta á það jákvæða sem við höfum hér á landi. Við búum við kröftugan hagvöxt, erum með sterka innviði, lítið atvinnuleysi og útflutningsgreinar sem vegnar vel. Ísland hefur staðið vel í alþjóðlegum samanburði hvað varðar lífskjör, heilbrigðiskerfið, menntun og þannig mætti áfram telja þó vissulega gefi á eins og hjá öðrum þjóðum þegar stríð brestur á í kjölfar heimsfaraldurs, sama hvaða gjaldmiðil er um að ræða. Það ber að varast að hlaupa á vinsældavagninn og einblína á hvað myndi hugsanlega henta einmitt í dag frekar en að horfa til lengri tíma með hagsmuni lands og þjóðar í fyrirrúmi.

Ingibjörg Ólöf Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður NA kjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. mars 2023.

Categories
Greinar

Neyðarbirgðir olíu

Deila grein

12/02/2023

Neyðarbirgðir olíu

Nýlega kynnti Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í samráðsgátt stjórnvalda áform um frumvarp til laga um neyðarbirgðir eldsneytis. Neyðarbirgðir eru mikilvægar ef skyndileg röskun verður á olíuframboði. Samkvæmt frumvarpinu er áformað að leggja skyldu á söluaðila eldsneytis að þeir viðhaldi jarðefnaeldsneytisbirgðum sem jafngildi notkun til 90 daga.

Samkvæmt frumvarpinu verður birgðaskyldan innleidd í nokkrum skrefum yfir nokkurra ára tímabil. Í dag er enginn aðili sem ber ábyrgð á því að til staðar séu neyðarbirgðir af eldsneyti á landinu og þá er heldur engin krafa til staðar á stjórnvöld eða atvinnulíf til þess að tryggja birgðir sem þessar.

Setjum ekki öll eggin í sömu körfu

Líkt og við höfum orðið óþægilega vör við síðustu misseri geta f ljótt skipast veður í lofti, eldgos, heimsfaraldrar og stríð geta valdið aðstæðum þar sem lífsnauðsynlegar vörur verða af skornum skammti, en nægt framboð af olíu er forsenda öryggis á fjölmörgum sviðum. Ef ekki er gætt að neyðarbirgðum olíu gæti f ljótt stefnt í óefni í samfélaginu.

Markmið okkar til framtíðar er auðvitað að verða óháð jarðefnaeldsneyti hérlendis en enn er nokkuð í að þeim markmiðum verði náð. Þangað til þurfum við að hafa tiltækar nægar olíubirgðir hér á landi.

Undirrituð telur þörf á því að skoðað verði af fullri alvöru við þessa vinnu, sem og aðra er snýr að neyðarbirgðum, að hugað sé að því að koma birgðum fyrir á fleiri en einum stað á landinu. Undirrituð telur mikilvægt að komið verði fyrir birgðastöð á að lágmarki tveimur stöðum á landinu, fyrir sunnan og einnig til dæmis fyrir norðan eða austan. Við vitum aldrei hvaða aðstæður geta skapast í samfélaginu. Hér er ég ekki síst að horfa til flugvélaeldsneytis, við þurfum að vera við því búin að þannig aðstæður skapist á SV horninu að flugvellir lokist, eldgos á Reykjanesi eru ágætis áminning um það og því þurfum við að vera tilbúin að beina flugi á aðra velli á landsbyggðinni.

Stöðugleiki um allt land

Neyðarolíubirgðir geta ekki bara skipt máli vegna samgangna heldur getur einnig þurft að nýta þær við hamfarahjálp svo sem við að knýja rafstöðvar o.s.frv. Því er mikilvægt að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni ef samgöngur rofna á milli landshluta. Ég fagna þeirri vinnu sem ráðherra hefur sett af stað og hvet hann áfram til góðra verka. En mikilvægt er að hafa það hugfast að með því að tryggja öllum landsmönnum auðvelt aðgengi að neyðarbirgðum má betur viðhalda stöðugleika og öryggi þjóðarinnar.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Ásýnd Íslands og sérstaða

Deila grein

01/02/2023

Ásýnd Íslands og sérstaða

Milljónir manna um allan heim dreymir um að ferðast til Íslands. Orðspor landsins hefur dreifst um allar heimsálfur og er náttúra landsins og menningarminjar eitt helsta aðdráttarafl ferðaþjónustunnar. Ferðamönnum hefur fjölgað hratt síðustu árin og ferðaþjónustan hefur náð þeim stað að verða ein af okkar stærstu atvinnugreinum. Þá er Ísland í þeirri stöðu umfram margar aðrar þjóðir að ferðaþjónustan er aftur komin á fullt skrið eftir heimsfaraldur. Því má meðal annars þakka aðgerðum stjórnvalda við heimsfaraldri Covid-19 en einnig seiglu og dugnaði þeirra fyrirtækja og starfsmanna sem hér starfa. Ferðaþjónusta á Íslandi hefur öll tækifæri til þess að halda áfram að vaxa og dafna en aðeins ef rétt er staðið að málum.

En hvað með íslenskuna?

Í allri umræðu um náttúru landsins og uppbyggingu ferðamannastaða megum við þó ekki gleyma einu af okkar aðalsmerkjum, íslenskunni, en Ísland er áhugavert land m.a. vegna hennar. Ef við glötum íslenskunni mun bæði hljómur og ásýnd landsins breytast. Því miður hefur það verið tilhneiging síðustu ár að enskan hafi tekið yfir sem tungumál ferðaþjónustunnar. Æ fleiri fyrirtæki bera ensk nöfn og enskuvæðing á skiltum víðs vegar um land er orðin mjög áberandi. Hér þarf sameiginlegt átak stjórnvalda, sveitarfélaga og ferðaþjónustuaðila til að færa þróunina til betri vegar. Leyfum ferðamönnum að sjá og lesa íslenskuna, það er upplifun til jafns við náttúru og menningu landsins.

Trú á verkefnum og fjárfestingar

Víða um land er kallað eftir aukinni fjárfestingu, sér í lagi á landsbyggðinni. Á sama tíma er takmarkað aðgengi að lánveitingum til fjárfestinga í ferðaþjónustu, sem er áhyggjuefni og mikilvægt að bregðast við með einhverjum hætti. Þörf er á gistirýmum í hærri gæðum og seglum á svæði, t.d. fyrir austan og vestan og ljóst er að ekki er hægt að ráðast í slíkt án fjármagns. Fjárfestar verða að hafa trú á v verkefnum og því þarf að tryggja með betri hætti nýtingu um allt land, allt árið um kring.

Gjaldtaka

Þá kallar fjölgun ferðamanna á aðgerðir af okkar hálfu, sér í lagi ef við ætlum að ná markmiðum okkar um ferðaþjónustu á landsbyggðinni allt árið um kring. Framlög til ferðaþjónustunnar eru ekki há í samanburði við margar aðrar greinar, þrátt fyrir að hér sé um að ræða eina af okkar mikilvægustu atvinnugreinum. Við þurfum að gæta þess að náttúra landsins, auðlind ferðaþjónustunnar, verði ekki fyrir of miklum ágangi og tapi þannig sérstöðu sinni. Það er því óumflýjanlegt, ef við ætlum að byggja hér upp af meiri gæðum til framtíðar, að taka umræðu um gjaldtöku í ferðaþjónustu af meiri festu. Á sama tíma er þó mikilvægt að gera það í samráði við alla hagaðila og gæta þess að ferðaþjónustan hafi gott svigrúm til þess að koma auknum gjöldum inn í verðskrár enda eru þær ákvarðaðar langt fram í tímann. Með góðum innviðum og áhugaverðum seglum bætum við sérstöðu okkar og um leið sérstöðu landsins. Þannig tryggjum við betur ásýnd og framtíð ferðaþjónustu á Íslandi.

Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. febrúar 2023.