Categories
Fréttir Greinar

Hver á að borga fyrir ferminguna?

Deila grein

04/04/2023

Hver á að borga fyrir ferminguna?

Það getur verið flókið að ganga í gegnum skilnað, sér í lagi þegar fólk á börn saman. Í daglegu lífi þegar sérstök útgjöld tengdu barni eru framundan líkt og til dæmis vegna fermingar getur ágreiningur skapast milli foreldra. Í slíkum tilvikum getur lögheimilisforeldri óskað eftir úrskurði sýslumanns til að umgengnisforeldri greiði framlag þegar kemur að sérstökum útgjöldum s.s. vegna skírnar, ferminga, tannréttinga, gleraugnakaupa, sjúkdóma, greftrunar o.s.frv.

En umsóknir vegna sérstakra útgjalda geta verið bæði krefjandi og erfiðar ásamt því að vera flókið ferli fyrir foreldra sem jafnvel á sama tíma eru að ganga í gegnum erfið samskipti við fyrrverandi maka.

Óþarflega flókið ferli

Í síðasta mánuði mælti sú sem hér skrifar fyrir tillögu sem hefur það að markmiði að einfalda ferli umsókna um sérstök útgjöld vegna barns. Í tillögunni er lögð áhersla á að auðvelda aðgengi milli aðila ríkisins að upplýsingum og gögnum, en foreldri þarf við umsókn um sérstök útgjöld að leggja fram ýmis fylgiskjöl frá opinberum aðilum í samræmi við hvert tilefni fyrir sig. Má þar nefna skattframtöl, tekjuyfirlit, forsjárvottorð, gildandi ákvörðun um meðlag og yfirlit frá sjúkratryggingum vegna greiðsluþátttöku.

Allt eru þetta gögn sem nú þegar liggja fyrir hjá hinu opinbera og því væri nærtækara að sýslumaður hefði lagaheimild kalla eftir þessum gögnum í stað þess að foreldri fari á milli kóngs og prests við að týna saman upplýsingar. Undirrituð telur að skoða verði af fullri alvöru hvort hægt sé að aflétta frumkvæðisskyldu foreldris við öflun opinberra fylgiskjala og færa þá skyldu yfir á ríkið eða auka heimildir stjórnvalda til þess að staðfesta tilvist og efni upplýsinga í gegnum www.island.is. Tryggja þarf að sýslumannsembættunum sé kleift að afla nauðsynlegra gagna með stafrænum hætti.

Nýtum framvindu tækninnar

Í samræmi við þær tækniframfarir sem hafa átt sér stað á undanförnum árum ætti auðveldlega að vera hægt að einfalda ferli um sérstök útgjöld verulega. Við gerð greiðslumats hökum við í boxið um upplýsingaöflun um tekjur okkar og skuldir og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að setja upp slíkt kerfi við umsóknarferli um sérstök útgjöld. Undirrituð telur að með sambærilegum hætti væri auðveldlega hægt að veita heimild til gagnaöflunar hjá stjórnvöldum vegna umsókna um sérstök útgjöld.

Ef við höfum tök á að bæta þjónustuna á þessum vettvangi og einfalda um leið ferlið bæði fyrir foreldrið og úrvinnsluaðilann, ættum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að lausnin geti orðið að veruleika.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Heima er best

Deila grein

29/03/2023

Heima er best

Öldrun er ó­um­flýjan­legur hluti af lífinu, þegar við eldumst söfnum við að okkur þekkingu, lífs­reynslu og visku sem getur verið okkur sjálfum og öðrum dýr­mæt. Þakk­læti, sterkari og dýpri tengsl við fjöl­skyldu, vini og ást­vini og ekki síður oft og tíðum aukinn tími til að sinna á­huga­málum sem veita á­nægju og aukna lífs­fyllingu.

Það eru margir kostir sem fylgja því að eldast, en einnig á­skoranir. Með hækkandi aldri er ekki ó­senni­legt að fólk þurfi að­stoð og stuðning við dag­leg verk­efni, sér í lagi þegar heilsan tekur upp á að bregðast. Þörfin fyrir að­stoð verður stundum meiri með aldrinum og því er mikil­vægt að fólk hafi mögu­leika á að þiggja þjónustu sem það getur treyst á. Þjónustu sem eykur öryggi, lífs­gæði, vald­eflir og mætir þjónustu­þörf eins og best verður á kosið hverju sinni. Þegar við spyrjum eldra fólkið okkar út í óskir sínar eru svörin oftast á þá leið að ein­stak­lingurinn vill geta búið heima eins lengi og kostur er. En svo það sé mögu­legt verðum við að skapa að­stæður sem styðja við þeirra óskir.

Um mitt ár 2019 var undir­ritaður samningur milli Sjúkra­trygginga Ís­lands (SÍ) og Öldrunar­heimila Akur­eyrar (ÖA) sem fól m.a. í sér heimild til að hefja ný­sköpunar- og þróunar­verk­efni um sveigjan­leg dag­dvalar­rými. Þar var á­hersla lögð á þver­fag­lega teymis­vinnu til að skapa mark­vissa og öfluga starf­semi. Sveigjan­leg dag­dvöl sem var þjónusta alla daga, allan ársins hring sem að­lagaði sig þörfum ein­stak­lingsins. Á­hersla var lögð á að styðja not­endur dag­þjálfunar til sjálf­stæðis og sjálf­ræðis, á­samt því að efla færni og sjálfs­bjargar­getu heima og í dag­þjálfun.

Sveigjan­leg dag­þjálfun

Hug­mynda­fræði dag­þjálfunar eða dag­dvalar er að vera stuðnings­úr­ræði við eldra fólk sem býr í heima­húsum. Mark­miðið með þjálfuninni er að við­halda færni og getu fólks til að búa á­fram heima og er á­vinningurinn af því að koma í veg fyrir eða seinka vistun á hjúkrunar­heimili. Fjöl­breytni og sveigjan­leiki úr­ræða skiptir höfuð­máli og veitir sveigjan­leg dag­þjálfun marg­vís­legan á­vinning sem getur hjálpað til við að auka lífs­gæði.

Einn af helstu kostum þessarar þjónustu er mögu­leikinn til að hlusta á það sem eldra fólkið vill og sníða þjónustuna að þess á­herslum. Þjálfun sem þessi getur veitt veru­legan á­vinning m.a. með bættri and­legri og til­finninga­legri líðan. Fjöl­skyldu­með­limir eru oft og tíðum þeir aðilar sem bera á­byrgð á eldri ást­vinum sínum og það getur á tímum verið krefjandi.

Með því að nýta sveigjan­lega dag­þjálfun geta um­önnunar­aðilar dregið sig í hlé og sinnt sínum verk­efnum á sama tíma og þeir vita að ást­vinir þeirra fá þá um­önnun sem þörf er á. Þá hefur fé­lags­leg ein­angrun verið vanda­mál meðal eldra fólks, sér­stak­lega þeirra sem búa einir eða hafa tak­markaða hreyfi­getu. Með sveigjan­legri dag­þjálfun aukast sam­skipti við aðra sem getur hjálpað til við að koma í veg fyrir ein­mana­leika, kvíða og þung­lyndi.

Verk­efnið hefur skilað árangri

Verk­efnið hefur skilaði sýni­legum árangri, það er ó­tví­ræður á­vinningur af sveigjan­legri dag­þjálfun í formi bættra lífs­gæða fyrir not­endur og fjöl­skyldur þeirrar. Not­endur, að­stand­endur og starfs­fólk eru að mestu sam­mála um að úr­ræðið hafi bætt and­lega líðan og hafi stuðlað að við­heldni og jafn­vel fram­förum í líkam­legri færni og getu. Úr­ræðið er nú þegar orðinn mikil­vægur hlekkur í þróun milli­stigsúr­ræða í þjónustu við aldraða.

Rauði þráðurinn í niður­stöðum framan­greinds ný­sköpunar- og þróunar­verk­efnis var að um­sóknum um hjúkrunar­rými fækkaði. Þátt­tak­endum fannst þeir fá þjónustu sem veitti þeim tæki­færi til að geta búið lengur heima við öryggi, þar sem þeim var tryggð sú að­stoð sem þeir þurftu á að halda.

Þá upp­lifðu að­stand­endur þeirra sem tóku þátt í verk­efninu einnig aukið öryggi. Hér er um að ræða þjónustu sem festa þarf í sessi til fram­tíðar.

Vilji til að þjónusta eldra fólk

Sam­setning mann­fjöldans á Ís­landi er að þróast á þann veg að hlut­fall eldra fólks hækkar frá því sem áður var og við þurfum að tryggja að kerfin okkar verði til­búin til þess að styðja við þennan stækkandi hóp. Það getum við gert með því að koma til móts við fólk með fjöl­breyttum úr­ræðum og þjónustu. Ný við­horf í þjónustu við eldra fólk þar sem á­hersla er lögð á aldurs­vænt og styðjandi sam­fé­lag munu leiða okkur að betri sam­fellu og sterkari heildar­sýn fyrir þjónustu við eldra fólk.

Á­vinningurinn af að­gerðum sem þessum dregur úr á­lagi á ýmsum sviðum heil­brigðis­mála eins og t.d. heilsu­gæslu, fé­lags­þjónustu og hjúkrunar­heimilum. Auk þess með því að veita eldra fólki þjónustu við hæfi og þörf hverju sinni verða meiri líkur á auknum lífs­gæðum og sjálf­stæði eldra fólks.

Mark­miðið stjórn­valda er að bæta lífs­gæði eldra fólks með því við­halda færni og virkni ein­stak­lingsins og þar spila for­varnir, heilsu­efling og endur­hæfing stóran þátt í heil­brigðri öldrun þjóðarinnar. Það sýnir sig einna best í þings­á­lyktunar­til­lögu sem er nú í með­förum Al­þingis.

Um er að ræða að­gerða­á­ætlun um þjónustu við eldra fólk sem ætlað er að vera leiðar­vísir fyrir stjórn­völd til að skapa skýra fram­tíðar­sýn um hvaða leiðir verði farnar til að bæta þjónustu við eldra fólk og vinna heildar­stefnu sem felur í sér að eitt þjónustu­stig taki hnökra­laust við af öðru, að á­byrgð á þjónustu­þáttum milli aðila sé skýr og að gráum svæðum verði út­rýmt.

Um er að ræða að­gerða­á­ætlun til fjögurra ára og er mark­miðið að tryggja að eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um ræðir heima­þjónustu á vegum sveitar­fé­laga eða heil­brigðis­þjónustu.

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Samvinna fyrir betra heilbrigðiskerfi

Deila grein

24/03/2023

Samvinna fyrir betra heilbrigðiskerfi

Sjúkratryggingar Íslands óskuðu á dögunum eftir tilboðum frá einkaaðilum innan heilbrigðisgeirans til að framkvæma liðskiptaaðgerðir á mjöðmum og hnjám. Í síðustu viku bárust góðar fréttir frá Sjúkratryggingum Íslands sem opinberuðu hvaða tilboð voru samþykkt og meginfyrirkomulag samninga en fjögur tilboð bárust stofnuninni. Um er að ræða tilboð í allt að 700 aðgerðir sem munu bæta lífskjör einstaklinga til muna. Þessi aðgerð er að frumkvæði Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra og hefur það að markmiði að stytta biðlista fyrir liðskiptaaðgerðir.

Aðgerðir stjórnvalda

Stjórnvöld hér á landi hafa lagt kapp á að framfylgja þeirri stefnu að bjóða öllum hér á landi upp á nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, enda er það ein af meginstoðum þess að búa til gott velferðarsamfélag. Þróun samfélagsins og aukin eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu hefur leitt til þess að bregðast þarf við með nýjum áherslum innan heilbrigðiskerfisins. Ef við ætlum okkur að ná að framfylgja þeirri þjónustu sem kallað er eftir þurfa stjórnvöld að finna jafnvægi í blönduðu heilbrigðiskerfi í þágu einstaklingsins.

Ríkisstjórnin hefur lagt ríka áherslu á eflingu heilbrigðiskerfisins á þessu kjörtímabili. Fjárframlög til heilbrigðismála hafa aukist verulega sem endurspeglar aftur forgangsröðun og áherslur stjórnvalda, en lagt var til 12 milljarð króna viðbótarframlag til heilbrigðismála við síðustu fjárlög til þess að styrkja heilbrigðiskerfið. Fjárframlögin eru til þess fallin að mun betur er hægt að leysa þau mörgu verkefni sem blasa við. Ofangreindir samningar eru meðal þeirra aðgerða sem þörf var að fara í enda um mjög brýnt mál að ræða. Það er ótækt að láta fólk bíða lengi eftir nauðsynlegum aðgerðum sem hamla lífsgæði og draga úr virkni. Stjórnvöld eru með þessu að leita leiða til að stytta biðlista og koma fólki, sem þarf á ákveðinni þjónustu að halda, aftur í fyrra form. Bið eftir liðskiptiaðgerðum síðustu ár hefur verið allt of löng meðal annars vegna uppsafnaðar þarfar auk þess sem heimsfaraldurinn spilaði þar einnig stórt hlutverk.

Framsókn hefur lengi beitt sér fyrir bættri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag eða búsetu. Þjónustan þarf að vera í samræmi við aðstæður, möguleika og vilja hvers og þá þarf að horfa til þess að halda kostnaðarþáttöku eins lágri og hægt er. En það er eitt að segja það og annað að framkvæma. Við í Framsókn höfum haldið okkar stefnu sem við lögðum upp með í síðustu alþingiskosningum á lofti og unnið í átt að auknum framlögum ríkisstjórnarinnar til heilbrigðismála og stefna Framsóknar í heilbrigðismálum endurspeglast nú með þessum samningum.

Tækifæri utan stofnana

Samvinna er vænlegust til árangurs hvað varðar forvarnir, lýðheilsu, geðheilbrigðisþjónustu, öldrunarþjónustu og nær allra þá þjónustu sem varðar heilbrigði þjóðarinnar. Meðal þeirra stefnumála sem Framsókn setti í fararbrodd fyrir síðustu kosningar var að stórefla heilbrigðisþjónustu utan sjúkrastofnana. Við sjáum í verki hversu vel það reynist heilbrigðisþjónustu landsins að stuðla að frekara samspili innan blandaðs heilbrigðiskerfis. Tvö dæmi um það eru nýlegir samningar um kaup á endómetríósuaðgerðum og liðskiptaaðgerðum. Þessir samningar eru gott dæmi um hvernig hægt er að bæta kerfið til muna með auknu samstarfi með heilbrigðisþjónustuaðila utan hins opinbera. Samningarnir um kaup á endómetríósuaðgerðum eru dæmi um mikilvægt skref í átt að styttingu biðlista og jöfnun aðgengi. Of margar konur hafa glímt við einkenni endómetríósu í of langan tíma, og það er mikið fagnaðarefni að þær fá loksins nauðsynlega þjónustu.

Nú er komið að liðskiptunum, en undirrituð trúir ekki öðru en að báðir þessir samningar geta reynst fordæmi til framtíðar um hvernig samvinna heilbrigðisstarfsmanna, bæði innan og utan hins opinbera, getur skipt sköpum fyrir sjúklinginn sjálfan, enda á hann ávallt að vera í forgrunni.

Ingibjörg Isaksen, þingflokkformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Evrópu­sam­bands­draugurinn

Deila grein

05/03/2023

Evrópu­sam­bands­draugurinn

Nú þegar gefur á bátinn í hagkerfum heimsins og verðbólga hefur farið vaxandi hefur gamall draugur verið dregin út úr skápnum. Aftur er komin í gang sama orðræða og í kjölfarið á hruninu þar sem innganga í Evrópusambandið átti að leysa öll okkar vandamál og er þá litið á evruna sem galdratæki sem bjargað geti öllum okkar vandræðum í eitt skipti fyrir öll. Evrópusambandið er annað, stærra og meira en bara upptaka á evru, auk þess sem innganga í sambandið er ekki lausn undan verðbólgu. Það má best sjá með því að líta til annarra landa innan Evrópusambandsins sem tekið hafa upp evruna og eru þrátt fyrir það að glíma jafnvel við enn hærri verðbólgu en við hér á landi. Nýjar verðbólgutölur í Frakklandi og Spáni gefa einnig til kynna að verðbólga á evrusvæðinu verði viðvarandi. Við, líkt og önnur lönd í Evrópu erum að glíma við afleiðingar af heimsfaraldri sem og innrás Rússa í Úkraínu. Þá hefur evran verið háð verulegum sveiflum undanfarin ár, þar sem sum aðildarríki ESB glíma við miklar skuldir og lítinn hagvöxt. Í stað þess að hafa jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf gæti innganga í Evrópusambandið og upptaka evru haft neikvæðar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf sem hefur verið nokkuð stöðugt undanfarin ár.

EES samningurinn tryggir okkur góða stöðu

Ísland, Noregur og Sviss sem öll standa utan Evrópusambandsins eru á meðal þeirra landa sem teljast hafa hve best lífskjör í veröldinni. Ísland nýtur í dag verulegs ávinnings á því að vera aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA). Þessir samningar gera Íslandi kleift að taka þátt í innri markaði ESB og njóta góðs af frjálsum viðskiptum við ESB-ríkin. Fyrir vikið hefur Ísland aðgang að stærsta markaði heims án þess að þurfa að hlíta ströngum reglum og stefnum ESB. Þetta fyrirkomulag hefur verið hagstætt fyrir íslenskt efnahagslíf þar sem það tryggir frjálst flæði vöru og þjónustu milli Íslands og ESB-ríkja. EES samningurinn hefur skapað sterkt og stöðugt viðskiptasamband milli ESB og EES-EFTA- ríkjanna sem veitir gagnkvæman ávinning og tækifæri til vaxtar og þróunar. Auk þess hefur EES samningurinn skapað stöðugan ramman utan um pólitískt og efnahagslegt samstarf milli ESB-ríkjanna og EES- EFTA-ríkjanna. Þessu samningur hefur skapað vettvang sem gerir löndunum kleift að vinna saman að mikilvægum málum líkt og matvælaöryggi , rannsóknum og nýsköpun, fjármálastarfsemi og upplýsingatækni.

Erum við tilbúin að fórna sjálfstæði okkar?

Staðreyndin er sú að með inngöngu í Evrópusambandið yrði Ísland að undirgangast löggjöf ESB sem gætu takmarkað sjálfstæði Íslands í ákveðnum málaflokkum. Við myndum tapa sjálfstæði yfir auðlindum landsins og stjórn sjávarútvegs sem er verulegur hluti af efnahagslífi landsins þar sem ESB hefur sameiginlega fiskveiðistefnu sem leitast við að stjórna fiskistofnum á sjálfbæran hátt. Það gæti hugsanlega takmarkað möguleika Íslands til að veiða í eigin hafsvæði. Orkuverð hefur farið vaxandi innan ESB á síðustu árum og þá tók orkuverð í Evrópu enn stærra stökk upp á við eftir innrás Rússa í Úkraínu. Ísland er í farabroddi í orkumálum en amk. 85% af orku sem er notuð á Íslandi er framleidd á endurnýjanlegan grænan hátt. Við megum vera stolt af þessum árangri og um leið þakkað fyrir að vera ekki í sömu stöðu og þjóðir ESB þegar kemur að stöðu í orkumálum og orkuverði. Við getum eflaust flest verið sammála um það að í sjávarútvegs og orkumálum hafi Íslandi vegnað vel í alþjóðlegum samanburði og það væri varhugavert að kasta þeirri stöðu á glæ. Þegar við spyrjum okkur hvort við viljum ganga í Evrópusambandið þá þurfum við að hafa í huga hvort við séum að fórna stærri hagsmunum fyrir minni. Ísland er fámennt land og því er ekki ólíklegt að með aðild að Evrópusambandinu kæmi Ísland til með að falla í skugga stærri aðildarríkja en úthlutun sæta á Evrópuþinginu ræðst af flókinni formúlu sem tekur mið af íbúafjölda hvers aðildarríkis. Þar sem íbúafjöldi Íslands er innan við 1% af heildaríbúum ESB má reikna með að Ísland fengi af 705 þingsætum aðeins 6 sæti, en það en það eru lágmarksþingsæti fyrir hvert aðildarríki.

Okkur er betur borgið utan ESB

Við í Framsókn leggjum áherslu á áframhaldandi gott samstarf við Evrópusambandið en teljum hagsmunum okkar mun betur borgið utan þess. Með EES samningnum höldum við áfram sjálfstæði okkar og yfirráðum yfir auðlindum. Við höfum öll tækifæri til þess að ná tökum á ástandinu þegar fram líða stundir. Það er mikilvægt í staðinn fyrir að einblína á töfralausnir að líta á það jákvæða sem við höfum hér á landi. Við búum við kröftugan hagvöxt, erum með sterka innviði, lítið atvinnuleysi og útflutningsgreinar sem vegnar vel. Ísland hefur staðið vel í alþjóðlegum samanburði hvað varðar lífskjör, heilbrigðiskerfið, menntun og þannig mætti áfram telja þó vissulega gefi á eins og hjá öðrum þjóðum þegar stríð brestur á í kjölfar heimsfaraldurs, sama hvaða gjaldmiðil er um að ræða. Það ber að varast að hlaupa á vinsældavagninn og einblína á hvað myndi hugsanlega henta einmitt í dag frekar en að horfa til lengri tíma með hagsmuni lands og þjóðar í fyrirrúmi.

Ingibjörg Ólöf Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður NA kjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. mars 2023.

Categories
Greinar

Neyðarbirgðir olíu

Deila grein

12/02/2023

Neyðarbirgðir olíu

Nýlega kynnti Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í samráðsgátt stjórnvalda áform um frumvarp til laga um neyðarbirgðir eldsneytis. Neyðarbirgðir eru mikilvægar ef skyndileg röskun verður á olíuframboði. Samkvæmt frumvarpinu er áformað að leggja skyldu á söluaðila eldsneytis að þeir viðhaldi jarðefnaeldsneytisbirgðum sem jafngildi notkun til 90 daga.

Samkvæmt frumvarpinu verður birgðaskyldan innleidd í nokkrum skrefum yfir nokkurra ára tímabil. Í dag er enginn aðili sem ber ábyrgð á því að til staðar séu neyðarbirgðir af eldsneyti á landinu og þá er heldur engin krafa til staðar á stjórnvöld eða atvinnulíf til þess að tryggja birgðir sem þessar.

Setjum ekki öll eggin í sömu körfu

Líkt og við höfum orðið óþægilega vör við síðustu misseri geta f ljótt skipast veður í lofti, eldgos, heimsfaraldrar og stríð geta valdið aðstæðum þar sem lífsnauðsynlegar vörur verða af skornum skammti, en nægt framboð af olíu er forsenda öryggis á fjölmörgum sviðum. Ef ekki er gætt að neyðarbirgðum olíu gæti f ljótt stefnt í óefni í samfélaginu.

Markmið okkar til framtíðar er auðvitað að verða óháð jarðefnaeldsneyti hérlendis en enn er nokkuð í að þeim markmiðum verði náð. Þangað til þurfum við að hafa tiltækar nægar olíubirgðir hér á landi.

Undirrituð telur þörf á því að skoðað verði af fullri alvöru við þessa vinnu, sem og aðra er snýr að neyðarbirgðum, að hugað sé að því að koma birgðum fyrir á fleiri en einum stað á landinu. Undirrituð telur mikilvægt að komið verði fyrir birgðastöð á að lágmarki tveimur stöðum á landinu, fyrir sunnan og einnig til dæmis fyrir norðan eða austan. Við vitum aldrei hvaða aðstæður geta skapast í samfélaginu. Hér er ég ekki síst að horfa til flugvélaeldsneytis, við þurfum að vera við því búin að þannig aðstæður skapist á SV horninu að flugvellir lokist, eldgos á Reykjanesi eru ágætis áminning um það og því þurfum við að vera tilbúin að beina flugi á aðra velli á landsbyggðinni.

Stöðugleiki um allt land

Neyðarolíubirgðir geta ekki bara skipt máli vegna samgangna heldur getur einnig þurft að nýta þær við hamfarahjálp svo sem við að knýja rafstöðvar o.s.frv. Því er mikilvægt að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni ef samgöngur rofna á milli landshluta. Ég fagna þeirri vinnu sem ráðherra hefur sett af stað og hvet hann áfram til góðra verka. En mikilvægt er að hafa það hugfast að með því að tryggja öllum landsmönnum auðvelt aðgengi að neyðarbirgðum má betur viðhalda stöðugleika og öryggi þjóðarinnar.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Ásýnd Íslands og sérstaða

Deila grein

01/02/2023

Ásýnd Íslands og sérstaða

Milljónir manna um allan heim dreymir um að ferðast til Íslands. Orðspor landsins hefur dreifst um allar heimsálfur og er náttúra landsins og menningarminjar eitt helsta aðdráttarafl ferðaþjónustunnar. Ferðamönnum hefur fjölgað hratt síðustu árin og ferðaþjónustan hefur náð þeim stað að verða ein af okkar stærstu atvinnugreinum. Þá er Ísland í þeirri stöðu umfram margar aðrar þjóðir að ferðaþjónustan er aftur komin á fullt skrið eftir heimsfaraldur. Því má meðal annars þakka aðgerðum stjórnvalda við heimsfaraldri Covid-19 en einnig seiglu og dugnaði þeirra fyrirtækja og starfsmanna sem hér starfa. Ferðaþjónusta á Íslandi hefur öll tækifæri til þess að halda áfram að vaxa og dafna en aðeins ef rétt er staðið að málum.

En hvað með íslenskuna?

Í allri umræðu um náttúru landsins og uppbyggingu ferðamannastaða megum við þó ekki gleyma einu af okkar aðalsmerkjum, íslenskunni, en Ísland er áhugavert land m.a. vegna hennar. Ef við glötum íslenskunni mun bæði hljómur og ásýnd landsins breytast. Því miður hefur það verið tilhneiging síðustu ár að enskan hafi tekið yfir sem tungumál ferðaþjónustunnar. Æ fleiri fyrirtæki bera ensk nöfn og enskuvæðing á skiltum víðs vegar um land er orðin mjög áberandi. Hér þarf sameiginlegt átak stjórnvalda, sveitarfélaga og ferðaþjónustuaðila til að færa þróunina til betri vegar. Leyfum ferðamönnum að sjá og lesa íslenskuna, það er upplifun til jafns við náttúru og menningu landsins.

Trú á verkefnum og fjárfestingar

Víða um land er kallað eftir aukinni fjárfestingu, sér í lagi á landsbyggðinni. Á sama tíma er takmarkað aðgengi að lánveitingum til fjárfestinga í ferðaþjónustu, sem er áhyggjuefni og mikilvægt að bregðast við með einhverjum hætti. Þörf er á gistirýmum í hærri gæðum og seglum á svæði, t.d. fyrir austan og vestan og ljóst er að ekki er hægt að ráðast í slíkt án fjármagns. Fjárfestar verða að hafa trú á v verkefnum og því þarf að tryggja með betri hætti nýtingu um allt land, allt árið um kring.

Gjaldtaka

Þá kallar fjölgun ferðamanna á aðgerðir af okkar hálfu, sér í lagi ef við ætlum að ná markmiðum okkar um ferðaþjónustu á landsbyggðinni allt árið um kring. Framlög til ferðaþjónustunnar eru ekki há í samanburði við margar aðrar greinar, þrátt fyrir að hér sé um að ræða eina af okkar mikilvægustu atvinnugreinum. Við þurfum að gæta þess að náttúra landsins, auðlind ferðaþjónustunnar, verði ekki fyrir of miklum ágangi og tapi þannig sérstöðu sinni. Það er því óumflýjanlegt, ef við ætlum að byggja hér upp af meiri gæðum til framtíðar, að taka umræðu um gjaldtöku í ferðaþjónustu af meiri festu. Á sama tíma er þó mikilvægt að gera það í samráði við alla hagaðila og gæta þess að ferðaþjónustan hafi gott svigrúm til þess að koma auknum gjöldum inn í verðskrár enda eru þær ákvarðaðar langt fram í tímann. Með góðum innviðum og áhugaverðum seglum bætum við sérstöðu okkar og um leið sérstöðu landsins. Þannig tryggjum við betur ásýnd og framtíð ferðaþjónustu á Íslandi.

Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Gott að eldast

Deila grein

13/01/2023

Gott að eldast

Breytingar í aldurssamsetningu þjóðarinnar eru ein af stóru áskorunum íslensks samfélags. Fjöldi eldra fólks eykst og hlutfall aldraðra af heildarmannfjölda fer ört hækkandi á næstu árum og áratugum. Kröfur eldra fólks til þjónustu hafa að sama skapi breyst verulega frá því sem áður var.

Því er þörf er á breyttum viðhorfum í þjónustu við eldra fólk með áherslu á aldursvænt, heilsueflandi og styðjandi samfélag. Af þessu tilefni mælti undirrituð fyrir þingsályktunartillögu í haust um markvissa öflun gagna um líðan, velferð og efnahag eldra fólks. Tillögu sem gengur út á að safna saman markvissum, samræmdum og tímanlegum upplýsingum um líðan, stöðu og velferð eldra fólks á hverjum tíma.

Markmiðið með þessari gagnaöflun er að geta mælt aðstæður eldra fólks svo hægt sé að marka stefnu til framtíðar, vinna að aðgerðaáætlun og úthluta fjármagni á rétta staði. Ánægjulegt er að segja frá því að vel var tekið undir þessa tillögu og hún hefur verið færð inn í annað og stærra verkefni.

Aðgerðaáætlun til fjögurra ára

Þær fréttir bárust í desember að Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra hefðu sett af stað vinnu við heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk.

Tillaga stjórnvalda birtist á samráðsgátt stjórnvalda 19. desember sl. og hófst þá opið samráð. Þar segir að aðgerðaáætluninni sé ætlað að vera leiðarvísir fyrir stjórnvöld til að skapa skýra framtíðarsýn um hvaða leiðir verði farnar til að bæta þjónustu við eldra fólk og vinna heildarstefnu sem felur í sér að eitt þjónustustig taki hnökralaust við af öðru, að ábyrgð á þjónustuþáttum milli aðila sé skýr og að gráum svæðum verði útrýmt.

Um er að ræða aðgerðaráætlun til fjögurra ára um þjónustu við eldra fólk og er markmiðið að tryggja að eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um ræðir heimaþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu. Þá segir að mikilvægt sé að þjónustan sé veitt þegar hennar er þörf, á forsendum fólksins sjálfs og á réttu þjónustustigi. Farið verður samhliða í þróunarverkefni og prófanir sem nýtast munu til ákvarðanatöku um framtíðarfyrirkomulag þjónustu við eldra fólk.

Nú er því komin af stað heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk þar sem lögð verður áhersla á þjónustukeðjuna, það er; hjúkrunarheimilin, sérhæfða heimaþjónustu og endurhæfingu, dagþjálfun, heimaþjónustu félags- og heilbrigðisþjónustu ásamt þjónustu sveitarfélaga til þess að hámarka virkni.

Ólíkar þarfir

Ég fagna þessari vinnu enda skiptir það verulegu máli að huga að með allra besta móti að eldra fólki hér á landi. Hér er verið að fara af stað með verkefni í sama anda og farsæld í þágu barna þar sem einstaklingurinn er þungamiðjan sem verkefnið og velferðarkerfið snýst um.

Eldra fólk er fjölbreyttur hópur, það sem hentar einum, hentar ekki endilega öðrum. Það er mikilvægt að geta mætt einstaklingum á þeim stað þar sem þeir eru og þróa úrræði til þess að mæta mismunandi þörfum eldra fólks. Markmiðið ætti ávallt að vera að bæta lífsgæði ásamt því að viðhalda færni og virkni einstaklingsins en forvarnir, heilsuefling og endurhæfing spila stóran þátt í heilbrigðri öldrun þjóðarinnar.

Það er virkilega ánægjulegt að sjá þetta verkefni sé farið af stað enda, hér er um að ræða eitt af stóru áherslumálum okkar í Framsókn fyrir síðustu kosningar. Vinna er hafin af fullum krafti og breytingar munu strax fara að skila sér með margvíslegum hætti.

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. janúar 2023.

Categories
Greinar

Þakkir fyrir liðið ár

Deila grein

02/01/2023

Þakkir fyrir liðið ár

Nú hefur árið 2022 runnið sitt skeið. Það hefur svo sannarlega verið viðburðaríkt ár, bæði fyrir mig persónulega og í pólitíkinni. Það er ávallt sérstök stund í lok árs hvers árs að setjast niður og hugsa um árið sem er að líða, sum ár eru viðburðaríkari en önnur og það má með sanni segja að þetta ár hafi verið eitt af þeim viðburðaríku. Í upphafi árs var enn heimsfaraldur í gangi sem við höfum sem betur fer náð kveðja að mestu. Nýjar áskoranir dundu yfir með innrás Rússa í Úkraínu sem enn sér ekki fyrir endann á. Við búum því enn við ákveðið óvissustig en af öðrum toga að þessu sinni. Þá voru haldnar sveitarstjórnarkosningar í maí og var ánægjulegt að sjá gott gengi Framsóknar víða um land. Ég er þakklát fyrir það traust sem okkur í Framsókn er sýnt og við ætlum okkur, hvort sem það er á Alþingi eða í sveitarstjórnum víða um land, að standa undir þeirri ábyrgð og trausti sem okkur er falin.

Við byggjum á góðum grunni

Þrátt fyrir að ríkið þurfti að sæta þungum höggum vegna heimsfaraldurs höfum við náð góðum árangri á nýliðnu ári. Þau fjárlög, sem samþykkt voru á Alþingi rétt fyrir hátíðirnar, gefa góða mynd af stöðu efnahagsmála. Á sama tíma og mikilvægt er auka fjármagn til tiltekinna verkefna þurfum einnig við að halda í til þess að auka ekki við þenslu og verðbólgu. Forgangsraða þarf fjármunum í rétta átt og það hefur verið gert eftir fremsta megni. Aukin áhersla er lögð á heilbrigðiskerfið í fjárlögum fyrir árið 2023 en efling heilbrigðiskerfisins er eitt af aðalstefnumálum Framsóknar á þessu kjörtímabili.  Styrkja á rekstrargrunn Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri og heilsugæslnanna en þá fer einnig fjármagn til annarra mikilvægra verkefna í heilbrigðisþjónustunni. Ætlunin er að tryggja öllum sem bestu þjónustu óháð stöðu og efnahag. Auk þessa höldum við áfram að byggja upp innviði, bæta samgöngur ásamt því að fjölga íbúðum og tryggja húsnæðisöryggi þjóðarinnar.

Íslenskt samfélag stendur svo sannarlega á traustum grunni, það sést svo vel þegar við sjáum samfélagið færast aftur í fyrra horf eftir heimsfaraldur. Þrátt fyrir smæð sína býr Ísland við sterkari stöðu en margar aðrar Evrópuþjóðir, fyrir það getum við verið þakklát. Við höfum öll tækifæri til að búa okkur gott samfélag en þurfum að gæta þess að spila rétt úr þeim spilum sem okkur er gefið. Við búum við lítið atvinnuleysi, höfum öflug fyrirtæki og góða innviði. Þá eru starfrækt á Íslandi máttug fyrirtæki sem sækja ótrauð áfram og eru leiðandi í nýsköpun. Ísland er fallegt land sem ferðamenn vilja sækja heim, tekjur af ferðamönnum eru nú orðnar meiri en árið 2019 og til landsins streyma stór kvikmyndaverkefni sem eflaust munum koma til með að auka enn á vinsældir landsins. Við erum lánsöm þjóð.

Tækifæri til að gera betur

Síðustu dagar hafa farið í það að njóta hátíðanna með fjölskyldu og vinum en hugur þingmannsins reikar þó ávallt að þeim verkefnum sem bíða okkur á komandi ári. Það verður aldrei þannig að við getum sagt að við séum búin að öllu í pólitík, líkt og við segjum oft í undirbúningi jóla. Verkefnin eru fjölmörg, hvort sem er hér í Norðausturkjördæmi eða á landinu öllu. Efling ferðaþjónustunnar hér á Norðurlandi eystra hefur verið mikil og tækifærin henni tengd fjölmörg. Til að auka enn frekar samkeppnishæfni svæðisins þurfum við að halda áfram að bæta flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum í millilandaflugi. Verkefninu að fjölga aðlaðandi störfum á Norðausturlandi, bæði opinberum og innan einkageirans, er aldrei lokið. Efling landsbyggðanna og atvinnulífs þeirra er alltaf okkur kjörnum fulltrúum ofarlega í huga.

Öflugra heilbrigðiskerfi

Þá hafa heilbrigðismálin á svæðinu verið mér ofarlega í huga. Það er mikilvægt er að styrkja enn frekar heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað og bæta þannig þjónustu við íbúa. Þá höfum við gríðarlega góð tækifæri til þess að styrkja heilbrigðisþjónustu á svæðinu með því að efla Sjúkrahúsið á Akureyri. Með því að efla sjúkrahúsið  á Akureyri getum við veitt betri heilbrigðisþjónustuþjónustu á Norður og Austurlandi þar sem sérfræðingar af sjúkrahúsinu starfa náið með öðrum starfsstöðvum heilbrigðisstofnana á svæðinu. Góð og metnaðarfull heilbrigðisþjónusta eins og Sjúkrahúsið á Akureyri hefur möguleika á að veita ef rétt er gefið bætir búsetuskilyrði á svæðum sem sum eiga undir högg að sækja.

Sérfræðiþjónusta lækna á landsbyggðinni hefur átt undir höggi að sækja síðustu ár sökum lítillar nýliðunar auk samningsleysis og nú er staðan sú að íbúar landsbyggðarinnar þurfa að langstærstu leyti að sækja þjónustu sérfræðilækna á höfuðborgarsvæðið. Undirrituð telur mikilvægt að kortleggja og greina þörf eftir sérfræðilæknum á landsbyggðinni meðal annars eftir fólksfjölda og aldursgreiningu og gera heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni mögulegt að bjóða upp á sérfræðiþjónustu í samræmi við þarfir íbúa í hverju heilbrigðisumdæmi. Það er mikilvægt að aðstæður líkt og þær sem sköpuðust fyrir austan um hátíðirnar endurtaki sig ekki, það verður að tryggja þjónustu sérfræðilækna á landsbyggðinni.  Þá er það lykilatriði að ná samningum við sérfræðilækna en það er eitt að aðaláherslumálum Willum Þórs heilbrigðisráðherra.

Sjálfbærni í orkumálum

Við eigum margt ógert í orkumálum hér á landi, en á nýliðnu ári höfum við enn á ný séð mikilvægi tryggra orkuinnviða. Halda þarf áfram að styrkja og efla dreifikerfi raforku um allt land. Síðastliðið vor náðum við að losa um áralanga stöðnun þegar ramminn var samþykktur, en betur má ef duga skal. Samkvæmt orkustefnu Íslands er markmiðið að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040. Þetta er loftslagsvænt og efnahagslegt markmið. Hvernig ætlum við að ná þeim markmiðum og hvernig við ætlum að ná í þá orku sem þarf til er enn ósvarað. Mikilvægt er að árið 2023 verði nýtt vel til þess að svara þessum spurningum. Samkvæmt núverandi raforkuspá fyrir Ísland er gert ráð fyrir að orkuþörf hér á landi geti aukist um tæplega 60% til ársins 2040 í stærstu sviðsmyndinni. Stoðir samfélagsins, atvinnulífið sem og heimilin í landinu, munu áfram þurfa græna orku. Þar að auki þarf orku í orkuskiptin. Það er því forgangsmál að skoða hvaða möguleikar eru fýsilegir til að veita okkur aukna orku og mikilvægt að greina og velja hagkvæmustu orkukostina.

Skuldbindingar Íslands til loftslagsmála eru ríkar og til að fylgja þeim eftir þarf að taka erfiðar ákvarðanir. Staðreyndin er sú að okkur vantar meiri orku til að uppfylla markmið okkar, og það er ekki svo einfalt að við drögum hana upp úr hatti.  Þvert á móti þarf að sýna mikla framsýni við öflun endurnýjanlegrar orku því það tekur mörg ár. Við sjáum fyrir okkur að í framtíðinni munu orkuskipti ekki einungis verða á einkabílnum heldur sjáum við að atvinnulífið er að bregðast við með eftirtektarverðum hætti. Ætlunin er að hætta notkun á jarðefnaeldsneyti í framtíðinni sem er handan við hornið. Við þurfum að virkja meira og sækja þessa grænu orku sem við búum að hér á landi. En þess ber þó að geta að það þarf að gerast í sátt og samlyndi og með virðingu fyrir náttúru landsins. Framtíðarsýnin á að vera sú að við verðum sjálfbær, hættum að kaupa olíu og bensín frá útlöndum og framleiðum í samræmi við orkuþörf Íslands. Það er okkar stærsta framlag til loftslagsmála og sjálfbærni.  Það er líka eina leiðin til að tryggja orkusjálfstæði landsins.

Verkefnin verða ávallt til staðar

Í hverjum mánuði og á hverjum degi eru ólík verkefni og viðfangsefni sem alþingismenn þurfa að takast á við. Sagan hefur sýnt okkur að öll heimsmyndin getur breyst á einu andartaki og þá skiptir máli að hafa sterkar stoðir og skýra framtíðarsýn. Þrátt fyrir sviptivinda þá stöndum við saman á sterkum grunni og þennan grunn þarf að sífellt að hlúa að, það er verkefni okkar á Alþingi. Ég er meðvituð um að það er íbúum Norðausturkjördæmis að þakka að ég fái tækifæri til þess að koma áfram öllum þeim málum sem ég ber í brjósti. Ég vil því þakka ykkur kærlega fyrir samstarfið árið 2022 en ekki síst fyrir traustið. Það er sannur heiður að fá að vinna í ykkar þágu á Alþingi á hverjum degi.

Ég vona svo sannarlega að árið sem er að líða hafi verið ykkur gott og að nýtt ár færi okkur öllum gæfu og gleði. Bestu óskir um gleðilegt nýtt ár 2023!

Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 31. desember 2022.

Categories
Fréttir Greinar

Þakkir fyrir liðið ár

Deila grein

31/12/2022

Þakkir fyrir liðið ár

Nú hefur árið 2022 runnið sitt skeið. Það hefur svo sannarlega verið viðburðaríkt ár, bæði fyrir mig persónulega og í pólitíkinni. Það er ávallt sérstök stund í lok árs hvers árs að setjast niður og hugsa um árið sem er að líða, sum ár eru viðburðaríkari en önnur og það má með sanni segja að þetta ár hafi verið eitt af þeim viðburðaríku. Í upphafi árs var enn heimsfaraldur í gangi sem við höfum sem betur fer náð kveðja að mestu. Nýjar áskoranir dundu yfir með innrás Rússa í Úkraínu sem enn sér ekki fyrir endann á. Við búum því enn við ákveðið óvissustig en af öðrum toga að þessu sinni. Þá voru haldnar sveitarstjórnarkosningar í maí og var ánægjulegt að sjá gott gengi Framsóknar víða um land. Ég er þakklát fyrir það traust sem okkur í Framsókn er sýnt og við ætlum okkur, hvort sem það er á Alþingi eða í sveitarstjórnum víða um land, að standa undir þeirri ábyrgð og trausti sem okkur er falin.

Við byggjum á góðum grunni

Þrátt fyrir að ríkið þurfti að sæta þungum höggum vegna heimsfaraldurs höfum við náð góðum árangri á nýliðnu ári. Þau fjárlög, sem samþykkt voru á Alþingi rétt fyrir hátíðirnar, gefa góða mynd af stöðu efnahagsmála. Á sama tíma og mikilvægt er auka fjármagn til tiltekinna verkefna þurfum einnig við að halda í til þess að auka ekki við þenslu og verðbólgu. Forgangsraða þarf fjármunum í rétta átt og það hefur verið gert eftir fremsta megni. Aukin áhersla er lögð á heilbrigðiskerfið í fjárlögum fyrir árið 2023 en efling heilbrigðiskerfisins er eitt af aðalstefnumálum Framsóknar á þessu kjörtímabili. Styrkja á rekstrargrunn Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri og heilsugæslnanna en þá fer einnig fjármagn til annarra mikilvægra verkefna í heilbrigðisþjónustunni. Ætlunin er að tryggja öllum sem bestu þjónustu óháð stöðu og efnahag. Auk þessa höldum við áfram að byggja upp innviði, bæta samgöngur ásamt því að fjölga íbúðum og tryggja húsnæðisöryggi þjóðarinnar.

Íslenskt samfélag stendur svo sannarlega á traustum grunni, það sést svo vel þegar við sjáum samfélagið færast aftur í fyrra horf eftir heimsfaraldur. Þrátt fyrir smæð sína býr Ísland við sterkari stöðu en margar aðrar Evrópuþjóðir, fyrir það getum við verið þakklát. Við höfum öll tækifæri til að búa okkur gott samfélag en þurfum að gæta þess að spila rétt úr þeim spilum sem okkur er gefið. Við búum við lítið atvinnuleysi, höfum öflug fyrirtæki og góða innviði. Þá eru starfrækt á Íslandi máttug fyrirtæki sem sækja ótrauð áfram og eru leiðandi í nýsköpun. Ísland er fallegt land sem ferðamenn vilja sækja heim, tekjur af ferðamönnum eru nú orðnar meiri en árið 2019 og til landsins streyma stór kvikmyndaverkefni sem eflaust munum koma til með að auka enn á vinsældir landsins. Við erum lánsöm þjóð.

Tækifæri til að gera betur

Síðustu dagar hafa farið í það að njóta hátíðanna með fjölskyldu og vinum en hugur þingmannsins reikar þó ávallt að þeim verkefnum sem bíða okkur á komandi ári. Það verður aldrei þannig að við getum sagt að við séum búin að öllu í pólitík, líkt og við segjum oft í undirbúningi jóla. Verkefnin eru fjölmörg, hvort sem er hér í Norðausturkjördæmi eða á landinu öllu. Efling ferðaþjónustunnar hér á Norðurlandi eystra hefur verið mikil og tækifærin henni tengd fjölmörg. Til að auka enn frekar samkeppnishæfni svæðisins þurfum við að halda áfram að bæta flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum í millilandaflugi. Verkefninu að fjölga aðlaðandi störfum á Norðausturlandi, bæði opinberum og innan einkageirans, er aldrei lokið. Efling landsbyggðanna og atvinnulífs þeirra er alltaf okkur kjörnum fulltrúum ofarlega í huga.

Öflugra heilbrigðiskerfi

Þá hafa heilbrigðismálin á svæðinu verið mér ofarlega í huga. Það er mikilvægt er að styrkja enn frekar heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað og bæta þannig þjónustu við íbúa. Þá höfum við gríðarlega góð tækifæri til þess að styrkja heilbrigðisþjónustu á svæðinu með því að efla Sjúkrahúsið á Akureyri. Með því að efla sjúkrahúsið á Akureyri getum við veitt betri heilbrigðisþjónustuþjónustu á Norður og Austurlandi þar sem sérfræðingar af sjúkrahúsinu starfa náið með öðrum starfsstöðvum heilbrigðisstofnana á svæðinu. Góð og metnaðarfull heilbrigðisþjónusta eins og Sjúkrahúsið á Akureyri hefur möguleika á að veita ef rétt er gefið bætir búsetuskilyrði á svæðum sem sum eiga undir högg að sækja.

Sérfræðiþjónusta lækna á landsbyggðinni hefur átt undir höggi að sækja síðustu ár sökum lítillar nýliðunar auk samningsleysis og nú er staðan sú að íbúar landsbyggðarinnar þurfa að langstærstu leyti að sækja þjónustu sérfræðilækna á höfuðborgarsvæðið. Undirrituð telur mikilvægt að kortleggja og greina þörf eftir sérfræðilæknum á landsbyggðinni meðal annars eftir fólksfjölda og aldursgreiningu og gera heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni mögulegt að bjóða upp á sérfræðiþjónustu í samræmi við þarfir íbúa í hverju heilbrigðisumdæmi. Það er mikilvægt að aðstæður líkt og þær sem sköpuðust fyrir austan um hátíðirnar endurtaki sig ekki, það verður að tryggja þjónustu sérfræðilækna á landsbyggðinni. Þá er það lykilatriði að ná samningum við sérfræðilækna en það er eitt að aðaláherslumálum Willum Þórs heilbrigðisráðherra.

Sjálfbærni í orkumálum

Við eigum margt ógert í orkumálum hér á landi, en á nýliðnu ári höfum við enn á ný séð mikilvægi tryggra orkuinnviða. Halda þarf áfram að styrkja og efla dreifikerfi raforku um allt land. Síðastliðið vor náðum við að losa um áralanga stöðnun þegar ramminn var samþykktur, en betur má ef duga skal. Samkvæmt orkustefnu Íslands er markmiðið að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040. Þetta er loftslagsvænt og efnahagslegt markmið. Hvernig ætlum við að ná þeim markmiðum og hvernig við ætlum að ná í þá orku sem þarf til er enn ósvarað. Mikilvægt er að árið 2023 verði nýtt vel til þess að svara þessum spurningum. Samkvæmt núverandi raforkuspá fyrir Ísland er gert ráð fyrir að orkuþörf hér á landi geti aukist um tæplega 60% til ársins 2040 í stærstu sviðsmyndinni. Stoðir samfélagsins, atvinnulífið sem og heimilin í landinu, munu áfram þurfa græna orku. Þar að auki þarf orku í orkuskiptin. Það er því forgangsmál að skoða hvaða möguleikar eru fýsilegir til að veita okkur aukna orku og mikilvægt að greina og velja hagkvæmustu orkukostina.

Skuldbindingar Íslands til loftslagsmála eru ríkar og til að fylgja þeim eftir þarf að taka erfiðar ákvarðanir. Staðreyndin er sú að okkur vantar meiri orku til að uppfylla markmið okkar, og það er ekki svo einfalt að við drögum hana upp úr hatti. Þvert á móti þarf að sýna mikla framsýni við öflun endurnýjanlegrar orku því það tekur mörg ár. Við sjáum fyrir okkur að í framtíðinni munu orkuskipti ekki einungis verða á einkabílnum heldur sjáum við að atvinnulífið er að bregðast við með eftirtektarverðum hætti. Ætlunin er að hætta notkun á jarðefnaeldsneyti í framtíðinni sem er handan við hornið. Við þurfum að virkja meira og sækja þessa grænu orku sem við búum að hér á landi. En þess ber þó að geta að það þarf að gerast í sátt og samlyndi og með virðingu fyrir náttúru landsins. Framtíðarsýnin á að vera sú að við verðum sjálfbær, hættum að kaupa olíu og bensín frá útlöndum og framleiðum í samræmi við orkuþörf Íslands. Það er okkar stærsta framlag til loftslagsmála og sjálfbærni. Það er líka eina leiðin til að tryggja orkusjálfstæði landsins.

Verkefnin verða ávallt til staðar

Í hverjum mánuði og á hverjum degi eru ólík verkefni og viðfangsefni sem alþingismenn þurfa að takast á við. Sagan hefur sýnt okkur að öll heimsmyndin getur breyst á einu andartaki og þá skiptir máli að hafa sterkar stoðir og skýra framtíðarsýn. Þrátt fyrir sviptivinda þá stöndum við saman á sterkum grunni og þennan grunn þarf að sífellt að hlúa að, það er verkefni okkar á Alþingi. Ég er meðvituð um að það er íbúum Norðausturkjördæmis að þakka að ég fái tækifæri til þess að koma áfram öllum þeim málum sem ég ber í brjósti. Ég vil því þakka ykkur kærlega fyrir samstarfið árið 2022 en ekki síst fyrir traustið. Það er sannur heiður að fá að vinna í ykkar þágu á Alþingi á hverjum degi.

Ég vona svo sannarlega að árið sem er að líða hafi verið ykkur gott og að nýtt ár færi okkur öllum gæfu og gleði. Bestu óskir um gleðilegt nýtt ár 2023!

Ingibjörg Isaksen, 1. þingmaður Norðausturkjördæmis og þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 31. desember 2022.

Categories
Greinar

Aukin lífsgæði á landsbyggðinni

Deila grein

10/12/2022

Aukin lífsgæði á landsbyggðinni

Síðastliðin ár höfum við séð mikla fjölgun heimsókna ferðamanna til Íslands. Flestar ferðir til og frá landinu eru í gegnum Keflavíkurflugvöll, en með tilkomu nýrra flugfélaga í millilandaflug hafa nýjar gáttir opnast inn í landið. Félögin fljúga bæði frá Akureyri og Egilsstöðum, sem skapar mikil tækifæri í ferðaþjónustu á Norðausturlandi. Einnig höfum við séð stóraukningu í framboði á veitingastöðum, gistirýmum, afþreyingu og verslunum á svæðinu okkar. Þessi stóraukning hefur vissulega orðið vegna mikils áhuga ferðamanna á svæðinu. Staðreyndin er að Norðausturland hefur mikið aðdráttarafl, býr yfir mikilli fegurð og það er frábært að vera þar. Það er nefnilega ekki bara fólkið á hverjum stað fyrir sig sem hefur ávinninginn af fjölgun ferðamanna á landsbyggðinni því þjónustustig á landsbyggðinni eflist með sterkari innviðum. Við þurfum að grípa tækifærin þegar þau birtast okkur, finna leiðir að betri og sanngjarnari dreifingu ferðamanna á milli landshluta og efla á sama tíma samgöngur um svæðið okkar. Það er okkur öllum og samfélaginu til heilla.

Aðstöðumunur flugvalla

Í kjölfarið sjáum við aðstöðumun millilandaflugvalla landsins á skýrari máta. Hann er margvíslegur, en nýlegar greiningar sýna fram á töluverðan kostnaðarmun á flugvélaeldsneyti milli flugvalla. Þar er flugvélaeldsneyti áberandi ódýrara á Keflavíkurflugvelli. Þá sérstaklega ef miðað er við flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum. Þessi munur felst helst í stórauknum flutningskostnaði þegar eldsneytið er flutt á Norðausturland. Sérfræðingar hafa bent á ýmsar mögulegar leiðir til að jafna kostnaðarmuninn. Allt frá niðurgreiðslu kostnaðar að hálfu ríkisins, fjárfestingu í betri innviðum fyrir afgreiðslu og geymslu birgða til stofnunar óhagnaðardrifna afgreiðslufélaga.

Jöfnun kostnaðar og neyðarvörn

Ljóst er að ýmsar leiðir eru til staðar svo hægt sé að ná því markmiði að jafna kostnað á flugsteinolíu og afgreiðslu hennar á milli millilandaflugvalla hérlendis. Hér væri einnig um að ræða mikilvæga aðgerð til jöfnunar atvinnutækifæra á Akureyri og Egilsstöðum. Það er mikilvægt að við finnum leið til jafna kostnað á flugvélaeldsneyti og með því gera flugvellina okkar á Akureyri og Egilsstöðum samkeppnishæfari í móttöku ferðamanna.

Í því samhengi er einnig talið mikilvægt að komið verði fyrir neyðarbirgðum af flugvélaeldsneyti meðfram lausnum á ofangreindum aðstöðumuni, sem gætu verið geymdar á fleiri en einum stað. Slík fyrirbyggjandi aðgerð getur skipt sköpum ef nauðsynlegt væri að grípa til neyðarráðstafana.

Finnum leið

Undirrituð hefur lagt fram beiðni um skýrslu frá innviðaráðherra um jöfnun kostnaðar vegna flugvélaeldsneytis og afgreiðslu þess á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum í samanburði við Keflavíkurflugvöll. Óskað er þess að í skýrslunni verði kveðið á um hugsanlegar aðgerðir sem hægt er að grípa til svo möguleiki sé á að ná framangreindum markmiðum á sem hagkvæmasta máta.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 10. desember 2022.