Categories
Greinar

35 þúsund íbúðir á tíu árum

Deila grein

13/07/2022

35 þúsund íbúðir á tíu árum

Í gær var und­ir­ritað sam­komu­lag rík­is­ins og Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga um aðgerðir og um­bæt­ur á hús­næðismarkaði til næstu tíu ára. Mark­miðið er skýrt og það er að ná jafn­vægi á hús­næðismarkaði með því að nota þau verk­færi sem birt­ist í sam­komu­lag­inu.

Grimmt happ­drætti

Síðustu ár höf­um við búið við mikl­ar sveifl­ur á hús­næðismarkaði, bæði hvað varðar fram­boð á lóðum og hús­næði og þar af leiðandi verð. Þess­ar sveifl­ur skapa aðstæður sem valda því að kyn­slóðirn­ar sem koma inn á markaðinn sem fyrstu kaup­end­ur verða hluti af eins kon­ar grimmu happ­drætti þar sem fæst­ir vinna og flest­ir hefja þátt­töku með þung­ar byrðar. Vegna þess­ar­ar stöðu er mik­il áhersla lögð á hús­næðismál­in í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Fyrstu skref­in voru þau að sam­eina und­ir einu ráðuneyti, nýju innviðaráðuneyti, mála­flokka hús­næðis, skipu­lags, sveit­ar­stjórna, sam­gangna og byggða. Þessi aðgerð er grund­völl­ur þess að hægt sé að greina stöðuna og koma með mark­viss­ar og öfl­ug­ar aðgerðir til þess að skapa jafn­vægi á þess­um mik­il­væga markaði.

Tíma­móta­sam­komu­lag

Það sam­komu­lag sem und­ir­ritað var í gær mark­ar tíma­mót. Í því felst að ríki og sveit­ar­fé­lög hafa sömu sýn, bæði á vand­ann, og þá ekki síður á lausn­irn­ar. Mark­miðið er að á næstu tíu árum verði byggðar 35 þúsund nýj­ar íbúðir, fjög­ur þúsund íbúðir á ári fyrstu fimm árin og þrjú þúsund síðari fimm árin. Þá er ekki síður mik­il­vægt að þriðjung­ur þess­ara 35 þúsund íbúða verði á viðráðan­legu verði og fimm pró­sent af öllu nýju hús­næði verði fé­lags­leg hús­næðisúr­ræði til að mæta sér­stak­lega þörf­um þeirra sem höllust­um fæti standa. Einnig verður ráðist í sér­stakt átak til að eyða biðlist­um eft­ir sér­tæk­um hús­næðisúr­ræðum fyr­ir fatlað fólk.

All­ir eiga að fá tæki­færi

Það er eng­in ein lausn á þeim vanda sem við blas­ir á hús­næðismarkaði, lausn­irn­ar eru marg­ar. Í því tíma­móta­sam­komu­lagi sem und­ir­ritað var í gær eru mik­il­væg­ir þræðir sem ofn­ir verða sam­an til að gera hús­næðismarkaðinn stöðugri. Það er ein­læg trú mín að sú samstaða sem hef­ur náðst milli rík­is og sveit­ar­fé­laga varði leiðina til heil­brigðari hús­næðismarkaðar þar sem all­ir fái tæki­færi og eng­inn verði skil­inn eft­ir á göt­unni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 13. júlí 2022.

Categories
Greinar

Áfram Ísland!

Deila grein

13/07/2022

Áfram Ísland!

Það er eft­ir­vænt­ing í sam­fé­lag­inu nú þegar stelp­urn­ar okk­ar spila sinn ann­an leik gegn Ítal­íu á Evr­ópu­meist­ara­móti kvenna í knatt­spyrnu á Englandi í dag. Sam­ein­ing­araflið og kraft­ur­inn sem fylg­ir stelp­un­um smit­ar út frá sér. Fjöldi ís­lenskra stuðnings­manna hef­ur gert sér ferð á móti til að styðja dyggi­lega við bakið á ís­lenska landsliðinu og fjöl­skyld­ur og vin­ir koma sam­an á Íslandi til þess að horfa á leik­inn og senda hlýja strauma út.

Vel­gengni ís­lensku landsliðanna í knatt­spyrnu hef­ur fyllt okk­ur stolti, gleði og til­hlökk­un. Árang­ur­inn blæs líka bar­áttu­anda og krafti í fjölda barna og ung­linga sem fylgj­ast spennt með sín­um fyr­ir­mynd­um. Vegna þessa er hlaupið hraðar, sparkað fast­ar og stefnt hærra. Íþrótta­fólkið okk­ar býr yfir metnaði, dugnaði og vinnu­semi. Það hef­ur sett sér mark­mið, keppt að þeim sama hvað dyn­ur á og haldið í gleðina yfir stór­um sem smá­um sigr­um.

Það að kom­ast á stór­mót sem þetta er ekki sjálfsagt. Að baki slík­um ár­angri ligg­ur þrot­laus vinna stelpn­anna okk­ar og þeirra sem standa þeim næst. Þessi ár­ang­ur bygg­ist einnig á óeig­ingjarnri vinnu sam­fé­lags­ins í gegn­um tíðina. Ber þar fyrst að nefna baklandið, en það er fólkið sem legg­ur sitt af mörk­um með stuðningi sín­um, elju og ástríðu. Þetta eru fjöl­skyld­urn­ar, starfs­fólkið í íþrótta­hús­un­um, sjálf­boðaliðarn­ir og aðrir vel­unn­ar­ar. Þau eru að upp­skera ríku­lega þessa dag­ana. Annað sem breyt­ir höfuð máli er jafn aðgang­ur að íþrótta og tóm­stund­a­starfi á land­inu okk­ar. Það er okk­ar sem sam­fé­lags að tryggja að öll börn hafi jöfn tæki­færi til þess að ná langt í því sem þau vilja taka sér fyr­ir hend­ur.

Fram und­an eru spenn­andi og skemmti­leg­ir tím­ar og ég trúi því að æv­in­týrið á Englandi sé er rétt að byrja. Til þess að gera um­gjörð móts­ins enn glæsi­legri ákváðu ís­lensk stjórn­völd að blása til menn­ing­arkynn­inga í tengsl­um við leiki stelpn­anna á móti. Að þeim koma öfl­ug­ur hóp­ur ís­lenskra lista­manna sem koma fram fyr­ir hvern leik. Auk­in­held­ur hafa menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið og mennta- og barna­málaráðuneytið lestr­ar­hvatn­ing­ar­her­ferðina sett á lagg­irn­ar lestr­ar­hvatn­ing­ar­her­ferðina Tími til að lesa sem ætluð er fyr­ir les­end­ur á grunn­skóla­aldri í sum­ar.

Hvatn­ing­in er skemmti­leg og inn­blás­in af þátt­töku stelpn­anna okk­ar á EM. Að þessu sinni snýst lestr­ar­hvatn­ing­in um bæði lest­ur og sköp­un. Börn og for­eldr­ar gera með sér samn­ing um ákveðinn mín­útu­fjölda í lestri fyr­ir hvern leik og hvert mark sem að stelp­urn­ar okk­ar skora á EM. Þá geta krakk­ar einnig tekið þátt í að skapa og skrifa sögu til þess að senda inn – en sag­an þarf að inni­halda bolta. Nán­ari upp­lýs­ing­ar er að finna inná vefsíðunni www.tim­itila­dlesa.is.

Það er gam­an að geta samþætt íþrótt­ir og menn­ingu með þess­um hætti til þess að auka hróður lands­ins og hvetja stelp­urn­ar okk­ar enn frek­ar til dáða. Sem ráðherra menn­ing­ar­mála sendi ég stelp­un­um okk­ar bar­áttu­kveðjur fyr­ir leik­inn í dag og óska öll­um lands­mönn­um gleðilegr­ar fót­bolta­hátíðar þar sem slag­orðið verður tví­mæla­laust: Áfram Ísland!

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar­ráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 13. júlí 2022.

Categories
Greinar

Bætum verklag eftir náttúruhamfarir

Deila grein

06/07/2022

Bætum verklag eftir náttúruhamfarir

Í byrjun árs mælti ég fyrir til þingsályktunartillögu á Alþingi, um úttekt á tryggingavernd í kjölfar náttúruhamfara. Málið er eitt af þeim málum sem þingflokkur Framsóknarflokksins setti í forgang enda varðar það fjölmarga íbúa þessa lands, jafnt í dreifbýli sem þéttbýli.

Málið var ekki afgreitt á Alþingi en hlaut umfjöllun í þingsal og í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins. Alþingi bárust umsagnir um málið og er skemmst frá því að segja að allir umsagnaraðilar töldu brýnt að ráðast í heildar úttekt á tryggingavernd og úrvinnslu tjóna. Í umsögnunum er sett fram mikið af upplýsingum sem geta gagnast við slíka úttekt. Ég mun því áfram leita leiða til að koma verkefninu í gang.

Lærum af reynslunni

Á Íslandi höfum við alla tíð þurft að glíma við náttúruöflin og sambúðin með þeim hefur reynst landsmönnum áskorun. Náttúruhamfarir valda hér ítrekað umtalsverðu eigna- og rekstrartjóni. Þar nægir að nefna óveðrið í desember 2019 sem kom verst niður á Norður- og Norðvesturlandi en hafði áhrif víða um land, snjóflóð á Flateyri, flóð í Þingeyjarsveit haustið 2021 og aurflóð á Seyðisfirði í desember 2020.

Árið 2020 voru tilkynnt tjón vegna 14 atburða en 11 á árinu 2021 samkvæmt ársskýrslum Náttúruhamfaratryggingar Íslands en slíkir atburðir hafa að meðaltali verið um 7 á ári frá árinu 1987. Tjón af völdum náttúruhamfara getur reynst hvort sem er einstaklingum eða rekstraraðilum ofviða og ógnað heilu samfélögunum. Tryggingarvernd vegna náttúruhamfara er því gríðarlega mikilvæg auk skilvirkrar og sanngjarnrar úrvinnsla strax í kjölfar hamfaranna.

Farið hefur verið í margvíslegar aðgerðir til að koma á samtryggingu og verjast náttúruhamförum hér á landi. Má þar nefna ýmis konar vöktun náttúruvár og viðfangsefni Náttúruhamfaratryggingar Íslands, Ofanflóðasjóðs og Bjargráðasjóð, þróun verklags stjórnvalda í viðbrögðum og úrvinnslu afleiðinga einstakra atburða, ásamt lögboðnum og valfrjálsum tryggingum.

Mikil reynsla hefur safnast upp á undanförnum árum sem mikilvægt er að læra af og nýta til að bæta vinnubrögð. Eftir skriðuföllin á Seyðisfirði komu fram ýmsar nýjar áskoranir , ásamt öðrum sem voru þekktar. Þar má nefna ósamræmi í bótum til þeirra sem missa húsnæði sitt í hamförum og þeirra sem þurfa að flytja úr húsnæði vegna hættu á hamförum, þ.e. húsnæði sem er á hættusvæði og verður að hætta notkun á. Þá er margt óljóst varðandi vernd og tryggingar atvinnulífsins, atvinnufyrirtækja og atvinnuhúsnæðis. 

Áfram veginn

Stöðugt er unnið að umbótum hjá aðilum sem sinna viðbrögðum vegna náttúruvár, en nú er tímabært að skoða heildarmyndina, gera úttekt á viðbrögðum og mögulegum götum í kerfinu. Markmiðið er að auka skilvirkni, jafnræði og sanngirni í úrvinnslu tjóna ásamt leiðum til að bæta upplýsingagjöf og fræðslu til þeirra sem búa við náttúruvá eða hafa lent í hamförum.

Það er mikilvægt að fækka gráu svæðunum eins og mögulegt er, þó að ófyrirsjáanleiki náttúrunnar komi nú sennilega í veg fyrir að það takist 100%. Aðgerðir til úrbóta gætu t.d. falist í breytingu á lögum, reglugerðum eða verklagsreglum, betri miðlun upplýsinga, fræðslu og kynningarverkefnum.

Við þurfum alltaf að nýta uppsafnaða þekkingu og reynslu til frekari framfara.

Líneik Anna Sævarsdóttir,  þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. júlí 2022.

Categories
Greinar

Tími til að lesa!

Deila grein

04/07/2022

Tími til að lesa!

Nú stytt­ist óðum í að stelp­urn­ar okk­ar spili sinn fyrsta leik á Evr­ópu­móti kvenna í knatt­spyrnu sem fram fer í Bretlandi. Í til­efni af þátt­töku Íslands á mót­inu skipu­legg­ur menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið og mennta- og barna­málaráðuneytið lestr­ar­hvatn­ing­ar­her­ferðina Tími til að lesa sem ætluð er fyr­ir les­end­ur á grunn­skóla­aldri í sum­ar.

Hvatn­ing­in er skemmti­leg og inn­blás­in af þátt­töku stelpn­anna okk­ar á EM. Að þessu sinni snýst lestr­ar­hvatn­ing­in um bæði lest­ur og sköp­un. Börn og for­eldr­ar gera með sér samn­ing um ákveðinn mín­útu­fjölda í lestri fyr­ir hvern leik og hvert mark sem stelp­urn­ar okk­ar skora á EM. Þá geta krakk­ar einnig tekið þátt í að skapa og skrifa sögu til þess að senda inn – en sag­an þarf að inni­halda bolta. Nán­ari upp­lýs­ing­ar er að finna á vefsíðunni www.tim­itila­dlesa.is.

Mik­il­vægi lest­urs og lesskiln­ings er ótví­rætt. Við höf­um lagt á það ríka áherslu síðustu ár að bæta læsi, ekki síst hjá börn­un­um okk­ar. Orðaforði og lesskiln­ing­ur eykst með aukn­um lestri og því er ómet­an­legt fyr­ir börn að lesa, taka glós­ur og spyrja út í orð sem þau þekkja ekki. Orðaforði barna skipt­ir miklu máli fyr­ir vellíðan og ár­ang­ur í skóla og býr þau und­ir virka þátt­töku í sam­fé­lag­inu. Með auk­inni mennt­un eykst sam­keppn­is­hæfni þjóðar­inn­ar og geta henn­ar til að standa und­ir eig­in vel­ferð.

Sum­arið er tími sam­ver­unn­ar, úti­vist­ar og leikja en það er mik­il­vægt að minna á lest­ur­inn líka. Það er staðreynd að ef barn les ekk­ert yfir sum­ar­tím­ann get­ur orðið allt að þriggja mánaða aft­ur­för á lestr­ar­færni þess í sum­ar­frí­inu. Góðu frétt­irn­ar eru þó að það þarf ekki mikið til að börn viðhaldi færn­inni eða taki jafn­vel fram­förum. Rann­sókn­ir sýna að til þess að koma í veg fyr­ir þessa aft­ur­för dug­ar að lesa aðeins 4-5 bæk­ur yfir sum­arið eða lesa að jafnaði tvisvar til þris­var í viku í um það bil 15 mín­út­ur í senn.

Tími til að lesa er ein leið til þess að hvetja börn til lest­urs en gleym­um því ekki að bestu fyr­ir­mynd­ir barn­anna þegar kem­ur að lestri eru for­eld­arn­ir. Það er væn­legra til ár­ang­urs ef fleiri taka sér bók í hönd á heim­il­inu en börn­in. Sem fyrr læra þau það sem fyr­ir þeim er haft og þess vegna þurf­um við öll að muna eft­ir því að lesa líka. Setj­um lest­ur­inn á dag­skrá í sum­ar, sam­hliða því að hvetja stelp­urn­ar okk­ar áfram í Bretlandi með ráðum og dáð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar­ráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 4. júlí 2022.

Categories
Greinar

Vandasöm sigling

Deila grein

04/07/2022

Vandasöm sigling

Tals­verð óvissa rík­ir um efna­hags­horf­ur á heimsvísu um þess­ar mund­ir og hag­stjórn því vanda­sam­ari en um langt ára­bil. Vand­inn af margþætt­um toga. Nauðsyn­leg­ar efna­hagsaðgerðir stjórn­valda um heim all­an á Covid-19-tím­an­um er lutu að aukn­um rík­is­um­svif­um og rýmri pen­inga­stefnu hafa ýtt und­ir hækk­un á vöru og þjón­ustu. Þessu til viðbót­ar hef­ur árás Rúss­lands inn í Úkraínu haft mik­il áhrif á verðbólgu á heimsvísu, þar sem einn stærsti fram­leiðandi orku ræðst á ríki sem fram­leiðir mikið magn af hveiti til út­flutn­ings. Verð á þess­um nauðsynja­vör­um hef­ur hækkað veru­lega og eru af­leiðing­arn­ar afar nei­kvæðar fyr­ir heims­bú­skap­inn og sér­stak­lega fá­tækri rík­in. Á sama tíma eru mjög ríki enn að fást við far­sótt­ina og hef­ur það lam­andi áhrif fram­leiðslu­keðju heims­ins. Ofan á þetta bæt­ist að skort­ur á vinnu­afli í mörg­um helstu hag­kerf­um heims­ins.

Íslenska hag­kerfið stend­ur traust­um fót­um

Efna­hags­kerfið hef­ur tekið vel við sér eft­ir far­sótt­ina. Drif­kraft­ur hag­kerf­is­ins er góður og spár gera ráð fyr­ir mikl­um hag­vexti í ár eða ríf­lega 5% og rétt um 3% árið 2023. Lausa­fjárstaða þjóðarbús­ins er sterk og veru­lega hef­ur dregið úr at­vinnu­leysi. Eft­ir mik­inn sam­drátt í upp­hafi far­ald­urs­ins er það ferðaþjón­ust­an enn á ný sem dríf­ur hag­vöxt­inn áfram en spár gera ráð fyr­ir að um 1,6 millj­ón ferðamanna muni heim­sækja Ísland á þessu ári. Aðrar út­flutn­ings­grein­ar hafa einnig dafnað vel eins og sjáv­ar­út­veg­ur og stóriðja vegna mik­illa verðhækk­ana á afurðum þess­ara at­vinnu­greina. Að sama skapi er einnig ánægju­legt að sjá að út­flutn­ings­tekj­ur af hug­verkaiðnaðnum hafa auk­ist veru­lega eða farið úr því að nema tæp­um 8% af gjald­eyris­tekj­um í rúm 16% á síðustu árum. Þessi þróun er mik­il­væg í þeirri viðleitni að fjölga stoðunum und­ir ut­an­rík­is­viðskipt­um lands­ins.

Kaup­mátt­ur launa allra á Íslandi hækkaði á ár­inu 2021 og þær skatta­legu aðgerðir sem hef­ur verið hrint í fram­kvæmd miðast all­ar að því að draga úr skatt­byrði hjá þeim sem lægst­ar tekj­ur hafa. Á covid-tím­an­um jókst kaup­mátt­ur um 4,4% að raun­v­irði og var það í sam­ræmi við fyr­ir­ætlan­ir stjórn­valda að verja efna­hag heim­ila og fyr­ir­tækja við upp­haf far­sótt­ar­inn­ar. Í stuttu máli má segja að vel hafi tek­ist til. At­vinnu­leysi mæl­ist nú um 3,8%, skuld­ir heim­il­anna hafa lækkað, hrein skuld­astaða rík­is­sjóðs nem­ur 28,5% af lands­fram­leiðslu og gjald­eyr­is­forðinn nem­ur um 25,5% af lands­fram­leiðslu. Þannig að segja má að staðan sé góð þrátt fyr­ir mikla ágjöf síðustu miss­eri en blik­ur eru á lofti því verðbólgu­horf­ur hafa versnað til skamms tíma.

Auk­in verðbólga víðast hvar í heim­in­um

All­ir helstu seðlabank­ar heims hafa nú hækkað stýri­vexti sína með það að mark­miði að því að draga úr verðbólgu­vænt­ing­um. Verðbólga í Banda­ríkj­un­um í maí mæld­ist 8,6% á árs­grund­velli og er sú mesta í yfir 40 ár. Verðbólg­an á evru­svæðinu er 8,1% og í Bretlandi 7,8%. Mat­arkarf­an á heimsvísu hef­ur hækkað um tæp­an fjórðung. Verð á hveiti á heimsvísu hef­ur hækkað um 56% og mjólkuraf­urðir um 17%.

Ísland hef­ur ekki farið var­hluta af þess­ari þróun, verðbólg­an mæl­ist 8,8% en án hús­næðisliðar­ins er hún 6,5%%. Verðbólgu­vænt­ing­ar hafa einnig auk­ist. Gert er ráð fyr­ir að verðbólga verði um 4,9% árið 2023 og 3,3% árið 2024. Skort­ur hef­ur verið á vinnu­markaði og mik­il eft­ir­spurn eft­ir vinnu­afli. Hækk­un hús­næðisliðar vísi­tölu neyslu­verðs hef­ur haft mest áhrif á þróun verðlags und­an­far­in miss­eri. Fram­boðsvand­inn hef­ur auk­ist á ný vegna stríðsins í Úkraínu og olíu- og hrávöru­verð hef­ur hækkað enn frek­ar.

Meg­in­verk­efni allra leiðandi hag­kerfa verður að ná utan um verðbólgu­vænt­ing­ar og ráðlegg­ur Alþjóðagreiðslu­bank­inn (e. BIS) seðlabönk­um að vera ófeimn­ir að bregðast hratt við til skamms tíma með það að leiðarljósi að til lengri tíma, þá verði búið að snúa verðbólg­unni niður. Agustín Car­stens, banka­stjóri BIS, sagði: „Það er lyk­il­atriði fyr­ir seðlabanka er bregðast skjótt og af festu við áður en verðbólga nær fót­festu.“

Rík­is­stjórn­in leggst á ár­arn­ar með Seðlabank­an­um

Stærsta verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar verður að koma bönd­um á verðbólg­una. Stjórn­völd hafa þegar farið í mót­vægisaðgerðir sem fel­ast í því að bæt­ur al­manna­trygg­inga hafa verið hækkaðar, ráðist var í sér­stak­an barna­bóta­auka til þeirra sem eiga rétt á tekju­tengd­um barna­bót­um og hús­næðis­bæt­ur voru hækkaðar. Auk­in­held­ur hafa rík­is­stjórn og Seðlabanki lagst sam­eig­in­lega á ár­arn­ar til þess að tak­ast á við hækk­andi verðbólgu. Kynnti rík­is­stjórn­in í því sam­hengi 27 millj­arða aðhaldsaðgerðir í rekstri hins op­in­bera til að draga úr þenslu og verðbólguþrýst­ingi. Stjórn­völd telja afar mik­il­vægt að gera allt sem í þeirra valdi stend­ur til að sporna við verðbólgu. Sam­keppnis­eft­ir­litið hef­ur meðal ann­ars hafið upp­lýs­inga­öfl­un um þróun verðlags á helstu mörkuðum, til að meta hvort verðlags­hækk­an­ir kunni að stafa af ónægu sam­keppn­is­legu aðhaldi eða óeðli­leg­um hvöt­um. Sér­stök áhersla er lögð á dag­vörumarkað, eldsneyt­is­markað og bygg­ing­ar­vörumarkað. Það ger­ir Sam­keppnis­eft­ir­lit­inu auðveld­ara um vik að greina óhag­stæð ytri áhrif á verðþróun eða greina hvort verðhækk­an­ir kunni að stafa af mögu­leg­um sam­keppn­is­bresti á viðkom­andi mörkuðum. Að auki hef­ur verið skipaður vinnu­hóp­ur til að greina gjald­töku og arðsemi bank­anna. Stór hluti af út­gjöld­um heim­il­anna renn­ur til bank­anna, í formi af­borg­ana af hús­næðis-, bíla- og neyslu­lán­um auk vaxta og þjón­ustu­gjalda. Sam­setn­ing þess­ara gjalda er oft flók­in, sem ger­ir sam­an­b­urð erfiðan fyr­ir neyt­end­ur. Því tel ég brýnt að hlut­ur þess­ara þátta verði skoðaður ofan í kjöl­inn, með vís­an til sam­keppn­isþátta og hags­muna neyt­enda. Mark­miðið er að kanna hvort ís­lensk heim­ili greiði meira fyr­ir al­menna viðskipta­bankaþjón­ustu en heim­ili í hinum nor­rænu ríkj­un­um. Það er verk að vinna til að ná tök­um á verðbólgu, því að tekju­lægstu heim­il­in og þjóðirn­ar fara iðulega verst út úr mik­illi verðbólgu.

Bjart hand­an sjón­deild­ar­hrings­ins

Þrátt fyr­ir að blik­ur séu á lofti í hag­kerf­inu er full ástæða til bjart­sýni. Efna­hags­um­svif hafa tekið vel við sér eft­ir far­sótt­ina. Hag­vöxt­ur er um 5%, út­flutn­ings­grein­ar sterk­ar sem styðja við gjald­miðil­inn og gjald­eyr­is­forði sem nem­ur um 25% af lands­fram­leiðslu. Að auki er gert ráð fyr­ir að aðhalds­samri pen­inga­stefna og rík­is­fjár­mál muni leiða til þess að á næsta ári lækki verðbólg­an. Í ná­granna­lönd­un­um er mik­ill ótti við að fram und­an sé tíma­bil sam­spils stöðnun­ar og verðbólgu (e. stag­flati­on), en eng­in merki eru uppi um slíka stöðnun í okk­ar hag­kerfi. Nokkr­ir veiga­mikl­ir þætt­ir ættu einnig að vinna með efna­hags­kerf­inu.

Í fyrsta lagi eru heild­ar­skuld­ir rík­is­sjóðs rúm­lega 40% af lands­fram­leiðslu, en til sam­an­b­urðar eru skuld­ir Þýska­lands um 60% og Ítal­íu um 140%. Áætlað er að skulda­hlut­fall rík­is­sjóðs verði komið í 33,4% í árs­lok 2023. Er­lend­ar skuld­ir rík­is­sjóðs eru mjög lág­ar og auk þess er hrein er­lend staða þjóðarbús­ins með allra besta móti í ljósi mik­illa eigna hag­kerf­is­ins í út­lönd­um. Í öðru lagi er Ísland með sjálf­stæða pen­inga­stefnu sem þýðir að við get­um hreyft stýri­vexti hraðar en mörg önn­ur ríki og sér í lagi í sam­an­b­urði við þau sem eru aðilar að mynt­banda­lagi Evr­ópu. Þess má geta að verðbólga inn­an ein­stakra ríkja banda­lags­ins nem­ur allt að 20%. Ítal­ía greiðir 1,9 pró­sentu­stig­um meira en Þýska­land í vöxt­um af láni til tíu ára, nærri tvö­falt meira en sem nem­ur álag­inu í árs­byrj­un 2021! Ljóst er að sama vaxta­stefn­an á ekki við öll ríki Evr­ópu­sam­bands­ins og munu þau skuld­sett­ustu geta lent í veru­leg­um erfiðleik­um. Í þriðja lagi, vegna góðs geng­is út­flutn­ings­grein­anna hef­ur gjald­miðill­inn okk­ar staðist ágjöf­ina sem felst í óviss­unni. Í fjórða lagi er Ísland stór­fram­leiðandi á þeim vör­um sem vönt­un er á; ann­ars veg­ar mat­væl­um og hins veg­ar orku. Sök­um þessa er verðbólg­an minni en ella væri. Að lok­um, þá hef­ur hag­stjórn­in verið sveigj­an­leg und­an­farið og verið í aðstöðu til að nýta rík­is­fjár­mál­in til að styðja við hag­kerfið á far­sótt­ar­tím­um en draga nú úr þátt­töku þess í út­gjöld­um og fjár­fest­ing­um til að halda aft­ur af verðbólg­unni.

Efna­hags­stjórn­inni næstu miss­eri má líkja við stýra skipi í öldu­róti. Þrátt fyr­ir að skyggnið geti verið slæmt, þá skip­ir mestu máli í hag­stjórn­inni að huga vel að grunn­innviðum og gera það sem þarf. Rík­is­stjórn­in hef­ur sýnt það í verki í gegn­um þann ólgu­sjó sem far­sótt­in var að hún gat far­sæl­lega siglt á milli skers og báru. Næstu aðgerðir í efna­hags­stjórn­inni munu all­ar miða að því að ná utan um verðbólgu­vænt­ing­ar og ef all­ir ákveða að taka þátt í þeirri veg­ferð, þá mun okk­ur farn­ast vel.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 2. júlí 2022.

Categories
Greinar

Eining um stjórn Landspítala

Deila grein

28/06/2022

Eining um stjórn Landspítala

Við stöndum frammi fyrir því að á næstu 20 árum mun Íslendingum yfir 65 ára aldri fjölga um 40 þúsund. Það er ekki valkostur að gera alltaf meira af því sama. Margt sem gekk í fortíð gengur ekki endilega upp í nútíð. Tækni- og vísindaframfarir ásamt vinnuumhverfi sem einkennist af samvinnu og liðsheild eru lykillinn að því að tryggja að þjóðarsjúkrahúsið geti sinnt hlutverki sínu. Landspítalinn verður að aðlagast í samræmi við breyttar þarfir þjóðarinnar. Það var því ánægjulegt að Alþingi samþykkti frumvarp til laga um skipan stjórnar Landspítala.

Rekstur heilbrigðisstofnanna er ekki hefðbundinn fyrirtækjarekstur. Til marks um það hefur nú í lögum verið tryggð aðkoma fagráðs og starfsfólks að stjórninni. Einnig hefur 7 manna notendaráð verið skilgreint til að tryggja rödd notenda þjónustunnar og er það nýmæli og framfaraskref. Gagnvart sjúklingum og starfsfólki Landspítalans mun skipan stjórnar styrkja stefnumótun, rekstur og ákvarðanatöku innan spítalans sem skilar sér í bættu starfsumhverfi, þjónustu og getu kerfisins til að takast á við framtíðaráskoranir.

Sjaldan er einföld lausn á flóknum málum

Meginmarkmið lagasetningarinnar er að styrkja stöðu og hlutverk spítalans í samræmi við stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Landspítalinn er lang stærsti vinnustaður Íslands. Það eru skilgreind um 240 mismunandi störf innan veggja hans, starfsmenn eru um 6000 og heildarvelta hans er um 97 milljarðar á ári. Það er áþekk fjárhæð og mörg stærri félög í Kauphöll Íslands velta. Helstu spítalar Norðurlandanna eru reknir eftir rekstararmódeli þar sem stjórn veitir forstjóra og stjórnendum stuðning og rýni í ákvarðanatöku sinni í samræmi við vilja ráðherra. Slíkt fyrirkomulag tryggir ábyrga og vel ígrundaða ákvarðanatöku. Ekki aðeins út frá rekstri heldur út frá heildarhagsmunum sjúklinga, starfsmanna og þjóðarinnar allrar.

Það er mikilvægt við uppbyggingu íslensks heilbrigðiskerfis að horft sé til erlendra fyrirmynda til þess að læra og tileinka okkur það sem best er gert hjá nágrannaþjóðum okkar. Að stýra heilbrigðisstofnun er flókið og sá sem stendur í stafni hverju sinni þarf að hafa stuðning. Stuðningur þarf að berast úr fleiri en einni átt og því þarf stjórn sem hefur víðtæka reynslu og þekkingu.

Allt að vinna en engu að tapa

Aðlögunarhæfni og þrautseigja heilbrigðiskerfisins hefur margsannað sig og nú síðast í Covid-19 faraldrinum. Stundum þarf að stíga eitt skref aftur á bak til að taka tvö skref áfram. Við höfum sjaldan verið í betri stöðu til að læra af fortíðinni og taka áræðin skref fram á við. Skref sem byggja á traustum og framsýnum rekstri sjúkrahúsa til að undirbúa íslensku þjóðina til framtíðar.

Það hafa allir skilning á því að heilsa þjóðarinnar verður vart metin til fjár. Heilbrigðiskerfið er sameign Íslendinga sem endurspeglaðist í því að í atkvæðagreiðslu þingsins var enginn mótfallinn frumvarpinu. Það er því gleðilegt að jafn breið samstaða hafi náðst um þetta framfararmál til að treysta frekar rekstrargrundvöll Landspítala. Rekstur sem þarf stöðugt að endurmeta til að færa þjóðinni bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á á hverjum tíma.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. júní 2022.

Categories
Greinar

Hugum vel að samkeppnismálum

Deila grein

27/06/2022

Hugum vel að samkeppnismálum

Á und­an­förn­um ára­tug hef­ur náðst góður ár­ang­ur í stjórn efna­hags­mála á Íslandi. Á þeim tíma hef­ur skuld­astaða rík­is­sjóðs batnað mikið, af­gang­ur af ut­an­rík­is­viðskipt­um og kaup­mátt­ur launa hef­ur auk­ist veru­lega og verðbólgu­töl­ur hald­ist lág­ar í sögu­legu sam­hengi. Ýmsar áskor­an­ir hafa þó skotið upp koll­in­um und­an­far­in tvö ár. Heims­far­ald­ur­inn setti hið venju­bundna líf jarðarbúa á ís með ýms­um rösk­un­um á aðfanga­keðjum og til­heyr­andi áhrif­um á alþjóðaviðskipti. Þá hef­ur óverj­an­leg inn­rás Rússa í Úkraínu mik­il áhrif á verðlagsþróun í heim­in­um öll­um, meðal ann­ars á orku- og fæðukostnað.

Áhrifa þessa er farið að gæta í efna­hags­mál­um víða um ver­öld og hafa verðbólgu­töl­ur hækkað tölu­vert á skömm­um tíma. Áhrif­in af slíkri þróun koma við hvert ein­asta heim­ili í land­inu, sér í lagi tekju­lágt fólk. Gripu stjórn­völd meðal ann­ars til mót­vægisaðgerða með þetta í huga, með sér­tæk­um aðgerðum eins og hækk­un bóta al­manna­trygg­inga, sér­stök­um barna­bóta­auka til þeirra sem eiga rétt á tekju­tengd­um barna­bót­um og hækk­un hús­næðis­bóta. Auk­in­held­ur hafa rík­is­stjórn og Seðlabanki lagst sam­eig­in­lega á ár­arn­ar til þess að tak­ast á við hækk­andi verðbólgu. Kynnti rík­is­stjórn­in í því sam­hengi 27 millj­arða aðhaldsaðgerðir í rekstri hins op­in­bera til að draga úr þenslu og verðbólguþrýst­ingi.

Það er skoðun mín að það sé sam­eig­in­legt verk­efni okk­ar sem sam­fé­lags, að halda aft­ur af verðlags­hækk­un­um eins og kost­ur er. Þar skipta sam­keppn­is­mál miklu. Virk sam­keppni er einn af horn­stein­um efna­hags­legr­ar vel­gengni. Sam­keppnis­eft­ir­litið hef­ur meðal ann­ars hafið upp­lýs­inga­öfl­un um þróun verðlags á helstu mörkuðum, til að meta hvort verðlags­hækk­an­ir kunni að stafa af ónægu sam­keppn­is­legu aðhaldi eða óeðli­leg­um hvöt­um. Mun eft­ir­litið leggja sér­staka áherslu á dag­vörumarkað, eldsneyt­is­markað og bygg­ing­ar­vörumarkað. Það ger­ir Sam­keppnis­eft­ir­lit­inu auðveld­ara um vik að greina óhag­stæð ytri áhrif á verðþróun og greina hvort verðhækk­an­ir kunni að stafa af mögu­leg­um sam­keppn­is­bresti á viðkom­andi mörkuðum. Í vik­unni samþykkti rík­i­s­tjórn­in einnig til­lögu mína um skip­un vinnu­hóps til að greina gjald­töku og arðsemi bank­anna. Við vit­um að stór hluti af út­gjöld­um heim­il­anna renn­ur til bank­anna, í formi af­borg­ana af hús­næðis-, bíla- og neyslu­lán­um auk vaxta og þjón­ustu­gjalda. Sam­setn­ing þess­ara gjalda er oft flók­in, sem ger­ir sam­an­b­urð erfiðan fyr­ir al­menna neyt­end­ur. Því tel ég brýnt að hlut­ur þess­ara þátta verði skoðaður ofan í kjöl­inn, með vís­an til sam­keppn­isþátta og hags­muna neyt­enda. Mark­miðið er að kanna hvort ís­lensk heim­ili greiði meira fyr­ir al­menna viðskipta­bankaþjón­ustu en heim­ili á hinum Norður­lönd­un­um.

Þrátt fyr­ir stór­ar áskor­an­ir á heimsvísu skipta aðgerðir okk­ar inn­an­lands miklu máli. Ég hvet okk­ur öll til þess að vera á tán­um, því sam­eig­in­lega náum við meiri ár­angri í verk­efn­um líðandi stund­ar.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar

Greinin birtist fyrst á mbl.is 24. júní 2022.

Categories
Greinar

Óhagnaðardrifin leigufélög veita sterka viðspyrnu

Deila grein

23/06/2022

Óhagnaðardrifin leigufélög veita sterka viðspyrnu

Aukið var við framboð leiguíbúða í vikunni þegar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun úthlutaði fyrri úthlutun stofnframlaga fyrir árið 2022. Þetta er mikilvæg innspýting í framboð á leigumarkaði en á þessu ári hafa 550 hagkvæmar leiguíbúðir verið teknar í notkun, það er 40% af öllum nýjum íbúðum sem komið hafa á markað á árinu. Landsbyggðin er stór þátttakandi í uppbyggingu á leiguhúsnæði sem styrkt eru með stofnframlögum.

Mikil eftirspurn hefur verið eftir stofnframlögum en á síðasta ári náðist þó ekki að úthluta öllu því fjármagni sem heimildir voru fyrir í fjárlögum. Var skortur á byggingarhæfum lóðum einna helst skýringin. Stofnframlög skapa hvata til að auka framboð af leiguhúsnæði og er framlag ríkis og sveitarfélaga til kaupa eða byggingar á íbúðum til leigu fyrir einstaklinga sem eru undir tekju- og eignamörkum. Það er sérlega ánægjulegt að sjá að yfir 30 sveitarfélög víða um land sameinast um þessa mikilvægu lausn með því að setja á stofn sameiginlegt óhagnaðardrifið leigufélag og veita þar með sterka viðspyrnu gegn hækkunum á leigumarkaði.

Það er ríkisstjórninni mikið hagsmunamál að stuðla að bættri stöðu fólks. Í gegnum stofnframlög hafa nú þegar verið byggðar 1.550 íbúðir og er annað eins í byggingu. Í fyrri úthlutun ársins 2022 hefur HMS úthlutað 2,6 milljörðum til uppbyggingar á 328 íbúðum en því til viðbótar bætist við framlag frá sveitarfélögum.

Leiguíbúðirnar dreifast víða um land og hefur hlutfall íbúða á landsbyggðinni aldrei verið hærra eða 46%. Af þeim 328 íbúðum sem úthlutun ársins nær til stendur til að byggja 279 nýjar íbúðir en kaupa 49 nýjar og eldri íbúðir. Íbúðirnar verða allar að standast kröfur um hagkvæmni, en með því eru stjórnvöld að skapa hvata fyrir aukið framboð slíkra íbúða. Sameiginleg sýn ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu íbúða til samræmis við þörf til næstu ára mun skipta sköpum að ná og halda jafnvægi á húsnæðismarkaði.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðarráðherra

Categories
Greinar

Á­fram­haldandi stuðningur við ný­sköpun

Deila grein

21/06/2022

Á­fram­haldandi stuðningur við ný­sköpun

Hlutverk stjórnvalda er að finna leiðir til að byggja traustan grunn fyrir nýsköpun hér á landi. Stuðningur við nýsköpun hefur sjaldan verið mikilvægari en einmitt nú og ljóst er að hugvit og nýsköpun eru að verða að styrkri stoð í hagkerfi Íslands. Í dag starfa um 12.000 manns í þessum iðnaði eða um 6% vinnandi fólks í landinu. Hugverka- og nýsköpunariðnaðurinn er vaxandi útflutningsstoð sem treystir á fjárfestingu í rannsóknum og þróun. Treystir á traust og fyrirsjáanlegt umhverfi. Þetta vita stjórnvöld á Íslandi sem hafa sett sér metnaðarfull markmið sem endurspeglast í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar með það að markmiði að fjölga störfum og gera hugviti hærra undir höfði innan íslensks efnahagslífs.

Framlenging bráðabirgðaákvæða

Þær ívilnanir sem settar voru með bráðabirgðaákvæðum til þess að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldur kórónuveru hafa skipt sköpum fyrir nýsköpunarfyrirtæki hér á landi. Ívilnanirnar hafa stuðlað að frekari uppbyggingu öflugrar nýsköpunar í atvinnu og efnahagslífi þjóðarinnar. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði til, í samræmi við tillögur umsagnaraðila, breytingar á frumvarpinu eins og það lá fyrir að frádráttarhlutfall myndi haldist óbreytt frá því bráðabirgðaákvæði sem hefur verið í gildi en að hámarkskostnaður verði sá sami og lagður var til í frumvarpinu, eða 1.000 milljónir króna í stað 1.100 milljónir króna. Frádráttarhlutfall nýsköpunarfyrirtækja verður því áfram 35 hundraðshlutar frá álögðum tekjuskatti þeirra árin 2021 og 2022 vegna útlagðs kostnaðar á rannsóknar- og þróunarverkefnum. Markmið skattfrádráttar vegna rannsókna- og þróunarverkefna er að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja. Þær ívilnanir sem felast í bráðabirgðaákvæðum laganna hafa skipt sköpum fyrir nýsköpunarfyrirtæki í þeirri efnahagslegu óvissu sem fylgt hefur heimsfaraldri kórónuveirunnar. Breytingarnar eru því til þess fallnar að koma til móts við:

a) annars vegar við þau sjónarmið sem höfð voru uppi fyrir nefndinni í umræðum um frumvarpið.

b) hins vegar við þá auknu kröfu um ábyrga stjórn ríkisfjármála í ljósi óvissu um efnahagsþætti, svo sem verðbólgu og vaxtahækkanir.

Fyrirsjáanleiki er nauðsynlegur

Meiri hlutinn telur mikilvægt að samkeppnishæfni íslenskra nýsköpunarfyrirtækja sé áfram tryggð eftir því sem dregur úr efnahagslegum áhrifum faraldursins hér á landi og á heimsvísu, en jafnframt að samhliða þessum ívilnunum sé mikilvægt að það fari fram heildarúttekt á árangri þessa verkefnis. Aðeins þannig er hægt að fá nauðsynlegar upplýsingar þannig hægt sé að stýra enn frekar með hvaða hætti fjármunir ríkisins nýtist til þess að efla þróun og rannsóknir á Íslandi. Fyrirsjáanleiki skipti miklu máli þegar komi að fjárfestingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi og að breytingar á hlutfalli styrkja, þó ekki séu nema að litlu leyti, geti skipt sköpum þegar kemur að því að laða erlenda sem innlenda aðila að fjárfestingu í íslensku hugviti. OECD vinnur nú að greiningu á stöðu nýsköpunariðnaðarins hér á landi og í framhaldi hennar er nauðsynlegt að móta heildstæða stefnu um greinina og starfsumhverfi hennar til framtíðar. Við fögnum þessum áfanga og áframhaldandi stuðningi við nýsköpun á Íslandi. Grundvöllur efnahagslegrar velgengni ásamt lausnum við áskorunum framtíðarinnar má finna í nýsköpun, rannsóknum og þróun.

Ágúst Bjarni Garðarsson þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi og situr í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. júní 2022.

Categories
Greinar

Samvinna er hugmyndafræði

Deila grein

20/06/2022

Samvinna er hugmyndafræði

Á þess­um hátíðar­degi fögn­um við því að 78 ár eru liðin frá ákvörðun Alþing­is um að stofna lýðveldið Ísland. Hver þjóðhátíðardag­ur mark­ar tíma­mót í sögu lands­ins og veit­ir okk­ur tæki­færi til þess að líta yfir far­inn veg og horfa til framtíðar. Saga ís­lenska lýðveld­is­ins er saga fram­fara. All­ar göt­ur frá stofn­un þess hafa lífs­kjör auk­ist veru­lega og þjóðar­tekj­ur á hvern íbúa eru með þeim mestu í ver­öld­inni. Staða Íslands er sterk í sögu- og alþjóðlegu sam­hengi, þegar flest­ir vel­sæld­ar­mæli­kv­arðar eru kannaðir. Slík­ur ár­ang­ur er ekki sjálf­gef­inn, held­ur ligg­ur þrot­laus vinna kyn­slóðanna sem byggt hef­ur landið hon­um að baki.

Mann­gildi ofar auðgildi

Frjáls­ar kosn­ing­ar eru horn­steinn lýðræðis­sam­fé­lags. Virk lýðræðisþátt­taka er eitt af því sem hef­ur ein­kennt ís­lenskt sam­fé­lag. Marg­ir stíga sín fyrstu skref í fé­lags­störf­um með þátt­töku í starfi stjórn­mála­hreyf­inga með það að leiðarljósi að hafa já­kvæð áhrif á sam­fé­lagið sitt. Í meira en heila öld hef­ur Fram­sókn fylgt þjóðinni og verið far­veg­ur fyr­ir fólk til þess að taka þátt í stjórn­mála­starfi. Sýn Fram­sókn­ar grund­vall­ast á sam­vinnu­hug­sjón­inni; að fólk geti náð meiri ár­angri með því að vinna sam­an og aukið styrk sinn. Sam­vinna bygg­ist ekki aðeins á trausti milli aðila held­ur einnig á góðum og mál­efna­leg­um umræðum sem leiðar til far­sælla niðurstaða.

Við trú­um því að jöfn tæki­færi séu eina leiðin til tryggja sann­girni í sam­fé­lag­inu. Brýnt er að dreifa valdi, án til­lits til auðs, stétt­ar, kyns eða annarra breyta. Mann­gildi ofar auðgildi. All­ar rann­sókn­ir sýna að öfl­ugt mennta­kerfi tryggi mest­an jöfnuð og það vilj­um við tryggja.

Ræt­ur sam­vinnu­hug­sjón­ar­inn­ar og frelsið

Fyrstu regn­hlíf­ar sam­vinnu­hug­sjón­ar­inn­ar, sam­vinnu­fé­lög­in, litu dags­ins ljós á Bretlandi. Það var hóp­ur vefara árið 1844 í bæn­um Rochdale á Norður-Englandi sem kom á lagg­irn­ar fyrsta sam­vinnu­fé­lag­inu. Vefar­arn­ir stóðu frammi fyr­ir lé­leg­um starfsaðstæðum, bág­um kjör­um og háu hrá­efn­is­verði. Í stað þess að starfa hver í sínu horni form­gerðu þeir sam­vinnu sína með sam­vinnu­fé­lagi, sam­nýttu fram­leiðsluþætti og juku þannig slag­kraft sinn til þess til þess að stunda viðskipti. Þeir opnuðu versl­un, eða kaup­fé­lag, og deildu hlut­deild í vel­gengni versl­un­ar­inn­ar með viðskipta­vin­um sín­um sem meðlim­ir í fé­lag­inu. Viðskipta­vin­irn­ir öðluðust jafn­an at­kvæðarétt í fé­lag­inu og áttu þannig sam­eig­in­legra hags­muna að gæta. Sam­vinnu­fé­lög urðu að sam­hjálp til sjálfs­bjarg­ar og höfðu al­mannaþjón­ustu að leiðarljósi með áherslu á nærum­hverfið. Fyrstu kaup­fé­lög­in voru hluti af þjóðfrels­is­bar­áttu okk­ar Íslend­inga. Bænd­ur í Þing­eyj­ar­sýslu voru vel lesn­ir í evr­ópsk­um frels­is­fræðum og árið 1882 stofnuðu þeir fyrsta kaup­fé­lagið til að ráða sjálf­ir versl­un og viðskip­um. Þar voru all­ir jafn­ir og sam­einaði þetta ný­inn­flutta form sjálf­stæði, fram­fara­vilja og lýðræði. Í kjöl­farið óx sam­vinnu­hreyf­ing­unni fisk­ur um hrygg hér­lend­is, sam­vinnu­fé­lög­um fjölgaði ört um allt land og urðu þau fyrstu keppi­naut­ar er­lendra kaup­manna hér á landi.

Kröf­ur tíðarand­ans

Þrátt fyr­ir áskor­an­ir og öldu­dali, sem sam­vinnu­hreyf­ing­in hér­lend­is gekk í gegn­um á árum áður, hef­ur þörf­in fyr­ir sterka sam­vinnu­hug­sjón sjald­an verið jafn rík og nú. Fyr­ir­mynd­ar­sam­vinnu­fé­lög eru rek­in hér á landi og sam­vinnu­hreyf­ing­in hef­ur haldið áfram að dafna er­lend­is, til að mynda í Evr­ópu og vest­an­hafs. Þannig eru Banda­rík­in merki­leg­ur jarðveg­ur ný­sköp­un­ar í sam­vinnu­starfi. Jafn­vel fyr­ir­tæki í tækni­grein­um, hug­búnaði og fjöl­miðlun sækja fyr­ir­mynd­ir í kaup­fé­lög og gera þannig sam­vinnu og lýðræði að horn­stein­um. Ung­ar og upp­lýst­ar kyn­slóðir okk­ar tíma sækja inn­blást­ur í sam­vinnu­formið og álíta það spenn­andi val­kost til að tak­ast á við áskor­an­ir sam­tímas. Klasa­starf­semi og sam­vinnu­hús af ýmsu tagi eru dæmi um það. Krafa tím­ans er enn meira sjálf­stæði, sterk­ari rétt­ur al­menn­ings og sam­fé­lags, fram­far­ir á öll­um sviðum með lýðræði og jafn­rétti að leiðarljósi – rétt eins og í Þing­eyj­ar­sýslu forðum daga.

Fjöl­breytt­ir far­veg­ir til ár­ang­urs

Með of­an­greint í huga mun viðskiptaráðherra meðal ann­ars hrinda af stað end­ur­skoðun á lög­um um sam­vinnu­fé­lög á kjör­tíma­bil­inu til að auðvelda fólki við að vinna að sam­eig­in­leg­um hug­ar­efn­um sín­um. Sam­vinnu­fé­lags­formið get­ur verið hent­ug­ur far­veg­ur fyr­ir fólk til þess að tak­ast á við áskor­an­ir og bæta sam­fé­lagið. Heim­ur­inn stend­ur frammi fyr­ir fjöl­mörg­um úr­lausn­ar­efn­um sem ekki verða leidd til lykta nema með sam­vinnu, hvort sem um er að ræða í um­hverf­is­mál­um, mennta­mál­um, alþjóðaviðskipt­um eða öðru. Stjórn­völd eiga að tryggja eld­hug­um og hug­sjóna­fólki fjöl­breytta far­vegi til þess að tak­ast sam­eig­in­lega á við slík út­lausn­ar­efni.

Sam­fé­lag er sam­vinnu­verk­efni

Tæp­um 106 árum frá því að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn var stofnaður, höld­um við enn tryggð við þá sam­vinnu­hug­sjón sem flokk­ur­inn spratt upp úr. Það er ekki sjálfsagt fyr­ir stjórn­mála­afl að ná svo háum aldri. Fram­sókn er fjölda­hreyf­ing og 13.000 fé­lag­ar í flokkn­um, hring­inn í kring­um landið, eiga það sam­eig­in­legt að vilja vinna sam­vinnu­hug­sjón­inni braut­ar­gengi og stuðla að upp­byggi­leg­um stjórn­mál­um út frá miðjunni. Sem miðju­flokk­ur legg­ur Fram­sókn áherslu á praktísk­ar og öfga­laus­ar lausn­ir sem eru til þess falln­ar að bæta líf fólks ásamt því að geta unnið með ólík­um stjórn­mála­flokk­um til þess að bæta sam­fé­lagið ásamt því að sýna sterka for­ystu í rík­is­stjórn­ar­sam­starfi. Það hef­ur flokk­ur­inn margoft gert með góðum ár­angri; að brúa bilið milli ólíkra sjón­ar­miða við aðra flokka til þess að ná ár­angri fyr­ir land og þjóð. Við í Fram­sókn segj­um gjarn­an að sam­fé­lag sé sam­vinnu­verk­efni og í því er fólg­inn mik­ill sann­leik­ur.

Vilji fólks­ins

Stjórn­mála­flokk­ur þarf á hverj­um tíma að geta rýnt sjálf­an sig með gagn­rýn­um hætti, aðlag­ast nýj­um áskor­un­um sam­tím­ans, hlustað á grasrót sína og virt vilja fé­lags­manna. Það sama á við um þjóðfé­lag sem vill ná langt. Sú staðreynd að við get­um fjöl­mennt á sam­kom­ur víða um land til þess að fagna þess­um merka áfanga, sem full­veldið er í sögu þjóðar­inn­ar, er ekki sjálf­gefið. Sú elja og þraut­seigja sem forfeður okk­ar sýndu í sjálf­stæðis­bar­áttu þjóðar­inn­ar lagði grunn­inn að þeim stað sem við erum á í dag. Lýðveldið Ísland á sér bjarta framtíð og Fram­sókn mun halda áfram að vinna í þágu sam­fé­lags­ins með hug­mynda­fræði sam­vinn­unn­ar að leiðarljósi. Þau tæki­færi sem eru fyr­ir hendi til þess að sækja fram fyr­ir sam­fé­lagið eru fjöl­mörg. Það er okk­ar sam­eig­in­lega verk­efni sem þjóðar að grípa þau og tryggja að Ísland verði áfram í fremstu röð meðal þjóða heims og fagni full­veldi sínu um ókomna tíð. Í þess­um efn­um geym­ir saga sam­vinnu­starfs á Íslandi og víðar um ver­öld­ina dýr­mæta lær­dóma – fjár­sjóð á veg­ferð okk­ar til framtíðar. Við ósk­um lands­mönn­um öll­um gleðilegr­ar þjóðhátíðar.

Sig­urður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Fram­sókn­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Ásmund­ur Ein­ar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra og rit­ari Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 17. júní 2022.