Categories
Fréttir Greinar

Fram­tíðin er í húfi

Deila grein

28/11/2024

Fram­tíðin er í húfi

Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum stigið stór skref í átt að því að bæta lífsskilyrði barna og fjölskyldna. Í þessu verkefni hefur Framsókn verið í leiðtogahlutverki. Við höfum gripið til markvissra aðgerða til að styrkja grunnstoðir mennta- og velferðarkerfisins og haft þar skýra áherslu á fyrirbyggjandi stuðning, aukinn jöfnuð og betra aðgengi að þjónustu.

Fjárfest í börnum og unglingum

Við hjá Framsókn höfum lagt áherslu á umfangsmikla fjárfestingu í börnum og fjölskyldum. Meðal lykilverkefna sem hafa verið sett í farveg eru:

  1. Farsældarlög: Ný löggjöf sem tryggir þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Öll börn eiga nú rétt á tengilið sem starfar í nærumhverfi barnsins, ef þörf er á stuðningi eða þjónustu.
  2. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir: Öllum börnum á grunnskólaaldri er nú tryggð næringarrík máltíð óháð efnahag fjölskyldunnar.
  3. Tvöföldun fjármagns til íþrótta- og frístundastarfs: Stórt átak í því skyni að auka þátttöku barna í íþrótta- og frístundastarfi. Í þessu verkefni hefur til dæmis gjaldfrjáls þátttaka í unglingalandsliðum verið tryggð og auknu fjármagni verið veitt til íþróttastarfs fatlaðra barna.
  4. Samræmd skólaþjónusta og stuðningur við kennara: Fjárfest hefur verið í starfsþróun kennara og framlög til námsgagna verið tvöfölduð.
  5. Innleiðing samþætts námsmats: Nýtt námsmat tekur nú við af úreltum samræmdum prófum og tryggir betri yfirsýn yfir námsárangur og færni. Innleiðingin er löngu hafin og gengur vel.

Raunverulegur árangur

Stefna Framsóknar og þær aðgerðir sem hafa verið innleiddar á undanförnum árum eru þegar að skila mælanlegum árangri í lífi barna og fjölskyldna þeirra. Lítum á nokkra mælikvarða.

  • Andleg heilsa barna hefur batnað: Tíðni kvíða meðal yngri barna hefur minnkað um 15%.
  • Einelti hefur minnkað: Aðeins 4% nemenda í 10. bekk upplifa nú einelti – lægsta mæling sem hefur sést.
  • Meiri samfella í þjónustu: Fjölskyldur upplifa betri samfellu sem auðveldar þeim að fá nauðsynlegan stuðning á réttum tíma. Níu af hverjum 10 ungmennum telja mikilvægt að leggja sig fram í námi.

Þessar niðurstöður eru ekki aðeins tölur; þær endurspegla raunveruleg lífsgæði fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Hér eru skýrar vísbendingar um að markviss stefnumótun og fjárfesting í börnunum okkar skilar sér í betra samfélagi.

Megináherslur næstu fjögur árin

Þrátt fyrir að miklu hafi verið áorkað eru áskoranir enn til staðar. Við í Framsókn höfum skýra framtíðarsýn og leggjum áherslu á eftirfarandi verkefni á næstu fjórum árum:

  • Innleiðing þjónustutryggingar: Við ætlum að útrýma biðlistum eftir greiningu og þjónustu. Þjónustutrygging mun tryggja að hámarksbiðtími barns verði skilgreindur. Ef opinberir aðilar uppfylla ekki tímamörkin verður fjölskyldum boðin þjónusta hjá einkaaðilum. Með þessu tryggjum við að ekkert barn þurfi að bíða óhóflega lengi .
  • Námsárangur í fremstu röð: Með innleiðingu nýs námsmats í grunnskólum munum við fá öflugri tæki í hendurnar til að styðja með markvissum hætti við námsárungur barna á Íslandi.
  • Gjaldfrjáls námsgögn fyrir öll skólastig: Við munum tryggja að börn hafi jafnan aðgang að námsgögnum á öllum skólastigum. Gjaldfrjálst nám eru mannréttindi.
  • Frístundalög: Með nýjum lögum verður réttur barna til þátttöku í frístundastarfi tryggður, óháð búsetu eða efnahag fjölskyldunnar.
  • Aukin áhersla á snemmtækan stuðning: Við munum halda áfram að styrkja innleiðingu farsældarlaganna til að tryggja að hver fjölskylda fái þjónustu sem miðast við þarfir þeirra á hverjum tíma.
  • Lengjum fæðingarorlof í 18 mánuði og hækka lágmarksgreiðslur: Undirritaður var félagsmálaráðherra þegar fæðingarorlofið var lengt í 12 mánuði úr 9 og næsta skref er að lengja það í 18 til að tryggja foreldrum tíma með börnunum sínum. Þá verður að hækka lágmarksgreiðslur til foreldra.

Hverjum treystið þið?

Á undanförnum árum höfum við í Framsókn lagt grunn að samfélagi þar sem börn og fjölskyldur þeirra njóta forgangs. Verkin tala sínu máli.

En verkefninu er langt frá því að vera lokið. Við erum í miðri á í risavöxnum breytingum á öllu því er snýr að börnunum okkar. Markmiðið er skýrt: Að skapa samfélag þar sem öll börn fá sömu tækifæri til þátttöku í samfélaginu, öryggis og farsældar.

Verkefnið er ekki bundið við eitt kjörtímabil. Það krefst staðfestu og framtíðarsýnar. Við í Framsókn erum staðráðin í að halda áfram á þessari vegferð.

Ég treysti á ykkur!

Kæru kjósendur! Á þessu kjörtímabili höfum við gert ýmis mikilvæg verkefni að veruleika. En það sem skiptir enn meira máli núna er allt það sem við eigum enn eftir að hrinda í framkvæmd. Til að þær hugmyndir og áherslur verði að veruleika þarf ég á ykkar stuðningi að halda. Ég er í pólitík af hugsjón og hef unnið af heilindum að því að ná árangri í störfum mínum sem ráðherra. Nú legg ég mín verk í ykkar dóm og treysti á stuðning ykkar á kjördag.

Höfundur er mennta- og barnamálaráðherra. Hann skipar 1. sæti á framboðslista Framsóknar í Reykjavík norður.

Categories
Fréttir Greinar

Á degi barnsins

Deila grein

20/11/2024

Á degi barnsins

Í dag höldum við upp á 35 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sáttmálans sem gjörbreytti skilningi okkar á réttindum barna. Þessi áfangi er mikilvægur tímapunktur til að horfa í baksýnisspegilinn og leggja mat á þá áfanga sem hafa náðst, en einnig nauðsynleg brýning til okkar allra um að halda áfram á vegferðinni að skapa betra samfélag fyrir öll börn.

Réttindi barna gerð að veruleika

Á undanförnum árum höfum við stigið stór skref fyrir börn og fjölskyldur á Íslandi. Lög um farsæld barna, sem tóku gildi árið 2022, marka tímamót í því hvernig þjónusta við börn er skipulögð og framkvæmd. Með lögunum er tryggt að öll börn með stuðningsþarfir fái sérstakan tengilið sem styður við þau og fjölskyldur þeirra með einstaklingsmiðaðri og samþættri þjónustu.

Við höfum lengt fæðingarorlof úr níu mánuðum í tólf og hækkað hámarksgreiðslur. Ég er einstaklega stoltur af þessum áfanga sem styður foreldra í því að sinna því allra mikilvægasta í lífinu. Jafnframt leggur þessi breyting sitt af mörkum til að jafna stöðu foreldra á vinnumarkaði og stuðlar þannig að auknu jafnrétti í íslensku samfélagi. Eins höfum við gert gjaldfrjálsar skólamáltíðir að veruleika fyrir grunnskólabörn, sem er annað mikilvægt skref í átt að jafnræði.

Á sviði menntunar höfum við lagt sérstaka áherslu á að styrkja grunnstoðir skólastarfs um land allt og tryggja að skólaþjónusta sé jöfn og samræmd óháð búsetu. Með því að fjölga verkfærum og stuðningi sem skólasamfélagið getur nýtt sér og innleiða samræmt matskerfi námsárangurs höfum við skapað traustari umgjörð fyrir menntun barna og ungmenna. Nýtt samræmt verklag fyrir menntun barna með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn tryggir börnum jöfn tækifæri til náms og félagslegrar þátttöku. Auk þess höfum við aukið aðgengi að verknámi um allt land, sem opnar nýjar dyr fyrir fjölbreyttari námsleiðir. Framkvæmdir til að bæta aðstöðu í framhaldsskólum víða um land, þar á meðal í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Verkmenntaskólanum á Akureyri, marka tímamót í starfsnámi. Þessar umbætur eru ekki aðeins fjárfesting í menntakerfinu heldur einnig í framtíð ungs fólks og samfélagsins alls.

Geðheilbrigði ungmenna hefur verið stórt mál á kjörtímabilinu. Með stuðningi við úrræði á borð við Bergið Headspace hefur geðheilbrigðisþjónusta verið efld, með áherslu á snemmtæk inngrip. Að auki hefur sérstök ráðgjöf verið sett á laggirnar fyrir börn og ungmenni sem eiga foreldra með geðrænan vanda, með það að markmiði að draga úr líkum á að áföll í fjölskyldum hafi langvarandi áhrif. Verkefnið Samvinna eftir skilnað býður nú upp á stafrænt námsefni sem hjálpar foreldrum að setja þarfir barna í forgrunn við breytingar á fjölskylduaðstæðum. Þar að auki er unnið er að innleiðingu námskeiðanna Tengjumst í leik í samstarfi við leik- og grunnskóla, með það að marki að styðja foreldra í uppeldishlutverki sínu.

Árangur sem við getum verið stolt af

Það er ljóst að réttindi barna og málefni sem þeim tengjast krefjast langtímasýnar, víðtækra lausna og aðgerða sem taka á flóknum áskorunum. Þess vegna er ánægjulegt að sjá að niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar 2024, gefa skýrar vísbendingar um að stefna og aðgerðir síðustu ára séu þegar að skila árangri.

Ný gögn sýna að 90% barna lýsa heilsu sinni sem mjög góðri, og lífsánægja barna hefur aukist úr 74% árið 2018 í 81% árið 2022. Tíðni eineltis hefur minnkað verulega, sérstaklega í 10. bekk, þar sem hlutfall barna sem segjast upplifa einelti er nú 4%. Í skólum segjast meir en 85% barna líða vel, og 90% þeirra telja mikilvægt að leggja sig fram í námi. Þá eru slagsmál meðal ungmenna á undanhaldi, og hnífaburður meðal barna í þeim tilgangi að nota sem vopn mælist 0,7%.

Áfram veginn

Barnasáttmálinn kennir okkur að samfélög sem leggja áherslu á réttindi barna séu samfélög sem uppskera ríkulega. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra – barna, foreldra, fagfólks og stjórnvalda, að tryggja að réttindi barna séu ekki aðeins orð á blaði heldur hluti af daglegu lífi. Við erum komin vel af stað á þeirri vegferð, en eigum enn verk að vinna.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Vinnum gullið án klósettpappírs

Deila grein

19/11/2024

Vinnum gullið án klósettpappírs

Öll vitum við hversu mikilvægar íþróttir og hreyfing eru fyrir heilsuna. Regluleg hreyfing dregur verulega úr hættu á langvinnum sjúkdómum, hefur jákvæð áhrif á geðheilsu, stuðlar að betri svefni og minnkar streitu, svo eitthvað sé nefnt. En ávinningurinn er ekki aðeins heilsufarslegur heldur einnig félagslegur. Íþróttir kenna okkur gildi eins og samvinnu, virðingu og ábyrgð. Þær byggja upp félagsfærni, styrkja sjálfsmynd og stuðla að betri samskiptum.

Afreksfólk á heimsvísu 

Um nýliðna helgi varð Sóley Margrét Jónsdóttir heimsmeistari í kraftlyftingum í sínum þyngdarflokki og skráði sig um leið í sögubækurnar sem fyrsti íslenski heimsmeistarinn í kraftlyftingum. Þetta var ekki eina íslenska íþróttaafrekið sem vannst um síðustu helgi því að þau Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Manuel Piazza unnu fyrstu verðlaun Íslands í parakeppni á listskautum og eru á leið á EM í janúar. Fyrir fjórum vikum fögnuðu íslenska kvennalandsliðið og blandað lið ungmenna Evrópumeistaratitli í hópfimleikum og í lok október var Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, í 22. sæti yfir bestu fótboltakonur heims í kjörinu um Gullboltann.

Fjárfest í árangri 

Þetta eru aðeins nokkur nýleg dæmi um stórkostlegan árangur íþróttafólksins okkar hér á Íslandi. En það er ekki sjálfgefið að ná langt í íþróttum, það kostar blóð, svita og tár – og síðast en ekki síst mjög mikla peninga. Í janúar 2023 setti ég af stað vinnu sem leidd var af Vésteini Hafsteinssyni, sem samhliða var ráðinn afreksstjóri ÍSÍ. Hópurinn hafði það hlutverk að leggja fram tillögur sem myndu efla og styrkja íslenskt afreksstarf í sinni víðustu mynd hér á landi og bæta stöðu og réttindi afreksíþróttafólks.

Faglegri umgjörð umbylt 

Fjárframlag til afreksíþrótta verður stóraukið á næsta ári svo að hægt verði að umbylta umgjörð afreksíþróttafólks. Í fjárlögum, sem samþykkt voru á Alþingi í gær, verður 637 milljónum varið til eflingar afreksíþrótta sem er um það bil tvöföldun á því fjármagni sem áður fór í afreksstarfið. Ný Afreksmiðstöð Íslands mun sjá um að efla faglega umgjörð afreksstarfs á sem flestum sviðum í nánu samstarfi við sérsambönd Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Átta nýjar svæðisstöðvar 

Afreksmiðstöðin verður í nánu samstarfi við átta nýjar svæðisstöðvar íþrótta um land allt sem þegar eru komnar í gagnið. Svæðisstöðvarnar þjónusta íþróttastarf í sínu nærumhverfi og geta með skilvirkum hætti aukið íþróttaþátttöku barna og ungmenna með sérstakri áherslu á þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

Nýr hvatasjóður barna

Nýjum hvatasjóði barna fyrir íþróttahreyfinguna verður falið að deila árlega um 80 milljónum króna til verkefna hjá íþróttafélögunum sem er gagngert ætlað að efla íþróttaþátttöku barna.

Stuðningur við yngri landslið

Hluta af stórauknu fjárframlagi til afreksíþrótta verður jafnframt varið í að styðja sérstaklega við þátttöku yngri landsliða í landsliðsverkefnum. Íslenskt landsliðsfólk á ekki að þurfa að fjármagna landsliðsferðir með því að selja klósettpappír í bílförmum þrátt fyrir að allar þessar rúllur séu að sjálfsögðu ætíð vel þegnar á heimilum landsins!

Ný mannvirki á framkvæmdastigi

En landsliðsfólkið okkar á heldur ekki að þurfa að keppa í úreltum mannvirkjum sem mæta ekki alþjóðlegum kröfum. 1.500 milljónir króna fara þannig í uppbyggingu þjóðarleikvanga og er ný Þjóðarhöll í innanhúsíþróttum í Laugardal komin á hönnunar- og framkvæmdastig. Endurbætur á Laugardalsvelli eru hafnar og nýr þjóðarleikvangur í frjálsíþróttum í Laugardal er sömuleiðis í undirbúningi. 

Greiðum leiðina 

Á næstu dögum mun stór hluti þjóðarinnar hvetja íslenska kvennalandsliðið í handbolta til dáða þegar þær hefja leik á EM. Landsliðskonurnar eiga það allar sameiginlegt að hafa lagt líf og sál í að komast á þetta stóra svið. Það er góð áminning fyrir okkur að það dugir ekki bara að hvetja okkar besta íþróttafólk áfram þegar markmiðunum er náð. Það þarf að styðja þau á vegferðinni og búa til faglega umgjörð svo leiðin verði greiðari.

Betri framtíð án lakkríssölu

Með aukinni fjárfestingu í afreksíþróttum tryggjum við ekki aðeins betri framtíð þeirra sem keppa á stærsta sviðinu. Við búum líka til umgjörð fyrir íþróttasamfélagið allt og sýnum börnunum okkar að það er hægt að stefna á toppinn og vinna gullið – og það án þess að þurfa að selja klósettpappír og lakkrís í kílóavís til að komast í landsliðsverkefni.

Ekki bara loforð heldur aðgerðir 

Ég er stoltur af því að geta staðið við góðar fyrirætlanir með því að taka til aðgerða og hefja framkvæmdir. Þetta ferðalag er rétt að byrja og mig langar að halda áfram að byggja upp öfluga íþróttamenningu á Íslandi.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og skipar 1. sæti á framboðslista Framsóknar í Reykjavík norður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Veg­ferð í þágu barna skilar árangri

Deila grein

13/11/2024

Veg­ferð í þágu barna skilar árangri

Þegar við hófum sameiginlega vegferð í þágu barna á Íslandi, var markmiðið skýrt: Að tryggja öllum börnum og fjölskyldum þeirra þann stuðning og þjónustu sem aðstæður þeirra kalla á. Niðurstöður íslensku æskulýðsrannsóknarinnar 2024, sem birtar voru í gær, sýna svart á hvítu að þessi vegferð er þegar að skila árangri.

Öflugt stuðningsnet og ný úrræði

Við höfum stigið mikilvæg skref í að bæta þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra, meðal annars með stofnun farsældarráða um allt land, sem efla samstarf milli stofnana til að tryggja að börn fái heildstæða og samhæfða þjónustu. Þá höfum við komið á fót skólaþjónustustofnun sem veitir skólasamfélaginu ráðgjöf og stuðning í málum er snúa að velferð og menntun barna. Einnig hafa verið stofnuð þjónustutorg fyrir fjölskyldur barna með sérþarfir, sem auðvelda aðgengi að þeim úrræðum sem best henta hverju barni. Með innleiðingu gjaldfrjálsra skólamáltíða fyrir öll börn hefur jafnframt verið stuðlað að aukinni vellíðan og betri einbeitingu í námi. Auk þess hafa framlög til þróunar og útgáfu námsefnis verið aukin, með áherslu á að nýta stafrænar lausnir og gervigreind til að mæta betur þörfum og áhugasviði nemenda. Þá hafa einnig verið sett á fót úrræði sem tryggja að börn af erlendum uppruna fái markvissan stuðning í aðlögun að íslensku samfélagi og skólaumhverfi. Þessi úrræði eru aðeins örfá dæmi um þau verkefni sem fjárfest hefur verið í til að styrkja umgjörð barna og gera stuðningskerfi okkar skilvirkari og betri.

Jákvæð þróun í líðan barna og ungmenna

Nýjustu niðurstöður æskulýðsrannsóknarinnar gefa skýra vísbendingu um árangur þessarar stefnu. Andleg heilsa barna hefur batnað tvö ár í röð. Í dag segjast aðeins 35% barna í 6. bekk upplifa kvíða, sem er mikil lækkun frá fyrri árum. Um 98% barna segjast eiga vini, félagsfærni er að aukast, þátttaka í íþróttum og tómstundum er vaxandi, og 90% barna í 6.-7. bekk meta heilsu sína góða. Einelti mælist nú einungis hjá 4% í 10. bekk. Þessar tölur staðfesta að breytingarnar sem við höfum innleitt stuðla að betri líðan og sterkari félagsfærni barna.

Árangur og áskoranir

Þrátt fyrir þessar jákvæðu niðurstöður er umræðan ekki alltaf í takt við þann árangur sem náðst hefur. Sumir vilja halda því fram að neyðarástand ríki í málefnum barna á Íslandi. Ég mótmæli því staðfastlega. Vissulega stöndum við frammi fyrir áskorunum, einkum hvað varðar viðkvæma hópa, og við eigum enn verk fyrir höndum. En það er ekki hægt að horfa fram hjá þeim árangri sem hefur náðst – árangri sem er afrakstur þrotlausrar vinnu fagfólks, foreldra og samfélagsins alls.

Framundan er að styrkja enn frekar umgjörð barna og ungmenna

Næstu skref á vegferð okkar eru að ná enn betur utan um viðkvæma hópa barna, útrýma biðlistum eftir þjónustu við börn og tryggja betri stuðning og samhæfingu. Með farsældarlögunum höfum við byggt traustan grunn að þessari vegferð, en til þess að halda áfram þurfum við fjárfestingu, þolinmæði og gott samstarf.

Ég vil þakka öllum sem hafa lagt sitt af mörkum til þessara jákvæðu breytinga. Það þarf þorp til að ala upp barn, og íslenskt samfélag, með foreldra og fagfólk í fararbroddi, sýnir metnað, hugsjón og eldmóð að leiðarljósi – fyrir börnin okkar.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og skipar 1. sæti fyrir Framsókn í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Við erum að ná árangri

Deila grein

07/11/2024

Við erum að ná árangri

Íslensku menntaverðlaunin heiðra þau sem eru leiðandi í íslensku skólasamfélagi. Einstökum fyrirmyndum er veitt sú viðurkenning sem þau eiga skilið og mikilvægu framlagi þeirra til menntamála á Íslandi er fagnað. Þau sem hljóta verðlaunin gegna lykilhlutverki í að styrkja eldmóð og hvatningu allra þeirra sem vinna að uppbyggingu og þróun menntakerfisins hér á landi.

Tilnefningar til verðlaunanna í ár endurspegla þá nýsköpun og metnað sem einkennir íslenskt skólasamfélag – ekki síst þá elju og fagmennsku sem kennarar um land allt sýna á degi hverjum. Þannig minna verðlaunin okkur á það grundvallarhlutverk sem kennarar gegna í íslensku samfélagi, sem hjarta menntakerfisins.

Íslensku menntaverðlaunin 2024 varpa skýru ljósi á þá þróun og fjölbreytni sem íslenskt menntakerfi hefur tileinkað sér. Fellaskóli hlaut verðlaunin fyrir framúrskarandi starf með börnum af erlendum uppruna, þar sem áhersla er lögð á tengsl við fjölskyldur og jöfn tækifæri fyrir alla nemendur til að njóta sín og þróa hæfileika sína. Verkefnið endurspeglar virði fjölmenningar og veitir öðrum skólum innblástur til að styðja fjölbreyttan nemendahóp á eigin forsendum.

Verkmenntaskólinn á Austurlandi fékk verðlaun fyrir verkefni sem opnar grunnskólanemendum dyr að fjölbreyttu iðn- og verknámi framhaldsskólans, og stuðlar þannig að sveigjanleika og tengingu við atvinnulífið. Kennarinn Hrafnhildur Sigurðardóttir í Sjálandsskóla hlaut verðlaunin fyrir nýstárlegar kennsluaðferðir í útinámi, þar sem hún leggur áherslu á tengsl við náttúru og samvinnu við nemendur. Helgafellsskóli fékk verðlaun fyrir verkefnið Snjallræði, þar sem nemendur á öllum skólastigum takast á við skapandi hönnunaráskoranir sem þjálfa þá í gagnrýninni hugsun og hópvinnu. Hvatningarverðlaun hlutu Bergmann Guðmundsson, verkefnisstjóri við Brekkuskóla og Hans Rúnar Snorrason, kennari við Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit. Þeir hafa með leiðsögn og stuðningi eflt kennara og nemendur um allt land til að nýta upplýsingatækni á markvissan hátt. Framlag þeirra styrkir kennsluhætti og eykur færni skólanna í að nota tæknina á skapandi og gagnlegan hátt, sem er mikilvægt fyrir framtíð íslenskrar menntunar.

Íslensku menntaverðlaunin minna okkur á að við þurfum menntakerfi sem horfir fram á veginn, ekki til fortíðar. Við þurfum kerfi sem tekur mið af fjölbreyttum nemendahópum, sveigjanleika í námsleiðum og kennsluaðferðum sem henta samfélagi í hraðri þróun. Hugmyndir um gamaldags kennsluhætti, aðgreiningu nemenda eða samræmd próf sem meta færni nemenda örfáum sinnum yfir námsferilinn eru ekki þær lausnir sem undirbúa börnin okkar fyrir þann breytilega heim sem mun mæta þeim.

Umræða um skólakerfið hefur verið hávær síðustu misserin, ég fagna því að fleiri stjórnmálaflokkar séu loksins að átta sig mikilvægi þess að fjárfesta tíma og fjármunum í börnin okkar. Á sama tíma hef ég áhyggjur af skammsýnum hugmyndum, einfeldningslegum lausnum á flóknum áskorunum sem byggja á úreltri hugmyndafræði og draga okkur áratugi aftur í tímann.

Skólinn er staður fyrir öll börn, hann er okkar helsta og mikilvægasta jöfnunartæki. Horfum til framtíðar!

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og skipar 1. sæti fyrir Framsókn í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Höfnum gamal­dags að­greiningu

Deila grein

24/10/2024

Höfnum gamal­dags að­greiningu

Árið 1974 var fyrst talað um í lögum að skólinn væri fyrir öll börn. Allar götur síðan hafa íslenskir stjórnmálamenn, að mestu, sammælst um þá framtíðarsýn. Í umræðum undanfarið hafa verið settar fram hugmyndir um að aðgreina eigi skóla eftir uppruna barna. Jafnframt hefur því verið fleygt fram að skynsamlegt sé að gera slíkt varðandi fleiri hópa barna. Þetta er ekki bara gamaldags hugsunarháttur, þetta eru líka hættulegar hugmyndir sem munu ekki gera neitt annað en að ýta undir ójöfnuð í okkar samfélagi.

Rannsóknir á Norðurlöndunum hafa sýnt fram á að börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn ná oft bestum námsárangri í sínum hverfisskóla. Með því að efla stuðning og nám fyrir börn af erlendum uppruna innan hefðbundins skólakerfis og í sínu nærumhverfi næst mun betri árangur, fyrir hvert barn, og þar með fyrir samfélagið í heild. Aðgreining með sérstökum móttökuskólum er ekki endilega sú leið sem skilar mestum árangri. Auk þess er þetta ekki raunhæf af þeim augljósu ástæðum að landið er dreifbýlt.

Það er hins vegar hárrétt að við höfum alls ekki stutt nógu vel við kennara og skólasamfélagið í að taka á móti fjölbreyttari hópi barna, ekki síst hvað varðar börn með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn. Í nýrri úttekt OECD, sem var birt í byrjun september, kemur skýrt fram að það sé mikilvægt að forgangsraða fjármunum í inngildingu innflytjenda. Þarna felast tækifæri til framfara. Ekki í aukinni aðgreiningu og stéttaskiptingu. Mikilvægast er að forgangsraða fjármagni þannig að það mæti fjölbreyttum þörfum barna. Þetta hafa kennarar og skólastjórnendur meðal annars bent á og þetta hef ég lagt áherslu á sem menntamálaráðherra.

Aðgerðir okkar í menntamálum sýna að við þorum að setja menntun allra barna í forgang – þau eiga það skilið! Í maí var undirritað samkomulag um þróunarverkefnið MEMM. Þar er markmiðið að koma á samræmdu verklagi um móttöku og menntun barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn á landsvísu; í leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og frístundastarfi. Reykjavíkurborg, Reykjanesbær og fleiri sveitarfélög hafa meðal annars þróað fjölbreyttar leiðir til að mæta ólíkum þörfum nýkominna barna, til dæmis með því að setja upp íslenskuver og með því að bjóða upp á markvissan stuðning, bjargir og starfsþróun þegar kemur að vinnu með málaflokkinn í skóla- og frístundastarfi. Með því að þróa lausnir sem mæta íslenskum veruleika og byggja á leiðum sem hafa reynst árangursríkar náum við bestu niðurstöðinni, bæði fyrir börnin og samfélagið.

Leiðin fram á við er ekki að boða gamaldags hugmyndafræði aðgreiningar sem lausn á áskoruninni. Þannig stuðlum við ekki að betri samfélagsgerð. Börnin sem hingað koma eru á okkar ábyrgð og okkar verkefni er að þau sem eru með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn verði ekki sjálfkrafa jaðarsett. Að aðgreina börn enn frekar gerir ekkert annað en að ýta þeim lengra út á jaðarinn. Um þetta snúast þær breytingar sem nú er unnið að í íslensku menntakerfi; að ná betur utan um þessi börn.

Aflið og hraðinn á breytingunum ræðst hins vegar af því hvort við sem samfélag erum tilbúin að forgangsraða fjármagni í þágu þessara aðgerða. Við þurfum að viðurkenna það sem skólasamfélagið hefur sagt og það sem OECD sagði: Við þurfum að vera tilbúin að fjárfesta í börnunum!

Við skuldum þeim sem vinna með börnum í okkar samfélagi betri bjargir, stuðning og ráðgjöf til að mæta þessum hröðu samfélagsbreytingum. Við skuldum þeim líka að störf þeirra séu metin að verðleikum.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Uppbygging verk- og starfsnámsaðstöðu

Deila grein

23/05/2024

Uppbygging verk- og starfsnámsaðstöðu

Upp­bygg­ing verk- og starfs­námsaðstöðu um allt land hef­ur verið al­gjört for­gangs­atriði mitt sem mennta­málaráðherra. Mark­miðið er að byggja um 12.000 fer­metra við flesta verk- og starfs­náms­skóla á land­inu á næstu árum. Nú þegar hef­ur verið skrifað und­ir samn­inga um stækk­un Mennta­skól­ans á Ísaf­irði, Fjöl­brauta­skóla Norður­lands vestra, Verk­mennta­skól­ans á Ak­ur­eyri og Fjöl­brauta­skóla Suður­nesja um sam­tals allt að 5.800 fer­metra auk þess sem fram­kvæmd­ir við Fjöl­brauta­skól­ann í Breiðholti eru á næsta leiti. Til viðbót­ar verða nýj­ar höfuðstöðvar Tækni­skól­ans byggðar í Hafnar­f­irði.

Að auka fram­boð og fjöl­breytni iðnnáms hef­ur verið eitt af for­gangs­mál­um okk­ar á þessu kjör­tíma­bili og hef­ur það skilað sér í bæði auk­inni aðsókn og mik­illi umræðu um mik­il­vægi þess að byggja upp sterkt og öfl­ugt iðnnám um allt land. Það er liðin tíð að umræðan snú­ist um að iðnnám sé síðri val­kost­ur fyr­ir ungt fólk. Nú eru nýir tím­ar, aðsókn hef­ur aldrei verið jafn mik­il og vísa þarf hundruðum um­sækj­end­um frá ár hvert. Við verðum að gera bet­ur, það er ekki nóg að benda á mik­il­vægi þess­ara greina, við sem sam­fé­lag verðum að tryggja að þeir sem hefja nám geti lokið því og gera sem flest­um kleift að sækja sér nám sem þeir hafa áhuga á.

Við sem skóla­sam­fé­lag verðum að skapa um­hverfi inn­an skól­anna sem ger­ir þeim kleift að bregðast við fram­förum í tækni og þörf­um vinnu­markaðar­ins. Þessi áform okk­ar um upp­bygg­ingu og stækk­un starfs­námsaðstöðu er til marks um að við ætl­um að bregðast við þessu ákalli og þess­ari þörf. Hverj­um hefði dottið það í hug um alda­mót að raf­magns­bíl­ar yrðu jafn vin­sæl­ir og þeir eru í dag en breyt­ing á starfi bif­véla­virkja er ein­mitt gott dæmi um iðnnám þar sem heil starfs­stétt hef­ur þurft að bregðast við hröðum tækni­breyt­ing­um. Að sama skapi þurfa málm- og vél­tækni­grein­ar sí­fellt að færa sig nær tölvu­stýrðum verk­fær­um og svo mætti lengi telja. Við þurf­um að geta boðið upp á nám sem bregst við ákalli sam­tím­ans og horf­ir til framtíðar.

Rétt und­ir 50 þúsund manns vinna í iðnaði á Íslandi í dag og hef­ur upp­bygg­ing sjald­an verið jafn mik­il. All­ar okk­ar spár gefa sterk­lega til kynna að sú upp­bygg­ing komi til með að halda áfram á næstu árum og ára­tug­um. Við eig­um ekki og ætl­um ekki að sitja og bíða eft­ir að aðstaða til verk- og starfs­náms springi og biðlist­ar inn í verk­nám leng­ist enn frek­ar. Lát­um verk­in tala, sýn­um vilja í verki og lyft­um upp því öfl­uga fólki sem kem­ur til með að stunda verk- og starfs­nám í framtíðinni.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Kjarasamningar fyrir börn og barnafjölskyldur

Deila grein

11/03/2024

Kjarasamningar fyrir börn og barnafjölskyldur

Í sam­fé­lagi nú­tím­ans hef­ur mik­il­vægi þess að skapa styðjandi vinnu­um­hverfi fyr­ir fjöl­skyld­ur aldrei verið meira. Sem mennta- og barna­málaráðherra er ég stolt­ur stuðnings­maður þeirr­ar mik­il­vægu vinnu sem áunn­ist hef­ur með ný­und­ir­rituðum kjara­samn­ing­um breiðfylk­ing­ar­inn­ar og sam­taka at­vinnu­lífs­ins, með öfl­ugri aðkomu rík­is og sveit­ar­fé­laga. Þeir samn­ing­ar sem hér um ræðir eru ekki aðeins lög­fræðileg skjöl; þeir eru vitn­is­b­urður um skuld­bind­ingu of­an­greindra aðila við að byggja sam­fé­lag sem met­ur vel­ferð hverr­ar fjöl­skyldu og hvers barns.

Fram­ganga sveit­ar­stjórn­ar­fólks Fram­sókn­ar á þess­ari veg­ferð hef­ur fyllt mig stolti. Enn frem­ur er full ástæða til að hrósa aðilum vinnu­markaðar og þá sér­stak­lega breiðfylk­ing­unni og verka­lýðshreyf­ing­unni í heild fyr­ir að taka skýra af­stöðu með börn­um og fjöl­skyld­um þeirra, en ekki síður að hafa tekið af full­um þunga þátt í því að skapa grund­völl fyr­ir vel­sæld og stöðug­leika í land­inu.

Ég er full­viss um að af­drátt­ar­laus aðkoma rík­is og sveit­ar­fé­laga að samn­ing­un­um hafa í för með sér fram­fara­skref fyr­ir þjóðina og er það á ábyrgð okk­ar allra nú að leggj­ast á eitt til að ná þeim mark­miðum sam­an. Um­fram allt er það mikið fagnaðarefni að í aðgerðapakka stjórn­valda sé skýr áhersla á að fjár­festa í börn­um og barna­fjöl­skyld­um. Það hef­ur aldrei verið brýnna að for­gangsraða í þágu jafnra tæki­færa og lífs­gæða þess hóps, sam­hliða því sem við sjá­um auk­in merki þess að efn­is­leg­ur skort­ur og ójöfnuður meðal barna sé að aukast.

Aðgerðapakki stjórn­valda mun stuðla að aukn­um lífs­gæðum og jöfnuði meðal barna- og fjöl­skyldna. Ein af stærri áhersl­um aðgerðapakk­ans er breyt­ing­ar á barna­bóta­kerf­inu. Barna­bæt­ur verða hækkaðar, sam­hliða því sem dregið verður úr tekju­skerðingu þeirra. Um 10.000 fleiri for­eldr­ar og for­sjáraðilar munu fá greidd­ar barna­bæt­ur.

Öllum börn­um á grunn­skóla­aldri verða tryggðar gjald­frjáls­ar skóla­máltíðir. Reynsla ná­granna­ríkja á borð við Finn­land hef­ur sýnt að hér er um að ræða risa­stórt skref í átt að aukn­um jöfnuði fyr­ir öll börn. Skóla­kerfið er lang­öflug­asta jöfn­un­ar­tækið okk­ar og með því að fjár­festa í gjald­frjáls­um skóla­máltíðum efl­um við það enn frek­ar. Það er gam­an að geta þess að þessi aðgerð er einnig í sam­ræmi við eitt af áherslu­atriðum Barnaþings. Barnaþings­menn síðustu ára hafa lagt ríka áherslu á að komið verði á gjald­frjáls­um skóla­máltíðum, með jöfnuð að leiðarljósi.

Þá verða fæðing­ar­or­lofs­greiðslur hækkaðar í þrem­ur áföng­um yfir samn­ings­tím­ann, til að treysta mark­miðið um sam­vist­ir barna við báða for­eldra. Þá er samstaða allra samn­ingsaðila um að vinna sam­an að mót­un aðgerða til að brúa bilið milli fæðing­ar­or­lofs og leik­skóla á samn­ings­tím­an­um. Það er okk­ur sem sam­fé­lagi lífs­nauðsyn­legt og þar ber sér­stak­lega að hrósa sveit­ar­fé­lög­un­um fyr­ir vilja þeirra til að ráðast í það verk­efni.

Kjara­samn­ing­ar eru að mörgu leyti horn­steinn þess að hægt sé að skapa sam­fé­lag á Íslandi sem gef­ur svig­rúm fyr­ir jafn­vægi í lífi vinn­andi for­eldra og for­sjáraðila. Þeir eru rammi utan um þá þætti sem stuðla að aukn­um lífs­gæðum, sveigj­an­leika vinnu­tíma og sam­vist­um for­eldra og barna. Slík­ar ráðstaf­an­ir gera for­eldr­um kleift að taka virk­ari þátt í lífi barna sinna, allt frá því að mæta á skóla­at­b­urði og að geta verið viðstödd þau augna­blik sem mestu máli skipta.

Kjara­samn­ing­ar eru að mörgu leyti upp­skrift að því hvernig sam­fé­lag varðveit­ir gildi sín um það sem skipt­ir mestu máli fyr­ir lífs­gæði og vel­sæld. Það þarf ekki að fara mörg­um orðum hversu stóru hlut­verki slík­ur sam­fé­lags­sátt­máli gegn­ir í lífi barna og fjöl­skyldna. Þegar við horf­um fram á veg­inn skul­um við halda áfram að vinna sam­an – ríkið, sveit­ar­fé­lög­in, at­vinnu­lífið og verka­lýðsfé­lög – til að móta sam­fé­lag sem end­ur­spegl­ar sam­eig­in­leg gildi og von­ir okk­ar. Með þann hugs­un­ar­hátt að leiðarljósi erum við ekki aðeins að auka lífs­gæði nú­ver­andi kyn­slóða, held­ur einnig að ryðja veg­inn fyr­ir framtíð þar sem hvert barn á Íslandi get­ur dafnað.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. mars 2024.

Categories
Fréttir

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Deila grein

26/02/2024

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Þingmenn og ráðherrar Framsóknar verða á ferð og flugi um land allt næstu daga. Þingflokknum er mikilvægt að heyra raddir kjósenda með reglubundnum hætti. Áhersla verður á heimsóknir í bland við opna fundi.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir alla opna fundi, en einnig má nálgast viðburðina á Facebook: https://fb.me/e/3vOUaC0mJ

Mánudagur 26. febrúar:
Reykjavík – Sykursalnum Grósku, kl. 20.00.
Suðurnesjabær – Samkomuhúsinu Sandgerði, kl. 20.00.

Þriðjudagur 27. febrúar:
Mosfellsbær – Skátaheimili Mosverja, kl. 20.00.
Bláskógabyggð – Efsti Dalur, kl. 20.00.
Borgarbyggð – Landnámssetrinu, kl. 20.00.

Miðvikudagur 28. febrúar:
Kópavogur – Siglingafélaginu Ými, Naustavör 14, kl. 20.00.
Akranes – Dalbraut 4, kl. 20.00.
Vopnafjörður – Safnaðarheimilinu, kl. 18.00.

Fimmtudaginn 29. febrúar:
Reyðarfjörður – Þórðarbúð, Austurvegi 39, kl. 17.30.
Sauðárkrókur – Kaffi Krók, kl. 20:15.
Egilsstaðir – Tehúsið, kl 20.00.
Árborg – Hótel Selfoss, kl 20.00.

Föstudagur 1. mars:
Húsavík – Félagsheimili eldri borgara, Hlyn, kl. 16.00.

Laugardagur 2. mars:
Hafnarfjörður – Kiwanissalnum, Helluhrauni 22, kl. 11.00.

Á næstu vikum munu þingmenn og ráðherrar heimsækja Höfn, Vestmannaeyjar, Vestfirði, en nánari upplýsingar verða birtar síðar.

ATH. að dagskráin kann að taka breytingum með skömmum fyrirvara.

Við erum Framsókn!

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi.

Í meira en öld höfum við unnið að framfaramálum fyrir Ísland með hugsjónir samvinnunnar að leiðarljósi.

Við í Framsókn trúum því að yfirvegað samtal skili samfélaginu meiri árangri en upphrópanir.
Við setjum manngildi ofar auðgildi.

Categories
Fréttir Greinar

Tökum saman á nei­kvæðum á­hrifum snjall­síma!

Deila grein

31/08/2023

Tökum saman á nei­kvæðum á­hrifum snjall­síma!

Flest þekkjum við þau áhrif og tæknibreytingar sem þróun snjallsíma hefur haft á líf okkar, við erum orðin vön því að hafa allar upplýsingar, bæði gagnlegar og ógagnlegar við höndina. Við þekkjum líka flest hversu auðvelt það er að ánetjast símanum og eyða miklu meira tíma en við viljum í marklausu vafri um samfélagsmiðla og vefsíður. Langflest börn í dag eiga síma alveg eins og við fullorðna fólkið, eða 95% barna í 4.–7. bekk og 98% barna í 8.–10. bekk. Símunum fylgja auðvitað ýmsir kostir en líka áskoranir sem við þurfum að vera vakandi fyrir. Nýjar rannsóknir benda til þess að mikil aukning sé í skjátíma, sérstaklega hjá börnum, og að aukningin hafi meðal annars neikvæð áhrif á svefn ásamt andlegri og líkamlegri heilsu barna. Þá hafa rannsóknir sýnt að takmarkanir á notkun farsíma í skólumbæta námsárangur, sérstaklega hjá nemendum sem eru með slakan námsárangur.

Stuðlum gegn neikvæðum áhrifum farsímanotkunar á börn

Þess vegna hef ég kynnt í ríkisstjórn þá ákvörðun að setja af stað vinnu sem miðar að því að gefa út reglur um farsímanotkun í grunnskólum landsins, en hún er óvíða eins mikil og hér á landi. Reglurnar verðaunnar í víðtæku samráði við foreldra og börn, sveitarfélög, skólastjórnendur, kennara og aðra hagaðila, og gert ráð fyrir að þær verði nýttar sem leiðbeinandi viðmið fyrir grunnskóla við setningu skólareglna um farsímanotkun. Eitt meginstefið þar er að tryggja fullnægjandi fræðslu um símanotkun og forvarnir til að stuðla gegn þeim mögulegu neikvæðu áhrifum sem hún getur haft í skólum.

Skiptar skoðanir

Það er vissulega margt sem er verulega jákvætt við nýja tækni en við þurfum að kunna að umgangast hana eins og allt annað. Við þurfum að vinna gegn neikvæðum áhrifum tækninnar samhliða því að nýta þau jákvæðu. Skjánotkun er mikil hérlendis og fer vaxandi, sérstaklega hjá börnum. Skoðanir eru skiptar í samfélaginu og skólareglur misjafnar eða jafnvel ekki til staðar. Markmiðið með þeirri vinnu sem nú fer af stað er að skilgreina viðmið fyrir grunnskóla og auka fræðslu í þessum efnum til að bregðast við þessari þróun með farsæld barna að leiðarljósi, og hjálpa þeim þannig að bregðast við og umgangast þessa tækni af ábyrgð og þekkingu.

Ásmundur Einar Daðason, mennta-og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. ágúst 2023.