Categories
Fréttir Greinar

Ís­lenskt ra­f­elds­neyti í eigu þjóðarinnar

Deila grein

28/01/2023

Ís­lenskt ra­f­elds­neyti í eigu þjóðarinnar

Fyrir áramótin mælti ég fyrir tillögu minni til þingsályktunar á Alþingi um að fela ríkisstjórninni að taka til frumathugunar stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi. Líta má við þessa frumathugun til starfsemi Equinor í Noregi, fyrrum Statoil, sem er nú 67% í eigu norska ríkisins.

Rafeldsneyti og framtíðin

Hugmyndin að þessari þingsályktunartillögu er nokkuð löng en orkuskiptin hafa kallað á umræðu um rafeldsneyti sem einn af þeim orkukostum sem til greina koma sem eldsneyti framtíðarinnar.

Við sem þjóð höfum ákveðin markmið í átt að kolefnishlutleysi og ætlum okkur að standast skuldbindingar okkar í loftlagsmálum. Ásamt því að framleiða endurnýjanlega orkugjafa til að fullnægja þörfum innanlands, liggja einnig gríðarleg tækifæri í að hefja útflutning á rafeldsneyti. Framleiðsla á rafeldsneyti er kostnaðarsöm aðgerð en þó framleiðsla á rafeldsneyti og sala sé í dag hlutfallslega lítil þá er áhugi fjárfesta mikill og það felast ákveðin tækifæri í því að fjármagna framleiðsluna þegar markaðir eru orðnir tryggir. Á heimsvísu er gert ráð fyrir að kostnaðarliðir fari lækkandi á næstu árum. Eitt af tækifærum Íslands við framleiðslu rafeldsneytis er að nýta mögulega árstíðabundna umframorku og hámarka arðsemi.

Fjölmargir aðilar hafa sýnt áhuga á að hefja framleiðslu á rafeldsneyti hér á landi sem er jákvætt. Er bæði um innlenda en þó aðallega erlenda aðila að ræða. Forstjóri Landsvirkjunar hefur sagt opinberlega að Landsvirkjun sé ekki að fara að leggja til orku í slík verkefni enda sé hún ekki til í því magni sem þarf til að slík framleiðsla beri sig. En áhugi þessara aðila er til kominn sökum þess að tækifærin í því að framleiða grænt rafeldsneyti hér á landi eru gríðarleg og mjög ábatasöm fjárfesting til lengri tíma litið. Rafeldsneytisframleiðsla er einnig stór þáttur í orkuskiptum þjóðarinnar og partur af því að ná þeim markmiðum í loftlagsmálum sem við höfum sett okkur.

Gagnrýnt hefur verið á undanförnum árum að arður stóriðjunnar og fiskeldis hér á landi fari úr landi. Gera má ráð fyrir að svipuð umræða fari af stað þegar umsóknir rafeldsneytisfyrirtækjanna koma til afgreiðslu. Til að skapa megi um það betri sátt hef ég horft til Noregs og hvernig Norðmenn, árið 1972 stofnuðu Statoil, ríkisrekið olíufyrirtæki, til að halda utan um vinnslu og dreifingu á olíu og gasi sem fyrirtækið vinnur í norskri lögsögu.

Nýtum sóknarfærin

Framangreint leiðir okkur að þeirri spurningu hvort ekki sé skynsamlegt að stofnað verði fyrirtæki í eigu ríkisins, jafnvel undir eða í samstarfi við Landsvirkjun sem sjái um framleiðslu á rafeldsneyti til orkuskipta á Íslandi með möguleika á útflutningi, enda óljóst hvort markaður hér á landi sé nægilega stór svo framkvæmdin sé arðbær. Með þessu móti getum við orðið sjálfbær um orku, stigið risa skref í orkuskiptum og stutt við markmið stjórnvalda í loftlagsmálum. Arðinn af framkvæmdinni mætti setja í samfélagssjóð, að fyrirmynd Norðmanna, ásamt hluta eða öllum hagnaði Landsvirkjunar og því ljóst að um verulegar upphæðir yrði að ræða á ári hverju. Slíkan sjóð mætti t.d. nota til að bregðast við áföllum í efnahagslífi landsins eða öðrum óvæntum atvikum sem við þekkjum því miður aðeins of vel þessi misserin. Högg ríkissjóðs yrði þá minna og efnahagslegur stöðugleiki meiri.

Ég vona að vel verði tekið í tillöguna, en í henni er óskað eftir því að málið verði skoðað. Ég er sannfærður um að framleiðsla á íslensku rafeldsneyti í eigu þjóðarinnar sé farsælt skref og muni skila okkur áfram í orkuskiptunum og setja Ísland í sérflokk þegar kemur að sjálfbærni í orkumálum.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. janúar 2023.

Categories
Greinar Uncategorized

VERJA ÞARF STERKA STÖÐU RÍKISSJÓÐS Í FJÁRLÖGUM 2023

Deila grein

13/12/2022

VERJA ÞARF STERKA STÖÐU RÍKISSJÓÐS Í FJÁRLÖGUM 2023

Það er fastur liður í aðventudagskrá Alþingis að fjalla um og samþykkja fjárlög fyrir komandi ár. Í upphafi kjörtímabils voru krefjandi tímar fram undan, heimsfaraldur stóð yfir og sama dag og takmörkunum var aflétt hér á landi réðust Rússar inn í Úkraínu. Þessir þættir hafa skapað óvissu bæði hér innanlands sem og í Evrópu. Eðli málsins samkvæmt er það ekki óeðlilegt í ástandi sem þessu að verðbólga og hækkun á aðföngum taki sér pláss í fjárlögum líkt og í heimilisrekstri landsmanna. Staðan í efnahagsmálum í Evrópu er erfiðari en lengi hefur verið.

Skýr afkomubati

Þrátt fyrir þessar staðreyndir er það markmið ríkisstjórnarinnar að verja sterka stöðu ríkissjóðs með því að lækka rekstrarhalla og stöðva hækkun skuldahlutfalls á næsta ári. Í framlögðum fjárlögum má finna skynsamleg skef framávið sem lúta að því að styrkja áfram innviði og grunnþjónustu í landinu en það er sterkur leikur til að verja kaupmátt landsmanna. Þá má einnig finna að dregið er úr útgjöldum enda var verulega bætt í útgjöld til að verja störf og heimili í gegnum heimsfaraldurinn. Það er mikilvægt skref til að vinna gegn verðbólgu þegar horft er til næstu missera í þjóðarbúskapnum. Í fjárlögum næsta árs eru þó jákvæð teikn á lofti um að við séum að vaxa út úr þeim stóru verkefnum sem við höfum staðið frammi fyrir og að viðsnúningur geti orðið hraður ef rétt er haldið á spöðunum.

Treystum heilbrigðisþjónustu

Heilbrigðiskerfið með öllu sínu frábæra starfsfólki hefur staðið sem klettur í gegnum heimsfaraldur þrátt fyrir mikla ágjöf. En svo það geti staðið sterkt áfram þarf að bæta verulega í málaflokkinn. Við erum enn að glíma við eftirköstin eftir faraldurinn og þá þurfum við einnig að mæta næstu áskorun sem er fjölgun landsmanna og stækkandi hópur eldra fólks. Auk þess er til staðar uppsöfnuð þjónustuþörf eftir COVID. Ríkisstjórnin stendur með heilbrigðiskerfinu en framlög til heilbrigðismála hækka um 17,4 ma.kr. á næsta ári. Þar vegur þyngst 6.8 ma.kr raunhækkun til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga til að koma til móts við aukna eftirspurn og öldrun þjóðarinnar. Þá verður áfram haldið við að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað innan heilbrigðiskerfisins með 2. ma. viðbótarframlagi auk þess sem horft er til þess að efla heimahjúkrun.

Framlag til jarðhitaleitarátaks

Í tillögum starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Til þess þarf að tryggja fjármagn til jarðhitaleitar þannig að hægt verði að rannsaka til hlítar möguleika á jarðhita við rafkyntar hitaveitur. Það er því sérstaklega jákvætt að í fjárlögum næsta árs má finna 150 m.kr fram til jarðhitaleitarátaks á næsta ári. Hér er um að ræða sérstaklega arðbært verkefni á Vestfjörðum þar sem jákvæð niðurstaða slíkra rannsókna myndi draga úr notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar. Allt er þetta liður í því að nálgast markmið okkar um að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040.

Ferjurekstur tryggður

Það er örugglega öllum enn í fersku minni þegar Breiðafjarðarferjan Baldur bilaði í siglingu sinni yfir fjörðinn og minnti okkur rækilega á mikilvægi þess að þeir farþegar sem nýta sér þennan samgöngumáta geti treyst á öryggi skipsins. Sveitarfélög beggja megin Breiðafjarðar telja mikilvægt að tryggja þennan samgöngumáta, þrátt fyrir að bættar samgöngur á vegum stæði fyrir dyrum.

Í fjárlögum næsta árs má nú finna 210 m.kr. til þess að tryggja ferjurekstur um Breiðafjörð. Þá er það fyrirséð að núverandi rekstraraðili ferjunnar Baldurs mun hætta siglingum um Breiðafjörð. Þess í stað er gert ráð fyrir því að leigja eða kaupa aðra ferju og hefur eitt skip komið til álita, Röst, sem er nú í siglingum í Norður – Noregi.

Löggæsla efld

Áform eru uppi um að styrkja lögregluna um allt land með því að dreifa verkefnum á lögregluembættin út um landið og dreifa þannig álaginu. Á sama tíma á að styrkja grunnviðbragð lögregluembættanna á landsbyggðunum. Auk þess sem meirihluti fjárlaganefndar lagði til aukna fjárheimild upp á 200 milljónir til að draga úr aðhaldskröfu á lögregluna.

Velferðarfjárlög

Heilt yfir getum við horft til þess að fjárlög fyrir árið 2023 séu velferðarfjárlög, þar má m.a. finna hækkun á frítekjumarki atvinnutekna örorku og endurhæfingalífeyrisþegar í 200 þús , aukið kastljós á heilbrigðiskerfið, tímabundið framlag til sveitarfélaga vegna samræmda móttöku flóttamanna og ásamt sérstöku úrræði í tengslum við móttöku flóttabarna.

Sterk landsbyggð tekur á móti nýjum áskorunum

Við horfum fram á veginn inn í nýja framtíð. Við sjáum það nú að stuðningur stjórnvalda í gegnum heimsfaraldur við atvinnulífið og fjölskyldur í landinu skilaði því að við komum standandi niður eftir heimsfaraldur og stöndum mun betur en margar aðrar þjóðir. Með mörgum ákveðnum og markvissum skrefum voru settir saman aðgerðarpakkar til að verja fólk og fyrirtæki. Áfram verða þó til staðar áskoranir sem takast þarf á við, en þetta ár hefur sýnt að byggðarlög um land allt eru tilbúin í að nýta sér þau tækifæri og sérstöðu sem þau búa við, til að vaxa áfram og dafna.

Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmenn Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 10. desember 2022.

Categories
Greinar

Þýðing nagla­dekkja­gjalds?

Deila grein

04/11/2022

Þýðing nagla­dekkja­gjalds?

Síðustu daga hefur umræða um svokallað „nagladekkjagjald“ litið dagsins ljós eftir að Umhverfisstofnun viðraði hugmyndir um slíkt gjald. Sú hugmynd gengur út á það að sveitarfélögum verði veitt heimild til að rukka ökumenn um gjald þegar þeir keyra á vegum þess á nagladekkjum. Að mati stofnunarinnar er hægt að draga úr svifryksmengun með slíkri aðgerð. Vissulega er svifryksmengun skaðvaldur á lýðheilsu fólks, og okkur ber að tryggja viðunandi umhverfisgæði. Hins vegar staldra margir, af góðri ástæðu, við þessa hugmynd.

Raunverulegi kostnaðurinn

Margar vangaveltur vakna varðandi aðgerðina, þýðingu hennar og framkvæmd. Margt er óljóst í þessum efnum, en við getum verið sammála um eitt. Það er að vissulega mun gjaldtaka sem þessi skapa sveitarfélögum aukinn hagnað og dregið að einhverju magni úr svifryksmengun, en við allan plús kemur mínusinn fram einhvers staðar. Hver er kostnaðurinn?

Duldi kostnaðurinn við þessa aðgerð ekki fram í tölum á Excel skjali, enda er ekki hægt að meta hann til verðs. Í raun er hann ekki svo dulinn því við vitum öll tilgang nagladekkja. Að draga úr notkun nagladekkja dregur einnig úr umferðaröryggi.

Engan afslátt af öryggi

Öryggi fólks á alltaf að vera í fararbroddi þegar við ræðum aðgerðir í samgöngum. Sú ætlan að heimila sveitarfélögum val um að leggja gjald á notendur nagladekkja er andstæð umferðaröryggi. Við værum að stuðla að aukinni notkun illa útbúna dekkja í umferðinni. Undirritaður starfaði sem lögreglumaður í 23 ár og hef séð afleiðingar af slæmum dekkjabúnaði bifreiða of oft til að geta talið þau óþörf. Aðstæður á götum Reykjavíkurborgar, þjóðvegum landsins og byggðum um land allt geta óvænt orðið stór hættulegar og þar hafa nagladekk sífellt endurtekið reynst nauðsynlegar. Við eigum ekki að gefa neinn afslátt þegar það kemur að öryggi fólks í umferðinni.

Frekar viljum við lágmarka alla hættu og draga úr tjóni á ökutækjum, slysum á fólki og dauðaslysum. Hér á landi höfum við náð góðum árangri í umferðaröryggi og höfum ekki efni á því að taka skref til baka í þeim efnum.

Landsbyggðarskattur?

Þá horfir undirritaður sérstaklega til umferðaröryggis einstaklinga sem búa utan höfuðborgarsvæðisins og þurfa reglulega að aka þangað vegna vinnu, til að sækja þjónustu eða hvað annað sem þarf. Plúsinn á Excel skjalinu kemur augljóslega að mestu leyti úr þeirra vasa.

Þess má geta að vinnusóknarsvæði landsbyggðarinnar teljast oft í tugum kílómetra og erfitt er að áætla veður og færð. Allt frá ljúfu logni yfir í frost og rok. Við vitum aldrei fullkomlega hvaða veðrátta mætir þér. Þess vegna verðum við að útbúa ökutækin okkar í samræmi við það. Þessar aðstæður krefjast viðunandi öryggisbúnaðar, þ.á.m. nagladekkja, enda hafa aðstæður hér á landi oft verið til þess fallnar að nagladekk hafa reynst nauðsynleg. Ætla sveitarfélög sér það í alvöru að leggja gjald á fólk sem nauðsynlega þarf á nagladekkjum að halda öryggisins vegna?

Verulega óljós framkvæmd

Að auki má vissulega setja spurningamerki við framkvæmd slíkrar aðgerðar, en hún er með öllu óljós og erfitt er að átta sig á því hvernig hún eigi að vera. Að vísu væri hún nokkuð skrautleg, og þá sérstaklega hvað varðar einstaklinga sem keyra milli sveitarfélaga. Þar koma einstaklingar af landsbyggðinni aftur sérstaklega til álita.

Þegar ég, sem bý í Skagafirði og keyri töluvert til höfuðborgarsvæðisins og til baka vinnunnar vegna, keyri til dæmis til Leifsstöðvar í flug. Förum stuttlega yfir þá ferð:

Ég legg af stað að heiman í Skagafirði, þá yfir í Skagabyggð, Húnabyggð, Húnaþing vestra, Borgarbyggð, Hvalfjarðarsveit, Reykjavíkurborg, Mosfellsbæ, aftur Reykjavíkurborg, þá Kópavog, Garðabæ, Hafnarfjörð, Voga, Reykjanesbæ og loks Suðurnesjabæ.

Til að forðast furðulega gjaldtöku yrði undirritaður að vera með tvöfaldan dekkjagang og skipta um dekk á miðri ferð ef sum þessara sveitarfélaga myndu leggja á umrætt gjald. Það liggur fyrir að dæmið gangi ekki upp.

Að sama skapi veltir maður fyrir sér að væntanlega yrði gjaldtakan innt af hverju sveitarfélagi fyrir sig. Spurningin er þá þessi: myndi einstaklingur sem færi í sambærilega ferð að greiða hverju einasta sveitarfélagi gjaldið. Þessi ferð væri orðin töluvert dýrari þar sem bensíngjaldið væri varla það sem ökumaður hefði lengur áhyggjur af.

Leiðin áfram

Af öllu þessu þá er augljóst að hugmyndin eigi ekki stoð í raunveruleikanum nema þá með það í huga að fólk eigi að neyðast til að greiða enn eitt gjaldið fyrir að geta ferðast í eigið ökutæki.

Það að draga úr svifryksmengun er vissulega göfugt markmið sem við sammælumst um. Hins vegar eru umrædd hugmynd Umhverfisstofnunar slæm. Ef hugsað er um hvernig hægt sé að stuðla að fallegra umhverfi, betri umhverfisgæðum og aukinni lýðheilsu þá varðar það einnig sveitarfélögin og þjónustu þeirra. Þá aðallega hreinsun gatna og gangstétta, sem lengi hefur sætt gagnrýnni t.d. í Reykjavíkurborg. Má vera að Reykjavíkurborg og eftir atvikum önnur sveitarfélög geti staðið betur að hreinsun gatna til að minnka svifryksmengun í sínu nærumhverfi? já ég tel svo vera. Það er leiðin áfram.

Stefán Vagn Stefánsson, Alþingismaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Sýslumönnum skal ekki fækka

Deila grein

27/03/2022

Sýslumönnum skal ekki fækka

Síðastliðna daga hef­ur sprottið upp umræða um fækk­un sýslu­mann­sembætta hér á landi. Talað er um að sam­eina ákveðin embætti í eitt og jafn­vel að fækka sýslu­mönn­um í ein­ung­is einn sýslu­mann, sem myndi hafa allt Ísland sem sitt um­dæmi. Þetta er áhyggju­efni þar sem sýslu­menn sinna veiga­miklu hlut­verki inn­an sinna um­dæma. Þeir þjóna sínu nærsam­fé­lagi í mik­il­væg­um og per­sónu­leg­um mál­um íbúa þess hvort sem það eru þing­lýs­ing­ar, gjaldþrot eða mik­il­væg mál­efni fjöl­skyldna. Af þessu er aug­ljóst að mik­il­vægi þess að sýslu­menn séu inn­an hand­ar er óum­deilt. Sýslu­menn eru umboðsmenn hins op­in­bera í héraði. Ef þau áform sem búið er að boða yrðu að veru­leika þá verður búið að eyða grund­vall­ar­hlut­verki þeirra.

Haft er eft­ir for­manni Fé­lags sýslu­manna að dóms­málaráðuneytið hafi fundað með sýslu­mönn­um um málið og að efa­semd­ir séu um ágæti þess inn­an þeirra raða. Skilj­an­lega, enda er nauðsyn­legt að sýslu­menn séu til staðar í nærum­hverf­inu og hafi ein­hverja teng­ingu við sam­fé­lagið. Með brott­hvarfi þeirra úr um­dæm­inu eyðist sú teng­ing, eðli máls­ins sam­kvæmt.

Vissu­lega bjóða tækninýj­ung­ar fjórðu iðnbylt­ing­ar­inn­ar upp á nýj­ung­ar, tæki­færi og upp­færslu ferla og aðferða. Þó er aug­ljóst að áform um að fækka sýslu­mann­sembætt­um tölu­vert brjóta í bága við byggðasjón­ar­mið, en við höf­um skuld­bundið okk­ur til að vinna í þágu þeirra. Fækk­un embætt­anna hef­ur í för með sér nei­kvæð áhrif á mörg byggðarlög, þá helst utan höfuðborg­ar­svæðis­ins. Ásamt því er aug­ljóst að at­vinnu­tæki­fær­um í fá­menn­ari byggðum fækk­ar, en það er göm­ul saga og ný að op­in­ber störf hverfi af lands­byggðinni í óþökk íbúa. Boðað hef­ur verið að með þessu verði störf­um og verk­efn­um sýslu­manna fjölgað, sem er af hinu góða, enda höf­um við í Fram­sókn verið öt­ul­ir tals­menn fjölg­un­ar op­in­berra starfa á lands­byggðinni. Það færi bet­ur á því að halda sýslu­mönn­um og nú­ver­andi um­dæm­a­mörk­um og færa þau störf sem áætlan­ir eru upp um að flytja í kjöl­far breyt­ing­anna til nú­ver­andi embætta og þar með styrkja þær mik­il­vægu stjórn­sýslu­ein­ing­ar sem sýslu­mann­sembætt­in eru í dag.

Fækk­un sýslu­mann­sembætta þvert yfir landið mun ekki verða með mínu samþykki. Hún fer gegn þeim mark­miðum sem sett voru fram í stjórn­arsátt­mála Fram­sókn­ar, Sjálf­stæðis­flokks­ins og Vinstri hreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs. Fækk­un­in yrði mikið högg inn­an ým­issa byggða þvert yfir landið. Rök­in fyr­ir henni halda ekki vatni eins og staðan er í dag.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. mars 2022.

Categories
Greinar

Áfram í sókn

Deila grein

13/01/2022

Áfram í sókn

Sóknaráætlanir landshlutanna eru stefnumótandi áætlanir sem taka til starfssvæða landshlutasamtaka sveitarfélaga. Um er að ræða einkar vel heppnaða aðgerð þar sem landshlutasamtök sveitarfélaga stofna með sér samráðsvettvang og stilla upp áætlun sem setur fram sýn og markmið sem draga fram sérstöðu svæðanna. Þannig er stutt við ákvarðanir um úthlutun fjármagns og verkefni sem unnin eru undir merkjum sóknaráætlana.

Við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins nú í desember lagði fjárlaganefnd til 100 milljóna kr. styrkingu á verkefninu um sóknaráætlanir landshluta. Ég fagna að sú tillaga hafi hlotið samþykki. Mikilvægi sóknaráætlana kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar er sérstaklega tekið fram að unnið verði áfram að eflingu sóknaráætlana landshlutanna.

Uppbygging í takt við áherslur heimamanna

Sóknaráætlanir hafa sannað sig sem öflugt byggðarþróunartæki og þeir fjármunir sem í þær er veitt nýtast hratt og vel til ýmiss konar uppbyggingar í héraði í takti við áherslur heimamanna. Sóknaráætlanir og uppbyggingarsjóðir gegna lykilhlutverki til þess að efla nýsköpun og menningarstarf á landsbyggðinni.

Í kjölfarið á heimsfaraldri kórónuveirunnar var veitt viðbótarfjármagni inn í áætlanirnar til þess að sporna við áhrifum faraldursins. Undirritaður telur mikilvægt að áframhaldandi stuðningur sé til staðar, bæði vegna þess að faraldurinn ætlar að vera þaulsetnari en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir og einnig til að styðja við uppbyggingu vegna áhrifa faraldursins sem mun væntanlega gæta eitthvað áfram komandi ár.

Landshlutasamtökin eru mikilvægur hlekkur

Landshlutasamtökin hafa svo sannarlega staðið undir þeirri ábyrgð að verja fjármagni í mikilvæg verkefni til stuðnings atvinnu- og byggðarþróun og nýsköpun með hagkvæmum og skilvirkum hætti. Þau eru vel til þess fallinn að styðja við hverskonar nýsköpun á landsbyggðinni og hagnýtingu hugvits. Með samstarfi sem þessu gerum við atvinnulífið á landsbyggðinni fjölbreyttara og fjölgum spennandi og verðmætum störfum. Við viljum styðja við umhverfi þar sem sköpunarkraftur fólks fær að njóta sín og það getur vaxið og dafnað. Sóknaráætlanir í gegnum landshlutasamtökin stuðla að jákvæðri samfélags- og byggðarþróun í takt við heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, þær treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni landshluta og landsins alls í leið.

Áfram veginn

Aukin stuðningur við sóknaráætlanir eru í takt við stefnu Framsóknarflokksins, en við í Framsókn höfum alltaf verið talsmenn öflugrar byggðastefnu. Mikilvægt er að á kjörtímabilinu verði enn aukið samstarf milli landshlutasamtaka og allra ráðuneyta til þess að tryggja að stærri aðgerðir sóknaráætlana nái fram að ganga um allt land. Þannig byggjum við Ísland framtíðarinnar.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 13. janúar 2022.

Categories
Greinar

Lítil og meðalstór fyrirtæki – lykill að uppbyggingu og þróun

Deila grein

24/09/2021

Lítil og meðalstór fyrirtæki – lykill að uppbyggingu og þróun

Lítil og meðalstór fyrirtæki sinna lykilhlutverki á atvinnumarkaðnum hér á landi. Þau tryggja meirihluta Íslendinga atvinnu, stuðla að fjölbreyttri atvinnu ásamt því að vera lykillinn að uppbyggingu og þróun þvert yfir landið. Fyrir Covid sýndi tölfræðin að lítil og meðalstór fyrirtæki greiddu laun rúman meirihluta landsmanna, eða kringum 70% þeirra. Líklega hefur tölfræðin breyst töluvert eftir komu Covid, en talið er að staðan verði aftur sambærileg þegar við höfum náð tökum á veirunni.

Skattar og álögur

Lítil og meðalstór fyrirtæki eiga mörg hver erfitt með greiðslubyrðina á m.a. tryggingagjaldi og opinberum álögum. Þetta hindrar vöxt þeirra og leiðir jafnvel til þess fyrirtækin neyðast til að hætta rekstri. Almennt er um litla upphæð gjalds að ræða í tilfelli opinberra álagna, en þegar á botninn er hvolft þá geta þetta orðið töluverðar fjárhæðir sem geta reynst mörgum litlum og meðalstórum fyrirtækjum íþyngjandi. Þetta á sérstaklega við um fyrirtæki í upphafi rekstrar.

Framsókn vill bæta rekstrarumhverfið

Við í Framsókn erum vel meðvituð um mikilvægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja hér á landi og viljum bæta hag þeirra. Framsókn vill taka upp þrepaskipt tryggingagjald og lækka það á lítil og meðalstór fyrirtæki. Einnig vill Framsókn létta undir greiðslubyrði lítilla og meðalstórra fyrirtækja á opinberum álögum, til dæmis úttektum eftirlitsaðila og leyfisveitingar frá hinu opinbera. Þetta eru raunhæfar lausnir sem geta aðstoðað þessi fyrirtæki við að koma rekstri sínum á réttan kjöl.

Að auki vill Framsókn nota skattkerfið til að jafna aðstöðu fólks á landsbyggðinni ásamt því að styðja betur við rekstur lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þannig er skattkerfið notað til að fjárfesta í fólki og hvetja til fjölþættari verðmætasköpunar.

Með leiðum sem þessum getum við bætt rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja, og með því stuðlað að auknum og fjölbreyttum atvinnumöguleikum um allt land.

Stefán Vagn Stefánsson

Höfundur er oddviti Framsóknar í Norðvesturkjördæmi og yfirlögregluþjónn í Skagafirði.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 24. september 2021.