Categories
Greinar

Sýslumönnum skal ekki fækka

Deila grein

27/03/2022

Sýslumönnum skal ekki fækka

Síðastliðna daga hef­ur sprottið upp umræða um fækk­un sýslu­mann­sembætta hér á landi. Talað er um að sam­eina ákveðin embætti í eitt og jafn­vel að fækka sýslu­mönn­um í ein­ung­is einn sýslu­mann, sem myndi hafa allt Ísland sem sitt um­dæmi. Þetta er áhyggju­efni þar sem sýslu­menn sinna veiga­miklu hlut­verki inn­an sinna um­dæma. Þeir þjóna sínu nærsam­fé­lagi í mik­il­væg­um og per­sónu­leg­um mál­um íbúa þess hvort sem það eru þing­lýs­ing­ar, gjaldþrot eða mik­il­væg mál­efni fjöl­skyldna. Af þessu er aug­ljóst að mik­il­vægi þess að sýslu­menn séu inn­an hand­ar er óum­deilt. Sýslu­menn eru umboðsmenn hins op­in­bera í héraði. Ef þau áform sem búið er að boða yrðu að veru­leika þá verður búið að eyða grund­vall­ar­hlut­verki þeirra.

Haft er eft­ir for­manni Fé­lags sýslu­manna að dóms­málaráðuneytið hafi fundað með sýslu­mönn­um um málið og að efa­semd­ir séu um ágæti þess inn­an þeirra raða. Skilj­an­lega, enda er nauðsyn­legt að sýslu­menn séu til staðar í nærum­hverf­inu og hafi ein­hverja teng­ingu við sam­fé­lagið. Með brott­hvarfi þeirra úr um­dæm­inu eyðist sú teng­ing, eðli máls­ins sam­kvæmt.

Vissu­lega bjóða tækninýj­ung­ar fjórðu iðnbylt­ing­ar­inn­ar upp á nýj­ung­ar, tæki­færi og upp­færslu ferla og aðferða. Þó er aug­ljóst að áform um að fækka sýslu­mann­sembætt­um tölu­vert brjóta í bága við byggðasjón­ar­mið, en við höf­um skuld­bundið okk­ur til að vinna í þágu þeirra. Fækk­un embætt­anna hef­ur í för með sér nei­kvæð áhrif á mörg byggðarlög, þá helst utan höfuðborg­ar­svæðis­ins. Ásamt því er aug­ljóst að at­vinnu­tæki­fær­um í fá­menn­ari byggðum fækk­ar, en það er göm­ul saga og ný að op­in­ber störf hverfi af lands­byggðinni í óþökk íbúa. Boðað hef­ur verið að með þessu verði störf­um og verk­efn­um sýslu­manna fjölgað, sem er af hinu góða, enda höf­um við í Fram­sókn verið öt­ul­ir tals­menn fjölg­un­ar op­in­berra starfa á lands­byggðinni. Það færi bet­ur á því að halda sýslu­mönn­um og nú­ver­andi um­dæm­a­mörk­um og færa þau störf sem áætlan­ir eru upp um að flytja í kjöl­far breyt­ing­anna til nú­ver­andi embætta og þar með styrkja þær mik­il­vægu stjórn­sýslu­ein­ing­ar sem sýslu­mann­sembætt­in eru í dag.

Fækk­un sýslu­mann­sembætta þvert yfir landið mun ekki verða með mínu samþykki. Hún fer gegn þeim mark­miðum sem sett voru fram í stjórn­arsátt­mála Fram­sókn­ar, Sjálf­stæðis­flokks­ins og Vinstri hreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs. Fækk­un­in yrði mikið högg inn­an ým­issa byggða þvert yfir landið. Rök­in fyr­ir henni halda ekki vatni eins og staðan er í dag.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. mars 2022.

Categories
Greinar

Áfram í sókn

Deila grein

13/01/2022

Áfram í sókn

Sóknaráætlanir landshlutanna eru stefnumótandi áætlanir sem taka til starfssvæða landshlutasamtaka sveitarfélaga. Um er að ræða einkar vel heppnaða aðgerð þar sem landshlutasamtök sveitarfélaga stofna með sér samráðsvettvang og stilla upp áætlun sem setur fram sýn og markmið sem draga fram sérstöðu svæðanna. Þannig er stutt við ákvarðanir um úthlutun fjármagns og verkefni sem unnin eru undir merkjum sóknaráætlana.

Við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins nú í desember lagði fjárlaganefnd til 100 milljóna kr. styrkingu á verkefninu um sóknaráætlanir landshluta. Ég fagna að sú tillaga hafi hlotið samþykki. Mikilvægi sóknaráætlana kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar er sérstaklega tekið fram að unnið verði áfram að eflingu sóknaráætlana landshlutanna.

Uppbygging í takt við áherslur heimamanna

Sóknaráætlanir hafa sannað sig sem öflugt byggðarþróunartæki og þeir fjármunir sem í þær er veitt nýtast hratt og vel til ýmiss konar uppbyggingar í héraði í takti við áherslur heimamanna. Sóknaráætlanir og uppbyggingarsjóðir gegna lykilhlutverki til þess að efla nýsköpun og menningarstarf á landsbyggðinni.

Í kjölfarið á heimsfaraldri kórónuveirunnar var veitt viðbótarfjármagni inn í áætlanirnar til þess að sporna við áhrifum faraldursins. Undirritaður telur mikilvægt að áframhaldandi stuðningur sé til staðar, bæði vegna þess að faraldurinn ætlar að vera þaulsetnari en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir og einnig til að styðja við uppbyggingu vegna áhrifa faraldursins sem mun væntanlega gæta eitthvað áfram komandi ár.

Landshlutasamtökin eru mikilvægur hlekkur

Landshlutasamtökin hafa svo sannarlega staðið undir þeirri ábyrgð að verja fjármagni í mikilvæg verkefni til stuðnings atvinnu- og byggðarþróun og nýsköpun með hagkvæmum og skilvirkum hætti. Þau eru vel til þess fallinn að styðja við hverskonar nýsköpun á landsbyggðinni og hagnýtingu hugvits. Með samstarfi sem þessu gerum við atvinnulífið á landsbyggðinni fjölbreyttara og fjölgum spennandi og verðmætum störfum. Við viljum styðja við umhverfi þar sem sköpunarkraftur fólks fær að njóta sín og það getur vaxið og dafnað. Sóknaráætlanir í gegnum landshlutasamtökin stuðla að jákvæðri samfélags- og byggðarþróun í takt við heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, þær treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni landshluta og landsins alls í leið.

Áfram veginn

Aukin stuðningur við sóknaráætlanir eru í takt við stefnu Framsóknarflokksins, en við í Framsókn höfum alltaf verið talsmenn öflugrar byggðastefnu. Mikilvægt er að á kjörtímabilinu verði enn aukið samstarf milli landshlutasamtaka og allra ráðuneyta til þess að tryggja að stærri aðgerðir sóknaráætlana nái fram að ganga um allt land. Þannig byggjum við Ísland framtíðarinnar.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 13. janúar 2022.

Categories
Greinar

Lítil og meðalstór fyrirtæki – lykill að uppbyggingu og þróun

Deila grein

24/09/2021

Lítil og meðalstór fyrirtæki – lykill að uppbyggingu og þróun

Lítil og meðalstór fyrirtæki sinna lykilhlutverki á atvinnumarkaðnum hér á landi. Þau tryggja meirihluta Íslendinga atvinnu, stuðla að fjölbreyttri atvinnu ásamt því að vera lykillinn að uppbyggingu og þróun þvert yfir landið. Fyrir Covid sýndi tölfræðin að lítil og meðalstór fyrirtæki greiddu laun rúman meirihluta landsmanna, eða kringum 70% þeirra. Líklega hefur tölfræðin breyst töluvert eftir komu Covid, en talið er að staðan verði aftur sambærileg þegar við höfum náð tökum á veirunni.

Skattar og álögur

Lítil og meðalstór fyrirtæki eiga mörg hver erfitt með greiðslubyrðina á m.a. tryggingagjaldi og opinberum álögum. Þetta hindrar vöxt þeirra og leiðir jafnvel til þess fyrirtækin neyðast til að hætta rekstri. Almennt er um litla upphæð gjalds að ræða í tilfelli opinberra álagna, en þegar á botninn er hvolft þá geta þetta orðið töluverðar fjárhæðir sem geta reynst mörgum litlum og meðalstórum fyrirtækjum íþyngjandi. Þetta á sérstaklega við um fyrirtæki í upphafi rekstrar.

Framsókn vill bæta rekstrarumhverfið

Við í Framsókn erum vel meðvituð um mikilvægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja hér á landi og viljum bæta hag þeirra. Framsókn vill taka upp þrepaskipt tryggingagjald og lækka það á lítil og meðalstór fyrirtæki. Einnig vill Framsókn létta undir greiðslubyrði lítilla og meðalstórra fyrirtækja á opinberum álögum, til dæmis úttektum eftirlitsaðila og leyfisveitingar frá hinu opinbera. Þetta eru raunhæfar lausnir sem geta aðstoðað þessi fyrirtæki við að koma rekstri sínum á réttan kjöl.

Að auki vill Framsókn nota skattkerfið til að jafna aðstöðu fólks á landsbyggðinni ásamt því að styðja betur við rekstur lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þannig er skattkerfið notað til að fjárfesta í fólki og hvetja til fjölþættari verðmætasköpunar.

Með leiðum sem þessum getum við bætt rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja, og með því stuðlað að auknum og fjölbreyttum atvinnumöguleikum um allt land.

Stefán Vagn Stefánsson

Höfundur er oddviti Framsóknar í Norðvesturkjördæmi og yfirlögregluþjónn í Skagafirði.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 24. september 2021.