Hér áður fyrr stóð ytri staða þjóðarbúsins oft og tíðum tæpt, þar til straumhvörf á viðskiptajöfnuðinum áttu sér stað fyrir rúmlega tíu árum með tilkomu sterkrar ferðaþjónustu hér á landi. Fyrir lítið opið hagkerfi er nauðsynlegt að hafa styrkar útflutningsstoðir. Viðskiptaafgangurinn vegna ferðaþjónustunnar hefur einnig gert lífeyrissjóðum kleift að dreifa sparnaði félaga og byggja myndarlega sjóði erlendis. Á tímum kórónuveirunnar kom glöggt í ljós hversu hagfellt var að vera með gjaldeyrisforða sem gat jafnað mestu sveiflur.
Það skiptir miklu máli að skapa ferðaþjónustunni, stærstu gjaldeyrisskapandi atvinnugrein landsins, hagfelld skilyrði til þess að vaxa og dafna með sjálfbærum hætti, með það fyrir augum að skapa aukin verðmæti og lífsgæði fyrir íslenskt samfélag.
Eitt helsta forgangsverkefnið í nýju menningar- og viðskiptaráðuneyti er að móta nýja og öfluga aðgerðaáætlun á sviði ferðamála á grunni Framtíðarsýnar og leiðarljóss íslenskrar ferðaþjónustu til 2030. Undirbúningur þeirrar vinnu hefur staðið yfir af fullum þunga innan ráðuneytisins en í vikunni skipaði ég sjö starfshópa, sem hver og einn er skipaður 6-8 sérfróðum aðilum, og verður þeim falið að vinna tillögur að aðgerðum en miðað er við að þeir skili drögum að aðgerðum fyrir 1. október næstkomandi og lokatillögum fyrir 15. desember 2023. Hóparnir ná utan um sjálfbærni og orkuskipti, samkeppnishæfni og verðmætasköpun, rannsóknir og nýsköpun, uppbyggingu áfangastaða, hæfni og gæði, heilsu-, veitinga- og hvataferðaþjónustu og svo menningartengda ferðaþjónustu. Stefni ég að því að leggja fram nýja ferðamálastefnu til ársins 2030 ásamt aðgerðaáætlun fyrir vorþing 2024, eins og kom fram í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í mars.
Framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu er að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni efnahagslegs og samfélagslegs jafnvægis. Í því felst að ferðaþjónustan sé arðsöm og samkeppnishæf, í sátt við náttúru, íslenska menningu og tungu. Þjóðríki sem hafa miklar útflutningstekjur, stöndugan gjaldeyrisforða og góðan innlendan sparnað eru í mun sterkari stöðu til að kljást við óvænt ytri áföll og njóta betri lánskjara á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Þar mun ferðaþjónustan skipta lykilmáli til framtíðar og því er gríðarlega mikilvægt að styrkja umgjörð hennar enn frekar til framtíðar, með skýrum aðgerðum til að hrinda til framkvæmda.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. júní 2023.
Nýverið samþykkti Alþingi tillögur mínar til þingsályktanir um myndlistarstefnu og tónlistarstefnu til ársins 2030 ásamt því að samþykkja frumvarp um fyrstu heildarlöggjöf um tónlist á Íslandi. Markmiðið er skýrt; að efla umgjörð þessara listgreina til framtíðar.
Með myndlistarstefnunni er sett framtíðarsýn myndlistarumhverfisins til ársins 2030 með meginmarkmiðum um að á Íslandi ríki kraftmikil myndlistarmenning, að stuðningskerfi myndlistar á Íslandi verði einfalt og skilvirkt, að íslensk myndlist verði sýnileg og vaxandi atvinnugrein og að íslensk myndlist skipi alþjóðlegan sess.
Lagðar eru til markvissar aðgerðir til að einfalda en að sama skapi styrkja stofnana- og stuðningskerfi myndlistar og hlúa markvissar en áður að innviðum atvinnulífs myndlistar. Með því má bæta samkeppnishæfni fyrirtækja og efla útflutning og markaðssetningu á íslenskri myndlist.
Ný tónlistarstefna og heildarlöggjöf um tónlist er af sama meiði; að efla umgjörð tónlistarlífsins á Íslandi. Með lögunum hillir undir nýja Tónlistarmiðstöð sem stofnuð verður í ár og er ætlað að sinna uppbyggingu og stuðningi við hvers konar tónlistarstarfsemi sem og útflutningsverkefni allra tónlistargreina. Þar að auki mun miðstöðin sinna skráningu, umsýslu og miðlun íslenskra tónverka. Með stofnun Tónlistarmiðstöðvar er stigið stórt skref í áttina að því að veita listgreininni aukið vægi og til að greiða leið íslensks tónlistarfólks, innan lands sem utan. Nýr og stærri Tónlistarsjóður verður einnig að veruleika. Mun hann sameina þrjá sjóði sem fyrir eru á sviði tónlistar. Lykilhlutverk hans verður að efla íslenska tónlist, hljóðritagerð og þróunarstarf í tónlistariðnaði. Með tilkomu sjóðsins verður styrkjaumhverfi tónlistar einfaldað til muna og skilvirkni og slagkraftur aukin verulega!
Í lögunum er sömuleiðis að finna ákvæði um sérstakt tónlistarráð sem verður stjórnvöldum og tónlistarmiðstöð til ráðgjafar um málefni tónlistar. Tónlistarráði er ætlað að vera öflugur samráðsvettvangur milli stjórnvalda, Tónlistarmiðstöðvar og tónlistargeirans enda felst í því mikill styrkur að ólík og fjölbreytt sjónarmið komi fram við alla stefnumótunarvinnu á sviði tónlistar.
Ofangreint mun skipta miklu máli til að styðja enn frekar við menningu og skapandi greinar á landinu og styðja vöxt þeirra sem atvinnugreina. Til marks um umfang þeirra þá birti Hagstofan nýverið uppfærða Menningarvísa í annað sinn. Samkvæmt þeim voru rekstrartekjur í menningu og skapandi greinum rúmlega 126 milljarðar króna árið 2021 og hækkuðu um 5,6% frá fyrra ári. Þá starfa um 15.400 einstaklingar á aldrinum 16-74 við menningu, eða um 7,3% af heildarfjölda starfandi, samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar.
Ég er staðráðin í því að halda áfram að tryggja undirstöður þessara greina þannig að þær skapi aukin lífsgæði og verðmæti fyrir íslenskt samfélag til framtíðar. Ég vil einnig þakka þeim kraftmikla hópi fólks úr grasrótinni sem kom að fyrrnefndri stefnumótun, framlag þess skipti verulegu máli.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. maí 2023.
Mikilvægt skref fyrir menningu og skapandi greinar var tekið í vikunni á Alþingi Íslendinga er þingmenn samþykktu tillögu mína til þingsályktunar um myndlistarstefnu til ársins 2023. Stefnan hefur verið lengi í farvatninu og því sérlega jákvætt að hún sé komin í höfn.
Myndlistarstefnunni er ætlað að efla myndlistarmenningu landsins ásamt því að stuðla að aukinni þekkingu og áhuga almennings á myndlist. Í henni birtist framtíðarsýn myndlistarumhverfisins til ársins 2030 með meginmarkmiðum um að á Íslandi ríki kraftmikil og andrík myndlistarmenning, stuðningskerfi myndlistar á Íslandi verði einfalt og skilvirkt og að íslensk myndlist verði sýnileg og vaxandi atvinnugrein. Er einnig fjallað sérstaklega um að íslensk myndlist skipi alþjóðlegan sess.
Hvert og eitt þessara markmiða skal stuðla að umbótum og jákvæðum breytingum svo framtíðarsýn stefnunnar geti orðið að veruleika.
Stefnunni fylgir aðgerðaáætlun í 16 liðum, en aðgerðirnar verða endurskoðaðar árlega í tengslum við gerð fjármálaáætlunar og fjárlaga til að greiða götu nýrra verkefna og efla myndlistarstarfsemi hér á landi enn frekar næsta áratug. Menningar- og viðskiptaráðuneyti mun fylgjast með framvindu aðgerða og birta upplýsingar þar að lútandi með reglubundnum hætti. Má þar til dæmis nefna aukið aðgengi að Listasafni Íslands, átaksverkefni í kynningu myndlistar gagnvart almenningi, stofnun Myndlistarmiðstöðvar sem taki við hlutverki Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar og fái víðtækara hlutverk, endurskoðun á skattaumhverfi myndlistar og áfram verði unnið að krafti að alþjóðlegu samstarfi á sviði myndlistar.
Myndlistarlíf á Íslandi er í miklum blóma og fram undan er tilefni til að beina sjónum að frekari tækifærum til vaxtar. Ný myndlistarstefna til ársins 2030 er leiðarljósið á þeirri vegferð. Sköpun íslenskra listamanna hefur um langan tíma fangað athygli fólks hér á landi sem og erlendis. Árangurinn birtist í fleiri tækifærum íslenskra listamanna til þátttöku í kraftmikilli safnastarfsemi og vönduðum sýningum um allt land. Einnig endurspeglast árangurinn í þátttöku á virtum alþjóðlegum viðburðum og sýningum. Eftirspurn eftir kaupum á íslenskum listaverkum er umtalsverð. Sífellt fleiri listaverk spretta úr íslenskum veruleika eða af sköpun íslenskra listamanna og fanga athygli fólks hér á landi og erlendis.
Ég vil óska myndlistarsamfélaginu á Íslandi til hamingju með þennan áfanga og vil þakka þeim öfluga hópi fólks sem kom að gerð stefnunnar fyrir vel unnin störf. Ég er staðráðin í því að halda áfram að vinna með hagaðilum að því að tryggja undirstöður menningar og skapandi greina þannig að þær skapi aukin lífsgæði og verðmæti fyrir íslenskt samfélag til framtíðar – ný sókn í þágu myndlistarinnar er hluti af því verkefni.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. maí 2023.
Væntingar um traust ríkisfjármál vinna á verðbólgu
Opinber fjármál hafa verið mikið í umræðunni í tengslum við þróun verðbólgu. Innan hagfræðinnar eru ýmsar kenningar uppi um hvaða þættir efnahagskerfisins hafi mest áhrif á þróun verðlags og eru um það skiptar skoðanir. Meginorsakirnar liggja víða í hagkerfinu og því þarf enn sterkara samspil peningamála, fjármála hins opinbera og vinnumarkaðarins til að ná tökum á verðbólgunni.
Ljóst er að Covid-19 aðgerðir bæði í peningamálum og ríkisfjármálum, áhrif framleiðsluhnökra í alþjóðahagkerfinu og stríðið í Úkraínu hafa haft mikil áhrif á verðbólgu síðasta árs. Hins vegar sjáum við að áhrif stríðsins fara dvínandi á verðbólgu, þar sem hækkanirnar hafa þegar komið fram. Í stjórnmálaumræðunni er kastljósið er í auknum mæli að beinast að þætti opinberra fjármála. Því er við hæfi að fara yfir nýlega kenningu hagfræðingsins John F. Cochrane en í nýútgefinni bók sinni Fiscal Theory and the Price Level beinir hann spjótum sínum að verðbólguvæntingum á sviði ríkisfjármála.
Ríkisfjármálakenningin og verðbólga
Kjarni ríkisfjármálakenningarinnar er að verðlag ráðist af stefnu stjórnvalda í opinberum fjármálum. Samkvæmt þessari kenningu hefur ríkisfjármálastefnu, þar með talið útgjalda-og skattastefna, bein áhrif á verðlagið. Minni halli á ríkisrekstri ætti að leiða til lægra raunvaxtastigs sem ætti síðan að ýta undir meiri fjárfestingar. Þar með verða til auknar fjármagnstekjur, sem myndast við meiri fjárfestingu, sem er ein helsta uppspretta framleiðni vinnuafls. Þetta skapar svo grunninn að hærri raunlaunum og þannig má segja að minni fjárlagahalli sé óbein leið til að auka raunlaun og bæta lífskjör.
Eitt skýrasta dæmið um að tiltekt í ríkisfjármálum og trúverðug stefna hafi skilað vaxtalækkun var að finna í forsetatíð Bill Clintons, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.
Staðreyndin er sú að ef ríkissjóður er rekinn með halla, þá þarf hann að fjármagna þann halla með útgáfu nýrra skuldabréfa. Þannig eykst framboð ríkisskuldabréfa á markaði, sem aftur lækkar verð þeirra og leiðir til þess að vextir hækka. Eitt skýrasta dæmið um að tiltekt í ríkisfjármálum og trúverðug stefna hafi skilað vaxtalækkun var að finna í forsetatíð Bill Clintons, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.
„Minni fjárlagahalli skapar störf!”
„Minni fjárlagahalli býr til störf“! Þetta var eitt af því sem hagfræðingateymi Clintons, sem leitt var af fjármálaráðherra hans Robert Rubin, sögðu við hann þegar var verið að kljást við mikinn halla á fjárlögum.
Í heimi hagfræðinnar voru þeir Stephen Turnovsky og Marcus Miller (1984), ásamt Olivier Blanchard (1984), byrjaðir að þróa hagfræðikenningar sem færðu rök fyrir því hvernig trúverðugur samdráttur á væntum fjárlagahalla í framtíðinni gæti aukið heildareftirspurn í hagkerfi dagsins í dag.
Ef tiltrúin á skynsöm ríkisfjármál hverfur, þá getur það leitt til verðbólgu. Það nákvæmlega sama gerist ef markaðsaðilar hafa ekki trú á að arðgreiðslur verði góðar eða tekjur fyrirtækis á markaði, því þá lækka hlutabréfin í verði eða það verður bankaáhlaup.
Grunnhugmynd þeirra var sú að ef fjárfestar væru sannfærðir um að skuldir ríkisins yrðu lægri í framtíðinni, þá myndu langtímavextir í dag lækka og örva þannig núverandi eftirspurn. Líkön þeirra sýndu hins vegar ekki fram á að lækkun á núverandi fjárlagahalla yrði þensluhvetjandi þá stundina. Með öðrum orðum að margfeldi skatta væri neikvætt. Turnovsky-Miller-Blanchard-kenningin gaf samt fræðilega útskýringu á efnahagslegum uppgangi á Clinton-tímabilinu. Ríkissjóðurinn fór úr methalla í góðan afgang á örskömmum tíma.
Frumjöfnuður ríkissjóðsins fór úr því að vera í jafnvægi um 1990 í 6% afgang af vergri landsframleiðslu árið 2001. Á sama tíma fór skuldir ríkissjóðs úr því að vera um 50% af landsframleiðslu í 30%. Þessi miklu umskipti þýddu meðal annars að vaxtaálag lækkaði og á sama tíma var verðbólga lág. Eins og sá má á ofangreindri mynd, þá er sterk fylgni á milli afgangs á frumjöfnuði, lækkun ríkisskulda og lágrar verðbólgu.
Fjármálaráðherrann Rubin hefur iðulega fengið lof í lófa fyrir að hafa stýrt því að þessi leið yrði farin enda skildu fáir skuldabréfamarkaðinn eins vel og hann. Stjórnvöld settu fram trúverðuga áætlun í ríkisfjármálum og fjárfestar keyptu hana og því skiluðu aðhaldssöm ríkisfjármál lægra vaxtastigi!
Ríkisfjármálakenningin og mikilvægi væntinga
Grunnhugmyndin á bak við kenningu John Cochrane er að aðhald fjármála hins opinbera ákvarði verðlag í hagkerfinu. Ríkisfjármálakenningin hans snýst að auki um hvert virði ríkisskulda sé. Virði ríkisskuldabréfa annars vegar og almennra hlutabréfa og skuldabréfa hins vegar er metið að jöfnu. Á sama hátt og hlutabréf- eða skuldabréfaverð skila arði og/eða verðbótum á núvirði, þá jafngildir raunvirði ríkisskulda núvirtum afgangi ríkisfjármála. Ef tiltrúin á skynsöm ríkisfjármál hverfur, þá getur það leitt til verðbólgu. Það nákvæmlega sama gerist ef markaðsaðilar hafa ekki trú á að arðgreiðslur verði góðar eða tekjur fyrirtækis á markaði, því þá lækka hlutabréfin í verði eða það verður bankaáhlaup.
Að mati Cochrane á að vera hægt að ná tökum á verðbólgu með tiltölulega lítilli niðursveiflu hagkerfisins, ef almenningur hefur trú á því að aukið aðhald ríkisfjármála og peningastefnu verði framfylgt markvisst. Allt snýst þetta um væntingar almennings og markaðsaðila bæði er varðar vænt ríkisfjármál og peningastefnu.
Hvað með Ísland?
Verðbólga mældist 9,9% á ársgrundvelli í apríl. Verðbólga er of há. Þessi mæling var hærri en flestir markaðsaðilar gerðu ráð fyrir. Í kjölfarið hækkaði ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hratt en jafnaði sig þó þegar líða tók á daginn. Baráttan við verðbólguna er á vandasömum tímapunkti. Ljóst er að allar aðgerðir Seðlabanka Íslands og ríkisfjármálanna þurfa að miða að því að ná böndum á verðbólgunni áður en upphefst víxlverkun launa og verðlags.
Hægt er að ná tökum á verðbólgu með tiltölulega lítilli niðursveiflu hagkerfisins, ef almenningur hefur trú á því að aukið aðhald ríkisfjármála og peningastefnu verði framfylgt markvisst. Allt snýst þetta um væntingar almennings og markaðsaðila
Trúverðugleikinn er allt á þessum tímapunkti og má með sanni segja að núverandi ríkisstjórn hafi kappkostað við að minnka skuldir ríkissjóðs til að auka lánshæfi ríkissjóðs Íslands. Skuldir ríkissjóðs nema um 33% af landsframleiðslu og við lok ríkisfjármálaáætlunar er gert ráð fyrir að þær nemi um 30%.
Lokaorð
Í þessari grein hef ég lagt út með hagfræðikenningar sem eiga við Bandaríkin. Ljóst er að mikill munur er hagkerfum Íslands og Bandaríkjanna. Hins vegar eru það ákveðin lögmál hagfræðinnar sem eiga ávallt við. Sterk skuldastaða lækkar ávöxtunarkröfu á ríkisskuldabréf. Sjálfbær ríkisfjármál lækka verðbólgu.
Lítið hagkerfi þarf ávallt að hafa borð fyrir báru í efnahagsmálum. Skuldir þurfa að vera lágar, gjaldeyrisforði hár og viðskiptajöfnuðurinn þarf að skila afgangi. Náist þessi árangur á næstunni munu vextir lækka og staða heimila og fyrirtækja batna. Ísland hefur skapað ein bestu lífskjör sem völ eru á og hefur alla burði til að auka enn frekar jöfnuð og fjárfesta í velferðarkerfinu.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst á Innherji á visir.is 4. maí 2023.
HönnunarMars, uppskeruhátíð hönnunar og arkitektúrs, er einn af skemmtilegustu vorboðunum. Framsækin hönnun og nýjungar leiða saman sýnendur og gesti á hátíðinni sem stendur yfir dagana 3-7. maí. Á hátíðinni verða tækifæri til að upplifa, læra, njóta og tengjast en hátíðin hefur fest sig í sessi sem einn mikilvægasti kynningarvettvangur íslenskrar hönnunar og arkitektúrs. Til marks um það eru um 100 sýningar, 400 þátttakendur og 100 viðburðir á hátíðinni í ár sem endurspeglar þá miklu grósku sem á sér stað í hönnun og arkitektúr á Íslandi.
Þessi mikli fjölbreytileiki færir okkur einnig heim sanninn um það hvernig íslensk hönnun og arkitektúr eru mikilvægt breytingaafl og tæki til nýsköpunar sem nýst getur okkar samfélagi á fjölbreyttari hátt en marga órar fyrir. Þar hefur starfsfólk Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs, og ótal samstarfsaðilar þeirra, unnið þrekvirki við að þróa spennandi hátíð sem höfðar til víðs hóps og hefur sannarlega átt stóran hlut í því að koma íslenskri hönnun rækilega á kortið – svo eftir er tekið.
Á þessu kjörtímabili verða málefni hönnunar og arkitektúrs í öndvegi í menningar- og viðskiptaráðuneytinu í góðri samvinnu við hagaðila. Markmið þeirrar vinnu er skýrt; við ætlum að hrinda nýrri hönnunarstefnu fyrir Ísland í framkvæmd með aðgerðum sem skila árangri, fagmennsku og gæðum til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag. Hinni nýju stefnu er ætlað að virkja mannauð í hönnunargreinum til þess að leysa brýn verkefni samtímans, auka lífsgæði og stuðla að sjálfbærri verðmætasköpun.
Meðal lykilaðgerða eru að setja lög um hönnun og arkitektúr, efla Hönnunarsjóð, bæta aðgengi nýskapandi hönnunarverkefna að samkeppnissjóðum, endurskoða menningarstefnu í mannvirkjagerð og að tryggja þátttöku Íslands í Feneyjatvíæringnum í arkitektúr.
Strax í ár var Hönnunarsjóður efldur og nemur umfang sjóðsins nú 80 m.kr. Þessu fé er úthlutað úr sjóðnum til að stuðla að því að efla þekkingu, atvinnu- og verðmætasköpun og stuðla að auknum útflutningi á íslenskri hönnun með því að styrkja kynningar- og markaðsstarf erlendis.
Það eru stór efnahagsleg tækifæri fólgin í því að styðja skipulega við skapandi greinar líkt og hönnun og arkitektúr. Nægir þar að líta til Danmerkur þar sem umfang hönnunar, arkitektúrs og annarra skapandi greina hefur farið vaxandi í hagkerfinu undanfarin ár. Má þar til að mynda nefna að tískuvarningur er fjórða stærsta útflutningsstoð Danmerkur.
Það er ekki annað hægt en að fyllast stolti yfir sköpunarkrafti, fagmennsku og elju íslenska hönnunarsamfélagsins. Ég hef sterka sannfæringu fyrir því að efla íslenska hönnun og arkitektúr enn frekar, sem fag- og atvinnugrein, útflutningsgrein og mikilvæga aðferðafræði – sem mun á endanum leiða til aukinna lífsgæða fyrir samfélagið. Ég þakka aðstandendunum HönnunarMars fyrir þeirra metnaðarfulla starf og undirbúning og óska öllum gestum hönnunarsamfélagsins hér á landi gleðilegrar hátíðar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. maí 2023.
Íslenski dansflokkurinn fagnar því í ár að 50 ár eru liðin frá stofnun hans. Í hálfa öld hefur dansflokkurinn verið framsækinn nútímadansflokkur skipaður úrvalsdönsurum í hæsta gæðaflokki en um er að ræða listastofnun á sviði sviðslista í eigu íslensku þjóðarinnar. Hlutverk hans er að sýna dansverk, vera vettvangur fyrir framþróun og nýsköpun danslistar á Íslandi og glæða áhuga landsmanna á danslist. Dansflokkurinn hefur unnið með mörgum af fremstu danshöfundum veraldar auk þess að leggja rækt við íslenska danssköpun með því að setja á svið verk eftir íslenska danshöfunda. Verkefnaval hans er fjölbreytt og tryggt skal að á dagskrá hvers starfsárs séu íslensk dansverk. Dansflokkurinn ferðast víða um heim með verk sín og heldur fjölbreyttar sýningar á Íslandi og þá alla jafna í Borgarleikhúsinu sem hefur verið heimili flokksins síðan 1997. Ár árinu 2022 sýndi Íslenski dansflokkurinn 62 sýningar, þar af 18 erlendis í 10 sýningarferðum. Það er merkilegur árangur en dagskrá afmælisársins ber vel með sér þennan mikla þrótt sem býr í þessum hálfrar aldrar gamla dansflokki. Fjölbreytni ræður ríkjum í dagskrá ársins, sem tekur mið af afmælisárinu þar sem saga dansflokksins og dansins á Íslandi í fortíð, nútíð og framtíð er áberandi.
Dans sem listform gagnrýnir og hvetur, hneykslar og hrífur. Dansarinn tekst á við allar víddir mannlegrar tilvistar, dans er landamæralaust afl sem getur hreyft við öllum gerðum áhorfenda, ungum sem öldnum. Listræn fjölbreytni og náin tengsl við grasrótina eru mikilvægir þættir fyrir dansumhverfið á Íslandi, sem er í stöðugri mótun, og á síðustu árum hafa sýnileiki dansins og vinsældir hans aukist til muna. Enda hefur Íslenski dansflokkurinn kappkostað að eiga í nánu samstarfi við stofnanir, félög og aðra sem sinna danslist með listrænan ávinning og fjölbreytni að markmiði og lagt sín lóð á vogarskálarnar með því að stuðla að listuppeldi og fræðslustarfi í samvinnu við menntastofnanir og gera nemendum og almenningi kleift að kynna sér starfsemi dansflokksins.
Á undanförnum árum hafa verið stigin mikilvæg skref til þess að efla umgjörð sviðslista á Íslandi. Árið 2019 voru fyrstu heildarlögin um sviðslistir sett hér á landi sem hafa það að markmiði búa leiklist, danslist, óperuflutningi, brúðuleik og skyldri liststarfsemi hagstæð skilyrði. Á þeim grunni var meðal annars sviðslistaráð sett á laggirnar og tók ný Sviðslistamiðstöð formlega til starfa – en sambærilegar miðstöðvar hafa lengi verið starfræktar fyrir aðrar listgreinar. Með Sviðslistamiðstöð skapast fleiri sóknarfæri fyrir sviðslistafólk innanlands sem utan, meðal annars með stuðningi í formi ráðgjafar, tengslamyndunar, kynningar, miðlunar og útflutnings. Samhliða þessu hafa fleiri hópum verið tryggðir kjarasamningar og vinna við þarfagreiningu vegna óperustarfsemi í landinu sem hefur miðað vel áfram með það að markmiði að setja á laggirnar þjóðaróperu. Samspil ólíkra sviðlistagreina skiptir máli, en þegar á fjalirnar er komið haldast gjarnan í hendur dans, tónlist, leikur og fleira. Allt ofantalið eru atriði sem skipta máli í öflugu menningarlífi þjóðarinnar.
Það er ekki sjálfsagt að eiga jafn framúrstefnulegan dansflokk og við eigum hér á landi en hann hefur getið sér gott orð víða um heim undir styrkri handleiðslu Ernu Ómarsdóttur listdansstjóra og hennar teymi. Ég er stolt af þeirri frumsköpun og framleiðslu á menningu sem okkar frábæra listadansfólk drífur áfram. Stjórnvöld munu halda áfram að skapa menningu í landinu góð skilyrði og styðja þannig við fjalir fullar af lífi. Ég óska Íslenska dansflokknum, starfsfólki hans og unnendum til hamingju með 50 ára afmælið og hvet fólk til þess að kynna sér þá metnaðarfullu dagskrá sem hann hefur upp á að bjóða.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. apríl 2023.
Íslenska þjóðin er bókaþjóð og eru bókmenntir samofnar sögu okkar og tungumáli. Við vorum einmitt minnt á það í liðinni viku þegar Hús íslenskunnar var vígt með formlegum hætti og því gefið hið fallega nafn Edda. Í Eddu verða handritin, okkar merkasti menningararfur og framlag til heimsbókmennta, geymd. Handritin og sá vitnisburður sem þau hafa að geyma um fræðastarf, myndlistar- og menningarsögu, trúmál, sagnaarf og ýmis hugðarefni fólks á þessum fyrri tímum í sögu þjóðarinnar eru stórmerkileg. Sú staðreynd að öll handritin í safni Árna Magnússonar séu á varðveisluskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna yfir Minni heimsins undirstrikar menningarlegt mikilvægi þeirra á heimsvísu.
Þetta er staðreynd sem við getum verið stolt af. Okkur ber að auka veg og virðingu menningararfsins enn frekar, að sýna handritin, ræða þau, rannsaka og miðla til komandi kynslóða. Um 700 handrit eru í vörslu á söfnum í Danmörku, en sáttmáli var gerður um vörslu þeirra árið 1965 milli Íslands og Danmerkur. Ég tel að fleiri íslensk handrit eigi að koma til Íslands frá Danmörku og hef unnið að auknu samstarfi ríkjanna á þessu sviði. Þannig mun Árnasafn við Kaupmannahafnarháskóla taka þátt í nýrri handritasýningu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum með langtímaláni á handritum. Þá munu löndin tvö efna til átaks til að styrkja rannsóknir, stafræna endurgerð og miðlun á fornum íslenskum handritum með sérstakri áherslu á að styrkja ungt fræðafólk og doktorsnema.
Með Eddu – Húsi íslenskunnar munu skapast tækifæri til þess að lyfta menningararfi okkar enn frekar en byggingin mun hýsa starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands og verður miðstöð rannsókna og kennslu í íslenskum fræðum: tungu, bókmenntum og sögu. Þar verða jafnframt varðveitt frumgögn um íslenska menningu, þ.e. handrit, skjöl, orða- og nafnfræðisöfn og þjóðfræðasöfn. Í byggingunni eru ýmis sérhönnuð rými, svo sem fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á fornum íslenskum skinnhandritum sem færa handritin til almennings, vinnustofur kennara og fræðimanna, lesaðstaða fyrir nemendur, fyrirlestra- og kennslusalir og bókasafn með lesaðstöðu.
Það var orðið löngu tímabært að verðugt hús yrði reist til að varðveita handritin okkar og sýna þeim þá virðingu sem þau eiga skilið. Húsið hefur fengið frábærar viðtökur, þannig lögðu milli tólf og fjórtán þúsund manns leið sína á opið hús í Eddu á sumardaginn fyrsta til að virða fyrir sér þetta nýja heimili íslenskra bókmennta og langþráð lögheimili íslenskrar tungu. Með þeirri glæsilegu aðstöðu sem fyrirfinnst í Eddu erum við betur í stakk búin til þess að taka við fleiri handritum heim til Íslands og sinna menningararfi okkar enn betur til framtíðar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Alþjóðahagkerfið sýnir styrk en verðbólga lækkar hægt
Alþjóðahagkerfið náði að miklu leyti að rétta úr kútnum eftir heimsfaraldurinn og innrás Rússlands í Úkraínu. Kínverska hagkerfið hefur komið sterkt inn eftir opnun þess. Aðfangakeðjur eru að komast í samt lag og hækkanir á olíu- og hrávörumörkuðum hafa gengið til baka að stórum hluta.
Alþjóðasamfélagið stendur þó frammi fyrir nýjum áskorunum sem tengja má beint eða óbeint til þessara áfalla. Verðbólgudraugurinn hefur vaknað úr löngum dvala og seðlabankar um allan heim hafa þurft að stíga fast á bremsuna og hækkað vexti. Sagan kennir okkur að miklar vaxtahækkanir á skömmum tíma geta haft afleiðingar ekki bara á heimili heldur einnig á heimshagkerfið.
Vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var haldinn um helgina og margt áhugavert til umræðu enda hefur ýmislegt reynt á hagstjórn og fjármálamarkaði síðustu mánuði. Á vorfundum Sjóðsins ber yfirleitt hæst hagvaxtarspá þeirra og áhættugreining á alþjóðahagkerfinu.
Verðbólga lækkar en hægir á hagvexti
Mikið aðhald peningastefnu á heimsvísu er farin að hafa áhrif og ætti að draga úr verðbólgu á heimsvísu. Vísbendingar þess efnis eru þegar komnar fram. Verðbólga á Spáni er til að mynda orðin 3,3%. Hins vegar hefur hægt á hagvexti hjá þróuðum ríkjum og þótt víða hafi dregið úr verðbólgu er hún enn til staðar. Samkvæmt spá Sjóðsins þá mun verðbólga lækka á heimsvísu, þó hægar en gert var ráð fyrir í upphafi, úr 8,7 prósentum í fyrra í 7 prósent í ár og 4,9 prósent árið 2024. Áhrifin af miklu aðhaldi peningastefnu eru þó jafnframt að koma fram í minnkandi hagvexti, en Sjóðurinn spáir að hagvöxtur lækki úr 3,4% á síðasta ári í 2,8% á þessu ári.
Sagan kennir okkur að miklar vaxtahækkanir á skömmum tíma geta haft afleiðingar ekki bara á heimili heldur einnig á heimshagkerfið.
Það er ljóst af fréttum undanfarinna vikna að þegar er farið að reyna á fjármálamálakerfið. Þá er einnig ljóst að það mun reyna á skuldug þjóðríki í næstu framtíð, en skuldir þeirra hækkuðu verulega vegna Covid-kreppunnar. Þar verður á ferðinni önnur áskorun.
Hækkandi vaxtaumhverfi er stóráhætta í alþjóðahagkerfi
„Það er afar líklegt að leitin að ávöxtun í lágvaxtaumhverfi geti stuðlað óróleika í fjármálakerfinu, þegar fram líða stundir. Þegar fjárfestar hafa væntingar til að lágvaxtaumhverfið verði viðvarandi eða að taumhald peningastefnunnar verði lítið, þá taka fjárfestingar mið af því”, var haft eftir Jaime Caruana, fyrrverandi forstjóra Alþjóðagreiðslubankans BIS, á fundi í Abu Dhabi árið 2014, þegar hann tjáði sig um hvað mögulegar breytingar á peningastefnu gætu haft í för með sér.
Það er líklegt að við munum sjá frekara umrót á fjármálamörkuðum, þegar fram líða stundir.
Alþjóðahagkerfið hefur búið við lágvaxtaumhverfi um afar langt skeið og líklega lengur en Jamie Caruana reiknaði með þegar hann hafði uppi þessi orð. Peningastefnan hefur notið þess að verðbólga hefur líka verið lág á heimsvísu um langt skeið. Aukin hnattvæðing undanfarna áratugi á sinn hlut í þessari þróun. Breytingarnar á vaxtaumhverfinu hafa verið miklar í sögulegu samhengi og komið fram á skömmum tíma. Það var því líklegt að eitthvað gæfi eftir. Veikleikar hafa verið að koma fram í fjármálakerfinu eins og fall Silicon-Valley bankans í Kaliforníu og Crédit Suisse í Sviss báru með sér. Það er jafnframt líklegt að við munum sjá frekara umrót á fjármálamörkuðum, þegar fram líða stundir.
Arðsemi fyrirtækja á að hjálpa í baráttunni við verðbólgu
Spenna ríkir enn á vinnumörkuðum víða um heim, þar sem allir hafa ekki enn skilað sér á vinnumarkaðinn eftir Covid-kreppuna. Á sama tíma er lífaldur þjóða að hækka hratt og fækkar því vinnandi höndum. Þessi þróun getur leitt það af sér að stýrivextir verði hærri í lengri tíma en ella. Þýðir þetta að við séum komin í umhverfi víxlverkunar launa og verðlags? Hagtölurnar benda ekki til þess. Kaupmáttur launa hefur í besta falli staðið í stað en líklegt er þó að hann hækki eitthvað vegna þeirrar eftirspurnar sem er eftir vinnuafli. Að sama skapi hefur arðsemi fyrirtækja og framlegð aukist á undanförnum árum meðal annars vegna hnattvæðingar og aukinnar sjálfvirkni.
Eðlileg framvinda hagkerfisins er að fyrirtækin ættu að geta tekið við hækkandi launakostnaði, að því gefnu að verðbólguvæntingar séu innan skynsamlegra marka. Helsta áskorun íslenskra stjórnvalda er að takast á við verðbólguna og það er afar mikilvægt að allir taki höndum saman í þeirri baráttu. Það á jafnt við um hið opinbera og einkaaðila.
Ef hægir á hagvexti í umheiminum kemur það fljótlega fram í hagvexti hér. Það mun einnig hafa áhrif á fjármögnun þjóðarbúsins í gegnum bankakerfið og beina erlenda fjárfestingu sem verður þyngri og dýrari.
Áhrifin á Íslandi
Í vorspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er því spáð að verulega muni hægja á hagvexti á Íslandi á næsta ári eða úr 6,4% í 2,3%. Þá er því jafnframt spáð að verðbólga fari lækkandi. Skuldir ríkissjóðs eru lágar í samanburði við margar nágrannaþjóðir og bankakerfið stendur hér traustum fótum. Vaxtahækkanir erlendis hafa þó áhrif hér eins og annars staðar í heiminum. Ef hægir á hagvexti í umheiminum kemur það fljótlega fram í hagvexti hér. Það mun einnig hafa áhrif á fjármögnun þjóðarbúsins í gegnum bankakerfið og beina erlenda fjárfestingu sem verður þyngri og dýrari.
Á vorfundinum komu einnig fram áhyggjur um það að í ljósi rofs á áfangakeðjum í kjölfar Covid og aukinnar hörku í alþjóðastjórnmálum gæti dregið úr mætti alþjóðaviðskipta á næstu misserum og það gæti komið niður á lífskjörum víða um heim. Lífskjör Íslendinga hafa frá upphafi síðustu aldar verið afar háð opnum og bættum alþjóðaviðskipum. Mikilvægt verður að fylgjast vel með þessari þróun mála.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst á Innherji á visir.is 19. apríl 2023.
Tímamót í menningarsögu þjóðarinnar eru í dag þegar að Hús íslenskunnar verður vígt formlega og endanlegt nafn þess opinberað. Húsið á að hýsa starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og verður miðstöð rannsókna og kennslu í íslenskum fræðum: tungu, bókmenntum og sögu. Þar verða jafnframt varðveitt frumgögn um íslenska menningu, þ.e. handrit, skjöl, orða- og nafnfræðisöfn og þjóðfræðasöfn. Í byggingunni eru ýmis sérhönnuð rými, svo sem fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á fornum íslenskum skinnhandritum, vinnustofur kennara og fræðimanna, lesaðstaða fyrir nemendur, fyrirlestra- og kennslusalir og bókasafn með lesaðstöðu.
18 ára meðganga
Verkefnið hefur átt sér nokkurn aðdraganda en ákvörðun um framlag til að byggja húsið var tekin á Alþingi árið 2005. Niðurstaða hönnunarsamkeppni um útlit hússins var kynnt árið 2008. Árið 2013 tók þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, og nú forsætisráðherra, fyrstu skóflustunguna á lóðinni við Arngrímsgötu 5 og var síðar ráðist í jarðvinnu á lóðinni. Á árunum 2016-2018 fór síðan fram ítarleg endurskoðun og rýni á hönnun hússins með það fyrir augum að ná fram hagkvæmni í byggingu og rekstri. Ég tók við þessu mikilvæga kefli sem menningarmálaráðherra árið 2017 en í maí 2019 var gengið frá samningum um byggingu þess og hófust framkvæmdir í kjölfarið.
Það er virkilega ánægjulegt að nú, tæpum fjórum árum síðar, sé komið að því að vígja þessa mikilvægu byggingu en það er löngu tímabært að verðugt hús sé reist til að varðveita handritin okkar. Þau eru einar merkustu gersemar þjóðarinnar og geyma sagnaarf sem ekki aðeins er dýrmætur fyrir okkur heldur hluti af bókmenntasögu heimsins. Stjórnvöld eru staðráðin í að viðhalda og miðla þessum menningararfi okkar og kynna börnin okkar fyrir þeim sem og komandi kynslóðir.
Tungumálið í öndvegi
Á undanförnum árum hefur ríkisstjórnin sett íslenskuna í öndvegi með fjölþættum aðgerðum. Þannig nam fjárfesting í málefnum íslenskunnar á síðasta kjörtímabili yfir 10 milljörðum kr. Í núverandi stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna er áfram lögð áhersla á að styðja við íslenska tungu með ýmsu móti. Þegar litið er yfir farinn veg hefur margt áunnist til þess að styðja við tungumálið okkar. Þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi var samþykkt á Alþingi 2019 og var aðgerðaáætlun ýtt úr vör undir heitinu „Áfram íslenska“.
Meginmarkmið hennar var að íslenska væri notuð á öllum sviðum samfélagsins, íslenskukennsla og menntun yrði efld á öllum skólastigum og að framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi yrði tryggð með því að gera tækjunum okkar kleift að eiga í samskiptum okkar á íslensku. Aukinheldur var fjármunum forgangsraðað í að styðja skapandi greinar þar sem íslenska er aðalverkfærið. Bókaútgáfa var efld með nýju stuðningskerfi og hefur fjöldi útgefinna bóka á íslensku aukist mjög. Síðastliðið haust var svo ráðherranefnd um íslenska tungu sett á laggirnar sem ætlað að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu.
Forskot fyrir íslenskuna
Við erum farin að sjá uppskeruna birtast okkur með ýmsum hætti. Langar mig sérstaklega að nefna nýleg stórtíðindi þegar bandaríska tæknifyrirtækið OpenAI kynnti að íslenska hefði verið valin í þróunarfasa fyrir nýjustu útgáfu gervigreindarmállíkansins GPT-4, fyrst allra tungumála fyrir utan ensku. Þetta er stór áfangi fyrir tungumálið okkar en um er að ræða stærsta gervigreindarnet heims sem nú er fínþjálfað til þess að skilja og miðla upplýsingum á íslensku. Var þetta afrakstur ferðar minnar ásamt forseta Íslands og íslenskri sendinefnd þar sem við heimsóttum alþjóðleg tæknifyrirtæki til að tala máli íslenskunnar. Fyrirtækin geta nýtt þær tæknilausnir sem íslensk stjórnvöld hafa fjárfest í á undanförnum árum en um 60 sérfræðingar hafa unnið af miklum metnaði til þess að koma þessum tæknilausnum á koppinn og gera íslenskuna í stakk búna til þess að hægt sé að nýta hana í snjalltækjum.
Fleiri handrit heim
Við eigum að auka veg og virðingu menningararfsins, að sýna handritin, ræða þau og rannsaka. Um 700 handrit eru í vörslu á söfnum í Danmörku, en sáttmáli var gerður um vörslu þeirra árið 1965 milli Íslands og Danmerkur. Ég tel að fleiri íslensk handrit eigi að koma til Íslands frá Danmörku og hef unnið að auknu samstarfi ríkjanna á þessu sviði. Þannig mun Árnasafn við Kaupmannahafnarháskóla taka þátt í nýrri handritasýningu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum með langtímaláni á handritum. Þá ætla löndin tvö að efna til átaks til að styrkja rannsóknir, stafræna endurgerð og miðlun á fornum íslenskum handritum með sérstakri áherslu á að styrkja ungt fræðafólk og doktorsnema.
Hús þjóðar
Á morgun, sumardaginn fyrsta, verður opið hús í Húsi íslenskunnar þar sem gestir geta skoðað bygginguna áður en starfsemi hefst í henni. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna þar sem íslensk tunga verður í aðalhlutverki. Til marks um mikinn áhuga á húsinu bárust tillögur frá 3.400 þátttakendum í nafnasamkeppni fyrir húsið. Ég vil þakka öllum þeim stóra og fjölbreytta hópi sem hefur komið að þessu verkefni í gegnum tíðina og ég óska íslensku þjóðinni til hamingju með húsið sitt – en af því getum við öll verið stolt. Með tilkomu þess verður menningararfi okkar tryggt gott og öruggt þak yfir höfuðið og tungumálinu okkar fært það langþráða lögheimili sem það á svo sannarlega skilið.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. apríl 2023.
Á undanförnum árum hafa stjórnvöld fjárfest myndarlega í ýmsum innviðum tengdri ferðaþjónustu í gegnum Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Á tíu árum hafa 849 verkefni hlotið styrk úr sjóðnum og í gær kynnti ég nýjustu úthlutun sjóðsins, að upphæð 550 m.kr. Verkefnin sem hljóta styrk eru að vanda afar fjölbreytt en hverfast öll um öryggi ferðamanna, bætt aðgengi, bætta innviði, náttúruvernd og sjálfbærni. Styrkirnir fara til verkefna hringinn í kringum landið, stórra sem smárra, sem öll skipta máli. Uppbyggingin er grundvölluð á heildarsýn fyrir hvern landshluta og áfangastaðaáætlanir.
101 umsókn barst í sjóðinn í þetta skipti sem sýnir fram á þá miklu hugmyndaauðgi og kraft sem býr í íslenskri ferðaþjónustu og þann metnað sem heimamenn í hverjum landshluta fyrir sig hafa til þess að byggja upp góða áfangastaði. Margir Íslendingar urðu þess einmitt áskynja þegar þeir ferðuðust mikið um eigið land á tímum heimsfaraldursins. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur skipt sköpum við að styðja við uppbyggingu góðra áfangastaða. Sem dæmi um nokkur vel heppnuð verkefni eru uppbygging „svífandi“ sjálfberandi göngustíga úr áli í Hveradölum sem lágmarka snertingu við jörðina og hlífa þannig hinu viðkvæma hverasvæði sem er vinsæll áfangastaður ferðamanna. Útsýnispallurinn á Bolafjalli er annað frábært verkefni sem vert er að nefna, en pallurinn hangir utan í þverhníptum stórstuðluðum klettum með stórbrotið útsýni yfir Ísafjarðardjúp, inn Jökulfirði og út yfir sjóndeildarhring í átt til Grænlands. Innviðauppbygging við Goðafoss er einnig dæmi um vel heppnað verkefni þar sem hugað er að öryggi og náttúruvernd með ráðgjöf fagfólks.
Í úthlutun gærdagsins fengu 28 verkefni í öllum landshlutum styrk. Hæsta styrkinn að þessu sinni, 158 m.kr., fékk verkefnið Baugur Bjólfs á Seyðisfirði, en um er að ræða hringlaga útsýnispall sem situr á fjallsbrún með einstöku útsýni yfir Seyðisfjörð. Þá hlaut Stuðlagil næsthæsta styrkinn, að upphæð 81 m.kr., til að stuðla að auknu öryggi og náttúruvernd við þennan afar vinsæla ferðamannastað. Þá fékk útsýnispallur við Reynisfjall 72 m.kr. styrk sem eykur öryggi þeirra sem ferðast um hlíðar fjallsins.
Ferðaþjónustan hefur á tiltölulega skömmum tíma orðið einn af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar, og getur skapað miklar gjaldeyristekjur á tiltölulega skömmum tíma. Við þurfum því að halda áfram að treysta þá innviði sem nauðsynlegir eru til þess að taka vel á móti þeim ferðamönnum sem hingað koma. Styrkur úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða stuðlar að bættri upplifun og aðgengi ferðamanna, meira öryggi og við styðjum við viðkvæma náttúru landsins. Með þessu stuðlum við að sjálfbærni og tryggjum framtíð svæðanna sem áfangastaða um ókomna tíð.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. apríl 2023.
This website uses cookies to improve your experience while you navigate through the website. Out of these cookies, the cookies that are categorized as necessary are stored on your browser as they are essential for the working of basic functionalities of the website. We also use third-party cookies that help us analyze and understand how you use this website. These cookies will be stored in your browser only with your consent. You also have the option to opt-out of these cookies. But opting out of some of these cookies may have an effect on your browsing experience.
Necessary cookies are absolutely essential for the website to function properly. This category only includes cookies that ensures basic functionalities and security features of the website. These cookies do not store any personal information.
Any cookies that may not be particularly necessary for the website to function and is used specifically to collect user personal data via analytics, ads, other embedded contents are termed as non-necessary cookies. It is mandatory to procure user consent prior to running these cookies on your website.