Það munar um ferðaþjónustuna. Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu ársins 2022 nemur 7,8% og útgjöld erlendra ferðamanna námu 390,4 milljörðum króna og er áætlað að rúmlega 18 þúsund einstaklingar hafi starfað við ferðaþjónustu í fyrra. Það gefur augaleið að fyrir lítið opið hagkerfi er nauðsynlegt að hafa öflugar útflutningsstoðir eins og ferðaþjónustuna. Eftir mikinn samdrátt er ferðaþjónustan aftur orðin sú atvinnugrein sem skapar mestan erlendan gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Síðustu fjóra ársfjórðunga skilaði greinin 411 milljörðum króna í útflutningstekjur eða tæpum fjórðungi heildarútflutningstekna þjóðarbúsins. Það gerir greinina að stærstu gjaldeyrisskapandi atvinnugrein landsins.
Ferðaþjónustan er ein árangursríkasta byggðaaðgerð Íslandssögunnar – sjálfsprottin atvinnuuppbygging um allt land. Á árunum 2009-2019 skapaði ferðaþjónusta að jafnaði 500 ný störf á ári á landsbyggðinni. Það er gríðarlega mikilvægt að þessi þróun tapist ekki. Ferðaþjónustan hefur einnig átt stóran þátt í að auka lífsgæði okkar með ríkulegra mannlífi, nýstárlegu framboði af afþreyingu og góðum mat og gefið Íslendingum tækifæri til að víkka út tengslanet sín svo dæmi séu tekin. Sá aukni áhugi á Íslandi sem fylgir ferðaþjónustunni hefur einnig aukið skilning landsmanna á eigin landi – og varpað ljósi á hversu sérstakt það er fyrir margra hluta sakir. Það er ánægjulegt að geta tekið á móti fjölda gesta og deilt með þeim náttúru okkar, sögu og menningu. Það er mikilvægt að ferðaþjónustan fái svigrúm og tækifæri til að vaxa enn frekar en markmiðið er sjálfbær uppbygging ferðaþjónustu til lengri tíma í sátt við náttúruna og menn, sem áframhaldandi lykilstoð í okkar efnahagslífi. Samhliða endurreisn ferðaþjónustunnar hefur fyrirkomulag gjaldtöku í greininni verið skoðað með það að markmiði breikka skattstofninn og tryggja jafnræði aðila á markaði, meðal annars fyrirkomulag gistináttagjalds í samvinnu við ferðaþjónustuna og sveitarfélögin með það að markmiði að sveitarfélögin njóti góðs af gjaldtökunni.
Ýmsir í samfélaginu hafa talið að allt það sem ferðaþjónustan leggur til samfélagslegrar uppbyggingar sé ekki umtalsvert og líta svo á að vasar atvinnugreinarinnar séu óþrjótandi. Þeir hinir sömu eru jafnvel tilbúnir að stíga skref sem ógna samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar og átta sig ekki á hinni þjóðhagslegu heildarmynd. Það er útilokað í mínum huga að samþykkja tillögur um aukna gjaldheimtu eins og OECD leggur til í nýrri skýrslu, séu þær þess eðlis að þær stefni í hættu samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. júní 2023.
Það var framsýnt og þýðingarmikið skref sem Alþingi Íslendinga steig fyrir 79 árum, þegar tekin var ákvörðun um stofnun lýðveldisins Íslands. Þar með lauk baráttu þjóðarinnar fyrir fullu frelsi og nýr kafli í sögu hennar hófst. Það er enn rík ástæða til þess að fagna þessum tímamótum. Við fögnum þessum áfanga í dag en hverjum þjóðhátíðardegi má líkja við vörðu á vegferð frelsis og framfara til þess að gera íslenskt þjóðfélag betra í dag en það var í gær.
Saga framfara
Sumum þótti það svaðilför og fjarstæðukennt á sínum tíma að þjóð sem taldi innan við 130 þúsund manns í svo stóru og víðfeðmu landi gæti dafnað og vaxið sem sjálfstæð þjóð. Þegar litið er yfir tímabilið frá lýðveldistöku þá er niðurstaðan skýr og ótvíræð. Íslendingum hefur farnast vel við að reisa þróttmikið og öflugt samfélag sem þykir einkar farsælt til búsetu. Allar götur frá lýðveldisstofnun hafa alþjóðatengingar verið sterkar og þjóðartekjur á hvern íbúa eru með þeim mestu í veröldinni og lífskjör mjög góð í alþjóðlegum samanburði. Staða Íslands er sterk í sögulegu samhengi þegar flestir velsældarmælikvarðar eru kannaðir og skapandi greinar blómastra. Slíkur árangur er ekki sjálfgefinn heldur liggur að baki þrotlaus vinna kynslóðanna sem byggt hefur landið.
Ábyrgð stjórnmálanna
Stjórnmálamönnum hvers tíma er falin mikil ábyrgð að halda á því fjöreggi sem stjórn landsins er. Hermann Jónasson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, komst vel að orði í blaðagrein sinni Lýðveldið og framtíðin í 17. júní útgáfu Tímans árið 1944. Þar ritar Hermann; „Í stað baráttunnar fyrir því að öðlast sjálfstæðið, hefst ný barátta því til varnar. Það er sá þáttur, sem nú er að hefjast. Það verður meginhlutverk okkar, er nú lifum, – að tryggja hinu fengna frelsi öruggan, efnalegan og menningarlegan grundvöll og skila því síðan óskertu til óborinna kynslóða“. Þetta eru orð að sönnu sem ávallt eiga erindi við stjórnmálin. Að undanförnu höfum við verið minnt á að frjáls samfélagsgerð er ekki sjálfgefin, meðal annars með ófyrirleitinni og ólöglegri innrás Rússlands í Úkraínu. Árásin vekur upp ófriðardrauga fortíðar frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og kalda stríðsins. Þessi ógnvekjandi atburðarás alþjóðamálanna hefur sýnt enn frekar fram á mikilvægi breiðrar samvinnu þjóða til að rækta þau grunngildi sem mestu máli skipta: Frelsi, lýðræði og mannréttindi.
Aðalsmerki þjóðarinnar
Tveir af hornsteinum lýðræðissamfélagsins eru frjálsar kosningar og öflugir fjölmiðlar. Það er engum vafa undirorpið að öflugir fjölmiðlar skiptu sköpum í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Miðlun frétta á þjóðtungunni okkar, íslensku, var ein helsta röksemd þess að Íslendingar væru sérstök þjóð og að sjálfstæðiskröfur okkar væru réttmætar. Vék Hermann Jónasson einnig að þessu í fyrrnefndri þjóðhátíðarútgáfu Tímans árið 1944: „Eitt er víst. Blaðakostur á Íslandi er tiltölulega sterkur. Hann mótar móðurmálið okkar, sem er aðalsmerki þjóðarinnar og grundvallarréttur hennar til sjálfstæðis. Það eru og blöðin sem ráða langmestu um góðvilja milli manna og flokka. Blöðin ráða miklu um það, hvaða stefnu áhugamál almennings taka. Þau hafa eins, eins og nú er komið, mikil áhrif á hugsanir alls almennings, móta þær eða setja á þær sinn blæ viðkomandi mönnum og málefnum. Þau eru skóli og uppeldisstofnun þjóðar – góður eða vondur.“ Það er áhugavert að lesa þessi orð Hermanns, 79 árum eftir að hann ritaði þau, og heimfæra upp á samtímann þar sem örar tæknibreytingar, eins og í gervigreind, hafa leitt af sér stórar áskoranir fyrir fjölmiðla hér á landi sem og tungumálið okkar.
Stærsta samvinnuverkefni okkar kynslóða
Það er mikilvægt fyrir grundvöll lýðræðisins að takast á við slíkar áskoranir af festu. Hermann Jónasson gerði sér grein fyrir nauðsyn þess að sjá fyrir hættur og takast á við þær frá fyrsta degi. Með það fyrir augum ritaði hann eftirfarandi: „Það er ekki vandalaust svo fámennri þjóð að vernda sjálfstæði sitt og lifa menningarlífi sem sjálfstæð þjóð. Þessum vanda viljum við gera okkur grein fyrir þegar í upphafi. Hætturnar hverfa því aðeins að menn sjái þær nógu snemma til að afstýra þeim.“ Í þessum anda hafa þýðingarmikil skref verið tekin á undanförnum árum til þess að styðja við ritstýrða einkarekna fjölmiðla til þess að gera þá betur í stakk búna til þess að takast á við hið breytta landslag, sinna lýðræðislegu hlutverki sínu og miðla efni á íslenskri tungu. Fjölmiðlastefna og aðgerðir henni tengdar verða kynntar í haust. Að sama skapi hefur íslensk tunga verið sett í öndvegi með margháttuðum aðgerðum til þess að snúa vörn í sókn í hennar nafni, meðal annars með máltækniáætlun stjórnvalda sem stuðlar að því að íslenskan verði gerð gjaldgeng í heimi tækninnar. Viðhald og vöxtur íslenskunnar er umfangsmikið verkefni sem er mikilvægt að heppnist vel. Ljóst er að það er ekki á færi örfárra einstaklinga að vinna slíkt verk, heldur er um að ræða helsta samvinnuverkefni okkar kynslóða. Það er mikilvægt að vel takist til enda geymir íslensk tunga sjálfsmynd okkar sem þjóðar og er undirstaða lýðræðislegrar umræðu hér á landi.
Lærdómar forfeðranna
Tilkoma lýðveldisins fyrir 79 árum síðan var heilladrjúgt skref og aflvaki framfara. Sú staðreynd, að við getum fjölmennt í hátíðarskapi til þess að fagna þessum merka áfanga í sögu þjóðarinnar, er ekki sjálfsögð. Það baráttuþrek, sú þrautseigja og bjartsýni á framtíð Íslands, sem endurspeglaðist í orðum og gjörðum forfeðra okkar í sjálfstæðisbaráttunni, geymir mikilvæga lærdóma. Þar voru öflugir fjölmiðlarnir og þjóðtungan í lykilhlutverki. Með samvinnuna að leiðarljósi ætlum við í Framsókn að halda áfram að leggja okkar af mörkum til þess að treysta stoðir Íslands, líkt og flokkurinn hefur gert í tæp 107 ár, enda skiptir lýðveldið og framtíðin okkur öll miklu máli. Við óskum landsmönnum öllum gleðilegrar þjóðhátíðar.
Sigurður Ingi Jóhannsson, Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. júní 2023.
Íslenskan er ein dýrmætasta auðlind þjóðarinnar. Fjárfest hefur verið í henni í yfir 1.000 ár og perlur heimsbókmenntanna ritaðar á íslensku.
Stjórnvöld hafa sett málefni íslenskrar tungu á oddinn á undanförnum árum með margháttuðum aðgerðum. Það að vinna að framgangi íslenskunnar og tryggja stöðu hennar í heimi örra tæknibreytinga og fólksflutninga er verkefni sem þarf að sinna af kostgæfni og atorku. Í vikunni var ný aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu sett í Samráðsgátt stjórnvalda til kynningar og umsagnar.
Alls er um að ræða 18 aðgerðir sem mótaðar eru í samstarfi fimm ráðuneyta, en markmið þeirra er að forgangsraða verkefnum stjórnvalda árin 2023-2026 þegar kemur að verndun og þróun tungumálsins. Hefur meðal annars verið unnið að þeim á vettvangi ráðherranefndar um íslenska tungu sem sett var á laggirnar í nóvember 2022 að tillögu forsætisráðherra. Hlutverk nefndarinnar er að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast.
Hin nýja aðgerðaáætlun kallast á við áherslur stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þar sem lögð er rík áhersla á að styðja við íslenska tungu. Börn og ungmenni skipa sérstakan sess og stuðningur við börn af erlendum uppruna verður aukinn. Þá á áfram að vinna að því að styrkja stöðu íslenskunnar í stafrænum heimi með áherslu á máltækni.
Ýmsar lykilaðgerðir í áætluninni undirstrika þetta en þær eru meðal annars: starfstengt íslenskunám fyrir innflytjendur samhliða vinnu, aukin gæði íslenskukennslu fyrir innflytjendur, innleiðing rafrænna stöðuprófa í íslensku, sameiginlegt fjarnám í hagnýtri íslensku sem öðru máli og íslenska handa öllum.
Nýmæli eru að gerðar verði kröfur um að innflytjendur öðlist grunnfærni í íslensku og hvatar til þess efldir. Ásamt því verður íslenskuhæfni starfsfólks í leik- og grunnskólum og frístundastarfi efld. Að sama skapi verður gerð íslenskuvefgátt fyrir miðlun rafræns námsefnis fyrir öll skólastig, samræmt verklag um móttöku, kennslu og þjónustu við börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn með sérstakri áherslu á íslensku sem annað mál, og reglulegar mælingar á viðhorfi til tungumálsins.
Við þurfum mikla viðhorfsbreytingu gagnvart tungumálinu okkar. Íslenskan er fjöregg okkar og andleg eign. Tungumálið er ríkur þáttur í sjálfsmynd okkar, tjáningu og söguskilningi. Með nýrri aðgerðaáætlun skerpum við á forgangsröðun í þágu íslenskrar tungu. Ég hvet alla til þess að kynna sér málið í samráðsgáttinni.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. júní 2023.
Alvarlegur heimsfaraldur er að baki, en hagkerfið á Íslandi náði að rétta út kútnum á skemmri tíma en nokkur þorði að vona og það er áfram góður gangur í efnahagskerfinu. Hér er mikill hagvöxtur og hátt atvinnustig, en hins vegar læddist inn óvelkominn gestur í formi verðbólgu. Stærsta verkefni hagstjórnarinnar er að ná tökum á henni. Þetta er verkefni númer eitt, tvö og þrjú. Mestu máli skiptir fyrir samfélagið okkar að verðbólgan lækki.
Sögulega skaðleg áhrif verðbólgu
Áhrif mikillar verðbólgu eru neikvæð, kaupmáttur launa dvínar og verðskyn dofnar. Íslendingar þurfa ekki að leita langt aftur í tímann til að rifja upp afleiðingar þess að þjóðfélagið missti tök á verðbólgunni. Fyrir fjörutíu árum mældist verðbólga á 12 mánaða tímabili um 100% með tilheyrandi gengisfellingum og óróa í samfélaginu. Tveimur árum áður, árið 1981, höfðu farið fram gjaldmiðilsskipti þar sem verðgildi krónunnar var hundraðfaldað og ný mynt og seðlar kynnt til sögunnar. Á þessum tíma horfði almenningur upp á virði þessarar nýju myntar hverfa hratt. Ég get fullyrt að enginn sem man þá tíma vill hverfa þangað aftur. Sama ástand er ekki upp á teningnum núna, en við verðum hins vegar að taka á verðbólguvæntingum til að vernda heimilin. Verðbólgan mældist 9,5% í síðasta mánuði. Ég er sannfærð um að með aðgerðum Seðlabanka Íslands og stjórnvalda muni draga úr verðbólgunni. Peningamálin og fjármál hins opinbera eru farin að vinna betur saman. Það styður einnig við þessi markmið að ríkisfjármálin eru þannig hönnuð að þau búa yfir sjálfvirkri sveiflujöfnun og grípa þennan mikla hagvöxt eins og sjá má í auknum tekjum ríkissjóðs og vinna þannig á móti hagsveiflunni og styðja við baráttuna við verðbólguna. Útflutningsatvinnuvegirnir hafa staðið sig vel og krónan hefur verið stöðug og með hjaðnandi verðbólgu erlendis ætti að nást jafnvægi og við getum smám saman kvatt þennan óvelkomna gest.
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar styðja við lækkun verðbólgu
Eitt helsta markmið ríkisstjórnarinnar er að auka velsæld og ná tökum á verðbólgunni. Þess vegna hefur verið lagt fram frumvarp þar sem lagt er til að lögum verði breytt þannig að laun þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna ríkisins hækki um 2,5% í stað 6% hinn 1. júlí nk. Þannig verði tryggt að laun æðstu embættismanna skapi ekki aukinn verðbólguþrýsting, enda miðar breytingin við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Þessi aðgerð er mjög mikilvæg til að vinna gegn háum verðbólguvæntingum. Til að treysta enn frekar sjálfbærar verðbólguvæntingar hefur verið ákveðið að flýta gildistöku fjármálareglunnar, sem þýðir að hámark skulda ríkissjóðs getur ekki verið meira en 30% og að sama skapi þarf að vera jákvæður heildarjöfnuður á hverju fimm ára tímabili. Skuldastaða ríkissjóðs Íslands hefur verið að þróast í rétta átt, skuldir ríkissjóðs eru ekki miklar í samanburði við aðrar þjóðir og er það mikilvægt fyrir lánshæfið að svo verði áfram.
Auk þessa er verið að bæta afkomu ríkissjóðs um 36,2 milljarða króna á næsta ári með sparnaði í rekstri ríkisins, þar með talið niðurskurði í ferðakostnaði, frestun framkvæmda, nýjum tekjum og með því að draga úr þensluhvetjandi skattaívilnunum. Tekjur ríkissjóðs eru einnig rúmlega 90 milljörðum meiri en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Vegna þessa tekjuauka er aðhaldsstigið að aukast. Í þessu felst meðal annars að framkvæmdum fyrir um 3,6 milljarða króna er frestað til að draga úr þenslu. Sökum skaðlegra áhrifa mikillar verðbólgu á okkar viðkvæmustu hópa ákvað ríkisstjórnin að verja kaupmátt örorku- og ellilífeyrisþega og því hefur lífeyrir almannatrygginga verið hækkaður um tæp 10% frá upphafi árs. Einnig hefur frítekjumark húsnæðisbóta leigjenda verið hækkað um 10%. Þessar aðgerðir eru afar mikilvægar til að verja kaupmátt þeirra sem standa verst.
Mikilvægi ríkisfjármála í væntingastjórnun
Eitt það markverðasta sem fram hefur komið á vettvangi hagfræðinnar á þessu ári er bók hagfræðingsins Johns F. Cochranes, en í nýútgefinni bók sinni Ríkisfjármálakenningin og verðlag (e. Fiscal Theory and the Price Level) beinir hann spjótum sínum að verðbólguvæntingum á sviði ríkisfjármála. Kjarni ríkisfjármálakenningarinnar er að verðlag ráðist af stefnu stjórnvalda í opinberum fjármálum. Samkvæmt þessari kenningu hefur ríkisfjármálastefna, þar með talið útgjalda- og skattastefna, bein áhrif á verðlagið. Minni halli á ríkisrekstri ætti að leiða til lægra raunvaxtastigs sem ætti síðan að ýta undir meiri fjárfestingar. Þar með verða til auknar fjármagnstekjur, sem myndast við meiri fjárfestingu, sem er ein helsta uppspretta framleiðni vinnuafls. Þetta skapar svo grunninn að hærri raunlaunum og þannig má segja að minni fjárlagahalli sé óbein leið til að auka raunlaun og bæta lífskjör. Staðreyndin er sú að ef ríkissjóður er rekinn með halla, þá þarf hann að fjármagna þann halla með útgáfu nýrra skuldabréfa. Þannig eykst framboð ríkisskuldabréfa á markaði, sem aftur lækkar verð þeirra og leiðir til þess að vextir hækka. Eitt skýrasta dæmið um að tiltekt í ríkisfjármálum og trúverðug stefna hafi skilað vaxtalækkun var að finna í forsetatíð Bills Clintons, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum undanfarna mánuði vinna einmitt að því að styðja við lækkun vaxta og hefur ávöxtun ríkisskuldabréfa verið á niðurleið.
Framboðshlið hagkerfisins
Ég hef áður ritað um að meira þurfi að gera á framboðshliðinni í hagkerfinu til að koma til móts við eftirspurnina til að milda högg aðhaldsaðgerða og leysa úr læðingi krafta í hagkerfinu. Það má gera með aðgerðum í húsnæðismálum og aðgerðum á atvinnumarkaðnum, t.d. gera auðveldra að fá sérfræðinga til landsins og með því að hækka aldur þeirra sem vilja vinna. Það má einnig liðka til frekar í almannatryggingakerfinu til að fá fólk frekar út á atvinnumarkaðinn, en ríkisstjórnin hefur verið að framkvæma ýmislegt í þessa veru á undanförnum mánuðum.
Jákvæð teikn á lofti í baráttunni gegn verðbólgu
Hagvöxtur árið 2022 mældist 6,4% og hefur ekki verið meiri en síðan 2007 og Seðlabankinn spáir nærri 5% hagvexti á þessu ári. Þessi mikil þróttur í hagkerfinu er jákvæður en verðbólgan er enn of há. Hagvöxturinn var knúinn áfram af miklum vexti innlendrar eftirspurnar en hún óx á síðasta ári um 8,6%. Allt bendir til þess að það hægist á vexti einkaneyslu, meðal annars vegna versnandi aðgengis heimila og fyrirtækja að lánsfé. Teikn eru á lofti um að það sé að raungerast, þar sem einkaneysla jókst hóflega á fyrsta ársfjórðungi eða um 2,5%. Að sama skapi hefur atvinnuvegafjárfesting dregist saman um 14%. Að lokum má nefna að kortavelta hefur dregist saman að raunvirði og er það í fyrsta sinn í langan tíma. Það er jafnframt mikilvægt að halda því til haga að gengi krónunnar hefur verið stöðugt og heldur að styrkjast. Það er meðal annars vegna öflugra útflutningsgreina og ekki síst vegna ferðaþjónustunnar. Af þeim sökum ætti hjöðnun verðbólgu á erlendum mörkuðum að skila sér beint inn í íslenska hagkerfið. Mikilvægt er að allir taki höndum saman um að svo verði.
Lokaorð
Verðbólgan er mesti vandinn sem stjórnvöld standa frammi fyrir og mikilvægt er að ná niður verðbólguvæntingum. Ólíkt því sem áður gerðist er Ísland hins vegar ekki eyland þegar kemur að verðbólgu um þessar mundir. Verðbólgan í Evrópu er á bilinu 3-24%, en það eru ákveðin merki um að verðbólga fari hjaðnandi erlendis þótt langt sé í að ástandið verði aftur ásættanlegt. Það sem skilur Ísland frá öðrum þróaðri hagkerfum er þessi mikli þróttur sem er í hagkerfinu og gerir hann hagstjórn að sumu leyti flóknari. Ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafa tekið höndum saman um að taka á þessum vanda með þeim tækjum sem þau ráða yfir. Einn liður í því að er vextir endurspegli verðbólguna. Það er ljóst að Seðlabanki Íslands hefur farið mjög bratt í hækkun vaxta og var m.a. fyrsti bankinn til að hækka vexti á Vesturlöndum. Það má færa rök fyrir því að seðlabankar beggja vegna Atlantsála hafi haldið vöxtum of lágum of lengi. Christine Lagarde lýsti því yfir við síðustu vaxtahækkun hjá ECB að bankinn væri hvergi nærri hættur vaxtahækkunum. Í Bandaríkjunum hafa vextir náð verðbólgunni. Hér er það sama að gerast og eru vextir Seðlabankans mjög nærri verðbólgunni. Með því hefur ákveðnum tímamótum verið náð. Það er sannfæring mín að aðgerðir í ríkisfjármálum muni leggja sitt lóð á vogarskálarnar í baráttunni við verðbólguna.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. júní 2023.
Hér áður fyrr stóð ytri staða þjóðarbúsins oft og tíðum tæpt, þar til straumhvörf á viðskiptajöfnuðinum áttu sér stað fyrir rúmlega tíu árum með tilkomu sterkrar ferðaþjónustu hér á landi. Fyrir lítið opið hagkerfi er nauðsynlegt að hafa styrkar útflutningsstoðir. Viðskiptaafgangurinn vegna ferðaþjónustunnar hefur einnig gert lífeyrissjóðum kleift að dreifa sparnaði félaga og byggja myndarlega sjóði erlendis. Á tímum kórónuveirunnar kom glöggt í ljós hversu hagfellt var að vera með gjaldeyrisforða sem gat jafnað mestu sveiflur.
Það skiptir miklu máli að skapa ferðaþjónustunni, stærstu gjaldeyrisskapandi atvinnugrein landsins, hagfelld skilyrði til þess að vaxa og dafna með sjálfbærum hætti, með það fyrir augum að skapa aukin verðmæti og lífsgæði fyrir íslenskt samfélag.
Eitt helsta forgangsverkefnið í nýju menningar- og viðskiptaráðuneyti er að móta nýja og öfluga aðgerðaáætlun á sviði ferðamála á grunni Framtíðarsýnar og leiðarljóss íslenskrar ferðaþjónustu til 2030. Undirbúningur þeirrar vinnu hefur staðið yfir af fullum þunga innan ráðuneytisins en í vikunni skipaði ég sjö starfshópa, sem hver og einn er skipaður 6-8 sérfróðum aðilum, og verður þeim falið að vinna tillögur að aðgerðum en miðað er við að þeir skili drögum að aðgerðum fyrir 1. október næstkomandi og lokatillögum fyrir 15. desember 2023. Hóparnir ná utan um sjálfbærni og orkuskipti, samkeppnishæfni og verðmætasköpun, rannsóknir og nýsköpun, uppbyggingu áfangastaða, hæfni og gæði, heilsu-, veitinga- og hvataferðaþjónustu og svo menningartengda ferðaþjónustu. Stefni ég að því að leggja fram nýja ferðamálastefnu til ársins 2030 ásamt aðgerðaáætlun fyrir vorþing 2024, eins og kom fram í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í mars.
Framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu er að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni efnahagslegs og samfélagslegs jafnvægis. Í því felst að ferðaþjónustan sé arðsöm og samkeppnishæf, í sátt við náttúru, íslenska menningu og tungu. Þjóðríki sem hafa miklar útflutningstekjur, stöndugan gjaldeyrisforða og góðan innlendan sparnað eru í mun sterkari stöðu til að kljást við óvænt ytri áföll og njóta betri lánskjara á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Þar mun ferðaþjónustan skipta lykilmáli til framtíðar og því er gríðarlega mikilvægt að styrkja umgjörð hennar enn frekar til framtíðar, með skýrum aðgerðum til að hrinda til framkvæmda.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. júní 2023.
Nýverið samþykkti Alþingi tillögur mínar til þingsályktanir um myndlistarstefnu og tónlistarstefnu til ársins 2030 ásamt því að samþykkja frumvarp um fyrstu heildarlöggjöf um tónlist á Íslandi. Markmiðið er skýrt; að efla umgjörð þessara listgreina til framtíðar.
Með myndlistarstefnunni er sett framtíðarsýn myndlistarumhverfisins til ársins 2030 með meginmarkmiðum um að á Íslandi ríki kraftmikil myndlistarmenning, að stuðningskerfi myndlistar á Íslandi verði einfalt og skilvirkt, að íslensk myndlist verði sýnileg og vaxandi atvinnugrein og að íslensk myndlist skipi alþjóðlegan sess.
Lagðar eru til markvissar aðgerðir til að einfalda en að sama skapi styrkja stofnana- og stuðningskerfi myndlistar og hlúa markvissar en áður að innviðum atvinnulífs myndlistar. Með því má bæta samkeppnishæfni fyrirtækja og efla útflutning og markaðssetningu á íslenskri myndlist.
Ný tónlistarstefna og heildarlöggjöf um tónlist er af sama meiði; að efla umgjörð tónlistarlífsins á Íslandi. Með lögunum hillir undir nýja Tónlistarmiðstöð sem stofnuð verður í ár og er ætlað að sinna uppbyggingu og stuðningi við hvers konar tónlistarstarfsemi sem og útflutningsverkefni allra tónlistargreina. Þar að auki mun miðstöðin sinna skráningu, umsýslu og miðlun íslenskra tónverka. Með stofnun Tónlistarmiðstöðvar er stigið stórt skref í áttina að því að veita listgreininni aukið vægi og til að greiða leið íslensks tónlistarfólks, innan lands sem utan. Nýr og stærri Tónlistarsjóður verður einnig að veruleika. Mun hann sameina þrjá sjóði sem fyrir eru á sviði tónlistar. Lykilhlutverk hans verður að efla íslenska tónlist, hljóðritagerð og þróunarstarf í tónlistariðnaði. Með tilkomu sjóðsins verður styrkjaumhverfi tónlistar einfaldað til muna og skilvirkni og slagkraftur aukin verulega!
Í lögunum er sömuleiðis að finna ákvæði um sérstakt tónlistarráð sem verður stjórnvöldum og tónlistarmiðstöð til ráðgjafar um málefni tónlistar. Tónlistarráði er ætlað að vera öflugur samráðsvettvangur milli stjórnvalda, Tónlistarmiðstöðvar og tónlistargeirans enda felst í því mikill styrkur að ólík og fjölbreytt sjónarmið komi fram við alla stefnumótunarvinnu á sviði tónlistar.
Ofangreint mun skipta miklu máli til að styðja enn frekar við menningu og skapandi greinar á landinu og styðja vöxt þeirra sem atvinnugreina. Til marks um umfang þeirra þá birti Hagstofan nýverið uppfærða Menningarvísa í annað sinn. Samkvæmt þeim voru rekstrartekjur í menningu og skapandi greinum rúmlega 126 milljarðar króna árið 2021 og hækkuðu um 5,6% frá fyrra ári. Þá starfa um 15.400 einstaklingar á aldrinum 16-74 við menningu, eða um 7,3% af heildarfjölda starfandi, samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar.
Ég er staðráðin í því að halda áfram að tryggja undirstöður þessara greina þannig að þær skapi aukin lífsgæði og verðmæti fyrir íslenskt samfélag til framtíðar. Ég vil einnig þakka þeim kraftmikla hópi fólks úr grasrótinni sem kom að fyrrnefndri stefnumótun, framlag þess skipti verulegu máli.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. maí 2023.
Mikilvægt skref fyrir menningu og skapandi greinar var tekið í vikunni á Alþingi Íslendinga er þingmenn samþykktu tillögu mína til þingsályktunar um myndlistarstefnu til ársins 2023. Stefnan hefur verið lengi í farvatninu og því sérlega jákvætt að hún sé komin í höfn.
Myndlistarstefnunni er ætlað að efla myndlistarmenningu landsins ásamt því að stuðla að aukinni þekkingu og áhuga almennings á myndlist. Í henni birtist framtíðarsýn myndlistarumhverfisins til ársins 2030 með meginmarkmiðum um að á Íslandi ríki kraftmikil og andrík myndlistarmenning, stuðningskerfi myndlistar á Íslandi verði einfalt og skilvirkt og að íslensk myndlist verði sýnileg og vaxandi atvinnugrein. Er einnig fjallað sérstaklega um að íslensk myndlist skipi alþjóðlegan sess.
Hvert og eitt þessara markmiða skal stuðla að umbótum og jákvæðum breytingum svo framtíðarsýn stefnunnar geti orðið að veruleika.
Stefnunni fylgir aðgerðaáætlun í 16 liðum, en aðgerðirnar verða endurskoðaðar árlega í tengslum við gerð fjármálaáætlunar og fjárlaga til að greiða götu nýrra verkefna og efla myndlistarstarfsemi hér á landi enn frekar næsta áratug. Menningar- og viðskiptaráðuneyti mun fylgjast með framvindu aðgerða og birta upplýsingar þar að lútandi með reglubundnum hætti. Má þar til dæmis nefna aukið aðgengi að Listasafni Íslands, átaksverkefni í kynningu myndlistar gagnvart almenningi, stofnun Myndlistarmiðstöðvar sem taki við hlutverki Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar og fái víðtækara hlutverk, endurskoðun á skattaumhverfi myndlistar og áfram verði unnið að krafti að alþjóðlegu samstarfi á sviði myndlistar.
Myndlistarlíf á Íslandi er í miklum blóma og fram undan er tilefni til að beina sjónum að frekari tækifærum til vaxtar. Ný myndlistarstefna til ársins 2030 er leiðarljósið á þeirri vegferð. Sköpun íslenskra listamanna hefur um langan tíma fangað athygli fólks hér á landi sem og erlendis. Árangurinn birtist í fleiri tækifærum íslenskra listamanna til þátttöku í kraftmikilli safnastarfsemi og vönduðum sýningum um allt land. Einnig endurspeglast árangurinn í þátttöku á virtum alþjóðlegum viðburðum og sýningum. Eftirspurn eftir kaupum á íslenskum listaverkum er umtalsverð. Sífellt fleiri listaverk spretta úr íslenskum veruleika eða af sköpun íslenskra listamanna og fanga athygli fólks hér á landi og erlendis.
Ég vil óska myndlistarsamfélaginu á Íslandi til hamingju með þennan áfanga og vil þakka þeim öfluga hópi fólks sem kom að gerð stefnunnar fyrir vel unnin störf. Ég er staðráðin í því að halda áfram að vinna með hagaðilum að því að tryggja undirstöður menningar og skapandi greina þannig að þær skapi aukin lífsgæði og verðmæti fyrir íslenskt samfélag til framtíðar – ný sókn í þágu myndlistarinnar er hluti af því verkefni.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. maí 2023.
Væntingar um traust ríkisfjármál vinna á verðbólgu
Opinber fjármál hafa verið mikið í umræðunni í tengslum við þróun verðbólgu. Innan hagfræðinnar eru ýmsar kenningar uppi um hvaða þættir efnahagskerfisins hafi mest áhrif á þróun verðlags og eru um það skiptar skoðanir. Meginorsakirnar liggja víða í hagkerfinu og því þarf enn sterkara samspil peningamála, fjármála hins opinbera og vinnumarkaðarins til að ná tökum á verðbólgunni.
Ljóst er að Covid-19 aðgerðir bæði í peningamálum og ríkisfjármálum, áhrif framleiðsluhnökra í alþjóðahagkerfinu og stríðið í Úkraínu hafa haft mikil áhrif á verðbólgu síðasta árs. Hins vegar sjáum við að áhrif stríðsins fara dvínandi á verðbólgu, þar sem hækkanirnar hafa þegar komið fram. Í stjórnmálaumræðunni er kastljósið er í auknum mæli að beinast að þætti opinberra fjármála. Því er við hæfi að fara yfir nýlega kenningu hagfræðingsins John F. Cochrane en í nýútgefinni bók sinni Fiscal Theory and the Price Level beinir hann spjótum sínum að verðbólguvæntingum á sviði ríkisfjármála.
Ríkisfjármálakenningin og verðbólga
Kjarni ríkisfjármálakenningarinnar er að verðlag ráðist af stefnu stjórnvalda í opinberum fjármálum. Samkvæmt þessari kenningu hefur ríkisfjármálastefnu, þar með talið útgjalda-og skattastefna, bein áhrif á verðlagið. Minni halli á ríkisrekstri ætti að leiða til lægra raunvaxtastigs sem ætti síðan að ýta undir meiri fjárfestingar. Þar með verða til auknar fjármagnstekjur, sem myndast við meiri fjárfestingu, sem er ein helsta uppspretta framleiðni vinnuafls. Þetta skapar svo grunninn að hærri raunlaunum og þannig má segja að minni fjárlagahalli sé óbein leið til að auka raunlaun og bæta lífskjör.
Eitt skýrasta dæmið um að tiltekt í ríkisfjármálum og trúverðug stefna hafi skilað vaxtalækkun var að finna í forsetatíð Bill Clintons, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.
Staðreyndin er sú að ef ríkissjóður er rekinn með halla, þá þarf hann að fjármagna þann halla með útgáfu nýrra skuldabréfa. Þannig eykst framboð ríkisskuldabréfa á markaði, sem aftur lækkar verð þeirra og leiðir til þess að vextir hækka. Eitt skýrasta dæmið um að tiltekt í ríkisfjármálum og trúverðug stefna hafi skilað vaxtalækkun var að finna í forsetatíð Bill Clintons, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.
„Minni fjárlagahalli skapar störf!”
„Minni fjárlagahalli býr til störf“! Þetta var eitt af því sem hagfræðingateymi Clintons, sem leitt var af fjármálaráðherra hans Robert Rubin, sögðu við hann þegar var verið að kljást við mikinn halla á fjárlögum.
Í heimi hagfræðinnar voru þeir Stephen Turnovsky og Marcus Miller (1984), ásamt Olivier Blanchard (1984), byrjaðir að þróa hagfræðikenningar sem færðu rök fyrir því hvernig trúverðugur samdráttur á væntum fjárlagahalla í framtíðinni gæti aukið heildareftirspurn í hagkerfi dagsins í dag.
Ef tiltrúin á skynsöm ríkisfjármál hverfur, þá getur það leitt til verðbólgu. Það nákvæmlega sama gerist ef markaðsaðilar hafa ekki trú á að arðgreiðslur verði góðar eða tekjur fyrirtækis á markaði, því þá lækka hlutabréfin í verði eða það verður bankaáhlaup.
Grunnhugmynd þeirra var sú að ef fjárfestar væru sannfærðir um að skuldir ríkisins yrðu lægri í framtíðinni, þá myndu langtímavextir í dag lækka og örva þannig núverandi eftirspurn. Líkön þeirra sýndu hins vegar ekki fram á að lækkun á núverandi fjárlagahalla yrði þensluhvetjandi þá stundina. Með öðrum orðum að margfeldi skatta væri neikvætt. Turnovsky-Miller-Blanchard-kenningin gaf samt fræðilega útskýringu á efnahagslegum uppgangi á Clinton-tímabilinu. Ríkissjóðurinn fór úr methalla í góðan afgang á örskömmum tíma.
Frumjöfnuður ríkissjóðsins fór úr því að vera í jafnvægi um 1990 í 6% afgang af vergri landsframleiðslu árið 2001. Á sama tíma fór skuldir ríkissjóðs úr því að vera um 50% af landsframleiðslu í 30%. Þessi miklu umskipti þýddu meðal annars að vaxtaálag lækkaði og á sama tíma var verðbólga lág. Eins og sá má á ofangreindri mynd, þá er sterk fylgni á milli afgangs á frumjöfnuði, lækkun ríkisskulda og lágrar verðbólgu.
Fjármálaráðherrann Rubin hefur iðulega fengið lof í lófa fyrir að hafa stýrt því að þessi leið yrði farin enda skildu fáir skuldabréfamarkaðinn eins vel og hann. Stjórnvöld settu fram trúverðuga áætlun í ríkisfjármálum og fjárfestar keyptu hana og því skiluðu aðhaldssöm ríkisfjármál lægra vaxtastigi!
Ríkisfjármálakenningin og mikilvægi væntinga
Grunnhugmyndin á bak við kenningu John Cochrane er að aðhald fjármála hins opinbera ákvarði verðlag í hagkerfinu. Ríkisfjármálakenningin hans snýst að auki um hvert virði ríkisskulda sé. Virði ríkisskuldabréfa annars vegar og almennra hlutabréfa og skuldabréfa hins vegar er metið að jöfnu. Á sama hátt og hlutabréf- eða skuldabréfaverð skila arði og/eða verðbótum á núvirði, þá jafngildir raunvirði ríkisskulda núvirtum afgangi ríkisfjármála. Ef tiltrúin á skynsöm ríkisfjármál hverfur, þá getur það leitt til verðbólgu. Það nákvæmlega sama gerist ef markaðsaðilar hafa ekki trú á að arðgreiðslur verði góðar eða tekjur fyrirtækis á markaði, því þá lækka hlutabréfin í verði eða það verður bankaáhlaup.
Að mati Cochrane á að vera hægt að ná tökum á verðbólgu með tiltölulega lítilli niðursveiflu hagkerfisins, ef almenningur hefur trú á því að aukið aðhald ríkisfjármála og peningastefnu verði framfylgt markvisst. Allt snýst þetta um væntingar almennings og markaðsaðila bæði er varðar vænt ríkisfjármál og peningastefnu.
Hvað með Ísland?
Verðbólga mældist 9,9% á ársgrundvelli í apríl. Verðbólga er of há. Þessi mæling var hærri en flestir markaðsaðilar gerðu ráð fyrir. Í kjölfarið hækkaði ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hratt en jafnaði sig þó þegar líða tók á daginn. Baráttan við verðbólguna er á vandasömum tímapunkti. Ljóst er að allar aðgerðir Seðlabanka Íslands og ríkisfjármálanna þurfa að miða að því að ná böndum á verðbólgunni áður en upphefst víxlverkun launa og verðlags.
Hægt er að ná tökum á verðbólgu með tiltölulega lítilli niðursveiflu hagkerfisins, ef almenningur hefur trú á því að aukið aðhald ríkisfjármála og peningastefnu verði framfylgt markvisst. Allt snýst þetta um væntingar almennings og markaðsaðila
Trúverðugleikinn er allt á þessum tímapunkti og má með sanni segja að núverandi ríkisstjórn hafi kappkostað við að minnka skuldir ríkissjóðs til að auka lánshæfi ríkissjóðs Íslands. Skuldir ríkissjóðs nema um 33% af landsframleiðslu og við lok ríkisfjármálaáætlunar er gert ráð fyrir að þær nemi um 30%.
Lokaorð
Í þessari grein hef ég lagt út með hagfræðikenningar sem eiga við Bandaríkin. Ljóst er að mikill munur er hagkerfum Íslands og Bandaríkjanna. Hins vegar eru það ákveðin lögmál hagfræðinnar sem eiga ávallt við. Sterk skuldastaða lækkar ávöxtunarkröfu á ríkisskuldabréf. Sjálfbær ríkisfjármál lækka verðbólgu.
Lítið hagkerfi þarf ávallt að hafa borð fyrir báru í efnahagsmálum. Skuldir þurfa að vera lágar, gjaldeyrisforði hár og viðskiptajöfnuðurinn þarf að skila afgangi. Náist þessi árangur á næstunni munu vextir lækka og staða heimila og fyrirtækja batna. Ísland hefur skapað ein bestu lífskjör sem völ eru á og hefur alla burði til að auka enn frekar jöfnuð og fjárfesta í velferðarkerfinu.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst á Innherji á visir.is 4. maí 2023.
HönnunarMars, uppskeruhátíð hönnunar og arkitektúrs, er einn af skemmtilegustu vorboðunum. Framsækin hönnun og nýjungar leiða saman sýnendur og gesti á hátíðinni sem stendur yfir dagana 3-7. maí. Á hátíðinni verða tækifæri til að upplifa, læra, njóta og tengjast en hátíðin hefur fest sig í sessi sem einn mikilvægasti kynningarvettvangur íslenskrar hönnunar og arkitektúrs. Til marks um það eru um 100 sýningar, 400 þátttakendur og 100 viðburðir á hátíðinni í ár sem endurspeglar þá miklu grósku sem á sér stað í hönnun og arkitektúr á Íslandi.
Þessi mikli fjölbreytileiki færir okkur einnig heim sanninn um það hvernig íslensk hönnun og arkitektúr eru mikilvægt breytingaafl og tæki til nýsköpunar sem nýst getur okkar samfélagi á fjölbreyttari hátt en marga órar fyrir. Þar hefur starfsfólk Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs, og ótal samstarfsaðilar þeirra, unnið þrekvirki við að þróa spennandi hátíð sem höfðar til víðs hóps og hefur sannarlega átt stóran hlut í því að koma íslenskri hönnun rækilega á kortið – svo eftir er tekið.
Á þessu kjörtímabili verða málefni hönnunar og arkitektúrs í öndvegi í menningar- og viðskiptaráðuneytinu í góðri samvinnu við hagaðila. Markmið þeirrar vinnu er skýrt; við ætlum að hrinda nýrri hönnunarstefnu fyrir Ísland í framkvæmd með aðgerðum sem skila árangri, fagmennsku og gæðum til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag. Hinni nýju stefnu er ætlað að virkja mannauð í hönnunargreinum til þess að leysa brýn verkefni samtímans, auka lífsgæði og stuðla að sjálfbærri verðmætasköpun.
Meðal lykilaðgerða eru að setja lög um hönnun og arkitektúr, efla Hönnunarsjóð, bæta aðgengi nýskapandi hönnunarverkefna að samkeppnissjóðum, endurskoða menningarstefnu í mannvirkjagerð og að tryggja þátttöku Íslands í Feneyjatvíæringnum í arkitektúr.
Strax í ár var Hönnunarsjóður efldur og nemur umfang sjóðsins nú 80 m.kr. Þessu fé er úthlutað úr sjóðnum til að stuðla að því að efla þekkingu, atvinnu- og verðmætasköpun og stuðla að auknum útflutningi á íslenskri hönnun með því að styrkja kynningar- og markaðsstarf erlendis.
Það eru stór efnahagsleg tækifæri fólgin í því að styðja skipulega við skapandi greinar líkt og hönnun og arkitektúr. Nægir þar að líta til Danmerkur þar sem umfang hönnunar, arkitektúrs og annarra skapandi greina hefur farið vaxandi í hagkerfinu undanfarin ár. Má þar til að mynda nefna að tískuvarningur er fjórða stærsta útflutningsstoð Danmerkur.
Það er ekki annað hægt en að fyllast stolti yfir sköpunarkrafti, fagmennsku og elju íslenska hönnunarsamfélagsins. Ég hef sterka sannfæringu fyrir því að efla íslenska hönnun og arkitektúr enn frekar, sem fag- og atvinnugrein, útflutningsgrein og mikilvæga aðferðafræði – sem mun á endanum leiða til aukinna lífsgæða fyrir samfélagið. Ég þakka aðstandendunum HönnunarMars fyrir þeirra metnaðarfulla starf og undirbúning og óska öllum gestum hönnunarsamfélagsins hér á landi gleðilegrar hátíðar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. maí 2023.
Íslenski dansflokkurinn fagnar því í ár að 50 ár eru liðin frá stofnun hans. Í hálfa öld hefur dansflokkurinn verið framsækinn nútímadansflokkur skipaður úrvalsdönsurum í hæsta gæðaflokki en um er að ræða listastofnun á sviði sviðslista í eigu íslensku þjóðarinnar. Hlutverk hans er að sýna dansverk, vera vettvangur fyrir framþróun og nýsköpun danslistar á Íslandi og glæða áhuga landsmanna á danslist. Dansflokkurinn hefur unnið með mörgum af fremstu danshöfundum veraldar auk þess að leggja rækt við íslenska danssköpun með því að setja á svið verk eftir íslenska danshöfunda. Verkefnaval hans er fjölbreytt og tryggt skal að á dagskrá hvers starfsárs séu íslensk dansverk. Dansflokkurinn ferðast víða um heim með verk sín og heldur fjölbreyttar sýningar á Íslandi og þá alla jafna í Borgarleikhúsinu sem hefur verið heimili flokksins síðan 1997. Ár árinu 2022 sýndi Íslenski dansflokkurinn 62 sýningar, þar af 18 erlendis í 10 sýningarferðum. Það er merkilegur árangur en dagskrá afmælisársins ber vel með sér þennan mikla þrótt sem býr í þessum hálfrar aldrar gamla dansflokki. Fjölbreytni ræður ríkjum í dagskrá ársins, sem tekur mið af afmælisárinu þar sem saga dansflokksins og dansins á Íslandi í fortíð, nútíð og framtíð er áberandi.
Dans sem listform gagnrýnir og hvetur, hneykslar og hrífur. Dansarinn tekst á við allar víddir mannlegrar tilvistar, dans er landamæralaust afl sem getur hreyft við öllum gerðum áhorfenda, ungum sem öldnum. Listræn fjölbreytni og náin tengsl við grasrótina eru mikilvægir þættir fyrir dansumhverfið á Íslandi, sem er í stöðugri mótun, og á síðustu árum hafa sýnileiki dansins og vinsældir hans aukist til muna. Enda hefur Íslenski dansflokkurinn kappkostað að eiga í nánu samstarfi við stofnanir, félög og aðra sem sinna danslist með listrænan ávinning og fjölbreytni að markmiði og lagt sín lóð á vogarskálarnar með því að stuðla að listuppeldi og fræðslustarfi í samvinnu við menntastofnanir og gera nemendum og almenningi kleift að kynna sér starfsemi dansflokksins.
Á undanförnum árum hafa verið stigin mikilvæg skref til þess að efla umgjörð sviðslista á Íslandi. Árið 2019 voru fyrstu heildarlögin um sviðslistir sett hér á landi sem hafa það að markmiði búa leiklist, danslist, óperuflutningi, brúðuleik og skyldri liststarfsemi hagstæð skilyrði. Á þeim grunni var meðal annars sviðslistaráð sett á laggirnar og tók ný Sviðslistamiðstöð formlega til starfa – en sambærilegar miðstöðvar hafa lengi verið starfræktar fyrir aðrar listgreinar. Með Sviðslistamiðstöð skapast fleiri sóknarfæri fyrir sviðslistafólk innanlands sem utan, meðal annars með stuðningi í formi ráðgjafar, tengslamyndunar, kynningar, miðlunar og útflutnings. Samhliða þessu hafa fleiri hópum verið tryggðir kjarasamningar og vinna við þarfagreiningu vegna óperustarfsemi í landinu sem hefur miðað vel áfram með það að markmiði að setja á laggirnar þjóðaróperu. Samspil ólíkra sviðlistagreina skiptir máli, en þegar á fjalirnar er komið haldast gjarnan í hendur dans, tónlist, leikur og fleira. Allt ofantalið eru atriði sem skipta máli í öflugu menningarlífi þjóðarinnar.
Það er ekki sjálfsagt að eiga jafn framúrstefnulegan dansflokk og við eigum hér á landi en hann hefur getið sér gott orð víða um heim undir styrkri handleiðslu Ernu Ómarsdóttur listdansstjóra og hennar teymi. Ég er stolt af þeirri frumsköpun og framleiðslu á menningu sem okkar frábæra listadansfólk drífur áfram. Stjórnvöld munu halda áfram að skapa menningu í landinu góð skilyrði og styðja þannig við fjalir fullar af lífi. Ég óska Íslenska dansflokknum, starfsfólki hans og unnendum til hamingju með 50 ára afmælið og hvet fólk til þess að kynna sér þá metnaðarfullu dagskrá sem hann hefur upp á að bjóða.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. apríl 2023.
This website uses cookies to improve your experience while you navigate through the website. Out of these cookies, the cookies that are categorized as necessary are stored on your browser as they are essential for the working of basic functionalities of the website. We also use third-party cookies that help us analyze and understand how you use this website. These cookies will be stored in your browser only with your consent. You also have the option to opt-out of these cookies. But opting out of some of these cookies may have an effect on your browsing experience.
Necessary cookies are absolutely essential for the website to function properly. This category only includes cookies that ensures basic functionalities and security features of the website. These cookies do not store any personal information.
Any cookies that may not be particularly necessary for the website to function and is used specifically to collect user personal data via analytics, ads, other embedded contents are termed as non-necessary cookies. It is mandatory to procure user consent prior to running these cookies on your website.